• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2010 í máli nr. E-1174/2008:

Katrín Gústafsdóttir

Þorsteinn Páll Gústafsson

Þengill Oddsson

Guðmundur Gústafsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Andri Árnason hrl.)

 

            Mál þetta höfðuðu Katrín Gústafsdóttir, Þorsteinn Páll Gústafsson, Guðmundur Gústafsson, Þengill Oddsson og Veiðiklúbburinn Strengur ehf. með stefnu birtri 17. janúar 2008 á hendur íslenska ríkinu.  Málið var fyrst dómtekið að lokinni aðalmeðferð 15. janúar 2009.  Málið var endurupptekið 18. mars 2010 og á ný 16. júní sl.  Fór þá enn fram endurflutningur og var málið dómtekið. 

            Stefnendur krefjast þess aðallega að felldur verði úr gildi úrskurõur óbyggða­nefndar frá 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, þess efnis að hluti jarðarinnar Áslaugarstaða í Vopnafjarðarhreppi sé þjóðlenda, þ.e. þessi hluti úrskurðarorðs: 

            Landsvæði utan landamerkja jarðarinnar Áslaugarstaða, þ. á m. á vestanverðum Syðra-Hágangi, svo sem það er afmarkað hér á eftir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: 

            Farið er úr punkti á Syðri-Hágangi sem er þar sem syðri kröfulína vegna Áslaugarstaða (sem er jafnframt nyrðri kröfulína vegna Leifsstaða) mætir línu sem dregin er úr vörðu sem stendur á hól við Kistufellslæk í Hölknárdrög við nyrsta Hágangshorn og með þeirri línu til norðurs í þann punkt þar sem nyrðri kröfulína Áslaugarstaða (og jafnframt syðri kröfulína vegna Hróaldsstaða I) mætir sömu línu. Þaðan er kröfulínu Áslaugarstaða (og Hróaldsstaða I) fylgt austur að vatnaskilum og síðan vatnaskilum í suðurátt í þann punkt sem hér að framan var fyrst nefndur. 

            Sama landsvæði er í afréttareign Áslaugarstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr.

            Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra eignarheimilda Áslaugarstaða.  Þar með krefjast þeir þess að allt land Áslaugarstaða sé eignarland í samræmi við kröfulýsingu til óbyggðanefndar sem er í samræmi við kort sem sýnir landamerkjapunkta Áslaugarstaða og landamerkjabréf jarðarinnar þingl. 24. júní 1884 þ.e. „úr holbakka sem kallaður er (p.1) og beint uppí Sandhóla (p.2) og þaðan beint í læk utan undir mel sunnan til í Sandklofa (p.3), og þaðan beint í vörðu á há Upsabrún (p.4).  Að utan Skarðsá (p.9) upp í Skarðsárkrók (p.8), þaðan beint í stóra vörðu og stefnu á Upsarhorn (p.7), að norðan sem vötnum hallar (p.5 og p.6). 

            Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnenda.  Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu, en til vara að málskostnaður falli niður. 

 

            Óbyggðanefnd starfar samkvæmt lögum nr. 58/1998.  Í samræmi við fyrirmæli 7. gr. laganna tók hún til athugunar mörk jarða í Vopnafirði, m.a. jarðarinnar Áslaugarstaða, sem um er fjallað í þessu máli.  Var úrskurður kveðinn upp 29. maí 2007. 

            Meginniðurstaða nefndarinnar varðandi Áslaugarstaði felst í þessum orðum: 

            Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu íslenska ríkisins að land innan tilgreindra landamerkja Áslaugarstaða sé þjóðlenda. Á hinn bóginn hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu gagnaðila að merki jarðarinnar nái svo langt til norðvesturs sem gerð er krafa til. Ræðst því afmörkun að því leyti af vatnaskilum, líkt og að framan er rakið. Ekki hefur verið sýnt fram á að utan merkja jarðarinnar Áslaugarstaða, en innan kröfusvæðis eigenda hennar í máli þessu, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að vestan umræddrar vatnaskilalínu sé þjóðlenda en austan hennar eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998. 

            Féllst nefndin á að allt land innan merkja væri eignarland.  Ágreiningur málsins snýst hins vegar einkum um það hvar vatnaskil séu á þessu svæði.  Nefndin fól Orkustofnun að mæla og teikna vatnaskil inn á kort og miðar hún niðurstöðu sína við þá mælingu.  Stefnendur kveðast telja að raunveruleg vatnaskil séu ofar (vestar). 

            Stefndi hefur ekki fyrir sitt leyti höfðað mál til ógildingar á einhverjum niður­stöðum í úrskurði nefndarinnar. 

            Fyrir óbyggðanefnd var lögð greinargerð Hjörleifs Guttormssonar, náttúru­fræðings, um staðhætti og náttúrufar í Vopnafjarðarhreppi.  Greinargerðin er dagsett í maí 2006.  Þar segir um jarðveg og gróðurfar að Vopnafjörður sé að yfirbragði grænn yfir að líta, jarðvegur sé víðast hvar órofinn í byggð, mikið mýrlendi sem ekki hafi verið ræst fram.  Rof sé hins vegar mikið til fjalla.  Þar sem meðalhiti sé tiltölulega lágur liggi mörk samfellds gróðurs lægra hér en sunnar.  Þetta sé þó lítt rannsakað.  Í greinargerðinni er vitnað til uppdráttar Eyþórs Einarssonar og Einars Gíslasonar, Hugmynd um gróðurlendi á Íslandi við landnám.  Þar sé sýndur skógur og kjarr inn eftir öllum Vopnafjarðardölum og um alla hálsa milli dala.  Hjörleifur segir að heimildir séu hins vegar takmarkaðar um skóga í Vopnafirði fyrr á öldum.  Sé svo að sjá sem þeir hafi eyðst þar til muna fyrr en á Héraði.  Kunni öflug sauðfjárrækt og útbeit fyrrum og fremur lágur meðalhiti að valda því. 

            Heimildir um jarðir í Vopnafirði eru raktar ítarlega í úrskurði óbyggðanefndar.  Er reifuð frásögn Landnámabókar af landnámi á svæðinu.  Hróaldur bjóla, fóstbróðir Eyvindar vopna nam eins og segir land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness.  Jörðin Áslaugarstaðir er ekki nefnd í Vopnfirðinga sögu, sem er talin rituð á öðrum fjórðungi 13. aldar.  Þá er tekin upp stutt lýsing úr bókinni Sveit og jarðir í Múlaþingi.  Þar segir að land jarðarinnar nái „frá Selá og nv. á Syðri Hágang.“ 

            Meðal gagna er kaup- og landamerkjabréf fyrir Hróaldstöðum, sem er næsti bær norð austan við Áslaugarstaði.  Þar er lýst landamerkjum:  fram j skarszáá og vt j huamsáá vp j vps og ofan j seláá med tueimur veidivotnum.

            Þá er sagt frá vitnisburði Ingveldar Jónsdóttur um jörðina, sem er frá árinu 1596.  Hún segir þar að hún hafi búið þar í þrjú ár með eiginmanni sínum, Pétri Oddssyni, sem hafi átt jörðina.  Vitnisburður þessi virðist fyrst og fremst fjalla um merki jarðarinnar gagnvart Hróaldsstöðum. 

            Lagt hefur verið fram byggingarbréf fyrir Hámundarstöðum með Hvamms­gerði frá 1669.  Bréf þetta kann að skipta máli hér þar sem í reynd er deilt um sömu línu í sams konar máli sem rekið er vegna Hvammsgerðis, svo sem nánar verður lýst síðar.  Þar er jörðin byggð ... upp á háfjöll sem vötn deila.  

            Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til skoðunar, útvísunar- og skuld­setningargerõar yfir tvö mátuleg og í meðallagi góð nýbýli í svokölluðum Almenningi í Selárdal frá 1829.  Þar sé lýst mörkum Almennings og Áslaugarstaða: 

            Ad utanverdu er Almenníngur adskilin frá Áslaugarstada Landi – þeim fremsta ádrverandi bæ í Selárdal ad nordanverdu Árinnar – vid Þverá, er Ytri Almenningsá nefnist, er fellur nær því beint af brúnum ofan í Selá. 

            Á Manntalsþingi sem háð var í Vopnafirði 24. júní 1884 var færð inn í landa­merkjabók Norður-Múlasýslu lýsing á landamerkjum milli Áslaugarstaða og Leifsstaða.  Merkjum er lýst svo:  „Úr Holbakka sem kallaður er, og beint upp í Sandhóla og þaðan beint í læk utan undir mel sunnan til í Sandklofa og þaðan beint í vörðu á há Upsarbrún.  Að utan Skarðsá upp í Skarðsárkrók, þaðan beint í stóru vörðu og stefnu í Upsarhorn, að norðan þar sem vötnum hallar.“ 

            Í jarðamati 1804 segir um Áslaugarstaði að þar fáist 1 tunna af fjallagrösum og síðan orðrétt:  Her er ikke Nedsættelse for Beder nödvendig da Udegangen er temmelig god.  Þýðing á þessari klausu hefur ekki verið lögð fram, en hér er sennilega vísað til þess að góðir hagar séu fyrir sauði. 

            Í lýsingu Áslaugarstaða í fasteignamati 1916-1918 segir að jörðinni fylgi upp­rekstrarland fyrir fé ábúanda. 

            Loks er í fasteignamati 1930-1932 lýsing á jörðinni.  Þar segir um beitiland að það sé í fjallendi, gott beitiland fyrir allar skepnur, víðlent, en að smalamennska sé erfið.  Þá segir að jörðinni fylgi gott og mikið afréttarland. 

 

            Málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnendur telja að raunverulega séu vatnaskil ofar og vestar en sýnt er á korti Orkustofnunar, sem óbyggðanefnd miðar við í úrskurði sínum.  Stefnendur eru öll þinglýstir eigendur jarðarinnar. 

            Stefnendur telja að lýsing Landnámu sem að framan er rakin sýni að allt land í Vopnafirði hafi verið numið.  Landnáma hafi einatt verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarétt og vísa stefnendur hér til dómafordæma og niðurstaðna í fyrri úrskurðum óbyggðanefndar. 

            Stefnendur kveðast taka Landnámu sem réttarheimild með ákveðnum fyrirvara.  Hins vegar mótmælir hann því sjónarmiði ríkisins að heiðar og fjöll hafi ekki verið numin.  Á það hafi óbyggðanefnd heldur ekki fallist, þó með undan­tekningu, sem stefnendur segja furðulega.  Engin rök standi til þess að skilja þrætu­svæðið í þessu máli undan öðru eignarlandi í sveitarfélaginu.  Sú niðurstaða byggist á óljósum gögnum og fari í bága við þinglýst landamerkjabréf, gróðurfar og eðlilega túlkun á merkjum samkvæmt vatnaskilum. 

            Stefnendur vísa til friðhelgi eignarréttar samkvæmt 72. stjórnarskrár og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.  Kveðst hann styðja mál sitt við landamerkjabréf jarðarinnar frá 7. júní 1884.  Því hafi verið þinglýst 11. júní 1886 og fært í landamerkjabók án athugasemda. 

            Þá sé það meginregla að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland.  Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.  Telja stefnendur að land jarðarinnar hafi allt frá landnámi verið háð beinum eignarrétti.  Landnámsheimildir fari ekki í bága við landamerkjabréfið.  Þá benda stefnandur á að vitað sé að við landnám hafi landið verið gróið. 

            Með setningu landamerkjalaga nr. 5/1882 og síðan laga nr. 41/1919 hafi fram­kvæmdavaldinu verið ætlað að hafa frumkvæði að því að gengið yrði frá landa­merkjum jarða.  Því bendi landamerkjabréf Hvammsgerðis til þess að landssvæðið sé allt háð beinum eignarrétti.  Landamerkjabréfið sé byggt á eldri heimildum svo sem byggingarbréfi frá 1663 og landamerkjabréfum nærliggjandi jarða.  Telja stefnendur að eldri heimildir séu ekki ósamrýmanlegar landamerkjabréfi jarðarinnar.  (H 48/2004)

            Stefnendur segja að ekkert bendi til annars en að allt land innan merkja jarðarinnar hafi verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. 

            Stefnendur byggja á 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.  Sáttmálinn hafi lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994.  Hann veiti eignar­réttinum sjálfstæða vernd samhliða stjórnarskrárverndinni.  Hér vísar stefnendur einkum til þess sem kallað er réttmætar væntingar aðila til eignarréttar, sem byggi m.a. á því að ríkisvaldið hafi með athöfnum og athafnaleysi viðurkennt þennan rétt, t.d. með því að þinglýsa skjölum athugasemdalaust. 

            Stefnendur vísa til jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga.  Sambærileg mál eigi að hljóta sömu niðurstöðu.  Ekki sé hægt að gera strangari sönnunarkröfur á hendur sér en öðrum. 

            Stefnendur kveðast einnig byggja á hefð og venjurétti.  Allir hafi litið svo á um ómunatíð að allt land Hvammsgerðis sé eignarland.  Enginn hafi haldið öðru fram fyrr en nú að ríkið fullyrði annað við meðferð þjóðlendumála.  Óumdeilt sé að landið hafi verið numið í öndverðu.  Með því að lög um hefð heimili eignarhefð lands í opinberri eigu, hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé háð eignarrétti.  Um þetta atriði vísa stefnendur til tveggja dóma, H 1997 2792 og H 1939 28, svo og dóms Mannréttindadómstólsins frá 9. desember 1994. 

            Stefnendur kveðast ekki geta sýnt fram á óslitna yfirfærslu eignarréttinda frá landnámi og til dagsins í dag.  Hann telur hins vegar að stefndi eigi að bera hallann af þessum vafa.  Sé rétt að ríkið beri sönnunarbyrði fyrir því að landið sé þjóðlenda. 

            Stefnendur benda á að gögn óbyggðanefndar sýni að landsvæði þetta hafi verið mun grónara við landnám.  Sé talið að það hafi verið vel gróið upp í 6 – 700 metra hæð yfir sjó.  Staðhættir, víðátta og gróðurfar nú geti ekki ráðið úrslitum.  Þá telja stefnendur að venjur um fjallskil geti ekki ráðið úrslitum. 

            Stefnendur segja að ekki sé ágreiningur við aðliggjandi jarðir um merki.  Því mótmæli hann því að óbyggðanefnd hafi tekið upp hjá sjálfri sér að draga merki jarðarinnar upp með öðrum hætti en landeigendur séu sammála um.

            Loks mótmæli stefnendur nokkrum atriðum í úrskurði óbyggðanefndar sérstaklega.  Hann mótmælir því að krafa sín um eignarland hafi farið út fyrir þinglýst landamerki.  Ljóst sé af gögnum, m.a. landamerkjabréfi fyrir Hróaldsstaði, að merki séu við Hvammsárvatn, er liggi á vatnaskilum á þessu svæði.  Nefndin hafi ekki farið á vettvang og því sé ósannað að merkin séu ranglega dregin inn á kort. 

            Stefnendur kveðast lýsa merkjum til ystu ummerkja við aðrar jarðir, enda engin rök til þess að á vatnaskilum sé lítill blettur sem enginn eigi.  Benda stefnendur hér á afstöðu nefndarinnar í úrskurði um svæði við Smjörfjöll.  Ekki geti annað átt að gilda þar en á svæði stefnanda. 

            Stefnendur benda á að enginn almenningsafréttur sé á þessum slóðum og hafi enginn nema eigandi landsins getað nýtt það.  Það sé rökleysa að telja svæðið utan landamerkja, en samt sem áður afréttareign jarðarinnar. 

            Loks byggja stefnendur á því að ekki sé fullnægjandi rökstuðningur í úrskurði nefndarinnar.  Sé hann í andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58/1998.

            Auk þeirra lagaákvæða sem lýst er að framan vitna stefnendur til þessara ákvæða og lagareglna: 

            Meginreglna eignaréttar um venjurétt og óslitin not og  almennra reglna samninga- og kröfuréttar

            Laga um skráningu og mat fasteigna nr.94/1976. 

            Rannsóknar-, jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

            Þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 25. gr.-27. gr.

            Laga um afréttarmál og fjallskil nr. 6/1986. 

            Mannréttindasáttmála Evrópu einkum 2. 6. og 14. gr. 

            Námulaga nr. 24/1973 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

            Meginreglna um traustfang og traustnám og almennra reglna íslensks réttar um tómlæti. 

 

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Af hálfu stefnda er á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum, að land­svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint.  Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess. 

            Stefndi segir að óbyggðanefnd hafi byggt úrskurð sinn á miklum rannsóknum og umfangsmikilli gagnaöflun.  Vill hann gera niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings kröfu sinni um sýknu.

            Stefndi segir að landamerkjabréfi fyrir jörðina hafi verið þinglýst 24. júní 1884.  Þar sé lýst merkjum að norðan, m.a. gagnvart Hróaldsstöðum, og þau sögð vera í Skarðsá upp í Skarðsárkrók, þaðan beint í stóruvörðu og stefnu í Upsahorn, að norðan þar sem vötnum halli.  Stefndi kveðst sammála ályktun óbyggðanefndar, sbr. bls. 149 í úrskurði nefndarinnar, að norðvesturmerki jarðarinnar miðist við vatnaskil, þ.e.a.s. liggi úr Þverfelli og yfir Syðri-Hágang.  Eldri heimildir styðji þessa niður­stöðu. 

            Stefndi segir að fjallaröðin Ytri-Hágangur (923 m), Þverfell (650 m) og Syðri-Hágangur (952 m) myndi skýr landfræðileg mörk og vatnaskil vestur af Selárdal og heiðarlöndum ofan hans.  Telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að merki jarðarinnar nái jafnlangt til norðvesturs og gerð sé krafa um.  Ekkert hafi komið fram í málinu sem geti hnekkt lýsingu jarðarinnar í landamerkjabréfi eða rýrt sönnunargildi þess. 

            Stefndi segir að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands land hafi verið numið á þessu svæði.  Kveðst stefndi telja ólíklegt að land á hinu umdeilda svæði hafi verið numið í öndverðu.  Styður hann þetta við staðhætti og fjarlægðir.  Þar sem engar heimildir fyrirfinnist um nám verði það talið ósannað.  Sönnunarbyrði um stofnun eignarréttar hvíli á þeim sem haldi henni fram. 

            Verði talið að land hafi verið numið í öndverðu, hafi það einungis verið til tak­markaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Vísar hann hér til fordæma í dómum Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 og 27/2007. 

            Verði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að svæðið kunni að hafa verið numið að hluta eða öllu leyti, kveðst stefndi byggja á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður, en svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Þó að talið yrði að til beins eignaréttar hafi stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar. 

            Stefndi segir að engar heimildir séu um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.  Stefndi kveðst telja það styðja þá fullyrðingu að til beins eignarréttar hafi ekki stofnast, að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags og landið hafi ekki verið afgirt.  Þangað hafi búfénaður frá öðrum getað leitað hindrunarlaust. 

            Stefndi mótmælir því að skilyrði eignarhefðar séu uppfyllt.  Vísar hann hér til þess er áður segir um nýtingu, staðhætti og eldri heimildir.  Hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beins eignarréttar yfir landi.  Vísar hann hér til fordæma í dómum Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 og 48/2004. 

            Stefndi mótmælir sjónarmiðum stefnanda um réttmætar væntingar.  Þær geti ekki grundvallað tilkall til eignarréttar á svæðinu.  Telur hann að löggjafinn einn sé bær til að ráðstafa réttindum utan eignarlanda.  Aðgerðir stjórnsýslunnar geti ekki stofnað til yfirráða. 

            Ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar um jörðina sé röng.  Umrætt svæði sé að mestu leyti slíkt sem skilgreint sé í 1. gr. laga nr. 58/1998 sem svæði sem að staðaldri hafi verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. 

            Stefndi vísar að lokum til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga nr. 58/1998.  Þá er vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Hann byggir á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignar­eigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar, til hefðarlaga, nr. 14/1905 og til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986.  Loks vísar hann án nánari tilgreiningar til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar. 

 

            Niðurstaða dómsins

            Landsvæði það sem um er deilt í þessu máli er hluti af svæði sem óbyggða­nefnd taldi að væri ekki eignarland, heldur þjóðlenda í afréttareign viðkomandi jarða.  Var mál vegna jarðanna Hróaldsstaða I og II rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands, en dómari þessa máls hefur einnig til meðferðar mál vegna jarðarinnar Hvammsgerðis, sem er norð-austan við Hróaldsstaði.  Svæðinu er lýst nægilega í kröfugerð aðila og framangreindri niðurstöðu óbyggðanefndar, en aðilar deila ekki um staðhætti eða afmörkun svæðisins. 

            Eins og áður segir unir stefndi niðurstöðu óbyggðanefndar.  Því er ekki annað til úrlausnar en sú krafa stefnenda að umrætt svæði sem nefndin viðurkenndi að væri í afréttareign þeirra, sé háð beinum eignarrétti þeirra. 

            Ekki var gengið á vettvang.  Dómurinn taldi, eftir að málið var dómtekið í fyrsta sinn, að nauðsynlegt væri að ganga á vettvang til að öðlast glögga mynd af svæðinu.  Vettvangsganga reyndist útilokuð.  Var látið við það sitja að lagðar yrðu fram myndir af svæðinu. 

            Af dómum Hæstaréttar í þjóðlendumálum verður lesin sú almenna regla að þeir sem kalli til beins eignarréttar á landi beri sönnunarbyrðina fyrir þeim kröfum.  Í þessu máli verður því að leggja sönnunarbyrði á stefnendur um það að þeir eigi frekari réttindi á umræddu svæði en óbyggðanefnd hefur viðurkennt. 

            Merki á deilusvæðinu eru ekki dregin gagnvart annarri jörð, heldur gagnvart svæði sem nú yrði talið þjóðlenda samkvæmt lögum nr. 58/1998.  Landamerkjabréf jarðarinnar frá 1884 gefur ekki aðra vísbendingu um ágreiningsefni málsins, en að draga mörkin eins og segir:  að norðan þar sem vötnum hallar.  Þessi orð og lýsingin í heild bendir fremur í þá átt sem óbyggðanefnd taldi, þ.e. að mörk eignarlands að norðan séu dregin við vatnaskil.  Í öðrum þeim skjölum sem rakin voru hér að framan kemur ekkert fram sem stutt gæti frekari kröfu stefnanda.  Skírskotun til vatnaskila kemur fram þegar í elstu heimildinni, byggingarbréfi fyrir Hámundarstöðum með Hvammsgerði frá 1669.  Þannig er ekki hald í þeirri málsástæðu stefnenda að landa­merkjabréf jarðarinnar styðji kröfur þeirra.  Þeir hafa enda ekki sýnt fram á nýtingu umrædds svæðis, en þær ályktanir vísindamanna að landið hafi verið grónara við landnám heldur en nú er, þykja ekki geta stutt kröfur stefnenda án frekari vísbendinga. 

            Í gögnum málsins kemur fram að jörðin sé erfið yfirferðar og ekki verður fram hjá því litið að svæðið sem deilt er um liggur hátt.  Ekki er unnt að gera ráð fyrir veigamiklum nytjum á svæðinu, hvorki nú né fyrr á tímum.  Hefur því ekki verið færð fram sönnun þess að til eignarréttar yfir umræddu svæði hafi á sínum tíma verið stofnað með námi, eða hann unnist síðar með hefð.  Er nærtæk sú niðurstaða óbyggða­nefndar að svæðið hafi verið nýtt til sumarbeitar fyrir sauðfé, en ekki til annars.  Af því leiðir í samræmi við dómvenju að viðurkennt er að landeigendur eigi svæðið sem afréttareign, eins og óbyggðanefnd telur, með þeim afmörkuðu heimildum sem í því felast að lögum.  Verður í samræmi við allan málatilbúnað og þau sönnunargögn sem fyrir liggja að telja að mörk eignarlands Áslaugarstaða séu við vatnaskil. 

            Að frumkvæði óbyggðanefndar voru vatnaskil mæld og færð á kort.  Taldi nefndin mörk eignarlands jarðarinnar við vatnaskilin að því leyti sem fjallað er um hér.  Stefnendur hafa ekki sannað eða gert sennilegt að vatnaskilin séu annars staðar en óbyggðanefnd miðar við.  Heimildir um heiti og örnefni á svæðinu virðast vera takmörkuð, sem á sinn hátt styrkir niðurstöður nefndarinnar.  Stefnendur hafa ekki sýnt fram á hvað stutt gæti væntingar þeirra til að eiga beinan eignarrétt að svæðinu. 

            Stefnendur vísuðu til þess að í landamerkjabréfi fyrir Hróaldsstaði, sem er næsta jörð norð austan við Áslaugarstaði, séu mörk til landsins dregin við Hvammsár­vatn, sem liggi á vatnaskilum.  Skjal þetta varðar aðra jörð, en í niðurstöðum óbyggða­nefndar er sama línan dregin sem markalína jarðanna til norðurs.  Í dómi Héraðsdóms Austurlands um Hróaldsstaði er ekki fallist á að þessi lýsing í bréfinu hafi þýðingu.  Er enda óvíst hvaða vatn það er sem ber þetta nafn.  Þar sem frekari gögn hafa ekki verið færð fram getur þetta ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. 

            Stefnendur hafa ekki sannað að með niðurstöðu óbyggðanefndar og kröfugerð stefnda hér fyrir dómi sé verið að svipta þá rétti sem þeir áttu.  Tilvísanir til stjórnar­skrár og mannréttindasáttmála stoða því ekki.  Þá er ekki sýnt fram á að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé brotin á þeim með misjöfnum niðurstöðum í sambærilegum deilumálum.  Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið hafa stefnendur ekki á nokkurn hátt hnekkt niðurstöðum óbyggðanefndar.  Eru þær enda ítarlega rökstuddar og verður úrskurðurinn ekki ómerktur vegna þess að hann uppfylli ekki kröfur stjórn­sýslulaga.  Verður því að sýkna stefnda, íslenska ríkið af kröfum stefnenda. 

            Í framkvæmd hefur ríkinu ekki verið dæmdur málskostnaður úr hendi land­eigenda í málum vegna úrskurða óbyggðanefndar.  Ekki er ástæða til að víkja frá þeirri venju í þessu máli.  Verður málskostnaður því felldur niður.  Gjafsóknar­kostnaður stefnenda er ákveðinn með virðisaukaskatti samtals 1.150.000 krónur. 

            Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Að framan er því lýst að meðferð málsins hefur dregist, nú síðast vegna anna dómara og veikindaforfalla. 

 

D ó m s o r ð

 

            Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnenda, Katrínar Gústafsdóttur, Þorsteins Páls Gústafssonar, Guðmundar Gústafssonar, Þengils Oddssonar og Veiðiklúbbsins Strengs ehf. 

            Málskostnaður fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnenda, samtals 1.150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.