• Lykilorð:
  • Eignarréttur

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 28. júlí 2016 í máli

nr. E-175/2012:

Íslenska ríkið

(Edda Andradóttir hrl.)

gegn

Hörgársveit og

Dalvíkurbyggð

(Friðbjörn Eiríkur Garðarsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 8. júní sl., var höfðað með stefnu íslenska ríkisins, kt. ..., á hendur Hörgársveit, kt. ..., Þelamerkurskóla, Laugalandi, og Dalvíkurbyggð, kt.  ..., Ráðhúsinu, Dalvík, birtri 9. maí 2012.

Dómkröfur stefnanda eru:

Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2009, Eyjafjörður ásamt Lágheiði en án Almennings norðan Hrauna, að því leyti er varðar Þorvaldsdalsafrétt, og að viðurkennt verði, að landsvæði innan eftirgreindra merkja sé þjóðlenda, í samræmi við uppdrátt:

Upphafspunktur er þar sem Þverá rennur í Þorvaldsdalsá sunnan við Kúgil (1). Þaðan er Þverá fylgt til upptaka í Sælufjalli (2).  Þaðan er fyrrum hreppamörkum Skriðuhrepps og Svarfaðardalshrepps fylgt til suðurs í Dyngjuhnjúk (3).  Þaðan er Ytri-Tungudal, og síðar Úlfá, fylgt til austurs þar til Lambá fellur í hana (4).  Þaðan er Ytri-Tunguá fylgt til suðausturs að þeim stað þar sem eyrar byrja (5).  Þaðan er línan dregin um garð sem kemur úr fjallsröðinni sunnan í Fornhagaöxl og eftir fjallsröðinni upp á Fálkahaus (904 m) (6).  Þaðan til norðurs með háfjalli í svonefndri Flá og síðan með fyrrum sveitarfélagamörkum Skriðuhrepps og Arnarneshrepps allt þar til komið er beint austur af þeim stað, þar sem Þverá rennur í Þorvaldsdalsá (7).  Þaðan er haldið beint til vesturs í upphafspunkt.

 

Stefnandi krefst þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

 

Stefndu, Hörgársveit og Dalvíkurbyggð, krefjast sýknu af kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu, eins og málið sé ekki gjafsóknarmál, og þá samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti.

 

 

 

I.

1. Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls.  Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd.  Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri og nyrðri hlutann.  Var síðargreinda svæðið nefnt „vestanvert Norðurland, nyrðri hluti (7B)“.  Því svæði var síðar skipt í tvö mál, þ.e. mál nr. 1/2009, sem var nánar afmarkað þannig:  Tröllaskagi norðan Öxnadalsheiðar, Eyjafjörður ásamt Lágheiði en án Almennings norðan Hrauna og mál nr. 2/2009, Skagafjörður ásamt Almenningi norðan Hrauna en án Lágheiðar.  Er hið fyrrnefnda svæði hér til umfjöllunar.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins á umræddu landsvæði, þ.e. í máli nr. 1/2009, svæði 7B, bárust óbyggðanefnd 11. maí 2009.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum aðila, ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 22. maí sama ár, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis íslenska ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 25. ágúst 2009.  Kom jafnframt fram að yfirlýsingum um kröfugerð og málsmeðferð yrði þinglýst á þær fasteignir á svæðinu sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði.  Samkvæmt gögnum voru kröfur fjármálaráðherra gerðar aðgengilegar almenningi á skrifstofum sýslumanna norðanlands, auk sveitarfélaga á kröfusvæðum og á heimasíðu óbyggðanefndar.  Jafnframt var málið kynnt í fjölmiðlum.

Óbyggðanefnd tilkynnti breytingu á kröfusvæðinu í Lögbirtingablaðinu 5. mars 2010 og var þá á ný skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis íslenska ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 7. júní það ár.

Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt.  Lögboðin kynning fór fram með því að yfirlit og uppdráttur lágu frammi á skrifstofum sýslumanna frá 5. mars til og með 6. apríl 2010, sbr. 12. gr. laga nr. 58, 1998, og var athugasemdafrestur veittur til 13. apríl sama ár.  Vegna áðurnefndra breytinga fór fram sérstök kynning og var frestur veittur vegna þeirra til 7. júní 2010.  Engar athugasemdir bárust fyrir lok athugasemdafrests.

 

Vettvangsferð vegna máls óbyggðanefndar nr. 1/2009 fór fram 31. ágúst 2009.  Málið var fyrst tekið fyrir af nefndinni, sem skipuð var Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Benedikt Bogasyni héraðsdómara, og Sif Guðjónsdóttur héraðsdómslögmanni, og forsvarsmönnum aðila, þann 19. nóvember 2009.  Voru þá gögn lögð fram og línur lagðar um málsmeðferð.  Við aðra fyrirtekt málsins 21. janúar 2010 var m.a. lögð fram greinargerð stefnda, íslenska ríkisins, en við þriðju fyrirtökuna 11. mars sama ár lögðu gagnaðilar, og þar á meðal stefndu, sem eru þinglýstir eigendur Þorvaldsdals, fram greinargerðir sínar og önnur gögn.  Þá var málið tekið fyrir hjá óbyggðanefnd 21. janúar og 11. mars og 9. apríl, en aðalmeðferð hjá nefndinni fór fram 30. apríl 2010 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi, en í framhaldi af því var málið tekið til úrskurðar.  Málsmeðferðin var endurupptekin 12. september 2011 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju.  Hinn 10. október sama ár kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Þorvaldsdalsafréttur, sbr. dómkröfur aðila, sé eignarland í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en án þess þó að tekin hafi verið afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi, sbr. 7. gr. sömu laga.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu 10. nóvember 2011.

 

Stefnandi, íslenska ríkið, undi ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast hann við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefst ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu.

Málið var þingfest 14. júní 2012, og var það höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla.  Stefndu fengu gjafsókn þann 9. október 2012, en þeir höfðu áður lagt fram sameiginlega greinargerð, þann 6. september sama ár.

Vettvangsferð dómsins með lögmönnum málsaðila og staðkunnugum byggðamanni, Sveini Jónssyni, fyrrum hreppsnefndarmanni og bónda í Kálfskinni á Árskógsströnd, var farin haustið 2013.

 

Stefndi Dalvíkurbyggð varð til árið 1998 er þrjú sveitarfélög við utan- og vestanverðan Eyjafjörð sameinuðust, en eitt þeirra var Árskógsstrandarhreppur.

Stefndi Hörgársveit varð til árið 2010 með sameiningu Arnarneshrepps, sem áður hét Hvammshreppur, og Hörgárbyggðar.  Nær sveitarfélagið m.a. yfir Galmaströnd og Hörgárdal.  Hörgárbyggð hafði áður verið stofnuð í árbyrjun 2001 með sameiningu þriggja sveitarfélaga, en eitt þeirra var hinn forni Skriðuhreppur í Hörgárdal.

 

2.            Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum í úrskurði óbyggðanefndar að því er varðar Þorvaldsdalsafrétt, en einnig verður vikið að öðrum gögnum sem málsaðilar lögðu fram eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurður óbyggðanefndar skiptist í sjö kafla og er 175 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun svo og þeim sjónarmiðum sem aðilar byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er m.a. lýst landnámi og afmörkun í vestanverðum Eyjafirði og í nágrenni Þorvaldsdals og þ. á m. í hinum fornu Skriðu-, Arnarnes- og Árskógshreppum.  Einnig er að nokkru vikið að afnotum og sögu landsvæðisins, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004.  Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum aðila.

 

3. Í úrskurði óbyggðanefndar segir m.a. að heimildir um landnám og landnámsmörk Helga magra og Þórunnar hyrnu í Eyjafirði sé helst að finna í Landnámu.  Að því er varðar vestanverðan fjörðinn og þá Þorvaldsdal og næsta nágrenni hans millum Svarfaðardals og Hörgárdals og við ströndina, þ.e. á Árskógs- og Galmaströndum, er í úrskurðinum vísað til hinnar fornu heimildar, þar sem segir:

Hámundur heljarskinn eignaðist Galmansströnd alla og á milli Svarfaðardals og Hörgárdals og bjó þar sem Helgi [magri] hafði fyrst búið og nú heitir síðan á Hámundarstöðum. Hámundur gaf Erni, frænda sínum, er numið hafði Arnarfjörð fyrr, (lönd) þau, er voru fyrir utan Reistará. Örn bjó í Arnarnesi, en Hámundur seldi Þorvaldi þær jarðir allar, er liggja millum Reistarár og Hörgárdalsár. Við hann [Þorvald] er Þorvaldsdalur kenndur; þar bjó hann.

Og Landnáma heldur áfram um sömu slóðir:

Galmur hét maður, er nam Galmansströnd á milli Þorvaldsdalsár og Reistarár. Hans son var Þorvaldur, faðir Orms, föður Barna-Þórodds, föður Þórunnar, móður Dýrfinnu, móður Þorsteins smiðs Skeggjasonar. Þorvaldi gaf Hámundur land milli Reistarár og Hörgár, en hann hafði áður búið í Þorvaldsdal.

Þá segir Landnáma um Hörgárdalinn vestan Hörgár:

Geirleifur hét maður; hann nam Hörgárdal upp til Myrkár; hann var Hrappsson og bjó í Haganum forna. Hans son var Björn hinn auðgi, er Auðbrekkumenn eru frá komnir.

 

4. Í úrskurði óbyggðanefndar er einkum vísað til gagna og samantektar sem Þjóðskjalasafn Íslands aflaði um nýtingu, réttindi og afmörkun Þorvaldsdals og þverdala hans.  Um byggð í mið- og syðrihluta Þorvaldsdals er í úrskurðinum vikið að hinu forna eyðibýli Lambárkoti, en einnig að jörðum og býlum í Hörgárdal, sem næst standa og þá helst að fyrrnefndum jörðum, Fornhaga og Auðbrekku.  Að því er varðar norðurhluta Þorvaldsdals er í úrskurðinum m.a. fjallað um eyðibýlin Hrafnagil, Hávarðsstaði og Þórhallskot, austan Þorvaldsdalsár og um Kúgil, sem er vestan ár.  Þá er vikið að býlum sem eru norðan afréttarins, á Áskógsströndinni, og um tengsl hins umþrætta landsvæðis, Þorvaldsdalsafréttar, við kirkjujörðina Stærri-Árskóg, en einnig kemur jörðin Kálfskinn þar lítillega við sögu.  Loks er í úrskurðinum vikið að tengslum afréttarins við býli á Galmaströndinni, sem liggja m.a. austan Möðruvallafjalls og Flár í Arnarneshreppi, sem áður tilheyrðu hinum forna Hvammshreppi.

Í úrskurðinum er afmörkun, staðháttum og legu hins umþrætta afréttar í Þorvaldsdal lýst nánar þannig:

Þorvaldsdalur liggur á austanverðum Tröllaskaga og teygir sig norðan frá Árskógsströnd suður til Hörgárdals. Í máli þessu er einungis deilt um syðri hluta dalsins, á milli Þverárdals í norðri og Ytri-Tungudals í suðri. Frá ármótum Þverár og Þorvaldsdalsár í norðurmörkum að ármótum Úlfár og Lambár í suðurmörkum eru um 12 km, mælt í beinni loftlínu. Frá Árskógsströnd, þar sem er óumdeilt eignarland, og inn að áðurnefndri Þverá í Þverárdal eru um 11 km, mælt í beinni loftlínu að Helluhöfða á Árskógsströnd.

Austast á Þorvaldsdalsafrétt eru svokallaðar Flár (993 m), brattur og reglulegur fjallbálkur með leguna norður-suður. Austur af Flám og allt til sjávar er fjöldi jarða í fyrrum Arnarneshreppi, nú innan Hörgársveitar, og utan við ágreiningssvæði í máli þessu. Vestur af Flám taka við dalir og fjöll. Á nyrðri hluta Þorvaldsdalsafréttar, vestur undir Flám, rennur Kytruá í Þorvaldsdal og í hana fellur Nautá suðvestan úr Nautárdal. Eftir það heitir hún Þorvaldsdalsá og rennur norður til sjávar. Vestur upp af Þorvaldsdalsá liggur grösug fjallshlíð er kallast Fagrahlíð og nær hún út að Þverárdal.

Vestur undir Flám að sunnanverðu fellur Úlfá til austurs í Ytri-Tungudal, í hana rennur Illagilslækur suðaustur úr Illagili og loks sameinast Úlfá og Lambá úr Lambárdal. Eftir það nefnist hún Ytri-Tunguá og rennur til suðurs í Hörgá. Frá Ytri-Tunguá við Fornhaga norðaustur að ósum Hörgár eru tæpir 11 km, mælt í beinni loftlínu.

Fjalllendið upp af dölunum er bratt og rís í 1000-1300 m hæð, skorið giljum, skálum og vatnsföllum. Fjöll eru víðast með hvassar brúnir, hyrnur og hamrabelti. Á fjallahnjúkum vestan til liggja víða jökulfannir og smájöklar. Frá Hesti (1335 m) upp af Nautárdal austur að 993 m hæðarpunkti í Flám eru tæpir 9 km, mælt í beinni loftlínu. Undirlendi Þorvaldsdals, meðfram Þorvaldsdalsá, er gróið og liggur í um 200 m hæð yfir sjávarmáli. Þegar sunnar dregur, og yfir vatnaskil á dalnum, verður landið hrjóstugra, enda þá komið í um 500 m hæð. Undirlendi Þverárdals er í yfir 300 m hæð og er skörp hækkun til vesturs. Í Nautárdal er undirlendið í yfir 400 m hæð og hækkar að vestanverðu. Ármót Úlfár og Lambár, sem áður var getið um, liggja í um 300 m hæð og þaðan hækkar land upp í Illagilsdal.

Í úrskurðinum er vitnað í Lýsingu Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson, náttúrufræðing og fræðimann frá Hlöðum í Hörgárdal, frá árinu 1949, en hann hefur í riti sínu að því er varðar Þorvaldsdalinn m.a. vísað til rita Jóhannesar Óla Sæmundssonar námsstjóra.  Þar segir m.a.:

Þorvaldsdalur er nú að mestu afréttardalur. En áður var hann byggður 8-10 km inn eftir frá dalsmynninu. Sá hluti hans heyrði ætíð til Árskógsstrandar. Fremra hluta dalsins hallar til suðurs, og hefir hann aldrei byggður verið, enda er hann mun þrengri og gróðurminni en norðurhlutinn. [...] Stóð bærinn Kúgil þar vestan árinnar [Hrafnagilsár]. Hann lagðist í eyði fyrir 20 árum. [...]  Nokkru framar er enn eitt hraunið; heitir það Hestahraun. Um það eru nokkur munnmæli, að Sigríður stórráða, sem bjó í Auðbrekku í Hörgárdal, hafi átt þar land. En stóðhross nágranna hennar gengu á dalnum og spilltu þar beit.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er eins og fyrr sagði greint frá heimildum um hið umþrætta landsvæði, sem nefnt er Þorvaldsdalsafréttur og er þeim er að mestu fylgt í tímaröð.  Heimildir þessar varða einkum nýtingu bænda og ábúenda í dalnum og þ. á m. þeirra sem búsettir voru á jörðum í hinum fornu Skriðu-, Arnarnes- og Árskógshreppum.  Staðhæft er að þar komi helst við sögu sex jarðir í vesturhluta Hörgárdals, þ.e. Dagverðartunga, Fornhagi, Bláteigur, Auðbrekka, Brakandi og Hólkot, en einnig tvær jarðir í hinum forna Hvamms-/Arnarneshreppi, þ.e. Hof og Stóra-Brekka og loks tvær jarðir í fyrrum Árskógsstrandarhreppi, þ.e. kirkjujörðin Stærri-Árskógur og býlið Hrafnagil.  Á það er bent að samkvæmt heimildum, þ. á m. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1713, hafi fleiri jarðir í hinum forna Hvamms/Arnarneshreppi, en áður voru nefndar, haft heimild til upprekstrar á Þorvaldsdal, en þá gegn greiðslu, þ.e. Stóri-Dunhagi, Litli-Dunhagi, Björg (Bjargir), Hallgilsstaðir, Þrastarhóll, Hof, Minni-Brekka (Litla-Brekka), Hvammur, Syðri-Reistará, Ytri-Reistará, Baldursheimur, Skriðuland og Kjarni.

 

Í úrskurðinum er nánar vikið að tengslum jarða í vesturhluta mið Hörgárdals við afréttinn í Þorvaldsdal.  Nefnt er að syðsta jörðin sem þar kemur við sögu sé Skriða, sem er við rætur Lönguhlíðarfjalls, en landareign hennar nær norður að árfarvegi Syðri-Tunguár, sem fellur í Hörgá.  Tekið er fram að Skriða tengist dölunum vestan Lönguhlíðarfjalls, þ. á m. Skriðudal, en svo eigi einnig við um jörðina Dagverðartungu, sem liggur á milli Syðri- og Ytri-Tunguáa.  Bent er á að Dagverðartunga tengist auk þess Syðri-Tungudal, Mjóadal og syðri hluta Illagilsdals.  Heimildir eru um að áður fyrr hafi nefndar ár verið óþægilegir farartálmar, m.a. vegna flóða eða uppbólgu vegna frosta og hríða.

Í úrskurðinum segir að jörðin Fornhagi liggi norðan við Ytri-Tunguá, en að þar næst fyrir norðan séu m.a. jarðirnar Brakandi, Bláteigur, Hólakot og Auðbrekka.  Verður síðar greint frá merkjum þessara jarða, eins og þörf er á, en allar þessar jarðir voru nefndar einu nafni Auðbrekkutorfan.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er áréttað að í Landnámu sé sérstaklega getið um jarðirnar Auðbrekku og Fornhaga í Hörgárdal.  Um jarðir þessar er m.a. fjallað í ritinu Byggðir Eyjafjarðar, sem gefið var út árið 1993, en þar segir m.a. um Auðbrekku og eina hjáleigu hennar:

Í Auðbrekku var kirkja til forna og þar bjuggu löngum höfðingjar og prestar. [...] Hólkot, sem fór í eyði 1965, er nytjað frá Auðbrekku [...]. Auðbrekka átti forðum Þorvaldsdal sunnanverðan beggja vegna, allt að löndum bæja á Árskógsströnd, en þetta land var selt og er nú í eigu Arnarneshrepps. [...]

Í úrskurðinum segir að í elstu heimildum sé getið um eignarhald Möðruvellinga í Eyjafjarðardal á nefndum jörðum, Auðbrekku og Fornhaga í Hörgárdal, og að álitið sé að þau tengsl hafi verið samfelld allt fram um siðaskipti.  Er sú ályktun dregin af þessu og þá m.a. með vísan til Jarðabókarinnar frá 1713, að hugsanlega hafi beitarréttur Fornhagajarðarinnar á Þorvaldsdal verið til kominn vegna þessara fornu tengsla.  Í því viðfangi er bent á tvö jarða- og makaskiptabréf um jörðina Auðbrekku.  Hið fyrra er sölubréf frá árinu 1375, en með því seldi Gunnar Pétursson, af ætt Möðruvellinga, Jóni Ólafssyni jörðina Hóla í Eyjafjarðardal í skiptum fyrir Auðbrekku.  Í bréfi þessu er merkjum, en einnig réttindum Auðbrekkujarðarinnar, þannig lýst:

... ut a midian markgard oc ofan a siki vid brakadargerdi allt fyrir sunnan. en j midlum grundar og audbrecku oc fornhaga og audbrekku villdi hann eigi abyrgiaz rettsynis mork þadan or upp oc ofan. en hann selldi honum at þeim mórkum sem jord hefir att at fornu. þar med griotar land allt oc fógruhlid. þriggia tolf fedminga skurd i tregrefstadaskog oc skogarstodu j skogajordu sva vida sem audbrekka hefir att at fornu. aa skoga jórd aarliga laups hógg j sógdu takmarki. Laugaland a halfsmanadar beit j audbrekku jord. her til gaf adrnefndr jon jordina halfa a brattavóllum j þorvalldsdal. med þeim gognum oc gædum sem hann vard eigandi at. oc jórdunni fylgir.

Síðara sölubréfið varðar kaup Ólafs Vigfússonar á Auðbrekku af Eiríki Ísleifssyni.  Þar segir að kaupverðið hafi verið goldið með jörðinni Öngulsstöðum á Staðarbyggð í Eyjafirði, en einnig með lausafé.  Í úrskurðinum segir að gerningur þessi sé talinn frá því um 1430-1440, en þekktar eru heimildir sem greina frá því að hann geti verið nokkuð eldri.  Í bréfi þessu segir m.a.:

[...] keypte olafur optnefnda audbrecku at eireke medr fornu ok nyiu ok aullu þui sem eirekur vard eigande ath. griottar lande fram j haurgardal ok faugruhlid. þriggia xij fedminga torfskurd j tregrefstada land. skogahris j skogaland. samþyckte halldora gudmundardotter husfru eireks nefnt kaup medr handlage. sagde eirekur jtaulu j brecku jaurd halfs manadar teigur af laugalande.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að í máldagabók Péturs biskups Nikulássonar frá árinu 1394 og síðar megi finna máldaga Auðbrekkukirkju, en að þar sé hvorki getið um landsvæði né ítök í eigu kirkjunnar. Tekið er fram að nokkur breyting hafi orðið þar á, þar sem í máldagabók Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá 1461 segir að 15 hundruð í Auðbrekku sé svonefnt kristfé, og er þá átt við dánargjafir, jarðir, jarðaparta eða aðrar arðberandi eignir, sem gefnar höfðu verið til framfærslu fátækra, oftast sálugjafir.

 

Í úrskurðinum segir að í máldagabókum biskupa sé getið um tengsl jarða á Árskógsströndinni við Þorvaldsdalinn, en þó einkum við kirkjujörðina Stærri-Árskóg.  Bent er á að í áðurnefndri máldagabók Péturs biskups frá 1394 og síðar segir um tengslin: Tuttugu kugillda gelldfiar rekstur j faugru hlijd og ad auk svijnum og stodhrossum. grasalestur. huannskurdur. fuglveydur og fiska.  Fram kemur að þetta hafi verið breyting frá fyrri tíð þar sem í máldagabók Auðunar biskups rauða Þorbergssonar frá árinu 1318 hafi ekki verið getið um þessi réttindi kirkjunnar í Árskógi.  Þá er bent  á að í vísitasíugerð Jóns biskups Vilhjálmssonar frá árinu 1429 sé  heldur ekki getið um réttindi kirkjunnar á Þorvaldsdal, en að þeirra sé aftur á móti getið í fyrrnefndri máldagabók Ólafs biskups og þá með sama hætti og í máldagabók Pétur biskups frá 1394.

Í úrskurðinum segir að heimildir greini frá ágreiningi Sigurðar príors og séra Jóns Halldórssonar um réttindi Möðruvallaklausturs í Hörgárdal og kirkjunnar í Árskógi, um selför Hrafnagilssels á Þorvaldsdal og að Ólafur biskup hafi af þeim sökum útnefnt tólf presta dóm, þann 5. júlí 1462, á prestastefnu á Eyrarlandi, til að úrskurða um ágreininginn. Sagt er frá því að í málarekstri þessum hafi verið leidd vitni, en að lokum hafi dómsmenn úrskurðað Árskógskirkju í vil.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að í eignaskrá Sólveigar Þorleifsdóttur frá árinu 1479 hafi helmingur Auðbrekkujarðarinnar í Hörgárdal, með (Brakanda) Gerði, verið á meðal jarðeigna hennar og að saman hafi þær verið metnar 60 hundruð að dýrleika.  Sólveig þessi var ekkja Eiríks slógnefs Loftssonar hirðstjóra Guttormssonar ríka á Möðruvöllum í Eyjafjarðardal.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1713 segir að Auðbrekka hafi verið skráð 80 hundraða jörð og að henni hafi tilheyrt fimm hjáleigur, þ.e.: Þríhyrningur, Svíri, Hátún, Hólkot og Brakandi.  Í bókinni segir að allar hjáleigurnar hafi haft sömu kosti og lesti og heimajörðin, þar á meðal varðandi afréttinn, en um það segir nánar:

Afrjettur er hjer, sem nefnist Thorvalds eður Thórhallsdalur. Allir ábúendur sem búa á þessari jörðu, so vel heima sem í kotunum, njóta nú  uppreksturs frí fyrir utan toll. En hvað allir þeir tollar til verðaura hlaupa kunna, sem á jörðunum í Hvammshrepp landsdrotni tilheyra, og meðmeintri jörðinni Fornhaga í Skriðuþíngsókn, kveðst sýslumaðurinn seigr. Skevíng ei framar kunna til að svara en so, að þegar afrjettartollurinn gengur sem hæðst til tí(u)tíu álna, það ringasta sextíu álnir. Orðsök til þessa er sú, að afrjett þessi liggur undir stórum snjóum, harðviðrum, og verður ei fært margoft um venjulegar fráfærur þángað fje að reka.

Grasatekja hefur hjer áður fín verið, ánægjanleg jarðarinnar ábúendum, en nú láta allir ábúendur lítið yfir þessu.

Mjög so gengur jörðin af sjer, það landinu viðvíkur, fyrir utan töður og engjar, sem merkilega á fjallinu sjást kann.

 

Í Jarðabókinni segir að Fornhagi hafi verið metin 30 hundraða jörð, en um upprekstrarrétt hennar segir:

Heyrst hefur að þessi jörð hafi brúkað selstöðu í Auðbrekkujörðu, og líkindi eru tóttarleifar nokkrar, sem nefndar eru Fornhagasel. Ekki vita menn sannleika nokkurn fyrir, hvört heldur að selstaðan hefur verið fyrir skyldu eður kaup. Ei hefur hún frá þessari jörðu í mana minni brúkuð verið.

 

Í Jarðabókinni segir frá því að kirkjustaðurinn Stærri-Árskógur hafi verið metinn 40 hundraða jörð, en um réttindi jarðarinnar í norðurhluta Þorvaldsdals segir:

Gelfjárupprekstur xviii kúgilda í Fögruhlíð (það er í afrjettinn á Þorvaldsdal) vestan framm, að auk svínum og stóðhrossum. Grasalestur og hvannskurð, fuglveiðar og fiska, er þar og eignuð kirkjunni eftir máldögum, en það er nú ekkert og hefur ei verið í manna minni, nema grasatekjan. Ekki vita menn að nein þessi ítök sjeu undan staðnum gengin, en brúkast stundum en stundum ei.

 

Í úrskurðinum er vísað til þess að í Jarðabókinni segir frá býlum norðan Þorvaldsdalsafréttar og þar hafi fremsta býlið, Kúgil, legið vestan Þorvaldsdalsár og norðan afdalsins Þverárdals, að hún hafi verið metin á 10 hundruð, en hafi áður verið sel frá Stóru-Brekku á Galmaströnd.

Um afréttinn og þ. á m. tengsl hans við býlin í nágrenninu, en einnig við eyðibýli segir í Jarðabókinni:

         Afrjettur er fyrir framan bygðina beggja megin í þessum dal, sem liggur undir Auðbrekku í Hörgárdal, og brúka þeir á Galmanströnd þar venjulega upprekstur fyrir lömb og geldfje, og Árskógsströnd öðru hvörju. Afrejettartollur er ve(n)julegur lamb eður aðrar fimm álnir af hvörjum manni, sem rekur 10 lömb eður fleiri.

Lambárkot kallast fornt eyðiból í þessum afrjett fyrir vestan Þorvaldsdalsá, og eru þar þó litlar byggíngaleifar. Ekki má hjer aftur byggja fyrir heyskaparleysi.

Hrafnagil, eyðihjáleiga og heimaland Stærra Árskógs, byggð framm á Þorvaldsdal fyrir manna minni. Varaði bygðin inn til næstu 4 ára, síðan í auðn. [...] Ekki halda menn að hjer verði aftur bygt fyrir heyskaparleysi.

Hávardsstader, fornt eyðiból í staðarins landi á sama dag fyrir heiman áðurskrifaða hjáleigu, og er það nú alt lýngi vaxið, og sjást þar því litlar byggíngaleifar. Ekki má hjer aftur byggja fyrir heyskapar og túnstæðisleysi.

Þorhallakot, fornt eyðiból þar fyrir heiman á Þorvaldsdal, og var síðan bygð upp hjáleigunefna á þessu eyðibóli, sem lá oftlega í eyði þess í milli, og var bygð seinast fyrir 14 árum. [...] Ekki má hjer aftur byggja fyrir heyskaparleysi.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að jarðir á Galmaströndinni, í hinum forna Hvammshreppi, hafi átt upprekstur á Þorvaldsdal fyrir toll.  Hafi þar verið um að ræða eftirtaldar jarðir: Hagi, Hillur, Kamphóll (Kambhóll), Bragholt, Pálmholt, Syðri-Bakki, Ytri-Bakki, Arnarnes, Ós og Ásláksstaðir.  Þá hafi sambærilegur upprekstrarréttur fylgt jörðinnni Stóru-Brekku (Arnbjargarbrekka), en um þann rétt segir:

Upprekstur framm kemur að þessi jörð eigi á Þorvaldsdal, lamba einúngis, í Vatnshlíð á millum hraunanna, fyrir utan toll. [...] Þetta ítak á jörðin, skógarpart nokkurn fyrir utan það pláss í sveitinni í Yxnadalnum, sem nefnist Misjálfsstaðir, en hvað lángt, kemur hjer ei skýrlega framm.

 

Í úrskurðinum segir frá því að á manntalsþingi að Skriðu í Hörgárdal, þann 29. apríl 1723, hafi verið upplesin lögfesta klausturhaldarans á Möðruvöllum, Hans Scheving, fyrir eignarjörð hans Auðbrekku ásamt Þorvaldsdal.  Í máldaganum er m.a. getið um mörk jarðarinnar á dalnum þannig:

Fyrst allur Þorvaldsdalur frá Þverá fyrir framan Kúgil með Lambárdal, Nautárdal og Illagilsdal allt í miðjar Trölladyngjur en að austanverðu frá Hestahrauni og allan dalinn þeim meginn í garð þann sem liggur úr Axlarbotni fyrir ofan Fornhaga suður í Tunguá.

Fram kemur að nefndur klausturhaldari hafi á manntalsþingum umrætt ár lögfest, án mótmæla, merki Auðbrekku þannig að norðurmerki jarðarinnar í Hörgárdal lægju úr Húsárskarði í garð þann sem liggur úr gilinu í Hörgá niður, en að suðurmerki lægju úr Syðra-Kálfahjallagili og þaðan í miðjan Bláhól og þaðan réttsinnis í Hörgá. Þá segir í lögfestunni að klausturhaldarinn hafi áminnt Auðbrekkujarðarábúendur um að þeir gæfu honum til vitundar ef nokkrir myndu yrkja eða brúka land jarðarinnar.

Í úrskurðinum segir að heimildir greini frá ágreiningi nefnds jarðeiganda Auðbrekku og Sigfúsar Þorlákssonar, eiganda Fornhaga, árið 1728 um Illagilsdal, sem í sumum heimildum er nefndur afdalur Þorvaldsdals.  Greint er frá því að þessi deila hafi leitt til þess að Jón Jónsson sýslumaður hafi farið á vettvang og skoðað garð millum Auðbrekkuafréttar og Fornhaga.  Hafi sýslumaður í kjölfarið komist að þeirri niðurstöðu að garðurinn væri landamerkjagarður og enn fremur að Illagilsdalurinn tilheyrði Auðbrekkulandi. Í dómi sýslumanns segir nánar um ágreiningsefnið:

Hvad ahrærer Illagilsdal sem sama er og Trolladalur efter frammkomnum vitnisburdum þa er ecke a nægiannlega bevisad fyrer vorumm dome, ad hann nockurn tima hafe tilheirt jordunne Fornhaga, enn helt er hier bevisad med logfestumm og svornum vitnisburdumm, ad hann hefur atolulaust under jordina Audbrecku leiged og af Audbrecku monnum brukadur og tolladur vered til Fornhaga manna og anara yfer 30 ár, þvi skal nefndur Illagilsdalur tilheira jordinne Audbrecku [síðuskipti] hiedann i fra og vera hennar Eign.

[...] Þetta er sa proces sem framm for og giordest a Skriduþinge i Hörgardal þann 1. Juny a þridiudag, og a areidarplatzenu Audbrecku fostudagenn og laugardagenn þann 9. october 1728 Testerar umderskrifadur med eigen hende og hia þricktum signete. Jon Jonsson (L.S.)

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að dómabækur Eyjafjarðarsýslu greini frá mörgum lögfestum, sem ritaðar hafi verið á 18. og 19. öldinni, sem lýsi m.a. eignum og ítökum Auðbrekkujarðarinnar, en á meðal þeirra réttinda hafi verið afrétturinn á Þorvaldsdal.  Í þessum lögfestum hafi eigendur jarðarinnar m.a. fyrirboðið allar nytjar dalsins og jarðarinnar án leyfis sýslumanns eða djáknans á Auðbrekku, en í því sambandi hafi sérstaklega verið nefnt hrossa- og fjárbeit, en einnig grasataka.  Greint er frá því að sumarið 1808 hafi t.d. verið lesin upp eldri lögfesta fyrir Auðbrekku á manntalsþingum, sem hafi verið frá árinu 1706, er hafi varðað kvartanir: ábúandans í Auðbrekku undan því að Árskógsstrendingar rækju lömb og tækju grös á Þorvaldsdal, velflestir leyfislaust og án endurgjalds, og að rétturinn hefði áminnt á móti slíkri gripdeild og lagayfirtroðslu.  Þá segir að árið 1835 hafi verið lesin upp lögfesta, dagsett 7. maí 1760, fyrir Auðbrekku með túni, engjum, úthaga, sem og fyrir afréttinn á Þorvaldsdal, sem sagður er tilheyra jörðinni.

Samkvæmt uppskrift úr dómabók spurðist sýslumaður Eyfirðinga fyrir um það á manntalsþingi að Völlum árið 1794 hvaða afréttir í sýslunni skyldu útnefnast ... so gjeldfie og otemiur gagne ei mot Logumm í bufiarhogum, og er fyrir Arskogsstrond tilnefnd Fagrahlyd á Þorvaldsdal, ur Wallnasokn Skydadals afrett, ur UppsaSokn, a svokallda Hniota, ur Tjarna sokn er rekid til adurnefndra afretti ur UppsaSokn, svokalladan Muula og skildast þingsoknarMenn, ad halda Geldfie sinu Lombum og otemium til adurnefndra afretta.

 

Í úrskurðinum greinir frá því að í jarðamati frá árinu 1804 hafi afrétti Auðbrekku á Þorvaldsdal verið lýst þannig:

Til denne Jord grændser en Afret og regnes at være den tilhörende (kaldet Thorvaldsdals Afret) hvorved den bag Fiældene ligger Svarvederdalen eller Vallne-Hrep, og især denne No. 77 [Kúgil] endnu nærmere. Heri ligger en öde Jord Lambaaekot, som ikke kan beboes formedelst Fieldskreed. Fiældgræs kunde her faaes 6 tdr. aarlig. Lam til Græsning om Sommeren kan indtages fra 16 jorder.

Og um eyðijörðina Lambárkot í Þorvaldsdal segir nánar í  matinu:                     

Den öde Jord Lambaaekot som her findes benævnt i den gl. Jordebog hörer til Audbrecke i Skreede-Hrep.

 

Í úrskurðinum segir að á 19. öldinni hafi enn verið lögfest hin sömu réttindi Auðbrekku og áður hafði verið tíðkað og þ. á m. á Þorvaldsdal.  Greint er frá því að í eitt skiptið, á manntalsþingi að Arnarnesi í Hvammshreppi þann 23. maí 1877, hafi margir bændur brugðist við með andmælum.  Tekið er fram að slík mótmæli hafi ekki verið endurtekin á sama þingi árið eftir og heldur ekki eftir það.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er bent á að áðurgreind réttindi kirkjunnar í Stærri-Árskógi til geldfjárreksturs á afréttinum í Þorvaldsdal hafi verið áréttuð í máldögum og vísitasíum í lok 16. aldar, en einnig á 17. og 18. öldinni.  Hins vegar hafi í jarðamatinu árið 1804 réttindanna ekki verið getið, en í þess stað hafi verið tiltekið að tvær eyðihjáleigur tilheyrðu jörðinni, þ.e. Þórhallskot og Hafursstaðir.

Í úrskurðinum segir frá því að í júní 1823 hafi Jón Jónsson, prestur í Stærri-Árskógi, útbúið lögfestu fyrir jörðina og hafi þá m.a. vikið að hjáleigunum Hávarðsstöðum, Hrafnagili og Þórhallsstöðum.  Að auki hafi hann greint frá merkjum Stærri-Árskógs og þar um vísað til fyrrnefndra máldaga biskupa frá árunum 1394 og 1461. Um vesturmerki jarðarinnar segir í þessari lögfestu Jóns prests:

„... vestan til Fialla upp, allt framad svonefndum Refslæk sunnan til vid Kúgils Hraun, til móts vid audbrecku land i Hörgárdal; gegnum tédann Læk réttsýnis til austurs yfir Vatnshlydar Höfud og Mióadal til hædstu Brúnar á Kötlu Fjalli, soleingi sem Vatni veitir vestur af ... Tekið er fram að Árni Halldórsson, Vallaprestur í Svarfaðardal, hafi andmælt lögfestu Jóns að því er varðaði fjallskil bænda í Þorvaldsdal og enn fremur áskilnaði Jóns um að Stærri-Árskógur áskildi sér fulla ítölu 20 kúgilda þar í afréttinum.  Loks var ágreiningur með prestunum um réttindi kotsins Kúgils austan Þorvaldsdalsár og þá gagnvart Stærra-Árskógi, en enginn ágreiningur virðist hafa verið um að þau næðu suður að fyrrnefndum Refslæk sunnan Hrafnagilshrauns.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar greinir frá því að í sýslu- og sóknarlýsingum Eyjafjarðarsýslu, sem teknar voru saman á árabilinu 1839-1854, hafi m.a. verið vikið að afréttarlandi Árskógs- og Möðruvallaklausturssókna.  Greint er frá því að séra Hákon Espólín hafi í bréfi, dagsettu 28. september 1839, sagt eftirfarandi um afréttarland sóknanna:

Afréttarland Árskógssóknar er ... Þorvaldsdalsafrétt, og telst hún nú eign Auðbrekku í Hörgárdal; hefir og Möðruvallas[ókn] þangað upprekstur. Í Þorvaldsdal er fjárrétt hjá nefndu Kúgili, en önnur við Fornhaga í Hörgárdal.

Í sóknarlýsingu séra Jóns Jónssonar í Dunhaga, sem dagsett er 4. febrúar 1841, segir um réttindi Möðruvallaklausturskirkjusóknar á Þorvaldsdal og í Þorvaldsdalsafrétti, vestan Möðruvallafjalls:

Á bak eður vestan til við allt þetta langa fjall liggur út og suður dalur sá, er Þorvaldsdalur kallast, upp í hvern til vesturs að gengur stórt skarð eður dalsmynni til vesturs frá Fornhaga sunnan til, hver dalur að teygist á bak við sagt fjall frá suðri til norðurs allt út fyrir Stærraskóg. Dalur þessi er að framanverðu, eður hans syðri partur, allur brúkaður fyrir afrétt, en í nyðra enda hans eru nokkrir bæir, sem tilheyra Stærriskógssókn, [...]. Á þann eina afdal, sem þessari sókn [Möðruvallasókn] tilheyrir, nefnilega Þorvaldsdal, er áður minnzt. Á honum eru allgóðir hagar fyrir hesta og sauðfé á sumrum, fram úr honum til suðurs og vesturs liggja afdalir, sem kallast Illagilsdalur, Lambárdalur, Nautadalur. [...] Afréttarland Möðruvallaklaustri tilheyrandi er fram á Hörgárdal fyrir framan Flögusel í Myrkársókn og líka í Barkárdal. Sumir fá hér afrétt á Þorvaldsdal, en almenningar eru hér engvir, og flestir mega afréttartolla gjalda, eins klausturjarðalandsetar sem aðrir.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að í jarðamati frá árinu 1849 hafi verið vikið að Auðbrekku og Auðbrekkutorfunni að því er varðaði réttindi þeirra á Þorvaldsdal.  Að auki hafi í matinu stuttlega verið fjallað um fyrrnefndan „þrætupart“ í norðurhluta afréttarins, nærri kotinu Kúgili.  Segir um þetta nánar í matinu:

Auðbrekka, bóndaeign, lögbýli, nú talid 20 hndr. Þessari jördu fylgja 5 bygdar hjáleigur, allar líka bóndaeignir, er hvör fyrir sig hefir tún og engi sér, en óskipta búfjárhaga med heimajördunni; heita þær: Brakandi 6 ½ hndr. nú á tíd, Hólkot 6 hndr., Hátún 6 hndr., Svíri 6 hndr. og Þríhyrningur 6 hndr. nú á tíd.[...] En torfan hefir sameiginlega beit á afréttinum Þorvaldsdal, hjáleigurnar eiga frían upprekstur þar, en heimajördin ein þau upprekstrarnot, sem yfir hefir þann fénad, er úr torfunni er þángad rekinn. Afréttur þessi er ad blása upp og skémmast sumstadar af skridum, og opt eru þar illvidri, þó bærilegt vedur sé í bygd; en hann er kjarngódur. – Á honum er þrætupartur, er sumir eigna Auðbrekku, adrir jördunni Kúgili í Þorvaldsdal innan Arnarness hrepps, og hefir prestur Séra Jón Thorlacius á Þrastarhóli sem fjárhaldsmadur hinnar ómyndugu Sigríðar Sigurðardóttur, sem á jördina Kúgil, med bréfi til sýslumannsins af 5ta þ.m. er framlagdist x óskad, ad sá þrætupartur yrdi verdi virdtur sérílagi. – En þar partur þessi liggur innan Arnarness hrepps, og flestir af jardamatsmönnum Skridu hrepps eru honum þarhjá ókunnugir; var gengid framhjá, ad virda hann hér. – En Auðbrekku torfan á nú ad virdast, einsog hana vanti þennan afréttarpart, - þó med öllu tilliti til ítölu, er prestssetrid Stærriárskógur á þar í.

Í nefndu mati er greint frá fornum beitarrétti Fornhaga í Þorvaldsdalsafrétti með svofelldum hætti:

Fornhagi, bóndaeign, nú talin 20 hndr. [...] Búfjárhagar mjög litlir heima, en jördin á frían upprekstur og beit á Þorvaldsdal-afrétt.- Grasatekja næg fyrir heimilid. Vetrarbeit á greindum dal gód, þegar til hennar næst.

Í vísitasíu Péturs Péturssonar biskups frá 26. júlí 1868 er áréttað að Stærri-Árskógur eigi geldfjár-, svína- og stóðhrossarekstur í Fögruhlíð.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er ítarlega fjallað um málarekstur Jóns bónda Snorrasonar, þáverandi eiganda Auðbrekku, í lok 19. aldar, sem varðaði réttindi jarðarinnar á nyrðri hluta Þorvaldsdalsafréttar.  Greint er frá því að upphafið hafi verið það að á manntalsþingum að Arnarnesi í Hvammshreppi, í júlí og október 1878, hafi Jón höfðað mál gegn ábúendum í Kálfskinni og í Syðri-Haga á Árskógsströndinni, en að tilefnið var, að þeir höfðu rekið geldfé og trippi á afréttinn án leyfis Jóns og án þess að greiða fyrir það tíðkanlegan upprekstrartoll.  Fram kemur í gögnum að ábúandi Syðri-Haga hafi tekið til varna og borið því við að hann hefði rekið búfénað sinn á afréttinn með leyfi eiganda Stærri-Árskógar.  Þar um hafi hann vísað til þess að Stærri-Árskógur hafi átt fornan rétt á fríum upprekstri á dalnum fyrir 18 geldfjárkúgildi, og að til samans hefðu jarðirnar ekki farið fram úr þeim fjölda gripa. Segir í úrskurðinum að heimildir greini frá því að deiluaðilar hafi eftir gagnaöflun og sáttaumleitanir lagt ágreininginn í dóm, en að þrátt fyrir ítarlega leit hafi dómur í málinu ekki fundist í gögnum Þjóðskjalasafns Íslands og þá ekki heldur í öðrum heimildum, prentuðum eða óprentuðum og þá um að dómur hefði yfirleitt gengið um ágreiningsefnið.  Aftur á móti er á það bent að heimildir greini frá því að Jón bóndi í Auðbrekku hafi í júlímánuði 1879 greint dómsyfirvöldum í héraði frá því að hann hefði í hyggju að ná fram rétti sínum gagnvart leyfislausri beit búfénaðar bænda í Möðruvallaumdæmi á Þorvaldsdal og þá með fulltingi bóndans í Syðri-Haga.  Í úrskurðinum segir að lyktir hafi á endanum orðið með þeim hætti að Jón bóndi hafi þann 4. júlí árið 1882 selt hluta úr afréttarlandinu í Þorvaldsdal til fjölda aðila.  Meginefni þessa sölugernings er sem hér segir:

Jeg undirskrifaður Jón Snorrason til heimilis á Auðbrekku gjöri með brjefi þessu heyrinkunnugt; að eg sel frá mjer og mínum erfingjum landeign mína, afrjettarlandið Þorvaldsdal, ....Þessa landeign mína, afrjettarlandið Þorvaldsdal med þeim örnefnum og ummerkjum er nú eru talin, sel eg nokkrum bændum í Arnarneshrepp, lausa úr öllum vedsetningum og notkunarrjetti nokkurra manna annara en kaupenda, þegar undan er skilinn frí upprekstur og grasa tekja fyrir jörðina Auðbrekku og allar hjáleigur þeirrar jardar ásamt Fornhaga, og frí upprekstur fyrir 18 kúgildi auk stóðhrossa og kúa, sem tilheyrir jörðinni og prestsetrinu Stærra-Árskógi. Landeign þessa sel eg fyrir 1000 kr.- eitt þúsund krónur, sem borgist þannig 400 kr. fyrir lok júlí mánadar og 600 kr. fyrir næstu október mánadar lok. Seljandi ábyrgist söluna, en kaupendur haldi kaupi sínu til laga í sinn kostnað.

Auk þessa gernings liggur fyrir í málinu ódagsett landamerkjabréf afréttarins í Þorvaldsdal.  Talið er að bréfið hafi verið útbúið síðla árs 1884 eða snemma árs 1885. Merki afréttarins í bréfinu eru sambærileg þeim sem segir frá í sölugerningnum frá árinu 1882, en þau eru sem hér segir:

Ummerki afrjettarlandsins Þorvaldsdals eru að vestanverðu: Frá þverá þeirri, er næst fellur Kúgilsseli með fögruhlíð, nautárdal, Vesturhlíð, Lambárdal, Illagilsdal og Tröllatungu, allt í ána syðri, er kemur ofanaf miðjum Tungudal; en að norðanverðu; Frá Ytra-Hestahrauni og í garð þann að innan, er liggur úr Axlarbótinni fyrir ofan Fornhaga suður og ofan í Tunguá.

Þeir aðilar sem rituðu undir landamerkjabréfið fyrir hönd eigenda og nokkurra bænda í Arnarneshreppi voru: Guðmundur Jónsson fjallskilastjóri, Eggert Stefánsson, Tómas Hallgrímsson og Páll Jóhannesson. Efni bréfsins var samþykkt af Davíð Guðmundssyni í umboði eiganda jarðarinnar Dagverðartungu.

Greint er frá því að landamerkjabréf Þorvaldsdals hafi verið upplesið á manntalsþingi að Arnarnesi í Hvammshreppi 3. júní 1885, og segir að því hafi ekki verið mótmælt.

 

Í búskaparsögu Skriðuhrepps hins forna, sem rituð var um miðbik síðustu aldar af Eiði Guðmundssyni, bónda og alþýðufræðimanni frá Þúfnavöllum, er vikið að fyrrnefndum sölugerningi í lok 19. aldar.  Þar er og sagt frá Auðbrekkulandi eftir söluna þannig:

Utan við Fornhaga tekur við Auðbrekkutorfa og nær allt út að Stóra-Dunhaga.  Er það Auðbrekkuland sem fyrr var, og mun vera hér um bil fimm kílómetrar enda milli. Auk þess átti Auðbrekka áður Þorvaldsdal allan út af landamerkjum fremstu bæja í dalnum utanverðum.

 

Í úrskurði óbyggðanefnar er vitnað til tímarits Sögufélags Eyfirðinga, Súlna, 44. árgangs, um nefndan sölugerning í lok 19. aldar á Þorvaldsdalsafrétti, þar sem segir að þrátt fyrir eignaskiptin á afréttinum hafi engin breyting orðið á hreppamörkum á svæðinu.  Að því sögðu er fjallskilum lýst þannig:

[...] Auðbrekkufjall og á Fornhagaöxl var gengið saman af Arnarneshreppsmönnum og Skriðuhreppsbúum. Svo var og um Þorvaldsdalsafrétt og er óbreitt enn. Þá var ytri hluti Þorvaldsdals byggður ennþá og af heimalöndum þaðan mun fé hafa verið smalað að Fögruhlíðarrétt og úrtíningur þaðan látinn ganga til Reistarárréttar og síðan áfram til Þorvaldsdalsréttar. Þorvaldsdalur var genginn frá Hestahrauni og Nautá suður á Fornhagaöxl, svo var og Illagilsdalur genginn þar með. Svæði þetta var gengið bæði af mönnum úr Arnarness- og Skriðuhreppum samkvæmt samningi milli hreppanna. Óbreytt er þetta ennþá.

 

Landamerki Auðbrekkujarðarinnar voru þinglesin á manntalsþingi að Skriðu í Hörgárdal þann 2. júní 1887.  Efni landamerkjabréfsins, sem er  ódagsett, var ekki mótmælt.  Merkjunum, en einnig sambeit Auðbrekkutorfunnar, er lýst þannig í bréfinu:

Að utan er Húsá, þar sem hún kemur ofan milli Auðbrekkufjalls og Dunhagahnjúks, ofan fyrir svonefnda Sveigshóla, þá eptir merkjagarði, sem liggur á ská utantil á Auðbrekku móum, þartil hann þrýtur, beina línu niður Silungamýri, eptir sömu stefnu, sem merkjagarðurinn á bökkum (sem liggur framað Hörgá) ræður. – Að sunnan er fremra Kálfahjallagil, bein sýn úr því í Bláhól, miðjan, og þaðan bein sjónhending niður í Hörgá; sem ræður einsog hún rennur niður móts við Krossastaðamó, og sunnan verðan Laugalandshólma, vestan til á honum er gamall árfarvegur utanvið Glæsirsnes, sem aðskilur land Laugalands og Auðbrekkutorfu til garðs þess á bökkum sem áður er nefndur. Torfan á sambeit í Auðbrekkufjalli, bökkum og Reit að Fornhagalandi, sömuleiðis frýan upprekstur og grasatekju á afrjettinum Þorvaldsdal. –

J. Einarsson ritaði undir bréfið í umboði skiptaráðandans í dánarbúi Jóns Snorrasonar. Bréfið var samþykkt af J. Einarssyni vegna Hátúns.  P. Þ. Friðfinnsson samþykkti bréfið að því er varðaði merkin á milli túnanna í Auðbrekku og Svíra og um bithaga, en ekki merkin yfir Silungamýri.  Árni J(óns)s(on) (eyða í handriti), Júlíus Jónsson, samþykktu merkin vegna Brakanda í umboði ekkjunnar Margrétar Halldórsdóttur og loks samþykkti J(ón) Gunnlögsson bréfið vegna Hólakots.

 

Merki Dagverðartungu til norðurs og vesturs samkvæmt landamerkjabréfi frá árinu 1884, en þinglýstu 1887, eru þessi:

Að norðan móts við Fornhaga ræður Tunguárgil hið ytra ofan þangað sem eyrar byrja suður undan Fornhagabæ og þaðan bein stefna fyrir sunnan Þorvaldsdalsrétt niðrí Hörgá.

Að vestan móts við Þorvaldsdal ræður Tunguá upp að ármótum Lambár og Úlfár, síðan ræður Úlfá fram að svo kölluðum Dyngjum, síðan sama á frá Dyngjusporði framí gegn.

 

Landamerkjabréf Fornahaga var útbúið árið 1884, en þinglýst þremur árum síðar.  Suðurmerkin eru í samræmi við bréf Dagverðartungu, en um þau segir:  Merki að sunnan eru Tunguárgil ytra ofan þaðan sem eyrar byrja, sem er hjerum bil beint suður undan Fornhagabæ, og þaðan bein stefna ofan fyrir sunnan Þorvaldsdalsrjett í Hörgá niður. Þá segir um vesturmerki jarðarinnar: Að ofan ræður fjallsröðin sunnan í Fornhagaöxl, síðan garður úr henni ofan og suður í Tungugil. ... Ennfremur á Fornhagi frían upprekstur og grasatekju í Þorvaldsdal, fría beit og fría selstöðu, samt frítt fyrir allan búsmala í nefndum dal.

Páll Jóhannesson ritaði undir bréfið, en það var samþykkt af Margréti Halldórsdóttur, eiganda Brakanda, Jóni Snorrasyni vegna Auðbrekku, Guðmundi Jónssyni, Skriðulandi, sem umboðsmanni eiganda Þorvaldsdals, Einari Ásmundssyni, umboðsmanni Vagla, og J. Thorarensen, skiptaráðanda í búi eiganda Dagverðartungu.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að Bláteigur hafi áður verið hluti af Auðbrekkuengi.  Þá segir að sérstök landamerkjabréf fyrir hinar fornu hjáleigur Brakanda og Hólakot, sem áður tilheyrðu Auðbrekkutorfunni, hafi verið gerð í lok 19. aldar.  Segir að efni bréfanna sé í samræmi við bréf nágrannajarðanna Fornhaga og Dagverðartungu.  Í bréfi Brakanda segir og að jörðin eigi: frían upprekstur á Þorvaldsdal fyrir allar þær skepnur, er ábúanda tilheyra, ennfremur grasatekja í sama dal.  Í bréfi Hólakots segir að jörðin eigi: frían upprekstur fyrir geldpening og grasatekju í afrjettinum Þorvaldsdal.

 

Um kotbýlið Kúgil, vestan Þorvaldsdalsár er áður getið og þar á meðal að það hafi áður verið sel frá Stóru-Brekku, nágrannabýli höfuð- og klausturjarðarinnar Möðruvalla í Hörgárdal.  Samkvæmt sóknarlýsingu séra Hákonar Espólín um Stærri-Árskóg frá 1839 var Kúgil fremsta býlið í norðanverðum Þorvaldsdal og reiknað „12 hndr.  Landamerkjabréf fyrir kotið var útbúið árið 1890.  Segir þar að við Þverá byrji „landeign Þorvaldsdalsafréttar“ og að áin skilji „Kúgilsland að sunnan frá Þorvaldsdalsá og fjall upp.  Bréfið var ekki áritað af hálfu afréttarins, en í úrskurði óbyggðanefndar segir að efni þess sé í samræmi við lögfestu frá árinu 1824.

 

Landamerkjabréf Stærra-Árskógs var útbúið árið 1890.  Þar er merkjum millum afréttarlands Arnarnesshrepps og jarðarinnar lýst þannig: Neðan frá Ytrahestahrauni og bein lína á fjall upp. Bréfið var m.a. samþykkt af Jónasi Gunnlögssyni vegna Þorvaldsdalsafréttar.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að ekki hafi fundist landamerkjabréf fyrir Hrafnagil, hjáleigu Stærri-Árskógs, en vísað er til þess að í jarðamatinu frá 1849 segir að býlið liggi inn í Þorvaldsdal og að býlinu fylgi þrjár óbyggðar hjáleigur, þ. á m. Hávarðsstaðir og Þórhallskot.  Þá segir að í jarðamati frá 1916-18 sé greint frá því að Hrafnagilsbýlið sé í afdal og að það eigi frían upprekstur á Þorvaldsdal.  Samkvæmt gögnum fór býlið endanlega í eyði árið 1925.

 

Í úrskurðinum segir að ekki hafi verið fjallað sérstaklega um Þorvaldsdalsafrétt í fasteignamatinu 1916-1918, að öðru leyti en því að þar eigi frían upprekstur ýmsar jarðir, þ. á m. Fornhagi, Auðbrekka, Brakandi og Hólakot, auk býlisins Hrafnagils.

Í úrskurðinum segir að lokum frá því að sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu hafi með bréfi, dagsettu 27. september 1920, svarað erindi stjórnarráðsins um hvað teljist vera „almenningar“ og „afréttarlönd“ í umdæmi hans, sem ekki sannanlega hafi tilheyrt eða tilheyri nokkru býli.  Í bréfinu segir sýslumaður að hann hafi stuðst við upplýsingar frá hreppstjórum hinna fornu Árskógs-, Arnarnes- og Skriðuhreppa.  Segir hann að hreppstjóri Árskógshrepps hafi svarað því til að afréttur hreppsins væri í nyrðri hluta Þorvaldsdals, en að landsvæðið hafi verið í eigu jarðarinnar Auðbrekku allt þar til það hafi verið selt einstökum jarðeigendum í hreppnum.  Þá segir í bréfi sýslumanns að hreppstjóri Skriðuhrepps hafi svarað því til að enginn afréttur væri í hreppnum sem tilheyrði ekki einstöku lögbýli. Loks segir í bréfinu að hreppstjóri Arnarneshrepps hafi svarað því til að hann álíti að afréttur hreppsins hafi verið á Þorvaldsdal, sem fyrrum hafi legið undir Auðbrekku í Hörgárdal, en síðar verið seldur nokkrum bændum í Arnarneshreppi hinum forna, og enn síðar hafi hann tilheyrt Arnarneshreppi hinum nýja og Árskógshreppi.

 

Óumdeilt er í máli þessu að ¾ hlutum af afréttarlandinu á Þorvaldsdal var afsalað af eigendum til sveitarsjóðs Arnarneshrepps þann 22. september 1940, en kaupverðið var 1.500 krónur, og enn fremur að eigendur ¼ hluta afréttarins afsöluðu hreppsnefnd Árskógshrepps hlut sínum í afréttinum á manntalsþingi í þinghúsi Árskógshrepps þann 8. september 1944.

 

5.  Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, er m.a. vísað til áðurrakinna heimilda um „Þorvaldsdalsafrétt“ og um tengsl hans við einstök lögbýli í nágrenninu, og þá ekki síst við jörðina Auðbrekku í Hörgárdal.

Það er niðurstaða óbyggðanefndar að Auðbrekka hafi verið sjálfstæð jörð og að rekja megi rétt hennar til hins umþrætta landsvæðis í Þorvaldsdal allt aftur til 14. aldar.

Óbyggðanefnd bendir á að Þorvaldsdalsafréttar sé fyrst sérstaklega getið í Jarðabókinni árið 1713.  Áréttað er að Auðbrekkujörðin liggi að afréttinum suðaustanverðum, en sé utan við ágreiningssvæði málsaðila.  Nefndin lætur það álit í ljós að áðurraktar heimildir bendi til þess að búseta hafi verið í a.m.k. hluta afréttarins á 17. öldinni, en að óljóst sé um upphaf hennar, endalok og landfræðilega afmörkun.

Nefndin áréttar að hið umþrætta landsvæði hafi verið selt með sérstökum gerningi árið 1882, er þáverandi eigandi Auðbrekku hafi selt nokkrum bændum í Arnarneshreppi „landeign [sína], afrjettarlandið Þorvaldsdal“ og að forverar stefndu hafi keypt landsvæðið á árunum 1941 og 1944.  Nefndin bendir á að í kjölfar sölugerningsins árið 1882 hafi verið gert sérstakt landamerkjabréf fyrir afréttinn og hið sama hafi verið gert fyrir jörðina Auðbrekku nokkrum árum síðar.  Nefndin bendir á að eldri heimildir lýsi einnig aðgreindum merkjum Auðbrekku og Þorvaldsdalsafréttar.

Í niðurstöðukaflanum fjallar óbyggðanefnd nánar um mörk Þorvaldsdalsafréttar og þá í samhengi við gögn um merki aðliggjandi landsvæða.  Staðhæfir hún að óumdeilt sé að afrétturinn sé umlukinn eignarlöndum á allar hliðar. Til vesturs séu jarðir í Skíðadal, en til austurs séu jarðirnar Fornhagi, Auðbrekka, Stóri-Dunhagi, Litli-Dunhagi, Björg, Möðruvellir, Baldursheimur, Skriða, Hallgilsstaðir, Þrastarhóll, Brekkubæir, Hof, Hvammur, Syðri- og Ytri-Reistará og Kjarni í Hörgárdal og Galmaströnd.  Þá sé býlið Kúgil til norðurs og Dagverðartunga til suðurs.  Um mörk afréttarins er að þessu sögðu sérstaklega vísað til efnis áðurrakins landamerkjabréfs fyrir „afrjettarlandið Þorvaldsdal“ frá 1884 eða 1885 og á það bent að bréfið hafi verið áritað um samþykki vegna jarðarinnar Dagverðartungu.  Enn fremur hafi það verið undirritað af nokkrum bændum fyrir hönd þeirra sem keyptu „afréttarlandið“ árið 1882 og er staðhæft að það hafi verið eigendur flestra aðliggjandi jarða. Loks er á það bent að mörkum afréttarins hafi verið lýst í lögfestu fyrir „Audbrecku og Þorvalldzdal“ árið 1723, en einnig í afsalsbréfinu árið 1882.  Um nefnd mörk afréttarins segir nánar í niðurstöðukaflanum:

Af lýsingum Þorvaldsdalsafréttar og aðliggjandi jarða má ráða að merki svæðanna hafi náð saman á fjalli, en það er í samræmi við afmörkun bæði íslenska ríkisins og gagnaðila þess á kröfusvæðum sínum. Þar er nánar tiltekið miðað við hreppamörk sem liggja upp af dalnum og beygja til austurs sunnarlega á kröfusvæðinu. Þar heldur línan áfram til suðurs, í sunnanverðan Fálkahaus.

Norður- og suðurmerkjum Þorvaldsdalsafréttar er ekki lýst sérstaklega í bréfinu eða öðrum heimildum en íslenska ríkið og gagnaðilar þess miða norðurmörk við Þverá þá sem nefnd er í bréfinu og liggur nyrst þeirra kennileita sem þar eru nefnd. Suðurmörk eru síðan miðuð við þann stað þar sem Tunguá og Úlfá mætast og síðarnefndri á fylgt til vesturs. Getur þessi afmörkun rúmast innan orðalags bréfsins, enda þótt ónákvæmt sé. Það sama má jafnframt ráða af lýsingum aðliggjandi jarða. Þar er Kúgil til norðurs og Dagverðartunga til suðurs. Í landamerkjabréfi Kúgils frá 1890 segir að við Þverá byrji „landeign Þorvaldsdalsafréttar“ og að áin skilji „Kúgilsland að sunnan frá Þorvaldsdalsá og í fjall upp“. Bréfið er ekki áritað af hálfu afréttarinnar. Einnig er til lögfesta frá 1824 þar sem merkjum Kúgils er lýst með sambærilegum hætti. Nánar tiltekið er miðað við fjallseggjar fram með upptökum Þverár í Þverárdal. Í landamerkjabréfi Dagverðartungu, frá 4. ágúst 1884, eru merki gagnvart Þorvaldsdal miðuð við Úlfá og bréfið er áritað vegna Þorvaldsdals „eftir umboði eigandans“. Eldri heimildir um merki Dagverðartungu liggja ekki fyrir.

 

Það er niðurstaða óbyggðanefndar að þessu sögðu að hið umþrætta landsvæði í Þorvaldsdal falli innan afmörkunar landamerkjabréfsins fyrir „afrjettarlandið Þorvaldsdal“ frá 1884 eða 1885. Nefndin bendir á að bréfið hafi verið gert í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi árið 1882 og að það hafi verið þinglesið og fært í landamerkjabók.  Það er niðurstaða nefndarinnar að heimildir bendi til þess að merkjum sé rétt lýst í bréfinu, svo langt sem sú lýsing nái.  Því til viðbótar segir nefndin að fyrirsvarsmenn Þorvaldsdalsafréttar hafi um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjunum væri rétt lýst.

 

Hér fyrir dómi lýstu aðilar máls því yfir að ekki væri ágreiningur með þeim um niðurstöðu óbyggðanefndar um mörk hins umþrætta afréttar á Þorvaldsdal.

 

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar er að ofangreindu sögðu tekið til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan áðurgreindra merkja.  Um það álitaefni segir nánar:

Um almenna þýðingu landamerkjabréfa og hugtakanna jörð og afrétt(ur) við mat á sönnun um eignarhald á landi vísast til fyrirliggjandi umfjöllunar dómstóla og óbyggðanefndar, ... og Almennar niðurstöður óbyggðanefndar í viðauka. Svo sem þar kemur fram hafa landamerkjabréf bæði verið gerð fyrir jarðir og annars konar réttindasvæði, svo sem ítök og afrétti(r). Bréf jarða hafa haft ríkara vægi sem sönnunargögn um beinan eignarrétt og í fyrirliggjandi dómum og úrskurðum hefur að meginreglu verið komist að þeirri niðurstöðu að þau afmarki eignarland. Land utan jarða, þar á meðal afréttarland, hefur á hinn bóginn að meginreglu verið talið þjóðlenda. Notkun hugtaksins afrétt(ur) í landamerkjabréfi og/eða öðrum heimildum hefur þó ekki úrslitaþýðingu um að þar sé þjóðlenda, enda hefur merking þess ekki verið einhlít. Slíkt landsvæði er því eftir atvikum eignarland eða þjóðlenda. Á meðal þeirra atriða sem máli skipta við mat á stofnun og viðhaldi eignarréttar er eignarréttarleg staða aðliggjandi landsvæða. Jafnframt er mögulegt að unninn hafi verið réttur að áður eigendalausu landi, svo sem á grundvelli hefðar.

Að þessu sögðu er í niðurstöðukaflanum fjallað um fyrrgreind kaup Arnarneshrepps og Árskógshrepps á Þorvaldsdalsafrétt um miðbik 20. aldarinnar, en einnig er vikið að nýtingu svæðisins.  Það álit er látið í ljós að við gildistöku þjóðlendulaga árið 1998 hefði hið umþrætta landsvæði ótvírætt haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við.  Að þessu sögðu tekur nefndin til skoðunar hvort í þessu hafi falist bein eða óbein eignarréttindi, og þar af leiðandi hvort að hið umþrætta landsvæði sé eignarland eða þjóðlenda í skilningi þjóðlendulaga. Í því sambandi lætur nefndin það álit í ljós að meginmáli skipti við úrlausnina að kanna hver hafi verið staða landsins fyrir söluna, þ.e. hvort Þorvaldsdalsafréttur hafi verið hluti af landi jarðarinnar Auðbrekku, nýtt til beitar og nefnd svo af þeirri ástæðu, eða afréttur hennar í þeim skilningi að hún hafi einungis átt þar óbein eignarréttindi.

Um greint álitaefni vísar óbyggðanefnd í niðurstöðu sinni til þess að í elstu heimildinni um Auðbrekku, frá 14. öldinni, segir frá því að jörðin hafi verið seld með „Grjótárlandi“ og „Fögruhlíð“. Á það er bent að Fagrahlíð sé norðanvert í Þorvaldsdalsafrétti, en að staðsetning Grjótárlands sé óljósari, og enn fremur að ekki liggi ljóst fyrir hvort að í þessu hafi falist jarðareign eða annar réttur Auðbrekku á umræddum svæðum. Nefndin bendir á að Fagrahlíð hafi einnig verið réttindasvæði kirkjunnar í Árskógi, samkvæmt áðurröktum heimildum frá 14. öld og allt fram til 20. aldarinnar. Nefndin vísar til þess að á 14. og 15. öldinni hafi kirkjunni verið veittur sérstakur réttur til rekstrar geldfjár, svína og stóðhrossa, auk grasalesturs, hvannskurðar, ásamt,fiska- og fuglaveiði, en þegar komið hafi verið fram undir 1600 hafi aðeins verið um að ræða geldfjárrekstur. Í þessu samhengi er bent á að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1713 segir að menn viti ekki til að umrædd ítök séu undan kirkjustaðnum gengin, en brúkist stundum og stundum ekki.

Óbyggðanefnd áréttar í niðurstöðu sinni að staðsetning Grjótárlands sé óljós og verði ekki um það sagt hvort og þá að hvaða leyti örnefnið taki til afréttarsvæðisins. Að því er varðar sunnanverðan Þorvaldsdalsafrétt liggi hins vegar fyrir að samkvæmt dómi sýslumanns frá 1728 hafi Illagilsdalur verið talinn „tilheyra“ jörðinni Auðbrekku og verið hennar eign. Bent er á að tilefni dómsins hafi verið merkjadeila eigenda Auðbrekku og Fornhaga.

Nefndin vísar til þess að samkvæmt heimildum séu vísbendingar um að byggð hafi verið á einhverjum hluta Þorvaldsdalsafréttar, en að óljóst sé um upphaf hennar, afmörkun og endalok. Í því samhengi vísar nefndin til þess að í umfjöllun um Kúgil í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1713 segir frá því að Lambárkot kallist „fornt eyðiból í þessum afrjett fyrir vestan Þorvaldsdalsá og eru þar þó litlar byggingarleifar. Og enn fremur: „að þar megi ekki aftur byggja fyrir heyskaparleysi.“ Þá bendir nefndin á að í jarðamatinu 1804 segir að „eyðijörðin“ Lambárkot „hörer til“ Auðbrekku.

Nefndin vísar í niðurstöðu sinni til þess að heimildir frá 18. öldinni greini frá því að í Þorvaldsdal sé „afrétt“ Auðbrekku og kotanna þaðan, sbr. m.a. Jarðabók Árna  og Páls, og hið sama komi fram í jarðamötum frá árunum 1804 og 1849. Nefndin bendir á að fleiri jarðir hafi samkvæmt heimildum haft tengsl við afréttinn, en flestar þannig að þær hafi þurft að greiða toll fyrir beitarréttinn. Nefndin bendir á að það sama komi fram í Sýslu- og sóknalýsingum Eyjafjarðarsýslu frá 1839-1854 og þá enn fremur um að afrétturinn hafi verið eign Auðbrekku.  Nefndin bendir á að Auðbrekkueigendur hafi á 18. og 19. öldinni margoft lögfest landsvæðið undir jörðina, með sérgreindum merkjum.  Loks hafi eigendur jarðarinnar selt „landeign [sína]“, Þorvaldsdalsafrétt, til nokkurra bænda í hinum forna Arnarneshreppi árið 1882. Við söluna hafi þeir undanskilið beitarrétt og grasatekjur jarðarinnar og allrar torfunnar, þ.e. vegna hjáleigna Auðbrekku og Fornhaga, en að auki hafi verið undanskilinn forn upprekstrarréttur Stærri-Árskógs.

Lokaorðin í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar eru sem hér segir:

Þorvaldsdalur og Þorvaldsdalsafrétt (er) tilgreindur sérstaklega í fjölda heimilda, líkt og margir afréttir jarða og stofnana. Heimildir um afnot landsvæðisins frá 18. öld og síðar fjalla fyrst og fremst um beit eða önnur þrengri og sambærileg not. Svæðið er hálent og landfræðilega aðskilið frá Auðbrekku með fjallgarði sem rís í tæplega 1000 m hæð. Í fyrirliggjandi dómum og úrskurðum hafa atriði af þessu tagi í mörgum tilvikum legið til grundvallar niðurstöðu um þjóðlendu og óbein eignarréttindi, nánar tiltekið afréttareign.

Á hinn bóginn benda heimildir um Fögruhlíð til þess að eigendur Auðbrekku, og að hluta Stærri-Árskógs, hafi farið með umráð og hagnýtingu lands á a.m.k. norðanverðri Þorvaldsdalsafrétt allt frá 14. öld. Síðari heimildir um Illagilsdal benda til hins sama á sunnanverðri afréttinni. Af lögfestum og málaferlum Auðbrekkumanna má ráða að land þetta hefur ekki staðið öðrum til afnota án leyfis. Ekki verður séð að þar hafi komið fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna sem máli skipti. Enda þótt nýting fjalllendis hafi eðli málsins samkvæmt verið takmarkaðri en láglendis leiðir það eitt og sér ekki til neinnar eignarréttarlegrar aðgreiningar. Nýting hefur verið eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma og ekki einskorðast við sumarbeit búfjár. Eigandi Auðbrekku seldi Þorvaldsdalsafrétt sama ár og landamerkjalög nr. 5/1882 tóku gildi og því kom ekki til þess að hann fjallaði um afréttina í landamerkjabréfi með einum eða öðrum hætti.

Að Þorvaldsdalsafrétt liggja eignarlönd til allra átta. Eignarhald á Auðbrekku og Fornhaga virðist hafa verið samfellt fram um siðaskipti og Þorvaldsdalsafrétt hefur legið að því á láglendinu við Ytri-Tunguá og á fjallsöxlinni sunnanverðri. Undirlendi á þessu svæði er lítið, fyrst og fremst grösugir dalir á milli hárra fjalla. Það á ekki einungis við um Þorvaldsdalsafrétt, heldur einnig óumdeild eignarlönd sem að honum liggja, bæði í Hörgársveit og Dalvíkurbyggð.

Því (er) ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að a.m.k. hluti þess lands sem hér er deilt um hafi verið numinn. Líkur á stofnun og viðhaldi eignarréttar aukast, sé tekið tillit til eignarréttarlegrar stöðu aðliggjandi landsvæða. Í fyrirliggjandi dómum og úrskurðum hafa atriði af þessu tagi í mörgum tilvikum legið til grundvallar niðurstöðu um eignarland.

Loks er ljóst að heimildir um legu jarða til forna, enda þótt takmarkaðar séu, geta gefið mikilvægar vísbendingar um að landsvæði hafi upphaflega haft stöðu jarðar en síðar verið nýtt sem afrétt(ur). Í dómi Hæstaréttar frá 7. október 2010 um eignarland í Vatnsenda felst áhersla á þetta atriði enda þótt fleira komi þar til.

Að öllu því virtu sem að framan er rakið telur óbyggðanefnd að hvorki staðhættir, gróðurfar né heimildir um réttindi eða nýtingu mæli gegn því að landsvæði það sem afmarkað er í landamerkjabréfi Þorvaldsdalsafréttar frá 1884 eða 1885 geti hafa verið hluti af jörð eða jörðum allt frá öndverðu. Nægjanlega er því í ljós leitt að eigendur Auðbrekku, sem sveitarfélögin Arnarneshreppur og Dalvíkurbyggð leiða rétt sinn frá, hafi átt þar bein eignarréttindi fremur en óbeinan eignarrétt. Heimildir um afrétt vísa því fremur til notkunar viðkomandi landsvæðis en þess að beinn eignarréttur hafi annað hvort ekki stofnast eða fallið niður.

Af hálfu íslenska ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landamerkja Þorvaldsdalsafréttar sé þjóðlenda, í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998. Með vísan til sama ákvæðis ber jafnframt að taka skýrt fram að í umfjöllun óbyggðanefndar felst ekki afstaða til merkja á milli eignarlanda.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Af hálfu stefnanda, íslenska ríkisins, er á því byggt að hið umþrætta landsvæði á Þorvaldsdal sé svæði utan eignarlanda og sé því þjóðlenda, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefnandi ljóst af heimildum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að mati stefnanda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefndu, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu.

Stefnandi áréttar að af heimildum megi ráða að land innan hins umþrætta landsvæðis á Þorvaldsdal hafi legið utan landnáms og hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti einstakra jarða heldur hafi svæðið frá fornu fari verið nýtt sem samnotaafréttur jarða á svæðinu.  Stefnandi áréttar að ekki sé ágreiningur um mörk svæðisins, en þar um vísar hann til landamerkjabréfs frá 1885, sem hann segir að sé í samræmi við merkjalýsingar aðliggjandi jarða, þar á meðal Fornhaga, Brakanda og Auðbrekku.  Stefnandi byggir á því að þó svo að afréttarsvæðið sjálft hafi eftir atvikum talist tilheyra einstökum jörðum hafi í slíkri heimild ekki falist annað og meira en tilheyrsla takmarkaðra og óbeinna eignarréttinda.  Í því sambandi vísar stefnandi til þess að það sé í samræmi við almenn sönnunarsjónarmið í málum sem þessum, að landamerkjabréf jarða geti ekki verið ein og sér nægjanleg heimild um beinan eignarrétt.  Stefnandi byggir á því að þannig styðji heimildir ekki málatilbúnað stefndu heldur þvert á móti og bendir hann á áðurrakinn máldaga Ólafs Rögnvaldssonar frá árinu 1461 varðandi réttindi kirkjunnar í Árskógi í Fögruhlíð.  Þá vísar stefnandi til þess sem áður var rakið, þ. á m. úr Jarðabók Árna og Páls um að afréttur sé fyrir framan byggðina báðum megin í Þorvaldsdal sem liggi undir Auðbrekku í Hörgárdal og að þar eigi rétt til upprekstrar bændur á Galmaströnd og Árskógsströnd.  Stefnandi byggir á því að samkvæmt þessu sé Þorvaldsdals getið sem afréttar sem fjöldi jarða hafi notið upprekstrar á.  Að auki bendir hann á að í fyrirspurn sýslumanns frá árinu 1794 hafi verið vísað til svæðisins sem samnotaafréttar.  Í þessu samhengi bendir stefnandi einnig á að ágreiningur hafi verið með eigendum Auðbrekku og Fornhaga um eignarrétt á landsvæðinu og byggir hann á því það gefi vísbendingu um að vafi hafi leikið á um eignarrétt á svæðinu.  Í því sambandi bendir stefnandi á áðurrakið jarðarmat frá árinu 1849, en þar sé tekið fram að jarðirnar eigi frían upprekstur og beit á Þorvaldsdalsafrétt og enn fremur bendir hann á að efni lögfestu frá árinu 1877 fyrir jörðinni Auðbrekku hafi verið mótmælt af mörgum bændum.  Byggir stefnandi á því að réttindi Auðbrekkujarðarinnar hafi í raun ekki verið önnur en afréttareign.

Stefnandi byggir á því að með afsalsbréfi þáverandi eiganda Auðbrekku, þann 4. júlí 1882, hafi hann ekki afsalað öðru en óbeinum eignarréttindum sínum.  Því hafi ekki verið um að ræða sölu á beinum eignarrétti eða á hluta eignar jarðarinnar Auðbrekku.  Hann bendir á að í afsalinu sé hvorki gerð grein fyrir eignarhlutdeild hvers kaupanda fyrir sig né hafi eignarrétturinn verið sundurgreindur gagnvart einstökum jörðum.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt framansögðu bendi ritaðar heimildir til þess að um afréttareign hafi verið að ræða og að hið umþrætta svæði á Þorvaldsdal hafi haft aðra eignarréttarlega stöðu en jörðin Auðbrekka.  Í því samhengi bendir stefnandi á og áréttar að hið umþrætta svæðið sé landfræðilega aðskilið frá jörðinni.  Vísar hann til þess að þegar slíku sé fyrir að fara hafi það atriði skipt máli við úrlausn dómstóla um eignarréttarlega stöðu landsvæða.

Stefnandi byggir á því að staðhættir, gróðurfar sem og framangreindar heimildir um réttindi og nýtingu svæðisins bendi til þess að landið hafi ekki verið undirorpið beinum eignarrétti einstakra jarða, heldur hafi aðeins verið um óbeinan eignarrétt að ræða. 

Stefnandi byggir á því að Landnáma styðji það ekki að hið umþrætta landsvæði hafi verð numið í öndverðu.  Í því samhengi vísar hann til þeirrar reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, sbr. m.a. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 66/1996 og 67/1996.  Byggir stefnandi á því að sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun hvíli á þeim sem haldi henni fram.

Stefnandi byggir á því að af ofangreindu virtu verði ekki annað séð en að réttur stefndu til hins umdeilda landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið nýtt til beitar fyrir búpening og e.t.v. annarrar takmarkaðrar notkunar.

Verði hins vegar talið að umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu byggir stefnandi á því að það hafi ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Stefnandi bendir á að frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur hafi þar einnig verið um að ræða ítök, afréttir og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan slík landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess, að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru, en um þetta vísar stefnandi m.a. til dóma Hæstaréttar í málum númer 67/2006 og 27/2007.

Stefnandi byggir á því til vara að verði talið að hið umþrætta svæði hafi að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður, og eftir það hafi svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Og verði talið að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu á umræddu landsvæði byggir stefnandi á því að ekkert liggi fyrir um, að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar, enda séu engar heimildir, hvorki eldri né yngri, er sýni fram á aðra nýtingu en til upprekstrar og afréttarnota.

Stefnandi hafnar því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði.  Bendir hann á að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

 

Stefnandi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, og vísar þar um til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda.  Áréttar hann að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 og nr. 48/2004.

 

Um lagarök er af hálfu stefnanda vísað til almennra reglna eignarréttar og þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Stefnandi byggir einnig á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, og á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar, svo og á hefðarlögum nr. 14, 1905.  Þá vísar hann til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil og til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæði 129. og 130. gr.

 

Málsástæður og lagrök stefndu.

Stefndu byggja dómkröfu sína um sýknu á því að hið umdeilda landsvæði í Þorvaldsdal hafi verið undirorpið beinum eignarrétti frá öndverðu, enda sýni heimildir um landnám og ráðstafanir landsins í heild eða hluta með löggerningum fram á að um eignarland sé að ræða í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 58, 1998.  Stefndu vísa til þess sem áður var rakið í úrskurði óbyggðanefndar, um frásögn Landmámu, þar á meðal um landnám Hámundar heljarskinns á Galmaströnd, milli Svarfaðardals og Hörgárdals svo og á ráðstöfun landnámsmannsins á hluta þess, m.a. til Þorvaldar, sem Þorvaldsdalur sé kenndur við.

Stefndu byggja á því að samkvæmt áðurröktum heimildum hafi hið umdeilda land verið hluti jarðarinnar Auðbrekku frá öndverðu, en þar um vísa þeir helst til efnis áðurrakinna kaupbréfa frá árunum 1375 og 1440.  Stefndu byggja á því að landsvæðið hafi samkvæmt þessum heimildum, en einnig yngri heimildum, verið innan landamerkja Auðbrekku allt til ársins 1882 þegar því hafi verið afsalað.  Hafi landsvæðið notið stöðu jarðar að lögum og hafi ekkert í málatilbúnaði stefnanda hnekkt þeirri staðhæfingu.  Stefndu andmæla því að sönnunarbyrði hvíli á þeim um hið gagnstæða, enda sé það stefnandi sem krefjist ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar.  Þá andmæla stefndu alfarið málsástæðum stefnanda um að hið umþrætta landsvæði hafi legið utan landnáms en verið nýtt sem afréttur.

Stefndu byggja á því að ekkert komi fram í heimildum um að hið umþrætta landsvæði hafi verið nýtt sem samnotaafréttur.  Og hafi slíkt verið raunin í síðari búskaparsögu Eyjafjarðar þá fari það víðs fjarri að sú nýting eigi að leiða til þess að eignarréttur að landinu hafi fallið niður.  Stefndu vísa til þess að heimildir sýni að öll nýting innan hins umþrætta landsvæðis hafi verið með leyfi eigenda og í skjóli þeirrar eignarheimildar sem þeir hafi haft fyrir landinu.  Þar um vísa þeir m.a. til áðurrakinna ummæla í Jarðabókinni frá 1713 um að hið umdeilda landsvæði sé afréttur sem liggi undir Auðbrekku í Hörgárdal.  Stefndu benda á að Jarðabókin sé reyndar elsta heimildin þar sem hugtakið afréttur sé notað um Þorvaldsdal, en árétta að þar sé og tekið fram að landsvæðið liggi undir Auðbrekku.  Stefndu árétta að Þorvaldsdalurinn hafi fyrst verið aðskilinn frá Auðbrekkujörðinni með fyrrnefndu afsali landeigenda árið 1882.

Stefndu vísa til þess að elsta heimildin sem greini frá landamerkjum Auðbrekku sé fyrrnefnt kaupbréf frá árinu 1375.  Þeir byggja á því að þó svo að merkin sem þar komi fram séu ekki að öllu leyti nákvæm megi af þeim ráða að Þorvaldsdalur hafi ekki verið aðskilinn frá öðru landi Auðbrekkujarðarinnar.  Þá komi fram í gerningnum að merki Auðbrekku að sunnan séu á móti Fornhaga, en að merki jarðarinnar að norðan séu á móti Grund í Svarfaðardal.  Að þessu leyti var við flutning málsins fyrir dómi vísað til samnefndrar jarðar í norðanverðum Þorvaldsdal.  Stefndu byggja á því að af efni umrædds kaupbréfs sé ótvírætt að innan merkja jarðarinnar séu landsvæði, sem nefnd séu Fagrahlíð og Grjótárland.  Þeir benda á að óumdeilt sé að Fagrahlíð sé hluti hins umþrætta lands, en aftur á móti sé óvíst hvar hið svonefnda Grjótárland hafi verið, en að þeir álíti að það sé landsvæði sem sé skammt sunnan Ytri-Tungudals sem þannig marki þrætugeirann að sunnan.  Stefndu benda og á að í sölubréfinu frá árinu 1375 séu einu réttindi annarra landeiganda til lands Auðbrekkujarðarinnar þau sem tilheyri eigendum Laugalands, sem eigi hálfs mánaðar beit í landi hennar á ári hverju.  Stefndu benda á að í elsta máldaga kirkjustaðarins í Árskógi, Ólafsmáldaga frá árinu 1461, komi fram breyting frá ákvæðum sölubréfsins frá 1375, en þar sé kveðið á um upprekstrarrétt í Fögruhlíð.  Stefndu byggja á því að efni máldagans bendi ekki til þess að framseljandi þeirra réttinda hafi verið að ráðstafa óbeinum eignarréttindum sínum yfir nefndu landi heldur þvert á móti.  Þar um vísa þeir til þess að réttindi Árskógskirkju hafi varðað beit svína og stóðhrossa, en að einnig hafi þau varðað grasa- og hvannalestur svo og fugla- og fiskveiði.  Í því samhengi vísa stefndu til þess að samkvæmt ákvæðum Jónsbókar hafi um afrétti gilt afdráttarlaust bann við því að svínum væri beitt, sbr. 51. kapitula búnaðarbálks.  Aftur á móti hafi einstökum jarðeigendum að sjálfsögðu verið heimilt að beita svínum á jarðir sínar án afskipta löggjafans sem og að framselja öðrum þann rétt.  Þá hafi samkvæmt 57. kapitula búnaðarbálks Jónsbókar verið kveðið á um rétt til fuglaveiða í jarðeignum, en sá réttur hafi verið framseljanlegur líkt og einstök réttindi fasteigna almennt.  Stefndu benda enn fremur á að ákvæði Jónsbókar fjalli um þrennar tegundir fasteigna, þ.e. jarðir, afrétt og almenning.  Og hafi menn greint á um í hvern flokkinn land félli hafi verið leyst úr því á grundvelli ákveðinna réttarfarsreglna, sbr. ákvæði 52. kafla búnaðarbálks Jónsbókar.  Þá benda stefndu á að flokkun afréttarlanda í samnotaafrétt og aðra afrétti hafi ekki verið til staðar í Jónsbók.  Stefndu árétta að hafi svínabeit verið heimil á Þorvaldsdal sé fullkomlega eðlilegt að gagnálykta og halda því fram að hið umþrætta landsvæði hafi verið hluti jarðar enda sé önnur ályktun ótæk.  Stefndu árétta að eign á fuglaveiðum hafi og fylgt jarðeignum, en að veiðiréttindi hafi jafnframt getað verið skilin frá og þau framseld til þriðja aðila líkt og virðist hafa verið gert í tilfelli Auðbrekku og Stærra-Árskógs.

Stefndu byggja á því að samkvæmt áðurgreindum heimildum hafi hið umþrætta landsvæði á Þorvaldsdal frá öndverðu verið hluti jarðarinnar Auðbrekku.  Þeir byggja og á því að sá landamerkjaágreiningur, sem heimildir geti um milli eigenda Fornhaga og Auðbrekku í upphafi 18. aldar, hafi verið dæmigerður ágreingur milli tveggja jarða og að þar hafi enginn sérstakur greinarmunur verið gerður á landinu sem um hafi verið þrætt og á öðru landi jarðanna.

Stefndu vísa til þess að fjöldi lögfesta hafi verið gerðar fyrir Auðbrekku, hin elsta árið 1666.  Þeir byggja á því að allar staðfesti þær að hið umþrætta land hafi legið innan landamerkja jarðarinnar og árétta að það hafi fyrst verið aðskilið frá henni áður en merki voru útbúin á grundvelli landamerkjalaga frá árinu 1882, sbr. áðurrakið afsal frá 4. júlí það ár.  Stefndu benda á að í þessum gerningi segir m.a. að landsvæðið sé selt frá seljandanum Jóni Bergssyni, sem og erfingjum hans, að landið sé veðbandalaust og kaupendur haldi kaupum sínum til laga.  Stefndu byggja á því að gerningurinn beri öll merki þess að verið sé að framselja og taka við beinum eignarréttindum.  Að þessu leyti andmæla stefndu skilningi stefnanda á ákvæðum bréfsins og byggja þeir á því að augljóst sé að hverri jörð hafi fylgt jafn hlutur í hinu afsalaða landi, en það megi m.a. ráða af síðari framsalsgerningum.  Jafnframt byggja stefndu á því að réttaráhrif þess að greina ekki sérstaka hlutfallstölu við hvern afsalshafa í afsalinu sé fjarri því að vera þau sem stefnandi geri ráð fyrir, þ.e. að telja afsalsandlagið undirorpið óbeinum eignarréttindum.  Í því samhengi vísa stefndu til þess að langflestir kaupendur hins umþrætta lands hafi verið jarðeigendur, sem fyrir hafi átt upprekstrarrétt, en að þrátt fyrir það hafi þeir keypt það fyrir heilar 1000 krónur.  Stefndu árétta að með umræddum afsalsgerningi hafi hið umþrætta landsvæði á Þorvaldsdal verið framselt og að kaupendurnir hafi tekið þar við beinum eignarrétti þess. Að þessu leyti vísa stefndu til þess sem áður var rakið og þar á meðal að einhvern tímann á árabilinu 1375-1461 hafi eigendur jarðarinnar Auðbrekku framselt fasteignarréttindi jarðarinnar til kirkjustaðarins í Árskógi, réttindi sem að lögum hafi einungis getað fylgt jörð eða landi, sem hafi verið beinum eignarrétti undirorpið.  Þar að auki hafi eigendur Auðbrekku lögfest réttindi sín á hinu umþrætta landsvæði reglulega á 17., 18. og 19. öldinni og síðast árið 1877.  Þannig hafi þeir gert þriðja manni kunnugt um réttindi sín yfir landinu.

Stefndu byggja á því að í ljósi ofangreinds komi ekki til greina að hinn beini eignarréttur hafi með einhverjum hætti þynnst út eða gufað upp.  Stefndu vísa máli sínu til stuðnings til dóma Hæstaréttar í fjölmörgum málum þar sem jörð eða jarðahluti, sem lagður hafi verið formlega til afréttar, teljist eftir sem áður beinum eignarrétti undirorpin.  Þeir árétta að sérstakt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir hið umþrætta land  árið 1885, það þinglesið og fært í landamerkjabók og á því byggt án þess að fram hafi komið athugasemdir af hálfu yfirvalda eða ágreiningur komið upp við nágranna, sem máli hafi skipt við úrlausn þessa máls.

Stefndu byggja á því að allt framanrakið bendi til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt hafi verið talið gilda og að eigendur hins umþrætta lands í Þorvaldsdal hafi því lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum hafi verið réttilega lýst í áðurnefndum merkjabréfum.  Stefndu vísa til þess að samkvæmt landamerkjalögum hafi opinberum aðilum verið falið að ganga úr skugga um að lýsingar landamerkjabréfa væru réttar samkvæmt formi sínu og efni.  Þeir byggja á því að þetta styðji þá meginreglu íslensks réttar að athugasemdalausri þinglýsingu verði ekki hnekkt nema óyggjandi sönnunargögn liggi því til grundvallar.  Sönnunarbyrðin um inntak eignarréttar að landi jarðarinnar hvíli því á stefnanda.

Stefndu byggja á því að eftir að ríkisvald stofnaðist hér á landi hafi handhafar þess margsinnis bæði beint og óbeint viðurkennt fullkominn eignarrétt þeirra innan lýstra merkja.  Stefndu byggja á því að hafi ríkisvaldið einhvern tímann getað haft uppi véfengingarkröfu á hendur þeim þá sé ljóst að slík krafa sé fyrir löngu fallin úr gildi fyrir fyrningu og tómlæti handhafa ríkisvaldsins og árétta þeir að heimildarskjölum fyrir landinu hafi verið þinglýst athugasemdalaust.  Þá hafi verið greidd fasteignagjöld af landinu auk annarra skatta og skyldna sem á landeigendur séu lagðar að lögum.

Stefndu byggja á því að í ljósi ofangreinds hafi þeir í gegnum tíðina haft réttmætar ástæður til að ætla að land jarðarinnar væri undirorpið fullkomnum eignarrétti þeirra og hafi aðgerðir ríkisins fram til þessa aðeins styrkt þá í þeirri trú.  Að síðustu byggja stefndu á því að þeir hafi hefðað landið, enda hafi þeir nýtt það langt umfram tilskilinn hefðartíma.

Um lagarök vísa stefndu til meginreglna eignaréttar og ákvæða stjórnarskrárinnar, einkum 72. gr.  Þeir byggja á málsmeðferðar- og sönnunarreglum einkamálalaga nr. 91, 1991.  Einnig vísa þeir til ákvæða landamerkjalaga nr. 41, 1919, auk eldri laga um landamerki.  Þá byggja þeir á ákvæðum laga um hefð nr. 46, 1905, ákvæðum þinglýsingalaga nr. 39, 1978, en enn fremur vísa þeir til laga um skráningu um mat fasteigna nr. 6, 2001, auk eldri laga um sama efni.  Þeir vísa til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6, 1986, laga nr. 64, 1994, auk reglugerða þeim fylgjandi.  Loks vísa þeir til ákvæða þjóðlendulaga nr. 58, 1998 og laga nr. 62, 1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu.  Um málskostnað vísa þeir til 129., 130. og 131. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

 

III

1. Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.  Þá er afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.

Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998, sem nefnd hafa verið þjóðlendulög, voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.  Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar.  Þá segir í athugasemdunum að til þess eigi að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu geti verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raski ekki slíkum réttindum.  Þannig skuli þeir sem hafi nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda.  Niðurstaðan ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

2. Ágreiningsatriði máls þessa varðar eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem nefnt er Þorvaldsdalsafréttur í samnefndum dal, en stefnandi, íslenska ríkið, krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar um að hið umþrætta landsvæði sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Stefndu, sem eru þinglýstir eigendur afréttarins, andmæla kröfu stefnanda og vísa til áðurrakinna málsástæðna sinna auk röksemda óbyggðanefndar.

 

Hið umþrætta landsvæði, Þorvaldsdalsafréttur, er í mið- og syðrihluta Þorvaldsdals, á milli Ytri-Tungudals í suðri og Þverár í Þverárdal í norðri.  Ekki er ágreiningur með aðilum um mörk afréttarins, eins og þeim er lýst í úrskurði óbyggðanefndar.

Landsvæðið Þorvaldsdalsafréttur er að öllu leyti innan marka hins forna Skriðuhrepps.  Til suðurs og suðsausturs nær afrétturinn að eignarlöndum jarða sem eru sunnan Ytri-Tunguár, en norðan árinnar, að austanverðu, er land Fornhaga, sem er hluti Auðbrekkutorfu.  Á milli Fornhaga og afréttarins til vesturs er Fornhagaöxl, sem er syðsti hluti fjalls eða fjalllendis sem gengur til norðurs, en syðsti hluti þess nefnist Auðbrekkufjall.  Til austurs nær afrétturinn upp að brún fjalllendisins, en þar á móti eru jarðir í hinum forna Arnarneshreppi.  Þær tilheyra Galmaströndinni, en þar á meðal er höfuðbýlið og klausturjörðin Möðruvellir, en einnig jörðin Stóra-Brekka.  Nefnist fjalllendið á þessum slóðum Möðruvallafjall, en þegar norðar dregur gengur það undir ýmsum nöfnum, þ. á m. Flár, Hvammsfjall, Reistarárfjall og Vatnshlíðarfjall.  Nyrst er Kötlufjall, en þar í milli er Mjóidalur, sem er óbyggður fjalladalur.  Um Mjóadal rennur Hrafnagilsá til norðvesturs, en hún sameinast Þorvaldsdalsá í utanverðum Þorvaldsdal.  Til norðurs nær afrétturinn að eignarlöndum jarða í hinum forna Árskógsstrandarhreppi, þ. á m. kirkjustaðnum Stærri-Árskógi sem tilheyrir Árskógsströndinni, en bæjarhús jarðarinnar eru austan Þorvaldsdalsár, en norðan Þorvaldsdalsins.  Austan árinnar eru mörk afréttarins á móti suðurmerkjum afbýlis kirkjujarðarinnar, Hrafnagili, við Hrafnagilshraun/Ytra-hestahraun og Refslæk.  Lækurinn kemur úr fyrrnefndu Vatnshlíðarfjalli, en hann er um 7,5 km sunnan við bæjarhús Stærri-Árskógs.  Þar í milli eru auk Hrafnagils fornbýlin Hávarðsstaðir og Þórhallskot.  Vestan Þorvaldsdalsár ná norðurmörk afréttarins að suðurmerkjum kotsins Kúgils við áðurnefnda Þverá, en hún kemur úr Þverárdal, sem er gegnt Refslæk.  Norðan Kúgils eru eyðijarðirnar Grund og Kleif, en nyrst er jörðin Brattavellir, sem landfræðilega hefur verið talin nyrsta jörðin í Þorvaldsdal vestan ár.  Bæjarhús Brattavalla eru gegnt bæjarhúsum Stærri-Árskógs, handan Þorvaldsdalsár.  Nyrstu mörk afréttarins fylgja hreppamörkum til vesturs með Þveránni og upp á háfjallgarðinn austan Skíðadals, við mörk hins forna Svarfaðardalshrepps, en fara þaðan til suðurs og allt að Dyngjuhnúki.  Eftir það fara afréttarmörkin til austurs um Illagilsdal, með Úlfá í miðjum Ytri-Tungudal, en sunnan Úlfáraxlar, og síðan að ármótunum við Lambá, sem rennur suður úr Þorvaldsdal.  Eftir það nefnast þessar ár einu nafni Ytri-Tunguá.  Fara mörk afaréttarins niður með ánni uns kemur að garði, sem er á norðurbakkanum, en hann er spölkorn ofan við Fornhagagil.  Með garði þessum fara mörkin til norðurs og upp áðurnefnda Fornhagaöxl og síðan með fjalllendinu til norðurs.  Sunnan afréttarins og sunnan Ytri-Tunguár er jörðin Dagverðartunga, en land hennar er í breiðu skarði eða dalsmynni í vesturhlíð Hörgárdals, millum Auðbrekkufjalls og Lönguhlíðarfjalls.

 

Líkt og segir í úrskurði óbyggðanefndar, sbr. kafla I.4-5, hér að framan, eru mörk Þorvaldsdalsafréttar, eins og þau eru hér að framan rakin í samræmi við áðurrakin eldri heimildarskjöl, þ. á m. lögfestu frá árinu 1723 og afsals- og landamerkjabréf, sem gerð voru í lok 19. aldar.  Þá eru mörkin í ágætu samræmi við heimildarskjöl nærliggjandi svæða og jarða.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er staðháttum í Þorvaldsdal og þar með á hinum umþrætta afrétti lýst að nokkru.  Er þar einkum stuðst við Lýsingu Eyjafjarðar, Jarðabókina frá 1713 og sýslu- og sóknarlýsingar frá miðri 19. öldinni.  Því til viðbótar er lýsing á afréttinum í áðurröktu jarðamati frá árinu 1849.

Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum málsaðila og staðkunnugum aðila.

Í fyrrnefndu skarði í vesturhlíð Hörgárdals sér í mynni allmargra dala, en frá suðri eru þeir Skriðudalur, Syðri-Tungudalur, Ytri-Tungudalur, Illagilsdalur og margnefndur Þorvaldsdalur.  Óumdeilt er að tveir hinir fyrstnefndu eru eignarlönd, en einnig syðri hluti Ytri-Tungudals.

Suðurmynni Þorvaldsdalsins er vestan og norðvestan jarðanna Dagverðartungu og Fornhaga, nánar tiltekið á milli fyrrnefndra Úlfáraxlar í Illagilsfjalli og Fornhagaaxlar í Auðbrekkufjalli.  Frá bæjarhúsum Fornhaga og vestur að áðurnefndum garði í Fornhagaöxlinni eða Axlarbótinni er um 1 km.  Garður þessi er nefndur landamerkjagarður millum Fornhaga og afréttarlandsins á Þorvaldsdal í dómi sýslumanns Eyjafjarðarsýslu frá árinu 1728.  Frá garðinum er um 1 km að suðurmynni Þorvaldsdals, en þar í milli eru rústir Auðbrekkusels og Fornhagasels.

Þorvaldsdalur liggur sem næst í rétta stefnu norður-suður og er sérkennilegur þar sem hann er opinn í báða enda og tengir hann þannig Hörgárdal og Árskógsströndina að fjallabaki.  Frá Fornhaga liggur forn göngu- og reiðleið norður dalinn og yfir á ströndina.  Það sem einnig einkennir dalinn eru dyngjur og hrúgöld, sem nefnd eru hraun, en þau hafa komið eftir mikil hlaup og hrun úr fjallshlíðum, einkum í ytri dalnum. Dalurinn er frá suðurmynni og norður að nyrsta býlinu í dalnum, Brattavöllum, nálægt 19,5 km.  Þá eru um 12 km frá nefndu syðra mynni norður að nyrstu mörkum hins umþrætta afréttarlands, við Þverá í Þverárdal og Refslæk og Hrafnagilshraun.  Við hin nyrðri mörk eru landfræðileg skil í Þorvaldsdalnum vegna hrunhrúgalds austan og vestan árinnar.

Vesturhlíðar Þorvaldsdals eru víða skornar skörðum, skálum og þverdölum, en mikið og hátt fjalllendi til vesturs skilur hann frá Skíðadal og Svarfaðardal. Austurhlíðar dalsins að sunnanverðu eru nær órofin heild og nefnist í fyrstu Lindahlíð, en síðan Vatnshlíð.  Í dalbotninum syðst rennur fyrrnefnd Lambá, sem kemur úr Lambárdal í vesturhlíðinni, tæpum 4 km frá dalsmynninu í suðri, en þar eru og vatnaskil, nærri Kytruhólum, í tæplega 500 m hæð yfir sjávarmáli.  Á þessu svæði dalsins eru samkvæmt heimildum hleðslur lítilla byrgja, en þar norðan við er upphaf Kytruár sem fellur síðan saman við Nautá, og er þar upphaf Þorvaldsdalsár.  Um 4 km norðan við Lambárdalinn er þverdalur, Nautaárdalur.  Þar í dalsmynninu, í svonefndum Nautártungum eru miklar og sýnilegar tóftir, sem kallaðar eru Tungukot. Norðan Nautárdalsins er unglegt berghlaup, Hestahraun.  Er það álit fræðimanna að það hafi fallið úr austurhlíð aðaldalsins eftir landnám.  Þekkt er að síðast varð þarna hlaup árið 1959. Í norðurhlíð Nautárdals og lítillega norður með vesturhlíð Þorvaldsdalsins er skjólsælasti og gróðurríkasti hluti alls dalsins, Fagrahlíð, en þar skammt norðan við er Grasbyrgishóll og þekkt tóftabrot, sem kallast Lambárkot.  Er þeim marglýst í áðurröktum heimildum.  Frá Nautárdal og norður að mynni Þverárdals og samnefndu gili eru tæpir 4 km, en þar við, í dalbotni aðaldalsins, er nú svonefnt Vatnhlíðarvatn.  Handan vatnsins, í Vatnshlíðinni, er áðurnefndur Refslækur.  Litlu norðar er mikil framhrunsdyngja, sem nær yfir dalinn og nefnist það Hrafnagilshraun austan ár.  Er þarna aðhald fyrir búfénað, sem nefnist Trippagarður.  Vestan ár nefnist framhrunið Kúgilshraun, en þar nærri, á Þveráreyrum, er Þverárrétt.  Síðast mun hafa verið réttað þar haustið 1928.  Þekkt munnmæli eru um að á þessum slóðum hafi verið býli, en engin merki hafa fundist um það.  Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar var á þessum slóðum einnig sel frá Kúgilsbýlinu, en í Jarðabókinni frá 1713 segir að á meðal hlunninda Kúgils hafi verið silungsveiði í samnefndu vatni.  Ætla má að þar sé nú fyrrnefnt Vatnshlíðarvatn.

 

Heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði er helst að finna í Sturlubók og Hauksbók Landnámu.  Í Sturlubók segir:

Um várit gekk Helgi upp á Sólarfjöll;(Hámundarstaðafjall) þá sá hann, at svartara var miklu at sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eptir þat bar Helgi á skip sitt allt þat, er hann átti, en Hámundr bjó eptir. Helgi lendir þá við Galtarhamar; (Festarklettur í Kaupangssveit) þar skaut hann á land svínum tveimr, ok hét gölturinn Sölvi. Þau fundust þremr vetrum síðar í Sölvadal; váru þá saman sjau tigir svína. Helgi kannaði um sumarit herað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness (Gjögurtá)  ok gerði eld mikinn við hvern vatsós ok helgaði sér svá allt herað. Hann sat þann vetr at Bíldsá, en um várit færði Helgi bú sitt í Kristsnes.

Lýsing Hauksbókar um landnám Helga magra hljóðar m.a. svo:

Þann vetr bjó Helgi at Bíldsá, en um sumarit kannaði hann herað allt ok nam Eyjafjörð allan millim Sigluness ok Reynisness ok gerði eld mikinn við hvern vatsós við sjó ok helgaði sér svá allan fjörðinn nesa millim. Einum vetri síðar (færði Helgi bú sitt) í Kristnes.

Jörðin Hámundarstaðir er á ysta hluta Árskógsstrandar, en samnefndur háls skilur að ströndina og Svarfaðardalinn.  Til suðurs frá hálsinum er fjalllendi og nefnist nyrsti hlutinn Hámundarstaðafjall.  Þar sunnan við er Krossafjall með Krosshnjúk, sem er um 890 m yfir sjávarmáli.  Krossafjallið hefur einnig verið nefnt Sólarfjall.  Á láglendinu þar fyrir austan og nærri ströndinni eru áðurnefndar jarðir Brattavellir og Stærri-Árskógur, en þar fyrir innan eru áðurnefndar jarðir og fornbýli Þorvaldsdalsins.  Vestan Þorvaldsdals eru áðurlýst fjalllendi og þverdalir, en þar á móti eru þverdalir Svarfaðar- og Skíðadals.  Alþekktar heimildir eru um að samgöngur hafi verið á milli nefndra dala og Hörgárdals um þverdalina, en örskammt er m.a. frá Klængshólsdal í Skíðadal og austur yfir í Ytri-Tungudal og Illagilsdal.  Einnig er þekkt leið úr Syðri-Sæludal og austur yfir í Derrisdal og Nautárdal, þverdali Þorvaldsdalsins.

 

Samkvæmt Landnámu skipti Helgi magri landi milli ættingja sinna og vina eftir að hann tók land í Eyjafirði.

Um Hörgárdalinn segir að í neðri hluta hans að vestan, frá Hörgá og upp til Myrkár, hafi Geirleifur Hrappsson numið land, en hann reisti bú sitt í Fornhaga.  Þá reisti sonur hans, Björn hinn auðgi, bú sitt í grenndinni, í Auðbrekku, og greina heimildir frá því að þar hafi afkomendur hans búið.

Í Landnámu segir að á meðal þeirra sem komu með Helga magra til landsins hafi verið áðurnefndur Hámundur, en hann var tengdasonur hans, og konungssonur. Fékk Hámundur í sinn hlut Hámundarstaði eftir að Helgi færði sig um set og hélt innar í fjörðinn.  Þá segir frá því að Hámundur hafi eignast „Galmaströnd alla og á milli Svarfaðardals og Hörgárdals og enn fremur að hann hafi gefið Erni frænda sínum lönd þau sem eru fyrir utan Reistará.  Í annarri útgáfu Landnámu segir að land Arnar hafi náð að Hörgá, og að faðir hans, Galmur, hafi líka fengið land á þeim slóðum.  Er frásögn Landnámu að þessu leyti að nokkru brotakennd. Um Örn Galmason segir í hinni fornu heimild að hann hafi áður búið í Þorvaldsdal og að dalurinn sé við hann kenndur.  Ekki hafa varðveist heimildir um nafngift jarðar Arnar í dalnum, en heimildir eru um að hann hafi síðar fært sig um set og þá reist bú sitt í Arnarnesi á Árskógsströndinni.

Í Íslendingasögum, þ. á m. Valla-Ljótssögu, Reykdælasögu, Hávarðarsögu Ísfirðings og í sögu Páls biskups Jónssonar eru vísbendingar sem styðja frásögn Landnámu um að Svarfaðardalur og Þorvaldsdalur, en einnig eftir atvikum Hámundardalur/Hálsdalur, sem einnig hefur verið nefndur Uxnadalur, hafi snemma verið numdir og byggðir.  Að áliti dómsins eru einnig líkindi fyrir því, sé tekið mið af þeim sjónarhóli sem Helgi magri og Hámundur völdu sér af Sólarfjalli/Krossahnjúk, að allt þetta land hafi verið numið í öndverðu.  Hins vegar virðist vera eyða í byggðasögu Þorvaldsdalsins eftir að Örn Galmason færði bú sitt þaðan og allt þar til um árið 1000.  Heimildir greina frá því að um það leyti hafi Hávarður Ísfirðingur og frændi hans Þórhallur reist bú sín á jörðum í Þorvaldsdalnum, sem við þá eru kennd og enn fremur að þeir hafi reist kirkju í dalnum.  Fornbýli þessi eru í norðanverðum dalnum og eru þau því utan ágreiningssvæðis máls þessa.  Af nefndum heimildum virðast jarðirnar Stærri-Árskógur, Kálfskinn, Grund og Brattavellir einnig hafa komið snemma við sögu.  Verður ráðið að þær hafi fljótlega orðið miðstöð Árskógsstrandarinnar, og að hin fyrstnefnda hafi haft þar undirtökin.  Af heimildum verður og ráðið að byggðin á þessu landsvæði hafi haldist stöðug í gegnum aldirnar ef frá er talin byggðin í Þorvaldsdal, sem virðist jafnvel frá upphafi hafa verið breytingum undirorpin og þá væntanlega eftir árferði.

 

Auðbrekka í Hörgárdal var kirkjustaður og fornt höfuðból, sem hafði í öndverðu tengsl við landnámsbýlið Fornhaga, en landsvæði jarðanna, ásamt hjáleigum, hefur um aldir verið nefnt Auðbrekkutorfa.

Samkvæmt heimildum bjuggu á Auðbrekkujörðinni á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og a.m.k. fram á miðaldir efnafólk, en það hafði tengsl við valdamestu ætt Eyjafjarðar, sem bjó á Möðruvöllum í Eyjafjarðardal, sbr. m.a. áðurrakið jarða- og makaskiptabréf frá árinu 1375. Í bréfi þessu, en einnig í kaupbréfinu frá 15. öldinni, eru jarðgæði og hlunnindi Auðbrekku tiltekin.  Í hinu fyrra bréfi er sérstaklega nefnt örnefnið Fagrahlíð, en einnig er minnst á jarðirnar Grund og Brattavelli.  Að áliti dómsins eru líkindi fyrir því að með þessu sé átt við áðurgreint örnefni nærri miðjum Þorvaldsdalnum, en að jarðarheitin varði jarðir í nyrsta hluta hans. Hið sama kemur fram í síðara kaupbréfinu að því er varðar örnefnið Fagrahlíð, en um Grjótárland er sagt að það sé landsvæði sem sé í fremsta hluta Hörgárdals.  Er Grjótárlandið samkvæmt þessu því aðskilið frá landi Auðbrekku og allrar Auðbrekkutorfunnar af nokkrum jörðum, en einnig afréttarlandi, þ. á m. í Skriðudal, þar sem er óumdeilt eignarland.

Landnámsbýlið Fornhagi hefur um aldir verið sjálfstæð jörð, en jarðarinnar er auk Landnámu getið í Íslendingasögum, þ. á m. Víga-Glúmssögu.  Af heimildum verður ráðið að búfjárhagar Fornhaga í heimalandi hafi verið litlir.  Og eins og fyrr var rakið takmarkast landareign jarðarinnar til suðurs af Ytri-Tunguá, en til vesturs fara mörkin upp með ánni, í svonefndu Fornhagagili, og ná að Fornhagaöxlinni.  Vesturmerkin voru staðfest með dómi í héraði árið 1728 gagnvart afréttarlandi Auðbrekku í Illagilsdal, sem er við syðra mynni Þorvaldsdalsins, sbr. að því leyti ákvæði 17. kapítula í Landbrigðaþætti Grágásar og 31. kapítula landleigubálks Jónsbókar.  Það er álit dómsins að í ljósi aðstæðna hafi umræddur löggarður einnig verið vörslugarður fyrir búfénað allrar Auðbrekkutorfunnar gagnvart afréttinum.

 

Landamerkjabréfi Auðbrekkujarðarinnar var þinglýst á manntalsþingi að Skriðu í Hörgárdal árið 1887, en örfáum árum fyrr hafði eigandi Auðbrekku selt afrétt jarðarinnar á Þorvaldsdal.  Mörk afréttarins voru tiltekin í sölubréfinu, en einnig í sérstöku landamerkjabréfi eftir söluna.  Er samræmi með efni þessara heimildarskjala og máldaga Auðbrekkujarðeiganda, sem upplesinn var á manntalsþingi að Skriðu í Hörgárdal árið 1723, en einnig eru merkin í samræmi við fyrrnefndan dóm sýslumanns frá árinu 1728.

 

Eins og rakið er í úrskurði óbyggðanefndar nægir landamerkjabréf ekki eitt og sér til að sanna beinan eignarrétt að landsvæði innan þess.  Verður þannig einnig að líta til annarra atriða sem stutt geta lýsingu þess um merkin og þá m.a. þannig að ekki fari gegn staðháttum, gróðurfari og upplýsingum um nýtingu lands hverju sinni.

Staðháttum og gróðurfari í Þorvaldsdal er að nokkru lýst í úrskurði óbyggðanefndar.  Samkvæmt heimildum eru lyngmóar nú megingróðurlendi dalsins og ná víða upp í 500-600 m hæð, en þar fyrir ofan er víða kræklingalyng, allt upp í 800-900 m hæð.  Þá er fjalldrapi og hrís algengur gróður, en einkum þó í dalsmynninu að suðaustanverðu, en þar er einnig annar innsveitagróður.  Í utanverðum dalnum er ýmiss útsveitagróður.  Eigi er deilt um að gróður hafi allur verið gróskumeiri við landnám en síðar varð eftir miðaldir, en enn er í norðanverðum Þorvaldsdal lágvaxið birkikjarr á nokkrum stöðum, en í Fornhagagilinu, nærri suðurmynni hans, eru að auki m.a. birki- og reynitré.

 

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1713 tilheyrði mið- og syðrihluti Þorvaldsdalsins Auðbrekkujörðinni frá fornu fari, en svæðið var þá í fyrsta skiptið nefnt afréttur jarðarinnar.  Aðrar heimildir greina frá því að landsvæðið hafi verið eign Auðbrekku og enn aðrar, þ. á m. hin elsta frá árinu 1375, greina frá einstökum örnefnum á dalnum er hafi verið innan marka jarðarinnar.  Auk þess að geta um kjarnbesta landið á dalnum, Fögruhlíð, vísa þessar heimildir að áliti dómsins til búskaparnytja, svo sem örnefnin Grasbyrgishóll og Lambárkot. Þá benda heimildirnar, einkum þær elstu, til þess að réttindi Auðbrekku á dalnum hafi verið víðtæk, en að aðrir ábúendur, á Galmaströnd og á Auðbrekkutorfunni, hafi haft þar afréttarítak, ýmist gjaldfrítt eða gegn gjaldi.

Elsta heimildin um kirkjustaðinn Stærri-Árskóg, máldagi Auðunar biskups frá 1318, greinir ekki frá réttindum jarðarinnar á Þorvaldsdal.  Í lok 14. aldarinnar er hins vegar greint frá víðtækum réttindum staðarins á dalnum, m.a. beitarrétti, þ. á m. svína, en einnig segir í heimildum að réttindin hafi tekið til graslesturs, hvannskurðar og veiði.  Þessi réttindi staðarins eru ítrekuð í heimildum eftir þetta, þ. á m. í máldaga biskups árið 1461 og í Jarðabókinni árið 1713, en þá eru þau nefnd ítök.  Að áliti dómsins bendir þetta síðastnefnda, eins og atvikum er háttað, fremur til þess að réttindi Stærri-Árskógs hafi tekið til þröngra og takmarkaðra nota í landi annars aðila. Í því samhengi er til þess að líta að ítrekað er sagt í heimildum að nytjar dalsins hafi verið háðar leyfi jarðeiganda Auðbrekku.  Verður ekki séð að ágreiningur þar um hafi komið fram sem máli skiptir.  Þá þykir almenn fyrirspurn eða tilmæli sýslumanns árið 1794 um notkun afrétta í sýslunni ekki ráða úrslitum að þessu leyti.

Engar áreiðanlegar heimildir eru um byggð í afrétti Þorvaldsdals.  Áðurnefndar mannvistarleifar veita að áliti dómsins þó verulegar vísbendingar um að svo hafi verið, einkum á fyrsta skeiði byggðar í landinu.  Má ráða af heimildum, ummerkjum, en einnig örnefnum, sem vísa til búskaparnytja, að slík búseta hafi helst verið við mynni Nautárdals og eftir atvikum einnig þar skammt norðan við, við Ytri-Lambá, millum þverdalanna Nautár- og Þverárdals.

Heimalönd Auðbrekkutorfunnar liggja austan Auðbrekkufjalls og ná að Hörgá, en að norðan ná þau frá Húsaskarði og suður að Ytri-Tunguá.  Landrýmið er ekki ýkja mikið og má ætla að búskapur á torfunni hafi fyrrum verið háður því að halda mætti búfénaði til beitar vestur Fornhagaöxlina og í dalina norðan Ytri-Tunguár, á Illagilsdal og Þorvaldsdal, líkt og nágrannar þeirra sunnan árinnar í Skriðu gerðu, m.a. á eignarlandi þeirra að fjallabaki, í Skriðudal.

Frá heimalöndum Auðbrekkutorfunnar á afréttinn er um stuttan veg að fara.  Þá eru frá garðinum í Fornhagöxlinni engin náttúruleg skil, sem máli skipta, allt þar til komið er að fjalllendinu í vestri annars vegar og að Hrafnagilshrauni og Þverárgili í norðurhluta Þorvaldsdalsins hins vegar.  Áðurnefndur lög- og vörslugarður í Fornhagaöxlinni, en einnig rústir fornra sela skammt þar framan við, þykja veita slíkum búskaparháttum nokkra stoð, en ekki liggur annað fyrir en að landeigendur og ábúendur torfunnar hafi nýtt allt land sitt eftir aðstæðum á hverjum tíma.

 

Hinar víðtæku nytjar sem heimildir vísa til að Auðbrekkujarðeigendur hafi haft af Þorvaldsdal, ásamt röksemdum stefnda að því er varðar ákvæði Jónsbókar, benda að áliti dómsins frekar til þess að um hafi verið að ræða land sem hafi verið háð beinum eignarrétti.  Ræður því ekki úrslitum að hið umþrætta landsvæði var nefnt afréttur í Jarðabókinni árið 1713.  Er í því viðfangi til þess að líta að samkvæmt heimildum virðist ekki einungis hafa verið um sumarbeit búsmala að ræða á landsvæðinu því að samkvæmt jarðamati frá 1849 var vetrarbeit þar góð á köflum, en einnig fiskveiðar samkvæmt heimildum um kotbýlið Kúgil.

 

Þegar framangreind atriði eru virt í heild, m.a. frásögn Landnámu um landnám í dölunum í ytri- og miðhluta Eyjafjarðar að vestanverðu, sbr. áður tilvitnuð orð; Hámundur heljarskinn eignaðist Galmaströnd alla og á milli Svarfaðardals og Hörgárdals, ásamt hinum sögulegu tengslum Fornhaga og Auðbrekku og allrar Auðbrekkutorfunnar, er að áliti dómsins líklegt að það landsvæði sem nefnt er Þorvaldsdalsafréttur hafi verið numið við upphaf Íslandsbyggðar.  Er í því viðfangi til þess að líta að Þorvaldsdalurinn er umlukinn eignarlandi á allar hliðar, en ekki verður séð að eignarhaldið hafi í raun fallið niður.  Í því samhengi er til þess að líta að hafi beinn eignarréttur stofnast í öndverðu með námi verður samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. í málum nr. 658/2008 og 198/2009, ekki krafist að sýnt sé fram á hvernig sá réttur hafi haldist við, heldur aðeins að hann hafi gert það í raun.  Að þessu sögðu verður að áliti dómsins ekki sú ályktun dregin að tvískipting á landi Auðbrekku, sem í heimildum er lýst, þ. á m. við sölu afréttarins árið 1882, við gerð landamerkjabréfs á árunum 1884/5 og síðar við gerð bréfs um heimajörðina árið 1887, eigi að leiða til mismunar á eignarréttarlegri stöðu jarðarinnar í öndverðu eða síðar.

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á með stefndu að Þorvaldsdalsafréttur hafi tilheyrt Auðbrekku með sama hætti og annað land hennar og sé því eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga.  Þykir í þessu viðfangi fært að líta til dóma Hæstaréttar Íslands, m.a. í málum nr. 48/2004, 448/2006, 536/2006, 24/2007, 722/2009 og 723/2009, auk röksemda óbyggðanefndar og stefndu í máli þessu.  Hefur stefnandi að áliti dómsins því ekki sýnt fram á með málsástæðum sínum að það landsvæði, sem kröfugerð hans tekur til, sé þjóðlenda.  Er kröfum stefnanda, íslenska ríkisins, því hafnað og stendur því úrskurður óbyggðanefndar óhaggaður.  Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum og með hliðsjón af 2. ml. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstri þessum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Eiríks Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknaraðila og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Dalvíkurbyggð og Hörgársveit, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, íslenska ríkisins, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Eiríks Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 1.500.000 krónur.