• Lykilorð:
  • Peningaþvætti
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Upptaka

                                                  

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2018 í máli nr. S-300/2018:

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Hafþóri Loga Hlynssyni og

(Guðni Jósep Einarsson lögmaður)

Friðriki Árna Pedersen

(Jón M. Bergsson lögmaður)

 

I

       Mál þetta, sem dómtekið var 30. október síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 17. maí síðastliðinn, „á hendur Hafþóri Loga Hlynssyni, kt. 000000-0000, [...],[...] og Friðriki Árna Pedersen, kt. 000000-0000, [...],[...].

 

I.

Á hendur ákærða Hafþóri Loga fyrir peningaþvætti, með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017, aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum.

Við húsleit lögreglu á dvalarstað ákærða að [...], Kópavogi, þann 15. maí 2017, fundust 2.530.000 krónur af umræddu fé. Þar af voru 465.000 krónur í rassvasa ákærða, 1.365.000 krónur undir rúmdýnu í herbergi ákærða og 700.000 krónur í leynihólfi bak við eldhúsinnréttingu.

Hluta umrædds ávinnings nýtti ákærði til kaupa á bifreiðinni [...], að gerðinni Tesla Model 2, árgerð 2014. Var hún keypt í Litháen 13 apríl 2017 og greiddi ákærði fyrir hana 46.000 evrur eða 5.591.760 krónur. Var hluti þess fjár sem nýttur var til kaupa á bifreiðinni [...] fenginn með greiðslu frá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjóns á bifreiðinni [...], af gerðinni Audi, sem meðákærði Friðrik Árni hafði keypt fyrir ákærða Hafþór Loga í júlí 2016, en fyrir hana hafði ákærði Hafþór Logi einnig greitt með ávinningi af refsiverðum brotum.

 

II.

Á hendur ákærða Friðriki Árna fyrir peningaþvætti, með því að hafa tekið við samtals 5.591.760 krónum frá meðákærða Hafþóri Loga og skipt þeim samkvæmt fyrirmælum hans í 46.000 evrur í Íslandsbanka þann 12. apríl 2017 sem hann síðan afhenti meðákærða Hafþóri Loga. Gat ákærða Friðrik Árna ekki dulist að um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum meðákærða. Var hluti fjárhæðarinnar fenginn með greiðslu frá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjóns á bifreiðinni [...], af gerðinni Audi, sem ákærði Friðrik Árni hafði keypt fyrir meðákærða Hafþór Loga í júlí 2016. Gat ákærða Friðriki Árna ekki dulist að bifreiðin var keypt fyrir ávinning af refsiverðum brotum meðákærða.

III.

       Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

       Þá er þess krafist með vísan til 69. og 69. b. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, að ákærða Hafþóri Loga verði gert að sæta upptöku á ávinningi brotanna. Nánar tiltekið:

 

a)        Að ákærða Hafþóri Loga verði gert að sæta upptöku á innistæðu að fjárhæð 2.530.000 krónur á bankareikningi nr. [...] í Arion banka sem stofnaður var af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til að varðveita fjármuni sem haldlagðir voru á dvalarstað ákærða Hafþórs Loga að Almannakór 5, Kópavogi, 15. maí 2017. Upptökukrafan tekur einnig til áfallinna vaxta og verðbóta af framangreindri fjárhæð frá 15. maí 2017 til greiðsludags.

 

b)        Að ákærða Hafþóri Loga verði gert að sæta upptöku á bifreiðinni Tesla Model 2, árgerð 2014, með skráningarnúmer [...] sem haldlögð var af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins og var ákærða tilkynnt um haldlagninguna í skýrslutöku 30. maí 2017.“

       Ákærðu neita sök og krefjast sýknu. Þeir krefjast þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II

       Málavextir eru þeir að ákærði Hafþór Logi var handtekinn 15. maí 2017 og í framhaldinu var leitað á heimili hans. Við leitina fundust peningar þeir, sem í ákæru greinir, og voru þeir á þeim stöðum sem þar segir. Í framhaldinu var ákærði yfirheyrður af lögreglu og spurður um peningana sem fundust bak við eldhúsinnréttinguna. Ákærði neitaði að tjá sig um þá. Hann kvað peningana, sem fundust undir rúmdýnu vera 1,8 milljónir króna og hefði hann tekið þá út úr banka fyrir um sex vikum. Hann kvaðst ekki vilja hafa peninga í banka þar eð hann skuldaði bankanum. Hann var spurður um uppruna þessara peninga og kvaðst hann hafa fengið þá lánaða. Ákærði kannaðist við að hafa flutt inn bifreið þá sem í ákæru getur. Hann kvaðst hafa greitt 46.000 evrur fyrir hana. Hluta kaupverðsins hefði hann fengið að láni en að hluta til hefði hann fjármagnað kaupin með tryggingabótum vegna annarrar bifreiðar sem hefði skemmst. Ákærði tók fram að peningana, sem hann hefði verið með á sér, hefði vinur hans átt. Vinurinn hefði látið hann hafa þá til að kaupa úr en þegar hann var spurður hvar hann hefði ætlað að kaupa úrið svaraði hann því til að hann vildi ekki koma neinum í vesen. Þá kvaðst ákærði vera öryrki og hafa um 250.000 krónur í tekjur á mánuði.

       Ákærði var aftur yfirheyrður 30. maí. Hann neitaði þá að tjá sig um fjárhagsstöðu sína en kvaðst engar eignir eiga. Hann hefði örorkubætur auk þess sem hann stundaði bílabrask, eins og hann orðaði það. Hann kvaðst ekki gefa upp tekjur af bílabraskinu og neitaði að svara hvernig þessir bílar væru skráðir. Þá kvaðst hann lána fólki peninga en þegar hann var spurður hvernig hann gæti það kaus hann að tjá sig ekki.

       Ákærði kannaðist við að hafa keypt bíl af gerðinni Tesla í Litháen fyrir þá fjárhæð sem í ákæru getur. Hann kvað meðákærða hafa skipt peningum í evrur, eins og í ákæru greinir. Ákærði kvaðst hafa fjármagnað kaupin á bílnum með andvirði bíls, sem hefði skemmst, og láni frá ónefndum manni sem hann vildi ekki nafngreina.

       Ákærði Friðrik Árni var einnig yfirheyrður af lögreglu 15. maí. Hann kvaðst hafa átt um 2.500.000 krónur faldar undir rúmdýnu á heimili hans og meðákærða. Hann hefði safnað þessu fé með svartri vinnu og falið það þegar hann átti von á stúlku í heimsókn. Hann kvaðst ekki vita um peninga er fundust í eldhúsinnréttingu.

       Ákærði var aftur yfirheyrður 23. júní og kvaðst þá hafa verið skráður eigandi bíls, sem meðákærði hefði í raun átt. Bíllinn hefði skemmst og hefði tryggingafélagið greitt sér andvirði hans. Ákærði kvaðst hafa látið meðákærða fá það fé. Ákærði kvaðst hafa keypt evrur fyrir meðákærða og hefði greitt þær með tryggingabótunum og peningum frá meðákærða.    

       Lögreglan lagði hald á framangreinda peninga og bifreið og er krafist upptöku á þeim eins og í ákæru greinir.

 

III

       Ákærði Hafþór Logi bar við aðalmeðferð að peningar þeir, sem í ákæru greinir, hafi fundist á heimili hans og á þeim stöðum sem í ákæru greinir. Hann kannaðist einnig við að hafa keypt bifreið, eins og lýst er í ákæru og á þann hátt sem þar greinir.

       Ákærði kvaðst vera öryrki og hafa bætur frá Tryggingastofnun og svo hefði það verið á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann kvað nokkur ár síðan hann hefði haft aðrar tekjur og hann ætti ekki eignir. Hann var spurður hvort hann ætti eignir sem væru skráðar á aðra og neitaði hann að tjá sig um það. Ákærði kvaðst hafa átt þá peninga sem fundust undir rúmdýnu heima hjá honum í húsleitinni. Hann kvað þá upphaflega vera komna frá vinkonu sinni er hefði lánað honum þá. Hann kvaðst hafa haft peningana inni á reikningi en millifært þá til kunningja síns vegna fasteignakaupa og fengið reiðufé í staðinn. Peningana sem hann var með í rassvasanum kvað hann hafa verið fyrir húsaleigunni. Peningana sem fundust í eldhúsinnréttingunni kvað hann hafa verið frá kunningjanum. Ákærða var bent á að hann hefði ekki nefnt kunningja við yfirheyrslur hjá lögreglu og kvað ákærði hann tengjast fíkniefnainnflutningi og vildi hann ekki blandast í það. Hann kvaðst ekki geta upplýst um leynihólfið enda ætti hann ekki húsið. Þá ítrekaði ákærði að peningarnir, sem fundust á heimili hans, tengdust fasteignakaupum kunningjans. Ákærða var bent á að á heimili hans hefðu fundist sterar og fíkniefni og kvaðst hann ekki hafa átt það. Þá var ákærða bent á að ýmsir þeir sem hefðu lagt inn á bankareikning hans væru þekktir af afbrotum og hefðu verið dæmdir. Hann var spurður af hverju þessir menn hefðu lagt inn á hann. Ákærði kvað þetta vera vini sína og hann væri með brotaferil eins og þeir og hefði kynnst þeim í afplánun.

       Ákærði kvaðst hafa keypt Audi-bíl með númerinu [...] árið 2012 og hafa átt hann síðan. Hann hefði þó sett hann upp í kaup á veitingastað en þau kaup hefðu gengið til baka og þá hefði hann fengið bílinn aftur. Þetta hefði verið árið 2016. Hann kvað meðákærða hafa verið skráðan fyrir bílnum vegna þess að ákærði hefði skuldað svo mikið að hann gæti ekki átt bílinn.

       Ákærði kvaðst hafa keypt Teslu-bílinn til að selja hann aftur. Hann kvað einkahlutafélag hafa keypt bílinn en hann hefði fjármagnað kaupin. Ákærði kvað bílinn hafa verið greiddan með reiðufé vegna þess að gengið var frá kaupunum í Litháen um páska og þá hefðu bankar verið lokaðir. Seljandinn hafi ekki viljað halda bílnum lengur. Ákærði kvaðst hafa fengið lánaða peninga hjá kunningja sínum til að kaupa bílinn og hafi verið ætlunin að taka lán út hann hér á landi og endurgreiða lánið. Einkahlutafélagið hefði verið skuldari á bréfi vegna lánsins og hefði hann skrifað undir enda haft prókúru fyrir félagið á þessum tíma í smástund, eins og hann orðaði það. Hann kvaðst hafa ætlað að nota félagið til að kaupa bílinn og láta það svo selja hann aftur. Hann kvað fósturföður sinn hafa átt félagið á þessum tíma og hefði ákærði fengið umboð til að kaupa bílinn. Fósturfaðirinn hefði vitað um kaupin á bílnum. Þá kvað ákærði félagið hafa komið að kaupunum vegna þess að hann hefði ekki mátt eiga neitt.

       Ákærða var bent á að hann hefði aðeins örorkubætur en byggi í 320 fermetra húsi og hefði keypt sér dýran bíl. Ákærði kvað sig og meðákærða hafa búið í húsinu og ætlað að fá þriðja mann til að leigja með þeim. Þá kvað hann bílinn hafa verið keyptan til að selja aftur og hagnast á því.

       Ákærði Friðrik Árni kannaðist við að atvikum væri rétt lýst í II. kafla ákæru hvað hann varðaði. Ákærði kvaðst hafa þekkt meðákærða í nokkur ár, eða frá 2011, og hefðu þeir búið saman um tíma, meðal annars á árinu 2017. Ákærði kvaðst ekki hafa spurt meðákærða sérstaklega um afbrotasögu hans enda kæmi honum hún ekki við. Hann kvað sig og meðákærða hafa verið ákærða saman fyrir fíkniefnainnflutning. Dæmt hefði verið í því máli. Ákærði kvaðst hafa verið skráður eigandi Audi-bíls sem meðákærði hefði sett sem greiðslu fyrir veitingastað. Kaupin hefðu gengið til baka og þá hefði bíllinn verið skráður á sig vegna þess að meðákærði hefði ekki mátt eiga neitt eins og ákærði orðaði það. Hann kvaðst hafa vitað að á þessum tíma hefði meðákærði verið til rannsóknar vegna ætlaðs fíkniefnalagabrots og eins að hann hefði verið gjaldþrota. Það hefði hins vegar ekki breytt því að hann skráði bílinn á sitt nafn.

       Audi-bílinn varð fyrir tjóni og kvaðst ákærði hafa fengið tryggingabætur greiddar. Á sama tími hefði meðákærði verið að leita sér að bíl erlendis og fundið þar umræddan Teslu-bíl. Ákærði kvað Tesluna hafa verið greidda með tryggingabótunum og láni sem meðákærði hefði fengið fyrir mismuninum. Hann kvaðst ekki hafa tortryggt meðákærða á nokkurn hátt varðandi það hvernig hann hefði fengið þessa fjármuni. Sér hefði ekki dottið í hug að þessir peningar meðákærða væru afrakstur afbrota en hann hefði vitað að meðákærði spilaði póker á netinu. Ákærði vildi ekki tjá sig um hvort hann hefði átt eitthvað af þeim peningum sem fundust við húsleitina á sameiginlegu heimili ákærðu.

       Meðal gagna málsins er skuldabréf þar sem tiltekið einkahlutafélag viðurkennir að skulda manni nokkrum 3.000.000 króna. Ákærði Hafþór Logi er sjálfskuldarábyrgðaraðili á bréfinu og gefur það út fyrir hönd einkahlutafélagsins. Fyrir dóminn kom kona, en sonur hennar er fósturfaðir ákærða Hafþórs Loga. Hún kvað eiginmann sinn hafa átt einkahlutafélagið. Við andlát hans, 25. janúar 2017, hefði félagið komist í hennar eigu, en síðan hefði sonur hennar tekið við því. Starfsemi félagsins hefði verið rekstur vörubíls eiginmannsins sem sonurinn ræki nú. Hún kvaðst ekkert vita um innflutninga á Teslu-bíl. Hún kvað félagið ekki hafa verið selt heldur hefði sonur hennar yfirtekið það. Þá kvaðst hún ekkert vita um aðkomu ákærða Hafþórs Loga að félaginu. Hann hefði ekki verið inni í hennar fyrirtæki eins og hún orðaði það.

       Sonur nefndrar konu kom fyrir dóm og skoraðist undan því að bera vitni, en hann er stjúpfaðir ákærða Hafþórs Loga.

       Maður, sem er kröfuhafi samkvæmt skuldabréfinu, bar að hann hefði lánað ákærða Hafþóri Loga peninga samkvæmt skuldabréfinu. Ákærði hefði þurft þá til að fjármagna kaup á bíl. Maðurinn kvaðst ekki hafa fengið lánið endurgreitt og hefði ákærði borið við vandræðum með tollafgreiðslu. Hann kvaðst ekkert hafa athugað með einkahlutafélagið.

       Kunningi ákærða Hafþórs Loga kvaðst hafa keypt nefnt einkahlutafélag í því skyni að stækka það en síðan hefði hann hætt við það. Hann staðfesti það sem hann hafði borið hjá lögreglu um að hann hefði keypt félagið en ekki greitt neitt fyrir það. Hann var spurður hver hefði selt honum félagið og vildi hann fyrst ekki svara því en sagðist svo ekki muna það. Hann var einnig spurður um Teslu-bílinn og kvaðst hann ekkert muna um hann. Þá var hann spurður um skuldabréfið en gat litlu svarað en kannaðist við að hafa vottað bréfið.

       Annar kunningi ákærða Hafþórs Loga bar að ákærði hefði greitt fyrir sig vegna íbúðar og kvaðst kunninginn hafa látið ákærða fá peninga í reiðufé til þess.

       Maður nokkur bar að ákærði Hafþór Logi hefði beðið sig um að vera skráður eigandi Audi-bílsins og hefði hann gert það. Hann kvað sér hafa skilist að ákærði mætti ekki eiga bílinn en hann hefði greitt kostnað af honum.

 

IV

       Ákærðu er gefið að sök peningaþvætti og brot þeirra talið varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Þeir neita báðir sök. Í lagagreininni er lögð refsing við því að taka við, nýta sér eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða öðrum lögum, eins og nánar er lýst. Hér að framan var rakið að peningar fundust við húsleit heima hjá ákærðu og eins var gerð grein fyrir kaupum ákærða Hafþórs Loga á bifreið í Litháen.

       Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að ákærði Hafþór Logi sé eigandi hinna haldlögðu peninga og hafi aflað þeirra með peningaþvætti. Bent er á að hann sé öryrki og hafi ekki aðrar tekjur en bætur frá Tryggingastofnun, að eigin sögn. Þá eigi hann engar eignir. Samkvæmt skattframtali ákærða tekjuárið 2015, gjaldárið 2016, hafi hann fengið greiðslur frá Tryggingastofnun, samtals 1.187.045 krónur. Hafi það verið einu tekjurnar sem hann taldi fram á því ári. Ákærði og sambýliskona hans voru samsköttuð og hafði hún samkvæmt skattframtalinu 1.062.500 krónur í tekjur. Þá námu innstæður þeirra í banka samtals 695.837 krónum framangreint tekjuár. Engar eignir voru taldar fram á skattframtalinu og námu skuldir samtals 3.200.897 krónum.

       Samkvæmt skattframtali ákærða tekjuárið 2016, gjaldárið 2017, fékk hann 2.608.307 krónur í greiðslur frá Tryggingastofnun. Voru það einu tekjurnar sem ákærði hafði á því ári. Ákærði og sambýliskona hans voru samsköttuð og hafði hún samkvæmt skattframtali 1.150.000 krónur í tekjur. Þá námu innstæður þeirra í banka samtals 1.346.951 krónu framangreint tekjuár. Engar eignir voru taldar fram á skattframtalinu og námu skuldir samtals 2.971.525 krónum.

       Þá var hér að framan gerð grein fyrir skýringum ákærða á peningunum sem fundust við húsleitina. Hann hefur ekki nafngreint vinkonuna sem átti að hafa lánað honum peningana sem fundust undir rúmdýnunni og heldur ekki kunningjann sem hann kvað tengjast peningunum sem fundust í eldhúsinnréttingunni. Peningana í rassvasa hans kvað hann hafa átt að vera fyrir húsleigunni en að öðru leyti gat hann ekki skýrt hvaðan þeir væru komnir. Ákærði hefur þó borið að hafa stundað bílabrask en ekki séu þau viðskipti hans opinberlega skráð.

       Þá er að geta framangreinds skuldabréfs. Af framburði ekkju fyrrum eiganda þar greinds einkahlutafélags verður ekki ráðið að ákærði hafi haft nokkur þau ráð yfir félaginu að hann hefði getað tekið lán í nafni þess. Sonur ekkjunnar og núverandi eigandi félagsins er stjúpfaðir ákærða og skoraðist hann undan því að bera vitni. Þá metur dómurinn ótrúverðugan framburð manns, er bar að hafa lánað ákærða fé samkvæmt skuldabréfinu. Hvorki hann né ákærði hafa lagt fram gögn um að fé samkvæmt bréfinu hafi runnið til ákærða. Þá hefur ákærði ekki skýrt hvernig á því stóð að hann gat tekið lán í nafni einkahlutafélagsins án umboðs og vitneskju umráðamanna þess.

       Samkvæmt sakavottorði ákærða Hafþórs Loga hefur hann hlotið ellefu dóma frá desember 2003. Ákærði hefur meðal annars verið dæmdur fyrir þjófnaðarbrot, fjársvik, fíkniefnalagabrot, valdstjórnarbrot og fyrir innflutning fíkniefna til söludreifingar. Þann 19. maí 2017 var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn 173a gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Síðasti dómur ákærða Hafþórs Loga samkvæmt sakavottorði var kveðinn upp 12. janúar 2018 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákærði var þar dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, tollalögum nr. 88/2005, lyfjasölulögum nr. 30/1963 og lyfjalögum nr. 93/1994. Voru brot ákærða Hafþórs Loga, sem hann var dæmdur til refsingar fyrir í umræddum málum, til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning.

       Þegar allt framangreint er virt, það er fjárhagur ákærða Hafþórs Loga og brotaferill hans, er fallist á með ákæruvaldinu að næg sönnun sé fram komin fyrir því að ákærði hafi aflað sér peninga og bifreiða með peningaþvætti eins og í ákæru greinir. Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

       Ákærði Friðrik Árni hefur kannast við að hafa tekið við peningum frá meðákærða og skipt þeim eins og greinir í ákæru. Þegar þetta gerðist bjuggu ákærðu saman í íbúð og höfðu þekkst í nokkur ár. Þá liggur fyrir að eftir að ákærðu kynntust var meðákærði Hafþór Logi dæmdur í tveggja ára fangelsi 19. maí 2017 fyrir meiri háttar brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Hann var einnig dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi 12. janúar 2018 fyrir brot gegn fíkniefnalögum og fleiri lögum. Í því máli var ákærði Friðrik Árni einnig ákærður en var sýknaður. Ákærða hlaut því að vera ljós brotaferill meðákærða. Áðurnefnd Audi-bifreið var skráð á ákærða og var ástæða þess sú að meðákærði var gjaldþrota og gat því ekki átt eignir. 

       Samkvæmt skattframtali ákærða tekjuárið 2016, gjaldárið 2017, keypti hann nefnda bifreið 5. júlí 2016 á 2.900.000 krónur. Þá kemur fram á skattframtali hans tekjuárið 2017, gjaldárið 2018, að bifreiðin hafi verið seld Vátryggingafélagi Íslands hf. og var söluverðið 2.241.350 krónur. Ákærði var skráður eigandi bifreiðarinnar frá 4. júlí 2016 til 10. apríl 2017. Samkvæmt framburði ákærðu beggja var ákærði Hafþór Logi raunverulegur eigandi bifreiðarinnar.

       Þegar framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að ákærða Friðriki Árna hafi mátt vera ljóst að peningar þeir sem hann tók við frá meðákærða voru tilkomnir vegna brotastarfsemi meðákærða. Ákærði verður því sakfelldur fyrir peningaþvætti eins og honum er gefið að sök í ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

       Sakaferill ákærða Hafþórs Loga var rakinn hér að framan. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður tekinn upp og dæmdur með þessu máli skilorðsdómurinn frá 12. janúar 2018. Refsing ákærða verður hegningarauki, sbr. 78. gr. nefndra laga, og er hún hæfilega ákveðin tólf mánaða fangelsi.

       Ákærði Friðrik Árni hefur þrisvar verið sektaður fyrir umferðarlagabrot. Refsing hans er hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.

       Samkvæmt framangreindri niðurstöðu og með vísun til 69. og 69. gr. b. almennra hegningarlaga fellst dómurinn á upptökukröfur ákæruvaldsins eins og nánar greinir í dómsorði.

       Ákærðu eru dæmdir, hvor um sig, til að greiða verjanda sínum málsvarnarlaun sem ákvörðuð eru með virðisaukaskatti í dómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

       

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

 

D ó m s o r ð:

        Ákærði, Hafþór Logi Hlynsson, sæti fangelsi í tólf mánuði.

        Ákærði, Friðrik Árni Pedersen, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

        Upptækar skulu vera 2.530.000 krónur, sem varðveittar eru á bankareikningi 0301-13-300393, ásamt vöxtum og verðbótum frá 15. maí 2017 til úttektardags og bifreiðin BY-X44 sem er Tesla Model 2, árgerð 2014.

        Ákærði Hafþór Logi greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðna Jóseps Einarssonar lögmanns,  1.264.800 krónur.

        Ákærði Friðrik Árni greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns M. Bergssonar lögmanns, 1.264.800 krónur.

 

Arngrímur Ísberg