• Lykilorð:
  • Höfundarréttur
  • Skaðabætur

r 2009, föstudaginn 13. marz, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr.

           

            E-6726/2008:            

                        Ívar Örn Þórhallsson

                        gegn               

                        Birtingi útgáfufélagi ehf.

 

kveðinn upp svohljóðandi                              

 

d ó m u r

I

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 23. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ívari Erni Þórhallssyni, kt. 000000-0000, Strandaseli 2, Reykjavík, með stefnu birtri 8. september 2008, á hendur Birtingi útgáfufélagi ehf., kt. 620867-0129, Lynghálsi 5, Reykjavík.

 

      Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur, að fjárhæð krónur 259.368, með vöxtum skv. 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. ágúst til 9. október 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Til vara er krafizt skaðabóta að álitum.  Þá gerir stefnandi þær kröfur aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur, að fjárhæð krónur 600.000, með vöxtum skv. 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. ágúst til 9. október 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Til vara er krafizt miskabóta að álitum.  Enn fremur krefst stefnandi þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna brota gegn 3. gr. og 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga sbr. 1. og 3. tl. 2. mgr. 54. gr., sbr. 3. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, en til vara vegna brota gegn 1. mgr. 49. gr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr., sbr. 3. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti auk virðisaukaskatts á málskostnað.

 

      Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins.

 

II

Málavextir

Málsatvik eru þau, að í 36. tbl. tímaritsins Séð og heyrt, sem kom út 28. ágúst 2008, og gefið er út af stefnda, er umfjöllun um stefnanda, þar sem því er haldið fram, að hann sé hommi og haldi til á Barnalandi.  Á forsíðu blaðsins var ljósmynd af stefnanda og einnig var umfjöllun inni í blaðinu, myndskreytt með ljósmyndum af stefnanda, barnsmóður hans og föður stefnanda.  Greinarhöfundur er nafngreindur, Svanur Már Snorrason, en myndirnar sagðar „úr safni“.  Stefnandi kveður tvær þessara ljósmynda, sem þarna voru birtar, þ.e. mynd af stefnanda sjálfum og barnsmóður hans, vera ljósmyndaverk stefnanda, sem njóti verndar höfundalaga nr. 73/1972, og séu þær vistaðar á læstu vefsvæði hans www.myspace.com/vandi_vandlati.

      Telur stefnandi, að ótilgreindir starfsmenn stefnanda hafi farið inn á vefsvæði stefnanda, búið til eintök af myndunum og birt þær í Séð og heyrt, án leyfis stefnanda, og án þess að stefnandi væri nafngreindur sem höfundur.

      Stefndi mótmælir því, að myndirnar séu ljósmyndaverk stefnanda, og að þær hafi verið afritaðar af læstu vefsvæði stefnanda á Myspace-vefsíðunni.

 

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að ótilgreindir starfsmenn stefnda hafi, með saknæmri og ólögmætri háttsemi, brotið gegn hagsmunum stefnanda, sem séu verndaðir af ákvæðum höfundalaga nr. 72/1973 og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum.  Hér sé einkum um að ræða brot gegn 1., 2., 3. og 4. gr. höfl., eða eftir atvikum 1. mgr. 49. gr. höfl., sem stefndi beri refsi- og fébótaábyrgð á, sbr. 54. og 56. gr. sömu laga, á grundvelli sakareglunnar og meginreglu skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna sinna og eftir V. kafla laga nr. 57/1956 um prentrétt. 

 

Eignaréttur höfundar – Höfundaverk

Í 1. mgr. 1. gr. höfl. sé kveðið á um, að höfundur eigi eignarrétt að bókmennta- eða listaverki með þeim takmörkunum, sem greini í II. kafla höfl.  Í 2. mgr. 1. gr. höfl. segi síðan, að ljósmyndalist falli undir ákvæði 1. mgr. 1. gr. höfl.  Það liggi fyrir, að ekki séu gerðar strangar kröfur til listfengi og frumleika til þess að ljósmynd teljist til höfundarverks í skilningi höfundaréttar.  Þá sé ljóst, að þær takmarkanir, sem kveðið sé á um í II. kafla höfl., taki ekki til þess tilviks, sem hér um ræði.

      Fyrir liggi, að stefnandi hafi tekið þær tvær ljósmyndir, sem birtar hafi verið í 36. tbl. Séð og heyrt 2008, og sé hann því höfundur að ljósmyndunum og eigi  eignarrétt að þeim, sbr. 1. mgr. 1. gr. höfl.  Það að starfsmenn stefnda hafi, án leyfis stefnanda, búið til eintök af ljósmyndunum og birt þær í Séð og heyrt, feli í sér brot á eignarrétti stefnanda, sem verndaður sé af 1. mgr. 1. gr. höfl. og 72. gr. stjskr.

 

Eintakagerð – Einkaréttur stefnanda

Í 2., sbr. 3. gr.  höfl. sé kveðið á um, að höfundur hafi einkarétt til að gera eintök af verki sínu, og það sé eintakagerð, þegar hugverk sé tengt hlutum.  Síðan segi m.a. í 2. mgr. 2. gr. höfl., að verk teljist gefið út, þegar eintök af því séu með réttri heimild og í álitsverðum fjölda boðin opinberlega til sölu.

      Það sé ljóst, að starfsmenn stefnda hafi brotið gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar og útgáfurétti stefnanda með því að búa til eintök af verkum stefnanda og birta áðurgreindar ljósmyndir hans í Séð og heyrt í leyfisleysi og þannig gefið út og tengt ljósmyndaverk stefnanda tilteknum hlut, án þess að hafa til þess heimild.

 

Birting – Einkaréttur stefnanda

Í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfl. sé kveðið á um einkarétt höfundar til að birta verk sín í  upphaflegri mynd eða breyttri, og að verk teljist birt, þegar það sé með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega eða eintök af því gefin út.  Hér sé um grundvallarréttindi höfundar að ræða, en réttur höfundar til að ráða því sjálfur hvar, hvernig og hvenær hann birti verk sín og í hvaða samhengi, sé höfundum dýrmætur.

      Fyrir liggi, að starfsmenn stefnda hafi, með birtingu ljósmyndaverka stefnanda í Séð og heyrt, brotið gegn þessum grundvallarrétti stefnanda og þannig brotið gegn þeim mikilvægu réttindum stefnanda að fá að ráða því sjálfur, hvar, hvernig, hvenær í hvaða samhengi verk hans séu birt.

 

Sæmdarréttur stefnanda

Í 1. mgr. 4. gr. höfl. segi, að skylt sé, eftir því sem við geti átt, að geta nafns höfundar, þegar verk er birt.  Með því að geta ekki stefnanda sem höfundar, þegar myndir hans voru birtar í Séð og heyrt, hafi starfsmenn stefnda brotið gegn nafngreiningarrétti stefnanda og raunar gangi starfsmenn stefnda lengra, þar sem svo virðist sem myndirnar séu eignaðar stefnda með því að segja þær vera úr safni, og sé þar að öll líkindum verið að vísa til þess, að myndirnar séu úr ljósmyndasafni Séð og heyrt eða stefnda.

      Í 2. mgr. 4. gr. höfl. segi síðan, að óheimilt sé að birta verk höfundar með þeim hætti, eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður höfundar.  Hér hafi starfsmenn stefnda enn á ný brotið gegn rétti stefnanda, en með því að birta myndir höfundar með fyrirsögninni „Hommi á Barnalandi!“ og nota þannig höfundarverk stefnanda sem myndskreytingu við níðgrein um hann, verði að telja, að stefndi hafið vegið með alvarlegum hætti að sæmdarrétti höfundar.

      Í. 3. mgr. 4. gr. höfl. komi síðan fram, að afsal höfundar á réttindum skv. 4. gr. höfl. sé ógilt, nema um einstök tilvik sé að ræða, sem séu skýrt afmörkuð um tegund og efni.  Það sé því ljóst, að á stefnda hafi hvílt ótvíræð lagaskylda að geta nafns stefnanda við birtingu myndanna.

 

Ljósmyndir sem ekki teljast höfundaverk

Í 1. mgr. 49. gr. höfl. sé sérregla um ljósmyndir, sem teljist ekki uppfylla skilyrði 2. mgr. 1. gr. höfl. um listfengi og frumleika til þess að geta talist höfundaverk í skilningi höfundaréttar.  Í greininni segi, að eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóti verndar 2. mgr. 1. gr. höfl., sé allt að einu óheimil, án samþykkis ljósmyndara, og jafnframt sé óheimilt að birta slíkar myndir, án samþykkis höfundar.  Síðan segi, að sé slík mynd birt opinberlega í atvinnuskyni eða ávinnings, þá eigi ljósmyndari kröfu til þóknunar.  Þá verði að telja, að ákvæði 1. og 2. mgr. 4. gr. höfl., gildi um ljósmyndir, sem njóti verndar 1. mgr. 49. gr. höfl., eða eftir atvikum megi beita ákvæðinu með lögjöfnun um höfunda slíkra mynda.

      Á því sé byggt, verði ekki á það fallizt, að ljósmyndir stefnanda teljist verk í skilningi 2. mgr. 1. gr. höfl., að þá njóti ljósmyndir stefnanda fullrar verndar á grundvelli 1. mgr. 49. gr. höfl. og þeim á grundvelli hafi starfsmenn stefnda brotið gegn skýrum og ótvíræðum rétti stefnanda, m.a. sæmdarrétti, rétti til eftirgerðar og birtingar ljósmyndanna, og því beri stefndi skaðabótaábyrgð á fjárhagslegu og ófjárhagslegu tjóni stefnanda vegna þessara réttarbrota.  Að breyttu breytanda sé að öðru leyti vísað til þess, sem segi í málsástæðukafla hér að ofan.

 

Fjárkröfur - Refsikrafa

Almennt

Fyrir liggi, að starfsmenn stefnda hafi, með saknæmum og ólögmætum hætti, brotið gegn skýrum og ótvíræðum rétti stefnanda, sem verndaður sé af ákvæðum höfl. og 72. gr. stjskr., þar sem kveðið sé á um, að eignarétturinn sé friðhelgur.  Með þessari háttsemi hafi stefndi bakað sér refsi- og skaðabótaábyrgð, sbr. 54. gr. og 56. gr. höfl.  Þá liggi fyrir, að brot stefnda á höfundarétti stefnanda séu stórfelld.  Við mat á hæfilegum skaðabótum beri einnig að horfa til þess, að Séð og heyrt sé gefið út í hagnaðarskyni og í stóru upplagi, en telja verði, að hvert tölublað Séð og heyrt sé prentað í 10-12.000 eintökum, og sé útbreiðsla þess því mikil, enda komi fram í blaðinu, að það sé mest lesna glanstímarit á Íslandi.  Þá beri að líta til þess, að ljósmyndir stefnanda hafi birzt á tveimur stöðum í blaðinu, m.a. á forsíðu, og hafi verið notaðar til að myndskreyta eina aðalfrétt blaðsins.  Það verði því að telja, að stefndi hafi hagnýtt sér verk stefnanda í ágóðaskyni, og að saknæm og ólögmæt notkun stefnda á ljósmyndaverkum stefnanda hafi orðið til þess að auka sölu áðurgreinds tölublaðs Séð og Heyrt.

 

Skaðabætur vegna fjártjóns

Hvað varði skaðabætur vegna fjártjóns, megi hafa til hliðsjónar gjaldskrá Myndstefs, en þar segi, að taxti fyrir forsíðumynd í tímariti, þar sem upplag sé meira en 10.000 eintök, sé krónur 27.972, en lágmarkstaxti vegna myndar, sem birtist í tímariti, þar sem upplag sé yfir 10.000 eintök, virðist vera krónur 7.628.  Í gjaldskránni komi skýrt fram, að taxtinn skv. gjaldskránni eigi ekki við, þegar myndhöfundur láti í té áður óbirt myndverk, eins og raunin sé í því tilviki, sem hér um ræði, og eðli málsins samkvæmt sé ekki fjallað um greiðslur fyrir ljósmyndir, sem birtar séu í óleyfi höfundar og feli því í sér brot á höfl.  Það sé því ljóst, að stefnandi eigi rétt á greiðslu, sem nemi margfaldri þeirri fjárhæð, sem kveðið sé á um í gjaldskrá Myndstefs.

      Ef ljósmyndir stefnanda hefðu verið birtar í Séð og heyrt með leyfi stefnanda og gjaldskrá Myndstefs verið lögð til grundvallar, þá hefði stefnandi átt rétt á greiðslu að fjárhæð krónur 27.972 (forsíðumynd) + 15.256 (lágmarkstaxti x 2), alls krónur 43.228, að því gefnu, að Séð og heyrt sé gefið út í meira en 10.000 eintökum.  Með hliðsjón af atvikum málsins, og þá helzt að um óbirt myndverk hafi verið að ræða og myndirnar hafi verið birtar án leyfis frá stefnanda og í ágóðaskyni, verði að telja, að hæfileg greiðsla til stefnanda vegna hinnar saknæmu og ólögmætu birtingar sé sexföld sú fjárhæð, sem stefnandi hefði fengið greidda, ef löglega hefði verið staðið að birtingu ljósmyndaverkanna, eða krónur 259.368.  Hvað varði ábyrgðargrundvöll stefnda sé vísað til V. kafla laga nr. 57/1956 um prentrétt, einkum 13. og 15. gr. laganna og meginreglu íslenzks skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðverkum starfsmanna sinna.  Þá sé einnig vísað til 49. og 1. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

      Til vara sé krafizt skaðabóta að álitum.  Um rökstuðning kröfunnar vísist til þess, sem segi hér að framan í málsatvika- og málsástæðukafla.

 

Miskabætur

Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 2. mgr. 56. gr. höfl. og eftir atvikum á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Við mat á  miskabótum beri að horfa til þess, að stefnandi hafi verið sviptur rétti, sem verndaður sé af 72. gr. stjórnarskrá og ákvæðum höfl., en hér sé annars vegar átt við rétt stefnanda til að ráða því, hvort, hvenær og hvar ljósmyndaverk hans birtust og í hvaða samhengi.  Stefnandi byggir á því, að starfsmenn stefnda hafi sett myndirnar í ógeðfellt samhengi með því að nota höfundarverk stefnanda til að myndskreyta ósanna frétt um stefnanda, þar sem því sé haldið fram, að hann sé hommi og haldi til á Barnalandi.  Þá sé höfundarverk stefnanda af barnsmóður sinni afar persónulegt ljósmyndaverk, sem sýni hana kasólétta, og hafi sú mynd ekkert erindi átt við almenning, enda sé meðganga og fæðing barns einkamál foreldra.  Þá beri einnig að horfa til þess, að nafngreiningarréttur stefnanda hafi verið brotinn, og raunar hafi starfsmenn stefnda gengið enn lengra, því þeir hafi eignað sér myndirnar, sbr. texta þess efnis að myndirnar séu úr safni, og hafi þar að öllum líkindum verið átt við, að myndirnar væru úr safni stefnda.  Hér komi líka til skoðunar, að brot stefnda á réttindum stefnanda hafi verið stórfelld og falið í sér brot á flestum grundvallarréttindum, sem njóta verndar höfl. 

      Hvað varði fjárhæð miskabóta, beri að horfa til þess, að starfsmenn stefnda hafi tekið tvö höfundarverk stefnanda og birt þau í 36. tölublaði Séð og heyrt 2008.  Það verði að telja, að sanngjarnar miskabætur fyrir ólögmæta og saknæma birtingu á ljósmyndaverki stefnanda á forsíðu Séð og heyrt sé krónur 300.000., en krónur 150.000 á hvora ljósmynd vegna birtingar á innsíðum blaðsins.  Alls sé miskabótakrafa stefnanda því að fjárhæð krónur 600.000.  Hér beri að líta til þess, að almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna mæli með því, að stefnanda verði dæmdar háar miskabætur.  Rétt sé að minna á, í því sambandi, að starfsmenn stefnda virðast leggja það í vana sinn að fara inn á læst vefsvæði og taka þar ljósmyndaverk ófrjálsri hendi og birta þau í óleyfi í Séð og heyrt, sbr. mál héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-2042/2008.

      Til vara sé krafizt miskabóta að álitum.  Um rökstuðning kröfunnar vísist til þess, sem segi hér að framan í málsatvika- og málsástæðukafla.

 

Refsikrafa

Þess sé krafizt, að stefndi verði dæmdur til refsingar, þar sem ótilgreindir starfsmenn stefnda hafi, með saknæmum og ólögmætum hætti, brotið gegn skýrum og ótvíræðum rétti stefnanda, sem verndaður sé af ákvæðum höfl. og stjórnarskrá.  Með þeirri háttsemi starfsmanna sinna hafi stefndi bakað sér refsiábyrgð gagnvart stefnanda, sbr. 3. mgr. 54. gr. höfl., en heimild stefnanda til að höfða einkarefsimál á hendur stefnda byggist á 1. mgr. 59. gr. höfl.  Það verði að telja, að um ásetningsbrot hafi verið að ræða hjá starfsmönnum stefnda, þar sem þeim hafi verið fulljóst, að þyrfti leyfi stefnanda til að gera eintök af verkunum, sem vistuð hafi verið á læstu vefsvæði stefnanda, og birta þau í Séð og heyrt.

      Verði ekki fallizt á, að um ásetningsbrot hafi verið að ræða, verði að telja, að um stórkostlegt gáleysi hafi verið ræða og með því sé uppfyllt skilyrði 54. gr. höfl. til að dæma stefnda til refsingar vegna brota starfsmanna stefnda.  Við ákvörðun refsingar beri að horfa til þess, að brotin hafi verið framin í ágóðaskyni.

      Um heimfærslu til refsiákvæða á hendur stefnda sé vísað til þess, að starfsmenn stefnda hafi gerzt brotlegir við 3. gr. og 1. og 2. mgr. 4. gr. höfl. og þess krafizt, að stefnda verði gerð refsing á grundvelli 1. og 3. tl. 2. mgr. 54. gr., sbr. 3. mgr. 54. gr. höfl.   Til vara séu brot, sem stefndi beri refsiábyrgð á, heimfærð undir 1. mgr. 49. gr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr., sbr. 3. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

 

Vextir og dráttarvextir

Varðandi kröfu um vexti og dráttarvexti á dómkröfur sé vísað til IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en krafa um vexti byggist á 1. ml. 4. gr. laganna, sbr. 8. gr. sömu laga, þar sem segi, að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi, sem hið bótaskylda atvik átti sér stað.  Í því tilviki, sem hér um ræði, sé því krafizt vaxta frá birtingu ljósmyndanna 28. ágúst 2008.  Hvað varði kröfu um dráttarvexti sé byggt á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, þar sem segi, að skaðabótakröfur beri dráttarvexti, þegar liðinn sé mánuður frá þeim degi, sem kröfuhafi lagði  fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta.  Í því tilviki, sem hér um ræði, sé miðað við þingfestingardag stefnu 9. september 2008, og sé því krafizt dráttarvaxta frá 9. október 2008 til greiðsludags.

 

 

 

Málskostnaðarkrafa

Þess sé krafizt, að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðaryfirliti stefnanda, og sé krafan byggð 130. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Þess sé krafizt, að dæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.

 

Málsástæður stefnda

Almenn sjónarmið – aðild.

Stefndi byggir á því, að ekki liggi fyrir, hver sé höfundur hinna umræddu ljósmynda.  Því sé ósannað, að stefnandi eigi hagsmuna að gæta í málinu.  Því sé mótmælt, sem fram komi í stefnu, að fyrir liggi, að umræddar ljósmyndir séu verk stefnanda.  Það hafi hvergi komið fram, nema í fullyrðingum stefnanda sjálfs.  Stefnandi hafi engin gögn lagt fram, sem sýni og sanni, að umræddar myndir séu hans höfundarverk.  Ranglega sé fullyrt í stefnu, að myndirnar hafi verið teknar af Myspace-vefsvæði stefnanda.  Ekkert liggi því fyrir um, að stefnandi njóti höfundaréttar að umræddum myndum.  Önnur myndin sé til dæmis af stefnanda sjálfum.  Af þeim sökum telji stefndi ósannað, að stefnandi hafi ljósmyndað og/eða eigi umræddar myndir eða hafi slík réttindi til myndanna, að veiti honum heimild til að krefja stefnda um bætur vegna birtingar þeirra.  Beri af þeim sökum að sýkna stefnda, sbr. einkum 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

      Í öðru lagi bendi stefndi á, að samkvæmt 15. gr. laga nr. 57/1956 beri höfundur refsi- og fébótaábyrgð á efni rits, hafi hann nafngreint sig.  Óumdeilt sé, að höfundur þeirrar greinar, sem myndirnar birtust með og séu hluti af, sé nafngreindur.  Í ábyrgð þeirri, sem fylgi framangreindu lagaákvæði prentlaganna, felist, að sá, sem hafi nafngreint sig við efni rits, beri bæði refsi- og fébótaábyrgð á efninu, brjóti það í bága við lög.  Megi telja, að umrædd myndbirting brjóti í bága við höfundarlög, liggi fyrir, að ábyrgðin hvíli lögum samkvæmt á höfundinum.  Reglan um vinnuveitandaábyrgð gildi ekki í tilvikum sem þessum, enda hafi vinnuveitandaábyrgð ekki verið gild í málum, sem varði ábyrgð á grundvelli prentlaga.  Beri samkvæmt þessu að sýkna stefnda, Birting útgáfufélag ehf., af kröfum stefnanda, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Stefnandi hafi, samhliða máli þessu, höfðað mál til ómerkingar á tilteknum ummælum greinarinnar.  Máli því sé m.a. beint að hinum nafngreinda blaðamanni með þeim rökum, að hann beri ábyrgð á efni greinarinnar á grundvelli 15. gr. prentlaga, nr. 57/1956.

 

Heimild til að nota myndirnar

Verði ekki fallizt á framangreindar málsástæður stefnda fyrir sýknukröfunni, byggi stefndi á því, að heimilt hafi verið að birta umræddar myndir með þeirri frétt, sem þær fylgdu.  Málið hafi vakið mikla athygli og því eðlilegt, að það myndi rata í fjölmiðla.  Með greininni hafi birzt mynd af stefnanda og þeirri barnsmóður hans, sem ritaði færsluna á vefsvæðið.  Myndirnar af stefnanda og barnsmóður hans séu þær, sem um sé deilt í málinu.  Stefndi vísi til þess, að samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um höfundarrétt, nr. 73/1972, sé heimilt að birta í blöðum, tímaritum, sjónvarpi og kvikmyndum myndir eða teikningar af birtum listaverkum í sambandi við frásögn af dægurviðburðum.  Með listaverkum í þessu sambandi sé einnig átt við ljósmyndir, sem uppfylli skilyrði um listfengi.  Skilyrði ákvæðisins sé, að myndirnar séu birtar í sambandi við frásögn af dægurviðburðum.  Stefndi telji, að greinin um stefnanda hafi verið frásögn af dægurviðburði, og myndirnar hafi verið birtar í sambandi við frásögnina.  Því hafi myndbirtingin verið heimil.  Í athugasemdum við 15. gr. laganna í frumvarpi til höfundalaga segi, að sú takmörkun, að myndbirting þurfi að vera í sambandi við frásögn af dægurviðburðum, sé gerð til að spilla ekki atvinnu þeirra, sem framleiði myndir til birtingar í blöðum eða tímaritum.  Af þessu megi ráða, að ef ljósmynd sé sannanlega birt í tengslum við frásögn af dægurviðburði, en ekki í öðrum tilgangi, teljist hún heimil og kvaðalaus.  Öðru máli myndi gegna, ef mynd birtist ein og sér og væri t.d. notuð í auglýsingu eða á umbúðum vöru.  Takmörkun þessi á höfundarétti sé gerð í þeim tilgangi að skerða ekki um of fréttaþjónustu blaða og tímarita við lesendur.

      Eins og fram komi í stefnu hafi höfundar ekki verið getið, heldur hafi myndirnar verið sagðar úr safni.  Ástæða þessa sé sú, að myndirnar hafi fundizt með svokallaðri myndaleit með Google leitarvélinni á netinu.  Höfundar myndanna hafi ekki getið við þær á netinu og því hafi ekki verið vitað, hver höfundurinn væri.  Þrátt fyrir málshöfðun þessa hafi stefnandi ekki enn gert líklegt, að hann eigi höfundarrétt að myndunum.  Því eigi við sá fyrirvari, sem fram komi í 4. gr. höfl., um að einungis sé skylt að geta nafns höfundar eftir því sem við eigi.  Þar sem ómögulegt hafi verið að vita, hver væri höfundur myndanna, hafi nafns eðlilega ekki sérstaklega verið getið, heldur hafi myndirnar verið sagðar vera úr safni.  Stefndi hafi ekki reynt að eigna sér myndirnar á nokkurn hátt.  Óumdeilt sé hins vegar, að mynd af föður stefnanda sé eign stefnda, og hafi stefnda því verið heimil notkun þeirrar myndar.

      Stefndi telji, að ef fella megi myndirnar undir ákvæði 1. mgr. 49. gr. höfl., um ljósmyndir, sem ekki njóti verndar laganna sem listaverk, hafi myndbirtingin verið stefnda heimil allt að einu án þóknunar.  49. gr. höfl. veiti ljósmyndurum rétt til þóknunar fyrir birtingu myndanna í atvinnuskyni eða til ávinnings.  Þessi grein sé síðan takmörkuð af II. kafla laganna, sbr. 2. mgr. 49. gr., og þar með af 15. gr. laganna.  Stefndi telji því, að séu skilyrði 15. gr. laganna uppfyllt, þ.e. að myndirnar hafi verið notaðar við frásögn af dægurviðburði, séu þessi tilteknu afnot verka, sem undir hana falli, heimiluð kvaðalaus, án þóknunar.  Endurbirting myndanna hafi ekki verið sögð bönnuð.  Þess hafi greinilega verið getið, hvaðan ummælin, sem vitnað hafi verið til, voru tekin, og hverjir hefðu átt í hlut, þótt ekki hefði verið sérstaklega getið um ljósmyndarann.  Sú niðurstaða, að telja, í ljósi framangreinds, að myndbirtingin hafi verið óheimil, væri of mikil skerðing á heimild þeirri, sem 15. gr. höfundalaga veiti blöðum í fréttaþjónustu við lesendur.  Verði því að telja, að myndbirtingin hafi verið stefnda heimil og án þóknunar.

 

 

Skaðabætur vegna fjártjóns

Stefndi krefjist sýknu af kröfu stefnanda með vísan til þess, að stefndi hafi ekki framið saknæmt brot gegn stefnanda og því sé enginn grundvöllur til að dæma fébætur.  Því beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

      Verði talið, að stefndi hafi framið saknæmt brot gegn stefnanda, eða brotið framið á vegum stefnda, bendi stefndi á, að krafa stefnanda sé krafa um greiðslu fébóta.  Samkvæmt ákvæði 56. gr. höfundarlaga sé einungis heimilt að dæma fébætur, þegar saknæmt brot á lögunum hafi haft fétjón í för með sér, sem samkvæmt tilvitnaðri grein laganna beri að bæta eftir almennum reglum fébótaréttar.  Almennar reglur fébótaréttar miði að því að gera tjónþola sem líkast settan fjárhagslega og hann hafi verið áður en tjónið varð.  Tjónþoli eigi því ekki hagnast á bótaskyldu atviki.  Grundvöllur fébóta á sviði höfundarréttar sé bætur fyrir tekjumissi eða tapaðan ágóða.  Stefndi telji, að stefnandi hafi ekki orðið af neinum tekjumissi eða töpuðum ágóða vegna birtingar myndanna.  Á stefnanda hvíli að sanna hið gagnstæða.  Það hafi stefnandi ekki gert og verði hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

      Stefndi bendi á, að þegar hafi verið búið að birta umræddar ljósmyndir opinberlega á Internetinu.  Því hafi ekki verið um óbirt verk að ræða.  Því hefði stefnandi aldrei getað selt myndirnar til nokkurs aðila sem óbirt verk, heldur hafi hann þá þegar verið búinn að gera myndirnar aðgengilegar öllum umheiminum, og hafi hver sem er haft rétt til að gera eintak af myndunum til einkanota á grundvelli 11. gr. höfundarlaga.  Samkvæmt því stoði það stefnanda ekki að vísa til þess, hvað hann hefði getað fengið greitt, hefði verið um óbirt verk að ræða og hann selt óbirtar myndirnar til birtingar.  Að öllu þessu virtu sé ljóst, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjóni og eigi því enga kröfu til fébóta eftir almennum reglum fébótaréttar og krefjist stefndi því sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu fébóta.

      Auk framangreinds bendi stefndi á, að stefnandi rökstyðji kröfu sína með vísan til verðskrár Myndstefs, hagsmunasamtaka á sviði höfundaréttar að myndverkum.  Stefndi bendi á, að aðild að Myndstefi eigi Samband íslenzkra myndlistarmanna, Ljósmyndarafélag Íslands, Félag leikmynda- og búningahöfunda, Félag grafískra teiknara, Félag íslenzkra teiknara, Arkitektafélag Íslands, Félagar í Arkitektafélagi Íslands búsettir erlendis, félagar með einstaklingsaðild og erfingjar látinna myndhöfunda.  Stefnandi sé ekki aðili að neinum framangreindum samtökum svo kunnugt sé og ekki heldur félagi með einstaklingsaðild.  Svo sem ráða megi af aðildarsamtökum Myndstefs, séu félagsmenn samtakanna einstaklingar með sérfræðiþekkingu og jafnvel áralanga iðnmenntun að baki í sínu fagi.  Verðskrá Myndstefs sé einungis lögð til grundvallar fyrir félagsmenn þeirra aðildarfélaga, sem aðild eigi að samtökunum.  Gjaldskrá Myndstefs endurspegli þá þekkingu og menntun, sem félagsmenn búi yfir.  Ekki sé kunnugt um, að stefnandi, eða sá, sem myndirnar tók, búi yfir menntun á sviði ljósmyndunar eða hönnunar eða hafi hlotið löggildingu sem ljósmyndari, en ljósmyndun sé löggilt iðngrein, sbr. reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar.  Að mati stefnda geti stefnandi því með engu móti miðað bótakröfu sína við verðskrá atvinnumanna í ljósmyndun, sem hlotið hafi löggildingu í faginu, og hafi hann enga heimild til þess.

      Stefnandi krefjist ekki einungis bóta með vísan til gjaldskrár færustu fagmanna, heldur krefjist hann sexfaldrar þeirrar fjárhæðar.  Minnt sé á, að krafa stefnanda sé krafa um skaðabætur.  Slík krafa eigi að gera tjónþola jafnsettan og fyrir meint tjón.  Stefnandi telji þannig, að hann verði ekki jafnsettur nema fá sexfalda fjárhæð gjaldskrárinnar bætta, þ.e. að myndirnar sem verk séu sexfalt verðmætari en verk færustu fagmanna og meint tjón sexfalt meira en undir venjulegum kringumstæðum.  Stefnandi hafi með engu móti rökstutt, á hvaða grundvelli hann telji hæfilega greiðslu vera sexfalda þá fjárhæð, sem gjaldskrá Myndstefs segi til um.  Kröfu stefnanda um að miða við gjaldskrá Myndstefs fyrir forsíðuljósmyndir og margfalda með tölunni sex sé þannig slegið fram algerlega án rökstuðnings.  Krafa stefnanda sé samkvæmt þessu að mati stefnda svo órökstudd og án þess að nokkur eðlilegur grundvöllur sé fyrir henni, að henni beri að hafna og komi ekki, að mati stefnda, heldur til álita að dæma skaðabótakröfuna að álitum í ljósi þess, hvernig hún sé úr garði gerð.  Stefndi minni á, að fébætur skuli grundvallast á reglum almenns fébótaréttar.  Almennur fébótaréttur geri ekki ráð fyrir, að tjón eigi að bætast sexfalt.  Af þessum sökum sé krafa stefnanda út í hött að öllu leyti, og sé henni hafnað.

 

Miskabótakrafa

Kröfu sína um miskabætur styðji stefnandi við lagaheimild 2. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972 og eftir atvikum b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Stefndi krefjist sýknu af kröfu stefnanda með vísan til þess, að hann hafi ekki framið saknæmt brot gegn stefnanda, og því sé enginn grundvöllur til að dæma fébætur.  Því beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

      Að auki telji stefndi, að ekki séu lagaskilyrði til að dæma stefnanda miskabætur vegna birtingar myndanna.  Því sé hafnað, að myndirnar hafi verið settar í ógeðfellt samhengi.  Myndirnar hafi fylgt frétt, sem hafi verið sönn að öllu leyti, um að stefnandi hefði logið að fjölda fólks, að hann hefði komið út úr skápnum, meðan barnsmóðir hans gengi með barn þeirra.  Sé eitthvað ógeðfellt að mati stefnanda við frásögnina, skýrist það eingöngu af hans eigin háttsemi, að halda opinberlega fram samkynhneigð sinni á þeim vettvangi, sem hann sjálfur kaus.  Að auki hafni stefndi því, að greiða eigi stefnanda miskabætur fyrir myndbirtingu af barnsmóður hans óléttri, þar sem um persónulega mynd sé að ræða, sem ekkert erindi eigi við almenning.  Stefndi vísi til þess, sem fram komi í stefnu, að myndina hafi stefnandi sjálfur sett inn á Myspace-vefsvæði sitt, en um 300 milljón manns noti vefsvæðið, auk þess að setja hana inn á vefsvæðið Flickr, sem margar milljónir noti daglega.  Skjóti því skökku við, að stefnandi skuli krefjast miskabóta vegna myndar, sem ekkert erindi eigi til almennings og sé einkamál foreldra.  Af þessu megi vera ljóst, að hin ströngu ákvæði höfl. og skaðabótalaga um miskabætur séu hvergi nærri uppfyllt til þess að heimilt sé að dæma miskabætur á grundvelli málsástæðna stefnanda.  Beri því að sýkna stefnda.

      Til vara sé þess krafizt, verði þrátt fyrir allt talið, að stefndi hafi brotið gegn höfundarlögum og stefnandi eigi rétt til miskabóta, að miskabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega.  Miskabótakrafan næði einungis til þess að bæta ófjárhagslegt tjón vegna tveggja ljósmynda, sem umdeilt sé, hvort telja megi til listverka eða ólistrænna mynda, sbr. 1. mgr. 49. gr. höfundalaga, og höfðu auk þess áður verið birtar opinberlega af stefnanda.  Tilefni hafi verið til umfjöllunarinnar á þeim tíma, sem myndirnar birtust, og umfjöllunin hafi átt erindi til almennings í ljósi aðstæðna og umfjöllunar.  Af þeirri ástæðu sé þess krafizt, verði þrátt fyrir allt talið, að stefndi hafi brotið gegn rétti stefnanda á grundvelli höfundalaga, að miskabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega.

 

Refsikrafa

Stefndi krefst sýknu af refsikröfu stefnanda á grundvelli þess, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að hann njóti höfundarréttar yfir umræddum myndum.  Meðan svo sé, geti stefnandi ekki krafizt refsingar fyrir birtingu myndanna, enda sé brot gegn höfundalögum ósannað.  Því telji stefndi, að það beri að sýkna af kröfum stefnanda um refsingu vegna brots gegn höfundarlögum.

      Þá krefjist stefndi sýknu af kröfum stefnanda, verði talið, að stefnandi njóti höfundarréttar yfir myndunum og stefndi hafi gerst brotlegur við höfundarlög, með vísan til þess, að meint brot hafi einungis verið framin í gáleysi.  Stefndi bendi á, að einungis sé heimilt að gera aðila refsingu fyrir brot á höfundalögum, að þau séu framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.  Stefndi bendi á, að meint brot hafi hvorki verið framið af ásetningi né stórfelldu gáleysi.  Á það sé að líta, að myndirnar hafi verið birtar á opnu vefsvæði á netinu, þar sem fólk sé hvatt til að deila myndum sínum, sbr. dskj. nr. 15.  Höfundar myndanna sé ekki getið við þær og enginn fyrirvari sé gerður um, að ekki megi endurbirta þær.  Stefndi hafni því, sem komi fram í stefnum að stefnda hafi verið fullljóst, að leyfi stefnanda þyrfti til að gera eintök af myndunum.  Samkvæmt framangreindu geti meint brot stefnda einungis talizt framið af gáleysi.  Því sé ekki heimilt að gera stefnda refsingu á grundvelli höfundarlaga.

 

Vextir og dráttarvextir

Kröfu um vexti og dráttarvexti sé sérstaklega mótmælt.  Fari svo að fallizt verði á einhverjar kröfur stefnanda, sé þess krafizt, að vextir verði einungis dæmdir frá dómsuppsögu.  Stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að snúa sér til stefnda og kynna kröfur sínar, heldur hafi hann höfðað málið án hans vitneskju eða viðvörunar.  Stefndi telji, að stefnandi hafi þar með fyrirgert rétti sínum til að reikna vexti eða dráttarvexti á kröfuna.

 

Lagarök

Um lagarök vísar stefndi til höfundalaga, nr. 73/1972, einkum 4. gr., 11., 15. gr., 49. gr. og 54. gr. laganna, 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og 13. sbr. 15. gr. prentlaga, nr. 57/1956.  Um málskostnað vísi stefndi til 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.

      Ágreiningur aðila snýst í fyrsta lagi um það, hvort stefnandi sé eigandi umdeildra ljósmynda.  Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði tekið báðar myndirnar.  Mynd þá, sem birtist af stefnanda á forsíðu blaðsins og aftur inni í blaðinu með tímaritsgreininni, hefði hann tekið í stúdíói sínu.  Hefði vélin verið á þrífæti og stillt á tíma.  Hina myndina hefði hann tekið af barnsmóður sinni.  Hefðu báðar myndirnar verið vistaðar á Myspace-vefsíðu stefnanda, en síðan sé læst og þurfi menn að gerast vinir stefnanda til þess að komast inn á síðuna.  Stefnandi kvaðst ekki hafa yfirsýn yfir alla þá, sem gerzt hefðu vinir hans á vefsíðunni, þeir séu fleiri hundruð.  Til að verða vinur, sendi maður beiðni, og eigandi síðunnar svari „já“, með því að ýta á einhvern takka.  Það kunni vel að vera, að starfsmenn stefnda séu þar á meðal, hann hafi ekki kannað það.  Hann kvað forsíðumyndina einnig hafa verið á vefsvæðinu flicr.com, þar sem hún kunni að hafa verið á opnu svæði um einhvern tíma, en síðan hefði henni verið læst.  Hann kvaðst ekki muna, hvort henni hefði verið læst fyrir eða eftir umrædda tímaritsgrein.  Myndin af barnsmóður hans hefði hins vegar eingöngu verið á læstri Myspace-síðu stefnanda.

      Stefndi hefur haldið því fram, að stefnandi hafi verið búinn að birta umræddar myndir opinberlega á internetinu og hafi hann fundið þær með svokallaðri myndaleit með Google leitarvélinni á netinu.  Hann hefur hins vegar ekki greint nánar frá því í hvaða samhengi þær fundust þar eða hvaðan þær voru teknar og þykja skýringar stefnanda á því ónákvæmar og ófullnægjandi.

      Dómurinn telur, með vísan til framanritaðs, hafið yfir vafa, að stefnandi sé eigandi umdeildra mynda, og hefur hann gefið trúverðugar skýringar á því, hvernig þær voru teknar og vistaðar á læstu vefsvæði hans.  Telst stefnandi höfundur myndanna í skilningi höfundalaga nr. 73/1972.

      Aðild stefnda í máli þessu byggir stefnandi á 54. og 56. gr. höfundalaga, grundvelli sakarreglunnar og meginreglu skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna sinna og á V. kafla laga nr. 57/1956 um prentrétt, eins og segir í stefnu.

      Stefndi byggir sýknukröfu sína á því m.a., að samkvæmt 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956, beri höfundur refsi- og fébótaábyrgð á efni rits, hafi hann nafngreint sig, og sé óumdeilt, að höfundur þeirrar greinar, sem myndirnar birtust með og séu hluti af, sé nafngreindur.

      Enginn höfundur er nafngreindur að ljósmynd þeirri, sem birtist á forsíðu blaðsins.  Þá er höfundur ekki nafngreindur að ljósmyndum, sem birtust með tímaritsgreininni inni í blaðinu, heldur einungis sagt, að myndirnar séu úr safni.  Fer því um ábyrgð eftir 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt.  Stefndi Birtingur útgáfufélag ehf. er útgefandi tímaritsins Séð og heyrt, sem umdeildar myndir birtust í, og ber félagið því ábyrgð á myndbirtingunni samkvæmt framangreindu lagaákvæði.  Er sýknukröfu stefnda, sem byggir á aðildarskorti, því hafnað.

      Stefnandi byggir á því aðallega, að umdeildar ljósmyndir falli undir hugtakið ljósmyndalist, sem nýtur verndar samkvæmt 2. mgr. 1. gr. höfundalaga.

      Dómurinn fellst ekki á, að umræddar ljósmyndir teljist listaverk í framangreindum skilningi.  Til þess skortir þær, að mati dómsins, bæði listræna sköpun og frumleika.  Hins vegar er fallizt á, að myndirnar njóti verndar samkvæmt 1. mgr. 49. gr. höfundalaga, sem felur í sér, að eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóta verndar sem listaverk, sé óheimil án samþykkis ljósmyndara eða þess aðila, sem rétt hans hafi hlotið.  Þá er óheimilt að birta slíkar ljósmyndir án samþykkis rétthafa.  Enn fremur segir, að sé ljósmynd, sem nýtur verndar samkvæmt greininni, birt opinberlega í atvinnuskyni eða til ávinnings, eigi rétthafi myndarinnar kröfu til þóknunar.

      Stefnandi byggir skaðabótaábyrgð stefnda á 56. gr. höfundalaga.

      Ágreiningslaust er, að stefnandi veitti stefnda aldrei heimild til að birta umdeildar ljósmyndir í tímaritinu Séð og heyrt, og fór stefndi aldrei fram á slíka heimild.  Stefndi hefur, eins og að framan greinir, ekki greint frá því, hvernig hann fékk aðgang að myndunum, og þykir því mega leggja til grundvallar fullyrðingu stefnanda um, að báðar myndirnar hafi verið vistaðar á lokuðu vefsvæði hans á myspace, og önnur myndin einungis þar, og hafi myndirnar verið sóttar þangað í leyfisleysi.  Telst sú háttsemi stefnda saknæmt brot á lögvernduðum hagsmunum stefnanda, en birting myndanna var í sambandi við umfjöllun um stefnanda í tímariti stefnda og liður í því að auka sölu ritsins og þannig birtar þar í hagnaðarskyni, en ekki er fallizt á með stefnda, að umdeild myndbirting falli undir 2. mgr. 15. gr. höfundalaga.  Á stefnandi því samkvæmt framansögðu rétt til fébóta úr hendi stefnda skv. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga.

      Ekki er fallizt á, að stefnandi eigi rétt á greiðslu, sem taki mið af gjaldskrá Myndstefs, en stefnandi er ekki félagi í þeim samtökum og hefur ekki öðlazt atvinnuréttindi ljósmyndara.  Verða honum því dæmdar bætur að álitum. 

      Stefnandi gerir jafnframt kröfu um miskabætur samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga.  Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er fallizt á með stefnanda, að stefndi hafi, með ólögmætri háttsemi sinni, raskað rétti stefnanda, en það er skilyrði bótaskyldu samkvæmt ákvæðinu.  Bera stefnanda því jafnframt miskabætur, sem einnig verða metnar að álitum.  Eftir atvikum þykir rétt að meta bætur vegna fjártjóns og miska í einu lagi, og þykja þær hæfilega ákveðnar kr. 180.000.  Vextir dæmast eins og greinir í dómsorði.

      Stefnandi gerir loks kröfu um, að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna brota á höfundarrétti stefnanda.

      Með vísan til þess sem að framan er rakið, hefur dómurinn komizt að þeirri niðurstöðu, að stefndi, Birtingur útgáfufélag ehf., hafi gerzt sekur um brot á lögvernduðum höfundarrétti stefnanda með birtingu umræddra ljósmynda.  Ber félagið refsiábyrgð á broti þessu skv. 1. mgr., sbr. 3. mgr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð, að fjárhæð kr. 80.000, sem greiðist innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.

       Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 600.000, þar með talinn virðisaukaskattur.     

      Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefndi, Birtingur útgáfufélag ehf., greiði stefnanda, Ívari Erni Þórhallssyni, kr. 180.000, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. ágúst 2008 til 9. október 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

      Stefndi, Birtingur útgáfufélag ehf., greiði kr. 80.000 í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.

      Stefndi, Birtingur útgáfufélag ehf., greiði stefnanda, Ívari Erni Þórhallssyni, kr. 600.000 í málskostnað.