• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands föstudaginn 5. mars 2010 í máli nr. E-43/2008:

Auðunn Haraldsson og

db. Þórarins Haraldssonar

(Friðbjörn Eiríkur Garðarsson hdl.)

gegn

Íslenska ríkinu

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hdl.)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. janúar 2010, var höfðað 7. janúar 2008.

            Stefnendur eru Auðunn Haraldsson, Þorvaldsstöðum, Langanesbyggð (áður Skeggjastaðahreppi) og db. Þórarins Haraldssonar, en fyrir hönd dánarbúsins höfða málið Arnór Haraldsson, Víðilundi 24, Akureyri, Steinunn Haraldsdóttir, Norðurbrún 1, Reykjavík, Hálfdán Haraldsson, Heimavistarskólanum, Neskaupstað, Ingveldur Haraldsdóttir, Þorvaldsstöðum, Langanesbyggð, Úlfar B. Thoroddsen, Brunnum 23, Patreksfirði, Eiður B. Thoroddsen, Sigtúni 7, Patreksfirði, Erlingur B. Thoroddsen, Aðalbraut 2, Raufarhöfn. Björg B. Thoroddsen, Noregi, Ólína B. Thoroddsen, Bretlandi, Ólafur B. Toroddsen, Espilundi 13, Akureyri, Ragnar Haraldsson, Álfheimum 36, Reykjavík, Guðríður Haraldsdóttir, Sundlaugarvegi 12, Reykjavík, Sigrún Haraldsdóttir, Dalbraut 23, Reykjavík, Haraldur Haraldsson, Vallarbraut 1, Hafnarfirði, Ragnhildur Haraldsdóttir, Vesturbergi 78, Reykjavík, Þórunn Haraldsdóttir, Engjavöllum 5a, Hafnarfirði, Hulda Kristjánsdóttir, Háaleitisbraut 151, Reykjavík, Hrefna Eiríksdóttir, Austurbrún 4, Reykjavík og Auðunn Haraldsson, Þorvaldsstöðum, Langanesbyggð.

            Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli, Reykjavík.

            Dómkröfur stefnenda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005: Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur og Skeggjastaðahreppur, frá 29. maí 2007, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan neðangreindra marka:

Úr hornmarki Þorvaldsstaða og Skeggjastaða á sveitarfélagsmörkum svo sem það er teiknað í kröfulýsingum gagnaðila íslenska ríkisins er kröfulínu sömu aðila fylgt í upptök Staðarár og þaðan í upptök Djúpalækjar. Þaðan er kröfulínu Þorvaldsstaða og Djúpalækjar fylgt í Sellækjardrög. Úr Sellækjardrögum er farið með kröfulínu Þorvaldsstaða og Gunnarsstaða og að hornmarki þeirra jarða, svo sem það er teiknað í kröfulýsingum gagnaðila íslenska ríkisins. Þá er sveitarfélagamörkum fylgt til austurs í fyrstnefnt hornmark Þorvaldsstaða og Skeggjastaða svo sem það er teiknað í kröfulýsingum gagnaðila íslenska ríkisins.

            Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.

            Þá krefjast stefnendur málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

            Stefndi krefst sýknu. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar en til vara að hver aðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

            Farið var á vettvang 15. september sl.

            Landsvæði það sem deilt er um í máli þessu, er í fyrrum Skeggjastaðahreppi sem nú tilheyrir sveitarfélaginu Langanesbyggð en síðastnefnt sveitarfélag fellur nú allt undir umdæmi Héraðsdóms Norðurlands-eystra, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 473/2009, sem sett er með heimild í 42. gr. dómstólalaga nr. 15/1998 og öðlaðist gildi við birtingu 25. maí 2009. Mál þetta var höfðað áður en framangreint reglugerðarákvæði tók gildi og áður en framangreind sameining sveitarfélaga var ráðin, en telja verður að það landsvæði sem áður var Skeggjastaðahreppur hafi  fallið innan umdæmis Héraðsdóms Austurlands fram að þeim tíma að fyrrgreind reglugerð tók gildi. Var málinu því réttilega stefnt fyrir þann dómstól og verður réttilega lokið þar, þrátt fyrir framangreinda breytingu á umdæmismörkum.

 

I

            Í stefnu kemur fram að jörðin Þorvaldsstaðir sé forn jörð og virðist áður hafa verið hluti lands Skeggjastaða og skipt úr landi þeirrar jarðar þó heimildir skorti um það. Í þinglýsingarvottorði sem liggur fyrir í málinu kemur fram að stefnendur eigi jörðina í óskiptri sameign í þar nánar greindum hlutföllum.  

 

II

            Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta með áorðnum breytingum skal óbyggðanefnd kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi  innan þjóðlendna. Nefndin ákvað 1. mars 2004 að taka til meðferðar landsvæði á norðausturlandi, sem var nánar lýst svo að það afmarkaðist að vestanverðu af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum allt frá ósi hennar í Öxarfirði að aðalupptökum í Dyngjujökli. Þaðan væri fylgt jaðri jökulsins að Kverkfjöllum í Hveradal og þaðan dregin lína áfram til suðurs inn á Vatnajökul, en við afmörkun svæðisins þar væri fylgt markalínum, sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hafi notað við vinnu sína. Framangreindum vesturmörkum breytti nefndin síðar að því leyti að svokölluð Krepputunga austan Jökulsár á Fjöllum og vestan Kreppu var skilin undan svæðinu, en þessi ákvörðun tók jafnframt til alls lands milli Kreppu og Kverkár. Austurmörk svæðisins fylgdu farvegi Lagarfljóts frá ósum á Héraðssandi þangað sem Gilsá fellur í það, en þeirri á síðan fylgt og austurmörkum Fljótsdalshrepps við Austur-Hérað (Fljótsdalshérað eftir 1. nóvember 2004), Djúpavogshrepp og Sveitarfélagið Hornafjörð. Afmörkun til austurs endaði í Geldingafelli þaðan sem lína var dregin til suðvesturs inn á Vatnajökul. Að norðan afmarkaðist svæðið af hafi. Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 11. nóvember 2004, sem vörðuðu allt svæðið. Nefndin birti kröfugerð stefnda 28. desember 2004, 7. janúar 2005 og 9. sama mánaðar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og skoraði á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem féll innan kröfusvæðis stefnda, að lýsa kröfum sínum fyrir 31. mars 2005. Sá frestur var framlengdur til maí sama ár. Fjölmargar kröfur og athugasemdir bárust nefndinni. Í júlí 2005 kynnti óbyggðanefnd þá ákvörðun sína að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Var eitt þeirra nr. 4/2005 um þjóðlendur í Svalbarðshreppi, Þórshafnarhreppi og Skeggjastaðahreppi. Tók málið meðal annars til landsvæðis sem stefnendur, eigendur jarðarinnar Þorvaldsstaða, gerðu kröfu um fyrir nefndinni að yrði talið til eignarlands jarðarinnar.      

            Óbyggðanefnd kvað upp úrskurð í málinu 29. maí 2007 og varð niðurstaða nefndarinnar að fallist var á kröfur stefnda að hluta. Að því er varðar land í fyrrum Skeggjastaðahreppi varð niðurstaða nefndarinnar að þjóðlenda væri á fjórum nánar tilteknum landsvæðum, sem eigendur jarða í hreppnum höfðu gert tilkall til beins eignarréttar yfir. Eru lönd þessara jarða að meginstefnu aflöng og hafa stefnuna norður/suður og eru þær taldar frá vestri til austurs: Kverkártunga, Miðfjörður, Gunnarsstaðir og Þorvaldsstaðir. Norðurmörk jarðanna eru við sjó, utan Kverkártungu, en norðurmörk þeirrar jarðar eru þar sem Litla-Kverká rennur í Miðfjarðará.

            Í tilvikum framangreindra jarða tók óbyggðanefnd kröfur stefnda til greina að hluta með því að draga mörk þjóðlendu og eignarlanda nokkru sunnar en stefndi hafði krafist, utan að þjóðlendumörk í Kverkártungu voru dregin í samræmi við kröfu stefnda. Með þessu var hafnað kröfum landeigenda að hluta og land, sem þeir höfðu gert kröfu um beinan eignarrétt yfir, talið þjóðlenda. Í öllum tilvikum var landið þó talið í afréttareign viðkomandi jarðar.

            Í máli þessu er til meðferðar ágreiningur eigenda Þorvaldsstaða við íslenska ríkið um gildi framangreinds úrskurðar að því er eignarréttartilkall þeirra varðar, en einnig eru samhliða til meðferðar sambærileg mál hér fyrir dómi er varða jarðirnar Kverkártungu og Miðfjörð. Þá liggur fyrir dómur Hæstaréttar 19. nóvember 2009 í máli nr. 69/2009 um samskonar ágreining eigenda Gunnarsstaða og stefnda, en það svæði sem þar var tekist á um liggur að því svæði sem hér er fjallað um að vestanverðu. Þá liggur einnig hluti vesturmerkja að landi jarðarinnar Djúpalækjar. Að austan liggur svæðið að landi Skeggjastaða en þjóðlendukröfu stefnda var alfarið hafnað varðandi land þeirrar jarðar og liggur ekki annað fyrir en að stefndi hafi unað þeirri niðurstöðu. Sunnan við það landsvæði sem hér er til umfjöllunar er ágreiningssvæði í máli óbyggðanefndar nr. 3/2005, Vopnafjörður.

 

III

            Í niðurstöðukafla úrskurðar í máli óbyggðanefndar nr. 4/2005 að því er varðar Þorvaldsstaði kemur fram að stefndi hafi dregið kröfulínu sína frá Skálafjalli (punktur 2), þaðan yfir Staðarvatn og Staðarheiði í Urðartjörn (punktur 3) og þaðan í þann stað í Miðfjarðará, þar sem Litlilækur renni í ána við Kverkártungu. Á móti hafi stefnendur, eigendur Þorvaldsstaða, lýst kröfu um beinan eignarrétt að þeim hluta þess landsvæðis sem þeir telji liggja innan merkja jarðarinnar samkvæmt landamerkjabréfi hennar.

            Er krafa stefnenda í kröfulýsingu og greinargerð til óbyggðanefndar samhljóða og er eftirfarandi: „..., að óbyggðanefnd viðurkenni beinan eignarrétt [stefnenda] á landi Þorvaldsstaða innan þeirra merkja sem lýst er í landamerkjabréfum, þ.e. allt land innan eftirtalinna merkja með vísan til tölusettra punkta á meðfylgjandi uppdrætti: Að vestan ræður Djúpilækur frá sjó (punktur 1) að upptökum sínum (punktur 2) þaðan beina stefnu í upptök Sellækjar (punktur 3) og þaðan á móti Gunnarsstöðum á punkt á hreppamörkum (punktur 4) þaðan eftir hreppamörkum að Skeggjastaðalandi (punktur 5) þaðan bein stefna í upptök Staðarár (punktur 6) Staðará ræður að Háuhæð (punktur 7) þaðan í vörðu í Fossahnúk (punktur 8) þaðan í vörðu í Merkjaflóa (punktur 9) og þaðan ræður Merkjalækur til sjávar (punktur 10).“

            Þá greinir nánar í úrskurðinum um að Þorvaldsstaðir liggi samkvæmt kröfulýsingu stefnenda að Djúpalæk og Gunnarsstöðum til vesturs og Skeggjastöðum til austurs. Til suðurs séu Hámundarstaðir í Vopnafjarðarhreppi, sjá mál nr. 3/2005 hjá óbyggðanefnd. Landsvæðið sem um ræði hafi leguna norður-suður og liggi að mestu í 400-500 metra hæð yfir sjávarmáli. Land halli mót austri og norðri og kallist Urðarhlíð. Nyrst liggi Urðartjörn (í 403 metra hæð). Nokkur vatnsföll falli til austurs úr Urðarhlíð og beri þar að nefna Staðará sem skeri hlíðina. Urðarhlíð sé mikil grágrýtisurð.

            Þess skuli geta að talið sé að við landnám hafi land verið betur gróið og gróður náð lengra inn á heiðar en nú sé, eins og fram komi í greinargerð náttúrufræðings sem aflað hafi verið í málinu.

            Þá er í úrskurðinum gerð grein fyrir sjónarmiðum stefnda þannig að af hans hálfu sé á því byggt að grundvöllurinn að beinum eignarrétti að landi hérlendis hafi verði lagður á landnámsöld við nám. Eftir það hafi lönd undirorpin beinum eignarrétti aldrei getað aukist heldur hafi eigendalaus svæði orðið með tímanum fleiri en í upphafi. Finni hafi numið Finnafjörð og Viðfjörð (Miðfjörð) svo ljóst sé að byggðirnar við þessa firði hafi verið numdar en lýsing þessi bendi ekki til að landnámið sjálft hafi náð til Kverkártungunnar og Miðfjarðarheiðarinnar. Megi því ráða að þjóðlenda sé á miðbiki kröfusvæðisins, Kverkártungu, Miðfjarðarheiði, Staðarheiði og Sandvíkurheiði. Mörk þjóðlendunnar hljóti að vera þar sem mörk heimalanda jarða séu við afrétti. Þessi niðurstaða styðjist við sýslu- og sóknarlýsingar Sauðnessóknar en þar segi frá almenningum á Langanesströnd sem séu hluti af stórum almenningi  sem nái frá Selárdal í Vopnafirði og í gegnum Skeggjastaðahrepp, Þórshafnarhrepp, Svalbarðshrepp og allt norður í Öxarfjörð.

            Af hálfu stefnenda sé byggt á því að land jarðarinnar eins og því sé lýst í landamerkjabréfi hafi verið innan landnáms Hróðgeirs hvíta. Því sé mótmælt að óljósar lýsingar Landnámu verði til þess að frumstofnun eignarréttar yfir landi innan landamerkja jarðarinnar verði dregin í efa. Vísað sé til þess að frá öndverðu hafi lög kveðið á um merkjagerð. Það hafi fyrst verið við setningu landamerkjalaga árið 1882 og síðar árið 1921 að stjórnvöld hafi haft frumkvæði að því að gengið væri frá landamerkjum, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau ef hann hafi verið uppi. Þegar haft sé í huga að samkvæmt landamerkjalögum sé opinberum aðilum falið að ganga úr skugga um að lýsingar landamerkjabréfa séu réttar samkvæmt formi sínu og efni styðji það þá meginreglu íslensks réttar að athugasemdalausri landamerkjalýsingu jarðar verði ekki hnekkt nema óyggjandi sönnunargögn liggi því til grundvallar. Sönnunarbyrðin um inntak eignarréttar á landi jarðarinnar hvíli þannig á stefnda. Í kröfum stefnda felist ásælni til beinna eignarréttinda án þess að skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar  séu uppfyllt og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu stefnda. Eigendur jarðarinnar hafi í gegnum tíðina haft réttmætar ástæður til að ætla að land innan landamerkja sé undirorpið fullkomnum eignarrétti þeirra enda hafi handhafar ríkisvaldsins margsinnis, bæði beint og óbeint, viðurkennt fullkominn eignarrétt þeirra innan lýstra merkja. Þá sé vísað til hefðar.

            Í niðurstöðukafla úrskurðarins kemur fram að Þorvaldsstaða sé getið í heimildum allt frá 13. öld. Af þeim verði ráðið að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða. Ekki sé því lýst í Landnámabók hversu langt inn til fjalla landnám á þessu svæði hafi náð. Af því verði engar afdráttarlausar ályktanir dregnar um hvort í öndverðu hafi verið stofnað til beins eignarréttar á þessu svæði með námi.

            Komi þá til skoðunar hvernig merkjum Þorvaldsstaða sé lýst í fyrirliggjandi heimildum. Athugun þessi taki til suðurmerkja jarðarinnar og sunnanverðra vestur- og austurmerkja hennar að því leyti sem þau liggi innan kröfusvæðis stefnda. Jafnframt verði litið til gagna um merki þeirra landsvæða sem liggi að Þorvaldsstöðum. Að fenginni niðurstöðu um landamerki Þorvaldsstaða verði fjallað um eignarréttarlega stöðu landsvæðisins.

            Landamerkjum Þorvaldsstaða sé lýst í landamerkjabréfi frá 14. júlí 1890, sem þinglýst hafi verið 16. júlí 1892. Annað landamerkjabréf hafi einnig verið gert fyrir Þorvaldsstaði 12. desember 1921, sem þinglýst hafi verið 31. júlí 1922. Þá sé að finna lýsingu á mörkum Þorvaldsstaða frá árinu 1669 þegar Brynjólfur biskup Sveinsson hafi selt Sölva Guðmundssyni Hjarðarhaga og fimm hundruð úr Skjöldólfsstöðum en hafi í staðinn fengið Þorvaldsstaði á Ströndum. Vesturmörkum Þorvaldsstaða sé einnig lýst á áreið sem gerð hafi verið árið 1883 á landamerki milli Þorvaldsstaða og Djúpalækjar.

            Samkvæmt yngra landamerkjabréfi sé merkjum jarðarinnar til vesturs gagnvart Djúpalæk og því landsvæði sem eigendur Gunnarsstaða hafi gert tilkall til, lýst með þessum hætti: „Að norðan ræður Djúpilækur, neðan frá sjó og inn í Bláfellsdalsbotn. Þaðan beina stefnu í Staðará, þar sem hún fellur austur af Urðarhlíð innanvert við Urðartjörn...“ Bréfið sé ekki áritað vegna Djúpalækjar. Í eldra landamerkjabréfi Þorvaldsstaða séu vesturmerki miðuð við: „...Djúpalækjardrög, og ræður sá lækur eptir það merkjum til sjóar“. Þetta bréf sé áritað vegna Djúpalækjar. Í áreið sem farin hafi verði árið 1883 á merki Þorvaldsstaða og Djúpalækjar sé einnig miðað við Djúpalæk „eins og hann nú fellur“. Eldri heimild frá árinu 1669 sé í samræmi við þetta. Í landamerkjabréfi  sem gert hafi verið fyrir Djúpalæk árið 1921 séu merki gagnvart Þorvaldsstöðum miðuð við Djúpalæk allt neðan frá sjó og inn í Bláfellsdalsbotn. Í eldra landamerkjabréfi fyrir Djúpalæk séu merkin talin frá Bláfjallsenda og þar í Djúpalæk sem síðan ráði merkjum til sjávar. Bæði bréfin séu árituð vegna Þorvaldsstaða. Merki Þorvaldsstaða og Djúpalækjar sýnist í samræmi. Í landamerkjabréfi frá 1891 fyrir Gunnarsstaði séu austurmerki þeirrar jarðar miðuð við Sellækjardrög og eftir þeim læk í átt til sjávar. Yngra landamerkjabréf Gunnarsstaða miði einnig við Sellækjardrag. Af þessu sé ljóst að merki Gunnarsstaða nái ekki að merkjum Þorvaldsstaða. Þetta komi einnig fram í skýrslutöku fyrir óbyggðanefnd þegar eigandi Þorvaldsstaða hafi lýst því yfir að merki jarðarinnar næðu ekki að landi Gunnarsstaða.

            Samkvæmt yngra landamerkjabréfi Þorvaldsstaða séu merki til suðurs, gagnvart því landsvæði sem eigendur Hámundarstaða í Vopnafjarðarhreppi hafi gert tilkall til miðuð við að farið sé upp Staðará þar til hún falli austur af Urðarhlíð innanvert við Urðartjörn og þaðan í Djúpalæk í Bláfellsdalsbotni. Bréfið sé ekki áritað vegna Hámundarstaða. Eldra landamerkjabréfið miði suðurmörk við upptök Staðarár og þaðan beint norður í Djúpalækjardrög. Þetta bréf sé ekki áritað vegna Hámundarstaða. Bréfin sýnist í samræmi. Í heimild frá árinu 1669 séu Þorvaldsstaðir seldir með þessum takmörkunum til suðurs: „..uppe I háfiöll sem Wötn meiga deila.“ Um merki Hámundarstaða sé fjallað í máli nr. 3/2005 hjá óbyggðanefnd en þar komi fram að þau nái ekki að framangreindum merkjum Þorvaldsstaða.

            Samkvæmt landamerkjabréfi Þorvaldsstaða frá árinu 1921 séu merki til austurs, gagnvart Skeggjastöðum, miðuð við að farið sé með Staðará þar til hún falli austur af Urðarhlíð innanvert við Urðartjörn. Bréfið sé áritað vegna Skeggjastaða. Í eldra landamerkjabréfi fyrir Þorvaldsstaði sé merkjum lýst svo: „...í Staðará, og upp með henni að vestan allt að upptökum hennar; þaðan beint norður í Djúpalækjardrög...“. Bréfið sé áritað  vegna Skeggjastaða. Í heimild frá árinu 1669, sem fyrr hafi verið vikið að, séu merki til austurs miðuð við Merkilæk „uppe I háfiöll sem Wötn meiga deila“. Samkvæmt tveimur landamerkjabréfum sem gerð hafi verið fyrir jörðina Skeggjastaði, annað frá 1890 en hitt frá 1921. séu vesturmerki landsins gagnvart Þorvaldsstöðum miðuð við Staðará svo langt fram „...sem sambýður hálfu Kverkárdalsvatni“. Þessi bréf séu árituð af hálfu Þorvaldsstaða. Merki Þorvaldsstaða og Skeggjastaða virðist vel geta samrýmst.

            Að áliti óbyggðanefndar verði ekki séð að ósamræmi sé milli merkjalýsinga í eldra og yngra landamerkjabréfi jarðarinnar. Þó er lýsing á suðausturhornmarki jarðarinnar ekki samhljóða en í eldra bréfinu sé miðað við upptök Staðarár en í því yngra Staðará þar til hún falli austur af Urðarhlíð innanvert við Urðartjörn. Þetta þurfi ekki að fela í sér ósamræmi og virðist yngra bréfið ekki lýsa þessum mörkum með sömu nákvæmni og í eldra bréfinu sem miði við gleggri kennileiti. Einnig sé í eldra bréfinu miðað við að suðvesturhorn komi í Djúpalækjardrög en í yngra bréfinu sé miðað við Djúpalæk inn í Bláfellsdalsbotn. Hér sé lýsing eldra bréfsins jafnframt nákvæmari og verði ekki séð að um ósamræmi sé að ræða. Telji óbyggðanefnd þannig eðlilegt að miða beri við upptök Djúpalækjar og Staðarár. Jarðeigendur hafi hins vegar afmarkað kröfusvæði sitt sunnar en ráðið verði af bréfunum og miðað syðstu mörk við hreppamörk gagnvart Vopnafjarðarhreppi. Um þýðingu þessa við mat á eignarréttarlegri stöðu landsins verði fjallað síðar í úrskurðinum.

            Í kjölfar þess að landamerkjalög hafi tekið gildi 1882 hafi verið gert landamerkjabréf fyrir Þorvaldsstaði. Annað landamerkjabréf hafi síðan verið gert fyrir jörðina eftir gildistöku gildandi landamerkjalaga nr. 41/1919. Landamerkjabréfin séu samþykkt vegna aðliggjandi jarða í Skeggjastaðahreppi en ekki vegna jarða í Vopnafjarðarhreppi. Þá séu bréfin undirrituð af eigendum jarðarinnar, þinglesin, færð í landamerkjabók og á þeim byggt án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna sem þýðingu hafi hér. Þetta bendi til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt hafi verið talið gilda. Þá sé ljóst að eigendur jarðarinnar hafi um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst.

            Komi þá til skoðunar  hver sé eignarréttarleg staða þess lands er ágreiningur stefnda og stefnenda taki til. Í málinu hafi ekki komið fram nein gögn sem hnekkt geti lýsingu á mörkum jarðarinnar í landamerkjabréfum eða rýrt eignarréttarlegt sönnunargildi þeirra. Á hinn bóginn hafi engin haldbær gögn verið færð fram fyrir þeirri afmörkun jarðarinnar að sunnan sem stefnendur hafi byggt á í kröfugerð sinni. Verði hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Kröfulína stefnda sé hins vegar dregin nokkru norðar en þau mörk sem miðað sé við í landamerkjabréfum og verði lögð hér til grundvallar. Á henni verði  því ekki byggt.

            Ekki séu heimildir um annað en að jörðin Þorvaldsstaðir, eins og hún sé afmörkuð hér að framan, hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Innan þessara landamerkja hafi eigendur jarðarinnar farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Ekki verði annað séð en að þetta eignarhald hafi verið án ágreinings eða athugasemda. Engar heimildir séu um að land innan þessara merkja hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verði staðhættir, gróðurfar eða nýtingarmöguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því samabandi. Fyrirkomulag smölunar á þessu svæði verði ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu.

            Að öllu framangreindu virtu hafi af hálfu stefnda ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landamerkja Þorvaldsstaða sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiði einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi eða hver séu mörk milli eignarlanda, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.

            Komi þá til skoðunar hvort stofnast hafi til óbeinna eignarréttinda innan þeirrar þjóðlendu sem hér sé til umfjöllunar og liggi sunnan framangreindrar þjóðlendulínu en innan marka kröfulínu stefnenda. Aðrir geri ekki kröfu til sambærilegs svæðis. Fyrir liggi að umrætt landsvæði hafi verið nýtt af eigendum Þorvaldsstaða til beitar og annarra venjubundinna afréttarnota. Verði því fallist á þá kröfu að landið sé í afréttareign Þorvaldsstaða.

            Það sé því niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði svo sem það sé nánar afmarkað, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Sama landsvæði sé í afréttareign Þorvaldsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. 

            Merkjalýsing úrskurðarins fellur orðrétt saman við merkjalýsingu í kröfugerð stefnenda og þykir óþarfi að endurtaka hana hér.

 

IV

            Stefnendur kveðast í stefnu halda því fram að land Þorvaldsstaða innan þinglýstra merkja sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem eignarland sé skilgreint þannig að það sé landsvæði þar sem eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Það hafi því verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja hið umdeilda landsvæði til þjóðlendu.

            Stefnendur haldi því fram að allt land jarðarinnar, þ.á.m. hið umdeilda land sé innan landnáms Hróðgeirs hins hvíta, sem numið hafi Sandvík (Bakkafjörð) fyrir norðan Digranes allt til Miðfjarðar og búið hafi á Skeggjastöðum, skv. frásögn Landnámu. Stefnendur telji eðlilegt að miða landnámsmörk til fjalla við vatnaskil á móti Vopnafirði.

            Til séu tvö landamerkjabréf fyrir jörðina Þorvaldsstaði, hið eldra hafi verið gert 14. júlí 1890, en þinglýst 16. júlí 1892. Bréfið hljóði svo:

            „Úr Merkilæk þar er hann fellur til sjávar, og upp eptir honum, þar til er hann myndast úr tveimur drögum; þaðan í vörðu, er stendur á melhól í svokölluðum „Merkiflóa“; þaðan rjett sýnis í aðra vörðu á svonefndum „Fossahnúk“, og sömu stefnu austan við Þorvaldsstaðavatn í Staðará, og upp með henni að vestan allt að upptökum hennar; þaðan beint norður í Djúpalækjardrög, og ræður sá lækur eptir það merkjum til sjóar.“

            Nýtt landamerkjabréf fyrir Þorvaldsstaði hafi verið gert 12. desember 1921 og þinglesið 31. júlí 1922. Bréfið hljóði svo:

„Að austan ræður Merkjalækur alt neðan frá sjó og þar til hann kemur í tveim kvíslum inni í svonefndum Merkjaflóa. Þaðan úr torfvörðu, er stendur neðst í tungu þeirri, er kvíslarnar mynda, beina línu í grjótvörðu, sem stendur á melhól nokkru innar í Merkjaflóanum. Úr vörðu þeirri sjónhending í grjótvörðu, er stendur á svonefndum Fossahnjúk. Þaðan sjónhending í Háuhæð austanvert við Þorvaldsstaðavatn. Ræður sú hæðarbrún unz hæðin endar inn við Staðará. Úr því ræður Staðará merkjum, þar til hún fellur austur af Urðarhlíð, innanvert við Urðartjörn. Að norðan ræður Djúpilækur, neðan frá sjó og inn í Bláfellsdalsbotn. Þaðan bein stefna í Staðará, þar sem hún fellur austur af Urðarhlíð innanvert við Urðartjörn...“

            Óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að landamerkjabréfin séu í fullu samræmi hvort við annað og séu að lýsa ummerkjum sama landsvæðis.

            Í hinu eldra landamerkjabréfi komi fram að syðstu mörk jarðarinnar miðist við upptök Staðarár að austan á móti Skeggjastöðum og Djúpalækjardrög að vestan á móti Djúpalæk og Gunnarsstöðum.

            Upptök Staðarár séu langt fyrir sunnan þann stað sem óbyggðanefnd miði við í úrskurði sínum sem og Djúpalækjardrög. Staðará komi upp því  sem næst á vatnaskilum á milli Vopnafjarðar og hins forna Skeggjastaðahrepps og Djúpalækjardrög séu þar litlu norðar, eins og sjá megi á korti á dómskjali nr. 8.

            Stefnendur haldi því fram að skýra verði landamerki jarðarinnar til samræmis við landamerki nágrannajarðanna, Skeggjastaða, Djúpalækjar og Gunnarsstaða. Það hafi óbyggðanefnd ekki gert og þannig farið á svig við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

            Til að mynda sé augljóst að sama suðaustur hornmarki sé verið að lýsa í landamerkjabréfi Skeggjastaða, sem fyrir liggi í málinu, og suðvestur hornmarki Þorvaldsstaða  í landamerkjabréfi þeirrar jarðar.

            Krafa stefnenda samræmist vel elstu heimild um landamerki jarðarinnar frá 1669, en þar segi að merki jarðarinnar séu:

„... í miðlum Merkilækjar og Djúpalækjar uppe í háfjöll sem vötn mega deila og ofan í sjó ...“

            Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 komi fram að ef lýsingar í eldri heimildum falli saman við landamerkjabréf jarðar sýni það hvar umráðamenn jarða öldum saman hafi talið að mörk landsins hafi legið og því hafi höfundar landamerkjabréfa ekki gengið lengra í því að helga jörðinni land en áður hafi verið gert. Þetta eigi við í tilfelli Þorvaldsstaða. Staðhættir og heimildir um gróðurfar og nýtingu mæli því og ekki í mót að land jarðarinnar hafi verið numið svo samræmist landamerkjabréfum.

            Svarbréf sýslumanns Norður-Múlasýslu við bréfi stjórnarráðsins sé í fullu samræmi við kröfur stefnenda, en þar segi:

            „... Eiga því allar stærri jarðir hreppsins óslitið land úr heimahögum inn í afrjettir, alveg inn að afrjettarlöndum Vopnfirðinga að sunnan...“

            Samkvæmt framangreindu öllu telji stefnendur vera alvarlega annmarka á úrskurði óbyggðanefndar. Í senn hafi nefndin með úrskurði sínum farið á svig við, eða brotið, grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins, þ.á.m. meðalhófsreglu, rannsóknarreglu og jafnræðisreglu. Beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í málinu.           

            Stefnendur bendi á að í dómsmálum vegna þjóðlendna hafi verið á það litið við úrlausn málanna að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greini, nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp sem orðið hafi að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallan af vafa um þetta efni.

            Það sé og skoðun stefnenda að lög nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að landeigendur þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.

            Ekki ráði úrslitum í þessu máli þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

            Stefnendur vísi til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar, en það hafi hann á engan hátt gert. Þá þurfi stefndi að sýna fram á að afrétturinn sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að segja  við ákvörðun um inntak eignarréttarins, sbr. fyrrgreindan Hæstaréttardóm.

            Stefnendur byggi á því að verði eignarréttur ekki viðurkenndur hafi núverandi eigendur öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð og vísi þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi og stefnendur og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í árhundraðaraðir. Fullnægt sé öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu og samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðina, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varði umrætt landsvæði. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.

            Stefnendur vísi um lagarök til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Einnig sé vísað til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998, að því er varði skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. eldri lög um sama efni. Þá sé vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905, enda hafi stefnendur haft umráð landsins fullan hefðartíma fasteigna margfalt og meinað öðrum afnot þess. Einnig vísi stefnendur til venju, þ.e. að land sem að fornu hafi verð notað eingöngu af landeigendum sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna. Þá vísi stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma, sbr. og núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísi stefnendur til kröfulýsingar og greinargerðar sem þeir hafi lagt fram undir rekstri óbyggðanefndar á málinu og allra þeirra gagna sem þeim hafi fylgt.

            Stefnendur byggi málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísi til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

 

V

            Í greinargerð stefnda kemur fram að af hans hálfu sé á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varði sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telji stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignaréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.

            Óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998, hefði landsvæði það sem um sé deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.

            Stefndi geri niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu.

            Til séu tvö landamerkjabréf fyrir jörðina Þorvaldsstaði. Annars vegar sé um að ræða bréf dags. 14. júlí 1890, sem þinglýst hafi verið 16. júlí 1892, en hins vegar bréf dags. 12. desember 1921, sem þinglýst hafi verið 31. júlí 1922. Landamerkjabréfum beri saman að mestu um merki jarðarinnar.

            Í yngra landamerkjabréfi jarðarinnar séu suður- og austurmörk jarðarinnar miðuð við að farið sé upp Staðará þar til hún falli austur af Urðarhlíð innanvert við Urðartjörn og þaðan í Djúpalæk í Bláfellsdalsbotni. Eldra landamerkjabréfið miði suðurmörkin við upptök Staðarár og þaðan beint norður í Djúpalækjardrög.

            Taki stefndi undir þau sjónarmið óbyggðanefndar, að samræmi sé á milli bréfanna hvað varði lýsingu þeirra á merkjum jarðarinnar til austurs og suðurs, en hins vegar sé merkjum lýst með mun nákvæmari hætti í hinu yngra bréfi og miðað sé við gleggri kennileiti.

            Telji stefndi að þjóðlendukröfur fyrir óbyggðanefnd hafi miðast við merkjalýsingar umræddra landamerkjabréfa. Í málinu hafi ekki komið fram nein gögn sem hnekkt geti lýsingu á mörkum jarðarinnar í landamerkjabréfum eða rýrt eignarréttarlegt sönnunargildi þeirra. Engin haldbær gögn hafi komið framsem sýni fram á eignarhald stefnenda á svæði því sem landeigendur byggi kröfugerð sína á sunnan afmörkunar þjóðlendu í máli þessu.

            Bent sé á, að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Ólíklegt verði að teljast, að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum. 

            Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48/2004 (Úthlíð). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignaréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.

            Ekki verði annað séð en að réttur stefnenda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

            Verði talið, að svæðið hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn helgað sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Um þetta sé m.a. vísað til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).

            Verði hins vegar talið, að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarétti, byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því, að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Þó að talið yrði að til beins eignaréttar hefði stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

            Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.

            Þyki það einnig styðja þau sjónarmið, að til beins eignarréttar hafi ekki stofnast á svæðin, að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum án hindrana. Um afréttarmálefni og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verði falið að annast framkvæmd á.

            Þá sé á því byggt af hálfu stefnda, að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarétti.

            Umþrætt landsvæði liggi að mestu í 400 – 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Land halli mót austri og norðri og kallist Urðarhlíð. Nyrst liggi Urðartjörn (í 400 metra hæð). Nokkur vatnsföll falli til austurs úr Urðarhlíð og beri að nefna Staðará sem skeri hlíðina. Urðarhlíð sé mikil grágrýtisurð.

            Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.

            Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.

            Stefndi hafni því einnig, að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignaréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar í skilningi laga, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

            Þeim málatilbúnaði stefnenda sé jafnframt hafnað, er lúti að því að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Með lögunum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar, heldur skera úr um eignaréttindi.

            Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telji stefndi að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005, hvað varði hið umþrætta landsvæði, hafi verið röng. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ...sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé...“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignaréttarlega stöðu. Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnenda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

            Að öðru leyti mótmæli stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim sé lýst í stefnu, en byggi um leið á þeim röksemdum sem lagðar hafi verið til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005, auk þess sem byggt sé á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar hafi verið fram af hálfu stefnda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í kröfulýsingu hans fyrir nefndinni, dags. 14. október 2004, sbr. greinargerð hans dags. 10. desember 2005, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í fyrrgreindu máli nr. 4/2005, verði staðfestur, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með þeim hætti sem þar sé gert.

            Auk framangreindra lagatilvísana, vísi stefndi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Byggt sé á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Vísað sé til hefðarlaga, nr. 46/1905 og til laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil. Þá sé vísað til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.

            Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra laga.

 

VI

            Eins og nánar er lýst hér að framan stendur deila málsaðila um eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem ítarlega er lýst m.a. í kröfugerð stefnenda og þykir ekki ástæða til að endurtaka það. Byggir málsókn stefnenda, eigenda jarðarinnar Þorvaldsstaða í fyrrum Skeggjastaðahreppi, á því að þeir telja sig eiga umrætt svæði beinum eignarrétti, en eigi það ekki aðeins í afréttareign eins og óbyggðanefnd taldi. Krefjast stefnendur annars vegar ógildingar úrskurðarins, en hins vegar viðurkenningar á því að innan nefndra merkja sé engin þjóðlenda. Stefndi unir hins vegar niðurstöðu óbyggðanefndar.

            Ekki verður talið að landnámslýsingar sem til eru um hið umdeilda svæði séu nægilega nákvæmar til að þær veiti nokkra vísbendingu af eða á um réttmæti eignarréttartilkalls málsaðila og eru að mati dómsins engin rök til að fallast á það með stefnendum án nánari skoðunar að „eðlilegt“ sé að miða landnámsmörk við vatnaskil á móti Vopnafirði.

            Samkvæmt sönnunarreglum sem staðfestar hafa verið ítrekað í fordæmum Hæstaréttar í þjóðlendumálum bera þeir sem kalla til beins eignarréttar á landi sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum þar um, en takist slík sönnun ekki verður landsvæðið talið þjóðlenda í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998, enda rúmist slík niðurstaða innan kröfugerðar íslenska ríkisins þar um. Stefnendur bera því ótvírætt sönnunarbyrði fyrir því að þau eigi þann rétt sem þau krefjast.

            Þá sönnunarbyrði, sem samkvæmt framansögðu hefur verið lögð á landeigendur, verður þó að virða með hliðsjón af því að óbyggðanefnd hefur sjálfstæða rannsóknarskyldu samkvæmt lögum nr. 58/1998. Ber nefndinni að hafa frumkvæði að gagnaöflun, þó það aflétti ekki skyldu málsaðila til að afla þeirra gagna sem þeir telja þörf á til sönnunar kröfum sínum.

            Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Þar var sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði og einnig að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þó var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs  væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 hafi engum verið til að dreifa, sem hafi getað sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands, sem nú kallist þjóðlenda. Jafnframt hafi verið sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hefði. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir, sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Framangreindar forsendur hafa margítrekað verið lagðar til grundvallar dómum Hæstaréttar í sambærilegum málum síðan.

            Í úrskurði sínum fellst óbyggðanefnd á þá kröfu stefnenda að allt land jarðarinnar Þorvaldsstaða innan þinglýstra merkja skuli teljast eignarland. Stefnendur una ekki niðurstöðu nefndarinnar um merki jarðarinnar til suðurs og telja að draga eigi merkin frá upptökum Staðarár, sem þeir telja vera því sem næst á vatnaskilum gagnvart Vopnafirði beint sunnan við upptök Djúpalækjar. Þetta leiði til þess að taka eigi kröfur þeirra til greina að fullu. Um heimildir um upptök Staðarár vísa stefnendur til korts á dómskjali nr. 8.

            Umrætt landakort er ekki svo skýrt sem skyldi og verður vart talið fullnægjandi sönnunargagn eitt sér um hvar upptök Staðarár er að finna. Þá verður að fallast á þær mótbárur stefnda að ekki verði séð hvernig framangreindar röksemdir stefnenda eigi að leiða til þess að merki verði dregin með þeim hætti sem þeir gera með beinum línum frá annars vegar upptökum Djúpalækjar og hins vegar upptökum Staðarár að sveitarfélagamörkum og síðan eftir þeim þar til línurnar mætist. Eru haldlaus þau rök stefnenda að þetta stafi af sammæli þeirra við aðra landeigendur á svæðinu og þá einkum við eigendur Skeggjastaða.

            Í þessu samhengi verður og að hafa í huga að niðurstaða óbyggðanefndar ræðst af túlkun nefndarinnar á báðum landamerkjabréfum jarðarinnar og kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að þau séu í samræmi og þannig verði „upptök Staðarár“ sem vísað sé til í eldra bréfinu sami punktur og Staðará „þar til hún fellur austur af Urðarhlíð“ eins og lýst sé í yngra bréfinu. Fellur þessi punktur einnig saman við lýsingu stefnenda sjálfra í kröfugerð þeirra fyrir nefndinni, en þar eru upptök Staðarár talin sem punktur nr. 6, eins og sjá má af yfirlitskorti óbyggðanefndar. Verður þessi niðurstaða nefndarinnar því ekki talin byggja á neinum misskilningi, eins og stefnendur halda fram, heldur túlkun á gögnum sem fyrir nefndinni liggja. Þykja umrædd landamerkjabréf skýr um merki jarðarinnar og geta þær óljósu heimildir sem stefnendur vísa til ekki hnikað þeirri merkjalýsingu sem fram kemur í landamerkjabréfunum. Hafa stefnendur sjálfir bent á að Staðará er dragá og verður því til af mörgum smáum lækjum, en við slíkar aðstæður kann að orka tvímælis hvar upptök árinnar teljist, en lögmaður stefnenda vísaði í munnlegum málflutningi til þess að sá staður sem óbyggðanefnd hafi miðað við sé þar sem nokkrar kvíslar renni saman og myndi ána. Er að mati dómsins ekki óeðlilegt að slíkar staður sé nefndur upptök árinnar, einkum þegar slík staðsetning fellur saman við önnur kennileiti sem vísað er til. Þá hafa stefnendur ekki lagt fram nein gögn eða vísað til nokkurra þeirra sjónarmiða, sem leiða myndu til að þeir teldust hafa eignast ríkari rétt til umrædds landsvæðis á grundvelli laga nr. 46/1905 um hefð eða sjónarmiða um réttmætar væntingar, en þeim var játað með niðurstöðu óbyggðanefndar. Þá liggur fyrir að umrætt landsvæði er gróðursnautt og stórgrýtt og liggur í 400 – 500 metra hæð yfir sjó. Að mati dómsins eru engir þeir ágallar á úrskurði óbyggðanefndar að varði ógildi hans.

            Þegar af þeim ástæðum sem að framan getur verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda í máli þessu.

            Sú niðurstaða óbyggðanefndar að stefnendur eigi umrætt landsvæði í afréttareign hefur ekki verið borin undir dómstóla og sætir því ekki endurskoðun hér.

            Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

            Mál þetta hefur verið rekið samhliða tveimur málum sem varða lönd í fyrrum Skeggjastaðahreppi og einu sem varðar land á Þverfellsdal í Vopnafirði. Var meðal annars farin sameiginleg vettvangsganga þar sem dómari og lögmenn freistuðu þess að fara um þetta landsvæði sem víðast. Er seinfarið um landið og aðstæður erfiðar þannig að af vettvangsgöngu hlaust meiri kostnaður en venjulegt er í málum af þessu tagi. Þykir rétt að deila hinum útlagða kostnaði á málin og fella einn fjórða hans á þetta mál eins og nánar greinir hér á eftir.

            Gjafsóknarkostnaður stefnenda 979.789 krónur greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, 878.500 krónur.

            Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp dóminn að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en dómsuppsaga hefur dregist nokkuð vegna embættisanna dómara.

 

Dómsorð:

            Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af kröfum stefnenda, Auðuns Haraldssonar og dánarbús Þórarins Haraldssonar, í máli þessu.

            Málskostnaður fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnenda 979.789 krónur greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, 878.500 krónur.

 

Halldór Björnsson