• Lykilorð:
  • Eignarréttur
  • Lögbann

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 26. febrúar 2019 í máli nr. K-1/2018:

 

Loðmundur landeigendafélag ehf. o.fl.

(Óskar Sigurðsson lögmaður)

gegn

Tröllaferðum ehf.

(Arnar Þór Sæþórsson lögmaður)

 

Mál þetta barst dóminum 6. september 2018 og var tekið til úrskurðar 4. febrúar 2019 að loknum munnlegum málflutningi.      

Sóknaraðilar eru Loðmundur landeigendafélag ehf., Arcanum ferðaþjónusta ehf., Benedikt Bragason, Andrína Guðrún Erlingsdóttir, Þorsteinn Magnússon, Kristín Þorsteinsdóttir, Hildigunnur Þorsteinsdóttir, Sigrún R. Þorsteinsdóttir, Sigríður Þorsteinsdóttir, Ólafur H. Þorsteinsson, Elín Einarsdóttir, og Þröstur Óskarsson,

Varnaraðili er Tröllaferðir ehf.,

Dómkröfur sóknaraðila eru að ákvörðun sýslumanns frá 31. ágúst 2018 um að synja kröfu um að lögbann verði lagt á samkvæmt lögbannsbeiðni, dags. 7. ágúst 2018, í máli nr. 2018-023956, verði felld úr gildi, og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við kröfur samkvæmt lögbannsbeiðni. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi frá 31. ágúst 2018, í máli nr. 2018-023956, um að hafna kröfum sóknaraðila um lögbann verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

Upphaflega krafðist varnaraðili frávísunar, en með úrskurði dómsins 21. desember 2018 var frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.

 

Málavextir

Allir sóknaraðilar, að frátöldu Loðmundi landeigendafélagi ehf., eru eigendur sameignarlandsins Ytri Sólheima, en sóknaraðilinn Loðmundur landeigendafélag ehf. er landeigendafélag sem hinir sóknaraðilarnir stofnuðu til að sjá um rekstur svæðisins.

Innan hins óskipta lands er Sólheimasandur, en þar er að finna gamalt flugvélarflak, sem ferðamenn skoða iðulega á ferð sinni um landið. Leggja ferðamenn bílum sínum þar á plani sem útbúið hefur verið við Þjóðveg 1 og mun Vegagerðin hafa staðið fyrir því að planið var útbúið. Liggur jafnframt vegur frá bílaplaninu að téðu flugvélarflaki, en Vegagerðin mun jafnframt hafa útbúið veg þennan, en sóknaraðilar hafa bannað það að bílum sé ekið að flakinu. Mun vera um 7 kílómetra leið frá bílaplaninu að flugvélarflakinu.

Varnaraðili rekur ferðaþjónustu og hefur m.a. boðið upp á ferðir þar sem staðnæmst er á téðu bílaplani og farið að flugvélarflakinu. Munu ferðamenn á vegum varnaraðila ýmist hafa farið fótgangandi að flakinu eða á reiðhjólum með óvenju breiðum hjólbörðum, sem sóknaraðilar kveða að kölluð séu „fat bikes“. Ekki ber aðilum saman um hvort varnaraðili hafi haft samráð við sóknaraðila um þetta, en varnaraðili kveður svo vera, en sóknaraðilar kannast ekki við það.

Þá liggur fyrir að einn sóknaraðila, þ.e. Arcanum ferðaþjónusta ehf., starfrækir skipulagðar fjórhjólaferðir m.a. um ofangreindan veg að flugvélarflakinu. Ekki munu vera aðrir ferðaþjónustuaðilar sem bjóða upp á ferðir þarna fyrir ferðamenn.

Sóknaraðilar eru ósáttir við þá starfsemi sem þeir kveða skv. þessu að varnaraðili standi fyrir á landi þeirra og munu hafa farið þess á leit við varnaraðila að hann láti af þessu, en varnaraðili hefur ekki orðið við því og kveðst í fullum rétti.

Lögðu sóknaraðilar fram beiðni hjá Sýslumanninum á Suðurlandi um að hann legði lögbann við athöfnum sóknaraðila, nánar tiltekið að „lögbann verði lagt við því að gerðarþoli, Tröllaferðir ehf., nýti land í eigu gerðarbeiðenda undir skipulagðar reiðhjólaferðir fyrir ferðamenn“. Sýslumaður tók lögbannsbeiðnina fyrir þann 31. ágúst 2018 og synjaði um lögbann með svofelldum röksemdum:

„Þær athafnir sem lögbannsbeiðninni er beint gegn er nýting eignarlands [sóknaraðila] til skipulagðra hjólreiðaferða fyrir ferðamenn. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um náttúruvernd er almenningi heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Í 18. gr. kemur fram að mönnum er heimilt án sérstaks leyfis landeiganda að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum ökutækjum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land. Í 19. gr. kemur svo fram að þegar farið er á reiðhjólum skuli fylgja vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er. Þegar hópferðir eru skipulagðar um eignarlönd skal hafa samráð við landeiganda, sbr. 1. mgr. 24. gr. Í athugasemdum með þeirri grein kemur fram að ferðamenn sem ferðast saman í hóp eigi í grundvallaratriðum sama rétt til að fara um landið og aðrir. Hins vegar er lögð sú almenna kurteisisregla á skipuleggjendur slíkra ferða að hafa samráð við landeiganda. Ekki er gerð krafa um að leitað sé samþykkis landeiganda heldur aðeins að samráð skuli haft við hann. Ekki er í ákvæðinu mælt fyrir um viðurlög við því að samráð sé ekki haft.“

Þá hefur komið fram af hálfu varnaraðila að undir rekstri þessa máls, eða þann 31. október 2018, hafi lokið því tímabili sem ferðamönnum á vegum varnaraðila standi til boða að hjóla í átt að téðu flugvélarflaki. Séu því engin hjól á vegum varnaraðila við umræddan flugvélarflaksafleggjara þegar greinargerð varnaraðila var lögð fram í málinu 13. nóvember 2018. Af framlögðum gögnum af vefsíðu varnaraðila, sem raunar eru á ensku, verður ráðið að ferðir þessar standi til boða frá febrúar og fram í október. Kemur fram að ferðirnar innihaldi „fat bikes“, en í nýrri gögnum, sem lögð voru fram við aðalmeðferð, er ekki getið um „fat bikes“. Af umræddum útprentunum verður ráðið að heimsóknin á Sólheimasand með viðkomu hjá flugvélarflakinu sé hluti af viðameiri ferð þar sem ýmislegt fleira er skoðað. Ekki hefur komið fram hjá varnaraðila hvort varnaraðili muni aftur bjóða upp á slíkar reiðhjólaferðir að flugvélarflakinu, en aðeins komið fram í þinghöldum að ekki hafi verið teknar ákvarðanir um slíkt.

 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að athöfnin brjóti gegn lögvörðum rétti sóknaraðila. Eignarrétturinn sé verndaður í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.

Það sé grundvallarviðhorf í eignarrétti að réttur eiganda feli í sér heimild til hvers konar umráða og ráðstöfunar verðmætis innan þeirra takmarka, sem réttarreglur og réttindi þriðja manns setja. Gildi þetta almennt um eignir manna en einnig um fasteignir sérstaklega. Eigandi fasteignar sé ekki einungis varinn gegn því að aðrir sölsi land hans undir sig eða ráðstafi því að honum forspurðum, heldur einnig gegn því að aðrir færi sér það í nyt. Almennt gildi einnig að eigandi fasteignar geti meinað öðrum för um eða dvöl á fasteign sinni.

Sé því ljóst að almannaréttur rýri ekki með nokkru móti einkarétt landeiganda til hagnýtingar landsins gæða. Það gildi jafnt um hefðbundnar nytjar sem og aðra nýtingarmöguleika s.s. ferðaþjónustu. Ekki sé hægt í krafti almannaréttar að reka atvinnustarfsemi í eignarlandi annarra enda sé þá komið út fyrir þau mörk að notin séu eiganda að meinalausu.

Af því leiði að varnaraðili hafi þurft að leita eftir samþykki sóknaraðila til að reka atvinnustarfsemi sína í eignarlandi þeirra, en óumdeilt sé að það hafi hann ekki gert.

Með lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd hafi löggjafinn innleitt takmarkanir á eignarrétti sem felist í svokölluðum almannarétti. Í IV. kafla laganna sé fjallað um almannarétt. Þar komi fram í 1. mgr. 17. gr. að almenningi sé heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Í 1. mgr. 18. gr. laganna komi fram að mönnum sé heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar.

Í framangreindum lögum séu gerðar ýmsar takmarkanir á almannaréttinum með tilliti til hagsmuna landeigenda. Í ljósi eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar sé ljóst að allar slíkar takmarkanir verði að vera skýrar og ótvíræðar.

Í 6. gr. nefndra laga komi fram að öllum sé skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif sem áhrif hafa á náttúruna skuli gera allt sem með sanngirni megi ætlast til svo komið verði í veg fyrir náttúruspjöll. Í 2. mgr. 17. gr. laganna komi fram að á ferð sinni um landið skuli menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið. Í 1. mgr. 19. gr. laganna komi fram að þegar farið er á reiðhjólum um landið skuli fylgt vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er. Í 24. gr. laganna sé fjallað um skipulegar hópferðir. Þar komi fram í 1. mgr. að þegar skipulagðar eru hópferðir um eignarlönd í byggð eða þar sem ónæði gæti valdið við nytjar skuli hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans.

Síðastgreint ákvæði telja sóknaraðilar að geti ekki veitt varnaraðila heimild til að stunda atvinnurekstur þann sem hér um ræðir í eignarlandi sóknaraðila. Athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 44/1999 breyti engu þar um.

Kveða sóknaraðilar að orðalagið „samráð“ feli í sér að afla þurfi samþykkis landeiganda. Samkvæmt íslenskri samheitaorðabók felist í orðinu samráð að ráðgast við einhvern eða gera eitthvað samkvæmt samkomulagi. Varnaraðili hafi ekki viðhaft slíkt samráð. Þó svo að ekki sé mælt fyrir um viðurlög sé ákvæðið skýrt um þessa skyldu og að óheimilt sé að fara um land í einkaeigu nema þessa sé gætt. Um sé að ræða ófrávíkjanlega skyldu sem sé lögð á varnaraðila á grundvelli laga nr. 60/2013.

Kveða sóknaraðilar að hvað sem öðru líður sé ljóst að varnaraðili hafi ekki virt þessa lagareglu, hvernig svo sem hún verði túlkuð. Jafnvel þó að talið yrði að ekki væri skylt að afla beins samþykkis landeiganda fyrir slíkri atvinnustarfsemi sé þó ljóst að varnaraðili hafi aldrei haft samráð við sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu sé  varnaraðila óheimilt að fara um sameignarlandið.

Sóknaraðilar byggja á því að eðli og umfang skipulagðra ferða varnaraðila, sem lögbannsbeiðnin tekur til, sé með þeim hætti að varnaraðila hafi borið að afla samþykkis landeigenda til viðbótar við að hafa samráð við þá, sem óumdeilt sé að hafi ekki verið gert. Kveða sóknaraðilar að hinar skipulögðu ferðir rúmist ekki innan skilgreinds almannaréttar sem mælt er fyrir um í lögum nr. 60/2013 heldur fari umfram þann rétt sem þar sé tryggður, sbr. 6. og 2. mgr. 17. gr. laganna. Byggt sé á því að ferðirnar séu almennt til þess fallnar að valda truflun og verulegu ónæði og vinna gegn hagsmunum landeigenda, t.d. m.t.t. náttúrunnar á svæðinu, nýtingar landsins og slysahættu vegna annarra gestkomandi á landinu.

Sóknaraðilar benda á í þessu samhengi að ef einn sameigandi sameignarlandsins sem um ræðir myndi upp á sitt eindæmi ákveða að bjóða upp á þær ferðir sem varnaraðili reki um landið bæri honum á grundvelli reglna um sérstaka sameign að afla samþykkis allra sameigenda enda væri um að ræða mikilsháttar og/eða óvenjulegar ráðstafanir. Það leiði til óeðlilegrar niðurstöðu ef almannaréttur veiti á hinn bóginn þriðja manni ríkari rétt til þess að bjóða upp á slíkar ferðir á eignarlandi í annars eigu. Almannaréttur sé ekki takmarkalaus og beri að túlka þröngt í ljósi eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar.

Þá kveða sóknaraðilar að óumdeilt sé að athöfnin sem mál þetta varðar, sé byrjuð. Sóknaraðilar telji sig verða fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til að bíða dóms um réttindi sín, enda ljóst að sú leið geti tekið langan tíma og fjöldi ferðamanna sé mikill og þar með álag á svæðinu með tilheyrandi spjöllum á landinu. Telja sóknaraðilar þannig að þær ferðir sem varnaraðili bjóði uppá valdi ágangi og óafturkræfu tjóni á eignarlandinu. Ljóst sé jafnframt að hefðbundin skaðabótakrafa muni ekki verja hagsmuni sóknaraðila. Almenn úrræði komi hér ekki að haldi, heldur sé þörf á neyðarráðstöfun. Hagsmunir sóknaraðila af því að gerðin fari fram séu stórfellt meiri en hagsmunir varnaraðila að halda áfram að bjóða upp á umræddar ferðir og benda sóknaraðilar á að þeir hafi sett fram tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kunni að baka varnaraðila.

 Sóknaraðilar telja þannig að öll skilyrði fyrir lögbanni samkvæmt lögum nr. 31/1990 séu uppfyllt. Að öðru leyti vísa sóknaraðilar til lögbannsbeiðni og kröfu sóknaraðila til Héraðsdóms Suðurlands um að ákvörðun um að synja um lögbann verði felld úr gildi.

Sóknaraðilar vísa til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 31/1990. Krafa um málskostnað byggir á XXI. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990.

           

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að skilyrði lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt og leiði það til þess að ekki sé unnt að fallast á kröfur sóknaraðila. Málsástæður og lagarök varnaraðila séu ítarlega rakin í bókun varnaraðila, sem lögð hafi verið fram hjá sýslumanni dags. 31. ágúst 2018.

Varnaraðili vísar til þess að í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé kveðið á um að lögbann megi „...leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.“ Af þessu megi sjá að sóknaraðilar þurfi að sýna fram á að öll þrjú skilyrðin sem tiltekin eru í 1. mgr. 24. gr. laganna séu fyrir hendi svo heimilt verði að verða við kröfu þeirra. Varnaraðili telji að sóknaraðilum hafi ekki tekist að sýna fram á eða sanna að neitt þessara skilyrði sé fyrir hendi.

Í fyrsta lagi hafi sóknaraðilar hvorki sannað, né gert sennilegt, að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra. Skilyrði lögbanns skv. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé að sóknaraðilar sanni eða geri sennilegt að tiltekin athöfn varnaraðila brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra.

Kveður varnaraðili að röksemdir sóknaraðila fyrir því að ferðir varnaraðila brjóti í bága við lögvarinn rétt þeirra virðist á því byggðar að með ferðum varnaraðila sé varnaraðili að fénýta land sóknaraðila án heimildar og samráðs við eigendur þess. Þessu kveðst varnaraðili hafna enda sé varnaraðili í fullum rétti á grundvelli almannaréttararákvæða laga nr. 60/2013 um náttúruvernd til frjálsrar farar á umræddu landi. Vísar varnaraðili í því sambandi einnig til rökstuðnings sýslumanns í ákvörðun sinni, dags. 31. ágúst 2018. Varnaraðili telur að höfnun sýslumanns á lögbannsbeiðni sóknaraðila sé lögum samkvæmt og að kröfur sóknaraðila eigi að engu leyti að hagga þeirri niðurstöðu.

Varnaraðili kveður sóknaraðila byggja á því að sá almannaréttur sem tryggður sé í lögum nr. 60/2013 heimili ekki varnaraðila að fénýta umrætt landsvæði og sóknaraðilar virðist byggja á því að varnaraðili sé að fénýta landið á kostnað sóknaraðila með því að greiða ekkert gjald til uppbyggingar aðstöðu/landsins fyrir ferðamenn á svæðinu. Varnaraðili kveðst mótmæla þessu harðlega og bendir á að óheimilar tilraunir sóknaraðila til gjaldtöku þvert á almannaréttarákvæði laga nr. 60/2003 feli ekki í sér að varnaraðili sé að fénýta land sóknaraðila. Sóknaraðilar hafi eigi sýnt fram á hvaða grundvelli slík gjaldtaka sé lögmæt eða heimil. Þá hafi sóknaraðilar með engum hætti sýnt fram á hvaða grundvelli varnaraðili sé að öðru leyti fénýta landið á þeirra kostnað enda liggi fyrir í málinu að sá vegur sem varnaraðili hafi nýtt og stikaður hafi verið og lagður af Vegagerðinni hafi verið kostaður af almannafé en ekki sóknaraðilum. Þá liggi ekkert fyrir um það á hvaða grundvelli sóknaraðilar telji í lögbannsbeiðni að ferðir varnaraðila kunni valda þeim tjóni líkt og haldið sé fram.

Varnaraðili kveður að í öðru lagi byggi sóknaraðilar á því að ákvæði um skipulagðar hópaferðir, sbr. 24. gr. laga nr. 60/2003, kveði á um að þegar slíkar hópaferðir eru skipulagðar skuli hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans. Varnaraðili kveður að sóknaraðilar virðist leggja upp með að sú lagaskylda sé sett á ferðaþjónustuaðila sem bjóði upp á skipulegar ferðir um eignarlönd  að hafa samráð við landeigendur og leita eftir þeirra „samþykki“, sbr. umfjöllun í lögbannsbeiðni. Varnaraðili telur að framangreind málsástæða sóknaraðila sé á misskilningi byggð og bendir á að þó krafist sé samráðs samkvæmt ákvæðinu sé ekki krafist samþykkis landeigenda. Hefði það verið vilji löggjafans að leita samþykkis landeigenda hefði löggjafanum verið í lófa lagið að tilgreina í ákvæðinu að leita þyrfti leyfis landeigenda fyrir skipulögðum hópaferðum líkt og gert sé á nokkrum stöðum í IV. kafla laga nr. 60/2003. Varnaraðili bendir enn fremur á að þau almannaréttarákvæði laga nr. 60/2003 væru til lítils ef landeigandi gæti ávallt bannað för um landið með til að mynda óraunhæfum kröfum um gjaldheimtu. Varnaraðili bendir jafnframt á að samkvæmt frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2003 segi m.a. að ferðamenn sem ferðast saman í hóp eigi í grundvallaratriðum sama rétt til farar um landið og aðrir. Verði því að teljast fyllilega ljóst að ekki sé krafist samþykkis vegna hópaferða um eignarlönd og sé öllum túlkunum sóknaraðila í þá veru mótmælt sem fráleitum.

Þá kveðst varnaraðili einnig byggja á því að þrátt fyrir framangreint sé sérstaklega áskilið í 24. gr. laga nr. 60/2003 að skilyrði um samráð sé háð því að umrædd eignarlönd séu í „byggð eða þar sem ónæði gæti valdið við nytjar“. Hafi löggjafinn talið mikilvægt að takmarka samráðsskylduna við slík eignarlönd. Að mati varnaraðila séu þau skilyrði ekki uppfyllt í þessu tilviki og því ekki þörf á slíkri samráðsskyldu.  

Þá vísar varnaraðili til þess að sóknaraðilar hafi hvorki sannað né gert sennilegt að varnaraðili hafi hafist handa eða muni hefjast handa um athöfn sem brjóti gegn lögvörðum rétti þeirra. Þar sem sóknaraðilum hafi ekki tekist að sanna eða gera sennilegt að fyrsta skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fyrir hendi í máli þessu, þ.e. að tiltekin athöfn varnaraðila brjóti gegn lögvörðum rétti þeirra þá telji varnaraðili að sóknaraðilum hafi heldur ekki tekist að sanna eða gera sennilegt að annað skilyrði ákvæðisins sé fyrir hendi, þ.e. að varnaraðili muni hefjast handa við slíka athöfn.

Sóknaraðilar hafi hvorki sannað né gert sennilegt að réttindi þeirra muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til þess að bíða dóms um þau. Sóknaraðilum hafi hvorki tekist að sanna né gera sennilegt að fyrsta og annað skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fyrir hendi í máli þessu. Varnaraðili telur að sóknaraðilum hafi ekki heldur tekist að sanna eða gera sennilegt að þriðja skilyrði ákvæðisins sé fyrir hendi, þ.e. að réttindi sóknaraðila muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til þess að bíða dóms um þau. Í málatilbúnaði sóknaraðila sé ekki að finna haldbæran rökstuðning fyrir því að réttindi þeirra fari forgörðum eða þeir verði fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til þess að bíða dóms um þau.

Varnaraðili kveðst í því samhengi benda á að fullyrðingar sóknaraðila í lögbannsbeiðni um að þær ferðir sem varnaraðili bjóði upp á valdi ágangi og óafturkræfu tjóni á landi sóknaraðila séu ekki með nokkrum hætti rökstuddar. Bendir varnaraðili jafnframt á að sóknaraðilum væri ávallt heimilt að leita eftir úrskurði Umhverfisstofnunar á grundvelli ákvæða 25. gr. og 25. gr. a. laga nr. 60/2003 ef þeir teldu þörf á að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði ef veruleg hætta kynni að vera á tjóni. Ekki sé því fyrir hendi hætta á að réttindi sóknaraðila muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til að bíða dóms um þau.  

Þá byggir varnaraðili á því að hafna verði kröfum sóknaraðila vegna ákvæðis 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 30/1990 en í ákvæðinu segi að lögbann verði ekki lagt við athöfn „ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega“. Ef atvinnustarfsemi/ferðir varnaraðila á landi sóknaraðila eru óheimilar líkt og haldið sé fram í hinni fyrirliggjandi lögbannsbeiðni, þá sé ljóst að almennar reglur um skaðabætur tryggi hagsmuni sóknaraðila nægjanlega í því sambandi.

Verði ekki fallist á að hafna kröfum sóknaraðila af ofangreindum ástæðum byggir varnaraðili á því að hafna verði öllum kröfum sóknaraðila enda fari þær í bága við frelsi til atvinnu sem varið sé af 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944. Í því sambandi bendir varnaraðili á að á grundvelli almannaréttarákvæða laga nr. 60/2003 eigi ferðamenn sem ferðast saman í hóp í grundvallaratriðum sama rétt til farar um landið og aðrir. Ferðaskipuleggjendur geti því á grundvelli almannaréttar skipulagt hópaferðir í atvinnuskyni á land annarra án þess að af þeim sé krafist að þeir leggi eitthvað að mörkum, t.a.m. til verndar þess svæðis eða til uppbyggingar innviða þar.

Þá mótmælir varnaraðili því að varnaraðili sé að einhverju leyti að fénýta land í eigu sóknaraðila á kostnað þeirra, enda liggi m.a. fyrir í málinu að sá vegur sem varnaraðili hafi nýtt vegna ferða að flugvélaflakinu á Sólheimasandi hafi verið lagður af Vegagerðinni og kostaður af almannafé.

Þá mótmælir varnaraðili því að þær ferðir sem varnaraðili bjóði upp á valdi ágangi og óafturkræfu tjóni á landi sóknaraðila, enda vandséð að umferð gangandi manna og hjólreiðamanna eftir vegi sem lagður hafi verið af Vegagerðinni valdi tjóni á landi þeirra. Í þessu sambandi bendir varnaraðili jafnframt á að einn sóknaraðila starfræki fjórhjólaferðir um sama veg að flugvélaflakinu á Sólheimasandi.

Varnaraðili kveðst hafna því að eðli og umfang ferða varnaraðila sé slíkt að þær þarfnist samþykkis þeirra, enda fjöldi þeirra ferðamanna sem hafi farið hjólandi niður á Sólheimasand verulega takmarkaður. Þá áréttar varnaraðili að ferðamenn sem ferðast saman í hóp eigi í grundvallaratriðum sama rétt til farar um landið og aðrir.

Varnaraðili mótmælir því sem fráleitu að leggja þann skilning í hugtakið „samráð“ sem sóknaraðili geri í kröfu sinni. Liggi það í hlutarins eðli að í samráði felist ekki krafa um samþykki, en jafnhliða bendir varnaraðili á að hann hafi enn fremur ítrekað haft samráð og samtal við sóknaraðila vegna málsins.

Varnaraðili krefst í öllum tilvikum málskostnaðar og byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990.

Um lagarök vísar varnaraðili einkum til ákvæða laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl, aðallega 24. gr. laganna, laga nr. 60/2013 um náttúruvernd,  aðallega IV. kafla laganna, stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, sbr. lög nr. 33/1944, einkum 75. gr.,  auk meginreglna réttarfars um lögvarða hagsmuni sem og ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Forsendur og niðurstaða

Eins og að framan greinir hefur varnaraðili byggt á því að hin umþrætta athöfn sé hvorki byrjuð né yfirvofandi, heldur sé henni lokið og ekkert liggi fyrir um frekari reiðhjólaferðir á vegum varnaraðila að flugvélarflakinu. Fyrir liggur hins vegar að á síðasta tímabili þegar ferðir þessar voru seldar, þá voru umrædd reiðhjól notuð og stóðu til boða. Þrátt fyrir að ekki sé getið um slík reiðhjól núna á vefsíðu varnaraðila, þá hefur lögmaður varnaraðila ítrekað aðspurður ekki getað staðfest að svo verði ekki, en afar einfalt er fyrir varnaraðila að bæta reiðhjólum við í ferðir sínar og lýsingar á þeim. Verður því ekki fallist á að hafna beri lögbanni á þeim forsendum að hin umþrætta athöfn sé hvorki byrjuð né yfirvofandi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Þá  hefur varnaraðili borið fyrir sig rétt almennings til farar um landið, sbr. 1. mgr. 17. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sóknaraðili vísar hins vegar til 1. mgr. 24. gr. sömu laga um það að „þegar skipulagðar eru hópferðir um eignarlönd í byggð eða þar sem ónæði gæti valdið við nytjar skal hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans.“ Hafi varnaraðili ekki sinnt lögboðnu samráði við eigendur landsins og sé honum því óheimilt að skipuleggja slíkar hópferðir og standa fyrir þeim. Að mati dómsins er ekki hægt að fallast á það með sóknaraðilum að svæði þetta sé í byggð, en um er að ræða mikið flæmi af svörtum ógrónum og óræktuðum sandi og er þar engin byggð þó svo að nokkur byggð sé norðan megin við Þjóðveg 1. Verður heldur ekki séð að umræddar ferðir geti valdið ónæði við nytjar, að því virtu sem fram hefur komið um ferðir þessar, jafnvel þó að einn sóknaraðila standi fyrir fjórhjólaferðum á sama svæði. Þá liggur heldur ekki fyrir hvaða réttarverkanir það ætti að hafa jafnvel þó slíkt samráð hafi ekki verið haft, en ekki er unnt að leggja samráðsskyldu að jöfnu við skyldu til að afla samþykkis landeiganda. Verður því að telja að á grundvelli almannaréttar sé heimilt að fara um sandinn eins og lýst hefur verið og getur ekki breytt því að það sé í ferðum sem eru skipulagðar af varnaraðila. Óumdeildur eignarréttur sóknaraðila á umræddu landi getur þannig ekki leitt til þess að varnaraðila sé óheimilt að fara með ferðamenn um landið eins og hann hefur gert á grundvelli almannaréttarins. Er því hvorki sannað, né sennilegt, að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Breytir í þessu samhengi engu að varnaraðili skipuleggi ferðir þessar í atvinnuskyni, en jafnframt geta röksemdir sóknaraðila sem lúta að reglum um sérstaka sameign ekki orðið til þess að fallist verði á kröfuna. Þá liggur ekkert fyrir um að téðar ferðir varnaraðila valdi slysahættu eða óafturkræfu tjóni á landi sóknaraðila.

Verður því að hafna kröfum sóknaraðila í málinu.

Rétt er að sóknaraðilar greiði varnaraðila in solidum kr. 700.000 í málskostnað.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfum sóknaraðila, Loðmundar landeigendafélags ehf., Arcanum ferðaþjónustu ehf., Benedikts Bragasonar, Andrínu Guðrúnar Erlingsdóttur, Þorsteins Magnússonar, Kristínar Þorsteinsdóttur, Hildigunnar Þorsteinsdóttur, Sigrúnar R Þorsteinsdóttur, Sigríðar Þorsteinsdóttur, Ólafs Þorsteinssonar, Elínar Einarsdóttur og Þrastar Óskarssonar er hafnað.

Sóknaraðilar greiði varnaraðila, Tröllaferðum ehf., in solidum kr. 700.000 í málskostnað.

 

                                                                                    Sigurður G. Gíslason.