- Afréttur
- Eignarréttur
- Landamerki
- Þjóðlenda
Ár 2006, þriðjudaginn 17. október, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp dómur í máli nr. E-493/2005:
Sjöfn Guðjónsdóttir o.fl.
(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)
og Prestssetrasjóður
(Ólafur Björnsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu.
(Skarphéðinn Þórisson hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 24. ágúst s.l., er höfðað með tveimur stefnum birtum 14. september 2005.
Stefnendur eru Sjöfn Guðjónsdóttir, eigandi Árnagerðis, Hallur Björgvinsson, ábúandi Bjargarkots, Önundur Björnsson, ábúandi Breiðabólsstaðar, Sigmundur Vigfússon, Ásdís Vigfúsdóttir, Guðríður S. Vigfúsdóttir, Gunnar Vigfússon, Héðinn Vigfússon, Sigurður Ísleifsson og Karl Arnar Helgason, eigendur Flókastaða, Jón Kristinsson og Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, eigendur Lambeyjar, Fannar Jónasson, eigandi Núps I, Sigrún Kristjánsdóttir, eigandi Núps II, Kristinn Jónsson, eigandi Staðarbakka, Vilmundur R. Ólafsson, ábúandi Eystri-Torfastaða I, Bjarni E. Sigurðsson, ábúandi Eystri-Torfastaða II, Ragnar Matthías Lárusson og Fríða Björk Hjartardóttir, eigendur Stóradals, Katrín Birna Viðarsdóttir og Sigurður Grétar Ottósson, eigendur Ásólfsskála og Rangárþing eystra í umboði annarra rétthafa skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 58/1998.
Prestssetrasjóður er einnig stefnandi málsins og hefur hann stefnt öllum ofangreindum stefnendum til réttargæslu. Mál þessi hafa verið sameinuð.
Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er fjármálaráðherra stefnt.
Dómkröfur fyrsttalinna stefnenda eru eftirfarandi: Að felld verði úr gildi sú niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003: um Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra í úrskurði frá 10. desember 2004, að afréttarlandið Þórsmörk í Rangárþingi eystra teljist þjóðlenda. Jafnframt er þess krafist aðallega að stefnendur eigi í óskiptri sameign beinan eignarrétt að afréttarlandi þessu, sem afmarkast þannig:
Frá upptökum Þröngár í Mýrdalsjökli allt niður í Markarfljót, þá Markarfljót þar til Krossá fellur í það, þaðan Krossá allt að upptökum hennar í sama jökli. Á milli tveggja framangreindra punkta við jaðar Mýrdalsjökuls eins og hann er á hverjum tíma.
Verði talið að afrétturinn teljist þjóðlenda er krafist viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti stefnenda til hvers kyns gagna og gæða á afréttarlandinu að engum afnotum undanskildum. Stefnendur krefjast þess að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en þessir stefnendur fengu gjafsókn í máli þessu með leyfum dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettum 20. júní og 28. október 2005.
Verði ekki fallist á að stefnendur eigi allt land í Þórsmörk er þess krafist til vara að viðurkennt verði að stefnendur eigi afréttinn í óskiptri sameign að þremur fjórðu hlutum og til þrautavara að hálfu. Að öðru leyti eru sömu kröfur gerðar.
Þessir stefnendur vefengja eignaraðild Oddakirkju að Þórsmörk og hafa stefnt henni til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda Prestssetrasjóðs sem eiganda jarðanna Odda á Rangárvöllum og Breiðabólsstaðar í Fljótshlíð eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í málinu nr. 5/2003 þess efnis að ½ Þórsmörk (eignarhluti þessa stefnanda á Þórsmörk) og Goðaland sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:
„landsvæði það sem nefnt er Þórsmörk, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Frá upptökum Þröngár í Mýrdalsjökli allt niður í Markarfljót, þá Markarfljót þar til Krossá fellur í það, þaðan Krossá allt að upptökum hennar í sama jökli. Á milli framangreindra tveggja punkta við jaðar Mýrdalsjökuls er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.
Sama landsvæði er í afréttareign eigenda jarða í Fljótshlíð austan Breiðabólstaðartorfu og Odda á Rangárvöllum, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“
og
„landsvæði það, sem nefnt er Goðaland, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Þaðan sem Hrunaá kemur undan Tungnakvíslajökli í Mýrdalsjökli og þangað sem hún sameinast Krossá. Síðan er Krossá fylgt þar til Hvanná sameinast henni. Þaðan liggja merki fyrst í Hvanná og síðan í Innri-Hvanná, að upptökum hennar við Eyjafjallajökul. Á milli framangreindra punkta við jaðra Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll., og þeirra á milli ræður lína sem dregin er beint til austurs og vesturs frá Þrívörðuskeri að jökulbrúnum.
Sama landsvæði er í afréttareign Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“
Þessi stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að Goðaland sé eignarland stefndanda og að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra landamerkja Goðalands, sem eru skv. landamerkjaskrá fyrir Goðaland auglýst 8. maí 1891:
„Að innanverðu ræður gil það ofanfrá Eyjafjallajökli, sem nú er á milli Múlatungna og hinna svokölluðu Hruna á Goðalandi allt niður í Krossá, þá Krossá frameftir (eða miður farvegur hennar) milli Goðalands og Þórsmerkur þar til Hvanná fellur í hana, þá Hvanná og Hvannárgil milli Goðalands og Stakkholts upp til Merkurtungna og síðan norður gilið milli Goðalands og Merkurtungna upp til jökuls.“
Þessi stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að ½ Þórsmörk sé háð beinum eignarrétti stefnanda í óskiptri sameign með réttargæslustefndu og enga þjóðlendu sé að finna innan landamerkja Þórsmerkur, samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Þórsmörk sem gert var árið 1892:
„Markið að norðan, sem aðskilur Þórsmörk og Almenninga, afrétt Eyfellinga í Holtssókn er á, sem heitir Þröngá, allt frá upptökum hennar upp við jökul og þar til hún fellur í [Markarfljót síðan ræður]
Markarfljót allt fram á móts við Þórsmerkurrana. Enn að sunnanverðu Krossá, sem aðskilur Þórsmörk og afréttina sunnan árinnar, Teigs og Múlatungur,Goðaland og Stakkholt allt frá upptökum hennar upp við jökul og alla leið fram fyrir Þórsmerkurrana.“
Þá er krafist viðurkenningar þess að rétt merki milli eignarlands stefnanda á Þórsmörk og Goðalandi og jökulþjóðlendu sé jökulbrún eins og hún er á hverjum tíma.
Þá er krafist málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt reikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en þessi stefnandi fékk gjafsókn í máli þessu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 15. desember 2005.
Dómkröfur stefnda eru þær að staðfestur verði úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í máli nr. 5/2003 hvað varðar eignarréttarlega stöðu Þórsmerkur og Goðalands sem þjóðlendu og stefndi þannig sýknaður af kröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu. Ekki eru af hálfu stefnda gerðar athugasemdir við aðild málsins.
Málavextir.
Með bréfi dagettu 12. október 2000 var fjármálaráðherra tilkynnt með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 að óbyggðanefnd hefði á fundi ákveðið að taka til meðferðar sem svæði 3 landsvæðið vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þetta svæði afmarkaðist til austurs af austurmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi og að sunnan afmarkaðist svæðið af hafinu, til norðurs í samræmi við tillögu starfshóps um stjórnsýslumörk á miðhálendinu frá 1996, en á Vatnajökli við línu þá sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína. Til vesturs náði kröfusvæðið að kröfusvæði 1, Árnessýslu. Fjármálaráðherra var veittur frestur til að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á svæðinu og eftir að kröfulýsingum hafði verið skilað var landeigendum og öðrum rétthöfum veittur frestur til að skila inn kröfugerðum. Stefnendur í máli þessu sendu inn kröfur til óbyggðanefndar um höfnun þjóðlendukrafna ríkisins og gerðu kröfu um beinan eignarrétt að Þórsmörk og Goðalandi. Stefnendur tóku þátt í málarekstri fyrir óbyggðanefnd, en sérstakt mál var rekið um þjóðlendur á Eyjafjallasvæði og Þórsmörk sem mál nr. 5/2003.
Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá elstu ritheimildum um landnám á hinu umdeilda svæði og síðan rakin í stórum dráttum saga afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar á svæðinu frá öndverðu til uppkvaðningar úrskurðar. Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að af frásögn Landnámu megi ráða að landnám á Eyjafjallasvæðinu hafi náð frá Jökulsá í austri að Markarfljóti í vestri og norðaustur með því. Hafi land undir Eyjafjöllum að öðru leyti verið afmarkað af Eyjafjallajökli, Mýrdalsjökli og hafinu. Norðan Eyjafjallajökuls og norðvestan Mýrdalsjökuls sé land fjalllent, mjög skorið giljum og víða all bratt, þá einna helst norðan undir jöklunum. Undirlendi og flatlendi svæðisins sé að finna með fram Markarfljóti og Krossá. Nefndin telur vafalaust að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á svæðinu verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú sé og jöklar minni.
Í úrskurði nefndarinnar segir svo að því er Þórsmörk varðar: „Í Landnámu eru nefndir bræður tveir, Ásbjörn og Steinfinnur Reyrketilssynir. Þeir námu land „fyrir ofan Krossá ok fyrir austan Fljót. Steinfinnr bjó á Steinfinnsstöðum, ok er ekki manna frá honum komit. Ásbjörn helgaði landnám sitt Þór ok kallaði Þórsmörk“. Steinfinnsstaðir eru taldir hafa verið á Almenningum norður af Þórsmörk. Þar hafa fundist kuml úr heiðni en að auki eru menjar um byggð á tveimur öðrum stöðum í Þórsmörk eins og greint er frá í kafla 5.1. Í Húsadal eru þó ekki sjáanlegar minjar um eldri byggð en frá um 1800. Þórður Tómasson í Skógum telur ekki loku fyrir það skotið að fleiri rústir kunni að finnast: „Raunar er enginn kominn til með að segja að jafnvel fjórða bæjarrústin eigi ekki eftir að finnast. Rústir geta vel leynst í Hamraskógum og Langadal, svo að dæmi séu nefnd.“ Þórsmörk er einnig nefnd í Njálu. Þar voru samkvæmt sögunni þrír bæir sem allir hétu í Mörk og bjó í miðbænum maður er kallaður var Björn hvíti. Ekki er vitað hvenær byggðin í Þórsmörk fór í eyði en líklega hefur það gerst töluvert áður en Oddaverjinn Jón Loftsson lét að því liggja við Þorlák biskup Þorláksson að hann ætlaði „að fara í Þórsmörk eða einhvern þann stað, er eigi sekist alþýða af samneyti við mik“. Þetta mun hafa gerst um 1180.“
Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að í kjölfar þess að landamerkjalög taka gildi 1882 sé gert landamerkjabréf fyrir Þórsmörk og Goðaland. Fyrirliggjandi gögn bendi til þess að landamerkjum svæðisins sé þar rétt lýst, svo langt sem sú lýsing nær. Óbyggðanefnd telur jafnframt að líta verði til þess að landsvæði þetta sé skýrt afmarkað af jökli, ám og árgiljum. Umrædd landamerkjabréf séu þinglesin, færð í landamerkjabók og á þeim byggt síðan um merki svæðisins, án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við fyrirsvarsmenn aðliggjandi landsvæða. Þetta bendi allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda. Jafnframt sé ljóst að rétthafar að þessum svæðum hafi um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum landsvæðisins væri þar rétt lýst.
Nefndin telur frásögn Landnámu styðja fremur þann skilning að hluti svæðisins, a.m.k., hafi verið numinn í öndverðu. Þá bendi rannsóknir á sviði fornleifafræði til þess að byggð hafi verið að fornu norðan Þórsmerkur. Staðhættir mæli á hinn bóginn fremur gegn því að nám hafi náð langt norður fyrir Eyjafjallajökul. Um Þórsmörk sé fjallað í máldaga Holtskirkju undir Eyjafjöllum frá 1270. Þar segi að kirkjunni fylgi m.a. „vij skogar. j þorsmork“. Í samræmi við þetta segi í máldaga kirkjunnar frá 1332 að hún eigi „sio skogar teiga j þorsmork“, sbr. einnig fjöldann allan af lögfestum frá 18. og 19. öld, auk skýrslu um tekjur og útgjöld Holtsprestakalls. Í lögfestu prestsins að Holti frá 1867 segi orðrétt, eftir að skógarteigar hafa verið tilgreindir og merkjum lýst: „... svo langt sem byrkiskógur vex, lögfesti eg vegna Holtskirkju, að orðfullu og lögmáli réttu til friðhelgis og verndar alls byrkiskógarviðar, sem vex innan hér tiltekinna takmarka, fyrirbjóðandi einum og sérhverjum, nefnda viðartegund að höggva, rífa eður nokkurn hátt hana sér í nyt að færa, án míns leyfis og samþykkis, undir fullkomnar landnáms- og Skaðabætur.“ Árið 1890 hafi verið gert landamerkjabréf fyrir Holt og sjö skógarteigar á Þórsmörk taldir upp á eftir lýsingu landamerkja og umfjöllun um reka og fjörur. Í samræmi við þetta áriti presturinn í Holti landamerkjabréf Þórsmerkur 1892 með athugasemd um að Holtsprestakall eigi tiltekin „skógarítök“ á Þórsmörk.
Fleiri jarðir undir Vestur-Eyjafjöllum hafi átt skógarítök í Þórsmörk. Þannig komi fram í landamerkjabréfi Stóra-Dals, dags. 12. maí 1888 og þingl. 21. maí 1892, að skógarítak Stóradalstorfunnar sé hálfur Húsadalur, sbr. einnig fasteignamat um þá jörð frá 1916. Þá segi í landamerkjabréfi Neðra-Dals, dags. 22. maí 1890 og þingl. 23. maí 1890, að hálf jörðin „eður það sem af henni er kyrkjujörð“ eigi skógarítak á Þórsmörk í Húsadal, með nánari afmörkun, „að tiltölu réttri við aðrar jarðir Stóradalstorfunnar“. Í landamerkjabréfi Syðstu-Markar, dags. 12. maí 1890 og þingl. 23. maí sama ár, er skógarítak hálfrar jarðarinnar einnig sagt á Þórsmörk í Húsadal, með nánari afmörkun og í hlutfalli við aðrar jarðir Stóradalstorfunnar. Ekki sé hins vegar minnst á Þórsmörk í landamerkjabréfi Ásólfsskála, dags. 17. maí 1890 og þingl. 23. maí sama ár.
Auk framangreindra jarða undir Vestur-Eyjafjöllum hafi kirkjan í Odda á Rangárvöllum átt skóg í Engidal í Þórsmörk, samkvæmt því sem greini í máldögum 1397 og 1570. Þá lögfesti presturinn í Odda „hálfa Þórsmörk“ 1790 og 1791 „med öllum hanns [svo] Gögnum og Gjædum, ... Odda Kirkiu Eign eftir gömlum óafturrekanlegum Máldögum. Fyrerbyd eg hverjum Manni ad beita, brúka edur í nokkurn Máta sér ad nýta þenann hálfa Afrétt framvegis, undir þær Sektir sem Lög qveda, án míns Leyfis.“ Umræddur afréttur Oddakirkju mun hafa verið nýttur af öðrum með leyfi, sbr. bréf sýslumannsins í Rangárvallasýslu frá 1801, og einnig leigður út gegn gjaldi, sbr. yfirlýsingu prófastsins í Odda frá 1813. Í landamerkjabréfi Odda, dags. 22. maí 1890, segi að ítök fylgi jörðinni, þ. á m. „afréttur hálfur í miðja Þórsmörk“.
Heimildir séu einnig um að Fljótshlíðingar hafi kallað til réttinda í Þórsmörk. Þannig segi í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1710 að Þuríðarstaðir á Mið-Mörk og þar um kring sé „brúkað fyrir lamba afrjett úr Fljótshlíð“, sbr. einnig umfjöllun í jarðabókinni um einstakar jarðir í Fljótshlíð. Talið sé að Þuríðarstaðir hafi verið í Þórsmörk. Einnig kemur fram að Húsadalur, „skammt frá Þuríðarstöðum“, sé brúkaður fyrir afrétt úr Fljótshlíð. Árið 1753 lögfesti hreppstjórinn í Fljótshlíð, fyrir hönd bænda þar, og fyrirsvarsmenn Teigs í Fljótshlíð og Stóra-Dals undir Eyjafjöllum, Grænafjall, Þórsmörk ásamt Teigs-, Guðrúnar- og Múlatungum, auk Langaness. Báðir aðilar telji til réttinda yfir Þórsmörk. Í lögfestunni segi orðrétt: Fyrerbiódum vier einum og sierhvörium fyrrgreinda Afrette og Skógarplátz j nochru sier nitia, beita, bruka, yrkia, edur nockra Gagnsemd af hafa, under fullkomna Landnámz Sekt, og adrar frekustu Skadabætur effter Lögum, af þeim visvitande hier á móti britur. Enn hvör sá sem meinar sig Skóg edur önnur Jtök eiga jnnann fyrrgreindra Takmarka, sem þesse Lögfesta uppastendur, advarast hier med ad frammleggia sin Skilrike þar fyrir, á næstkomande K[yr]kiulækiar og Hollts Vor Manntals Þingum. Stande Lögfesta þesse til Sekta um næstu 12 Mánude. Enn fyrir Máldaga so leinge henne er ei ad Lögum hrunded.
Í bréfi sýslumannsins í Rangárvallasýslu frá 1801 komi fram að ¾ afréttarins í Þórsmörk hafi heyrt undir Fljótshlíðinga til uppreksturs á sumrin en ¼ Oddakirkju. Sýslumaður láti þess einnig getið að rústir finnist á afréttinum en þær séu svo gamlar að enginn geti lengur haldið þar fram eignarrétti sínum. Þá mótmæli bændur í Fljótshlíð tilkalli prestsins í Holti til nýgræðuskóga á framanverðri Þórsmörk 1867.
Árið 1892 sé gert sérstakt landamerkjabréf fyrir Þórsmörk. Lýst sé merkjum en ekki fjallað um réttindi eða nýtingu. Bréfið sé undirritað í umboði hreppsnefndar Fljótshlíðarhrepps. Í landamerkjabréfum Eyvindarmúla og Fljótsdals í Fljótshlíð, hið fyrrnefnda dags. 1. júní 1891 og þingl. 18. maí 1892 og hið síðarnefnda dags. 24. maí 1890 og þingl. 27. maí 1890, segi að jarðir þessar eigi hagbeit og skógarhögg á Þórsmörk, í hlutfalli við aðrar jarðir í Fljótshlíð. Þá komi fram í landamerkjabréfi Barkarstaða, dags. 30. júní 1888 og þingl. 27. maí 1890, að jörðin eigi afrétt í Þórsmörk að tiltölu við aðrar jarðir sveitarinnar. Í samræmi við þetta segi í gerðabók fasteignamatsnefndar 1916 að allar jarðir í Fljótshlíð, „að undanskildum Breiðabólstaðarjörðum og Austur-Torfastöðum“, eigi „skógarítak á Þórsmörk, 1 hest á ári fyrir hver 5 hundr. forn, og einnar kindar beit eftir sömu reglu. Þetta er hálf beit á Þórsmörk. Hinn helmingur beitarinnar tilheyri Oddaprestakalli og sé hann nú leigður Inn-Hlíðarmönnum (Fljótsdalur – Hlíðarendi)“., sbr. einnig umfjöllun um Múlajarðir, Fljótsdal Í sömu heimild sé ekki gert ráð fyrir því að jarðir undir Eyjafjöllum eigi afrétt í Þórsmörk.
Þá segi í fjallskilareglugerð fyrir Rangárvallasýslu nr. 58/1894 að hreppsnefnd Fljótshlíðarhrepps skuli sjá um fjallskil, réttahöld, grenjaleitir o.s.frv. á Þórsmörk, sem talin sé með svokölluðum smáafréttum. Samkvæmt fjallskilareglugerð nr. 72/1921 skyldu hreppsnefndir Fljótshlíðarhrepps og Vestur-Eyjafjallahrepps sjá um þetta verk.
Í úrskurðinum er Þórsmörk lýst svo:
„Þórsmörk er aflangt, fjalllent heiðarland, sundurskorið af giljum og dalverpum. Samkvæmt skilgreiningum náttúrufræðinnar er landi skipt í þrjú gróðurfarsleg hæðarbelti; láglendisbelti sem nær að jafnaði upp að 150-200 m hæð yfir sjó, hlíðabelti í 200-400 m hæð og fjallbelti ofan þeirra marka en þar eru að jafnaði veðurfarsleg mörk nokkuð samfellds gróðurs. Þórsmörk er bæði í hlíðar- og fjallbeltinu, í 200-1100 m hæð.2 Vestasti hluti Þórsmerkur er Ranatá á Merkurrana sem liggur við mót Markarfljóts og Krossár. Á Ranatá eru brattir gróðurlitlir Eggjar sem ná um 260 m hæð. Merkurrani, sem er að mestu uppblásturssvæði, nær austur að bröttum og grónum Valahnúk (458 m) um 2,5 km austan Eggja. Norðan Valahnúks liggur breiður og gróinn Húsadalur og austan Valahnúks liggur gróinn Langidalur. Norðan Húsadals eru Hamraskógar, gróðursælt svæði að mestu vaxið birkisskógi í um 250-300 m hæð. Austan Hamraskóga er Tindfjallagil og sunnan þess eru brött og klettótt Tindfjöll. Hæsti tindur þeirra nær 628 m hæð. Suðurhluti Þórsmerkur er mjög skorinn giljum og hryggir og hálsar þeirra á milli. Á eystri hluta Þórsmerkur eru einstök fell, svo sem Svínatungur (532 m) sem liggja austan Tindfjallagils. Sunnan þeirra er Brúni (550 m). Austan Svínatungna er Rjúpnafell (824 m) og innan þess liggur Mófell (853 m). Innan Mófells tekur Merkurjökull við og mætir land jökli í um 1030 m hæð. Samkvæmt skýrslu Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins (1997) um jarðvegsrof á Íslandi flokkast landsvæðið Þórsmörk á eftirfarandi hátt: 51% auðnir, 17% rýrt, 20% fremur rýrt og 12% vel gróið.“
Í úrskurði nefndarinnar segir svo orðrétt:
„Óbyggðanefnd telur líkur á því að Þórsmörk sé innan upphaflegs landnáms sunnan Markarfljóts. Tilvist byggðar á þessu svæði hefur verið staðfest með fornleifarannsóknum. Sú byggð hefur hins vegar snemma lagst af og þess utan liggur ekkert fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Í því efni brestur því sönnun, samhengi eignarréttar og sögu liggur ekki fyrir.
Síðari tíma heimildir, frá því á 13. öld og fram að gerð landamerkjabréfa í lok 19. aldar, eiga það sameiginlegt að fjalla um rétt tiltekinna jarða til takmarkaðrar nýtingar í Þórsmörk, beitar og skógartekju. Þannig er lýst rétti jarða í Vestur-Eyjafjöllum til skógar, Odda á Rangárvöllum til skógar og afréttar og jarða í Fljótshlíð til skógar og afréttar. Ekki liggur fyrir hvernig jarðirnar eru komnar að umræddum réttindum.
Landamerkjabréf umræddra jarða eru í samræmi við þetta og umfjöllun í þeim um Þórsmerkursvæðið bendir fremur til afréttar- og annarra óbeinna eignarréttinda en beins eignarréttar. Þegar þessa landsvæðis er getið í heimildum frá 20. öld er það einnig tengt upprekstri, afréttarnotum og skógartekju, sbr. afréttalýsingar Einars Sighvatssonar hreppstjóra á Ysta-Skála frá 19. öld, fjallskilareglugerðir fyrir Rangárvallasýslu frá 1894 og síðar, auk gerðabókar fasteignamatsnefndar 1916. Ekkert liggur fyrir um að Þórsmörk hafi, fram til 1927, nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og ef til vill annarra takmarkaðra nota.
Í máli þessu er þannig ekki sýnt fram á annað en að réttur til Þórsmerkur hafi orðið til á þann veg að tilteknar jarðir hafi tekið landsvæði þetta til sumarbeitar fyrir búpening, skógartekju og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.
Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu eigenda Ásólfsskálakirkju og Stóradalskirkju, jarða í Fljótshlíð austan Breiðabólstaðartorfu, Odda á Rangárvöllum og Holts undir Vestur-Eyjafjöllum að landsvæði það, sem hér eru til umfjöllunar, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um þjóðlendu að ræða.
Heimildir benda hins vegar til þess að hluti jarða í Fljótshlíð, auk Odda á Rangárvöllum, hafi átt rétt til upprekstrar á Þórsmörk. Enda þótt svæðið hafi ekki verið nýtt til beitar um árabil, vegna friðunar þess, liggur hins vegar ekkert fyrir um það að rétti þessum hafi verið afsalað.
Kröfur og sjónarmið um viðurkenningu annars konar óbeinna eignarréttinda, fyrst og fremst umræddra skógarítaka, eru vanreifaðar, auk þess sem alls óvíst er um núverandi tilvist slíkra réttinda, hvað þá nákvæma staðsetningu þeirra eða inntak. Með vísan til framangreinds telur óbyggðanefnd ekki unnt að taka kröfur um viðurkenningu annars konar óbeinna eignarréttinda til greina að neinu leyti. Hér ber þess þó að geta að umrædd ítaksréttindi benda e.t.v. til að eignarhald landsvæðisins hafi verið með einhverjum öðrum hætti en að aðeins hafi verið um að ræða hefðbundin óbein eignarréttindi, þar sem til ítaka var ekki svo vitað sé stofnað nema í eignarlandi. Hins vegar eru þessi sérstöku réttindi óljós og engar heimildir eru til um það hvernig viðkomandi aðilar öðluðust þau. Ekki er heldur að finna neinar vísbendingar um að eignarhald þetta hafi verið víðtækara heldur en þessi tilteknu afmörkuðu réttindi. Enn fremur er ekki að finna neinar vísbendingar um það hver hafi átt eignarland það sem umrædd ítök voru í ef um eignarland yfir höfuð hefur verið að ræða. Svo sem að framan getur er ekki útilokað og raunar líklegra en hitt að fyrr á tímum hafi Þórsmörk að hluta eða öllu leyti verið undirorpin beinum eignarrétti. Vera kann að til umræddra ítaksréttinda hafi stofnast á þeim tíma. Allt að einu skal það ítrekað að ekkert liggur fyrir um mögulegt framsal þess beina eignarréttar til þeirra aðila sem á síðari tímum hafa fyrst og fremst gert tilkall til afmarkaðra réttinda, þ.e. beitar, skógartekju o.fl. Fær tilvist ítakanna þannig ekki breytt fyrrgreindri niðurstöðu um eignarréttarlega stöðu þessa landsvæðis í heild.
Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem nefnt er Þórsmörk, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Frá upptökum Þröngár í Mýrdalsjökli allt niður í Markarfljót, þá Markarfljót þar til Krossá fellur í það, þaðan Krossá allt að upptökum hennar í sama jökli. Á milli framangreindra tveggja punkta við jaðar Mýrdalsjökuls er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.
Sama landsvæði er í afréttareign eigenda jarða í Fljótshlíð austan Breiðabólstaðartorfu og Odda á Rangárvöllum, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.
Óbyggðanefnd telur ljóst að ákvarða þurfi mörk þess svæðis sem samkvæmt framangreindu er í afréttareign tiltekinna jarða, að því leyti sem það liggur að jökli, til frambúðar, sbr. b-lið 7. gr. l. nr. 58/1998. Með hliðsjón af því að hér er um einhliða ákvörðun afréttarmarka að ræða en ekki mörk tveggja afrétta eða afréttar og eignarlands telur óbyggðanefnd þó fullnægjandi að miða einfaldlega og án hnitasetningar við jaðar jökulsins eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Ekki verður séð að frekari rannsókn á þessu atriði hafi hagnýta þýðingu í þessu sambandi enda er eingöngu um beitarréttindi að ræða sem ráðast af gróðurfari og hefur ekki þýðingu í öðru sambandi.“
Í úrskurði nefndarinnar segir svo að því er Goðaland varðar:
„Í elstu fyrirliggjandi heimildum um Goðaland, Kirkjulækjardómi frá 1578 og Lambeyjarsamþykkt frá 1579, er „Goðalandz afriett“ dæmd „eign kirkiunnar aa Breidabolsstad“. Í vitnisburðum, sem lagðir voru til grundvallar þessari niðurstöðu, segir að Godalandz afriett sé „haldinn vafalaus kirkiunnar eign aa Breidabolstad“. Dómar þessir voru staðfestir í lögréttu 1588 en þeir voru kveðnir upp í tilefni af deilum prestsins í Fljótshlíð og bænda undir Austur-Eyjafjöllum um beit í Goðalandi.
Óbyggðanefnd telur að af dómi lögréttu 1588, og fyrirrennurum hans 1578 og 1579, verði ekki annað ráðið en að Goðaland hafi verið afréttur Breiðabólstaðar án þess að inntak eignarréttinda í því sambandi sé skýrt. Ekkert liggur nánar fyrir um hvenær eða hvernig stofnað hafi verið til þessara réttinda Breiðabólstaðarkirkju og á Goðaland er ekki minnst í ítarlegum máldaga kirkjunnar frá því um 1570.
Þegar fjallað er um Goðaland í öðrum heimildum er það áfram nefnt afréttur, sbr. skýrslu um Breiðabólstaðarbrauð 1839, lýsingu á Eyvindarhóla-, Steina- og Skógasóknum 1840, lýsingu á Breiðabólstaðarsókn 1844 og jarðamati 1849. Í lögfestu staðarhaldara á Breiðabólstað frá 1821 er Goðaland talið upp með ítökum, skógum og rekafjörum, á eftir umfjöllun um „heimaland“, sbr. einnig skýrslu um tekjur og gjöld Breiðabólstaðarprestakalls á tímabilinu 1862-1867. Árið 1891 er gert sérstakt landamerkjabréf fyrir Goðaland, og það nefnt „afréttarland er tilheyrir Breiðabólstað í Fljótshlíð“. Undir landamerkjabréfið skrifa presturinn á Breiðabólstað, Tómas Sigurðsson á Barkarstöðum, Guðmundur Guðmundsson í Teigi, oddviti Fljótshlíðarhrepps, Ágúst Jónsson í Fljótsdal, Kjartan Einarsson, oddviti og prestur í Holti og Skúli Skúlason, prestur í Odda.
Heimildir benda þannig til þess að Breiðabólstaðarkirkja hafi átt upprekstrarrétt í Goðalandi. Ekkert liggur fyrir um að Goðaland hafi, fram til friðunar, nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, stundum gegn gjaldi og ef til vill annarra takmarkaðra nota. Þá bendir framangreint landamerkjabréf fremur til afréttareignar en beins eignarréttar. Kemur þá til álita hvaða þýðingu yfirlýsing biskupsins yfir Íslandi frá 22. febrúar 1927 hafi í þessu sambandi. Þar segir að afréttarítak Breiðabólstaðarprestakalls á Goðalandi sé tekið undan Breiðabólstaðarprestakalli vegna fyrirhugaðrar friðunar Þórsmerkur. Óbyggðanefnd telur að í þessari yfirlýsingu felist ekki skýrt afsal umræddra eignarréttinda. Í því sambandi hefur ekki úrslitaþýðingu að svæðið hefur ekki verið nýtt til beitar um árabil vegna friðunar Þórsmerkursvæðisins.
Engin gögn liggja fyrir um það hvernig Breiðabólstaðarkirkja er komin að rétti sínum til þess landsvæðis sem hér er til umfjöllunar. Óbyggðanefnd telur ekki hægt að útiloka að Goðaland sé innan upphaflegs landnáms á þessu svæði eða hafi á annan hátt orðið undirorpið beinum eignarrétti. Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til í öndverðu. Í því efni brestur því sönnun, samhengi eignarréttar og sögu liggur ekki fyrir.
Hvað varðar kröfur Rangárþings eystra fyrir hönd lögbýla í fyrrum Austur-Eyjafjallahreppi og fleiri er það mat óbyggðanefndar að af þeirra hálfu hafi ekki verið sýnt fram á það í málinu að þeir hafi notið sjálfstæðs réttar til Goðalands, umfram eða samhliða framangreindum rétti Breiðabólstaðarkirkju. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir til sömu niðurstöðu. Ekki verður þannig séð að not þeirra hafi verið á sjálfstæðum grundvelli heldur eingöngu leidd af rétti kirkjunnar.
Kröfur og sjónarmið um viðurkenningu annars konar óbeinna eignarréttinda eru vanreifaðar, auk þess sem alls óvíst er um núverandi tilvist slíkra réttinda, hvað þá nákvæma staðsetningu þeirra eða inntak. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að taka þær til greina að neinu leyti.
Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu Breiðabólstaðarkirkju, Rangárþings eystra aðallega og framangreindra jarðeigenda að landsvæði það sem hér eru til umfjöllunar, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um þjóðlendu að ræða.
Óbyggðanefnd telur ljóst að ákvarða þurfi mörk þess svæðis sem samkvæmt framangreindu er í afréttareign Breiðabólstaðarkirkju, að því leyti sem það liggur að jöklum, til frambúðar, sbr. b-lið 7. gr. l. nr. 58/1998. Með hliðsjón af því að hér er um einhliða ákvörðun afréttarmarka að ræða en ekki mörk tveggja afrétta eða afréttar og eignarlands telur óbyggðanefnd þó fullnægjandi að miða einfaldlega og án hnitasetningar við jaðar jöklanna eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Ekki verður séð að frekari rannsókn á þessu atriði hafi hagnýta þýðingu í þessu sambandi enda er eingöngu um beitarréttindi að ræða sem ráðast af gróðurfari og hefur ekki þýðingu í öðru sambandi.
Eftir er þá að taka afstöðu til merkja Goðalands, sem samkvæmt framangreindu er þjóðlenda, og Hrútafells, en í kafla 6.22. er komist að þeirri niðurstöðu að það sé eignarland. Óbyggðanefnd telur ljóst af framangreindu að snjór hafi að staðaldri hulið Fimmvörðuháls í lok 19. aldar þegar landamerkjabréf Goðalands og Hrútafells voru gerð. Í því sambandi verður ekki talið skipta máli hvort um jökul hefur verið að ræða eður ei. Svæði þetta hefur nú verið jökullaust um áratugaskeið og merki á milli Goðalands og Hrútafells verða því ekki lengur miðuð við jökuljaðar eða snjólínu. Með hliðsjón af framangreindu og staðháttum á svæðinu telur óbyggðanefnd eðlilegt að miða umrædd merki við þá línu sem miðað er við í kröfugerð Rangáþings eystra fyrir hönd eigenda lögbýla í Austur-Eyjafjallahreppi vegna Goðalands og jarðeigenda vegna Hrútafells.
Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það, sem nefnt er Goðaland, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Þaðan sem Hrunaá kemur undan Tungnakvíslajökli í Mýrdalsjökli og þangað sem hún sameinast Krossá. Síðan er Krossá fylgt þar til Hvanná sameinast henni. Þaðan liggja merki fyrst í Hvanná og síðan í Innri-Hvanná, að upptökum hennar við Eyjafjallajökul. Á milli framangreindrapunkta við jaðra Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll., og þeirra á milli ræður lína sem dregin er beint til austurs og vesturs frá Þrívörðuskeri að jökulbrúnum.
Sama landsvæði er í afréttareign Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“
Stefnendur undu ekki þessari niðurstöðu óbyggðanefndar og krefjast því ógildingar úrskurðarins að því er hin umdeildu landsvæði varðar.
Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003 sem kveðinn var upp 10. desember 2004, var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58/1998. og er málshöfðun þessi því í samræmi við ákvæði 19. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Stefnendur vegna Þórsmerkur benda á að hið umdeilda landsvæði hafi verið kostaríkt af skógum og beitiland bæði til sumar- og vetrarbeitar en gróðri hafi farið aftur frá landnámsöld, en einkum á allra síðustu tímum. Þrátt fyrir það séu 12% lands vel gróið land.
Stefnendur vísa til landamerkjabréfs sem gert hafi verið 2. maí 1892 um Þórsmörk í framhaldi af setningu landamerkjalaga 1882 og sé merkjum þar lýst, en bréfinu hafi verið þinglýst 18. maí 1892. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu Oddakirkju. Mörk Þórsmerkur séu glögg og styðjist m.a. við lögfestu hreppstjóra í Fljótshlíð fyrir hönd bænda þar og fyrirsvarsmanna Teigs og Stóra-Dals frá 11. september 1753. Í lögfestunni sé talað um Grænafjall og Þórsmörk milli Þröngár og Krossár upp undir jökul ásamt svokölluðum Teigs- Guðrúnar og Múlatungum auk Langaness. Lögfestan hafi verið lesin upp við Dalskirkju, Holts-, Steina-, Skóga- og Hólakirkju í september 1753.
Þá liggi fyrir heimildir frá 1270 um að skógareign Holtskirkju og Stóradalskirkju sem bendi til þess að kirkjurnar hafi eignast jarðirnar í Þórsmörk. Samkvæmt máldaga Holtskirkju frá 1270 eigi kirkjan sjö skógarteiga í Þórsmörk og samkvæmt máldögum og öðrum heimildum umtalsverðan skóg á norðanverðri Þórsmörk. Samkvæmt máldaga 1332 eigi kirkjan sjö skógar teiga í Þórsmörk. Þá séu heimildir um skógareignir Dalskirkju í máldaga frá 1332. Hafi hér ekki verið um ítök að ræða, heldur beinan eignarrétt. Þá benda stefnendur á lögfestu sem skráð var í dóma- og þingabók Rangárvallasýslu 21. júní 1790. Þá séu margar heimildir um lögfestur Holtskirkju vegna réttinda hennar í Þórsmörk og hún ýmist talin ¼ eða ½. Árið 1877 hafi Fljótshlíðarhreppur sett umsjónarmenn með Þórsmerkurskógum í því skyni að koma í veg fyrir heimildarlaust skógarhögg þar og hafi slíkt eftirlit verið við lýði næstu áratugina. Í landamerkjabréfi fyrir Holt árið 1890 séu skógarteigar á Þórsmörk meðal landa jarðarinnar. Þá sé í landamerkjabréfi Stóradals frá 12. maí 1888 fjallað um að skógarítak sé hálfur Húsadalur. Í landamerkjabréfi fyrir Odda 22. maí 1890 segi að ítök fylgi jörðinni „afréttur hálfur í miðja Þórsmörk“. Telja stefnendur að ekki sé um beinan eignarrétt að ræða í land þeirra, heldur ítak. Að öðrum kosti skilja þeir ákvæðið sem fjórðung Þórsmerkur. Árið 1920 hafi eigendur og ábúendur í Fljótshlíð lýst því yfir að þeir vildu gefa eftir endurgjaldlaust beitiréttinn í Þórsmörk að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Önnur réttindi yfir eigninni hafi þeir ekki látið af hendi. Í samningi við Skógrækt ríksins 1927 hafi þeir látið af hendi önnur landsnyt en skógarhögg. Hafi ríkið í þessu tilviki sem og öðrum viðurkennt beinan eignarrétt að Þórsmörk.
Stefnendur byggja á því að land í Þórsmörk hafi verið numið í öndverðu og háð beinum eignarrétti. Sá eignarréttur hafi ekki fallið niður síðan og sé afrétturinn nú í óskiptri sameign stefnenda. Þeir búi við þinglýstar merkjalýsingar þar sem merkjum landsins sé lýst. Þinglýsing eignarréttar og landamerkja hafi verið þeim heimil af því að þeir hafi átt beinan eignarrétt að afréttinum og hafi fulltrúi ríkisvaldsins gengið úr skugga um að svo væri og staðfest með skráningu í landamerkjabók og þinglýsingu. Landamerkjabréfið styðjist við eldri gögn, þar með lögfestur. Hvorki hafi hinn beini eignarréttur byggðarmanna né landamerki afréttarins verið vefengd og hafi íslenska ríkið með margvíslegum hætti löghelgað og viðurkennt hinn beina eignarrétt. Hafi stefndi sönnunarbyrðina um að hin lögformlega eignarheimild sé röng og að upphaflegur eignarréttur hafi fallið niður. Stefndu geti að vísu ekki sýnt fram á óslitna röð framsalsgerninga frá landnámi til þessa dags en það sé ekki kleift um neina fasteign hér á landi.
Stefnendur og forverar þeirra hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að beinn eignarréttur þeirra að landinu yrði vefengdur af einkaaðilum eða opinberum aðilum og þeir hafi haft réttmætar væntingar um lögverndaðan eignarrétt sinn að landinu. Beinn eignarréttur að landinu hafi verið forsenda þess að unnt væri að reka kvikfjárbúskap um aldir á jörðum stefnenda. Samkvæmt fornum rétti hafi afréttir verið háðir beinum eignarrétti byggðarmanna í hverri byggð. Hugtakið afréttur merki land í óskiptri sameign tveggja eða fleiri manna, sem nýtt sé með ýmsum hætti, svo sem til skógarnytja, kvikfjárbeitar sumar og vetur, dýraveiða og fiskveiða í vötnum og ám á landinu, svo og til allra annarra mögulegra nota, að engum notum undanskildum, allt eftir aðstæðum á hverjum afrétti og aðstæðum hvers tíma. Minnt er á að óheimilt sé að lögum að gera tiltekin afnot eða tíðni afnota að skilyrði eignarréttar. Enginn „grunneignarréttur“ eða yfireignarréttur hafi verið eftirlátinn öðrum. Engar heimildir finnist í íslenskum rétti um að afréttur merki annað en landsvæði. Þess séu engin dæmi að það hugtak hafi verið notað um annað, svo sem rétt til að reka sauðfé á fjarlæga staði. Þá séu þess engin dæmi í íslenskum, germönskum eða rómverskum rétti að unnt sé að stofna til takmarkaðra réttinda í einskis manns landi. Ekki sé vefengt af stefnda að hvorki hafi hann né aðrir en viðkomandi byggðarmenn hingað til átt neitt tilkall til réttar yfir afréttarlöndum. Á því sé byggt að stefndi geti ekki í nafni fullveldisréttar íslenska ríkisins án stjórnarskrárbreytingar svipt eigendur bótalaust þeim beina eignarrétti yfir afréttinum, sem hann hafi sýnt fram á, að tilheyri honum. Stefnendur byggja á því að fulltrúar ríkisvalds hér á landi hafi um aldir viðurkennt eignarrétt byggðarmanna að afréttum landsins og engin sú breyting hafi orðið á gildandi rétti að leiði til brottfalls þeirrar afstöðu. Verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem stefnendur hafi sýnt fram á séu fullnægjandi, sé verið að mismuna eigendum afrétta með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi. Jafngildi sú íþyngjandi sönnunarbyrði bótalausri sviptingu eignarréttar.
Stefnendur vísa auk fyrrgreindra sönnunargagna um eignarrétt þeirra að afréttinum til hefðar almennt og sérstaklega til ómunahefðar, sem sé viðbótarsönnun um eignarrétt stefnenda að afréttinum og hvernig til hans hafi verið stofnað. Hafi hefðarreglur verið í gildi í íslenskum rétti um aldir. Landið hafi verið í vörslum byggðarmanna og aðrir, þar með stefndi, hafi virt eignarrétt þeirra og verndað hann með því að koma í veg fyrir að aðrir nýttu land þeirra heimildarlaust. Þá styðjist eignarréttur stefnenda við venjurétt. Sé óheimilt að líkja landsgæðum nú við landsgæði fyrstu aldir Íslandsbyggðar þegar afréttirnir urðu til.
Þá byggja stefnendur á því að unnt að hafi verið nema land eftir gildistöku Jónsbókar 1281 og fallast ekki á þann skilning að lagt hafi verið bann við frekara landnámi. Hins vegar hafi ekki verið unnt að nema afrétti, sem þegar hafi verið fyrir hendi, vegna þess að þeir hafi verið háðir beinum eignarrétti. Stefnendur segjast viðurkenna almennar takmarkanir á eignarrétti eða landi sem eigi sér stoð í lögum sem samræmast stjórnarskrá.
Stefnendur benda á að það hafi verið afstaða ríkisvaldsins fyrir tvö hundruð árum að afrétturinn Þórsmörk væri háður beinum eignarrétti og að byggðarmenn væru eigendur afréttarins. Því hafi bóndi nokkur, sem sótt hafi um leyfi árið 1801 til að stofna nýbýli í Þórsmörk skv. nýbýlatilskipuninni frá 1776, ekki getað eignast býli á afréttinum þrátt fyrir ákvæði tilskipunarinnar, en hann hefði getað orðið leiguliði byggðarmanna. Telja stefnendur að ríkisvaldið á þessum tíma hafi litið svo á að héraðsmenn eða byggðarmenn ættu beinan eignarrétt að afréttunum og haldi stefndi öðru fram hafi hann sönnunarbyrðina um það.
Stefnendur telja óbyggðanefnd hafa metið sönnunargögn málsins ranglega og ekki beitt lögum um réttarágreininginn með réttum hætti. Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar. Jafnframt hafi stefnendur sýnt fram á að þeir eigi beinan eignarrétt að afréttinum en stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrá eignast landið. Það eitt að kveða á um í dómsorði að afrétturinn sé þjóðlenda fullnægi ekki skilyrðum réttarfarslaga um skýrleika í dómsniðurstöðum, þar sem með öllu sé óljóst hver réttur stefnda og stefnenda sé, verði þeim aðeins dæmdur réttur til sumarbeitar fyrir sauðfé og önnur takmörkuð afnot. Verði því ekki unnt að fullnusta dóminn lögum samkvæmt.
Stefnendur vísa um lagarök til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefð, réttarvenju og tómlæti, svo og þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, ákvæða stjórnarskrár um vernd eignarréttar, réttláta málsmeðferð og jafnræði borgaranna. Þá er vísað í lög um Mannréttindasáttmála Evrópu, sáttmálann sjálfan og viðauka, um réttláta málsmeðferð, jafnræði og vernd eignarréttinda og í alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um sama. Þá vísa stefnendur til réttarreglna um stofnun nýbýla og um sönnun og sönnunarbyrði er vísað til laga um meðferð einkamála.
Stefnendur byggja málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísa til gjafsóknarleyfa dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 20. júní og 28. október 2005.
Stefnandi Prestssetrasjóður byggir kröfu sína um fullkominn eignarrétt að Goðalandi og hluta Þórsmerkur á margvíslegum eignarheimildum, en einkum þó eignardómi er staðfestur hafi verið í Lögréttu við Öxará árið 1588 um að Goðaland skyldi vera „æfinleg eign“ kirkjunnar á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Telur stefnandi að hann hafi sannað eignarrétt sinn með framlagningu heimildarskjala, s.s. máldaga, vísitasíubréfa, dóma, fasteignamata og þinglýstra landamerkjabréfa. Hafi stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að landið skuli teljast þjóðlenda. Þá vísar stefnandi til þeirrar almennu niðurstöðu óbyggðanefndar að vafann um hvort land hafi verið numið í öndverðu eigi að meta landeiganda í vil, ef athugasemdalausar landamerkjagjörðir, einkum ef þær fara ekki í bága við eldri heimildir, bendi til beins eignarréttar.
Við setningu landamerkjalaga 1882 og 1919 hafi það verið ætlun löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau ef hann væri fyrir hendi. Lögð sé ákveðin eftirlitsskylda á embættismenn og bar þeim hverjum í sínu umdæmi að rannsaka hvort landamerkjum væri þar þinglýst. Telur stefnandi útilokað með vísan til landamerkjalaganna og tilgangs þeirra að fá landamerkjabréfum þinglýst að landsvæðum sem ekki hafi verið háð beinum eignarrétti. Hafi landamerkjalýsingar verið byggðar á eldri heimildum svo sem lögfestum, máldögum og eldri landamerkjabréfum. Leiði venjuréttur og hefðarreglur til þess að á umræddu svæði sé eignarland en ekki þjóðlenda.
Stefnandi mótmælir sérstaklega þeim skilningi stefnda að beinn eignarréttur að svæðinu hafi fallið niður og hafi eignarréttinum verið haldið við á grundvelli máldaga, vísitasía, lögfestna og samninga. Stefnandi bendir sérstaklega á að Goðaland sé nú allt innan sérstakra þinglýstra landamerkja og fylgi jörðinni Breiðabólstað í Fljótshlíð og hafi svo verið um ómunatíð. Sé útilokað að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi til dagsins í dag, en telja verði eðlilegt að stefndi beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi sé.
Stefnandi bendir á að heimildir séu um að landið hafi um langan tíma verið nytjað allt árið, sbr. heimildir um útigöngufé og mest notað til skógtekju. Stefnandi hafi hins vegar nýtt landið með þeim hætti að hann hafi leigt Eyfellingum það til beitar og þeir goldið hagatoll fyrir. Hið sama eigi við um nýtingu Oddastaðar í Þórsmörk, en þar sé nú rekin umfangsmikil ferðaþjónusta með vitund og vilja stefnanda. Þá hafi landið verið friðað fyrir beit í langan tíma að frumkvæði stefnanda.
Stefnandi segir ljóst að krafa stefnda um að landið teljist þjóðlenda verði ekki byggð á því hvernig farið hafi með fjallskil á svæðinu. Mestu skipti að stefnandi hafi getað bannað öðrum afnot af landinu. Hefði það að sjálfsögðu ekki verið gert ef réttur landeigandans hefði ekki verið virtur og vísar stefnandi til banns við stofnun nýbýlis árið 1801.
Stefnandi mótmælir þeim sjónarmiðum að svæðið hafi verið einhvers konar almenningsafréttur. Fari slíkt gegn heimildum um landnám og heimildarskjölum. Stefnandi byggir á því að ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að umrætt land sé undirorpið fullkomnum eignarrétti og aldrei haldið öðru fram. Sé ljóst að slík krafa sé niður fallin fyrir tómlæti og vegna fyrningar.
Stefnandi byggir á því að sá sem hafi í hendi þinglýsta eignarheimild sé talinn eiga viðkomandi eign þar til annað sannast, en samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaga sé þjóðlenda utan eignarlanda. Stefnandi hafi farið með öll hefðbundin eignarráð á svæðinu og hafi nýting landsins verið í samræmi við búskaparhætti og nýtingarmöguleika á hverjum tíma. Hafi stefnandi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að beinn eignarréttur væri fyrir hendi á hinu umdeilda landsvæði, enda hafi hann getað leitað til handhafa opinbers valds honum til verndar.
Stefnandi telur að miða beri landamerkin við stöðu jökuls eins og hann er á hverjum tíma og vísar til tveggja héraðsdóma máli sínu til stuðnings.
Stefnendur reisa kröfur sínar á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að samkvæmt afréttarskrá Rangárvallasýslu sé Þórsmörk afréttur tilheyrandi Fljótshlíðarhreppi, en afréttur í íslensku lagamáli hafi frá því fyrst sé vitað merkt beitarrétt í landi utan eignarlanda. Megi af ýmsum ákvæðum fornlaga sjá að afréttir séu í flokki með almenningum og þannig öndverðir við jörð manns, sem hafi verið beinum eignarrétti undirorpin fyrir nám. Sérstakar nýtingarreglur hafi gilt um afrétti sem tveir áttu saman, bæði í Grágás og Jónsbók en slíkar reglur hefðu ekki þurft að gilda ef rétturinn var á einni hendi. Eignarrétturinn hafi verið óbeinn, fyrst beitarréttur, en með nýrri löggjöf hafi hann færst til veiði vatnafiska.
Stefndi bendir á að þegar stofna hafi átt til nýbýla í Húsadal á grundvelli konungstilskipunar 1776 hafi slík eignartaka með konungsvaldi einungis verið heimil utan eignarlanda. Hafi legið fyrir strax um 1800 að beinn eignarréttur væri fallinn niður og sé reyndar ljóst af máldögum að það hafi gerst miklu fyrr. Eins og nýtingu Þórsmerkur hafi verið hagað áður en landið var friðað og gert að ferðamannastað, megi glöggt sjá að verið var að nýta afréttarland. Fé hafi verið rekið á fjall og gerð fjallskil eins og tíðkist um samnotaafrétti hérlendis. Enginn hafi þinglýsta eignarheimild fyrir Þórsmörk, en það sé meginundirstaða beins eignarréttar.
Stefndi telur ekki færð fyrir því rök hvernig Vilkinsmáldagi, jarðabók Árna og Páls, vísitasíur og lögfestur geti verið undirstaða beinna eignarréttinda og þá sé ekki rökstutt hvernig hefð komi til greina. Stefndi mótmælir því öllum kröfum stefnanda Prestssetrasjóðs.
Að því er Goðaland varðar kveður stefndi að um afréttareign prestsseturins á Breiðabólsstað hafi verið að ræða, en presturinn þar hafi leigt það Austur-Eyfellingum til afnota frá ómuna tíð. Nú hafi Skógrækt ríkisins tekið við eftirliti skóganna á Þórsmörk og Goðalandi og friðað þá.
Stefndi byggir á því að sá hluti Goðalands sem lægra liggur hafi verið innan landnáms Jörundar goða og verið lagður til hofs. Er á því byggt að eignarréttur hofsins að hinu numda landi hafi fallið niður við kristnitökuna.
Stefndi mótmælir því sérstaklega að dómur staðfestur í Lögréttu 1588 verði skilinn þannig að verið sé að dæma beinan eignarrétt. Stefndi byggir á því að þar hafi verið tekist á um afréttarréttindi.
Stefndi telur nokkuð skýra dómvenju komna fyrir því að líta til heimilda um fjallskil við mat á inntaki eignarréttar. Eignarlöndin hafi verið smöluð af eiganda, en skipulag afréttarsmölunar hafi snúið að fjallskilastjórnum sveitarfélaga. Hafi göngur í Þórsmörk og Goðaland verið skipulagðar af sveitarstjórnum
Stefndi viðurkennir að hluti af þessu landi hafi verið numinn í öndverðu en heldur því fram að beini eignarrétturinn hafi fallið niður.
Að því er varðar Þórsmörk og Goðaland telur stefndi að ekki sé um jörð að ræða, enginn þinglýstur eigandi og ekki vitað til þess að landið hafi verið nýtt til búskapar frá þeim jörðum sem nú geri eignartilkall. Hvíli sönnunarbyrðin um að landið sé undirorpið beinum eignarrétti á þeim sem heldur því fram.
Stefndi mótmælir mótmælir því ekki að þær jarðir sem nýtt hafi beit á svæðinu frá fornu fari, haldi þeim rétti sínum.
Stefndi vísar til þjóðlendulaga nr. 58/1998, laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986 og landamerkjalaga nr. 41/1919 og eldri laga frá 1882. Þá er vísað til ákvæða lögbókanna Grágásar og Jónsbókar sem fjalla um afréttarmál.
Niðurstaða.
Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Með bréfi dagsettu 12. október 2000 tilkynnti nefndin fjármálaráðherra að tekin yrðu til meðferðar nánar tilgreind landsvæði í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, þ.e.a.s. vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar og austan Þjórsár, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna, en þetta svæði var hið þriðja sem til meðferðar kom hjá nefndinni. Að fengnum kröfulýsingum fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins gerðu stefnendur í máli þessu þá kröfu fyrir nefndinni að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur þeirra að Þórsmörk og Goðalandi. Mál, sem varðaði Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra, var rekið sem mál nr. 5/2003 hjá nefndinni og var úrskurður kveðinn upp 10. desember 2004. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að sá hluti svæðisins, sem til meðferðar var í málinu, þ.e.a.s. Þórsmörk og Goðaland, teldist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laganna. Er nánari grein gerð fyrir afmörkun þessa landsvæðis í úrskurðarorði. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að þessi landsvæði væru afréttareign tiltekinna jarða sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laganna.
Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003 var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, og er mál þetta því höfðað innan lögmælts málshöfðunarfrests, sbr. 19. gr. þjóðlendulaga.
Samkvæmt framansögðu hefur óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að Þórsmörk og Goðaland séu þjóðlenda í afréttareign tiltekinna jarða í skilningi c-liðar 7. gr. laganna. Stefnendur krefjast þess að viðurkenndur verði beinn eignarréttur þeirra að afréttarlandinu en verði ekki á það fallist er krafist viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti stefnenda til hvers kyns gagna og gæða á afréttarlandinu að engum afnotum undanskildum. Af hálfu stefnda er krafist staðfestingar á úrskurði óbyggðanefndar. Ekki virðist ágreiningur um mörk hinna umdeildu svæða. Dómarinn fór á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður.
Í 1. gr. þjóðlendulaga er eignarland þannig skilgreint að um sé að ræða landsvæði sem háð sé eignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þá er þjóðlenda þannig skilgreind að um sé að ræða landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Afréttur er skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Eins og að framan er rakið skal hlutverk óbyggðanefndar vera m.a. að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur, sbr. b-lið 7. gr. laganna og jafnframt að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. c-lið 7. gr. laganna. Í úrskurðum óbyggðanefndar, sem gengið hafa fram að þessu, kemur fram að úrskurður um afrétt jarða í tilteknu sveitarfélagi byggi á b-lið 7. gr. laganna en þegar úrskurður er byggður á c-lið 7. gr. laganna er rætt um afréttareign tiltekinna jarða. Eins og áður er vikið að komst nefndin að þeirri niðurstöðu að um hin umdeildu landsvæði giltu ákvæði c-liðar 7. gr. laganna.
Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.
Lögfesta hefur verið skilgreind þannig að um sé að ræða skriflegt bann eiganda eða ábúanda fasteignar gegn því að aðrir noti landið innan ákveðinna ummerkja. Hafa dómstólar haft tilhneigingu til þess að taka lítið mark á lögfestum þar sem þær hafi að geyma einhliða lýsingu á merkjum og hafa einar sér ekki verið taldar fullnægjandi gögn fyrir beinum eignarrétti. Eru því ekki efni til að gefa lögfestum aukið vægi í málum af því tagi sem hér um ræðir, það er þegar tekist er á um mörk eignarlands og þjóðlendu.
Í greinargerð með þjóðlendulögunum er að því vikið að með afrétti sé almennt átt við tiltekið, afmarkað landsvæði, en skiptar skoðanir séu um hvort einungis geti verið um beitarrétt eða annan afnotarétt að ræða, þ.e. hvort slíkt landsvæði geti ýmist verið undirorpið beinum eða óbeinum eignarrétti. Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. laganna er hugtakið afréttur skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé og ráðast mörk afréttar þannig af því landsvæði sem sannanlega hafi verið nýtt til sumarbeitar fyrir búpening.
Stefnendur byggja kröfur sínar um eignarrétt sinn á Þórsmörk á landamerkjabréfi sem gert hafi verið 2. maí 1892 um Þórmörk í framhaldi af setningu landamerkjalaga 1882. Séu mörk Þórsmerkur þar glögg og styðjist m.a. við lögfestu hreppstjóra í Fljótshlíð fyrir hönd bænda þar og fyrirsvarsmanna Teigs og Stóra-Dals frá 11. september 1753. Í lögfestunni sé talað um Grænafjall og Þórsmörk milli Þröngár og Krossár upp undir jökul ásamt svokölluðum Teigs- Guðrúnar og Múlatungum auk Langaness. Lögfestan hafi verið lesin upp við Dalskirkju, Holts-, Steina-, Skóga- og Hólakirkju í september 1753.
Þá er byggt á heimildum frá 1270 um að skógareign Holtskirkju og Stóradalskirkju sem bendi til þess að kirkjurnar hafi eignast jarðirnar í Þórsmörk. Samkvæmt máldaga Holtskirkju frá 1270 eigi kirkjan sjö skógar teiga í Þórsmörk og samkvæmt máldögum og öðrum heimildum umtalsverðan skóg á norðanverðri Þórsmörk. Samkvæmt máldaga 1332 eigi kirkjan sjö skógar teiga í Þórsmörk. Þá séu heimildir um skógareignir Dalskirkju í máldaga frá 1332. Hafi hér ekki verið um ítök að ræða, heldur beinan eignarrétt. Þá benda stefnendur á lögfestu sem skráð var í dóma- og þingabók Rangárvallasýslu 21. júní 1790. Þá séu margar heimildir um lögfestur Holtskirkju vegna réttinda hennar í Þórsmörk og hún ýmist talin ¼ eða ½. Í landamerkjabréfi fyrir Holt árið 1890 séu skógarteigar á Þórsmörk meðal landa jarðarinnar. Þá sé í landamerkjabréfi Stóradals frá 12. maí 1888 fjallað um að skógarítak sé hálfur Húsadalur. Í landamerkjabréfi fyrir Odda 22. maí 1890 segi að ítök fylgi jörðinni „afréttur hálfur í miðja Þórsmörk“. Árið 1920 hafi eigendur og ábúendur í Fljótshlíð lýst því yfir að þeir vildu gefa eftir endurgjaldlaust beitiréttinn í Þórsmörk að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Önnur réttindi yfir eigninni hafi þeir ekki látið af hendi. Í samningi við Skógrækt ríksins 1927 hafi þeir látið af hendi önnur landsnyt en skógarhögg. Hafi ríkið í þessu tilviki sem og öðrum viðurkennt beinan eignarrétt að Þórsmörk.
Stefnandi Prestssetrasjóður reisir eignarréttarkröfur sínar á margvíslegum eignarheimildum, en einkum þó eignardómi er staðfestur hafi verið í Lögréttu við Öxará árið 1588 um að Goðaland skyldi vera „æfinleg eign“ kirkjunnar á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Telur stefnandi að hann hafi sannað eignarrétt sinn með framlagningu heimildarskjala, s.s. máldaga, vísitasíubréfa, dóma, fasteignamata og þinglýstra landamerkjabréfa.
Ekki verður annað séð en að þegar Þórsmerkur og Goðalands sé getið í öðrum skriflegum heimildum sé það tengt upprekstri og afréttarnotum.
Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 58/1998, var tekið fram að ekki verði að lögum settar sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land teljist eignarland í merkingu laganna, heldur ráðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í einstöku tilviki. Gildir sú regla því sem endranær að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa.
Þær heimildir sem hér hafa verið raktar og varða eignarréttarlega stöðu Þórsmerkur og Goðalands, verða að mati dómsins ekki túlkaðar á annan veg en þann en að þær lúti að afréttareign fremur en beinum eignarrétti jarðanna. Að mati dómsins kemur hvergi fram í þeim heimildum sem fyrir liggja í máli þessu að svo hafi verið litið á að þessi svæði hafi verið undirorpið beinum eignarrétti jarðanna.
Fallast ber á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að líkur bendi til þess að Þórsmörk og Goðaland hafi verið innan upphaflegs landnáms á umræddu svæði og þá hefur því ekki verið andmælt að þar hafi verið búið í kjölfarið. Engin gögn hafa hins vegar verið lögð fram í málinu um það með hvaða hætti sá eignarréttur, er þá kann að hafa stofnast, yfirfærðist til stefnenda. Þegar virtar eru heimildir um nýtingu hins umdeilda svæðis, gróðurfar og staðhættir að öðru leyti, þykir verða að líta svo á með hliðsjón af öllu framansögðu og sérstaklega með vísan til fordæma Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum að stefnendum hafi ekki tekist að sanna að Þórsmörk og Goðaland séu eignarland þeirra. Þá verður ekki talið að eignarhefð hafi unnist á svæðinu eins og notkun þess hefur verið háttað. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda í máli þessu og úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í ofangreindu máli um að hin umdeildu svæði séu þjóðlenda staðfestur. Með vísan til fordæma Hæstaréttar í sambærilegum málum ber að miða við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998. Jafnframt er staðfestur sá úrskurður nefndarinnar að sama landsvæði sé í afréttareign eigenda tiltekinna jarða eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 200.000 krónur. Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður hans 24.285 krónum.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda Prestssetrasjóðs greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar, hrl., 800.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
DÓMSORÐ:
Úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 5/2003 frá 10. desember 2004 að því er varðar þjóðlendu á landsvæði því sem nefnt er Þórsmörk í Rangárþingi eystra er staðfestur og viðurkennt að svæði innan neðangreindra marka sé þjóðlenda:
Frá upptökum Þröngár í Mýrdalsjökli allt niður í Markarfljót, þá Markarfljót þar til Krossá fellur í það, þaðan Krossá allt að upptökum hennar í sama jökli. Á milli framangreindra tveggja punkta við jaðar Mýrdalsjökuls er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.
Þá er staðfest sú niðurstaða nefndarinnar að sama landsvæði sé í afréttareign eigenda jarða í Fljótshlíð austan Breiðabólstaðartorfu og Odda á Rangárvöllum, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.
Úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 5/2003 frá 10. desember 2004 að því er varðar þjóðlendu á landsvæði því sem nefnt er Goðaland í Rangárþingi eystra er staðfestur og viðurkennt að svæði innan neðangreindra marka sé þjóðlenda:
Þaðan sem Hrunaá kemur undan Tungnakvíslajökli í Mýrdalsjökli og þangað sem hún sameinast Krossá. Síðan er Krossá fylgt þar til Hvanná sameinast henni. Þaðan liggja merki fyrst í Hvanná og síðan í Innri-Hvanná, að upptökum hennar við Eyjafjallajökul. Á milli framangreindra punkta við jaðra Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll., og þeirra á milli ræður lína sem dregin er beint til austurs og vesturs frá Þrívörðuskeri að jökulbrúnum.
Þá er staðfest sú niðurstaða nefndarinnar að sama landsvæði sé í afréttareign Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 200.000 krónur.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda Prestssetrasjóðs greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar, hrl., 800.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson.