• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2007 í máli nr. E-519/2007:

Íslenska ríkið

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Landgræðslusjóði og

Ingibjörgu Magnúsdóttur

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 16. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af  fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins á hendur Landgræðslusjóði, Skúlatúni 6, Reykjavík, og Ingibjörgu Magnúsdóttur, Skipasundi 67, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 21. desember 2006.

 

            Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur á hendur stefndu:

 

1.  Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2004, Kjós, frá 31. maí 2006, að því leyti er varðar höfnun óbyggðanefndar á þjóðlendukröfu stefnanda á landsvæði fyrir ofan Ingunnarstaði og Hrísakot í Kjósarhreppi.

 

2.  Að eftirfarandi lína verði viðurkennd sem mörk þjóðlendu á landsvæði í Kjósarhreppi, fyrir ofan Ingunnarstaði og Hrísakot, í samræmi við uppdrátt:

           

            Frá þeim punkti þar sem þjóðlendulína samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2000 kemur að sýslumörkum á há-Kili (punktur A), þaðan í punkt í efstu upptökum Þverár, á mörkum jarðanna Ingunnarstaða og Þrándarstaða (punktur B) og þaðan í beina línu þar til hún sker mörk Ingunnarstaða/Hrísakots og Stóra-Botns í 500 m hæð (punktur C).

            Stefnandi krefst að auki málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

 

            Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

 

 

            Málsatvik

            Tildrög málsins eru þau að með bréfi, dagsettu 27. október 2003, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til meðferðar landsvæði sem tekur yfir sveitarfélög í Gullbringu- og Kjósarsýslum, auk þess hluta Árnessýslu sem óbyggðanefnd hafði ekki þegar tekið afstöðu til, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 (svæði 4). Afmarkaðist svæðið nánar tiltekið til norðurs af mörkum Kjósarhrepps og Hvalfjarðarstrandarhrepps, sem fylgja suðurmörkum jarðarinnar Stóra-Botns í Hvalfjarðarstrandarhreppi, en þau byrja við Botnsvog og enda í Háu-Súlu, og þegar austar dregur af suðurmörkum þeirra jarða sem óbyggðanefnd tók afstöðu til í málum vegna uppsveita Árnessýslu. Að austan afmarkast svæðið af Þjórsá, en að sunnan og vestan af hafi, allt norður að fyrrgreindum suðurmörkum Stóra-Botns í Hvalfjarðarstrandarhreppi.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra á svæðinu bárust hinn 20. febrúar 2004. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð á framangreindu svæði og útdrátt úr kröfum ríkisins, ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 3. mars 2004, Fréttablaðinu 4. mars og Morgunblaðinu 7. mars, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 3. júní 2004. Kröfur gagnaðila ríkisins bárust óbyggðanefnd í júní 2004. 

Fyrir óbyggðanefnd gerði íslenska ríkið m.a. þá kröfu að „hálendið upp af jörðunum Ingunnarstöðum og Þrándarstöðum“ verði viðurkennt sem þjóðlenda, svo afmarkað: „Línan byrjar í framhaldi af þar sem þjóðlendulína á svæði 1 kemur að sýslumörkum á Kili (A), þaðan fylgir línan mörkum milli Hækingsstaða og Ingunnarstaða/Hrísakots að hornmarki við Þrándarstaði (B), þaðan er bein lína þar til hún sker mörk Ingunnarstaða/Hrísakots og Stóra-Botns í 500 m hæð (C).“ Á móti gerðu eigendur Ingunnarstaða og Hrísakots kröfu um beinan eignarrétt að því landsvæði sem þeir telja að falli innan merkja jarðarinnar og er þeim kröfum nánar lýst í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 4/2004, kafla 3.2. 

Í máli þessu er vikið frá kröfugerð ríkisins á svæðinu eins og hún var fyrir óbyggðanefnd, hvað varðar þjóðlendukröfu á svæðinu fyrir ofan jörðina Þrándarstaði. Miðast punktur B í kröfugerð nú við efstu upptök Þverár, á mörkum jarðanna Ingunnarstaða og Þrándarstaða.

Hinn 31. maí 2006 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð í máli nr. 4/2004, um Kjósina, þar sem að komist var að þeirri niðurstöðu að engar þjóðlendur væru á viðkomandi kröfusvæði. Var talið að svæðið sem hér er deilt um væri eignarland, m.a. með vísan til landamerkjalýsingar, nýtingar landsins, staðhátta og gróðurfars. Ekki þóttu forsendar til þess að leggja að jöfnu land Þingvallakirkju, sem úrskurðuð var þjóðlenda og liggur að umræddu svæði, og það svæði sem stefnandi gerði kröfu til.

            Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar birtist í Lögbirtingablaðinu 28. júní 2006 og er því mál þetta höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58/1998 til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla. Leitast stefnandi eftir með málsókn þessari að fá hnekkt fyrrgreindri niðurstöðu óbyggðanefndar.

 

            Aðild

            Íslenska ríkið er stefnandi þessa máls. Er fjármálaráðherra í fyrirsvari fyrir stefnanda samkvæmt 11. gr. laga nr. 58/1998.

             Aðild stefndu tekur mið af því, að þjóðlendulína samkvæmt kröfugerð stefnanda fyrir óbyggðanefnd liggur yfir land sem samkvæmt landamerkjalýsingu, sem nánari grein er gerð fyrir í úrskurði óbyggðanefndar, telst innan landamerkja Ingunnarstaða og Hrísakots í Kjósarhreppi. Er þinglýstum eigendum stefnt í málinu, en Ingunnarstaðir og Hrísakot eru í sameign stefndu. Ingibjörg Magnúsdóttir, eigandi 1/4 hluta Ingunnarstaða og Hrísakots, situr í óskiptu búi eftir látinn eiginmann sinn, Alexíus Lúthersson.

 

            Um sögu jarðanna og afréttarnot

            Jarðirnar Ingunnarstaðir og Hrísakot í Kjós eru  í innanverðum Brynjudal og nær land þeirra að norðan að Stóra-Botni, að austan að Þingvallakirkjulandi (sýslumörkum Árnessýslu) og að sunnan að Þrándarstöðum. Brynjudalur hefur verið byggður allt frá landnámi en bær landnámsmannsins í Brynjudal, Refs hins gamla, stóð í Múla, en sá bær var í byggð fram til 1600. Jörðin Hrísakot hefur á seinni árum heyrt undir Ingunnarstaði, sem er frá fornu fari stærsta jörðin í dalnum og var kirkjustaður fram til 1800. Jarðirnar hafa átt sameiginlegt óskipt land um langan aldur.

            Í úrskurði óbyggðanefndar er rakin saga jarðanna og afréttarnota og vikið fyrst að landnámi samkvæmt landnámabók. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson en hann nam land „milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út.“ Í máldaga kirkjunnar á Ingunnarstöðum sem talinn er frá því um 1180 segir að kirkjan eigi allt land á Ingunnarstöðum og séttung í Eyrarlandi. Í máldaga Ingunnarstaðakirkju frá 1367 kemur það sama fram og 1180 nema hvað að hún er sögð eiga séttung í Eyjalandi.  Vilchinsmáldagi frá 1397 og Gíslamáldagar frá 1570 og síðar eru samhljóða máldaganum frá 1367.

            Á Bessastöðum þann 27. september 1563 höfðu þeir Páll Stígsson höfuðsmaður, fyrir hönd konungs, og Gísli Jónsson Skálholtsbiskup með sér jarðaskipti. Meðal þeirra jarða sem komu í hlut dómkirkjunnar í Skálholti var Hrísakot metið á átta hundruð.  Ingunnarstaðir voru seldir undan Skálholtsstól þann 8. ágúst 1787.  Hrísakot er hjáleiga eða afbýli og talið eða reiknað til lands Ingunnarstaða. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 koma eftirfarandi upplýsingar fram um selstöðu Hrísakots:

             „Selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi víðara en í einum stað.“

            Enn fremur segir jarðabókin:

„Þorunarsel liggur og í Ingunnarstaða landi, þar ætla menn bygð hafi verið til forna, ... Hafa nú Ingunnarstaðamenn þar selstöðu þá er þeim líkar.“ 

Í lýsingu Reynivallasóknar frá 1840 eru Ingunnarstaðir sagðir sæmileg útigangsjörð og að hún eigi fjárbeit fram í dalnum, þ.e. Brynjudal. Hrísakot, tíu hundruð að dýrleika, er sagt hafa allgóða útbeit við hagahús. Ingunnarstaðir, áður stólsjörð, eru taldir 27 1/3 hundruð að dýrleika í Jarðatali Johnsens frá 1847. Neðanmáls er því þó bætt við að eldri jarðabækur, að  stólsjarðabókinni undanskilinni, telja Ingunnarstaði og Hrísakot saman 20 hundruð að dýrleika. Sýslumaður telur Hrísakot 5 hundruð að dýrleika og Ingunnarstaði 15 hundruð.  Í jarðamatinu 1849-1850 er kafli um Ingunnarstaði og hjáleiguna Hrísakot.  Þar koma eftirfarandi upplýsinga fram:

„Landrymi mikið með talsverðum skógi. Sumarbeit góð og nóg. Vetrarbeit sæmilega góð.“

Helsta heimild um merki jarðanna er landamerkjaskrá Ingunnarstaða ásamt Hrísakoti frá 26. apríl 1890 sem hljóðar svo:

 „Milli Ingunnarstaða og Skorhaga eru merki þannig: Þúfa sem stendur við Brynjudalsá og sjónhending úr þeirri þúfu til þess svonefndur Vörðuhvammslækur kemur fram af brúninni og þaðan norður á hámúlann þar til skiptist vatnahalli.

Milli Ingunnarstaða og Stóra-Botns ræður vatnahalli í múlanum og sömuleiðis þar sem „Súlur“ taka við og það austur að Þingvallakirkjulandi.

Milli Ingunnarstaða og Þingvallakirkju eru merki bein lína frá svonefndri „Hásúlu“ eða „Mjóusúlu“, sem stendur í beinni línu við merki, að norðanverðu ræður svo stefna úr nýnefndri Súlu til upptaka Öxarár við Mirkavatn, og þaðan sjónhending í suður á „Há Kjöl“.  Svo ræður vatnahalli vestur eftir Kilinum til þess móts við, eða uppundan „Þverá.“ Milli Ingunnarstaða og Þrándarstaða ræður Þverá frá Brynjudalsá til efstu upptaka Þverár, og svo þaðan bein stefna upp á Kjöl, þar sem merki verða sett.“

Undir landamerkjaskrána rituðu eigendur Stóra-Botns, Þrándarstaða, Skorhaga og umboðsmaður Þingvallakirkjutorfunnar.  Eigandi Ingunnarstaða ásamt Hrísakoti og

eigandi Skorhaga gerðu landamerkjabréf 15. febrúar 1922 sem felur í sér smábreyt-ingu á merkjum milli þeirra jarða þar sem landamerkjaþúfan við Brynjudalsá var horfin. 

Í fasteignamatinu 1916-1918 segir að land Ingunnarstaða sé mikið og að það sé sameiginlegt við Hrísakot. Dalbotninn liggi beggja megin við það og fjöllin umkringi á þrjá vegu. Land Ingunnarstaða er talin besta sauðjörð sveitarinnar bæði til sumar- og vetrarbeitar. Þar segir enn fremur að land Hrísakots sé mikið og gott, einkum sauðlandið.

Í fasteignamatinu 1932 kemur fram að eigandi Ingunnarstaða hafi lagt Hrísakot, sem sé í eyði, undir heimajörðina og að það sé talið ¼ hluti hennar. Þar  kemur einnig fram að heimalandið sé girt neti sem sé um 6 ½ kílómeter að lengd og að

beiti- og afréttarlönd jarðarinnar séu mikil og góð. Landamerki Ingunnarstaða eru sögð ágreiningslaus.

Þann 27. september 1986 var undirrituð skiptagerð á landi Ingunnarstaða með Hrísakoti í Kjósarhreppi. Landgræðslusjóður var eigandi að ¾ hlutum jarðarinnar og Alexíus Lúthersson eigandi að ¼ hluta.

Landamerki milli Ingunnarstaða og aðliggjandi jarða eru óumdeild, en óbyggðanefnd hefur úrskurðað í máli nr. 1/2000 að Þingvallakirkjuland skuli vera þjóðlenda og eru mörk þess lands þau sömu gagnvart Ingunnarstöðum og í fyrrgreindri landamerkjaskrá: Frá há-Kili, sjónhending til upptaka Öxarár við Myrkvavatn og þaðan bein lína í Háusúlu (Mjóusúlu).

Búskapur hefur verið á Ingunnarstöðum frá landnámi til okkar tíma en Landgræðslusjóður hefur fengið ¾ jarðanna tveggja til skógræktar. Hluta jarðanna  hefur verið skipt samkvæmt landskiptagerð frá 27. sept. 1986 en annað land jarðanna er áfram í óskiptri sameign. Á uppdrætti sem fylgdi landskiptagerðinni er merkjalínan gagnvart Þrándarstöðum dregin um eystri upptakakvísl Þverár og þaðan beint í há-Kjöl. Það er hins vegar ekki í samræmi við lýsingu landamerkjabréfs.

Í úrskurði óbyggðanefndar er gerð grein fyrir afréttarnotum í Kjós.

Í fasteignamati 1916-1918 segir um afréttarmál Kjósverja:

„Sveitin á ekki upprekstrarland; en margar jarðirnar eiga land til fjalls, og eru

sjálfum sér nógar um sumarland, en frá hinum landþrengri er rekið í hin rúmu

lönd Brynjudalsjarðanna, einkum sameiginlegt land Ingunnarstaða og

Hrísakots. Reynivallakirkja á og land gott í Seljadal og vestanverðum Kili; en

á síðari árum er Seljadalur byggður (1 bær).“

Árið 1919 sendi Stjórnarráð Íslands sýslumönnum bréf þar sem óskað var eftir

skýrslu um þau svæði í sýslunni sem talin voru almenningar svo og um „afréttarlönd“

sem ekki sannanlega hefðu tilheyrt eða tilheyrðu nokkru lögbýli.  Í svari sýslumanns

í Gullbringu- og Kjósarsýslu, 8. janúar 1920, segir að ekkert svæði í sýslunni verði

talið almenningar er eigi sannanlega tilheyri einhverju lögbýli í sýslunni.

Björn Bjarnarson lýsti Kjósarsýslu í grein sem birtist árið 1937. Þar kemur

þetta fram:

„Afréttarland á sveitin ekki, en landrýmisjarðir eru nokkrar og aflögufærar um

sumarhaga, mest Ingunnarstaðir.“

Árið 1977 var Tryggva Einarssyni, Miðdal, Mosfellshreppi, og Oddi

Andréssyni, Neðrahálsi í Kjós, falið að gera afréttarskrá fyrir Kjósarsýslu skv. 6. gr.

laga nr. 42/1969. Í bréfi frá 14. desember 1978 komust þeir að þessari niðurstöðu:

Við nána athugun höfum við komist að þeirri niðurstöðu að afréttur hafi ekki

verið til í Kjósarsýslu samkvæmt skilningi okkar á merkingu þess orðs, þar

sem öll lönd innan sýslunnar hafa frá upphafi og nokkuð fram á 20. öldina

fylgt ákveðnum jörðum.

Tryggvi og Oddur benda á að algengt sé að jarðeignir séu keyptar til

sveitarfélaga eða opinberra stofnana. Síðan segja þeir m.a.:

„Um alla útjörð, hvort heldur er til fjalla eða á láglendi er umferð heimil

gangandi fóki samkvæmt náttúruverndarlögum. En nytjar lands hvort heldur

er á láði eða úr legi s.s. veiðar hverskonar eru óheimilar án leyfis viðkomandi

eignaraðila eða umboðsmanns hans.“

Í síðari útgáfu Gangna og rétta er lýsing (skrifuð 1981) á göngum og réttum í

Kjósarhreppi eins og þær voru á fyrstu tugum tuttugustu aldar og talið að þeim hafi

verið háttað á sama veg svo öldum skipti. Er þar sagt frá leitarsvæðum en ekki nefnt

að um afréttarlönd sé að ræða. Samkvæmt niðurlagi frásagnarinnar er ekki lengur um

sameiginleg fjallskil að ræða í Kjósarhreppi heldur smalar hver bóndi sitt umráðaland

og kemur úrtíningi til lögréttar, í Kjósarrétt, en áður voru réttirnar tvær, Fossárrétt og Eyjarétt, og var sú síðarnefnda lögrétt.

            Vettvangsganga dómara og lögmanna fór fram 16. október 2007.

 

            Málsástæður stefnanda

            Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að það landsvæði, sem kröfurnar nái til, sé svæði utan eignarlanda og sé því þjóðlenda, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telur stefnandi ljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnanda hvíli því sönnunarbyrðin ótvírætt á stefndu að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landinu.

            Land það sem hér sé gerð krafa um að verði viðurkennt að sé þjóðlenda, liggi austanvert við kröfupunkta, nái að sýslumörkum og mörkum Kjósarhrepps og Bláskógabyggðar (áður Þingvallahreppur). Af hálfu stefnanda sé á því byggt að landsvæðið austanvert við þetta land, þ.e. land Þingvallajarðar samkvæmt landamerkjabréfi, hafi verið úrskurðað þjóðlenda, sbr. úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 1/2000. Byggir stefnandi á sömu rökum og óbyggðanefnd gerði í niðurstöðu sinni í því máli, sbr. nánar eftirgreint, og telur að gæta beri jafnræðis milli svæðanna, sem séu afar lík að staðháttum, enda bæði hálendissvæði. Við mat á þessu beri sérstaklega að gæta að þeim heimildum og upplýsingum sem til voru um þann hluta Þingvallalandsins sem næst hinu umþrætta landsvæði stendur.

            Óljóst sé hvort Þingvallakirkjulandið á þessum slóðum hafi verið numið, rétt eins og landsvæðið sem hér sé deilt um, sbr. nánar síðar. Ekki hafi verið til eldri heimildir um að stofnast hefði til beins eignarréttar á Þingvallalandinu, en hins vegar voru til heimildir um afréttarnot á svæðunum í kring. Sjá nánar um beitarnot landsins sem hér sé deilt um síðar. Þrátt fyrir að merkjalýsing samkvæmt landamerkjaskrá Þingvalla hafi náð upp í Kjöl og Botnssúlur, og sé samþykkt á móti, hafi ekki verið talið að sú lýsing sýndi fram á beinan eignarrétt. Hið sama hljóti að eiga við um landamerkjalýsingu fyrir Ingunnarstaði og Hrísakot, sbr. síðari umfjöllun.

            Þá verði með engu móti séð hvaða greinarmun unnt sé að gera milli annars vegar þess svæðis sem hér sé deilt um og hins vegar aðliggjandi hluta Þingvallalandsins, sem úrskurðað var þjóðlenda. Staðhættir, þ.m.t. hæð landsins, og gróðurfar séu með þeim hætti að ekki verði þarna skorið á milli, sem aftur á móti styðji þjóðlendukröfur stefnanda í þessu máli. Í öllu falli telur stefnandi að leggja beri sönnunarbyrði á stefndu að sýna fram á eignarréttarlegan mun milli landsvæðanna.

Merkjapunktar samkvæmt viðurkenningarkröfu stefnanda séu innan merkja samkvæmt landamerkjabréfi Ingunnarstaða og Hrísakots frá árinu 1890. Stefnandi hafnar gildi þeirrar landamerkjalýsingar Ingunnarstaða og Hrísakots, að svo miklu leyti sem merki lýsingarinnar gangi inn fyrir þjóðlendukröfulínu stefnanda. Líkt og Hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu um í þjóðlendumálum, beri að meta gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega.

Til þess verði að líta varðandi landamerkjabréf Ingunnarstaða og Hrísakots að það virðist ekki sækja stoð í eldri heimildir, a.m.k. hvað varðar syðri hluta þess svæðis sem lýst sé merkjum á, þ.e. inn fyrir þjóðlendukröfulínu. Slíkur skortur á stuðningi af eldri heimildum dragi verulega úr sönnunargildi bréfsins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 (Biskupstungur). 

Stefnandi bendir á að staðhættir og gróðurfar, sem nánar verði vikið að síðar, styðji ekki beinan eignarrétt á svæðinu, enda sé landið hálendissvæði. Með tilliti til þess og skorts á eldri heimildum verði að draga gildi landamerkjalýsingarinnar í efa. Virðist sem lýsingin sé nokkuð dæmigerð fyrir þær merkjalýsingar sem gerðar voru eftir 1882, en oftar en ekki hafi menn þá verið að eigna sér eigendalaust land, líkt og allt bendir til að hafi verið gert í þessu tilviki. Gæta verði að því að landamerkjabréf séu fyrst og fremst sönnun um mörk á milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þeirrar athafnar af því að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Slíku eigendalausu landi geti löggjafinn eingöngu ráðstafað, sem ekki hafi verið gert.

Stefnandi byggir á því að umrætt land hafi ekki verið numið í öndverðu. Hvorki Landnáma né aðrar heimildir sýni fram á slíkt.

Í Landnámabók greini að Ingólfur hafi numið land milli Ölvisár og Hvalfjarðar, fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár og öll nes út. Orðin „fyrir utan Brynjudalsá“ bendi ekki til að allur Brynjudalur hafi tilheyrt landnámi Ingólfs, en þó sé Þorsteinn Sölmundarson, er nam Brynjudal allan, talinn nema í landnámi Ingólfs. Bústaður þeirra feðga, Þorsteins og Refs gamla, sonar hans, sé talinn í Múla, sem sumir hafi talið að hafi staðið norðan Brynjudalsár. Samkvæmt þessu verði ekki ráðið að svæðið innan þeirra merkja sem stefnandi geri kröfu til, hafi verið numið.

Til staðhátta og gróðurfars sé einnig litið í því sambandi, en þau atriði styðji ekki að landið hafi verið numið. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildaskortur leiði til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 171/1998 (Jökuldalsheiði). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi henni fram.

Fyrirliggjandi heimildir, eldri sem yngri, sýni ekki fram á frekari nýtingu landsins en til upprekstrar og afréttarnota. Virðist landið hafa verið samnýtt til þess, enda hafi fé frá aðliggjandi afréttum og heiðum rásað inn á svæðið að vild. Þá sýni gögn málsins fram á að fjallskil hafi verið gerð sameiginlega á svæðinu.

Í lýsingu Reynivallarsóknar frá 1840 eftir séra Sigurð Sigurðsson sé fjallað um afréttarmál í sókninni. Segi þar m.a. að notuð séu fyrir geldfé á sumrum: Múlafjallið, dalbotnar í Botnsdal og Brynjudal, Kjölfjallið með tilheyrandi dölum og dældum. Þverárdalur (úr sunnanverðum Brynjudal og upp í Kjöl) sé í sömu lýsingu flokkaður sem afréttur og beitiland.

Í ritinu Göngur og réttir II, eftir Braga Sigurjónsson, þar sem fjallað sé um afréttarmál í Kjós, komi fram að sauðfé hafi fyrrum verið haldið meir til fjalla en þegar bókin sé rituð, þar sem lítið hafi verið um girðingar um tún og engjar. Leitardagur hafi eftir fjallskilareglugerð verið ákveðinn í 22. viku sumars og varð að nota hann, hvernig sem viðraði. Sveitarstjórn gaf út fjallskilaboð, sem gekk boðleið um sveitina. Á svæðinu norðan Laxár var annað hinna tveggja leitarsvæða Brynjudalsfjalllendi frá Þverá austan Þrándarstaða að Botnsá, þ.e. norðurhluti Kjalar, Botnssúlur, Hvalfell og Múlafjall og Brynjudalur allur. Þá hafi stór hluti af landi Stóra- Botns verið á þessu leitarsvæði, þ.e. allt land þeirrar jarðar sunnan Botnsár.

Stefnandi byggir á því að með tilliti til staðsetningar landsvæðisins, fjarri byggð og fjarri landsvæðum, sem hafa verið í landbúnaðarnotum, verði ekki litið á svæðið sem land undirorpið beinum eignarrétti. Njóti þetta einnig stuðnings af þeim staðreyndum að landið standi í verulegri hæð, í um 400-600 metrum yfir sjávarmáli, og sé ýmist ógróið eða vaxið heiðargróðri. Hafi svo einnig verið á landnámsöld. Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.

Í úrskurði óbyggðanefndar sé m.a. vísað til réttmætra væntinga eigenda Ingunnarstaða um að merkjum samkvæmt landamerkjabréfi væri rétt lýst. Stefnandi hafnar því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á landinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. að menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti átt mögulega rétt á. Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geta ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2004 og 48/2004.

 

Nánar um kröfupunkta.

 

Upphafspunktur, punktur A, í 2. lið stefnukrafna taki mið af því þar sem úrskurðuð þjóðlendulína í máli 1/2000 komi að sýslumörkum á há-Kili. Þaðan liggi línan í punkt B í efstu upptökum Þverár, á mörkum jarðanna Ingunnarstaða og Þrándarstaða. Komi þetta heim og saman við landamerkjalýsingar bæði Ingunnarstaða og Hrísakots, og Þrándarstaða, sem miði efri merki við upptök Þverár. Þaðan sé bein lína í punkt C, þar sem línan skeri mörk Ingunnarstaða/Hrísakots og Stóra-Botns í 500 m hæð. Sé þar miðað við framangreind rök, sbr. þjóðlendusjónarmið almennt.

Tekið er fram varðandi kröfugerðina að í henni felist að vikið sé frá kröfugerð ríkisins á svæðinu eins og hún var fyrir óbyggðanefnd, hvað varðar þjóðlendukröfu á svæðinu fyrir ofan jörðina Þrándarstaði. Miðist punktur B í kröfugerð nú við efstu upptök Þverár, á mörkum jarðanna Ingunnarstaða og Þrándarstaða. Ástæða þessa sé sú að íslenska ríkið telji til eignarréttinda yfir jörðinni Þrándarstöðum. Ljóst megi vera af dómi Hæstaréttar í máli nr. 367/2005 að dómsmál verði ekki samkvæmt meginreglum einkamálaréttarfars rekið milli sama aðila til sóknar og varnar. Geti stefnandi því ekki höfðað mál gegn sjálfum sér vegna þess hluta þjóðlendukrafna sem kunni að skarast við merki eignarjarðar ríkisins. Af þessum sökum hafi því til einföldunar verið dregið úr þjóðlendukröfum að þessu leyti, frá því sem gert var fyrir óbyggðanefnd. Þrátt fyrir að þessu viðmiði sé beitt, sé áréttað að í þessu felist ekki að tekin sé afstaða til gildis landamerkjalýsingar Þrándarstaða, en stefnandi telur sig hafa haft augljósa hagsmuni af því að láta einnig reyna á fyrir dómi þjóðlendukröfur sínar á umræddu svæði.

            Með vísan til framangreindra málsástæðna sé talið að umræddur úrskurður óbyggðanefndar sé haldinn slíkum annmörkum að fella beri hann úr gildi og taka kröfur stefnanda til greina.

            Fyrirvari sé gerður um nýjar málsástæður á síðari stigum málsins.

Auk framangreindra lagatilvísana, vísar stefnandi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58/1998. Þá er vísað til 72. greinar stjórnarskrár. Byggt sé á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglna um eignarráð fasteignareigenda, almennra regla samninga- og kröfuréttar og hefðarlaga nr. 14/1905. Vísað er til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986. Þá er vísað til ýmissa eignarréttarreglna í Grágás og Jónasbók.

            Krafa um málskostnað sé studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

            Máli þessu sé stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur samkvæmt 34. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einnig 42. gr. sömu laga.

 

            Málsástæður stefndu

            Stefndu byggja á því að enginn vafi sé um það að allt land innan skráðra og þinglýstra marka jarðarinnar sé eignarland og hafi ætíð verið frá landnámi. Um aldaraðir hafi  verið óumdeildur beinn eignarréttur eigenda jarðanna að því landi sem landamerkjaskrár lýsa. Höfuðheimildin um merki jarðanna sé þinglýst  landamerkjaskrá frá 1890 sem samþykkt sé af eigendum aðliggjandi jarða og enginn ágreiningur hafi verið um merki. 

Tilgangur þjóðlendulaga hafi verið sá að eyða óvissu um eignarrétt að óbyggðum og verkefni óbyggðanefndar að skera úr um það hvað væri þjóðlenda og hvað væri eignarland.  Óbyggðanefnd hafi nú að undangenginni vandaðri athugun og málsmeðferð komist að þeirri niðurstöðu að allt land stefndu innan merkja sé eignarland samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaga og virðist enginn efi vera á því hjá nefndinni sem taki mjög ákveðna afstöðu í málinu.

Í úrskurði óbyggðanefndar sé tekið undir öll sjónarmið stefndu varðandi eignarrétt þeirra að landinu og sé vandséð hvaða knýjandi þörf sé fyrir íslenska ríkið að fara með málið fyrir dómstóla. Ef litið sé á óbyggðanefnd sem stjórnsýslunefnd sem úrskurða skuli um vafasvæði sé torskilið hvers vegna íslenska ríkið eigi ekki að sætta sig við niðurstöðu nefndarinnar og þá sérstaklega þegar niðurstaða hennar sé svo afgerandi sem í þessu tilviki.  Ef horft sé til eignarverndar 72. gr. stjórnarskrárinnar megi ætla að 19. gr. þjóðlendulaganna um málskot sé frekar ætluð þeim til verndar sem verði fyrir ofríki stjórnvalda fremur en stjórnvöldum sem sætti sig ekki við niðurstöður hinnar sérskipuðu stjórnsýslunefndar. Nýlegar yfirlýsingar þingmanna og ráðherra um það að kröfur ríkisins séu allt aðrar en þær, sem þingmenn máttu ætla er þeir samþykktu þjóðlendufrumvarpið, ættu að verða leiðsögn til þeirra sem starfa fyrir fjármálaráðuneytið að þjóðlendumálum um að stilla kröfum í hóf.

Í úrskurði óbyggðanefndar komi fram að íslenska ríkið skorti öll rök fyrir kröfum sínum og þar segi að allur  málatilbúnaður þess hafi einskorðast við að um sams konar land sé að ræða og óbyggðanefnd fjallaði um í málinu nr. 1/2000, Þingvallakirkjuland og efstu jarðir í Þingvallahreppi. Þar hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hluti lands Þingvallakirkju væri þjóðlenda. Líklegt sé að land vestan megin þjóðlendu sé einnig þjóðlenda og beri sá sönnunarbyrði sem haldi öðru fram. Þetta sé líka aðalmálsástæðan í stefnu.

Óbyggðanefnd segi að saga afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar Ingunnarstaða sé rakin í kafla 5.1.17 í úrskurði.  Þar komi fram að Ingunnarstaða sé getið í heimildum allt frá 1180. Af þeim verði ráðið að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða. Þá sé vafalaust að samkvæmt lýsingum Landnámabókar hafi landnám Ingólfs Arnarsonar m.a. náð yfir það landsvæði sem hér sé til umfjöllunar, sbr. kafla 6.2. í úrskurði.

        „Fyrstu lýsinguna á merkjum Ingunnarstaða er að finna í landamerkjabréfi fyrir jörðina frá 1890. Að því leyti sem hér skiptir máli þá er mörkum gagnvart Stóra Botni

lýst þannig að vatnshalli ráði á múlanum og sömuleiðis þar sem „Súlur“ taki við og það austur að Þingvallakirkjulandi. Gagnvart Þingvallakirkjulandi liggi merkin á beinni línu frá „Háusúlu“ eða „Mjóusúlu“ sem standi í beinni línu við merki, þaðan til

upptaka Öxarár við Myrkavatn og þaðan sjónhending í suður á há Kjöl. Síðan ráði vatnshalli vestur eftir Kilinum „til þess á móts við, eða uppundan „Þverá.“ Landamerkjabréfið er áritað um samþykki Þrándarstaða, Skorhaga og Þingvallakirkju-torfunnar. Landamerkjalýsing Stóra Botns frá 14. maí 1890 fellur að lýsingu Ingunnarstaða og var áritað um samþykki vegna hennar. Stærstur hluti Ingunnarstaða er utan við kröfusvæði íslenska ríkisins. Landamerkjabréf jarðarinnar er samþykkt af jörðum í suðri, vestri og austri. Þá er landamerkjabréf Stóra Botns í norðri áritað um samþykki vegna Ingunnarstaða. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir til þeirrar niðurstöðu að þessi merki þarfnist ekki nánari athugunar. Í kjölfar þess að landamerkjalög taka gildi 1882 er gert landamerkjabréf fyrir Ingunnarstaði. Fyrirliggjandi gögn benda ekki til annars en að merkjum sé þar rétt lýst. Bréfið er áritað af hálfu aðliggjandi jarða til suðurs vestur og austurs og eigandi Ingunnarstaða samþykkti merki aðliggjandi jarðar til norðurs. Bréfið er þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki jarðarinnar, án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna sem máli skiptir. Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Þá er og ljóst að eigendur Ingunnarstaða hafa um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst.“

Af kröfum stefnanda megi ætla að hann telji land innan merkja Ingunnarstaða hafa mismunandi eignarréttarlega stöðu.  Kröfulína ríkisins beri þess greinileg merki.  Í stefnu sé vikið að hæð yfir sjávarmáli, staðháttum og gróðurfari. Einnig því að land á kröfusvæðinu hafi alls ekki verið numið í öndverðu. Af hálfu stefnanda sé svo byggt á því að úrlausn óbyggðanefndar varðandi jörðina Þingvelli hafi áhrif á eignarréttarlega stöðu Ingunnarstaða. Í úrskurði óbyggðanefndar um Þingvallakirkjuland komi fram að gögn um stofnun allsherjarríkis beri með sér að eignarréttarleg staða Þingvalla hafi snemma verið með sérstökum hætti. Vafi hafi verið um landnám á því svæði og væri hann óhjákvæmilega meiri eftir því sem norðar og austar drægi. Í úrskurðinum sé vísað til gagna um að Skjaldbreiður hafi ekki tilheyrt jörðinni frá upphafi og samandregið komist að þeirri niðurstöðu að Þingvallakirkjuland hafi ekki í heild sinni verið undirorpið beinum eignarrétti en óvíst væri hvar mörkin lægju. Óbyggðanefnd hafi fallist á kröfu íslenska ríkisins, sem eiganda jarðarinnar, um þjóðlendumörk, enda yrði ekki við önnur réttari mörk miðað, sbr. 15. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998.

Engar forsendur séu tilgreindar af hálfu íslenska ríkisins í þessu máli, sem leggi að jöfnu land Þingvallakirkju, sem úrskurðað var þjóðlenda, og land Ingunnarstaða og hafi sjónarmiðum íslenska ríkisins í þessa átt því verið hafnað hjá óbyggðanefnd. Með dómi Hæstaréttar 5. okt. 2006 í máli nr. 67/2006 hafi verið komist að sömu niðurstöðu varðandi Þingvallakirkjuland og segir í dóminum: „Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið um Þingvallakirkjuland, og sérstaklega makaskiptalandið og nýtingu þess, er ekki fram komið að land það sem kirkjan afhenti Grímsneshreppi við makaskiptin 1896“ hafi nokkurn tíma verið undirorpið beinum eignarrétti einstaklinga, kirkjunnar. Af makaskiptasamningnum sjálfum, framangreindum dómi Hæstaréttar 31. maí 1926 og bréfi hreppstjóra Grímsneshrepps 20. apríl 1920 verður heldur ekki ráðið að fyrirsvarsmenn hreppsins hafi talið að annað og meira en afréttarnot hafi verið keypt 1896.”  Óvissa um eignarrétt, sameiginleg afnot annarra af kirkjulandinu og löggerningar skiptu þar máli, nokkuð sem ekki sé til að dreifa varðandi Ingunnarstaði. Samanburðurinn eigi því ekki við.

Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 4/2004 segir:

„Ekki  eru  heimildir  um  annað  en  að  jörðin  Ingunnarstaðir  hafi  verið  byggð  og

nýtt  eftir  búskaparháttum  og  aðstæðum  á  hverjum  tíma.   Innan þeirra marka sem

tilgreind eru 1890 hafa  eigendur  jarðarinnar  farið með umráð og hagnýtingu og gert

ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Fjalllendi

jarðarinnar hafa þar ekki verið undanskilin. Ekki verður annað séð en að eignarhald innan framangreindra merkja Ingunnarstaða hafi verið án ágreinings eða athugasemda sem máli skiptir. Engar heimildir eru um að land innan merkja jarðarinnar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða staðhættir, gróðurfar eða nýtingar-möguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi.

Að öllu framangreindu virtu hafi af hálfu íslenska ríkisins ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landamerkja Ingunnarstaða sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiði einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um eignarland að ræða án

þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk

milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.  Það sé því niðurstaða óbyggðanefndar að land Ingunnarstaða, svo sem því sé að framan lýst, teljist ekki til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.“ 

            Bent er á þýðingu þess að land stefndu telst til jarða og samkvæmt fyrri úrskurðum óbyggðanefndar sé meginreglan sú að land sem sé innan jarðar skuli teljast eignarland í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998 en ekki þjóðlenda. Samkvæmt landamerkjalögunum 1882 hafi skyldan til að gera landamerkjaskrá og setja merki verið hjá eigendum jarða og megi þá vera ljóst að eigendur hafi með skránum verið að lýsa merkjum jarða en ekki merkjum á afréttarlandi þar sem þeir áttu sumarbeit.

Ingólfur Arnarson hafi numið allt land milli Ölfusár og Brynjudalsár. Landnámshringurinn lokist því í landi stefndu því upptök Öxarár séu í Myrkvavatni en upptök Brynjudalsár í Sandvatni. Þetta segir að landið hafi verið numið og um  fullkominn eignarétt hafi verið að ræða, fenginn með „námi“ eða „töku.“ Stofnun eignarréttarins hafi verið með viðurkenndum hætti á þeirra tíma mælikvarða. Ekkert hafi breyst í aldanna rás varðandi eignarréttinn en skráningu á mörkum jarða hafi alls staðar verið áfátt fram að setningu landamerkjalaga nr. 5/1882. Almennar sönnunarreglur leiði til þess að  íslenska ríkið hafi sönnunarbyrðina fyrir því að efni landamerkjaskránna sé rangt.

Hæstiréttur hafi fjallað um þetta álitaefni í dómi frá 21. okt. 2004 um þjóðlendur á Svæði 1 (Biskupstungnaafréttur) en í málinu var því haldið fram af hálfu ríkisins að land norðan við kröfulínur ríkisins hafi hvorki verið numið á landnámsöld né síðar. Landeigendur gætu því ekki sannað að þeir hafi öðlast beinan eignarrétt að því fyrir nám, en frumeignarréttur að landi geti einungis stofnast með þeim hætti eða með löggjöf. Við úrlausn málsins naut ekki við glöggra heimilda um landnám á þessu svæði en þó var ekki talið að gróðurleysi hafi staðið því í vegi að land norðan við kröfulínur ríkisins yrði numið. Að auki væri stór hluti þessa svæðis einungis í 200-300 metra hæð yfir sjávarmáli. Í ljósi þessa varð ekki lagt á landeigendur að sýna frekar fram á það en gert hafði verið að land norðan við kröfulínur hafi verið numið við landnám eða síðar, þannig að það hafi verið nýtt með öðrum hætti en til takmarkaðra afnota yfir sumarmánuðina, líkt og ríkið hélt fram að hefði verið. Gætu úrslit málsins ekki ráðist af sönnun um þetta atriði.

Í greinargerð Yngva Þorsteinssonar náttúrufræðings um staðhætti og gróðurfar í Kjós komi fram að við landnám hafi gróður verið mun meiri á kröfusvæðinu og að birkikjarr hafi teygt sig upp úr Brynjudal og austur að vötnunum.  Þar hafi þó fyrst og fremst vaxið hálendisgróður á undirlendi á kröfusvæðinu.  Gróðurinn hafi verið gróskumeiri við landnám og landgæði meiri. Gróðurinn hafi rýrnað frá landnámi og fyrst og fremst vegna beitar og samspils hennar og kólnandi veðurfars í landinu. Gróðurleysi virðist því ekki hafa staðið því í vegi að land hafi verið numið á þessu svæði upp á fjöll.

Engir sérstakir sameiginlegir afréttir séu í Kjós samkvæmt almennum skilningi þar sem öll lönd innan Kjósar(sýslu) hafi frá upphafi fylgt ákveðnum jörðum.  Hver landeigandi hafi nýtt sitt land til beitar, veiði eða annars og hafi ekki gert nokkurn greinarmun á landi sínu hvort það sé langt frá íbúðarhúsum eða í mikilli hæð o.s.frv. Engin skýr mörk séu milli heimalands og beitilands eða afréttarlands jarðanna og aðeins sé og hafi verið til ein tegund lands, einkaeignarland.  Samvinna bænda um haustsmölun breyti ekki  nokkru um eignarréttinn enda sé hún tilkomin vegna aðstæðna, þ.e. að hið efra séu ekki girðingar milli lendna jarðanna. Lýsingin í Jarðamati 1849 bendir svo til að beitarland jarðarinnar sé eignarland hennar og landrými sagt mikið sem enn bendi til þess að eignarlandið sé það sem lýst sé síðar í landamerkjaskrám. Sama eigi við um vetrarbeitina, hún bendir til þess að landið sé háð fullkomnum eignarrétti.

Þegar eigendur Ingunnarstaða skiptu heimalandi í september 1986 hafi þeir sett  ytri merki jarðarinnar á móti Þrándarstöðum upp frá eystri kvísl Þverár en í raun réttri hafi merkin átt að vera upp frá vestari kvíslinni. Það sé í samræmi við lýsingu landamerkjabréfsins frá  1890, þ.e. að frá Há-Kili  ræður vatnahalli vestur eftir Kilinum til þess móts við, eða uppundan „Þverá.“ Þetta standist aðeins ef farið sé eftir vestari kvísl Þverár. Ef farið sé upp úr eystri kvíslinni komi viðkomandi í Há-Kjöl.

Nú hafi íslenska ríkið dregið í land með kröfulínu sína og vilji aðeins fara í Há-Kjöl og þaðan niður í eystri kvíslina. Íslenska ríkið telji að vestan línunnar sé land ríkisjarðarinnar Þrándarstaða og vilji ekki taka land frá sjálfu sér undir þjóðlendur.  Af fyrri kröfugerð sé ljóst að íslenska ríkið hafi verið á sömu skoðun og stefndu um merkin gagnvart Þrándarstöðum.

Ef eignarréttur stefndu að upplöndum Ingunnarstaða og Hrísakots verði ekki viðurkenndur af dóminum með sömu rökum og hjá Óbyggðanefnd þá telja stefndu sig hafa öðlast eignarrétt að landinu fyrir hefð og vísa til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi og hvernig sem íslenska ríkið ætli að snúa við hlutunum komist það ekki framhjá þeirri staðreynd að stefndu og fyrri eigendur hafa í góðri trú haft öll umráð landsins í árhundruðaraðir.

Í dómsmálum vegna þjóðlendna hafi verið á það litið við úrlausn málanna að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn njóti verndar 72. gr. stjórnar-skrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhags-legu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greinir í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp, sem varð að lögum nr. 58/1998, beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafa aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um þetta efni.

 Í þessu máli sé íslenska ríkið stefnandinn og sé að sækja mál gegn landeigendum og hafi sönnunarbyrðina fyrir því að það eigi þann rétt sem það haldi fram og á ríkinu hvílir því hin almenna sönnunarskylda að það verði að sanna þá fullyrðingu sem málatilbúnaðurinn byggir á. Stefndu hafa í höndum þinglýst landamerkjabréf um jarðir sínar og sönnunarbyrðin fyrir því að land stefndu sé þjóðlenda en ekki eignarland, sé því hjá stefnanda. Sönnun um þetta hafi langt í frá tekist hjá stefnanda. Óbyggðanefnd hafi í vel rökstuddum úrskurði komist að því að allt land Ingunnarstaða og Hrísakots innan þinglýstra merkja sé eignarland og vart sé hægt að sjá að nokkuð komi fram af hálfu stefnanda í stefnu sem geti breytt þeirri niðurstöðu. Öll helstu gögn í málinu bendi til eignarhalds jarðareigenda á hverjum tíma eins og rakið sé í úrskurðinum og því verði að sýkna stefndu.

Vísað sé til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með samnefndum lögum nr. 62/1994.

Stefndi vísar til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda, en þinglýsta eignarheimild hefir sá sem þinglýsingabók nefnir eiganda á hverjum tíma. Samkvæmt 26. gr. nýtur sá sem hefur þinglýsta eignarheimild að eign einnig slíkrar heimildar að einstökum hlutum hennar.

Vísað sé til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998 að því er varðar skilgreiningu á eignarlöndum, en eignarland sé landsvæði sem sé háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.

Vísað sé til 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919 sbr. eldri lög um sama efni.

Þá sé vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905 enda hafi eigendur Ingunnarstaða og Hrísakots haft umráð landsins fullan hefðartíma fasteigna margfalt eða í aldaraðir og meinað öðrum afnot þess. Einnig sé vísað til venju, þ.e. að það land sem að fornu hafi verið notað eingöngu af  eiganda jarðarinnar sé með vísan til venjuréttar talið eignarland hans án takmarkana enda hefur nýtingin gefið slíkt til kynna.

 

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort það landsvæði, sem afmarkast af þjóðlendulínu samkvæmt kröfugerð stefnanda í máli þessu og sem er innan landamerkja Ingunnarstaða og Hrísakots í Kjósarhreppi, sé eignarland samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Nánar tiltekið liggur landsvæði þetta austanvert við kröfupunkta og nær að sýslumörkum Kjósarhrepps og Bláskógabyggðar (áður Þingvallahrepps).

Stefnandi byggir á því að hið umdeilda landsvæði sé sambærilegt við það land sem liggur þar fyrir austan, þ.e. land Þingvallajarðar, sem var úrskurðað þjóðlenda samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2000. Telur stefnandi að sömu rök leiði til þess að bæði þessi landsvæði teljist vera þjóðlenda. Þá beri að gæta jafnræðis milli svæðanna, sem séu afar lík að staðháttum, enda bæði hálendissvæði. Við mat á þessu beri sérstaklega að gæta að þeim heimildum og upplýsingum sem til voru um þann hluta Þingvallalandsins sem næst hinu umþrætta landsvæði stendur. Um áhrif úrskurðar óbyggðanefndar nr. 1/2000 um jörðina Þingvelli á eignarréttarlega stöðu Ingunnarstaða er fjallað um í úrskurði óbyggðanefndar nr. 4/2004. Þar segir svo:

„Umræddur úrskurður óbyggðanefndar er birtur í skýrslu óbyggðanefndar fyrir árin 1998-2002. Þar kemur fram að gögn um stofnun allsherjarríkis beri með sér að eignarréttarleg staða Þingvalla hafi snemma verið með sérstökum hætti. Vafi var um landnám á því svæði og væri hann óhjákvæmilega meiri eftir því sem norðar og austar drægi. Í úrskurðinum er vísað til gagna um að Skjaldbreiður hafi ekki tilheyrt jörðinni frá upphafi og samandregið komist að þeirri niðurstöðu að Þingvallakirkjuland hafi ekki í heild sinni verið undirorpið beinum eignarrétti en óvíst væri hvar mörkin lægju. Óbyggðanefnd féllst á kröfu íslenska ríkisins, sem eiganda jarðarinnar, um þjóðlendumörk, enda yrði ekki við önnur réttari mörk miðað, sbr. 15. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Engar forsendur eru tilgreindar af hálfu íslenska ríkisins í þessu máli, sem leggja að jöfnu land Þingvallakirkju, sem úrskurðað var þjóðlenda, og það land Þrándarstaða (sic) sem mál þetta fjallar um. Sjónarmiðum íslenska ríkisins í þessa átt er því hafnað.“  Með dómi Hæstaréttar 5. okt. 2006 í máli nr. 67/2006 var komist að sömu niðurstöðu varðandi Þingvallakirkjuland og segir í dóminum: „Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið um Þingvallakirkjuland, og sérstaklega makaskiptalandið og nýtingu þess, er ekki fram komið að land það sem kirkjan afhenti Grímsneshreppi við makaskiptin 1896 hafi nokkurn tíma verið undirorpið beinum eignarrétti einstaklinga, kirkjunnar.“ Af framangreindu er ljóst að Þingvallajörðin hafði verulega sérstöðu í eignarréttarlegu tilliti og verður því hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að hið umdeilda landsvæði teljist þjóðlenda á sömu forsendum og aðliggjandi landsvæði Þingvallajarðar.  Þótt staðhættir og gróðurfar þessara landsvæða kunni að vera sambærileg þá nægir það ekki til þess að staðfesta kröfu stefnanda um þjóðlendu.

Í málflutningi var því mótmælt af hálfu stefndu að stefnandi hefði uppi nýjar málsástæður fyrir kröfu sinni fyrir dómi. Fyrir óbyggðanefnd hefði eingöngu verið byggt á því að þar sem aðliggjandi land Þingvallakirkjujarðar væri þjóðlenda ætti hið sama að gilda um hið umdeilda land. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998 er unnt að leggja til úrlausnar fyrir dómi hverja þá kröfu, sem gerð hefur verið fyrir óbyggðanefnd. Sú kröfugerð er ekki háð sérstökum takmörkunum að því er varðar málsástæður sem uppi verða hafðar í eftirfarandi dómsmáli. Verður því ekki fallist á þessi andmæli stefndu.

Saga afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar Ingunnarstaða er rakin í úrskurði óbyggðanefndar. Þar kemur fram að Ingunnarstaða er getið í heimildum allt frá árinu 1180. Af þeim verði ráðið að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða. Talið er vafalaust að samkvæmt lýsingum Landnámabókar hafi landnám Ingólfs Arnarsonar náð yfir það landsvæði sem hér er til umfjöllunar.

Þjóðlendulína samkvæmt kröfugerð stefnanda í máli þessu liggur yfir land sem telst innan landamerkja Ingunnarstaða að meðtöldu Hrísakoti í Kjósarhreppi, eins og fyrr greinir. Byggir stefnandi á því að það landsvæði sé utan eignarlanda og sé því þjóðlenda, sbr. 1. og 2. gr. laga 58/1998.  Telur stefnandi að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Stefndu byggja hins vegar á því að enginn vafi sé um það að allt land innan skráðra og þinglýstra marka jarðarinnar sé eignarland og hafi ætíð verið allt frá landnámi.

      Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Ingunnarstaði frá 26. apríl 1890 segir svo um mörk jarðarinnar og Þingvallakirkjulands:

„Milli Ingunnarstaða og Þingvallakirkju eru merki bein lína frá svonefndri „Hásúlu“ eða „Mjóusúlu“, sem stendur í beinni línu við merki, að norðanverðu ræður svo stefna úr nýnefndri Súlu til upptaka Öxarárvið Mirkavatn, og þaðan sjónhending í suður á „Há Kjöl.“  Svo ræður vatnahalli vestur eftir Kilinum til þess móts við, eða uppundan „Þverá.“

Landamerkjabréfið er áritað um samþykki aðliggjandi jarða þar á meðal umboðsmanns Þingvallakirkjutorfunnar. Eru landamerkin þinglýst og óumdeild.

Landamerkjabréf nægir ekki eitt og sér til að sanna beinan eignarrétt að landsvæði  innan marka þess. Líta verður einnig til annarra atriða sem stutt geta lýsingu gagna málsins um landamerki og sem stangast ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.

Í greinargerð Yngva Þorsteinssonar náttúrufræðings um staðhætti og gróðurfar í Kjós kemur fram að um landnám hafi gróður verið gróskumeiri á kröfusvæðinu og ekki ólíklegt að birkikjarr hafi teygt sig upp úr Brynjudal og austur að vötnunum.  Landgæði þau sem fólust í gróðri svæðisins hafi verið mun meiri en nú. Gróðurleysi virðist því ekki hafa staðið í vegi fyrir því að land væri numið á þessu svæði og upp á fjöll. Samkvæmt því og í samræmi við almennar niðurstöður óbyggðanefndar verður miðað við að umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu.

Í fasteignamatinu 1916-1918 segir að land Ingunnarstaða sé talin besta sauðjörð sveitarinnar bæði til sumar- og vetrarbeitar. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum máls að engir sérstakir sameiginlegir afréttir eða almenningar eru í Kjósarsýslu samkvæmt almennum skilningi þar sem öll lönd innan sýslunnar hafi frá upphafi fylgt ákveðnum jörðum. Þá verður ekki séð að beitarlandið hafi verið aðskilið frá öðru landi jarðarinnar. Allar nytjar lands voru háðar leyfi landeiganda. Eins og segir í úrskurði óbyggðanefndar eru ekki heimildir um annað en að jörðin Ingunnarstaðir hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Innan þeirra marka sem tilgreind eru 1890 hafi eigendur jarðarinnar farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildi um eignarland almennt. Fjalllendi jarðarinnar hafi þar ekki verið undanskilin.

Engar heimildir eru um að land innan merkja jarðarinnar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og ekki verður talið samkvæmt framansögðu að staðhættir, gróðurfar og nýtingarmöguleikar útiloki eignarrétt stefndu að umræddu landsvæði.  Þá benda gögn málsins ekki til annars en eigendur jarðarinnar hafi, allt frá því að jörðin var byggð, litið á umrætt landsvæði sem sína eign og farið með það sem slíkt án athugsemda annarra. Verður ekki séð að eignarréttur Ingunnarstaða að landsvæði þessu hafi verið dreginn í efa fyrr en með kröfugerð íslenska ríkisins fyrir óbyggðanefnd í máli nr. 4/2001. Með hliðsjón af því sem að framan greinir um landamerki jarðanna Ingunnarstaða og Hrísakots í Kjósarsýslu, eignarhald og nytjar, verður talið að eigendur jarðanna hafi þannig haft réttmætar væntingar um beinan eignarrétt sinn að landsvæði þessu. 

Þegar allt framangreint er virt hefur stefnandi ekki sýnt fram á að það landsvæði, sem kröfugerð hans í máli þessu tekur til, sem er innan landamerkja Ingunnarstaða og Hrísakots í Kjósarhreppi, sé þjóðlenda samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998.

Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Stefndu fengu gjafsókn við rekstur málsins í héraði með bréfi, dags. 8. október 2007. Af þeim sökum eru ekki efni til að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar sem rynni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Páls A. Pálssonar hrl., sem ákveðst 500.000  kr. greiðist úr ríkissjóði.   

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Landgræðslusjóður og Ingibjörg Magnúsdóttir, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, íslenska ríkisins, í þessu máli.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Páls A. Pálssonar hrl., 500.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.

 

Eggert Óskarsson