• Lykilorð:
  • Þjóðlenda

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 27. október 2011 í máli

nr. E-68/2009:

 

Guðrún María Valgeirsdóttir

Sigurður Jónas Þorbergsson

Þuríður Sigurðardóttir

Ólafur H. Jónsson

Bryndís Jónsdóttir

Sigurður Baldursson

Finnur Baldursson

Pétur Gíslason

Finnur Sigfús Illugason

Jón Illugason

Sólveig Illugadóttir

Gísli Sverrisson

Héðinn Sverrisson

Sigrún Sverrisdóttir

Kristín Þ. Sverrisdóttir

Landeigendur Reykjahlíðar ehf.

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 17. október sl., hafa Guðrún María Valgeirsdóttir, kt. 000000-0000, Sigurður Jónas Þorbergsson, kt. 000000-0000, Þuríður Sigurðardóttir, kt. 000000-0000, Ólafur H. Jónsson, kt. 000000-0000, Bryndís Jónsdóttir, kt. 000000-0000, Sigurður Baldursson, kt. 000000-0000, Finnur Baldursson, kt. 000000-0000, Pétur Gíslason, kt. 000000-0000, Finnur Sigfús Illugason, kt. 000000-0000, Jón Illugason, kt. 000000-0000, Sólveig Illugadóttir, kt. 000000-0000, Gísli Sverrisson, kt. 000000-0000, Héðinn Sverrisson, kt. 000000-0000, Sigrún Sverrisdóttir, kt. 000000-0000, Kristín Þ. Sverrisdóttir, kt. 000000-0000, og Landeigendur Reykjahlíðar ehf., kt. 000000-0000, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli í Reykjavík, með stefnu birtri 15. desember 2008 til ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2007.

 

Dómkröfur stefnenda eru:

Aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 6. júní 2008 í máli nr. 1/2007, þess efnis að hluti jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:  Landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998:

Úr Bræðraklifi í Hafragjá (G) er farið í Veggjafell (H), við austurjaðar Herðubreiðarfjalla, og þaðan til suðausturs, í stefnu á Hlaupfell, þar til kemur að skurðpunkti (I) við línu sem liggur frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum í Herðubreið.  Frá þessum skurðpunkti (I) er síðastnefndu línunni fylgt austur að ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum (J).  Þaðan ræður Jökulsá á Fjöllum til norðurs þar til komið er beint austur af Bræðraklifi í Hafragjá (M) og þeirri línu fylgt í Bræðraklif (G).

Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Reykjahlíðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

 

Landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan Bræðraklifs og norðan Dyngjujökuls, innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar, auk Ódáðahrauns vestan Öskju og á Trölladyngjusvæðinu, innan kröfusvæðis Skútustaðahrepps, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.  Þjóðlenda í Ódáðahrauni afmarkast í heild sinni svo:

Frá upptökum Krossár (A) er dregin lína beina stefnu í austsuðaustur í suðvesturhorn Dyngjufjalla ytri (B).  Síðan er farið í Fjallöldu sem er við norðvesturhorn Dyngjufjalla ytri (C).  Frá þeim punkti er farið norðvestur í upptök Suðurár (D). Þaðan er farið beint í austur þar til Bláfjallshalar eru í norðri (E) en úr þeim punkti er farið beint í norður í suðurenda Bláfjallshala (F).  Þá er farið austnorðaustur í Bræðraklif í Hafragjá (G). Þaðan er farið í Veggjafell, við austurjaðar Herðubreiðarfjalla (H), og þaðan til suðausturs, í stefnu á Hlaupfell, þar til kemur að skurðpunkti (I) við línu sem liggur frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum í Herðubreið.  Frá þessum skurðpunkti (I) er síðastnefndu línunni fylgt austur að ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum (J).  Þaðan ræður Jökulsá á Fjöllum að meginupptökum sínum í Dyngjujökli (K). Síðan er jökuljaðrinum fylgt til vesturs þar til komið er suður undir Gæsahnjúk (L) og miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.  Úr þeim punkti er farið norður aftur í fyrstnefndan punkt í upptökum Krossár (A).

Þess í stað er þess krafist að viðurkennt verði að merki milli þjóðlendu að sunnan og eignarlands Reykjahlíðar að norðan séu frá skurðpunkti við þjóðlendulínu sunnan Bláfjalla (p.1) þaðan bein lína í Bræðraklif (Bræðrafell) fyrir vestan Herðubreið (p.2) og þaðan beint austur í Jökulsá (p.3) fyrir sunnan Herðubreiðartungu, sbr. framlagðan uppdrátt, og þar með að enga þjóðlendu sé að finna innan réttra landamerkja Reykjahlíðar.

Þá er þess krafist að málskostnaðarákvörðun nefndarinnar gagnvart stefnendum um að greiða þeim 2.200.000 krónur í málskostnað verði felld úr gildi, og þess í stað dæmt að stefnda beri að greiða stefnendum kr. 4.327.500 auk vsk. kr. 1.060.235 eða samtals kr. 5.387.737 í málskostnað vegna lögmannsþjónustu auk kr. 2.599.120 vegna útlagðs kostnaðar landeigenda sjálfra vegna vinnu þeirra við gagnasöfnun, rannsóknir, fundi auk ferðakostnaðar, eða samtals kr. 7.986.857, vegna meðferðar málsins fyrir óbyggðanefnd.

 

Varakrafa stefnenda er, verði niðurstaða óbyggðanefndar staðfest, að viðurkennt verði að stefnendur eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og annarrar nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var þjóðlenda innan landamerkja Reykjahlíðar, þ.e. norðan sömu kröfulínu og í aðalkröfu stefnenda greinir, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, þótt landið teljist þjóðlenda sunnan úrskurðarlínu óbyggðanefndar.

 

Stefnendur krefjast málskostnaðar úr hendi stefnda líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, en með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 9. febrúar 2009, var þeim veitt gjafsókn.

 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda svo og málskostnaðar að skaðlausu, en til vara að aðilar beri sinn kostnað af málinu.

 

Stefnendur eru þinglýstir eigendur Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi.

 

I.

1.  Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 15. júní 2006, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi, sbr. 8. gr., 11. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Afmarkaðist svæðið nánar, að austan af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum, frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að ármótum við Kreppu.  Þaðan er Kreppu fylgt þar til komið er að ármótum við Kverká og hinni síðarnefndu fylgt að upptökum í Brúarjökli.  Þaðan er dregin lína til suðvesturs, til skurðar við línu þá í Vatnajökli sem afmarkar svæðið til suðurs, þar er hornmark.  Framangreind afmörkun til vesturs endar í Fjórðungskvísl.  Að sunnan fylgja mörkin miðjum farvegi Fjórðungskvíslar til austurs í punkt við Nýjadal/Jökuldal.  Þaðan eftir dalnum, beina línu milli fimm punkta sem staðsettir eru í miðjum farvegi Fjórðungskvíslar.  Þaðan úr austasta punkti í hæðarpunkt 1115 m.  Þaðan í Deili, hæð 1125 m, og áfram, inn á Vatnajökul, í Bárðarbungu, hæð 2009 m, þaðan í Svínahnjúk eystri og loks í stefnu á miðja Breiðubungu, þar til kemur að hornmarki við austurmörk.  Að norðan afmarkast svæðið af hafi.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði bárust 1. nóvember 2006.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu og útdrátt úr kröfu stefnda ásamt uppdrætti í Lögbirtingablaðinu 10. nóvember 2006, en einnig í dagblöðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Í tilkynningunni var m.a. skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðisins, þ.m.t. stefnendur, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 12. febrúar 2007.  Var sá frestur framlengdur og bárust síðustu kröfulýsingar í júlí nefnt ár.  Umræddu þjóðlendukröfusvæði stefnda var skipt niður í fimm mál, þ. á m. mál nr. 1/2007 Mývatnsöræfi og Ódáðahraun.  Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt.  Þá fór fram lögboðin kynning og var frestur til athugasemda veittur til 27. júlí 2007.  Engar athugasemdir bárust og þá ekki við fyrirtökur málsins þann 26. apríl, 11. júní, 9. ágúst og 29. ágúst 2007.  Að lokinni aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd 3.-5. september 2007, þar sem m.a. var farið í vettvangsferð, var málið tekið til úrskurðar.  Málsmeðferðin var endurupptekin 29. maí 2008, en þá voru lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar á ný.

Hinn 6. júní 2008 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar, að það landsvæði, sem lýst er í aðalkröfu í stefnu, sem nefnt hefur verið Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir og landsvæði innan kröfusvæðis Reykjahlíðar, þ.e. sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan Bræðraklifs í Hafragjá og norðan Dyngjujökuls, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, auk Ódáðahrauns vestan Öskju og á Trölladyngjusvæðinu, innan kröfusvæðis Skútustaðahrepps.  Einnig var hafnað kröfum Grænavatns á nefndu landsvæði, norðan Bræðraklifs í Hafragjá.  Þá taldi nefndin að sá hluti Vatnajökuls sem liggur innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar væri þjóðlenda í skilningi fyrrgreindra ákvæða.  Aftur á móti var það niðurstaða óbyggðanefndar að fyrrnefnd Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir væru afréttareign Reykjahlíðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, og að sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan nefnds Bræðraklifs og norðan Dyngjujökuls, innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar, væri háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44, 1999, sbr. náttúruminjaskrá og auglýsingu nr. 194, 1978.

Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 3/2007 var það niðurstaðan að landsvæði inn af austanverðum Bárðardal, svonefndur Framdalaafréttur, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en að það væri afréttareign þinglýstra eigenda Einarsstaða og Jaðars í Reykjadal, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.  Á sama hátt var það niðurstaða óbyggðanefndar í nefndu máli að landsvæði norðan og austan landsvæðis, sem nefnt er Selland og afréttarland Skútustaða í Skútustaðahreppi, væri þjóðlenda og afréttur.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58, 1998.

Stefnendur undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málsókn sinni hér að fá henni hnekkt og krefjast því ógildingar úrskurðarins að því er hið umþrætta landsvæði varðar.

Málið er höfðað innan þess frests, sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, skv. 11. gr. laganna.

Við meðferð málsins fyrir dómi var tvívegis farið á vettvang.  Þann 27. ágúst 2009 var m.a. farið um landsvæði vestan Jökulsár, um Grjót, við Miðfell og Fremstafell, en þaðan um landsvæði í nágrenni Veggjafells og að Hafragjá norðan við Gjáfjöll í Herðubreiðarfjallgarði.  Þann 27. ágúst 2010 var m.a. farið um landsvæði vestan Jökulsár og um Grafarlönd austari, Herðubreiðarlindir og að Gljúfrasmið, en síðan suðvestur með Herðubreið, um Flötudyngju, og að Bræðrafelli sunnan Kollóttudyngju.

 

2. Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 1/2007, er samkvæmt framangreindu, m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu fyrrgreindra landsvæða í Ódáðahrauni og á Mývatnsöræfum.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 196 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi, sveitarmörkum, afnotum og sögu einstakra jarða.  Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004, en einnig í síðari dómum réttarins á þessu réttarsviði.

 

3. Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum skjölum, m.a. þeim sem Þjóðskjalasafn tók saman, segir frá því að í Landnámabók segi að Þorsteinn sonur Sigmundar Gnúpa-Bárðarsonar hafi búið fyrst að Mývatni, að Þorkell hinn hávi hafi komið ungur til Íslands og byggt að Grænavatni er gengur að Mývatni og að Geiri sem kom af Noregi hafi fyrstur byggt á Geirastöðum í Mývatnssveit.

Í úrskurðinum er landi norðan, austan og sunnan Mývatns, á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni lýst að nokkru, en þar segir m.a.:

Landsvæði það sem hér um ræðir er mjög víðfeðmt og hefur leguna norður suður.  Nyrsti hluti þess er fjalllendur og liggur í yfir 400 m hæð. Nokkuð er um hóla, hæðir og fjöll og ber helst að nefna Gæsafjöll (882 m) sem eru mikil um sig og liggja norðvestast á svæðinu. Austan þeirra liggja Hágöng (795 m).  Krafla (818 m) liggur suðvestan Háganga og Jörundur (811 m) er suðaustan Kröflu.  Eilífsvötn (354 m) liggja nyrst á svæðinu. Austan til á norðurhlutanum er land hallalítið.

Sunnan þjóðvegar nr. 1 liggur land í yfir 500 m hæð og er víðfeðmt og hallalítið með fjölda fjalla og stapa sem rísa upp úr Ódáðahrauni.  Nyrst ber þar að nefna Skógamannafjöll (681-599 m) og vestan þeirra liggur Búrfell (953 m), rismikill stapi.  Þar suðvestan af liggur Heilagsdalsfjall (904 m).  Nokkru sunnan þessara fjalla liggja rismiklar dyngjur, fell og fjöll um stórbrotið svæði.  Ber þar að nefna Herðubreiðarfjöll (1094), Kollóttudyngju (1180 m), Herðubreið (1682 m), Herðubreiðartögl (1070 m) og Upptyppinga (927-1084 m).  Vestan Upptyppinga liggur eldfjallakerfi Dyngjufjalla (1510 m) með Öskju og Öskjuvatni sem er 11 km² að stærð.

Landsvæðið er að mestu gróðursnautt en þar er mikið rof.  Helstu gróðursvæðin eru í Grafarlöndum og Herðubreiðarlindum sem liggja á vesturbökkum Jökulsár á Fjöllum.  Land mætir jökli í um 800 m hæð upp af Holuhrauni.  Frá Gæsafjöllum suður í jökul við Holuhraun eru um 106 km, og úr Herðubreiðarlindum til vesturs í Víti, norðan Öskjuvatns, eru tæpir 29 km, mælt í beinni loftlínu.“

Í úrskurðinum segir nánar um gróðurfarið að talið sé að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á afréttum suður af Mývatni, svo sem á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er.

 

4.  Um sögu einstakra jarða og landsvæða austan og sunnan Mývatns vísa aðilar í málatilbúnaði sínum m.a. til samantektarkafla í úrskurði óbyggðanefndar, en einnig til þeirra fjölmörgu gagna og heimilda sem lögð voru fram við meðferð málsins hjá óbyggðanefnd og síðar fyrir dómi.  Eru þar á meðal vitnisburðir og dómar frá 16. öld, jarðamöt, lögfestur, máldagar, vísitasíubækur biskupa og skjalasöfn prófasta, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, afréttarskrá fyrir Skútustaðahrepp frá 1878, landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 1891 og Grænavatns frá 1921.  Einnig hafa aðilar lagt fram fjölmörg rit um nefnt landsvæði.  Eru þar á meðal Ásverjasaga, rit Ferðafélags Íslands, gögn sem Þjóðskjalasafn Íslands hefur tekið saman, Göngur og réttir eftir Braga Sigurjónsson og bókaflokkur Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun.  Auk þess hafa verið lagðir fram kaflar úr fræðiritum og ferðabókum eftir náttúrufræðinga, þar á meðal Þorvald Thoroddsen, Pálma Hannesson og Orra Vésteinsson.

Samkvæmt nefndum gögnum er jarðarinnar Reykjahlíðar getið í máldögum Auðunar rauða frá 1318.  Segir þar að Reykjahlíðarkirkja eigi hálft heimaland með öllum gögnum og gæðum.  Hið sama segir í máldögum Péturs Nikulássonar frá 1394.  Samkvæmt heimildum komst Reykjahlíð í byrjun 16. aldar í eigu svonefndra Ásverja frá Kelduhverfi, en upp frá því var farið að safna vitnisburðum um réttindi jarðarinnar austan og sunnan Mývatns, þ. á m. á Mývatnsöræfum, og dæma um það dóma.  Virðist tilefnið hafa verið deilur um námuréttindi, þ. á m. í svonefndum Fremri-Námum við fjallið Ketil, austan Heilagsdals, Heilagsdalsfjalls og Bláfjalls (1222 m).

Í vitnisburði Jóns Magnússonar frá 26. september 1505 um landareign Reykjahlíðar, en hann er sagður hafa verið heimilisfastur í Þingeyjarsýslu, þ. á m. við Mývatn, í 60 ár, segir m.a.: „ad þeir dandimenn sem att hafa jordina reikiahlijd er liggur vid myvatnn hafa haft og halldid og sier eignad med jordunni og kirkiunni i reykiahlijd auræfi oll atolulaust fyrir austann fiallgarda þa sem næsta liggia vid myvatn fyrir austann vatnid ad jokulsä og omerkinga alla millum Jlifsvatna og brædraklifs fyrir vtann herddibreid. hefi eg og heyrt mier marga skilvijsa elldre menn so seigia. ad þessi landareignn hafi fylgt jordunni reykiahlijd langt fyrir mijna daga. so sagdi mier minn fader ad hann hefdi hier skilrikji thil lesid vmm fyrr sagda landareign. og þeir hefdi þessa landareign haft og halldit sem reikiahlijd hefdi att vmm hans daga. ... sagdi hann þetta jtolulaust verid hafa vtann þær kaplagongur sem bref og mäldagar thil seigia er aa melana hefur haftt verid.

Í vitnisburði Þórólfs Hranasonar frá 6. maí 1506 um landareign Reykjahlíðar, en hann er sagður hafa verið heimilisfastur í Þingeyjarþingi í meira en 50 vetur, segir að hann hafi: „full sannindi, að þeir sem átt hafa jörðina Reykjahlíð hafa haft og halldid og sier eignnad j allann þennann tijma auræfi þau oll er liggia fyrir austann myuatn ad Jokulsaa og alla omerkinga a milli Jlifsvatna og brædrakliffs er liggur sudur a auræffumm.  Þórólfur bætir því við að nefnda jarðeign hafi hann heyrt skilríka menn sér eldri segja að hafi verið eign Reykjahlíðar langt fyrir sinn aldur átölulaust fyrir utan beitarítölur á melana, sem skilríki séu fyrir.

Er framangreindar vitnaskýrslur voru gefnar var eigandi Reykjahlíðar Þorsteinn Finnbogason sýslumaður, en faðir hans Finnbogi Jónsson, sem þá var lögmaður, gaf einnig vitnisburð um landareign jarðarinnar, ásamt Magnúsi Þorkelssyni og Gamla Þorsteinssyni, hinn 8. maí 1506.  Voru skýrslur þeirra efnislega samhljóða vitnisburðum Þórólfs og Jóns.  Liggur fyrir að í beinu framhaldi af vitnaleiðslum þessum útnefndi nefndur Finnbogi lögmaður sex manna dóm til að skoða, rannsaka og leggja á dóm um bréf, prófa vitni og skilríki, sem Þorsteinn Finnbogason hafði lagt fram, og um það: „huort hann skylldi at laugum hallda mega med jordinni Reykiahlid oll auræfi þau er liggia fyrir austann myvatnn og hann reiknade greindre jordu hefdi at fornnu fylt.  Var í kjölfarið lagður fram vitnisburður fimm góðra manna, sem lengi höfðu verið heimilisfastir í héraðinu, um að þeir vissu fyrir full sannindi, að þeir, sem átt hefðu Reykjahlíð, hefðu haft og haldið og sér eignað meir en 40 vetur, átölulaust allan þann tíma, öræfi fyrir austan Mývatn að Jökulsá og alla ómerkinga í milli Eilífsvatna og Bræðraklifs suður á öræfum.  Þetta hefðu skilríkir menn þeim eldri sagt.  Þess er og getið að tveir „skilríkir menn sóru með fullum bókareiði, að þessi öræfi og landamerki hefðu verið haldin átölulaus eign Reykjahlíðar meir en 60 vetur: ,,so onguann vissu þeir sier kalla annann nie akiæru veita j millum Jokulsáá og fiallgardz þess er geingur næst fyrir austan myuatnn og ei nemur bufiar haga med omerkingum fra Jlifsvottnum og thil brædraklijfs fyrir vtann herdibreid. soru þeir og ad þeir hefdi heyrtt marga skilrijka menn so seigia sier ellre ad þessi landareign hefdi fylgt jordunni reikiahlijd langt fyrir þeirra daga jtolulaust. vtann þær kaplagaungur sem breff og maaldagar thil seigia er a melana hefur haft verid.

Samkvæmt gögnum dæmdi fyrrnefndur sex manna dómur Finnboga lögmanns þann 17. maí 1506 Reykjahlíð til fullrar eignar öræfi öll fyrir austan Mývatn: „med þeirra ollumm Endimaurkum sem þar hafa vitni vmm borit og eidar vmm geingid og hier i dominum standaÞann 23. maí sama ár samþykkti og staðfesti Finnbogi lögmaður sexmannadóminn um Reykjahlíð, en sagði jafnframt Þorstein son sinn: „... eiga og att hafa og logliga hallda meiga med jordunni reikiahlijd alla fyrskrifada jardar eignn og hier fyrir greinir ad ollum oræfum thil greindumm þeim er liggia j millum Jokulsar og bufiarhaga þeim er liggia austur fra þeim jordum er vid myuatn standa. og sionhending fyrir austann alla bufiarhaga fyrrnefnda sudur i oræfi so langt sem vatzfoll deilast og votn ad draga. eptir þui sem logbok utuijssar vtann þad synist med mäldogum og loglegum vitnum sem i dominum greinir ad nauckrer eigi hier vti þær jtolur eda itok sem logbok skipar j mot riettumm hefdarvitnum eiga ad koma epter logumm.

Samkvæmt skjölum var Reykjahlíðarjörðin þann 30. september 1548 virt á þrjátíu hundruð er hún var lögð með öðrum jörðum til kvonarmundar.  Liggur og fyrir að árið 1555 fékk Ólafur Hjaltason biskup Nikulási Þorsteinssyni kirkjuhluta Reykjahlíðar til eignar, en hann var þá virtur á þrjátíu hundruð.  Samkvæmt jarðamati 1565 var Grænavatnsjörðin virt á þrjátíu hundruð í fjórðungsgjöf í kaupmála.

Eins og áður sagði var í byrjun 16. aldar nokkur ágreiningur millum Reykjahlíðar- og Grænavatnsjarðareiganda um landsvæði austan og sunnan Fjallgarða við Mývatn, og þá ekki síst um Fremri-Náma (Fremrinámur).  Í málatilbúnaði aðila segir m.a. frá því að 26. maí 1506 hafi fyrrnefndur Finnbogi Jónsson lögmaður útnefnt sex manna dóm vegna kæru sonar hans Þorsteins sýslumanns á hendur Magnúsi Pálssyni á Grænavatni vegna ætlaðs óheimils graftar á landi og jörð í Reykjahlíð og brottnáms brennisteins.  Var Magnús dæmdur skyldugur til að vinna eið að því að hann hefði hvorki grafið jörð Þorsteins eða flutt þaðan brennistein, en ella skyldi hann greiða sekt og afhenda aftur jafnmikinn brennistein og hann hafði burt flutt, nema þá að hann særi bókareið að því, að hann hygði tökuna sér heimila að lögum.  Þá segir frá því í heimildum að þann 6. júní 1553 hafi Nikulás, sonur Þorsteins Finnbogasonar í Reykjahlíð, fengið bróður sínum Vigfúsi brennistein í Fremrinámum, heima í Hlíðarnámum og í Kröflu til ævilangrar eignar.  Þá er þess getið í gögnum að nefndur Þorsteinn hafi gefið séra Birni Gíslasyni brennistein í Fremrinámum í sína lífsdaga þann 23. ágúst 1553.

Samkvæmt gögnum var ágreiningur um nefnt landsvæði austan og sunnan Mývatns viðvarandi um langt skeið.  Var af því tilefni efnt til vitnaleiðslna og málaferla á árunum 1562, 1565 og 1596, en einnig 1675, 1766 og 1830.  Virðist málatilbúnaður jarðeigenda Grænavatns hafa byggst á því að þeir ættu eignarrétt á landsvæði austan fyrrnefndra fjallgarða við Mývatn og allt að Hafragjá og austur undir Herðubreið og þar með Heilagsdal og Fremri-Náma.  Af þessu tilefni gaf Kolbeinn Arngrímsson á Grænavatni skýrslu fyrir dómi þann 2. maí 1562, en þar lýsti hann framgöngu Reykjahlíðarfeðga, Þorsteins Finnbogasonar og sona hans, Vigfúsar og Nikulásar, fyrr á öldinni, m.a. varðandi landsréttindi í Fremrinámum, en jafnframt andmælti hann í skýrslu sinni staðhæfingum þeirra feðga um að þeir væru eigendur ómerkinga fyrir austan Fjallgarða, milli Eilífsvatna og Bræðraklifs.  Var eftirfarandi skráð um vitnisburð Kolbeins:

Yferlysti hann fyrir oss at hann hefdi Grænavatn optsinis logfest medan Þorsteirn lifdi og þar med fremre nama. og hefdi hann og hans syner haft samt vijsvitandi.  Opt sagdist hann laga bedist hafa a fremre namum og annari landareign Grænavatz af Ara Jonssyni logmanni og eigi feingid hafa.  Sagdi hann Þorsteirn Fimbogason hefdi stefnt Magnusi Palssyni omaga fiar sins fyrir Brennisteininn j fremre namum. hier med sagdi hann ad lyst hefdi fyrer sier Jon liotur Magnusson og Halldor Sigmundsson þeir sem vm oræfin soru.  at þeir hefdo alldre annat suarit. enn þad Hlijdar kyrkiu hefdi verid eignader aller omerkingar fyrer austan fiallgarda j mille Jlijfsvatna og Brædraklifs. þeir sem mædur helgudu sier eij.  enn eij vissu þeir huort kirkian ætti edur eij.

Sama dag og Kolbeinn gaf vitnisburð sinn seldi hann Grænavatnsjörðina, og af því tilefni lýsti hann suður- og austurlandamerkjum jarðarinnar þannig:

þadan austur i gard þann er skilur lond i milli Briamsnes og Grænavatz: og ur þeir gardi austur í sýdri Burfellskord. þadan og austur í Hafragia. rædur þa giain og fram at Brædraklife og þadan sudaustur únder Herdibreid og allan Heilagsdal.  Rett vr Herdibreid og vestur i Sudurarbotna.  Rædur Sudurá í Liosbleiksbýttu. þar með alla Kieralæki ofan ad Storafossi. og allt land jtolulaust fyrir austan Kraka og vt i motz vid fýr greind landamerki. er fyrer vtan og aústan ofan ganga í Kraka. fra skildú eingiataki við Langhollt. og Balldursheimi hefur til heýrt. og þriggja kúa fodri fra Hrakstrond i Grænauatz eing.  Sagði hann Grænauatn eiga gielldfiarrekstur a Hlidar auræfi.“

Samkvæmt gögnum tilkvaddi Magnús Jónsson, sýslumaður á Barðaströnd, þann 6. maí 1562 sjöttardóm, sem kvað á um gildi lýsts kaupbréfs Kolbeins Arngrímssonar á Grænavatni.  Segir í þeim dómi að dómsmenn hafi talið merki jarðarinnar rétt, en þeim er m.a. þannig lýst:

„... enn landamerke räda austur ur Grenalækiaröse. og i gröf þä. sem geingur austur effter hraunum þeim. sem liggia fyrer sunnann Gard. og þadann i gard þann sem geingur riettsynis ut i vogsbotninn hiä Grenavatnsnauste. þadann og austur I gard þann. sem skilur land mille Briamsness og Grenavatns. þadann riettsynis ür þeim garde og ustur i Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid. og allann Heilagsdal. riett ur Herdebreid til vesturs. og so üt I Sudurärbotna. rædur þä Sudurä. i Liosbleiksbittu. þar med alla Kieralæke ofann ad Störafosse. og allt land jtòlulaust. fyrir austann Kräkälæke. og ütj möts vid fyrgreind landamerke. Enn fyrer utann og austann. ofann i Kräkaa ... þar med Grenavatn ætte gielldfiärrekstur ä Hlijdar òræf.“

Samkvæmt gögnum var þann 30. ágúst 1562 gefinn vitnisburður um að fyrrnefndur Kolbeinn Arngrímsson hefði kvittað Magnúsi Jónssyni sýslumanni fyrir andvirði Grænavatns og handfest honum þann eið að sverja nær Magnús vildi, að hann: „vissi ei betur en að Grænavatn ætti alla þá landareign, ummerki og ítölur sem Kolbeinn hefði til greint, einkað og ánafnað Magnúsi og stóð í þeirra kaupbréfi. Einnig að Kolbeinn hefði lýst, að Þorsteinn Finnbogason hefði með engum lögum sótt af sér Fremrináma. Ungum og nær ómaga hefðu gamlir menn sagt honum, að Kolbeinn Þorgrímsson, afi hans, hefði haft, haldið og sér eignað og jörðinni Grænavatni alla Fremrináma og enginn talað upp á nema Þorsteinn Finnbogason. Kolbeinn Þorgrímsson hefði flutt brennistein úr Fremrinámum til Straums og Flateyjar. Nefndir tveir menn sem hefðu boðið Finnboga lögmanni að sverja þess eið en eigi fengið.“

 

Samkvæmt gögnum seldu Reykjahlíðarbræður, Nikulás og Vigfús Þorsteinssynir, Danakonungi árið 1563 allar námur og brennisteinsfjöll í löndum þeirra.

Í Skinnastaðaártíðarskrá er máldagi Hlíðarkirkju (Reykjahlíðarkirkju) frá árinu 1573.  Er þar lýst landamerkjum Reykjahlíðar og segir þar um m.a.:

Lanndar(!)merki J austan verdan SeliaDal og suo langt vt J mo sem Ilijfs fiall kemur fram vndan gasa Dals fiollum oc suo þadann j Llijfs fiall/ og harfra(!)gil sem er Austur vid Jokuls a/ Enn hid fremra J þa fiall garda  Sem næstir eru fyri austan Myvatn og eckj snertir bufiar h [h: útstrikað]-ägaungu/ oc suo Lanngt fram J oræfi sem vatnzfoll Deilast Og alla Omerkinga  Milli Jlijfs vatna og Brædra Klijfs/ Gelldfiar og Lamba Rekstur främm ä fioll J Einarstadakirkiu Jtok/ milli voga oc hlijdar Landamerki vr ytre Smara lag oc suijna vogur/ vogar eiga lútent wt vndir þreyngsl skilur þar landa merki hlijdar og voga.

Í máldagabók Guðbrands biskups Þorlákssonar 1590 til 1616 er frásögn af því að biskup hafi tekið aftur áðurnefnda gjöf Ólafs biskups Hjaltasonar frá 1555 á kirkjuhluta Reykjahlíðar til Nikulásar Þorsteinssonar og er í framhaldi af því staðhæft að kirkjan eigi hálft heimaland jarðarinnar en einnig hálfan brennistein.  Þá er haft eftir presti árið 1725 að kirkjan í Reykjahlíð eigi Austurfjöll fyrir austan Mývatn.  Þessi landsréttindi Reykjahlíðarkirkju eru áréttuð í reikningum kirkna í Þingeyjarprófastsdæmi árið 1723, en einnig í prófastvísitasíum frá árunum 1727, 1735, 1748, 1750 og 1760.  Í vísitasíu Reykjahlíðarkirkju árið 1828 eru nefnd landsréttindi enn ítrekuð, en auk þess eru þá taldar upp ýmsar aðrar eignir kirkjunnar og tilgreind landamerki gagnvart nágrannajörðum.  Segir í vísitasíunni þar um m.a.:

Landa merke í Austannverdan Seljadal ogso Lángt úti mó, sem Ilífsfiall kemur fram undan Gásardals fiöllum ogso þadan i Ilifsfiall og Hafragil sem er austur vid Jokuls á enn hid fremra i þá fjallgarda sem næstir eru fyrer austann Mijvatn og ecke snertir búfiárgaungu, ogso lángt fram Öræfi sem Vatnsföll deilast, og alla ómerkínga á millum Ilifsfialla [leiðrétt úr, Islifsfialla] og brædraklifs, Géldfiár og Lambarekstur framm á Fjöll i Einarstada Itök. I milli Voga og Hlídar eru landamerki: ytri Smára Lá og Svínavogur. Vogar eiga Lútent út under Þreingsl, skylur þar landamerke Hlídar og Voga.

Samkvæmt gögnum var þann 28. febrúar 1675, að beiðni Björns Gíslasonar frá Skarði á Skarðsströnd, skráður vitnisburður Jóns Þórðarsonar um landamerki Grænavatns.  Í vætti Jóns er suður- og austurmerki jarðarinnar þannig lýst:

„... þadann Austur J þann gard, sem skilur Land millumm Grænavatnz og Briánzness, þadann riettsÿniss vr þeim garde Austur j Búrfellz Skörd, þadann Austur J Hafragiá, Rædur So hin Sama giá framm ad Brædrakliffe, og allt Austur vnder Herdebreÿd. á mótz vid KÿrkiunnarLand J Reikiahlÿd Sem þar mæter Grænavatnz Lande ad vtanverdu, ur Herdebreid og Austur J Jökulzá á Öræffumm. Jtem á Grænavatn [a]llan Heilax dal og Fremre Náma (Grænavatnz Náma) alla. Sem Jnnefelas[t] [J] greÿndu takmarke. Vr Herdebreid riett Siónhendÿng til [ólæsilegt vegna skemmdar: vesturs?], og So J Sudurárbotna, Ráda þadann L[an]damerke Sudur J Liósbleÿkz B[y]ttu, Sem eg higg nu neffnest Skinnhúfutiörn þar med alla Kieralæke og offan ad Stórafosse á mótz vid Stórutúngu Land J Bárdardal ad vestann.“

Fyrir liggur að á 18. og 19. öldinni voru margsinnis lesnar upp lögfestur á manntalsþingum um landamerki nefndra jarða, Grænavatns og Reykjahlíðar.  Þannig segir í lögfestu Einars Jónssonar frá 5. júní 1758 um leigujörð hans Reykjahlíð:

Reykjahlídar Landamerki lögfesti eg i austanverdann Seljadal, og solángt úti mó, sem Ilýfs fiall kémur framm undan Gásadalsfjöllum, þadan I Ilýfs fiall og Hafragil sem er austr vid Jökulsá; en hid fremra Lögfesti eg Reykjahlídar Landeign í þá fiallgarda sem næstir eru fyrir austan Mývötn, en ecki snerta búfiárgaungu, og solángt frammí Öræfi sem vatnsföll deilast.“

Í lögfestu Brynjólfs Sigurðssonar, sýslumanns í Árnessýslu, hinn 21. júlí 1776 segir um merki Grænavatns:

„... ur þeim Garde austur J Burfells Skörd hin Sydre, þadann og austur J Hafra-gia, sem Merkium rædur framm ad Brædraklife, þadann austur under Herdebreid, og allann Heilagsdal riettur Herdebreid til Vesturs, og so uti Sudurár-botna, rædur þá Sudurá J LiosBleiks-bittu, þar med alla Kiera-læke ofann ad Stora-Fosse, og allt Land Jtölulaust fyrer austann Krákaá-læke ...

Þá lögfesti Jón Þórðarson þann 17. maí 1830 ábúðarjörð sína Grænavatn með svofelldum austur- og suðurmerkjum:

Logfesti eg ad austanverdu vid vatnid uti gröf þá, sem liggur i Hrauninu fyrir sunnann Gard, og nú er grasivaxinn laut: Þadann réttsÿnis austur i sokallad Sidrajardfall á Flataskógarrönd þadann beint i Burfells-skördinn sidre, þadann austur i Hafragia, rædur þá giainn fram ad Brædraklifi, þadann austurunder Herdabreid, þadann til vesturs og i Sudurárbotna rædur þá Sudurá alt [alt: tvítekið] i móts vid sokallada Skinnhufu-tiörn, þadann beina stefnu til nordurs i sokalladann Alptakíl hvar Vatnsrennur og lækir allir af hvörjum Kráká er tilordinn, eru mestanpart samankomni:

 

Í jarðamati frá 1804 segir að hálf Reykjahlíðarjörðin tilheyri Reykjahlíðarkirkju en hinn helmingurinn ábúendum.  Jörðin er sögð fjörutíu hundruð.  Árstekjur af fjallagrasatínslu eru sagðir tveir ríkisdalir og 48 shillingar, en tveir ríkisdalir fyrir hestagöngu.  Tiltekið er að jörðinni fylgi kjarrskógur til eigin nota.  Þá segir í jarðamati 1849-1850 um jörðina: „Reykjahlíð ½ Kyrkjueign og ½ Bondaeign, híngað til talin 40 hndr. ... Kostir jarðarinnar eru: mikið fjallaland til hestagaungu sumar og vetur, hagarymi, landkostir til málnytu fyrir fé og kyr i betra lagi, mörland i besta lagi hér i hreppi og góð og áreiðanleg vetrarbeit fyrir fjenað i heimahögum og hross i selhögum og á áðurnefndum fjöllum; ...hjer er og dálítil grasatekja ...

Í óársettri lýsingu Skútustaðaþinga, sem talin er frá 1840, er svofelld lýsing á Reykjahlíðarjörðinni: Reykjahlíð, fjörutíu hundruð, norðaustan við vatnið, geysilandvíð jörð, en sára heyskaparlítil og einkum örðug.  Í sömu lýsingu segir um Grænavatn: Jörðin Grænavatn, þrjátíu hundruð, landlítil heima um sig en hefur það æði mikið í fjarlægð.

Samkvæmt samningi sem undirritaður var 14. ágúst 1899 leigði Jón Einarsson, eigandi Reykjahlíðar, alla fossa í landareigninni.  Fossaréttindin voru afsöluð Einari Benediktssyni árið 1907 og enn síðar, árið 1909, hlutafélaginu „Gigant“.

 

Landamerkjabréf fyrir Reykjahlíð var útbúið 8. apríl 1891.  Var það þinglesið 29. maí sama ár, en í bréfinu segir:

Að sunnan móti Vogum ræður fyrst Svínavogur og Kálfstjörn, þá Smáralág er Reykjahlíð á hálfa.  Þaðan bein lína austur í Námakollu hina syðri; þaðan beint í þrengsli við Skessuhala, þrýtur þar Vogaland að austan.  Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið.  Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.

Að austan ræður Jökulsá alla leið norður að Dettifossi.

Að norðan móti Svínadals- og Áslandi í Kelduhverfi, ræður bein stefna frá Dettifossi í Eilífshnjúk; þaðan bein stefna yfir Hrútafjöll og Gjástykki móti Þeystarreykjalandi, vestur í mó, þar til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúkur ber rjett norður undan Gæsafjöllum.  Frá merki þessu ræður bein stefna í Bóndhól, sem er beint vestur af Gæsadalsfjöllum og þaðan móti Grímsstaðalandi bein lína í Þverdalsbyrgi, þaðan yfir há Skjólbrekku í merkivörðu austast á Flatskalla, þaðan beina stefnu í Kvæk, sem er grashvammur við vatnið, er gengur inní hraunið vestarlega, milli Grímsstaða og Reykjahlíðar.  Þá ræður Mývatn suður að Svínavog. Fyrir vestan vatn á Reykjahlíð, Hrauneyrarland innan þessara ummerkja:  Að norðan og vestan móti Grímsstöðum og Ytri - Neslöndum, ræður fyrst Fretvogur, frá botni hans bein stefna yfir Merkitjörn í Miðkíl er hálfur fylgir Reykjahlíð, þaðan í Tóukíl og eptir honum miðjum suður að Tóukílsgarði; ræður garður sá merkjum móti Syðri-Neslöndum, austur í Mývatn. Ennfremur fylgja Reykjahlíð eyjar, hólmar og sker í Mývatni sem hjer segir  (Reykjahlíð á ítök í annara manna lönd þau [þau, ofan línu] er hjer segir  geldfjár og lambarekstur í Einarsstaðakirkjuland á framfjöllum.  Ennfremur á Reykjahlíð alla ómerkinga er koma fyrir í afrjettarlandi jarðarinnar.)

Þáverandi eigandi og ábúandi Reykjahlíðar ritaði undir bréfið, en það var einnig áritað um samþykki af hálfu eigenda og umboðsmanna Áss og Svínadals, Þeistareykjalands, Ytri- og Syðri-Neslanda, Grímsstaða og Voga.  Á spássíunni við yfirstrikaða textann er ritað að ítakinu hafi ekki verið lýst samkvæmt áskorun 20. maí 1953 og sé því niður fallið.  J. Skaptason sýslumaður ritar þar undir.

 

Í fasteignamati 1916-1918 segir um Reykjahlíðarjörðina:

„Búfjárhagar:  Landið er geysimikið að víðáttu og mjög kjarngott.  Sauðfjárbeit hrossa mjög góð sumar og vetur, ... Fjárgeymsla erfið vetur og sumar. ... Jörðin á víðlenda afrétt á Mývatnsfjöllum, vestan Jökulsár.  Í hana tekið margt sauðfé á sumrum og hross til göngu á vetrum.  Ganga hross þar marga vetur af án gjafar. ... ¼ hluti Dettifoss tilheyrir jörðinni, er sá hluti leigður fyrir 212 kr. árgjald. ... Andavarp í eyjum og hólmum í Mývatni og gæsavarp í Grafarlöndum, skammt frá Herðibreið. Eggjatekjan talin gefa 50 kr. árstekjur. ... Jörðin á upprekstur fyrir geldfé og lömb í Einarsstaðakirkjulandi í Framdölum, en Einarsstaðir 8 hrossa göngu í Mývatnsfjöllum.

Í nefndu mati segir einnig:  ,,Undirmatsnefndin virðist eigi hafa tekið nándar nærri nægilegt tillit til tekna þeirra sem jörðin [Reykjahlíð] hefir af Dettifossi og afrétti, enda mun hin síðarnefnda tekjugrein hafa hækkað síðan matið var gert.  Samþykkt:  Jörðin sjálf færist upp um 1500 Krónur.“

Í ritinu Byggðir Suður-Þingeyinga er frásögn Jóns Sigurðssonar frá Ysta-Felli um afbýli í landi Reykjahlíðar.  Nefnir Jón m.a. býlið Fagranes á milli Reykjahlíðar og Grímsstaða, býlið Hlíðarhaga á milli Reykjahlíðar og Svínadals og loks býlið Austursel, en það er sagt hafa staðið nærri þjóðvegi þeim sem nú er, beint suður af Jörundi og hafi það verið í byggð frá 1729 til 1874/7.  Í bókaflokki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun segir að í Búrfellshraunum, austan við Námaskarð, hafi eitt sinn verið beitarhús frá Reykjahlíð.  Þá hafi býli verið við rætur Dalsfjalls, en þar við sé Dalsrétt, sem verið hafi skilarétt fyrir Austurfjöll til ársins 1880.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að heimildir bendi ekki til annars en að samfelld búseta hafi verið í Reykjahlíð frá því að jarðarinnar er fyrst getið.  Þá segir að í afsals- og veðmálabókum komi fram að eftir gerð landamerkjabréfsins 1881 hafi jörðin framselst með hefðbundnum hætti og verið veðsett.

Árið 1974 voru Herðubreið og Herðubreiðarlindir friðlýstar, sbr. auglýsingu nr. 272/1974.  Í yfirlýsingu vegna friðlýsingarinnar segir að eigendur Reykjahlíðar hafi ekki haft uppi athugasemdir vegna hennar.  Einnig kemur fram í gögnum að vegna  friðlýsingar Öskju sem náttúruvættis árið 1977 hafi tillögur þar um verið bornar undir eigendur Reykjahlíðar, sem „hugsanlegra rétthafa“, sbr. 30. gr. þágildandi náttúruverndarlaga.

Skálar hafa verið byggðir í Herðubreiðarlindum, bæði fyrir ferðamenn og landverði, en auk þess hafa verið gerðir skálar í Dreka austan í Dyngjufjöllum, í Bræðrafelli sunnan í Kollóttudyngju, í Heilagsdal og í Dyngjufelli í Dyngjufjalladal. Flestir skálarnir eru í eigu Ferðafélags Akureyrar.

 

Landamerkjabréf fyrir Grænavatnsjörðina var útbúið 20. maí 1921 og þinglesið sama ár.  Austur- og suðurmörkum jarðarinnar er lýst þannig í bréfinu:

Að austan ræður fjallgarðurinn merkjum suður og svo Bláfjall.  Úr suðaustur horni Bláfjalls liggur merkjalínan í hásuður þar til Suðurárbotnar efri eru í vestri.  Að sunnan eru merkin frá nefndum punkti beint vestur í austustu upptök Suðurár.  Ræður þá Suðurá merkjum vestur gegnt Skinnhúfutjörn. Að vestan eru merkin úr Suðurá bein lína um miðja Skinnhúfutjörn í upptök lækjar þess, er rennur eftir Svartagili norður um Sandana vestur af Austurlækjum og fellur í þá að vestan mjög nærri því, er Norðurlækur sameinast þeim að austan; ráða þá lækirnir merkjum í Kráká, en Kráká skilur land Grænavatns frá löndum Skútustaða, Krákárbakka og Baldursheims alla leið norður þar til suðaustur ræturnar á fjallinu Jörundi bera yfir miðjan bæinn á Grænavatni.  Ræður þá sú lína merkjum norðaustur frá ánni í línu, dregna beint úr austasta gili norðan í Sellandafjalli í austur hyrnuna á há Lambafjöllum (liggur sú lína um strýtumyndaðan klett í Skútustaðaborgum).  Ræður sú lína þá merkjum norður í vörðu á Garðsengisgarði þar sem hæsta nibba á Norður-Skógamannafjalli ber yfir norðanverðan Grænavatnsbæ.  Úr þeirri vörðu ræður bein lína yfir norðaustur hornið á Garðsengi í vörðu í Víðigarði rétt norðan við engið.  Ræður þá sá garður merkjum norðvestur í Strandakíl og þá Strandakíll norður og síðan austur alla leið gegnum Krákuvatn og Einslæk í Grænavatn, en síðan Grænavatn norður hjá fyrst nefndri vörðu í Tóftatanga.

Lönd þessara jarða liggja að Grænavatnslandi:

Að norðan: Skútustaða, Garðs og Voga. Að austan: Reykjahlíðar (öræfi).  Að sunnan: Skútustaða (afréttur).  Að vestan: Skútustaða, Krákárbakka, Baldursheims og Sveinstrandar (Garðsengi).

Þáverandi eigendur og ábúendur Grænavatns rituðu undir bréfið.  Þá var bréfið áritað um samþykki af hálfu landeigenda nágrannajarða, þ. á m. Reykjahlíðar.

 

5.  Elsta fjallskilareglugerð fyrir Þingeyjarsýslur er frá árinu 1893.  Var þar öllu landi sýslunnar skipt í þrjú fjallskilafélög, og var eitt þeirra svæðið á milli Jökulsár og Skjálfandafljóts.  Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um að fjallskilafélögum megi skipta í deildir eftir því sem hagar, fjöll og vatnsföll deila.  Þá segir að land skiptist í afrétti og heimalönd og að það sé hreppsnefnda að ákveða takmörk þar á milli.  Ný fjallskilareglugerð var sett árið 1904, en þar segir að allt land skiptist í öræfi, afrétt og heimalönd og að það skuli vera afréttir sem að fornu hafi verið.  Núgildandi fjallskilareglugerð er frá árinu 1966.

Í framlögðum gögnum er getið um ítök jarða til hrossagöngu á afréttum, þ. á m. á afrétti Reykjahlíðar á Mývatnsöræfum.  Samkvæmt máldaga Auðunar rauða Þorbjörnssonar frá 1318 átti Grenjaðarstaðakirkja tíu hrossa göngu á Austurfjöllum, á svonefndum efri og neðri melum.  Þessara réttinda er getið í eignaskrá kirkjunnar frá árinu 1644.  Þá segir í lögfestu fyrir jörðina Möðrudal í Múlasýslu árið 1844, sem var þinglesin í maí sama ár:  „Máldaga Herra Stepháns Biskups af 1493 og fleyri Biskupanna Visitatiu <a> sanna og samhlióda eru, ad Mödrudalsstad tilheyri .... Hesta gaungu á Mivantsfiöllum og hálfar Herdabreidstúngur.  Þessi réttindi eru áréttuð í landamerkjabréfi Möðrudals árið 1884, en einnig í ódagsettu landamerkjabréfi sem þinglesið var 1923.  Auk landeiganda Möðrudals rita undir landamerkjabréfið bændur nágrannajarða austan Jökulsár, en einnig landeigendur Reykjahlíðar.  Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 segir að Einarsstaðir í Reykjadal eigi átta hrossa göngu á Mývatnsöræfum, m.a. á Borgarmela í Reykjahlíðarafrétt.  Um Reykjahlíð segir nánar í Jarðabókinni: „Hestagánga á öræfunum sæmileg og bregst sjaldan í meðalárum, en þess á milli falla þeir ber harðindi koma uppá. ... Umboðsmaður hefur og leyft oftlega nokkrum sveitarmönnum hjer og líka úr Kelduhverfi hestagöngu á öræfunum á vetur í Reykjahlíðar landi, og hefur tekið 5 álnir undir hvorn, so sem gömul venja er til.  Nú hefur umboðsmaður tilsagt bóndanum þennan toll ef nokkuð fengist.“

Í bókaflokki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun segir að það hafi tíðkast frá ómunatíð að láta hross ganga í mellönd á Mývatnsöræfum.  Segir Ólafur frá því að öðru hverju hafi verið gengið austur og litið eftir hestunum, og þeir reknir saman og niður í sveit þegar ástæða þótti til, en um beitilandið segir nánar:  „Hrossin gengu aðallega í melöldunum austan við Nýjahraun, þar sem féð hefur líka verið haft haust og vor, þarna er mikið af sandhólum stærri og smærri, þöktum melgrasi, oft stórvöxnu, og getur verið þar gott slægjuland.  Þarna tekur tæplega fyrir jörð fyrr en land er allt upp urið, og þótt allt sé nagað, sem upp úr stendur, er kólfurinn grænn og kjarnmikill niðri í sandinum, og krafsa skepnur eftir honum, þegar ekki er freðið, einkum á vorin í gróandanum.  Stundum gekk líka nokkuð af hrossum á Norðurfjöllum, í Norðmelsstykki og þar í kring, en þar er landslag og gróður líkt og sunnar á fjöllunum.

Í sýslubókum Þingeyjarsýslu er umfjöllun um samgöngur í héraði.  Segir m.a. frá því að samist hafi um það með sýslumanni og hreppstjóra á manntalsþingi á Skútustöðum 6. júní 1832 að á því sumri skyldi byggja, ef mögulegt væri, sæluhús eða kofa á Austurfjöllum og skyldi það reist á hentugasta stað á Múlasýslupóstvegi.  Þetta var áréttað á manntalsþingi 1833, en í kjölfar fyrirspurnar sýslumanns á manntalsþingi á Skútustöðum 1836 samþykktu hreppsmenn að viðhalda vörðum og sæluhúsum á Austurfjöllum.

Í nefndu riti Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun er frásögn af því er nokkrir Mývetningar fóru árið 1830 í leiðangur til að leita að útilegumönnum.  Var í leiðangrinum farið allt til Dyngjufjalla, en af þessari ferð dregur Ólafur eftirfarandi ályktanir: „Ferðin sýnir ..., að þrátt fyrir góðan vilja, er það furðu skammt inn í auðnina og út fyrir kunnar fjárleitir, sem leiðangursmennirnir komast, og Dyngjufjöll, hið grunaða land, eru ókönnuð eftir sem áður.“  Í riti sínu segir Ólafur enn fremur frá því að árið 1855, rétt fyrir haustleitir, hafi fjórir Mývetningar farið að leita óþekktra fjárstöðva suður í Ódáðahrauni.  Tilefni ferðarinnar hafi verið að eftir 1850 hafi borið mjög á því að heimtur væru slæmar í Mývatnssveit.  Hafi bændur talið að féð fyndi ókunn beitilönd suður í öræfum.  „Fóru þeir suður að Dyngjufjöllum, suður að Dyngjufjalladal og með suðurhlið fjallanna að suðausturhorni þeirra.  Hittu þeir þar hagadrög og flæður.  Riðu næst suður að Svartá, síðan norður yfir Vaðöldu í Upptyppinga og fundu þar mellönd töluverð.  Fóru um kvöldið í Herðubreiðarlindir, gengu síðan Lindirnar og Grafarlönd. Þessi frásögn Ólafs hefur samhljóm við ritsmíðar Þorvaldar Thoroddsen, en hann fór í rannsóknarleiðangra um Mývatnsöræfi og Ódáðahraun á árunum 1875 og 1882-1884.

Í afréttarskrá Skútustaðahrepps frá árinu 1878 er afréttarsvæðum Mývetninga lýst að nokkru.  Segir þar að afrétturinn sé m.a. á Framdölum, Austurdölum og Grafarlöndum vestari svo og í Miklamó og Dyngjufjallabruna.  Þess er getið að síðastnefndi afrétturinn liggi undir Skútustaðakirkju, Skútustaði og Grænavatn.  Í skránni segir að Mývetningar eigi auk þessara svæða afréttarlönd á Austurfjöllum, en því svæði þannig lýst:

Austan við alla þessa 3 afrjetti, sem nú hafa verið taldir, liggur Odáðahraun, og er gengið í það á hverju ári, svo sem við verður komist. - Öll hjer talin afrjettarlönd hafa frá ómunatíð verið gengin að einni lögrjett, sem liggur í Grænavatns heimalandi og nefnist Grænavatnsrjett. Hreppstjórar í Skútustaðahreppi hafa og jafnan haft á hendi alla fjallskilastjórn í nefndum afrjettum.  Hreppsnefndin athugaði, að byggja þurfi Grænavatnsrjett að nýju og flytja hana úr stað, þar sem hún nálega er komin í eyði af sandfoki. - Munu ráðstafanir til þess gjörðar, svo fljótt sem kringumstæður leifa.  Austurfjöll, sem öll eru eign Reykjahlíðarkyrkju.  Þau ná til suðurs allt fram undir jökla. Að austan takmarkast þau af Jökulsá á fjöllum.  Að norðanverðu eru takmörkin á milli þessa afrjettar og Kelduhverfis afrjettarlanda þessi:  Ur Hafragili beint til vesturs í Eilifsfjall og þaðan í Hrútafjöll.  Að vestanverðu takmarkast afrjetturinn af Kröfluhrauni allt suður á Þríhyrninga, og þaðan suður á Halaskógafjall gegnt Námufjalli.  Þaðan ræður fjallgarðurinn til suðurs í Þrengslaborgir.  Lögrjett fyrir þennan afrjett er Dalsrjett, og liggur hún í Reykjahlíðar heimalandi.  Innan takmarka afrjettarins á jörðin Vogar afrjettarland það er Ludent nefnist; þar stendur og nýbýlið Hlíðarhagi ...

Í ritinu Göngum og réttum eftir Braga Sigurjónsson, ritverki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun og í ritsafni Þingeyinga frá 1954 er m.a. fjallað um fjallskil á afréttum og um nytjar hans í landi Reykjahlíðar.  Er í síðastnefnda ritinu frásögn Jóns Sigurðssonar frá Ysta-Felli um afréttinn, en þar segir:  „Þótt sauðhagar séu langt suður um land Reykjahlíðar, allt til Herðubreiðarlinda, er meginafrétturinn þó norðan Búrfells og suður með Jökulsá frá þjóðvegi.  Austur undir ánni eru eigi aðeins góðir sumarhagar, þar er einnig óvenjulega snjólétt og kjarnaland til vetrarbeitar og veðursæld mikil.  Síðan 1922 hefur sauðfé frá mörgum bæjum verið rekið austur þangað og látið liggja úti fyrri hluta vetrar.  Sjaldan hefur af þessu tjón orðið, svo miklu nemi, en oft hafa menn og fénaður lent í hrakningum á heimleið.  Flest vor hefur fé verið rekið austur fyrir rúning og ær stundum fyrir burð, en teknar aftur heim um burðinn.  Fram til skamms tíma var hestaganga mikil á Austurfjöllum.  Vetrarferðir voru þá tíðar austur þangað, bæði til eftirleita, fjárgeymslu og hestagangna, og urðu þær ferðir oft harðsóttar.

Í nefndu ritverki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun segir að lengstu leitir Mývetninga séu suður með Jökulsá að vestan í Grafarlönd og inn fyrir Herðubreiðarlindabotna.  Séu það fimm daga göngur, en taki eftirleitarmenn oft mun lengri tíma.  Afmörkun afréttarins er nánar lýst í ritinu Göngur og réttir, þannig: „Afréttarlönd þessi eru víðáttumikil. Takmarkast þau að vestan af leitarsvæðum Bárðdæla, að austan af Jökulsá á Fjöllum, en að norðan af leitarsvæðum Keldhverfinga og Aðaldæla- og Reykdælahreppa.  Um Bláfjallsfjallgarð skiptist afrétt þessi í Austur- og Suðurafrétt, sem svo eru nefndar. ... nú skipta Mývetningar sér ekki af göngum á sum þau svæði, er þeir áður höfðu fjallskilastjórn á. ... .... Um miðja 19. öld virðist, eftir því sem nú er vitað, að Suðurafrétt hafi verið notuð meira til upprekstrar en Austurafrétt. Var almenn venja að reka fráfærnalömb í Miklamó og Framdali. Haglendi var um þessar mundir stórum meira á Suðurafrétt en nú er, því síðastliðin 100 ár hafa stór og góð landsvæði eyðilagst þar af uppblæstri, svo sem Mótunga, Skafamýrar og hluti af Miklamó.“

Með Stjórnarráðsbréfi frá 1919 var sýslumönnum landsins gert að skila skýrslu um svæði í sýslum þeirra sem teljist vera „almenningar“ og afréttarlönd, sem ekki sannanlega hafa tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli.  Steingrímur Jónsson, sýslumaður í Þingeyjarsýslum, segir í svarbréfi 6. apríl 1920 að eftir því sem hann hafi heyrt séu „almenningar“ á öræfum í sýslunni m.a. að finna í Ódáðahrauni og í Grafarlöndum og öræfum þar suður með Jökulsá til jökla.

Í greinargerð, sem Jóhann Skaptason, sýslumaður í Þingeyjarsýslum, ritaði 1959 er eftirfarandi afréttarlýsing Skútustaðahrepps, sem sögð er höfð eftir oddvita:

1.     Austurfjöll vestan Jökulsár á Fjöllum, norðan frá Dettifossi til öræfa upp.  Mörk að vestan eru heimalönd bújarða við Mývatn og Bláfellsfjallgarður.

2.       Suðurafrjett. Frá heimalöndum Mývetninga að norðan suður til öræfa í Ódáðahrauni. Nokkur spilda þess afrjettar nær vestur að Skjálfandafljóti.“

Í greinargerð sýslumanns segir að Austurfjöll hafi verið eign Reykjahlíðarkirkju, en muni nú talin eign eigenda Reykjahlíðar.  Suðurafrétt hafi verið eign Skútustaðakirkju.  Þá segir sýslumaður að öræfi liggi sunnan við bæði Austurfjöll og Suðurafrétt og milli þeirra (Bláfellsfjallgarður).  Öræfin séu oftast leituð tvisvar á hausti, þar sem nokkuð haglendi væri eða kinda von, en þess er getið innan sviga að leitað sé í flugvél.

 

II.

Í úrskurði óbyggðanefndar er að nokkru vísað til þeirra heimilda og gagna, sem hér að framan hafa verið nefnd, að því er varðar afmörkun, sögu, ráðstafanir að eignarétti og nýtingu Reykjahlíðar, þ. á m. á hinu umdeilda landsvæði á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni.

Í úrskurðinum er lagt til grundvallar að Reykjahlíð hafi um aldir verið sjálfstæð jörð.  Um merki jarðarinnar segir að samkvæmt landamerkjabréfi frá 1891 séu þau til austurs miðuð við Jökulsá á Fjöllum, frá Dettifossi í norðri, en að suðurmerkin séu m.a. miðuð við örnefnið Bræðraklif.  Vesturmerki jarðarinnar liggi að jörðinni Grímsstöðum að norðanverðu en jörðunum Vogum og Grænavatni þegar sunnar dregur.  Um landamerki Reykjahlíðar gagnvart síðastnefndu jörðunum er m.a. vísað til orðalags í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891: „... fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklif vestur af Herðibreið“, en á það bent að bréfið hafi ekki verið áritað af eigendum Grænavatns.  Vísað er til þess í úrskurðinum að austan og suðaustan við Mývatn, við vesturjaðar Ódáðahrauns, sé röð stapa og móbergshryggja, þ. á m. Heilagsdalsfjall (832 m) og Bláfjall (1222 m), og það áréttað að syðsti hluti fjallgarðanna nefnist Bláfjallshalar.  Þá segir um merki að eldri heimildir um Reykjahlíð miði m.a. við: „fiallgrda þá sem næst liggja vid myvatn fyrir austan nvatnis ad jokulsä“, sbr. einkum vitnisburð Jóns Magnússonar frá 1505 og prófastsvísitasíu Reykjahlíðarkirkju frá 1735“.  Á það er bent að landamerkjabréf Grænavatns frá 1921 sé áritað af hálfu landeiganda Reykjahlíðar, en að í því bréfi sé miðað við að „fjallgarðurinn“ ráði austurmerkjum „suður og svo Bláfjall“ og úr suðausturhorni Bláfjalls liggi merkjalínan með tilteknum hætti í hásuður.  Segir í úrskurðinum að þessi lýsing á merkjum sé ekki fyllilega samhljóða landamerkjabréfi Reykjahlíðar og að deilur séu um merkin.  Sá ágreiningur taki hins vegar í meginatriðum til vestanverðs Heilagsdalsfjalls og Heilagsdals auk vestanverðra Bláfjalla og Bláfjallshala.  Rifjað er upp að af eldri merkjalýsingum frá 16. öld hafi fyrirsvarsmenn Reykjahlíðar og Grænavatns deilt um mun stærra landsvæði.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að samkvæmt landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 séu merki jarðarinnar til suðurs, inn til landsins og í átt að jökli dregin frá framangreindum fjallgörðum í vesturmerkjum og „bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið“.  Þá ráði bein stefna frá Bræðraklifi austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.  Í úrskurðinum er vikið að áðurröktum vitnisburðum frá byrjun 16. aldar, en einnig að sexmannadómi frá 17. maí 1506 og staðfestingu Finnboga Jónssonar lögmanns þar á ásamt eigin viðbótum.  Bent er á að sambærilegar lýsingar og fram koma í landamerkjabréfinu á suðurmerkjum Reykjahlíðar og nefndum heimildarskjölum, sé einnig að finna í máldaga Hlíðarkirkju frá 1573, prófastvísitasíu frá 1735, lögfestu frá 1758 og vísitasíu Reykjahlíðarkirkju frá 1828.  Í úrskurðinum eru af öllum þessu heimildum dregnar svofelldar ályktanir:

Framangreindar lýsingar á suðurmerkjum Reykjahlíðar eru ekki samhljóða og tvö atriði þarfnast sérstakrar athugunar.  Hið fyrra snýr að því hvort miðað skuli við Bræðraklif eða önnur og syðri merki og hið síðara hvar Bræðraklif sé að finna, hafi staðsetning þessi þýðingu.

Landamerkjabréf Reykjahlíðar 1891 miðar suðurmerki þannig við Bræðraklif og sama máli gegnir um vitnisburði frá 1505 og 1506, auk sex manna dómsins 1506.  Í staðfestingu sýslumannsins frá dómnum 1506, máldaga frá 16. öld, lögfestu frá 18. öld og tveimur vísitasíum frá 18. öld og 19. öld, er mörkum hins vegar lýst „...so langt sem vatzfoll deilast og votn ad draga“.  Óbyggðanefnd telur að elstu merkjalýsingar mæli gegn því að merki Reykjahlíðar hafi miðast við önnur og syðri merki en Bræðraklif, svo sem vatnaskil á jökli.  Slíka viðmiðun er ekki heldur að finna í landamerkjabréfi jarðarinnar 1891.  Niðurstöðu sex manna dómsins 1506 er áður lýst og í staðfestingu Finnboga Jónssonar lögmanns segir meðal annars að hann sé „...loglegur og skiælegur j allan handa mata...“  Lögmaðurinn bætir því þó við að jörðinni tilheyri land „sudur í oræfi so lant sem vatnzfoll deilast og votn ad draga.“  Óbyggðanefnd telur ekki efni til að skýra þennan dóm á annan veg en þann sem segir í niðurstöðu dómsmanna, sbr. einnig eldri heimildir sem og landamerkjabréf jarðarinnar 1891.  Viðauki lögmannsins breytir þannig ekki efnislegu innihaldi dómsins.  Þá verður með engu móti horft framhjá því að Finnbogi Jónsson lögmaður var faðir Þorsteins Finnbogasonar í Reykjahlíð, aðila málsins.

Krafa eigenda Reykjahlíðar um að merki jarðarinnar og beinn eignarréttur þeirra nái suður fyrir Bræðraklif og jafnvel inn á Vatnajökul verður því ekki talin geta stuðst við heimildir um afmörkun Reykjahlíðar en um önnur atriði sem krafa þessi er studd við verður fjallað síðar.

Í niðurstöðukafla úrskurðarins er næst tekið til skoðunar hvar örnefnið Bræðraklif sé að finna.  Vísað er til þess að stefndi, íslenska ríkið, haldi því fram að um sé að ræða einstigi eða klif við vörðubrot í vesturvegg svokallaðrar Hafragjár.  Bent er á að gjáin sé mikið jarðfall með háum veggjum, u.þ.b. 5-6 kílómetra löng og á annan kílómetra á breidd.  Aftur á móti haldi stefnendur því fram að Bræðraklif sé hár klettadrangi sunnan við Bræðrafellið og skammt sunnan við Kollóttudyngju, og er sagt að um 42 kílómetrar séu þaðan norður í Eilífsvötn, mælt í beinni loftlínu.  Bent er á að í báðum tilvikum sé komið langt inn í Ódáðahraun, illfært og gróðurvana landsvæði sem teygir sig austur frá fjallgörðum þeim í vesturmörkum Reykjahlíðar og langleiðina að Jökulsá á Fjöllum.

Um greint álitaefni segir nánar í úrskurði óbyggðanefndar:

Í elstu heimildum um merki Reykjahlíðar, vitnisburðum, dómi og máldaga frá 16. öld ásamt tveimur vísitasíum og lögfestu frá 18. og 19. öld, er miðað við títtnefnda fjallgarða við Mývatn og tekið fram að Reykjahlíð eigi „öræfi öll“ fyrir austan þau, að Jökulsá.  Afmörkun til norðurs einskorðast við Eilífsvötn og til suðurs við Bræðraklif.  Hið síðarnefnda er staðsett nánar með því að það er sagt „fyrir utan Herðubreið“ í tveimur vitnisburðum frá 16. öld og „suður á öræfum“ í öðrum vitnisburði frá sama tíma.  Hvort tveggja veitir takmarkaðar vísbendingar, enda hafa málsaðilar sýnt fram á að orðalagið „fyrir utan“ á þessu landsvæði kemur bæði fyrir í merkingunni norður og vestur.  Umræddum fjallgörðum var áður lýst en klif það í Hafragjá sem íslenska ríkið hefur vísað til er til austurs frá suðurenda þeirra, þar sem eru Bláfjall og Bláfjallshalar.  Frá suðurenda Bláfjallshala um þennan punkt og síðan beint austur í Jökulsá eru u.þ.b. 33 km í beinni loftlínu.  Klettadrangi sá sunnan við Kollóttudyngju, sem eigendur Reykjahlíðar benda á sem Bræðraklif, liggur hins vegar svo miklu sunnar að hann samræmist illa tilvísun heimildanna til fjallgarðanna og öræfanna austan þeirra.

Hér ber þess að geta að örnefnið Bræðraklif er einnig að finna í heimildum um merki jarðarinnar Grænavatns.  Þannig segir í dómi um kaupbréf fyrir Grænavatni frá 1562 að austurmerki Grænavatns liggi úr Syðri-Búrfellsskörðum „þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid. og allann Heilagsdal. riett ur Herdebreid til vesturs.“ Aðrar heimildir um merki Grænavatns lýsa þessum mörkum með sambærilegum hætti, þó að undanskildu landamerkjabréfi Grænavatns líkt og að framan er rakið. Umræddar merkjalýsingar munu eiga rætur að rekja til deilna við fyrirsvarsmenn Reykjahlíðar um svokallaðar Fremri-námur, þ.e. brennisteinsnámur á svæðinu norðvestur af Hafragjá.  Samkvæmt þessum lýsingum er Bræðraklif í Hafragjá.  Merking örnefnisins á kort Landmælinga Íslands er í samræmi við það, sbr. einnig rit Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun frá árinu 1945.

Landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 1891 greinir sig frá hinum eldri heimildum með annars vegar orðalaginu við staðsetningu Bræðraklifs og hins vegar samhenginu við fjallgarðana og Jökulsá á Fjöllum. Bræðraklif er þannig sagt suður af fjallgörðunum og stefnan frá Bræðraklifi og austur í Jökulsá nú sérstaklega tekin „sunnan við Herðibreiðartungu“.  Í hinum elstu heimildum voru stefnur í og úr Bræðraklifi hins vegar ótilgreindar, væntanlega vegna þess að frekari skýringar hefur ekki verið þörf.  Þá segir í landamerkjabréfinu að Bræðraklif sé vestur af Herðubreið en áður var gerð grein fyrir óljósri merkingu orðalagsins „fyrir utan“ í eldri heimildum.  Sú staðsetning Bræðraklifs, sunnan Kollóttudyngju, sem eigendur Reykjahlíðar miða við í varakröfu sinni er í ágætu samræmi við lýsingu landamerkjabréfsins.

Í lokakafla úrskurðar óbyggðanefndar er fjallað um eignarréttarlega stöðu hins umþrætta landsvæðis á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni.  Segir í úrskurðinum að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði, en síðan segir:

Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að svæðið norðaustan og austan Mývatns hafi verið numið, a.m.k. að hluta, en ólíklegt að land á þessu svæði hafi verið numið að Vatnajökli.  Vafi um þetta atriði hlýtur að vaxa eftir því sem sunnar dregur.  Óvissa um aðferðir við landnám er þó of mikil til þess að hægt sé að fullyrða um stærð landnáma á þeim grundvelli, sbr. umfjöllun um landnám í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar.

Um þýðingu landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi er í niðurstöðukafla úrskurðarins vísað til fyrirliggjandi umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar um það efni, sbr. mál nr. 1-5/2005, en síðan segir:

Að því marki sem landamerkjabréf Reykjahlíðar hefur stuðning af eldri heimildum, þ.e. norðan þeirrar línu sem að framan var lýst og liggur úr suðurenda Bláfjallshala í Bræðraklif í Hafragjá og þaðan beint austur í Jökulsá á Fjöllum, telur óbyggðanefnd að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á annað en að jörðin Reykjahlíð hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Þar hafi eigendur jarðarinnar farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt.  Heimildir þær um afréttarnot sem íslenska ríkið hefur vísað til eru almenns eðlis og lýsingar þeirra óljósar.  Engar afdráttarlausar ályktanir verða því dregnar af þeim.  Staðhættir, gróðurfar eða nýtingar möguleikar verða ekki taldir hafa úrslitaáhrif í þessu sambandi.  Þá verður fyrirkomulag smölunar á þessu svæði ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu.  Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að norðan framangreindrar merkjalínu sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.

Svo sem rakið er hér að framan telur óbyggðanefnd eldri heimildir mæla því í mót að merki jarðarinnar Reykjahlíðar nái suður fyrir línu þá í Ódáðahrauni sem áður var lýst. Þá málsástæðu gagnaðila að þeir hafi haft réttmæta ástæðu til að vænta þess að brigður yrðu ekki bornar á beinan eignarrétt þeirra að öllu því landi sem falli innan merkja Reykjahlíðar, eins og því sé lýst í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá árinu 1891, ber að skoða í því ljósi.  Að þessu gættu geta gagnaðilar, sem leiða rétt sinn frá þeim eiganda sem gerði landamerkjabréfið, ekki byggt á því að eignarréttur hefði unnist að landi sem ekki átti undir Reykjahlíð áður en bréfið var gert.  Þá var landamerkjabréfið ekki samþykkt af hendi þeirra sem kunna að hafa talið til réttinda yfir landi til suðurs.  Breytir í þessum efnum engu að landamerkjabréfið var þinglesið 29. maí 1891, sbr. dóm Hæstaréttar 28. september 2006 í máli nr. 498/2005 (Stafafell).

Landi utan þeirra merkja en innan eignarlandskröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar í máli þessu má í megindráttum skipta í þrennt, þ.e. Ódáðahraun, Vatnajökul og svæðið milli austurjaðars Ódáðahrauns og Jökulsár á Fjöllum.  Nyrst á hinu síðastnefnda svæði eru Grafarlönd austari og sunnan þeirra Herðubreiðarlindir. Þar er land nokkuð gróið og liggur í 4-500 m hæð. Samkvæmt gögnum þessa máls og skýrslutökum, hafa nytjar af því einskorðast við sumarbeit fyrir búfé og eftir atvikum önnur takmörkuð not.  Framangreint bendir til þess að í Grafarlöndum austari og Herðubreiðarlindum sé afréttur í þeim skilningi að jörðin Reykjahlíð eigi þar óbein

eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.

Ekki liggur fyrir hvernig eigendur Reykjahlíðar eru komnir að rétti sínum til Grafarlanda austari og Herðubreiðarlinda.  Í máli þessu er ekki sýnt fram á annað en að hann hafi orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar.  Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.

Að undanskildum austurjaðri Ódáðahrauns, þar sem hraunið mætir Grafarlöndum og Herðubreiðarlindum og gróður teygir sig þangað inn, er hins vegar ekkert sem bendir þess að í hrauninu hafi að staðaldri verið höfð beitarnot, enda mæla staðhættir og fjarlægð frá byggð því í mót.  Í gögnum málsins liggur fyrir að fyrirhugaðar friðlýsingar á Herðubreið og Öskju, í Ódáðahrauni, hafa verið bornar undir eigendur Reykjahlíðar sem „hugsanlega rétthafa“ á þessum svæðum, líkt og segir í bréfi Náttúruverndarráðs frá 24. nóvember 1974.  Þá hefur verið leitað eftir samþykki eigenda Reykjahlíðar vegna uppsetningar Jarðskjálftastöðvar við Öskju, sbr. tölvupóst frá 6. júlí 2007.  Nokkrir skálar eru á svæðinu en ekki verður séð að greiðslur hafi verið inntar ef hendi þeirra vegna til eigenda Reykjahlíðar.  Þessi not á umræddu landsvæði verða talin svo takmörkuð og stopul að þau geti ekki stofnað til eignarréttar fyrir hefð á grundvelli laga um hefð, nr. 46/1905.

Að öllu framangreindu virtu telur óbyggðanefnd að ekki hafi verið í ljós leitt að utan merkja jarðarinnar Reykjahlíðar, svo sem þeim er lýst í eldri heimildum og eru nánar skilgreind hér að framan, hafi stofnast til eignarlands með námi, hefð eða öðrum þeim stofnunarháttum eignarréttinda sem grein hefur verið gerð fyrir í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar (sjá viðauka).  Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda.  Heimildir benda hins vegar til þess að Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir séu í afréttareign Reykjahlíðar.

Eftir er þá að leysa úr því hver séu mörk afréttar Reykjahlíðar í Grafarlöndum austari og Herðubreiðarlindum gagnvart þjóðlendu í Ódáðahrauni.  Um mörk gagnvart eignarlandi Reykjahlíðar vísast til umfjöllunar og niðurstöðu um suðurmerki jarðarinnar.  Samkvæmt því er áður greindi um skýringu á eldri heimildum um merki Reykjahlíðar, sbr. einnig heimildir um Grafarlönd austari, og staðhætti og nýtingu á hraunjaðrinum telur óbyggðanefnd rétt að miða við að umræddur afréttur Reykjahlíðar afmarkist til suðvesturs af línu sem dregin er frá Bræðraklifi (í Hafragjá) og í Veggjafell, við austurjaðar Herðubreiðarfjalla, og þaðan til suðausturs, í stefnu á Hlaupfell, þar til kemur að skurðpunkti við línu sem liggur frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum í Herðubreið.  Frá þessum skurðpunkti er síðastnefndu línunni fylgt austur að ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum.  Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis, eins og það er afmarkað hér að framan, eru misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taka þó breytingum auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld.  Landsvæði þetta verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði [...] sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að sunnan við suðurmerki jarðarinnar Reykjahlíðar, innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar í máli þessu, sé þjóðlenda.  Með vísan til þess sem að framan greinir, skiptist sú þjóðlenda í þrjú svæði sem afmörkuð verða hér á eftir ... (sbr. kröfugerð stefnenda í máli þessu).

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Aðalkröfu sína byggja stefnendur á því að hið umþrætta landsvæði Reykjahlíðar á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni sé háð eignarrétti þeirra, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 62, 1994.  Stefnendur byggja kröfu sína um eignarrétt á umþrættu landsvæði á landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 8. apríl 1891, þinglýstu 29. maí sama ár, þar segir um suðurmerkin:

Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið.  Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.“

Stefnendur byggja á því að framlögð gögn styðji tilkall þeirra til landsvæðis innan greindra merkja, en af þeim sökum sé úrskurður óbyggðanefndar rangur og brjóti hann í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár Íslands.

Stefnendur benda á að samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar sé viðurkenndur beinn eignarréttur þeirra innan þinglýstra landamerkja Reykjahlíðar.  Það sé í samræmi við þá meginreglu íslensks eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarjörð.

Stefnendur benda á og árétta að ágreiningur þessa máls lúti að því að óbyggðanefnd hafi ranglega staðsett örnefnið Bræðraklyf og því dregið suðurmörk jarðarinnar ranglega og í ósamræmi við eldri heimildir.

Stefnendur byggja á því að kröfulína þeirra úr Bræðraklyfi fyrir vestan Herðubreið (nú merkt Bræðrafell á kortum), og þaðan í beinni línu austur í Jökulsá fyrir sunnan Herðubreiðartungu, sé í fullu samræmi við eldri heimildir um merki Reykjahlíðar.  Í því sambandi benda þeir m.a. á máldaga Reykjahlíðarkirkju frá 1573 og áðurrakinn lögmannsdóm frá 1506.  Landnámsheimildir í Skútustaðahreppi fari heldur ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar frá 1891, en ljóst sé að við landnám hafi landið verið gróið til jökla.  Stefnendur vísa til landamerkjalaga nr. 5, 1982 og síðari lagasetningar um sama efni, nr. 41, 1919, og tilgangs þeirrar lagasetningar.  Þá benda þeir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 þar sem það hafi verið talið skipta máli hvort land hafi talist innan upphaflegs landnáms og hvort að með landið hafi verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum.  Vísa þeir til þess að ekkert komi fram í gögnum málsins sem bendi til annars en að allt land innan merkja Reykjahlíðar hafi verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Þá verði að telja það hafa mikla þýðingu að eigendur jarðarinnar hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum hafi verið rétt lýst og að eigendur grannjarða hafi virt og viðurkennt merkin, en jafnframt hafi þurft samþykki eiganda við nýtingu annarra.  Þá hafi eigendur jarðarinnar í ljósi eignarheimilda sinna og viðurkenningar ríkisvaldsins í reynd lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að land þeirra samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi sé beinum eignarrétti háð.  Verði þessi eignarréttur ekki af þeim tekinn bótalaust.

Stefnendur byggja á því að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign eða háð eignarrétti í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstól Evrópu.  Benda stefnendur á að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið túlkað af dómstólum á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu.  Með sjálfstæðri merkingu sé átt við mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar nefndrar 1. gr. og þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis sem í hlut eigi.  Skortur á slíkri vernd í landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum hvort um eign sé að ræða í skilningi nefndrar 1. gr.  Benda stefnendur á að um eign í skilningi ákvæðisins geti verið að ræða þótt dómstólar aðildarríkis hafi ekki talið svo vera samkvæmt innanlandsrétti.  Mannréttindadómstóllinn hafi þannig lagt mat á atvik í hverju tilviki fyrir sig og lagt áherslu á að úrslitum réði tiltekið heildarmat.  Þannig hafi dómstóllinn bæði litið til staðreynda og lagalegra atriða, en við matið hafi í ákveðnum tilvikum það einnig ráðið úrslitum hvernig farið hafi verið með umrædda eign í framkvæmd, sérstaklega í lögskiptum, og hvaða traust menn báru til þeirrar framkvæmdar.  Þá hafi framkoma handhafa ríkisvaldsins í garð eigenda einnig skipt máli.  Og í þeim málum þar sem komið hafi verið fram við einstaklinga eða lögaðila sem réttmæta eigendur ákveðinna eigna hafi slík framkoma verið talin vekja ákveðnar væntingar hjá þeim aðilum um löglegt eignarhald sitt á þeim eignum.  Benda stefnendur á að af þessu megi ráða að afskipti og afskiptaleysi ríkisvaldsins skipti máli við greint sönnunarmat.  Þeir benda einnig á, að þegar tekið sé mið af dómum Hæstaréttar Íslands, en þó sérstaklega Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), hafi ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti viðurkennt eignarrétt landeigenda að jörðum, t.d. með því að þinglýsa eignaryfirfærsluskjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, gera um þær samninga og skattleggja þær.  Þá séu réttmætar og lögmætar væntingar landeigenda verndaðar af þessum ákvæðum, sérstaklega nefndri 1. gr., ef þær séu byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi, sem tengdur sé við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll.

Stefnendur byggja á því að Bræðraklyf, það örnefni sem nefnt hafi verið suðurhornpunktur í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá árinu 1891, og margoft sé nefnt í eldri merkjalýsingum jarðarinnar, sé þar sem nú sé á kortum nefnt Bræðrafell.  Í fellinu séu háir bergstöplar sem nefndir séu bræður og sjáist langt að.  Þetta sé skýr hornpunktur á suðvesturhorni jarðarinnar og í mun betra samhengi við eldri heimildir, en það Bræðraklif í Hafragjá, sem óbyggðanefnd miði við.

Að því er varðar Grafarlönd og Herðubreiðarlindir benda stefnendur á að fasteignamat jarðarinnar frá 1916-1918 styðji við kröfur þeirra, en sé í andstöðu við úrskurð óbyggðanefndar.  Í matinu hafi gæsavarp verið metið til fasteignamats og fáist það ekki staðist nema vegna þess að landsvæðið sé innan merkja Reykjahlíðar.  Hið sama megi segja um skálabyggingar Ferðafélags Akureyrar í Herðubreiðarlindum sem og samning um friðlýsingu Herðubreiðarlinda frá árinu 1974, en þetta hafi allt verið gert með samþykki landeigenda Reykjahlíðar, sem ekki fáist staðist nema vegna þess að umrædd landsvæði séu innan landamerkja Reykjahlíðar.

Stefnendur árétta að ágreiningur máls þess lúti að því að þeir telji að óbyggðanefnd hafi ranglega staðsett örnefnið Bræðraklyf og því dregið suðurmörk jarðarinnar ranglega.  Því skipti höfuðmáli við úrlausn málsins hvar örnefnin Bræðraklyf og Herðubreiðartungur sé að finna.  Stefnendur andmæla þeim röksemdum sem fram koma í úrskurði óbyggðanefndar um staðsetningu örnefnanna.  Benda þeir á að í kaupbréfi og vitnisburði frá 2. maí 1562 sé aðeins lýsing eins manns, Kolbeins Arngrímssonar, á landamerkjum Grænavatns.  Mótmæla þeir því að lýsing Kolbeins sé nefnd „landamerkjaskrá Grænavatns“, líkt og óbyggðanefnd gerir í úrskurði sínum.  Benda stefnendur á að enginn fulltrúi þeirra jarða sem liggi að Grænavatnslandi hafi komið að málinu.  Að auki telja stefnendur að skoða beri nánar orðalagið í lýsingu Kolbeins, sbr.:  „Þaðan suðaustur undir Herðubreið“ eða „þaðan og austur undir Herðubreið“.  Vísa stefnendur til þess að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum kosið að sniðganga það sem þeir hafi bent á, að dómkvaddir hafi verið sex menn sem hafi breytt fyrrgreindu orðalagi Kolbeins úr „suðaustur undir Herðubreið“ í „austur undir Herðubreið“.  Telja þeir að þetta hljóti að vega mjög þungt og geti ekki verið tilviljun eða mistök.  Sé ekki annað hægt en að líta á þetta sem leiðréttingu á fyrrnefndu orðalagi Kolbeins Arngrímssonar.  Þetta sé ekki hvað síst athyglisvert í ljósi þess að þetta sé í fullu samræmi við orðalagið í hinu þinglýsta landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 þar sem segir:  „Bein stefna suður í Bræðraklyf, vestur af Herðubreið.“

Stefnendur taka undir það atriði í úrskurði óbyggðanefndar að orðalagið:  „fyrir utan Herðubreið“ geti auðveldlega merkt:  „vestan við Herðubreið“.  Segja stefnendur það ljóst að í nútímamáli þýði:  „út“ sama og „norður“ í Þingeyjarsýslu.  Það blasi hins vegar við að fyrr á öldum hafi merking orðanna:  „út“, „fyrir utan“ og „ytri“ verið önnur í Þingeyjarsýslu, a.m.k. í Mývatnssveit.  Dyngjufjöll ytri t.d. séu alþekkt fjall eða fjalllendi vestur af Dyngjufjöllum og örnefnið eflaust fornt.  Dyngjufjöll ytri séu aðeins norðar en þó í hávestur frá Dyngjufjöllum og megi því segja að afstaða þeirra miðað við Dyngjufjöll sé nákvæmlega hin sama og afstaða Bræðrafells/Bræðraklifs, miðað við Herðubreið.  Fyrr á öldum hafi orðin „út“ og „utanvið“ þýtt „vestur“ eða „vestanvið“ á öræfum í Þingeyjarsýslu.  Stefnendur árétta að í hinu þinglýsta landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 segir:  „Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf, vestur af Herðubreið.“  Byggja stefnendur á því að þarna sé svo skýrt tekið fram að Bræðraklyf sé „vestur af Herðibreið“ að ekki þurfi um það að deila.  Þar af leiðandi sé ljóst að rutt einstigi í Hafragjá sé með öllu óviðkomandi landamerkjum Reykjahlíðar.  Stefnendur andmæla þeirri ályktun í úrskurði nefndarinnar, að í elstu heimildum hafi stefnur í og úr Bræðraklifi verið ótilgreindar sökum þess að skýringa hafi ekki verið þörf.  Benda þeir á orðanotkun í fyrrnefndum dómi um kaupbréf fyrir Grænavatni frá 1562, þar sem segi að austurmerki Grænavatns liggi úr: „... Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid ...“  Byggja stefnendur á því að samkvæmt þessu sé stefnan úr Bræðraklifi beint í austur samkvæmt fornum heimildum, en það komi heim og saman við orðalag landamerkjabréfsins frá 1891 um að Bræðraklif sé „vestur af“ Herðubreið.  Í þessu samhengi benda stefnendur á að óbyggðanefnd hafi aldrei farið að Bræðraklifi (Bræðrafelli) og ekki heldur að svonefndu Bræðraklifi í Hafragjá.  Niðurstaða óbyggðanefndar byggi því á túlkun á kortum og sé í algjörri andstöðu við landfræðilegar aðstæður, en einnig í andstöðu við lagaákvæði landamerkjalaga um að landamerkjapunktar skuli vera vel sýnilegir.

 

Stefnendur árétta að í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 segir:  „Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðubreiðartungur.“  Byggja þeir á því að í handskrifuðu frumriti landamerkjabréfsins hafi verið ritað Herðubreiðartungur, þ.e. nafnið sé í fleirtölu, en ekki í eintölu eins og það sé ritað í vélrituðum afritum, enda sé það í samræmi við örnefnaskrá Reykjahlíðar Péturs Jónssonar frá um 1950, þar sem segir: „Herðubreiðartungur, gamalt nafn á Grafarlöndum og grónu landi þar í kring.“  Benda þeir á að örnefnið hafi ekki verið notað af Mývetningum mjög lengi, en í orðabók Menningarsjóðs segi um merkingu orðsins tunga:  „Oddlaga landspilda milli tveggja vatnsfalla, gilja eða grunnra dalverpa.“  Vísa þeir til þess að á landsvæðinu milli Bræðrafells/Bræðraklifs og Jökulsár sé ekki að finna nein gil eða grunn dalverpi.  Af þeim sökum hljóti nafnið tunga á þessu svæði að merkja oddlaga landspilda milli tveggja vatnsfalla.  Liggi það raunar í augum uppi að þarna sé um að ræða tvær landspildur, annars vegar milli Grafarlandaár og Jökulsár og hins vegar milli Lindár og Jökulsár, þ.e. svæði sem nú til dags séu nefnd annars vegar Grafarlönd og hins vegar Herðubreiðarlindir.  Stefnendur benda og á að þar til fyrir tiltölulega stuttu hafi Lindáin runnið í Jökulsá við svonefnt Lindahorn og hafi þá samfelldur gróður verið meðfram Lindánni allt frá Herðubreiðarlindum að Lindahorni.  Á þeim tíma hafi ekki verið nema 1-2 km milli Grafarlanda og gróðurlendis við Lindá.  Nú hafi þær breytingar orðið að Lindá falli í Jökulsá nokkrum kílómetrum sunnar en áður og sé því lengra á milli þessara tveggja gróðursvæða sem því nemur.  Þessi breyting tengist breyttu rennsli Jökulsár.  Hún hafi grafið sig vestur að Lindahrauni á nokkurra kílómetra kafla sunnan Lindahrauns þar sem Lindá rann áður um eyrar, og um leið hafi Jökulsá eytt þeim gróðri, sem þarna hafi verið meðfram Lindánni.  Í þessu samhengi benda stefnendur á að í afréttarskrá Skútustaðahrepps frá árinu 1878 segir: „Austurfjöll, sem öll eru eign Reykjahlíðarkirkju.  Þau ná til suðurs allt fram undir jökla“.  Sé lýsing þessi til vitnis um það, sem öllum heimamönnum sé kunnugt um, að engin skil, hvorki afréttarmörk eða landamerki, liggi á milli Grafarlanda og Herðubreiðarlinda.  Þá komi fram í örnefnaskránni mörg örnefni í Herðubreiðarlindum, en að auki mörg örnefni miklu sunnar á öræfunum.  Loks benda þeir á að undir öllum kringumstæðum hafi Grafarlönd og Herðubreiðarlindir verið smöluð sameiginlega og sama sé að segja um eftirleitir á þessu svæði, svo sem lesa megi í frásögnum af ferðum Fjalla-Bensa á fyrri hluta síðustu aldar.

Stefnendur vísa til þess að árið 1897 hafi Jón Einarsson selt á leigu alla fossa í landi eignarjarðar sinnar Reykjahlíðar.  Hafi þarna að sjálfsögðu verið um að ræða fossa Jökulsár, enda engir aðrir fossar í landareigninni.  Sé athyglisvert að í leigusamningnum segir:  „alla fossa“ sem þeir segja að bendi ótvírætt til þess að átt sé við fleiri fossa en Dettifoss og Selfoss.  Hljóti því þriðji fossinn að vera foss nokkru fyrir sunnan Herðubreiðarlindir, sem á þessum árum hafi verið nafnlaus, en hafi á síðari árum verið nefndur „Gljúfrasmiður“.  Hann sé um 7 km fyrir sunnan Herðubreiðarlindir.

Stefnendur byggja á því að öll framanrakin atriði beri því glögglega vitni að landamerki Reykjahlíðar liggi frá Bræðrafelli/Bræðraklifi austur í Jökulsá, ekki norðar en langt fyrir sunnan Herðubreiðarlindir og Grafarlönd, sem áður hafi verið nefnd Herðubreiðartungur.  Benda stefnendur á að í úrskurði óbyggðanefndar sé ekki minnst á Herðubreiðartungur og því virðist nefndin skauta fram hjá allri umfjöllun um hvar tungurnar sé að finna.

Stefnendur byggja á því að tilgangurinn með lögum um þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landsvæða, sem enginn hafi skjöl fyrir að hann eigi, en svo hátti til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands.  Eigi óbyggðanefnd þannig að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu.  Land Reykjahlíðar sé ekki eigendalaust og benda stefnendur á að svo hátti til með það land sem þeir hafi þinglýstar eignarheimildir fyrir, að þar fari þeir einir með öll venjuleg eignarráð, bæði raunveruleg og réttarleg, sbr. 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Vegna þessa telja stefnendur að leggja verði sönnunarbyrði á stefnda um tilvist þjóðlendu innan landamerkja þjóðlendusvæðisins.  Nefndin telji hins vegar að stefnendum sé skylt að sýna fram á frekari eignarheimildir til stuðnings sinni túlkun á landamerkjabréfunum, en með þeim hætti sé verið að krefjast enn eldri og frekari sönnunargagna en lög gerðu ráð fyrir á þeim tíma sem landamerkjabréf jarðarinnar var gert.  Með þessum hætti sé og verið að leggja slíka sönnunarbyrði á stefnendur að undir henni verði ekki risið.  Séu slíkar kröfur andstæðar ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, enda til þess eins fallnar að svipta stefnendur eignarrétti bótalaust.  Með beitingu slíkra formreglna um sönnun séu dómstólar í raun að endurskoða efnisreglur laga um eignarrétt að fasteignum í því skyni að komast að niðurstöðu, sem samræmist ekki gildandi efnisrétti.

Stefnendur byggja á því og árétta að þeir hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf fyrir landi sínu sem sé í fullu samræmi við lýsingar í eldri gögnum, sem raunar lýsi sum merkjum allt til Vatnajökuls.  Fjölmargar heimildir sýni að innan þessara merkja hafi eignarréttur stefnenda verið virtur af öllum aðilum.  Stefnendur árétta að óbyggðanefnd hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á þá, sem ekki fái staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Beri í því sambandi að hafa í huga að gagnaöflun nefndarinnar sé ekki fullkomin, sbr. álit Einars G. Péturssonar, prófessors, sem hafi upplýst að á Árnasafni séu þúsundir skjala, sem ekki hafi verið rannsökuð.  Allan vafa í málinu verði því að meta stefnendum í vil.  Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.

Stefnendur byggja eignarréttarkröfu sína í málinu á hefð og venjurétti.  Benda þeir á að allir hafi litið svo á um ómunatíð að allt land Reykjahlíðar sé eignarland og hafi enginn haldið öðru fram fyrr en ríkið nú við meðferð þjóðlendumála á svæðinu.  Vísa stefnendur til þess að úr því að hefðarlög heimili eignarhefð lands, sem sé í opinberri eigu, þeim mun fremur hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé eignarrétti háð.  Sjónarmið um hefð séu því til staðfestingar á námi og festi eignarréttinn í sessi.  Að þessu leyti vísa þeir til dóma Hæstaréttar frá árinu 1997, bls. 792, og frá árinu 1989, bls. 28.

Auk framannefndra málsástæðna byggja stefnendur á því að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám, enda sé talið að landið hafi verið vel gróið upp í 600-700 metra hæð.  Atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ráði því ekki úrslitum þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði.  Er um þessi atriði vísað til úrskurða óbyggðanefndar í sambærilegum málum.  Auk þessa benda stefnendur á að notkun lands þurfi ekki að gefa vísbendingu um hvort land sé eignarland eða ekki.  Sem dæmi megi nefna að mjög stór hluti lands á láglendi sé ekki í heilsársnotkun af skiljanlegum ástæðum.  Yfir vetrartímann sé landið gegnfrosið og engin skepna fari þar um.  Þá benda stefnendur á að venjur varðandi fjallskil geti ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð, sbr. t.d. úrskurð óbyggðanefndar um landsvæði í uppsveitum Árnessýslu frá 21. mars 2002.

Stefnendur benda loks á að athugasemdir við frumvarp það er hafi orðið að lögum nr. 58, 1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlan löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið.

 

Stefnendur byggja varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og í aðalkröfu.  Benda þeir á að í lögum nr. 58, 1998 um þjóðlendur sé beinlínis gert ráð fyrir því að þeir sem nýtt hafi land innan þjóðlendu skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði 5. gr.  Enn fremur benda stefnendur á reglur um stofnun ítaka þar sem m.a. sé rætt um að háttsemi aðila eða þegjandi samþykki geti orðið til þess að ítaksréttur stofnist.  Stefnendur hafi um áratugaskeið notið auðlinda á áðurgreindu landsvæði, þ. á m. námuréttinda, og leigt land undir bú í fullan hefðartíma.  Með auðlindum í þessu efni sé átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku, sem vinna megi úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs, sem þau kunna að finnast við.  Einnig benda stefnendur á að í lögum nr. 57, 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé gert ráð fyrir því í 3. gr. að þjóðlendur séu eign íslenska ríkisins nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.  Telja stefnendur sig hafa sannað rétt sinn til allrar nýtingar á hinu umþrætta landi.

Að því er málskostnað varðar krefjast stefnendur að ákvörðun óbyggðanefndar verði felld úr gildi og málskostnaður í þess stað dæmdur í samræmi við stefnukröfu þeirra.  Byggja stefnendur að því leyti á málskostnaðaryfirliti lögmanns þeirra frá 10. janúar 2008, framlögðu 14. janúar 2008, hjá óbyggðanefnd.  Alls hafi verið um að ræða 44 vinnustundir á tímabilinu frá 15. febrúar 2007 er vinna lögmannsins hófst við málið.  Málsmeðferðin hafi staðið yfir fyrir óbyggðanefnd með hléum allt til uppkvaðningar úrskurðarins, þann 6. júní 2008.  Verð á hverja vinnustund hafi verið 13.800 krónur í samræmi við gjaldskrá og hafi því samtals málskostnaður lögmannsins verið 607.200 krónur, auk virðisaukaskatts.  Að þessu leyti andmæla stefnendur úrskurðarorðum óbyggðanefndar og forsendum, en vísa m.a. til álits umboðsmanns Alþingis frá 13. nóvember 2007 í máli nr. 5073/2007.  Stefnendur byggja á því að ekki sé hægt að fallast á afgreiðslu óbyggðanefndar í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru í þessu máli, flókinna lögfræðilegra álitaefna og þess gríðarlega skjalamagns málsins, sem lögmaður þeirra hafi þurft að afla sér og kynna sér.  Tímaskýrsla lögmannsins standi og óhögguð, en hún sé ekki efnislega gagnrýnd af óbyggðanefnd og henni hafi ekki verið mótmælt af hálfu stefnda.  Tímagjaldið sé sanngjarnt, enda hafi því ekki verið andmælt.  Ákvörðun óbyggðanefndar sé því órökstudd og ómálefnaleg og því beri að fella hana úr gildi og þess í stað að úrskurða málskostnað til stefnenda að skaðlausu í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 58, 1998, sbr. 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr., til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefðar, réttarvenju og um tómlæti.  Að auki vísa þeir til þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis borgaranna.  Loks vísa þeir til mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans og til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, m.a. að því er varðar varnarþing og málskostnað.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er á því byggt að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Af hálfu stefnda er á því byggt að sönnunarbyrðin hvíli ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.

Stefndi bendir á að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum byggt á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum.  Niðurstaða óbyggðanefndar sé þannig byggð á kerfisbundinni leit að gögnum, en einnig á gögnum og skýrslum frá aðilum máls.  Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hafi landsvæði það sem um er deilt í málinu talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands, sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.  Stefndi kveðst í máli þessu gera niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu, auk þeirra málsástæðna, sem hann teflir fram og hér á eftir verða raktar.

Stefndi byggir á því að hið umdeilda svæði, þ.e. annars vegar Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir og hins vegar sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan Bræðraklifs og norðan Dyngjujökuls, liggi sunnan og utan landamerkja Reykjahlíðar.  Vísar stefni þar um til óljósra lýsinga í áðurröktu landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 að því er varðar suðurmörk jarðarinnar.

Stefndi kveðst gera þá niðurstöðu óbyggðanefndar að sinni, að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004 (Úthlíð).

Bendir stefndi á að við mat á gildi landamerkjalýsingar Reykjahlíðarjarðarinnar verði að horfa til þess, að enginn hefur ritað samþykki sitt vegna marka jarðarinnar til suðurs og austurs, þ.e. vegna hins umdeilda landsvæðis.

Stefndi byggir einnig á því að við mat á gildi landamerkjabréfs beri að gæta að því, að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland.  Og þrátt fyrir að bréfinu hafi verið þinglýst, þá takmarkast gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á.  Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.  Af hálfu stefnda er áréttað og á því byggt, að kröfur stefnenda til suðurs og austurs eigi sér ekki nokkra stoð í eldri heimildum.

Þá bendir stefndi á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til lands landnám á þessu svæði náði.  Telur stefndi ólíklegt að land á hinu umdeilda svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið sé hálent, en um sé að ræða öræfalandsvæði langt frá byggðum bólum.

Stefndi byggir á því að teljist heimildarskortur, hvað ofanrakin atriði varðar, vera fyrir hendi leiði það til þess að ósannað sé að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu.  Sé þetta í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands, t.d. í máli nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefndu máli nr. 48/2004.  Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.

Stefndi byggir á því að ekki verði annað af heimildum ráðið en að það landsvæði sem um sé deilt hafi eingöngu verið nýtt með takmörkuðum hætti eins og fram komi í úrskurði óbyggðanefndar.  Landsvæðið sé aðliggjandi öðrum afréttarsvæðum utan eignarlanda jarða, til vesturs, suðurs og austurs, þ.m.t. svonefndum Krepputungum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málum nr. 109/2009  Bendir stefndi á að ekki verði annað séð, en að réttur til hins umdeilda landsvæðis hafi upphaflega orðið til á þann veg, að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening, og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

Verði á hinn bóginn talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, byggir stefndi á því að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota svo sem afréttarnota.  Bendir stefndi á að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Um síðastnefnda atriðið bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Verði hins vegar talið að landsvæðið kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefndi á því til vara að allar líkur séu á að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

Stefndi bendir á að samkvæmt sögulegum heimildum hafi jörðin Reykjahlíð verið austasta byggða ból vestan Jökulsár á Fjöllum.  Reykjahlíð hafi verið viðkomustaður þeirra sem lögðu á öræfin austan Mývatns, en um þjóðleið hafi verið að ræða. Engar óyggjandi heimildir séu til um nýtingu lands sunnan þjóðlendukröfulínu.

Stefndi vísar til þess að elstu landamerkjalýsingar Reykjahlíðar virðist vera í máldaga Auðunar rauða Hólabiskups frá árinu 1318, í máldaga Péturs Nikulássonar og í máldagabók Guðbrands Þorlákssonar frá 1590-1616.  Ekkert sé þar fjallað um þau landsvæði sem deilt sé um í máli þessu.  Þá bendir stefndi á að samkvæmt heimildum hafi aðrir en Mývetningar nýtt landið á austuröræfum, þ.e. vestan Jökulsár.  Hafi jarðeigendur Möðrudals haft hrossagöngu á Austurfjöllum vestan Jökulsár og í Herðubreiðartungum, en það komi fram í landamerkjagjörningi og máldaga frá 1408, í máldaga frá 1493 og vitnisburði frá 1532.  Hafi Möðrudalsbændur fyrrum ferjað fé sitt vestur í Grafarlönd.

Stefndi bendir á að samkvæmt landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 séu merki jarðarinnar til suðurs, inn til landsins og í átt að Vatnajökli, dregin frá fjallgörðum þeim er næst liggja Mývatnssveit (þ.m.t. Heilagsdagsfjalli og Bláfjalli/Bláfjallshölum), og „... beina stefnu suður í Bræðraklyf vestur af Herðubreið.  Frá  Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu“.  Stefndi byggir á því að þessi lýsing suðurmerkja í landamerkjabréfinu beri ekki allskostar saman við aðrar ritaðar heimildir um merki jarðarinnar.  Vísar stefndi að því leyti sérstaklega til áðurrakinna vitnisburða Jóns Magnússonar frá 1505 og Þórólfs Hranasonar frá 1506 svo og vitnisburða Finnboga Jónssonar, Magnúsar Þorkelssonar og Gamla Þorsteinssonar frá sama ári.  Að auki bendir stefndi á niðurstöðu áðurrakins sex manna dóms, sem skipaður hafi verið af Finnboga „Maríulausa“ Jónssyni lögmanni hinn 17. maí 1506 auk þeirrar viðbótar sem hann hefði gjört þar á er hann staðfesti dóminn hinn 23. maí sama ár.  Stefndi bendir á að öll forsaga þessara vitnisburða og að Þorsteinn Finnbogason leitaði eftir dómi um „eignarhald Reykjahlíðar varðandi auræfi þau oll er liggja fyrir austan mýuatn ad Jokulsæ og alla omerkinga a milli Jlifsvatna og brædrakliffs er liggur sudur a auræffum“ hljóti að draga verulega úr trúverðugleika í eignarréttarlegu tilliti.  Þá telur stefndi að einnig verði að horfa til þess, að allt fram til þess tíma er þetta gerðist hafi nýting brennisteins verið almenn, a.m.k. séu ekki heimildir um að allt frá upphafi brennisteinsnáms um 1300 og fram til ársins 1506 hafi teljandi hömlur verið lagðar á að menn græfu eftir brennisteini þar sem hann var að finna.  Hafi brennisteinninn verið seldur kaupmönnum sem hingað sigldu og vildu kaupa.  Bendir stefndi enn fremur á að á þeim tíma sem eftir vitnisburðinum var leitað hafi spurn eftir brennisteini aukist verulega vegna stríðsrekstrar í norðanverðri Evrópu.  Við þessar aðstæður hafi Finnbogi Jónsson lögmaður gefið vitnisburð, skipað í dóm og staðfest hann, en með eigin viðbótarorðum.  Þá telur stefndi að ekki verði framhjá því horft að sonur Finnboga lögmanns, Þorsteinn, hafi byggt jörðina Reykjahlíð er atburðir þessir gerðust.  Vísar stefndi til þess að með þessum gjörningum hafi jarðeigendur Reykjahlíðar tryggt sér einkarétt til brennisteinsnáms í Þingeyjarsýslu.  Umræddar ráðstafanir og athafnir hafi verið umdeildar.  Hafi deilur m.a. verið við eigendur Grænavatns, en þeir þó ekki virst hafa haft burði til að verjast ágangi Reykhlíðunga.  Stefndi bendir loks á að ekki verði séð af umræddum „dómi“ að um tiltekinn ágreining hafi verið að ræða milli tveggja aðila, heldur hafi „dómurinn“ fremur verið álitsgerð.  Þá sé ,,dómurinn“ einnig að öðru leyti í verulegu ósamræmi við þágildandi reglur að ekki verður á honum byggt.  Stefndi vísar til þess að nokkru eftir að ofangreindir atburðir gerðust hafi Vigfús, sonur Þorsteins Finnbogasonar, selt konungi námurnar, þ.e. árið 1563.

 

Hvað staðsetningu umrædds kennileitis, Bræðraklifs, varðar þá er það álit stefnda að það sé í vesturvegg svonefndrar Hafragjár (punktur G í úrskurðarlínu).  Vísar stefndi um þetta einkum til staðsetningar örnefnisins á kortum, sem og til þess, að eldri heimildir mæli því almennt í mót, að landsvæði sunnan við Hafragjá (Bræðraklif í Hafragjá) hafi verið talið innan merkja Reykjahlíðarjarðarinnar.  Bendir stefndi í því sambandi einkum á áðurrakta landamerkjalýsingu, sem fram komi í kaupbréfi Kolbeins Arngrímssonar 2. maí 1562 um Grænavatn, þar sem segir m.a.:

„… þadan austur i gard þann er skilur lond i milli Briamsnes og Grænavatz: og ur þeir gardi austur í sýdri Burfellskord. þadan og austur í Hafragia. rædur þa giain og fram at Brædraklife og þadan sudaustur únder Herdibreid og allan Heilagsdal. Rett vr Herdibreid og vestur i Sudurarbotna. …“

Stefndi vísar einnig til áðurrakins dóms um kaupbréfið frá 6. maí 1562, en þar sé landamerkjum lýst með svipuðum hætti.  Stefndi vísar til þess að aðrar heimildir um merki Grænavatns lýsi merkjunum með sambærilegum hætti, þó að undanskildu landamerkjabréfi jarðarinnar frá árinu 1921.

Stefndi bendir á máli sínu til stuðnings að staðháttum í Hafragjá og við Bræðraklif, en einnig við Bræðrafell, sé lýst í ritverki Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun, en þar segi m.a.:  „Norðan við vörðurnar hefur verið rutt einstigi eða klif niður í jarðfallið.  Klif þetta heitir Bræðraklif og er fyrsta glögga merkið um hinn forna veg, sem við hittum.“  Þá segi í sama riti: „Starsýnt verður þeim á drangana í Bræðrafelli, sem Þorvaldur (Thoroddsen náttúrufræðingur) gizkar á, að séu 50-100 feta háir.  Segir hann, að vel geti þetta verið Bræðrafell það, sem getið sé um í fornum máldögum.  Bræðraskarð verði þá fjallahliðið milli þess og Dyngjufjall.  Ekki hef eg getað fundið þessi örnefni í gömlum máldögum, en í gömlum landamerkjaskrám hef eg fundið örnefnið Bræðraklif, en það er áreiðanlega ekki þarna.“

Um örnefnið Bræðraklif vísar stefndi einnig til yngri heimilda, þ. á m. umfjöllunar dr. Ingvars Teitssonar á dskj. nr. 10, og í grein hans Biskupaleið yfir Ódáðahraun, en einnig umfjöllunar Orra Vésteinssonar fornleifafræðings um, menningarminjar á miðhálendi Íslands ásamt uppdrætti.  Þá áréttar stefndi það sem að framan var rakið um staðsetningu Bræðraklifs í úrskurði óbyggðanefndar auk sögulegrar umfjöllunar nefndarinnar um Reykjahlíð og Grænavatn.  Byggir stefndi á því að af þessum heimildum öllum verði ráðið að Bræðraklif sé rutt hestfært einstigi eða klif til suðurs niður Hafragjá norðan Herðubreiðarfjalla.

Um kennileitið Herðubreiðartungur sem getið sé um í landamerkjabréfi Reykjahlíðar 1981 bendir stefndi á að staðsetning þess hafi lengi verið óljós, og þær fáu heimildir sem það varði séu misvísandi.  Kennileitið sé ekki lengur við lýði, og því sé í raun alls óvíst um hvaða svæði sé að tefla.

Stefndi byggir á því að líkur séu til þess, að suðurmörk Reykjahlíðar séu rétt dregin í úrskurði óbyggðanefndar, einkum þegar litið sé til eldri heimilda er varði jarðirnar Reykjahlíð og Grænavatn, landnámslýsinga, heimilda um nýtingu lands, auk almennra þjóðlendusjónarmiða um staðhætti og gróðurfar.  Þá telur stefndi að fyrrgreint orðalag landamerkjabréfs Reykjahlíðar; „... frá Bræðraklifi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðubreiðartungu“, bendi sterklega til þess, að suðurmerki jarðarinnar sé í samræmi við úrskurðarlínu óbyggðanefndar.

Stefndi áréttar að landamerkjabréf Reykjahlíðar frá 1891 greini sig frá hinum eldri heimildum, annars vegar með orðalaginu um staðsetningu Bræðraklifs og hins vegar samhenginu við fjallgarðana og Jökulsá á Fjöllum.  Bræðraklif sé þannig sagt suður af fjallgörðunum og stefnan frá Bræðraklifi og austur í Jökulsá sérstaklega tekin „sunnan við Herðubreiðartungu“.  Bendir stefndi á að í hinum elstu heimildum hafi stefnur í og úr Bræðraklifi verið ótilgreindar, væntanlega vegna þess að frekari skýringar hafi ekki verið þörf.  Telur stefndi að af öllu framangreindu virtu hljóti sönnunarbyrðin um aðra staðsetningu Herðubreiðartungu að hvíla alfarið á stefnendum, í samræmi við almenn sönnunarsjónarmið.

Stefndi andmælir fullyrðingum stefnenda að átthagalýsingin „út“ eða „utan“ hafi þýtt vestur eða vestan við, heldur hafi orðin þvert á móti þýtt norður, en „fram“ hafi merkt suður.  Er um þetta m.a. vísað til umfjöllunar dr. Stefáns Einarssonar á dskj. nr. 347-348 og Árna Böðvarssonar cand.mag á dskj. nr. 349.

Hvað einstakar heimildir um nýtingu hins umdeilda landsvæðis varðar vísar stefndi m.a. til áðurrakinna gagna.  Bendir hann sérstaklega á að í fyrrnefndum kaupgerningi og dómi um Grænavatn árið 1562 sé vikið að réttindum Grænavatns til geldfjárreksturs á Reykjahlíðaröræfum/Mývatnsöræfum („Hlidar auræfi“), en að auki sé réttindanna getið í lögfestu Brynjólfs Sigurðssonar, sýslumanns í Árnessýslu, frá 21. júlí 1766 og í lögfestu ábúandans á Grænavatni frá 1830.  Að auki hafi Grenjaðarstaðakirkja átt 10 hrossa göngu á Austurfjöllum samkvæmt máldaga Auðunar rauða Hólabiskups árið 1318.  Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sé réttinda Reykjahlíðar á Mývatnsöræfum getið en einnig réttinda annarra jarða til hrossagöngu á öræfunum, þ.e. Einarsstaða í Reykjadal og Fagraness.  Bent er á að í fasteignamatinu 1916-1918 segi frá því að Reykjahlíðarjörðin eigi víðlenda afrétti á Mývatnsfjöllum, vestan Jökulsár.

Stefndi byggir á því að aðrar heimildir, en þær sem hér að framan er getið, og varða eignarréttartilkall Reykjahlíðar til umræddra öræfasvæða, verði ekki taldar afgerandi hvað nýtingu varðar, m.a. það sem segi í máldaga kirkjunnar í Reykjahlíð frá 1573.  Bendir stefndi á að eignartilkall Reykjahlíðarkirkju til svæðis: „suo Lanngt fram J orædi sem vatnzfoll Deilast.  Og alla Omerkinga Milli Jlijfs vatna og Brædra Klijfs“ geti ekki falið í sér annað og meira en tilkall kirkjunnar til óbeinna eignarréttinda (afréttareignar) á svæðinu.  Í því sambandi bendir stefndi á að í máldaganum sé talað um eignarrétt kirkjunnar til „fiall garda Sem næstir eru fyri austan Myvatn og eckj snertir bufiar hägaungu“ sem telja megi að bendi til sérstakrar eignarréttarlegrar aðgreiningar á landsvæði því sem kirkjan gerði tilkall til.  Í máldaganum sé þess getið, að kirkjan eigi „alla Omerkinga Milli Jlijfs vatna og Brædra Klijfs.  Gelldfiar og Lamba Rekstur främm ä fioll …“  Í þessu orðalagi geti að mati stefnda ekki falist annað og meira en tilkall kirkjunnar til afréttarins.  Það að kirkjan, og e.t.v. síðari landeigendur Reykjahlíðar, hafi talið sér heimilt að innheimta toll vegna afnota annarra á afréttinum, bendi heldur ekki til annars en þess, að svæðið hafi verið nýtt til sameiginlegra beitarnota, þótt svæðið hafi, eftir atvikum, verið í afréttareign Reykjahlíðar (óbeinn eignarréttur). Stefndi byggir á því að sama sjónarmið eigi að gilda um afréttarskrá Skútustaðahrepps frá árinu 1878, en þar sé m.a. sagt að umrætt afréttarsvæði „tilheyri“ jörðinni Reykjahlíð.  Telur stefndi að í umræddri tilheyrslu hafi ekki falist annað og meira en tilheyrsla afnotaréttinda.

Stefndi byggir á því að af samanburði heimilda, m.a. þeirra sem að framan eru rakin og annarra heimilda, verði ekki annað séð, en að nær undantekningarlaust sé vísað til hins umdeilda landsvæðis í tengslum við upprekstur og afréttarnot.  Megi þetta m.a. ráða af svari sýslumanns Þingeyinga hinn 6. apríl 1920, við fyrirspurn Stjórnarráðsins um almenninga og afréttarlönd í sýslunni sem ekki „sannanlega hafa tilheyrt eða tilheyri nú nokkru lögbýli“.  Þar komi m.a. fram, að sýslumaður telji almenninga í sýslunni vera Ódáðahraun og Grafarlönd og öræfin þar suður með Jökulsá til jökla.  Auk þessa er um framangreint af hálfu stefnda m.a. vísað til umfjöllunar í úrskurði óbyggðanefndar, sem og til framlagðra vitnisburða aðila fyrir nefndinni.

Byggir stefndi á því að af fyrrgreindum heimildum verði ekki annað ráðið, en að hið umdeilda landsvæði, sunnan þjóðlendukröfulínu, hafi ekki lotið beinum eignarrétti, heldur verið svæði utan eignarlanda sem einungis hafi verið nýtt til takmarkaðra nota, þ. á m. til sumarbeitar fyrir búpening.  Af heimildum verði því ekki ráðið, að merki Reykjahlíðarjarðarinnar hafi náð suður fyrir þjóðlendukröfulínu allt suður á Vatnajökul.  Og þar sem ritaðar heimildir renni ekki stoðum undir túlkun stefnenda á landamerkjabréfi Reykjahlíðar verði óljósar lýsingar þess til suðurs, um hið umdeilda landsvæði, ekki lagðar til grundvallar.

Af hálfu stefnda er á því byggt og það áréttað að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess, að hið umdeilda landsvæði hafi ekki verið numið í öndverðu, eða teljist lúta beinum eignarrétti.  Bent er á að landsvæðið sé víðfeðmt öræfalandsvæði, í töluverðri hæð.  Nokkuð sé um hóla, hæðir og fjöll og beri þar helst að nefna Herðubreiðarfjöll (1094 m), Kollóttudyngju (1180 m), Herðubreið (1682 m), Herðubreiðartögl (1070 m) og Upptyppinga (927-1084 m).  Vestan Upptyppinga liggur eldfjallakerfi Dyngjufjalla (1510 m) með Öskju og Öskjuvatni sem er 11 km2 að stærð.

Að teknu tilliti til fyrrgreindra atriða, þ.e. staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, byggir stefndi á því að augljóst sé að hið umþrætta landsvæði hafi ekki verið nýtt til annars en hugsanlegra takmarkaðra beitarafnota eða eftir atvikum annarra takmarkaðra nota, en að öðru leyti ekki nýtanlegt sökum staðhátta.

Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi.  Vísar stefndi þar um m.a. til áðurrakinna sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda.  Þá áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot eða önnur takmörkuð nýting geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.

Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði.  Bendir stefndi á að sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn einn sé bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Stefndi byggir á því að ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar heldur ekki stofnað til slíkra réttinda.  Bendir stefndi á að þinglýsing landamerkjaskrár eða heimildarskjals fyrir svæðið feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins, að menn geta ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.

 

Stefndi andmælir varakröfu stefnenda, og því sérstaklega að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignaréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvort heldur að hluta til eða að öllu leyti.  Vísar stefndi m.a. til þess að um auðlindir í jörðu gildi lög nr. 57, 1998 um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu.  Að mati stefnda gildir ákvæði 3. gr. laganna um nefnt landsvæði, enda um þjóðlendu að ræða, en ekki eignarland, samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar og að mati stefnda.  Bendir stefndi á að ákvæðið feli í sér að í þjóðlendum séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.  Að áliti stefnda hafi stefnendum ekki tekist að sanna slíkan eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti.  Stefndi bendir á það, sem rakið hefur verið hér að framan, að nýting svæðisins hafi verið takmörkuð, enda bendi heimildir til þess að svæðið hafi eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði.  Slík takmörkuð not geti að áliti stefnda hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu.

 

Með vísan til þess sem hér að framan var rakið, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að stefnendur hafi ekki sýnt fram á eignarrétt sinn að hinu umdeilda landi.  Bendir stefndi á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld.  Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998:  „… landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“.  Engin gögn liggi fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.

 

Stefndi hafnar þeirri kröfu stefnenda að endurskoða eigi málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar.  Bendir stefndi á að samkvæmt 17. gr. laga nr. 58, 1998 skuli greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað vegna gæslu hagsmuna málsaðila fyrir óbyggðanefnd.  Þá sé samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins óbyggðanefnd falið að úrskurða um málskostnaðarkröfur aðila fyrir nefndinni.  Meðal þess sem nefndinni ber að líta til við ákvörðun á nauðsynlegum kostnaði aðila, sé hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli.  Þá sé óbyggðanefnd samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins heimilt að gera málsaðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti sjálfur ef hún telur málatilbúnað hans gefa tilefni til þess.  Telur stefndi að ekki verði annað séð en við mat á þóknun lögmanns stefnenda fyrir óbyggðanefnd hafi nefndin gætt fyrrgreindra sjónarmiða og verið í fullu samræmi við ákvæði 17. gr. laganna.  Af hálfu stefnenda hafi heldur ekki verið færð nein rök fyrir þeirri fullyrðingu, að málskostnaðarákvörðun nefndarinnar hafi verið ósanngjörn eða óeðlilega lág.  Hljóti sönnunarbyrðin um slíkt að hvíla alfarið á herðum stefnenda.

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, og krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2007 frá 6. júní 2008, með þeim röksemdum sem þar komi fram, verði staðfestur og þá þannig að miðað verði við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem þar er rakið.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar stefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Stefndi byggir jafnframt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not.  Stefndi byggir á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar.  Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905 og vísar til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil.  Þá vísar stefndi til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr.

 

IV.

Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Jón Illugason framkvæmdastjóri, en vitnaskýrslur gáfu Guðrún Ása Grímsdóttir, rannsóknarprófessor í íslenskum fræðum, Reykjavík, Jónas Kristjánsson, prófessor emeritus í íslenskum fræðum, Reykjavík, Ingólfur Jónasson, bóndi, Helluvaði, Mývatnssveit, og Arngrímur Geirsson, fyrrverandi kennari, Álftagerði III, Mývatnssveit.

 

Ágreiningur máls þessa lýtur að landi við suður- og suðausturmerki lögbýlisins Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi.

Stefnendur, eigendur Reykjahlíðar, byggja m.a. á því að í úrskurði óbyggðanefndar hafi örnefnið Bræðraklyf ranglega verið staðsett og þar með suðurmörk jarðarinnar.  Krefjast stefnendur þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og jafnframt að viðurkennt verði að merki milli þjóðlendu og eignarlands Reykjahlíðar til suðurs séu frá skurðpunkti við þjóðlendulínu sunnan Bláfjalla (p.1) og þaðan bein lína í Bræðraklif (Bræðrafell) fyrir vestan Herðubreið (p.2) og þaðan beint austur í Jökulsá (p.3) fyrir sunnan Herðubreiðartungu, sbr. framlagðan uppdrátt, og þar með að enga þjóðlendu sé að finna innan réttra landamerkja Reykjahlíðar.

Stefnendur vísa í málatilbúnaði sínum m.a. til tilgangs Alþingis með setningu þjóðlendulaga nr. 58, 1998, en einnig þýðingar landamerkjalaga nr. 41, 1919 og byggja á því að þeir hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf frá 1891, sem þeir segja að sé í samræmi við eldri heimildir.

Stefnendur staðhæfa að gagnaöflun óbyggðanefndar hafi verið ófullkomin, að nefndin hafi metið sönnunargögn ranglega og að auki lagt óhóflega sönnunarbyrði á þá.  Vinnubrögð nefndarinnar fáist ekki staðist þegar litið sé til rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Beri því að ógilda úrskurð óbyggðanefndar.

Stefndi vísar í málatilbúnaði sínum sérstaklega til úrskurðar óbyggðanefndar frá 6. júní 2008 og gerir niðurstöður nefndarinnar að sínum, en vísar að auki til annarra málsástæðna sem hann teflir fram og hér að framan eru raktar.

Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint þannig:  „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er í lagagreininni afréttur skilgreindur sem:  „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“

Fram að gildistöku þjóðlendulaga nr. 58, 1998 voru landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til þjóðlendulaga segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.

Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum.  Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda.  Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

Eins og áður var rakið tilkynnti óbyggðanefnd með bréfi, dagsettu 15. júní 2006, þá ákvörðun sína að í samræmi við III. kafla þjóðlendulaga ætlaði hún að taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi, þ. á m. það svæði sem hér um ræðir, á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni.  Að lokinni kröfugerð, gagnaöflun og málsmeðferð samkvæmt nefndum kafla laganna kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn, hinn 6. júní 2008, sbr. mál nefndarinnar nr. 1/2007.  Varð það m.a. niðurstaðan að það landsvæði, sem lýst er í aðalkröfu í stefnu, sem nefnt hefur verið Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir og landsvæði innan kröfusvæðis Reykjahlíðar, þ.e. sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan Bræðraklifs í Hafragjá og norðan Dyngjujökuls, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, auk Ódáðahrauns vestan Öskju og á Trölladyngjusvæðinu, innan kröfusvæðis Skútustaðahrepps.  Einnig var hafnað kröfum landeiganda Grænavatns á nefndu landsvæði, norðan Bræðraklifs í Hafragjá.  Þá taldi nefndin að sá hluti Vatnajökuls sem liggur innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar væri þjóðlenda í skilningi fyrrgreindra ákvæða.  Aftur á móti var það niðurstaða óbyggðanefndar að fyrrnefnd Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir væru afréttareign Reykjahlíðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, og að sá hluti Ódáðahrauns sem liggur sunnan nefnds Bræðraklifs og norðan Dyngjujökuls, innan kröfusvæðis eigenda Reykjahlíðar, væri háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44, 1999, sbr. náttúruminjaskrá og auglýsingu nr. 194,1978.

Það er álit dómsins að lýst málsmeðferð óbyggðanefndar, sbr. það sem segir í kafla I hér að framan, hafi verið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og verður ekki fallist á með stefnendum að form- eða efnisgallar séu á úrskurðinum, þar á meðal að því er varðar meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, að varði ógildi hans.  Þykir að þessu leyti mega vísa til hæstaréttarmálsins nr. 48/2004, en þar er það m.a. rökstutt að málsmeðferðin sé eigi andstæð 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994.  Í þessu sambandi þykir og fært að líta til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06: Örn Bergsson o.fl. gegn Íslandi.

 

Með aðilum er ekki ágreiningur um að land Reykjahlíðar samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi jarðarinnar frá 8. apríl 1891 sé eignarland.  Aðilar deila hins vegar um mörk eignarlandsins og þjóðlendu til suðurs og austurs samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar.  Í landmerkjabréfinu er suðurmerkjum jarðarinnar þannig lýst: „... Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið.  Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.“  Í kröfu stefnda felst að mörk þjóðlendu og eignarlands liggi innan marka þess landsvæðis sem stefnendur telja undirorpið eignarrétti sínum.

Stefnendur byggja kröfur sínar eins og áður er rakið aðallega á hinu þinglýsta landamerkjabréfi Reykjahlíðar.  Vísa þeir til framlagðra gagna og eldri heimilda, sem þeir staðhæfa að styðji kröfur þeirra.  Benda stefnendur m.a. á heimildir um landnám, auk áðurrakinna vitnisburða og dóma frá upphafi 16. aldar, en auk þess vísa þeir til dóms um kaupbréf Grænavatns frá 1562, en þar segir um suðurlandamerki þeirrar jarðar: „... ustur i Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid. og allann Heilagsdal. riett ur Herdebreid til vesturs. og so üt I Sudurärbotna ...  Þá vísa stefnendur m.a. til máldaga Hlíðarkirkju frá 1573 og afréttarskrár Skútustaðahrepps frá 1878.

Stefndi andmælir eins og áður er rakið öllum rökum stefnenda og vísar hann m.a. til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar.

Samkvæmt Landnámu byggði fyrstur jörðina Reykjahlíð Arnór Þorgrímsson, sonarsonur Þorsteins landnámsmanns.  Þá segir í máldaga Auðuns rauða Hólabiskups frá 1318 og í máldaga Péturs Nikulásarsonar frá 1384 að kirkjan eigi hálft heimaland.  Í elstu heimildum er ekki frekar vikið að því landsvæði sem um er deilt í máli þessu, en stefnendur benda m.a. á að í vitnisburði og lögmannsdómi frá byrjun 16. aldar sé því lýst að suðurhornpunktur Reykjahlíðar sé við örnefnið Bræðraklif.  Þeir benda og á að samkvæmt landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891, sem styðjist m.a. við eldri heimildir hvað varðar átthagalýsingar, styðji það að umrætt örnefni sé þar sem nú sé á kortum nefnt Bræðrafell.

Um legu jarðarinnar er það að segja að hún er austasta byggða ból vestan Jökulsár og var líkt og nú viðkomustaður ferðalanga sem áttu erindi, m.a. millum Norður- og Austurlands. Liggur sá almannavegur um Námaskarð og yfir Mývatnsöræfi, þ.e. um Búrfellshraun, Nýjahraun og Austurfjöll og að Jökulsá.  Austan Jökulsár eru býlin Grímsstaðir og Möðrudalur á Fjöllum, en bæði munu þau býli til forna hafa verið nokkru sunnar í landinu en húsakynni núverandi býla.

Í úrskurði óbyggðanefndar er að nokkru vikið að staðháttum og náttúrufari austan byggðar við Mývatn, á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni, líkt og hér að framan hefur verið rakið.  Í öðrum framlögðum gögnum er staðháttum á landsvæðinu lýst nokkru nánar.  Er þar helst að nefna ritverk Þorvaldar Thoroddsen náttúrufræðings, Ferðabók I-IV, skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898, sem gefnar voru út á árunum 1913-1914.  Að auki hafa aðilar vísað til ritverka annarra náttúrufræðinga og landkönnuða, en þar má helst nefna ritverk Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun, sem gefin voru út um miðja síðustu öld, ritverk Pálma Hannessonar Frá Óbyggðum - ferðasögur og landlýsingar, sem gefið var út 1958 svo og skýrslu Hjörleifs Guttormssonar frá 2006.

Í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen segir að Mývatnssveitin takmarkist að sunnan og austan af um 30 km löngum fjallgarði, sem gangi í suðri frá Sellandsfjalli, Bláfjalli (1222 m), Bláfjallshölum og Bláfjallsfjallgarði, Námafjalli og allt norður til Leirhnjúks.  Segir Þorvaldur að margir gígar séu á þessari leið, þ. á m.  Þrengslaborgir, Lúdent og Hverfell, og hafi eldgos verið virk, m.a. um það leyti sem land byggðist.  Mikið hraunflóð hafi runnið úr gígunum niður undir Grænavatn og suðausturhorn Mývatns.  Þá hafi í Mývatnseldum 1724-1729 eyðst þrjú býli, þ. á m. Reykjahlíð, Fagranes og Gröf.  Hafi Reykjahlíð verið byggð upp á ný við hraunjaðarinn.

Nefndir fræðimenn lýsa Mývatnsöræfum á þá leið að þau séu mjög víðáttumikil slétta, 300-500 m yfir sjó, sem hækki lítið eitt þegar austar dragi.  Sléttan nái norður undir Kelduhverfi, í svonefndan Norðmel og Norðurfjöll, en einnig suður fyrir núverandi þjóðveg, upp með allri Jökulsá, um svonefnd Grjót og Borgarmel, með Fjallagjá og Veggjastykki, upp með Ferjuási og Vörðukambi, með Ystafelli og Miðfelli, mót Möðrudalslandi austan Jökulsár og síðan fram með Fremstafelli og Ferjufjalli, en þar í milli renni Grafarlandsá um dalverpi.  Þá nái sléttan til suðvesturs, um Grafarlönd, og suður að Lindá, Herðubreiðarlindum og Herðubreið.  Áframhald af sömu sléttu megi kalla hið vestasta af fjallabyggðunum fyrir austan Jökulsá.  Í Ferðabókinni segir Þorvaldur Thoroddsen að á öræfasvæðinu séu hraungjár og gígar svo hundruðum skipti, en lítið um melöldur.  Þá sé mikill hluti öræfanna þakinn stórum hraunum, en þó séu góð beitilönd á milli.  Roksandur sé þar nokkur og melar af hnullungsgrjóti, einkum næst Jökulsá.  Þorvaldur segir að hross gangi á öræfunum vetur og sumur og að mikið sé rekið þangað af sauðfé.  Hefur þessi frásögn Þorvaldar samhljóm við yngri heimildir, m.a. um að meginafrétturinn á Mývatnsöræfum sé norðan Búrfells og á Norður- og Austurfjöllum og síðan suður með Jökulsá með Grímsstaðaþjóðvegi og í Grafarlöndum og öræfum þar suður.  Frásögnin hefur jafnframt samhljóm við eldri heimildir um ítök jarða, þ. á m. Möðrudals.

Um Ódáðahraun segja fræðimennirnir að það sé mesta hraunbreiða á Íslandi, sem liggi sunnan frá Vatnajökli og Vonarskarði og milli Jökulsár á Fjöllum og Skjálfandafljóts.  Til norðurs séu mörk Ódáðahrauns óljósari, en að oft sé miðað við að þau séu dregin um fyrrnefnd Mývatnsfjöll, austan byggðar, þ.e. um suðurenda Bláfjalls og Sellandsfjalls, en síðan til norðurs að Grímsstaðaþjóðvegi á Mývatnsöræfum.  Með þannig mörkum að meðtöldum Búrfellshrauni og Sveinagjárhraunum og að norðurenda Herðubreiðarfjalla sé flatarmál hraunsins um 4500 km2.  Hraunið sé af mismunandi aldri og útliti, sem runnið hafi frá fjölda eldfjalla og gígaraða.  Í fyrrnefndum ritverkum segir að hæð hásléttunnar sem hraunið hafi fallið yfir sé um 400 m nyrst og um 800 m syðst.  Hásléttan sé þó ekki alveg hulin hrauni þar eð meðfram Jökulsánni séu víðáttumikil svæði með ísaldarruðningi, líkt og í Fljótsdalnum við vesturmörkin.  Þá rísi einstök fjöll eða fjallaþyrpingar upp úr hraunhafinu og séu Herðubreið, Dyngjufjöll með Öskju þeirra mest svo og Trölladyngja og Kollóttadyngja.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að gróðri á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni.  Í ritum nefndra fræðimanna segir að vatnsskortur standi gróðrinum helst fyrir þrifum, en að helst sé norðurhluti hraunsins talsvert gróinn með köflum svo og þar á mellöndum, en einnig séu gróðurblettir víða við lindir og uppsprettur, m.a. í nágrenni Herðubreiðar.  Áréttað er að dálítill gróðurslæðingur sé því sem næst um allt hraunið, að undanskildum yngstu og úfnustu hraunbreiðunum og þá ekki hvað síst norður af Vatnajökli, norður um Trölladyngju og Dyngjufjöll.

Í ritverki Þorvaldar Thoroddsen, sem ferðaðist víða um Ódáðahraun á árunum 1875 og 1882-1884 og gerði jarðfræðiuppdrátt og lýsti því nákvæmlega: „... mest eftir eigin sjón, sumpart eftir lýsingu nákunnugra göngumanna og fjallakónga“, gerði hann grein fyrir heimildum sínum um fyrri ferðir um Mývatnsöræfi og Ódáðahraun.  Staðhæfir hann að þrátt fyrir einstaka ferðir um landsvæðið á 17. og 18. öldinni hafi öræfin inn af Mývatni verið byggðamönnum lítt kunn.  Þekking hafi þó farið vaxandi er leið á 19. öldina og hafi það m.a. leitt til þess að fjárheimtur urðu talsvert betri með tímanum. Í leiðöngrum sínum um Ódáðahraun og Mývatnsöræfi gaf Þorvaldur kennileitum og örnefnum nafn, en leiðrétti jafnframt eldri uppdrætti um staðsetningu fjalla og fjallgarða, sem gerðir höfðu verið eftir fyrri öræfaferðir.  Þar á meðal var landabréf Knoffs af Íslandi frá 1734 og Uppdráttur Íslands sem Björn Gunnlaugsson gerði 1844, en hann hafði á árunum 1838 og 1839 farið um öræfin millum Jökulsár og Skjálfandafljóts.  Á meðal fylgdarmanna Björns var séra Sigurður Gunnarsson, en í greinum sem hann ritaði í tímatritið Norðanfara 1864 og 1877 segir hann frá ferðum sínum.  Nefnir Sigurður m.a. Dyngjufjöll fremri og hin ytri, en jafnframt segir hann að suðvestur af Herðubreið eigi að vera skarð sem heiti Bræðraskarð, en ekki getur hann frekar um heimildir sínar.

Þorvaldur Thoroddsen segir frá því í fræðiritum sínum, að fjöll hafi vantað á uppdrátt Björns Gunnlaugssonar, þ. á m. Hvammsfjöll, hið mikla eldfjall Kollóttu-Dyngju og Herðubreiðartögl, en einnig Lindá, Ferjufjall, Hrossaborg og „önnur smáfell fram með Jökulsá“.  Þá staðhæfir hann að Herðubreiðarfjöll en einnig Dyngjufjöll hafi verið skakkt sett á Uppdrátt Íslands.  Þorvaldur lýsir í framhaldi af þessum skrifum legu helstu fjalla austan Mývatnsfjalla, þ. á m. Heilagsdagsfjalls, Búrfellsfjalla og Búrfells, en þar sunnar segir hann vera hinar fornu Fremrinámur, við gíginn Ketil og Ketildyngju, en þar rétt sunnan við staðsetur hann móbergstindinn Kerlingardyngju og að enn sunnar liggi Hvammsfjöll og Fjarhólar.  Þá segir hann að austurhlið Kerlingardyngju nái að Herðubreiðarfjöllum.  Í skýringum, sem fylgja ritverkum Þorvaldar, segir að Búrfellsfjöll nefnist nú á korti Bláfellsfjallgarður.

Í ritverkum nefndra fræðimanna segir m.a. frá því að Grafarlönd vestan Ferjufjalls, við Jökulsá, séu um 10-12 km suðvestur að Herðubreiðarlindum og Herðubreið (1682 m).  Þá segir Þorvaldur Thoroddsen að suður af Herðubreið, en eigi áfast þar við, gangi allmikill fjallrani, „sem ég hef heyrt menn kalla Tögl eða Herðubreiðartögl (1070 m)“, en að þar suður frá falli Jökulsáin á tveggja til þriggja km kafla í mjög þröngum gljúfrum, sem á einum stað séu aðeins 11 m breið og að rétt ofan við mjóddina sé dálítill foss.  Er að áliti dómsins líklegt að hér sé átt við foss, sem á síðari tímum hefur verið nefndur Gljúfrasmiður.  Í þessu viðfangi er til þess að líta að mun neðar í Jökulsánni eru þekktir fossar, þ.e. Selfoss, Dettifoss, Hafragilsfoss og Réttarfoss, en að auki var þar fram til ársins 1920 Vígabjargarfoss, sem þá hvarf vegna rennslisbreytinga.  Í ritum sínum segir Þorvaldur að þau hraun sem séu um Herðubreið séu ekki frá henni komin, þrátt fyrir að annálar tiltaki að hún hafi gosið 1341 og 1510.  Staðhæfir Þorvaldur að fjallið hafi ekki gosið frá ísöld, en þar sem öræfin séu svo fjarri byggð og ókunn sé ekki óeðlilegt að fólk hafi ættfært ranglega þau gos sem þar urðu.  Í bókarflokki sínum um Ódáðahraun tekur Ólafur Jónsson undir þessa skoðun Þorvaldar, en segir jafnframt að þekkt sé að eldgos séu kennd við eitthvert þekkt eða sérkennilegt fjall í nágrenninu.  Nefnir hann í því sambandi að árið 1510 hafi verið sagt í Biskupsannálum Jóns Egilssonar að gosið hafi í Trölladyngju og Herðubreið, en hið rétta hafi verið að gosið hafi í Dyngjufjöllum og Herðubreiðarfjöllum.

Þorvaldur Thoroddsen segir frá því að fyrir sunnan Herðubreiðartögl blasi við Kverkfjöll og Vatnajökull, en þar vestan við sé Kistufell og Dyngjufjöll ásamt Öskju.  Hann lýsir skarði millum Dyngjufjalla og Kollóttudyngju, sem hann segir að sé syðsti hluti Herðubreiðarfjalla, en síðan segir hann:  „Suður af Kollóttu-Dyngju, í suðurrönd hennar, er mjög einkennilegt móbergsfell.  Standa utan í því þverhníptir móbergsdrangar, að minnsta kosti 15-30 m háir, hver upp af öðrum, og á hrygg fellsins eru stóreflis björg, undarlega löguð … Það getur vel verið, að þetta fell sé Bræðrafell, sem getið er um í fornum máldögum.  Bræðraskarðið verður þá fjallahliðið milli þess og Dyngjufjalla. Þó er þetta ekki víst“.  Í þessu viðfangi er til þess að líta að fram í Bárðardal, nærri Svartárvatni, eru bergstöplar tveir sem nefndir eru Bræður.  Þá er í Hólmatungum, syðst við Hólmárbjargið, lækur sem mun heita Bræðralækur.  Þorvaldur segir í ritverki sínu frá rannsóknarleiðangri sem hann fór árið 1884 um Herðubreiðarfjallgarð.  Segir hann að fjallgarðurinn sé norður og austur af Dyngjufjöllum og norðvestur af Herðubreið, en bendir á að flestir Mývetningar nefni fjallgarðinn Herðubreiðarfjöll, en sumir kalli hann Dyngjufjöll ytri.  Þorvaldur staðhæfir að fjöll þessi hafi verið alveg ókunn og mjög skakkt sett í Uppdrætti Íslands, enda þótt mikið hraun hafi runnið frá þeim og í næsta nágrenni þeirra, m.a. frá Sveinagjá, sem gosið hafi 1875.  Þorvaldur lýsir Herðubreiðarfjöllum og nágrenni þeirra, líkt og Ólafur Jónsson og fleiri fræðimenn og landkönnuðir hafa gert síðar í verkum sínum.  Segir Þorvaldur að þangað frá Grafarlöndum vestan Jökulsár séu hallandi hraunbreiður.  Þá sé vestur af Miðfelli og Fremstafelli, en norðan Ferjufells, ávöl bunga, hraunlaus, og nái hún langleiðina vestur að Gjáfjöllum (957 m), sem sé nyrsti hluti fjallaklasans.  Við rætur Gjáfjalls að vestan sé fyrrnefnd Sveinagjá.  Þá segir Þorvaldur að syðsti hluti fjallaklasans sé áðurnefnd Kollóttadyngja (1177 m), sem sé vestur eða dálítið norðvestur af Herðubreið.  Í bókarflokki Ólafs Jónssonar er áréttað að suður af Kollóttudyngju sé á landakortum merkt fyrrnefnt Bræðrafell, en eigi getur hann um aldur eða uppruna örnefnisins.  Í áðurröktum úrskurði óbyggðanefndar er Bræðrafelli lýst, en í vettvangsferðum var það staðfest að tveir drangar sem þar eru sjást langt að.  Við norðurrætur Kollóttudyngju er móbergsfjallið Eggert (1232 m), sem Þorvaldur skírði í höfuðið á Eggert Ólafssyni.  Vestur af því er sundurskorinn fjallgarður sem heitir Hrútshálsar og nær norður að Gjáfjöllum.  Norður frá Gjáfjöllum, skammt austur af Sveinagjársigi, liggur Hafragjá.  Í bókaflokki Ólafs Jónssonar segir að gjá þessi sé 1-2 km breið og 5-6 km löng, með 20-30 m háum gjáveggjum, einkum að vestan.  Í ritverkum Þorvaldar Thoroddsen og Hjörleifs Guttormssonar, en einnig í örnefnaskrá Reykjahlíðar sem Pétur Jónsson tók saman um 1950, segir að á báðum börmum Hafragjár séu vörður og að nálægt miðjum vestari gjáveggnum sé rutt einstigi.  Í örnefnaskrá Péturs, í riti Fornleifastofnunar Menningarminjar á miðhálendi Íslands, sem dr. Orri Vésteinsson ritstýrði, og í bókaflokki Ólafs Jónssonar er nefnt einstigi nefnt Bræðraklif.  Þá er áréttað í nefndum ritum að þar á vestari barmi Hafragjár séu þrjú vörðubrot.  Austur af gjánni og norður frá Gjáfjöllum er hver sigspildan við aðra.  Ein er þó mest og má rekja hana norður með Hrossaborgum og suður með Gjáfjöllum, en Fjallagjá er hluti af þessu sigi.

Í áðurnefndum gögnum segir að víða sé Ódáðahraun ógreitt yfirferðar, en sjaldan séu þó vandkvæði fyrir gangandi menn að komast ferða sinna um það, og víðast hvar megi með lagi fleyta hestum.  Mestu torfærurnar séu sumar gjárnar.  Samkvæmt frásögn Jóns Halldórssonar í Hítardal, sem gegndi m.a. stöðu skólameistara Skálholtsskóla í byrjun 18. aldar, var ferð yfir Ódáðahraun talin áfangi, þ.e. dagleið.

 

Í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891 er, eins og hér að framan hefur verið rakið, það sagt um suðurmerki jarðarinnar að þar ráði fjallgarðar þeir til suðurs, ... er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið.  Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.

Í málatilbúnaði sínum, líkt og við flutning, hafa aðilar vísað til eldri heimilda máli sínu til stuðnings.  Hafa þeir m.a. sérstaklega nefnt sjöttardóm Magnúsar Jónssonar sýslumanns um landamerki nágrannajarðar Reykjahlíðar Grænavatns frá 1562, en þar segir um suðausturmerki þeirrar jarðar:  „ustur i Burfellsskòrd hin sidre. þadann og austur i Hafragiä. rædur þä. giäinn og framm ad Brædraklife. og þadann og austur under Herdebreid“.  Hafa stefnendur einkum lagt áherslu á síðari hluta merkjalýsingarinnar.

Örnefnið Búrfellsskörð syðri eru nú óþekkt örnefni, en í skýringum með fræðiriti Þorvaldar Thoroddsen segir að helst geti þar verið um að ræða skörð í Bláfjallsfjallgarði og verður það lagt til grundvallar.  Þá eru áhöld um staðsetningu örnefnisins Herðubreiðartungur austur við Jökulsá.  Hafa stefnendur vísað um staðsetninguna til örnefnaskrár Reykjahlíðar frá 1950, sem Pétur Jónsson skráði, en þar segir að um sé að ræða gamalt örnefni á Grafarlöndum eystri og grónu landi þar í kring.  Að áliti Pálma Hannessonar er Herðubreiðartunga hins vegar tvímælalaust tungan milli Jökulsár og Grafarlandsár.  Er um þetta m.a. til þess að líta að í fornsögum er Herðubreiðartungna getið, en þá jafnan í tengslum við sagnir um ferðir manna þvert yfir Ódáðahraun.  Í Hrafnkelssögu segir frá ferðum Sáms á Leikskálum, en þar segir svo: „Þaðan (frá Möðrudal) riðu þeir til Herðibreiðstungu og svo fyrir ofan Bláfjöll og þaðan í Króksdal og svo suður á Sand“.  Þá segir í Ljósvetningasögu frá ferð Þorkels Geitissonar um árið 1000, að hann hafi skipt liði sínu við Jökulsá, en „þá váru goð vöd viða ...“ og hafi hluti liðs hans síðan farið „almannaveg“ vestur til þings, en meginhluti liðsins farið á hrossum sínum „... fyrir ofan Mývatn til Krókdals ok Bleikmýrardals ...“  Í þessu samhengi er til þess að líta að samkvæmt Vilchinsmáldaga átti Möðrudalskirkja á Fjöllum ítök vestan Jökulsár, hestgöngu og ómerkinga alla í Herðubreiðartungum.  Síðari tíma heimildir hafa greint frá ferðum Skálholtsbiskupa þvert yfir Ódáðahraun vegna vísitasíuferða til Austurlands.  Þá er ætlað að Bjarni Oddsson, sýslumaður á Burstafelli, hafi farið Ódáðahraunsleið síðastur manna 1636 og drukknaði þá maður í Jökulsá, en eftir það hafi hún týnst.  Er talið að þessi leið hafi verið einn hinna fyrstu fjallvega, sem týndist. 

Samkvæmt áðurnefndum fræðiritum verður ekki með vissu sagt hvar leiðin lá yfir Ódáðahraun.  Í ritverki sínu segir Þorvaldur Thoroddsen frá því að hann hafi fundið ruddan sneiðing upp klif við norðurenda Gjáfjalla í Herðubreiðarfjöllum, en þar hafi og verið versta torfæra leiðarinnar.  Jafnframt greinir Þorvaldur frá því að hann hafi fundið nokkur vörðubrot út og vestur frá Ferjufjalli.  Þá hefur Þorvaldur það eftir manni einum sem var uppalinn í Mývatnssveit, að „hinn gamli vegur hafi legið úr Kiðagili austur yfir Skjálfandafljót, á Kolmúladal, og þaðan austur yfir hraunið í Herðubreiðartungur og svo að Möðrudal.“  Þeir fræðimenn og landkönnuðir sem fylgdu í fótspor Þorvaldar Thoroddsen hafa, líkt og áður var rakið, nefnt klif það sem liggur niður vesturvegg Hafragjár Bræðraklif.  Þá hafa þeir greint frá því að við eftirgrennslan hafi þeir fundið vörður og vörðubrot vestan Hafragjár, en einnig austan hennar og þar á meðal á grjótunum út og vestur frá Ferjufjalli.

 

Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Segir í dómsniðurstöðunni m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Enn fremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það.  Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.  Rétturinn hefur í síðari dómum margsinnis áréttað þessa afstöðu, t.d. í fyrrnefndum dómi í máli nr. 496/2005. Ber við niðurstöðu máls þessa að hafa allt framangreint í huga.

Stefnendur byggja á því að Bræðraklyf, það örnefni sem nefnt hafi verið suðurhornpunktur í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá árinu 1891, og margoft sé nefnt í eldri merkjalýsingum jarðarinnar, sé þar sem nú sé á kortum nefnt Bræðrafell.  Í fellinu séu háir bergstöplar sem nefndir séu bræður og sjáist langt að.  Vísa stefnendur til þess að þetta sé skýr hornpunktur á suðvesturhorni jarðarinnar og í mun betra samhengi við eldri heimildir en það Bræðraklif í Hafragjá, sem óbyggðanefnd miði ranglega við.

Hafragjár er ekki getið sem landamerkjapunkts í landamerkjabréfi Reykjahlíðar frá 1891, en fyrir liggur að það hefur verið þekkt kennileiti um aldir.  Er þess m.a. getið í áðurnefndum sjöttardómi frá 1562, þar sem kveðið var á um landamerki Grænavatns, en þar er einnig getið um örnefnið Bræðraklif.  Örnefnið Bræðraklif kemur fyrir í vitnisburðum og lögmannsdómi um eignarland Reykjahlíðar frá byrjun 16. aldar og í heimildum eftir það, þ. á m. í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891.  Landmerkjabréf Reykjahlíðar var ekki áritað af öllum eigendum nágrannajarða, þ. á m. ekki eigendum Grænavatns. 

Þær elstu heimildir sem málsaðilar vísa til benda að áliti dómsins til þess að merki Reykjahlíðar hafi legið frá hinu óþekkta syðra skarði í Búrfellsfjallgarði, sem nú nefnist Bláfellsfjallgarður, á mörkum austur- og suðurafréttar Mývetninga.  Þá er líklegast að þaðan hafi merkjalínan legið til austurs um Ódáðahraun og í Hafragjá norðan Herðubreiðarfjalla, en að áliti dómsins er gjáin ótvírætt punktur sem miðað var við.  Er í því viðfangi til þess að líta að í Mývatnssveit er eigi óalgengt, sbr. m.a. aðilaskýrslu fyrir dómi, að merkjalýsingar jarða taki mið af lægðum í landi eins og af hæðum.

Að virtum hinum elstu heimildum sem fjalla um hið umþrætta landsvæði fær skilningur stefnenda um staðsetningu Bræðraklifs í Bræðrafelli sunnan Kollóttudyngju að áliti dómsins ekki nægjanlegan stuðning, m.a. þegar litið er til átthagalýsinga.  Þá er til þess að líta að millum syðsta hluta Hafragjár og Bræðrafells sunnan Kollóttudyngju eru um 25 km í beinni loftlínu og er þá farið yfir há Herðubreiðarfjöllin.  Skilningur stefnenda fær að áliti dómsins heldur ekki stuðning í ritum þeirra náttúrufræðinga og landkönnuða sem fyrstir könnuðu hin víðáttumiklu landsvæði, sem hér eru til umfjöllunar, til nokkurrar hlítar á 19. og 20. öld.  Loks fær skilningur stefnenda ekki stuðning í síðari tíma gögnum, m.a. örnefnaskrá Reykjahlíðar. 

Þegar ofangreint er virt, en einnig í ljósi staðhátta, áðurrakinna lýsinga náttúrufræðinga á landsvæðinu, þ. á m. á Herðubreiðarfjöllum og einstökum hlutum þeirra, vettvangsferða að nefndum kennileitum og almenns málskilnings á Norðurlandi á orðunum „fram“ og „utan við“, verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að merki Reykjahlíðar á eignarlandi taki mið af Hafragjá norðan Gjáfjalla í Herðubreiðarfjöllum og þá þannig að merkjalínan miðist við einstigi það sem nefnt hefur verið Bræðraklif og er í vesturvegg í syðri hluta Hafragjár.  Þá fari merkin þaðan í beinni stefnu austur í Jökulsá.  Það er því niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki hrakið eða leitt nægjanlegar líkur fyrir því að áðurraktar forsendur í úrskurði óbyggðanefndar sem stefndi vísar til um merki Reykjahlíðar séu rangar.

Að þessu sögðu verður ekki fallist á með stefnendum að þeir hafi sýnt fram á að umrætt landsvæði sunnan þjóðlendulínu eins og hún er dregin í úrskurði óbyggðanefndar sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Þá verður ásamt andmælum og röksemdum stefnda, en einnig með hliðsjón af áðurnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, ekki fallist á að stefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu frekari réttindi á þessu landsvæði en lýst er í úrskurðinum.  Loks hafa stefnendur að áliti dómsins ekki rökstutt frekar þau réttindi, sem varakrafa þeirra tekur til, eða þeir að öðru leyti fært fram gögn fyrir slíkum réttindum.  Ber af þeirri ástæðu að hafna varakröfu stefnenda.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið er hafnað kröfum stefnenda um að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í máli þessu og skal hann standa óraskaður.  Er því fallist á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að lýst landsvæði samkvæmt úrskurðinum teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998, en jafnframt að landsvæði sem nefnd eru Grafarlönd austari og Herðubreiðarlindir séu afréttareign jarðarinnar Reykjahlíðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Verður stefndi samkvæmt öllu þessu sýknaður af kröfum stefnenda í málinu.

 

Stefnendur krefjast þess að málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar gagnvart þeim vegna lögmannsþjónustu, sem þeir hafi þegið við meðferð málsins fyrir nefndinni, að fjárhæð 2.200.000 krónur, verði felld úr gildi og þess í stað dæmt að stefnda beri að greiða stefnendum 4.327.500 krónur auk virðisaukaskatts, 1.060.235 króna, eða samtals 5.387.737 krónur í málskostnað vegna lögmannsþjónustu auk 2.599.120 króna vegna útlagðs kostnaðar landeigenda sjálfra vegna vinnu þeirra við gagnasöfnun, rannsóknir, funda- og ferðakostnað, eða samtals 7.986.857 krónur, vegna meðferðar málsins fyrir óbyggðanefnd.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 58, 1998, eins og þeim var breytt með 7. gr. laga nr. 65, 2000, skal greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað vegna gæslu hagsmuna málsaðila fyrir óbyggðanefnd.  Með 2. mgr. fyrrnefnds lagaákvæðis er lagt í hendur nefndarinnar að úrskurða um kröfur aðila um þann kostnað.  Meðal þess, sem nefndin á að líta til við ákvörðun á nauðsynlegum kostnaði aðila, er hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli og hvort aðilar, sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta, hafi sameinast um aðstoð lögmanns.

Óbyggðanefnd hefur sjálfstæðri rannsóknarskyldu að gegna í málum sem þessum og hefur að mati dómsins sinnt þeirri skyldu sinni.  Segir í úrskurði nefndarinnar að í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis frá 13. nóvember 2007 í máli nr. 5073/2007 hafi nefndin fyrir uppkvaðningu úrskurðarins gefið lögmönnum aðila kost á að leggja fram sundurliðaða málskostnaðarreikninga þannig að unnt væri að ákvarða málskostnað til einstakra málsaðila fremur en sameiginlega.  Liggur fyrir að slík sundurliðun lá fyrir í tilviki stefnenda.

Fallast má á með stefnendum að rökstuðningur óbyggðanefndar fyrir ákvörðun málskostnaðar hefði mátt vera ítarlegri, en það breytir ekki mati dómsins á því að ekkert sé nægjanlega fram komið sem styðji þá fullyrðingu að endanleg ákvörðun hennar hafi verið órökstudd og ómálefnaleg eða í andstöðu við 17. gr. þjóðlendulaga í ljósi aðstæðna.  Að þessu gættu eru ekki efni til að hnekkja ákvörðun óbyggðanefndar um þóknun handa lögmanninum og annan kostnað.

 

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns.  Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, þar á meðal vegna vettvangsferða og endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin 1.635.500 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Mál þetta var upphaflega flutt 22. mars sl..  Ekki tókst að leggja dóm á málið á tilhlýðilegum tíma, m.a. vegna anna dómara.  Var málið því endurflutt af lögmönnum aðila 17. október sl., en í framhaldi af því dómtekið að nýju.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar, hæstaréttarlögmanns, 1.635.500 krónur.

 

                                                              Ólafur Ólafsson.