• Lykilorð:
  • Höfundarréttur
  • Miskabætur
  • Refsiákvörðun
  • Skaðabætur

 

D Ó M U R

 

Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2008 í málinu nr. E-2042/2008:

Inga Birna Dungal

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

gegn

Birtingi útgáfufélagi ehf. 

og

Atla Má Gylfasyni

 (Gunnar Ingi Jóhannsson hdl.)

 

       Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 3. nóvember sl., er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 17. mars sl.

       Stefnandi er Inga Birna Dungal, Stóragerði 8, Reykjavík.

       Stefndu eru Birtingur útgáfufélag ehf., Lynghálsi 5, Reykjavík og Atli Már Gylfason, Austurgötu 22, Reykjanesbæ.

       Dómkröfur stefnanda eru annars vegar fjárkröfur, en hins vegar refsikröfur á hendur stefndu. Endanlegar kröfur hljóða þannig:

Fjárkröfur

1.     Að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur vegna fjártjóns samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972 að fjárhæð 427.200 krónur, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. janúar til 3. apríl 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Til vara er þess krafist að stefnda, Birtingur útgáfufélag ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda fébætur að álitum á grundvelli auðgunar, sbr. 3. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 10. janúar til 3. apríl 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

2.     Að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda miskabætur samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972 að fjárhæð 600.000 krónur, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. janúar til 3. apríl 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

 

Refsikröfur

1.     Að stefndi, Atli Már, verði dæmdur til refsingar fyrir brot gegn 3. gr. og 1. og 2. mgr. 4. gr., sbr. 1. og 3. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, en til vara fyrir brot á 1. mgr. 49. gr, sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

2.     Að stefnda, Birtingur útgáfufélag ehf., verði dæmt til refsingar vegna brota gegn 3. gr. og 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga sbr. 1. og 3. tl. 2. mgr. 54. gr., sbr. 3. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, en til vara vegna brota gegn 1. mgr. 49. gr, sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr., sbr. 3. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

Þá krefst stefnandi að stefndu verði hvor um sig dæmdir til greiðslu málskostnaðar að

skaðlausu, að mati dómsins, og að tildæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.

       Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnufjárhæðir verði verulega lækkaðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

Málsatvik

       Í 2. tölublaði tímaritsins Séð og heyrt, sem kom út 10. janúar 2008, og gefið er út af stefnda, Birtingi útgáfufélagi ehf., birtust ljósmyndir af bandaríska kvikmyndaleikstjóranum Quentin Tarantino í hópi gesta á skemmtistöðum borgarinnar. Leið leikstjórans mun hafa legið á skemmtistaðinn Nasa við Austurvöll. Þar var einnig stefndi, Atli Már Gylfason, ásamt ljósmyndara Séð og heyrt, sem tók ljósmyndir inni á staðnum. Sýndu þær m.a. leikstjórann dansa við og kyssa stúlku að nafni Birgittu Ingu Birgisdóttur. Myndir þessar voru síðar birtar í áðurnefndu tölublaði tímaritsins, en einnig tvær aðrar ljósmyndir, sem stefnandi kveðst hafa tekið á öðrum skemmtistað í borginni af leikstjóranum og vinkonu sinni, fyrrnefndri Birgittu Ingu Birgisdóttur, og síðan vistað á vefsvæði sínu, www.myspace.com/inzbinz. Voru þær ljósmyndir annars vegar birtar á forsíðu tímaritsins, en einnig á blaðsíðu fimm og sex.

       Stefnandi heldur því fram að stefndi, Atli Már, hafi farið inn á vefsvæði hennar, búið til eintök af myndunum og birt þær í tímaritinu, án hennar leyfis og án þess að hún væri nafngreind sem höfundur, þótt ljóst væri að verkin nytu verndar höfundalaga nr. 73/1972.

Stefndu halda því hins vegar fram að stefndi, Atli Már, hafi haft samband við Birgittu Ingu Birgisdóttur með ósk um að fá fleiri myndir til birtingar en þær sem ljósmyndari tímaritsins tók í umrætt sinn. Hafi Birgitta sent honum nokkrar myndir af sér, sem ekki hafi þó reynst nógu góðar vegna lélegrar upplausnar þeirra. Birgitta hafi því bent stefnda, Atla Má, á að betri myndir af sér væri að finna á vefsvæði vinkonu sinnar, stefnanda í máli þessu, og mæltist um leið til þess að stefndi sækti um aðgang að vefsvæðinu. Hafi stefndi gert svo, og mjög fljótlega fengið aðgang að vefsvæðinu. Þar hafi verið fjöldi ljósmynda, en engin sérstaklega merkt höfundi. Af þeim hafi stefndi, Atli Már, valið þær ljósmyndir sem um er deilt í máli þessu. 

       Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, Birtings útgáfufélags ehf., 2. mars. sl., var þess krafist að útgáfufélagið greiddi stefnanda skaðabætur vegna brota stefndu á höfundarrétti stefnanda, og var frestur veittur til 7. mars. sl. Stefndu höfnuðu kröfunni og höfðaði stefnandi mál þetta í kjölfarið.  

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

       Stefnandi byggir á því að stefndu hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi brotið gegn hagsmunum stefnanda, sem verndaðir séu af ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972 og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum. Einkum sé hér um að ræða brot gegn 1., 2., 3. og 4. gr. höfundalaga, eða eftir atvikum 1. mgr. 49. gr., sem stefndu beri refsi- og fébótaábyrgð á samkvæmt 54. og 56. gr. sömu laga á grundvelli sakarreglunnar og meginreglu skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna sinna.

       Fjárkröfur stefnanda eru á því reistar að hún hafi tekið þær tvær ljósmyndir sem birtar hafi verið á tveimur stöðum í 2. tölublaði Séð og heyrt 2008, og sé því höfundur að ljósmyndunum og eigi eignarrétt að þeim, sbr. 1. mgr. 1. gr. höfundalaga. Í því ákvæði sé kveðið á um að höfundur eigi eignarrétt á bókmennta- eða listaverki, með þeim takmörkunum sem greini í II. kafla laganna, sem ekki eigi þó við í þessu tilviki. Í 2. mgr. 1. gr. sömu laga segi síðan að ljósmyndalist falli undir ákvæði 1. mgr. 1. gr. Að dómi stefnanda liggi fyrir að ekki séu gerðar strangar kröfur til listfengis og frumleika til þess að ljósmynd teljist til höfundarverks í skilningi höfundaréttar. Með því að búa til eintök af ljósmyndunum og birta þær í umræddu tímariti, án leyfis höfundar, hafi stefndu brotið gegn eignarrétti stefnanda, en einnig gegn 2., sbr. og 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972, þar sem mælt sé fyrir um einkarétt stefnanda til eintakagerðar og útgáfuréttar. Um leið hafi stefndu einnig brotið gegn 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga, þar sem kveðið sé á um einkarétt höfundar til að birta verk sín í  upphaflegri mynd eða breyttri. Verk teljist birt þegar það sé með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega eða eintök af því gefin út. Að áliti stefnanda sé hér um að tefla grundvallarréttindi höfundar, en réttur höfundar til að ráða því sjálfur hvar, hvernig og hvenær hann birtir verk sín og í hvaða samhengi sé höfundum dýrmætur.

       Stefnandi bendir einnig á að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1972 sé skylt, eftir því sem við geti átt, að geta nafns höfundar þegar verk sé birt. Með því að geta ekki stefnanda sem höfundar þegar myndir hennar voru birtar, telur stefnandi að stefndu hafi brotið gegn nafngreiningarrétti hennar. Raunar telur stefnandi að stefndu hafi gengið enn lengra með því láta líta svo út að myndirnar væru úr ljósmyndasafni stefnda, Birtings útgáfufélags ehf. Þá telur stefnandi að stefndu hafi einnig brotið alvarlega gegn sæmdarrétti höfundar með því að birta myndir stefnanda með fyrirsögninni „Í sleik á Nasa!“ Í því sambandi vísar stefnandi til 2. mgr. 4. gr. höfundalaga. Stefnandi vísar ennfremur til 3. mgr. 4. gr. sömu laga, þar sem fram kemur að afsal höfundar á réttindum samkvæmt 4. gr. sé ógilt, nema um einstök tilvik sé að ræða, sem eru skýrt afmörkuð um tegund og efni. Því telur stefnandi ljóst að á stefndu hafi hvílt ótvíræð lagaskylda til að geta nafns stefnanda við birtingu myndanna.

       Stefnandi byggir einnig á því að verði ekki fallist á að ljósmyndir stefnanda teljist verk í skilningi 2. mgr. 1. gr. höfundalaga, þá njóti ljósmyndirnar fullrar verndar á grundvelli 1. mgr. 49. gr. laganna. Á þeim forsendum hafi stefndu brotið gegn skýrum og ótvíræðum rétti stefnanda, m.a. sæmdarrétti, rétti til eftirgerðar og birtingar ljósmyndanna, og beri þeir skaðabótaábyrgð á fjárhagslegu og ófjárhagslegu tjóni stefnanda vegna þessara réttarbrota. Þá heldur stefnandi því fram að ákvæði 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga gildi um ljósmyndir sem njóti verndar 1. mgr. 49. gr. laganna, eða eftir atvikum megi beita ákvæðinu með lögjöfnun um höfunda slíkra mynda.

       Til stuðnings kröfu sinni um skaðabætur og refsingu stefndu vísar stefnandi til 54. og 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Telur stefnandi að brot stefndu séu stórfelld og beri við mat á hæfilegum skaðabótum að horfa til þess að Séð og heyrt sé gefið út í hagnaðarskyni og í stóru upplagi. Telur stefnandi að hvert tölublað sé prentað í 10-12.000 eintökum og sé því útbreiðsla þess mikil. Þá beri að líta til þess að ljósmyndir stefnanda birtust á tveimur stöðum í blaðinu, m.a. á forsíðu þess, og hafi verið notaðar til að auka sölu þess og myndskreyta eina aðalfrétt blaðsins.

       Um fjárhæð skaðabóta kveðst stefnandi leggja gjaldskrá Myndstefs til grundvallar. Samkvæmt henni hafi stefnandi átt rétt á 71.200 krónum fyrir birtingu mynda sinna, að því þó gefnu að myndirnar hafi verið birtar með leyfi stefnanda og að upplag tímaritsins sé meira en 10.000 eintök. Þar sem hins vegar um óbirt myndverk hafi verið að ræða, myndirnar birtar án leyfis stefnanda og í ágóðaskyni, telur stefnandi að hæfileg greiðsla til hennar sé sexföld sú fjárhæð, eða alls 427.200 krónur. Að því er varðar ábyrgðargrundvöll stefnda, Atla Más Gylfasonar, kveðst stefnandi vísa til sakarreglunnar, en  til reglunnar um vinnuveitandaábyrgð að því er tekur til Birtings útgáfufélags ehf. Í báðum tilvikum eigi reglurnar sér stoð í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972.

 

       Varakrafa stefnanda á hendur stefnda, Birtingi útgáfufélagi ehf., um fébætur að álitum á grundvelli auðgunar, er byggð á 3. mgr. 56. gr. höfundalaga. Um hlutlæga ábyrgðarreglu sé að ræða og því þurfi ekki að sanna sök á stefndu eða starfsmann hans til þess að bætur sé dæmdar samkvæmt greininni. Krafan byggist á því að stefndu hafi ekki upplýst stefnanda um upplag 2. tölublaðs tímaritsins 2008, né látið í té upplýsingar um sölu þess og framlegð.

       Krafa stefnanda um miskabætur er byggð á 2. mgr. 56. gr. höfundalaga. Auk þeirra atriða sem áður hafa verið nefnd, telur stefnandi að við mat á  miskabótum beri einnig að líta til ófyrirleitinnar háttsemi stefndu eftir að stefnandi hafi tekið ákvörðun um að leita réttar síns. Í því sambandi nefnir stefnandi sérstaklega skrif og myndbirtingar stefndu um stefnanda í 10. tölublaði Séð og heyrt 2008. Byggt er á því að sú óviðeigandi framkoma stefnda, Atla Más, og annarra starfsmanna stefnda, Birtings útgáfufélags ehf., hafi fengið á stefnanda andlega, valdið henni óöryggi og stuðlað að því að virðing hennar hafi beðið hnekki.

       Við mat á fjárhæð miskabótakröfunnar telur stefnandi að líta beri til þess að stefndu hafi tekið tvö höfundarverk hennar og birt þau hvort um sig á tveimur stöðum í umræddu tölublaði Séð og heyrt. Sanngjarnar miskabætur fyrir birtingu hvorrar ljósmyndar á forsíðu telur stefnandi vera 200.000 krónur, en 100.000 krónur fyrir hvora ljósmynd á innsíðum blaðsins. Samkvæmt því nemi miskabótakrafa stefnanda alls 600.000 krónum. Tekur stefnandi fram að almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna mæli með því að stefnanda verði dæmdar háar miskabætur.

       Krafa stefnanda um refsingu stefnda, Atla Más Gylfasonar, er studd þeim rökum að hann hafi með saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn skýrum og ótvíræðum rétti stefnanda, sem verndaður sé af ákvæðum höfundalaga. Vísar stefnandi til 54. gr. höfundalaga, en heimild stefnanda til að höfða einkarefsimál á hendur stefnda byggist á 1. mgr. 59. gr. sömu laga. Telja verði að um ásetningsbrot hafi verið að ræða hjá stefnda, Atla Má, þar sem honum hafi verið fullljóst að hann þyrfti leyfi stefnanda til að gera eintök af myndum, sem vistaðar voru á vefsvæði stefnanda, og birta þær í Séð og heyrt.

       Verði ekki á það fallist að um ásetningsbrot hafi verið að ræða, telur stefnandi brot stefnda falla undir stórkostlegt gáleysi, og með því sé uppfyllt skilyrði 54. gr. laga nr. 73/1972 til að dæma Atla Má til refsingar fyrir brot hans. Við ákvörðun refsingar beri að horfa til þess að brotin voru framin í ágóðaskyni, svo og til þess að Atli Már hafi, í stað þess að iðrast gjörða sinna, ákveðið að ná sér niðri á stefnanda fyrir það eitt að hún skyldi leita réttar síns, og skrifað um hana óbilgjarna og óskammfeilna grein sem birst hafi í 10. tölublaði tímaritsins.

       Hvað varðar heimfærslu til refsiákvæða kveðst stefnandi aðallega byggja á því að stefndi Atli hafi gerst brotlegur við 3. gr. og 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga, og því beri að dæma hann til refsingar á grundvelli 1. og 3. tl. 2. mgr. 54. gr. þeirra laga. Til vara séu brot hans heimfærð undir 1. mgr. 49. gr. sömu laga, sem þá þýði að honum verði gerð refsing á grundvelli. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. laganna.

       Krafa stefnanda um refsingu á hendur stefnda, Birtingi útgáfufélagi ehf., er byggð á sömu sjónarmiðum og að ofan greinir, en refsiábyrgð félagsins leiði af saknæmri og ólögmætri háttsemi Atla Más Gylfasonar, sbr. 3. mgr. 54. gr. höfundalaga. Um heimfærslu til refsiákvæða er vísað  til sömu ákvæða höfundalaga.

       Til stuðnings kröfu um vexti og dráttarvexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í 8. gr. þeirra laga segi að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað, í þessu tilviki frá birtingu ljósmyndanna, 10. janúar 2008. Krafa um dráttarvexti er byggð á heimild í 9. gr. sömu laga, þar sem segi að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn sé mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi lagði  fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi stefndu verið sent kröfubréf og greiðsluáskorun 3. mars. sl., og er því krafist dráttarvaxta frá 3. apríl 2008 til greiðsludags. Um varnarþing stefndu er vísað til 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefndu og lagarök

       Stefndu byggja í fyrsta lagi á því að ósannað sé að umræddar ljósmyndir séu verk stefnanda og hafi engin gögn verið lögð fram því til staðfestingar. Rétt sé hins vegar að myndirnar hafi verið vistaðar á „Myspace“ vefsvæði stefnanda, þótt það sé engin trygging fyrir því að stefnandi njóti höfundarréttar á þeim, enda alþekkt að á vefsvæðum sem þessum sé myndum deilt milli vina og kunningja, sérstaklega myndum af fólki úti að skemmta sér. Benda stefndu á að fjöldi vefsvæða sé rekinn í þeim tilgangi að birta ljósmyndir af fólki að skemmta sér, og að algengt sé að fólk sem þekkir sig eða kunningja sína á myndum á slíkum vefsvæðum, birti sömu myndir á eigin svæðum. Því geti verið erfitt að segja til um hvaðan myndir sem eingöngu eru settar á netið til birtingar séu komnar, og hver hafi tekið hvaða mynd.

       Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefndi, Atli Már, hafi eingöngu átt samskipti við Birgittu Birgisdóttur, sem hafi komið fram sem eigandi myndanna og heimilað afnot af þeim. Hafi Birgitta sent stefnda, Atla Má, nokkrar andlitsmyndir af sér í tölvupósti og komi þar ekki annað fram en að hún sé eigandi þeirra. Þá komi þar heldur ekki annað fram en að hún hafi verið eigandi umræddra mynda, eða a.m.k. notið heimildar til að afhenda til birtingar þær myndir sem vistaðar hafi verið á vefsvæði stefnanda. Fullyrða stefndu að þeir hafi aldrei haft réttmæta ástæðu til að ætla annað en að Birgitta ætti  myndirnar eða hefði a.m.k. haft leyfi til að afhenda þær til birtingar. Telja þeir ósannað að Birgitta eigi ekki umræddar myndir eða hafi ekki haft leyfi til að afhenda þær til birtingar í Séð og heyrt. Í öllu falli hafi stefndu ekki framið brot gegn höfundalögum.

       Þá byggja stefndu á því að umræddar myndir falli að öllum líkindum undir ákvæði 1. mgr. 49. gr. höfundalaga, um ljósmyndir sem ekki njóti verndar laganna sem listaverk. Samkvæmt því njóti ljósmyndarinn, eða sá aðili sem rétt hans hafi hlotið, þeirrar verndar sem ákvæðið mæli fyrir um. Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á né gert það líklegt að hún hafi tekið umræddar ljósmyndir, telja stefndu að Birgitta Birgisdóttir sé sá aðili sem njóti réttar yfir myndunum. Í ljósi þess að myndbirtingin hafi verið að hennar frumkvæði og með hennar samþykki, telja stefndu sig ekki hafa framið brot gegn höfundalögum. Því beri að sýkna þá af dómkröfum stefnanda.

       Verði talið að stefndu hafi framið saknæmt brot gegn stefnanda benda stefndu á að krafa stefnanda sé krafa um greiðslu fébóta, sbr. 1. mgr. 56. höfundalaga, en samkvæmt því ákvæði sé einungis heimilt að dæma fébætur þegar saknæmt brot á lögunum hefur haft fétjón í för með sér. Almennar reglur fébótaréttar miði að því að gera tjónþola sem líkast settan fjárhagslega og áður en tjónið varð. Tjónþoli eigi því ekki að hagnast á skaðabótaskyldu atviki. Grundvöllur fébóta á sviði höfundaréttar sé bætur fyrir tekjumissi eða tapaðan ágóða. Halda stefndu því fram að stefnandi hafi ekki orðið af neinum tekjumissi eða töpuðum ágóða vegna birtingar myndanna. Þar sem stefnandi hafi ekki fært sönnur á tjón sitt verði hún að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Stefndu benda einnig á að umræddar ljósmyndir höfðu þegar verið birtar opinberlega á vefsetri stefnanda og hugsanlega víðar. Stefnandi hefði því aldrei getað selt myndirnar sem óbirt verk. Þvert á móti hafi stefnandi verið búin að gera myndirnar aðgengilegar öllum umheiminum þannig að hver sem er gæti gert eintak af myndunum til einkanota á grundvelli höfundalaga. Með ofangreint í huga telja stefndu að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjóni og eigi því enga kröfu til fébóta. Af þeim sökum beri að sýkna stefndu af kröfu stefnanda um greiðslu fébóta.

       Auk ofangreinds benda stefndu á að stefnandi rökstyðji kröfu sína með vísan til verðskrár Myndstefs, hagsmunasamtaka á sviði höfundaréttar á myndverkum, án þess að stefnandi sé aðili að þeim hagsmunasamtökum svo vitað sé. Verðskráin sé einungis lögð til grundvallar fyrir félagsmenn þeirra aðildarfélaga, sem eigi aðild að samtökunum, enda endurspegli hún þá þekkingu og menntun sem félagsmenn búi yfir. Stefndu sé ekki kunnugt um að stefnandi, eða sá sem myndirnar tók, búi yfir menntun á sviði ljósmyndunar eða hönnunar, eða hafi hlotið löggildingu sem ljósmyndari. Því stoði ekki stefnanda að miða bótakröfu sína við verðskrá atvinnumanna í ljósmyndun, sem hlotið hafi löggildingu í faginu. Þá telja stefndu að stefnandi hafi með engu móti rökstutt á hvaða grundvelli hún telji hæfilega greiðslu vera sexfalda fjárhæð samkvæmt gjaldskrá Myndstefs. Minna þeir á að krafa stefnanda sé krafa um skaðabætur og eigi sem slík að gera tjónþola jafn settan og fyrir meint tjón. Með sömu rökum telja stefndu að engar forsendur séu til þess að dæma stefnanda skaðabætur að álitum.

       Til vara krefjast stefndu þess, verði talið að þeir hafi framið saknæmt brot gegn stefnanda, að stefnanda verði í mesta lagi dæmd þóknun á grundvelli 1. mgr. 49. gr. höfundalaga. Af ákvæðinu sé ljóst að óheimilt sé að dæma skaðabætur vegna brota gegn höfundarétti á ólistrænum ljósmyndum, einungis sé heimilt að dæma þóknun. Eðli máls samkvæmt sé þóknun allt önnur og mun lægri fjárhæð en skaðabætur.

       Krafa stefnda, Birtings útgáfufélags ehf., um sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu fébóta að álitum samkvæmt 3. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972, er studd þeim rökum að félagið hafi ekki framið saknæmt brot gegn stefnanda, og því sé enginn grundvöllur til að dæma fébætur á grundvelli auðgunar. Verði allt að einu talið að stefndi hafi valdið réttarröskun gegn stefnanda, bendir stefndi á að skilyrði 3. mgr. 56. gr. fyrir því að dæma bætur á grundvelli auðgunar sé að bæturnar megi ekki nema hærri fjárhæð en ávinningi af brotinu. Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á meintan ávinning stefnda af hinu meinta broti, liggi hvorki fyrir sönnun um að auðgun hafi orðið af brotinu, né um fjárhæð ávinnings. Því beri að sýkna stefnda af þessari kröfu stefnanda.

       Stefndu hafna kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972, þar eð þeir hafi ekki framið saknæmt brot gegn stefnanda og því sé enginn grundvöllur til að dæma fébætur. Að auki benda þeir á að stefnandi krefjist þess að við mat á miskabótum beri að líta til „ófyrirleitinnar háttsemi stefndu“, sem samkvæmt stefnu hafi „fengið á stefnanda andlega, valdið henni óöryggi og stuðlað að því að virðing hennar hafi beðið hnekki“, eins og það sé orðað í stefnu. Tilvitnað ákvæði 2. mgr. 56. gr. höfundalaga heimili hins vegar einungis að dæma miskabætur vegna brota á höfundalögum. Ekkert þeirra atriða sem stefnandi vísi til hér að framan geti því talist verndað andlag ákvæðisins. Jafnframt árétta stefndu að óheimilt sé að bæta ófjárhagslegt tjón líkt og miskabætur, nema til þess standi lagaheimild. Stefnandi vísi hins vegar aðeins til 2. mgr. 56. gr. höfundalaga kröfu sinni til stuðnings. 

       Telji dómurinn hins vegar að stefndu hafi brotið gegn höfundalögum, gera þeir kröfu um að miskabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega, og benda á að krafan næði þá einungis til þess að bæta ófjárhagslegt tjón vegna tveggja ljósmynda, sem umdeilt er hvort telja megi til listaverka eða ólistrænna mynda, sbr. 1. mgr. 49. gr. höfundalaga. Myndirnar hafi auk þess áður verið birtar opinberlega af stefnanda. Þá halda stefndu því fram að tilefni hafi verið til umfjöllunarinnar á þeim tíma sem myndirnar birtust, og að umfjöllunin hafi átti erindi til almennings.

       Sýknukrafa stefnda, Atla Más, af refsikröfu stefnanda byggist á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hún njóti höfundarréttar að umræddum ljósmyndum. Ekki liggi ekki annað fyrir en að höfundarréttur að myndunum sé hjá Birgittu Birgisdóttur, sem hafi heimilað stefnda eintakagerð og birtingu myndanna. Umrædd Birgitta hafi heldur ekki óskað eftir því að vera tilgreind sem höfundur myndanna og hafi því nafngreiningarréttur ekki átt við í þessu tilviki. Jafnframt telur stefndi að framlögð gögn beri það með sér að Birgittu hafi verið fullljóst í hvaða samhengi myndirnar yrðu birtar og hafi hún lýst sig samþykka því. Með vísan til þessa beri því að sýkna stefnda af refsikröfu stefnanda.

       Verði talið að stefnandi njóti höfundarréttar að myndunum og að stefndi hafi gerst brotlegur við höfundalög, krefst stefndi engu að síður sýknu með vísan til þess að meint brot hafi einungis verið framin af gáleysi. Er krafa hans á því reist að meint brot hafi hvorki verið framið af ásetningi né stórfelldu gáleysi, eins og höfundalögin áskilji. Um leið er því mótmælt sem röngu að honum hafi verið fullljóst að hann þyrfti leyfi stefnanda til að gera eintök af myndunum. Áréttar hann að Birgitta Birgisdóttir hafi í samskiptum við hann  komið fram sem höfundur umræddra mynda og hafi honum því verið rétt að líta svo á að Birgitta nyti allra heimilda yfir myndunum. Birgitta hafi sent stefnda margar myndir af sér og síðar vísað honum á umræddar myndir, án þess að geta þess að annar en hún ætti myndirnar. Stefnandi hafi um leið opnað fyrir aðgang stefnda að myndunum. Með þetta í huga telur stefndi að meint brot hans geti einungis talist framið af gáleysi. Því sé ekki heimilt að gera honum refsingu á grundvelli höfundalaga.

       Röksemdir fyrir sýknu stefnda, Birtings útgáfufélags ehf., af refsikröfu stefnanda eru hinar sömu og fyrir sýknukröfu stefnda, Atla Más.

       Stefndu mótmæla vaxtakröfu stefnanda í öllum liðum, og krefjast þess jafnframt að dráttarvextir af þeim kröfum sem kunna að verða dæmdar, verði í fyrsta lagi ákveðnir frá uppsögu dómsins.

       Um lagarök er vísað til 3. og 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972, 49. gr. laganna, sem og til VII. kafla þeirra.

 

Munnlegar skýrslur fyrir dómi

       Auk stefnanda og stefnda, Atla Más Gylfasonar, gaf skýrslu fyrir dóminum vitnið Birgitta Inga Birgisdóttir.

       Í máli stefnanda kom fram að hún hefði tekið þær tvær ljósmyndir sem um er deilt í máli þessu á skemmtistaðnum B5 28. desember 2007, er hún og vinkona hennar, Birgitta Inga Birgisdóttir, hefðu verið að skemmta sér þar. Myndirnar hefði hún síðan sett inn á „Myspace“ vefsvæði sitt, en þar geymi hún ljósmyndir sem hún hafi tekið eða aðrir tekið á hennar ljósmyndavél. Aðgangur að svæðinu sé læstur og geti aðeins hún samþykkt aðgang að svæðinu. Taldi hún að alls hefðu um 550 einstaklingur aðgang að vefsvæði hennar.

       Aðspurð sagðist stefnandi ekki þekkja stefnda, Atla Má Gylfason, en kannaðist við að hafa samþykkt aðgang fyrir hann að vefsvæði sínu. Hann hafi þó ekki kynnt sig sem blaðamann á Séð og heyrt og þvertók hún fyrir að hafa veitt honum heimild til að birta myndir af vefsvæðinu, enda hefði hann aldrei leitað eftir samþykki hennar. Tók hún fram að Atli Már hefði aldrei rætt við hana símleiðis fyrr en eftir útgáfu tímaritsins og birtingu ljósmyndanna. Það samtal hefði þó einkum snúist um viðbrögð tímaritsins við bréfi frá lögmanni hennar.

       Stefnandi kvaðst hafa vitað að Atli Már hefði haft samband við Birgittu Ingu við vinnslu umfjöllunar um dvöl Quentin Tarantino hér á landi. Hins vegar hefði hún ekki vitað að tímaritið myndi birta hennar ljósmyndir með umfjöllun sinni, enda hefði hún ekki gefið leyfi til slíks.

       Í máli stefnda, Atla Más Gylfasonar, kom fram að hann hefði starfað sem blaðamaður í sjö ár hjá ýmsum fjölmiðlum. Í umrætt sinn kvaðst hann hafa hringt í Birgittu Ingu Birgisdóttur við vinnslu umfjöllunar Séð og heyrt um dvöl kvikmyndaleikstjórans hér á landi, og átt við hana viðtal. Jafnframt hafi hann spurt hana hvort hún ætti myndir sem gætu fylgt umfjölluninni, þar sem myndir ljósmyndara Séð og heyrt væru ekki nógu góðar. Hafi Birgitta Inga þá bent honum á að fleiri myndir væri að finna á vefsvæði stefnanda og skyldi hann fara þangað í leit að betri myndum. Vefsvæðið hafi hins vegar reynst læst og hafi hann því sótt um aðgang. Birgitta Inga hafi jafnframt sagt honum að  hún myndi láta stefnanda vita af erindi hans svo hann fengi aðgang að vefsvæði hennar og gæti sótt þangað ljósmyndir. Stuttu síðar sama dag hafi verið opnað fyrir aðgang hans að vefsvæðinu og hafi hann sótt myndirnar þangað, með samþykki Birgittu Ingu, að því er hann taldi. Kvað hann Birgittu Ingu hafa hringt í sig og sagt sér að stefnandi væri búinn að opna fyrir aðgang hans. Sérstaklega aðspurður sagðist stefndi ekki hafa vitað að stefnandi hefði tekið umræddar ljósmyndir.  

 

       Birgitta Inga Birgisdóttir sagði fyrir dómi að stefndi, Atli Már, hefði hringt í sig og sagt sér að hann væri að skrifa frétt í Séð og heyrt um dvöl Quentin Tarantino hér á landi og vinfengi hans við vitnið og vinkonu hennar, stefnanda í máli þessu. Hafi hann átt við hana stutt viðtal um kynni sín af leikstjóranum og hafi hann sagt henni að hann hefði nokkrar ljósmyndir sem myndu fylgja fréttinni. Eftir það hafi þau aðeins átt í tölvusamskiptum. Í þeim samskiptum hefði Atli Már sagt að ljósmyndir ljósmyndara Séð og heyrt væru ekki nógu góðar og því spurt hana hvort hún ætti einhverjar myndir, sem gætu fylgt fréttinni. Hefði hún sent honum tvær ljósmyndir, en neitaði því ítrekað að hafa bent honum á ljósmyndir á vefsvæði stefnanda. Kvaðst hún aldrei hafa hringt í stefnda, Atla Má, hvorki til þess að segja honum að búið væri að opna fyrir aðgang hans að vefsvæði stefnanda, né af öðru tilefni.

       Vitnið tók fram að Atli Már hefði lofað sér að sýna henni þær ljósmyndir sem áttu að fylgja umfjöllun tímaritsins, áður en það kæmi út. Hann hefði þó ekki gert það og borið því að við að einhver tölvugalli stæði því í vegi. Því hefði hún ekki vitað hvaða ljósmyndir yrðu birtar. Aðspurt sagði vitnið ennfremur að hún hefði rætt við stefnanda eftir samtal sitt við stefnda, Atla Má, og áður en tímaritið kom út. Hefði stefnandi spurt hana hvaða ljósmyndir yrðu birtar með umfjöllun Séð og heyrt og hafi hún ekki sagst vita það. Sérstaklega spurð um þær ljósmyndir, sem um er deilt í máli þessu, sagði Birgitta Inga að stefnandi hefði tekið þær.

       Ekki þykir þörf á að rekja frekar munnlegar skýrslur fyrir dóminum.

 

       Niðurstaða

       Ágreiningur þessa máls lýtur að tveimur ljósmyndum, sem birtust í 2. tölublaði tímaritsins Séð og heyrt 10. janúar 2008, með umfjöllun tímaritsins um heimsókn kvikmyndaleikstjórans Quentin Tarantino á veitingahús borgarinnar um síðastliðin áramót. Önnur ljósmyndin sýnir leikstjórann sitja á milli tveggja stúlkna og halda utan um þær. Er önnur stúlkan Birgitta Inga Birgisdóttir. Hin ljósmyndin sýnir leikstjórann halla sér að vanga Birgittu Ingu Birgisdóttur, án þess að séð verði hvort hann sé að hvísla í eyra hennar eða kyssa hana. Myndir þessar voru birtar á blaðsíðu fimm og sex, ásamt fleiri ljósmyndum sem teknar voru við sama tækifæri, en einnig í smækkaðri mynd á forsíðu tímaritsins. Fyrirsögnin við umfjöllun blaðsins er „Í sleik á Nasa!“, og er sami texti undir þeim ljósmyndum sem birtust á forsíðu. Ekki verður með neinu móti séð að fyrirsögnin eigi við um ljósmyndir stefnanda. Fram kemur að texti sé ritaður af Atla Má, en myndir séu úr safni.

       Stefnandi hefur borið fyrir dómi að hún hafi tekið umræddar ljósmyndir á ljósmyndavél sína á skemmtistaðnum B5 28. desember 2007 og vistað þær síðan á læstu vefsvæði sínu. Vitnið Birgitta Inga hefur staðfest að stefnandi hafi tekið ljósmyndirnar, en óumdeilt er að stefndi, Atli Már Gylfason, sótti myndirnar á vefsvæði stefnanda. Þykir dóminum enginn vafi leika á því að stefnandi sé eigandi ljósmyndanna tveggja og höfundur þeirra í skilningi höfundalaga nr. 73/1972.

       Dómurinn getur ekki fallist á að umræddar ljósmyndir teljist listaverk í skilningi 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972. Til þess þykir þær skorta bæði listræna sköpun og frumleika. Því falla þær ekki undir höfundaréttarvernd höfundalaganna, sbr. 2.– 4. gr. þeirra laga. Hins vegar nýtur stefnandi réttarverndar samkvæmt 1. mgr. 49. gr. sömu laga, en þar segir að eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóti verndar sem listaverk, sé óheimil án samþykkis ljósmyndara eða þess aðila, sem rétt hans hafi hlotið. Ennfremur segir þar að óheimilt sé að birta slíkar ljósmyndir án samþykkis rétthafa.

       Til stuðnings aðalkröfu sinni, um greiðslu skaðabóta úr hendi stefndu, vísar stefnandi til 1. mgr. 56. gr. höfundalaga. Er á því byggt að stefndu hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið stefnanda fjártjóni sem beri að bæta eftir almennum reglum fébótaréttar. Um fjárhæð bótakröfunnar vísar stefnandi til gjaldskrár Myndstefs, en samkvæmt henni hafi stefnandi átt rétt á 71.200 krónum fyrir birtingu mynda sinna, að því þó tilskildu að myndirnar hafi verið birtar með leyfi hennar og að upplag tímaritsins sé meira en 10.000 eintök. Þar sem myndirnar hafi hins vegar verið óbirt myndverk, þær birtar án leyfis höfundar og í ágóðaskyni, telur stefnandi hæfilegar bætur vera 427.200 krónur, eða sexfalda fjárhæð samkvæmt gjaldskrá Myndstefs. Stefndu hafa bæði mótmælt sakarábyrgð og fjárhæð bótanna, og benda á að stefnandi sé ekki aðili að Myndstefi og hafi ekki þá þekkingu og menntun sem félagsmenn Myndstefs búi yfir. Við munnlegan flutning málsins byggðu stefndu einnig á því að sýkna bæri þá af öllum kröfum  stefnanda, þar eð ljósmyndir stefnanda væru háðar þeim takmörkunum sem kveðið væri á um í II. kafla höfundalaga nr. 73/1972, einkum 15. gr. laganna. Stefnandi mótmælti þeirri málsástæðu sem of seint fram kominni. Verður niðurstaða málsins ekki byggð á þeirri málsástæðu, enda þykir tilvitnað ákvæði ekki heldur hafa þýðingu í máli þessu.

       Stefnandi hefur fyrir dómi neitað því að hafa veitt stefnda, Atla Má, heimild til að birta umræddar ljósmyndir í Séð og heyrt, enda hafi hann aldrei leitað eftir samþykki hennar. Hins vegar viðurkenndi hún að hafa veitt honum aðgang að vefsvæði sínu, þar sem ljósmyndirnar voru vistaðar. Stefndi, Atli Már, viðurkenndi fyrir dómi að hann hefði sótt myndirnar á vefsvæði stefnanda eftir að stefnandi hafði veitt honum aðgang að vefsvæðinu, en taldi hins vegar að Birgitta Inga Birgisdóttir hefði samþykkt birtingu þeirra. Birgitta Inga Birgisdóttir neitaði því aftur á móti að hafa bent á ljósmyndir á vefsvæði stefnanda, eða að hafa veitt samþykki sitt fyrir birtingu annarra ljósmynda en þeirra sem hún sjálf sendi Atla Má.

       Meðal gagna málsins er tölvupóstur um samskipti stefnda, Atla Más Gylfasonar, og Birgittu Ingu Birgisdóttur dagana 4.– 8. janúar 2008. Af þeim gögnum má ráða að Birgitta Inga sendi Atla Má a.m.k. tvær ljósmyndir, en hvorug þeirra er meðal þeirra sem hér er deilt um. Einnig kemur þar fram að Atli Már hafi haft aðrar ljósmyndir undir höndum og óskaði Birgitta Inga ítrekað eftir því að fá sjá þær áður en tímaritið kæmi út. Af því varð þó ekki, og bar Atli Már því ýmist við að hann væri að bíða eftir ljósmyndadeildinni eða að myndakerfið lægi niðri. Ekki er þar orði vikið að ljósmyndum á vefsvæði stefnanda eða að Birgitta Inga muni tryggja Atla Má aðgang að vefsvæðinu. Því síður er þar að finna samþykki Birgittu Ingu fyrir birtingu ljósmynda af vefsvæði stefnanda. Í ljósi þessa, svo og með vísan til framburðar vitnisins, Birgittu Ingu, fyrir dómi, þykir ekkert fram komið sem stutt geti þá fullyrðingu stefnda, Atla Más, að hann hafi haft heimild til eftirgerðar og birtingar umræddra ljósmynda. Telur dómurinn að háttsemi stefnda, Atla Más, hafi falið í sér saknæmt brot á hagsmunum stefnanda, sem verndaðir eru af 1. mgr. 49. gr. höfundalaga nr. 73/1972, og að stefnandi eigi af þeim sökum rétt til bóta úr hendi stefndu, sbr. 1. mgr. 56. gr. sömu laga. Við ákvörðun bóta þykir rétt að hafa gjaldskrá Myndstefs til hliðsjónar, þó með þeim fyrirvara að stefnandi er ekki aðili að þeim samtökum. Þá er einnig rétt að líta til þess að stefndi, Atli Már, aflaði ekki samþykkis stefnanda fyrir birtingu ljósmyndanna, ásamt því að ljósmyndirnar voru liður í umfjöllun tímaritsins um þekktan einstakling og til þess að auka sölu þess. Ekki þykir annað fært en að meta fjártjón stefnanda að álitum.    

       Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga skal dæma höfundi miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti hans með ólögmætri háttsemi. Með því að rétti stefnanda var raskað á ólögmætan hátt verða stefndu einnig dæmdir til að greiða stefnanda miskabætur, sem einnig verða metnar að álitum. Bætur vegna fjártjóns og miska stefnanda þykja, eins og hér háttar til, hæfilega ákveðnar í einu lagi 180.000 krónur. Verða stefndu in solidum dæmdir til að greiða stefnanda þá fjárhæð, auk vaxta og dráttarvaxta eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

       Eins og hér hefur komið fram er það niðurstaða dómsins að stefndi, Atli Már Gylfason, hafi gerst sekur um brot á hagsmunum stefnanda með því að birta tvær ljósmyndir hennar í 2. tölublaði Séð og heyrt 2008, sem út kom 10. janúar 2008, án þess að afla áður samþykkis stefnanda. Ber stefndi, Atli Már, refsiábyrgð á þessu broti, sem telst varða við 1. mgr. 49. gr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð, 80.000 krónur, en vararefsing 6 daga fangelsi.

       Samkvæmt 3. mgr. 54. gr. höfundalaga þykir og rétt að dæma útgefanda tímaritsins Séð og heyrt, stefnda, Birting útgáfufélag ehf., til greiðslu sektar í ríkissjóð, sem einnig þykir hæfilega ákveðin 80.000 krónur.

       Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verða stefndu dæmdir til greiðslu málskostnaðar, og þykir hann hæfilega ákveðinn 300.000 krónur fyrir hvorn þeirra.

       Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

 

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndu, Birtingur útgáfufélag ehf. og Atli Már Gylfason, greiði in solidum stefnanda, Ingu Birnu Dungal, 180.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. janúar 2008 til 3. apríl sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 3. apríl sl. til greiðsludags.  

       Stefndi, Atli Már Gylfason, greiði 80.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 6 daga.

       Stefndi, Birtingur útgáfufélag ehf., greiði 80.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.

       Stefndu greiði stefnanda hvor um sig 300.000 krónur í málskostnað.

        

 

                                                            Ingimundur Einarsson