• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2010 í máli nr. E-1175/2008:

Veiðiklúbburinn Strengur ehf

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Andri Árnason hrl.)

 

            Mál þetta höfðaði Veiðiklúbburinn Strengur með stefnu birtri 17. janúar 2008 á hendur íslenska ríkinu.  Málið var fyrst dómtekið að lokinni aðalmeðferð 15. janúar 2009.  Málið var endurupptekið 18. mars 2010 og á ný 16. júní sl.  Fór þá enn fram endurflutningur og var málið dómtekið. 

            Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í máli nr. 3/2005, þess efnis að hluti jarðarinnar Hvammsgerðis í Vopnafjarðarhreppi sé þjóðlenda, þ.e. þessi úrskurðarorð:

            Landsvæði utan landamerkja jarðarinnar Hvammsgerðis, suðvestur undir Ytri-Hágangi, svo sem það er afmarkað hér á eftir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: 

            Frá vatnaskilum á Ytri-Hágangi, á sveitarfélagamörkum og jafnframt í nyrðri kröfulínu vegna Hvammsgerðis, er vatnaskilum fylgt suður þar til kemur að skurðpunkti við syðri kröfulínu vegna Hvammsgerðis (sem jafnframt er nyrðri kröfulína Hróaldsstaða II) í máli þessu. Þeirri kröfulínu er síðan fylgt til norðvesturs að skurðpunkti við línu sem dregin er úr vörðu sem stendur á hól við Kistufellslæk í Hölknárdrög við nyrsta Hágangshorn. Hinni síðastnefndu línu er síðan fylgt til norðurs, að kröfulínu vegna Hvammsgerðis á sveitarfélagamörkum.  Loks er sveitarfélagamörkum fylgt til austurs í hinn fyrstnefnda punkt á vatnaskilum.

            Sama landsvæði er í afréttareign Hvammsgerðis, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. 

            Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra eignarheimilda Hvammsgerðis, og þar með þess, að allt land Hvammsgerðis sé eignarland í samræmi við kröfulýsingu sem sé í samræmi við landamerkjabréf jarðarinnar frá 7. júní 1884 þ.e „Að austan ræður Selá (p.1) að sunnan og vestan  milli Hvammsgerðis og Hróaldsstaða ræður Hvammsá (p.2) alla leið vestur í Hvammsárvatn. (p.3.) Að utan og norðan milli Hvammsgerðis og Hámundarstaða, er Borgarlækur (p.4) og úr honum í vörðu á svokölluðum Efsta-mel (p.5.) þaðan bein stefna í stóran stein tvíklofin á Miðöxl, þaðan aftur bein lína í ytri Hágangsröð (p.6.).“ 

            Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. 

            Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.  Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu, en til vara að málskostnaður falli niður. 

 

            Óbyggðanefnd starfar samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Með bréfi, dagsettu 1. mars 2004, tilkynnti nefndin fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði sem tekur yfir sveitarfélög í Múlasýslum auk hluta Norður-Þingeyjarsýslu, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998  Kröfulýsingar fjármálaráðherra á svæðinu bárust hinn 11. nóvember 2004.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð á svæðinu í Lögbirtingablaði 28. desember 2004 og skoraði á eigendur jarða að lýsa kröfum sínum.  Stefnandi lýsti kröfum sínum vegna jarðar sinnar, Hvammsgerðis í Vopnafjarðarhreppi.  Málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd lauk með úrskurði 29. maí 2007. 

            Í úrskurði óbyggðanefndar segir:

      „... Íslenska ríkið hefur dregið kröfulínu sína frá Hágangnaurð (punktur 1) beina línu í Þverfell (2).  Á móti hefur gagnaðili, þinglýstur eigandi Hvammsgerðis, lýst kröfu um beinan eignarrétt að því landsvæði sem hann telur að liggi innan merkja jarðarinnar samkvæmt landamerkjabréfi hennar. Kröfum íslenska ríkisins er nánar lýst í kafla 3.1. og kröfum gagnaðila í kafla 3.3. 

      Að Hvammsgerði liggja Hámundarstaðir til norðurs en Hróaldsstaðir til suðurs. Að norðvestan er ágreiningssvæði í máli nr. 4/2005 hjá óbyggðanefnd. Jörðin liggur yst í Selárdal, vestan Selár, en ágreiningssvæði aðila er í suður- og austurhlíðum Ytri-Hágangs (723 m).  Frá bæjarstæði Hvammsgerðis i Ytri-Hágang (923 m) eru rúmlega 14,7 km í beinni loftlínu.  ...

 

      Niðurstaða.

      Saga afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar að Hvammsgerði er rakin í kafla 5.3.  Þar kemur fram að þess er getið fyrst í byggingarbréfum fyrir Hámundarstaði frá árunum 1663 og 1669.  Af heimildum verður ráðið að Hvammsgerði var áður hluti jarðarinnar Hámundarstaða, sbr. kafla 6.3.  Lýsingar Landnámabókar benda til þess að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar sé a.m.k. að einhverju leyti innan upphaflegs landnáms, sbr. kafla 6.2. 

      Kemur þá til skoðunar hvernig merkjum Hvammsgerðis er lýst í landamerkjabréfi frá 7. júní 1884 og þingl. 11. júní 1886.  Hvammsgerði sýnist hafa rúmast innan merkjalýsinga fyrir Hámundarstaði áður en landamerkjabréf voru gerð fyrir jarðirnar á árunum 1884 og 1885.  Ber þar að nefna merkjalýsingar í skoðunargjörð frá 1657, byggingarbréfum 1663 og 1669, vitnisburði 1669 og lögfestu frá 1845. Jafnframt verður litið til gagna um merki þeirra landsvæða sem liggja að Hvammsgerði.  Athugun þessi tekur til norðvesturmerkja jarðarinnar, inn til landsins og innan kröfusvæðis íslenska ríkisins.  Að fenginni niðurstöðu um landamerki Hvammsgerðis verður fjallað um eignarréttarlega stöðu landsvæðisins. 

      Samkvæmt landamerkjabréfi Hvammsgerðis eru merki jarðarinnar til norðvesturs og vesturs, gagnvart Hámundarstöðum, og landsvæðum sem fjallað er í um máli nr. 4/2005 hjá óbyggðanefnd, svofelld:  „ ... að utan og norðan milli Hvammsgerðis og Hámundarstaða, er Borgarlækur og úr honum í vörðu á svokölluðum Efsta mel...“ og þaðan beina stefnu í stóran stein tvíklofinn á Miðöxl og þaðan aftur beina línu í Ytri Hágangsröð.  Bréfið er áritað vegna Hámundarstaða og í samræmi við lýsingu í bréfi þeirrar jarðar, sbr. kafla 6.3.  Landamerkjabréf Hvammsgerðis er hins vegar ekki áritað vegna Gunnarsstaða og Miðfjarðar né heldur bréf þeirra vegna Hvammsgerðis.  Í áðurnefndu máli nr. 4/2005 er komist að þeirri niðurstöðu að eignarland Gunnarsstaða og Miðfjarðar nái ekki suður að krõfusvæði eiganda Hvammsgerðis og úrskurðuð þjóðlenda í afréttareign á tilteknu svæði. 

      Samkvæmt landamerkjabréfi Hvammsgerðis eru merki til suðvesturs, gagnvart Hróaldsstöðum, með Hvammsá vestur í Hvammsárvatn.  Landamerkjabréf Hróaldsstaða, þingl. 24. júní 1884, lýsir þessum merkjum eins.  Fyrr í bréfinu segir að merkin liggi frá Upsarenda og eftir sömu línu norður heiðina þar sem vötnum fer að halla norður af.  Eldri heimildir um merki Hróaldsstaða miða einnig við Hvammsá „upp í ups“, í „efstu ups“ eða „upp á háfjall sem vötn deila“, sbr. kafla 6.5. 

      Hvammsgerði var áður innan merkja Hámundarstaða og í eldri heimildum um suður- og norðvesturmerki Hámundarstaða, er miðað við Hvammsá og vatnaskil eða örnefni sem liggja í námunda við vatnaskil.  Þannig er merkjum lýst svo í skoðunargjörð sem fram fór á árinu 1657: „Landamerke Jardarennar mille Hvamms á hid fremra, enn fuglabiarga á hid ytra upp ad axlarhædunum Sídan Siónhendijng upp effter upp umm þvera Sveina (þad eru Wordur hladnar), er þar halldenn fiórdungur af Sandwíkur heide, og so upp sem Wötnum hallar. Í byggingarbréfi frá árinu 1669 voru takmörk jarðarinnar „... i midlum Hvamz ár og fuglabjarga ár uppa Hafiall sem Wötn deila... “  Í lögfestu, fyrir Hámundarstaði sem útbúin var 1845 eru merki þessi: „... Ad utan verdu úr Fuglabiargarárósi í Stóra lækiartánga beint þadann á Brúnina fyrir framann fremsta Sellæk, þadann beinst i Grénishöfda, þadan beint vestr Höfda og sunnan vid Ytra Hágáng i Hvamsá.“  Aðrar eldri heimildir, byggingarbréf 1663 og vitnisburður 1669, eru ógleggri að þessu leyti. 

      Hér skal þess getið að u.þ.b. 8 km suður af Ytri-Hágangi (923 m) er Syðri-Hágangur (952 m) og þar á milli er Þverfell (650 m).  Fjallaröð þessi myndar skýr landfræðileg mörk og vatnaskil vestur af Selárdal og heiðarlöndum ofan hans. 

      Óbyggðanefnd telur að eldri heimildir um Hámundarstaði styðji þá skýringu á landamerkjabréfum Hámundarstaða og Hvammsgerðis að merki þeirra til norðvesturs miðist við Ytri-Hágang.  Sömu heimildir styðja einnig þá skýringu á bréfi Hvammsgerðis að miða við vatnaskil frá Ytri-Hágangi og suður yfir Þverfellsdal.  Á þeim slóðum eru nokkur vötn og þaðan rennur Hvammsá í mörgum kvíslum.  Vatnaskilin skera það landsvæði sem ágreiningur málsaðila tekur til.  Um þýðingu þessa við mat á eignaréttarlegri stöðu landsins verður fjallað hér síõar. 

      Í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882 var gert landamerkjabréf fyrir jörðina Hvammsgerði.  Fyrirliggjandi gögn benda til þess að landamerkjum hennar sé þar rétt lýst, svo langt sem sú lýsing nær.  Bréfið var undirritað af eiganda jarðarinnar, þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki jarðarinnar, án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna.  Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda.  Jafnframt er ljóst að eigendur Hvammsgerðis hafa um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst. 

      …

      Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu íslenska ríkisíns að land innan tilgreindra landamerkja jarðarinnar Hvammsgerðis sé þjóðlenda.  Á hinn bóginn hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu gagnaðila að merki jarðarinnar nái svo langt til norðvesturs sem gerð er krafa til.  Ræðst því afmörkun að því leyti af vatnaskilum, líkt og aõ framan er rakið.  Ekki hefur verið sýnt fram á að utan merkja jarðarinnar Hvammsgerðis, en innan kröfusvæðis eiganda hennar í máli þessu, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.  Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að vestan umræddrar vatnaskilalínu sé þjóðlenda en austan hennar eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998. 

      ...  Verður því fallist á að landið sé í afréttareign Hvammsgerðis. 

      Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði utan landamerkja jarðarinnar Hvammsgerðis, suðvestur undir Ytri-Hágangi, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóõlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: 

Frá vatnaskilum á Ytri-Hágangi, á sveitarfélagamörkum og jafnframt í nyrðri kröfulínu vegna Hvammsgerðis, er vatnaskilum fylgt suður þar til kemur að skurðpunkti við syðri kröfulínu vegna Hvammsgerðis (sem jafnframt er nyrðri kröfulína Hróaldsstaða II) í máli þessu.  Þeirri kröfulínu er síðan fylgt til norðvesturs að skurðpunkti við línu sem dregin er úr vörðu sem stendur á hól við Kistufellslæk í Hölknárdrög við nyrsta Hágangshorn.  Hinni síðastnefndu línu er síðan fylgt til norðurs, að kröfulínu vegna Hvammsgerðis á sveitarfélagamörkum.  Loks er sveitarfélagamörkum fylgt til austurs í hinn fyrstnefnda punkt á vatnaskilum. 

      Sama landsvæði er í afréttareign Hvammsgerðis, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“ 

 

            Féllst nefndin á að allt land innan merkja væri eignarland.  Ágreiningur málsins snýst hins vegar fyrst og fremst um það hvar vatnaskil séu á þessu svæði.  Nefndin fól Orkustofnun að mæla og teikna vatnaskil inn á kort og miðar hún niður­stöðu sína við þá mælingu.  Stefnendur kveðast telja að raunveruleg vatnaskil séu ofar (vestar). 

            Stefndi hefur ekki fyrir sitt leyti höfðað mál til ógildingar á einhverjum niður­stöðum í úrskurði nefndarinnar. 

            Svæði þetta er hluti stærra svæðis sem eins er ástatt um.  Lína sú sem óbyggða­nefnd dregur sem mörk eignarlands, milli Ytri-Hágangs og Syðri-Hágangs, er sú sama og fjallað er um í málum sem varða þrjár nágrannajarðir.  Hér í dóminum er auk þessa máls rekið mál vegna jarðarinnar Áslaugarstaða, sem liggur syðst þessara jarða, en mál vegna jarðanna Hróaldsstaða I og II var rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands. 

            Vitni voru ekki leidd við aðalmeðferð málsins.  Hjá óbyggðanefnd höfðu verið teknar skýrslur af eigendum Hróaldsstaða I og II. 

            Í Landnámu er lýst landnámi í Vopnafirði.  Um það svæði sem hér er fjallað um segir að Hróaldur bjóla, fóstbróðir Eyvindar vopna, hafi numið land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness og búið á Torfastöðum.  Hvammsgerði og áðurnefndar nágrannajarðir eru í þessu landnámi. 

            Ekki er í Landnámu eða síðari jarðatölum skýr afmörkun á eignarlandi hverrar jarðar.  Í úrskurði óbyggðanefndar er fjallað um gögn sem fundust um Hámundarstaði, en Hvammsgerði er í sumum heimildum talið vera nýbýli úr landi þeirrar jarðar.  Í öðrum heimildum er jörðin talin hjáleiga frá Hróaldsstöðum, eins og segir í úrskurði óbyggðanefndar.  Eins og áður segir var rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands mál um þjóðlendumörk við Hróaldsstaði, en í reynd er þar deilt um sömu línu og merki og deilt er um hér. 

            Fyrir óbyggðanefnd var lögð greinargerð Hjörleifs Guttormssonar, náttúru­fræðings, um staðhætti og náttúrufar í Vopnafjarðarhreppi.  Greinargerðin er dagsett í maí 2006.  Þar segir um jarðveg og gróðurfar að Vopnafjörður sé að yfirbragði grænn yfir að líta, jarðvegur sé víðast hvar órofinn í byggð, mikið mýrlendi sem ekki hafi verið ræst fram.  Rof sé hins vegar mikið til fjalla.  Þar sem meðalhiti sé tiltölulega lágur liggi mörk samfellds gróðurs lægra hér en sunnar.  Þetta sé þó lítt rannsakað.  Í greinargerðinni er vitnað til uppdráttar Eyþórs Einarssonar og Einars Gíslasonar, Hug­mynd um gróðurlendi á Íslandi við landnám.  Þar sé sýndur skógur og kjarr inn eftir öllum Vopnafjarðardölum og um alla hálsa milli dala.  Hjörleifur segir að heimildir séu hins vegar takmarkaðar um skóga í Vopnafirði fyrr á öldum.  Sé svo að sjá sem þeir hafi eyðst þar mun fyrr en á Héraði.  Kunni mikil sauðfjárrækt og útbeit og fremur lágur meðalhiti að valda því. 

            Í landamerkjabréfi Hvammsgerðis frá 1884 eru merki gagnvart Hróaldsstöðum sögð vera Hvammsá, alla leið vestur í Hvammsárvatn

            Í jarðamati 1849 er Hvammsgerði kallað afbýli undan Hámundarstöðum.  Segir að útheyskapur sé mikill, en langsóktur.  Þá eigi jörðin afrétt fyrir sig og geti tekið 200 fjár af öðrum. Sömuleiðis er í fasteignamati 1930-32 sagt að afréttarland jarðarinnar sé gott og mikið. 

            Eldri heimildir eru fáar og gefa ekki skýra mynd af ágreiningsefni þessa máls.  Eru þeim gerð skil í úrskurði óbyggðanefndar sem tekinn var upp að hluta til hér að framan. 

 

            Málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnandi telur að raunverulega séu vatnaskil ofar og vestar en sýnt er á korti Orkustofnunar, sem óbyggðanefnd miðar við í úrskurði sínum. 

            Stefnandi telur að lýsing Landnámu sem að framan er rakin sýni að allt land í Vopnafirði hafi verið numið.  Landnáma hafi einatt verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt og vísar stefnandi hér til dómafordæma og niðurstaðna í úrskurðum óbyggðanefndar.  Því er haldið fram af hálfu landeigenda að allt land í Vopnafjarðarhreppi hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti.

            Stefnandi kveðst taka Landnámu sem réttarheimild með ákveðnum fyrirvara.  Hins vegar mótmælir hann því sjónarmiði ríkisins að heiðar og fjöll hafi ekki verið numin.  Á það hafi óbyggðanefnd heldur ekki fallist, þó með undantekningu er stefnandi segir furðulega.  Enginn rök standi til þess að skilja þrætusvæðið í þessu máli undan öðru eignarlandi í sveitarfélaginu.  Sú niðurstaða byggist á óljósum gögnum og fari í bága við þinglýst landamerkjabréf, gróðurfar og eðlilega túlkun á merkjum samkvæmt vatnaskilum. 

            Stefnandi vísar til friðhelgi eignarréttar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.  Kveðst hann styðja mál sitt við landamerkjabréf jarðarinnar frá 7. júní 1884.  Því hafi verið þinglýst 11. júní 1886 og fært í landamerkjabók an athugasemda. 

            Þá sé það meginregla að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland.  Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.  Telur stefnandi að land jarðarinnar hafi allt frá landnámi verið háð beinum eignarrétti.  Landnámsheimildir fari ekki í bága við landamerkjabréfið.  Þá bendir stefnandi á að vitað sé að við landnám hafi landið verið gróið. 

            Með setningu landamerkjalaga nr. 5/1882 og síðan laga nr. 41/1919 hafi framkvæmdavaldinu verið ætlað að hafa frumkvæði að því að gengið yrði frá landa­merkjum jarða, að merkin yrðu skráð og leyst úr ágreiningi ef hann væri uppi.  Því bendi landamerkjabréf Hvammsgerðis til þess að landssvæðið sé allt háð beinum eignarrétti.  Landamerkjabréfið sé byggt á eldi heimildum svo sem byggingarbréfi frá 1663 og landamerkjabréfum nærliggjandi jarða.  Telur stefnandi að eldri heimildir séu ekki ósamrýmanlegar landamerkjabréfi jarðarinnar.   (H 48/2004)

            Stefnandi segir að ekkert bendi til annars en að allt land innan merkja jarðarinnar hafi verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. 

            Stefnandi byggir á 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu.  Sáttmálinn hafi lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994.  Hann veiti eignar­réttinum sjálfstæða vernd samhliða stjórnarskrárverndinni.  Hér vísar stefnandi einkum til þess sem kallað er réttmætar væntingar aðila til eignarréttar, sem byggi m.a. á því að ríkisvaldið hafi með athöfnum og athafnaleysi viðurkennt þennan rétt, t.d. með því að þinglýsa skjölum athugasemdalaust. 

            Stefnandi vísar til jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga.  Sambærileg mál eigi að hljóta sömu niðurstöðu.  Ekki sé hægt að gera strangari sönnunarkröfur á hendur sér en öðrum. 

            Stefnandi kveðst einnig byggja á hefð og venjurétti.  Allir hafi litið svo á um ómunatíð að allt land Hvammsgerðis sé eignarland.  Enginn hafi haldið öðru fram fyrr en nú að ríkið fullyrði annað við meðferð þjóðlendumála.  Óumdeilt sé að landið hafi verið numið í öndverðu.  Með því að lög um hefð heimili eignarhefð lands í opinberri eigu, hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé háð eignarrétti.  Um þetta atriði vísar stefnandi til tveggja dóma, H 1997 2792 og H 1939 28, svo og dóms Mannréttindadómstólsins frá 9. desember 1994. 

            Stefnandi kveðst ekki geta sýnt fram á óslitna yfirfærslu eignarréttinda frá landnámi og til dagsins í dag.  Hann telur hins vegar að stefndi eigi að bera hallann af þessum vafa.  Sé rétt að ríkið beri sönnunarbyrði fyrir því að landið sé þjóðlenda. 

            Stefnandi bendir á að gögn óbyggðanefndar sýni að landsvæði þetta hafi verið mun grónara við landnám.  Sé talið að það hafi verið vel gróið upp í 6 – 700 metra hæð yfir sjó.  Staðhættir, víðátta og gróðurfar nú geti ekki ráðið úrslitum.  Þá telur stefnandi að venjur um fjallskil geti ekki ráðið úrslitum. 

            Stefnandi segir að ekki sé ágreiningur við aðliggjandi jarðir um merki.  Þar af leiðandi mótmæli hann því að óbyggðanefnd hafi tekið upp hjá sjálfri sér að draga merki jarðarinnar upp með öðrum hætti en landeigendur séu sammála um.

            Loks mótmælir stefnandi nokkrum atriðum í úrskurði óbyggðanefndar sérstaklega.  Hann mótmælir því að krafa sín um eignarland hafi farið út fyrir þinglýst landamerki.  Ljóst sé af gögnum, m.a. landamerkjabréfi fyrir Hróaldsstaði, að merki séu við Hvammsárvatn, er liggi á vatnaskilum á þessu svæði.  Nefndin hafi ekki farið á vettvang og því sé ósannað að merkin séu ranglega dregin inn á kort. 

            Stefnandi kveðst lýsa merkjum til ystu ummerkja við aðrar jarðir, enda engin rök fyrir því að á vatnaskilum sé lítill blettur sem enginn eigi.  Bendir stefnandi hér á afstöðu nefndarinnar í úrskurði um svæði við Smjörfjöll.  Ekki geti annað átt að gilda þar en á svæði stefnanda. 

            Stefnandi bendir á að enginn almenningsafréttur sé á þessum slóðum og hafi enginn nema eigandi landsins getað nýtt það.  Það sé rökleysa að telja svæðið utan landamerkja, en samt sem áður afréttareign jarðarinnar. 

            Loks byggir stefnandi á því að ekki sé fullnægjandi rökstuðningur í úrskurði nefndarinnar.  Sé hann í andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58/1998.

            Auk þeirra lagaákvæða sem lýst er að framan vitnar stefnandi til þessara ákvæða og lagareglna: 

            Meginreglna eignaréttar um venjurétt og óslitin not og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. 

            Laga um skráningu og mat fasteigna nr.94/1976.  

            Rannsóknar-, jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

            Þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 25. gr.-27. gr.

            Laga um afréttarmál og fjallskil nr. 6/1986.  

            Mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 2. 6. og 14. gr.  

            Námulaga nr. 24/1973 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

            Meginreglna um traustfang og traustnám og almennra reglna íslensks réttar um tómlæti.

 

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Stefndi byggir á því að hin umdeilda landspilda sé utan eignarlands og sé því þjóðlenda, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998.  Ljóst sé af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið háð beinum eignarrétti.  Sönnunarbyrðin hvíli hér á stefnanda. 

            Stefndi vitnar til landamerkabréfs fyrir Hvammsgerði frá 7. júní 1884.  Þar sé merkjum gagnvart Hróaldsstöðum lýst á sama hátt og í landamerkjabréfi þeirrar jarðar, sem dagsett er 24. júní 1884. 

            Stefnandi segir að í eldri heimildum um suður- og norðvesturmerki Hámundar­staða hafi verið miðað við Hvammsá og vatnaskil, eða örnefni sem liggi nálægt vatna­skilum.  Um þetta vísar hann til skoðunargjörðar frá 1657, byggingarbréfs frá 1669 og lögfestu frá 1845.  Aðrar heimildir séu ekki eins glöggar um þetta atriði.  Hann bendir á að um 8 km suður af Ytri-Hágangi (923 m) sé Syðri- Hágangur (952 m) og þar á milli Þverfell (650 m).  Fjallaröð þessi myndar skýr landfræðileg mörk og vatnaskil vestur af Selárdal og heiðarlöndum ofan hans. 

            Þá telur stefndi að eldri heimildir um Hámundarstaði styðji þá skýringu á landamerkjabréfum Hámundarstaða og Hvammsgerðis, að merki til norðvesturs miðist við Ytri-Hágang.  Þá sé einnig studd sú skýring á landamerkjabréfi Hvammsgerðis, að miða við vatnaskil frá Ytri-Hágangi og suður yfir Þverfellsdal.  Nokkur vötn séu á þeim slóðum og Hvammsá renni þaðan í mörgum kvíslum.  Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að merki jarðarinnar nái jafn langt til norðurs og vesturs og hann krefjist. 

            Stefndi segir að í Landnámu sé því ekki lýst hve langt upp til fjalla og inn til lands land hafi verið numið.  Með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum sé ólíklegt að land á hinu umdeilda svæði hafi verið numið. 

            Þar sem heimildir finnist ekki sé ósannað að heiðarlönd og öræfasvæði hafi verið numin.  Ráða megi þá reglu af dómafordæmum að fullyrðingar um upphaflegt nám lands verði að styðjast við glöggar landfræðilegar heimildir.  Vísar stefndi hér til dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 og 48/2004.  Þá bendi staðhættir og fjarlægð frá byggð til þess, að landið hafi ekki verið numið í öndverðu, eða teljist lúta beinum eignarrétti.  

            Verði talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu hafi það eingöngu verið numið til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Stefndi segir að frá upphafi byggðar hafi menn helgað sér ítök, afrétt og önnur réttindi sem gátu haft þýðingu fyrir afkomu þeirra.  Til vara byggir stefndi hér á því að hafi stofnast beinn eignarrétur fyrir nám, hafi sá réttur fallið niður, en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, afréttarnota.  Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið notað til annars en sumarbeitar og e.t.v. annarra takmarkaðra nota. 

            Þá telur stefndi það styðja sitt mál að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þar hafi búfé annarra getað farið um án hindrana. 

            Stefndi telur að ekki séu uppfyllt skilyrði eignarhefðar.  Hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beins eignarréttar. 

            Stefndi mótmælir því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur eignar­réttartilkalls stefnanda.  Löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum fyrir löndum utan eignarlanda.  Athafnir eða athafnaleysi stjórnsýslunnar geti ekki stofnað til slíkra yfirráða.  Þá geti væntingar stefnanda ekki verið réttmætar, menn geti ekki vænst þess að öðlast frekari réttindi en þeir eigi. 

            Stefndi telur að umdeilt svæði falli undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58/1998 um landsvæði sem að staðaldri hafi verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. 

            Auk framangreindra lagatilvísana, vísar stefndi til almennra reglna eignaréttar og til 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Hann byggir á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar.  Þá vísar hann til laga um hefð nr. 14/1905 og til laga nr. 6/1986.  Loks vísar hann til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar. 

 

            Niðurstaða dómsins

            Landsvæði það sem um er deilt í þessu máli er hluti af svæði sem óbyggða­nefnd taldi að væri ekki eignarland, heldur þjóðlenda í afréttareign viðkomandi jarða.  Eins og áður segir var mál vegna jarðanna Hróaldsstaða I og II rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands, en dómari þessa máls hefur einnig til meðferðar mál vegna jarðarinnar Áslaugarstaða, sem er suð-vestan við Hróaldsstaði.  Svæðinu er lýst nægilega í kröfugerð aðila og framangreindri niðurstöðu óbyggðanefndar, en aðilar deila ekki um staðhætti eða afmörkun svæðisins. 

            Stefndi unir niðurstöðu óbyggðanefndar.  Því er ekki annað til úrlausnar en sú krafa stefnanda að umrætt svæði sem nefndin viðurkenndi að væri í afréttareign hans, sé háð beinum eignarrétti hans. 

            Ekki var gengið á vettvang.  Dómari taldi, eftir að málið var dómtekið í fyrsta sinn, að nauðsynlegt væri að ganga á vettvang til að öðlast glögga mynd af svæðinu.  Vettvangsganga reyndist útilokuð.  Var látið við það sitja að lagðar væru fram myndir af svæðinu. 

            Af dómum Hæstaréttar í þjóðlendumálum verður lesin sú almenna regla að þeir sem kalli til beins eignarréttar að landi beri sönnunarbyrðina fyrir þeim kröfum.  Í þessu máli verður því að leggja sönnunarbyrði á stefnanda um það að hann eigi frekari réttindi á umræddu svæði en óbyggðanefnd hefur viðurkennt. 

            Merki á deilusvæðinu eru ekki dregin gagnvart annarri jörð, heldur gagnvart svæði sem nú yrði talið þjóðlenda samkvæmt lögum nr. 58/1998.  Í úrskurði óbyggða­nefndar er tekið upp orðalag úr skoðunargerð frá árinu 1657 og byggingarbréfi frá 1669.  Þar er að finna skýra tilvísun til vatnaskila.  Landamerkjabréfið frá 1884 er ekki jafn afgerandi um þetta.  Það styður hins vegar ekki frekari kröfur stefnanda.  Þar er lína dregin í Hvammsárvatn, en ekki er vitað hvar það vatn er.  Þá er með þeim orðum ekki beinlínis verið að lýsa merkjum jarðarinnar til fjalls.  Þá má líta til lýsingar í jarðamati 1849, þar sem segir að jörðin eigi góðan afrétt.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á nýtingu umrædds svæðis, en þær ályktanir vísindamanna, að landið hafi verið grónara við landnám heldur en nú er, þykja ekki geta stutt kröfur stefnanda án frekari vísbendinga. 

            Í gögnum málsins kemur fram að jörðin sé erfið yfirferðar og ekki verður fram hjá því litið að svæðið sem deilt er um liggur hátt.  Ekki er unnt að gera ráð fyrir veigamiklum nytjum á svæðinu, hvorki nú né fyrr á tímum.  Hefur því ekki verið færð fram sönnun þess að til eignarréttar yfir umræddu svæði hafi á sínum tíma verið stofnað með námi, eða hann unnist síðar með hefð.  Er nærtæk sú niðurstaða óbyggða­nefndar að svæðið hafi verið nýtt til sumarbeitar fyrir sauðfé, en ekki til annars.  Af því leiðir í samræmi við dómvenju að viðurkennt er að landeigendur eigi svæðið sem afréttareign, eins og óbyggðanefnd telur, með þeim afmörkuðu heimildum sem í því felast að lögum.  Verður, í samræmi við allan málatilbúnað og þau sönnunargögn sem fyrir liggja, að telja að mörk eignarlands Hvammsgerðis séu við vatnaskil. 

            Að frumkvæði óbyggðanefndar voru vatnaskil mæld og færð á kort.  Taldi nefndin mörk eignarlands jarðarinnar við vatnaskilin að því leyti sem fjallað er um hér.  Stefnandi hefur ekki sannað eða gert sennilegt að vatnaskilin séu annars staðar en óbyggðanefnd miðar við.  Heimildir um heiti og örnefni á svæðinu virðast vera takmörkuð, sem á sinn hátt styrkir niðurstöður nefndarinnar.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á hvað stutt gæti væntingar hans til að eiga beinan eignarrétt að svæðinu. 

            Stefnandir hefur ekki sannað að með niðurstöðu óbyggðanefndar og kröfugerð stefnda hér fyrir dómi sé verið að svipta hann rétti sem hann átti.  Tilvísanir til stjórnarskrár og mannréttindasáttmála stoða því ekki.  Þá er ekki sýnt fram á að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé brotin á honum með misjöfnum niðurstöðum í sambærilegum deilumálum.  Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið hefur stefnandi ekki á nokkurn hátt hnekkt niðurstöðum óbyggðanefndar.  Eru þær enda ítarlega rökstuddar og verður úrskurðurinn ekki ómerktur vegna þess að hann uppfylli ekki kröfur stjórnsýslulaga.  Verður því að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af kröfum stefnanda. 

            Í framkvæmd hefur ríkinu ekki verið dæmdur málskostnaður úr hendi land­eigenda í málum vegna úrskurða óbyggðanefndar, þó niðurstöður nefndarinnar séu staðfestar.  Ekki er ástæða til að víkja frá þeirri venju í þessu máli.  Verður máls­kostnaður því felldur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda er ákveðinn með virðisaukaskatti samtals 1.020.000 krónur. 

            Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Að framan er því lýst að meðferð málsins hefur dregist, nú síðast vegna anna dómara og veikindaforfalla. 

 

D ó m s o r ð

 

            Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Veiðiklúbbsins Strengs ehf.

            Málskostnaður fellur niður. 

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 1.020.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.