• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Landamerkjamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 12. mars 2012 í máli nr. E-26/2010:

 

Sjálfseignarstofnunin Eyvindarstaðaheiði og

Sveitarfélagið Skagafjörður

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.)

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 13. febrúar sl., var höfðað af Sjálfseignarstofnun Eyvindarstaðaheiðar og Sveitarfélaginu Skagafirði gegn íslenska ríkinu með stefnu áritaðri um birtingu 21. janúar 2010. Dómari og sakflytjendur fóru á vettvang 12. október 2011.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 í máli nr. 5/2008, Húnavatnshreppur austan Blöndu og Skagafjörður vestan Vestari-Jökulsár ásamt Hofsjökli, þess efnis að landsvæðið Eyvindarstaðaheiði sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð: „Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem nefnt er Eyvindarstaðaheiði, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

Upphafspunktur er í Syðra-Rolluhvammsgreni við Blöndu. Þaðan er lína dregin beint austur, sunnanvert við Rugludalsbungu í svokallaðan syðri Austurdal. Þaðan er línan dregin i Hanzkafell þar sem það er hæst. Frá Hanzkafelli er haldið í Hlóðarstein sem stendur á Fossadalsbrún að vestan og þaðan beina stefnu í botn Smjörmoksgils. Smjörmoksgili er fylgt að Fossá og Fossá síðan að punkti sem liggur beint vestur af þeim stað þar sem Aðalsmannsvatnalækur rennur úr Aðalsmannslækjarvatni. Þaðan er læknum fylgt þar til hann fellur í Svartá. Síðan er Svartá fylgt og Vestari-Bugakvísl til upptaka. Frá upptökum Vestari-Bugakvíslar er lína dregin á fjallið Sátu þar sem það er hæst og áfram sömu stefnu að jaðri Hofsjökuls. Þaðan er jökuljaðrinum fylgt til upptaka Blöndu. Loks er Blöndu fylgt til norðurs að Syðra-Rolluhvammsgreni.“

Þá krefjast stefnendur þess að felld verði úr gildi niðurstaða óbyggðanefndar í sama úrskurði þess efnis að landsvæðið Hraunin sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

„Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Upphafspunktur er þar sem Fremri-Hraunlækur fellur í Vestari-Jökulsá. Þaðan er læknum fylgt þar til komið er að skurðpunkti við línu sem dregin er úr Goðdalakistu fram á hábrúnir til fjalla milli Svartárdalanna og Goðdalalands. Frá skurðpunktinum er nefndri línu fylgt til norðurs þar til komið er á móts við Kvíslarupptök. Þaðan er línan dregin í upptök Runukvíslar. Þaðan er Runukvísl fylgt að ármótum hennar og Pollakvíslar við Hrauntungu. Frá ármótum er Pollakvísl fylgt að upptökum. Þaðan er línan dregin til norðurs í botn Gullreitsgils og Gullreitsgili síðan fylgt til norðurs þar til það beygir til norðausturs. Þaðan er línan dregin til suðvesturs í hæsta punkt Sandhóla. Frá Sandhólum er haldið til norðurs í klettabelti sem er sunnan í Vatnafelli [...]. Þaðan er haldið í upptök Brunnabrekkulækjar og línan dregin þaðan beina stefnu að þeim stað þar sem Aðalmannvatnalækur rennur í Svartá. Síðan er Svartá fylgt og svo Vestari-Bugakvísl til upptaka. Frá upptökum Vestari-Bugakvíslar er línan dregin á fjallið Sátu þar sem það er hæst og áfram sömu stefnu að jaðri Hofsjökuls. Þaðan er jökuljaðrinum fylgt til upptaka Vestari-Jökulsár. Loks er Vestari-Jökulsá fylgt að upphafspunkti þar sem Fremri-Hraunlækur fellur í hana.“

   Til vara krefjast stefnendur þess að þjóðlendukröfu ríkisins verði hafnað varðandi landsvæði það sem stefnendur telja hluta af heimalandi jarðarinnar Eyvindarstaða og þar með viðurkenndur fullkominn eignarréttur að landsvæðinu sem afmarkast af línu þannig að lína, sem mörkuð er í varakröfu, miðist við línu sem dregin er úr Fossá merkt I í Galtará merkt II og niður hana í Blöndulón merkt III þaðan eftir miðlínu í sveitarmerki milli Eyvindarstaðaheiðar og Auðkúluheiðar merkt IV en númer þessi er að finna á dskj. nr. 4.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu stefnenda krefjast þeir þess að viðurkennt verði að þeir eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á öllu því svæði Eyvindarstaðaheiðar sem úrskurðað var þjóðlenda, líka á svokölluðum Hraunum.

Til þrautavara krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði að það landsvæði sem tilheyrir Eyvindarstaðaheiði og kallað hefur verið Hraunin, sbr. afmörkun í aðalkröfu, verði dæmt í afréttareign þeirra, sbr. 5. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Loks krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar.

II

Málavextir

          Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 29. mars 2007 til meðferðar landsvæði á vestanverðu Norðurlandi. Að þessu sinni var til meðferðar hjá nefndinni Eyjafjarðarsýsla, Skagafjarðarsýsla og Austur-Húnavatnssýsla austan Blöndu auk Hofsjökuls. Í bréfi óbyggðanefndar til fjármálaráðherra, dagsettu 3. október 2007, var vísað til nýgenginna dóma og úrskurða og þeirri fyrirspurn komið á framfæri hvort kröfugerð ríkisins mundi að meira eða minna leyti byggja á sambærilegum málsgrundvelli og í tilvikum Esju og Smjörfjalla. Væri svo taldi nefndin óhjákvæmilegt að fresta umfjöllun um viðkomandi hluta af svæðinu þar til afstaða dómstóla lægi fyrir. Í kjölfarið var þess farið á leit af hálfu fjármálaráðherra að svæðinu yrði skipt þannig að einungis syðri hluti svæðisins yrði til meðferðar nú. Óbyggðanefnd féllst á þessa beiðni fjármálaráðherra með bréfi dagsettu 28. desember 2007. Landsvæði það sem til umfjöllunar er eftir þessa breytingu er nefnt vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A). Nyrðri hluti hins upphaflega svæðis nefnist nú vestanvert Norðurland, nyrðri hluti (7B).

          Landsvæðið vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A), afmarkast svo: Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar til hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa. Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagsmörk Eyjafjarðarsveitar að austan. Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungakvísl. Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd. Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.

          Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 14. mars 2008, sem vörðuðu allt svæði 7A, og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, ásamt því að skora á þá sem teldu þar til eignarréttinda að lýsa kröfum sínum. Í apríl 2008 barst óbyggðanefnd leiðrétting stefnda á þeirri afmörkun umfjöllunarsvæðis sem fram kom í kröfulýsingunni frá 14. mars en þjóðlendukröfusvæðið stóð óbreytt. Tilkynning um hina leiðréttu afmörkun var birt 30. apríl 2008. Jafnframt var skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 30. júní 2008. Fjölmargar kröfur og athugasemdir bárust nefndinni. Óbyggðanefnd ákvað að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Eitt þeirra, nr. 5/2005, tekur til Húnavatnshrepps austan Blöndu og Skagafjarðar vestan Vestari-Jökulsár ásamt Hofsjökli. Stefnendur gera tilkall til þessa svæðis að Hofsjökli undanskildum.

          Í úrskurði óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 eru heimildir um hið umþrætta svæði, Eyvindarstaðaheiði og Hraunin, raktar ítarlega. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að á Eyvindarstaðaheiði væri að finna landsvæði sem teldist þjóðlenda með þeim mörkum sem áður eru rakin í dómkröfum stefnenda, en viðurkennt var á hinn bóginn að þetta landsvæði væri afréttareign Húnavatnshrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar samkvæmt 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Landsvæði það sem kallað er Hraunin var hins vegar undanskilið hvað þetta varðar og telst alfarið þjóðlenda.

          Ekki er um það deilt að stefnendur höfðuðu mál þetta innan þess frests sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998.

III

Málsástæður og lagarök stefnenda

          Stefnendur halda því fram að landsvæði það sem um er þrætt í máli þessu sé háð beinum eignarrétti þeirra og sá réttur njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Mál þetta snúist um það hvort landsvæðið sé eign eða háð eignarrétti stefnenda sem þá sé varinn af tilvitnuðum ákvæðum.

          Stefnendur byggja aðalkröfu sína á því að allt landsvæði það sem afmarkað er í aðalkröfu þeirra hafi verið numið í öndverðu og eignarréttur sá er þá stofnaðist hafi ekki fallið niður síðan. Stefnendur halda því fram að krafa þeirra sé studd þinglýstu landamerkjabréfi og öðrum eignarheimildum fornum og nýjum, svo sem landamerkjabréfum aðliggjandi jarða, jarðamötum, fasteignamötum o.fl. Landamerkjabréf fyrir Eyvindarstaðaheiði hafi verið gert 28. september 1886 og þinglesið 20. maí 1889 og fært án athugasemda í landamerkjabók en undir bréfið sé ritað af hálfu aðliggjandi jarða.

          Í Landnámu sé landnámi í Skagafirði m.a. lýst svo: „Ingimundr lézk þat eigi ætlat hafa, en þó sendi hann þá Finna tvá í hamförum til Íslands eptir hlut sínum. Þat var Freyr ok görr af silfri. Finnar kómu aptr og höfðu fundit hlutinn ok nát eigi; vísuðu þeir Ingimundi til í dal einum milli holta tveggja ok sögðu Ingimundi allt landsleg, hvé háttat var þar er hann skyldi byggja.

Eptir þat byrjar Ingimundr för sína til Íslands ok með honum Jörundr háls mágr hans ok Eyvindr sörkvir og Ásmundr ok Hvati, vinir hans, ok þrælar hans, Friðmundr, Böðvarr, Þórir refskegg, Úlfkell. Þeir tóku Grímsáarós fyrir sunnan land ok váru allir um vetrinn á Hvanneyri með Grími fóstbróður Ingimundar. En um várit fóru þeir norðr um heiðar; þeir kómu í fjörð þann, er þeir fundu hrúta tvá; þat kölluðu þeir Hrútafjörð; síðan fóru þeir norðr um heruð og gáfu víða örnefni. Hann var um vetr í Víðidal í Ingimundarholti. Þeir sáu þaðan fjöll snælaus í landuðr ok fór þann veg um várit; þar kenndi Ingimundr lönd þau, er honum var vísat. Þórdís, dóttir hans, var alin í Þórdísarholti. Ingimundur nam Vatnsdal allan upp frá Helgavatni ok Urðarvartni fyrir austan. Hann bjó at Hofi ok fann hlut sinn, þá er hann gróf fyrir öndvegissúlum sínum.“ Í Landnámu er að finna svofellda lýsingu á landnámi í Húnavatnshreppi: „En er þetta spurði Eiríkr í Goðdölum, sendi hann þræl sinn suður á fjöll, er hét Rögnuðr; fór hann enn í landaleitan. Hann kom suðr til Blöndukvísla ok fór þá upp með á þeiri, er fellr fyrir vestan Hvinverjadal og vestr á hraunit milli Reykjavalla ok Kjalar og kom þar á mann spor ok skilði, at þau lágu sunnan at. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða. Þaðan fór hann aptr, ok gaf Eiríkr honum frelsi fyrir ferð sína, ok þaðan af tókusk ferðir um fjallit milli Sunnlendinga fjórðungs ok Norðlendinga.“ Stefnendur vísa síðan til þess að frekari lýsingar á landnámi í Skagafirði og Húnavatnshreppi sé að finna í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 5/2008. Stefnendur vísa til þess, máli sínu til stuðnings, að Landnáma hafi oft verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands, 1960:726 og 1994:2228. Þá hafi óbyggðanefnd komist að sömu niðurstöðu í almennum niðurstöðum sínum svo og í fyrri úrskurðum.

          Stefnendur byggja kröfu sína um eignarrétt að svæðinu á því að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og að sá sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrði fyrir því. Þá halda þeir því fram að land Eyvindarstaðaheiðar hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti en landnámsheimildir í Skagafirði og Húnavatnshreppi fari ekki í bága við landamerkjabréf heiðarinnar. Stefnendur vísa til þess að landamerkjabréf fyrir Eyvindarstaðaheiði hafi verið þinglesið án athugasemda og fært í landamerkjabók 20. maí 1889. Samkvæmt bréfinu liggi heiðin undir Eyvindarstöðum. Þetta leiði til þess að úrskurður óbyggðanefndar sé rangur og brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.

          Stefnendur vísa einnig til þess að við setningu landamerkjalaga nr. 5/1882 og síðan laga nr. 41/1919 hafi það verið ætlun löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi sem uppi hafi verið. Þessi tilgangur laganna bendi til þess að landsvæðið sé háð beinum eignarrétti en landamerkjabréfið sé byggt á eldri heimildum eins og rakið er í úrskurði óbyggðanefndar. Því fari eldri heimildir ekki gegn landamerkjabréfi jarðarinnar. Í þessu sambandi vísa stefnendur til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004 en þar hafi verið talið að máli skipti hvort land teldist til upphaflegs landnáms og hvort farið hafi verið með landið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum, sbr. einnig dóm réttarins í máli nr. 47/2007. Stefnendur byggja einnig á því að land sem lagt er til afréttar teljist eignarland og vísa í því efni til dóms sem birtist á bls. 1137 í dómasafni Hæstaréttar Íslands fyrir árið 1971.

          Stefnendur reisa kröfur sínar enn fremur á því að þeir hafi farið með ráðstöfun á öllum réttindum sem fylgdu eign þeirra auk þess sem þeir hafi nýtt eignina til beitar en varðandi nánari lýsingu á notkun afréttarinnar vísa þeir til úrskurðar óbyggðanefndar á bls. 12-14. Stefnendur segjast byggja á því að þeir hafi greitt skatta og skyldur af eign sinni og eignarréttur þeirra hafi alla tíð verið virtur af öðrum sem m.a. hafi komið fram í því að þeir hafi getað bannað öðrum afnot af eign sinni. Auk þessa byggi eignarhald þeirra á viðskiptavenju.

          Stefnendur vísa, máli sínu til stuðnings, einnig til þess að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að hið umþrætta landsvæði sé háð eignarrétti þeirra í skilningi nefndrar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu en fullur hefðartími sé liðinn frá því að stefnendur tóku að nytja landið en öll afnot þess og nytjar hafi verið háð leyfi landeigenda og enginn annar hafi notað landið á nokkurn hátt. Stefnendur benda á að sjónarmið óbyggðanefndar í þá veru að flokka hefð með lögum sem frumstofnun eignarréttar hafi ekki verið breytt af Hæstarétti Íslands. Stefnendur telja að úr því að unnt sé að hefða land, sem eignarrétti er háð, hljóti að vera unnt að vinna hefð á landi sem ekki sé háð eignarrétti annarra. Í þessu sambandi vísa stefnendur til dóms Hæstaréttar Íslands sem birtist á bls. 2792 í dómasafni réttarins fyrir árið 1997 en þar hafi eignarhefð verið viðurkennd enda þótt not hefðanda, sem jafnframt studdi rétt sinn við kaupsamning, hefðu verið sambærileg afréttarnotum, þ.e. beit og eftir atvikum önnur þrengri nýting. Í dómi, sem finna má á bls. 27 í dómasafni Hæstaréttar Íslands fyrir árið 1939, hafi rétturinn talið að eignarhefð hefði komist á enda þótt eignarheimild væri sögð glötuð og ekki annar grundvöllur fyrir hendi en takmörkuð not. Stefnendur vísa einnig til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Helgu klaustranna gegn Grikklandi og telja að þar sé að finna athyglisverð sjónarmið varðandi afstöðu dómstólsins til sönnunar á eignarhaldi. Mannréttindadómstóllinn hafi bent á að klaustrin, sem voru hluti af grísku kirkjunni og stofnuð löngu fyrir myndun gríska ríkisins, hefðu í aldanna rás eignast miklar eignir, þar með talið landsvæði það sem um var deilt. Dómurinn hafi talið óumdeilanlegt að afsöl, sem aflað var á tímum keisaraveldanna Býsanska og Ottóman-veldisins, hefðu glatast eða eyðilagst. Með tilliti til landtöku í svo langan tíma, meira að segja án löglegs eignarhalds, yrði að telja að því tímabili, sem væri skilyrði fyrir því að hefð yrði haldið upp á ríkið eða gegn þriðja aðila, hefði án efa verið lokið. Stefnendur vísa til þess að 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu sé hluti af íslenskum rétti og því beri dómstólum hér á landi að taka mið af þeim sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar af Mannréttindadómstóli Evrópu við mat á því hvort um sé að ræða eign sem njóti verndar 1. gr. samningsviðauka nr. 1. við nefndan sáttmála. Auk þessa vísa stefnendur til þess að fræðimenn hafi talið að eignarhefð sé unnt að vinna á landi hvort sem um sé að ræða afrétt eða almenning ef skilyrðum hefðar sé á annað borð fullnægt. Stefnendur telja að venjuréttur og hefð falli saman í þessu máli sem leiði til þess að þeir eigi öll þau réttindi sem fylgja Eyvindarstaðaheiði, enda hafi þeir og fyrri eigendur heiðarinnar nýtt sér þau réttindi öldum saman.

          Stefnendur halda því fram að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign eða eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu vísi stefnendur til þeirra sjónarmiða sem lögð hafa verið til  grundvalla af Mannréttindadómstólnum. Hafa verði í huga að Mannréttindadómstóllinn hafi túlkað hugtakið eign í skilningi nefndrar 1. gr. samningsviðaukans á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu. Skortur á vernd að landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum um það hvort um sé að ræða eign í skilningi 1. gr. og þannig geti verið um að ræða eign í skilningi nefndrar 1. gr. þó að dómstólar viðkomandi ríkis hafi ekki talið svo vera samkvæmt landsrétti þess ríkis.

          Stefnendur reisa kröfu sína enn fremur á sjónarmiðum sem fram hafa komið hjá Mannréttindadómstóli Evrópu um lögmætar væntingar. Dómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að væntingar einstaklinga og lögaðila til að njóta eigna sinna séu verndaðar af 1. gr. samningsviðauka nr. 1. við mannréttindasáttmála Evrópu ef þær eru byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi (legal act), sem tengdur er við eignarréttindi og hefur áreiðanlegan lagagrundvöll.

          Stefnendur halda því fram að ef ekki verði fallist á að eignarheimildir þær sem þeir byggja eignarrétt sinn á teljist fullnægjandi sé verið að mismuna eigendum jarða með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra landeigenda hér á landi. Slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar.

          Stefnendur gera í greinargerð sinni nokkrar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar. Þeir telja tilgang laga nr. 58/1998 fyrst og fremst vera þann að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landsvæða sem enginn hefur skjöl fyrir að hann eigi en svo hátti til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands. Það sé í verkahring óbyggðanefndar að finna hver þessi svæði séu. Land Eyvindarstaðaheiðar sé hins vegar ekki eigendalaust. Í 1. gr. laga 58/1998 komi fram að þjóðlendur séu utan eignarlanda en eignarland sé skilgreint sem landsvæði sem háð er einkaeignarrétti þannig að eigandinn fer með öll venjuleg eignarráð þess. Stefnendur byggja á því að svo hátti til með allt það land sem þeir hafi þinglýsta eignarheimild fyrir. Hér hafi stefndi sönnunarbyrði fyrir því að þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra landamerkja Eyvindarstaðaheiðar.

          Stefnendur telja óumdeilt að hið umdeilda landsvæði sé innan upphaflegs landnáms og því verði stefndi að sýna fram á að beinn eignarréttur að landinu hafi fallið niður. Þetta sé eðlilegt að teknu tilliti til þess að stefnendur hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf auk annarra gagna sem sýna fram á að innan hins umþrætta landsvæðis hafi eignarréttur stefnenda verið virtur af öllum. Sönnunarbyrðin, sem óbyggðanefnd leggi á stefnendur, sé óhófleg en þess sé krafist að stefnendur sanni framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi. Slíkt standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu.

          Í almennum forsendum úrskurðarins hafi óbyggðanefnd fjallað um hefð og þýðingu hefðar við úrlausn þjóðlendumála og niðurstaðan sé sú að hefð sé eitt dæmi um frumstofnun eignarréttar. Nefndin segi jafnframt að við mat á því hvort tekist hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort svæðið er innan eða utan landamerkja jarðar og þá skipti gildistaka hefðarlaga frá 1905 máli og styrki eignartilkall í slíkum tilvikum. Skilyrði fyrir því að eignarhefð hafi verið unnin á landsvæði utan landamerkja jarðar séu hins vegar talin þröng. Í þessu tilfelli sé Eyvindarstaðaheiði innan þinglesinna landamerkja og það land háð einkanýtingarrétti stefnenda.

          Stefnendur halda því fram að óbyggðanefnd byggi niðurstöðu sína fyrst og fremst á því að dómur hafi áður verið kveðinn upp af Hæstarétti Íslands um eignarréttarlega stöðu Eyvindarstaðaheiðar, mál nr. 67/1996, auk þess sem til þess sé vísað að ekkert hafi komið fram um að stofnast hafi til beins eignarréttar yfir heiðinni. Stefnendur benda í þessu sambandi á að þegar nefndur dómur var kveðinn upp hafi ekki verið búið að setja lög um þjóðlendur og þau lög og tilgangur þeirra hafi því ekki komið til skoðunar. Aðstaðan í dag sé því önnur en hún var þegar dómurinn gekk og af þeim sökum verði ekki alfarið byggt á þeim dómi. Í því máli hafi verið tekist á um bótarétt sveitarfélaga úr hendi Landsvirkjunar vegna fallréttinda. Svæðið, sem dómurinn tók til, hafi verið afmarkað með öðrum hætti en það landsvæði sem nú er deilt um en austurhluti heiðarinnar hafi ekki verið til skoðunar þá auk þess sem nú liggi fyrir önnur og fleiri gögn. Stefnendur hafna því að niðurstaða þessa máls ráðist af dómi Hæstaréttar frá árinu 1997. Í þessu sambandi benda stefnendur á að reynt hafi á sambærilega stöðu í nokkrum málum er varða úrskurð óbyggðanefndar um mörk eignarlanda og þjóðlendna og nefna sérstaklega mál nefndarinnar nr. 2/2005. Þar hafi óbyggðanefnd talið sig óbundna af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 171/1998 og talið skipta máli að dómstólar hefðu ekki tekið óyggjandi afstöðu til þess að einkarétti hvernig mörk jarðar gagnvart öðrum landsvæðum skyldu afmörkuð. Einnig hafi nefndin talið að ný gögn í málinu hefðu þýðingu fyrir úrskurð um eignarréttarlega stöðu jarðarinnar. Stefnendur telja að þessi rökstuðningur og það að jafnræðis beri að gæta leiði til þess að ekki sé unnt að reisa niðurstöðu um eignarréttarlega stöðu svæðis þess sem um er deilt í máli þessu á dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 67/1996.

          Stefnendur telja óumdeilt að til beins eignarréttar hafi stofnast og fjölmörg skjöl liggi frammi í málinu sem staðfesti það. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af eigendum nærliggjandi jarða sem eindregið bendi til þess að eignarhald á Eyvindarstaðaheiði hafi verið óumdeilt. Í þessu sambandi benda stefnendur á stofnun Sjálfseignarstofnunarinnar Eyvindastaðaheiðar sem starfi skv. lögum nr. 19/1988. Skipulagsskrá stofnunarinnar hafi verið staðfest í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 8. desember 2005, en eignarhlutur sveitarfélagsins hafi verið lagður inn í stofnunina. Stefnendur telja að óbyggðanefnd hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á stefnendur og þannig brotið jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Því beri að ógilda úrskurð nefndarinnar.

          Stefnendur halda því fram að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar. Frá þeirri reglu verði ekki vikið nema að sá sem vefengir réttmæti eignarheimildarinnar sýni fram á betri rétt sinn eða annarra eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um eignarréttinn. Stefnendur byggja mál sitt einnig á því að Hæstiréttur Íslands hafi orðað þá reglu að mannréttindi, sem verndar njóta, verði ekki skert nema að fyrir því sé skýr regla í settum lögum og að slík regla samræmist ákvæðum stjórnarskrár. Slíkt ákvæði sé ekki í þjóðlendulögum, enda hafi ekkert komið fram, við meðferð frumvarps til þjóðlendulaga á Alþingi, sem bendir til þess að stefnt hafi verið að því að svipta landeigendur eignarrétti sínum. Telja þeir að úrskurður óbyggðanefndar, sem um er deilt í máli þessu, brjóti verndaðan eignarrétt þeirra.

          Varðandi varakröfur sínar vísa stefnendur til sömu málsástæðna og lagaraka og þeir gera varðandi aðalkröfu svo og framlagðra gagna, hliðsjónarrita og til aðilaskýrslna fyrir nefndinni. Sérstaklega er vísað til greinargerðar Smára Borgþórssonar f.h. sveitarfélagsins Skagafjarðar og Sigursteins Bjarnasonar f.h. Sjálfseignarstofnunarinnar Eyvindarstaðaheiðar.

          Stefnendur halda því fram að fyrir liggi að sel frá Eyvindarstöðum hafi verið á syðri bakka Galtarár, við gamla vaðið. Á því er byggt að sel þetta sé í eignarlandi Eyvindarstaða en aðrir, sem hagsmuna eiga að gæta á svæðinu, hefðu ekki liðið að bóndinn á Eyvindarstöðum byggði sel svo langt frá byggð nema það væri í hans landi. Auk þess liggi fyrir að sel hafi ekki mátt reisa í afréttum. Stefnendur vísa til þess að lengi tíðkaðist að fé og hrossum frá fremstu bæjum í Svartárdal og Blöndudal hafi verið sleppt aftur á heiðina eftir göngur. Féð hafi farið fram undir Galtará en því hafi verið smalað í byrjun vetrar eða seinna eftir tíðarfari. Hross hafi verið tekin mun seinna og dæmi séu til um að þau hafi gengið í Kurbrandsmýrum og Refárflóa allan veturinn. Þessi notkun hafi verið við lýði allt þar til afréttargirðing var reist á milli heiðar og heimalanda laust eftir 1970.

          Stefnendur reisa varakröfu sína einkum á því að land innan girðingarinnar, þ.e. norðan Galtarár, sé fremur heimaland Eyvindarstaða en afréttarland og eigi að teljast með jörðum í sveitinni en ekki til afréttarinnar. Það sé í samræmi við þá niðurstöðu að það land Stafns og Kóngsgarðs, sem lagt var til afréttar og liggur samsíða umræddu landi Eyvindarstaða að austan, er viðurkennt eignarland. Landið, sem varakrafan nær til, sé sambærilegt landi nefndra jarða að landgæðum og þá hafi það verið nýtt með sambærilegum hætti. Landið, sem varakrafan tekur til, svæðið norðan Galtarár, hafi öll einkenni heimalanda. Í því sambandi benda stefnendur á gróðurfar og nýtingu en óheimilt sé skv. lögum um afréttarmál og fjallskil að sleppa fé í afréttarlönd eftir fjallskil. Landið falli því frekar í flokk með jörðum en að það teljist hluti af afréttarlandi Eyvindarstaðaheiðar. Landið líkist t.d. Tunguheiði í Biskupstungum en í dómi varðandi þá heiði réðst niðurstaðan af því að landfræðilega tilheyrði landsvæðið frekar jörðum í Biskupstungum en afréttinum. Einnig benda stefnendur í þessu sambandi á dóma Hæstaréttar Íslands varðandi afréttarlönd í Mýrdal en rétturinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að landfræðilega væri eðlilegt að landnám hefði verið samfellt í Mýrdal og því væru ekki rök til þess að land, sem lægi samsíða því landi, hefði aðra stöðu að eignarrétti. Í máli þessu séu engin rök til þess að heimaland Eyvindarstaða hafi aðra eignarréttarlega stöðu en heimaland Kóngsgarðs og Stafns en þau lönd liggi samsíða þessu landi, enda eru landfræðilegar aðstæður og notkun sambærileg.

          Stefnendur byggja á því að það sé í samræmi við almennar niðurstöður óbyggðanefndar að landsvæði, sem talið hefur verið jörð skv. elstu heimildum, sé eignarland og því sé eðlilegt að telja land það, sem varakrafan tekur til, sem heimaland Eyvindarstaða.

          Aðra varakröfu styðja stefnendur með sömu rökum og áður eru rakin. Þeir halda því einnig fram að engin rök standi til þess að svokölluð Hraun séu hrein þjóðlenda. Svæðið hafi verið nýtt til beitar af eigendum Eyvindarstaða um ómunatíð.

          Hvað lagarök varðar vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum. Sérstaklega til 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr. Til meginreglna stjórnsýsluréttar um málsmeðferð, laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlenda þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998. Þeir vísa einnig til laga um hefð nr. 46/1905, laga um afréttarmál og fjallskil nr. 6/1986. Til laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, sáttmálann sjálfan og viðauka, einkum 1. gr. samningsviðauka nr. 1. Þá vísa þeir til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Einnig er byggt á meginreglum eignarréttar um venjurétt og óslitin not, svo og almennum reglum samninga- og kröfuréttar, einnig vísa þeir til almennra reglna um ítaksrétt og stofnun ítaka, almennra reglna um venjurétt, meginreglna um traustfang og traustnám svo og almennra reglna um tómlæti. Loks vísa þeir til þinglýsingalaga, einkum IV. kafla. Varðandi varnarþing er vísað til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þá er krafa um málskostnað úr hendi stefnda reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Stefndi reisir kröfur sínar aðallega á því að landsvæðið, sem um er deilt í málinu, sé utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda. Heimildir bendi ótvírætt til þess að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Stefndi telur að stefnendur verði að sanna tilvist beins eignarréttar að svæðinu eða einstökum hlutum þess.

Stefndi heldur því fram að óbyggðanefnd hafi byggt úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Niðurstaða nefndarinnar sé reist á kerfisbundinni rannsókn nefndarinnar á fjölda gagna sem fram komu við gagnaöflun nefndarinnar og þeim göngum sem aðilar málsins lögðu fram auk þess sem byggt sé á skýrslum sem gefnar voru fyrir nefndinni. Stefndi gerir niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings kröfu um sýknu.

Stefndi heldur því fram að Eyvindarstaðaheiði og Hraunin séu utan eignarlanda. Allmargar heimildir séu til um Eyvindarstaðaheiði sem rekja megi aftur til 14. aldar. Af þeim megi m.a. ráða að heiðin hafi á öldum áður verið í eigu Eyvindarstaða, sbr. kaupbréf frá 3. apríl 1380 en með því bréfi hafi Bessi Brandsson gefið Þórði syni sínum jörðina, 90 hundruð að dýrleika auk tilgreindra afréttarsvæða. Hins vegar séu heimildir um Hraunin færri og óljósari.

Um afmörkun Eyvindarstaðaheiðar vísar stefndi einkum til landamerkjabréfs fyrir heiðina frá 28. september 1886 en ekki hafi verið ágreiningur um afmörkun hennar. Við mat á landamerkjabréfum beri að gæta að því að slík bréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja beri að skoða sem eignarland. Þótt slíku bréfi sé þinglýst þá takmarkist gildi þinglýsingar af því að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað aukið við rétt sinn. Þá skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi eða annað landsvæði. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi verið gerð fyrir önnur svæði en jarðir, svo sem afréttarsvæði sem ekki tilheyri ákveðinni jörð. Landamerkjabréf fyrir jörð feli hins vegar í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða en engu að síður verði að meta gildi hvers bréfs fyrir sig. Stefndi telur að í máli þessu bendi yfirskrift umrædds landamerkjabréfs og orðalag þess eindregið til þess að þar sé ekki verið að lýsa mörkum eignarlands (jarðar) heldur lýsi bréfið afréttarsvæði utan eignarlands.

Stefndi vísar máli sínu til stuðnings í dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 67/1996 en sá dómur taki til þess landsvæðis sem afmarkað er í landamerkjabréfi fyrir Eyvindarstaðaheiði frá árinu 1889. Í því máli hafi þrír hreppar krafist viðurkenningar á rétti þeirra til fébóta fyrir fallréttindi í Blöndu vegna Eyvindarstaðaheiðar, auk bóta fyrir land heiðarinnar, sem Landsvirkjun hafði fengið til ótímabundinna umráða í þágu Blönduvirkjunar á grundvelli samnings sem gerður var við hreppana í mars 1982. Hrepparnir hafi haldið því fram að Eyvindarstaðaheiði væri fullkomin eign þeirra samkvæmt afsali frá Hannesi Péturssyni á Skíðastöðum en Hannes hafði eignast heiðina samkvæmt afsali frá Kristjáni Gíslasyni á árinu 1897.

Í niðurstöðum héraðsdóms í málinu sé vísað til þeirrar grundvallarreglu eignarréttar að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verði að færa fram heimildir sem sanni rétt hans og að sá sem afsalar landi geti ekki veitt viðtakanda sínum betri eða víðtækari rétt en hann sjálfur átti. Héraðsdómur taldi að orðalag kaupsamnings og afsals skæri ekki að fullu úr um það hvort verið var að afsala fullkomnum eignarrétti eða afréttareign en dómurinn hafi talið að efni og orðalag kaupsamninga og afsala, sem um ræðir í málinu, skeri ekki að fullu úr um það hvort afsalað hafi verið fullkomnu eignarlandi eða einungis afréttareign, þó að hið síðara sé líklegra. Síðan sé þess getið í dóminum að not Eyvindarstaðaheiðar og lega leiði ekki til þeirrar ályktunar að heimalandið hafi áður verið háð beinum eignarrétti þeirra sem höfðu umráð þess. Þá telur dómurinn að takmörkuð not hreppanna að heiðinni feli eigi í sér eignarhald sem leitt geti til stofnunar eignarréttinda fyrir hefð. Niðurstaða dómsins hafi því verið sú að stefnendur málsins hafi ekki getað fært fram sönnun þess að Eyvindarstaðaheiði hafi verið eignarland þeirra. Í dómi Hæstaréttar Íslands í sama máli sé tekið fram að Eyvindur sörkvir hafi numið Blöndudal og talið að hann hafi búið að Eyvindarstöðum en ekkert sé minnst á Eyvindarstaðaheiði. Af heimildum, sem vísað sé til í málinu, sé ekki ljóst hvort jörðin hafi ævinlega verið í einkaeign eða komist undir yfirráð kirkjunnar á einhverju skeiði. Heimildir bendi til þess að Eyvindarstaðaheiði hafi nær einvörðungu verið notuð til beitar frá fyrri tíð. Þegar heiðarinnar er getið í skriflegum heimildum er það í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að sönnur hafi ekki verið leiddar að því að heiðin hafi nokkurn tíma verið undirorpin fullkomnum eignarrétti einstaklinga eða kirkjunnar, hvorki fyrir nám né með löggerningum eða öðrum hætti. Ekki sé í ljós leitt að landamerkjabréfi fyrir Eyvindarstaðaheiði hafi fremur verið ætlað að ákveða mörk milli eignarlanda en landa í afréttareign. Þá sé tekið fram í dóminum að yfirlýsingar í kaupsamningum og afsölum á síðustu öld nægi ekki einar og sér til að dæma hreppunum eignarrétt að þessu afréttarlandi. Tiltækar heimildir bendi hins vegar til þess að um afréttareign eigenda heimalands Eyvindarstaða hafi verið að ræða í þeim skilningi að aðrir hafi átt þar rétt til upprekstrar, og ef til vill annarra nota, en gegn gjaldi til Eyvindarstaðamanna. Þá sé víðátta heimalandsins þannig að líkur mæla gegn óskoruðum eignarráðum jarðeigenda. Stefndi bendir einnig á að í dómi Hæstaréttar sé tekið fram að í kaupsamningi Hannesar Péturssonar við hreppana frá 6. ágúst 1898 hafi ekki getað falist víðtækari eignarréttur þeim til handa en sannanlega var á hendi seljanda. Með hliðsjón af því og notkun afréttarlandsins hafi hrepparnir ekki heldur unnið eignarhefð á Eyvindarstaðaheiði.

Stefndi heldur því fram að í dómi Hæstaréttar Íslands felist res judicata áhrif um eignarréttarlega stöðu svæðisins svo sem því er lýst í fyrrgreindu landamerkjabréfi. Dómurinn sé því bindandi fyrir þá sem áttu aðild að málinu og aðra þá sem leiða rétt sinn frá þeim eða koma í þeirra stað. Dómsúrlausn liggi því fyrir um eignarréttarlega stöðu svæðisins sem dómstólar hafi ekki heimild til að hnekkja eða breyta, sbr. einkum 116. gr. laga nr. 91/1991.

Landsvæði það sem kallað er Hraun er ekki innan marka landamerkja Eyvindarstaðaheiðar. Ekki er ágreiningur um afmörkun svæðisins sem markist af Vestari-Jökulsá að austan og til suðurs af jaðri Hofsjökuls. Stefndi heldur því fram að þær heimildir, sem til séu um svæðið, bendi ekki til þess að Hraunin hafi nokkru sinni verið nýtt að staðaldri sem sumarbeitiland fyrir búfé eða með öðrum hætti. Ekkert bendi til þess að búfénaður hafi verið rekinn á Hraunin eða að menn hafi stuðlað að því að búfé sækti þangað. Í þessu sambandi bendir stefndi á að ekkert sé getið um Hraunin í fjallskilareglugerðum Skagafjarðar- og Húnavatnssýslna. Það fáa fé sem í Hraunin sótti hafi komið af nærliggjandi landsvæðum, einkum meðan ógirt var á milli Eyvindarstaðaheiðar og Hraunanna en girðing hafi verið reist þar á milli seint á 20. öld í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fé leitaði af Eyvindarstaðaheiði yfir á Hraunin, sem bendir til þess að ætlunin hafi verið að nýta Hraunin ekki sem beitiland. Engar heimildir bendi til þess að Hraunin hafi áður fyrr tilheyrt einstökum jörðum. Landamerkjabréf fyrir Eyvindarstaðaheiði bendi eindregið til þess að enginn hafi talið sig eiga réttindi á Hraununum.

Stefndi vísar til þess að í Landnámu sé því ekki lýst hversu langt inn til lands landnám náði á þessu svæði. Ólíklegt verði að telja að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því hversu hálent svæðið er en um sé að ræða öræfalandsvæði, langt frá byggðum bólum. Dómafordæmi leiði til þess að álíta verður ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Af dómum Hæstaréttar Íslands megi ráða að þegar deilt sé um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir en heimildaskortur leiði til þess að það teljist ósannað að svæði sem þetta hafi verið numin í öndverðu. Í þessu tilfelli bendi heimildir ekki til annars en að svæðið hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti auk þess sem svæðið sé umlukið eigendalausum svæðum á allar hliðar nema til norðurs. Annað verði ekki ráðið en að réttur til hins umdeilda svæðis hafi upphaflega orðið til á þann veg að svæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill til annarrar takmarkaðrar notkunar.

Stefndi heldur því fram að ef svæðið hafi verið numið í öndverðu hafi það ekki verið numið til eignar heldur takmarkaðra nota. Frá upphafi byggðar á Íslandi hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin svæði til beinnar eignar heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem áhrif gátu haft á afkomu þeirra. Meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér voru hagsmunir til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Í þessu efni vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 67/2006 og 27/2007. Verði talið að svæðið hafi að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms byggir stefndi á því að allar líkur séu til þess að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Stefndi heldur því fram að ekkert liggi fyrir um að beinn eignarréttur hafi haldist í gegnum aldirnar hafi til slíks réttar stofnast í öndverðu.

Stefndi byggir einnig á því að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að svæðið hafi ekki verið numið. Svæðið sé mjög víðfeðm háslétta sem liggi í yfir 500 metra hæð. Svæðið sé allt sunnan byggðar og nái suður til Hofsjökuls. Eyvindarstaðaheiði hafi alla tíð verið skipt í þrjá meginhluta, Útheiði, Ásgeirstungur (öðru nafni Álfgeirstungur) og Guðlaugstungur. Þá séu Svörtutungur sunnan og vestan við Guðlaugstungur. Útheiðin sé á norðvestanverðu svæðinu umhverfis Öfuguggahæðir og að mestu leyti uppblásin. Vestan hæðanna liggi gróin Kurbrandsmýri. Sunnan Útheiðar liggi síðan áðurnefndar tungur í 500 til 600 m hæð en þær eru eitt samfelldasta gróna svæði heiðarinnar. Svæðið vestan Hofsjökuls milli Ströngukvíslar að norðan og Blöndu að sunnan sé að mestu ógróin hraun og sandar. Frá Öfuguggavatnshæðum í 579 m hæð í fjallið Sátu suður undir Hofsjökli er 41 km í beinni loftlínu. Hraunin, sem liggja norðan Ströngukvíslar frá Hraungarði að vestan austur að Vestari-Jökulsá, séu víðfeðm háslétta, að mestu leyti ógróin hraun og sandar en þó megi finna gróður í dældum og drögum.

Stefndi bendir á að að teknu tilliti til staðhátta, sem getið er hér að framan, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó sé augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt nema með mjög takmörkuðum hætti, einkum til beitar og mögulega á einhvern annan en þá mjög takmarkaðan hátt. Hraunin hafi hins vegar ekki verið nýtt að staðaldri til beitar eða annars. Þá liggi ekkert fyrir um að Eyvindarstaðaheiði hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en sumarbeitar. Þá hafa fjallskil verið sameiginleg, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búpeningur frá öðrum svæðum getað leitað án hindrana.

Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til eldri heimilda, sérstaklega umfjöllunar í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Eyvindarstaði þar sem greint er frá afréttarsvæði á Eyvindarstaðaheiði „sem liggur frá Ugludalslandi fyri austan Blöndu, Hjer hefur áður afrjettur verið, vide Selland ut supra.“ Þá segi einnig í bókinni: „Selstöðu á jörðin sem brúkast hefur í gamalli tíð á Eyvindarstaðaheiði, sem ekki hefur brúkast í manna minni sökum óbærilegrar vegalengdar.“ Hið sama komi fram í bókinni í umfjöllun um aðrar jarðir í Bólstaðarhlíðarhreppi þar sem vísað er til heiðarinnar sem samnotaafréttar gegn greiðslu afréttartolls. Auk þessa vísar stefndi til þeirra heimilda sem áður er getið. Til viðbótar vísar stefndi til jarðamata frá 1804 og 1849 þar sem vísað er til afréttarlands á Eyvindarstaðaheiði, sem nýtt væri af fleirum fyrir toll, en að mati stefnda bendir slík innheimta afréttartolla eindregið til þess að svæði hafi verið nýtt til sameiginlegra beitarnota þótt svæði hafi eftir atvikum lotið beinni afréttareign. Þá komi fram í fasteignamatinu frá 1916 til 1918 að jörðin Eyvindarstaðir eigi upprekstur á afrétt sem sé sveitareign.

Stefndi telur að nefndar heimildir bendi ótvírætt til þess að Eyvindarstaðaheiði og Hraunin séu ekki háð beinum eignarrétti og teljist þjóðlenda, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998, sem að hluta til sé háð takmörkuðum eignarrétti stefnenda, sbr. c-lið 7. gr. sömu laga. Þessu til viðbótar vísar stefndi til röksemda óbyggðanefndar, einkum á bls. 43 til 56, í úrskurði nefndarinnar svo og til yfirlits nefndarinnar á bls. 12 til 37 en þar séu ítarlega raktar heimildir um svæðið. Auk þessa vísar stefndi til skýrslna sem teknar voru af aðilum fyrir óbyggðanefnd en þar hafi komið fram að landið sé nýtt til sumarbeitar fyrir sauðfé og smalað að hausti.

Varðandi Hraunin sérstaklega vísar stefndi einnig til forsendna í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 67/1996 og niðurstöðu dómsins. Telur hann að líta beri á þau sjónarmið sem þar eru rakin til stuðnings sýknukröfu íslenska ríkisins. Þá beri einnig að horfa til þess að umrædd svæði lúti sambærilegum lögmálum hvað varðar staðhætti, nýtingu, eignarheimildir o.fl. sem ótvírætt bendi til þess að svæðið teljist allt utan eignarlanda jarða. Einnig vísar stefndi til sjónarmiða og röksemda sem fram koma í úrskurði óbyggðanefndar.

Stefndi mótmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi og vísar hann til framangreindra sjónarmiða sinna um nýtingu landsins, staðhætti og eldri heimildir í því efni. Í aldanna rás hafi svæðið verið nýtt með afar takmörkuðum hætti eins og áður hefur verið rakið. Hefðbundin afréttarnot eða önnur takmörkuð nýting lands geti ekki stofnað beinan eignarrétt yfir landi. Í þessu efni bendir stefndi á dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 103/1953, 47/2007 og 48/2004.

Stefndi hafnar því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur að eignarréttartilkalli á svæðinu. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 199/1978 komi fram að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til ráðstöfunar fasteigna ríkisins. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanns stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið til staðar, þar með talið að þjóðlenda verði látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grunni sem stefnendur halda fram. Auk þess verði væntingarnar að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til þess að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geta mögulega átt rétt á. Hér séu aðstæður allar svo, sem áður hefur ítrekað verið getið, að stefnendur geti ekki vænst þess að eiga beinan eignarrétt á svæðinu. Stefndi bendir einnig á að þinglýsing heimildarskjals fyrir landi feli ekki í sér sönnun beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins að menn geta ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.

Stefndi mótmælir varakröfum stefnenda með sömu rökum og að framan greinir. Sérstaklega er því mótmælt að takmörkuð not geti leitt til fullkomins eignarréttar á grundvelli hefðar. Stefndi bendir á að um auðlindir í jörðu gildi lög nr. 57/1998. Að mati stefnda á ákvæði 3. gr. laganna við um hið umþrætta svæði, enda sé það þjóðlenda en ekki eignarland. Ákvæðið feli í sér að í þjóðlendu séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn að þeim. Að mati stefnda hefur stefnendum ekki tekist að sanna slíkan rétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti. Sérstaklega er bent á það sem rakið hefur verið um takmarkaða nýtingu svæðisins en allar heimildir bendi til þess að svæðið hafi eingöngu verið nýtt sem afrétt. Slík takmörkuð not geti hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu. Stefndi heldur því fram að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eignarrétt sinn að hinu umdeilda landi. Ljóst sé að einstakir hlutar þess séu misjafnlega vel fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Eyvindarstaðaheiði hafi því verið talin falla undir svæði sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Heimildir bendi hins vegar ekki til þess að Hraunin hafi verið undirorpin slíkum notum. Telur stefndi því að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, svo sem það er afmarkað í kröfugerð stefnenda og fer saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist allt þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.

 

Niðurstaða

Að framan er rakin sú málsástæða stefnda að dómur hafi áður fallið um eignarrétt að Eyvindarstaðaheiði og vísar hann í því sambandi í dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 67/1996 en dómur þessi tekur til þess landsvæðis sem afmarkað er í landamerkjabréfi fyrir Eyvindarstaðaheiði frá 28. september 1886. Í úrskurði óbyggðanefndar er fjallað um nefndan dóm og kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að henni sé ekki heimilt að hnekkja eða breyta niðurstöðu dóma, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Dómurinn er samkvæmt 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 bindandi um úrslit sakarefnisins milli aðila og þeirra sem koma að lögum í þeirra stað um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þeir sem komu í stað þeirra sem aðild áttu að nefndu hæstaréttarmáli og þeir sem ekki áttu aðild að málinu á sínum tíma hafi sýnt fram á betri rétt en þeir sem aðild áttu að málinu fyrir Hæstarétti og reisa þeir kröfur sínar í öllum aðalatriðum á sömu gögnum og lágu fyrir þegar Hæstiréttur kvað upp sinn dóm. Í úrskurði óbyggðanefndar er m.a. fjallað um títtnefndan dóm með þessum orðum.

„Svo sem áður er nefnt var dæmt um eignaréttarlega stöðu þess landsvæðis sem fellur innan landamerkjabréfs Eyvindarstaðaheiðar með dómi Hæstaréttar Íslands 10. apríl 1997 í máli nr. 67/1996. Dómurinn er bindandi fyrir þá sem aðild áttu að málinu og aðrir aðilar máls þessa fyrir óbyggðanefnd hafa ekki sýnt fram á rýmri rétt til Eyvindarstaðaheiðar. Eftir að dómur Hæstaréttar féll stofnaði Bólstaðahlíðarhreppur Sjálfseignarstofnunina Eyvindarstaðaheiði, sbr. skipulagsskrá stofnunarinnar, dags. 8. desember 2005, sem gagnaðilar ríkisins hafa lagt fram í máli þessu. Skv. 2. gr. skrárinnar leggur sveitarfélagið til stofnunarinnar eignarhluti sína í tilteknum fasteignum, m.a. 5/17 hluta í Eyvindarstaðaheiði. Þar sem sveitarfélagið gat ekki við stofnun Sjálfseignarstofnunarinnar lagt henni til rýmri rétt til heiðarinnar en sannanlega var á hendi þess fyrir breytir skipulagsskráin ekki eignarréttarlegri stöðu heiðarinnar frá þeirri sem hún var þegar Hæstiréttur dæmdi um hana. Önnur gögn sem gagnaðilar ríkisins byggja kröfu sína í máli þessu á, og ekki voru lögð fram í máli nr. 67/1996 fyrir Hæstarétti, eru ritin Göngur og réttir eftir Braga Sigurjónsson og Árbók Ferðafélags Íslands 1964. Í heimildunum er fjallað um nýtingu heiðarinnar sem beitilands, svo og staðhætti og gróðurfar. Ekkert sem þar kemur fram bendir til þess að á Eyvindarstaðaheiði hafi stofnast til beins eignarréttar. Því hafa ekki komið fram í máli þessu gögn eða önnur atriði sem séð verður að dómstólar hafi ekki tekið afstöðu til og skipt gætu máli hér.

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu Húnavatnshrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar að landsvæði það sem afmarkað er í landamerkjabréfi Eyvindarstaðaheiðar, dags. 28. september 1886 og þingl. 20. maí 1889, sé eignarland, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá 10. apríl 1997 í máli nr. 67/1996.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem nefnt er Eyvindarstaðaheiði, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.“

Í framhaldi af þessu er rakið hvernig heiðin er afmörkuð og er sú lýsing með sama hætti og rakið er í dómkröfum stefnenda og þeir krefjast ógildingar á.

Dómurinn fellst á framangreind rök óbyggðanefndar og gerir þau að sínum. Að mati dómsins liggur fyrir að áður hefur verið skorið úr um eignarréttarlega stöðu Eyvindarstaðaheiðar þannig að stefnendur eiga þar ekki beinan eignarrétt en niðurstaða Hæstaréttar í títtnefndum dómi er bindandi fyrir aðila málsins. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu stefnenda um að þeir eigi beinan eignarrétt að landi innan þinglýstra landamerkja Eyvindarstaðaheiðar eins og heiðin er afmörkuð í úrskurði óbyggðanefndar. Er úrskurður óbyggðanefndar hvað þetta varðar því staðfestur. Þá ber einnig að staðfesta úrskurð nefndarinnar þess efnis að svæðið sé í afréttareign stefnenda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

Stefnendur krefjast þess að þeir eigi beinan eignarrétt að landsvæði sem kallað er Hraunin. Svæði þetta er stórt og liggur að mestu milli austari landamerkja Eyvindarstaðaheiðar og Jökulsár vestari. Að fenginni þeirri niðurstöðu að land innan þinglesinna landamerkja Eyvindarstaðaheiðar sé ekki eignarland verður ekki hjá því komist að fara eins með Hraunin, enda hafa stefnendur ekki lagt fram nein gögn sem benda til að þeir eigi þar frekari rétt en þeir eiga á því svæði sem er innan landamerkja Eyvindarstaðaheiðar. Þá verður ekki fram hjá því horft að Hraunin eru mun gróðurminni en nefnd heiði. Er eignarréttarkröfu stefnenda til Hraunanna því hafnað og úrskurður óbyggðanefndar varðandi eignarréttarlega stöðu Hraunanna staðfestur með þeim hætti sem þar er gert. Í úrskurði nefndarinnar er sérstaklega fjallað um hluta Hraunanna sem stefndi gerði ekki tilkall til með kröfulýsingu sinni fyrir nefndinni og stendur sú niðurstaða nefndarinnar óhögguð, enda krefst stefndi ekki annars en að úrskurður nefndarinnar verði staðfestur.

Fyrsta varakrafa stefnenda tekur til landsvæðis sem er innan landamerkja sem lýst er í landamerkjabréfi Eyvindarstaðaheiðar og verður því með sömu rökum og varðar aðalkröfu stefnenda að hafna henni.

Önnur varakrafa stefnenda er þess efnis að þeir krefjast viðurkenningar á því að þeir eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu án endurgjalds á öllu því svæði sem úrskurðað var þjóðlenda, einnig á svokölluðum Hraunum. Ekkert liggur fyrir um að stefnendur eða fyrirrennarar þeirra hafi nokkru sinni haft önnur not af þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot til sumarbeitar fyrir búfénað. Í úrskurði óbyggðanefndar var því slegið föstu að svæðið innan landamerkja Eyvindarstaðaheiðar sé afréttareign stefnenda og hafa stefnendur ekki reifað hver þau frekari réttindi geti verið sem varakrafa þeirra tekur til. Eru því ekki efni til að hnekkja úrskurði óbyggðanefndar hvað þetta varðar um það svæði sem er innan merkja Eyvindarstaðaheiðar. Þá verður með sömu rökum ekki fallist á með stefnendum að þeir kunni að eiga frekari rétt en afréttarnot að því svæði sem kallað er Hraunin. Er stefndi því sýknaður af annarri varakröfu stefnenda.

Kemur þá loks til skoðunar hvort fallast beri á kröfu stefnenda um að þeim beri afréttarnot af Hraununum en þeirri kröfu var hafnað af óbyggðanefnd. Í úrskurði óbyggðanefndar eru raktar heimildir sem til eru um Hraunin. Nefndin telur að heimildirnar bendi ekki til þess að Hraunin hafi nokkru sinni verið nýtt að staðaldri sem sumarbeitiland fyrir búfé eða með öðrum hætti og telur svæðið þjóðlendu í skilningi 1. gr. sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Í niðurstöðum sínum vísar nefndin einkum til þess að Hraunanna sé ekki getið sem afréttareignar í svarbréfi sýslumannsins í Skagafriði frá árinu 1920 þegar leitað var eftir því hvar í Skagafirði finna mætti almenninga og afréttarlönd sem ekki tilheyrðu lögbýlum. Í ódagsettu svari, við bréfi Tryggva Gunnarssonar lögfræðings frá árinu 1985, greini sýslumaðurinn á Sauðárkróki frá því að frá austari merkjum Eyvindarstaðaheiðar og austur að Jökulsá vestri sé mikið landsvæði sem ekki sé vitað um eignarrétt á en svæði sé í daglegu tali kallað Hraunin. Sýslumaður telur líklegt að landnámsjarðirnar Mælifell, Írafell og Goðdalir hafi átt land þetta. Þá vísar nefndin til þess að Hraunanna sé ekki getið í landamerkjabréfi fyrir Eyvindarstaðaheiði sem bendi til þess að menn hafi ekki talið til réttinda yfir heiðinni. Þá getur óbyggðanefnd þess að Hraunanna sé ekki getið í fjallskilareglugerðum fyrir Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur. Allt þetta að viðbættu því að Hraunin hafi um síðustu aldamót verið girt af í þeim tilgangi að varna búfénaði aðgangi að þeim bendi til þess að þau hafi ekki að staðaldri verið nýtt til sumarbeitar fyrir búfé. Þrátt fyrir að Hraunin og Eyvindarstaðaheiði séu í raun eitt svæði sem gjarnan er einu nafni kallað Eyvindarstaðaheiði er það mat dómsins að stefnendum hafi ekki tekist að færa fram rök fyrir þrautavarakröfu sinni sem leiði til þess að fella beri úrskurð óbyggðanefndar úr gildi hvað þetta varðar og er þá einkum horft til þess sem að framan er rakið og gróðurfars á svæðinu en óumdeilt er að svæðið hentar illa til sumarbeitar fyrir búfé og því hafi það í aldanna rás lítið verið nýtt í þeim tilgangi.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið er kröfum stefnenda um að ógilda úrskurð óbyggðanefndar hafnað og skal hann standa óraskaður.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Stefnendur fengu gjafsóknarleyfi fyrir héraðsdómi 15. mars 2010 og greiðist allur gjafsóknarkostnaður þeirra úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns. Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru þykir þóknun lögmannsins hæfilega ákveðin 878.500 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu niðurlagsákvæði 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Sjálfseignarstofnunarinnar Eyvindarstaðaheiðar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 878.500 krónur.

 

 

                                                                  Halldór Halldórsson