• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands mánudaginn 20. apríl 2009 í máli nr. E-352/2007:

Gunnþórunn Ingólfsdóttir og

Jósef Valgarð Þorvaldsson

(Friðbjörn Garðarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hdl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars 2009, var höfðað 17. desember 2007.

            Stefnendur eru Gunnþórunn Ingólfsdóttir og Jósef Valgarð Þorvaldsson bæði til heimils að Víðivöllum fremri, Fljótsdalshreppi.

            Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli, Reykjavík.

            Dómkröfur stefnenda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2005: Fljótsdalur og Jökuldalur austan Jökulsár á Jökuldal, frá 29. maí 2007, að því er varðar þjóðlendu á svonefndum Villingadal innan neðangreindra marka:

Frá þeim stað þar sem Strútsá fellur í Fellsá og þaðan eftir Fellsá í Sultarranaá og síðan Sultarranaá í sveitarfélaga- og sýslumörk gagnvart Djúpavogshreppi. Þeim mörkum er fylgt norður þar til komið er að Strútsá og ræður síðan sú á þar til hún fellur í Fellsá.

            Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.

            Þá krefjast stefnendur málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

            Stefndi krefst sýknu. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar en til vara að hver aðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

 

I.

            Samkvæmt þinglýsingarvottorði sem fyrir liggur í málinu eru stefnendur eigendur jarðarinnar Fremri- Víðivalla í Fljótsdalshreppi í jöfnum hlutföllum. Kemur fram í stefnu að jörðin sé forn og hafi lengi tilheyrt Skriðuklaustri, eins og nágrannajarðirnar í suðri, Víðivallagerði, sem raunar hafi verið hluti af Víðivöllum fremri, og Sturluflöt. Margt bendi til þess að Villingadalur hafi tilheyrt Sturluflöt allt fram á 19. öld, en þá verið seldur undir Víðivelli fremri í skiptum fyrir engjapart.

 

II.

            Í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, tók óbyggðanefnd til meðferðar nánar tilgreint landsvæði á Norðausturlandi, sem nefndin kallaði svæði nr. 5. Hófst málsmeðferðin á árinu 2004 og lauk með uppkvaðningu úrskurða 29. maí 2007 í málum sem fengu númerin 1 til 5/2005. Var útdráttur úrskurðanna birtur í Lögbirtingablaðinu 18. júlí 2007, lögum samkvæmt, en mál þetta var höfðað 17. desember sama ár og því innan þess sex mánaða málshöfðunarfrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Stefnendur áttu aðild að málsmeðferð óbyggðanefndar vegna jarðar sinnar Fremri-Víðivalla. Ágreiningsefni í máli þessu varðar þann hluta úrskurðar óbyggðanefndar í máli nr. 1/2005 sem lýtur að eignarréttarlegri stöðu svonefnds Villingadals innan þeirra merkja sem fram koma í kröfugerð stefnenda hér að framan. Komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu í nefndum úrskurði að landsvæðið væri þjóðlenda í afréttareign, stefnenda, sem eigenda jarðarinnar Fremri-Víðivalla. Stefndi í máli þessu unir þessari niðurstöðu óbyggðanefndar og stendur ágreiningur máls þessa því um hvort innan greindra merkja, sem nánar er lýst í aðalkröfu stefnenda, sé þjóðlenda í afréttareign stefnenda eða hvort landið er háð beinum eignarrétti þeirra.

 

III

            Í niðurstöðu óbyggðanefndar kemur fram að Víðivalla sé getið í heimildum allt frá 13. öld. Af heimildum verði ráðið að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða og Víðivallagerði hafi upphaflega verið hjáleiga hennar. Í landamerkjabréfi sem gert hafi verið 16. júní 1884 og þinglýst næsta dag, sé fyrst að finna lýsingu á landamerkjum Víðivallagerðis, síðan ítaki Valþjófsstaðakirkju í það land og því næst landamerkjum Víðivalla fremri. Loks segi svo: „Undir Víðivelli fremri liggur Villingadalur“ og sé merkjum hans lýst. Á milli Víðivalla fremri og Villingadals liggi jarðirnar Víðivallagerði og Sturluflöt. Í yngra landamerkjabréfi, dags. 1. desember 1921, sem þinglýst hafi verið 25. júlí 1922, sé sambærilegur greinarmunur gerður og í hinu eldra bréfi á annars vegar merkjalýsingu Víðivalla fremri og hins vegar Villingadal.

            Komi þá fyrst til athugunar hvað ráðið verði af framangreindum landamerkjabréfum frá 1884 og 1921 um afmörkun Villingadals auk lýsinga í ritunum Göngur og réttir V og byggðasögunni Sveitir og jarðir í Múlaþingi. Í því sambandi verði einnig litið til merkja aðliggjandi landsvæða. Að því loknu verði fjallað um eignarréttarlega stöðu Villingadals.

            Verði þá fyrst litið til vesturmerkja Villingadals, gagnvart Suðurfelli. Bæði landamerkjabréfin miði við að vestan og norðan við dalinn renni Fellsá og Sultarranaá og greini nefndan dal frá Kiðufellsafrétti (Suðurfelli). Efnislega sömu lýsingar komi einnig fram í bókunum Göngur og réttir  og Sveitir og jarðir í Múlaþingi. Þessar lýsingar séu í ágætu samræmi við lýsingar á merkjum Suðurfellsafréttar. Heimildir um afmörkun Suðurfells séu ekki eins skýrar en niðurstaðan hafi orðið sú að miða við Fellsá og Sultarranaá í því sambandi.

            Samkvæmt landamerkjabréfunum frá 1884 og 1921 séu merki Villingadals að austan sögð í Strútsá, sem aðskilji hann frá Sturluflatarlandi, austur og suður til öræfa. Í bókinni Göngur og réttir V segi að merkin að austan séu „...Strútsá fyrst á mörkum heimalands Sturluflatar og Villingadals, en eftir það sem næst eða alveg á sýslumörkum Múlasýslna á Sauðahnjúk.“ Í lýsingu á austurmerkjum í byggðasögunni Sveitir og jarðir í Múlaþingi segi hins vegar einungis að þau afmarkist af Strútsá.

            Suðurmerkjum Villingadals, gagnvart landsvæðum í Djúpavogshreppi, sé ekki sérstaklega lýst. Óbyggðanefnd telji eðlilegt að á milli Sultarranaár og Strútsár verði miðað við sveitarfélaga- og sýslumörk, gagnvart Djúpavogshreppi (Suður-Múlasýslu).

            Af lýsingum framangreindra landamerkjabréfa, auk tveggja landamerkjabréfa jarðarinnar Sturluflatar sem einnig séu frá árunum 1884 og 1921, liggi jarðirnar Víðivallagerði og Sturluflöt á milli Víðivalla fremri og Villingadals. Sturluflöt eigi þannig suðurmerki að Villingadal, Víðivallagerði að Sturluflöt og Víðivellir fremri að Víðivallagerði. Eldri heimildir um merki þessara jarða bendi til hins sama.

            Í kjölfar þess að landamerkjalög hafi tekið gildi 1882 hafi verið gert landamerkjabréf fyrir Víðivelli fremri og Víðivallagerði og nýtt bréf fyrir Víðivelli fremri eftir að ný landamerkjalög hafi tekið gildi 1919. Í þessum bréfum sé lýst sérstaklega aðskildu landsvæði, svokölluðum Villingadal. Fyrirliggjandi gögn bendi til þess að landamerkjum Villingadals sé þar rétt lýst. Skjöl þessi hafi verið þinglesin og innfærð í landamerkjabók sýslumanns. Það sé niðurstaða Hæstaréttar í þjóðlendumálum að landamerkjabréf fyrir jörð felið í sér ríkari sönnun fyrir því  að um eignarland sé að ræða en hins vegar verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem hafi verð háð beinum eignarrétti, heldur einnig, ítök afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðing hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Beri um þetta efni sérstaklega að vísa til dóms Hæstaréttar 28. september 2006 í máli nr. 497/2006 (Hoffellslambatungur).

            Komi þá til skoðunar hver sé eignarréttarlega staða lands innan framangreindra merkja. Þar beri þess fyrst að geta að engar skriflegar heimildir styðji það að nokkurn tíma hafi verið búið heilsársbúsetu í Villingadal. Því sé ekki lýst í Landnámabók hvort og þá að hvaða marki landnám á þessu svæði hafi náð inn til landsins. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verði þó að telja fremur ólíklegt að Villingadalur hafi verið numinn. Óvissa um aðferðir við landnám sé þó of mikil til þess að hægt sé að fullyrða um stærð landnáma á þeim grundvelli.

            Villingadals sjáist fyrst getið í úttekt á Skriðuklaustursjörðum 1841, þar sem segi að „mælt sé“ að dalurinn tilheyri Sturluflöt. Í úttektum á Víðivöllum fremri frá árunum 1828 og 1841 sé Villingadals í engu getið. Í jarðamati 1849 segi að Víðvellir fremri eigi „að tiltölu til afréttar fyrir sig á svokölluðum Villíngadal ...“ Í mati Skriðuklaustursjarða frá 1878 segi að fyrir utan Skriðuklaustur sjálft  og Víðivelli fremri eigi engar klausturjarðir afrétti. Í landamerkjabréfi Víðivallagerðis og Víðivalla fremri frá árinu 1884 segi að undir Víðivelli fremri liggi Villingadalur. Næst sé fjallað um landsvæðið í lýsingu Víðivalla fremri, sem dagsett sé 10. ágúst 1914 þar sem segi að jörðinni fylgi afréttur á Villingadal sem muni hafa verið fenginn í skiptum á engjaparti við jörðina Sturluflöt. Tekið sé fram að vegna staðhátta hafi jörðin „lítil not afréttarins og noti hana ekki fyrir búfé ábúenda, vegna þess að fé [renni] þaðan á afrétt fjarlægra sveita (suðurhluta S. Múlasýslu), né heldur [fái] aðrir upprekstur á afrétt þessa.“ Í landamerkjabréfi Víðivalla fremri frá árinu 1921 segi að undir jörðina liggi Villingadalur. Í ritinu Göngur og réttir sé Villingadalur talinn upp meðal afréttarlanda í Fljótsdal og í byggðasögunni Sveitir og jarðir í Múlaþingi segi að Villingadalur sé meðal afréttarlanda í hreppnum. Þar segi einnig að heiðarflæmin allt vestan frá Jökulsá, inn til jökla og austur að Strútsá og Fellsá „teljist nú almenningur, þar eð Fljótsdalshreppur [sjái] um göngur á svæðinu.“

            Óbyggðanefnd telji að framangreindar heimildir bendi til þess að Villingadalur sé afréttur í þeim skilningi að jörðin Víðivellir fremri eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt, sbr. einnig orðalag og efnisskipan í landamerkjabréfum 1884 og 1921. Eldri heimildir um merki jarða á þessu svæði bendi ekki heldur til þess að Villingadalur hafi nokkurn tíma verið nýttur til annars en sumarbeitar fyrir búfé og ef til vill annarra takmarkaðra nota. Sama verði einnig ráðið af staðháttum og gróðurfari en um sé að ræða fjallaland fjarri byggð. Svör hreppstjóra við fyrirspurn sýslumanns Múlasýslu árið 1920 samrýmist þessu. Að því er varði greiðslur felligjalda hreindýra til eigenda Víðivalla fremri telji óbyggðanefnd að slíkar greiðslur séu í samræmi við þann rétt sem afréttareign veiti.

            Ekki liggi fyrir hvernig eigendur Víðivalla fremri séu komnir að rétti sínum til þessa landsvæðis. Í máli þessu sé ekki sýnt fram á annað en að réttur til Villingadals hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.

            Að öllu framangreindu virtu hafi ekki verð sýnt fram á að Villingadalur sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hafi verið háttað hafi heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiði einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Af fyrirliggjandi gögnum verði hins vegar ráðið að Villingadalur sé í afréttareign Víðivalla fremri.

            Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Land það sem hér sé til umfjöllunar verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.

            Það sé því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem nefnt sé Villingadalur, svo sem það sé afmarkað í úrskurðinum, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Sama landsvæði sé í afréttareign eigenda Víðivalla fremri, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. Hluti þess svæðis sem þannig sé lýst þjóðlenda í afréttareign Víðivalla fremri, nánar tiltekið „Strútsfoss“, sé háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sbr. nánari skilgreiningu í náttúruminjaskrá.

            Merkjalýsing úrskurðarins fellur orðrétt saman við merkjalýsingu í kröfugerð stefnenda og þykir óþarfi að endurtaka hana hér.

 

IV

            Stefnendur kveðast í stefnu halda því fram að hið umdeilda land sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem eignarland sé skilgreint þannig að það sé landsvæði þar sem eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Það hafi því verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja hið umdeilda landsvæði til þjóðlendu.

            Stefnendur telji að hið umdeilda land hafi verið hluti landnáms Brynjólfs hins gamla sem numið hafi Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá að austan, samkvæmt frásögn Landnámu.

            Eignarréttur hafi þannig stofnast við landnám og fullljóst að um fullkominn eignarrétt hafi verið að ræða þar sem engar heimildir bendi til þess að landnámsmenn hafi numið land til annars en fullrar eignar. Engin rök séu fyrir því að ætla að hluti lands, sem verið hafi á einni hendi um aldir, hafi verið skilinn frá og talinn einungis undirorpinn afnotarétti. Slíkt væri hugsanlegt ef um almenning eða samnotaafrétt margra jarða eða heillar sveitar væri að ræða, sem ekki sé í þessu tilviki.

            Elstu varðveittu heimildir um nýtingu Villingadals séu frá 19. öld og lýsi landinu ýmist sem afréttar- eða beitilandi. Margt bendi þó til þess að Villingadalur hafi áður tilheyrt jörðinni Sturluflöt og verði nú raktar helstu heimildir um það hvernig landið hafi komist í eigu Víðivalla fremri.

            Elsta varðveitt heimildin um landamerki Víðivalla fremri og Sturluflatar sé að finna í úttektar- og skoðunargjörð Skriðuklausturseigna frá 1828, en þar segi svo um landamerki Víðivalla fremri:

            „Landamerki jardarinnar qvedst Abuandinn heyrt hafa ad væru: ad utanverdu úr Kÿl, sem rennur í Kaldá, í Merkegard, úr hönum og til Fialls, ad framan veit hann ecki.“

            Í sömu heimild sé greint frá landamerkjum Sturluflatar eftir frásögn ábúandans:

            „Landamerki hennar eru Sturlá ad Utanverdu [strikað yfir: Nord, og Ut skrifað ofan línu] og Fellsá ad framann, Kéldá ad Nordann.“

            Villingadalur sé ekki innan tilvitnaðra landamerkjalýsinga, en árið 1841 hafi farið fram að nýju úttekt á eignum Skriðuklausturs og þeirri úttektargerð fylgi lýsingar á landamerkjum, sem séu talsvert nákvæmari en í úttektinni frá árinu 1828. Um landamerki jarðarinnar Víðivalla fremri segi í úttektargerðinni frá 1841:

            „Landamerki ad framan þau sömu sem Vidivallagerdis ad utan; en ad utan sonefndur Hagag[ar]dur úr Kéldá og upp til Fialls; ad nedan rædur Kéldá.“

            Um landamerki Sturluflatar segi í sömu heimild:

            „Landamerki kvedst ábuandinn hafa heyrt: ad nedan Kéldá ad utan Sturlá uppfyrir brúnir ad innan Strútsá uppa heidi sem liggur ofan vid landid alt austur ad hraungardi.

            Mælt er og ad jördinni tilheyri landspartur fyrir utan Sturlá enn mörk hans eru óviss, sama er ad segja um Villingadal.“

            Í tilvitnaðri heimild komi fram að Villingadalur tilheyri Sturluflöt, en mörk hans séu óviss og því hafi þau ekki verið tilgreind.

            Í jarðamatinu frá 1849 standi eftirfarandi um Víðivelli fremri:

            „Þessi jörd á tiltölu til afréttar fyrir sig á svokölludum Villíngadal ...“

            Tilvitnuð færsla í jarðamati Víðivalla fremri bendi ekki til þess að jörðin hafi ekki átt beinan eignarrétt að Villingadal, heldur afnotarétt í skjóli beins eignarréttar Sturluflatar.

            Í mati á jörðum Skriðuklausturs árið 1878 segi:

            „Afréttir eða önnur ítök eiga ekki jarðir þessar nema Skriðuklaustur eitt og Víðivellir fremri dálítinn afréttarskika.“

            Þannig megi ráða af heimildum að einhvern tíma á árabilinu 1849 – 1878 hafi eignarhald á Villingadal færst frá Sturluflöt yfir til Víðivalla fremri. Í skoðunargerð Víðivalla fremri frá 10. ágúst 1914, sem gerð hafi verið fyrir sölu jarðarinnar, komi fram að um makaskipti hafi verið að ræða:

            „Afrétt á Villingadal fylgir jörðinni, er mun hafa verið fenginn í skiftum á engjaparti við jörðina Sturluflöt...“

            Löggerningur sá sem makaskiptin hafi byggst á hafi ekki varðveist, en hafa verði í huga að jarðirnar Sturluflöt og Víðivellir fremri hafi báðar verið í eigu Skriðuklausturs þegar kaupin hafi átt sér stað og því alls ekki víst að kaupin hafi verið bréfuð.

            Stefnendur mótmæli harðlega, á grundvelli þess sem að framan greini, því sem fram komi í úrskurði óbyggðanefndar á bls. 127 þar sem segi að ekki liggi fyrir hvernig eigendur Víðivalla fremri séu komnir að rétti sínum til Villingadals.

            Landamerkjabréf fyrir jarðirnar Víðivallagerði og Víðivelli fremri hafi verið útbúið 16. júní 1884. Þremur dögum síðar hafi landamerkjabréfið verið þinglesið, en bréfið hljóði svo:

            „Landamerki Víðivallagerðis í Fljótsdal eru: að neðan Keldá, að framverðu Sturlá upp á fjall og svo bein stefna austur í Hraungarð og Gilsá. – Að utan ræður – milli þessarar jarðar og Víðivalla fremri – Skriðulækur úr Keldá og austur til fjalls beina stefnu. Ítak á Valþjófsstaðakyrkja hér: allan skóg frá læknum fyrir utan Maríutungur (nú nefndar Bjarnareyrar) og til Sturluár.

            Landamerki Víðivalla fremri í Fljótsdal eru hin sömu að framan sem Víðivallagerðis að utan. Fyrir utan land Víðivalla ræður svo nefndur Hagagarður, og greinir hann það frá landi Víðivalla ytri. Síðan eru landamerki þaðan beina stefnu austur yfir fjallgarð, allt í Gilsá í Gilsárdal, sem ræður að austanverðu.

            Undir Víðivelli fremri liggur „Villingadalur“, sem nær frá Strútsá – sem aðskilur hann frá Sturluflatar landi – austur og suður til öræfa; að vestan við hann og norðan rennur Fellsá og Sultarranaá, og greina þær ár nefndan dal frá Kiðafellsafrétti (Suðurfelli).“

            Með gerð landamerkjabréfsins hafi verið tekinn af allur vafi um að Villingadalur tilheyrði Víðivöllum fremri. Ráðherra hafi selt jörðina Víðivelli fremri með afsali dags. 13. september 1917, innan fyrrgreindra landamerkja og hafi í afsalinu ekki verið gerður greinarmunur á landi Villingadals og öðru landi jarðarinnar. Stefnendur reki rétt sinn til landsins til afsals ráðherra og hafi því réttmætar væntingar til þess að allt land jarðarinnar væri undirorpið beinum eignarrétti.

            Nýtt landamerkjabréf Víðivalla fremri hafi verið gert 1. desember 1921 og þinglesið 25. júlí 1922. Bréfið hljóði svo:

            „Að neðan Keldá, sem skilur Langhúsaland frá Víðivallalandi. Að framanverðu Skriðulækur úr Keldá suðaustur til fjalls beina stefnu í Gilsá. Fyrir utan land Víðivalla ræður svonefndur Hagagarður og greinir hann það frá landi Klúku. Síðan eru landamerki þaðan bein stefna suðaustur yfir fjallgarð, alt í Gilsá á Gilsárdal, sem ræður landamerkjum að austanverðu.

            Undir Víðivelli fremri liggur Villingadalur frá Strútsá, sem skilur hann frá Sturluflatarlandi austur og suður til öræfa; að norðan og vestan við hann rennur Fellsá og Sultarranaá og greina þær ár nefndan dal frá Kiðjafellsafrétti (Suðurfelli).“

            Eins og í hinu eldra landamerkjabréfi jarðarinnar sé enginn greinarmunur gerður á Villingadal og öðru landi jarðarinnar.

            Í fasteignamati 1930 – 32 komi fram um Víðivelli fremri:

            „Jörðin á upprekstur á Villingadal, sem liggur undir Víðivelli.“

            Færsla þessi í fasteignamati renni stoðum undir þá skoðun stefnenda að Villingadalur tilheyri jörðinni.

            Stefnendur telji engu máli skipta þótt landið hafi verið tekið undir fjallskilaframkvæmd, enda bendi aðrar heimildir og sterkari til þess að um eignarland sé að ræða. Sé það og í samræmi við almennar niðurstöður óbyggðanefndar í málum 1-7/2000 og 1-5/2001, en þar komi fram á bls. 29, að innan merkja jarða kunni að vera svæði sem nefnd séu afréttir. Í því þurfi þó ekki að felast mismunandi eignarréttarleg staða lands innan jarðarinnar. Hugsanlegt sé, að verið sé að vísa til gamalgróinnar notkunar á viðkomandi jarðarhluta sem beitarlandi. Og jafnvel þó slíkur jarðarhluti sé alfarið tekinni undir fjallskilaframkvæmd gefi slík tilhögun ein og sér enga vísbendingu um eðli eignarhalds á slíkum jarðarhluta, sbr. bls. 30 í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Þessar niðurstöður nefndarinnar hafi og verið staðfestar af dómstólum.

            Öll gögn bendi til þess að Villingadalur hafi áður verið hluti jarðarinnar Sturluflatar en eigendaskipti hafi átt sér stað á landinu fyrir makaskipti, eins og fyrr hafi verið rakið. Gildi því þau sjónarmið um Villingadal sem Hæstiréttur hafi byggt á í eftirtöldum dómum sínum: H 1971, bls. 1137 og H 1975, bls. 55. Óbyggðanefnd hafi og byggt á þeirri grunnreglu sem mótuð hafi verið í áðurgreindum dómum, að jörð eða jarðarhluti sem lagður hafi verið til afréttar teljist eftir sem áður beinum eignarrétti undirorpinn.

            Stefnendur mótmæli því harðlega sem fram komi í úrskurði óbyggðanefndar, að í svari hreppstjóra Fljótsdalshrepps við fyrirspurn sýslumanns Múlasýslu árið 1920, megi ráða að hið umdeilda land sé ekki beinum eignarrétti undirorpið. Stefnendur telji miklu nærtækara að komast að gagnstæðri niðurstöðu, en í svari hreppstjóra segi:

            „...hjer í hreppi er ekkert svæði sem talin er almenníngur, og að ekkert afréttar land er hjer, sem ekki sannanlega tilheyrir einhverju býli ...“

            Samkvæmt framangreindu öllu telji stefnendur vera alvarlega annmarka á úrskurði óbyggðanefndar og hafi nefndin í senn með úrskurði sínum farið á svig við eða brotið grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins, þar á meðal meðalhófsreglu, rannsóknarreglu og jafnræðisreglu. Beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í málinu.

            Stefnendur bendi á að í dómsmálum vegna þjóðlendna hafi verið á það litið við úrlausn málanna að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greini, nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp sem orðið hafi að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallan af vafa um þetta efni.

            Það sé og skoðun stefnenda að lög nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að landeigendur þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.

            Ekki ráði úrslitum í þessu máli þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

            Stefnendur vísi til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar, en það hafi hann á engan hátt gert. Þá þurfi stefndi að sýna fram á að afrétturinn sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að segja  við ákvörðun um inntak eignarréttarins, sbr. fyrrgreindan Hæstaréttardóm.

            Stefnendur byggi á því að verði eignarréttur ekki viðurkenndur hafi núverandi eigendur öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð og vísi þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi og stefnendur og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í árhundraðaraðir. Fullnægt sé öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu og samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðina, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varði umrætt landsvæði. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.

            Stefnendur vísi um lagarök til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Einnig sé vísað til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998, að því er varði skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. eldri lög um sama efni. Þá sé vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905, enda hafi stefnendur haft umráð landsins fullan hefðartíma fasteigna margfalt og meinað öðrum afnot þess. Einnig vísi stefnendur til venju, þ.e. að land sem að fornu hafi verð notað eingöngu af landeigendum sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna. Þá vísi stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma, sbr. og núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísi stefnendur til kröfulýsingar og greinargerðar sem þeir hafi lagt fram undir rekstri óbyggðanefndar á málinu og allra þeirra gagna sem þeim hafi fylgt.

            Stefnendur byggi málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísi til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

 

V

            Af hálfu stefnda er á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varði sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telji stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignaréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.

            Óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998, hefði landsvæði það sem um sé deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.

            Stefndi geri niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu.

            Til séu tvö landamerkjabréf fyrir jörðina Víðivelli. Annars vegar sé um að ræða landamerkjabréf dags. 16. júní 1884, en hins vegar bréf dags. 1. desember 1921. Í  bréfunum sé annars vegar lýst merkjum Víðivallagerðis og Víðivalla, auk þess sem þar sé sérstaklega lýst aðskildu landsvæði, svokölluðum Villingadal. Sé Villingadals getið með svofelldum hætti í bréfunum: „Undir Víðivelli fremri liggur Villingadalur“ og sé merkjum hans lýst.

            Á því sé byggt að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrri svæðið, beri við mat slíkra bréfa að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004 (Úthlíð).

            Þá verði og við mat á gildi landamerkjalýsinga jarðarinnar að horfa til þess, að ekki verði séð að bréfin hafi verið samþykkt af eigendum allra aðliggjandi jarða.

            Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því, að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

            Hvergi komi fram í heimildum að á Villingadal hafi verið heilsársbúseta. Sú staðreynd, auk þeirrar aðgreiningar frá Víðivöllum og Víðivallagerði sem gerð sé í fyrrgreindum landamerkjabréfum, bendi til þess að svæðið hafi verið afréttur og aðskilið frá öðru landi heimajarðarinnar.

            Ekki verði því talið að svæðið sé jörð í eignarréttarlegum skilningi þess orðs. Villingadalur liggi jafnframt ekki að heimajörðum, heldur liggi jörðin að Sturluflöt á milli Villingadals annars vegar og Víðivallagerðis og Víðivalla fremri hins vegar. Vísar stefndi um þessa aðstöðu til hliðsjónar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 133/2006 (Hrunaheiðar).

            Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.

            Vísist um það til þess sem áður hafi verið rakið, og rakið verði, sem og til staðhátta og gróðurfars á svæðinu en um sé að ræða fjalllent og gróðursnautt landsvæði sem liggi fjarri byggð. Þá hafi fjallskil verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum jörðum án hindrana. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.

            Eldri heimildir bendi jafnframt til að jörðin Víðivellir fremri hafi átt afrétt á umræddu svæði, þótt hann sé ekki nánar tilgreindur. Í jarðamati 1849 segi þannig að Víðivellir fremri eigi: „að tiltölu til afréttar fyrir sig á svokölluðum Villíngadal...“ Í mati Skriðuklaustursjarða frá árinu 1878 segi að fyrir utan Skriðuklaustur sjálft og Víðivelli fremri eigi engar klausturjarðir afrétti. Í landamerkjabréfi Víðivallagerðis og Víðivalla fremri frá 1884, segi að undir Víðivelli fremri liggi Villingadalur. Næst sé fjallað um landsvæðið í lýsingu Víðivalla fremri, dags. 10. ágúst 1914, þar sem segi að jörðinni fylgi afréttur á Villingadal sem muni hafa verið fenginn í skiptum á engjaparti við jörðina Sturluflöt. Tekið sé fram að vegna staðhátta hafi jörðin „lítil not afréttarins og [noti] hann ekki fyrir búfé ábúenda, vegna þess að fé [renni] þaðan á afrétt fjarlægra sveita (suðurhluta S. Múlasýslu), né heldur [fái] aðrir upprekstur á afrétt þessa.“ Í landamerkjabréfi Víðivalla fremri frá árinu 1921 segi að undir jörðina liggi Villingadalur. Í ritinu Göngur og réttir sé Villingadalur talinn upp meðal afréttarlanda í Fljótsdal og í byggðasögunni Sveitir og jarðir í Múlaþingi segi að Villingadalur sé meðal afréttarlanda í hreppnum. Þar segi einnig að heiðarflæmin allt vestan frá Jökulsá, inn til jökla og austur að Strútsá og Fellsá „teljist nú almenningur, þar eð Fljótsdalshreppur [sjái] um göngur á svæðinu.“

            Bent sé á, að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Ólíklegt verði að teljast, að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum. 

            Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48/2004 (Úthlíð). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignaréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.

            Verði talið, að svæðið hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn helgað sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Um þetta sé m.a. vísað til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).

            Verði hins vegar talið, að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarétti, byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því, að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Þó að talið yrði að til beins eignaréttar hefði stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

            Þá sé á því byggt af hálfu stefnda, að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarétti.

            Nyrst í Villingadal rísi Villingafell í um 600 – 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar sé rýrt mólendi en land sé þar lítt gróið til hálfgróið þegar sunnar dragi. Svonefnd Hraun taki við þar sem samfelldum gróðri sleppi. Þau standi hátt og flokkist að stórum hluta sem fjalllendi. Þar setji svip sinn á landið gróðurvana jökulurðir, öldur og fell. Við sýslumörk Norður- og Suður Múlasýslna, skammt suðvestan Sauðahnjúka, rísi land í um 850 metra hæð yfir sjávarmáli.

            Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.

            Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.

            Stefndi hafni því einnig, að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignaréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar í skilningi laga, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

            Þeim málatilbúnaði stefnenda sé jafnframt hafnað, er lúti að því að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Með lögunum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar, heldur skera úr um eignaréttindi.

            Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telji stefndi að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2005, hvað varði hið umþrætta landsvæði, hafi verið röng. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ...sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé...“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignaréttarlega stöðu. Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnenda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

            Að öðru leyti mótmæli stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim sé lýst í stefnu, en byggi um leið á þeim röksemdum sem lagðar hafi verið til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2005, auk þess sem byggt sé á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar hafi verið fram af hálfu stefnda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í kröfulýsingu hans fyrir nefndinni, dags. 14. október 2004, sbr. greinargerð hans dags. 14. október 2004, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í fyrrgreindu máli nr. 1/2005, verði staðfestur, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með þeim hætti sem þar sé gert.

            Auk framangreindra lagatilvísana, vísi stefndi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Byggt sé á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Vísað sé til hefðarlaga, nr. 46/1905 og til laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil. Þá sé vísað til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.

            Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra laga.

 

VI

            Eins og nánar er lýst hér að framan stendur deila málsaðila um eignarréttarlega stöðu landsvæðis innan merkja sem nánar er lýst í kröfugerð stefnenda og ekki þykir ástæða til að endurtaka hér. Fjallaði óbyggðanefnd um málið á grundvelli fyrirmæla laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og kvað upp úrskurð 29. maí 2007 og hafði málið númerið 1/2005. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að innan greindra merkja á Villingadal væri þjóðlenda í afréttareign stefnenda. Ekki er deilt um afmörkun svæðisins.

            Byggir málsókn stefnenda á því að þeir telja sig eiga umrætt svæði beinum eignarrétti, en eigi það ekki aðeins í afréttareign eins og óbyggðanefnd taldi. Stefndi unir hins vegar niðurstöðu óbyggðanefndar.

            Samkvæmt sönnunarreglum sem staðfestar hafa verið ítrekað í fordæmum Hæstaréttar í þjóðlendumálum bera þeir sem kalla til beins eignarréttar á landi sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum þar um, en takist slík sönnun ekki verður landsvæðið talið þjóðlenda í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998, enda rúmist slík niðurstaða innan kröfugerðar íslenska ríkisins þar um. Stefnendur bera því ótvírætt sönnunarbyrði fyrir því að þau eigi þann rétt sem þau krefjast.

            Þá sönnunarbyrði, sem samkvæmt framansögðu hefur verið lögð á landeigendur, verður þó að virða með hliðsjón af því að óbyggðanefnd hefur sjálfstæða rannsóknarskyldu samkvæmt lögum nr. 58/1998. Ber nefndinni að hafa frumkvæði að gagnaöflun, þó það aflétti ekki skyldu málsaðila til að afla þeirra gagna sem þeir telja þörf á til sönnunar kröfum sínum. Hefur ekki verið sýnt fram á í máli þessu að óbyggðanefnd hafi ekki gætt rannsóknarskyldu sinnar í máli þessu en til grundvallar úrskurði nefndarinnar liggur umfangsmikil gagnaöflun eins og sjá má af gögnum málsins.  Hafa stefnendur ekki vísað í málinu til neinna gagna sem ekki lágu fyrir óbyggðanefnd áður en hún kvað upp úrskurð sinn.

            Þá hefur skapast sú dómvenja í þjóðlendumálum að líta beri svo á að tilvist landamerkjabréfs veiti aukin líkindi fyrir því að það landsvæði sem þar er afmarkað sé háð beinum eignarrétti landeiganda. Þó hefur skýrt verið tekið fram að skoða þurfi hvert landamerkjabréf sérstaklega, t.d. með tilliti til staðhátta, upplýsinga um nýtingu, hvort samþykki eigenda aðliggjandi jarða hafi legið fyrir við gerð landamerkjabréfsins svo eitthvað sé nefnt. Tekið hefur verið fram að ekki sé unnt að líta svo á að menn hafi með gerð landamerkjabréfs getað aukið einhliða við land sitt eða annan rétt.

            Eins og lýst er ítarlega í málatilbúnaði aðila hér að framan liggur hið umþrætta landsvæði innan merkja sem lýst er í landamerkjabréfum Víðivalla fremri. Landsvæðinu er þó lýst sérstaklega enda liggur það ekki að heimalandi jarðarinnar, en á milli liggja jarðirnar Víðivallagerði og Sturluflöt.

            Ekki verður talið að landnámslýsingar, sem stefnendur vitna til í málatilbúnaði sínum séu nægilega skýrar til að veita nokkra leiðbeiningu um hvort umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu og verða því engar ályktanir dregnar af þeim sem gagnast við úrlausn máls þessa.

            Stefnendur lýsa því með tilvísun í heimildir að þeir telji líkindi til þess að Víðivellir fremri hafi eignast Villingadal í makaskiptum við jörðina Sturluflöt og hafi gefið „engjapart“ í staðinn. Fellst dómurinn á þessar röksemdir stefnenda og telur því að ofmælt sé í úrskurði óbyggðanefndar að ekki sé vitað hvernig eigendur Víðivalla fremri séu komnir að rétti sínum til Villingadals. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að skjallegar heimildir um umfang og inntak þess réttar sem þannig kunni að hafa verið framseldur eru af skornum skammti. Þá liggja engar heimildir fyrir um hver kunni að hafa verið merki umrædds svæðis þegar það hafi tilheyrt Sturluflöt. Megi því segja að breyttu breytanda að ekki liggi fyrir hvernig eigendur jarðarinnar Sturluflatar hafi verið komnir að þessum rétti þegar hann hafi tilheyrt jörðinni. Þá liggja heldur ekki fyrir neinar heimildir sem lýsa öðrum og meiri rétti til umrædds landsvæðis en stefnendum var játaður með úrlausn óbyggðanefndar. Hefur stefnendum því ekki tekist sönnun þess að þau réttindi sem þannig hafi verið framseld frá jörðinni Sturluflöt til jarðarinnar Víðivalla fremri hafi verði víðtækari en í úrskurðinum segir, enda stendur óhögguð sú ályktun óbyggðanefndar að engin gögn séu fyrirliggjandi sem lýsa öðrum notum umrædds landsvæðis en hefðbundnum afréttarnotum. Þá styður lega landsvæðisins þessa niðurstöðu og einnig það að afréttarlönd liggja að landinu á þrjár hliðar, sem og þau önnur atriði sem nánar er lýst í niðurstöðu óbyggðanefndar.

            Stefnendur hafa einnig byggt á því að þegar fyrri eigendur Víðivalla fremri fengu jörðinni afsalað til sín frá stefnda með afsali dags. 13. september 1917 þá hafi legið fyrir að umrætt svæði fylgdi jörðinni og hafi þeir því haft réttmætar væntingar til þess að umrætt landsvæði, sem lýst sé sérstaklega í landamerkjabréfi, teldist undirorpið beinum eignarrétti. Við undirbúning sölunnar fór fram mat á jörðinni á grundvelli þágildandi laga um sölu jarða í eigu ríkisins. Í samræmi við lagaákvæði þar um fór því fram skoðunargerð á jörðinni. Vitna stefnendur til þessarar skoðunargerðar í málatilbúnaði sínum, en þar segir m.a.  „Afrétt á Villingadal fylgir jörðinni, en mun hafa verið fenginn í skiftum á engjaparti við jörðina Sturluflöt...“. Umrædd skoðunargjörð er meðal þeirra gagna sem legið hafa fyrir við sölu til fyrri eigenda Víðivalla fremri og verður að telja að efni hennar hafi verið þeim kunn. Verður því ekki fallist á það með stefnendum að framangreind sala jarðarinnar frá íslenska ríkinu hafi skapað þeim réttmætar væntingar til þess að eignarréttur sá yfir umræddu landsvæði sem framseldur hafi verið hafi verið ríkari en felst í afréttarnotum. Verða kröfur stefnenda því ekki teknar til greina á grundvelli þessara röksemda.

            Stefnendur hafa einnig vísað til nánar tilgreindra bréfa hreppstjóra frá árinu 1920 þar sem því er lýst m.a. að engir afréttir eða almenningar séu í þeirra hreppi sem sannanlega tilheyri ekki tiltekinni jörð. Mótmæla stefnendur ályktun sem óbyggðanefnd hafi dregið af nefndum bréfum og telja að af þeim megi mun fremur draga gagnstæða ályktun. Virðast þessar röksemdir stefnenda byggjast á þeirri forsendu að ekki geti verið um afréttareign tiltekinnar jarðar að ræða, heldur hljóti afréttareign að vera sameign margra. Er ekki unnt að fallast á þessar röksemdir. Verður að telja að ekkert standi því í vegi að sá takmarkaði eignarréttur sem í afréttareign felst geti verið í eigu tiltekinnar jarðar og heimildir landeigenda þeirrar jarðar standi þá til þess að leyfa öðrum afnot afréttarins gegn afgjaldi.

            Eins og gögn liggja fyrir um nýtingu umrædds landsvæðis verður ekki fallist á að stefnendur geti hafa unnið eignarhefð á landinu í ríkara mæli en felst í þeirri afréttareign sem þeim hefur verið játuð.     

            Er það niðurstaða dómsins að sá ágalli sem dómurinn hefur samkvæmt framansögðu fallist á að séu á úrskurði óbyggðanefndar verði að teljast smávægilegur og sé ekki þess eðlis að leiða eigi til ógildingar úrskurðarins. Þá er það niðurstaða dómsins að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á að niðurstaða úrskurðarins sé efnislega röng. Að fenginni þeirri niðurstöðu eru engin efni til að fallast á viðurkenningarkröfu stefnenda. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnenda í málinu.

            Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði að meðtalinni málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af kröfum stefnenda, Gunnþórunnar Ingólfsdóttur og Jósefs Valgarðs Þorvaldssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarakostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 311.250 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.

 

Halldór Björnsson