• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2011 í máli nr. E-1176/2008:

Vopnafjarðarhreppur

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Andri Árnason hrl.)

 

 

            Mál þetta sem dómtekið var í dag, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Vopnafjarðarhreppi, eiganda Þorbrandsstaða í Vopnafjarðarhreppi, gegn íslenska ríkinu með stefnu áritaðri um birtingu 17. janúar 2008.

 

            Dómkröfur stefnanda eru þessar:

            Aðalkrafa

            Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega, að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, þess efnis að hluti ofangreindrar jarðar sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

 

            „Þorbrandstaðatungur, svo sem þær eru afmarkaðar hér á eftir, eru þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

 

Ræður Þórðará að innan og neðan þar til hún fellur í Sunnudalsá; svo ræður Sunnudalsá upp í Sandfell, þá er sveitarfélagamörkum fylgt til vesturs í áðurnefnda Þórðará.

 

Sama landsvæði er í afréttareign Þorbrandsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“

 

            Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra eignarheimilda Þorbrandsstaða, og þar með þess, að allt land Þorbrandsstaða, þ.m.t. Þorbrandsstaðatungur sé eignarland í samræmi við kröfulýsingu sem er í samræmi við landamerkjabréf jarðarinnar frá 14. júlí 1885 þ.e.:

 

ræður Þórðará að innan og neðan þar til hún fellur í Sunnudalsá; svo ræður Sunnudalsá upp í Sandfell, þá er sveitarfélagamörkum fylgt til vesturs í áðurnefnda Þórðará,

 

sbr. framlagðan uppdrátt með úrskurði óbyggðanefndar.

 

            Varakrafa

            Til vara er þess krafist, verði niðurstaða óbyggðanefndar staðfest, að viðurkennt verði að stefnandi eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var í afréttareign eiganda Þorbrandsstaðatungna, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga þó að landið teljist þjóðlenda.

            Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi stefnanda, bæði í aðal- og varakröfu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

 

            Dómkröfur stefnda

            Af hálfu stefnda er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.

            Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist, að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

 

            Málavextir

            Tildrög málsins eru þau að með bréfi 1. mars 2004 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar tiltekið landsvæði á Norðausturlandi, sbr. 8., 11. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Landsvæði þetta var hið fimmta í röðinni hjá óbyggðanefnd og eins og fram kemur í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 3/2005 var svæðið að vestanverðu afmarkað af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum allt frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að aðalupptökum árinnar í Dyngjujökli. Þaðan er jaðri Dyngjujökuls fylgt þar til komið er vestur undir Kverkfjöll í Hveradal og þaðan er dregin lína áfram í suður, til skurðar við línu þá á Vatnajökli sem afmarkar svæðið til suðurs. Framangreindum vestur­mörkum var síðar breytt að því leyti að svokölluð Kreppu­tunga, austan Jökulsár á Fjöllum og vestan Kreppuár, var skilin undan svæðinu, sbr. 8. gr. laga nr. 58/1998.

            Að austan afmarkast svæðið af farvegi Lagarfljóts allt frá ósum þess á Héraðssandi þangað sem Gilsá rennur í það. Síðan fylgja mörk svæðisins Gilsá og austurmörkum Fljótsdalshrepps við Austur-Hérað, Djúpavogshrepp og sveitarfélagið Hornafjörð.

            Framangreind afmörkun til austurs endar í Geldingafelli. Þaðan er dregin lína til suðvesturs inn á Vatnajökul, yfir hnjúk í 1438 m hæð og áfram í Grendil, þaðan í nafnlausan hnjúk skammt sunnan Grendils, áfram yfir Goðahnjúka og í miðja Breiðabungu og loks í stefnu á Svíahnjúk eystri til skurðar við framangreind vesturmörk. Afmörkun á Vatnajökli byggir á markalínum þeim sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína.

            Að norðan afmarkast svæðið af hafi.

            Var fjármálaráðherra veittur frestur til 1. ágúst til að lýsa kröfum um þjóðlendur á þessu svæði, væri um slíkar kröfur að ræða. Var kröfulýsingafrestur fjármálaráðherra fyrst framlengdur til 15. október 2004 og síðar til 12. nóvember 2004.

            Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á Norð­austur­landi bárust 11. nóvember 2004. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um máls­­meðferð á framangreindu svæði og útdrátt úr kröfum íslenska ríkisins, ásamt upp­drætti, í Lögbirtingablaðinu 28. desember 2004, Fréttablaðinu 7. janúar 2005 og Morgunblaðinu 9. janúar 2005, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Var skorað á þá sem teldu sig hafa eignarrétt á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 31. mars 2005. Var kröfulýsingarfrestur framlengdur lítillega í þeim tilvikum sem leitað var eftir slíku og bárust síðustu kröfulýsingar í maí 2005.       

Óbyggðanefnd hafði ákveðið að skipta þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins niður í fimm mál og er í máli nr. 3/2005 fjallað um þjóðlendumörk í Vopnafirði.

            Fyrir óbyggðanefnd gerði stefnandi þær kröfur að viðurkennt yrði að þinglýstir eigendur hefðu beinan eignarrétt að öllu landi Þorbrandsstaða í samræmi við landamerki. Tekið var sérstaklega fram að jörðinni fylgdi svokallað Heiðarstykki í Hraunfellsparti (Þorbrandsstaðatungur). Þá var tekið fram að í kröfugerðinni fælist jafnframt krafa um fullkominn afnotarétt í þjóðlendu, að öllum venjubundnum afnotum, að fornu og nýju, ef svo færi að einhver hluti landsins teljist þjóðlenda.

            Aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd fór fram dagana 25., 26. og 27. júní 2006 og var málið tekið til úrskurðar að málflutningi loknum. Málið var svo endurupptekið 17. ágúst 2006, ný gögn lögð fram og málið svo tekið til úrskurðar að nýju.

            Hinn 29. maí 2007 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð í málinu nr. 3/2005, Vopnafjarðarhreppur. Var komist að þeirri niðurstöðu að það landsvæði sem hér er deilt um væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, en jafnframt í afréttareign Þorbrandsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. Í niðurstöðu óbyggðanefndar segir m.a. svo:

 

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það að afréttarsvæðið Þorbrandsstaðatungur sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda og er fallist á kröfu ríkisins þess efnis. Heimildir benda einnig til þess að Þorbrandsstaðatungur séu í afréttareign Þorbrandsstaða.

 

            Stefnandi vill ekki una framangreindri niðurstöðu óbyggðanefndar og hefur því höfðað mál þetta. Var honum með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 8. september 2008 veitt gjafsókn í málinu.

 

            Málsástæður og lagarök stefnanda

            Um landnám

            Stefnandi fjallar sérstaklega um landnám á þessu svæði og er því haldið fram að allt land í Vopnafjarðarhreppi hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti.

            Landnámshverfi Vopnafjarðarhéraðs taki að norðvestan frá Bakkaflóalandnámi, en að suðaustan takmarkist það af Smjörfjallgarðinum og heiðarlöndunum suður af honum.

            Svo megi skilja frásögn Landnámu af landnáminu í Vopnafjarðarhéraði, að Eyvindur vopni hafi verið þar fyrstur landnámsmaður. Sú ályktun sé aðallega dregin af því að bæði fjörður og hérað sé við hann kennt. Mörkin milli landnáma Hróalds bjólu og Eyvindar geri það engu að síður líklegt, að Hróaldur hafi numið land fyrr en Eyvindur.

            Hróaldur bjóla, fóstbróðir Eyvindar vopna, nam land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness og bjó á Torfastöðum. Ólíklegt sé um bústað Hróalds á Torfastöðum í Vesturárdal að ræða vegna þess að það sé í blájaðri hins víðlenda landnáms hans. Hróaldsstaðir heitir bær í Selárdal. Þar sé landrými nóg og stutt að sækja til sjávar. Miklu væri það líklegri bústaður Hróalds. Með því móti gætu verið eðlileg mörk milli þeirra fóstbræðra Hróalds og Eyvindar.

            Eyvindur vápni og Refur hinn rauði, synir Þorsteins þjokkubeins, bjuggust til Íslands af Strind í Þrándheimi, því þeir urðu missáttir við Harald konung og hafði sitt skip hvor þeirra. Refur varð afturreka og lét Haraldur drepa hann, en Eyvindur kom í Vopnafjörð og nam fjörðinn allan frá Vestradalsá og bjó í Krossavík innri. Landnám þetta rúmi 30 býli á nútímamælikvarða.

            Bræðurnir Lýtingur og Þorsteinn torfi fóru til Íslands. Lýtingur nam Vopnafjarðarströnd alla hina eystri, Böðvarsdal og Fagradal og bjó í Krossavík.

            Með þessum landnámum sé allt land talið numið í Vopnafjarðarhéraði, en samt er enn fremur sagt frá tveimur mönnum, sem land fengu hjá frumbyggjunum.

            Af lýsingum Landnámu megi því ráða að allt land hafi verið numið í Vopnafjarðarhéraði. Oft hafi Landnáma verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt. Sem dæmi um dóma þar sem orðalag landnámu sé talið styðja við eignarrétt eru Skeljabrekka hrd. 1960:726 og Geitland hrd. 1994:2228. Sömu niðurstöðu sé að finna í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar í fyrri úrskurðum.

            Landeigendur telja að taka verði Landnámu með fyrirvara sem réttarheimild. Hins vegar verði að hafna sjónarmiðum ríkisins, þess efnis að landnám hafi ekki náð til heiða og ekki til fjalla, nema í Smjörfjöllum sem þó teygi sig upp í 1255 m hæð, enda byggist þau ekki á neinum hlutlægum sönnunargögnum, og fari í bága við heimildir um búsetu, gróðurfar og nýtingu landsins.

            Heimildir um landamerki jarða í Vopnafirði séu víða ævafornar, t.d. máldagar, vísitasíur og lögfestur, og bendi til þess að fullkominn eignarréttur eigendanna hafi verið virtur á þessu landi frá ómunatíð.

            Stefnandi vísar til þess að eignarrétturinn sé friðhelgur, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu. Byggt sé á landamerkjabréfi Þorbrandsstaða, dags. 6. júní 1885 og þingl. 8. júní 1885, en bréfið sé þinglýst, fært í landamerkjabók án athugasemda og hafi það síðan ráðið merkjum Þorbrandsstaða. Með vísan til framlagðra gagna málsins er styðji ofangreint eignatilkall stefnanda telur stefnandi að úrskurður óbyggðanefndar sé rangur og hann brjóti í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. Stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944.

            Stefnandi byggir eignarréttarkröfu sína á þeirri meginreglu íslensks eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland, sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því. Því sé haldið fram að land jarðarinnar hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti. Landnámsheimildir í Vopnafirði fari ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar, og ljóst sé að við landnám hafi landið verið gróið til jökla.

            Minnt sé á að við setningu landamerkjalaganna nr. 5/1882 og síðan laga nr. 41/1919 hafi það verið ætlun löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau ef hann væri fyrir hendi. Með vísan til landamerkjalaganna og tilgangs þeirra sé á því byggt að landamerkjabréf Þorbrandsstaða bendi til þess að um sé að ræða landsvæði sem sé háð beinum eignarrétti. Landamerkjabréfið sé byggt á eldri heimildum svo sem vitnisburði þriggja vitna frá 1669, innfærðum í bréfabók biskups, eins og rakið sé í úrskurði óbyggðanefndar. Eldri heimildir fari því ekki gegn landamerkjabréfi jarðarinnar. Vísast einnig um þetta til hrd. 48/2004, þar sem máli var talið skipta hvort land teldist innan upphaflegra landnáma og hvort með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum.

            Ekkert komi fram í kröfugerð ríkisins sem bendi til annars en að allt land innan landamerkja Þorbrandsstaðatungu samkvæmt landamerkjabréfi hafi og verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.

            Byggir stefnandi mál sitt einnig á 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Mannréttindasáttmálinn hafi lagagildi hér á landi og veiti hann eignarréttinum sjálfstæða vernd samhliða stjórnarskránni, þar sem dómar Evrópudómstólsins benda til þess að réttmætar væntingar aðila til eignarréttar, sem byggjast m.a. á því að ríkisvaldið hafi með athöfnum eða athafnaleysi viðurkennt eignarréttinn, t.d. með dómum, í samningum og með því að þinglýsa eignaskjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, séu varðar af mannréttindaákvæðunum. Vísað sé til jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga um að sambærileg mál hljóti sömu niðurstöðu. Ekki verði gerðar ríkari sönnunarkröfur á hendur eiganda Þorbrandsstaðatungna en annarra landeigenda.

            Hafi hugtakið „eign“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu verið túlkað á þá leið af Mannréttindadómstól Evrópu að það hafi sjálfstæða merkingu. Með sjálfstæðri merkingu sé átt við að við mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar 1. gr. þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis, sem í hlut eigi. Skortur á slíkri vernd að landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum um mat á því hvort um eign sé að ræða í skilningi 1. gr. Þannig geti verið um að ræða eign í skilningi ákvæðisins þótt dómstólar viðkomandi aðildarríkis hafi ekki talið að um eign væri að ræða samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ítrekað áréttað að við mat þetta beri að líta til allra atvika máls í heild sinni.

            Þá byggi eignarréttarkrafa stefnanda einnig á hefð og venjurétti. Allir hafi litið svo á um ómunatíð að allt land Þorbrandsstaða sé eignarland, og enginn haldið öðru fram fyrr er ríkið nú, við meðferð þjóðlendumála á svæðinu. Óumdeilt hafi verið að landið var numið í öndverðu.

            Stefnandi byggir á því að úr því að hefðarlög heimili eignarhefð lands, sem sé í opinberri eigu, hljóti þeim mun fremur að vera unnt að hefða land sem sé ekki eignarrétti háð. Sjónarmiðin um hefð séu því til staðfestingar náminu, þ.e. til þess að festa í sessi eignarrétt þessara aðilja.

            Í H 1997 2792 (Lauga­vellir) hafi eignar­hefð verið viður­kennd, enda þótt not hefðanda, sem jafnframt studdi rétt sinn við kaup­samning, hefðu verið sam­bæri­leg af­réttar­notum, þ.e. beit og eftir at­vikum önnur þrengri nýting. Í H 1939 28 (Einars­nes) taldist eignar­hefð einnig fullnuð, enda þótt eignar­heimild væri sögð glötuð og ekki annar grund­völlur fyrir hendi en tak­mörkuð not.

            Stefnandi vísar einnig um hefðina til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Helgu klaustranna gegn Grikklandi en þar komi fram athyglisverð sjónarmið varðandi afstöðu dómstólsins til sönnunar á eignarhaldi fyrir umræddu landsvæði. Mannréttindadómstóll Evrópu benti á að klaustrin sem væru hluti af grísku kirkjunni og stofnuð voru löngu fyrir myndun gríska ríkisins, hefðu í aldanna rás eignast miklar eignir þar með talið landsvæði. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi að óumdeilanlega hefðu þau afsöl sem aflað var á tímum keisaraveldanna Býsans og Ottóman, glatast eða eyðilagst. Með tilliti til landtöku í svo langan tíma, meira að segja án löglegs eignarhalds, yrði að telja að það tímabil, sem væri skilyrði fyrir því að hefð yrði haldið upp á ríkið eða gegn þriðja aðila, hefði án efa verið lokið.

            Ítrekað sé að 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu sé hluti af íslenskum rétti og íslenskum dómstólum beri að taka mið af þeim sjónarmiðum sem lögð séu til grundvallar af Mannréttindadómstól Evrópu við mat á því hvort um sé að ræða eign sem njóti verndar 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.

            Útilokað sé að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi og til dagsins í dag. Hins vegar verður að telja eðlilegt að stefndi beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi sé. Í ljósi þeirra gjörninga sem liggi fyrir um ráðstöfun landsins sé því haldið fram að stefnandi hafi fært fram nægar heimildir fyrir eignatilkalli sínu. Það sé því ríkisins að sanna að landið sé þjóðlenda.

            Samkvæmt gögnum er lögð voru fyrir óbyggðanefnd sé ljóst að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám og talið að landið hafi verið vel gróið upp í 6-700 metra hæð. Atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ráði því ekki úrslitum þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði. Sé það í samræmi við niðurstöðu óbyggðanefndar í sambærilegum málum.

            Notkun lands geti auðvitað gefið vísbendingar um hvort land sé eignarland eða ekki, en ekki megi alhæfa út frá því. Má sem dæmi nefna að mjög stór hluti lands á láglendi sé ekki í neinum heilsársnotum af skiljanlegum ástæðum. Yfir vetrartímann sé landið gegnfrosið og enginn skepna fari um það.

            Það sem mestu skipti sé þó að á þessu svæði hafi stefnandi getað bannað öðrum not landsins í ljósi þinglýstrar eignarheimildar.

            Venjur varðandi fjallskil geti ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð, sbr. og úrskurði óbyggðanefndar í uppsveitum Árnessýslu 21. mars 2002.

            Athugasemdir við það frumvarp sem varð að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um þetta efni. Verða lög nr. 58/1998 því ekki skýrð á þá leið að stefnandi sem þinglýstur eigandi Þorbrandsstaðatungna þurfi að sýna frekar fram á en hann hafi gert með framlagningu ofangreindra eignarheimilda að umrætt landsvæði sé eignarland og þar með utan þjóðlendu.

            Sé því óhjákvæmilegt að fella úrskurð óbyggðanefndar úr gildi að því er ofangreint landsvæði greinir.

            Ekki sé ágreiningur við stefnda um merki jarðarinnar og sé vísað til úrskurðar óbyggðanefndar um röksemdir fyrir þeim og til framlagðra landamerkjabréfa.

 

            Nánar um eignarheimildir Þorbrandsstaðatungna

            Krafa stefnanda byggir á þinglýstum landamerkjabréfum sem áður séu rakin, og öðrum skráðum eignarheimildum fornum og nýjum sem þeir hafa fyrir þessari eign sinni, sbr. þinglýsingarvottorð, og einnig þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða.

            Sérstaklega sé vísað til landamerkjabréfa Þorbrandsstaða, afmörkunar aðliggjandi jarða í landamerkjabréfum og fasteignamats frá 1916-1918 sem og hins forna vitnisburðar um merkin frá 1669.

 

            Mótmæli við úrskurð óbyggðanefndar

            Stefnandi telur að tilgangurinn með lögum um þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landsvæða sem enginn hafi skjöl fyrir að hann eigi, en svo hátti til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands. Óbyggðanefnd eigi að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu. Land Þorbandsstaðatungna sé hins vegar ekki eigendalaust, sbr. ofangreind heimildarskjöl.

            Samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaganna nr. 58/1998 komi einmitt fram að þjóðlendur séu utan eignarlanda. En eignarland sé skilgreint sem landsvæði sem háð sé einkaeignarrétti þannig að eigandinn fer með öll venjuleg eignarráð þess. Stefnandi haldi því fram að svo sé með allt það land sem hann hafi þinglýsta eignarheimild fyrir. Innan þinglýstra landamerkja landareigna fari landeigendur einir með öll venjuleg eignarráð, bæði raunveruleg og réttarleg yfirráð. Stefnandi telur því að leggja verði sönnunarbyrði á stefnda um tilvist þjóðlendu innan landamerkja þrætusvæðanna.

            Óumdeilt ætti að vera að þrætusvæðið sé innan upphaflegs landnáms. Það sé stefnda að sýna fram á og sanna að beinn eignarréttur á þessu landi hafi fallið niður. Stefnandi byggir á því að sú sönnunarregla sé eðlileg með tilliti til þess að stefnandi hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf fyrir landinu og margvísleg gögn er sýni fram á að innan þessara merkja hafi eignarréttur stefnanda verið virtur af öllum aðilum.

            Sú óhóflega sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á stefnanda með því að krefjast sannana um framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrár né heldur mannréttindasáttmála Evrópu.

            Í almennum forsendum úrskurðarins hafi óbyggðanefnd fjallað um hefð og þýðingu hefðar við úrlausn þjóðlendumála. Komist er að þeirri niðurstöðu að hefð sé eitt dæmi um frumstofnun eignarréttar. Segir enn fremur að við mat á því hvort tekist hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það sé innan eða utan landamerkja jarðar og skipti gildistaka hefðarlaga 1905 máli og hljóti að styrkja eignartilkall í slíkum tilvikum. Skilyrði fyrir því að eignarhefð verði unnin á landsvæði utan landamerkja jarðar séu hins vegar talin þröng, þó að ekki sé slíkt talið útilokað. Stefnandi fái ekki séð hvers vegna þessi sjónarmið óbyggðanefndar eigi ekki við um þrætusvæðið. Landið sé innan þinglýstra landamerkja og það sé háð einkanýtingarrétti stefnanda.

            Bændur í sveitarfélaginu eigi hefðbundinn upprekstrarrétt á landið, en enginn nema eigandinn og þeir sem leyfi hafa fengið hjá honum, geti nytjað landið til beitar, jarðefnavinnslu, landleigu eða annarrar nýtingar.

            Niðurstaða óbyggðanefndar varðandi þrætusvæðið byggist alfarið á því að beinn eignarréttur hafi ekki stofnast á þessu svæði. Með vísan til framangreindra sjónarmiða og til fjölmargra dómafordæma Hæstaréttar, m.a. hrd. 48/2004, 47/2007 448/2006, 536/2006 og 24/2007 og Evrópudómstólsins t.d Helgu klaustranna gegn Grikklandi sé niðurstaða óbyggðanefndar röng. Öldungis fráleitt sé að Þorbrandsstaðatungur hafi aðra eignarréttarlega stöðu en aðliggjandi land, sem allt hafi verið metið eignarland þó að sambærilegt sé við Þorbrandsstaðatungur, bæði varðandi notkun og landgæði.

            Nefndin hafi metið ranglega sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á stefnanda sem standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.

 

            Um 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu

            Rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum og dómi njóti verndar samkvæmt 6. gr. sáttmálans. Verði í lögum eða dómafordæmum mótaðar reglur um svo þunga sönnunarbyrði, einkum í dómsmálum borgaranna gegn ríkisvaldinu vegna mannréttindabrota þess að nánast útilokað sé að borgararnir geti uppfyllt sönnunarkröfurnar, þá jafngildi það því, að útilokað sé að þeir fái mannréttindi sín viðurkennd gagnvart ríkisvaldinu. Í umræddum úrskurði hafi óbyggðanefnd lagt svo þunga sönnunarbyrði á herðar stefnanda um sönnun á stofnun og framsali eignarréttar að honum sé ókleift að standa undir henni. Með slíkum reglum um sönnunarbyrði um eignarrétt að landi, sem stefnandi hafi einn nýtt um aldir athugasemdalaust, sé komið í veg fyrir að stefnandi njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum.

 

            Skortur á rökstuðningi

            Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að í úrskurði óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar og úrskurðurinn fari því gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58/1998. Ekki sé rökstutt hvers vegna sambærilegt land með sambærileg skjöl að baki fái mismunandi eignarréttarlega niðurstöðu.

            Varðandi lagarök sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttarins, sbr. 6.gr. og 14. gr. sbr. lög nr. 62/1994 um lögfestingu sáttmálans. Vísað sé til laga nr. 58/1998 um þjóðlendur, sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 Vísað sé til námulaga nr. 24/1973 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Byggt sé á meginreglum eignarréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennum reglum samninga- og kröfuréttar, og á hefðarlögum nr. 14/1905. Einnig sé vísað til almennra reglna um ítaksrétt og stofnun ítaka. Vísað sé til almennra reglna um venjurétt. Vísað sé meginreglna um traustfang og traustnám og almennra reglna íslensks réttar um tómlæti.

 

            Um varakröfu

            Krafa þessi byggi í eðli sýnu á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa.

            Í lögun nr. 58/1998 um þjóðlendur sé beinlínis gert ráð fyrir að þeir sem nýtt hafi land innan þjóðlendu skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um, sbr. 5. gr. laganna.

            Stefnandi vísar einnig til reglna um stofnun ítaka, þar sem meðal annars sé rætt um að háttsemi aðila eða þegjandi samþykki geti orðið til þess að ítaksréttur stofnist. En stefnandi hafi um ómunatíð notið auðlinda svæðisins, þ.m.t. vatnsréttinda til að brynna sauðum á umræddu landsvæði, og leigt lóð undir gangnaskála, án nokkurra athugasemda, í fullan hefðartíma.

            Með auðlindum í þessu efni sé átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna megi úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunni að finnast við.

            Í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé ráð fyrir því gert í 3. gr. að í þjóðlendu séu auðlindir eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.

            Hefð sé eignarheimild að íslenskum rétti og felist í umráðum sem varað hafa vissan tíma og sem verða að uppfylla tiltekin skilyrði. Hefð er skyld námi að því leyti að taka umráða sé nauðsynlegt skilyrði hefðar. Samkvæmt lögum um hefð nr. 46/1905 er óslitið eignarhald skilyrði hefðar. Skilyrðin séu fyrst og fremst virk yfirráð eignar, bein hagnýting án löggerninga, ráðstafanir að lögum, viðhorf hefðanda og annarra aðila. Eins og mál þetta liggi fyrir verði að telja að skilyrði hefðarlaga um óslitið eignarhald sé fullnægt gagnvart öllum nýtingarmöguleikum á svæðinu. Landið og auðlindir þess hafi verið nýtt með öllum mögulegum hætti á hverjum tíma af landeiganda einum.

Að því er varðar sönnun um hefðarskilyrði 3. mgr. 2. gr. sé aðstaðan í meginatriðum á þann veg að sá aðili sem vefengi hefð verði að sýna fram á að skuldbindingar af umræddu tagi hafi verið fyrir hendi. Komi fram sönnun um skuldbindingu sé það á hinn bóginn hefðanda að sýna fram á að skuldbindingin hafi einhvern tíma fallið niður.

 

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Af hálfu stefnda er á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telur stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnanda að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.

            Óbyggðanefnd byggir úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Er niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar á gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá var einnig byggt á skýrslum sem gefnar voru fyrir nefndinni. Taldi óbyggðanefnd ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998, hefði landsvæði það sem um er deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram til þess tíma.

            Stefndi gerir niðurstöður nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfu.    

            Stefndi tekur undir með óbyggðanefnd að fyrirliggjandi heimildir er varða eignarréttarlega stöðu landsvæðisins bendi til þess að um sé að ræða afréttarsvæði, sem ekki sé undirorpið beinum eignarrétti.

            Þorbrandsstaðatungna sé fyrst getið í heimildum frá 17. öld og í landamerkjabréfi Þorbrandsstaða, ódags., en þinglýstu 14. júlí 1885, sé annars vegar lýst merkjum Þorbrandsstaða og hins vegar merkjum heiðarlands Þorbrandsstaða, þ.e. því svæði sem hér sé til umfjöllunar.

            Á því sé byggt að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæðið, beri við mat slíkra bréfa að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004 (Úthlíð).

            Þá verði við mat á gildi landamerkjalýsingar svæðisins að horfa til þess að ekki verði séð að bréfið hafi verið samþykkt af eigendum allra aðliggjandi jarða.

            Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

            Hvergi komi fram í heimildum að í Þorbrandsstaðatungum hafi verið búseta af nokkru tagi, sjálfstæð jörð eða hjáleiga.

            Stefndi sé sammála þeirri ályktun óbyggðanefndar að sú aðgreining Þorbrandsstaðatungna frá Þorbrandsstöðum sem fram komi í fyrrgreindu landamerkjabréfi Þorbrandsstaða frá 1885 bendi til þess að svæðið hafi verið afréttur og aðskilið frá öðru landi jarðarinnar.

            Ekki verði því talið að svæðið sé jörð í eignarréttarlegum skilningi þess orðs. Jörðin Þorbrandsstaðir liggi jafnframt ekki að hinu umþrætta landi Þorbrandsstaðatungna. Jarðirnar Hraunfell og Gnýsstaðir liggi þar á milli. Sjá m.a. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 133/2006 (Hrunaheiðar).

 

            Álíti stefndi að sú staðreynd að Þorbrandsstaðatungna sé í engu getið í yngra landamerkjabréfi Þorbrandsstaða, dags. 14. júlí 1922, bendi eindregið til þess að það hafi ekki verið litið svo á að landsvæðið væri eiginlegur hluti jarðarinnar Þorbrandsstaða.

            Engin gögn liggi fyrir um að umþrætt landsvæði hafi nokkurn tíma verið byggt eða nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, eða e.t.v. annarra takmarkaðra nota.

            Vísist um það til þess sem áður hafi verið rakið, sem og til staðhátta og gróðurfars á svæðinu, en um sé að ræða fjalllendi fjarri byggð. Þá hafi fjallskil verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður leitað frá öðrum jörðum án hindrana.

            Eldri heimildir bendi jafnframt til þess að jörðin Þorbrandsstaðir hafi átt þar afrétt. Með bréfi sýslumanns Norður-Múlasýslu, dags. 13. júní 1864, bað hann hreppstjóra í sýslunni að gera tillögur að fyrirkomulagi fjallskila. Í bréfi hreppstjóra Vopnafjarðarhrepps kom fram að lögréttir skyldu vera á átta stöðum í hreppnum, þ.á m. á Einarsstöðum. Þar ætti að rétta fé af Einarsstaðaafrétti og svonefndum parti „tilheyrir Þorbrandsstöðum (afréttar stykkji)“. Í landamerkjabréfi Þorbrandsstaða frá 1885 segir m.a. að jörðin eigi „heiðarland undir Sandfelli“. Í fasteignamati 1916-1918 segir að Þorbrandsstaðir eigi upprekstur undir Sandfell fyrir 200 fjár. Þorbrandsstaðatungur séu hluti af leitarsvæðinu, Hraunfellspartur, sem taki til landsvæðis norðanvert við Sandfell að Pyttá og síðan út með Tunguá og Sunnudalsá, Einarsstaðafjalli og Hraunfellsháls. Í byggðasögunni Sveitir og jarðir í Múlaþingi (I. bindi útg. 1974), segir að Þorbrandsstaðir eigi upprekstur á Hraunfellspart og taki göngur 2-3 daga.

            Bent sé á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði. Ólíklegt verði að teljast að land á umþrættu landsvæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum.

            Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varðar leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48/2004. Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem heldur slíku fram.

            Verði talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð voru beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér lágu hagsmunir til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Sjá um þetta m.a. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).

            Verði hins vegar talið, að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefndi á til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Þó að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverð liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

            Þá sé á því byggt af hálfu stefnda að staðhættir og fjarlægðir frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti.

            Umþrætt landsvæði liggi milli Þórðarár og efsta hluta Sunnudalsár syðst í Vopnafjarðarhreppi og afmarkist af Sandfelli að sunnan. Sá hluti Sunnudalsár sem hér um ræðir sé á sumum kortum nefndur Grjótá fremri. Stærstur hluti þess landsvæðis sem hér um ræðir sé í 600-800 m hæð yfir sjávarmáli undir hlíðum Sandfells og Hellisaxlar og í útjaðri Smjörvatnsheiðar. Ofan til sé svæðið að mestu ógróið eða lítt gróið en neðan til megi finna allnokkurt mólendi auk votlendis í grennd við þann stað þar sem Þórðará og Sunnudalsá koma saman.

            Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.

            Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.

            Stefndi hafnar því einnig að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti átt mögulega rétt á. Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

            Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda með sömu rökum og að framan greinir og krefst sýknu.

            Því sé sérstaklega mótmælt að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignarréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvorki að hluta til né að öllu leyti.

            Um auðlindir í jörðu gilda lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Að mati stefnda gildir því ákvæði 3. gr. laganna um svæðið, enda um þjóðlendu að ræða en ekki eignarland samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar og að mati stefnda. Ákvæðið feli í sér að í þjóðlendu séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Að mati stefnda hafi stefnanda ekki tekist að sanna slíkan eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti. Sérstaklega sé bent á það sem rakið hafi verið að nýting svæðisins hafi verið takmörkuð, en heimildir bendi til þess að svæðið hafi eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði. Slík takmörkuð not geti hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu.

            Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 3/2005, hvað varðar hið umþrætta svæði, hafi verið röng. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hafi verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu. Telur stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnanda og fer saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

            Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnanda, svo sem þeim sé lýst í stefnu en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 3/2005, auk þess sem byggt sé á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar voru fram af hálfu stefnda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í kröfulýsingu hans fyrir nefndinni, dags. 14. október 2004, sbr. greinargerð hans dags. 10. desember 2005, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í fyrrgreindu máli nr. 3/2005, verði staðfestur, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með svofelldum hætti:

 

Ræður Þórðará að innan og neðan þar til hún fellur í Sunnudalsá; svo ræður Sunnudalsá upp í Sandfell, þá er sveitarfélagamörkum fylgt til vesturs í áðurnefnda Þórðará.

 

            Auk framangreindra lagatilvísana vísar stefndi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Byggt sé á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Vísað sé til hefðarlaga nr. 14/1905 og til laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni og fjallskil. Þá sé vísað til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.

            Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra.

 

            Niðurstaða

            Ágreiningur aðila málsins lýtur að því hvort landsvæðið Þorbrandsstaðatungur, eins og það er afmarkað samkvæmt landamerkjalýsingu, sé eignarland jarðarinnar Þorbrandsstaða í Vopnafjarðarhreppi eða þjóðlenda, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.

            Stefnandi byggir á því að land jarðarinnar sé eignarland innan þinglýstra landamerkja og hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti. Landnámsheimildir í Vopnafirði fari ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar og ljóst sé að við landnám hafi landið verið gróið til jökla.

            Af hálfu stefnda er hins vegar á því byggt að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu. Telur stefndi fullljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.

            Að Þorbrandsstaðatungum liggur Hraunfell til vesturs, Gnýsstaðir til austurs og Hjarðarhagi og Hjarðargrund í Jökuldalshreppi til suðurs. Landsvæðið liggur milli Þórðarár og efsta hluta Sunnudalsár syðst í Vopnafjarðarhreppi og afmarkast af Sandfelli að sunnan. Sá hluti Sunnudalsár sem hér um ræðir er á sumum kortum nefndur Grjótá fremri. Stærstur hluti þess landsvæðis sem hér um ræðir er í 600-800 metra hæð yfir sjávarmáli undir hlíðum Sandfells og Hellisaxlar og í útjaðri Smjörvatnsheiðar. Ofan til er svæðið að mestu ógróið eða lítt gróið en neðan til má finna allnokkurt mólendi auk votlendis í grennd við þann stað þar sem Þórðará og Sunnudalsá koma saman.

            Stefnandi byggir á því að ráða megi af lýsingum Landnámu að allt land hafi verið numið í Vopnafjarðarhéraði. Í frásögn Landnámu af landnámi í Vopnafirði segir að Eyvindur vápni nam mestallan Vopnafjörð eða nánar tiltekið „fjörðinn allan frá Vestradalsá ok bjó í Krossavík enni iðri“. Hann gaf Sveinbirni körtr „land allt milli Vápnafjarðarár og Vestradalsár, hann bjó at Hofi“. Þá nam Hróaldur bjóla land „fyrir vestran Vestradalsá, dalinn hálfan ok Selárdal allan út til Digraness; hann bjó á Torfastöðum“. Loks nam Lýtingur „Vápnafjarðarströnd alla ena eystri, Böðvarsdal ok Fagradal, ok bjó í Krossavík“. Ekki verður af frásögnum Landnámabókar ráðið hversu langt inn til landsins og upp til fjalla landnám á þessu svæði náði. Verða því engar ályktanir af þeim frásögnum dregnar um það hvort í öndverðu hafi verið stofnað til beins eignarréttar á hinu umdeilda svæði með námi. Lega svæðisins og staðhættir mæla og gegn því að það hafi verið numið í öndverðu.

            Saga afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar Þorbrandsstaða og Þorbrandsstaðatungna er rakin í úrskurði óbyggðanefndar. Þar kemur fram að Þorbrandsstaða er getið í heimildum frá 13. öld. Af heimildum verður ráðið að um sjálfstæða jörð hefur verið að ræða. Þorbrandsstaðatungna er fyrst getið í heimildum frá 17, öld og í landamerkjabréfi Þorbrandsstaða, ódagsettu en þinglesnu 14. júlí 1885, er annars vegar lýst merkjum Þorbrandsstaða og hins vegar merkjum heiðarlands Þorbrandsstaða. Á milli Þorbrandsstaða og Þorbrandsstaðatungna liggja jarðirnar Hraunfell og Gnýsstaðir. Merkjalýsingum ber ágætlega saman um merki Þorbrandsstaðatungna og er ekki ágreiningur um afmörkun þeirra.

            Í landamerkjabréfi fyrir Þorbrandsstaði er lýst sérstaklega aðskildu heiðarlandi jarðarinnar, Þorbrandsstaðatungu. Fyrirliggjandi gögn benda til þess að landamerkjum svæðisins sé þar rétt lýst. Landamerkjabréf, ein og sér, nægja ekki til að sanna beinan eignarrétt að því landsvæði, sem þau afmarka. Líta verður einnig til annarra atriða sem stutt geta lýsingu gagna málsins um landamerki og sem stangast ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Eins og fyrr segir verður ekki af frásögnum í Landnámabók ráðið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu.

Hvergi kemur fram í heimildum að í Þorbrandsstaðatungum hafi verið búseta af nokkru tagi, sjálfstæð jörð eða hjáleiga. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að landsvæðisins sé fyrst getið í vitnisburði um merki Haga, Hrafnstaða, Egilsstaða og Sunnudals, dags. 30. maí 1669. Með bréfi sýslumanns Norður-Múlasýslu, dags. 13. júní 1864, bað hann hreppstjóra í sýslunni að gera tillögur að fyrirkomulagi fjallskila. Í bréfi hreppstjóra Vopnafjarðarhrepps kom fram að lögréttir skyldu vera á átta stöðum í hreppnum, þ.á m. á Einarsstöðum. Þar ætti að rétta fé af Einarsstaðaafrétt og svonefndum parti „tilheyrir Þorbrandsstöðum (afréttar stykkji).“ Í landamerkjabréfi Þorbrandsstaða frá 1885 segir að jörðin eigi „heiðarland undir Sandfelli“. Í fasteignamati 1916-1918 segir að Þorbrandsstaðir eigi upprekstur undir Sandfelli fyrir 200 fjár. Þorbrandsstaðatungur eru hluti af leitarsvæðinu, Hraunfellsparti, sem tekur til landsvæðis norðanvert við Sandfell að Pyttá og síðan út með Tunguá og Sunnudalsá, Einarsstaðafjalli og Hraunfellsháls. Í byggðasögunni Sveitir og jarðir í Múlaþingi (I. bindi útg. 1974), segir að Þorbrandsstaðir eigi upprekstur á Hraunfellspart og taki göngur 2-3 daga.

Í yngra landamerkjabréfi Þorbrandsstaða frá 1922 er Þorbrandsstaðatungna í engu getið.

            Af framangreindum heimildum verður ráðið að landsvæðið Þorbrandsstaðatungur hafi verið nýtt sem afréttarland Þorbrandsstaða. Þá er landsvæðið ekki hluti af eiginlegu (samfelldu) landi Þorbrandsstaða heldur er um aðskilið heiðarland að ræða, fjallendi fjarri byggð. Staðhættir og gróðurfar á svæðinu og hæð þess yfir sjó bendir eindregið til þess að það hafi fyrst og fremst verið nýtt til beitarafnota. Umráð Þorbrandsstaða á landsvæðinu voru því tilkomin vegna afréttarnota landsins en ekki á grundvelli beins eignarréttar, sem eiginlegur hluti jarðarinnar.

            Þá byggir stefnandi eignarréttarkröfu sína einnig á hefð og venjurétti. Eins og fram er komið liggja engin gögn fyrir um að landsvæðið Þorbrandsstaðatungur hafi nokkurn tíma verið byggt eða nýtt til annars en fyrst og fremst til sumarbeitar fyrir búfé, sbr. skilgreiningu 1. gr. Laga nr. 58/1998. Takmörkuð afnot landsins með þeim venjubundna hætti leiða ekki til þess að fullnægt sé skilyrðum eignarhefðar á landinu. Verður ekki séð að stefnandi hafi mátt vænta þess að hann ætti frekari réttindi á þessu landsvæði.

             Ekki er fallist á þau sjónarmið stefnanda að þær kröfur sem á hann séu lagðar til sönnunarfærslu í málinu séu svo óhóflegar að þær standist hvorki eignarréttarákvæði stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu og komi í veg fyrir að hann njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Sönnunarreglur leiða til þess að sönnunarbyrði um tilkall til eignarréttar á landi hvílir á þeim sem slíkt tilkall gera. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á það í máli þessu að hið umdeilda landsvæði sé eignarland hans, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Þá hefur stefnandi ekki fært viðhlítandi rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að úrskurði óbyggðanefndar sé áfátt að því er rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar varðar. Þá verður ekki séð að neinir þeir ágallar séu á úrskurði óbyggðanefndar sem varðað geti ógildi hans. Verður því fallist á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að hið umdeilda landsvæði teljist vera þjóðlenda. Er aðalkröfu stefnanda í málinu því hafnað.

            Landsvæði þetta var úrskurðað sem afréttareign Þorbrandsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Afréttarnot lands innan þjóðlendu getur ekki talist grundvöllur þeirra eignarráða á svæðinu sem stefnandi krefst viðurkenningar á með varakröfu sinni. Um auðlindir í jörðu gilda lög nr. 57/1998. Samkvæmt 3. gr. laganna eru auðlindir í þjóðlendu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Stefnandi hefur ekki fært sönnur á eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti. Verður því einnig að hafna varakröfu stefnanda í málinu.

            Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ólafs Björnssonar hrl., sem ákveðst 627.500 krónur með virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar er litið til þess að lögmaður stefnanda hefur samhliða þessu máli farið með annað sambærilegt mál á svæðinu.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Björnsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Þórhallur Þorvaldsson hdl.

            Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

                                         D Ó M S O R Ð :

            Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Vopnafjarðarhrepps, í þessu máli.

            Málskostnaður fellur niður.

            Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ólafs Björnssonar hrl., 627.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                Eggert Óskarsson