• Lykilorð:
  • Eignarréttur
  • Þjóðlenda

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 17. desember 2012 í máli

nr. E-72/2010:

 

 

Bragi Steingrímsson og

Smári Steingrímsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Íslenska ríkinu

(Edda Andradóttir hdl.)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 7. desember sl., hafa Bragi Steingrímsson, kt. 000000-0000, og Smári Steingrímsson, kt. 000000-0000, Æsustöðum, Eyjafjarðarsveit, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu birtri 21. janúar 2010.

 

Af hálfu stefnenda eru eftirfarandi dómkröfur gerðar í málinu:

Aðalkrafa.

Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 í máli nr. 1/2008, Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðarár ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal, þess efnis að eignarland jarðarinnar Æsustaða, Æsustaðatungur, sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

„Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem kallað hefur verið Æsustaðatungur, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Núpá er fylgt til suðurs frá þeim stað þar sem Kollhóll liggur við ána, í punkti 5 í kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins. Þaðan er ánni fylgt upp í Sölvadalsá. Síðan er síðastnefndri á fylgt til suðurs þar til komið er að Hrafnabjörgum, eða punkti 2 í kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins.  Þaðan er farið til vesturs í Tungnafjall og kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins fylgt til norðurs með hæstu brúnum Tungnafjalls alveg í Kollhól og þaðan aftur í Núpá.

 

Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra landamerkja Æsustaða, og þar með þess, að allt land Æsustaða á Sölvadal, þ.e. svokallaðar Æsustaðatungur, sé eignarland í samræmi við ofangreind merki, sbr. framlagðan uppdrátt.

Varakrafa.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnenda er þess krafist að viðurkennt verði að stefnendur eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var afréttareign eigenda Æsustaðatungna, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, þó að landið teljist þjóðlenda.

Loks er þess krafist að stefndi greiði stefnendum málskostnað að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, bæði í aðal- og varakröfu, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 15. mars 2010.

 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda.  Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins en til vara að hver aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

 

Stefnendur eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Æsustaða í Eyjafjarðarsveit.

 

I.

1.       Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls.  Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd.  Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri hlutann.  Var það svæði nefnt „vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A)“.  Svæðið var afmarkað nánar þannig: Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar sem hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa.  Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagsmörk Eyjafjarðarsveitar að austan.  Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungskvísl.  Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd.  Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði, þ.e. á sunnanverðu Mið-Norðurlandi, svæði 7A, bárust óbyggðanefnd 14. mars 2008.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum stefnda ásamt uppdrætti í Lögbirtingablaðinu 28. mars 2008, en einnig 30. júní sama ár, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Þá afréð óbyggðanefnd að skipta lýstu kröfusvæði íslenska ríkisins í fimm mál, þ.e. 1-5/2008.

Mál óbyggðanefndar nr. 1/2008 er takmarkað við Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðarár, ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal.  Var það mál fyrst tekið fyrir hjá nefndinni 25. ágúst, en síðan 31. ágúst og loks 1. september 2008, og var þá vettvangur skoðaður, en jafnframt var þá m.a. lögð fram greinargerð og fleiri gögn af hálfu íslenska ríkisins. Málið var enn tekið fyrir hjá nefndinni 16. september, 13. október og 10. nóvember sama ár, en aðalmeðferð fór fram 25. nóvember 2008 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi.  Málsmeðferðin var endurupptekin 5. júní 2009 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju.  Hinn 19. júní 2009 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Æsustaðatungur í Fram-Sölvadal, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að það landsvæði væri í afréttareign eigenda Æsustaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og hér að framan var lýst.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu.

Stefnendur undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt.  Krefjast þeir ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu.

Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna.

Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 6. september 2010.

 

2.       Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 1/2008, er samkvæmt framansögðu m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem nefnt er afréttur lögbýlisins Æsustaða í Eyjafjarðarsveit, en jörðin tilheyrði áður Saurbæjarhreppi.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 142 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi og sveitarmörkum, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins.  Gerð er grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir og svæði, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004, en einnig í nokkrum síðari dómum réttarins.  Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum.

 

3.       Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum gögnum segir frá því að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Sturlubók og Hauksbók Landnámu.  Í Sturlubók segir þannig um landnám Helga magra:

Um várit gekk Helgi upp á Sólarfjöll; (Hámundarstaðafjall) þá sá hann, at svartara var miklu at sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eptir þat bar Helgi á skip sitt allt þat, er hann átti, en Hámundr bjó eptir. Helgi lendir þá við Galtarhamar; (Festarklettur í Kaupangssveit) þar skaut hann á land svínum tveimr, ok hét gölturinn Sölvi. Þau fundusk þremr vetrum síðar í Sölvadal; váru þá saman sjau tigir svína. Helgi kannaði um sumarit herað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness (Gjögurtá) ok gerði eld mikinn við hvern vatsós ok helgaði sér svá allt herað. Hann sat þann vetr at Bíldsá, en um várit færði Helgi bú sitt í Kristsnes.

 

Lýsing Hauksbókar um landnámið í Eyjafirði hljóðar svo:

Þann vetr bjó Helgi at Bíldsá, en um sumarit kannaði hann herað allt ok nam Eyjafjörð allan millim Sigluness ok Reynisness ok gerði eld mikinn við hvern vatsós við sjó ok helgaði sér svá allan fjörðinn nesa millim. Einum vetri síðar (færði Helgi bú sitt) í Kristnes.

 

Samkvæmt Landnámu skipti Helgi magri landi milli ættingja sinna.  Syni sínum Ingjaldi gaf hann land upp frá Þverá hinni ytri fyrir austan Eyjafjarðará til Arnarhvols. Ingjaldur bjó að Þverá hinni efri.  Bróðir Ingjalds, Hrólfur, fékk einnig landsvæði frá föður þeirra.  Var um að ræða lönd austan Eyjafjarðarár upp frá Arnarhvoli.  Bú Hrólfs var að Gnúpufelli.  Á nágrannajörðinni Möðruvöllum, norðan Núpár, bjó fyrstur samkvæmt heimildum Hafliði inn örvi, en hann seldi í elli sinni jörðina Eyjólfi Valgarðssyni.  Synir hans voru Guðmundur ríki á Möðruvöllum og Einar Þveræingur á Munkaþverá (Þverá hinni efri).

Samkvæmt Landnámu nam Þórir snepill Fnjóskadal allan, en meðal afdala hans er Bleiksmýrardalur.

 

4.       Það landsvæði sem hér er til umfjöllunar, Æsustaðatungur, sem tilheyrir Sölvadal, er í austurhluta Eyjafjarðar.

Til austurs nær landsvæði Æsustaðatungna að Sölvadalsá, en handan árinnar er svonefndur Möðruvallaafréttur og nær sá afréttur einnig að suðurmörkum svæðisins.  Til vesturs liggur svæðið að Núpufellsdal/Þormóðsstaðadal og eru mörkin um Tungnafjall.  Til norðurs eru mörk svæðisins við fyrrnefndan Kollhól, sem er skammt sunnan Tungnafjallsháls og ármóta Þormóðsstaðaár, Núpár og Sölvadalsár.

Um Fram-Sölvadal og afdali hans og þar með hið umþrætta landsvæði, Æsustaðatungur, en einnig Möðruvallaafrétt, segir m.a. í úrskurði óbyggðanefndar:

„... Nyrst liggja þrír dalir til suðurs og suðausturs inn til landsins; Sandárdalur nyrstur, þá Hraunárdalur og loks Sölvadalur syðstur ... Landsvæði það sem hér um ræðir liggur í yfir 300 m hæð yfir sjávarmáli og hefur leguna norðvestur-suðaustur.  Liggur svæðið (Æsustaðatungur) í austanverðu Tungnafjalli (1038 m) og rennur Sölvadalsá að austan.  Rís land skarpt til vesturs upp af Sölvadalsá í yfir 1000 m hæ......  Ofan dalanna tekur við víðfeðmt, hallalítið, öldótt og gróðursnautt land í um og yfir 1000 m hæð ...

 

Í úrskurðinum segir að afréttarsvæði Saurbæjarhrepps séu helst í dölum og dalsdrögum fram af byggðinni.  Vikið er að því að austast séu tveir fyrrnefndir aðaldalir, Núpufellsdalur/Þormóðsdalur og Sölvadalur, og smærri afdalir fyrir innan Sölvadal.  Staðhæft er að mesta landrýmið sé í Æsustaðatungum í Sölvadal og í vestari aðaldalnum, þ.e. Þormóðsdal vestan við Þormóðsstaðaá og á (G)Núpufellsdal austan árinnar.  Vikið er að því að göngur í afrétti Saurbæjarhrepps, og þ. á. m. í Sölvadal, séu tiltölulega auðveldar og sé yfirleitt lokið á einum degi.  Næsta dag séu heimalönd smöluð og á lokadeginum sé það fé sem ekki komi til skila á aukaréttum rekið til aðalréttar.

Í framlögðum gögnum, ekki síst þeim er stafa frá Þjóðskjalasafni Íslands, en til þeirra er m.a. vísað í úrskurði óbyggðanefndar, eru að nokkru raktar heimildir um Æsustaði í Eyjafirði og umþrættan afrétt, Æsustaðatungur.

Segir frá því að Æsustaða sé getið í máldagabók Auðuns biskups rauða Þorbergssonar frá 1318 í umfjöllun um Möðruvallakirkju.  Vikið er að því í gögnum að bréfaður hafi verið 16. júlí 1524 vitnisburður tveggja manna, sem sáu á handaband Ólafar Jónsdóttur, eiginkonu Sigurðar Sturlusonar, og Þorvaldar Árnasonar, en með því gaf hann öldungis kvittun um öll þeirra skipti um Æsustaðajörðina og alla aðra peninga eftir Jón Jónsson og Sigríði Árnadóttur, foreldra hennar.  Sagt er frá því að nefndur Þorvaldur Árnason hafi ættleitt Björn son sinn til alls fjár eftir sig, þ. á m. Æsustaði, og að systir Þorvalds og mágur hafi samþykkt gerninginn 8. júní 1529.  Greint er frá því að 26. nóvember 1568 hafi þeir fyrrnefndur Þorvaldur og séra Björn Gíslason átt með sér jarðaskipti og hafi komið í hlut séra Björns öll jörðin Æsustaðir, 100 hundruð að dýrleika með öllum gögnum og gæðum sem jörðinni átti að fylgja til ystu ummerkja annarra manna.

Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá því að samkvæmt heimildum hafi á manntalsþingi að Saurbæ í Eyjafirði þann 15. maí 1782 verið lesin upp óðalslýsing fyrir Æsustaði, ásamt forboði um sölu á sex hundruðum Þorgerðar Jónsdóttur á hennar eignarhlut í jörðinni.  Á sama manntalsþingi þann 26. maí 1788 hafi og verið lesnar upp  lögfestur nokkurra jarða í Eyjafirði, þ. á m. Æsustöðum, en inntaks hafi ekki verið getið.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1812, sem vísað er til í úrskurði óbyggðanefndar, segir um Æsustaði að útigangur sé þar í betra lagi, en þó þurfi roskið fé oftast nokkurn heystyrk og lömb fóður meir en til helminga.  Einnig segir að hestar gangi þar gjafarlaust, en að fjalldraparif sé mjög lítið og varla teljandi.  Um annað haglendi Æsustaða segir í Jarðabókinni:

Úthagarnir eru bæði litlir og hrjóstrugir, og er því helmíngur engisins lagður undir beit, og er því sá heyskapur, sem þar mætti vera, ekki jörðunni áður talinn, hvað nálægir til geta að verða mundi undir kýrþúngi, ef engið væri varið.

Í jarðamati frá 1804 segir frá því að afréttur liggi í landi Æsustaða, sem fjórir bæir nýti sér fyrir lömb.  Hið sama kemur fram í jarðatali Johnsens frá 1847, en þar segir og að jörðin hafi verið metin á 40 forn hundruð.

Í jarðamati frá 1849 er getið um afrétt Æsustaða í Æsustaðatungum í Sölvadal.  Segir að afrétturinn dugi jörðinni rúmlega til heimilisþarfa.

Landamerkjabréf fyrir Æsustaði var útbúið 1890 en bréfinu var þinglýst þann 17. maí 1892.  Heildarmerkjum jarðarinnar er lýst í bréfinu, en auk þess segir eftirfarandi um afrétt hennar:

Sömuleiðis fylgir Æsustöðum afrjettarland það fram af Sölvadal sem Aðaltungur nefnast, eða Æsustaðatungur öðru nafni og eru merkjatakmörk þessi: Að norðan Kollhóll, sem er lítið eitt fyrir framan Þormóðsstaðaá, þar sem hún fellur í Sölvadalsá, að sunnan eru klettar þeir, sem Hrafnabjörg nefnast, merkjatakmörk og eru þeir nokkru framar en í miðjum dalnum.

Eggert Laxdal skrifaði undir landamerkjabréfið í umboði B. Kristjánssonar prófasts.  Bréfið er samþykkt af Páli Pálssyni vegna Æsustaðagerðis, Jóni Jóhannssyni vegna Hrísa, Davíð Ketilssyni og Sigfúsi P. Thorlacius vegna Núpufells, Jóhannesi Ólafssyni vegna Möðruvalla, Randveri Bjarnasyni og Þ. Thorlacius vegna Arnarstaða og Helgu Jóhannesdóttur, Pálma Jónssyni og Vilborgu Pétursdóttur vegna Æsustaða.

Í fasteignamati 1916-1918 um Æsustaði segir að jörðinni fylgi afrétturinn Æsustaðatungur, en tekið er fram að hann gefi litlar tekjur af sér.

Samkvæmt gögnum var þinglýst yfirlýsing, dagsett 5. júní 1916, sem undirrituð er af Níelsi Sigurðssyni og Þórði Daníelssyni, en þar segir:

Við undirritaðir bönnum hér með öllum upprekstur í afréttarlönd okkar Æsustaðatungur og Núpufellsdal.  Sömuleiðis bönnum við alla vetrarbeit fyrir fé og hesta í þessum afréttum.

 

Í sýslufundargerð frá árinu 1894 segir frá skrá yfir afrétti og fjárréttir „fram- Eyjafjarðar“.  Er þar m.a. getið um afrétti á Melrakkadal, Munkaþverártungum frá Þverá fram til jökuls ásamt Þverárdal sunnan árinnar, á Mjaðmárdal, á Sandárdal frá Heimastaflóa, svo og á Sölvadal og Hraunárdal, í Hraunártungum og Æsustaðatungum, en einnig á Núpufellsdal og Þormóðsdal frá Langhólum, í Tjarnardal frá Glerá og í Hóladal.

Samkvæmt gögnum sendi Stjórnarráð Íslands öllum sýslumönnum landsins bréf þann 29. desember 1919, þar sem lagt var fyrir þá, vegna þingsályktunar um rétt ríkisins til vatnsorku í „almenningum“ frá 27. september s.á., að skila skýrslu við fyrsta tækifæri um svæði í sýslum þeirra sem teldust vera „almenningar“ og um „afréttarlönd“ sem ekki sannanlega hefðu tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli.  Í svarbréfi Júlíusar Havsteen, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, sem dagsett er 27. september 1920, segir m.a. að hann hafi aflað umsagna hreppstjóra og borið svör þeirra saman við landamerkjabók sýslunnar.  Verður ráðið að til grundvallar svarbréfi sýslumanns hafi m.a. verið bréf Benedikts Einarssonar, hreppstjóra Saurbæjarhrepps, sem dagsett er 8. mars 1920, en þar segir m.a.: „[...] allir afrjettir hjer í hreppi eru einstakra manna eign, en almenningar eru hjer engir.

Í Sýslu- og sóknarlýsingum Eyjafjarðarsýslu frá 1972 segir að afréttir í Möðruvallasókn séu Sölvadalurinn fram frá Ánastöðum og Þormóðsstaðadalur fram frá Þormóðsstöðum.  Þá segir að auk nefndra afrétta séu afréttir í Núpufellsdal og Æsustaðatungur, en það sagt að þeir tilheyri bæjum þeim sem heita sömu nöfnum.

Í sveitarlýsingu Saurbæjarhrepps í ritinu „Byggðir Eyjafjarðar“ frá 1973 er m.a. vikið að afréttarsvæðum hreppsins.  Er í því viðfangi greint frá dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 128/1967, sem nefndur hefur verið Nýjabæjardómur, og sagt að deiluaðilum hafi hvorugum verið dæmdur eignarrétturinn að hálendissvæðinu suður af Eyjafjarðardölum, en af þessu er eftirfarandi ályktun dregin:

Afréttir Saurbæjarhrepps eru því aðeins í óbyggðum dölum, hvergi um langleiðir að ræða, og víðast er réttað samdægurs.  Bestu afréttirnir eru þar sem jarðir hafa farið í eyði við afréttarmörkin, svo sem í Sölvadal og Djúpadal.

 

Í bréfi sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, dagsettu 1. ágúst 1979, sem ritað var vegna fyrirspurnar um afrétti í sýslunni, segir um afréttarlönd í Saurbæjarhreppi:

Afréttir í Sölvadal: 1. Bjarkarland að merkjagirðingu milli Stekkjarflata og eyðibýlisins Bjarkar. Heyrir undir Möðruvelli. 2. Finnastaðaland með Illagilsdal að norðan. Eigendur: Ábúendur allra jarða í Möðruvallaplássi, ásamt eigendum Akurs-Rútsstaða í Öngulstaðahreppi. 3. Kerhólsland með Illagilsdal að sunnan. Að hálfu eigendur Eyvindarst. í Sölvadal, og að hálfu eigendur Rútsstaða –Akurs í Öngulstaðahr. 4. Ánastaðaland með Sandárdal að norðan. Eigendur: Jón Kristjánsson Fellshlíð, Grétar Rósantsson Kálfagerði, Hreinn Kristjánsson Hríshóli. 5. Sandárdalur að sunnan Hraunárdalur og Hraunártungur að Hrafnabjörgum vestan Sölvadalsár.  Heyrir undir Möðruvelli. 6.  Æsustaðatungur frá Hrafnabjörgum að Kollhól.  Heyrir undir Æsustaði. 7. Gnúpufellsdalur:  Frá Kollhól við Sölvadalsá, yfir hálsinn að Þormóðsstaðaá og sá dalur austanverður til botns. 8.  Þormóðsstaðadalur: Dalurinn vestan ár frá botni að Langhól sunnan við Þormóðsstaðasel.  Heyrir undir Þormóðsstaði.

 

Vegna fyrirspurnar félagsmálaráðuneytisins frá 20. febrúar 1989 til sveitarstjórna, m.a. um fjallskil, afrétti og eignarrétt jarða, liggur fyrir bréf hreppsnefndar Saurbæjarhrepps, dagsett 8. janúar 1990.  Segir þar m.a.:  „[...] Hér eru engin afréttarlönd önnur en fjallshlíðarnar ofan við girt heimalönd og dalskorur sem ganga inn í hálendið út frá byggðum dölum.  Öll þessi afréttarlönd eru í einkaeigu og er annað ekki til. [...]

 

5.       Í úrskurði óbyggðanefndar segir að heimildir bendi ekki til annars en að samfelld búseta hafi verið á Æsustöðum frá því jarðarinnar var fyrst getið.  Er bent á að í afsals- og veðmálabókum komi fram að eftir gerð áðurgreinds landamerkjabréfs hafi jörðin framselst með hefðbundnum hætti og verið veðsett.

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar er að nokkru vísað til framangreindra gagna, að því er varðar sögu, afmörkun, ráðstöfun að eignarrétti og nýtingu á hinu umþrætta afréttarsvæði í Sölvadal í Fram-Eyjafirði.  Er á það bent að af heimildum, sem nái allt aftur til 14. aldar, megi ráða að Æsustaðir hafi verið sjálfstæð jörð.

Í úrskurðinum segir að afréttar Æsustaða, Æsustaðatungna, sé fyrst getið í jarðamati frá 1849.  Bent er á að í lögfestu nágrannajarðarinnar Möðruvalla frá 1739 séu lögfestar „Túngurnar fyrer vestann ána í Sølvadal“ og er ályktað að líklega sé þarna átt við það svæði sem nú sé kallað Æsustaðatungur.  Bent er á að Æsustaðir liggi fyrir utan ágreiningssvæði það sem úrskurðurinn taki til og að jörðin sé aðskilin frá afréttarlandinu af öðrum jörðum.  Þá er bent á að í landamerkjabréfi Æsustaða frá 1890 sé annars vegar lýst merkjum heimalandsins og hins vegar merkjum afréttarlands fram af Sölvadal sem Aðaltungur nefnast eða Æsustaðatungur …“.

Í úrskurðinum er ályktað að af framangreindum heimildum megi ráða að umþrætt landsvæði hafi haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands, sem almennt hafi verið miðað við fram að gildistöku þjóðlendulaga.  En  hvort í því hafi falist bein eða óbein eignarréttindi til landsvæðisins, þ.e. hvort það sé eignarland eða þjóðlenda samkvæmt skilgreiningum í 1. gr. þjóðlendulaga, sé hins vegar atriði sem þarfnist nánari athugunar.

Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir að engar eldri merkjalýsingar séu til fyrir Æsustaðatungur og verði því að líta til gagna um merki aðliggjandi landsvæða og þá með hliðsjón af landamerkjalýsingu fyrir jörðina Æsustaði um merki Æsustaðatungna.  Í þessu sambandi er bent á landamerkjabréf Núpufells frá 1892 þar sem merkjum Núpufells sé lýst til austurs „á fjall upp“.  Bent er á að bréfið hafi verið áritað vegna Æsustaða og að merkin geti samrýmst takmörkuðum lýsingum á vesturmerkjum í landamerkjabréfi Æsustaða fyrir umræddu landsvæði.  Þá er bent á að í landamerkjabréfi Möðruvalla frá 1886 sé merkjum „afréttarlands“ Möðruvalla til vesturs gagnvart kröfusvæði Æsustaðatungna lýst þannig að afréttarlandið sé Sölvadalur allur að austan … Hraunárdalur allur „báðu megin og þaðan suður á fjall, að svo nefndu „LaugafelliBent er á að bréfið sé áritað vegna Æsustaða og enn fremur að margar eldri heimildir um afrétt Möðruvalla séu í  samræmi við greinda lýsingu að öðru leyti en því að merkin nái ekki suður að Laugafelli.  Bent er á að merkjum Æsustaðatungna sé ekki lýst nákvæmlega til austurs, en umrædd lýsing mæli þeim ekki í mót.  Þá segir að merki Ánastaða liggi að litlum hluta að kröfusvæði stefnenda í Æsustaðatungum til austurs, sbr. landamerkjabréf jarðarinnar frá 1887 og að þau geti því samræmst lýsingu Æsustaðatungna, en milli svæðanna liggi Sölvadalsá.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar í ljósi ofangreinds að umþrætt landsvæði falli innan lýsingar á Æsustaðatungum í landamerkjabréfi Æsustaða, svo langt sem lýsingin nái, sé tekið mið af staðháttum og lýsingum á aðliggjandi landsvæðum.

 

Í úrskurði sínum gerir óbyggðanefnd grein fyrir forsendum að niðurstöðu um eignarhald á hinu umþrætta landsvæði, Æsustaðatungum.  Vísar nefndin m.a. til þýðingar landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi, og bendir í því sambandi á umfjöllun Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004, en einnig til „Almennra niðurstaðna“ nefndarinnar, sem birtar séu í viðauka með úrskurðinum.  Að þessu sögðu bendir nefndin á að landamerkjabréf fyrir Æsustaði hafi verið gert í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882, en að í bréfinu sé lýst aðskildu landsvæði, sem kallað sé „afréttarland“ jarðarinnar. Lætur nefndin það álit í ljós að þrátt fyrir að landamerkjabréfið hafi verið þinglesið og innfært í landamerkjabók sýslumanns, séu mörk afréttarlandsins til vesturs og austurs harla óljós.

Óbyggðanefnd gerir nánari grein fyrir niðurstöðu sinni í niðurstöðukafla og vísar m.a. til þeirra heimilda sem hér að framan hafa verið raktar, en vekur einnig athygli á síðari tíma heimildum og segir:

Í sýslu- og sóknalýsingum Eyjafjarðarsýslu, sem eru frá árinu 1840, segir:  „Afréttir í Möðruvallasókn eru Sölvadalurinn fram frá Ánastöðum [...] þar að auki Núpufellsdalur og Æsustaðatungur, liggja undir bæi þá í sókninni er þeir nefnast eftir.“

Í ritinu Göngur og réttir, IV. bindi, er fjallað um afrétti Fram-Eyfirðinga en þar kemur fram að afréttarsvæði séu „... aðallega dalir og daladrög fram af byggðinni. [...]  Mest er landrými í Æsustaðatungum og í Gnúpufells og Þormóðsstaðadal...“.

Samkvæmt jarðamatinu 1849 segir að afrétt Æsustaða í Æsustaðatungum fram af Sölvadal dugi jörðinni til heimilisþarfa. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 segir um Möðruvelli að staðurinn eigi „Afrjettarland [...] framm úr Sölvadal, sem heitir Sölvadalstúngur.

Að þessu sögðu er það niðurstaða óbyggðanefndar að líklegt sé að á 18. og 19. öldinni hafi Æsustaðatungur verið nefndar Sölvadalstungur.

 

Í niðurstöðukaflanum gerir óbyggðanefnd nánari grein fyrir forsendum og röksemdum sínum með svofelldum hætti:

Af heimildum má ráða að Æsustaðatungur hafa fyrst legið undir Möðruvelli en síðar undir Æsustaði en landfræðilega aðskildar frá jörðinni og afmarkað sérstaklega í landamerkjabréfi Æsustaða, þar sem það er nefnt „afrjettarland“.  Þess er jafnan getið í tengslum við afréttarnot, sbr. framangreindar heimildir.  Ekkert bendir til að þar hafi verið byggð og engin gögn liggja fyrir um önnur not en sumarbeit.  Svæðið er að stórum hluta hálent og inn á það hefur búfénaður leitað án hindrana.

Óbyggðanefnd telur framangreint benda til þess að Æsustaðatungur hafi verið afréttur Æsustaða í þeim skilningi að jörðin hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.

Því er ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands numið var á þessu svæði,....., en sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar sé a.m.k. að hluta innan þess.  Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til.  Þannig kann beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfarið tekið til takmarkaðra nota annarra.  Í því sambandi ber að líta til þess sönnunarmats sem lagt hefur verið til grundvallar um afrétti einstakra jarða og/eða stofnana og styðst við fjölda dóma í sambærilegum málum ...

Ekkert liggur fyrir um hvernig eigendur Æsustaða eru komnir að rétti sínum til þessa landsvæðis.  Í máli þessu er ekki sýnt fram á annað en að réttur til umrædds afréttarsvæðis hafi orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar.  Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.

Að öllu framangreindu virtu hefur, af hálfu eiganda Æsustaða, ekki verið sýnt fram á að Æsustaðatungur séu eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.  Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda.  Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að umrætt landsvæði sé í afréttareign eigenda Æsustaða.

Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hefur verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign eru misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taka þó breytingum, auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld.  Land það sem hér er til umfjöllunar verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem kallað hefur verið Æsustaðatungur, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. ....Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Æsustaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

 

II.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Aðalkröfu sína byggja stefnendur á því að umrætt landsvæði, Æsustaðatungur, eins og því er lýst hér að framan, sé háð eignarrétti/eða sé eign þeirra, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62, 1994.  Stefnendur styðja aðalkröfu sína enn fremur þeim rökum sem hér á eftir verða tíunduð.

Stefnendur byggja á því að það landsvæði sem afmarkað er í aðalkröfu þeirra hafi frá öndverðu verið numið og hafi sá eignarréttur ekki fallið niður síðan og því sé hið umdeilda land háð eignarrétti þeirra.  Þessu til stuðnings vísa stefnendur til Landnámu, er lýsi m.a. landnámi Helga magra í Eyjafirði svo og búsetu afkomanda hans, Ingjalds, í Gnúpufelli.  Er á því byggt að af þessu megi ráða að Sölvadalur, og þar með Æsustaðatungur, hafi verið numinn í öndverðu.  Benda stefnendur á að oft hafi Landnáma verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands, í máli frá 1960, bls. 726, og í máli frá 1994, bls. 2228.  Þessu til stuðnings vísa stefnendur einnig til umfjöllunar óbyggðanefndar í Almennum niðurstöðum í fyrri úrskurðum hennar.

Stefnendur byggja á þeirri meginreglu íslensks eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og að sá er haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.  Halda stefnendur því fram og árétta að umrætt landsvæði hafi allt frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti, enda fari landnámsheimildir í Eyjafirði ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar.  Stefnendur benda einnig á að við landnám hafi landið verið betur gróið og náð lengra inn á heiðar en nú sé.

Stefnendur vísa til þess að landamerkjabréf fyrir jörðina Æsustaði hafi verið gert 21. janúar 1890 og hafi það verið undirritað og samþykkt af réttbærum aðilum.  Bréfinu hafi verið þinglýst 17. maí 1892 og fært í landamerkjabók án athugasemda og hafi það ráðið merkjum síðan.  Benda stefnendur á að við setningu landamerkjalaganna nr. 5, 1882 og síðan laga nr. 41, 1919 hafi það verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna og þau skráð og að leyst yrði úr ágreiningi um merki ef slíkt væri fyrir hendi.

Stefnendur byggja á því að landamerkjabréf Æsustaða hafi stoð í eldri heimildum, en um það vísa þeir til þess sem rakið var hér að framan úr úrskurði óbyggðanefndar.  Að því leyti benda stefnendur sérstaklega á efni þinglýstra landamerkjabréfa aðliggjandi jarða, en einnig á jarðamöt, fasteignamöt og fleiri gögn.  Vísa stefnendur m.a. til þess að í fasteignamati 1916-1918 sé tekið fram að Æsustöðum fylgi afrétturinn Æsustaðatungur.  Vekja stefnendur einnig athygli á því og byggja á að um svipað leyti hafi landeigendur Æsustaða og nágrannajarðarinnar Gnúpufells lagt bann við nýtingu annarra á afrétti jarðanna.  Telja stefnendur að fyrrgreindar heimildir fari eigi gegn landamerkjabréfi Æsustaðajarðarinnar og vísa þar um til þeirra sjónarmiða sem fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004.  Þar hafi það verið talið skipta máli hvort land teldist innan upphaflegs landnáms og hvort að með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 47/2007.

Stefnendur byggja á því að þeir hafi farið með ráðstöfun á öllum þeim heimildum/réttindum sem fylgja þeirri eign sem umrætt landsvæði er, en þar á meðal sé beitar- og slægjuréttur.  Á landsvæðinu hafi verið beitarhús og hafi eigendur enn fremur haft af því önnur afréttarnot eins og lýst sé í úrskurði óbyggðanefndar.  Þá hafi landeigendur greitt skatta og önnur lögboðin gjöld af öllu landi jarðarinnar.

Stefnendur benda á að eignarréttur þeirra á landsvæðinu hafi verið virtur af öllum frá ómunatíð, þar á meðal af stefnda, sem m.a. hafi lýst sér í því að þeir hafi getað bannað öðrum not eignarinnar.  Eignarréttur stefnenda hafi auk þess verið virtur í öllum viðskiptum, en af þeim sökum sé eignarhald þeirra einnig byggt á viðskiptavenju.

Stefnendur byggja á því að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt landsvæði sé undirorpið eignarrétti í skilningi fyrrnefndrar 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, en fullur hefðartími sé liðinn frá því þeir tóku að nytja landið.  Árétta stefnendur að öll afnot og nytjar landsins séu háðar leyfi þeirra sem landeigenda, enda hafi enginn notað landið með nokkrum hætti nema eigendur þess.

Stefnendur benda á að sjónarmið óbyggðanefndar þess efnis að flokka beri hefð með lögum sem frumstofn eignarréttar hafi ekki verið hnekkt af Hæstarétti.  Þannig hafi verið viðurkennt að hefðarlög heimili eignarhefð lands, sem sé í opinberri eigu, og þeim mun fremur hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé eignarrétti háð.  Um þetta vísa stefnendur til rita fræðimanna svo og dóma Hæstaréttar, m.a. frá árinu 1997, bls. 2792, og frá árinu 1999, bls. 28, en þar hafi eignarhefð verið viðurkennd.  Enn fremur vísa stefnendur til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) frá 9. desember 1994, series A 301 – A, og loks rita fræðimanna um venjurétt.  Árétta stefnendur að eigendur Æsustaða hafi nýtt öll réttindi hins umþrætta landsvæðis öldum saman.

Stefnendur benda á að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign/eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstóli Evrópu.  Vísa þeir til þess að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmálann hafi verið túlkað af dómstólum á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu.  Með sjálfstæðri merkingu sé átt við að til komi mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar nefndrar 1. gr. og þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis sem í hlut eigi.  Skortur á slíkri vernd í landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum um hvort um eign sé að ræða í skilningi nefndrar 1. gr.  Benda stefnendur á að um eign í skilningi ákvæðisins geti verið að ræða þótt dómstólar aðildarríkis hafi ekki talið svo vera samkvæmt innanlandsrétti.

Stefnendur byggja á lögmætum væntingum, en þar um vísa þeir til þeirra sjónarmiða sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafi lagt til grundvallar í sambærilegum málum.  Benda þeir á að dómstóllinn hafi þannig lagt til grundvallar að væntingar einstaklinga eða lögaðila til að njóta eigna sinna séu verndaðar af 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við MSE ef þær séu byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi (legal act), sem tengdur séu við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll.

Stefnendur benda á að verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem þeir hafi teflt fram í málinu séu fullnægjandi, sé verið að mismuna eigendum jarða með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi.  Slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar að áliti stefnenda.  Í því sambandi benda stefnendur sérstaklega á, í stefnu og við flutning, að sambærilegt land, með sambærilegri nýtingu og í Sölvadal, þ.e. Núpufellsdalur og Þormóðsdalur, hafi samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar verið talið eignarland tilheyrandi jörðunum Gnúpufelli og Þormóðsstöðum.  Byggja stefnendur jafnframt á því að þrátt fyrir að gögn um óslitið eignarhald Æsustaðatungna frá landnámi séu glötuð eða fyrirfinnist ekki sé ótækt að álykta að eignarhaldið hafi fallið niður.  Í þessu samhengi var af hálfu stefnenda við flutning málsins enn fremur vísað til dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. 19/2010 um eignarétt landeiganda Möðruvalla á fyrrnefndum Möðruvallaafrétti í Fram-Sölvadal.

Í ljósi alls framangreinds byggja stefnendur á því að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum ranglega metið sönnunargögn málsins og ekki beitt lögum um réttarágreining með réttum hætti.  Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.

Stefnendur byggja á því að þeir hafi sannað beinan eignarétt sinn að umræddu landi, en íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að það hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrá eignast landið. Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.

 

Stefnendur gera í málarekstri sínum, og þ. á m. í málflutningi, ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar og þar með röksemdir stefnda.  Falla þær í meginatriðum saman við áðurraktar málsástæður og lagarök þeirra.  Stefnendur árétta m.a. að það sé almenn lagaregla á Íslandi, að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar og að frá þeirri reglu verði ekki vikið nema að sá sem véfengir réttmæti slíkra heimilda sýni fram á betri rétt sinn eða annarra eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um eignarréttinn.  Telja stefnendur að sú ríka sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á þá, m.a. með því að krefjast sannana um framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi, standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar né heldur Mannréttindasáttmála Evrópu.  Þessu til viðbótar telja stefnendur að málatilbúnaður stefnda sé í andstöðu við tilgang löggjafans við setningu umræddra laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sbr. að því leyti ákvæði 1. gr. laganna.

Stefnendur benda á og árétta að í áðurnefndum almennum niðurstöðum í úrskurði óbyggðanefndar sé umfjöllun um hefð og þýðingu hennar við úrlausn þjóðlendumála.  Sé að því vikið að hefð sé eitt dæmi um frumstofnun eignarréttar, en við mat á því álitaefni sé m.a. horft til þess hvort land sé innan eða utan landamerkja jarðar og að gildistaka hefðarlaga 1905 skipti máli og hljóti að styrkja eignartilkall í slíkum tilvikum.  Af hálfu stefnenda er tekið undir þessi sjónarmið og byggja þeir á að ekki verði séð hvers vegna þau eigi ekki við um Æsustaðatungur þar sem þær séu innan þinglýstra landamerkja og háðar einkanýtingarrétti þeirra sem landeigenda.  Stefnendur benda enn fremur á að engin skylda hafi hvílt á eigendum jarða að hafa gerninga um ráðstöfun landsvæðis skriflega þrátt fyrir að slíkt tíðkist yfirleitt í dag.  Stefnendur árétta að engar athugasemdir hafi verið gerðar af eigendum aðliggjandi jarða sem bendi til þess að enginn ágreiningur hafi verið um eignarhaldið á Æsustaðatungum.  Af þessum sökum andmæla stefnendur áðurröktum niðurstöðum óbyggðanefndar, sem byggðar séu á því að ekki hafi verið færðar nægilegar heimildir um hvernig eigendur Æsustaða séu komnir að rétti sínum til hins umþrætta landsvæðis í Æsustaðatungum.  Árétta stefnendur að landsvæðið hafi ekki eingöngu verið nýtt til beitar líkt og tíðkast hafi um afrétti.  Landsvæðið hafi þannig verið nýtt til slægna líkt og önnur tún jarðarinnar, en að auki hafi þar verið reist fjárhús.  Sé því ljóst að svæðið hafi frekar talist til heimalands Æsustaða en afréttar.

Árétta stefnendur að þrátt fyrir að gögn um óslitið eignarhald hins umþrætta landsvæðis frá landnámi séu glötuð eða fyrirfinnist ekki sé ótækt að álykta að eignarhaldið hafi fallið niður.  Benda stefnendur á að Hæstiréttur Íslands hafi í öðru samhengi orðað þá reglu, að mannréttindi sem verndar njóta verði ekki skert nema fyrir því sé skýr regla í settum lögum og að slíkt samræmist ákvæðum stjórnarskrár.  Slíkt ákvæði sé ekki að finna í þjóðlendulögum, enda komi ekkert fram við meðferð frumvarps til þjóðlendulaga á Alþingi, sem bendi til að stefnt hafi verið að því að svipta landeigendur eignarrétti sínum.

Byggja stefnendur á því að úrskurður óbyggðanefndar í máli þessu sé brot á vernduðum rétti þeirra samkvæmt 1. gr. samningsviðauka nr. 1, sbr. 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefnendur byggja varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og fram koma í aðalkröfu þeirra.

Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr., meginreglna stjórnsýsluréttar um málsmeðferð, laga um þjóðlendur og ákvörðun marka  eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58, 1998, laga um hefð nr. 46, 1905, laga um afréttarmál og fjallskil nr. 6, 1986, laga um Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62, 1994, sáttmálann sjálfan og viðauka og sérstaklega til 1. gr. samningsviðauka nr. 1.  Enn fremur vísa stefnendur til stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, en einnig til laga nr. 57, 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörð.  Stefnendur vísa einnig til meginreglna eignarréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar, reglna um ítaksrétt og stofnun ítaks svo og almennra reglna um venjurétt og meginreglna um traustfang, traustnám og tómlæti og loks til þinglýsingalaga.  Um varnarþing og málskostnað vísa þeir til 3. mgr. 42. gr. og IV. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður stefnda.

Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er einkum á því byggt að Æsustaðatungur séu svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.

Stefndi bendir á að úrskurður óbyggðanefndar sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni.  Gerir stefndi niðurstöðu nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfunni, þ.e. að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hafi landsvæðið talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.  Af hálfu stefnda er um röksemdir að þessu leyti einnig vísað til úrskurðarins, þ. á m. um fjallskil, og á því byggt að umþrætt svæði sé land utan eignarlanda.

Af hálfu stefnda er til þess vísað að af heimildum megi ráð að Æsustaðatungna sé fyrst getið í jarðamati frá 1849, en þar segi að afrétt Æsustaða í Æsustaðatungum fram af Sölvadal dugi jörðinni til heimilisþarfa.

Stefndi bendir á að í landamerkjabréfi Æsustaða frá 21. janúar 1890 sé lýst tvískiptingu lands.  Annars vegar sé lýst merkjum jarðarinnar og hins vegar merkjum á sérstöku afréttarsvæði „sem Aðaltungur nefnast eða Æsustaðatungur öðru nafni“.  Stefndi byggir á því að þessi aðgreining landsins bendi ótvírætt til þess að hið umþrætta landsvæði hafi verið afréttarsvæði, utan eignarlanda.

Stefndi bendir á að af heimildum megi ráð að Æsustaðatungur hafi fyrst legið undir Möðruvelli en síðan hafi landsvæðið farið undir Æsustaði.  Ekkert liggi hins vegar fyrir um hvernig eigendur Æsustaða séu komnir að rétti sínum til landsvæðisins, en það sé landfræðilega aðskilið frá jörðunum tveimur.  Bendir stefndi á að almennt hafi verið litið svo á af hálfu dómstóla, að þegar svo hátti til þá bendi það ótvírætt til þess, að um sé að ræða svæði utan eignarlanda.

Á því er byggt af hálfu stefnda að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir landsvæði beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sé sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland.  Vísar stefndi til þess að þrátt fyrir að landamerkjabréfi sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi og með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 (Úthlíð).

Stefndi bendir á að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi, eða annað landsvæði.  Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig önnur svæði, svo sem afréttarsvæði, sem ekki tengjast sérstaklega tiltekinni jörð.  Bendir stefndi á að almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, en þó með hliðsjón af eldri heimildum, enda verði við slíkt mat að meta gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega. Bendir stefndi á að þinglýsing heimildarskjals fyrir svæði feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins, að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.

Stefndi bendir á að heimildir bendi ekki til þess að á hinu umþrætta landsvæði, Æsustaðatungum, hafi nokkru sinni verið búið.

Byggir stefndi á því að framangreind atriði bendi ótvírætt til þess, að hið umþrætta landsvæði hafi eingöngu verið nýtt til sumarbeitar fyrir búfé og teljist því landsvæði utan eignarlanda jarða.

Stefndi bendir á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði.  Er á því byggt að það verði að teljast ólíklegt að land á þessu landsvæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið sé hálent, en um sé að ræða öræfalandsvæði, langt frá byggðum bólum. Bendir stefndi á að landsvæðið liggi í yfir 300 m hæð yfir sjávarmáli og hafi leguna norðvestur-suðaustur.  Að austan renni Sölvadalsá, en landið rísi skarpt til vesturs í Tungnafjalli (1038 m).

 

Bendir stefndi á að samkvæmt dómafordæmum teljist heimildarskortur hvað ofangreind atriði varðar leiða til þess að álitið sé ósannað að heiðarlönd og öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu.  Sé það í samræmi við þá reglu, sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið sé ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefndan dóm nr. 48/2004 (Úthlíð).  Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem heldur slíku fram.

Stefndi segir að af heimildum verði ekki annað ráðið en að Æsustaðatungur hafi eingöngu verið nýttar með afar takmörkuðum hætti, en landsvæðið sé umlukið eigendalausum svæðum á allar hliðar.  Verði og ekki annað séð, en að rétturinn til svæðisins hafi upphaflega orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarra takmarkaðra nota.

Stefndi byggir á því að verði talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu hafi það ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Um þetta atriði bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Stefndi byggir á því, að verði talið að landsvæðið kunni að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti að hluta eða öllu leyti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið var tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hefði stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

Að öllu framangreindu virtu er á því byggt af hálfu stefnda að þrátt fyrir að hið umþrætta landsvæði kunni, eftir atvikum, að hafa talist tilheyra jörðinni Æsustöðum, hafi í þeirri tilheyrslu ekki falist annað og meira en tilheyrsla á afnotaréttindum, eftir atvikum fullkominni afréttareign, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58,1998.  Beri til þess að horfa að landsvæðið sé ekki girt og að þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum án hindrana.  Þá vísar stefndi til þess að samkvæmt framanröktu bendi eldri heimildir til þess að jörðin Æsustaðir, og eftir atvikum áður Möðruvellir, hafi átt afrétt á hinu umdeilda svæði en ekki beinan eignarrétt.  Um þetta vísar stefndi til orðalags landamerkjabréfs Æsustaða frá 1890, en einnig til jarðamata jarðarinnar frá 1804 og 1849, svo og jarðatals Johnsens og fasteignamatsins frá 1916-18.  Telur stefndi að þessar heimildir séu í samræmi við yngri heimildir er lýsi upprekstri og afréttarnotum á svæðinu, sbr. áðurrakið bréf sýslumanns Eyfirðinga frá árinu 1979.

Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, og vísar til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda.  Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 103/1953 (Landmannaafréttur), nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm réttarins nr. 48/2004.

Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli þeirra á umræddu landsvæði.  Bendir stefndi á að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Áréttar stefndi að ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

 

Stefndi andmælir varakröfu stefnenda með sömu rökum og hér að framan hefur verið lýst.  Þá andmælir stefndi því sérstaklega að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignarréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvorki að hluta til né að öllu leyti.  Vísar stefndi í því sambandi m.a. til gildandi laga nr. 57, 1998 um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu.  Gilda að hans mati ákvæði 3. gr. laganna um landsvæðið, enda um þjóðlendu að ræða en ekki eignarland, samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar.  Bendir stefndi á að ákvæðið feli í sér að í þjóðlendum séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.  Stefnendur hafi ekki sannað slíkan eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti.  Stefndi bendir sérstaklega á að nýting svæðisins hafi verið takmörkuð en það hafi nær eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði.  Slík takmörkuð not geti hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu.

Með vísan til framangreindra röksemda telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í máli þessu, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, sé röng og hafi því stefnendum ekki tekist að sýna fram á eignarrétt sinn á hinu umdeilda landi.  Bendir stefndi á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld.  Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „... landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“.  Engin gögn liggi hins vegar fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að landsvæðið, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar frá 19. júní 2009, og krefst þess að hann verði staðfestur.  Verði þannig miðað við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem í úrskurðinum er lýst, þ.e. „Núpá er fylgt til suðurs frá þeim stað þar sem Kollhóll liggur við ána, í punkti 5 í kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins. Þaðan er ánni fylgt upp í Sölvadalsá.  Síðan er síðastnefndri á fylgt til suðurs þar til komið er að Hrafnabjörgum, eða punkti 2 í kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins.  Þaðan er farið til vesturs í Tungnafjall og kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins fylgt til norðurs með hæstu brúnum Tungnafjalls alveg í Kollhól og þaðan aftur í Núpá.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar stefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Stefndi byggir einnig á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar, svo og á hefðarlögum nr. 14, 1905.  Þá vísar stefndi til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil og til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæði 129. og 130. gr.

 

III.

1. Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem:  „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er afréttur í lagagreininni skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“

Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar, sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga, sem kölluð hafa verið þjóðlendulög, segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.  Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar.  Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum.  Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda.  Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

 

2. Jarðirnar Æsustaðir, (G)Núpufell og Möðruvellir eru í Eyjafjarðardal.  Landamerkjabréf jarðanna voru útbúin á árabilinu 1886 til 1890, en allar eiga þær land til vesturs að Eyjafjarðará.  Samkvæmt landamerkjabréfi Æsustaða á jörðin merki til suðurs við jörðina Æsustaðagerði, en til norðurs við jörðina Hrísa.  Jarðir þessar eru allar við rætur Hólafjalls, sem er austan þeirra.  Jörðin Hrísar er fornt afbýli Núpufells.  Merki Núpufells að norðan eru við Núpá, sem kemur úr Sölvadal.  Austur- og suðurmerki Núpufells eru í Núpárgili, í mynni Sölvadals.  Merki jarðarinnar fara úr gilinu vestur eftir hálsi Hólafjalls, gegnt merkjum jarðarinnar Seljahlíðar í Sölvadal, en síðan fara þau að merkjavörðu millum Hrísa og Æsustaða í vestanverðu Hólafjalli.  Norðan og vestan Núpár og gegnt Núpufelli er jörðin Möðruvellir og fornar hjáleigur hennar.

 

Eins og fyrr var rakið námu samkvæmt Landnámu Helgi magri og Þórunn hyrna Eyjafjörð.  Þau skiptu landi á meðal ættmenna sinna og gáfu m.a. Hrólfi syni sínum „öll lönd fyrir austan Eyjafjarðará frá Arnarhváli up“, og bjó hann í Gnúpufelli og reisti þar hof mikið.  Af frásögninni má ráða að neðri mörk lands Hrólfs hafi verið um Arnarhvol, en hann heitir nú Arnarhóll, allstór hóll við Eyjafjarðará niður af býlinu Fellshlíð.  Að mati dómsins eru líkur til þess, m.a. í ljósi tilfærðra orða Landnámu, að auk austurhlíðar Eyjafjarðardalsins hafi Hrólfur fengið í sinn hlut þá dali sem ganga inn af hlíðinni, en þar á meðal eru Mjaðmárdalur og Sölvadalur.  Er þetta m.a. í samræmi við áttatáknanir í fornritum, sbr. m.a. alþekktar fræðiritgerðir dr. Stefáns Einarssonar, prófessors í íslenskum fræðum, sem m.a. birtust í Skírni um miðbik síðustu aldar.

Á meðal sona Hrólfs Helgasonar var Hafliði hinn örvi, sem fyrstur er sagður hafa byggt Möðruvelli, grannjörð Gnúpufells, handan Núpár.

 

Í landamerkjabréfum Æsustaða, Núpufells og Möðruvalla er getið um afréttarlönd jarðanna í Sölvadal og afdölum hans, þ.e. í Fremri-Sölvadal og Núpufells//Þormóðsdal.

Í landamerkjabréfi Núpufells segir m.a.: „Afrjettarland á jörðin í Núpufellsdal allan, austan við Þormóðsdalsá, framan úr dalsdragi og út I svonefndan Tungusporð, og þaðn fram í Kollhól, sem er heimarlega í Æsustaðatungum.  Liggja merkin neðan frá árgili rjetlínis yfri hólinn á fjall upp.“

Í landamerkjabréfi Möðruvalla segir m.a.: Afrjettarland á jörðin frá Sandá, allan Sölvadal að austan og Sandárdal að vestanverðu og Hraunárdal allan báðu megin og þaðan suður á fjall, að svo nefndu „Laugafelli“. Í bréfinu er tekið fram að hinar fornu hjáleigur jarðarinnar, m.a. í austurhluta Sölvadals, eigi á sumrin gjaldfrjálsan rekstur á geldpeningi í afréttarlandið.

Í landamerkjabréfi Æsustaða segir m.a.: Sömuleiðis fylgir Æsustöðum afrjettarland það fram af Sölvadal sem Aðaltungur nefnast, eða Æsustaðatungur öðru nafni og eru merkjatakmörk þessi: Að norðan Kollhóll, sem er lítið eitt fyrir framan Þormóðsstaðaá, þar sem hún fellur í Sölvadalsá, að sunnan eru klettar þeir, sem Hrafnabjörg nefnast, merkjatakmörk og eru þeir nokkru framar en í miðjum dalnum.

Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum og staðkunnugum aðilum.  Er ekki ágreiningur um mörk Æsustaðatungna, þ.e. að norðan séu þau á hálsinum sunnan ármóta Núpár, Þormóðsdalsár og Sölvadalsár, í örnefninu Kollhól, að svæðið sé í austurhlíðum Tungnafjalls (900-1000 m) og vestan Sölvadalsár og að svæðið nái til suðurs að áberandi klettastöllum sem nefnast Hrafnabjörg.

Vestan Tungnafjalls er Þormóðsdalur/Núpufellsdalur.  Með úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2009, sem kveðinn var upp 19. júní 2009, var það niðurstaða óbyggðanefndar að dalurinn væri eignarland Núpufellsjarðarinnar.

Austan og sunnan Æsustaðatungna, í Fram-Sölvadal og í dalverpunum Sandárdal og Hraunárdal, er Möðruvallaafréttur, en norðaustan landsvæðisins er eignarland eyðijarðarinnar Ánastaða.  Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. E-19/2010 var fallist á kröfu landeiganda Möðruvalla að Möðruvallaafréttur væri undirorpinn beinum eignarétti hans.  Sætir málið nú áfrýjun til Hæstaréttar Íslands.

 

Eins og hér að framan hefur verið rakið hafa stefnendur krafist, gegn andmælum stefnda, að úrskurðarorð óbyggðanefndar að því er varðar afréttarland Æsustaða, fyrrnefndar Æsustaðatungur, verði fellt úr gildi, en það viðurkennt að svæðið sé eignarland þeirra.

Í úrskurði óbyggðanefndar er staðháttum Æsustaðatungna í Sölvadal lýst að nokkru og það m.a. sagt að landið liggi í um 300 m hæð.

Í Lýsingu Eyjafjarðar I, sem Steindór Steindórsson náttúrufræðingur gaf út 1949, er Sölvadal nánar lýst og þar á meðal hinu umþrætta landsvæði, en einnig er þar vikið að Núpufellsdal/Þormóðsdal.  Segir þar m.a.:

... Sölvadalur skerst út úr Eyjafirði fyrir sunnan Möðruvelli.  Liggur hann að mestu til suðurs, og er mjög samhliða Eyjafjarðardal.  Hann er um 25 km langur.  Dalurinn dregur nafn sitt af geltinum Sölva, sem frá var skýrt í Landnámu, og Helgi magri setti á land við Galthamar ásamt gyltu, og fann þremur vetrum síðar í Sölvadal, og voru þá sjö tugir svína.

Svo er talið, að Sölvadalur hefjist við Hlífá, þversprænu sem fellur niður í Núpá, spottakorn fyrir sunnan bæinn Stekkjarfleti.  Er dalurinn allbreiður, þegar kemur inn fyrir mynnið, og undirlendi nokkurt og grösugt víða; mest er flatlendi þó fyrir neðan Ánastaði.  …  Í dalsmynninu hefur hún (Núpá) grafið sér klettagil mikið, og rennur hún fram úr því á breiðum eyrum milli Gnúpufells og Möðruvalla.  Gil helst að henni fram eftir dalnum, allt fram hjá Sandá.  Eru þó víða í því grashvammar og brekkur, og er heyjað í sumum þeirra.  Fyrst fyrir framan Sandá fellur hún á eyrum.  Yfirleitt er Núpá ill yfirferðar og hefir löngum þótt illur farartálmi í vatnavöxtum, sakir straumhörku og stórgrýtis.  Þá er og Illagil vondur farartálmi, eins og nafnið bendir til.  …  Austurhlíð Sölvadals inn frá Hlífá heitir Finnastaðaheiði; Er þar allmikið flatlendi uppi á fjallinu upp að Efra-Fjalli;  Er þar gróið, og var heyjað þar fyrrum.  Nær hún inn að Illagilsá, sem kemur úr stuttum þverdal, er Illagilsdalur heitir.  Fjallið fyrir innan hann heitir Kerhólsöxl.  Nokkru þar fyrir innan klofnar dalurinn í tvo dali, álíka djúpa.  Heldur hinn eystri þeirra nafninu.  Skammt fyrir innan dalmótin fellur Sandá úr Sandárdal;  Rétt fyrir innan hana er foss í aðalánni, og heitir hann Sandárfoss.  Innan að honum heitir áin Núpá, en Sölvadalsá þar fyrir innan.  Enn fellur þverá að norðanverðu í Sölvadalsá og heitir hún Hrauná, rennur í stuttum dal, er ber nafn hennar, og klofnar hann fremst í Austurgil og Runa.  Allir þessir þrír afdalir eru nokkuð grónir, einkum austurhlíðar þeirra.  Fjallið vestan að Sölvadal heitir Tungnafjall, en hlíðin gegnt Hraunárdal Æsustaðatungur, en Hraunártungur framar.

Vestari dalurinn heitir Núpufellsdalur að austanverðu, en Þormóðsstaðadalur að vestanverðu, en áin Þormóðsstaðaá.  Ná Æsustaðatungur niður að henni.

Sölvadalur er samkvæmt framansögðu suðaustan við höfuðbýlin í Fram-Eyjafirði, austan Eyjafjarðarár, þ.e. Núpufells, sunnan Núpár og Möðruvalla handan hennar.  Eru til heimildir um byggð í dalnum, bæði fornar og nýjar.  Vestan Núpár, nokkru fyrir sunnan dalsmynnið, er býlið Seljahlíð.  Það fór í eyði 1936, en hefur verið byggt upp aftur.  Um 2 km sunnar er býlið Eyvindarstaðir, en samkvæmt munnmælum var þar til forna bænahús.  Nokkru sunnar, til móts við Ánastaðaland handan Núpár, er býlið Draflastaðir, en í landi þess er skilarétt Sölvadals að vestan.  Jörðin Þormóðsstaðir er við dalsmynni Sölvadals og Þormóðsdals, en þar eru og ármynni samnefndra áa og Núpár. Gegnt jörðinni handan Núpár er land Ánastaða, en þar til suðausturs og handan Tungnafjalls er fyrrnefndur Möðrudalsafréttur, en einnig hið umþrætta landsvæði, Æsustaðatungur.  Framan Þormóðsstaða og samnefnds sels, sem er þar í túnjaðrinum, er Þormóðsstaðadalur.  Samkvæmt heimildum var Þormóðsstaðajörðin í lok 14. aldar færð undir Núpufellskirkju með gjafagerningi.  Þá segir í heimildum frá 16. öld að jörðin hafi með kaupgerningi fallið til Núpufellsjarðeiganda, en hún mun þá hafa verið í eyði.  Í Þormóðsstaðaseli mun hafa verið búið á árunum 1835 til 1909.  Samkvæmt jarðamati 1849 var Þormóðsstaðajörðin metin á 12 forn hundruð, en selið á 17 forn hundruð.

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1712, sem er í samræmi við síðari heimildir, tilheyrir Þormóðsstaðadalur vestan samnefndrar ár Þormóðsstöðum og nefndu seli, en austurhluti dalsins, sem nefndur er Núpufellsdalur, er sagður afréttarland Núpufells, sbr. m.a. fyrrnefnt landamerkjabréf Núpufells frá árinu 1892.  Mörk afréttarlandsins til suðurs eru samkvæmt nefndum gögnum við fremstu dalsdrög.  Samkvæmt jarðamati 1847 var Núpufellsjörðin metin á 30 forn hundruð, en þess er getið að á 17. öldinni hafi hún verið stóls- eða konungseign.

Frá heimalandi Þormóðsstaða og ármótum Núpár og Sölvadalsár að dalsdrögum Þormóðsstaðadals/Núpufellsdals eru um 16 km í beinni sjónlínu, en frá bæjarhúsum Núpufells að nefndri jörð eru um 9 km í beinni sjónlínu.  Það var niðurstaðan í máli óbyggðanefndar nr. 1/2008, eins og fyrr var rakið, að land í Núpufellsdal/Þormóðsstaðadal væri eignarland Núpufells.

Möðruvellir er kirkjustaður og fornt höfuðból eins og áður er fram komið.  Samkvæmt heimildum bjuggu þar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og a.m.k. fram á miðaldir efnafólk.  Á 10. og 11. öld bjuggu á jörðinni m.a. Eyjólfur Valgarðsson og sonur hans Guðmundur ríki, en einnig Eiríkur auðgi Magnússon og Ormur Snorrason.  Á 14. og 15. öldinni bjuggu á jörðinni Loftur Guttormsson og sonur hans Þorvarður ríki og kona hans, hustru Margrét Vigfúsdóttir, svo og dóttir þeirra og tengdasonur, Páll Brandsson sýslumaður.

Samkvæmt gögnum, þ. á m. Jarðabók Árna og Páls frá 1712, var Möðruvallajörðin um aldir metin sem mjög verðmæt jörð.  Var réttinda hennar ítrekað getið í lögfestum og jarðamötum, en í skiptabréfi á eignum afkomenda fyrrnefnds Þorvarðar Loftssonar ríka frá 1560 er greint frá því að jörðin hafi verið metin á 140 hundruð.  Segir frá því að við skiptin hafi m.a. fylgt jörðinni fjölmargar hjáleigur.  Á meðal þeirra eru afbýli og hjáleigur sunnan Möðruvalla og austan Núpár í Sölvadal.  Eru þar á meðal jörðin Hríshóll með eyðibýlinu Skriðu, en við mynni Sölvadals jörðin Stekkjarfletir, en hún á land að Hlífá.  Þar sunnan við, í Sölvadal, er í heimildum nefnd jörðin Björk, og er sagt að þar hafi verið skógarnytjar.  Mun sá skógur hafa verið gjöreyddur fyrir 1700, en jörðin fór í eyði 1935.  Millum Hlífár og Illagils er getið um jörðina Finnastaði, en þar mun hafa verið bænahús.  Býlið fór í eyði 1934.  Þar sunnan við, á móti landi Eyvindarstaða vestan Núpár, er jörðin Kerhóll.  Samkvæmt munnmælum voru í landi hennar kirkja og prestssetur, en samkvæmt heimildum er víst að þar var bænhús.  Í landi jarðarinnar eru tvö vöð á Núpá, en hún fór í eyði 1930.  Loks er í áðurnefndu skiptabréfi getið um hjáleiguna Ánastaði, en land hennar hefst við Merkjahvamm og nær það suður að Sandá í Sandárdal samkvæmt landamerkjabréfi frá 1887.  Þar sunnan við er fyrrnefndur Möðruvallaafréttur.  Við svonefndan Lækjarós í landi Ánastaða eru Réttarhólar, en milli hólanna var skilarétt fyrir Sölvadal austanverðan.  Örnefnið Nautahvammur er suður og fram með réttinni.  Sunnarlega í landi Ánastaða var býlið Agnúastaðir, en þar í túninu eru svonefndir Kvíhólar.  Eru heimildir um að jörðin hafi farið í eyði um 1640, en samkvæmt gögnum var landið um langa hríð nytjað af ábúendum Ánastaða.  Samkvæmt gögnum voru Agnúastaðir í byrjun 19. aldar taldir eign Ánastaða.

Samkvæmt jarðamati 1849 var Möðruvallajörðin metin á 80 forn hundruð, Ánastaðir á 17, Kerhóll á 12, Finnastaðir á 30, Björk á 20, Stekkjarfletir á 20 og Skriða á 10 forn hundruð.  Ítrekað kemur fram í heimildum að nefndar hjáleigujarðir eigi frían upprekstur á afréttarlandi Möðruvalla.

Af gögnum verður ráðið að landgæðum fyrrgreindra hjáleigujarða Möðruvalla hafi hrakað eftir því sem aldirnar liðu og hafi það ekki síst verið vegna versnandi tíðarfars en einnig sökum þess að víða er skriðu- og snjóflóðahætt í Sölvadal.  Eru m.a. heimildir um skriður í landi Bjarkar, en einnig um ægileg snjóflóð í landi Ánastaða 1871 og 1881.

Afréttur Möðruvalla er í Jarðabók Árna og Páls frá 1712 nefndur Sölvadalstungur.  Að áliti dómsins má ætla að afrétturinn sé kenndur við örnefni, sem nefnast Hrauntungur, sem eru beggja vegna Sölvadalsár, framan Hraunár.  Afréttarins er ítrekað getið í heimildum, en í áðurröktu landamerkjabréfi frá 1886 er mörkum hans nánar lýst eins og áður er rakið.

Samkvæmt fyrrnefndri fræðaheimild frá miðri 20. öld eru landsvæði og dalir Möðruvallaafréttar, og þar með Æsustaðatungur, nokkuð grónir, einkum austurhlíðar þeirra, en um gróðurfar almennt er það að segja að vafalaust er talið að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á Íslandi verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er.

Engar heimildir eru um byggð í afrétt Möðruvalla eða í Æsustaðatungum, en fremsta jörðin í austanverðum Sölvadal mun hafa verið fyrrnefndir Agnúastaðir, sem fór í eyði á 17. öld.  Jörðin er skammt norðan Sandárdals.

Samkvæmt örnefnaskrá Saurbæjarhrepps og skýrslu Fornleifastofnunar Íslands um menningarminjar á miðhálendinu eru örnefni í Fram-Sölvadal sem vísa til búskaparnytja.  Þannig segir að Geldingagilshöfði sé við Sandárhóla en að Geldingagil sé á Hraunáreyrum.  Þá segir að sunnar í Möðruvallaafrétti, í austanverðum Fram- Sölvadal, sé flatlendi, en síðan taki við skriðuhryggir fram að svokölluðum Nautagarði.  Vikið er að því að munnmæli séu um að Guðmundur ríki á Möðruvöllum hafi látið menn sína hlaða garðinn.  Greint er frá því að framan við Nautagarðinn séu skriðuhryggir, en þar hjá, í nesi við ána, sé svonefndur Tjaldsteinn, og við hann sé hlaðinn grjóthringur eða byrgi, sem grasafólk hafi hlaðið eða tjaldað.

Frá höfuðbýlinu Möðruvöllum að norðurmörkum afréttarins, við ármót Sandár og Sölvadalsár, eru um 12 km í beinni sjónlínu, en frá ármótunum að dalsdrögum Sölvadals eru um 12 km í beinni sjónlínu.

Samkvæmt gögnum og skýrslum óbyggðanefndar, en einnig vitnisburði Þórs Hjaltasonar fyrir dómi, var um aldamótin 1900 reist beitarhús í afrétti Æsustaða í Æsustaðatungum í Fram-Sölvadal, á svonefndum Beitarhúsagrundum, nærri ármótum Sölvadalsár og Sandár.  Vitnið, sem er fætt 1929, greindi og frá því að reist hafi verið brúartylla, sem gerð var úr grind af vörubifreið, syðst í landi Þormóðsstaða, yfir samnefnda á, sem nýtt hafi verið af eigendum Æsustaða um tíma til að koma búfénaði á afréttinn í Æsustaðatungum.

Frá bæjarhúsum Æsustaða í Eyjafjarðardal að Kollhól við norðurmörk Æsustaðatungna í Fram-Sölvadal er í beinni loftlínu um 9,5 km.  Er þá farið suðaustur yfir nyrsta hluta Hólafjalls (600 m) og yfir í Sölvadal, en þaðan er farið í afréttinn við mót Núpár, Þormóðsdalsár og Sölvadalsár.  Ef landleiðin er farin frá bæjarhúsum Æsustaða er vegalengdin um 15 km.  Er þá fyrst farið til norðurs um land Hrísa, en síðan vestur yfir Hólafjallshálsinn í landi Núpufells, en eftir það til suðausturs um vesturhluta Sölvadals, um jarðirnar Seljahlíð, Eyvindarstaði, Draflastaði og Þormóðsstaði og þaðan yfir í afréttinn við mót nefndra áa.

 

Að virtum staðháttum og gróðurfari og þeim gögnum og skýrslum sem hér að framan hafa verið rakin, auk vettvangsgöngu, verður fallist á með stefnendum að landgæði séu sambærileg í Fram-Sölvadal og dalsdrögum hans og í Núpufells/Þormóðsdal.  Er t.d. ekki um verulegan hæðarmun eða farartálma að ræða fram að dalsdrögum þeirra.  Af vitnisburði nefnds Þórs Hjaltasonar, en hann var m.a. gangnamaður í nefndum dölum í um 60 ár, verður ráðið að búfénaður sem rekinn var á afréttarsvæðin hafi í venjulegu árferði gengið á milli þeirra og því farið yfir áðurnefndar ár án teljandi vandkvæða.  Þá liggur fyrir að ekki tíðkaðist að reisa afréttargirðingar á þessum afréttum.

 

Af hálfu stefnenda er m.a. á því byggt að umrætt landsvæði, og þar á meðal Æsustaðatungur, hafi verið numið í öndverðu, en því til stuðnings vísa þeir til landnámslýsingar.

Þegar áðurgreind atriði eru virt í heild, m.a. frásögn Landnámu um landnám í Eyjafirði og hin sögulegu tengsl fyrrnefndra höfuðbýla við Sölvadal og þá ekki síst Möðruvalla við hjáleigurnar í dalnum austan ár, er að áliti dómsins líklegt, sbr. fyrrgreint dómsmál réttarins nr. E-19/2010, að það landsvæði sem nefnt er Möðruvallaafréttur í Fram-Sölvadal hafi verið numið við upphaf Íslandsbyggðar.  Eru að mati dómsins engin rök fyrir því að ekki hafi það sama gilt um Æsustaðatungur.  Að þessu sögðu og öðru sem fram kom í nefndu héraðsdómsmáli var það niðurstaðan að ekki yrði sú ályktun dregin af tvískiptingu á landi Möðruvalla, sem lýst er í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1886, að ætti að leiða til mismunar á eignarréttarlegri stöðu jarðarinnar.  Að því leyti var líka horft til hins sambærilega landsvæðis í Þormóðsdal/Núpufellsdal, sem óbyggðanefnd hafði í úrskurði sínum ákvarðað sem eignarland Núpufells.

 

Stefnendur byggja kröfur sínar um beinan eignarrétt á Æsustaðatungum í Fram-Sölvadal ekki síst á áðurröktu landamerkjabréfi Æsustaða.  Bréfið var útbúið og undirritað eins og áður hefur komið fram árið 1890.

Í dómum sínum hefur Hæstiréttur Íslands í sambærilegum málum margoft vikið að gildi landamerkjabréfa, sbr. m.a. mál nr. 48/2004.  Er það niðurstaða réttarins að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæði, beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því, að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli teljast óskorað eignarland.  Og þrátt fyrir að bréfinu hafi verið þinglýst, þá takmarkast gildi þinglýsingar af því, að ekki er unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á, enda geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt.

Eins og áður er rakið eru elstu heimildir, sem lagðar hafa verið fram af hálfu stefnenda í máli þessu, um land Æsustaða í afrétti í jarðamötum frá 1804 og 1847.  Segir þar að í landi jarðarinnar liggi afréttur sem fjórir bæir nýti fyrir lömb sín.  Ekkert er sagt nánar um þennan afrétt eða um afmörkun hans.  Í jarðamati frá 1849 er hins vegar sagt að afréttur jarðarinnar sé í Æsustaðatungum og að hann dugi rúmlega til heimilisþarfa.  Þá er afrétturinn afmarkaður í landamerkjabréfi jarðarinnar 1890, í austurhlíðum Tungnafjalls, eins og hér að fram hefur verið rakið, en það sagt að afréttarlandið fylgi jörðinni.

Samkvæmt framansögðu er Æsustaðatungna fyrst sérstaklega getið og þær afmarkaðar í heimild í lok 19. aldar.  Liggur fyrir að nefnt svæði, sem nefnt er afréttur, er aðskilið frá Æsustöðum, en þar í milli eru nokkrar bújarðir í Eyjafjarðardal, en einnig í Sölvadal.  Engin gögn hafa verið lögð fram um eldri tengsl Æsustaða við þennan afrétt eða jarðarinnar við bújarðir, sem í milli eru.  Þá liggur ekkert fyrir í málinu hvernig eigendur Æsustaða geti verið að landi Æsustaðatungna komnir eða hvenær það kunni að hafa gerst.

Að áliti dómsins benda heimildir ekki til annars en að Æsustaðatungur hafi einvörðungu verið notaðar til beitar fyrir búfénað og hafi þannig verið afréttur Æsustaða.  Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að líkur standi til að áðurlýst orðalag í landamerkjabréfi Æsustaða um afréttarsvæðið varði óbein eignarréttindi og nægir, að virtum röksemdum og andmælum stefnda, einhliða forboðsbréf frá 1916 að því leyti ekki til að dæma stefnendum eignarrétt að því.

Að þessu sögðu og þegar litið er til legu hins umþrætta afréttarsvæðis og annarra þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndu Hæstaréttarmáli nr. 48/2004, en einnig með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 67/2006, 517/2009 og 749/2009, er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að þeir eigi beinan eignarrétt að Æsustaðatungum á Fram-Sölvadal.

Að öllu þessu virtu og þar sem kröfur og heimildir stefnenda styðjast ekki við önnur gögn verður fallist á með stefnda að ekki hafi verið sýnt fram á að umþrætt landsvæði sé eignarland, hvorki fyrir löggerninga né með öðrum hætti.

Stefnendur hafa að áliti dómsins ekki fært fram sönnur um að skilyrðum eignarhefðar á greindu landi hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því, ásamt fleiri bændum, sem nýtt hafa það til sumarbeitar.

Að þessu virtu, andmælum stefnda, en einnig með hliðsjón af ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki séð að stefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.

Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að umrætt landsvæði, Æsustaðatungur, sé þjóðlenda því staðfest.

Stefnendur hafa ekki rökstutt frekar þau réttindi, sem varakrafa þeirra tekur til, en krafan þykir heldur ekki hafa viðhlítandi stoð í lögum, og er henni hafnað.

Í ljósi kröfugerðar aðila fyrir dómi verður fallist á að Æsustaðatungur séu afréttareign jarðarinnar Æsustaða í Eyjafjarðarsveit, en aðrir aðilar hafa ekki lýst kröfum til landsins.

Verður stefndi samkvæmt öllu þessu sýknaður af kröfum stefnenda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns.  Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, þar á meðal vegna vettvangsferðar, er nefnd þóknun ákveðin 1.062.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

 

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 1.062.000 krónur.

                                                              Ólafur Ólafsson.