- Afréttur
- Eignarréttur
- Landamerki
- Þjóðlenda
Ár 2006, föstudaginn 15. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp dómur í máli nr. E-496/2005:
Ásdís Eyrún Sigurjónsdóttir o.fl.
(Bragi Björnsson, hdl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Skarphéðinn Þórisson, hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 1. nóvember s.l., er höfðað með stefnu birtri 13. september 2005.
Stefnendur eru Ásdís Eyrún Sigurjónsdóttir og Ragnar Jónsson, eigendur jarðarinnar Dalshöfða í Fljótshverfi í Skaftárhreppi og Davíð Pétursson, eigandi jarðarinnar Brattlands á Síðu, en mál hans var upphaflega rekið sem mál nr. E-497/2005 hér fyrir dómi, en við upphaf aðalmeðferðar voru málin sameinuð.
Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er fjármálaráðherra stefnt.
Dómkröfur stefnenda eru eftirfarandi:
Stefnendur Ásdís og Ragnar krefjast þess að úrskurður óbyggðanefndar dags. 10. desember 2004 í málunum nr. 8/2003, Síða, Landbrot og Brunasandur ásamt fyrrum Leiðvallarhreppi, nú í Skaftárhreppi og nr. 9/2003, Fljótshverfi í Skaftárhreppi, um norðurmörk jarðarinnar Dalshöfða í Fljótshverfi, þ.e.a.s. þess hluta hennar er liggur vestan Hverfisfljóts, verði fellur úr gildi, þ.e. sá hluti úrskurðarlínu óbyggðanefndar sem dregin er frá landamerkjum Brattlands á Síðu og Dalshöfða, með stefnu úr Upsatanga (eins og óbyggðanefnd telur hann vera) beint í toppinn á Hnútu í Hverfisfljót. Þá er þess krafist að merki jarðarinnar Dalshöfða vestan Hverfisfljóts gagnvart Síðumannafrétti verði ákveðin með dómi á eftirfarandi hátt: úr punkti (nr. 2) þar sem mætast landamerki Brattlands og Dalshöfða að sunnan og lína sjónhending að vestan úr Hallsteinsvörðu í stóra gilið í Hnútu, sjónhending norðan við Hnútu í punkt (nr. 3) í Hverfisfljóti. Jafnframt er þess krafist að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar um þjóðlendu og afrétt jarða á Síðu í Landbroti og Brunasandi sunnan greindrar línu innan þinglesinna landamerkja jarðarinnar Dalshöfða.
Stefnandi Davíð krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar dags. 10. desember 2004 í málinu nr. 8/2003, Síða, Landbrot og Brunasandur ásamt fyrrum Leiðvallarhreppi, nú í Skaftárhreppi, um norðurmörk jarðarinnar Brattlands verði felldur úr gildi, það er um mörk milli Brattlands og Síðumannaafréttar sem nú er þjóðlenda, þ.e. sá hluti úrskurðarlínu óbyggðanefndar sem er með stefnu úr Hallsteinsvörðu og þaðan beint í Upsatanga (eins og óbyggðanefnd telur hann vera), á milli punktanna I og II á kröfukorti og síðan til norðausturs yfir Eldhraun þannig að línan liggur yfir toppinn á Hnútu, á milli punktanna II og III. Þá er þess krafist að norðurmörk jarðarinnar Brattlands, þ.e. mörk milli Brattlands og Síðumannaafréttar sem nú er þjóðlenda verði ákveðin með dómi á eftirfarandi hátt: Úr vörðu á Upsatanga þaðan í austurátt í Eldhraunið miðja vegu á milli Upsatanga og Hnútu eftir línu sem miðast við sjónhendingu úr Hallsteinsvörðu í gil norðarlega í Hnútu. Jafnframt er þess krafist að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar um þjóðlendu og afrétt jarða á Síðu í Landbroti og Brunasandi sunnan greindrar línu innan þinglesinna landamerkja jarðarinnar Brattlands.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt reikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnendur fengu gjafsókn í máli þessu með leyfum dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettum 22. nóvember 2005 og 17. febrúar 2006.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar að skaðlausu.
Málavextir.
Með bréfi dagettu 12. október 2000 var fjármálaráðherra tilkynnt með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 að óbyggðanefnd hefði á fundi ákveðið að taka til meðferðar sem svæði 3 landsvæðið vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þetta svæði afmarkaðist til austurs af austurmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi og að sunnan afmarkaðist svæðið af hafinu, til norðurs í samræmi við tillögu starfshóps um stjórnsýslumörk á miðhálendinu frá 1996, en á Vatnajökli við línu þá sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína. Til vesturs náði kröfusvæðið að kröfusvæði 1, Árnessýslu. Fjármálaráðherra var veittur frestur til að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á svæðinu og eftir að kröfulýsingum hafði verið skilað var landeigendum og öðrum rétthöfum veittur frestur til að skila inn kröfugerðum. Stefnendur í máli þessu sendu inn kröfur til óbyggðanefndar um höfnun þjóðlendukrafna ríkisins og gerðu kröfu um beinan eignarrétt að jörðum sínum innan nánar tilgreindra merkja. Stefnendur tóku þátt í málarekstri fyrir óbyggðanefnd, en sérstök mál voru rekin um þjóðlendur í Síðu, Landbroti og Brunasandi ásamt fyrrum Leiðvallarhreppi, nú í Skaftárhreppi og Fljótshverfi í Skaftárhreppi sem mál nr. 8/2003 og 9/2003. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum frá 10. desember 2004 að land jarðanna, eins og nefndin afmarkaði það, væri ekki þjóðlenda.
Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá elstu ritheimildum um landnám á hinu umdeilda svæði og síðan rakin í stórum dráttum saga afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar á svæðinu frá öndverðu til uppkvaðningar úrskurðar.
Í úrskurðinum er Brattlandi svo lýst að Hörgslandsþorp liggi að því að vestan og jörðin Dalshöfði í Fljótshverfi að austan. Til norðurs sé Síðumannaafréttur og til suðurs Þverá. Hraunþekja liggi yfir austasta hluta þess landsvæðis sem hér um ræði. Til vesturs rísi brekka brött upp á víðáttumikið heiðar- og fjalllendi, einkennandi fyrir ofanverða Síðu. Úfið og óslétt Skaftáreldahraunið þeki meira en helming af landsvæði jarðarinnar og renni Öðulbrúará í vesturkanti þess niður á láglendi. Þverárdalur liggi norðan við Eyjalón og Geirlandstunga og Króksker (421 m) þar fyrir ofan.
Fyrstu lýsinguna á vesturmerkjum Brattlands gagnvart Hörgslandsþorpi mun að finna í úttekt jarðarinnar frá 1847. Þar segir að mörkin liggi úr Krókaskersvörðu beint norður í Upsatanga við afrétt. Merkjum er lýst með sambærilegum hætti í landamerkjabréfi jarðarinnar, dags. 18. júní 1886 og þingl. 15. júní 1887, eða úr vörðu á Krákaskeri eftir beinni línu norður á Upsatanga. Bréfið er samþykkt vegna Hörgslandsþorps. Í landamerkjabréfi Hörgslands, dags. 21. maí 1890 og þingl. 16. júní s.á., er merkjum lýst með sama hætti. Það er ekki samþykkt sérstaklega vegna Brattlands. Í landamerkjabréfi Hörgslandskots, Hörgslands og Múlakots, dags. 5. maí 1922 og þingl. 13. júlí s.á., er merkjum lýst úr Ystatanga að norðan, beina línu í vörðu á Krákuskeri. Það er ekki heldur samþykkt sérstaklega vegna Brattlands. Við skýrslutökur í málinu hjá óbyggðanefnd kom fram að Upsatangi eða Ufsatangi og Ystitangi eru sama örnefnið. Framangreindum merkjalýsingum ber því öllum saman. Hins vegar deila eigendur Brattlands annars vegar og eigendur jarða í Hörgslandsþorpi hins vegar um staðsetningu Ufsatanga. Af hálfu eigenda Hörgslandsþorps er byggt á því að Ufsatangi sé í stefnulínu til austurs frá Hallsteinsvörðu við tanga þar sem Öðulbrúará beygir úr austurstefnu í suðaustur. Eigendur Brattlands byggja hins vegar á því að Ufsatangi sé bæði vestar og norðar en ekki hefur tanginn þó verið staðsettur með nákvæmum hætti. Athugun óbyggðanefndar leiddi í ljós að sú staðsetning, sem eigendur Hörglandsþorps miða við og fær að mati nefndarinnar stuðning í framburði staðkunnugra í skýrslutökum fyrir nefndinni, vísar til tanga í landslagi en svo er ekki um það svæði sem eigendur Brattlands miða við. Að þessu virtu lagði óbyggðanefnd til grundvallar að Ufsatangi væri á þeim stað sem eigendur Hörgslandsþorps vísuðu til.
Í úrskurði nefndarinnar segir síðan svo orðrétt: „Fyrsta heimildin um austurmörk Brattlands gagnvart Dalshöfða er áður nefnd úttekt frá 1847. Þar segir að á landi jarðarinnar að austan liggi brunahraunið og landamerki séu því óviss. Í landamerkjabréfi Brattlands er mörkum gagnvart Dalshöfða lýst úr Eldhrauninu miðja vegu á milli Upsatanga og Hnútu beina línu fram úr Hrauninu austan við Grenháls þar til komi að markinu milli Brattlands og Þverár. Bréfið er samþykkt vegna Dalshöfða. Í landamerkjabréfi Dalshöfða, dags. 11. júní 1886 og þingl. 19. s.m., er vesturmörkum lýst úr Háakletti norður úr hrauni, mitt á milli Grenhálsa og Bæjarskers, norður í þvermark það sem skiptir heiðalandi og afrétti. Virðist því vera um sambærilega lýsingu að ræða. Dalshöfðabréfið er samþykkt vegna Brattlands.
Óljóst orðalag landamerkjabréfsins um mörk jarðarinnar til norðurs þarfnast sérstakrar athugunar.
Einu lýsinguna á norðurmörkum Brattlands gagnvart Síðumannaafrétti er að finna í landamerkjabréfi jarðarinnar. Þar er mörkum lýst úr Upsatanga miðja vega austur í Eldhraunið milli Upsatanga og Hnútu, að markinu milli Dalshöfða og Brattlands. Bréfið er ekki áritað sérstaklega vegna Síðumannaafréttar. Hvorki heimildir frá þessum tíma né eldri heimildir um mörk Síðumannaafréttar liggja fyrir. Í landamerkjabréfi Dalshöfða segir svo að Þvermarkið ráði austur að fljóti en fljótið eftir það norður í jökul.
Eins og rakið er í kafla 3.11. krefjast eigendur Brattlands þess að land jarðarinnar nái upp að línu sem dregin er úr Hallsteinsvörðu í austnorðaustur að svokölluðu hornmarki í Eldhrauni u.þ.b. 2 km norðan við Ufsatanga. Ekkert í landamerkjabréfi Brattlands eða öðrum heimildum gefur tilefni til þess að ætla að land jarðarinnar hafi náð norður fyrir Ufsatanga. Þá liggur ekkert fyrir um að nýtingu landsins hafi verið þannig háttað að glögg skil hafi afmarkað land jarðarinnar gagnvart afrétti norðar. Lýsing á Síðumannaafrétti frá 1998 hefur enga þýðingu í þessu sambandi enda byggist hún ekki á eldri skjallegum heimildum. Eigendur Brattlands hafa ekki sýnt fram á að þeir hafi réttmætar væntingar til þess að land þeirra nái lengra til norðurs en landamerkjabréf jarðarinnar sjálft tilgreinir eða hafi nýtt það með slíkum hætti. Á þessa kröfu eigenda Brattlands verður því ekki fallist.
Sem að framan greinir gera heimildir um merki Brattlands og Dalshöfða ráð fyrir merkjapunkti á milli Dalshöfða og Brattlands í Eldhrauni, á milli Ufsatanga og Hnútu. Ekki verður hins vegar sagt til um það með vissu hvar í hrauninu. Ufsatangi er nokkru sunnar en Hnúta og sé dregin lína til austurs frá Ufsatanga, sbr. framangreint orðalag í landamerkjabréfi Brattlands, lendir hún í Hverfisfljóti sunnan Hnútu. Með vísan til framangreinds telur óbyggðanefnd því eðlilegt að draga þvermarkið frá Ufsatanga til norðausturs yfir Eldhraun þannig að það liggi yfir toppinn á Hnútu og áfram í Hverfisfljót.
Enginn vafi er á því samkvæmt fyrirliggjandi heimildum að litið hafi verið svo á að land Brattlands næði norður að mörkum Síðumannaafréttar. Það leiðir því af framangreindri niðurstöðu óbyggðanefndar um landamerki jarðarinnar til norðurs, að suðurmörk Síðumannaafréttar liggja sunnar fyrir landi Brattlands en krafa er gerð um í máli þessu.
Í kjölfar þess að landamerkjalög taka gildi 1882 er gert landamerkjabréf fyrir Brattland. Fyrirliggjandi gögn benda ekki til annars en að merkjum sé þar rétt lýst. Bréfið er áritað af hálfu aðliggjandi jarða, þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki jarðarinnar án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna. Þá eru landamerkjabréf aðliggjandi jarða þinglesin og að hluta til árituð vegna Brattlands. Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Þá er og ljóst að eigendur Brattlands hafa um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst.
Kemur þá til skoðunar hvort land innan framangreindra merkja Brattlands hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu.
Ekki eru heimildir um annað en að jörðin Brattland hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Innan þeirra marka sem tilgreind eru 1886 hafa eigendur jarðarinnar farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Fjalllendi jarðarinnar og heiðarlönd hafa þar ekki verið undanskilin enda þótt nýting þar hafi verið takmörkuð.
Ekki verður annað séð en að eignarhald innan framangreindra merkja Brattlands hafi verið án ágreinings eða athugasemda sem þýðingu hafi. Engar heimildir eru um að land innan merkja jarðarinnar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða staðhættir, gróðurfar eða nýtingarmöguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi. Þar ber þess að geta að talið er vafalaust að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á Síðu, svo sem á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er, sbr. skjal nr. 12. Þá verður fyrirkomulag smölunar á þessu svæði ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu.
Að öllu framangreindu virtu hefur af hálfu íslenska ríkisins ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landamerkja Brattlands sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um eignarland að ræða án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.
Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að land Brattlands, svo sem því er að framan lýst, teljist ekki til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.“
Í úrskurðinum er Dalshöfða svo lýst að hann liggi á milli jarðanna Þverár og Brattlands til vesturs og Núpa og Seljalands til austurs. Norðan og vestan Dalshöfða sé Síðumannaafréttur. Sunnan Dalshöfða, á milli Þverár og Seljalands, liggi Hrunatorfa (þ.m.t. Teygingalækur). Að norðanverðu sé Síðujökull. Bæjarstæði Dalshöfða standi sunnan undir Dalsfjalli sem nái hæst 406 m hæð. Norðvestur af fjallinu sé nokkuð reglulegt fell sem nefnist Hnúta (539 m) og norður af því sé Brattháls. Nokkuð samfelldur fjallsrani teygji sig þannig inn að Síðujökli og rísi hæst í 878 m, u.þ.b. 5 km frá jökulrönd. Samsíða fjalllendinu liggi hraun sem runnið hafi niður á láglendi, Núpahraun að austanverðu og Eldhraun að vestanverðu. Núpahraunið nái inn að jökli og þeki um 24 km² á þessu svæði, það sé slétt og þakið gróðri að mestu. Brunná eigi upptök í Síðujökli austanverðum og renni lengst af austan við Núpahraun en síðan þvert yfir það og þá meðfram hraunkantinum að vestan. Eldhraun sé hins vegar úfið og óslétt. Hverfisfljót renni frá Síðujökli, vestur með Bratthálsi og Dalsfjalli en sneiði austur fyrir Hnútu og skeri þannig miðhluta fjallsranans frá öðrum hlutum hans. Talið sé að fyrir Skaftaárelda 1783 hafi fljótið runnið vestan Hnútu en hraunstraumurinn þvingað það austar. Þykkt lag af grámosa hafi breiðst yfir Eldhraun að mestu leyti þar sem Hverfisfljótið flæði ekki yfir það. Eiríksfellsá renni austan undir Bratthálsi við vesturjaðar Núpahrauns og falli í Hverfisfljótið skammt fyrir neðan Bárðarskarð þar sem fljótið skilji Hnútu frá Bratthálsi. Frá bæjum að jökli séu 20 km í beinni loftlínu.
Í úrskurðinum segir síðan svo orðrétt: „Í kjölfar þess að landamerkjalög taka gildi 1882 er gert landamerkjabréf fyrir jörðina Dalshöfða. Fyrirliggjandi gögn benda ekki til annars en að landamerkjum jarðarinnar sé þar rétt lýst, svo langt sem sú lýsing nær. Óbyggðanefnd telur jafnframt að líta verði til þess að land á þessu svæði er afmarkað af jöklum hið efra.
Landamerkjabréf jarðarinnar er áritað vegna aðliggjandi landsvæða utan Núpa og Síðumannaafréttar, þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki jarðarinnar, án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna. Landamerkjabréfum og öðrum heimildum um merki aðliggjandi jarða innan kröfusvæðis íslenska ríkisins, Brattlands og Núpa, ber saman við heimildir um merki Dalshöfða og bréf Brattlands frá 1886 er áritað vegna Dalshöfða. Landamerkjabréf Þverár, Hruna og Seljalands eru einnig þinglesin og tvö hin fyrstnefndu eru árituð af hálfu fyrirsvarsmanns Dalshöfða. Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Sá formgalli sem á landamerkjabréfi Dalshöfða er að því leyti að undirritanir vantar að hluta verður því ekki talinn hafa efnislega þýðingu hér. Jafnframt er ljóst að eigendur Dalshöfða hafa um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst.
Kemur þá til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan framangreindra merkja.
Því er haldið fram af hálfu íslenska ríkisins að Eiríksfell sé þar sem nú kallist Brattháls og Hnúta og að réttur Kálfafellsstaðar til Eiríksfells mæli gegn beinum eignarrétti Dalshöfða á svæðinu. Svo sem fram kemur í kafla 5.4. segir svo í lögfestu Kálfafellskirkjuprests frá 1695, „Jtem lögfesti eg Eýrýksfell... “ Eiríksfell er einnig talið með eignum Kálfafellsstaðar í vísitasíum 1641, 1677 og 1848. Fellið er fyrst talið upp á eftir kirkjujörðum en á undan fjöruítökum, afrétti o.fl., en síðar á eftir upptalningu ýmiss konar ítaka en á undan afrétti. Á Eiríksfell er hins vegar ekki minnst í landamerkjabréfum Dalshöfða 1886 eða Kálfafells, Kálfafellskots eða Blómsturvalla 1922. Þá verður það ekki fundið á kortum Landmælinga Íslands. Eiríksfellsá er hins vegar merkt inn á kort og rennur austan undir Bratthálsi. Í örnefnaskrá Dalshöfða segir að Brattháls, norðan við Eiríksfellsá, sé „í fornum máldögum Kálfafellskirkju nefndur Eiríksfell“. Um það virðist ekki ágreiningur.
Eiríksfell verður ekki staðsett með vissu og jafnframt er óljóst um rétt Kálfafellsstaðar til þess enda þótt síðari heimildir bendi til ítaks. Jafnframt ber þess að geta að óbyggðanefnd telur tilvist ítaks fremur benda til þess að svæði það sem ítakið er á sé eða hafi einhvern tíma verið eignarland. Ljóst er að Brattháls og hluti Hnútu er innan landamerkjalýsingar Dalshöfða 1886 og engar heimildir um tilkall til Eiríksfells af hálfu Kálfafellsstaðar eftir 1848. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að heimildir um réttindi Kálfafellsstaðar í Eiríksfelli, þar sem nú kann að kallast Brattháls eða Hnúta, mæli gegn því að landamerki Dalshöfða hafi náð til þessa svæðis. Sama máli gegnir um nytjar Síðumanna og Dalshöfða af Hnútu og afréttartoll þann sem greiddur var eigendum Dalshöfða vegna Hnútu, sbr. gerðabók fasteignamatsnefndar 1916 og jarðamatsnefndar 1849-1850 enda liggja merki jarðarinnar og afréttarins samkvæmt framangreindu yfir hana þvera.
Þá er hér að framan komist að þeirri niðurstöðu að ekkert í landamerkjabréfi Dalshöfða styðji hins vegar þá kröfu eigenda jarðarinnar í máli þessu að merki hennar verði talin ná norður fyrir Hnútu. Hér er því við að bæta að eigendur Dalshöfða hafa ekki sýnt fram á að þeir hafi réttmætar væntingar til þess að land þeirra nái lengra til norðurs en landamerkjabréf jarðarinnar tilgreinir.
Ekki eru heimildir um annað en að jörðin Dalshöfði hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Innan þeirra marka sem tilgreind eru 1886, svo sem þeim er nánar lýst hér framar og að því marki sem land hefur komið undan jökli síðan hafa eigendur jarðarinnar farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Fjalllendi og hraun undan jökli hefur ekki verið þar undanskilið enda þótt nýting þar hafi verið takmörkuð.
Ekki verður annað séð en að þetta eignarhald hafi verið án ágreinings eða athugasemda. Engar heimildir eru um að land innan marka jarðarinnar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða staðhættir, gróðurfar eða nýtingarmöguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi. Þar ber þess að geta að talið er vafalaust að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja í Fljótshverfi, sem og á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er, sbr. skjal nr. 10. Þá verður fyrirkomulag smölunar ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu. Sá jökuljaðar, sem eigendur jarðarinnar Dalshöfða gætu hafa horft til þegar þeir lýstu merkjum í jökul 1886, hefur gengið til baka. Land, sem þá var hulið jökli, er því jökullaust nú.
Sá jökuljaðar, sem líkur eru á að landnám hafi miðast við hefur hins vegar síðar gengið fram. Land, sem nú er hulið jökli, hefur því verið jökullaust á þeim tíma. Engin leið er að ákvarða með nokkurri vissu hvaða landsvæði hafa horfið undir jökul frá landnámi. Þá hefur óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að þegar merki jarðar eru miðuð við jaðar jökuls og þeim því ekki lýst nema að takmörkuðu leyti í landamerkjabréfi beri að miða við stöðu jökuljaðarins við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll. Um réttarstöðu þess jökulsvæðis ofan Dalshöfða, sem til meðferðar er í máli þessu, vísast til kafla 6.7.
Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu íslenska ríkisins að land innan tilgreindra landamerkja jarðarinnar Dalshöfða sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um eignarland að ræða, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.
Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að land jarðarinnar Dalshöfða, svo sem því er að framan lýst, að jökuljaðri eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, teljist ekki til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.“
Stefnendur undu ekki þeim niðurstöðum óbyggðanefndar er sneru að afmörkun landsvæðisins og krefjast því ógildingar úrskurðarins eins og að framan er rakið.
Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málum nr. 8/2003 og 9/2003, sem kveðinn var upp 10. desember 2004, var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58/1998. og er málshöfðun þessi því í samræmi við ákvæði 19. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Stefnandi, eigandi Brattlands, byggir málatilbúnað sinn á landamerkjabréfi Brattlands dags. 15. júní 1886 þar sem er að finna lýsingu á norðurmörkum Brattlands gagnvart Síðumannaafrétti. Þar sé mörkum lýst úr Upsatanga miðja vega austur í Eldhraunið milli Upsatanga og Hnútu, að markinu milli Dalshöfða og Brattlands, þ.e. úr punkti 3 í punkt 2 á fyrirliggjandi kröfukorti. Í úrskurði sínum styðjist óbyggðarnefnd við sama landamerkjabréf en staðsetji landamerkjapunkta á röngum stað að mati stefnanda.
Stefnandi byggir á því að hornmarkið, sem nefnt er Upsatangi í landamerkjabréfinu, þ.e. punktur 3 á kröfukorti, sé í vörðu, nyrst í Upsum, við tanga beint undan Stóragili. Varða þessi sé mjög áberandi kennileiti og auðsjáanlega mjög gömul og vandað til hennar. Því megi telja hana nokkuð örugga viðmiðun. Varðan sé sem næst miðja vegu á sjónhendingarlínu milli Hallsteinsvörðu og stórs gils í Hnútu. Heimamenn hafi ávallt talið að suðurmörk Síðumannafréttar væru í beinni línu úr Hallsteinsvörðunni í framangreint gil, sbr. bréf hreppsnefndar Skaftárhrepps til sýslumannsins í Vík dags. 19. júní 1998 og vitnaskýrslur staðkunnugra fyrir óbyggðanefnd. Frá umræddri vörðu sjáist vel til gilsins í Hnútu og Hallsteinsvörðu sem sé eitt helsta kennileiti og auðkenni á svæðinu. Að auki sé varðan nánast í beinni línu á milli Hallsteinsvörðu og gilsins í Hnútu. Með hliðsjón af staðháttum þyki augljóst að varðan sé landamerkjavarða, enda glögg og mjög áberandi, og auðvelt að miða við hana þegar farið sé um landið.
Að sama skapi þykir stefnanda staður sá sem óbyggðanefnd miðar við í úrskurði sínum og telur vera Upsatanga óglöggt og óskynsamlegt landamerki. Umræddur staður sé suðaustan við fyrrnefnda landamerkjavörðu, við tanga þar sem Öðulbrúará beygir úr austurstefnu í suðaustur. Við vað á ánni þar sé lítil varða sem landeigendur í Hörgslandi, sem er næsta jörð vestan við Brattland, telji að sé merki á milli jarðanna en þó ekki hornmark. Stefnandi og eigendur Hörgslands deili um staðsetningu Upsatanga. Framangreint vörðubrot sé lítið og virðist ekki ýkja gamalt. Staðsetning þess sé nokkuð sérstök þar sem það standi lágt við áberandi foss í Öðulbrúará og því sé varðan algerlega óþörf hafi menn viljað nota þetta svæði sem mark í landamerkjalínu. Megi helst ætla að hún hafi verið hlaðin til að merkja vað á ánni. Að auki megi benda á að í vettvangsferð með óbyggðanefnd hafi komið fram að líklega hafi hún verið hlaðin á síðustu öld löngu eftir að landamerkjabréf jarðanna voru gerð. Það sem mestu máli skipti þó sé að frá þessu vörðubroti syðst í Upsum sjáist ekki til annarra merkja eða kennileita á svæðinu s.s. í gilið í Hnútu eða þá vörðu sem stefnandi miðar við. Þaðan sjáist ekki í Hallsteinsvörðu sem sé eitt helsta kennileiti og mark á þessum slóðum og hitt endamark jarðarinnar Hörglands. Allt þetta þykir stefnanda draga úr líkindum þess að vörðubrotið sé það landamerki sem miðað sé við í landamerkjabréfi Brattlands.
Í úrskurði sínum rökstyðji óbyggðanefnd ákvörðun sína um staðsetningu landamerkisins á þann hátt að staðsetningin vísi til tanga í landslaginu og fái stuðning í framburði staðkunnugra fyrir nefndinni. Ekki sé tiltekið um hvaða framburð sé að ræða og við lestur vitnaskýrslna sé erfitt að finna honum stað. Af því tilefni bendir stefnandi á að ef hæðarlínur séu skoðaðar standi varða sú sem stefnandi miðar við, einnig rétt við tanga á Upsum sem sé heildarheiti yfir stórt brattlendi á þessu landsvæði, sem nái frá Stóragili í vestri u.þ.b. austur að því marki sem óbyggðanefnd telji að Upsatangar séu.
Þá hafi staðkunnugum ekki borið saman fyrir óbyggðanefnd að öllu leyti um staðsetningu örnefnisins Upsatanga en hins vegar hafi þeim borið saman um að varða sú sem stefnandi miðar landamerki sín við væri á afréttarmörkum. Hafi Sigurður Kristinsson, bóndi (ábúandi) á Hörgslandi II, fjallkóngur á Austurafrétti m.a. sagt að hann teldi þá vörðu sem stefnandi telur vera við Upsatanga vera réttara mark en það sem haldið væri fram af hálfu Hörglandsþorps og óbyggðanefnd styðji niðurstöðu sína við. Hið sama hafi komið fram í vitnaskýrslu Steingríms Lárussonar, fæddum og uppöldum í Hörglandskoti, nú búsettum í Hörgslandi I, en hann hafi borið skýrt vitni um það að varðan, sem stefnandi miði kröfugerð sína við, væri afréttarvarða, þ.e. varðan væri á mörkum Brattlands og afréttar. Framburður stefnanda fyrir óbyggðanefnd hafi verið á sama veg.
Þá byggir stefnandi á því að hornmarkið „miðja vega austur í Eldhraunið milli Upsatanga og Hnútu“ þ.e. punktur 2, liggi sem næst á miðri línu sem hugsast dregin frá Upsatanga að stóra gilinu í Hnútu. Um sé að ræða miðpunkt á sjónhendingarlínu frá landamerkjavörðunni á Upsum í stóra gilið í Hnútu, en gilið sé mjög áberandi og gott mark. Hafi heimamenn ætíð miðað við það s.s. fram kom í vitnaskýrslum Baldurs Þ. Bjarnasonar, Múlakoti, Steingríms Lárussonar, Hörgslandi I og stefnanda.
Stefnandi byggir á því að heimildir um merki Brattlands og Dalshöfða geri ráð fyrir landamerkjum á milli jarðanna í miðju Eldhrauni á milli Upsatanga og Hnútu. Hafi mörkin á milli þessara jarða verið ágreiningslaus og einnig staðsetning þessa landamerkis. Þyki landamerki þau sem stefnandi heldur fram glögg og skynsamleg með hliðsjón af öllum staðháttum. Í úrskurði óbyggðanefndar sé ekki tiltekið neitt hornmark á þessu svæði heldur sé einungis dregin afréttarlína töluvert sunnan við hornmarkið. Af því verði að draga þá ályktun að óbyggðanefnd geri ráð fyrir því að hornmark Brattlands sé þar sem marklínan á milli Brattlands og Dalshöfða skeri afréttarlínu þá sem nefndin úrskurðaði um. Sá skurðpunktur sé nokkuð sunnar en kröfulína íslenska ríkisins.
Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar sé línan dregin frá Upsatanga (eins og nefndin ranglega staðsetji hornmarkið að mati stefnanda) beint yfir í toppinn á Hnútu án þess að færð séu nein rök fyrir því hvers vegna miðað sé við toppinn á Hnútu, þegar allir vitnisburðir bendi til þess að miða beri við stóra gilið í Hnútu. Megi í raun segja að lína þessi sé með öllu órökstudd. Í skýrslutökum fyrir nefndinni komi skýrlega fram að draga ætti mörkin á milli Brattlands og Síðumannaafréttar eftir þeirri línu sem stefnandi miði dómkröfur sínar við. Þá hafi komið fram í skýrslutökunum að fé væri rekið upp fyrir þessa línu og þegar afrétturinn væri smalaður væri smalað að henni.
Stefnandi byggir á því að lína sú sem óbyggðanefnd dragi, sé fyrir sunnan kröfulínu þá sem stefndi hafi lagt fram sem syðstu mörk þjóðlendu á þessu landsvæði. Telur stefnandi að óbyggðanefnd hafi ekki verið heimilt að fella land til þjóðlendu umfram það sem ýtrustu kröfur stefnda gerðu ráð fyrir enda sýnist það ekki vera í samræmi við tilgang og markmið þjóðlendulaga. Sé það einnig í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem ætti að vega þyngra en rannsóknarskylda nefndarinnar. Þá hafi stefnandi byggt á því fyrir óbyggðanefnd að málatilbúnaður hans ætti að miðast við að verjast kröfum stefnda og hann þyrfti ekki að sýna fram á eignarrétt sinn frekar en það. Hann þyrfti því hvorki að færa rök fyrir landamerkjum sem lægju langt sunnan eða neðan kröfulínu stefnda né að færa fram sönnur á að það land sem þar lægi, væri fullkomið eignarland hans. Ógerningur væri að rökstyðja eignarhald á hverri þúfu auk þess sem það þýddi í raun að landeigendur hefðu ekki hugmynd um hvaða málatilbúnaði þeir ættu að verjast. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þennan málflutning af hálfu óbyggðanefndar eða á nokkurn hátt gefið til kynna að svo kynni að fara að hún drægi merki langt fyrir neðan ýtrustu kröfulínu stefnda.
Stefnendur, eigendur Dalshöfða, byggja málatilbúnað sinn á landamerkjabréfi Dalshöfða dags. 11. júní 1886 þar sem sé að finna lýsingu á norðurmörkum Dalshöfða gagnvart Síðumannaafrétti. Þar sé mörkunum lýst sem þvermarki því sem skipti heiðalandi og afrétti og að það ráði allt austur að Hverfisfljóti. Í úrskurði sínum styðjist óbyggðanefnd við sama landamerkjabréf en staðsetji marklínuna á röngum stað að mati stefnenda.
Þegar staðsetja skuli þvermarkið beri að líta til landamerkjabréfs Brattlands dags. 18. júní 1886, en þar komi fram að landamerki á milli jarðanna séu í miðju Eldhrauni á milli Upsatanga og Hnútu. Stefnendur byggja á því að hornmarkið „miðja vega austur í Eldhraunið milli Upsatanga og Hnútu“ þ.e. punktur 2, liggi sem næst á miðri línu sem hugsast dregin frá Upsatanga að stóra gilinu í Hnútu. Um sé að ræða miðpunkt á sjónhendingarlínu frá landamerkjavörðunni á Upsum, sem sé vestara hornmark jarðarinnar Brattlands, í stóra gilið í Hnútu, en gilið sé mjög áberandi og gott mark. Framangreind lína liggi í sjónhendingarlínu frá Hallsteinsvörðu að Hnútu. Landamerki Dalshöfða og Brattlands að suðaustan sem myndi hornmarkið með framangreindri línu séu óumdeild.
Í úrskurði óbyggðanefndar sé ekki tiltekið neitt hornmark á þessu svæði heldur sé einungis dregin afréttarlína töluvert sunnan við hornmarkið. Af því verði að draga þá ályktun að óbyggðanefnd geri ráð fyrir því að hornmark Dalshöfða sé þar sem marklínan á milli Brattlands og Dalshöfða skeri afréttarlínu þá sem nefndin úrskurðaði um. Sá skurðpunktur sé nokkuð sunnar en kröfulína íslenska ríkisins. Helgist það aðallega af því að óbyggðanefnd hafi staðsett hornmarkið Upsatanga ranglega í úrskurði sínum í máli nr. 8/2003.
Í málinu er á því byggt að landamerki Dalshöfða vestan Hverfisfljóts, þ.e. mörk Dalshöfða og Síðumannafréttar, megi rekja til þess tíma er Hverfisfljót rann norðan og vestan fjallsins Hnútu, milli þess og Miklafells, og skipti löndum á milli jarðanna Dals ytri og austari, nú Þverár/Brattlands á Síðu og Dalshöfða í Fljóthverfi. Nægar jarðfræðilegar heimildir séu fyrir þessari legu Hverfisfljóts fyrir Skaftárelda og því að hraun það er rann vestan Hnútu sumarið 1783 þvingaði Hverfisfljót úr farvegi austur fyrir Hnútu og allt austur að Dalsfjalli þar sem það renni enn þann dag í dag. Merki þau sem Hverfisfljót myndaði á milli bæja á Síðu og í Fljótshverfi hafi horfið í hraun, þó að enn megi finna leifar fljótsfarvegarins á nokkru svæði í hrauninu norðan og vestan Hnútu. Landamerki hafi ekki færst með fljótinu, en merkin hafi orðið að skýra þar sem hinn forni farvegur fljótsins var að mestu horfinn.
Bærinn Dalshöfði hafi verið byggður í landi Eystra-Dals árið 1802, en jörðin hafði þá að líkindum legið í eyði síðan um Skaftárelda. Í sóknarlýsingu sem gerð hafi verið af prestinum á Kálfafelli, dagsett 12. júlí 1859 komi skýrt fram að fjallið Hnúta sé talið innan landamerkja Dalshöfða.
Á því er byggt að landamerkjabréf fyrir jarðirnar Dalshöfða, Brattland og Þverá hafi verið gerð á árunum 1886-1890. Þessi bréf skýrðu merki á milli Dalshöfða annars vegar og Þverár og Brattlands hins vegar. Hafi þau verið ágreiningslaus síðan, og raunar ekki svo vitað sé valdið ágreiningi áður, í hrauninu alllangt vestan Hverfisfljóts og Hnútu.
Stefnendur byggja á því að punktur 2 í dómkröfum miðist við þau mörk afréttar sem almennt hafi verið miðað við austan Hallsteinsvörðu sem mörk viðkomandi jarða á Síðu og afréttar og koma bæði fram í skýrslutökum fyrir óbyggðanefnd og í örnefnaskrám fyrir Síðumannaafrétt, þ.e. lína til austurs úr Hallsteinsvörðu með stefnu í stóra gilið í Hnútu. Sjónhending úr fyrrnefndum punkti 2 með norðurhlið Hnútu, til austurs í Hverfisfljót virðist stefnendum vera vægasta aðferð til að ákvarða þessa línu, því sunnar hafi fljótið örugglega ekki runnið þegar það rann norðan og vestan Hnútu og megi raunar geta þess að norðan þessarar línu megi enn þann dag í dag finna fornan fljótsfarveg í hrauninu þar sem Hverfisfljót hafi runnið þegar Skaftáreldar hófust. Sé þessi aðferð við afmörkun landamerkja sambærileg við þá sem óbyggðanefnd beiti sjálf við ákvörðun norðurmerkja jarðarinnar Skálar gagnvart Síðumannaafrétti, í úrskurði sínum í máli nr. 8/2003. Þá vekja stefnendur athygli á að bæði í örnefnaskrám og vitnisburði Síðumanna fyrir óbyggðanefnd hafi komið glöggt fram að Síðumenn telji fjallið Hnútu innan landamerkja jarðarinnar Dalshöfða en ekki hluta af hinum eiginlega Síðumannaafrétti.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar í máli nr. 8/2003 að Ufsatangi sé í stefnulínu til austurs frá Hallsteinsvörðu, suðsuðvestur af toppi Hnútu, við tanga þar sem Öðulbrúará beygir úr austurátt í suðaustur. Þá er á því byggt að nefndin bendi á það í úrskurði sínum að heimildir um merki Dalshöfða og Brattlands geri ráð fyrir að merkjapunktur milli jarðanna í Eldhrauni sé á milli Ufsatanga og Hnútu, en ekki verði með vissu sagt til um hvar í hrauninu. Ufsatangi sé nokkru sunnar en Hnúta og sé dregin lína til austurs frá Ufsatanga, sbr. orðalag landamerkjabréfs Brattlands, lendi hún í Hverfisfljóti sunnan Hnútu. Með vísan til þessa hafi nefndin talið eðlilegt að draga þvermarkið frá Ufsatanga til norðausturs yfir Eldhraun þannig að það liggi yfir toppinn á Hnútu og áfram í Hverfisfljót. Stefndi fellst ekki á að neitt í landamerkjabréfum Dalshöfða og Brattlands eða öðrum heimildum styðji þá kröfu stefnenda að merki jarðanna hafi náð annars vegar norður fyrir Hnútu og hins vegar norður fyrir Ufsatanga.
Stefndi vísar til þjóðlendulaga nr. 58/1998, laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986 og landamerkjalaga nr. 41/1919 og eldri laga nr. 1882. Þá er vísað til ákvæða lögbókanna Grágásar og Jónsbókar um afréttarmál.
Niðurstaða.
Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Með bréfi dagsettu 12. október 2000 tilkynnti nefndin fjármálaráðherra að tekin yrðu til meðferðar nánar tilgreind landsvæði í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, þ.e.a.s. vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar og austan Þjórsár, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna, en þetta svæði var hið þriðja sem til meðferðar kom hjá nefndinni. Að fengnum kröfulýsingum fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins gerðu stefnendur í máli þessu þá kröfu fyrir nefndinni að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur þeirra að jörðum sínum innan nánar tilgreindra merkja. Stefnendur tóku þátt í málarekstri fyrir óbyggðanefnd, en sérstök mál voru rekin um þjóðlendur í Síðu, Landbroti og Brunasandi ásamt fyrrum Leiðvallarhreppi, nú í Skaftárhreppi og Fljótshverfi í Skaftárhreppi sem mál nr. 8/2003 og 9/2003. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum frá 10. desember 2004 að land jarðanna, eins og nefndin afmarkaði það, væri ekki þjóðlenda.
Dómarinn fór á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður.
Í 1. gr. þjóðlendulaga er eignarland þannig skilgreint að um sé að ræða landsvæði sem háð sé eignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þá er þjóðlenda þannig skilgreind að um sé að ræða landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Afréttur er skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Eins og að framan er rakið skal hlutverk óbyggðanefndar vera m.a. að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur, sbr. b-lið 7. gr. laganna og jafnframt að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. c-lið 7. gr. laganna.
Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.
Í greinargerð með þjóðlendulögunum er að því vikið að með afrétti sé almennt átt við tiltekið, afmarkað landsvæði, en skiptar skoðanir séu um hvort einungis geti verið um beitarrétt eða annan afnotarétt að ræða, þ.e. hvort slíkt landsvæði geti ýmist verið undirorpið beinum eða óbeinum eignarrétti. Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. laganna er hugtakið afréttur skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé og ráðast mörk afréttar þannig af því landsvæði sem sannanlega hafi verið nýtt til sumarbeitar fyrir búpening.
Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 58/1998, var tekið fram að ekki verði að lögum settar sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land teljist eignarland í merkingu laganna, heldur ráðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í einstöku tilviki. Gildir sú regla því sem endranær að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa.
Eins og mál þetta er vaxið ræðst niðurstaða þess af því hvar Ufsatangi er en fram hefur komið við meðferð málsins að nákvæm staðsetning þess örnefnis virðist nokkuð á reiki. Þá hefur komið fram í málinu að eigendur Brattlands annars vegar og eigendur jarða í Hörgslandsþorpi hins vegar deila um staðsetningu Ufsatanga. Eins og að framan er rakið og fram kemur í landamerkjabréfi Brattlands er mörkum gagnvart Dalshöfða lýst úr Eldhrauninu miðja vegu á milli Upsatanga og Hnútu beina línu fram úr Hrauninu austan við Grenháls þar til komi að markinu milli Brattlands og Þverár. Við vettvangsgöngu dómsins kom greinilega í ljós að frá vörðu þeirri er stefnendur miða við, sást greinilega til Hallsteinsvörðu og gilsins í Hnútu. Hins vegar kom í ljós að frá vörðu þeirri sem óbyggðanefnd miðar við sást ekki til Hallsteinsvörðu en þaðan sást til Hnútu en ekki jafn greinilega til gilsins þar. Þá var sú varða varla greinanleg í landslaginu og sást raunar ekki fyrr en komið var að bakka Öðulbrúarár. Með hliðsjón af framansögðu og með vísan til þess að varða sú sem nefndin miðar við er utan kröfulínu stefnda virðist dóminum því einsýnt að miða beri mörk jarða stefnenda gagnvart Síðumannaafrétti við þá vörðu sem stefnendur hafa miðað við, enda þykir sú niðurstaða ekki fara í bága við fyrirliggjandi landamerkjabréf. Hins vegar hafa stefnendur ekki fært nægar sönnur fyrir því að mörkin nái norður fyrir gilið í Hnútu og ber því að miða við að norðausturmörkin við Hverfisfljót séu við punkt sem merktur er IV á kröfukorti og óbyggðanefnd hefur miðað við í úrskurði sínum.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Braga Björnssonar, hdl., 700.000 krónur. Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður hans 63.068 krónum.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
DÓMSORÐ:
Úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 8/2003, Síða, Landbrot og Brunasandur ásamt fyrrum Leiðvallarhreppi, nú í Skaftárhreppi og nr. 9/2003, Fljótshverfi í Skaftárhreppi, að því er varðar norðurmörk jarðanna Dalshöfða í Fljótshverfi og Brattlands á Síðu gagnvart Síðumannaafrétti er felldur úr gildi og er viðurkennt að sunnan línu frá punkti 3 á kröfukorti, við vörðu þá sem stefnendur miða við, að punkti 2 á kröfukorti við mörk jarðanna og að punkti IV á kröfukorti við Hverfisfljót, sé engin þjóðlenda.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Braga Björnssonar, hdl., 700.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson.