- Eignarréttur
- Þjóðlenda
D Ó M U R
Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 11. júní 2009 í máli
nr. E-132/2008:
Brynhildur Halldórsdóttir
(Ólafur Björnsson hrl.)
gegn
Íslenska ríkinu
(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hdl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 17. apríl s.l., hefur Brynhildur Halldórsdóttir, kt. 000000-0000, eigandi jarðarinnar Syðra-Lóns, Langanesbyggð, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu birtri 17. janúar 2008.
Dómkröfur stefnanda eru:
Aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í máli nr. 4/2005, þess efnis að hluti jarðarinnar Syðra-Lóns, svokölluð Grímólfsártunga, sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:
„Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem kallað hefur verið Grímólfsártunga svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Frá þeim stað þar sem Hávarðsdalsá rennur í Hafralónsá er dregin lína til austurs í stefnu á þann stað þar sem hreppamarkalína kemur að Litlu-Kverká við Kverkártungu (punktur 1 í þjóðlendukröfu íslenska ríkisins). Þessari línu er fylgt að þeim stað þar sem hún sker Grímólfsá og síðan Grímólfsá til suðurs þar til komið er vestur af Arnarfellshyrnu. Þaðan er miðað við þá kvísl árinnar sem gagnaðilar íslenska ríkisins miða við í kröfugerð sinni, að þeim stað þar sem kröfulínur gagnaðila greinast í sundur. Frá þeim punkti er Grímólfsá fylgt þangað sem hún á upptök sín vestan við Stóraás og síðan áfram í Hafralón. Úr Hafralóni er Hafralónsá fylgt til norðurs þar til Hávarðsdalsá rennur í hana.
Sama landsvæði er í afréttareign Syðralóns, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan ofangreindra þinglýstra landamerkja Syðra-Lóns, og þar með þess, að allt land Syðra-Lóns sé eignarland í samræmi við kröfulýsingu til óbyggðanefndar sem er í samræmi við landamerkjabréf jarðarinnar Syðra-Lóns dags. 4. nóv. 1916 og þinglýst á Sauðanesþingi 3. júlí 1917, þar sem segir að jörðin eigi:
„Allt land milli Hafralónsár og Grímólfsár frá upptökum þeirra þar til þær falla saman“, sbr. meðfylgjandi uppdrátt.
Varakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að niðurstaða óbyggðanefndar verði staðfest þannig, að viðurkennt verði að stefnandi eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var í afréttareign eiganda Syðra-Lóns, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, þó að landið teljist þjóðlenda.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda skv. málskostnaðarreikningi, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 13. ágúst 2008.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara krefst hann þess að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
I.
1. Tildrög máls þessa eru þau, að með bréfi, dagsettu 1. mars 2004, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði, sem tekur yfir sveitarfélög í Múlasýslum auk hluta Norður-Þingeyjarsýslu, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Afmarkaðist svæðið nánar, að vestanverðu, af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum, allt frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að aðalupptökum árinnar í Dyngjufjöllum. Að norðan afmarkaðist landsvæðið af hafi, en eigi er í þessu máli þörf á að rekja afmörkun landsvæðisins frekar.
Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði bárust 11. nóvember 2004. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum stefnda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. desember 2004, en einnig í dagblöðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Í tilkynningunni var m.a. skorað á eigendur jarða í Svalbarðshreppi, Þórshafnarhreppi og Skeggjastaðahreppi, nú Langanesbyggð, þ.m.t. stefnanda, að lýsa kröfum sínum til landsins fyrir nefndinni, auk þess að gera grein fyrir landamerkjum, í síðasta lagi 31. mars 2005. Þann dag lagði stefnandi fram kröfulýsingu sína til óbyggðanefndar, en sökum framlengingar á fresti bárust síðustu kröfulýsingar annarra landeigenda í maí 2005.
Í júlí 2005 tilkynnti óbyggðanefnd aðilum þá ákvörðun sína að skipta þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins í fimm mál, þ. á m. mál nr. 4/2005, er varðaði fyrrnefnd sveitarfélög. Var það mál fyrst tekið fyrir á fundi óbyggðanefndar og forsvarsmanna málsaðila þann 17. ágúst 2005. Við fyrirtökur 20. desember 2005 og 9. mars 2006 voru lagðar fram greinargerðir og sýnileg gögn. Málið var tekið til úrskurðar fyrir óbyggðanefnd 7. júlí 2006 að lokinni vettvangsferð, skýrslutökum og munnlegum flutningi. Málsmeðferðin var endurupptekin 17. ágúst sama ár og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar á ný. Hinn 29. maí 2007 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar, að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, þ.e. hluti jarðarinnar Syðra-Lóns, svonefnd Grímólfsártunga, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en að nefnt landsvæði væri afréttareign lögbýlisins, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.
Útdráttur úr nefndum úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu hinn 18. júlí 2007 svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58, 1998.
Stefnandi undi ekki niðurstöðu óbyggðanefndar, og leitast hann við með málsókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefst því ógildingar úrskurðarins að því er hið umrædda landsvæði varðar. Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. fyrrnefndra laga til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna.
Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 23. september 2008.
2. Í greindum úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 4/2005, er eins og áður er lýst kveðið á um eignarréttarlega stöðu þess landsvæðis sem tilheyrir Svalbarðshreppi, Þórshafnarhreppi og Skeggjastaðahreppi, nú Langanesbyggð í Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu.
Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins. Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 204 blaðsíður. Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á. Í hinum síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi, sveitarmörkum, afnotum og sögu einstakra jarða, þ. á m. Syðra-Lóni. Einnig er í sérstökum kafla, 6.1.1-2, vikið að gildi landamerkjabréfa. Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir og svæði, en að lokum eru úrskurðarorð. Að auki fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004. Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi landakort.
3. Í framlögðum gögnum svo og í úrskurði óbyggðanefndar er frá því greint að elstu ritheimildir um landnám og landnámsmörk í Þistilfirði og á Langanesströnd við Bakkaflóa sé að finna í Hauksbók, Þórðarbók og Sturlubók Landnámu. Í þeirri síðastnefndu segir m.a: „Ketill þistill nam Þistilfjörð milli Hundsness (Rakkaness) og Sauðaness. Hans son var Sigmundr, faðir Laugarbrekku-Einars.“ Um landnám á Langanesströnd/Norðurströnd eru landnámsgerðir samhljóða, en þar um segir: „Finni hét maðr, er nam Finnafjörð ok Miðfjörð. Hans son var Þórarinn, faðir Sigurðar, föður Glýru-Halla.“ Um búsetu og byggðir á þessu landsvæði segir í bókinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi frá árinu 1974: ,,... er byggðin mest við sjóinn, en inn til heiða eru all víða rústir eyðibýla, afbýla frá sjávarjörðum, og hafa verið í ábúð lengri eða skemmri tíma á liðnum öldum, einkum þó um og eftir miðja 19. öld, þar til þjóðflutningar til Ameríku hófust.“
Á umræddu landsvæði er í gögnum ítarlega rakið að þar hafi lengst af verið sveitarfélögin Svalbarðshreppur í Þistilfirði, en á Langanesi og þar inn til landsins Sauðaneshreppur og síðar Þórshafnarhreppur. Hafi tveir þeir síðarnefndu sameinast undir nafni þess síðarnefnda. Fyrir fáeinum árum hafi síðan sameinast Þórshafnarhreppur og Skeggjastaðahreppur, nyrsti hreppur í Norður-Múlasýslu, og heitir það sveitarfélag nú Langanesbyggð.
Sauðaneshreppur hinn forni, og síðar Þórshafnarhreppur, var austasti hreppur Norður-Þingeyjarsýslu og markar Hafralónsá sveitarmörk að vestan að upptökum í Hafralónum, gagnvart Svalbarðshreppi í Þistilfirði. Þá ræður Stakfellskvísl suður fyrir Litla-Stakfell, þar sem taka við heiðarlönd Vopnfirðinga. Að austan ráða sýslumörk að sjó í Fossdal norðan við Gunnólfsvíkurfjall, og svo úthafið á báðar hendur við Langanesið. Landareign hreppsins er víðáttumikil, allt Langanesið og langt til heiða. Vegalengd frá Langanesfonti suður í syðstu heiðarmörk mun vera um 110-120 kílómetrar. Vegalengd yfir þvera landareignina er mjög breytileg, mest 15-16 kílómetrar. Í Byggðasögu Þingeyinga er landsvæði þessu nánar lýst þannig:
„Þegar fjær dregur sjó skiptast á lágir áshryggir, víða mjög grýttir, móholt, mýrarsund og grösugir flóar. Aðalafréttarland sveitarinnar er Tunguselsheiði. Nær heiðin frá Hafralónsá suður og austur að sveitarmörkum. Vegalengd frá aðalskilarétt á Hallgilsstöðum í innstu leitir mun vera um 50 kílómetrar, en breiddin þvert yfir heiðina um 10-14 kílómetrar. Innan til á heiðinni er háslétta, víða melar og gróðurlausar urðir, en um miðja heiðina og þar fyrir norðan lækkar landið og tekur þar við vel gróið og fjölbreytt beitiland, víðlendir grösugir flóar og vötn.“
Í lýsingu Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings frá árinu 2006 segir um staðhætti og náttúrufar á Tunguselsheiði, afrétt Langnesinga, að takmörk hennar að vestan séu við Hafralónsá, en að austan gagnvart Skeggjastaðahreppi við Kverká (Litla-Kverká og Reiðaraxlavatn). Segir og að innan til sé heiðin gróðurlítil háslétta víðast hvar, en þar séu Arnarfjöll (528 m) og suðaustur af þeim Kílafjöll (um 550 m) við Kverká, að Kistufjöll séu vestan undir Hafralónsá, en á móts við Innra-Kistufjall (488 m) sé Stórifoss og Stórugljúfur (Dimmugljúfur). Hvammsgljúfur sé langtum utar við norðurenda Þorsteinsstaðaháls skammt frá eyðibýlinu Þorsteinsstöðum, sem hafi verið í byggð 1850 til 1884. Þá segir í lýsingunni að Barðsmelur sé sérkennilegur stórgrýttur melhryggur sunnan Arnarfjalla og nái hann inn að Heiðarenda. Síðan segir orðrétt: ,,Um miðja heiði lækkar landið og tekur við vel gróið beitiland með víðlendum flóum og vötnum. Þar er sagt vera nokkuð af silungi. Breiðast er leitarsvæðið 10 til 14 km og talið að þurfi 15 menn í fyrstu göngur sem taka að jafnaði þrjá daga. Tveir gangnakofar eru á heiðinni, Vesturkofi vestan undir Arnarhyrnu (Arnarfellshyrnu) austur af Stórafossi og Austurkofi austan undir Kverká yst á Sveindalseyrum suðaustur af Hólmavatni.“ Um gróðurfar segir í lýsingu náttúrufræðingsins, að útnesjasvipur einkenni gróðurinn, sem komi m.a. fram í því að tegundir sem nær einvörðungu vaxi til fjalla sunnar á landinu, m.a í snjódældum, sé þarna að finna niðri á láglendi (rjúpustör, fjallasmári). Fléttugróður sé og víða mikill í mólendi, m.a fjallagrös, sem sunnar vaxi aðallega til heiða. Þá segir að athygli veki hversu lágt yfir sjó mörkin liggi fyrir samfelldan gróður, þ.e. ekki minna en 200-250 m neðar en miðsvæðis á Austurlandi, en þegar náð sé um 400 m hæð yfir sjó sé land víða orðið melar og berar urðir. Þessu valdi vafalaust, segir í lýsingunni lágur meðalhiti. Undantekning frá þessu sé Heljardalur og grennd (við Hafralón og sunnan Eyjavatns) þar sem séu falleg gróðurlendi í um og yfir 500 m hæð.
Í stefnu og öðrum gögnum er að nokkru rakin saga lögbýlisins Syðra-Lóns, sem áður fyrr hét Guðmundarlón (1703). Segir að býlið sé eitt af höfuðbýlum á Langanesi norðanverðu og nái landareign þess inn að Fossá og út á miðja Hábungu norðan Markvatns þar sem Sauðanesland tekur við. Út úr jörðinni er þorpið Þórshöfn byggt. Á jörðinni hefur verið rekinn umfangsmikill sauðfjárbúskapur til langs tíma. Er jarðarinnar getið í fornum heimildum og öllum fasteignamötum. Liggur fyrir að ýmsar kirkjur áttu samkvæmt máldögum reka á Guðmundarlóni, en þ.á m. er hennar getið í rekaskrá Skálholtsstóls árið 1270. Um eignarhald að Syðra-Lóni segir í gögnum að hennar sé getið í eignaskrá Hólastóls árið 1525, en í Langnesingasögu segir að á árinu 1804 hafi aðstoðarpresturinn í Sauðanesi, séra Stefán Einarsson, keypt jörðina. Í jarðamati það ár segir að jörðin hafi verið metin á 12 hundruð, og er þess getið að henni fylgi silungsveiði.
Í sýslu- og sóknarlýsingu Þingeyjarsýslu er ritað um Sauðanessókn af fyrrnefndum séra Stefáni Einarssyni, sem þá var orðinn prestur og héraðshöfðingi á Sauðanesi. Lýsing hans er skráð á haustdögum 1840. Segir þar um afréttarmál að enginn afréttur sé á Langanesi allt fram að Hallgilsstöðum, nema Sauðaneskirkja eigi eftir máldögum geldfjárrekstur í Fossdal í Fagranesfjöllum. Í lýsingunni er tekið fram að jarðirnar Hallgilsstaðir og Tungusel eigi hin bestu og mestu afréttarlönd:,,..og fyrir framan þessi lönd (Hallgilsstaða og Tungusels) er almenningur millum Langaness, Norðurstranda (Langanesstrandar) og Selárdals í Vopnafirði samt Þistilfirðinga að norðan. Hér í þessum almenningi eður á Grímólfsártungu lýsir Syðralón eftir 4 hundraða landi, er mér skilst eftir samanburði við annarra máldaga orðatiltæki sé sama land undir 400 fjár.“
Í jarðamati frá árinu 1849 segir að Syðra-Lóni tilheyri sérstakt afréttarland fram til heiðar er heiti Grímólfsártunga. Þá er áréttað að virði jarðarinnar sé 12 hundruð.
Fyrir liggur að skrifað var undir landamerkjabréf Syðra-Lóns þann 4. nóvember 1916 og var því þinglýst 3. júlí 1917. Um merki jarðarinnar segir eftirfarandi:
„Að sunnan ræður Fossá frá sjó þar til Merkilækur fellur í hana, en þaðan lækurinn þar til hann sveigir frá suðri til vesturs og aðskilur Helguflóa og Stóraflóa og þaðan bein stefna í Gunnlaugsárupptök.
Að austan og norðan ræður bein stefna úr Gunnlaugsárupptökum í vörðu á Ytri-Gunnlaugsárhól, þaðan í vörðu í Markgróf, þaðan í vörðu við suðurhorn Markvatns og þaðan bein stefna í vörðu á Háubökkum og sama stefna í sjó fram.
Þess utan á Syðra-Lón þetta heiðarland: hina svonefndu Grímólfsártungu sem er land alt milli Hafralónsár og Grímólfsár frá upptökum þeirra þar til þær falla saman.“
Undir landamerkjabréfið rita þáverandi eigendur Syðra-Lóns þeir Guðmundur Vilhjálmsson og Ingimar Baldvinsson svo og umráðamenn nágrannajarðanna þeir Jón Halldórsson Sauðanesprestur vegna Sauðaness og Staðarsels og vegna Ytribrekkna þeir Sigtr. og Axel Vilhjálmssynir.
Í fasteignamati Norður-Þingeyjarsýslu 1916-1918 er að finna upplýsingar um landamerki Syðra-Lóns. Eru merkin þar svo og umsögnin um Grímólfsártungu nær samhljóða landamerkjabréfinu frá árinu 1916, en tekið er fram að jörðin hafi sumarhaga.
4. Í úrskurði óbyggðanefndar er nánari grein gerð fyrir elstu heimildum um landnám á Langanesi og nágrenni, en einnig er í stórum dráttum rakin saga afmörkunar og sveitarmörk Svalbarðshrepps, Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps, nú Langanesbyggðar. Í úrskurðinum er og fjallað um ráðstafanir á eignarrétti svo og nýtingu á svæðinu frá öndverðu til uppkvaðningar úrskurðar. Þá er lýst málsmeðferð og hlutverki óbyggðanefndar og gerð er grein fyrir kröfum þeirra málsaðila sem hér eiga í hlut. Segir frá því að stefnda, íslenska ríkið, hafi dregið kröfulýsingu sína frá fyrrum almenningi við Kverkártungu þar sem hreppamarkalína kemur að Litlu-Kverká (punktur 1), en frá þeim punkti er dregin lína þangað sem Hávarðsdalsá rennur í Hafralónsá. Á móti er tekið fram að gagnaðilinn, stefnandi, þinglýstur eigandi Syðra-Lóns, hafi lýst kröfum um beinan eignarétt að þeim hluta þess landsvæðis, sem þeir telja að liggi innan merkja jarðarinnar samkvæmt áður röktu landamerkjabréfi hennar, en landsvæði þetta sé margnefnd Grímólfsártunga. Um nánari afmörkun Grímólfsártungu segir í úrskurðinum:
„Að Grímólfsártungu liggur Hvammur til vesturs en Þorsteinsstaðir og Tungusel til austurs. Til suðurs er landsvæði sem Svalbarðs- og Þórshafnarhreppur hafa gert tilkall til. Landsvæðið sem um ræðir hefur leguna norður-suður og afmarkast að vestan af Hafralónsá og austan af Grímólfsá. Sunnan til er svæðið lítt gróið en gróður eykst eftir því sem norðar dregur. Nyrst á landsvæðinu liggur Grænavatn í um 300 m yfir sjávarmáli og úr því rennur Grænavatnslækur í Grímólfsá. Sunnan Grænavatns rís Ytra-Kistufjall (445 m) og sunnan þess er Syðra-Kistufjall (474 m). Sunnan Kistufjalla liggur breið melbunga er kallast Stóriás (523 m). Milli Stóraáss og Kistufjalla er votlend lægð (460-480 m). Austan Hafralónsár syðst á landsvæðinu er votlent og hallalítið land. Frá suðurenda Grænavatns að Hafralóni, sem er á suðurmörkum svæðisins, eru um 13,7 km í beinni loftlínu“.
Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til áðurrakinnar lýsingar náttúrufræðings, en á það bent, að við landnám hafi landið verið betur gróið og gróður náð lengra inn á heiðar en nú er.
Í niðurstöðukafla í úrskurði óbyggðanefndar er áréttað að Syðra-Lóns hafi fyrst verið getið í heimildum frá 13. öld, og megi af því ráða að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða. Til þess er vísað að í þinglýstu landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1916 sé annars vegar lýst merkjum heimalandsins og hins vegar merkjum svokallaðrar Grímólfsártungu, en þar í milli séu um það bil 23 km í beinni loftlínu og m.a. jarðirnar Hallgilsstaðir og Tungusel. Í niðurstöðukaflanum er staðhæft að ekki séu til eldri merkjalýsingar um Grímólfsártungu en fram komi í landamerkjabréfinu frá árinu 1916. Að þessu sögðu eru tekin til umfjöllunar og skoðunar landamerki nefnds svæðis og þau borin saman við lýsingar merkja nágrannajarðanna, en um það segir nánar:
„Samkvæmt landamerkjabréfi Syðra-Lóns eru merki Grímólfsártungu, gagnvart Hvammi til vesturs og Þorsteinsstöðum og Tunguseli til austurs, miðuð við Hafralónsá og Grímólfsá frá upptökum þeirra þar til þær falla saman. Bréfið er hvorki áritað vegna Hvamms né Þorsteinsstaða eða Tungusels. Austurmerkjum Hvamms er eins lýst í landamerkjabréfi þeirrar jarðar frá 16. ágúst 1886 og þingl. 18. maí 1887. Bréf Hvamms er ekki áritað vegna Syðralóns. Engin lögformleg lýsing er til á merkjum Þorsteinsstaða en þeir munu hafa verið byggðir úr landi Tungusels um miðja 19. öld. Í afsalsbréfi frá 28. maí 1870, sem útbúið var vegna kaupa Sauðaneskirkju á Þorsteinsstöðum, er að finna lýsingu á merkjum landsvæðisins. Merkjum Þorsteinsstaða til vesturs er lýst svo: „að vestan Hafralónsá, útan frá Tungnaá fram til Grímólfsár, þá Grímólfsá til upptaka hennar“. Sé þessi merkjalýsing borin saman við lýsinguna í landamerkjabréfi Syðralóns eru vesturmerki Þorsteinsstaða og austurmerki Grímólfsártungu í báðum tilvikum miðuð við Grímólfsá frá upptökum hennar og þar til hún fellur saman við Hafralónsá. Ágreiningur er um mörk Grímólfsártungu, á heiðinni, við aðliggjandi jörð Tungusel og Þorsteinsstaði. Í landamerkjabréfi fyrir Tungusel, frá 20. apríl 1885 og þingl. 27. júní 1982, er vesturmerkjum lýst svo: „að vestan Tunguá innað kílamótum þá austara Tungárdrag innað Arnarfjallahyrnu og þaðan bein stefnu í Hafralón“. Hér er ljóst að merkjalýsing er ekki í fullu samræmi við lýsingu á merkjum Grímólfsártungu. Engin merkjalýsing er til fyrir það landsvæði sem Svalbarðs- og Þórshafnarhreppur hafa gert tilkall til og liggur sunnan við Grímólfsártunguna en afmörkun hreppanna er í samræmi við merkjalýsingar Syðralóns.“
Í úrskurði óbyggðanefndar er dregið fram að ágreiningur sé með landeigendum í Tunguseli og stefnanda, sem varði það hvort Stóriás og landsvæði þar um kring sé innan merkja Grímólfsártungu eða Tungusels. Segir nánar um það að landeigendur hafi í kröfulýsingum sínum fyrir óbyggðanefnd miðað við sömu kvísl Grímólfsár frá því undir Arnarfellshyrnu þar til komið er nokkuð suðvestur af Arnarfjöllum. Þaðan miði eigendur Syðra-Lóns við þá kvísl, sem rennur austan við Stóraás, en af hálfu eigenda Tungusels og Þorsteinsstaða sé hins vegar dregin lína í Hafralón. Segir um þetta í úrskurðinum að í landamerkjabréfi Syðra-Lóns sé miðað við upptök Grímólfsár og Hafralónsár, en af þeirri lýsingu verði ekki ráðið hvernig landsvæðið lokast til suðurs þar eð ár þessar eigi ekki sameiginleg upptök. Er sú skoðun sett fram í úrskurðinum að að þessu gættu séu staðhættir á því svæði sem krafist sé vegna Syðra-Lóns ekki í samræmi við landamerkjabréfið. Þá segir enn fremur að við mat á þessum merkjalýsingum sé til þess að líta að bæði í lýsingum á Grímólfsártungu og Þorsteinsstöðum sé óglöggt við hvaða kvísl Grímólfsár skuli miða. Lýsingin á merkjum Tungusels sé hins vegar afdráttarlaus, og segir að það mæli því í mót að merki Grímólfsártungu liggi eins austarlega og eigendur Syðra-Lóns miði við í kröfugerð sinni. Að öllu þessu virtu segir í úrskurðinum:
„Óbyggðanefnd telur í bestu samræmi við framangreindar merkjalýsingar Grímólfsártungu og aðliggjandi landsvæða að á umræddu ágreiningssvæði sé miðað við þá kvísl Grímólfsár sem liggur vestan við Stóraás að upptökum hennar og þaðan í Hafralón.“
Í umræddum kafla er gerð grein fyrir forsendum óbyggðanefndar fyrir lokaniðurstöðum, þannig:
„Fyrirliggjandi gögn benda til þess að merkjum Grímólfsártungunnar til vesturs gagnvart Hvammi sé rétt lýst svo langt sem sú lýsing nær. Hins vegar lýsir bréfið ekki merkjum Grímólfsártungu til suðurs auk þess sem lýsing á merkjum til austurs gagnvart Tunguseli og Þorsteinsstöðum eru óglögg svo sem hér hefur nánar verið rakið. Skjal þetta var þinglesið og innfært í landamerkjabók sýslumanns. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða en hins vegar verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega (…). Með því að gera landamerkjabréf hafa menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt. Frá upphafi Íslandsbyggðar helguðu menn sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem voru háð beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði gaf eitthvað af sér lágu hagsmunir til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Ber um þetta efni sérstaklega að vísa til dóms Hæstaréttar 28. september 2006 í máli nr. 497/2006 (Hoffellslambatungur).
Kemur þá til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan framangreindra merkja. Svo sem rakið er í kafla 6.2. er því ekki lýst í Landnámabók hversu langt inn til fjalla landnám á þessu svæði náði. Af því verða engar afdráttarlausar ályktanir dregnar um hvort í öndverðu hafi verið stofnað til beins eignarréttar á þessu svæði með námi.
Hvergi kemur fram í heimildum að á Grímólfsártungu hafi verið búseta af nokkru tagi, sjálfstæð jörð eða hjáleiga. Henni er fyrst lýst í landamerkjabréfi Syðralóns frá árinu 1916. Sú aðgreining Grímólfsártungunnar frá Syðralóni sem þar kemur fram bendir til þess að svæðið hafi verið afréttur og aðskilið frá öðru landi jarðarinnar. Engin gögn liggja fyrir um að Grímólfsártungan hafi nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og annarra takmarkaðra nota. Sama verður einnig ráðið af staðháttum og gróðurfari en um er að ræða fjallaland fjarri byggð. Landið er nýtt til beitar og smalað af jörðum í sveitinni. Eldri heimildir benda til þess að Grímólfsártunga hafi verið afréttur sem tilheyrt hafi Syðralóni.“
Er í framhaldi af þessari umfjöllun af hálfu óbyggðanefndar vísað til áðurrakinnar sóknarlýsingar séra Stefáns Einarssonar frá árinu 1840, en einnig til fyrirliggjandi jarða- og fasteignamata fyrir Syðra-Lón, en síðan segir:
,,Að öllu framangreindu virtu hefur, af hálfu eiganda Syðralóns, ekki verið sýnt fram á að Grímsólfsártungan sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. (Sbr. lokakafla í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar í viðauka). Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að Grímólfsártungan sé í afréttareign Syðralóns. Til þess verður þó að líta að þjóðlendukrafa ríkisins nær ekki til nyrsta hluta Grímólfsártungunnar. Líkt og nánar er rakið er óbyggðanefnd bundin af kröfugerð aðila, hvort heldur er íslenska ríkisins eða annarra, og verður því að leysa úr máli á þeim grundvelli, sbr. þá ályktun sem dregin verður af dómum Hæstaréttar frá 6. september 2005 í máli nr. 367/2005 og 16. maí 2007 í máli nr. 571/2006. Af þessum sökum verður nyrsti hluti Grímólfsártungu talinn utan þjóðlendu.“
Samkvæmt framansögðu var það niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði, Grímólfsártunga, svo sem það var afmarkað hér að framan, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, en jafnframt að sama landsvæði sé afréttareign Syðra-Lóns, samkvæmt ákvæðum. 2 mgr. 5 gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Í stefnu, og við flutning málsins, er því lýst af hálfu stefnanda að ekki séu gerðar athugasemdir við niðurstöður óbyggðanefndar um merki Grímólfsártungu gagnvart Tunguseli og Þorsteinsstöðum.
Dómkröfur sínar um að allt land Syðra-Lóns, þ.m.t. Grímólfsártunga, sé eignarland byggir stefnandi á áðurlýstu þinglýstu landamerkjabréfi fyrir jörðinni, ásamt afsölum og öðrum skráðum eignarheimildum, þ.m.t. þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða. Bendir stefnandi á að fullur hefðartími sé liðinn frá því að þessum gögnum var þinglýst. Þá hafi öll afnot og nytjar landsins verið háð leyfi landeigenda, og hafi enginn notað landið með nokkrum hætti fyrir utan eigendurna. Byggir stefnandi á því að samkvæmt þessu hafi hann óskoraðan eignarrétt yfir greindu eignarlandi, öllum gögnum þess og gæðum.
Aðalkröfu sína byggir stefnandi nánar á því að umrætt landsvæði, Grímólfsártunga, sé háð eignarrétti/eða sé eign hans, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 62, 1994.
Byggir stefnandi á því að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því. Bendir stefnandi á að hér sé um meginreglu íslensks eignarréttar að ræða. Hann byggir og á því að umrætt landsvæði hafi allt frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti, enda fari landnámsheimildir á Langanesi ekki í bága við landamerki jarðarinnar.
Stefnandi bendir á að landamerkjabréf jarðarinnar sé byggt á eldri heimildum, svo sem sóknarlýsingu frá 1840 eins og rakið sé í úrskurði óbyggðanefndar. Þessar eldri heimildir fari því ekki gegn landamerkjabréfinu, en þar um vísar hann til þeirra sjónarmiða er fram hafi komið í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004, þar sem það hafi verið talið skipta máli hvort land teldist innan upphaflegra landnáma og hvort með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum. Bendir stefnandi á að við setningu landamerkjalaganna nr. 5, 1882 og síðan laganna nr. 41, 1919 um sama efni hafi verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna og þau skráð og að leyst yrði úr ágreiningi um merki ef slíkt væri fyrir hendi. Með vísan til þessa er á því byggt af hálfu stefnanda að nefnd Grímólfsártunga séu landsvæði sem sé háð beinum eignarrétti.
Stefnandi byggir ennfremur á því að áðurnefndar eignarheimildir hafi frá upphafi verið taldar gildar í viðskiptum manna og byggir hann því á viðskiptavenju og venjurétti, sbr. til hliðsjónar athugasemd við 5. gr. í frumvarpi til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.
Á því er byggt af hálfu stefnenda að ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að greint land sé innan landamerkja jarðarinnar og því sé það undirorpið fullkomnum eignarrétti. Bent er á að hafi ríkisvaldið nokkru sinni getað haft uppi véfengingarkröfu á hendur eigendum Syðra-Lóns þá sé ljóst að hún sé niður fallin nú vegna fyrningar og tómlætis. Hafi öllum heimildarskjölum eigenda jarðarinnar verið þinglýst athugasemdalaust.
Þá byggir stefnandi á því að í ljósi áðurnefndra gjörninga fyrir ráðstöfun landsins hafi stefnandi fært fram nægar heimildir fyrir eignartilkalli sínu, enda hafi allir skattar og lögboðin gjöld verið greidd af öllu landinu. Það sé því ríkisins að hrekja þá staðhæfingu stefnanda að umrætt þrætuland sé ekki fullkomin eign hans. Hafi allt land innan landamerkjanna samkvæmt röktu landamerkjabréfi og verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Verði og að telja að það hafi mikla þýðingu að eigendur hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum sé rétt lýst og eigendur grannjarða virt og viðurkennt merkin.
Af hálfu stefnanda er um framangreint vísað til almennra niðurstaðna óbyggðanefndar, þess efnis að landsvæði, sem talið hefur verið jörð samkvæmt elstu heimildum og landamerkjalýsing fer ekki í bága við eldri heimildir, sé landið beinum eignarrétti háð. Og sá er haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því, sbr. t.d. fyrrnefndur dómur Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.
Stefnandi vísar til þess að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign/eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstól Evrópu. Bendir stefnandi á að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið túlkað af dómstólum á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu. Með sjálfstæðri merkingu sé átt við mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar nefndrar 1. gr. og þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis sem í hlut eigi. Skortur á slíkri vernd í landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum hvort um eign sé að ræða í skilningi nefndrar 1. gr. Bendir stefnandi á að um eign í skilningi ákvæðisins geti verið að ræða þótt dómstólar aðildarríkis hafi ekki talið svo vera samkvæmt innanlandsrétti. Mannréttindadómstóllinn hafi lagt mat á atvik máls í hverju tilviki fyrir sig og lagt áherslu á að úrslitum réði tiltekið heildarmat. Þannig hafi dómstóllinn bæði litið til staðreynda og lagalegra atriða, en við matið hafi í ákveðnum tilvikum það t.d. einnig ráðið úrslitum hvernig farið hafi verið með umrædda eign í framkvæmd, sérstaklega í lögskiptum, og hvaða traust menn báru til þeirrar framkvæmdar. Þá hafi framkoma handhafa ríkisvaldsins í garð eiganda einnig skipt máli. Og í þeim málum þar sem komið hafi verið fram við einstaklinga eða lögaðila sem réttmæta eigendur ákveðinna eigna hafi slík framkoma verið talin vekja ákveðnar væntingar hjá þeim aðilum um löglegt eignarhald sitt á þeim eignum. Bendir stefnandi á að af þessu megi ráða að afskipti og afskiptaleysi ríkisvaldsins skipti máli við greint sönnunarmat. Bendir stefnandi einnig á, að þegar tekið sé mið af dómum Hæstaréttar Íslands, en þó sérstaklega Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), hafi ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti viðurkennt eignarrétt landeigenda að jörðum, t.d. með því að þinglýsa eignaryfirfærsluskjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, gera um þær samninga og skattleggja þær, og séu réttmætar og lögmætar væntingar landeigenda verndaðar af þessum ákvæðum, sérstaklega nefndri 1. gr., ef þær eru byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi, sem tengdur er við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll.
Varðandi ofangreindar röksemdir vísar stefnandi til meðalhófsreglu stjórnskipunar- og stjórnsýslulaga og bendir á að ekki sé með réttu hægt að gera óhóflegar sönnunarkröfur, sem fyrirfram sé vitað að landeigandi geti ekki risið undir. Slíkt fari gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þá sé útilokað að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi og til dagsins í dag. Hins vegar verði að telja eðlilegt að stefndi beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi er í máli þessu. Um kröfugerð ríkisins gildi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, en skv. meðalhófsreglunni, sem lögfest hafi verið í 12. gr. þeirra laga, beri ríkisvaldinu að velja vægasta úrræði sem völ sé á við úrlausn máls. Er áréttað að í þessu máli verði ekki gerðar ríkari sönnunarkröfur á hendur landeigendum Syðra-Lóns varðandi Grímólfsártungu en til annarra landeigenda í landinu. Eigendur hafi í ljósi eignarheimilda sinna og áðurnefndrar viðurkenningar ríkisvaldsins á þeim, lengi haft réttmæta ástæðu til að vænta þess að jörðin sé beinum eignarrétti háð. Þessi eignarréttur verði ekki af þeim tekinn bótalaust, enda hann varinn í stjórnarskrá Íslands og af áðurnefndum mannréttindaákvæðum, er hafi lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62, 1994.
Þá byggir stefnandi eignarréttarkröfu sína á hefð og venjurétti og bendir á að allir hafi litið svo á um ómunatíð að allt land Syðra-Lóns sé eignarland og hafi enginn haldið öðru fram fyrr en ríkið nú við meðferð þjóðlendumála á svæðinu. Vísar hann til þess að úr því að hefðarlög heimili eignarhefð lands, sem sé í opinberri eigu, þeim mun fremur hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé eignarrétti háð. Sjónarmið um hefð séu því til staðfestingar á námi og festi eignarréttinn í sessi. Að þessu leyti vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar frá árinu 1997, bls. 792, og frá árinu 1989, bls. 28.
Auk ofannefndra röksemda byggir stefnandi á því að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám, enda sé talið að landið hafi verið vel gróið upp í 600-700 metra hæð. Atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ráði því ekki úrslitum þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði. Er um greind atriði einnig vísað til niðurstöðu óbyggðanefndar í sambærilegum málum. Auk þessa bendi stefnandi á að notkun lands þurfi ekki að gefa vísbendingu um hvort land sé eignarland eða ekki. Sem dæmi megi nefna að mjög stór hluti lands á láglendi sé ekki í heilsársnotkun af skiljanlegum ástæðum. Yfir vetrartímann sé landið gegnfrosið og engin skepna fari þar um. Þá bendir stefnandi á að venjur varðandi fjallskil geti ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð, sbr. t.a.m. úrskurð óbyggðanefndar um landsvæði í uppsveitum Árnessýslu frá 21. mars 2002.
Stefnandi bendir á að athugasemdir við frumvarp það er hafi orðið að lögum nr. 58, 1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlan löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið. Þessu til viðbótar bendir stefnandi á að mikilvægt sé að íslenska ríkið viðurkenni eignarrétt hans á hluta Grímólfsártungu því fráleitt sé að landsvæðið hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu. Í því viðfangi bendir stefnandi á dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 448/2006 um Stórhöfða og nr. 536/2006 um Hvítmögu. Vegna þessa alls sé óhjákvæmilegt annað en að fella fyrrnefndan úrskurð óbyggðanefndar úr gildi varðandi Grímólfsártungulandið.
Stefnandi gerir í málarekstri sínum ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar. Falla þær í meginatriðum saman við framangreindar málsástæður og lagarök hans. Hann áréttar m.a. að það sé almenn lagaregla á Íslandi að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar og að frá þeirri reglu verði ekki vikið nema sá sem véfengir réttmæti eignarheimildarinnar sýni fram á betri rétt sinn eða annarra eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um eignarréttinn. Telur stefnandi að sú ríka sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á stefnanda með því að krefjast sannana um framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar né heldur mannréttindasáttmála Evrópu og sé málatilbúnaður stefnda að auki í andstöðu við tilgang löggjafans, sbr. að því leyti ákvæði 1. gr. laga nr. 58, 1998. Þannig byggist niðurstaða óbyggðanefndar varðandi þrætulandið, að áliti stefnanda, alfarið á því að beinn eignarréttur hafi ekki stofnast í öndverðu. Með vísan til framangreindra sjónarmiða og til fjölmargra dómafordæma Hæstaréttar og Evrópudómstólsins telur stefnandi að þessi niðurstaða óbyggðanefndar sé röng. Að auki hafi nefndin ekki gætt réttlátrar málsmeðferðar, hún ekki rökstutt niðurstöður sínar nægjanlega, þ.á m. um hefð, en að auki hafi öll vafaatriði verið túlkuð íslenska ríkinu í hag. Hafi allt þetta verið í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Nefndin hafi og ranglega metið sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á stefnanda, sem ekki fái staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, enda sé þetta í andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, sbr. og 16. gr. laga nr. 58, 1998. Þannig séu t.a.m. engin rök færð fram fyrir því hvers vegna umrætt landsvæði, sem metið hafi verið til eigna Syðra-Lóns frá 1849 í jarðamati, hafi verið utan landnáms. Heldur stefnandi því fram að ef einungis hafi verið um beitarrétt að ræða þá hefði svæðið ekki verið metið til fasteignamats á nefndu ári.
Stefnandi kveður varakröfu sína byggja á sömu sjónarmiðum og aðalkrafan. Bendir hann á að í lögum nr. 58, 1998 um þjóðlendur sé beinlínis gert ráð fyrir því að þeir sem nýtt hafi land innan þjóðlendu skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um, sbr. 5. gr. Ennfremur bendir stefnandi á reglur um stofnun ítaka þar sem m.a. sé rætt um að háttsemi aðila eða þegjandi samþykki geti orðið til þess að ítaksréttur stofnist. Stefnandi hafi um áratugaskeið notið auðlinda á áður greindu landsvæði, m.a. nýtt vatn fyrir skepnur í fullan hefðartíma. Ennfremur bendir stefnandi á að í lögum nr. 57, 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé gert ráð fyrir því í 3. gr., að þjóðlendur séu eign íslenska ríkisins nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.
Um lagarök vísar stefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr., til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefð, réttarvenju og tómlæti, en að auki vísar hann til þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis borgaranna. Þá vísar stefnandi til mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans og til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, m.a. að því er varðar varnarþing og málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er á því byggt að landsvæði það sem mál þetta varðar, svokölluð Grímólfsártunga, sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998. Telur stefnandi fullljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnanda, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.
Af hálfu stefnda er um röksemdir vísað til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar. Úrskurðurinn sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið, að við gildistöku laga nr. 58, 1998, hafi landsvæði það sem um sé deilt í málinu talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma. Stefndi kveðst gera niðurstöður nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfu.
Stefndi tekur undir með óbyggðanefnd, að fyrirliggjandi heimildir er varði eignarréttarlega stöðu Grímólfsártungu bendi til þess að um sé að ræða afréttarsvæði, sem ekki sé undirorpið beinum eignarrétti. Er til þess vísað að í landamerkjabréfi Syðra-Lóns frá 4. nóvember 1916, sé annars vegar lýst merkjum heimalandsins og hins vegar merkjum utan eignarlands. Er á því byggt að þótt landamerkjabréfið taki til nefnds landsvæðis beri að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þannig hafi aðilar með gerð slíkra bréfa ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 (Biskupstungnaafréttur). Bendir stefndi á að við mat á gildi landamerkjabréfa beri og að gæta að því að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Og þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki er unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Þá bendir stefndi á að sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. Að áliti stefnda verður við mat á gildi landamerkjalýsingar nefnds svæðis að horfa til þess að ekki verði séð að bréfið hafi verið samþykkt af eigendum allra aðliggjandi jarða.
Stefndi byggir á því að staðhættir svo og fjarlægð frá byggð bendi til þess að umrætt landsvæði hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti. Er á það bent að í Landnámu sé því ekki lýst hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnámið hafi náð. Er áréttað að ólíklegt verði að telja að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, það sé lítt gróið, en gróður aukist eftir því sem norðar dregur. Er til þess vísað að nyrst á þessu landsvæði, Grímólfsártungu, sé Grænavatn, í um 300 m hæð yfir sjávarmáli, en úr því renni Grænavatnslækur í Grímólfsá. Sunnan vatnsins rísi Ytra-Kistufell (445 m) og sunnan þess sé Syðra-Kistufell (474 m). Sunnan Kistufjalla liggi breið melbunga sem kallist Stóriás (523 m), en þar í milli sé votlend lægð í 460 til 480 m hæð yfir sjávarmáli. Austan Hafralónsár, syðst á landsvæðinu sé votlent og hallalítið land.
Af hálfu stefnda er til þess vísað að hvergi komi fram í heimildum að á Grímólfártungu hafi verið búseta af nokkru tagi, sjálfstæð jörð eða hjáleiga. Vísar stefndi til þess að landsvæðisins hafi fyrst verið getið í landamerkjabréfi Syðra-Lóns frá árinu 1916. Tekur stefndi undir þá ályktun óbyggðanefndar, að sú aðgreining Grímólfsártungu frá Syðra-Lóni, sem þar komi fram, bendi til þess að svæðið hafi verið afréttur og aðskilið frá öðru landi jarðarinnar. Ekki verði því talið að umrætt svæði sé jörð í eignarréttarlegum skilningi þess orðs. Jörðin Syðra-Lón liggi jafnframt ekki að hinni umþrættu Grímólfsártungu, en þar í milli séu nokkrar jarðir, m.a. Hallgilsstaðir og Tungusel. Milli Syðra-Lóns og nyrsta hluta Grímólfsártungu séu u.þ.b. 23 km í beinni loftlínu, en um það atriði er vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 133/2006 (Hrunaheiðar).
Stefndi áréttar að engin gögn liggi fyrir um að nefnt landsvæði hafi nokkurn tíma verið byggt eða nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, eða annarra takmarkaðra nota. Er þar um vísað til þess sem áður var rakið um staðhætti og gróðurfar, en um sé að ræða fjalllendi fjarri byggð. Þá hafi fjallskil landsvæðisins verið á hendi sveitarfélagsins, enda landið nýtt til beitar af jörðum í sveitinni.
Stefndi bendir á að eldri heimildir bendi til þess að Grímólfsártunga hafi verið afréttur sem tilheyrt hafi Syðra-Lóni. Er þar um vísað til áðurrakinnar sóknarlýsingar séra Stefáns Einarsson á Sauðanesi um Grímólfsártungu frá 1840 og jarðamatsins frá 1849 og fasteignamats Norður-Þingeyjarsýslu 1916-1918.
Stefndi byggir á því að teljist heimildarskortur hvað ofanrakin atriði varðar vera fyrir hendi, leiði það til þess að ósannað sé að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands, t.d. í máli nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefnt mál nr. 48/2004. Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem heldur slíku fram.
Verði á hinn bóginn talið að nefnt landsvæði hafi verið numið í öndverðu, byggir stefndi á því að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota svo sem afréttarnota. Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Um síðastnefnda atriðið bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).
Verði hins vegar talið að greint landsvæði kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefndi á því til vara að allar líkur séu á að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.
Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um vísar hann m.a. til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda. Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.
Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnanda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á landsvæðinu. Bendir stefndi á að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnanda. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar heldur ekki stofnað til slíkra réttinda.
Að því er varðar varakröfu stefnanda þá andmælir stefndi henni með sömu rökum og að framan greinir og krefst sýknu. Stefndi mótmælir því sérstaklega að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignarréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvort heldur að hluta til eða að öllu leyti. Vísar hann m.a. til þess að um auðlindir í jörðu gildi lög nr. 57, 1998 um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu. Að mati stefnda gildir ákvæði 3. gr. laganna um nefnt landsvæði, enda um þjóðlendu að ræða, en ekki eignarland, samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Bendir stefndi á að ákvæðið feli í sér að í þjóðlendum séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Að áliti stefnda hafi stefnanda ekki tekist að sanna slíkan eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti. Stefndi bendir sérstaklega á það, sem rakið hefur verið hér að framan, að nýting svæðisins hafi verið takmörkuð, enda bendi heimildir til þess að svæðið hafi eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði. Slík takmörkuð not geti hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu.
Með vísan til þess sem hér að framan var rakið, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, hafi verið röng. Bendir stefndi á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: ,,..landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“. Engin gögn liggi hins vegar fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnanda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58, 1998. Við málflutning var af hálfu stefnda þetta áréttað og til þess vísað að þar sem að við kröfugerð ríkisins fyrir óbyggðanefnd hefðu verið gerð þau mistök að nyrsti hluti Grímólfsártungunnar hafi lent utan kröfulínu, þá verði ekki úr bætt á síðari stigum. Í þessu felist þó engin viðurkenning af hálfu ísenska ríkisins, en þar um er vísað til orða óbyggðanefndar hér að framan og til tilvitnaðra dóma Hæstaréttar Íslands.
Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnanda, svo sem þeim er lýst í stefnu, og krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 verði staðfestur.
Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998. Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944. Stefndi byggir jafnframt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not. Hann byggir á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905 og vísar til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil. Þá vísar hann til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæðis 129. og 130. gr.
Niðurstaða.
Með lögum nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.
Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Í lagagreininni er eignarland skilgreint þannig: „Landsvæði sem er háð einkaeignarétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“ Þá er í lagagreininni afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“
Fram að gildistöku þjóðlendulaga nr. 58, 1998 voru landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.
Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til þjóðlendulaga segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum. Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.
Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda. Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.
Eins og áður var rakið tilkynnti óbyggðanefnd með bréfi dagsettu 1. mars 2004 þá ákvörðun sína að í samræmi við III. kafla þjóðlendulaga ætlaði hún að taka til umfjöllunar landsvæði á Norðaustur- og Austurlandi, þ. á m. það svæði sem hér um ræðir, í Þistilfirði, á Langanesi og í Skeggjastaðahreppi. Að lokinni kröfugerð og málsmeðferð samkvæmt nefndum kafla laganna kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn, hinn 29. maí 2007, sbr. mál nefndarinnar nr. 4/2005. Varð það m.a. niðurstaðan að meirihluti þess landsvæðis sem hér um ræðir, svonefnd Grímólfsártunga, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., en að það landsvæði væri aftur á móti afréttareign lögbýlisins Syðra-Lóns á Langanesi. Um nyrsta hluta Grímólfsártungu var því lýst í niðurstöðunni að nefndin væri bundin af kröfugerð stefnda, í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands, m.a máli nr. 307/2005.
Það er álit dómsins að lýst málsmeðferð óbyggðanefndar, sbr. og kafli I, 1-4 hér að framan, hafi verið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og verður ekki fallist á með stefnanda að form- eða efnisgallar séu á úrskurðinum, þar á meðal að því er varðar meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, að varði ógildi hans. Þykir að þessu leyti mega vísa til hæstaréttarmálsins nr. 48/2004, en þar er það m.a. rökstutt að málsmeðferðin sé eigi andstæð 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 2994. Í þessu viðfangi þykir og fært að líta til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06: Örn Bergsson o.fl. gegn Íslandi.
Ágreiningsatriði máls þessa varðar samkvæmt framansögðu eignarréttarlega stöðu Grímólfsártungu í Langanesbyggð, áður Þórshafnarhreppi/Sauðaneshreppi. Krefst stefnandi viðurkenningar á beinum eignarrétti landsins, en verði ekki á það fallist krefst hann viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti til hvers kyns gagna og gæða líkt og lýst er í aðal- og varakröfu í stefnu. Af hálfu stefnda er krafist sýknu, og vísar hann um rökstuðning m.a. til niðurstöðu í nefndum úrskurði óbyggðanefndar.
Um mörk hins umdeilda landsvæðis, Grímólfsártungu, er ekki ágreiningur, sbr. það sem áður hefur verið rakið.
Í úrskurði óbyggðanefndar og þeim gögnum sem aðilar hafa vísað til og lagt fram, er m.a. lýst staðháttum og gróðurfari á Tunguselsheiði í Norður- Þingeyjarsýslu. Heiði þessi, sem er afréttarland Langnesinga, er suður af býlinu Tunguseli, um 50 km löng og 10-15 km breið. Þá er heiðin í um 300 til 550 m hæð yfir sjó. Í heimildum er heiðin talin gott sauðland þótt hluti hennar sé gróðurlítill. Vesturmörk heiðarinnar eru meðfram Hafralónsá og Stakfellskvísl, en suðurmörk, og þar með hreppaskil, eru fyrir sunnan Litla-Stakfell. Sá hluti heiðarinnar sem nær frá Hafralónsá og austur að Grímólfsá heitir Grímólfsártunga, eins og nánar er lýst í úrskurði óbyggðanefndar. Í framlögðum heimildum kemur fram að Kverká skipti Tunguselsheiðinni í Vesturheiði og Austurheiði. Innarlega á heiðinni eru Arnarfjöll, á móts við miðju Grímólfsártungunnar, en norður með þeim fjöllum skagar Sammælingshnjúkur. Segir í heimildum að nafn hnjúksins sé dregið af því að þar hafi gangnamenn Langnesinga sammælst um leitartilhögun, allt þar til gangnamannakofar voru byggðir á heiðinni.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að umþrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu. Samkvæmt Landnámu námu þrír nafngreindir menn Langanes og Þistilfjörð. Þeir Ketill þistill og Gunnólfur kroppa námu Langanesið, og sá síðarnefndi land utan Helkunduheiðar. Þá nam Kolli land þar vestan við, í Kolluvík og Sveinungsvík. Dómurinn fellst á röksemdir stefnda um að frásögn Landnámu sé harla óljós um landnámið og mörk þess. Verður meðal annars ekki ráðið umfram það sem áður sagði hversu langt inn til landsins landnámið hafi náð. Verða að þessu virtu að áliti dómsins ekki dregnar með vissu ályktanir um eignarréttarlega stöðu Grímólfsártungu út frá landnámi. Er málsástæðum stefnanda að þessu leyti því hafnað.
Stefnandi byggir kröfu sína um beinan eignarrétt að Grímólfsártungu á landamerkjabréfi eignarjarðar sinnar, Syðra-Lóns, sem skráð var árið 1916, en þinglesið ári síðar. Er merkjum heimalands jarðarinnar þar skilmerkilega lýst, en um önnur mörk segir: „Þess utan á Syðra-Lón þetta heiðarland: Hina svonefndu Grímólfsártungu sem er land alt milli Hafralónsár og Grímólfsár frá upptökum þeirra þar til þær falla saman.“ Stefnandi bendir m.a. á að landamerkjabréfið hafi stoð í eldri heimildum, ekki síst sóknarlýsingu séra Stefáns Einarssonar. Liggur fyrir að séra Stefán ritaði sóknarlýsinguna þann 30. september 1840, í næsta nágrenni við Syðra-Lón, þ.e á kirkjujörðinni Sauðanesi, en þar mun hann hafa þjónað á árunum 1812 til 1847.
Jörðin Syðra-Lón var fyrr á öldum í eigu Hólastóls. Samkvæmt Langnesingasögu var hún seld árið 1805 nefndum séra Stefáni Einarssyni, en hann var þá aðstoðarprestur föður síns á Sauðanesi.
Sóknarlýsing séra Stefáns er allítarleg, og er þar m.a kafli sem ber heitið afréttarlönd. Segir í kafla þessum að fyrir utan Fagranes á Langanesi séu nær engin afréttalönd í sókninni fyrr en komið er í lönd Hallgilsstaða og Tungusels. Segir og í lýsingunni, að nefndar jarðir eigi hin bestu og mestu afréttarlönd, en fyrir framan þær, þ.e. ofar og sunnar í landinu, sé almenningur sóknarinnar, en einnig nágrannabyggðanna Norðurstrandar eða Langanesstrandar, Vopnafjarðar og Þistilfjarðar. Að þessu sögðu segir í sóknarlýsingunni: „Hér í þessum almenningi eður á Grímólfsártungu lýsir Syðralón eftir 4 hundraða landi, er mér skilst eftir samanburði við annarra máldaga orðatiltæki sé sama land undir 400 fjár.“ Í lokaorðum greinds kafla um afréttarlönd lætur séra Stefán þess getið að hann hafi líkt og allir ábúendur á Langanesi fyrir framan kirkjujörðina Sauðanes rekið lömb sín og geldinga ,,í nefnda heiði“, þrátt fyrir að aðrir bændur í sókninni hefðu ekki tekið upp þann sið.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir að í jarðamati frá árinu 1804 hafi jörðin Syðra-Lón verið metin á 12 hundruð og að þá hafi verið tiltekið að henni fylgdi silungsveiði. Ekki er í þessu jarðamati vikið að Grímólfsártungulandinu í Tunguselsheiði. Það er hins vegar gert í jarðamati Syðra-Lóns frá árinu 1849. Segir þar að jörðinni tilheyri sérstakt afréttarland fram til heiða, sem nefnt sé Grímólfsártunga. Var hið sama skráð um jörðina í fasteignamati frá 1916, en þar sagði að hún hefði sumarhaga. Áður er rakið það sem segir í hinu þinglýsta landamerkjabréfi Syðra-Lóns frá árinu 1916.
Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli nr. 48/2008, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði. Segir í dómsmáli þessu m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Ennfremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Segir að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Jafnframt er sagt í dóminum, að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.
Ber við niðurstöðu máls þessa m.a. að hafa allt framangreint í huga.
Nefnd Grímólfsártunga er vestasti hluti Tunguselsheiðar, millum Hafralónsár og Grímólfsár. Eru engar haldbærar heimildir um að þar hafi verið byggð né að landsvæðið hafi fyrr eða síðar verið til annarra nota en sumarbeitar fyrir búfénað. Elsta heimildin sem lögð hefur verið fyrir dóminn þar sem Grímólfsártunga er nefnd er sóknarlýsing séra Stefáns Einarssonar frá árinu 1840, en eftir það er svæðisins getið í jarða- og fasteignamötum Syðra-Lóns, en síðast í lýstu landamerkjabréfi býlisins frá árinu 1916.
Þegar framangreind gögn eru virt, ekki síst þegar til þess er litið að orðalag séra Stefáns í margnefndri sóknarlýsingu er að áliti dómsins alls ekki afdráttarlaust um einkaeignarrétt heldur sé fremur um tilgreiningu á óbeinum eignarréttindum, og þegar litið er til legu þrætulandsins og fjarlægð frá byggð og loks þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndu hæstaréttarmáli, er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að hann eigi beinan eignarrétt að Grímólfsártungu á Tunguselsheiði. Að áliti dómsins benda framlögð gögn ekki til annars en að þetta landsvæði hafi verið hluti afréttar og þá eftir atvikum aðskilið frá öðru landi jarðar. Að þessu virtu og þar sem heimildarskjöl stefnanda styðjast ekki við önnur gögn en áður er lýst verður fallist á með stefnda, sbr. það sem segir í úrskurði óbyggðanefndar, að ekki hafi verið sýnt fram á að Grímólfsártunga sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.
Eins og fyrr var rakið eru engar heimildir fyrir um not þessa landsvæðis til annars en sumarbeitar. Hefur stefnandi að áliti dómsins ekki fært fram sönnun þess að skilyrði eignarhefðar á landinu hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem hann hefur haft af því, ásamt fleiri bændum á Langanesi. Hefur stefnandi að áliti dómsins heldur ekki rökstutt með neinum hætti frekar þau réttindi, sem varakrafa hans tekur til, eða hann að öðru leyti fært fram heimildir fyrir slíkum réttindum. Að þessu virtu og andmælum stefnda verður ekki séð að stefnandi hafi mátt vænta þess að hann ætti nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot. Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að Grímólfsártunga, fyrir utan ysta hluta hennar, sé þjóðlenda í afréttarnotum því staðfest. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili ber sinn kostnað af málarekstri þessum.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns 864.528 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.
Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna nokkurra anna dómara, en lögmenn aðila lýstu því yfir á dómþingi hinn 28. maí sl., sbr. fram lagðar yfirlýsingar, dagsettar 25. sama mánaðar, að endurflutningur væri óþarfur.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Brynhildar Halldórsdóttur, um að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í máli nr. 4/2005, þess efnis að hluti jarðarinnar Syðra-Lóns, svokölluð Grímólfsártunga sé þjóðlenda í afréttarnotum eigenda jarðarinnar Syðra-Lóns í skilningi 1. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr., laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta með þeim merkjum afnota sem nefndin hefur ákveðið samkvæmt c. lið 7. gr. sömu laga.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns 864.528 krónur.