• Lykilorð:
  • Afréttur
  • Landamerki
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 12. febrúar 2010 í máli nr. E-1170/2008:

Kirkjumálasjóður

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Þórhallur Þorvaldsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 22. janúar 2010, var höfðað 17. janúar 2008.  Stefnandi er Kirkjumálasjóður, Laugavegi 31, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt fyrir hans hönd.

 

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í málinu nr. 1/2005, þess efnis að stærstur hluti jarðarinnar Valþjófsstaðar sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

 

„Landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. Vesturöræfi ásamt syðri hluta afréttarlandanna Rana og Undir Fellum, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

 

Að vestan ræður hinn forni farvegur Jökulsár á Jökuldal þar til kemur að suðurmörkum Aðalbóls, þ.e. línu sem dregin er yfir Búrfell utanvert, þvert yfir Hrafnkelsdal inni undir Tungusporði, um Kálfafell í Hölkná.  Ræður sú á merkjum þar til hún kemur niður í Jökulsá á Jökuldal. Frá þeim stað er dregin lína í suðaustur að stórum steini sem stendur utan til á ytra Eyvindarfjalli.  Þaðan er dregin lína til austurs, í stefnu á merkigarð við Jökulsá, og fer hún saman við kröfulínu gagnaðila ríkisins í máli þessu.  Þar sem lína þessi sker línu sem dregin úr ósi Hólmavatns í innri merkjavörðu í Miðheiðarhálsi er hornmark. Frá því hornmarki er dregin lína í ós Hólma­vatns og að Svartöldu austan Langavatns.  Þaðan er farið í Axará og henni fylgt austur í Jökulsá í Fljótsdal sem ræður merkjum þar til komið er að upptökum hennar í Vatnajökli. Þaðan ræður jökuljaðarinn þar til komið er að upptökum Jökulsár á Jökuldal. Að því leyti sem fylgt er jökuljaðri er miðað viðstöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.

 

Sama landsvæði er í afréttareign eiganda Valþjófsstaðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“

 

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra landamerkja Valþjófsstaðar, og þar með þess, að allt land Valþjófsstaðar sé eignarland í samræmi við kröfulýsingu sem sé í samræmi við landamerkjabréf jarðarinnar frá 6. júní 1885:

 

 „Að utan gagnvart Skriðuklaustri ræður merkigarður sá, sem að fornu og nýju haldinn hefur verið landamerki og liggur frá Jökulsá fram (pkt. F3) og upp eftir nesinu upp undir fjall, þaðan sjónhending upp á fjall. Þá í stóran stein, sem stendur utan til á Eyvindarfjalli ýtra (pkt. F4) og þaðan réttlínis norður í Jökulsá á Jökuldal.“ (pkt. 17). 

 

Að norðan og vestan ræður Jökulsá á Jökuldal (pkt 17) inn í Vatnajökul (pkt C) og þaðan í (pkt. B) eftir jaðri Vatnajökuls. Að austan og sunnan Jökulsá í Fljótsdal (pkt. F3) inn í Vatnajökul (pkt. B). Þar sem landið nær að Vatnajökli er þess krafist að miðað sé við Jökulrönd eins og hún er á hverjum tíma, en til vara að miðað sé við jökulbrún við gildistöku þjóðlendulaga 1998.

 

Til vara gerir stefnandi eftirfarandi kröfur:

 

1. Varakrafa sú sama og aðalkrafa, þó þannig að Vesturöræfi innan neðangreindra merkja teljist þjóðlenda en afréttareign Valþjófsstaðar, þ.e. úr Þrælahálsi (pkt. D2) í (pkt. 18) landamerki Aðalbóls og í (pkt. 19) við Jökulsá á Dal síðan eftir Jökulsá í upptök í (pkt. C) þaðan í Snæfell (pkt. D1) og þaðan í Þrælaháls (pkt. D2) en jörðin teljist að öðru leyti eignarland.

 

2. Varakrafa sú sama og 1. varakrafa, þó þannig að auk Vesturöræfa þá teljist Rani einnig þjóðlenda en í afréttareign Valþjófsstaðar, þ.e. frá upptökum Jökulsár (pkt. C) þaðan í Snæfell (pkt. D1) og svo í Þrælaháls (pkt. D2) og loks í pkt. D4 , en jörðin teljist að öðru leyti eignarland.

 

3. Varakrafa sú sama og 2. varakrafa, þó þannig að eignarland Valþjófsstaðar af­markist þannig af þjóðlendu til vesturs:  frá (pkt. C) við Vatnajökul í (pkt. D) á Snæfellshálsi í (pkt. E) á Hafurfelli, þaðan í Bræðraöldu (pkt. D3)  og loks í ( pkt. D4).

 

4. Varakrafa sú sama og 3. varakrafa, þó þannig að eignarland Valþjófsstaðar afmarkist þannig af þjóðlendu til vesturs:  frá (pkt. C) við Vatnajökul í (pkt. D) á Snæfellshálsi í (pkt. E) á Hafurfelli, þaðan í Svartöldu (pkt. F1)  og loks í ( pkt. F2).

 

5. Varakrafa sú sama og 4. varakrafa, þó þannig að eignarland Valþjófsstaðar afmarkist þannig af þjóðlendu til vesturs:  frá (pkt. C) við Vatnajökul í (pkt. D) á Snæfellshálsi og þaðan í (pkt. E) á Hafurfelli og  loks í ( pkt. 11).

 

6. Varakrafa að viðurkennt verði að eignarland Valþjófsstaðar afmarkist af þjóðlendu til suðurs innan neðangreindra merkja, þ.e. frá landamerkjum við Aðalból (pkt. 18) í Þrælaháls (pkt. D2), þaðan í Bræðraöldu (pkt. D3) og svo í landamerki við Kleif (pkt. 10).

 

7. Varakrafa að verði niðurstaða óbyggðanefndar staðfest, verði viðurkennt að stefnandi eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var í afréttareign eiganda Valþjófsstaðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga þó landið teljist þjóðlenda.

 

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda bæði í aðal, vara og þrautavarakröfum eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.

 

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.  Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.  Til vara krefst stefndi þess að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

II

Hinn 1. júlí 1998 tóku gildi lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998, sbr. lög nr. 65/2000, lög nr. 7/2005 og lög nr. 19/2006.  Lögin kveða á um að starfa skuli óbyggðanefnd sem hafi með höndum eftirfarandi hlutverk samkvæmt 7. gr. laganna: Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

 

Stefnandi er eigandi jarðarinnar Valþjófsstaðir í Fljótsdalshéraði.  Með bréfi 1. mars 2004 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar tiltekið landsvæði á Norðausturlandi, sbr. 8., 11. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998.  Landsvæði þetta var hið fimmta í röðinni hjá óbyggðanefnd og eins og fram kemur í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2005 var svæðið að vestanverðu afmarkað af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum allt frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að aðalupptökum árinnar í Dyngjujökli.  Þaðan er jaðri Dyngjujökuls fylgt þar til komið er vestur undir Kverkfjöll í Hveradal og þaðan er dregin lína áfram í suður, til skurðar við línu þá á Vatnajökli sem afmarkar svæðið til suðurs.  Framangreindum vestur­mörkum var síðar breytt að því leyti að svokölluð Kreppu­tunga, austan Jökulsár á Fjöllum og vestan Kreppuár, var skilin undan svæðinu,  sbr. 8. gr. laga nr. 58/1998.

 

Að austan afmarkast svæðið af farvegi Lagarfljóts allt frá ósum þess á Héraðssandi þangað sem Gilsá rennur í það.  Síðan fylgja mörk svæðisins Gilsá og austurmörkum Fljótsdalshrepps við Austur-Hérað, Djúpavogshrepp og sveitarfélagið Hornafjörð. 

 

Framangreind afmörkun til austurs endar í Geldingafelli.  Þaðan er dregin lína til suðvesturs inn á Vatnajökul, yfir hnjúk í 1438 m hæð og áfram í Grendil, þaðan í nafnlausan hnjúk skammt sunnan Grendils, áfram yfir Goðahnjúka og í miðja Breiðabungu og loks í stefnu á Svíahnjúk eystri til skurðar við framangreind vesturmörk.  Afmörkun á Vatnajökli byggir á markalínum þeim sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína. 

 

Að norðan afmarkast svæðið að hafi.

 

Var fjármálaráðherra veittur frestur til 1. ágúst til að lýsa kröfum um þjóðlendur á þessu svæði, væri um slíkar kröfur að ræða.  Var kröfulýsingafrestur fjármálaráðherra fyrst framlengdur til 15. október 2004 og síðar til 12. nóvember 2004.

 

Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á Norð­austur­landi bárust 11. nóvember 2004 og óbyggðanefnd birti tilkynningu um máls­­meðferð á framangreindu svæði og útdrátt úr kröfum íslenska ríkisins, ásamt upp­drætti, í Lögbirtingablaðinu 28. desember 2004, Fréttablaðinu 7. janúar 2005 og Morgunblaðinu 9. janúar 2005, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998.  Var skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 31. mars 2005.  Var kröfulýsingarfrestur framlengdur lítillega í þeim tilvikum sem leitað var eftir slíku og bárust síðustu kröfulýsingar í maí 2005.  Krafa stefnanda barst óbyggðanefnd 8. apríl 2005.

Aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd fór fram dagana 20. og 24. júní 2006 og var málið tekið til úrskurðar að málflutningi loknum.  Málið var svo endurupptekið 17. ágúst 2006, ný gögn lögð fram og málið svo tekið til úrskurðar að nýju.

 

Við aðalmeðferð málsins hjá óbyggðanefnd var bókað að þeim hluta Vatnajökuls sem til meðferðar væri í málum á svæði 5 hefði verið skipt milli mála nr. 1/2005 og 2/2005 þannig að sá hluti sem fjallað væri um í máli nr. 1/2005 afmarkist svo: Frá upptökum Jökulsár á Jökuldal við jaðar Brúarjökuls er dregin lína til suðvesturs í miðja Breiðubungu og þaðan til norðausturs yfir Goðahnjúka í nafnlausan hnjúk skammt sunnan Grendils, áfram í Grendil, þaðan yfir hnjúk í 1438 m hæð og í Geldingafell.  Suðurmerki byggja á markalínu sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína.

 

Hinn 29. maí 2007 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð í málinu nr. 1/2005, Fljótsdalur og Jökuldalur austan Jökulsár á Jökuldal.  Hvað varðar það landsvæði sem hér er deilt um komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að umþrætt landsvæði væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, en jafnframt afréttareign eiganda Valþjófsstaðar, stefnanda máls þessa, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

 

Í niðurstöðu óbyggðanefndar kemur meðal annars fram að ekki hafi verið sýnt fram á það af hálfu eiganda Valþjófsstaðar, stefnanda í máli þessu, að afréttarsvæðin Vesturöræfi, Rani og Undir Fellum, þ.e. land á þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins innan landamerkja „Valþjófsstaðarkirkjueignar“, væri eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Eins og notkun landsins hafi verið háttað hafi heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.   Þá hafi rannsókn óbyggðanefndar einnig leitt til þeirrar niðurstöðu að framangreint svæði sé þjóðlenda.  Stefnandi vill ekki una framangreindri niðurstöðu óbyggðanefndar og hefur því höfðað mál þetta.  Var honum með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 22. október 2008 veitt gjafsókn í málinu.

 

Eins og fram kemur í gögnum málsins tilheyra hin umdeildu landsvæði, Vesturöræfi, Rani og Undir Fellum Fljótsdalsheiði, hásléttu sem er í 600 til 700 metra hæð yfir sjávarmáli sem þó er að mestu gróin.  Í lægðum eru víðáttumiklir flóar en melar á milli.  Þá eru á Fljótsdalsheiði fjöldi vatna og nokkurt fjalllendi.  Að norðanverðu má nefna Eyvindarfjöll (884 og 847m), Grjótöldu (882m) og suðaustan hans eru Sauðahnjúkar (1060 og 1004 m).  Inn af Sauðahnjúkum, undir jökli, eru Maríutungur.  Þegar austar dregur að sunnanverðu kemur að svonefndu Snæfellssvæði sem samanstendur af fjölda stakra fella og hnjúkaraða í 900-1338 m hæð yfir sjávarmáli.  Snæfellið sjálft er 1833 m hátt.  Á fljótsdalsheiði er Miðheiðarháls, aflangur háls með leguna norðaustur-suðvestur í rúmlega 600 m hæð yfir sjávarmáli.  Vatnaskil og sveitarfélagsmörk Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps liggja um Miðheiðarháls að norðanverðu en Snæfellssvæðið að sunnanverðu.  Frá bæjarstæði Valþjófsstaðar, við Jökulsá í Fljótsdal og beint vestur í Jökulsá á Jökuldal, vestur undir Fjallkolli, eru um það bil 31,5 km í beinni loftlínu og suðvestur að upptökum Jökulkvíslar í Maríutungum eru um 53 km í beinni loftlínu.

 

Talið er að við landnám hafi Fljótsdalur verið vaxinn birkiskógi og kjarri upp undir fjallsbrúnir í 300-400 m hæð.  Gert hefur verið ráð fyrir að gróðurþekja á Fljótsdals­heiði hafi þá náð talsvert hærra yfir sjó en síðar varð, jafnvel svo nemi 100 til 200 m, mismunandi eftir aðstæðum. 

 

Um þetta landsvæði er fjallað í fjölda heimilda, fyrst í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397 en einnig í yngri máldögum, vísitasíum, lögfestum, vitnisburðum og fleiri heimildum.  Samkvæmt því sem þar kemur fram hefur réttur Valþjófsstaðar farið vaxandi með tímanum, frá því að ná til lands undir Kleif í lok 14. aldar, Maríutungna að auki við lok 15. aldar, ótilgreindra öræfa frá 16. öld og frá 17. öld til alls landsvæðisins milli Jökulsár á Jökuldal og Jökulsár í Fljótsdal sem ýmist var kallað öræfi eða afréttarland.

 

III

Stefnandi vísar til þess að eignarrétturinn sé friðhelgur, sbr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttinda­sáttmála Evrópu.  Byggt sé á landamerkjabréfi Valþjófsstaðar, dagsettu 6. júní 1885, sem þinglýst hafi verið 8. júní 1885.  Hafi bréfinu verið þinglýst og fært í landamerkjabók án athugasemda og hafi það síðan ráðið merkjum Valþjófsstaðar.   Telji stefnandi, miðað við gögn málsins sem styðji ofangreint eignatilkall stefnanda,  að úrskurður óbyggðanefndar sé rangur og brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

 

Stefnandi byggir eignarréttarkröfu sína á þeirri meginreglu íslensks eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og hafi sá sem haldi öðru fram sönnunarbyrði fyrir því.  Því sé haldið fram að land jarðarinnar hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti.  Landnámsheimildir í Fljótsdal fari ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar, og ljóst sé að við landnám hafi landið verið gróið til jökla.

 

Við setningu landamerkjalaganna nr. 5/1882 og síðan laga nr. 41/1919 hafi það verið ætlun löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau ef hann væri fyrir hendi.  Með vísan til landamerkjalaganna og tilgangs þeirra sé á því byggt að landa­merkja­bréf Valþjófsstaðar bendi til þess að um sé að ræða landsvæði sem sé háð beinum eignarrétti.  Landamerkjabréfið sé byggt á eldri heimildum svo sem lögfestum máldögum, svo sem rakið sé í úrskurði óbyggðanefndar, einkum máldögum Valþjófsstaðar frá 1397, og ýmsum yngri heimildum, bæði lögfestum og vísitasíum.  Eldri heimildir fari því ekki gegn landamerkjabréfi jarðarinnar.

 

Ekkert komi fram í kröfugerð ríkisins sem bendi til annars en að allt land innan landamerkja Valþjófsstaðar samkvæmt landamerkjabréfi hafi og verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Verði og að telja að það hafi mikla þýðingu að eigendur hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum sé rétt lýst og eigendur grannjarða hafi virt og viðurkennt merkin.  Sé byggt á því að öll landgæði hafi verið nýtt af eigendum Valþjófsstaðar og samþykki þeirra hafi þurft við nýtingu annarra, til dæmis til beitar sem og annarrar nýtingar, sbr. samning við Landsvirkjun vegna virkjunarframkvæmda.

 

Þá hafi skattar og önnur lögboðin gjöld verið greidd af öllu landinu og eignarnáms­bætur verið greiddar til eigenda vegna línustæða og vegalagningar.  Stefnandi vísi til þess að eignarréttur hans hafi verið virtur öllum, meðal annars af stefnda, frá ómunatíð sem meðal annars hafi lýst sér í því að stefnandi hafi getað bannað öðrum not eignarinnar.  Eignarréttur stefnanda hafi verið virtur í öllum viðskiptum varðandi landsnytjar, s.s. við leigu námuréttinda og leigu lands undir mannvirki, og því byggi eignarhaldið ennfremur á viðskiptavenju.  Byggi stefnandi því mál sitt einnig á 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994.  Mannréttinda­sáttmálinn hafi lagagildi hér á landi og veiti hann eignarréttinum sjálfstæða vernd samhliða stjórnarskránni, þar sem dómar Evrópudómstólsins bendi til þess að rétt­mætar væntingar aðila til eignarréttar, sem byggist meðal annars á því að ríkisvaldið hafi með athöfn eða athafnaleysi viðurkennt eignarréttinn, til dæmis með dómum, í samningum og með því að þinglýsa eignaskjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, séu varðar af mannréttindaákvæðunum.  Vísað sé til jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga um að sambærileg mál hljóti sömu niðurstöðu.  Ekki verði gerðar ríkari sönnunarkröfur á hendur eigendum Valþjófsstaðar en annarra landeigenda.  Þá sé vísað til meðalhófsreglu stjórnskipunar- og stjórnsýslulaga.  Sé ekki hægt að gera óhóflegar sönnunarkröfur sem fyrir fram sé vitað að landeigandi geti ekki risið undir. Slíkt fari gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

 

Hafi hugtakið „eign“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttinda­sáttmála Evrópu verið túlkað á þá leið af Mannréttindadómstól Evrópu að það hafi sjálfstæða merkingu.  Með sjálfstæðri merkingu sé átt við að við mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar 1. gr. þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis sem í hlut eigi.  Skortur á slíkri vernd að landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum um mat á því hvort um eign sé að ræða í skilningi 1. gr.  Þannig geti verið um að ræða eign í skilningi ákvæðisins þótt dóm­stólar viðkomandi aðildarríkis hafi ekki talið að um eign væri að ræða samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis.  Hafi Mannréttindadómstóll Evrópu ítrekað áréttað að við mat þetta beri að líta til allra atvika máls í heild sinni.

 

Þá byggi eignarréttarkrafa stefnanda einnig á hefð og venjurétti.  Allir hafi litið svo á um ómunatíð að allt land Valþjófsstaðar sé eignarland og enginn haldið öðru fram fyrr en ríkið við meðferð þjóðlendumála á svæðinu.  Óumdeilt hafi verið að landið hafi verið numið í öndverðu.  Byggi stefnandi á því að úr því að hefðarlög heimili eignar­hefð lands sem sé í opinberri eigu þá hljóti enn frekar að vera unnt að hefða land sem sé ekki eignarrétti háð.  Sjónarmiðin um hefð séu því til staðfestingar náminu, þ.e. til þess að festa í sessi eignarrétt þessara aðila.  Þar sem 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu sé hluti af íslenskum rétti beri íslenskum dómstólum að taka mið af þeim sjónarmiðum sem lögð séu til grundvallar dómstólsins við mat á því hvort um sé að ræða eign sem njóti verndar tilvitnaðs ákvæðis.

 

Útilokað sé að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda allt frá landnámi til dagsins í dag.  Hins vegar verði að telja eðlilegt að stefndi beri hallann af þeim vafa sem fyrir hendi sé.  Í ljósi þeirra gjörninga sem liggi fyrir um ráðstöfun landsins haldi stefnandi því fram að hann hafi fært fram nægar heimildir fyrir eignatilkalli sínu og það sé því stefnda að sanna að landið sé þjóðlenda.

 

Samkvæmt gögnum er lögð hafi verið fyrir óbyggðanefnd sé ljóst að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám og talið að landið hafi verið vel gróið upp í 6-700 metra hæð.  Atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ráði því ekki úrslitum þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði.  Sé það í samræmi við niðurstöðu óbyggðanefndar í sambærilegum málum.  Notkun lands geti auðvitað gefið vísbendingar um hvort land sé eignarland eða ekki en ekki megi alhæfa út frá því.  Megi sem dæmi nefna að mjög stór hluti lands á láglendi sé ekki í neinum heilsársnotum af skiljanlegum ástæðum.  Yfir vetrartímann sé landið gegnfrosið og enginn skepna fari um það.  Séu til heimildir fyrir því að landið hafi um langan tíma verið nytjað allt árið, sbr. heimildir um beit, veglagningu, skálabyggingar, námu­vinnslu og nú orkuvinnslu.  Það sem mestu skipti sé þó að á þessu svæði hafi stefnandi getað bannað öðrum not landsins. Megi þar vísa til samninga um námur og skála á svæðinu.  Þetta hefði að sjálfsögðu ekki verið gert ef réttur landeigandans hefði ekki verið virtur sem sanni að hann hafi getað bannað not landsins.

 

Geti venjur varðandi fjallskil ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð, sbr. úrskurður óbyggðanefndar í uppsveitum Árnessýslu frá 21. mars 2002.

 

Að mati stefnanda beri athugasemdir við það frumvarp sem varð að lögum nr. 58/1998 skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um þetta efni.  Verði lög nr. 58/1998 því ekki skýrð á þá leið að stefnandi, sem þinglýstur eigandi Valþjófsstaðar, þurfi að sýna frekar fram á en hann hafi gert með framlagningu ofangreindra eignarheimilda, að umrætt landssvæði sé eignarland og þar með utan þjóðlendu.  Hafi eigandi Valþjófsstaðar, stefnandi máls þessa, í ljósi eignarheimilda sinna og viðurkenningar ríkisvaldsins á þeim í reynd, lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að afréttirnir séu beinum eignarrétti háðir.  Þessi eignarréttur verði ekki af honum tekinn bótalaust.   Sé því óhjákvæmilegt að fella úrskurð óbyggðanefndar úr gildi varðandi umdeilt landsvæði.  Ekki sé ágreiningur við stefnda um merki jarðarinnar og vísist til úrskurðar óbyggðanefndar um röksemdir fyrir þeim og til framlagðra landamerkjabréfa.

 

Í málavaxtakafla stefnu greinir stefnandi frá landnámi á því svæði sem hér er fjallað um.  Kveður hann að í Landnámu segi um svæðið: „Þorgeirr Vestarsson hét maðr göfugr; hann átti þrjá sonu; var einn Brynjólfr enn gamli, annarr Ævarr enn gamli, þriðji Herjólfr.  Þeir fóru allir til Íslands á sínu skipi hverr þeirra.  Brynjólfr kom skipi sínu í Eskifjörð ok nam land fyrir ofan fjall, Fljótsdal allan fyrir ofan Hengiforsá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá fyrir austan, Skriðudal allan, ok svá Völluna út til Eyvindarár ok tók mikit af landnámi Una Garðarssonar ok byggði þar frændum sínum og mágumHrafnkell hét maðr Hrafnsson; hann kom út síð landnámatíðar. Hann var enn fyrsta vetr í Breiðdal, en um várit fór hann upp um fjall. ... Síðan nam Hrafnkell Hrafnkelsdal ok bjó á Steinröðarstöðum.“  Landnáma geti ekki býlis Brynjólfs og Steinröðarstaðir séu ekki þekktir.

 

Þá kemur fram hjá stefnanda að Sveinbjörn Rafnsson hafi fjallað um byggðasögu Hrafnkelsdals samkvæmt ritheimildum í bókinni „Byggðaleifar í Hrafnkelsdal og á Brúardölum.“ Þar segi hann meðal annars að Hrafnkell hafi samkvæmt Landnáma­bókum verið landnámsmaður í Hrafnkelsdal og Brynjólfur gamli Þorgeirsson hafi numið innanverðan Fljótsdal.  Hafi þá landnám þeirra Hrafnkels og Brynjólfs náð hvort að öðru, væntanlega einhvers staðar í Fljótsdalsheiðinni.  Þannig eigi þrír landnámsmenn að hafa eignað sér land á svæði því sem hér sé til umfjöllunar, Hákon hafi numið Eiríksstaða- og Brúarlönd, Hrafnkell Hrafnkelsdal og Brynjólfur Fljótsdal.  Jökulsá á Brú skilji að landnám þeirra Hákonar og Hrafnkels, Fljótsdals­heiði skilji að landnám Hrafnkels og Brynjólfs.  Landnámamörkin inni á hálendinu og öræfunum séu ekki tiltekin.

 

Séu Landnámabækur samhljóða um afmörkun þessara landnáma og um landnáms­menn þeirra.  En Landnámabækur telji meðal annars þá sem á 12. og 13. öld hafi verið taldir hafa haft heimildir á búlöndum Íslands í öndverðu.  Yngri heimildir en Landnáma, og að nokkru háðar henni séu Droplaugarsonasaga, Brandkrossa þáttur, Hrafnkels saga og Fljótsdæla saga og kunni þær allar að varpa nokkru ljósi á byggða­sögu svæðisins og viðhorf manna til hennar á 12., 13. og 14. öld.  Sé það eitt af einkennum hinna fornu héraðasagna, sem að nokkru styðjist við Landnámu, að í þeim sé oft farið frjálslega með efnið eða lauslega rakið þegar um ábúð og eignarhald ákveð­inna jarða sé að ræða.

 

Sveinbjörn bendi á þögn fornsagnanna áðurnefndu um stórbýlin á landsvæðinu, Eiríksstaði og Brú á Jökuldal og Valþjófsstað í Fljótsdal.  Hann telji frásagnir Land­námu geta verið frá byrjun 12. aldar.

 

Heimildir séu um að aðalkirkjan í Fljótsdal hafi verið á Bessastöðum, en um eða fyrir 1200 hafi hún verið flutt á Valþjófsstað.  Jarðarinnar muni fyrst hafa verið getið í Njálu í upphafi 11. aldar, er þar hafi Sörli Brodd-Helgason búið.  Á 12. og 13. öld hafi jörðin verið eitt af höfuðbólum Svínfellinga, sem á þeim tíma hafi verið valdamesta ætt á Austurlandi.  Sé talið að Valþjófsstaðakirkja hafi verið búin að eignast alla jörðina 1306 og hafi hún verið talin eign þjóðkirkjunnar frá stofnun hennar.  Kirkjujarðir Valþjófsstaðakirkju í Fljótsdal hafi verið Hóll sem var hjáleiga, Þuríðar­staðir, Egilsstaðir, Kleif, Langhús, Arnaldsstaðir og Þorgerðarstaðir.  Auk þessa hafi kirkjan átt Aðalból og Vaðbrekku í Hrafnkelsdal.  Þessar jarðir hafi verið stofnaðar út úr Valþjófsstaðalandi af kirkjunni.

 

Í brauðmati 1854 og Jarðatali Johnsens 1847 sé yfirlit um jarðeignir Valþjófsstaðar, ítök og hlunnindi.  Þar komi fram, að staðurinn eigi fjögur nafngreind afréttarlönd,  Vesturöræfi milli Snæfellsfjallabálksins og Jöklu, þriðjung Rana milli Eyvindarár og Hölknár, Suðurfell (Kiðafell) og Hellna afrétt, sem vafalaust eigi að vera Fellna afrétt, þ.e. landið Undir Fellum, aðallega austan Snæfellsfjallbálksins að Jökulsá í Fljótsdal.

 

Í sveitarlýsingu í bókinni „Sveitir og jarðir í Múlaþingi“ sem gefin hafi verið út af Búnaðarsambandi Austurlands 1975 segi meðal annars að jörðin Valþjófsstaður sé í Fljótsdalshreppi sem hafi verið annar víðlendasti hreppur á Héraði og séu mörk hans í stórum dráttum þessi: „Að austan við Gilsá er fellur í Lagarfljót við austanverðan Fljótsbotn og rennur um Gilsárdal, sem liggur austan við Víðivallaháls, sem bæirnir á Suðurbyggð í Fljótsdal standa vestan undir. Síðan liggur markalínan, sem jafnframt er sýslumörk Norður- og Suður-Múlasýslu áfram í suðvestur um Horbrynju (961m), Sauðahnjúk og eftir vatnaskilum við Hamarsdal og Geithellnadal allt þangað sem mörk við Austur-Skaftafellssýslu taka við skammt austur af Víðidalsvarpi. Þaðan þverbeygir markalínan til vesturs í norðausturhorn Vatnajökuls, þar sem Geldingafell (1087m) stendur við jökulbrún, og ráða jöklar síðan mörkum vestur til Jökulsár á Brú. Að vestan ræður Jökulsá mörkum frá upptökum og norður á milli Kárahnjúka inn og suður af Hrafnkelsdal. Mörk við Jökuldal eru víða óljós á Fljótsdalsheiði, en þó ákveðin frá Kárahnjúkum þvert austur yfir Tungusporð, þar sem saman koma ár Glúmsstaðadals og Þuríðarstaðadals í Hrafnkelu, og austur á Kálffell. Miðheiðarháls er á vatnaskilum heiðarinnar og nær suður á móts við Kleif. Að minnsta kosti eftir að kemur norður fyrir Gilsárvötn ræður hann hreppamörkum. Við Merkisgreni skammt norðvestur af Hengifossárvatni eru mörk Fljótsdals og Fella, liggja þaðan austur af heiðinni í Kílkrók svonefndan og fylgja síðan Hrafngerðisá niður í Lagarfljót.“

 

Jarðirnar í Hrafnkelsdal og þaðan út með Jökulsá að austan, Brattagerði, Þorskagerði, Fossgerði, Klaustursel og Merki, hafi fyrr verið eign Valþjófsstaðar, Skriðu og Arnheiðarstaða og nytjaðar sem hjáleigur, en samt sem áður í Jökuldalshreppi og Hofteigs- og Brúarsókn.  Á 19. öld hafi Glúmsstaðir og Víðivellir ytri verið einu jarðir í Fljótsdal í bændaeign.  Allar aðrar jarðir hafi verið Valþjófsstaðar og Skriðu nema ¾ hlutar af Arnheiðarstöðum og hjáleigunni Geitagerði (fátækraeign).

 

Hafi byggð hafist að nýju í Hrafnkelsdal árið 1770 og hafi þar verið að verki Pétur Guðmundsson, prests Ingimundarsonar frá Hofteigi.  Bæ sinn hafi hann nefnt Vaðbrekku og hafi hann flust þangað frá Brú, en hafði áður búið að Hvanná.  Hann virðist svo hafa verið farinn þaðan árið 1780.  Næst sé vitað til þess, að Magnús Jónsson búi á Vaðbrekku 1783.  Á Aðalbóli hafi sama ár búið Guðmundur Þorvarðar­son og hafi hann búið þar til dauðadags 1803.  Hafi Andrés Erlendsson byggt Vaðbrekku árið 1789 og búið þar til 1806 er að sonur hans hafi tekið við.  Ljóst sé að býli þessi hafi verið stofnuð af Kirkjunni út úr Valþjófsstaðalandi.  Tvíbýli hafi verið á Valþjófsstað frá 1926, en 1949 hafi ræktunarlandi verið skipt og stofnað nýbýli V II. á þriðjungi jarðarinnar.

 

Eins og fram er komið byggir stefnandi kröfu sína á þinglýstu landamerkjabréfi og öðrum skráðum eignarheimildum, fornum og nýjum, sem hann hafi fyrir þessari eign sinni, sbr. þinglýsingarvottorð, og einnig þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða.  Sérstaklega sé vísað til máldaga Valþjófsstaðakirkju frá 1397 en samkvæmt honum eigi kirkjan heimaland allt, land undir Kleif fram frá Þuríðarstöðum undir jökla, með öllum gæðum að undanskildum skógi og selland á Laugarhúsum.

 

Sé til skjalfestur vitnisburður þriggja leikmanna frá árinu 1484 um það að Valþjófsstaðaland taki allt vestur að Jökulsá, réttsýnis frá Landamerkjagarði milli Skriðuklausturs og Valþjófsstaða. Þar sé sú lína dregin milli þessara stórbýla fyrir mynni Hrafnkelsdals, sem síðan hafi gilt.

 

Næsti vitnisburður um land Valþjófsstaðar sé frá árinu 1517.  Þá vitni Kolgrímur prestur Koðránsson, að þau tólf ár (1502-1514), sem hann hélt Valþjófsstað hafi engir rekið lömb né annan fénað á Öræfi en nyrðri né syðri án síns leyfis, nema lambarekstur hafi verið hafður frá Skriðu í Maríutungur, en þar segi: „Öræfi en nyrðri“ muni vera afréttarlandið, sem nú sé nefnt Vesturöræfi, Hrafnkelsdalur sé ekki nefndur en muni vera talinn innifalinn.

 

Árið 1552 vitni leikmaður einn í Fljótsdal, að í 30 ár sem hann hafi búið í Fljótsdal, hafi hann aldrei heyrt leika tvímæli á því að eign Valþjófsstaðakirkju væri allt land millum Jökulsár og Snæfells fram undir jökla og í utanverðan Hrafnkelsdal hinn ytri. Sama ár sé þetta staðfest með vitnisburði annars leikmanns og þar getið selfara, en ótiltekið.

 

Í vísitasíu Brynjólfs biskups Sveinssonar 1641 segi að kirkjan á Valþjófsstað eigi heimaland allt eftir gömlum kirkjunnar máldaga.  Enn fremur að með vitnisburði Gissurar Helgasonar frá árinu 1552 komi fram að hann hafi ekki heyrt frá ellefu ára aldri í reiknuð 32 ár nokkurn eiga neina ítölu fram á Staðaröræfi utan hundrað lamba rekstur frá Skriðu í Maríutungur á móti torfskurði þar.  Enn fremur að enginn hafi leyfislaust rekið nefndan tíma fram af Seljadal eða undir Snæfell og eigi hin nyrðri öræfin utan búsmala rekstur sem í seljum hafi verið hafður.

 

Í sömu vísitasíu sé getið vitnisburðar Kolgríms prests Koðránssonar, sem haldið hafði staðinn í 12 ár, að enginn hafi rekið lömb eða annað fé fram á öræfin, nyrðri eða syðri, nema með sínu leyfi og engan pening utan lambarekstur frá Skriðu í Maríutungur.  Þá sé getið vitnisburðar um staðarins eign milli Jökulsár og Snæfells og dómsbréfs upp á fyrrgreinda vitnisburði að nýtir séu, að Hrafnkelsdalur og Öræfi milli Jökulsánna séu eign Valþjófsstaðar, en dagsetning sé á Egilsstöðum 1621 og dómarar S Ólafur Einarsson prófastur og Árni Magnússon sýslumaður með þeirra undirskriftum og sex dóms manna.  Síðan sé getið landamerkja staðarins að framan og sé þeim svo lýst: 

 

„Múlaland milli merkigarðs út frá Arnaldsstöðum og þess merkigarðs, sem er út frá Gnúpsstöðum.  Þetta er fyrir sunnan Jökulsá. En fyrir norðan fram í þann garð, sem liggur fyrir utan Ljósá og landamerki deilir milli Valþjófsstaðar og Þuríðarstaða. Þetta að framan.  En að vestan ræður fjallið að utan úr fjallinu í grjóthrygginn, sem ofan eftir liggur fjallinu þaðan ofan eftir merkigarði í Jökulsá, en hún ræður að austan.“

 

Í vísitasíu 1677 sé sama lýsing á landamerkjum staðarins og hér að ofan segi. Ennfremur segi að kirkjan eigi heimland allt og Múlaland allt og einnig land undir Kleif fram frá Þuríðarstöðum undir jökla með öllum gæðum nema skóg og enn fremur selland að Laugarhúsum og alla skóga frá lækjum fyrir utan Maríutungur.  Í vísitasíum 1706, 1748 og 1763 sé ekkert nýtt að finna, en getið þess sama og áður.

 

Árið 1779 sé Valþjófsstaður vísiteraður af Hannesi Finnssyni, biskupi.  Hann hafi haft þessa viðbót við fyrri vísitasíur að land undir Kleif fram frá Þuríðarstöðum undir jökla með öllum gæðum utan skóg samkvæmt vísitasíu Brynjólfs Sveinssonar 1641, og fylgi skógur landi eftir gömlu hefðarhaldi, sem síðan hafi verið viðvarandi eftir því sem menn viti.

 

Í vísitasíu 1850 segi að selland að Laugarhúsum, sem máldagarnir eigni Valþjófs­staða­kirkju, liggi í Hrafnkelsdal, sem nú sé allur eign téðrar kirkju, sem þar eigi 2 lögbýli, Aðalból og Vaðbrekku.  Þá segi að staðarhaldarinn tilkynni, að eftir hefðar­haldi tilheyri kirkjunni svokallað Fell fram til jökla, líklega hið sama sem í gamla daga hafi verið kallað Kiðafell og liggi milli Kelduár að vestanverðu og Fellsár að austanverðu.  Þessa Fells sé getið í landamerkjabók yfir ítök Valþjófsstaðakirkju, en skráin sé rituð 6. júní 1885.  Sé eitt ítak kirkjunnar svokallað Fell eða Suðurfell, sem liggi á milli Kelduár og Fellsár allt fram til jökla.

 

Með framangreindu yfirliti sé upplýst að Valþjófsstaðakirkja hafi eignast Hrafnkelsdal og Vesturöræfi fyrir hefð og venju en ekki liggi fyrir skriflegar heimildir um hvernig kirkjan eignaðist land þetta, enda hafi það gerst á þeim tíma er munnlegir samningar tíðkuðust meira en skriflegir.

 

Þegar byggð hófst aftur í Hrafnkelsdal á síðari hluta 18. aldar, fyrir tilstilli Valþjófsstaðapresta, hafi býlin greitt landskuld til heimajarðarinnar.  Hrafnkelsdælir hafi einnig átt kirkjusókn að Valþjófsdal um langa hríð.

 

Í ljósi ofanritaðs sé á því byggt að ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að umrætt land, innan ofangreindra landamerkja, sé undirorpið fullkomnum eignarrétti og aldrei haldið öðru fram.  Hafi ríkisvaldið nokkru sinni getað haft uppi vefengingar­kröfu á hendur eigendum Valþjófsstaðar, þá sé ljóst að hún sé niður fallin vegna fyrningar og tómlætis. Hafi öllum heimildarskjölum stefnanda verið þinglýst athugasemda­laust.  Í ljósi þeirra gjörninga sem liggi fyrir um ráðstöfun landsins, um margra alda skeið, sé því haldið fram stefnandi hafi fært fram nægar heimildir fyrir eignatilkalli sínu.  Það sé því stefnda að hrekja þá staðhæfingu stefnanda að þrætulandið sé í eign stefnanda.  Hafi stefndi ekki sýnt fram á með neinum haldbærum gögnum að land innan þinglýstra landamerkja Valþjófsstaðar sé ekki beinum eignar­rétti háð.  Landamerkjabréfum jarðarinnar sé þinglýst í landamerkjabók og á þeim síðan byggt um merki Valþjófsstaðar og aðliggjandi jarða og sveitarfélaga.

 

Fyrsta varakrafa byggi á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa, þó þannig að á það sé fallist að Valþjófsstaðakirkja hafi einungis eignast afnotarétt á Vesturöræfum fyrir hefð og venju en ekki liggi fyrir skriflegar heimildir um hvernig kirkjan hafi eignast land þetta, enda hafi það gerst á þeim tíma er munnlegir samningar tíðkuðust meira en skriflegir.  Stefnandi hafi nýtt þau landsvæði sem hér um ræðir eftir því sem tilefni hafi verið til og aldrei nokkur verið í vafa um að hann væri til þess bær.  

 

Önnur varakrafa byggi á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa, þó þannig að á það sé fallist að Valþjófsstaðakirkja hafi einungis eignast afnotarétt á Vesturöræfum og Rana fyrir hefð og venju, en ekki liggi fyrir skriflegar heimildir um hvernig kirkjan hafi eignast land þetta, enda hafi það gerst á þeim tíma er munnlegir samningar tíðkuðust meira en skriflegir.  Í þessu felist að vesturhluti jarðarinnar teljist þjóðlenda, þ.e. sá er tilheyri Hrafnkelsdal, en austurhlutinn teljist eignarland enda styðjist sá eignarréttur meðal annars við máldaga Valþjófsstaðar frá 1397.  Meiri óvissa sé hins vegar um hvernig Hrafnkelsdalur hafi lagst undir Valþjófsstað.  Stefnandi hafi nýtt þau landsvæði er hér um ræði, eftir því sem tilefni hafi verið til og aldrei hafi nokkur verið í vafa um að hann væri til þess bær.  

 

Þriðja, fjórða og fimmta varakrafa byggi á því að viðurkenndur verði beinn eignarréttur á því landi Valþjófsstaðar sem lýst sé í máldaga staðarins frá 1397. Krafan sé því í samræmi við varakröfu ríkisins hjá óbyggðanefndStefnandi sé hinsvegar ekki sáttur við hvernig ríkið hafi afmarkað umrætt land samkvæmt máldaganum.  Hann krefjist þess því aðallega að miðað verði við vatnaskil á Fljótsdalsheiði, sem jafnframt séu sveitarfélagamörk, (3. varakrafa) en til vara eftir þekktum örnefnum á heiðinni, (4. varakrafa) og til þrautavara að miðað verði við uppdrátt ríkisins á varakröfu.(5. varakrafa).

 

Sjötta varakrafa byggi á því sjónarmiði að land norðan þessarar línu sé í samfellu við land Valþjófsstaðar og jarðanna í Hrafnkelsdal.  Engin rök séu fyrir því að landnám hafi ekki verið samfellt á þessu svæði, en land sunnan línunnar sé meira afréttarland og liggi fjær byggð.  Eldri eignarheimildir Valþjófsstaðar meðal annars hinn forni dómur frá 1621 um landamerki Valþjófsstaðar, styðji að merki jarðarinnar til norðausturs hafi náð til jökulsár á Dal um aldir.  Um hversu langt til suðurs eignarland Valþjófsstaðar nái sé meiri óvissa, en ef fallist verði á þessa kröfu verði línan í samræmi við þjóðlendulínuna austan og vestan jökulsáa, en taki ekki þetta undarlega stökk til norðurs.  Þá sé einnig ljóst að nýtingin á Rananum og þessu landi nær byggð hafi verið meiri en á landi því sem liggi nær jökli, auk þess sem það sé láglendara og betur gróið.

 

Samkvæmt sjöundu varakröfu sé þess krafist, verði niðurstaða óbyggðanefndar staðfest, að viðurkennt verði að stefnandi eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað hafi verið í afréttareign eiganda Valþjófsstaðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga þó landið teljist þjóðlenda.  Krafa þessi byggi í eðli sínu á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa.  Í lögun nr. 58/1998 um þjóðlendur sé beinlínis gert ráð fyrir að þeir sem nýtt hafi land innan þjóðlendu skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um, sbr. 5. gr. laganna. 

 

Stefnandi kveðst einnig vísa til reglna um stofnun ítaka, þar sem meðal annars sé rætt um að háttsemi aðila eða þegjandi samþykki geti orðið til þess að ítaksréttur stofnist. Hafi stefnandi um áratugaskeið notið auðlinda, þ.m.t. námuréttinda á umræddu landsvæði.  Þá hafi stefnandi leigt lóðir undir skála án nokkurra athugasemda í fullan hefðartíma.  Með auðlindum í þessu efni sé átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna megi úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunni að finnast við.

 

Í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé ráð fyrir því gert í 3. gr. að í þjóðlendu séu auðlindir eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. 

 

Hefð sé eignarheimild að íslenskum rétti og felist í umráðum, sem varað hafi vissan tíma og verði að uppfylla tiltekin skilyrði.  Hefð sé skyld námi að því leyti að taka umráða sé nauðsynlegt skilyrði hefðar.  Samkvæmt lögum um hefð nr. 46/1905 sé óslitið eignarhald skilyrði hefðar.  Skilyrðin séu fyrst og fremst virk yfirráð eignar, bein hagnýting án löggerninga, ráðstafanir að lögum, viðhorf hefðanda og annarra aðila.  Eins og mál þetta liggi fyrir verði að telja að skilyrði hefðalaga um óslitið eignarhald sé fullnægt.

 

Hvað varðar sönnun um hefðarskilyrði 3. mgr. 2. gr. sé aðstaðan í meginatriðum á þann veg að sá aðili, sem vefengi hefð verði að sýna fram á að skuldbindingar af umræddu tagi hafi verið fyrir hendi.  Komi fram sönnun um skuldbindingu sé það á hinn bóginn hefðanda að sýna fram á að skuldbindingin hafi einhvern tíma fallið niður.

 

Stefnandi telur að tilgangurinn með lögum um þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landssvæða sem enginn hafi skjöl fyrir að hann eigi, en þannig hátti til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands.  Óbyggðanefnd eigi að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu.  Land Valþjófsstaðar sé hins vegar ekki eigendalaust eins og fyrrgreind heimildarskjöl beri með sér.

 

Samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaganna nr. 58/1998 komi einmitt fram að þjóðlendur séu utan eignarlanda en eignarland sé skilgreint sem landssvæði sem háð sé einka­eignarrétti þannig að eigandinn fari með öll venjuleg eignarráð þess.  Stefnandi haldi því fram að svo sé með allt það land sem hann hafi þinglýsta eignarheimild fyrir.  Innan þinglýstra landamerkja landeigna fari landeigendur einir með öll venjuleg eignarráð, bæði raunveruleg og réttarleg yfirráð.  Stefnandi telji því að leggja verði sönnunarbyrði á stefnda um tilvist þjóðlendu innan landamerkja þrætusvæðanna.

 

Óumdeilt ætti að vera að þrætusvæðið sé innan upphaflegs landnáms.  Það sé stefnda að sýna fram á og sanna að beinn eignarréttur á þessu landi hafi fallið niður.  Stefnandi byggi á því að sú sönnunarregla sé eðlileg með tilliti til þess að stefnandi hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf fyrir landinu og margvísleg gögn er sýni fram á að innan þessara merkja hafi eignarréttur stefnanda verið virtur af öllum aðilum.  Sú óhóflega sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á stefnanda með því að krefjast sannana um framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi standist hvorki eignar­réttar­ákvæði stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Í almennum forsendum úrskurðar síns hafi óbyggðanefnd fjallað um hefð og þýðingu hefðar við úrlausn þjóðlendumála.  Komist sé að þeirri niðurstöðu að hefð sé eitt dæmi um frumstofnun eignarréttar.  Segi enn fremur að við mat á því hvort tekist hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það sé innan eða utan landamerkja jarðar og skipti gildistaka hefðarlaga 1905 máli og hljóti að styrkja eignartilkall í slíkum tilvikum.  Skilyrði fyrir því að eignarhefð verði unnin á landsvæði utan landamerkja jarðar séu hins vegar talin þröng þó að ekki sé slíkt talið útilokað.  Stefnandi fái ekki séð hvers vegna þessi sjónarmið óbyggðanefndar eigi ekki við um þrætusvæðið.  Landið sé innan þinglýstra landamerkja og það sé háð einkanýtingar­rétti stefnanda.

 

Bændur í sveitarfélaginu eigi hefðbundinn upprekstrarrétt á landið en enginn nema eigandinn, og þeir sem leyfi hafi fengið hjá honum geti nytjað landið til beitar, jarðefnavinnslu, landleigu eða á nokkurn annan hátt.

 

Niðurstaða óbyggðanefndar varðandi þrætusvæðið byggist alfarið á því að ósannað sé að til eignarréttar hafi stofnast fyrir nám, og jafnvel þó svo sé þá hafi beinn eignarréttur fallið niður því samhengi eignarréttar og sögu liggi ekki fyrir.  Með vísan til framangreindra sjónarmiða og til fjölmargra dómafordæma Hæstaréttar og Evrópudómstólsins, til dæmis í máli Helgu klaustranna gegn Grikklandi, sé niðurstaða óbyggðanefndar röng.  Þá sé það fráleit niðurstaða að land hjáleigna Valþjófsstaðar sé nú orðið stærra en land móðurjarðarinnar, en svo verði raunin standi úrskurður óbyggðanefndar óhaggaður.  Nefndin hafi metið ranglega sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á stefnanda sem ekki fái staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Þá beri að hafa í huga þá staðreynd að gagnaöflun óbyggðanefndar sé ekki fullkominn, sbr. álit Einars G. Péturssonar prófessors, sem hafi upplýst að á Árnasafni séu þúsundir skjala sem ekki hafi verið rannsökuð.  Allan vafa verði því að meta stefnanda í vil.  Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.

 

Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að í úrskurði Óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar og úrskurðurinn fari því gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58/1998.  Enginn rök séu færð fram fyrir því hvernig umræddur eignarréttur hafi fallið niður eða hvernig slíkt gerist. Hugmyndir um ráðstöfun landsins á einhverjum tíma án nýtingarréttar séu fráleitar.

 

Stefnandi telur að með úrskurði óbyggðanefndar hafi hann verið sviptur réttinum til að njóta eigna sinna í friði, en eignarréttur hans að jörðinni Valþjófsstað njóti verndar samkvæmt 1. gr. í viðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu svo og 6. gr. og 14. gr. sáttmálans.  Jörðin Valþjófsstaður sé þinglýst eign stefnanda og með úrskurði óbyggðanefndar hafi stefnandi verið sviptur þeirri eign sinni að stærstum hluta.  Ekki sé mælt fyrir um slíka sviptingu eignar í lögum.  Sviptingin sé ekki gerð vegna almannahagsmuna enda hafi íslenska ríkið ekki byggt á því fyrir óbyggðanefnd.  Ekki hafi verið gætt sanngjarns og réttláts jafnvægis milli almannahagsmuna, ef um þá var að ræða, og mannréttindaverndar eigandans, sem honum sé áskilin í 1. gr. 1. viðauka sáttmálans.  Það að svipta stefnanda eignarétti að landsvæðinu stefni ekki að lögmætu markmiði sem orðað sé svo í lagatextanum eða undirbúningsgögnum þjóðlendu­laganna.  Þá hafi ekki verið tekið tillit til þeirra réttmætu væntinga stefnanda um að verða ekki sviptur eignarréttindum sínum að landsvæðinu, en þær væntingar njóti verndar 1. gr. 1. viðauka við sáttmálann.   Þá hafi sjónarmið stefnanda um meðalhóf verið sniðgengin.  Stefnandi eigi, að áliti stefnda ekki rétt á fébótum vegna eignarsviptingarinnar.

 

Stefnandi telur að hann hafi sætt þess háttar mismunun, sem bann sé lagt við í 14. gr. sáttmálans með hliðsjón af 1. gr. 1. viðauka (art. 14+P1-1).  Það sé almenn lagaregla á Íslandi að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar og frá þeirri reglu verði ekki vikið nema sá, sem vefengir réttmæti eignarheimildarinnar, sýni fram á betri rétt sinn eða annarra eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um eignarréttinn.

 

Óbyggðanefnd vísi til fordæma Hæstaréttar í málum út af þjóðlendulögum og telji sér skylt að gera aðrar og meiri sönnunarkröfur til stefnanda sem landeiganda en hann hefði ella gert. Ástæðan sé sú að Hæstiréttur hafi í fyrstu málunum út af þjóðlendulögunum komist að þeirri niðurstöðu að landamerkjabréf gerð samkvæmt fyrirmælum landamerkjalaganna frá 1882 væru ófullnægjandi sönnun um eignarrétt í þeim tilvikum sem íslenska ríkið gerði kröfur til þess að land innan þinglesinna merkja teldist að öllu leyti eða hluta þjóðlenda.  Í þeim tilvikum hafi Hæstiréttur gert þá sönnunarkröfu til hinna þinglýstu eigenda að þeir styddu eignarheimildir sínar við enn eldri heimildir.  Slíkar heimildir séu sjaldnast fyrir hendi um lönd í eigu bænda, enda hafi þeir ekki haft ástæðu til að varðveita eldri sönnunargögn eftir að þeir höfðu þinglýst landamerkjabréfum lögum samkvæmt.  Engu að síður sé það svo að um Valþjófsstað séu til eignarheimildir sem séu meira en 700 ára gamlar, sem styðji við landamerkjabréf Valþjófsstaðar.  Sambærileg skjöl hafi verið talin duga til að sanna beinan eignarrétt að landi, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 48/2004. (Biskups­tungur) og nr. 47/2007 (Núpsstaður) en engin rök standi til þess að land Valþjófsstaðar hafi aðra stöðu að lögum en land ofangreindra jarða.

 

Mismununin sé í því fólgin að óbyggðanefnd geri hér aðra og ríkari sönnunarkröfu til eiganda Valþjófsstaðar en til sönnunar um eignarrétt að öðrum fasteignum í landinu almennt. Sönnunarkrafa óbyggðanefndar sé óljós, ógagnsæ, ófyrirsjáanleg og tilviljunarkennd og bitni einungis á stefnanda sem og öðrum þeim eigendum landa, sem íslenska ríkið geri eignartilkall til á grundvelli þjóðlendulaga en ekki á öðrum landeigendum í landinu.

 

Við mat á þessu beri meðal annars að hafa í huga að hvorki í texta þjóðlendulaganna né í undirbúningsgögnum laganna sé neitt sem bendi til að það hafi verið markmið löggjafans eða vilji að þeir landeigendur sem áttu þinglýstar og þar með sannaðar eignarheimildir að löndum sínum samkvæmt almenum sönnunarreglum, yrðu sviptir eignarréttindum sínum.  Hvorki hlutlæg né huglæg túlkun túlkum laganna leiði til slíkrar niðurstöðu.

 

Hæstiréttur Íslands hafi í öðru samhengi orðað þá reglu að mannréttindi sem verndar njóti verði ekki skert nema fyrir því sé skýr regla í settum lögum og reglan samræmist ákvæðum stjórnarskrár.  Slíkt ákvæði sé ekki að finna í þjóðlendulögum, enda hafi ekkert komið fram við meðferð frumvarps til þjóðlendulaga á Alþingi, sem bendi til að stefnt hafi verið að því að svipta eigendur afrétta eignarrétti sínum. 

 

Rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum og dómi njóti verndar samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Verði í lögum eða dómafordæmum mótaðar reglur um svo þunga sönnunarbyrði, einkum í dómsmálum borgaranna gegn ríkisvaldinu vegna mannréttindabrota þess, þannig að nánast útilokað sé að borgararnir geti uppfyllt sönnunarkröfurnar, þá jafngildi það því, að útilokað sé að þeir fái mannréttindi sín viðurkennd gagnvart ríkisvaldinu.  Í umræddum úrskurði hafi óbyggðanefnd lagt svo þunga sönnunarbyrði á herðar stefnanda um sönnun á stofnun og framsali eignarréttar að honum sé ókleift að standa undir henni.  Með slíkum reglum um sönnunarbyrði um eignarrétt að landi, sem stefnandi hafi einn nýtt um aldir athugasemdalaust, sé komið í veg fyrir að stefnandi njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum.

 

Ein af meginröksemdum stefnanda fyrir því að teljast eigandi Valþjófsstaðar hafi verið tilvísun til löggiltra máldaga og vísitasía, dóma og lögfesta þar sem eignarréttur eiganda Valþjófstaðar sé staðfestur og það með sömu ummerkjum sem þinglýst hafi verið með landamerkjabréfinu sem gert var í tilefni landamerkjalaganna 1882, en bréfinu hafi verið þinglýst 1885.  Ekki sé minnst á þýðingu máldaga Valþjófsstaðar frá 1397 í niðurstöðum óbyggðanefndar sem þó hafi verið grundvöllur varakröfu ríkisins, eða ýmissa fleiri eldri heimilda.  Þar segi aðeins: „Af heimildum er ljóst að afréttarsvæðin Undir Fellum, Rani og Vesturöræfi taka við þar sem „heimalandi“ sleppir. Þegar þeirra er getið í skriflegum heimildum er það fyrst og fremst tengt upprekstri og afréttarnotum.  Gerður er greinarmunur á þeim og heimalandi með því að þau eru jafnan tiltekin sérstaklega og þess getið að Valþjófsstaður eigi þar afrétt, hlunnindi eða ítak.  Umfjöllun um þau bendir þannig til að um sé að ræða kirkjuafrétt í þeim skilningi að Valþjófsstaðarkirkja hafi átt þar óbein eignarréttindi, sbr. m.a. lögfestu kirkjunnar frá 1794 og landamerkjabréf frá 1885.“  Enginn rökstuðningur sé þó settur fram fyrir því hver sé eignarréttarlegur munur á heimalandi og öðru landi Valþjófsstaðar, enda engin landfræðileg eða notkunarleg lína til um þessi mörk. Stefnandi telur að löngu sé orðið viðurkennt í málsmeðferð óbyggðanefndarmála að orðið heimaland vísi til heimajarðarinnar allrar í tilvikum sem þessum.  Sé niðurstöðu óbyggðanefndar um annað mótmælt.

 

Þá sé ekki skýrt hvað óbyggðanefnd eigi við með orðinu kirkjuafréttur sem notað sé í niðurstöðu nefndarinnar og sé því mótmælt að hægt sé að afgreiða eignarréttarlega stöðu landsins með vísan til slíkra óskilgreindra hugtaka.  Hafa beri í huga að í Jónsbók sé á því byggt að allir afréttir séu í einkaeign tveggja manna eða fleiri, þ.e. að afréttir séu í óskiptri sameign tveggja manna eða fleiri.  Fyrir þessu fyrirkomulagi séu söguleg og efnahagsleg rök.  Valþjófsstaður sé hins vegar ekki lögafréttur með þessum hætti heldur einkaland, víðfeðm jörð sem meðal annars enginn hafi getað nýtt nema með leyfi eigandans.  Þetta sjáist best meðal annars þegar skoðaðar séu heimildir frá 1491 um ítak Skriðu (klausturs) í Valþjófstaðalandi, þ.e heimild til lambauppreksturs í Maríutungur, sem sé landsvæði á Vesturöræfum upp við Vatnajökul, gegn torfskurði í Skriðu (klausturs) landi.  Ítak sé ævinlega í eignarlandi.  Ekki sé minnst á þetta í niðurstöðum óbyggðanefndar.

 

Af 6. gr. mannréttindasáttmálans og skilyrðinu um réttláta málsmeðferð leiði að úrskurðaraðilum sé skylt að rökstyðja niðurstöður sínar.  Krafan um rökstuðning þjóni margvíslegum tilgangi, meðal annars að sýna aðilum máls fram á, að röksemdum þeirra hafi verið veitt athygli, að gefa aðilum kost á að áfrýja máli til æðra dómstóls og gefa æðri dómstól færi á að endurskoða áfrýjaðan dóm.  Stefnandi hafi ástæðu til að ætla að óbyggðanefnd hafi ekki veitt röksemdum hans um eignarréttarákvæði mannréttindasáttmálans athygli.  Þar sem óbyggðanefnd hafi ekki tekið afstöðu til fyrrnefndra meginröksemda í málflutningi stefnanda hafi hann ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum svo sem áskilið sé í 6. gr. sáttmálans.

 

Þá telur stefnandi að hann hafi átt rétt á að fá rökstudda afstöðu óbyggðanefndar til þeirrar málsástæðu, að hann hafi stofnað til eignarréttar að landsvæðinu fyrir hefð.  Í núgildandi hefðarlögum nr. 46/1905 sé í 2. gr. mælt fyrir um að skilyrði eignarhefðar sé 20 ára óslitið eignarhald á fasteign.  Slíkt hefðarhald stofni til eignarréttar sam­kvæmt lögunum nema hefðandinn hafi náð umráðum að eigninni með glæp eða með óráðvandlegu atferli eða hann hafi fengið fasteignina að veði, til geymslu, til láns eða á leigu.  Ekkert af þessu eigi við um eignarhald stefnanda á Valþjófsstað.  Eignar­haldið hafi varað um aldir og þar af í meira en 100 ár eftir gildistöku hefðar­laganna frá 1905.  Til þess hafi ekki verið stofnað með glæp eða með óráðvandlegu atferli og landið hafi ekki komist í hendur stefnanda sem veð, til geymslu, til láns eða á leigu.  Hefðarhaldið hafi verið óslitið og aðrir en stefnandi hafi verið útilokaðir frá því að nýta landið.  Sú afstaða stefnanda að hann væri eigandi landsins hafi verið alkunn og henni ómótmælt og að auki hafi hún verið formlega skráð í landamerkjabók og þinglesin á manntalsþingi, allt lögum samkvæmt.

 

Íslenska ríkið haldi því ekki fram að jörðin Valþjófsstaður hafi verið ríkiseign eða háð beinum eða óbeinum eignarétti annarra.  Að íslenskum rétti sé talið að unnt sé að hefða land, enda þótt það sé einskis manns land.  Því sé ekki um það að ræða að eignarréttur að landsvæðinu flyttist frá einum eiganda til annars, heldur sé um stofnunarhátt eignaréttar yfir landi að ræða.  Sú málsástæða að eignarréttur kirkjunnar að landinu styðjist við hefð sé gerð til viðbótar við þá málsástæðu að hún hafi um aldir verið eigandi jarðarinnar allt frá þeim tíma er jörðin varð staður, sbr. eftirfarandi sem rakið sé í úrskurði óbyggðanefndar:

 

 „Samkvæmt Gottskálksannál var gerður staður á Valþjófsstað árið 1306: gior stadr aa Valþiofs stodum er adr uar half lendi.

 

Í máldagasafni Vilchins biskups frá 1397 segi m.a. um Valþjófsstað:

 

Mariukirkia aa walþiofstodum aa heimaland allt. mulaland milli merkigardz oc wt fra aRnnallzstödum oc þess merkigardz sem wt er fra gnufsstödum[Gnupstodum, í öðru handriti]. Þorgerdarstade. ... land vnder kleif fram fra ÞuRidarstödum wnder iokla med ollum gædum. wtan skog. selland at laugarhusum. fiordung j kelldudal. backaskog j wideualla land. ... skogarteig wt fra ytRum wideuöllum. ... Þangat liggia tíunder af xj bæium vtan bessastödum oc vídivollum.“

 

Við mat á röksemdinni um stofnun eignarréttar fyrir hefð verði að hafa í huga að það land sem við sé átt hafi allt frá 1885 verið skráð og þinglesin eign stefnanda og engir aðrir hafa gert eignartilkall til landsins.  Stefnandi hafi ætíð verið í góðri trú um eignar­rétt sinn að landsvæðinu. Stofnun eignarréttar fyrir hefð sé viðurkenndur stofnunarháttur eignarréttar.  Í úrskuði óbyggðanefndar sé enginn rökstuðningur gefinn fyrir því hvers vegna hefðartilkalli sé hafnað og stefnandi telji því einnig að brotið hafi verið gegn þeirri vernd sem 6. gr. mannréttindasáttmálans veiti að þessu leyti.

 

Þá telji stefnandi sig hafa orðið að þola brot á 6. gr. sáttmálans með því að óbyggðanefnd byggi á því að alla óvissu eða vafa um þau mannréttindi stefnanda sem, verndar njóti samkvæmt 1. gr. 1. viðauka, mannréttindasáttmálans skuli túlkuð í hag íslenska ríkinu og gegn stefnanda.  Sú túlkun sé andstæð reglunni um að mannréttindi skuli túlka borgurunum í hag en ekki ríkinu (In dubio pro libertate).  Þess háttar túlkun efnisákvæða sáttmálans sé einn þáttur í  reglunni um réttláta málsmeðferð. Einnig hafi því stefnandi verið þolandi brots gegn þeirri vernd sem 6. gr. veiti honum að þessu leyti.  Stefnandi krefjist þess að við mat á því hvort brotið hafi verið á réttindum hans samkvæmt framangreindri 6. gr. verði litið heildstætt á máls­meðferðina fyrir óbyggðanefnd.  Þegar allt ofangreint sé skoðað beri að fella úrskurð óbyggðanefndar úr gildi.

 

Um lagarök til viðbótar við það sem að framan er rakið vísar stefnandi til námulaga nr. 24/1973  Þá byggir stefnandi á meginreglum eignaréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennum  reglum samninga- og kröfuréttar.  Einnig vísar hann til almennra reglna um ítaksrétt og stofnun ítaka, almennra reglna um venjurétt og meginreglna um traustfang og traustnám og almennra reglna íslensks réttar um tómlæti.

IV

Af hálfu stefnda er á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnanda að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.

 

Byggi óbyggðanefnd úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum.  Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum.  Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar voru fyrir nefndinni.  Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998 hefði landsvæði það sem um er deilt í máli þessu talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma. Stefndi kveðst gera niðurstöður óbyggðanefndar að sinni til stuðnings sýknukröfu.

 

Um heimaland Valþjófsstaðarkirkju sjáist fyrst fjallað í máldaga Vilchins biskups frá árinu 1397.  Þar segi svo: „Mariukirkia aa walþiofstodum aa heimaland allt.“  Kveðst stefndi vera sammála þeirri ályktun óbyggðanefndar að máldaginn verði skilinn þannig að annað land sem þar sé tiltekið falli ekki undir heimalandið.  Megi þar nefna „land vndir kleif“ sem talið sé upp á eftir Múlalandi og jörðinni Þorgerðarstöðum.  Tvö síðastnefndu landsvæðin liggi austan Jökulsár í Fljótsdal og geti á engan hátt talist til heimalands Valþjófsstaðar.

 

Aðgreiningu á heimalandi Valþjófsstaðar og öðru landi staðarins, án sérstakrar afmörkunar, sé einnig að finna í yngri máldögum, svo sem frá 1471 og 1570, lögfestu frá 1794, vísitasíu frá árinu 1850 og eignaskrá frá lokum 18. aldar.  Af þessu megi ráða að snemma hafi verið gerður greinarmunur á heimalandi Valþjófsstaðar og öðru landi hans.  Sérstök afmörkun á heimalandi komi hins vegar fyrst fram í lögfestu frá 1484.  Landamerkjum Valþjófsstaðarkirkjulands sé loks lýst heildstætt í landamerkja­bréfi, dagsettu 6. júní 1885.  Tekið sé sérstaklega fram að merkjalýsingin taki til „heimastaðarins og undirliggjandi jarða með Hrafnkelsdal og öræfum öllum.“  Fjallað sé sérstaklega um merki „heimalands“ Valþjófsstaðar, að hjáleigunni Hóli meðtalinni.  Ekki verði hins vegar ráðið af landamerkjabréfi Valþjófsstaðar hve langt heimaland nái til vesturs auk þess sem eldri heimildir séu misvísandi hvað það varðar.  Samkvæmt vísitasíu biskups frá árinu 1641 nái heimaland Valþjófsstaðar þannig ekki lengra en að heiðarbrúninni vestan við Jökulsá í Fljótsdal.  Þar séu glögg skil frá náttúrunnar hendi með því að land rísi hratt úr tæplega 30 metra hæð yfir sjávarmáli og í um 600 metra.

 

Stefndi sé sammála þeirri ályktun óbyggðanefndar að heimildir virðist almennt gera ráð fyrir því að sunnan merkja séu öræfi eða afréttir.  Beri heimildir jafnframt með sér, að þar sé nánar tiltekið að finna afréttarsvæðin Rana, Undir Fellum og Vesturöræfi.  Ljóst sé því samkvæmt fyrirliggjandi heimildum að tilgreind afréttarsvæði taki við þar sem „heimalandi“ sleppir.  Fái þannig ekki staðist, að heimaland Valþjófsstaðar nái alla leið vestur að Jökulsá á Jökuldal.

 

Samkvæmt framangreindu bendi fyrirliggjandi gögn til þess að heimaland Valþjófs­staðar og hjáleigan Hóll eigi merki gagnvart afréttarsvæðinu Undir Fellum í ósi Hólmavatns.  Heimildir um afmörkun afréttarsvæðisins Undir Fellum, jarðanna Þuríðarstaða, Egilsstaða og Kleifar, og staðhættir á svæðinu austan Gilsárvatna og sunnan Bessastaðaár styðji þetta og bendi jafnframt til að merki heimalands Valþjófsstaðar gagnvart afréttinum Undir Fellum að öðru leyti liggi að minnsta kosti ekki vestar en krafa ríkisins um þjóðlendu miði við, en hún sé dregin úr ósi Hólmavatns í stefnu á Svartöldu til suðvesturs og úr sama ósi til norðvesturs í stefnu á merkjavörðu í Miðheiðarhálsi.

 

Af hálfu stefnda sé á það bent, að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. meðal annars afstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.  Þá verði við mat á gildi landamerkja­lýsingar svæðisins að horfa til þess að ekki verði séð að bréfið hafi verið samþykkt af eigendum allra aðliggjandi jarða.

 

Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland.  Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi.  Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað.  Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. til dæmis til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

 

Af hálfu stefnda sé því fallist á þá ályktun óbyggðanefndar, að land innan lýsingar í landamerkjabréfi Valþjófsstaðarkirkjueignar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu, annars vegar heimalandið, eignarland Valþjófsstaðar, en hins vegar afréttarsvæðin þrjú, Undir Fellum, Rani og Vesturöræfi, sem liggi á umþrættu kröfusvæði og álíta verði þjóðlendu í afréttareign jarðarinnar í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar,

 

Sé því ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð.  Ólíklegt verði að teljast að land á umþrættu landsvæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum.

 

Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að ósannað sé að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu.  Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verður ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48/2004.  Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.

 

Ekki verði annað séð en að réttur stefnanda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarra takmarkaðra nota.

 

Verði talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu hafi það ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Frá upphafi Íslands­byggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð voru beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér lágu hagsmunir til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Sjá um þetta meðal annars dóm Hæstaréttar í málinu nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).

 

Verði hins vegar talið að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Þó að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

 

Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota sem og til staðhátta og gróðurfars á svæðinu en um sé að ræða víðáttumikið hálendissvæði fjarri byggð.  Þá hafi fjallskil verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki verið afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum jörðum án hindrana.  Um afréttarnotkun og um fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum hafi verið falið að framkvæma.  Þá bendi eldri heimildir jafnframt til þess að afréttarsvæðin Undir Fellum, Rani og Vesturöræfi séu afréttur jarða í þeim skilningi að Valþjófsstaður hafi átt þar óbein eignarréttindi. 

 

Um Rana, Undir Fellum og Vesturöræfi sé fyrst og fremst fjallað í tengslum við upprekstur og afréttarnot.  Gerður sé greinarmunur á því landsvæði og öðru landi tilheyrandi Valþjófsstað með því að þau séu jafnan tilgreind sérstaklega og þess getið að Valþjófsstaður eigi þar afrétt eða hlunnindi. 

 

Elsta heimildin um svæðið Undir Fellum sé máldagi Vilchins biskups frá árinu 1397.  Þar segi að Valþjófsstað fylgi auk annarra landsvæða „land vnder kleif fram fra ÞuRidarstödum wnder jokla med öllum gædum. wtan skog“.  Í máldaga Valþjófsstaðarkirkju, sem talinn sé vera frá árinu 1471, segi einnig að „land vnder kleif fram fra þuridarstödum“ tilheyri kirkjunni.  Ljóst sé að Kleifarland sé landfræðilega aðskilið frá heimalandi Valþjófsstaðar, með því að þar hafi verið yfir jörðina Þuríðarstaði að fara, hvort sem jarðirnar Egilsstaðir og Kleif, hafi þá verið hlutar hennar eða ekki.  Af framsetningu máldaganna megi einnig ráða að land undir Kleif teljist ekki til heimalands jarðarinnar, enda sé það talið upp á eftir landsvæðum austan Jökulsár í Fljótsdal sem augljóslega teljist ekki til heimalands Valþjófsstaðar.  Þá veki athygli að sérstaklega sé tekið fram árið 1397 að skógur fylgi ekki þessu eignarhaldi en í vísitasíu 1641 segi fyrst að skógur fylgi landi, „ad gömlu hefdar halldi“.  Lögfesta Valþjófsstaðar frá 1484, sem Árni Magnússon handritasafnari hafi talið falsbréf, samræmist framangreindum máldaga frá 1471, enda þótt ekki sé skilið jafn glögglega milli heimalands og þess sem þar sé kallað Kleifarland.  Í máldaga frá árinu 1570 og vísitasíum frá árunum 1641, 1677, 1706, 1779 og 1850 sé land undir Kleif tiltekið meðal eigna kirkjunnar með sambærilegum hætti og í eldri máldögunum.

 

Landið undir Kleif sé syðsti hluti þess landsvæðis sem nú kallist Undir Fellum.  Það sé fyrst tilgreint sérstaklega í sóknarlýsingu Stefáns Árnasonar frá árinu 1840-1841.  Þar segi meðal annars að Fellnaafréttur sé í kringum Snæfellið og tilheyri Valþjófsstað.  Fram komi að afréttarsvæði kirkjunnar séu brúkuð af Fljótsdælingum einum.  Í jarða­tali Johnsen frá árinu 1847 segi að Valþjófsstaðarkirkja eigi tvö afréttarlönd milli Jökulsánna í Fljótsdal og á Jökuldal og árlega „brúkuð til skiptis fyrir hérum 1.500 fjár og er þar nokkur grastekja“.  Vafalaust virðist að hér sé átt við afréttarlöndin Undir Fellum og Vesturöræfi.  Í skýrslu um eignir Valþjófsstaðar, dagsett 12. júní 1867, sé afrétt Undir Fellum talin til ítaka kirkjunnar.  Þess sé næst getið í sóknarlýsingu Péturs Jónssonar, prests á Valþjófsstað, frá árinu 1873 en þar segi að heiðin fyrir innan byggðina sé afréttur og tilheyri sérhvers landstærð.  Þar fyrir innan taki við „…Fellnaafrétt sem Valþjófstaðarkirkja á.  Í hana reka engir vissir búendur, heldur fer það eftir því sem best þykir henta í hvert skipti.“  Þá segir í sóknarlýsingu Þorvaldar Ásgeirssonar á Hofteigssókn frá árinu 1874 að á sóknarmörkum „liggi saman tvær afréttar, Fellnaafrétt sunnar og Vesturöræfa vestar sem báðar eru eign Valþjófsstaðarkirkju“.  Einnig segir í gerðabók fasteignamats Norður-Múlasýslu 1916-1918 að afréttarlandið Fell fylgi Valþjófsstað og árið 1954 lýsir Biskup Íslands landi undir Kleif, eða Fellnaafrétti, sem ítaki Valþjófsstaðarkirkju.  Yngri heimildir beri einnig með sér að landsvæðið Undir Fellum hafi verið í afréttarnotum jarðeigenda í Fljótsdal undir stjórn sveitarfélagsins fram á þennan dag.

 

Stefndi kveður að „Ranaafréttar“ sé fyrst sérstaklega getið í vitnisburði, dagsettum 18. mars 1679.  Segi þar að afrétturinn tilheyri Skriðuklaustri en hafi verið „afriett allra fliótsdalsmanna“.  Í lögfestu Valþjófsstaðar frá 1840 fyrirbjóði séra Stefán Árnason upprekstur fjár á „Rana Afrétt og Fliotsdals heidi sem liggr fyrir framan […] Landa merki millum Skriduklausturs og Valþiófsstadar …“, nema með hans leyfi eða samþykki eða ábúanda Skriðuklausturs.  Í sóknarlýsingu séra Stefáns frá árinu 1840-1841 segi að Ranaafréttur tilheyri Skriðuklaustri en sé brúkaður af Fljótsdælingum einum.  Í sóknarlýsingu Hofteigssóknar frá 1874 segi að Fljótsdælingar og Fellnamenn hafi átt upprekstur fyrir norðan Miðheiði (Fljótsdalsheiði), einkum á Ranaafrétt […] og tilheyri Skriðuklaustri og Valþjófsstað.  Einnig segi í gerðabók fasteignamats frá 1916-1918 að Valþjófsstað fylgi 1/3 hluti Rana og árið 1954 lýsi Biskup Íslands þriðjungi af Ranaafrétt sem ítaki Valþjófsstaðarkirkju. Yngri heimildir beri einnig með sér að Rani hafi verið í afréttarnotum jarðeigenda í Fljótsdal undir stjórn sveitarfélagsins fram á þennan dag.

 

Elsta heimildin um svæðið Vesturöræfi sé vitnisburður frá 1491.  Þar og í mörgum síðari heimildum sé greint frá því að eigendur Valþjófsstaðar hafi leyft eigendum Skriðu lambaupprekstur á Maríutungur gegn torfskurði í Skriðu.  Maríutungur séu staðsettar innst á því landsvæði sem nú sé nefnt Vesturöræfi.  Það nafn virðist fyrst koma fyrir í byggingarbréfi Jóns Andréssonar fyrir Vaðbrekku, sem Valþjófsstaðar­prestur hafi gefið út 24. september 1824.  Þar sé áskilið að hann ásamt bóndanum á Aðalbóli leiti grenja fyrir utan þau sem vera kynnu og verða í þeirra ábýlislöndum, á svokölluðum Vesturöræfum.  Fyndust grenlægjur, hafi átt að tilkynna það viðkomandi hreppstjóra eða sjá um upp á hreppsins kostnað að grenin yrðu unnin.  Næst sé getið um Vesturöræfi í sóknarlýsingu Stefáns Árnasonar frá árinu 1840-1841.  Segi þar að afrétturinn Vesturöræfi tilheyri Valþjófsstað og sé brúkaður af Fljótsdælingum einum.  Í jarðatali Johnsen frá árinu 1847 komi fram að Valþjófsstaðarkirkja eigi tvö afréttarlönd milli Jökulsánna í Fljótsdal og á Jökuldal og árlega „brúkuð til skiptis fyrir hérum 1.500 fjár og er þar nokkur grastekja“.  Öruggt megi telja að hér sé átt við afréttina Undir Fellum og Vesturöræfi.  Í skýrslu um eignir Valþjófsstaðar, dagsett 12. júní 1867, sé Vesturöræfa getið meðal ítaka kirkjunnar.  Í sóknarlýsingu Hofteigs­staða­prestakalls frá 1874 segi að afrétturinn Vesturöræfi sé í eign Valþjófsstaðar.  Loks komi fram í gerðabók fasteignamats Norður Múlasýslu 1916-1918 að afréttarlandið Vesturöræfi fylgi Valþjófsstað.  Yngri heimildir beri einnig með sér að Vesturöræfi hafi verið í afréttarnotum jarða í Fljótsdal auk Vaðbrekku og Aðalbóls í Hrafnkelsdal, undir stjórn sveitarfélagsins fram á þennan dag.

 

Umþrætt landsvæði sé háslétta í 600 til 700 m hæð yfir sjávarmáli sem þó sé að mestu gróin.  Í lægðum séu víðáttumiklir flóar en melar á milli.  Á Fljótsdalsheiði sé fjöldi vatna og nokkurt fjalllendi.  Að norðanverðu megi nefna Eyvindarfjöll, Grjótöldu, og Þrælaháls. Að vestanverðu liggi Innri Kárahnjúkur og suðaustan hans séu Sauða­hnjúkar.  Inn af Sauðahnjúkum, undir jökli, séu Maríutungur.  Þegar austar dragi að sunnanverðu komi að svonefndu Snæfellssvæði, en það samanstandi af fjölda stakra fella og hnjúkaraða í 900 til 1338 m hæð yfir sjávarmáli.  Snæfell sé 1833 m hátt og á Fljótsdalsheiði sé Miðheiðaháls með leguna norðaustur-suðvestur í rúmlega 600 m hæð.  Vatnaskil og sveitarfélagamörk Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps liggi um Miðheiðarháls að norðanverðu en Snæfellssvæðið að sunnanverðu. Frá bæjarstæði Valþjófsstaðar, við Jökulsá í Fljótsdal, og beint vestur í Jökulsá á Jökuldal, vestur undir Fjallkolli, séu um það bil 31,5 km í beinni loftlínu og suðvestur að upptökum Jökulkvíslar í Maríutungum séu um 53 km í beinni loftlínu.  Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.

 

Þá verði ekki talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, meðal annars með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir.  Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.

 

Þá hafni stefndi því einnig að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á svæðinu.  Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæsta­réttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnanda.  Þar að auki verði væntingarnar að vera réttmætar, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.   Hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að meðal annars heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

 

Þá mótmæli stefndi þeim málatilbúnaði stefnanda er lýtur að því að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.  Með lögunum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar heldur skera úr um eignaréttindi.

 

Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telji stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á, að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2005, hvað varðar hið umþrætta svæði, hafi verið röng.  Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld.  Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.  Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignaréttarlega stöðu.  Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnanda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.  Krefst stefndi þess að umræddur úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 1/2007 verði staðfestur þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með svofelldum hætti:

 

Að vestan ræður hinn forni farvegur Jökulsár á Jökuldal þar til kemur að suðurmörkum Aðalbóls, þ.e. línu sem dregin er yfir Búrfell utanvert, þvert yfir Hrafnkelsdal inni undir Tungusporði, um Kálfafell í Hölkná.  Ræður sú á merkjum þar til hún kemur niður í Jökulsá á Jökuldal.  Frá þeim stað er dregin lína í suðaustur að stórum steini sem stendur utan til á ytra Eyvindarfjalli.  Þaðan er dregin lína til austurs, í stefnu á merkigarð við Jökulsá, og fer hún saman við kröfulínu gagnaðila ríkisins í máli þessu. Þar sem lína þessi sker línu sem dregin úr ósi Hólmavatns í innri merkjavörðu í Miðheiðarhálsi er hornmark.  Frá því hornmarki er dregin lína í ós Hólmavatns og að Svartöldu austan Langavatns.  Þaðan er farið í Axará og henni fylgt austur í Jökulsá í Fljótsdal sem ræður merkjum þar til komið er að upptökum hennar í Vatnajökli.  Þaðan ræður jökuljaðarinn þar til komið er að upptökum Jökulsár á Jökuldal.  Að því leyti sem fylgt er jökuljaðri er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.

 

Auk framangreindra lagatilvísana vísar stefndi máli sínu til stuðnings, til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998.  Þá vísar hann til 72. gr. stjórnar­skrárinnar, nr. 33/1944.  Byggt sé á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglna um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar.  Vísað sé til hefðarlaga, nr. 14/1905 og til laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil.  Þá sé vísað til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.  Kröfu um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra.

 

V

Eins og að framan er rakið snýst ágreiningur aðila um eignaréttarlega stöðu landsvæðis innan merkja sem nánar er lýst í kröfugerð stefnanda.  Hefur óbyggða­nefnd fjallað um málið á grundvelli fyrirmæla laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og kvað hún upp úrskurð hinn 29. maí 2007 í máli nr. 1/2005, Fljótsdalur og Jökuldalur austan Jökulsár á Jökuldal.  Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að landsvæðið Vesturöræfi ásamt syðri hluta afréttar­landanna Rana og Undir Fellum væri þjóðlenda í afréttareign stefnanda.  Ekki er deilt um afmörkun svæðisins.

 

Við úrlausn málsins ber að líta til þess að eftir gildistöku laga nr. 58/1998 hafa í Hæstarétti verið kveðnir upp dómar í allmörgum málum, þar sem skorið hefur verið úr ágreiningi um mörk þjóðlendna og eignarlanda.  Eru þeir fordæmi að því leyti sem í þeim var fjallað um almenn atriði sem reynir á með sama hætti nú.  Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 var rakið tilefni setningar laga nr. 58/1998 og gerð grein fyrir skilgreiningu laganna á þeim grundvallarhugtökum sem notuð eru til að lýsa eignarréttindum yfir landi, þ.e. eignarlandi, þjóðlendu og afrétti.  Enn fremur var þar vikið að óbyggðanefnd, skipan hennar og hlutverki svo og reglum sem gilda um máls­meðferð fyrir nefndinni.  Í niðurstöðu dómsins var tekin almenn afstaða til mats á gildi landamerkjabréfa og hvert væri inntak eignarréttar á svæði sem í þeim væri lýst.  Þar var sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði og einnig að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Talið var að almennt yki það gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa, sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda.  Jafnframt var þar sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hafði.  Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.  Í síðari dómum réttarins hefur verið áréttuð þýðing þess að landamerkjabréf hafi stuðning af öðru og þá einkum eldri heimildum, við mat á inntaki eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst.

 

Stefnandi byggir kröfur sínar á þeirri meginreglu íslensks eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.  Byggir hann einkum á landamerkjabréfi 6. júní 1885 sem þinglýst var 8. júní 1885.  Hafi land jarðarinnar frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti og fari landnámsheimildir í Fljótsdal ekki í bága við hið þinglýsta landamerkjabréf og sé ljóst að við landnám hafi landið verið gróið til jökla.  

 

Samkvæmt sönnunarreglum sem ítrekað hafa verið staðfestar í fordæmum Hæstaréttar í þjóðlendumálum bera þeir sem kalla til beins eignarréttar á landi sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum þar um en takist ekki slík sönnun verður landsvæðið talið þjóðlenda í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 enda rúmist slík niðurstaða innan kröfugerðar íslenska ríkisins.  Ber stefnandi því sönnunarbyrði fyrir því að hann eigi þann rétt sem hann krefst.  Þá sönnunarbyrði sem lögð er á landeigendur samkvæmt framansögðu verður þó að virða með hliðsjón af því að óbyggðanefnd hefur sjálfstæða rannsóknarskyldu samkvæmt fyrrgreindum lögum.  Ber nefndinni að hafa frumkvæði að gagnaöflun en aðila ber þó að afla þeirra gagna sem hann telur þörf á til sönnunar kröfum sínum.  Ber úrskurður óbyggðanefndar með sér að til grundvallar honum liggur umfangsmikil gagnaöflun og þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum rökum að nefndin hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni.

 

Stefnandi byggir á því að umþrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu.  Hafi Hrafn­kell Hrafnsson numið land í Hrafnkelsdal,  Brynjólfur gamli Þorgeirsson hafi numið innanverðan Fljótsdal og Hákon Eiríksstaða- og Brúarlönd.  Skilji Jökulsá á Brú að landnám þeirra Hákonar og Hrafnkels en Fljótsdalsheiði skilji að landnám Hrafnkels og Brynjólfs.  Séu landnámamörkin inni á hálendinu ekki tiltekin.  Af þeim frásögnum Landnámu sem liggja fyrir í gögnum málsins varðandi það svæði sem hér er til umfjöllunar verður ekki ráðið hversu langt inn til landsins og hve langt upp til fjalla landnám náði.  Verður því ekki talið að þær lýsingar séu nægilega skýrar til að veita nokkra leiðbeiningu um hvort umþrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu og verða því engar afdráttarlausar ályktanir af þeim dregnar sem gagnast við úrlausn máls þessa.  

 

Þótt almennt sé viðurkennt að landið hafi við landnám verið grónara en það er í dag þykja staðhættir þess svæðis sem hér er deilt um og fjarlægð þess frá byggð draga úr líkum þess að þar hafi land verið numið í öndverðu og stofnað til beins eignarréttar.

 

Í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi árið 1882 var gerð „Landamerkjalýsing Valþjófsstaðarkirkjueignar, þ.e. heimastaðarins og undirliggjandi jarða með Hrafn­kels­­dal og öræfum öllum.  Eins og fram er komið var skjalinu þinglýst hinn 8. júní 1885 og var það innfært í landamerkjabók sýslumanns. 

 

Réttur Valþjófsstaðar til hálendisins norðan Vatnajökuls, milli Jökulsár á Jökuldal og Jökulsár í Fljótsdal er tiltekinn í fjölda heimilda.  Samkvæmt þeim má greina milli svokallaðra Vesturöræfa að vestanverðu, Undir Fellum að austanverðu og Rana þar á milli.  Er óumdeilt að hluti svæðanna Rana og Undir fellum og Vesturöræfi ásamt heimastaðnum og hjáleigunni Hóli liggja innan þess landsvæðis sem markað er í landamerkjabréfi Valþjófsstaðarkirkju frá árinu 1885.

 

Eins og fram kemur í gögnum málsins stendur býlið á Valþjófsstað austan Fljótsdalsheiðar undir Valþjófsstaðafjalli við Jökulsá á Fljótsdal.  Valþjófsstaðafjall er með hamrabeltum og hjöllum er aukast eftir því sem innar dregur.  Á 0,5 km kafla rís landið um rúma 500 m.  Efst heita Rákar (562m) og Þverfell (694).  Á hjöllunum er sums staðar vallendi en þar má einnig finna víðigróður sem eykst eftir því sem innar dregur.

 

Stefnandi byggir á því að landamerkjabréf 1885 byggi á eldri heimildum einkum máldaga frá árinu 1397 og ýmsum eldri heimildum sem fari ekki gegn landa­merkja­bréfinu.  Samkvæmt nefndum máldaga Vilchins biskups frá árinu 1397 á Maríukirkja á Valþjófsstöðum heimaland allt, og svo eru upptalin önnur landsvæði sem kirkjunni tilheyri.  Með því að tilgreina sérstaklega að kirkjunni tilheyri allt heimaland og svo nánar tilgreind landsvæði verður máldagi þessi ekki skilinn á annan veg en að annað land sem þar er tiltekið falli ekki undir heimalandið.  Þá verður af máldögum frá 1471 og 1570, lögfestu frá árinu 1794, vísitasíu frá 1850 og eignaskrá frá lokum 18. aldar, þar sem er að finna aðgreiningu frá heimalandi Valþjófsstaðar og öðru landi staðarins, ráðið að snemma hafi verið gerður greinarmunur á heimalandi Valþjófsstaðar og öðru landi hans. 

 

Stefnandi vísar sérstaklega í skjalfestan vitnisburð þriggja leikmanna frá árinu 1484 en hann kveði á um að Valþjófsstaðaland taki allt vestur að Jökulsá réttsýnis frá Landamerkjagarði milli Skriðuklausturs og Valþjófsstaða.  Þar sé sú lína dregin milli þessara stórbýla fyrir mynni Hrafnkelsdals sem síðan hafi gilt.  Í umræddum vitnisburði segir að Árni prestur Þorsteinsson hafi lögfest staðinn á Valþófsstað með ummerkjum þeim er bréfið greinir, en bréfið muni vera falsbréf að mati Árna Magnússonar handritasafnara og kemur rökstuðningur hans fram í því dómskjali þar sem lögfestan er reifuð, sbr. dómskjal 71.  Með hliðsjón af því að leiddar hafa verið að því líkur að umrætt bréf sé falsað verður vart litið á þessa heimild sem trausta.

 

Í vísitasíu Brynjólfs biskups um merki Valþjófsstaðar frá 1641, sbr. vísitasíu 1677 er að finna eftirfarandi afmörkun á heimalandinu: „...ad Vestann Rædur Fiallid, ad utann ur Fiallinu j Griothryggenn sem ofan efter liggur Fiallinu þadan ofan efter merkia gardi j Jokuls aa enn hun rædur ad austann.“  Má af þessari lýsingu ráða að heimaland Valþófsstaðar hafi ekki verið talið ná lengra frá Jökulsá í Fljótsdal en að hryggnum sem liggur vestan við bæjarstæðið á Valþjófsstað.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar eru raktir vitnisburðir frá 1670 þar sem aftur sé miðað við Jökulsá á Jökuldal. Þá lýsi lögfestur Valþjófspresta 1794 og 1840 norðurmerkjum vestur að Jökulsá á Jökuldal og af samhengi þess texta sjáist að sú lína sé bæði sögð skilja á milli „öræfa“ Valþjófsstaðar og lands Skriðuklausturs og á milli Valþjófsstaðar og Skriðuklausturs.  Þá komi fram í skýrslu um Valþjófsstaðarbrauð 1839 að meðal hlunninda prestakallsins séu tvö afréttarlönd sem nái frá jöklum og út til landamerkja Valþjófsstaðar og Skriðuklausturs. 

 

Þá er landamerkjum Valþjófsstaðar lýst í landamerkjabréfinu frá árinu 1885 en þar er fjallað sérstaklega um merki heimalands Valþjófsstaðar að hjáleigunni Hóli meðtalinni en þar er tekið fram að merkjalýsingin taki til heimastaðarins og undirliggjandi jarða með Hrafnkelsdal og öræfum öllum „Að utan gagnvart Skriðuklaustri ræður merkigarður sá, sem að fornu og nýju haldinn hefur verið landamerki og liggur frá Jökulsá fram og upp eftir nesinu upp undir fjall, þaðan sjónhending upp á fjall. Þá í stóran stein, sem stendur utan til á Eyvindarfjalli ýtra og þaðan réttlínis norður í Jökulsá á Jökuldal.  Að norðan og vestan ræður Jökulsá á Jökuldal inn í Vatnajökul Að austan og sunnan Jökulsá í Fljótsdal inn í Vatnajökul.“

 

Í úrskurði sínum rekur óbyggðanefnd fjölda heimilda frá 16. öld  og síðar sem lýsa rétti Valþjófsstaðar til landsvæðisins milli Jökulsár á Jökuldal, Jökulsár í Fljótsdal og Vatnajökuls og það þá eftir atvikum kallað öræfi eða afréttarland.  Þá er að framan lýst að þær lýsingar norðurmerkja Valþjófsstaðar sem ná alla leið vestur á Jökulsá á Jökuldal geri ráð fyrir að sunnan merkja séu bæði öræfi eða afréttir Valþjófsstaðar og heimaland staðarins.

 

Hvað snertir afréttarsvæðið innan merkja Valþjófsstaðakirkjueignar sem kallast Undir Fellum og liggur á austanverðri Fljótsdalsheiði, vestan heimalands Valþjófsstaðar en austan afréttarsvæðanna Rana og Vesturöræfa má vísa til máldagans frá árinu 1397 þar sem segir að Valþjófsstað fylgi auk annarra landsvæða land undir Kleif fram frá Þuríðarstöðum. Það sama kemur fram í máldaga sem talinn er vera frá árinu 1471. Landið undir Kleif er syðsti hluti þess landsvæðis sem nú kallast Undir Fellum.  Landfræðilega er svæði þetta aðskilið frá heimalandi Valþjófsstaðar þar sem jarðirnar Þuríðarstaðir og Egilsstaðir eru þar á milli.  Áður hefur verið vikið að því að eins og framsetning máldagans er telst land undir Kleif ekki til heimalands jarðarinnar.  Þá er í úrskurði óbyggðanefndar vísað í máldaga frá árinu 1570 og vísitasíur frá árunum 1641, 1677, 1706, 1779, og 1850 að land undir Kleif sé meðal eigna kirkjunnar með sambærilegum hætti og í eldri máldögunum.  Vert er að geta þess að í máldaga frá árinu 1397 er sérstaklega tekið fram að skógur fylgi ekki eignarhaldi Valþjófsstaðar en í vísitasíu frá árinu 1641 segir að skógur fylgi landi að gömlu hefðarhaldi. 

 

Í sóknarlýsingu frá 1840-1841 segir meðal annars að Fellnaafréttur sé í kringum Snæfellið og tilheyri Valþjófsstað.  Kemur fram að afréttarsvæði kirkjunnar séu brúkuð af Fljótsdælingum einum.  Í Jarðartali Johnsen frá árinu 1847 segir að Valþjófsstaðarkirkja eigi tvö afréttarlönd milli Jökulsánna í Fljótsdal og á Jökuldal og árlega „brúkuð til skiptis fyrir hérum 1.500 fjár og er þar nokkur grastekja“.  Verður ráðið að hér sé átt við afréttarlöndin Undir Fellum og Vesturöræfi.

 

Í skýrslu um eignir Valþjófsstaðar frá 1867 er afrétt Undir Fellum talin til ítaka kirkjunnar og í sóknarlýsingu Péturs Jónssonar prests á Valþjófsstað frá árinu 1873 segir að heiðin fyrir innan byggðina sé afréttur og tilheyri sérhverri landsstærð.  Þar fyrir innan taki við Fellnaafrétt sem Valþjófsstaðarkirkja eigi og í hana reki engir vissir búendur heldur fari það eftir því sem best þykir henta í hvert skipti.  Þá segir í sóknarlýsingu Þorvaldar Ásgeirssonar á Hofteigssókn frá árinu 1874 að á sóknarmörkum liggi saman tvær afréttir, Fellnaafrétt sunnar og Vesturöræfi vestar sem báðar séu eign Valþjófsstaðakirkju.  Þá segir í gerðabók fasteignamats N-Múlasýslu 1916-1918 að afréttarlandið Fell fylgi Valþjófsstað og árið 1954 lýsi Biskup Íslands landi undir Kleif sem ítaki Valþjófsstaðarkirkju.

 

Afréttarsvæðið Rani liggur á miðri Fljótsdalsheiði.  Austan þess er afréttarsvæðið Undir Fellum og vestan megin eru jarðirnar Vaðbrekka, Aðalból og afréttarsvæðið Vesturöræfi þegar sunnar dregur.  Til norðurs teygir Rani sig inn fyrir landamerkja­bréf Skriðuklausturs. 

 

Eins og rakið er í úrskurði óbyggðanefndar er Ranaafréttar fyrst getið sérstaklega í vitnisburði 18. mars 1679.  Segir þar að afrétturinn tilheyri Skriðuklaustri en hafi verið „afrriett allra fljótsdalsmanna“.  Í lögfestu Valþjófsstaðar frá 1840 fyrirbýður séra Stefán Árnason upprekstur fjár á Ranaafrétt og Fljótsdalsheiði sem liggur fyrir framan landamerki milli Skriðuklausturs og Valþjófsstaðar, nema með hans leyfi eða samþykki ábúanda Skriðuklausturs.  Í sóknarlýsingu frá 1840-1841 segir að Rana­afréttur tilheyri Skriðuklaustri en sé brúkaður af Fljótsdælingum einum.  Þá segir í sóknarlýsingu Hofsstaðasóknar frá árinu 1874 að Fljótsdælingar og Fellnamenn hafi átt upprekstur fyrir norðan Miðheiði (Fljótsdalsheiði) einkum á Ranaafrétt sem tilheyri Skriðuklaustri og Valþjófsstað.  Einnig segir í gerðarbók fasteignamats frá 1916-1918 að Valþjófsstað fylgi 1/3 hluti Rana og árið 1954 lýsir Biskup Íslands þriðjungi af Ranaafrétt sem ítaki Valþjófsstaðakirkju. 

 

Afréttarsvæðið Vesturöræfi liggur á vestanverðri Fljótsdalsheiði, sunnan jarðarinnar Aðalbóls.  Til vesturs er Jökulsá á Jökuldal, til austurs afréttarsvæðið Rani og Undir Fellum þegar sunnar dregur.  Til suðurs er Vatnajökull.

 

Elsta heimildin sem fjallar sérstaklega um rétt Valþjófsstaðar til þessa svæðis er vitnisburður frá árinu 1491.  Þar og í mörgum síðari heimildum er greint frá því að eigendur Valþjófsstaðar hafi leyft eigendum Skriðu lambaupprekstur á Maríutungur gegn torfskurði í Skriðu.  Meðal heimilda þessa er vitnisburður Kolgríms prests Koðránssonar frá 1517 um að þau 12 ár sem hann hélt Valþjófsstað hafi engir rekið lömb né annan fénað á Öræfi hin nyrðri eða syðri án hans leyfis, nema lambarekstur frá Skriðu.  Maríutungur eru staðsettar innst á Vesturöræfum.  Í byggingabréfi fyrir Vaðbrekku sem Valþjófsstaðarprestur gaf út 24. september 1824 er áskilið að hann ásamt bóndanum á Aðalbóli leiti grenja fyrir utan þau sem vera kynnu og verði í þeirra ábýlislöndum á Vesturöræfum.  Fyndust grenlægjur átti að tilkynna það viðkomandi hreppstjóra eða sjá um að grenin yrðu unnin á kostnað hreppsins.  Eins og rakið er að framan var getið um Vesturöræfi í sóknarlýsingu frá árinu 1840-1841 og í jarðartali frá árinu 1847.  Þá er Vesturöræfa getið meðal ítaka kirkjunnar í skýrslu um eignir Valþjófsstaðar frá árinu 1867 og í sóknarlýsingu Hofteigsstaðaprestakalls frá 1874 kemur fram að afrétturinn Vesturöræfi sé í eign Valþjófsstaðar og í gerðarbók fasteignamats N-Múlasýslu frá 1916-1918 kemur fram að Vesturöræfi fylgi Valþjófsstað. 

 

Auk framangreinds bera yngri heimildir með sér að landsvæðin Undir Fellum, Rani og Vesturöræfi hafi verið í afréttarnotkun jarðeigenda í Fljótsdal undir stjórn sveitarfélagsins allt fram á þennan dag.

 

Að því virtu sem að framan er rakið þykir ljóst að afréttarsvæðin Undir Fellum, Rani og Vesturöræfi taka við þar sem heimalandi Valþjófsstaðar sleppir.  Þegar svæða þessa er getið í skriflegum heimildum er það fyrst og fremst tengt upprekstri og afréttarnotum.  Gerður er greinarmunur  á þeim og heimalandi með því að þau eru jafnan tiltekin sérstaklega og þess getið að Valþjófsstaður eigi þar afrétt, hlunnindi eða ítak.  Bendir umfjöllun um þau þannig til að um sé að ræða afrétt í þeim skilningi að Valþjófsstaðakirkja hafi átt þar óbein eignarréttindi.  Þá þykir ljóst að engin gögn liggi fyrir um að fyrir gildistöku þjóðlendulaga hafi þessi landsvæði nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar og ef til vill annarra takmarkaðra nota.  Staðhættir og fjarlægð frá byggð styðja þá niðurstöðu en landsvæðið liggur í um 600 m hæð yfir sjávarmáli og rís hæst við Snæfell í 1833 m.  Þá styðja gögn málsins að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið sé ekki afgirt og þangað hafi búfénaður leitað frá öðrum jörðum án hindrana.

 

Eins og rakið er í úrskurði óbyggðanefndar liggur ekkert fyrir um hvernig Valþjófsstaður er kominn að rétti til þeirra landsvæða sem hér er deilt um.  Telur nefndin hvorki hægt að útiloka að þau séu að einhverju leyti innan upphaflegs landnáms né að þau hafi upphaflega verið samnotaafréttir jarða á svæðinu en síðar komist undir Valþjófsstað.  Þykir verða að fallast á það með óbyggðanefnd að ekki hafi verið sýnt fram á annað en að réttur til umræddra afréttarsvæða hafi orðið til á þann veg að þau hafi verið tekin til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.  Þykir því sýnt að land innan lýsingar í landamerkjabréfi Val­þjófs­staðar­kirkjueignar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu, heimalandið er eignarland en umrædd þrjú afréttarsvæði þjóðlenda í afréttareign Valþjófsstaðar.    Þá kemur fram í úrskurði nefndarinnar að af málatilbúnaði Fljótsdalshrepps fyrir nefndinni sé litið svo á að afréttarnýting annarra jarða á þessum þremur afréttar­svæðum hafi farið fram í skjóli eignarréttinda Valþjófsstaðar.

 

Að öllu framangreindu virtu þykir ekki hafa verið sýnt fram á það af hálfu stefnanda að afréttarsvæðið Vesturöræfi og syðri hluti afréttarlandanna Rana og Undir Fellum séu eignarlönd hans, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Gerð og þinglýsing landamerkjabréfs frá 1885 breytir engu þar um enda gat stefnandi ekki einhliða aukið við land sitt land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hafði, sbr. það sem að framan er rakið um sönnunargildi landamerkjabréfa. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því, en hefðbundin afréttarnot geta ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. dómar Hæstaréttar í málum nr. 48/2004 og nr. 47/2007. Hefðbundin afréttarnot, þ.e. sumarbeit og önnur takmörkuð notkun, eins og hér hefur verið lýst, eru ein og sér ekki nægjanleg til þess að beinn eignarréttur að landsvæði þessu hafi unnist fyrir hefð, sbr. lög nr. 46/1905. Réttmætar væntingar stefnanda um beinan eignarrétt hans að landsvæðinu breyta heldur ekki þeirri staðreynd að löggjafinn er einn bær um að ráðstafa landsvæði utan eignarlanda.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar, þ.m.t. afsal og athugasemdalaus þinglýsing eignaskjala, breyta engu í þessu efni, enda eins og að framan er rakið gátu menn ekki á þann hátt aukið við réttindi sín til landsins, umfram það sem verið hafði.  Þá þykja staðhættir og nýting landsvæðisins, auk tiltækra heimilda, fremur draga úr líkum þess að stefnendur hafi haft réttmætar væntingar um að landið væri beinum eignarrétti háð.

 

Í tilefni af þeirri málsástæðu stefnanda, að eignarhald hans byggi einnig á viðskipta­venju, þar sem eignarréttur hans hafi verið virtur frá ómunatíð meðal annars af stefnda í öllum viðskiptum varðandi landsnytjar og eignarnámsbætur greiddar honum vegna línustæða og vegalagningar, auk þess sem hann hafi greitt skatta og önnur lögboðin opinber gjöld af landinu öllu, skal tekið fram að ekki verður séð að slíkt geti stofnað til eignarréttar eða talist sönnun fyrir beinum eignarrétti þeirra að landsvæðinu.   

 

Þá kemur fram í málatilbúnaði stefnanda að hafi ríkisvaldið nokkru sinni getað haft uppi vefengingarkröfu á hendur eigendum Valþjófsstaðar sé ljóst að hún sé niður fallin vegna fyrningar og tómlætis.  Með vísan til þess sem að framan er rakið um að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 hafi engum handhafa beins eignarréttar þjóðlendu verið til að dreifa verður ekki séð að stefndi hafi fyrirgert nokkrum rétti fyrir tómlæti eða fyrningu.

 

Stefnandi heldur því fram að úrskurður óbyggðanefndar sé rangur og brjóti í bága við eignar­réttarákvæði stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannrétt­inda­sáttmála Evrópu.  Annars vegar vegna þess að með úrskurðinum hafi hann verið sviptur þinglýstri eign sinni og hins vegar vegna þess að lagðar séu á hann óhóflegar sönnunarkröfur.  Með lögum nr. 58/1998 var ekki stefnt að því að skerða eignarrétt eða raska á annan hátt réttindum með því að eignir yrðu teknar af mönnum heldur að ganga með tilteknum hætti úr skugga um hvort viðhlítandi heimildir væru fyrir eignarrétti.  Gildir sú regla að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa. Ekki verður því fallist á að stefndi hafi gengið á hagsmuni stefnanda með því að gera óraunhæfar kröfur.  Fellst dómurinn því ekki á þessi sjónarmið stefnanda.  Þá verður að sama skapi ekki fallist á að stefnandi hafi sætt mismunun sem brjóti í bága við 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða að úrskurður óbyggðanefndar sé fari í bága við meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnskipunar- og stjórnsýslulaga, en stefnandi hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir því að óbyggðanefnd geri óhóflegar og ríkari sönnunarkröfur til hans samkvæmt þjóðlendulögum en gerðar séu til sönnunar um eignarrétt að öðrum fasteignum í landinu almennt.  Þá verður ekki fallist á þá málsástæðu að hann hafi vegna þeirrar þungu sönnunarbyrðar sem á hann sé lögð, sem sé þess eðlis að nánast sé útilokað að uppfylla hana, hafi verið komið í veg fyrir að stefnandi njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum sem verndaður sé með 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. 

 

Þá hefur stefnandi ekki fært viðhlítandi rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að úrskurðurinn fari í bága við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 16. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998, eða 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, vegna ófullnægjandi rökstuðnings fyrir niðurstöðu nefndarinnar.  Þá er þess að geta að ekki verður annað séð en að í úrskurði óbyggðanefndar sé margítrekað rakið efni máldagans frá árinu 1397 og þýðing hans fyrir málið og þykja fullyrðingar stefnanda um annað haldlausar.  Þá verður ekki séð að stefnandi þurfi að velkjast í vafa um skilning á orðinu „kirkjuafréttur“ sem óbyggðanefnd notar um þá afrétti sem tilheyra kirkjunni.

 

Varðandi þá málsástæðu stefnanda að hann hafi haft réttmæta ástæðu til þess að telja brigður yrðu ekki bornar á beinan eignarrétt hans er til þess að líta að hvorki hann né fyrri eigendur höfðu í höndum haldbæra eignarheimild um þann eignarrétt sem stefnandi krefst að verði viðurkenndur. 

 

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður fallist á það með stefnda að þrætulandið eins og það er afmarkað í úrskurði óbyggðanefndar sé þjóðlenda og verður hann því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að niðurstaða úrskurðar óbyggðanefndar sé röng.  Að fenginni þeirri niðurstöðu eru ekki efni til að fjalla sérstaklega um 1.-6. varakröfur stefnanda.

 

7. varakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að stefnandi eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu án endurgjalds á því svæði sem úrskurðað hefur verið í afréttareign stefnanda.  Byggir hann kröfur þessar á 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, sbr. og 3. gr. laganna.  Vísar stefnandi til sömu sjónarmiða fyrir þessari kröfu sinni og varðandi aðalkröfu.  Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir að þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Í 2. mgr. ákvæðisins segir að sama gildi um önnur réttindi sem maður færir sönnur á að hann eigi.  Þá segir í c-lið 7. gr. laganna að hlutverk óbyggðanefndar skuli vera að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.  Stefnandi kveður að samkvæmt 3. gr. laganna sé ráð fyrir því gert að í þjóðlendu séu auðlindir eign íslenska ríkisins nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.  Í úrskurði óbyggðanefndar er það niðurstaðan að umdeilt landsvæði sé í afréttareign stefnanda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-liður 7. gr. laga nr. 58/1998 og er sú niðurstaða staðfest í dómi þessum.  Ekki verður séð að framangreind varakrafa fái stoð í þeim lagaákvæðum sem stefnandi vitnar til og af málatilbúnaði hans verður ekki ráðið með hvaða rökum hann telur sig eiga frekari kröfur til nýtingar á umræddu landssvæði en felst í afréttareign hans.

 

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. 

 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.794.629 krónur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Björnssonar hrl., sem telst hæfilega ákveðin 1.731.900 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Björnsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Þórhallur Þorvaldsson hdl.

 

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Kirkjumálasjóðs, í máli þessu. 

 

Málskostnaður fellur niður.

 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.794.629 krónur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans að fjárhæð 1.731.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                            Greta Baldursdóttir