• Lykilorð:
  • Eignarréttur
  • Þjóðlenda

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 22. október 2015 í máli

nr. E-34/2010:

 

Inga Vala Gísladóttir og

Einar Magnússon

Brynjar Skúlason og

Sigríður Bjarnadóttir

(Friðbjörn Eiríkur Garðarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 25. september sl., eftir endurflutning og aðilaskipti, var höfðað með stefnu birtri 20. janúar 2010 á hendur íslenska ríkinu, kt. 000000-0000, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.

Stefnendur eru Brynjar Skúlason, kt. 000000-0000, og Sigríður Bjarnadóttir, kt. 000000-0000, bæði til heimilis að Hólsgerði, Eyjafjarðarsveit, Inga Vala Gísladóttir, kt. 000000-0000, Torfufelli, Eyjafjarðarsveit og Einar Magnússon, kt. 000000-0000, Króktúni 12, 860 Hvolsvelli.

Dómkröfur stefnenda eru að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 2/2008: Eyjafjarðarsveit vestan Eyjafjarðarár, sem upp var kveðinn þann 19. júní 2009, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan neðangreindra marka:

Kröfulínu íslenska ríkisins er fylgt frá punkti 2, í upptökum Hafrár, og norðvestur að skurðpunkti við vatnaskil.  Frá skurðpunktinum er miðað við vatnaskil til suðvesturs, þar til þau mæta sveitarfélagamörkum Eyafjarðarsveitar og Akrahrepps.  Sveitarfélagamörkum er síðan fylgt til suðaustur, að punkti 1 í kröfulínu gagnaðila, við suðurenda Urðarvatns nyrðra.  Loks er síðarnefndu línunni fylgt áfram til norðausturs, þar til kemur að fyrstnefndum punkti 2 í þjóðlendukröfulínu ríkisins.

Stefnendur krefjast þess, að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns þeirra eða samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, sbr. gjafsóknarleyfi, dagsett 15. mars 2010.

 

Stefndi, íslenska ríkið, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að honum verði dæmdur hæfilegur málskostnaður.  Til vara krefst stefndi þess að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

 

Mál þetta varðar þjóðlendukröfu stefnda, íslenska ríkisins, sem stefnendur, sem þinglýstir eigendur jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár í Eyjafjarðarsveit, gera kröfu til sem óskipts eignarlands síns.

I.

1.       Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls.  Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd.  Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri hlutann.  Var það svæði nefnt „vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A)“.  Svæðið var afmarkað nánar þannig: Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar sem hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa.  Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagsmörk Eyjafjarðarsveitar að austan.  Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungskvísl.  Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd.  Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði, þ.e. á sunnanverðu Mið-Norðurlandi, svæði 7A, bárust óbyggðanefnd 14. mars 2008.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum stefnda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. mars 2008, en einnig 30. apríl sama ár, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Jafnframt var lýstu kröfusvæði íslenska ríkisins skipt í fimm mál, þ.e. 1-5/2008. Kynningargögn lágu frammi á skrifstofum sýslumanna og sveitarfélaga, en einnig á heimasíðu óbyggðanefndar.  Athugasemdarfrestur var til 25. ágúst 2008.

Mál nr. 1/2008 er takmarkað við Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðarár, ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal, en á síðari stigum náði svæðið einnig yfir fremsta hluta Eyjafjarðardals og tók þá yfir svonefndan Hólaafrétt með Jórunnarstaðatungum, mál nr. 2/2008 er takmarkað við Eyjafjarðarsveit vestan Eyjafjarðarár, mál nr. 3/2008 er takmarkað við Hörgárbyggð austan Öxnadalsár, mál nr. 4/2008 er takmarkað við Skagafjörð austan Vestari-Jökulsár, og mál nr. 5/2008 er takmarkað við Húnavatnshrepp austan Blöndu og Skagafjörð vestan Vestari-Jökulsár, ásamt Hofsjökli.

Mál nr. 2/2008 var fyrst tekið fyrir hjá óbyggðanefnd og forsvarsmönnum aðila 25. ágúst 2008.  Óbyggðanefnd, sem skipuð var Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Allan V. Magnússyni héraðsdómara og Sif Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra og varamanns óbyggðanefndar, tók málið fyrir að nýju 31. ágúst og 1. september 2008, og var þá vettvangur skoðaður, en jafnframt var þá lögð fram greinargerð af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, og fleiri gögn.  Málið var næst tekið fyrir 16. september og 13. október sama ár, en þá voru lagðar fram greinargerðir af hálfu gagnaðila íslenska ríkisins, og þ. á m. stefnenda.  Aðalmeðferð fór fram 25. nóvember 2008 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi, en í framhaldi af því var málið tekið til úrskurðar.  Málsmeðferðin var endurupptekin 5. júní 2009 og voru þá lögð fram frekari gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju.  Hinn 19. júní 2009 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að eignarland hins óskipta landsvæðis jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár, sem hér er til umfjöllunar, næði ekki svo langt til fjalla og þá einkum til suðvesturs, sem landeigendur höfðu gert kröfu til og væri það landsvæði því þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að það væri í afréttareign, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og hér að framan var lýst.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu 21. júlí 2009.

Stefnendur una ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefjast ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu og kröfugerð þeirra.

Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna.

Aðilaskipti urðu að jörðinni Torfufelli undir rekstri málsins og hafa áðurgreindir aðilar tekið við aðild, sem þinglýstur eigandi við hlið eigenda Hólsgerðis og Úlfár.

 

2.       Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 2/2008, er samkvæmt framansögðu m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem tekur til óskipts landsvæðis við suður- og suðvesturmörk jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár.  Jarðirnar eru í Eyjafjarðarsveit, en tilheyrðu áður Saurbæjarhreppi.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 116 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi og sveitarmörkum, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins.  Gerð er grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir og svæði, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004.  Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum, en einnig árituðum línum Veðurstofu Íslands um vatnaskil.

 

3.       Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum gögnum segir frá því að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Sturlubók og Hauksbók Landnámu.  Í Sturlubók segir:

Um várit gekk Helgi upp á Sólarfjöll; (Hámundarstaðafjall) þá sá hann, at svartara var miklu at sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eptir þat bar Helgi á skip sitt allt þat, er hann átti, en Hámundr bjó eptir. Helgi lendir þá við Galtarhamar; (Festarklettur í Kaupangssveit) þar skaut hann á land svínum tveimr, ok hét gölturinn Sölvi. Þau fundusk þremr vetrum síðar í Sölvadal; váru þá saman sjau tigir svína. Helgi kannaði um sumarit herað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness (Gjögurtá) ok gerði eld mikinn við hvern vatsós ok helgaði sér svá allt herað. Hann sat þann vetr at Bíldsá, en um várit færði Helgi bú sitt í Kristsnes.

 

Lýsing Hauksbókar um landnámið í Eyjafirði hljóðar svo:

Þann vetr bjó Helgi at Bíldsá, en um sumarit kannaði hann herað allt ok nam Eyjafjörð allan millim Sigluness ok Reynisness ok gerði eld mikinn við hvern vatsós við sjó ok helgaði sér svá allan fjörðinn nesa millim. Einum vetri síðar (færði Helgi bú sitt) í Kristnes.

 

Í úrskurðinum er vísað til þess að Helgi magri hafi gefið ættingjum sínum af landnámi sínu í Eyjafirði og er í framhaldi af því vikið að búsetu vestan Eyjafjarðarár eftir landnám.  Bent er á að í nefndri Hauksbók segir að Helgi hafi gefið mági sínum Hámundi lönd vestan Eyjafjarðarár milli Merkigils og Skjóldalsár, en hann mun hafa búið ásamt afkomendum á Espihóli, en einnig á höfuðbýlunum Grund og Möðrufelli.  Þá gaf Helgi Þóru dóttur sinni og eiginmanni hennar, Gunnari Úlfljótssyni, frá Bæ í Lóni, lönd upp frá Skjóldalsá og suður til Háls, en þau bjuggu í Djúpadal/Stóradal.  Enn fremur gaf Helgi dóttur sinni Helgu og eiginmanni hennar, Auðuni rotin land upp frá Hálsi og til Villingadals, en þau bjuggu í Saurbæ, skammt vestan Eyjafjarðarár.  Handan árinnar var um aldir höfuðbýlið í byggðinni, Möðruvellir.  Einnig er þar landnámsjörðin Gnúpufell, þar sem Hrólfur, sonur Helga, reisti bú sitt.

 

4.       Fyrrnefndar jarðir eru fremst í Eyjafjarðardal vestan Eyjafjarðarár.  Úlfá var um aldir syðsta byggða jörðin í fremsta hluta dalsins, en hún liggur undir svonefndri Úlfárheiði.  Jörðin fór í eyði árið 1925.  Hólsgerði er nú fremsta jörðin í byggð vestan Eyjafjarðarár.  Jörðin Torfufell er, líkt og Úlfá og Hólsgerði, á undirlendi við vesturbakka Eyjafjarðarár, en þær liggja allar undir Torfufellsfjalli, 1244 m, og samnefndum hnjúk.  Nánar tiltekið eru bæjarhús Torfufells norðvestan undir Torfufellshnjúk og sunnan við Torfufellsá, sem kemur úr samnefndum dal.  Er um 12 km frá bæjarhúsum Torfufells vestur að fremstu dalsdrögum, sem eru nærri Þverfjalli (1056 m), sem telst vera hluti Nýjabæjarfjallgarðs.  Norðurhluti dalsins dregur nafn sitt af býlum norðan Torfufellsár og nefnist neðri og austari hlutinn Villingadalur, en fremri og vestari hlutinn Leyningsdalur.

Torfufell, Hólsgerði og Úlfá hafa um aldir verið sjálfseignarjarðir.  Eins og fyrr sagði er ágreiningur um eignarréttarlega stöðu óskipts lands jarðanna samkvæmt merkjalýsingum þeirra til vesturs, en þó einkum til suðvesturs.  Að því er varðar afmörkun jarðanna í heild er það að segja að lönd þeirra allra liggja til austurs að Eyjafjarðará.  Til norðurs og norðvesturs afmarkast Torfufell við merki fyrrnefndra jarða í Villinga- og Leyningsdal og ræður Torfufellsá merkjum.  Til suðurs afmarkast Úlfárjörðin við Hafrá og afréttarlandið Arnarstaðatungur, en um það landsvæði var fjallað í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008 og í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. E-73/2010.  Til vesturs og suðvesturs ná landsvæði jarðanna að Skagafjarðarsýslu, nánar tiltekið að svonefndum Nýjabæjarafrétti, sbr. mál óbyggðanefndar nr. 4/2008, og dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. E-32/2010.  Einnig var fjallað um syðsta hluta þessa landsvæðis í alkunnum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 128/1967.  Í úrskurði sínum fjallar óbyggðanefnd ítarlega um greind mörk jarðanna, eins og síðar verður vikið að.

 

Um vestur- og suðurmörk Eyjafjarðarsýslu segir m.a. í Lýsingu Eyjafjarðar I eftir Steindór Steindórsson náttúrufræðing, sem gefin var út árið 1949:

Suður frá Öxnadalsheiði liggja mörkin eftir háfjallinu milli Austurdals og Nýjabæjarafréttar í Skagafirði og Eyjafjarðardals. Kann ég þar ekki að rekja örnefni, sem þau séu við tengd, enda mun fátt um þau, ef nokkur eru. Liggja sýsluskilin hlykkjótt þar, engu að síður en norðar í fjallgarðinum. Þegar dregur inn fyrir byggðir, eru engar ákveðnar merkjalínur til, og mun gamalt sölubréf  Nýjabæjar í Austurdal frá 1464 vera hin eina heimild þar um, en þar segir svo: að Nýibær eigi land „að Tinná og svo langt á fjöll sem vötn draga“ Verður það varla skilið öðruvísi en svo, að vatnaskil ráði merkjum allt inn til jökla. Þó munu Urðarvötn ætíð vera talin til Eyjafjarðar, en samt segja kunnugir, að afrennsli þeirra sé til vesturs. Svo mun almennt talið nú, að öræfasvæðið inn af Eyjafirði sé almenningur frá Geldingsá, er fellur í Jökulsá austari og inn að Hofsjökli og suður á Sprengisand og austur undir drög Fnjóskár. En síðan tekið var að smala land þetta, sem ekki mun hafa verið fyrr en seint á síðastliðinni öld, hefir smalamennska einkum fallið í skaut Eyfirðinga, allt suður undir Fjórðungskvísl, þar sem mörk eru talin milli Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungs. Eftir þessu verður því ekki hægt að ákveða sýsluskil að sunnanverðu, en eftir því sem annars staðar hagar til, ættu þau að liggja á vatnaskilum þar sem vötn byrja að falla til Eyjafjarðar.

 

Um staðhætti á hinu umþrætta landsvæði Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár í vestanverðum Eyjafjarðardal segir í úrskurði óbyggðanefndar: „Landsvæði þar sem hér um ræðir liggur á milli Torfufellsár og Eyjafjarðarár og teygir sig til vesturs og suðvesturs inn á hásléttu sem liggur milli Eyjafjarðardals að austan og Austari-Jökulsár í Skagafirði, nánar tiltekið Austurdal.  Meðfram ánum er undirlendi í u.þ.b. 300 m hæð yfir sjávarmáli en svo rís land skarpt í um 1000 m hæð ofan brúna.  Tekur þar við hallalítið og gróðursnautt landsvæði með hæðum, öldum og smávötnum. Suðaustast liggja Urðarvötn í 881 m hæð.  Hæst rís land í 1055 m hæð suður af Torfufellsdal.  Frá fyrstnefndum ármótum Torfufellsár og Eyjafjarðarár í áðurnefndan 1055 m hæðarpunkt eru tæplega 13 km, mælt í beinni loftlínu.

Í úrskurðinum er um staðhætti og afrétti Saurbæjarhrepps nánar vísað til ritsins Byggðir Eyjafjarðar frá árinu 1990, en þar segir:  „Fjöllin umhverfis Saurbæjarhrepp eru 1000-1200 metra há, klettótt og skriðurunnin. Gróðurlendi er talsvert neðan til í hlíðum en lítið þegar ofar dregur. Að ofan eru fjöllin víðast flöt og nær algjörlega gróðurlaus. Afréttir eru því eingöngu í dölum framan byggðar og göngur stuttar.

 

5.       Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008 og framlögðum gögnum er að nokkru vikið að heimildum um fremstu jarðir vestan Eyjafjarðarár, þ. á m. um jarðirnar Úlfá, Hólsgerði, Torfufell, Leyning og Villingadal, en einnig um afréttarsvæðið sunnan Hafrár.  Í úrskurði nefndarinnar nr. 1/2008 er hins vegar fjallað um jarðir austan Eyjafjarðarár, þ. á m. Tjarnir, Halldórsstaði, Jökul, Vatnsenda, Hóla og Möðruvelli og um afréttarsvæðin í Sölvadal, en einnig um fremsta hluta Eyjafjarðardals, svokallaðan Hólaafrétt með Jórunnarstaðatungum.

Nefndar heimildir um jarðirnar Torfufell og Úlfá er elstar frá 15. og 16. öldinni og varða eignaskipti og erfðir stórbænda af kyni Möðruvellinga.  Af eldri heimildum, m.a Víga-Glúms sögu og Valla-Ljóts sögu, verður ráðið að Torfufell og Úlfá séu fornar jarðir.

Torfufellsjörðin er metin til 50 hundraða árið 1712 í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, að meðtalinni hjáleigunni Hólsgerði.  Nánar segir um Torfufell í nefndri heimild: „Útigángur svipull fyrir fannlögum, og þarf roskið fje jafnlega frekan heystyrk, og lömb meira part fóður. Hestagánga í lakara lagi, og er þeim oftast burt komið. [...] Engið er mikinn part af skriðum eyðilagt, og því er landskuldin aftur færð. Úthagarnir eru nægir.

Fram kemur að á manntalsþingi að Saurbæ í Eyjafirði þann 11. maí árið 1751 hafi sýslumaður lögfest Torfufellsjörðina til þeirra landamerkja er aðrir áttu á móti, en jafnframt segir í þessari heimild að sýslumaður hafi lagt bann við því að menn nýttu land hennar án leyfis:

Í jarðamati frá árinu 1849 er áréttað að Torfufell eigi hjáleiguna Hólsgerði, en þess er þar getið að hjáleigan hafi ekki eigin landamerki.  Í jarðamatinu segir að „torfan“ hafi afrétt fyrir sig í Torfafellsdal. 

Í sýslu- og sóknalýsingu fyrir Hólasókn frá 1840 segir að í Torfufelli hafi verið haft í seli á Torfufellsdal, síðast árið 1881.  Í fasteignamati 1916-1918 er þetta að nokkru áréttað, en þar segir að Torfufelli fylgi upprekstrarlandið Torfufellsdalur og að býlið Hólsgerði eigi þar fría beit.

 

Landamerkjabréf fyrir Torfufell var útbúið 21. maí 1889.  Það var þinglesið þremur dögum síðar, en þar er merkjum þannig lýst: „... að sunnan milli Hólsgerðis og Torfufells eru merkin í jarðfastan stein […] og bein stefna úr honum niður til Eyjafjarðarár, til fjallsins er óskipt land milli jarðanna. […] að norðan og vestan ræður Torfufellsá landamerkjum fram að svonefndri Galtá, sem er framan við Leyningsdal, frá henni á Torfufell dalinn beggja vegna og fram á fjöll þangað til vötnum hallar vestur til Skagafjarðar, en frá Torfufellsgilskjafti eru landamerki beint strik í gilið, sem er næst fyrir utan Halldórsstaðatún. Hólsgerði á frítt fyrir sínar skepnur á Torfufellsdal.

Bréfið er áritað af eigendum jarðarinnar og samþykkt af þáverandi eigendum Hólsgerðis, Syðri-Villingadals og Leynings.

Landamerkjabréf fyrir Hólsgerði var útbúið 21. maí 1889.  Það var þinglesið tæpu ári síðar, en þar segir um merkin: „Að sunnan milli Hólsgerðis og Úlfár eru merkin […] úr gömlum garðsstúf niður við Eyjafjarðará uppí 3 jarðfasta steina, sem vörður hafa verið hlaðnar á og úr þeim bein stefna til fjalls. Að norðan milli Tungufells [svo, á að vera Torfufells] og Hólsgerðis […] til fjallsins er landið óskipt milli jarðanna. Að austan ræður Eyjafjarðará, en að […] vestan fjallsbrúnin. Jörðin á fría beit fyrir gjeldfé og stórgripi á Torfufellsdal.

Bréfið er undirritað af umboðsmanni eiganda Hólsgerðis og samþykkt af umboðsmönnum eigenda Úlfár og Torfufells, en sá síðarnefndi ritaði á bréfið: „Sömuleiðis samþykki jeg þessi landamerki, sem eigandi að parti í Torfufelli“.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að fyrrnefndum miðaldaheimildum um Úlfá, en einnig segir frá því að jörðin hafi við uppboð á héraðsþingi að Hrafnagili í Eyjafirði árið 1697 verið metin á 10 hundraða.  Vikið er að Úlfá í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1712, en þar segir um jörðina: „Útigángur góður í meðalárum, og gengur þá fje gjaftrarlaust, en deyr þess á milli, þá harðara fellur. Hestagánga í meðallagi. [...] Skriður granda og enginu stórkostlega, og er valla teljandi það sem nú er eftir óspjallað. Úthagarnir eru víðlendir og búgóðir.

Í jarðamati 1804 segir að hjáleigan Magnúsartóft liggi undir Úlfá.  Í jarðamati frá 1849 segir að búfjárhagar Úlfár séu góðir.

Landamerkjabréf Úlfár er ódagsett, en í úrskurði óbyggðanefndar segir að miðað við nærliggjandi skráða gjörninga og þinglýsingu sé líklegt að það hafi verið gert 24. maí 1888.  Í bréfinu er merkjum Úlfár lýst þannig: „Að austan ræður Eyjafjarðará. Að sunnan bein stefna frá Eyjafjarðará í Hafrárgljúfur, þaðan ræður Hafrá til fjallsbrúnar. Að vestan ræður fjallsbrúnin. Að norðan ráða steinvörður, sem hlaðnar eru ofaná þrjá jarðfasta steina beina stefnu frá Eyjafjarðará til fjallsbrúnar.

Bréfið er undirritað af umboðsmanni eiganda, en það var einnig samþykkt af umboðsmönnum eigenda Hólsgerðis og Arnarstaða vegna Arnarstaðatungna.

Fram kemur í fasteignamati 1916-1918 að landamerki Úlfár séu talin ágreiningslaus, en tekið er fram að jörðinni fylgi upprekstrarland.  Þess er getið að mikill ágangur sé á jörðina af afréttarfé.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að heimildir bendi ekki til annars en að samfelld búseta hafi verið á Úlfá og Torfufelli frá því að jarðanna var fyrst getið, en að jafnframt hafi þær samkvæmt afsals- og veðmálabókum framselst með hefðbundnum hætti og verið veðsettar.  Fyrir liggur að Úlfá var lögð undir Hólsgerði árið 1930.

 

6.         Í úrskurði óbyggðanefndar og framlögðum gögnum er nánar vikið að upprekstrar- og afréttarsvæðum í fremsta hluta Eyjafjarðardals.  Er þar um m.a. vísað til Sýslu- og sóknalýsingar Miklagarðs- og Hólaprestakalls, sem rituð var af J. Kröyer aðstoðarpresti árið 1840.  Í þessari heimild segir að dalurinn sé mjög langur og að fremst sé Hólaafréttur, en að þar fyrir sunnan að vestanverðu séu Arnarstaðatungur, en að nyrst á því svæði, sunnan Hafrár, sé Hjallnjúkur, en síðan segir:  Vestanundir téðum hnjúk liggur Vatnahjalli, yfir hvern Eyfirðingavegur er suður. Lengra til norðurs er Hafrárdalsöxl, er dregur nafn af Hafrárdal, sem er lítið dalsdrag til suðsuðvesturs upp í hvern Vatnahjallavegurinn liggur úr byggð suður.  Norðar að vestanverðu er Torfufellsfjall og Úlfárheiði.  Þetta fjall er hæst móti norðri og eru þaðan öræfi til vestur allt að Stórahvammi á Austurdalsafrétt, fram úr Skagafirði ... Í Hólasókn tíðkast ekki selferðir, því bæir ná hér flestir til fjalla eður afréttardala ....

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að í gögnum vegna hæstaréttarmáls nr. 128/1967 (Nýjabæjarafrétt), sem lyktaði með dómi 26. apríl 1969, sé að finna „Skrá yfir afrétti og fjárréttir í Eyjafjarðarsýslu, eins og hún er prentuð aftan við sýslufundargjörð frá árinu 1894.“ Í skrá þessari er getið um helstu afrétti í Eyjafjarðardölum, austan og vestan Eyjafjarðarár.  Í skránni kemur fram að fremsti afrétturinn í Eyjafjarðardal vestan ár sé svonefndur Hóladalur, en að þar norðan við séu Arnarstaðatungur, en Hafráin greini þær frá Úlfárlandi.  Einnig segir í skránni að afréttur sé í Torfufellsdal frá Lambárhólum og einnig í Leyningsdal, en að Svartáin greini hann frá heimalandi Syðri-Villingadals.

Í úrskurðinum segir frá því að í nefndum Nýjabæjardómi sé að finna samþykkt um fjárleitir á öræfunum millum Skjálfandafljóts að austan og Jökulsár eystri í Skagafirði að vestan.  Fram kemur að fjallskilasamþykkt þessi hafi verið samþykkt af sýslunefnd og sýslumanni Eyjafjarðarsýslu í mars 1912, en þar segir m.a.:

Ummerki leitarsvæðisins eru: Að austan Skjálfandafljót, að sunnan Tungnafellsjökull, Jökuldalur og sandarnir sunnan við þær hagateygjur, er liggja að Jökuldal (Fjórðungskvísl), og þaðan í Arnarfellsjökul. Að vestan Hofsjökull og Jökulsá hin eystri í Skagafirði. Að norðan Fossá og suðvesturmörk afréttanna, suður af Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslum, austur að Skjálfandafljóti.

Leitarsvæði þetta skiptist í tvær leitir.  Jökuldalsleit austan til og Laugafellsleit vestan til.  Takmörk milli leita þessara eru:  Háöldurnar vestan við Kiðagilsdrög og suður fyrir botn þeirra, síðan suður háöldurnar austan við Bergsstaðakvísl (Þjórsárkvísl), og þaðan vestan Þjórsárkvíslar í Arnarfell.

Greint er frá því að nefnd fjárleitarsamþykkt hafi gilt til fimm ára, og að notendur heimaafréttar Öngulstaðahrepps, Saurbæjarhrepps og sýslusjóðir Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslna hafi verið skyldir til að taka þátt í kostnaði við Laugafellsleit.

Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá því að Stjórnarráð Íslands hafi sent öllum sýslumönnum landsins bréf, þann 29. desember 1919, þar sem þeim var tilkynnt að vegna þingsályktunar um rétt ríkisins til vatnsorku í „almenningum“ frá 27. september s.á. bæri þeim að skila skýrslu við fyrsta tækifæri um svæði í sýslum þeirra sem teldust vera „almenningar“ og um „afréttarlönd“ sem ekki sannanlega hefðu tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli.  Í svarbréfi Júlíusar Havsteen, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, dagsettu 27. september 1920, segir m.a. að hann hafi aflað umsagna hreppstjóra og borið svör þeirra saman við landamerkjabók sýslunnar.  Verður ráðið að til grundvallar svarbréfi sýslumanns hafi m.a. verið bréf Benedikts Einarssonar, bónda að Hálsi og hreppstjóra Saurbæjarhrepps, sem dagsett er 8. mars 1920, en þar segir m.a.:

„... allir afrjettir hjer í hreppi eru einstakra manna eign, en almenningar eru hjer engir.

Í úrskurðinum er vikið nánar að fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands nr. 128/1967: Mál Upprekstrarfélags Saurbæjarhrepps (áfrýjanda) gegn eigendum Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli í Skagafirði (stefndir).  Vísað er til þess að málið hafi samkvæmt orðum Hæstaréttar varðað eignarrétt á hinum umþrættu landsvæðum, en ekki upprekstrarrétt málsaðila.  Um dómkröfur aðila segir í dóminum að áfrýjandi, Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps í Eyjafirði, hafi krafist þess að landamerki fyrir umráðasvæði þess til vesturs gagnvart löndum stefndu á hálendinu vestan og sunnan Eyjafjarðardala og í Austurdal yrðu staðfest þannig fyrir dómi:

Nyrzt ráði merkjum Fossá frá upptökum nyrðri hvíslar til ármóta hennar og Jökulsár eystri, síðan ráði Jökulsá eystri merkjum suður að ármótum hennar og Strangalækjar, þaðan ráði bein lína suður í Miklafell í Hofsjökli.

Í forsendum dómsins segir svo:

Í máli þessu er deilt um eignarrétt að landsvæði því, sem um er að tefla, en eigi upprekstarrétt.

Áfrýandi, Upprekstarfélag Saurbæjarhrepps, reisir kröfur sínar á því, að hann hafi tekið heimildir á landsvæði þessu frá fyrri eigendum jarðanna Möðruvalla og Hóla í Saurbæjarhreppi, sem frá fornu fari hafi talist taka yfir landsvæðið.

Stefndu, eigendur Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli, reisa dómkröfur sínar á afsali fyrir hálfri jörðinni Nýjabæ frá 29. janúar 1461, þar sem landið sé talið vera hluti jarðarinnar.

Hvorki áfrýandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því sem um er að tefla í máli þessu. T. d. verður eigi séð, að eigendur Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli eða eigendur Möðruvalla og Hóla hafi fyrrum innt af hendi smölun og fjallskil á landsvæðinu, svo sem eigendum jarða var boðið að gera á jörðum sínum, sbr. Jónsbók, landsleigubálk 49. Yfirlýsingar í afsölum fyrr og síðar, sem eigi styðjast við önnur gögn, nægja eigi til að dæma öðrum hvorum aðilja eignarrétt til öræfalandsvæðis þessa. Verða því kröfur hvorugs aðilja í málinu teknar til greina.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til svarbréfs sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, dagsetts 1. ágúst 1979, vegna fyrirspurnar um afréttarlönd í sýslunni.  Í bréfinu segir um afréttarlönd í Saurbæjarhreppi að þau séu í Sölvadal og Þormóðsdal/Gnúpufellsdal, en í framhaldi af því er tíundað hvaða býlum þau tilheyri, en þar á meðal eru Möðruvellir, Æsustaðir og Gnúpufell í Saurbæjarhreppi.  Að því er varðar afrétti í vesturhluta Eyjafjarðardals segir m.a.: „Arnarstaðatungur frá Trippagarði í Lækjarfjalli að Hafrá. Heyrir undir Arnarstaði og Arnarfell. ... Úlfárheiði, frá Hafrá að Úlfá. Heyrir undir Hólsgerði.  Þá segir í bréfinu um afréttina í Torfufellsdal og Villingadal:  „1. Torfufellsdalur af Torfufellshálsi til innstu draga og Galtártúngur vestan Torfufellsár að Galtá.  Heyra undir Torfufell.  2. Leyningsdalur frá Galtá að Svartá og Svartdalur sunnan Svartár.  Heyrir undir Leyning.  3. Svartárdalur norðan Svartár norður að Nautá.  Heyrir undir eyðijörðina Syðri-Villingadal, sem er nytjuð frá Ytri-Villingadal.“

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er að síðustu vísað til fyrirspurnar félagsmálaráðuneytisins frá 20. febrúar 1989 til sveitarstjórna, m.a. um fjallskil, afrétti og eignarrétt á slíkum svæðum, og svarbréfs hreppsnefndar Saurbæjarhrepps, dagsetts 8. janúar 1990, af því tilefni, en þar segir m.a.:  „[...] Hér eru engin afréttarlönd önnur en fjallshlíðarnar ofan við girt heimalönd og dalskorur sem ganga inn í hálendið út frá byggðum dölum.  Öll þessi afréttarlönd eru í einkaeigu og er annað ekki til. [...]

 

7.       Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, er að nokkru vísað til framangreindra heimilda, að því er varðar sögu, afmörkun, ráðstafanir að eignarrétti og nýtingu Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár, en einnig að því er varðar afrétti og afréttarnot.  Áréttað er að af heimildum sem nái allt aftur til 15. aldar megi ráða að um sjálfstæðar jarðir hafi verið að ræða.  Vísað er til þess að eigendur jarðanna hafi fyrir nefndinni sett fram sameiginlegar kröfur og ekki afmarkað þær sérstaklega.

Í úrlausn sinni fer óbyggðanefnd yfir hvernig merkjum er lýst í áðurröktum landamerkjabréfum jarðanna, en staðhæft er að eldri heimildir þar um séu ekki fyrir hendi.  Þá er í úrskurðinum lýst merkjum aðliggjandi svæða, þ.e. til norðurs og norðvesturs vegna merkja Torfufells gagnvart Leyningi og til suðurs vegna Úlfár gagnvart Arnarstaðatungum.  Loks er í úrskurðinum farið yfir merkin til vesturs og suðvesturs vegna landsvæðis jarðanna þriggja gagnvart Nýjabæ og Nýjabæjarafrétti í Skagafirði.  Í úrskurðinum er vísað til þess að ágreiningur sé með aðilum um greind vestur- og suðurmerki Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár.

Í úrskurðinum er áréttað að í landamerkjabréfi Torfufells sé merkjum til norðurs og vesturs lýst þannig að þar ráði „... Torfufellsá landamerkjum fram að svonefndri Galtá, sem er framan við Leyningsdal, frá henni á Torfufell dalinn beggja vegna og fram á fjöll þangað til vötnum hallar vestur til Skagafjarðar ...“  Bent er á að samkvæmt landamerkjabréfi Leynings, frá 20. maí 1885, séu merki „afrjettar“ í Leyningsdal að því leyti sem hér skiptir máli miðuð við Torfufellsá og „fjallsbrúnina að ofan“.  Vísað er til þess að bréf Torfufells og Leynings beri gagnkvæmar áritanir.

Í úrskurðinum segir að samkvæmt landamerkjabréfum Hólsgerðis og Úlfár, sunnan Torfufells, miðist vesturmerki þeirra við „fjallsbrúnina“ en á milli jarðanna sé dregin lína frá Eyjafjarðará með tilteknum hætti „til fjalls“.

Að því er varðar fyrrnefndan ágreining um staðsetningu vestur- og suðvesturmerkja Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár er í úrskurði óbyggðanefndar bent á að þinglýstir eigendur Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár miði afmörkun sína í kröfugerð til kröfusvæðis síns til vesturs- og suðvesturs á korti við sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps, en að einnig miði þeir suðvesturmerkin við punkt „ofan Hafrár á vatnaskilum“.  Vísað er til þess að stefndi, íslenska ríkið, hafni þessari afmörkun eigenda og miði við að merkin nái ekki lengra en að upptökum áa og þar með Hafrár.

Vegna lýsts ágreinings um vesturmerkin er í úrskurðinum greint frá því að óbyggðanefnd hafi aflað gagna frá vatnamælingum Veðurstofu Íslands um vatnaskil á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar og þar á meðal um upptök Hafrár og Torfufellsár.  Segir frá því að samkvæmt þessum gögnum liggi afmörkun á kröfusvæði stefnenda nærri vatnaskilum að norðvestanverðu, en að afmörkun þeirra sé mun sunnar en vatnaskilin þegar sunnar dregur.

Að ofangreindu sögðu er í niðurstöðukafla úrskurðarins vísað til efnis landamerkjabréfs Úlfár og áréttað að jörðin liggi syðst jarðanna þriggja og eigi merki að ágreiningssvæði í Arnarstaðatungum. Vísað er til þess að samkvæmt landamerkjabréfi Úlfár séu suðurmerki jarðarinnar bein stefna frá Eyjafjarðará í Hafrárgljúfur, en að þaðan ráði Hafrá til fjallsbrúnar.  Bent er á að í landamerkjabréfi Arnarstaða, ódagsettu en þinglýstu 20. maí 1890, séu merki „afrjettarlands í Arnarstaðatungum“ einnig miðuð við Hafrá, en að vesturmerki tungnanna séu að öðru leyti ekki tilgreind sérstaklega.  Bent er á að landamerkjabréf Úlfár sé áritað um samþykki vegna Arnarstaða en ekki gagnkvæmt.  Bent er á að óbyggðanefnd hafi fjallað um Arnarstaðatungur í nefndu máli nr. 2/2008 og að þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að afmörkun eigenda á landsvæðinu sé í samræmi við heimildir, en styðjist auk þess við staðhætti á svæðinu. Sú afmörkun miði vesturmerki Arnarstaðatungna við línu sem dregin sé frá sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps við suðurenda Nyrðra-Urðarvatns og þaðan yfir vatnið og í upptök Hafrár.

Í úrskurðinum er að ofangreindu sögðu vísað til þess að vestan og suðvestan kröfusvæðis eigenda Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár sé landsvæði sem deilt hafi verið um í máli nr. 4/2008 hjá óbyggðanefnd, nánar tiltekið vegna Nýjabæjar og Nýjabæjarafréttar austan Austurdals í Skagafjarðarsýslu.  Bent er á að landamerkjabréf Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár beri ekki áritun um samþykki vegna Nýjabæjarafréttar.  Einnig er bent á að ekkert landamerkjabréf sé til fyrir Nýjabæ og Nýjabæjarafrétt og að heimildir um afmörkun þeirra gagnvart Eyjafirði séu óljósar.  Vísað er til þess að niðurstaða óbyggðanefndar í nefndu máli nr. 4/2008 hafi þó verið sú að merki eignarlands Nýjabæjar og þjóðlendu á Nýjabæjarafrétti nái að kröfusvæðum gagnaðila ríkisins, og þar á meðal stefnenda, í máli nr. 2/2008.

Í úrskurðinum segir að samkvæmt framangreindu beri landamerkjabréf Torfufells ótvírætt með sér viðmiðun við vatnaskil að vestanverðu en að ekki komi fram hversu langt suður sú viðmiðun nái.  Áréttað er orðalag bréfsins „til fjalls“ og „fjallsbrún“, en síðan segir í úrskurðinum um álitefnið:

Torfufellsdalur og Hafrárdalur skerast suðvestur frá Eyjafjarðardal, sem liggur frá norðri til suðurs, og inn í hásléttu þá sem liggur milli Eyjafjarðardals að austan og Austurdals í Skagafirði að vestan. Meðfram ánum er undirlendi í u.þ.b. 300 m hæð yfir sjávarmáli en síðan rís land skarpt í um 1000 m hæð ofan brúna. Í málinu liggja fyrir gögn frá vatnamælingum Veðurstofu Íslands um vatnasvið Torfufellsár og Hafrár. Af þessum gögnum verður ráðið að vatnaskil vestan Torfufellsdals liggja Skagafjarðarmegin við sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps, þar til þau sveigja til austurs og svo suðausturs, í átt að Torfufelli og Eyjafjarðardal. Sveitarfélagamörk liggja hins vegar beina stefnu suðaustur að suðurenda Urðarvatna nyrðri …Áréttað er að stefnendur hafi í kröfugerð sinni um sunnanverð vesturmerki sín miðað við punkt „ofan Hafrár á vatnaskilum“, en síðan segir í úrskurðinum:

Hafrá, í suðausturmerkjum Úlfár, á upptök sín norðan og norðvestan vörðunnar Sankti Péturs á Vatnahjallaleið, … og er talin innan lands Arnarstaðatungna. Upptök Hafrár og vatnaskil á þessu svæði eru norður af Urðarvötnum en sveitarfélagamörk hins vegar við suðurenda vatnsins. Urðarvötn (880 m) mynda glögg landfræðileg skil ofan við drög Hafrárdals og liggja Eyjafjarðarmegin við sveitarfélagamörk, sbr. einnig Lýsingu Eyjafjarðar frá 1949, enda þótt þau séu Skagafjarðarmegin við vatnaskil.

Með hliðsjón af orðalagi í framangreindum merkjalýsingum, staðháttum og staðsetningu umræddra vatnaskila telur óbyggðanefnd að merki jarðanna nái ekki til fjalllendisins vestan Urðarvatna en austan vatnaskila Torfufellsár. Þjóðlendukrafa íslenska ríkisins nær ekki til alls svæðisins suðvestan vatnaskila. Þar sem óbyggðanefnd er bundin af kröfugerð aðila, hvort heldur er íslenska ríkisins eða annarra, sbr. þá ályktun sem dregin verður af dómum Hæstaréttar frá 6. september 2005 í máli nr. 367/2005 og 16. maí 2007 í máli nr.571/2006, kemur eignarréttarleg staða þess hluta umrædds landsvæðis ekki til frekari skoðunar hér.

Sá hluti þjóðlendukröfusvæðis íslenska ríkisins sem hér er til umfjöllunar fellur því að hluta innan jarðamerkja, svo sem þeim er lýst í landamerkjabréfum. Syðsti hluti kröfusvæðis eigenda Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár er hins vegar utan þeirra.

 

Að ofangreindu sögðu tekur óbyggðanefnd til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan framangreindra merkja.  Í því viðfangi er m.a. fjallað um fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 29. apríl 1969, í máli nr. 128/1967 (Nýjabæjarafréttur).  Staðhæft er að jarðirnar Torfufell, Hólsgerði og Úlfá hafi verið aðilar að Upprekstrarfélagi Saurbæjarhrepps, en síðar segir í úrskurðinum:

Í forsendum dómsins er tekið fram að málsaðilar deili um eignarrétt að landsvæði því sem um sé að tefla en ekki upprekstrarrétt. Jafnframt segir þar að Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps reisi kröfur sínar á því að hafa tekið heimildir á landsvæði þessu frá fyrri eigendum jarðanna Möðruvalla og Hóla í Saurbæjarhreppi, sem frá fornu fari hafi talist taka yfir landsvæðið. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að hvorki Upprekstrarfélagið né gagnaðilar þess í málinu hefðu fært fram gögn fyrir fullkominni eignartöku að fornu eða nýju á umræddu landsvæði og kröfur hvorugs teknar til greina.

Hluti þess svæðis sem ágreiningur þessi stóð um liggur innan afmörkunar á kröfusvæðum eigenda Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár í máli þessu. Þar er nánar tiltekið um að ræða hluta þess landsvæðis sem liggur vestan Urðarvatna og á milli vatnaskila og sveitarfélagamarka Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps. Skal í þessu sambandi vísað til afmörkunar á ágreiningssvæði aðila dómsmálsins, svo sem hún kemur fram í málsskjölum, og legu vatnaskila á uppdrætti sem óbyggðanefnd hefur aflað frá vatnamælingum Veðurstofu Íslands. Í kröfugerð Upprekstrarfélagsins er þess þannig krafist að landamerki fyrir umráðasvæði félagsins að vestan, að því leyti sem hér getur skipt máli, verði viðurkenndi og ákveðin þannig að „Nyrzt ráði merkjum Fossá frá upptökum nyrðri kvíslar til ármóta hennar og Jökulsár eystri ...“.

Enda þótt kröfur málsaðila í umræddu dómsmáli hafi ekki lotið að viðurkenningu beins eignarréttar telur óbyggðanefnd ljóst að rétturinn hafi hafnað því að málsaðilar hefðu sýnt fram á beinan eignarrétt sinn til umrædds landsvæðis, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu.  Í því sambandi er vísað til orða dómsins þar sem segir:

Í máli þessu er deilt um eignarrétt að landsvæði því, sem um er að tefla, en eigi upprekstarrétt og „hvorki áfrýjandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því sem um er að tefla í máli þessu.“ Óbyggðanefnd hefur ekki heimild til að hnekkja eða breyta niðurstöðum dóma, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Til skoðunar þarf þó að taka heimildir um Torfufell, Hólsgerði og Úlfá, þar sem af hálfu Upprekstrarfélagsins var ekki byggt á þeim og þær ekki til umfjöllunar í dómnum.  Einnig ber að líta til þess að dómurinn felur ekki í sér úrlausn um eignarréttarlega stöðu umrædds lands samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, með síðari breytingum.  Ljóst er þó að af hálfu Upprekstrarfélags Saurbæjarhrepps var ekki litið svo á að það landsvæði norðvestan Urðarvatna sem að framan var lýst lægi innan merkja jarðanna Torfufells, Hólsgerðis eða Úlfár.

 

Að ofangreindu sögðu fjallar óbyggðanefnd um þýðingu landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi og vísar þar um til fyrirliggjandi umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar um það efni, sem m.a. var birt í viðauka með úrskurðinum í kafla sem nefndur er Almennar niðurstöður óbyggðanefndar, en segir síðan:

Þannig liggur fyrir sú niðurstaða Hæstaréttar að við mat á gildi landamerkjabréfa og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem þar er lýst, skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig t.d. afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt.  Þá hafi menn ekki eingöngu markað sér landsvæði háð beinum eignarrétti, heldur einnig mörk ítaka, afrétta og allra annarra réttinda í lönd sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.

Landamerkjabréf fyrir Torfufell, Hólsgerði og Úlfá var gert í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882.  Svo sem áður var rakið telur óbyggðanefnd fyrirliggjandi gögn benda til þess að landamerkjum þeirra sé þar rétt lýst en hún er óljós um afmörkun til suðvesturs.  Bréfin voru undirrituð af eigendum jarðanna, þinglesin, færð í landamerkjabók og á þeim byggt síðan um merki þeirra, án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna sem að þýðingu hafi hér.  Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda.  Jafnframt er ljóst að eigendur Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár hafa um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst.

Í málinu hafa þannig ekki komið fram nein gögn sem hnekkt geta lýsingu á mörkum jarðanna í landamerkjabréfum eða rýrt eignarréttarlegt sönnunargildi þeirra.  Á hinn bóginn hafa engin haldbær gögn verið færð fram fyrir þeirri afmörkun allt að sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps sem gagnaðilar Íslenska ríkisins hafa byggt á í kröfugerð sinni.  Verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Því er ekki lýst í Landnámu hversu langt inn lands og upp til fjalla numið var á þessu svæði, …., en sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að landsæði það sem hér er til umfjöllunar sé a.m.k. að hluta innan þess.  Óbyggðanefnd hefur í fyrri úrskurðum tekið afstöðu til þjóðlendukrafna sem grundvallast hafa á þögn eða óskýrleika landnámslýsinga, tiltekinni hæð yfir sjávarmáli og engri eða takmarkaðri nýtingu lands, þá fyrst og fremst til sauðfjárbeitar.  Skal þar sérstaklega vísað til úrskurða um Esju og Smjörfjöll, sbr. mál nr. 3-4/2004 á svæði 4 og 2-3/2005 á svæði 5.  Þar var því hafnað að slík atriði ein og sér leiddu til frávika frá þeirri meginreglu að landamerkjabréf jarðar afmarki eignarland.  Afstaða óbyggðanefndar að þessu leyti liggur því fyrir og fyrirliggjandi dómar Hæstaréttar gefa ekki tilefni til stefnubreytingar.

Ekki eru heimildir um annað en að jarðirnar Torfufell, Hólsgerði og Úlfá hafi verið byggðar og nýttar eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Innan þeirra marka sem tilgreind eru í landamerkjabréfum jarðanna, svo sem þeim er nánar lýst hér framar, hafa eigendur þeirra farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt.  Hálendari hluti jarðanna hefur þar ekki verið undanskilinn, enda þótt nýting þar hafi verið takmörkuð.  Ekki verður annað séð en að þetta eignarhald hafi verið án ágreinings eða athugasemda.  Enda þótt nýting hálendari hluta jarðarinnar hafi eðli málsins samkvæmt verið takmarkaðri en láglendishlutans leiðir það eitt og sér ekki til neinnar eignarréttarlegrar aðgreiningar.  Torfufellsdalur er meðal þeirra landsvæða sem talin eru upp, án afmörkunar, í Skrá yfir afrétti og fjárréttir í Eyjafjarðarsýslu frá 1894 og skrá Sýslumannsins í Eyjafirði yfir afréttarlönd í sýslunni frá 1979.  Í þessum skrám eru einnig óumdeild eignarlönd.  Heimildir um afrétt í Torfufellsdal eru almenns eðlis og óbyggðanefnd telur að þær vitni fremur um notkun viðkomandi landsvæðis en þess að beinn eignarréttur hafi annað hvort ekki stofnast eða fallið niður, sbr. kafla 8.1.2 í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar sem birtar eru í viðauka með úrskurði þessum.  Þær leiða ekki til þess að land innan marka jarðarinnar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða staðhættir, gróðurfar eða nýtingarmöguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi.  Loks verður fyrirkomulag smölunar á þessu svæði ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu.

 

Í lokaorðum sínum rökstyður óbyggðanefnd niðurstöður sínar og þá í ljósi áðurrakinna gagna:

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu íslenska ríkisins að land innan tilgreindra landamerkja Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár sé þjóðlenda.  Á hinn bóginn hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu gagnaðila að jarðamerki nái svo langt til vesturs sem gerð er krafa til.  Ræðst því afmörkun að því leyti af vatnasviði Hafrár, líkt og að framan er rakið.  Ekki hefur [verið] sýnt fram á að utan jarðamerkja, en innan kröfusvæðis gagnaðila ríkisins í máli þessu, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.  Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að suðvestan umræddra vatnaskila sé þjóðlenda en austan þeirra sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi austanverðu, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.  Með vísan til sama ákvæðis ber jafnframt að taka skýrt fram að í umfjöllun óbyggðanefndar felst ekki afstaða til merkja á milli eignarlanda.

Kemur þá til skoðunar hvort stofnast hafi til óbeinna eignarréttinda innan þess lands sem gerð er krafa til af hálfu gagnaðila en fellur utan landamerkja jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár samkvæmt framangreindri afmörkun, þ.e. þess hluta sem liggur suðvestan vatnaskila.

Fyrir liggur að fjalllendið á milli Skagafjarðar- og Eyjafjarðardala hefur verið nýtt til beitar og annarra venjubundinna afréttarnota. Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis eru misjafnlega fallnir til beitar og sumir alls ekki. Beitarsvæði taka þó breytingum auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld. Ekki er mögulegt að greina eða flokka viðkomandi landsvæði nánar í „hreina þjóðlendu“ annars vegar og þjóðlendu sem undirorpin er afréttareign hins vegar. Eins og hér háttar til, telur óbyggðanefnd rétt að jarðeigendur njóti fyrirliggjandi vafa. Landsvæði það sem hér um ræðir verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði [...] sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Á þeim hluta fjalllendisins vestan Eyjafjarðar þess sem hér um ræðir hafa eigendur Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár einir gert tilkall til réttinda. Verður því fallist á að landið sé í afréttareign þeirra jarða.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði utan landamerkja jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Kröfulínu íslenska ríkisins er fylgt frá punkti 2, í upptökum Hafrár, og norðvestur að skurðpunkti við vatnaskil.  Frá skurðpunktinum er miðað við vatnaskil til suðvesturs, þar til þau mæta sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps. Sveitarfélagamörkum er síðan fylgt til suðausturs, að punkti 1 í kröfulínu gagnaðila, við suðurenda Urðarvatns nyrðra.  Loks er síðarnefndu línunni fylgt áfram til norðausturs, þar til kemur að fyrstnefndum punkti 2í þjóðlendukröfulínu ríkisins.

Sama landsvæði er í afréttareign Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

 

 

 

II.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur byggja kröfur sínar á því, að hið umþrætta og óskipta land jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár sé eignarland samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58, 1998 og að það hafi verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja landsvæðið suðvestan vatnaskila við vestur- og suðurmörkin til þjóðlendu.

Stefnendur byggja á því að hið umþrætta landsvæði hafi verið hluti landnáms Helga hins magra, sem hann hafi síðar gefið Auðuni rotin, þ.e. land „fyrir ofan Háls“.  Þeir vísa til þess að syðri marka landnámsins sé ekki getið, en að telja verði að venju samkvæmt hafi verið miðað við vötn, þ.e. eins og vötn draga.  Þá vísa stefnendur til Íslendingasagna, m.a. Víga-Glúms sögu og Valla-Ljóts sögu, og að jörðunum Hólsgerði og Úlfá hafi á síðari stigum verið skipt út úr landi Torfufells.

Stefnendur benda á að elsta varðveitta heimildin um landamerkjalýsingu Torfufells sé áðurrakið landamerkjabréf jarðarinnar frá 21. maí 1889, en því hafi verið þinglýst þremur dögum síðar.  Stefnendur benda enn fremur á að áðurrakið landmerkjabréf Hólgerðis greini frá útskiptu landi jarðarinnar og að vestan miðist það við fjallsbrún, en þeir vísa til þess að land vestan fjallsbrúnarinnar sé óskipt.

Stefnendur andmæla því að túlka eigi landamerkjabréf jarðanna eða kröfulýsingar þeirra fyrir óbyggðanefnd þannig að landamerkjalýsingar taki ekki til hins umdeilda lands.  Þeir vísa til þess að gengið hafi verið út frá því um langa hríð að sýslumörk á milli Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu liggi á vatnaskilum.  Þeir vísa einnig til þess að þó svo að einhverju kunni að skeika þar um þá breyti það ekki þeirri staðreynd að þeir og forverar þeirra hafi talið að merki jarðanna og nágrannajarðarinnar Nýjabæjar í Austurdal liggi saman allt suður undir Urðarvatn.  Máli sínu til stuðnings vísa stefnendur til fyrrgreindrar niðurstöðu óbyggðanefndar um Smjörfjöll og Esju, en þar hafi engu máli verið talið skipta þótt talsvert væri á milli upptaka vatnsfalla beggja vegna vatnaskila þar sem sýnt hafi þótt að skilningur landeiganda hefði verið sá að landmerki lægju saman á fjöllum.

 

Stefnendur vísa til þess að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum talið að hún væri bundin af niðurstöðu áðurrakins dóms Hæstaréttar í málinu nr. 128/1967.  Stefnendur andmæla þessari ályktun nefndarinnar og byggja og á því að dómurinn hafi ekki svokölluð res judicata áhrif og eigi því ekki að binda hendur nefndarinnar, enda hafi hann ekki tekið til hins umdeilda landsvæðis.

Stefnendur vísa til þess að vegna fyrrgreindra annmarka á úrskurði óbyggðanefndar beri að ógilda hann.

 

Stefnendur byggja á því að lög nr. 58, 1998 verði ekki skýrð á þá leið að þeir þurfi að sýna frekar fram á en þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.  Stefnendur vísa til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis og byggja á því að til þess að stefndi geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum, verði hann að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar og sömuleiðis þinglesnar landamerkjaskrár, en það hafi hann ekki gert á nokkurn hátt.

Stefnendur byggja á því, að verði eignarréttur þeirra ekki viðurkenndur á grundvelli þinglýstra heimilda, hafi þeir öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð, en þar um vísa þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46, 1905.  Þeir benda á að eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi.  Hafi stefnendur og fyrri eigendur verið í góðri trú enda haft umráð landsins í árhundruð.  Vegna þessa sé fullnægt öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu.  Því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46, 1905, að því er varðar hið umþrætta landsvæði.  Og með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingu þeirra verði og að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.

Um lagarök vísa stefnendur til 25. og 26. gr. þinglýsingarlaga nr. 39, 1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1 viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, er lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62, 1994.  Að auki vísa þeir til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58, 1998, að því er varðar skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41, 1919, sbr. eldri lög um sama efni.  Stefnendur vísa einnig til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46, 1905, til venju, þ.e. að land, sem að fornu hafi verið notað eingöngu af landeigendum, sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana, enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna.  Þá vísa stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma, sbr. og núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91, 1991.  Loks vísa stefnendur til málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar, sem m.a. séu lögfestar í stjórnsýslulögum nr. 37, 1993.  Um varnarþing vísa stefnendur til 3. mgr. 34. gr. laga nr. 91, 1991.  Hið umdeilda land sé í óskiptri sameign stefnenda og því eigi þeir óskipta aðild.  Stefnendur byggja málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 1991 og á gjafsóknarleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 15. mars 2010.

 

Málsástæður og lagarök stefnda, íslenska ríkisins.

Af hálfu stefnda er á því byggt að hið umþrætta landsvæði, þ.e. hið afmarkaða svæði sunnan og vestan við hið óskipta landsvæði jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár samkvæmt niðurstöðu óbyggðanefndar, sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda, sbr. ákvæði 1. gr. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Við flutning var af hálfu stefnda til þess vísað að ekki væri ágreiningur um eignarréttarlega stöðu nefndra jarða og hins óskipta lands þeirra, líkt og það hefði verið afmarkað í úrskurði óbyggðanefndar.  Þannig sé ekki ágreiningur um að landsvæði jarðanna sé undirorpið beinum eignarrétti, sbr. áðurrakin landamerkjabréf.  Stefndi byggir hins vegar á því að fullljóst sé af heimildum að landsvæðið vestan og sunnan hins óskipta svæðis jarðanna hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að áliti stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist eignarréttar að umræddu landsvæði eða einstökum hlutum þess.

Stefndi bendir á að óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn í málinu á umfangsmikilli upplýsingaöflun og á kerfisbundinni rannsókn á fjölda gagna, sem fram hafi komið við umfjöllun nefndarinnar eða verið lögð fram af málsaðilum.  Að auki hafi nefndin byggt á skýrslum, sem gefnar hafi verið við meðferð málsins fyrir nefndinni.  Stefndi gerir niðurstöður nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfu, auk þeirra málsástæðna sem hér á eftir verða raktar.

Stefndi vísar til þess að Torfufells og Úlfár sé fyrst getið í heimildum frá 15. öld, en að fyrstu heimildir um Hólsgerði séu frá 18. öldinni.  Stefndi áréttar að ekki sé ágreiningur um eignarréttarlega stöðu jarðanna, en hins vegar séu skiptar skoðanir með aðilum um fjalllendið vestan Urðarvatna og sunnan þeirra vatnaskila sem afmarki vatnasvið Hafrár.  Stefndi áréttar að það hafi verið niðurstaða óbyggðanefndar að nefnd svæði séu utan landamerkja jarðanna, líkt og takmörkun hins óskipta lands sé lýst í áðurröktum landmerkjabréfum.

Stefndi vísar til þess að fyrir liggi að vatnasvið og upptök Hafrár hafi verið afmarkað af Veðurstofu Íslands, sbr. kort á dskj. nr. 56.  Að því leyti vísar stefndi einnig til þess að landamerki Arnarstaðatungna miðist við Hafrá, en að vesturmerkjum þeirra hafi að öðru leyti ekki verið lýst sérstaklega.  Stefndi bendir á að upptök Hafrár og vatnaskil samkvæmt gögnum séu norður af Urðarvötnum ytri, en sveitarfélagsmörk Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps séu hins vegar við suðurenda vatnsins.  Stefndi byggir á því að Urðarvötnin myndi glögg landfræðileg skil ofan við drög Hafrárdals.  Stefndi vísar að öðru leyti til úrskurðar óbyggðanefndar og byggir á því að umrætt svæði sé utan merkja umræddra jarða og sé því þjóðlenda.

Stefndi byggir á því, að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til landsins landnám á umræddu svæði hafi náð.  Telur stefndi ólíklegt að land á hinu umþrætta landsvæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið sé hálent.  Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varðar leiða til þess, að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóm Hæstaréttar í málunum nr. 67, 1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48 (Úthlíð).  Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim er haldi slíku fram.

Stefndi byggir á því að ekki verði af áðurröktum heimildum annað ráðið en að hið umþrætta landsvæði hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti, en þar um vísar stefndi til umfjöllunar í úrskurði óbyggðanefndar.

Stefndi bendir á að ekki verði annað séð, en að réttur til hins umþrætta landsvæðis hafi upphaflega orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og e.t.v. annarrar takmarkaðrar notkunar.

Stefndi byggir á því, verði talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, að það hafi þá ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétt og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan slík landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Um þetta atriði bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Verði hins vegar talið að svæðið kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefndi á til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður, en svæðið hafi þá verið tekið til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Og þó að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu liggi heldur ekkert fyrir um, að sá réttur hafi haldist gegnum aldirnar.

Þá er á því byggt af hálfu stefnda, að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess, að landið hafi ekki verið numið í öndverðu, eða teljist lúta beinum eignarétti.

Stefndi áréttar að vestur- og suðvesturhluti nefndra jarða sé að verulegu leyti í yfir 1.000 m hæð yfir sjávarmáli og sé gróðursnautt og öldótt, en að þar séu einnig hæðir, fjöll og smávötn.  Syðst liggi Urðarvatn í um 880 m hæð, en hæst rísi landið í 1055 m hæð suður af Torfufellsdal.

Stefndi byggir á því að engin gögn liggi fyrir um að hið umþrætta svæði hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, enda sé landið hálent og gróðursnautt öræfasvæði og liggi fjarri byggð.  Stefndi bendir á áðurrakta umfjöllun í úrskurði óbyggðanefndar að því er varðar heimildir um jarðirnar þrjár og byggir á því að ekkert bendi til þess að lönd þeirra hafi náð svo langt til vesturs sem stefnendur haldi fram, heldur einungis að vatnaskilum, þ. á m. milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar.

Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um vísar hann m.a. til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta, gróðurfars og eldri heimilda.  Áréttar hann að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað eða önnur takmörkuð nýting lands og geti slíkt ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 103/1952 (Landmannaafrétt), 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.

 

Af hálfu stefnda er sérstaklega vísað til áðurnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 128/1967 (Nýjabæjarafrétt).  Byggir stefndi á því að dómurinn feli í sér res judicata áhrif að því er varði eignarréttarlega stöðu hins umþrætta svæðis, enda hafi hluti af því landsvæði sem kröfugerð stefnenda taki til verið til umfjöllunar í nefndum dómi.  Tekur stefndi að því leyti undir áðurrakin sjónarmið óbyggðanefndar og byggir á því að enda þótt kröfur málsaðila í nefndu dómsmáli hafi ekki lotið að viðurkenningu beins eignarréttar sé engu að síður ljóst að rétturinn hafi hafnað því að málsaðilar hafi sýnt fram á slíkan rétt, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu.  Vísar stefndi í því sambandi einkum til orða dómsins þar sem segir: „Í máli þessu er deilt um eignarrétt að landssvæði því, sem um er að tefla, en eigi upprekstrarrétt ...“ og enn fremur „hvorki áfrýjandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignartöku að fornu eða nýju á landssvæði því sem um er að tefla í máli þessu.

 

Þá er á það bent af hálfu stefnda, að þinglýsing heimildarskjals fyrir svæði feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignaréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.

 

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið telur stefndi að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eignarrétt sinn á hinu umdeilda landsvæði.  Telur stefndi ljóst að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, en auk þess séu þau ekki endilega samfelld.  Byggir stefndi á því að áður tilgreint ágreiningssvæði verði því talið falla undir skilgreininguna: „landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58, 1998.  Engin gögn liggi fyrir um að landsvæðið hafi haft mismundandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að landsvæðið svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sem fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist allt þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.

 

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í umræddu máli, nr. 2/2008.  Auk þess byggir stefndi á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem hann setti fram í kröfugerðinni fyrir óbyggðanefnd og krefst hann þess að úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009, í nefndu máli, verði staðfestur.

 

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Hann byggir á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar.  Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905, en vísar einnig til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil.  Þá vísar stefndi til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr.

 

III.

1.       Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er afréttur í lagagreininni skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.

Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar, sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga, sem kölluð hafa verið þjóðlendulög, segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Þá segir að tilgangur laganna sé að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hafi verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.  Tekið er fram að eigi sé áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og beri eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar.  Loks segir í athugasemdunum að til þess beri að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu geti verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raski ekki slíkum réttindum.  Þannig eigi þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, að halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veiti þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvaða land þjóðlenda.  Niðurstaðan ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

 

2.         Samkvæmt framansögðu er upphaf þessa máls það að óbyggðanefnd ákvað í mars 2007 að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998.  Við meðferð málsins var svæðið nánar afmarkað og skipt upp í fimm aðskilin mál.  Var eitt þeirra það mál sem hér er til umfjöllunar, nr. 2/2008, er varðar landsvæði í vestanverðum Eyjafjarðardal.  Mál nefndarinnar nr. 4/2008 varðar svæði í Skagafirði, nánar tiltekið í Austurdal í Akrahreppi austan Austari-Jökulsár, nánar tiltekið á svæðum sem nefnd hafa verið Nýjabæjarafréttur og Fjöllin/Laugafellsöræfi.  Tekur fyrrnefnda landsvæðið til Fram-Austurdals og til austurs, m.a. Nýjabæjarfjalls og Nýjabæjarafréttar, allt að mörkum Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslu.  Síðarnefnda svæðið, Fjöllin, er á hálendinu framan Austurdalsins og nær það allt að Hofsjökli, en til austurs að öræfasvæðunum sunnan Eyjafjarðardala, þ.e. kröfusvæða fremst í Eyjafirði og á hálendinu þar sunnan við, sem m.a. hafa tilheyrt jörðunum Hólum og Möðruvöllum.  Samkvæmt úrskurðum óbyggðanefndar eru þessi síðastnefndu landsvæði þjóðlendur, en það var m.a. staðfest með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 656/2012, að því er varðar syðsta hluta Möðruvallarafréttar.  Norðan ágreiningssvæðis máls nr. 4/2008 eru m.a. jarðirnar Ábær og Merkigil í Austurdal, en fyrir norðan þær eru jarðirnar Flatatunga á Kjálka og Egilsá í Norðurárdal.  Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar eru eignarlönd þessara jarða á hálendinu á vatnaskilum gegnt eignarlöndum jarða í Eyjafirði.  Þá var það niðurstaða óbyggðanefndar í þessu síðastnefnda máli, að það landsvæði í Austurdal sem nefnt hefur verið Nýjabæjarafréttur, eins og mörk hans eru nánar skilgreind í úrskurði nefndarinnar, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að svæðið sé í afréttareign landeiganda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.  Aftur á móti var það niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæðið þar fyrir framan, áðurnefnd Fjöll, sé hrein þjóðlenda.

 

Í máli því sem hér er til umfjöllunar, nr. 2/2008, krefjast stefnendur þess að úrskurður óbyggðanefndar um hið umþrætta óskipta landsvæði við vestur- og suðvesturmörk jarðanna Úlfár, Hólsgerðis og Torfufells verði felldur úr gildi með áðurröktum röksemdum.  Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er í málatilbúnaði tekið undir niðurstöður óbyggðanefndar og krafist sýknu.

 

Úlfá, Hólsgerði og Torfufell eru í fyrrum í Hólasókn og í Saurbæjarhreppi, en hann er víðlendastur af hreppum í Eyjafirði og var áður einnig fjölmennastur.  Þessi fremsta byggð í Eyjafirði er stundum nefnd Eyjafjarðardalur, en byggðin tilheyrir nú Eyjafjarðarsveit.

Eyjafjarðará rennur eftir Eyjafjarðardal og endilöngu héraðinu.  Upptök hennar eru í botni dalsins.  Fjallahringurinn, sem umlykur Eyjafjarðardal, er hálendur, um 900-1200 m.

Byggðin í Eyjafjarðardal nær langt fram, en eftir það skerst dalurinn langt inn í óbyggðir.  Heitir nú Tjarnir fremsti bærinn austan Eyjafjarðarár, en Hólsgerði vestan ár, eftir að jörðin Úlfá fór í eyði í snjóflóði á síðustu öld.  Sunnar í dalnum og í dalbotninum eru afréttarlönd, þ.m.t. Arnarstaðartungur, en þar fyrir framan er Hólaafréttur með Jórunnarstaðatungum.

Nefndur Hólaafréttur er syðst í dalnum, beggja vegna ár og nær til norðurs vestan ár að svonefndum trippagarði í Strangalækjarfjalli.  Fremri-Strangalækur kemur úr samnefndu gili, en drag lækjarins nær vestur undir Urðarvötn, en þar skammt frá er Kerlingahnjúkur.  Vestur undir hnjúknum er Vatnahjalli en um hann liggur Eyfirðingavegur.  Norðan Fremri-Strangalækjar að Hafrá er afréttarsvæðið Arnarstaðatungur, en þar eru gamlar seltóftir, Arnarstaðasel.  Hafráin fer um Hafrárgil, sem er djúpt klettagil, vel gróið, sem gengur þvert upp Tungnafjallið.  Þar er Hafrárdalur og ofar Tungnahnjúkur.  Ná drög Hafrár langleiðina að Urðarvatni ytra, en afrennsli þess er til vesturs til Skagafjarðar, sbr. fyrrnefnt fræðirit Steindórs Steindórssonar náttúrufræðings.  Í fyrrnefndri sýslu- sóknarlýsingu Hólasóknar frá 1840, en einnig í öðrum gögnum, er greint frá því að Hafrárgilið gangi þvert upp Tungnafjallið (843 m) uns það nær brún þess þar sem það er lægst.  Þar breytir það um stefnu og er þar hóll sem nefnist Hæll, en gilið liggur eftir það í suðvestur eftir dalverpi, sem myndast af fláa fjallsins og heitir Hafrárdaldur.  Eftir Hafrárdal liggur fyrrnefndur Eyfirðingavegur að Sankti-Páli, sem er varða á suðurbrún dalsins.  Allmikið vestar kemur Hafrá niður í dalverpið úr Gránudragi, sem liggur til suðvesturs og nær næstum að Urðarvatni ytra.

Frá Hafrárgili og Hafrá, með flatlendinu, að merkjum milli Úlfár, sem fór í eyði 1925, og Hólsgerðis kallast Úlfárheiði og er þar nokkurt undirlendi, en þar norðan við er syðsta býlið í byggð vestan Eyjafjarðarár, Hólsgerði.  Er fjöldi örnefna á þessu svæði, m.a. Hafrárhólmar, en ofan þeirra eru rústir, sem Beitarhús kallast.  Þar norðan við eru Réttarskriðuholt og neðst á því og nyrst húsarústir, Litla- eða Fremri-Úlfá.  Af frásögn í Jarðabókinni 1712 eru líkur á að um sé að ræða Magnúsartóftir, fornbýli Úlfárbýlisins.

Norðan Hafrár og Hafrárgljúfurs eða -gils er fjöldi örnefna.  Fyrst er nefnd Flötuheiðarbrekka og samnefnd heiði, en þar ofar er svonefnt Hraun, en þar vestan við er Úlfárfjall (1174 m).  Norðan við þetta landsvæði er fjalllendi Torfufells, en fyrir ofan eyðibýlið Úlfá er slakki með harðfenni, sem kallast Úlfárjökull, og þaðan kemur Úlfáin.  Í henni neðarlega er m.a. djúpt gil, sem ber sama nafn.  Nyrst á fjallinu er Torfufellshnjúkur (um 1240 m).

Dalbotn Eyjafjarðardals þrengist verulega þegar kemur fram fyrir Saurbæ, en samt er þar allbreitt undirlendi.  Samkvæmt heimildum er allskriðuhætt beggja vegna Eyjafjarðarár.  Rúmlega 10 km fyrir framan Saurbæ og Möðruvelli gengur hólagirðing mikil yfir þveran dalinn, en þar norðan við eru bæjarhús jarðarinnar Hóla.  Nokkru sunnar eru Hólahólar, sem er annað hólahrúgald í vestanverðum dalnum.  Er það fyrir mynni Villingadals, svonefndir Leyningshólar, en þar er samnefnd jörð.  Fyrir innan Hóla er dalurinn strjálbýlli en fyrr, en þar eru nú fjögur býli að austan, en þrjú að vestan.  Undirlendi er þarna lítið og skriðuhætt.  Fyrir utan fremstu jarðirnar Hólsgerði og Tjarnir gengur jökulalda yfir þveran dalinn.  Þá er enn hólagarður inni í afrétt og loks er fjórða jökulaldan inn hjá Sandá.  Í fremsta hluta Eyjafjarðarár, framan byggðar, er stórgrýti og fellur áin þar þröngt og er í raun ekkert undirlendi þar í dalnum.  Eftir að áin kemur niður í byggð, hjá Tjörnum, er hún lengst af fremur lygn.

Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum og staðkunnugum aðila, en í síðari vettvangsferðum var einnig flogið yfir landsvæðið.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til Landnámu um landnám Helga magra og það sagt að hann hafi skipt landi milli ættingja sinna, en hann reist bú sitt í Kristnesi, nærri miðju héraði.  Í úrskurðinum segir frá búsetu barna og ættmenna Helga austan og vestan Eyjafjarðarár, og þar á meðal að þau hafi m.a. reist bú að Þverá hinni efri, sem nú heitir Munkaþverá, en einnig í Gnúpufelli og á nágrannajörðinni Möðruvöllum, en það býli varð fljótlega eitt mesta höfðingjasetur Íslands.  Að auki eru heimildir um, m.a. í Ljósvetningasögu, að einn afkomenda landnámsmannsins hafi reist bú að Granastöðum á Gleráreyrum, framarlega í Eyjafjarðardal.  Samkvæmt heimildum fór þetta fornaldarbýli snemma í eyði, en þar hafa farið fram alþekktar fornleifarannsóknir.  Þá er sagt að Helga Helgadóttir og Auðun rotin, en hann var sonur Þórólfs smjörs, Þorsteinssonar skrofa, hafi reist bú sitt syðst í landnámi Helga magra, vestan Eyjafjarðarár, í Saurbæ.

Torfufell og Úlfá eru ekki á meðal landnámsjarða, en getið er um ábúendur þar á söguöld.  Þá koma jarðirnar við sögu á miðöldum, m.a. í tengslum við erfða- og jarðeignaskipti Möðruvellinga.  Eftir það gengu jarðirnar kaupum og sölum.

Þegar framangreind atriði um landnám eru virt í heild, en einnig aðrar heimildir Íslendingasagna og þar á meðal um fornbýlið Granastaði, er að áliti dómsins líklegt að landsvæðið í fremsta hluta Eyjafjarðardals hafi verið numið við upphaf Íslandsbyggðar.

Nefndar jarðir í Eyjafjarðadal, Torfufell, Hólsgerði og Úlfá, eru á undirlendi við vesturbakka Eyjafjarðarár, en um 3,5 km eru frá bæjarhúsum nyrsta býlisins Torfells að syðsta býlinu Úlfá.  Frá Úlfárbýlinu suður að ármótum Hafrár og Eyjafjarðarár er um 3 km.

Í úrskurði óbyggðanefndar er fjallað um staðhætti, annars vegar á takmörkuðu undirlendi jarðanna Úlfár og Torfufells og afbýlis hennar Hólsgerðis við Eyjafjarðará, sem er í um 300 m hæð yfir sjávarmáli.  Er undirlendinu sleppir teygir land jarðanna sig skarpt til vesturs í yfir 1000 m hæð og inn á hásléttuna, en þar eru og Nýjabæjarfjall og Nýjabæjarafrétt, sem liggur milli Eyjafjarðardals og Austurdals í Skagafirði.  Er þar hallalítið land og gróðursnautt, en þar eru einnig hæðir og hærri fjöll, sem eru algjörlega gróðurlaus.

Elstu heimildir jarðanna, sem víkja að þessu hálendissvæði, eru frá miðbiki 19. aldar.  Greina þær frá því að jarðirnar Torfufell og Hólsgerði eigi beitiland í Torfufellsdal, en í landmerkjabréfi Úlfár frá árinu 1888 segir að jörðinni fylgi upprekstrarland, ótilgreint.

Eins og fyrr segir liggja nefndar jarðir allar undir Torfufellsfjalli.  Í landamerkjabréfum er vikið að óskiptu landi jarðanna og segir í bréfum Torfufells og Hólsgerðis að til fjallsins, þ.e. til vesturs, sé óskipt land þeirra.  Í bréfi þeirrar síðarnefndu, líkt og í bréfi Úlfár, er því bætt við að vesturmerkin ráðist af fjallsbrúninni.  Aftur á móti er í bréfi Torfufells sagt að merki jarðarinnar í samnefndum dal liggi fram á fjöllin þangað til vötnum hallar vestur til Skagafjarðar.  Í landamerkjabréfi Úlfár segir að suðurmörk hennar, gegnt fyrrnefndum Arnarstaðatungum, séu bein stefna frá Eyjafjarðará vestur í Hafrárgljúfur, en þaðan ráði Hafrá til fjallsbrúnar.

Á nefndu hálendi eru sýslumót Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu, og eins og áður var rakið úr fræðiriti Steindórs Steindórssonar náttúrufræðings hafa þau mörk löngum verið harla óljós, enda þar fátt um örnefni.  Eins og fyrr sagði er því lýst í landamerkjabréfi að mörk syðstu jarðarinnar Úlfár séu við Hafrá, en þar sunnan við er Tungnafjall og afréttarlandið Arnarstaðatungur.  Til suðvesturs, á hálendinu, eru fyrrnefnd Urðarvötn, en þar fyrir vestan á hálendinu í um 1000-1100 m hæð er Urðarvatnsás og nær hann að efstu dögum Fossár í Austurdal.

Mörk nyrstu jarðarinnar, Torfufells, til norðurs, eru samkvæmt áðurröktu landamerkjabréfi við Torfufellsá í Torfufellsdal/Leyningsdal, en framar í dalnum eru merkin við Galtá.  Framar er merkjum jarðarinnar lýst eins og hér að framan var rakið.  Á þessu nyrsta fjallasvæði eru m.a. Galtarvatn, Galtartungur og Galtarhnjúkur (1078 m), en einnig Miðás (1149 m) og Þverfjall (1055 m).  Nefnd örnefni teljast hluti af mikilli hásléttu sem nefnist eins og áður sagði Nýjabæjarfjall, en vestan þeirra er Austurdalur í Akrahreppi í Skagafjarðarsýslu.  Syðsta jörðin í Austurdal, austan Jökulsár, er Nýibær, sem er í mynni afdalsins Tinnárdals, en um mörk hennar var í kaupbréfi frá 1464 sagt að hún ætti land svo langt fram á fjöll sem vötn draga.  Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 4/2008 var miðað við að suðurmörk heimalands Nýjabæjar gagnvart Nýjabæjarafrétti séu við Fremri-Hvítá og allt að vatnaskilum Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu, sbr. nú dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. E-32/2010.  Um 10 km eru á milli fremstu draga Torfufellsdals/Leyningsdals í Eyjafirði og að Hvítármúla við Fremri-Hvítá í Austurdal.  Er um að ræða einhvern hæsta fjallveg landsins og fóru hann einkum Austurdælingar í tengslum við verslun og sláturhúsrekstur búfjár, síðast árið 1876.  Eins og fyrr var sagt frá eru yfir 10 km frá fremstu drögum Torfufellsdals til austurs að bæjarhúsum Torfufells í Eyjafjarðardal.  Heimildir eru um að eigendur Torfufells hafi keypt Nýjabæ í Austurdal um 1870 og nýtt til beitar.  Eru sagnir um að eftir kaupin hafi upprekstur á eyfirsku fé í landi Nýjabæjar fyrst hafist, en síðan hafi sú nýting lagst af um tíma eða til ársins 1905 er jarðeigandinn á Kroppi í Eyjafirði keypti hálfan Nýjabæjarafrétt í þeim tilgangi að nota hann sem beitiland.  Gekk það ekki eftir og komst jörðin þá á ný í hendur bænda í Akrahreppi.

Vestur- og suðurmörkum Eyjafjarðarsýslu vestan Eyjafjarðardals er eins og fyrr var rakið lýst í Lýsingu Eyjafjarðar I eftir Steindór Steindórsson náttúrufræðing.  Kemur þar fram að þau liggi hlykkjótt eftir háfjallinu milli Austurdals og Nýjabæjarafréttar í Skagafirði og Eyjafjarðardals, en vegna óskýrleika og örnefnafæðar ætlar hann að þau liggi á vatnaskilum allt suður til Urðarvatna.

Um greind sýslumörk liggur nú fyrir auglýsing félagsmálaráðuneytisins frá 21. september 1999, nr. 629, um staðfestingu á samkomulagi milli Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps um mörk sveitarfélaganna inn til landsins, sbr. ákvæði 2. mgr. 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Í auglýsingunni eru mörkin talin vera á eða nærri vatnaskilum á fjallgarðinum austan Austurdals og vestan Eyjafjarðardala, eins og hér segir:  Frá drögum annars vegar Ábæjar- og Miðhúsadals og Tinnár- og Tinnárdals/Nýjabæjardals og hins vegar við drög Torfufellsdals í Eyjafirði og „þaðan bein lína suður að hæðarpunkti 1.026 m (ofan Hvítármúla).  Þaðan er bein lína dregin í suðurenda Urðarvatns nyrðra.  Þaðan liggur línan eftir kvísl milli Urðarvatna og eftir miðju Urðarvatni syðra að vörðunni „Drottningu“ sunnan Urðarvatna.  Þaðan bein lína í „Svarta hornið“ (við Geldingsá).  Þaðan bein lína í vörðu, sem hlaðin var í ferð hreppsnefndarmanna, á bungu norðan Laugafellshnjúks, vestan skálanna við Laugafell.  Þaðan áfram suður í Hnjúkskvísl þar sem hún sveigir lengst í norður, norðan Laugafellshnjúks, og fylgir henni síðan suður með hnjúknum að austan og síðan efir Jökulkvísl, sem er heiti á efsta hluta Hnjúkskvíslar, í tindinn Klakk, austan Hofsjökuls, en þar er endapunktur línunnar.“

Með aðilum er ekki ágreiningur um að norður- og vesturmörk eignarlands hins óskipta lands Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár fylgi, í ljósi orðalags landmerkjabréfs Torfufells og gagna frá Veðurstofu Íslands um vatnaskil, ofangreindum sýslumörkum og þar séu því endimörk jarðanna til vesturs, og séu þar nærri vatnaskilum.

Ágreiningur aðila varðar því aðeins hið umþrætta óskipta landsvæði jarðanna, sem er skiki við suðvestur- og vesturmörk jarðanna á greindu hálendisvæði.  Í landmerkjabréfi Úlfár eru merkin á þessu svæði miðuð við árfarveg Hafrár, en því er síðan lýst að þau fari um Hafrárgljúfur og að fjallsbrúninni.  Á hálendinu ofan nefndrar fjallsbrúnar er fyrrnefnt Urðarvatn ytra, en hálendisflesjan er þarna í um 1000-1100 m hæð og ber nafnið Urðarvatnsás, en hann nær vestur að efstu drögum Fossár í Austurdal.  Eru um 6 km þarna í milli.  Samkvæmt gögnum Veðurstofu Íslands eru vatnaskil Hafrár nokkru norðan við Urðarvatn ytra, en eins og áður er rakið er talið að afrennsli vatnsins sé til vesturs.

Samkvæmt framangreindu, en enn fremur þegar virt er saga, gróðurfar, nýting landsvæðisins, sem og vegalengdir, en einnig í ljósi kröfugerðar stefnda fyrir óbyggðanefnd, og loks að virtri umfjöllun nefndarinnar um gildi landamerkjabréfa, er það niðurstaða dómsins að gegn andmælum stefnda og að virtum röksemdum hans, m.a. varðandi réttmætar væntingar, hafi stefnendur ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að þeir eigi beinan eignarrétt á hinu umþrætta svæði, eins og það var afmarkað hér að framan.  Í því viðfangi er til þess að líta að fyrrgreind merkjalýsing Úlfár tekur ekki mið af Urðarvatni ytra, sem markar í raun glögg landfræðileg skil.  Þvert á móti er skýrlega miðað við upptök Hafrár við fjallsbrún, sem eins og áður sagði er nokkru norðan vatnsins.  Verður að þessu sögðu og í ljósi fyrrgreindra staðhátta fallist á með stefnda að þau vatnaskil, sem óbyggðanefnd vísar til í úrskurði sínum, ráði mörkum eignarlands stefnenda á þessum slóðum, enda verður ekki fundin viðhlítandi stoð fyrir því í fyrrgreindum heimildum að land jarða þeirra liggi sunnar eða vestar.  Samkvæmt þessu verður hafnað kröfum stefnenda um að ógilt verði ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um mörk eignarlands jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár og þjóðlendu.

Stefnendur hafa að áliti dómsins ekki fært fram sönnur um að skilyrðum eignarhefðar á hinu umþrætta landsvæði hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því.  Liggur einnig fyrir að landsvæðið hefur um aldir aðallega verið nýtt til sumarbeitar búfénaðar.

Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að hið umþrætta landsvæði, eins og það er nánar afmarkað í úrskurði hennar, sé þjóðlenda því staðfest, en jafnframt, og eins og áður sagði, að hluti þess sé í afréttareign stefnenda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. nr. 58, 1998.

Verður stefndi samkvæmt öllu því sem að framan er rakið sýknaður af kröfum stefnenda.

Eftir atvikum þykir rétt að málsaðilar beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar hæstaréttarlögmanns.

Með hliðsjón af hagsmunum og umfangi málsins, en einnig vinnuframlagi, m.a. vegna vettvangsferðar og endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin 650.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar þeirra í dómi.

Í máli þessu hefur málsmeðferð dregist mun lengur en dómari ætlaði og er það miður. Koma þar helst til annir við önnur dómsmál, nokkur fjöldi annarra þjóðlendumála, en einnig aðrar aðstæður.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 650.000 krónur.