• Lykilorð:
  • Eignarréttarmál

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 13. mars 2012 í máli

nr. E-67/2009:

 

Íslenska ríkið

(Indriði Þorkelsson hrl.)

gegn

Þingeyjarsveit,

Eiríki Þóroddssyni,

Þórarni Baldvinssyni,

Gylfa Friðrikssyni og

Ólöfu Eiríksdóttur

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 20. janúar 2012, hefur íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík, höfðað hér fyrir dómi á hendur Þingeyjarsveit, Kjarna, Laugum, Eiríki Þóroddssyni, Klapparstíg 7, Reykjavík, Þórarni Baldvinssyni, Bretlandi, Gylfa Friðrikssyni, Skúlagötu 76, Reykjavík, og Ólöfu Eiríksdóttur, Hólmgarði 35, Reykjavík, með stefnu birtri 15. desember 2008.

 

Dómkröfur stefnanda eru:

1. Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 3/2007, Þingeyjarsveit sunnan Ljósavatnsskarðs og vestan Skjálfandafljóts, að því leyti er varðar Mjóadal, hluta Sörlastaða, Kambfellskjálkalands og Hjaltadals, auk Bleiksmýrardals austan Fnjóskár.

2. Að viðurkennt verði, að landsvæði vestan merkja Íshóls í Þingeyjarsveit og sunnan eftirgreindra merkja, allt að vestur- og suðurmörkum þjóðlendukröfusvæðis 6 í máli nr. 3/2007, sé þjóðlenda í samræmi við framlagðan uppdrátt:

Upphafspunktur er í botni Mjóadals (A).  Þaðan liggur línan til norðurs með Mjóadalsá allt að ármótum Syðri-Bótarár og Mjóadalsár (B).  Þaðan er Syðri-Bótará fylgt allt að upptökum (C).  Frá þeim stað liggur línan til suðvesturs að upptökum Timburvalladalsár (D), en þaðan til norðvesturs í austasta drag Austurkróksár (E) og síðan með Austurkróksá til norðurs í Hjaltadalsá (F).  Frá þeim punkti til norðvesturs  að Hamarslækjargili (G), en þaðan til vesturs með suðurmerkjum jarðarinnar Tungu í Fnjóská, sem er lokapunktur (H).

3. Að því er varðar kröfugerð samkvæmt lið 2, þá er kröfugerð beint að stefnda Þingeyjarsveit, sem þinglýsts eiganda allra umræddra landsvæða.  Gagnvart stefndu Eiríki Þóroddssyni, Þórarni Baldvinssyni, Gylfa Friðrikssyni og Ólöfu Eiríksdóttur, eigenda hluta Sörlastaða, er þess krafist að landsvæði innan fyrrgreindra kröfupunkta B til D sé þjóðlenda í samræmi við uppdrátt.

Stefnandi krefst að auki málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins úr höndum stefndu.

 

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda, svo og málskostnaðar, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, en þau fengu gjafsókn með bréfi innanríkisráðuneytis, dagsettu 18. september 2008.

 

Stefndu eru þinglýstir eigendur Mjóadals, Sörlastaða, Kambfellskjálkalands, Hjaltadals og Bleiksmýrardals austan Fnjóskár.

 

I.

1.       Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 15. júní 2006, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Að vestan afmarkast svæðið við Fnjóská og er henni fylgt frá ósum þar til hún sker vesturmörk Þingeyjarsveitar og er þeim fylgt til suðurs til Fjórðungskvíslar.  Að austan afmarkast svæðið nánar, af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum, frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að ármótum við Kreppu.  Þaðan er Kreppu fylgt þar til komið er að ármótum við Kverká og hinni síðarnefndu fylgt að upptökum í Brúarjökli.  Þaðan er dregin lína til suðvesturs, til skurðar við línu þá í Vatnajökli sem afmarkar svæðið til suðurs, þar er hornmark.  Framangreind afmörkun til vesturs endar í Fjórðungskvísl.  Að sunnan fylgja mörkin miðjum farvegi Fjórðungskvíslar til austurs í punkt við Nýjadal/Jökuldal.  Þaðan eftir dalnum, beina línu milli fimm punkta sem staðsettir eru í miðjum farvegi Fjórðungskvíslar.  Þaðan úr austasta punkti í hæðarpunkt 1115 m.  Þaðan í Deili, hæð 1125 m, og áfram, inn á Vatnajökul, í Bárðarbungu, hæð 2009 m, þaðan í Svínahnjúk eystri og loks í stefnu á miðja Breiðubungu, þar til kemur að hornmarki við austurmörk.  Að norðan afmarkast svæðið af hafi.  Þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins var skipt niður í fimm mál og þar á meðal það svæði sem hér um ræðir, nr. 3/2007, Þingeyjarsveit vestan Skjálfandafljóts og sunnan Ljósavatnsskarðs.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd stefnanda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði bárust 1. nóvember 2006.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu og útdrátt úr kröfu stefnanda, ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 10. nóvember 2006, en einnig í dagblöðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Í tilkynningunni var m.a. skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 12. febrúar 2007.  Var sá frestur framlengdur og bárust síðustu kröfulýsingar í júlí það ár.  Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt.  Þá fór fram lögboðin kynning og var frestur til athugasemda veittur til 26. júlí 2007.  Engar athugasemdir bárust og þá ekki við fyrirtökur málsins þann 26. apríl, 11. júní, 9. ágúst og 29. ágúst 2007.  Að lokinni aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd 10. og 13. september 2007, þar sem m.a. var farið í vettvangsferð, var málið tekið til úrskurðar, en ekki var ágreiningur með aðilum um merki á hinu umþrætta landsvæði.  Málsmeðferðin var endurupptekin 29. maí 2008, en þá voru lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar á ný.

Hinn 6. júní 2008 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar, að það landsvæði sem lýst er í stefnu væri ekki þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58,1998, heldur eign þinglýstra eigenda Sörlastaða, Mjóadals, Hjaltadals og Kambfellskjálka og Bleiksmýrardals að hluta, en að landsvæði þar sunnan við, þ.e. afréttarland í Þingeyjarsveit, væri þjóðlenda, en jafnframt afréttur jarða í fyrrum Bárðdæla- og Ljósavatnshreppum.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58, 1998.

Stefnandi, íslenska ríkið, undi ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast það við með málsókn sinni hér að fá henni hnekkt og krefst því ógildingar úrskurðarins að því er hið umþrætta landsvæði varðar.

Málið er höfðað innan þess frests, sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, skv. 11. gr. laganna.

Við meðferð málsins fyrir dómi var tvívegis farið á vettvang, 30. ágúst 2009 og 10. ágúst 2010.

 

2.       Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 3/2007, er samkvæmt framangreindu m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu landsvæða sunnan Ljósavatnsskarðs og vestan Skjálfandafljóts.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 152 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi, sveitarmörkum, afnotum og sögu einstakra jarða.  Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum, en að lokum eru úrskurðarorð.

Það var niðurstaða óbyggðanefndar, eins og hér að framan var að nokkru rakið, að landsvæði í Þingeyjarsveit vestan Skjálfandafljóts væri þjóðlenda að hluta og eignarland að hluta.  Þannig sagði í úrskurðinum að landsvæði jarðarinnar Íshóls væri að hluta eignarland en að landsvæðið vestan Skjálfandafljóts væri þjóðlenda.  Það var einnig niðurstaða nefndarinnar að landsvæði á hluta Mjóadals væri eignarland, en einnig landsvæði jarðarinnar Sörlastaða á Timburvalladal.  Þá var það niðurstaða nefndarinnar að jörðin Hjaltadalur, þ. á m. svokallaður Kambfellskjálki, væri eignarland, og hið sama gilti um landsvæði á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár.  Á hinn bóginn var það niðurstaða nefndarinnar, að vestan Fnjóskár og svonefnt afréttarland í Þingeyjarsveit, svo sem það er nánar afmarkað í úrskurðinum, væri þjóðlenda allt suður að Vatnajökli en að sama landsvæði væri afréttur að undanskildum Tungnafellsjökli.

Um nánari mörk afréttarsvæðisins var m.a. miðað við örnefnið Galthól við Skjálfandafljót, en þaðan vestur á „hágrjót“ þar sem vatnaskil eru á milli Fnjóskár og Mjóadalsár.

Með úrskurði óbyggðanefndar fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, sbr. einnig eldri mál nefndarinnar nr. 1-7/2000 og 1-5/2001, en þær eru að auki m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

 

3.       Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá elstu ritheimildum um landnám í Bárðardal og Fnjóskadal.  Er m.a. vísað til Landnámabókar og þeirra gagna sem þjóðskjalasafn tók saman um hið umþrætta landsvæði.  Segir í þessum heimildum að Bárðardalur sé samkvæmt Landnámabók kenndur við landnámsmanninn Bárð Heyangurs-Bjarnason, sem síðar var nefndur Gnúpa-Bárður, en hann mun fyrst hafa sett niður bú sitt að Lundarbrekku.  Þar segir og að Þorfinnur máni hafi numið land neðan Eyjardalsár í Bárðardal og í Íslendingabók segir enn fremur að hann hafi numið land í Ljósavatnsskarði.  Samkvæmt Landnámu nam Þórir snepill, sonur Ketils brimils, land í Fnjóskadal, en í Sturlubók segir:  „Þórir nam síðan Hnjóskadal allan til Ódeilu ok bjó at Lundi;…

Umþrætt landsvæði Þingeyjarsveitar vestan Skjálfandafljóts og sunnan Ljósavatnsskarðs tilheyrði á öldum áður Ljósavatnshreppi og Hálshreppi, en árið 1907 var Bárðardalur skilinn frá og nefndist þá Bárðdælahreppur.  Árið 2002 voru hrepparnir sameinaðir að nýju með öðrum sveitarfélögum, og eru þeir nú eitt sveitarfélag, Þingeyjarsveit. 

Í sýslusóknarlýsingu Þingeyjarsýslu frá 1839 segir Sigurður Árnason, prestur á Hálsi, eftirfarandi um hið umþrætta landsvæði millum Fnjóskadals og Bárðardals:

Til beggja hliða í Ljósavatnsskarði liggja fjöll, þaug nyrðri til Kinnarfjalla, og hin syðri, allt frá Hálshnjúk til suðurs austan við fram-Fnjóskadal, til Bárðardalsfjalla og svo fram til meginöræfa norðvestan undir Sprengisand.  Norður milli byggðanna eru í fjallaklasa þessum nokkrir þverdalir með langdrögum og grasteygjum fyrir fé, einkum þeim er upp liggja frá Bárðardal að austan.  Yfir þennan fjallgarð er aðeins einn alfaravegur, yfir svonefnt Vallnafjall fremst úr Fnjóskadal til Bárðardals hvörn veg.  Bárðdælingar sækja ogsvo yfir Vaðlaheiði til kauptúns á Eyjafirði... Fram af Fnjóskadal liggja til öræfa þrír afdalir sem fjöll aðskilja... Þeir eru hafði fyrir afréttarlönd geldfjár og næst byggðum fyrir búsmala.  Milli austari dalanna stendur hátt fjall, Kambfellshnjúkur..  Stóð þar fyrir skömmu norðvestan undir kot eitt Kambfell, sem eyðilagðist vegna skriðufalla á tún og engi.  Á Bleiksmýrardal, hinum austasta, hafa menn sjá þóst nokkur aurmál fornra byggða, á svokölluðu Klaustri.  Dalur þessi að vestanverðu liggur norðast undir klausturjörðina Reyki og sunnar undir Hrafnagilskirkju, en að austanverðu undir sama klaustur (Múnkaþverár) jörð, Tungu.  Miðdalurinn, Hjaltadalur, heyri og til einsnefndri sama klausturs jörð, en Timburvalladalur, sá austasti, Sörlastöðum að austanverðu, en að vestan fyrrum Kambfelli, sem nú er lagt undir Hjaltadal.

Í lýsingu Eyjardalsár- og Lundarbrekkusókna frá árinu 1840, sem Halldór Björnsson ritaði, segir um fram-Bárðardal og landsvæði þar sunnan við m.a.:

Suður úr Bárðardalnum liggja tveir byggðir dalir, þó ei nema sinn bær í hvörjum, Báðir eru þeir dalir fyrir vestan Fljótið.  Ísólfs- til forna máske Rangár- eða Hofgarðsdalur.  Tjáist þar hafa verið gamalt eyðibýli, Hof- eður Horngarðar, og skyldi þar hafa verið kirkjustaður, jafnvel prestssetur.  Í þessum dal stendur bærinn Íshóll hjá Íshólsvatni.  Vestar liggur Mjóidalur.  …  Fyrir sunnan byggð liggur báðu megin upp með Skjálfandafljóti dalur sá er Krókdalur heitir, af Helga Krók sem bjó að Helgastöðum.  Til annarra eyðijarða vita menn ekki í því plássi.  …  Dalur þessi, sem vestan Fljótsins er eignaður Ljósavatnskirkju, hallast dálítið til suðvesturs og nær allt fram að Kiðagili sem kemur sunnan af Sprengisandi.

Þorvaldur Thoroddsen fór um Króksdal árið 1884 og segir  hann í Ferðabók sinni: „Nokkru fyrir norðan opið á Yxnadal, að vestanverðu við fljótið, eru rústir af Helgastöðum í Króksdal.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að landsháttum á hinum umþrættu svæðum framan Bárðardals og á Fram-Fnjóskadal. Í umfjöllun um hið fyrrnefnda er m.a. vikið að landi jarðarinnar Íshóls, vestan Skjálfandafljóts, og sagt að það liggi í yfir 400 metra hæð og afmarkist af Skjálfandafljóti til austurs, en Mjóadalsá til vesturs.  Segir að Íshólsdalur liggi vestan Hrafnabjargarfjalls og Lækjardala og hafi leguna norður-suður.  Um dalinn segir nánar að hann sé allvíður og eftir honum renni Rangá og að þrátt fyrir jarðvegseyðingu sé þar víða gróið, votlendi, valllendi og sendnar torfur með grasvíði og sandtöðu.

Um landsvæðið vestan Íshólsdals, þ.e. á Mjóadal, segir í úrskurði óbyggðanefndar að það liggi í yfir 400 metra hæð upp af vestanverðum Mjóadal og gangi um 15 km í suðvestur og renni Mjóadalsá um hann.  Um Mjóadalsá segir að hún verði til þar sem Mosakvísl og Tungnafellsá renni saman við Tungufellssporð, en um svæðið segir að það sé vel gróið, en sé fjalllent til vesturs.  Þannig sé vesturhlíð Mjóadals skorin giljum þar sem um renni nokkrar smáár til austurs í Mjóadalsá.  Eru þar nefndar Ytri- og Syðri-Lambá og Grjótá norðan þeirra.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um Fram-Fnjóskadal að þar liggi Hjaltadalur, Kambfellskjálki og Timburvalladalur.  Þá segir að hið umþrætta landsvæði liggi framan þeirra í yfir 500 metra hæð og hafi leguna norður-suður.  Um nefnda dali segir að þeir skiptist upp í tvær tungur að norðanverðu, sem skildar séu að af Hjaltadal.  Eystri tungan, Kambfellstunga, afmarkist af bröttum hlíðum Kambfells (945 m) og breikki land til suðurs.  Að austan afmarkist land af Timburvalladalsá og sé land bratt til vesturs upp af henni.  Ofan á og upp af tungunum sé land hallalítið.  Vestari tungan liggi austan í Bæjarkjálka inn með Hjaltadal.  Vestanvert í Kambfelli liggi nokkur stór gil og beri þar helst að nefna Fossgil, sem sé nyrst, Stíflhólagil og Sláttugil.  Sunnan Sláttugils liggi nokkuð langir dalir er kallist einu nafni Krókar.  Á Vestari Króknum séu tvö stór gil, Fremra- og Heimara-Kollugil.  Sunnan Fremra-Kollugils skiptist Krókar um Hrauntungur.  Norðan Heimara-Kollugils liggi Sláttugil og þar norðan Axlargil og bungan Öxl þar upp af á fjallinu.  Segir í úrskurðinum að Austari Krókur hafi leguna norðvestur-suðaustur og um hann renni Austurkróksá.  Upp af giljum og dölum ofan Hrauntungna sé land hallalítið.  Suðaustan til á svæðinu liggi Austur-Króksfjall (939m).

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um vestasta framdal Fnjóskadals, hið umþrætta landsvæði á Bleiksmýrardal, að það liggi í yfir 380 m hæð á austurhluta dalsins og hafi leguna norður-suður.  Að vestan afmarkist svæðið af Fnjóská og rísi land til austurs upp frá henni.  Þá segir að nokkur gil skerist í hlíðar dalsins og beri þar helst að nefna Heimara- og Fremra-Mógil.  Enn fremur segir að á Bleiksmýrardal, innan Skessugils, skerist suðaustur í fjöllin dalverpið Svartárdalur og renni Svartá um hann til norðvesturs.  Inn af Bleiksmýrardal liggi Bleiksmýrardrög og nái gróðurteygingar þar upp í 650-700 m hæð með árbökkum Fnjóskár.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um hin umþrættu landsvæði að upp af dölum og giljum svæðisins sé land hallalítið, gróðursnautt og öldótt.  Bent er á að talið sé að gróðurfar og gróðurþekja hafi við upphaf landnáms, svo sem á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er.

 

4.       Um sögu einstakra jarða og landsvæða á hinu umþrætta svæði vísa aðilar máls í málatilbúnaði sínum helst til samantektarkafla í úrskurði óbyggðanefndar, en að auki til þeirra fjölmörgu gagna og heimilda sem lögð voru fram við meðferð málsins hjá nefndinni og síðan fyrir dómi.  Á meðal þessara gagna eru jarðamöt, lögfestur, máldagar, vísitasíubækur biskupa og skjalasöfn prófasta, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, landamerkjabréf jarða, og fjallskilareglugerðir svo og „Skrá yfir Afréttarlönd suður af Bárðardal vestan Skjálfandafljóts“ sem þinglesin var á manntalsþingi að Ljósavatni 31. maí 1904.  Einnig vísa málsaðilar til heimildarrita, en þ. á m. eru Byggðir og bú Suður-Þingeyinga frá 1985 og Göngur og réttir eftir Braga Sigurjónsson, en einnig fræðirita Fornleifastofnunar um fornleifaskráningar í Króksdal, sem gefin var út á árunum 2004-2005 og rit sömu stofnunar um menningarminjar á Miðhálendinu, svo og til Árbókar hins íslenska Fornleifafélags.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að takmarkaðar heimildir séu um landið inn af Bárðardal, en sagt að þar hafi land verið í byggð eftir landnám, en sennilegt sé að það hafi tiltölulega fljótt lagst í eyði.  Um þessa eyðibyggð er m.a. vísað til rannsókna Daníels Bruun landkönnuðar, sem rannsakaði Bárðardal sumarið 1897, en þar segir m.a. um eyðibýlið Helgastaði á Króksdal: „að Helgastaðir hafi verið í nánd við Kiðjagil, 6-7 klukkustunda reið suður frá Íshóli, og þykjast menn geta bent á staðinn, þar sem bærinn var, en engar tóftir sjást þar, enda er allur jarðvegur blásinn burt af þessu svæði, hálfa leið heim undir Íshól, úr því eru að eins fáeinar grasflesjar eftir.  Um eyðibýlið Hofgarða segir Daníel Bruun, að þar sjáist miklar tóftir og margar, en á Hólkoti hafi sést rústir til skamms tíma, en séu komnar í sand.  Þá segir Daníel að þegar bær hafi verið reistur í Mjóadal í lok 18. aldar hafi verið þar fyrir gamlar tóftir og girðingar; „án efa rústir af Mjóadalskoti“.  Um Hátún segir Daníel að það býli hafi verið neðst í Mjóadal; en þar hafi verið haft sel frá Mýri áður fyrr en að sagt sé að leifar hins forna túngarðs sjáist þar enn.

Í hinum eldri heimildum segir um landsvæðið vestan Skjálfandafjólts, m.a. í máldaga Ljósavatnskirkju frá 1380: „fylgier heimaa laande krogsdaalur fraa gaalltar grof fram aad kidaagile.  Þá eru heimildir um að Króksdalur, með nefndum mörkum, hafi fylgt heimalandi Ljósavatns við sölu 2. júní 1431.

Í biskupsvísitasíu Ljósavatnskirkju árið 1828 segir m.a. að kirkjan eigi 30 hundruð í heimalandi og er vísað til þess að tvö gömul skjöl geymi upplýsingar um eignir og ítök kirkjunnar.  Er vikið að Króksdal (nefndur Krossdalur) í því síðara, en þar segir að heimalandi fylgi Krossdalur frá Galtargröf fram að Kiðagili.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1909, að fundist hafi tveir forngripir á Helgastöðum (líklega árið 1909), hnífsblað með tanga og flatjárn með tanga, e.t.v. pottskafi.

Nokkuð er fjallað um hið umþrætta landsvæði vestan Skjálfandafljóts í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1712.  Segir þar m.a.: „Mjóidalur kallast eitt dalland sem liggur fram frá Mýri og er almenníngs afrjettur Bárðardalshrepps fyrir vestan fljótið út að Djúpá, so sem rómast, hefur og brúkast til uppreksturs fyrir lömb og geldfje. Þessi almenníngur tekur alt austur í Skjálfandafljót fyrir framan bygðina so lángt á fjall suður sem grös eru, og er þetta furðu víðátta.  Í Jarðabókinni er minnst á Króksdal og Smiðjuskóg, sem áður hafði verið eignaður Ljósavatni, og er sagt að dalurinn liggi í almenningi.  Í Jarðabókinni er minnst á fyrrnefnd eyðibýli, Mjóadalskot og Hólskot í Mjóadal, svo og Horngarð fyrir framan Íshól.  Loks er í Jarðabókinni vikið að býlinu Helgastöðum fram með Skjálfandafljóti langt fram frá byggð og sagt að munnmæli séu um að þar hafi verið byggð og kirkjustaður, en að engin sjáist þess merki og að sumir ætli að fljótið hafi tekið jörðina með landbroti.

Í úrskurði óbyggðanefndar er sagt frá ágreiningi í lok 18. aldar milli Bárðdælinga og Hallgríms Þorlákssonar, eiganda Ljósavatns, vegna eigna kirkjunnar á Króksdal.  Varðaði þessi ágreiningur beitarnot á Bárðardalsafrétti og átroðning búfjár á svokölluðum Melum vestan Skjálfandafljóts.

Jóhann Skaptason, sýslumaður Þingeyinga, getur um það í Árbók Ferðafélags Íslands 1969 hvert hafi verið upphaf fjárleita Bárðdæla suður á Sprengisand, þ.e. að Tómas Sæmundsson hafi fundið Tómasarhaga og séð til Jökuldals sumarið 1835.  Segir hann um þetta nánar: „Þessar fréttir vöktu athygli Bárðdæla, sem stundum þóttu heimtur sínar slæmar. Grunaði þá, að hagar kynnu að leynast sunnar en venja var að leita í haustgöngum.  Fóru þeir því könnunarferð haustið 1846 á þær slóðir, sem Tómas hafði orðið dalsins var, og fundu þá dal þann, sem gengur suðaustur með suðvestanverðum Tungnafellsjökli og nefndu hann Jökuldal nýja. ... Í dalnum eru sæmilegir hagar, og þar fundust beinagrindur úr fé, sem hafði orðið þar úti.  Frá þeim tíma tókust upp göngur úr Bárðardal suður um Sprengisand, með efstu Þjórsárkvíslum og í Jökuldal.  Um skeið gengu Bárðdælir allt suður á Háumýrar og hittu þá Rangæinga þar.  En það lagðist fljótt niður.  Á heimleiðinni var svo leitað um  Tómasarhaga, norðanverðan Sprengisand, öræfin norður af Tungnafellsjökli og síðan um Mjóadal, Íshólsdal og Fljótsdal til Bárðardals.

Í áðurnefndri lýsingu Halldórs Björnssonar um Eyjardals- og Lundarbrekkusókn frá 1840 segir um afréttarlönd Bárðdælinga, að fyrir ofan byggðina eigi Bárðdælir vestan Fljótsins geldfjárupprekstur, bæði á Mjóadal, Íshólsdal, í Melum og á Króksdal.  Þá segir í lýsingunni að almenningur sé nefndur partur sunnan af Mjóadal og reki Bárðdælingar tollfrítt í hann geldfé sitt.  Krókdal eigni sér Ljósavatnskirkja, en til hinna landanna, sem fyrir afrétt brúkast, eigi tiltölu efstu bæirnir í byggðinni, svo sem Íshóll, Litlatunga og Mjóidalur, en auk þess eigi tveir eða þrír bændur úr Mývatnssveit þar upprekstur.

Í jarðamati 1849/1850 er að finna eftirfarandi umfjöllun um Bárðardal, sem þá tilheyrði Ljósavatnshreppi: „... landkjarni víðasthvar í betralagi, ef hans mætti viðnjóta fyrir ágángssakir af afrjettar fje því, er sækjir þaðan í búfjár haga, einnig er sumarhagi fyrir gjeldfje sveitarmanna þegar mjög eyddur af sandfoki.

Afréttarland framan við Bárðardalsbyggð, vestan Fljóts, er talið meðal eigna sveitarsjóðs Ljósavatnshrepps í efnahagsreikningum á fardögum 1897 og 1898.  Þá er Mjóidalur talinn sérstaklega meðal eigna í hreppsreikningum 1897 og Mjóidalur og Íshóll einnig í reikningum 1898.  Í eignaskrá Bárðdælahrepps á fardögum 1908 er sérstaklega getið um afréttarland, en einnig um landeignir jarðanna Íshóls og Mjóadals. Jarðirnar voru komnar í eyði þegar fasteignamatið 1916-1918 fór fram, en þess er þar getið að jarðir í Bárðdælahreppi eigi rétt til upprekstrar í afrétt sveitarinnar og hið sama eigi við um þrjár nafngreindar jarðir í Ljósavatnshreppi.

Á manntalsþingi að Ljósavatni 31. maí 1904 var lesin upp „Skrá yfir Afréttarlönd suður af Bárðardal vestan Skjálfandafljóts“ sem oddviti Ljósavatnshrepps hafði gert í umboði hreppsnefndar 23. mars sama ár og samþykkt af eiganda og ábúanda Ljósavatns vegna Ljósavatnskirkju og eigendum Litlutungu og Mýrar.  Er hún svohljóðandi:

1. Sameiginleg takmörk hinna síðartöldu afréttar hluta:

Að austan ræður Skjálfandafljót frá ósi Mjóadalsár suður gegnt hrauninu, sunnan við Marteinsflæðu.  Að sunnan ræður bein stefna þaðan að upptökum Kiðagilsár. Að vestan ræður fjallgarðurinn vestan við Kiðagils drög og Mjóadalsárdrög norður að upptökum Syðri-Bótarár.  Að norðan ræður Syðri-Bótará að ósi, og svo Mjóadalsá að ósi hennar.

2. Innan þessara takmarka sem nefnd eru hér að ofan eru eftirfylgjandi jarðarhlutar:

A. Litlutunguland (eign Mýrar í Bárðardal).  Takmörk þess eru: Að Austan Skjálfandafljót frá ósi Mjóadalsár suður að merkilágum.  Að sunnan beinstefna úr Merkilágum yfir miðjan hólmann í Ishólsvatni að Mjóadalsá lítið sunnan við ós syðri Bótarár, að vestan ræður Mjóadalsá að ósi hennar.

B. Ishólsland. (eign Ljósavatnshrepps) Takmörkin eru: Að austan: frá hólmanum í Ishólsvatni að Rangárósi, þá Rangá að línu þeirri sem liggur frá Galthól að Sjónarhól á Mjóadal sem er merkjalína að sunnan.  Að vestan ræður Mjóadals á frá Sjónarhól að merkjalínunni milli Íshóls og Litlutungu, að Norðan ræður Merkjalínan, sem talin er að sunnan í Litlutungu landamerkjum.

C. Mjóadalsland (eign Ljósavatnshrepps). Takmörk þess eru: Að austan er Mjóadalsá frá syðri Bótará að Tungufellsá. Að sunnan ræður Tungufellsá að Þvergili, þá ræður Þvergil uns það þrýtur. Að vestan ræður bein stefna vestan við öll drög er liggja að Lambám og Grjótá að botni Syðri Botarár [upphaflega skrifað: Botnár]. Að Norðan ræður syðri Botará [upphaflega skrifað: Botná] að ósi hennar.

D. Ítak Ljósavatnskirkju: (eign Ljósavatnskirkju) Takmörk þess eru: Að austan er Skjálfandafljót frá Galthól suður að Kiðagilsá, að sunnan er Kiðagilsá, að botni Kiðagils. Að vestan há grjótin milli Mjóadals og Smiðjuskógskjálkans. Að norðan bein lína frá Galthól er miðar á Sjónarhól.

E. Almenningar (eign Ljósavatnshrepps)

I. Stykkið milli Skjálfandafljóts að austan og Ishólslands að vestan, Merkilág  að Norðan og línunnar milli Galthóls og sjónarhóls að sunnan.

II. Allur Mjóidalur sunnan við Tungufellsá og Þvergil vestan Mjóadalsár, ogalt land sunnan við Sjónarhól austan Mjóadalsár.

III. Alt land sunnanvið Kiðagilsá suður að Merkjunum móts við Marteinsflæðu (sjá sameginlegu takmorkin að sunnan).

Sören Jónsson, meðeigandi Litlutungu, mótmælti skjalinu að því leyti sem það snerti land jarðar hans og sérstaklega þar sem aðeins tveir af fimm sameigendum Litlutungu höfðu skrifað undir það.

Í landamerkjabréfi Stórutungu í máli 1/2007 segir:

Lönd þau, er liggja að Stórutungulandi eru: ..b. Syðst að vestan er Almenningur eður eign Ljósavatnshrepps.“

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er um suðurafrétt Fnjóskdæla vísað til ritsins Göngur og réttir, en þar segir: „Suður frá byggð í Fnjóskadal liggja þrír dalir: Timburvalladalur austast suður frá Sörlastöðum; Hjaltadalur í miðið, suður frá eyðibýlinu Hjaltadal, og Bleiksmýrardalur vestast, suður frá Tungu og Reykjum. Nú er Tunga í eyði.  Allir hafa dalir þessir frá ómunatíð verið notaðir sem afréttarlönd Suður-Fnjóskdælinga, mjög margra Eyfirðinga og nokkurra manna úr öðrum sveitum.

 

5        Samkvæmt elstu fjallskilareglugerð fyrir Þingeyjarsýslur, frá árinu 1893, var öllu landi sýslunnar skipt í þrjú fjallskilafélög, en þ. á m. var svæðið vestan Skjálfandafljóts og sunnan Ljósavatnsskarðs, vestur í Fnjóskadal hjá Skógum og þaðan yfir Vaðlaheiði að Veigastöðum á Svalbarðsströnd.  Í reglugerðinni er kveðið á um að fjallskilafélögum megi skipta í deildir eftir því sem hagar, fjöll og vatn deila.  Segir að landið skiptist í afréttir og heimalönd og það sé hreppsnefnda að ákveða takmörk þar á milli.  Kveðið er á um að hreppsnefndir skuli gangast fyrir sveitasamþykktum um hvort nota skyldi heimalönd til upprekstrar fyrir geldfé eða lömb.  Skyldi tekið skýrt fram, hver þau lönd væru og tala fjár, er í þau mætti reka.  Heimalönd, sem heimild væri til að nota til upprekstrar, skyldu skoðast sem „afrétti“ enda væru þau notuð á þann hátt af fleiri en landeigendum sjálfum.  Þá segir í reglugerðinni að fjárleitir á öræfum, sem ekki geti talist til nokkurra „afrétta“, skuli gerðar eftir sömu reglum sem um eftirleitir.

Ný fjallskilareglugerð var sett árið 1904.  Mikilvægasta breytingin var á 3. gr., en þar var kveðið á um að allt land skiptist í öræfi, afrjetti og heimaland.  Um afréttinn sagði að hann skyldi vera sem að fornu hefði verið, en enn fremur að sýslunefnd gæti tekið upp nýja afrétti ef nauðsyn bæri til eftir tillögu hreppsnefndar og með samþykki landeiganda.  Núgildandi fjallskilareglugerð er frá árinu 1996.

 

6.       Í úrskurði óbyggðanefndar er nánar gerð grein fyrir sögu jarða á hinum umþrættu landsvæðum, þ. á m. Mjóadal, Sörlastöðum ásamt Timburvalladal, sögu Hjaltadals ásamt Kambfellskjálka, og Bleiksmýrardals austan Fnjóskár auk aðliggjandi jarða og landsvæða.  Af hálfu málsaðila hafa ekki verið gerðar athugasemdir við þessa umfjöllun óbyggðanefndar.  Með hliðsjón af þessu og því að nefnd umfjöllun er að miklum hluta endurtekin í niðurstöðukafla úrskurðarins þykir rétt að rekja hana í einu lagi.

 

a) Umfjöllun óbyggðanefndar um Mjóadal.

Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, er vísað til áðurgreindra heimilda, en á það bent að fyrir nefndinni, líkt og hér fyrir dómi, hafi málsaðila greint á um hvort Mjóidalur hefði stöðu jarðar að lögum.

Í úrskurðinum er um nefnt álitaefni til þess vísað, sem áður sagði í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1712, að Mjóidalur hefði í byrjun 18. aldarinnar verið byggður þar sem áður var hið forna Mjóadalskot.  Þá er í úrskurðinum bent á að í nýrri Jarðabók fyrir Ísland frá árinu 1861 sé Mjóidalur metinn til dýrleika og sagður 600 forn og 9,9 hundruð ný og að við opinbert uppboð, sem haldið hafi verið að Ljósavatni 21. maí 1880, hafi Mjóadalsbýlið verið selt hæstbjóðanda.  Þá segir í úrskurðinum að nokkru síðar, þann 8. maí 1897, hafi verið útbúið landamerkjabréf fyrir Mjóadal, sem þinglýst hafi verið 29. júní það sama ár, en þar hafi merkjum verið lýst þannig:

Að austan skilur Mjóadalsá lönd Mjóadals og Íshóls. Að sunnan skilur Tungufellsá, svo Þvergil og síðast bein stefna úr því vestur á hágrjót, Mjóadalsland og almenning. Þaðan liggja svo merkin norður háfjallið, eptir því sem vatnsföll deila sveita milli, norður gegnt upptökum Syðri-Bótarár, sem að norðan skilur lönd Mjóadals og Mýrar.

Fyrir liggur að landamerkjabréfið var áritað af Kristjáni Jónssyni og samþykkt af eigendum nágrannajarðanna, Mýrar og Íshóls.  Mjóadalsbýlið fór í eyði 1894, en það hafði verið selt Ljósavatnshreppi þann 4. júní 1897, um leið og jörðin Íshóll.

Í úrskurði óbyggðanefndar er bent á að auk lýsts landamerkjabréfs hafi Mjóadalslandið verið afmarkað í áðurrakinni „Skrá yfir afréttarlönd suður af Bárðardal vestan Skjálfandafljóts hinn 23. mars 1904 og er sagt að samræmi sé með þessum heimildarskjölum um mörk Mjóadals til austurs. Um nánari afmörkun segir í úrskurðinum að ekki séu til eldri heimildir en landamerkjabréfið um suðurmörk Mjóadals og að ekki liggi fyrir aðrar heimildir um afmörkun aðliggjandi landsvæðis að sunnanverðu, þ.e. Vesturafréttar Bárðdæla, en afréttarskráin frá 1904.  Bent er á að í afréttarskránni sé merkjum milli Mjóadals og afréttarins þannig lýst að Tungufellsá ráði að Þvergili, en eftir það ráði Þvergilið uns það þrjóti.  Þá segir í úrskurðinum að í sömu heimild segi og að til almenninga teljist m.a. „allur Mjóidalur sunnan við Tungufellsá og Þvergil vestan Mjóadalsár, og allt land sunnan við Sjónarhól austan Mjóadalsár.“  Bent er á að stefnandi, íslenska ríkið, hafi staðsett hornmark Mjóadals til suðvesturs, á „hágrjóti“, með tilteknum hætti á vatnaskilum, en að rannsókn óbyggðanefndar bendi ekki til annars en að „hágrjót“ séu rétt staðsett af hálfu stefnanda á vatnaskilum, en það komi heim og saman við það sem fram hafi komið í skýrslutökum fyrir óbyggðanefnd.  Því sé samræmi milli landamerkjabréfs Mjóadals og afréttarskrárinnar um mörk Mjóadals til suðurs.

Um vesturmerki Mjóadals er í úrskurði óbyggðanefndar vísað til landamerkjabréfsins þar sem segir að þau liggi frá „hágrjóti“ norður háfjallið, eftir því sem vatnsföll deili sveita milli, norður gegnt upptökum Syðri-Bótarár.  Bent er á að bréfið sé ekki áritað vegna þeirra landsvæða sem liggi að vesturmerkjunum og að ekki séu fyrir hendi eldri heimildir en afréttarskráin frá árinu 1904, en þar sé þeim lýst þannig að bein stefna ráði vestan við öll drög er liggi að Lambám og Grjótá að botni Syðri-Bótarár.  Er það og niðurstaða óbyggðanefndar að samræmi sé á milli landamerkjabréfsins og afréttarskrárinnar um vesturmörk Mjóadals, en á það er bent í úrskurðinum að vestan kröfusvæðis Mjóadals séu kröfusvæði Hjaltadals og Kambfellskjálka og Sörlastaða vegna Timburvalladals.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að í landamerkjabréfi Hjaltadals frá 16. janúar 1893, sem þinglýst var 18. júní 1894, segir m.a. um merkin: „að sunnan eru öræfi“.  Bent er á að landamerkjabréfið sé ekki áritað vegna Mjóadals, en sagt að það landsvæði sem nú sé gerð krafa um vegna Kambfellskjálka hafi auk kröfusvæðis Hjaltadals verið innan lýstra merkja samkvæmt landamerkjabréfi Hjaltadals.  Þá er á það bent að samkvæmt landamerkjabréfi Sörlastaða frá 19. apríl 1894, sem þinglýst var 18. júní sama ár, liggi merki jarðarinnar að sunnan að „eyðigrjót og sandar“, en bréfið hafi ekki verið áritað vegna Mjóadals.

Það er niðurstaða óbyggðanefndar að af lýsingum landamerkjabréfanna sé það ekki ljóst hve langt til suðurs og suðausturs land Sörlastaða og Hjaltadals hafi verið talið ná.  Þannig svari m.a. heimildir því ekki hvort merkin hafi náð allt að vatnaskilum til móts við land Mjóadals en allt að einu mæli þau ekki í mót lýsingu landamerkjabréfsins á vesturmörkum Mjóadals.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er varðandi norðurmerki Mjóadals áréttað að þeim sé lýst í landamerkjabréfinu frá 1897 að Syðri-Bótará og að hún skilji lönd Mjóadals og Mýrar, en bréfið hafi verið samþykkt vegna Mýrar.  Bent er á að ekki séu fyrir hendi eldri heimildir en landamerkjabréfið um norðurmörk Mjóadals, en sagt að í afréttarskránni frá 1904 sé þeim lýst þannig að Syðri-Bótará ráði merkjum að ósi.  Vísað er til þess að í landamerkjabréfi Mýrar, sem útbúið hafi verið 20. maí 1885 og þinglesið 14. júní 1880, sé merkjum jarðarinnar til suðurs lýst svo að Syðri-Bótará skilji lönd Mýrar og Mjóadals að sunnan.  Bréfið hafi verið áritað um samþykki vegna Mjóadals.  Staðhæft er að ekki séu fyrir hendi eldri heimildir um afmörkun Mýrar en landamerkjabréf hennar, en á það bent að samræmi sé milli rakins landamerkjabréfs Mjóadals og annarra fyrirliggjandi heimilda um mörk Mjóadals til norðurs.

 

Að öllu framangreindu virtu var það niðurstaða óbyggðanefndar að sá hluti þjóðlendukröfu stefnanda, íslenska ríkisins, falli innan lýsingar í landamerkjabréfi Mjóadals, og að sú afmörkun sé í samræmi við afmörkun stefnda og að eldri heimildir mæli henni ekki í mót.

 

Að fenginni framangreindri niðurstöðu er í úrskurði óbyggðanefndar fjallað um eignarréttarlega stöðu lands innan lýstra merkja Mjóadals.

Um þýðingu landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi bendir óbyggðanefnd á margendurtekna umfjöllun Hæstaréttar og óbyggðanefndar um það efni.  Bent er á að landamerkjabréf Mjóadals hafi verið gert í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi árið 1882, að gögn bendi til þess að merkjum landsvæðisins sé þar rétt lýst og að bréfið hafi verið undirritað af umráðamanni Mjóadals, þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan, án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við fyrirsvarsmenn aðliggjandi landsvæða.  Telur óbyggðanefnd þetta benda til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt hafi verið talið gilda.  Því sé ljóst að fyrirsvarsmenn Mjóadals hafi um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum hafi þar verið rétt lýst.  Óbyggðanefnd bendir á að af frásögnum Landnámu verði ekki ráðið hversu langt upp til fjalla og inn til landsins landnám á svæðinu hafi náð og verði því engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar.  Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verði þó að telja líklegt að nyrðri hluti þess landsvæðis hafi verið numinn en vafi um þetta atriði hljóti að vaxa eftir því sem sunnar dragi.

Að því er varðar fyrrnefnt álitaefni, hvort Mjóidalur hafi stöðu jarðar að lögum, bendir óbyggðanefnd í úrskurði sínum á áðurraktar heimildir og staðhæfir að samkvæmt þeim sé örnefnið „Mjóidalur“ notað í víðtækari merkingu og látið taka til landsvæðis sem liggi a.m.k. að verulegu leyti mun austar og sunnar en það landsvæði sem landamerkjabréf Mjóadals taki til.  Er ályktað af þessu að Mjóadalskot og Hólkot, sem nefnd séu í Jarðabókinni, kunni allt eins að hafa verið byggð út úr Mýri eins og á afrétti.  Þá áréttar nefndin í úrskurði sínum það að talið sé að Mjóidalur hafi verið í byggð á árunum 1812–1894 og að býlið, samnefnt, sem áður hafði verið nefnt Mjóadalskot, hafi samkvæmt lýsingu Eyjadalsár- og Lundarbrekkusóknar frá árinu 1840, staðið hér um bil mílu sunnar en Mýri, og hafi það verið hjáleiga þeirrar jarðar og metin með henni.  Bent er á að í sóknarlýsingunni segi að landsvæði Mjóadalsbýlisins hafi verið talið „landgott og víðslægt en framar vetrarhart“ og enn fremur að Mjóadalsbýlisins sé getið á 19. öldinni í skrám sýslumanns og þá sem afbýlis frá Mýri.  Býlisins sé hins vegar ekki getið í jarðabókum, t.d. í Jarðatali J. Johnsens frá árinu 1847 og í jarðamati Ljósavatnshrepps frá árinu 1849.  Aftur á móti sé Mjóidalur metinn sér til dýrleika í nýrri Jarðabók fyrir Ísland árið 1861, og þá sagt að fornt mat á jörðinni sé 6 hundruð en 9,9 hundruð samkvæmt hinu nýja.  Loks er bent á í úrskurðinum að í uppboðsbók sýslumannsins í Þingeyjarsýslu komi fram að í maí 1880 hafi jörðin Mjóidalur í Ljósavatnshreppi verið seld áðurnefndum Kristjáni Jónssyni á Úlfsbæ.

Í úrskurði óbyggðanefndar er á það bent að í yfirskrift landamerkjabréfsins frá 8. maí 1897 sé Mjóidalur nefndur jörð.  Hið sama hafi verið gert í kaupsamningi það sama ár, en þar hafi og skýrt komið fram að verið var að kaupa og selja landareign jarðar.  Hafi m.a. verið áskilið að seljandinn greiddi alla áfallna skatta og opinber gjöld af jarðeigninni, en að auki hafi honum verið gert að annast löggilda merkjaskrá og eftir kaupin hafi landamerkjabréfi Mjóadalsjarðarinnar verið þinglýst.  Loks er á það bent í úrskurðinum að heimildir frá upphafi tuttugustu aldarinnar kveði á um að hreppurinn hafi ekki keypt jörðina í Mjóadal í heild sinni heldur einungis landareign hennar, sbr. það sem áður hefur verið rakið um hreppsreikninga frá árunum 1912-1920.

Í úrskurðinum er ályktað að framangreindar heimildir veiti vísbendingu um stöðu þess landsvæðis, sem nefnt sé Mjóidalur, en um það segir nánar:

Hin elsta fyrirliggjandi heimild um Mjóadal, þ.e. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1712, tekur ekki af tvímæli um hver sú staða hafi þá verið.  Þar er mynnst á Mjóadal í tengslum við almenningsafrétt Bárðardalshrepps.  Jafnframt er minnst á Mjóadalskot og Hólkot sem „eyðiból“ en ekki kemur fram hver afmörkun lands þeirra hafi verið eða saga þeirra að öðru leyti.  Með tilliti til þess hve óljós frásögn Jarðabókarinnar er að þessu leyti getur sá hluti hennar sem nefnir Mjóadal í tengslum við almenningsafrétt Bárðardalshrepps ekki haft svo afgerandi þýðingu að hún vegi þyngra en aðrar yngri heimildir sem ótvírætt tala um Mjóadal sem jörð.

Heimildir frá 19. og 20. öld benda ótvírætt til þess að a.m.k. frá fyrri hluta 19. aldar hafi verið litið á Mjóadal sem jörð. Samkvæmt þeim mun Mjóadal hafa verið skipt út úr Mýri og byggð hafist þar að nýju 1812 eða 1813 en ekki eru fyrir hendi heimildir um afmörkun Mýrar fyrir þann tíma. Kristján Jónsson í Úlfsbæ sem gerði landamerkjabréf Mjóadals 1897 og seldi hann Ljósavatnshreppi sama ár leiddi rétt sinn til Jóns Jónssonar. Sá var sonur Jóns ríka sem 1839 var talinn eiga Mýri. Eftir að Ljósavatnshreppur keypti Mjóadal er ljóst að farið var að nýta landsvæðið sem sumarbeitiland á vegum hreppsins. Sú skipan mála hélt áfram eftir að Ljósavatnshreppi var skipt upp í samnefndan hrepp og Bárðdælahrepp 1907.

Að Mjóadal liggja jarðir til austurs, vesturs og norðurs, þar á meðal á fjöllum uppi. Heimildir þær um afréttarnot sem íslenska ríkið vísar til kröfum sínum til stuðnings, og á annað borð er ljóst að taka til þess landsvæðis sem hér er til skoðunar, endurspegla fremur beitarnot á Mjóadal en benda ekki til þess að land innan landamerkja Mjóadals hafi haft stöðu afréttar að lögum. Skal í þessu sambandi sérstaklega vísað til almennrar umfjöllunar óbyggðanefndar um hugtökin jörð og afréttur, sbr. einkum kafla 4.4. og 4.5. í viðauka með úrskurði þessum.

Ekki er fyrir hendi sjálfstæð afmörkun á afrétti sem tekur til lands innan landamerkja Mjóadals. Þá liggja ekki fyrir heimildir um að eigendur Mjóadals hafi litið svo á að hluti af landsvæði því sem afmarkað er í landamerkjabréfi Mjóadals væri afréttur fyrr en eftir að Ljósavatnshreppur keypti jörðina 1897 og tók að nýta hana sem beitiland. Samkvæmt framangreindu telur óbyggðanefnd ekki sýnt fram á að land innan landamerkjabréfs Mjóadals hafi að einhverju leyti stöðu afréttar að lögum.

Að framan hafa verið raktar fyrirliggjandi heimildir um Mjóadal. Í heimildum frá 19. öld og síðar er ítrekað talað um Mjóadal sem jörð en aldrei sem afrétt fyrr en eftir að hann komst í eigu Ljósavatnshrepps skömmu fyrir aldamótin 1900. Af heimildum sem eru eldri en frá 19. öld og taka til Mjóadals er einkum til Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1712 að taka en frásögn hennar er óljós varðandi stöðu þess landsvæðis sem hér er deilt um. Að því virtu sem að framan er rakið telur óbyggðanefnd nægjanlega fram komið að Mjóidalur hafi stöðu jarðar að lögum. Lagt verður til grundvallar að Mjóadal hafi verið skipt út úr jörðinni Mýri og hafi eftir það verið byggður og nýttur eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Ekki er annað fram komið en að hið sama hafi gilt um Mýri áður en Mjóadal var skipt út úr henni. Innan þeirra marka sem tilgreind eru 1897, svo sem þeim er nánar lýst hér framar, hafa eigendur Mjóadals farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt. Ekki verður annað séð en að þetta eignarhald hafi verið án ágreinings eða athugasemda. Engar heimildir eru um að land innan marka jarðarinnar hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða staðhættir, gróðurfar eða nýtingarmöguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi. Þá verður fyrirkomulag smölunar á þessu svæði ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu.

Að öllu framangreindu virtu hefur af hálfu íslenska ríkisins ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landamerkja Mjóadals sé þjóðlenda. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.  Með vísan til sama ákvæðis ber jafnframt að taka skýrt fram að í umfjöllun óbyggðanefndar felst ekki afstaða til merkja á milli eignarlanda. Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að land Mjóadals, svo sem því er að framan lýst, teljist ekki til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.

 

b) Umfjöllun óbyggðanefndar um Sörlastaði og Timburvalladal og Hjaltadal ásamt Kambfellskjálka.

Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá elstu heimildum um býlin á Fram-Fnjóskadal, m.a Sörlastöðum austan Bakkaár og Snæbjarnarstöðum vestan ár, en einnig frá býlunum á Timburvalladal og í Hjaltadal.

Í úrskurðinum segir að af frásögn Landnámu verði ekki ráðið hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á Fram-Fnjóskadal hafi náð, en af þeim sökum verði heldur engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar.

 

Um Sörlastaði segir í úrskurðinum að elstu heimildina um jörðina sé að finna í máldaga Auðunar biskups rauða frá árinu 1318.  Segir þar að á jörðinni sé geitabú og í eigu Munkaþverárklausturs í Eyjafirði.  Bent er á að eignarréttur klaustursins á jörðinni er áréttaður í síðari heimildum, m.a. í Sigurðarregistri frá 1525, í Jarðabókinni 1712, í lögfestu frá 1797 og í jarðamötum frá 19. öld.  Hið sama eigi við um heimildir um eignarréttindi klaustursins á nágrannajörðunum, þ. á m. Bakka, Belgsá, austan Bakkaár, en einnig á Hjaltadal og Tungu á Bleiksmýrardal.

Í úrskurði óbyggðanefndar er á það bent að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 segir um Sörlastaði að þar sé grastekja lítil, smáfengnar engjar á dreif um skóginn, en úthagarnir búgóðir.  Í því samhengi er vísað til þess að heimildir séu um að lögmaður og Munkaþverárklausturshaldari, Sveinn Sölvason, hafi gefið bóndanum á Reykjum, syðsta býlinu á Fram-Fnjóskadal, leyfi til heyskapar á Timburvalladal í júnímánuði 1793, en að auki séu heimildir um það í skoðunargjörð skoðunarmanna vegna Sörlastaða árið 1804 að Timburvalladalur hafi oft verið notaður til slægna, og sagt að þar séu víðáttur miklar.

Um hinn forna Timburvallabæ er í úrskurði óbyggðanefndar vísað til þess að Jón Sigurðsson bóndi, fræðimaður og rithöfundur frá Ysta-Felli, segi frá því í ritinu Lýsing Þingeyjarsýslu, að býlið hafi staðið vestan ár í Timburvalldal og undir norðurhyrnu Kambfells.  Hafi jörðin verið stór og landrúm.  Nokkru utar og austur undir norðurhala Kambfells, hafi verið býlið Tungufell, og að þar sjáist glöggt til bæjartófta og vallargarðs, en enginn viti á hvaða öld byggt var.  Þá segi Jón frá því að bær hafi verið byggður vestan Timburvalladalsár árið 1868, en byggðin hafi aðeins staðið í fá ár.  Segir Jón að engar frekari sagnir séu um eyðibýli innar á Timburvalladal vestan ár.  Hann getur þess að hjáleigan Kambfell í austanverðum Hjaltadal hafi fengið úthlutað mýrlendi á vesturhluta Timburvalladals haustið 1804, en að ábúandinn á Sörlastöðum hafi nýtt það landsvæði þegar býlið hafi verið í eyði.

Um byggð austan Timburvalladalsár er í framlögðum gögnum vísað til heimilda, sem segja til um að á Sörlaseli undir Hellugnúpi í mynni dalsins hafi verið búið fyrir móðuharðindin í lok 18. aldar, og að þar hafi aftur verið tekinn upp búskapur í nokkur ár laust fyrir 1840.  Þá hafi búseta verið sunnar í dalnum, að Skarðsseli, í um 300 m hæð yfir sjó, og að býlið Fagraneskot hafi verið um 2 km sunnar.  Loks hafi fornbýlið Bakkakot verið enn sunnar á dalnum, við svonefndar Hvítármýrar, í um 310 m hæð yfir sjó, og um 10 km sunnan við býlið Sörlastaði.  Segir í gögnum að á síðari öldum hafi Timburvalladalur allur austan ár verið talinn eign Sörlastaða, en einnig á köflum vestan ár.

Í jarðamati 1849-50 segir að Sörlastaðajörðin sé talin 20 hundruð að dýrleika.  Um landgæði segir í matinu m.a. að víðátta jarðarinnar sé talsverð en nokkuð slitrótt.  Þá sé þar landvídd og landgæði til allra afnota í besta lagi; skógarland nokkurt, og víðir mikill til kolagerðar; afréttarhlunnindi, nokkur hestaganga, og fjallagrös til heimilisbrúkunar.  Um ókosti jarðarinnar segir í matinu að grjót og leirskriður séu í enginu og heyskapur allur langsóttur og af þeim sökum sé jörðin erfið ábúanda.

Um Sörlastaði er í úrskurðinum vísað til fjölda annarra heimilda.  Þar á meðal eru gögn um makaskipti jarðarinnar frá árinu 1851 og segir að af því tilefni hafi amtmaður tjáð sig um landgæðin í bréfi og m.a. skrifað að hún væri yfirmáta stór, frjó og grasgefin.  Einnig segir amtmaður í þessu bréfi að jörðinni fylgi birki- og viðartré og að hún sé vegna frjórra bithaga og víðáttumikils lands með tilheyrandi „afrétt“ ein af betri landbúnaðarjörðum.

Landamerkjabréf Sörlastaða var útbúið þann 19. apríl 1884.  Segir þar um austur-, suður- og vesturmerkin:  „Til austurs á Vallnafjall eiga Sörlalstaðir land að Bæjargilstjörn, að Grettistaki, að Fremraskarðsdragi, að Hvítárdragi, að Pílagrímsmosum og að Pílagrímsfjalli.  Að sunnan liggja eiðigrjót og sandar.  Að vestan skiftir Sörlastaðaland frá Hjaltastaðlandi og Snæbjarnarstaðalandi Timburvalladalsá og Bakkaá“.

Landamerkjabréfið er áritað af eigendum og umboðsmönnum nágrannajarðanna, þ. á m. eiganda Bakka, ábúanda Hjaltadals og ábúanda Snæbjarnarstaða.  Þá rituðu á bréfið eigendur og ábúendur jarða í Bárðardal, þ.e. á Stóruvöllum, Sandhaugum og Mýri.

Að beiðni sýslumannsins í Þingeyjarsýslu framkvæmdu tveir bændur matsgjörð um Sörlastaðajörðina þann 2. maí 1891.  Var annar matsmannanna Ólafur Guðmundsson, eigandi nágrannajarðarinnar Bakka.  Í gjörðinni segir m.a. að landgæði Sörlastaða hafi batnað til muna frá fyrra mati.  Þá segir að á jörðinni séu miklar og góðar slægjur á engjum, að útengjar séu víðáttumiklar, að þar sé góður kjarrskógur til beitar, en að auki liggi undir jörðinni góður og mikill afréttur með hinum bestu landgæðum.  Var jörðin metin til fjár á 22,5 hundruð og talin meðal meiri landgæðajarða sýslunnar.

Í fasteignamati frá 1916-1918 er merkjum Sörlastaða lýst á sama veg og í landamerkjabréfinu frá 1884 og er m.a. áréttað að jörðin eigi engjar, en um önnur landgæði segir: „Á afrétt jarðarinnar eru slægjur grasgefnar og víðlendar í 3-10 km fjarlægð“  Er þess getið að á afréttinum hafi verið heyjaðir 100-150 hestar, en um búfjárhaga segir nánar: „Beitiland afar víðlent og gott fyrir sauðfé, alltaf er til þess nær, kjarngott og viðfeldið.  Sumarhagar gripa dágóðir.  Snjóþungt mjög í austan átt, og útbeit því mjög misbrestasöm, en sérstaklega góð, þegar hún gefst.  Skjólsamt.  Fjárgeymsla er afar örðug.  Jörðinni fylgir upprekstrarland.  Hefir það gefið af sér 15 krónur árlega. ... Afréttarfé gerir usla í engjum, þar eð allt er ógirt.“

Samkvæmt gögnum var hálf Sörlastaðajörðin seld Hálshreppi með kaupsamningi í nóvember 1955, og er þar landamerkjum lýst þannig:  „Að vestan Timburvalladalsá og Bakkaá, að sunnan og austan, vatnaskil á fjöllum og að norðan á mitt Langholt og þaðan þver til fjalls og að á.“

Hálf Sörlastaðajörðin er enn í einkaeigu, en hún fór í eyði árið 1959.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er ítarlega fjallað um merki Sörlastaða, en jafnframt er þar vikið að merkjum nálægra jarða og landsvæða.  Bent er á að samkvæmt landamerkjabréfinu frá 19. apríl 1884 séu norðurmerkin við býlið Bakka, en að vestan liggi þau að Kambafellstungu.  Áréttað er að til austurs sé Vallnafjall og þar fyrir handan í Bárðardal séu býlin Eyjadalsá, Sandhaugar, Hlíðarskógar, Stóruvellir, Litluvellir, Halldórsstaðir og fremsti bærinn Mýri.  Þá er staðhæft að landsvæði Sörlastaða sunnan Timburvalladals liggi að landi Mjóadals.

Í úrskurðinum segir að í landamerkjabréfum jarða á greindu landsvæði sé merkjum almennt lýst „á fjall upp“, „á hágrjót“, „upp á brún“, eða „í vatnaskil“.  Er staðhæft að þessar lýsingar hafi stuðning af eldri heimildum í þeim tilvikum sem þeirra njóti við.  Bent er á að hið umþrætta landsvæði í máli þessu sé í raun samfelldur fjallgarður, sem að mestu sé úr blágrýti sem liggi sunnan frá Sprengisandi að Ljósavatnsskarði og heiti Vallnafjall (779 m) á löngum kafla, en nafnið sé tekið eftir býlinu Stóruvöllum.  Hæstu hnjúkar fjallgarðsins séu Háafell (917 m) sunnan Ljósavatnsskarðs og Litluvallafjall (737 m) en víðast hvar séu hlíðar hamralausar og grónar upp að brúnum nema þar sem jarðvegur hafi blásið ofan í grjót og klungur.

Í niðurstöðu sinni áréttar óbyggðanefnd í úrskurði sínum að af frásögn Landnámu verði ekki ráðið hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á umræddu svæði hafi náð, en af þeim sökum verði heldur engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar.  Bent er á að sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsingarinnar verði þó að telja líklegt að land á þessu svæði hafi a.m.k. verið numið að hluta.  Að þessu leyti er í úrskurðinum vísað til fyrri úrskurða nefndarinnar sem hafi grundvallast á þögn eða óskýrleika landnámslýsinga, tiltekinni hæð yfir sjávarmáli og engri eða takmarkaðri nýtingu lands og þá fyrst og fremst til sauðfjárbeitar.  Er þar um sérstaklega vísað til úrskurða um Esju og Smjörfjöll, sbr. mál nr. 3-4/2004 á svæði fjögur og 2-3/2005 á svæði fimm.  Bent er á að þar hafi því verið hafnað að slík atriði ein og sér leiddu til frávika frá þeirri meginreglu að landamerkjabréf jarðar afmarki eignarland.

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar segir að jörðin Sörlastaðir og fyrrnefndar jarðir liggi að öðrum jörðum, þ. á m. á fjallseggjum.  Þá segir að heimildir um afréttarnot á svæðinu séu almenns eðlis og endurspegli fremur beitarnot á hálendari hlutum jarðanna en bendi ekki til þess að land innan merkjalýsinga jarða á svæðinu hafi haft stöðu afréttar að lögum.  Þá er staðhæft að heimildir séu ekki um annað en að Sörlastaðir og nefndar jarðir hafi verið byggðar og nýttar eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma, en enn fremur hafi eigendur farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gilt hafi um eignarlönd almennt.  Vísað er til þess að engin gögn bendi til þess að land á þjóðlendukröfu íslenska ríkisins, innan merkja jarða, hafi aðra eignarréttarlega stöðu en annað land þeirra og verði staðhættir, gróðurfar og nýtingarmöguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi.  Bent er á að þótt nýting fjalllendis jarðanna hafi, eðli málsins samkvæmt, verið takmarkaðri en láglendis þeirra, leiði það eitt og sér ekki til eignarréttarlegrar aðgreiningar.  Þá verður fyrirkomulag smölunar á svæðinu ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu.

Í niðurstöðukafla úrskurðarins er nánar vikið að eignarrétti landsvæðisins og um þýðingu landamerkjabréfs Sörlastaða og nágrannajarða.  Um álitaefnið er m.a. vísað til áðurrakinnar umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar, en því til viðbótar segir:

Landamerkjabréf þeirra jarða sem hér eru til umfjöllunar voru gerð í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi árið 1882.  Svo sem áður var rakið benda fyrirliggjandi gögn ekki til annars en að merkjum sé þar rétt lýst.  Bréfin voru þinglesin, færð í landamerkjabók og á þeim byggt síðan um merki jarðanna, án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna sem hér geti skipt máli.  Þetta bendir allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt var talið gilda.  Þá er og ljóst að eigendur jarðanna hafa um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst.“

Óbyggðanefnd telur að framangreindar heimildir og staðhættir bendi til þess að merki jarða á umræddu landsvæði, þ.e. sunnanverðu Ljósavatnsskarði, vestanverðum Bárðardal og austanverðum Timburvalladal og Fnjóskadal, hafi náð þar saman, fremur en að þau lægju umhverfis fjallgarðinn í hlíðum hans, svo sem haldið hefur verið fram af hálfu íslenska ríkisins.  Umræddur hluti af þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins í máli þessu telst því allur innan merkja jarða.  Afmörkun þeirra er óumdeild meðal gagnaðila íslenska ríkisins.

Það var og niðurstaða óbyggðanefndar að öllu framangreindu virtu að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að á nefndu landsvæði, og þ. á m. á tilgreindu landi Sörlastaða á Timburvalladal, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. ,laga nr. 58, 1998.

 

Um Hjaltadal segir í úrskurði óbyggðanefndar að elstu heimildir um jörðina séu frá miðri 15. öld, í máldagabók Ólafs Rögnvaldssonar biskups (1461-1510).  Segir þar um eignarjarðir Munkaþverárklausturs í Fnjóskadal:  „Hialltadal oc sollastade med badum dolunum.“  Þessi eignarréttindi klaustursins eru áréttuð í Sigurðarregistri, sem byrjað var að skrá 1525.

Í úrskurðinum er vísað til Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, en þar segir að Hjaltadalur sé 20 hundruð að dýrleika, að grasatekja sé lítil og útiganga bjargleg og búgóð.  Í Jarðabókinni er einnig greint frá fornbýlinu Kambfelli, austan Hjaltadalsár og gegnt jörðinni Hjaltadal, og sagt að þar séu fáeinar tóftaleifar, en túnstæðið sé spillt af skriðu.  Í gögnum kemur fram að vegna snjóflóða hafi Kambfellsbýlið lagst í eyði 1738 en verið endurreist um miðja 18. öldina.  Hafi býlið þá verið hjáleiga frá Hjaltadal, en búskapur þar endanlega lagst af vegna náttúruhamfara árið 1818.  Segir frá því að vegna þessa skaða hafi ábúandinn á Hjaltadal fengið lækkaða landskuld sína við jarðeigandann, Munkaþverárklaustur, um þriðjung.

Í úrskurði óbyggðanefndar er sagt frá því að á manntalsþingi á Hálsi 1846 hafi verið lesin upp skoðunargjörð um hvað margt fé mætti að skaðlausu hafa í „Hjaltadalsafrétt“ og hafi í því sambandi verið nefnt 1200 fjár.  Í þessu samhengi er á það bent að í jarðamati 1849-50 segi um hinn forna Hálshrepp að hann sé sjálffær um „afréttarland“, en að þar um sé sérstaklega vísað til afréttarlanda fremstu jarðanna, Sörlastaða og Hjaltadals.  Um síðarnefndu jörðina segir í skoðunargjörðinni að þar sé landrými mikið og geldfjárrekstur til góðra hlunninda.  Sambærileg umsögn er um Hjaltadalsjörðina í lýsingu á umboðsjörðum Munkaþverárklausturs í Hálshreppi frá árinu 1878.

Samkvæmt frásögn Jóns Sigurðssonar, fræðimanns frá Ysta-Felli, er Hjaltadalur mikil jörð að landi.  Segir hann frá því að ábúendur jarðarinnar hafi haft nytjar inn um allan dal, en að því leyti er sérstaklega nefnd Bæjarstæðismýri, sem mun vera um 10 km frá Hjaltadalsbænum.  Samkvæmt frásögn Jóns voru þar góðar engjar í um 400 m yfir sjó og var þar oft heyjað á seinni öldum og m.a. eftir 1800, en eftir það hafi land spillst vegna skriðufalla.  Að sögn Jóns eru tóftir á þessari engjamýri, en einnig utar í dalnum, en þó engar sagnir.

Heimildir eru um að vegna fyrirhugaðrar sölu Hjaltadals árið 1891 hafi umboðsmaður jarðarinnar ritað þá lýsingu að þar væri land óþrjótandi og miklar slægjur en sumar í fjarska.  Staðhæft er að jörðin eigi afréttarland fyrir 1200 fjár.  Ekki varð af sölunni.

Í fasteignamati 1916-1918 segir m.a. um Hjaltadalsjörðina:

Búfjárhagar.  Landið er geysimikið, bæði sjálft heimalandið og afréttardalir, sem fylgja.  Kjarngott, sauðland hið bezta og vetrarbeit þar í bezta lagi.  Nú sem stendur, er jörðin notuð sem upprekstrarland. Upprekstrartekjur um 50 krónur.  Auk þess nokkur slægjunot, frá næstu bæjum. Hjaltadalur var innsti bær í Fnjóskadalnum, 3 km innar en Snæbjarnastaðir.

Landamerkjabréf fyrir Hjaltadal var útbúið 16. janúar 1883 og var því þinglýst 18. júní 1884, án mótmæla. Í bréfinu segir m.a. um merkin:

Að austan ræður Timburvallaá.  Að norðan merkjagarður, er liggur miðja vegu milli Snæbjarnarstaða og Hjaltadals. Að vestan ræður Fjallið. Að sunnan eru öræfi.“  Bréfið var undirritað af umboðsmanni jarðeiganda, en einnig af ábúendum Hjaltadals, Snæbjarnarstaða og Sörlastaða.

Árið 1912 seldi Stjórnarráðið Hálshreppi Hjaltadalsjörðina, en hún hafði farið í eyði fáeinum árum áður.  Í afsali er vísað til laga nr. 31, 1905 um sölu þjóðjarða, en ekkert er kveðið á um merkin.

Í úrskurði óbyggðanefndar er áréttað að ekki sé ágreiningur með málsaðilum um að Hjaltadalur sé sjálfstæð jörð og að henni fylgi svonefndur Kambfellskjálki, þ.e. landsvæði vestan Timburvalladalsár í Timburvalladal.  Bent er á að Kambfellskjálka hafi verið skipt út úr Hjaltadal með yfirlýsingu frá 27. ágúst 1950, en með henni hafi Hjaltadalsjörðin einnig verið seld og skipt upp á milli bændanna á Snæbjarnarstöðum og Sörlastöðum.  Annars vegar hafi verið um að ræða land vestan Hjaltadalsár og Krókanna vestan fyrsta Hrauntungufjalls og hins vegar austan Hjaltadalsár og Austurkrók og Timburvalladal, vestan Timburvalladalsár.  Segir um landamerkin að þau séu norðan í miðju fyrsta Hrauntungufjalli. Hjaltadalshluti Snæbjarnarstaðabónda var seldur Hálshreppi ásamt Snæbjarnarstöðum árið 1958, en þann hluta Hjaltadals sem féll undir Sörlastaði, fyrrnefndan Kambfellskjálka, seldi eigandi Sörlastaða Þóroddsstaðabónda árið 1955.  Er í síðastnefnda gerningnum landamerkjum lýst svo: „Að austan og sunnan háfjöll, að vestan í miðja fyrstu Hrauntungu, síðan Hjaltadalsá, að norðan lína um hæstan Kirkjuhól í norðvesturhorn Kambfellshnjúks.

Árið 1966 seldi Þóroddsstaðabóndi Hálshreppi Kambfellskjálka, þ.e. land vestan Timburvalldalsár, og með sömu landamerkjum og áður var lýst.

 

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar er tekið til skoðunar hvernig merkjum er lýst í hinu þinglýsta landamerkjabréfi Hjaltadals frá árinu 1883, en á það er bent að engar eldri merkjalýsingar hafi fundist um Kambfellsbýlið utan virðingar frá árinu 1804, en þar sé merkjum ekki lýst á heildstæðan hátt.

Um merki Hjaltadals er í úrskurðinum litið til gagna um merki aðliggjandi landsvæða, þ.e. kröfusvæðis Sörlastaða til austurs, Mjóadals til suðausturs og kröfusvæðis Bleiksmýrardals til vesturs og suðurs.  Norðan Hjaltadals er jörðin Snæbjarnarstaðir, en sú merkjalína varðar ekki álitaefni málsins.  Um austur-, suður- og vesturmerki Hjaltadals segir nánar í niðurstöðukafla úrskurðarins:

Í landamerkjabréfi Hjaltadals er merkjum til austurs lýst svo:  „Að austan ræður Timburvallaá.“  Suðurmerkjunum er ekki lýst að öðru leyti en svo:  „Að sunnan eru Öræfi“.  Bréfið er m.a. áritað um samþykki vegna Sörlastaða en ekki vegna Mjóadals.  Í landamerkjabréfi Sörlastaða frá 19. apríl 1884 sem þinglýst var 18. júní sama ár er merkjum Sörlastaða til vesturs lýst svo að „Að vestan skiftir Sörlastaðalandi frá Hjaltadalslandi og Snæbjarnarstaðalandi Timburvalladalsá og Bakkaá“.  Í bréfinu segir einnig:  „Að sunnan liggja eiðigrjót og sandar“.  Bréfið var samþykkt vegna Hjaltadals.  Í landamerkjabréfi Mjóadals frá 8. maí 1897 sem þinglýst var 29. júní sama ár er vesturmerkjum Mjóadals lýst svo að frá hágrjóti  „liggja svo merkin norður háfjallið, eptir því sem vatnsföll deila sveita milli, norður gegnt upptökum Syðri-Bótarár, sem að norðan skilur lönd Mjóadals og Mýrar“.  Bréfið var ekki áritað vegna Hjaltadals

Í úrskurðinum eru dregnar eftirfarandi ályktanir:

Sjá má að lýsing landamerkjabréfs Hjaltadals á norðanverðum austurmörkum jarðarinnar fær samrýmst landamerkjabréfi Sörlastaða hvað varðar mörkin suður að upptökum Timburvallaár við Pílagrímsfell.  Suðausturmörk Hjaltadals og Kambfellskjálka gagnvart Mjóadal þarfnast hins vegar nánari skoðunar.  Sem fyrr segir er þeim ekki lýst í landamerkjabréfi Hjaltadals að öðru leyti en „að sunnan eru öræfi“.  Vesturmörk Mjóadals eru samkvæmt landamerkjabréfi Mjóadals miðuð við vatnaskil.  Þá er talað um „eyðigrjót og sanda“ að sunnan í landamerkjabréfi Sörlastaða.  Þannig eru landamerkjabréf Hjaltadals og Sörlastaða óljós um afmörkun jarðanna til suðurs þar sem ekki er miðað við ákveðin náttúruleg kennileiti í landslagi heldur vísað til almennra staðhátta sem einkenna fjalllendið á svæðinu.  Á þessu svæði eru ekki skörp skil af náttúrunnar hendi milli gróðurlendis og ógróins fjalllendis.  Þegar upp úr Hjaltadal er komið eru staðhættir þar nokkuð einsleitir á stóru svæði en um er að ræða fjalllendi sem er víðast hvar gróðursnautt en hallalítið og liggur í 800–1000 m hæð.  Það á við um landsvæðið allt suður og austur fyrir vatnaskil á Austur-Króksfjalli.  Landamerkjabréf Mjóadals er skýrara en bréf Hjaltadals þar sem þar er miðað við vatnaskil sem staðsetja má með allmikilli nákvæmni.  Þar sem ekki er við annað að styðjast en það sem hér hefur verið rakið um afmörkun Hjaltadals og Kambfellskjálka til suðurs telur óbyggðanefnd rétt að skýra heimildirnar á þann veg að land það sem afmarkað er í landamerkjabréfi Hjaltadals og landið sem afmarkað er í landamerkjabréfi Mjóadals liggi saman frá þeim stað þar sem sunnanverðu landi Sörlastaða sleppir.  Afmörkun gagnaðila íslenska ríkisins á Hjaltadal í máli þessu fær þannig stoð í landamerkjabréfi Hjaltadals og öðrum heimildum um mörk jarðarinnar að þessu leyti.

Merkjum Hjaltadals til vesturs er lýst svo í landamerkjabréfi jarðarinnar:  „Að vestan ræður Fjallið“ og um suðurmörkin segir eins og áður rakið:  „Að sunnan eru Öræfi“.  Vestan og sunnan kröfusvæðis Hjaltadals liggur kröfusvæði Bleiksmýrardals.  Bréfið var ekki áritað vegna Bleiksmýrardals og ekki er til landamerkjabréf fyrir það landsvæði.  Ekki kemur fram í landamerkjabréfinu nánari staðsetning á „Fjallinu“.  Þá eru ekki fyrir hendi heimildir um afmörkun Bleiksmýrardals að þessu leyti.  Landamerkjabréf Hjaltadals er þannig óglöggt varðandi afmörkun til suðurs og vesturs gagnvart Bleiksmýrardal og ekki liggja fyrir aðrar heimildir sem koma að gagni hvað þetta varðar.  Með tilliti til þess sem áður er rakið varðandi mörk Hjaltadals og Kambfellskjálka til suðausturs gagnvart Mjóadal og þess að ekkert annað er komið fram í málinu sem leggja mætti til grundvallar um afmörkun Hjaltadals að þessu leyti telur óbyggðanefnd rétt að skýra landamerkjabréfið svo að land Hjaltadals nái til vesturs og suðvesturs að vatnaskilum vatnasviða Hjaltadalsár og Fnjóskár eins og gagnaðilar íslenska ríkisins byggja á í málinu.  Afmörkun þeirra á landi Hjaltadals til vesturs og suðurs fær þannig stoð í landamerkjabréfi Hjaltadals.

Samkvæmt því sem að framan er rakið telur óbyggðanefnd að afmörkun gagnaðila íslenska ríkisins á landi Hjaltadals og Kambfellskjálka eigi sér stoð í landamerkjabréfi Hjaltadals.  Sú afmörkun er óumdeild meðal gagnaðila íslenska ríkisins.  Ekki eru fyrir hendi heimildir sem mæla landamerkjabréfinu í mót og verður því miðað við að merkjunum sé þar rétt lýst.

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar um eignarréttarlega stöðu lands innan merkja Hjaltadals og um mat á sönnun um eignarhald á landi er vísað til áðurgreindrar umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar um þýðingu landamerkjabréfa.  Áréttað er að það skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt sé að landamerkjabréf séu ekki eingöngu gerð fyrir jarðir heldur einnig t.d. afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Sérstaklega er áréttað að landamerki fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Bent er á að landamerkjabréf Hjaltadals hafi verið gert í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882 og að gögn bendi ekki til annars en að merkjum landsvæðisins sé þar rétt lýst.  Bréfið hafi verið undirritað af umráðamanni Hjaltadals, þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki Hjaltadals án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við fyrirsvarsmenn aðliggjandi landsvæða.  Telur óbyggðanefnd þetta benda til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt hafi verið talið gilda.  Þá sé ljóst að fyrirsvarsmenn Hjaltadals hafi um langa hríð haft réttmæta ástæðu til að vænta þess að merkjum sé þar rétt lýst.

Í niðurstöðu óbyggðanefndar segir að af frásögn Landnámu verði ekki ráðið hversu langt upp til fjalla og inn til landsins landnám á hinu umþrætta svæði hafi náð og verði því engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar.  Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að nyrðri hluti landsvæðisins hafi verið numinn en vafi um þetta atriði hljóti að vaxa eftir því sem sunnar dragi og land hækki.  Bent er á að óbyggðanefnd hafi í fyrri úrskurðum sínum tekið afstöðu til þjóðlendukrafna, sem grundvallast hafi á þögn eða óskýrleika landnámslýsinga, tiltekinni hæð yfir sjávarmáli og engri eða takmarkaðri nýtingu lands og þá fyrst og fremst til sauðfjárbeitar.  Um þetta er sérstaklega vísað til úrskurðar nefndarinnar um Esju og Smjörfjöll, sbr. mál nr. 3-4/2004 og svæði 4 og 2-3/2005 á svæði 5, en þar hafi því verið hafnað að slík atriði ein og sér leiði til frávika frá þeirri meginreglu að landamerkjabréf jarðar afmarki eignarland.  Afstaða óbyggðanefndar að þessu leyti liggi þannig fyrir og er staðhæft að fyrirliggjandi dómar Hæstaréttar gefi ekki tilefni til stefnubreytingar.  Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir nánar um eignarréttarlega stöðu landsvæðis Hjaltadals:

Af hálfu íslenska ríkisins er byggt á því að hluti af því landsvæði sem afmarkað er í landamerkjabréfi Hjaltadals hafi stöðu afréttar að lögum.  M.a. er byggt á því að Hjaltadalur hafi frá ómunatíð verið notaður sem afréttarland ásamt Bleiksmýrardal og Timburvalladal sem Suðurafréttur Fnjóskdæla. Hjaltadalur og Kambfellskjálki liggja að öðrum jörðum til allra átta nema suðvesturs.  Þar er Bleiksmýrardalur sem óbyggðanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að sé eignarland sbr. kafla 6.6.  Heimildir þær um afréttarnot í Hjaltadal sem íslenska ríkið byggir á benda til þess að hluti þess lands sem nú er gerð krafa til vegna Hjaltadals og Kambfellskjálka hafi í gegnum tíðina verið nýtt sem afréttur.  Heimildirnar gefa til kynna að sú nýting hafi farið fram undir stjórn eigenda Hjaltadals sem innheimt hafi afréttartolla af þeim sem rekið hafi á afréttinn.  Til marks um það er jarðamatið 1804 sem segir um Hjaltadal:  „Árstekjur af „afrétt“ eru 1 ríkisdalur og 32 skildingar.“  Ekki eru fyrir hendi heimildir um sjálfstæða afmörkun á afrétti innan merkjalýsingar Hjaltadals og slíka afmörkun leiðir ekki heldur af staðháttum.  Þá eru ekki heimildir um að eignarréttarleg staða þess hluta Hjaltadals sem nýttur var sem afréttur hafi verið önnur en annarra hluta Hjaltadals.  Afréttarlandið virðist því hafa tilheyrt jörðinni með sama hætti og annað land hennar.  Svo virðist sem það hafi fyrst verið eftir að Hjaltadalur lagðist í eyði og komst í eigu Hálshrepps á 20. öld sem nýting alls lands jarðarinnar fór að einskorðast við afréttarnot.

Að framangreindu virtu telur óbyggðanefnd ekki sýnt fram á að land innan landamerkjabréfs Hjaltadals hafi að einhverju leyti haft stöðu afréttar að lögum og að umræddar heimildir endurspegli fremur beitarnot á hálendari hlutum jarðarinnar.  Skal í þessu sambandi sérstaklega vísað til almennrar umfjöllunar óbyggðanefndar um hugtökin jörð og afréttur, sbr. einkum kafla 4.4. og 4.5. í viðauka með úrskurði þessum.

Að öllu framangreindu virtu verður lagt til grundvallar að jörðin Hjaltadalur, eins og hún var afmörkuð áður en Kambfellskjálka var skipt út úr henni, hafi verið byggð og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Innan þeirra marka sem tilgreind eru 1883, svo sem þeim er nánar lýst hér framar, hafa eigendur jarðanna farið með umráð og hagnýtingu og gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt.  Ekki verður annað séð en að þetta eignarhald hafi verið án ágreinings eða athugasemda.  Engar heimildir eru um að land innan marka jarðanna hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og verða staðhættir, gróðurfar eða nýtingarmöguleikar ekki taldir hafa úrslitaáhrif í því sambandi.  Enda þótt nýting heiðarlands jarðanna hafi eðli málsins samkvæmt verið takmarkaðri en láglendishlutans leiðir það eitt og sér ekki til neinnar eignarréttarlegrar aðgreiningar.  Þá verður fyrirkomulag smölunar á þessu svæði ekki talið hafa eignarréttarlega þýðingu.

Af hálfu íslenska ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á að land innan tilgreindra landamerkja Hjaltadals og Kambfellskjálka sé þjóðlenda.  Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.471  Með vísan til sama ákvæðis ber jafnframt að taka skýrt fram að í umfjöllun óbyggðanefndar felst ekki afstaða til merkja á milli eignarlanda.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að land Hjaltadals og Kambfellskjálka, svo sem því er að framan lýst, teljist ekki til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.

 

c) Umfjöllun óbyggðanefndar um Bleiksmýrardal.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að Fnjóskadalurinn skiptist frá fornu fari í Út-Fnjóskadal og Fram-Fnjóskadal, en að hinn síðarnefndi skiptist í þrjá fjalladali, Bleiksmýrardal vestast, en Fnjóská kemur úr honum og heldur nafni sínu til upptaka.  Þar austan við séu Hjaltadalur og Timburvalladalur.

Í úrskurði óbyggðanefndar eru tíundaðar heimildir um hið umþrætta landsvæði.  Greint er m.a. frá því að Munkaþverárklaustur í Eyjafirði hafi fyrr á öldum haft selstöðu á Bleiksmýrardal, væntanlega austanverðum, inn frá jörðinni Tungu.  Bent er á að í skrá yfir eignir Munkaþverárklausturs frá 1446 sé Bleiksmýrardals ekki getið sérstaklega sem eignar, en að meðal reka og ítaka klaustursins segi aftur á móti:  „Manaðar halld òllu fé annat mal j bleiks myrar dal ok þriggia tigu geldneyta Rekstur,“.  Bent er á að í biskupavísitasíum sé getið réttinda klaustursins á dalnum vestan Fnjóskár og sé það í samræmi við yngri heimildir.  Er ályktað af þessu að klaustrið hafi haft selstöðu á Bleiksmýrardal og nýtt landið beggja vegna Fnjóskár á seljatíma.

Í úrskurði segir að fyrsta heimildin um ofangreind réttindi sé þegar Halldór Loftsson prestur gaf Grundarkirkju í Eyjafirði þann 8. desember 1403: „lx. yxnaRekstur j bleiksmyrardal.“  Bent er á að réttindi Munkaþverárklausturs á dalnum koma einnig fram í máldagabók Ólafs Rögnvaldssonar frá 1461 og í Sigurðarregistri frá sextándu öld.  Í fyrri heimildinni segir að klaustrið eigi í Fnjóskadal:  „bleiksmyrardalr allr firir avstan aa. jardareign med ollum gædvm a mille soluagils oc seyru þeirrar sem ofan fellr vm mitt brunagerde.“  Í síðari heimildinni sé í stað Brúnagerðis sagt Hraungerði. 

Í úrskurði óbygðanefndar er bent á að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 segi um Munkaþverárklaustur:  „Afrjettarland liggur undir klaustrið, Bleiksmýrardalur austan framm, er liggur fram frá Fnjóskadal.  Þángað er rekið á sumur hross, og hefur so áður venja verið.“  Bent er á að í nefndri heimild segi í umfjöllun um Illugastaði í Fnjóskadal: „Afrjettarland á kirkjan eður jörðin fram úr Fnjóskadal hálfan Bleiksmýrardal fyrir framan klausturlandið. Engin not hefur nú jörðin þessa afrjettar, en ýmsir láta þángað hesta sína í leyfisleysi.“

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að ekki verði séð að Jarðabókin minnist á nýtingu klausturjarða á Bleiksmýrardal og sé hið sama að segja um sýslu- og sóknarlýsingar Eyjafjarðarsýslu, sem gerð hafi verið um 1840.  Aftur á móti hafi það komið fram á máldagsþingi að Hálsi þann 30. maí 1722 að sýslumaður hafi boðið íbúum Fnjóskadals Munkaþverárklausturs „afréttardali“ fyrir billegan lambatoll, nefnilega hálfan Bleiksmýrardal, Timburvalladal og Hjaltadal:  „Hvar til allir sameiginlega svöruðu að þeir lambatollana fyrir næstliðið og komandi ár við sýslumanninn ánægjanlega forlíka vilja.“

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að samkvæmt útdrætti úr úttektabók vesturhluta Munkaþverárklaustursjarða, sem lagður hafi verið fram í aukarétti á Grund í Eyjafirði 26. janúar 1825, sé getið um „afréttarland“ á Bleiksmýrardal sem liggi næst klausturjörðinni Tungu í Fnjóskadal, en að vegna náttúrlegra orsaka hafi enginn notað það í langan tíma. Er skráð að Gunnlaugur Briem sýslumaður hafi vottað að uppskriftin hafi verið samhljóða frumritinu.

Í úrskurðinum er vikið að umsókn Höskulds Jónssonar til rentukammers frá miðbiki 19. aldar um að mega byggja á Bleiksmýrardal.  Segir frá því að af þessu tilefni hafi farið fram útmæling og álitsgjörð yfir part Munkaþverárklausturs á Bleiksmýrardal.  Segir frá því að við áreiðargerð hafi mætt m.a. Kristján Jónsson á Illugastöðum, sem umboðsmaður hafi talið gagnkunnugan og haft vilja til þess að taka tillit til þess að Kristján meinti sig hafa einhvern rétt til Bleiksmýrardals að austanverðu.  Hafi land fyrir framan Hamarslæk verið kannað en þar hafi hluti Munkaþverárklausturs verið álitinn byrja.  Segir frá því að á svonefndri Bleiksmýri hafi engin afgerandi hindrun móti nýlendubyggingu fundist, en þar hafi túnstæði, slægjuland, bæjarstæði, vatnsból, velta til byggingarinnar verið fyrir hendi og ekki stórkostleg snjóflóðahætta úr fjallinu fyrir ofan.  Þá hafi vegurinn frá byggð og fram á Bleiksmýri verið álitinn 3 mílur, en mjög tæpur og hættulegur víða, svo að ófært mátti álíta með flutning, en illskárra hafi virst að vestanverðu við Fnjóská.  Segir frá því að umboðsmaðurinn hafi látið bóka að þó að nýlendustofnun væri möguleg á þessum stað, væri hún samt óstofnandi fyrir fátækling, sem ekki kynni almennustu og mest áríðandi sveitar- og landvinnu.  Var það álit áreiðarmanna að ógerandi væri að reyna nýbyggingu á Bleiksmýrardal nema fyrir efna- og dugnaðarmenn vegna afstöðunnar, einkum vegalengdar og erfiðleika frá mannabyggð.  Fékk nefndur Höskuldur Jónsson afsvar við beiðni sinni árið 1842.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að Illugastaðir í Fnjóskadal hafi verið meðal þeirra jarða sem konungur seldi Henrik Bjelke þann 3. apríl 1674.  Þá hafi á manntalsþingi á Hálsi þann 1. júní 1844 verið lesin lögfesta fyrir jörðinni ásamt hjáleigum og Bleiksmýrardal austan Fnjóskár.  Sagt er frá því að Bjarni Guðmundsson í Tungu hafi haft uppi mótmæli varðandi landspartinn á milli Sölvagils og Seyru, en að öðru leyti er inntaks lögfestunnar ekki getið.  Þá er þess getið að nefndur Bjarni í Tungu hafi á manntalsþingi á Hálsi 22. maí 1849 lesið upp friðlýsingu á landi Tungu og Bleiksmýrardals austanverðs, en að auki hafi þá verið lesin upp sættargerð milli hans og séra Jóns Kristjánssonar í Ysta-Felli um sameiginleg „afréttarnot“ á austanverðum Bleiksmýrardal.  Skráð er að prestur hafi mótmælt friðlýsingunni að því leyti sem hún hafi strítt gegn umræddri sættargerð.

Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá því að árið 1850 hafi umboðsmaður Munkaþverárklausturs, Ari Sæmundsson, ætlað að bjóða afréttarlandið upp til leigu á manntalsþingi.  Segir að tilefnið hefði verið að umboðsmaðurinn hefði fengið pata af því að hálfur Bleiksmýrardalur hefði verið seldur með Illugastöðum og hafi hann tilkynnt það amtmanni, sem hafi skipað honum (samkvæmt tillögu umboðsmanns) að leigja dalinn í 5 ár.  Sagt er frá því að eigandi Illugastaða, Þuríður Aradóttir, hafi gert forboð gegn þessum áformum með vísan til þess að hún hefði keypt landið með jörðinni Illugastöðum og hafi hún lagt fram afsalsbréf því til sönnunar.  Eigandi Illugastaða hefði þá „samqvæmt Sigurdarregistri“ lögfest Bleiksmýrardal fyrir austan Fnjóská og allt land milli Sölvagils og Seyru, sem féll ofan um mitt Brúnagerði árið 1844.  Ekki náðust sættir í málinu og stóðu málaferli vegna þessa yfir árin 1850-1855.  Fór deilan m.a. tvisvar fyrir Landsyfirrétt.  Urðu lyktir að lokum þær að Landsyfirréttur staðfesti dóm undirréttar í máli Illugastaðamanna gegn Munkaþverárklaustri.  Segir í forsendum dómsins að áfrýjendur hafi ekki fært rök að því að Munkaþverárklaustur hafi eignast Bleiksmýrardal ásamt jörðinni Illugastöðum.  Segir að þvert á móti séu allar líkur fremur fyrir því að klaustrið hafi eignast dalinn austan Fnjóskár með sérstakri heimild.  Er þar um vísað til áðurrakins máldaga Ólafs Rögnvaldssonar og Sigurðarregisturs.

Í nefndu dómsmáli, nr. 1/1855, segir Landsyfirrétttur nánar um hið umþrætta landsvæði: „Afrjettarlandið Bleiksmýrardalur allur fyrir austan Fnjóská frá Hamarslæk og sudur á öræfi, á ad tilheyra Múnkaþverár klaustri, sem fullkomin og átölulaus eign, og eigindómur þess.“  Rétturinn breytti hins vegar niðurstöðu undirréttar varðandi upprekstrarrétt eigenda Illugastaða á Bleiksmýrardal, en í dómsorðinu segir:  „Illugastaða menn eiga upprekstur á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár fyrir geldfénað sinn á sumrum ókeypis.“

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá því að í maí 1878 hafi verið samin lýsing á umboðsjörðum Munkaþverárklausturs í Hálshreppi.  Komi þar fram sú umsögn um Bleiksmýrardal austan Fnjóskár, en framan við Hamarslæk, að þar sé allmikið „afréttarland“ og sé það álitið vera góður „afréttur“.  Þá segi í lýsingunni að á sumrin sé dalurinn ekki ofsettur þó að þar gangi 20 trippi og 800-900 fjár, en af þeim sökum sé talið að hækka mætti leiguna úr 12 krónum í 24 krónur.

Samkvæmt gögnum er Bleiksmýrardals getið í lýsingu á býlinu Tungu og m.a. sagt frá heyskap langt fram á dalnum og að með mikilli fyrirhöfn megi ná þaðan um 100 hestum heys.

Í niðurstöðukafla í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til framangreindra heimilda, en í framhaldi af því er vikið að eignarréttarlegri stöðu Bleiksmýrardals austan Fnjóskár:

Óbyggðanefnd telur í úrskurði sínum að ljóst sé að beinn eignarréttur hafi verið til úrlausnar í nefndum dómi Landsyfirréttar ásamt þeim takmörkuðu eignarréttindum sem eigendum Illugastaða voru dæmd.  Þannig liggur fyrir úrlausn þar til bærs yfirvalds samkvæmt réttarskipan þess tíma um eignarréttarlega stöðu Bleiksmýrardals austan Fnjóskár.  Eins og hér stendur á telur óbyggðanefnd að líta verði á dóm þennan sem bindandi um úrslit sakarefnisins.  Krefjendur beins eignarréttar í máli því sem hér er til úrlausnar leiða rétt sinn frá Stjórnarráðinu sem seldi Hálshreppi Bleiksmýrardal 29. september 1919.  Nefndin telur að dómurinn hafi vakið réttmætar væntingar dómhafa um að beinn eignarréttur þeirra væri fyrir hendi og nyti viðurkenningar og verndar opinbers valds.  Þjóðlendukröfugerð íslenska ríkisins nú fær ekki samrýmst því, sbr. dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, þar sem fjallað er um Tunguheiði og úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 2/2005 þar sem fjallað er um Laugavelli.

Til afmörkunar þess hluta Bleiksmýrardals sem dæmt er um í málinu er ekki tekin afstaða í dómnum að öðru leyti en því sem áður greinir, þ.e. „fyrir austan Fnjóská frá Hamarslæk og suður á öræfi“.  Eftir stendur að leysa úr um afmörkun eignarlands á Bleiksmýrardal til suðurs og austurs.

Kemur þá fyrst til skoðunar hver sé afmörkun eignarlands á Bleiksmýrardal til suðurs.  Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið „öræfi“ eyðimörk, óbyggðir eða ónytjað hálendi lands.  Ekki er fram komið við skýrslutökur eða í gögnum málsins að orðið „öræfi“ taki til staðbundins kennileitis á þessum slóðum sem örnefni.  Ekki er heldur fram komið að um staðbundna málvenju sé að ræða um notkun orðsins.  Óbyggðanefnd telur að í þeim heimildum sem talað er um að Bleiksmýrardalur austan Fnjóskár takmarkist að sunnanverðu við „öræfi“ feli notkun orðsins í sér skírskotun til gróðurfars og nýtingarmöguleika.  „Afréttarlandið“ Bleiksmýrardalur hafi náð svo langt suður sem það var nýtilegt sem beitiland.  Það kemur heim og saman við byggingarbréf til Sigtryggs Jónatanssonar vegna Tungu og hálfs Bleiksmýrardals frá 19. júní 1911 þar sem fram kemur að afréttarland umboðsins á Bleiksmýrardal nái „eins langt suður og drög og teygjur“.  Mat á því hvar gróður hafi þrotið árið 1855 þegar dómur Landsyfirréttar féll er eðli málsins samkvæmt erfiðleikum bundið.  Í greinargerð náttúrufræðings um staðhætti og gróðurfar á svæðinu sem gerð var að tilhlutan óbyggðanefndar kemur fram að „gróðurteygingar“ nái upp í 650–700 m hæð í Bleiksmýrardalsdrögum.

Í vitnisburðum sem fram komu í máli því sem lauk með fyrrnefndum dómi Landsyfirréttar Íslands var borið um að land Bleiksmýrardals hefði náð dalinn á enda fram á „Sanda“.  Í örnefnaskrá fyrir Bleiksmýrardal kemur fram að „Sandar heiti einu nafni dalurinn sunnan við Svartá.“  Frá ósi Svartár þar sem hún fellur í Fnjóská eru um 17 km í beinni loftlínu suður að mynni Fremra-Landsuðurgils þar sem gangnamannakofinn Bleiksbúð stendur í um 700 m hæð.

Sunnan Bleiksbúðar og Fremra-Landsuðurgils er Einstakatorfa.  Í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1933-1936 kemur fram að Einstakatorfa sé „allstór jarðvegshnaus, sem staðizt hefur stormhrynur aldanna og sómir sér prýðilega þarna í draginu.  Mun hún vera um þrjár dagsláttur að flatarmálsstærð.  Það virðist vera óskráð lög meðal allra haustfjallgangnamanna, að fara aldrei lengra en á Einstökutorfu, nema kindur sjáist sunnar.“  Þá kemur fram í ritinu Göngur og réttir IV að Einstakatorfa sé „syðsti hagabletturinn á dalnum“.  Þar segir einnig um göngurnar: „Þar eru fremstu hagar á Bleiksmýrardal og er það regla gangnamanna, ef ekki sést til kinda á Einstökutorfu, þá er þar snúið við.“  Það að Einstakatorfa marki endimörk afréttarlandsins á Bleiksmýrardal til suðurs samræmist því sem fram kom við skýrslutökur í máli þessu fyrir óbyggðanefnd um tilhögun leita á svæðinu.  Samkvæmt því sem að framan er rakið ná gróðurteygingar á austanverðum Bleiksmýrardal ekki lengra til suðurs en Einstakatorfa en hún er í rúmlega 700 m hæð.  Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að gróður á svæðinu hafi náð lengra til suðurs um miðja 19. öld þegar dómur Landsyfirréttar féll.  Óbyggðanefnd telur því rétt að miða við að orðið „öræfi“ sem notað er í dómnum um sunnanverð mörk Bleiksmýrardals, taki til landsvæðisins sunnan Einstökutorfu og hún falli innan eignarlands Bleiksmýrardals og marki endimörk þess til suðurs.

Kemur þá til skoðunar hver séu takmörk eignarlands á Bleiksmýrardal til austurs.  Sem fyrr segir kemur ekki fram í dómi Landsyfirréttar hver þau séu.  Jörðin Hjaltadalur liggur austan Bleiksmýrardals að norðanverðu.  Í landamerkjabréfi Hjaltadals frá 16. janúar 1883 sem þinglýst var 14. júní 1884 er merkjum þeirrar jarðar til vesturs lýst svo: „Að vestan ræður Fjallið“.  Fjallgarðurinn sem skilur að dalina Hjaltadal og Bleiksmýrardal nær upp í um 1000 m hæð.  Ekkert er fram komið í málinu um afmörkun jarðarinnar Hjaltadals og eignarlands Bleiksmýrardals gagnvart fjallgarðinum annað en nefnt landamerkjabréf fyrir Hjaltadal.  Orðalagi þess svipar til þess sem oft má sjá í landamerkjabréfum þar sem jarðir ná saman á fjöllum og merki þeirra eru miðuð við fjöllin.  Óbyggðanefnd telur að sé orðalag bréfsins skýrt í ljósi staðhátta á svæðinu sé rétt að miða við að lönd Hjaltadals og Bleiksmýrardals liggi þar saman.

Sunnan Hjaltadals er hornmark milli kröfusvæða Bleiksmýrardals, Hjaltadals, Mjóadals og afréttarlands í Þingeyjarsveit á vatnaskilum í um 1000 m hæð á „hágrjóti“ sem svo er nefnt af gagnaðilum íslenska ríkisins. Óbyggðanefnd hefur aflað upplýsinga um vatnaskil á svæðinu frá Vatnamælingum Orkustofnunar.  Vatnaskil sem afmarka vatnasvið Fnjóskár í suðaustanverðum Bleiksmýrardal liggja um þann punkt á „hágrjóti“ sem gagnaðilar ríkisins miða við og þaðan til suðvesturs með nánar tilteknum hætti, víðast hvar í yfir 900 m hæð eftir gróðursnauðu fjalllendi.  Þar sem ekkert annað er komið fram í málinu sem frekar mætti leggja til grundvallar um afmörkun Bleiksmýrardals að þessu leyti og hún verður heldur ekki ráðin af staðháttum telur óbyggðanefnd rétt að miða við umrædd vatnaskil.  Með því njóta gagnaðilar íslenska ríkisins þess vafa sem uppi er um hver takmörk eignarlandsins séu að þessu leyti.  Sú niðurstaða fær einnig stuðning af því að í landamerkjabréfi Mjóadals frá 8. maí 1897 sem þinglýst var 29. júní 1897 er merkjum Mjóadals gagnvart aðliggjandi landsvæðum til vesturs lýst á þann veg að vatnaskil ráði frá „hágrjóti“ til norðurs.

Að þeirri niðurstöðu fenginni að suðurmörk Bleiksmýrardals skuli dregin sunnan Einstökutorfu og sunnanverð austurmörk hans liggi á vatnaskilum liggur nú fyrir að leysa úr því hvar mörk eignarlands á austanverðum Bleiksmýrardal skuli dregin þar á milli, þ.e. frá Einstökutorfu að vatnaskilum.  Sunnan Einstökutorfu er gil og eftir því rennur lækur vestur í Fnjóská. Þar sem ekkert annað er komið fram í málinu sem fremur má leggja til grundvallar um afmörkun eignarlands á Bleiksmýrardal að þessu leyti verða mörk þess dregin stystu leið frá upptökum lækjarins í vatnaskil. þ.e. á hágrjóti um vatnaskil vatnasviða Fnjóskár og Mjóadalsár.  Lokaorðin í úrskurðinum um álitaefnið eru þessi:

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu íslenska ríkisins að land innan marka Bleiksmýrardals, svo sem þeim hefur verið lýst hér að framan, sé þjóðlenda.  Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé eignarland, án þess þó að tekin sé afstaða til þess hver fari með þau eignarréttindi, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998.473  Með vísan til sama ákvæðis ber jafnframt að taka skýrt fram að í umfjöllun óbyggðanefndar felst ekki afstaða til merkja á milli eignarlanda.

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi, íslenska ríkið, byggir kröfu sína um ógildingu úrskurðarins á því að svæði þau sem hér um ræðir og kröfugerð hans nær til, teljist landsvæði utan eignarlanda og séu því þjóðlendur, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefnandi m.a. ljóst af heimildum, að landsvæðin hafi aldrei verið undirorpin beinum eignarrétti og að nýting þeirra hafi ekki verið með þeim hætti.  Stefnandi reisir kröfur sínar og á því að sönnunarbyrðin hvíli ótvírætt á stefndu að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að nefndum svæðum, og rökstyður kröfur sínar til einstakra jarða og landsvæða svo sem hér á eftir verður rakið.

 

Málsástæður er varða Mjóadal.

Stefnandi bendir á að fyrstu heimildina um Mjóadal sé að finna í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 og þá í umfjöllun um nágrannajörðina Mýri.  Segir þar frá því að Mjóadalssvæðið sé „almenníngs afrjettur Bárðardalshrepps fyrir vestan [Skjálfandafljót] út að Djúpá, so sem sómast, hefur og brúkast til uppreksturs fyrir lömb og geldfje“.  Byggir stefnandi á því að af þessari lýsingu megi ráða, að Mjóadalssvæðið hafi verið talið til afréttarsvæða, sem nýtt hafi verið sameiginlega af jörðum á svæðinu. Telur stefnandi lýsingu Jarðabókar skýra og ótvíræða að þessu leyti.

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að ekki verði með réttu fallist á beint eignarréttartilkall til umrædds landsvæðis, en í þeirri afstöðu felist að hann fallist ekki á merkjalýsingu í landamerkjabréfi jarðarinnar Mjóadals frá 8. maí 1897.  Vísar stefnandi um þessa afstöðu sína til almennra sönnunarsjónarmiða í málum sem þessum og að draga beri sönnunargildi landamerkjabréfs í efa njóti það ekki stuðnings í eldri heimildum.  Stefnandi staðhæfir að eina eldri heimildin sem um svæðið fjalli, fyrrgreind lýsing Jarðabókarinnar, vísi til svæðisins sem sameiginlegs afréttarsvæðis.  Verði þannig ekki séð að merki landamerkjabréfsins innan kröfulínu stefnda hafi stoð í eldri heimildum, einkum hvað varðar merki til suðurs og vesturs.  Telur stefnandi að slíkur skortur á stuðningi af eldri heimildum dragi verulega úr sönnunargildi bréfsins.

Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.  Þá verði við mat á sönnunargildi fyrrgreinds landamerkjabréfs að horfa til þess, að ekki verði séð að það hafi fullnægt þeim skilyrðum sem til slíkra bréfa voru gerð samkvæmt eldri landamerkjalögum frá 1881.  Verði m.a. ekki séð að bréfið hafi verið áritað um samþykki eigenda allra aðliggjandi jarða og svæða.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að áðurrakin „skrá yfir Afréttarlönd suður af Bárðardal vestan Skjálfandafljóts bendi ótvírætt til þess, að um afréttarsvæði hafi verið að ræða, utan eignarlanda.  Þá vísar stefnandi sérstaklega til áðurrakinnar merkjalýsingar jarðarinnar Sörlastaða.  Nefnd jörð liggi norðan umrædds Mjóadalslands, en samkvæmt landamerkjabréfi hennar frá 19. apríl 1884 séu suðurmörkin sögð vera „eyðigrjót og sandar“.

Stefnandi bendir á að þótt heimildir greini frá því að búið hafi verið á svæðinu, þá hafi sú búseta staðið stutt yfir eða frá því um 1812-1894.  Slík skammvinn búseta geti ekki talist renna stoðum undir beinan eignarrétt að svæðinu, enda verði ekki séð að til þeirrar búsetu hafi verið stofnað á grundvelli beins eignarréttar.

 

Málsástæður er varða Sörlastaði og Timburvalladal.

Stefnandi dregur ekki í efa að Sörlastaðir hafi haft stöðu jarðar að lögum, en bendir á að ekki verði talið að lýsing í landamerkjabréfi jarðarinnar nái lengra til suðurs en að Pílagrímsfjalli (við upptök Syðri-Bótarár) að austan og að botni Timburvalladals að vestan, og sé kröfugerð hans við það miðuð.  Þá er það álit stefnanda að lýsing suðurmarka bréfsins („eyðigrjót og sandar“) sé svo óljós að ekki verði á henni byggt, heldur verði að miða suðurmörk jarðarinnar við lýsingu merkja að vestan og austan.  Um þetta vísar stefnandi m.a. til þeirra sönnunarreglna sem mótast hafi á undanförnum árum í málum sem þessum, m.a. í niðurstöðum Hæstaréttar, einkum að því er varðar sönnunargildi landamerkjabréfa, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins nr. 1969/510, en þar hafi verið talið að ekki væri unnt að byggja á óljósum merkjalýsingum heimildarbréfa.

Stefnandi byggir á því að við mat á gildi landamerkjabréfsins verði að líta til þess að ekki verði séð að það hafi verið samþykkt vegna allra aðliggjandi jarða í suðri og austri, þ. á m. vegna Mjóadals, Mýrar og Halldórsstaða.  Bendir stefnandi á að almennt hafi verið litið svo á, að það drægi verulega úr gildi landamerkjabréfs fyrir jörð, hafi það ekki verið áritað um samþykki vegna aðliggjandi jarða eða svæða.

 

Með hliðsjón af öllu þessu álítur stefnandi að sönnunarbyrðin um merki jarðarinnar sunnan þjóðlendukröfulínu stefnanda hvíli alfarið á herðum stefndu, eigendum Sörlastaða.  Verði ekki séð, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, að sú sönnun hafi tekist.

 

Málsástæður vegna Hjaltadals ásamt Kambfellskjálkalandi.

Af hálfu stefnanda er hafnað lýsingu í landamerkjabréfi Hjaltadals umfram kröfulínu, þ.e. sunnan og vestan hennar.  Er á því byggt af hálfu stefnanda, að merki jarðarinnar til suðurs og vesturs séu verulega óljós (að „vestan ræður fjallið“, að „sunnan eru öræfi“), sbr. ummæli óbyggðanefndar í úrskurði nefndarinnar hér að framan.  Af hálfu stefnanda er hins vegar alfarið hafnað þeim sjónarmiðum óbyggðanefndar, að miða beri við vatnaskil vatnasviða Hjaltadalsár og Fnjóskár við mat á merkjum Hjaltadals auk Kambfellslands til vesturs og suðurs.  Að áliti stefnanda er eðlilegra að miða mörkin við upptök Timburvallaár að sunnan og til norðurs að upptökum Austurkróksár (austustu drög hennar).  Telur stefnandi það m.a. í samræmi við lýsingar annarra jarða á Norðurlandi, sem almennt miða merki við vatnsföll.  Verði samkvæmt framansögðu að áliti stefnanda ekki séð að nokkur rök séu fyrir þeim merkjum sem dregin hafi verið upp af hálfu stefndu, Þingeyjarsveitar, enda sé ekki að finna stuðning fyrir þeim í eldri heimildum sem um svæðið fjalla.

Með vísan til ofangreinds er af hálfu stefnanda fallist á beint eignarréttartilkall til svæðisins norðan og austan kröfulínu, en hins vegar hafnað tilvist beins eignarréttar sunnan og vestan umræddrar þjóðlendukröfulínu.

Af hálfu stefnanda er áréttað að engar eldri heimildir renni stoðum undir beint eignarréttartilkall innan kröfulínu stefnanda.  Telur stefnandi að í samræmi við almenn sönnunarsjónarmið á þessu réttarsviði hljóti heimildarskortur auk óskýrrar lýsingar landamerkjabréfs að draga verulega úr sönnunargildi bréfsins.  Í því sambandi beri að horfa til fortakslauss skilyrðis í eldri landamerkjalögum frá árinu 1882, þar sem kveðið sé á um í 3. gr. þeirra, að eigandi eða umráðamaður hverrar jarðar sé skyldur til að skrásetja „nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar, eins og hann veit þau réttust“.  Sams konar ákvæði sé að finna í 2. gr. núgildandi landamerkjalaga frá 1919 („glöggva skrá“).  Byggir stefnandi á því að um sé að ræða fortakslaust ákvæði um tilhögun merkjaskráningar og verði ekki talið að fyrrgreind lýsing suður- og vesturmerkja í landamerkjabréfi Hjaltadals feli í sér nákvæma eða „glöggva“ skráningu merkja.

Þá bendir stefnandi á að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.  Enn fremur verði við mat á sönnunargildi landamerkjabréfs Hjaltadals að horfa til þess, að ekki verði séð að það hafi verið samþykkt vegna svæða í suðri og vestri, þ. á m. vegna Bleiksmýrardals austan Fnjóskár og vestan Mjóadals.

Stefnandi bendir enn fremur á að heimildir greini almennt frá því að umrætt svæði, sunnan og vestan þjóðlendukröfulínu stefnanda, hafi verið afréttarsvæði utan eignarlanda.  Í Jarðabók sé Kambfells getið sem örnefnis á Hjaltadal, en þar segi m.a.:  „Kambfell heitir örnefni á Hjaltadal hinumegin árinnar.  Það eru munnmæli að þar hafi bygð verið í fyrndinni.  Engin sjást þess nú <merki>, nema fáeinar tóftaleifar ekki ólíkar fornu bæjarstæði.“

Stefnandi vísar jafnframt til leyfis Sveins Sölvasonar, lögmanns og Munkaþverárklausturshaldara, til handa Jóni Péturssyni á Reykjum til heyskapar á Timburvalladal 24. júní 1773.  Í leyfinu segir, að hann hafi orðið þess áskynja að einhverjir af klausturlandsetunum brúki slægjur og heytak á Timburvalladal sem liggi fram úr Fnjóskadal.  Þar sem hann viti ekki til þess að Timburvalladalur tilheyri nokkurri annarri jörðu heldur einungis Munkaþverárklaustri, þá leyfi hann Jóni á Reykjum að slá og heyja þar upp á nokkra hesta.  Leyfi þetta gefi Jóni þó ekki heimild til þess að banna öðrum nauðstöddum landsetum Munkaþverárklausturs að gera slíkt hið sama eftir tiltölu.  Þá vísar stefnandi til úttektar Þórðar Björnssonar sýslumanns 16. júlí 1819, þar sem segir m.a. að mestallt land „sem tilheyrir Jördunne Hjaltadal, liggur sudur frá bæ, frammeptir einsnefndum Dal, fyrir vestann ána“.  Bendir stefnandi á að samkvæmt þessum heimildum virðist eignarland Hjaltadals ekki hafa náð lengra til suðurs en að botni dalsins, við mynni Krókánna.  Stefnandi bendir jafnframt á að ástandi jarðarinnar hafi verið lýst af sérstökum álitsmönnum skipuðum af sýslumanni þannig:  „[…) sá litli heýskapur, sem kotinu tilheyrði á sokölludum Sláttugilsmýrum, og að ödru leyti beitar- og Afréttar-land þar frammfrá enn í austannverdum Kambfells hnjúk hafa ecki stór felldar Skridur falled.“  Þá bendir stefnandi á sóknarlýsingu Sigurðar Árnasonar, prests á Hálsi, þar sem segir m.a.:  „Fram af Fnjóskadal liggja til öræfa þrír afdalir sem fjöll aðskilja […]  Þeir eru hafðir fyrir afréttarlönd geldfjár og næst byggðum fyrir búsmala.“  Loks bendir stefnandi á virðingargjörð á jörðinni hinn 13. mars 1911, þar sem sagt sé að flest bendi til þess að jörðin leggist endanlega í eyði enda sé leitað kaups á jörðinni með það eitt fyrir augum, að Hálshreppur fái umráð þess „afréttarlands“ sem henni fylgi.  Sé til þess vísað að jörðin hafi legið í eyði síðast liðin þrjú ár og að á þeim tíma hafi án árangurs verið reynt að útvega ábúendur, en ástæðan sögð vera lega jarðarinnar og margs konar erfiðleikar, en þar sé m.a. óhemju veðrasamt.

Af hálfu stefnanda verður við mat á eignarréttarlegri stöðu landsvæðisins að horfa til þess að um sé að ræða öræfalandsvæði sem liggi nokkuð hátt, eða í um 500 metra hæð.  Syðst á svæðinu sé Austur-Króksfjall (939 m), auk þess sem svæðið sé fjarri byggðum bólum.  Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó virðist svæðið ekki hafa verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé.

Af hálfu stefnanda er hafnað þeim sjónarmiðum óbyggðanefndar, sem fram koma í úrskurði, að innheimta afréttartolla af hálfu landeigenda feli í sér nokkra sönnun um tilvist beins eignarréttar á svæðinu.  Telur stefnandi það þvert á móti benda ótvírætt til þess að svæðið hafi verið nýtt til sameiginlegra beitarafnota, þótt svæðið hafi, eftir atvikum, verið í beinni afréttareign Hjaltadals.

 

Málsástæður vegna Bleiksmýrardals austan Fnjóskár.

Af hálfu stefnanda er hafnað beinu eignarréttartilkalli stefnda til landsvæðisins, þ.e. á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár og sunnan Tungu.  Er á því byggt af hálfu stefnanda að þegar greinds svæðis sé getið í heimildum, sé þess jafnan getið sem afréttarsvæðis eða í tengslum við afréttar- eða beitarnot.  Þá séu engar heimildir eða sagnir til um nokkra búsetu á svæðinu og ekkert landamerkjabréf hafi verið gert fyrir það, hvorki á grundvelli eldri eða yngri landamerkjalaga.  Álit stefnanda hljóti að benda ótvírætt til þess að svæðið hafi ekki verið undirorpið beinum eignarrétti.

Að því er varðar dóm Landsyfirréttar Íslands frá 11. júlí 1855, í máli nr. 1/1855, er af hálfu stefnanda á því byggt að hann feli ekki annað í sér en staðfestingu á beinum afnotarétti (afréttareign) Munkaþverárklausturs á svæðinu, í samræmi við dómsorð Aukahéraðsréttar 25. nóvember 1853: „Afréttarlandið Bleiksmýrardalur allur fyrir austan Fnjóska frá Hamarslæk og suður á öræfi, á ad tilheyra Munkaþverár klaustri, sem fullkomin og átölulaus eign, og eigindómur þess.“  Álítur stefnandi að í umræddri tilheyrslu hafi ekki falist annað en tilheyrsla á fullkomnum afnotaréttindum.  Þá telur stefnandi að af forsendum dómsins verði ekki annað séð, en að þrætuefnið hafi snúist um það, hvort afréttarsvæðið hafi tilheyrt umræddum jörðum á grundvelli beinna og fullkominna afnotaréttinda.  Vísar stefnandi til þess að í dómnum hafi m.a. verið á það bent af hálfu Munkaþverárklausturs, að þar sem umrætt svæði lægi „öldungis aðskilið frá landareign Illugastaða“ væru allar líkur fyrir því að Munkaþverárklaustur „hafi eignast dalinn austan Fnjóskár með sérstakri heimild samkvæmt því, sem hér á landi var á þeim tímum alltítt, að klaustrin eignuðust ítök í landi og reka á ýmsum stöðum með sérstakri heimild að gjöf, kaupi eður á annan hátt ...“.  Þá vísar stefnandi til þess að sú staðreynd að hvorki sé kveðið á um mörk afréttarlandsins í dómnum né í öðrum heimildum hljóti að benda ótvírætt til þess, að um afréttarsvæði hafi verið að ræða sem ekki hafi verið undirorpið beinum eignarrétti.  Af hálfu stefnanda er því sérstaklega mótmælt að með dómnum hafi dómhafar öðlast réttmætar væntingar til eignarréttar á svæðinu á grundvelli dómsins.  Bendir stefnandi á að sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæðum utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð, nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Þá verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. að menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti átt mögulega rétt á.  Er því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.  Stefnandi áréttar að þar sem slíkur vafi sé um efni umrædds dóms Landsyfirréttar geti hann ekki einn og sér skapað grundvöll undir tilvist beins eignarréttar á svæðinu á grundvelli sjónarmiða um réttmætar væntingar.  Í þessu sambandi bendir stefnanda m.a. á sölu Stjórnarráðsins hinn 29. september 1919 þar sem Hálshreppi hafi verið selt „afréttarlandið“ Austur-Bleiksmýrardalur fyrir 300 krónur.  Að áliti stefnanda bendir þetta til þess að báðir aðilar hafi litið á svæðið sem afréttarsvæði utan eignarlanda.

Af hálfu stefnanda er á því byggt, að heimildir, eldri sem yngri, vísi almennt til svæðisins sem afréttarsvæðis eða í tengslum við afréttarnot.  Um þetta vísar stefnandi m.a. til gjafabréfs Halldórs Loftssonar prests til Grundarkirkju Eyjafirði 8. desember 1403. „1x. yxnaRekstur j bleiksmyrardal“.  Enn fremur segi um Munkaþverá í Jarðabókinni, að afréttarlandið Bleiksmýrardalur liggi undir klaustrið, „[þ]ángað er rekið á sumur hross, og hefur so áður venja verið“.  Svipuð umsögn sé um svæðið í umfjöllun Jarðabókarinnar um Illugastaði.  Þá bendir stefnandi á að heimildir greini frá því að svæðið hafi verið nýtt til sameiginlegra afréttarnota, en þangað hafi verið rekið af ýmsum jörðum í sveitinni, en að auki hafi fjallskil þar verið sameiginleg.  Loks verði til þess að horfa að svæðið sé í landfræðilegum tengslum við afréttarsvæði að austan og vestan Fnjóskár.

Að áliti stefnanda verður við mat á eignarréttarlegri stöðu svæðisins að líta til þess, að það sé ekki í landfræðilegum tengslum við heimajörðina, Munkaþverá.  Þar skilji fjölmargar jarðir í milli, auk þess sem Munkaþverá sé í annarri sýslu, Eyjafjarðarsýslu.  Hafi almennt verið litið svo á af hálfu dómstóla, að þegar svo hátti til þá bendi það ótvírætt til þess að um sé að ræða svæði utan eignarlanda.

Af hálfu stefnanda er sjónarmiðum óbyggðanefndar, sem stefndu vísi til, um afmörkun svæðisins alfarið hafnað.  Telur stefnandi að ekki verði séð að nokkur efnisleg rök hafi verið færð fram fyrir afmörkuninni.  Telur stefnandi að horfa verði til þess að svæðið sé að meginstefnu hálent svæði og gróðursnautt, m.ö.o. öræfalandsvæði, enda hafi þar aldrei verið byggð svo vitað sé.  Falli því svæðið undir merkingu orðsins „öræfi“, þ.e. óbyggðir eða ónytjað hálendisland.  Í þessu sambandi bendir stefnandi á lýsingu í landamerkjabréfi Hjaltadals, þar sem um suðurmörk sé vísað til öræfa, en af hálfu óbyggðanefndar séu þau mörk þó talin liggja mun norðar en nefndin telji öræfi á Bleiksmýrardal liggja.

Af hálfu stefnanda er sérstaklega vísað til þess að fyrrnefndur dómur Landsyfirréttar verði ekki talinn eignardómur í skilningi núgildandi laga um meðferð einkamála, sbr. 17. kafla þeirra.  Um hafi verið að ræða ágreiningsmál milli tveggja aðila, og því hafi það ekki verið á forræði dómsins að skera úr um beinan eignarrétt, enda hafi honum ekki verið til að dreifa á þeim tíma sem að til ágreiningsins var efnt.  Af eðli málsins leiðir að hagsmuna sem lutu að hinum beina eignarrétti hafi ekki verið gætt af hálfu annarra en málsaðila.  Áréttað er að ágreiningur aðila í málinu hafi lotið að því hvorum hafi borið réttur til afréttarnota, eða eftir atvikum fullkominna afnotaréttinda, og tekna af slíkum réttindum.  Standi engar líkur til þess að svæðið, sem var talið tilheyra Munkaþverárklaustri, hafi þá eða síðar lotið beinum eignarrétti í skilningi laga nr. 58, 1998.

 

Stefnandi mótmælir niðurstöðum í úrskurði óbyggðanefndar að öðru leyti, og þar með málsástæðum stefndu, en leggur áherslu á eftirfarandi atriði í röksemdum fyrir þjóðlendukröfum sínum í málinu í heild.

Stefnandi byggir á því að umrædd landsvæði hafi ekki verið numin í öndverðu.  Hvorki Landnáma né aðrar heimildir sýni fram á slíkt nám. Að mati stefnanda verði í þessu sambandi að horfa til staðhátta og gróðurfars, en þau atriði styðji ekki að landið hafi verið numið.  Þetta sé í samræmi við þá reglu sem ráðin verður af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess að álitið verður ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. m.a. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 66/1996 (Auðkúluheiði) og 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði), og því hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi henni fram.

Stefnandi bendir á að ekki verði annað séð en að réttur stefndu til hins umdeilda landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

Stefnandi bendir á að verði talið að umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð voru beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og 27/2007 (Grænafjall).

Verði hins vegar talið að svæðið kunni að hluta eða öllu leyti að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefnandi á til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota, sbr. fyrri umfjöllun hér að framan.  Og þó að talið verði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

Stefnandi bendir á og ítrekar að staðhættir og gróðurfar styðji ekki beinan eignarrétt á svæðinu, enda sé landið hálendissvæði sem liggi langt frá byggðum bólum.  Þá liggi svæðin með beinum hætti að miðhálendi Íslands.

Stefnandi vísar til þess að fyrirliggjandi heimildir, eldri sem yngri, sýni ekki fram á frekari nýtingu landsins en til upprekstrar og afréttarnota.  Þá sýni gögn málsins fram á að fjallskil hafi verið gerð sameiginlega á svæðinu.

Stefnandi áréttar að hann hafni því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á svæðinu og bendir í því sambandi á Landmannaafréttardóm Hæstaréttar hins síðari.

Stefnandi hafnar því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti, gróðurfar og eldri heimilda.  Áréttar hann að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en í besta falli sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. m.a. til hliðsjónar fyrrnefnda dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47 og 48/2004.

Stefnandi bendir á að hvað varði almennar lýsingar í landamerkjabréfum þá verði við mat á gildi þeirra að gæta að því, að þau fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan tilgreindra merkja skuli vera óskorað eignarland.  Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á.  Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað.  Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. m.a. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

Með vísan til lýstra málsástæðna er af hálfu stefnanda á því byggt að hin umræddu landsvæði séu utan eignarlanda og því þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998.

Um lagarök er af hálfu stefnanda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58/1998.  Stefnandi vísar til 72. greinar stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944, en jafnframt til meginreglna eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglna um eignarráð fasteignareigenda, almennra reglna samninga- og kröfuréttar og hefðarlaga nr. 14, 1905, svo og til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6, 1986.  Þá vísar hann til ýmissa eignarréttarreglna í Grágás og Jónsbók.  Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

 

Málsástæður og lagarök stefndu.

Af hálfu stefndu er sjónarmiðum og röksemdum stefnanda hér að framan mótmælt, en rökum stefndu um einstök landsvæði og jarðir verður lýst hér á eftir.

 

Málsástæður vegna Mjóadals.

Af hálfu stefnda Þingeyjarsveitar er byggt á landamerkjabréfi Mjóadals frá 8. maí 1897, þinglýstu 29. júní sama ár, en jafnframt byggir stefndi á öðrum skráðum eignarheimildum og þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða og landsvæða.  Stefndi bendir á að samkvæmt landamerkjalögum nr. 5, 1882 og 41, 1919 hafi opinberum aðilum verið falið að hafa frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarða, að þau væru skráð og að leyst yrði úr ágreiningi væri hann fyrir hendi.  Vísar stefndi til þess að þær landamerkjalýsingar sem gerðar hafi verið í kjölfar setningar landamerkjalaga 1882 hafi víða verið byggðar á eldri heimildum, svo sem lögfestum, máldögum og eldri landamerkjabréfum.  Þetta eigi við land Mjóadals.  Stefndi bendir á að þessum lýsingum hafi verið gefið aukið vægi með þinglýsingum og eftirlitsskyldu valdsmanna.  Leiði þetta til þess að þarna hafi orðið til fullkomnar heimildir um landamerki og jafnframt eignarrétt þinglýstra eigenda.  Í samræmi við fyrri niðurstöður óbyggðanefndar hvíli því sönnunarbyrðin um inntak eignarréttar á landsvæðinu á ríkisvaldinu.  Þá sé skilyrðum hefðar fullnægt.  Landeigendur hafi farið með öll hefðbundin eignarréttindi sem m.a. hafi lýst sér í því að þeir hafi getað bannað öðrum not landsins og enn fremur hafi öll nýting verið háð leyfi frá þeim.

Af hálfu stefnda er á því byggt að eignarheimild hans á umþrættu landsvæði hafi frá upphafi verið talin gild í viðskiptum manna og því byggi eignarhaldið á viðskiptavenju.  Telur stefndi að það fái ekki samrýmst grundvallarreglu réttarríkisins um réttaröryggi að haft sé að engu réttmætt traust manna í lagalegri þýðingu gagna af því tagi sem hér um ræði.  Þá er á því byggt að ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að umrætt land sé undirorpið beinum eignarrétti og hafi ríkisvaldið nokkru sinni getað haft uppi vefengingarkröfu á hendur stefnda, þá sé ljóst að hún sé niður fallin vegna fyrningar og tómlætis.

Af hálfu stefnda er vísað til almennrar niðurstöðu óbyggðanefndar og Hæstaréttardóms í máli nr. 48, 2004, um að sönnunarbyrðin hvíli á þeim sem vefengi landamerkjalýsingar og elstu heimildir um eignarhald á landsvæði.  Stefnandi, íslenska ríkið, hafi ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum að land innan þinglýstra landamerkja Mjóadals hafi ekki verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Notkun lands geti gefið vísbendingar um hvort land sé eignarland eða ekki en þó megi ekki alhæfa út frá því.  Bendir stefndi í þessu samhengi á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi sérstaklega litið til þess í úrlausnum sínum um eignarrétt hvaða væntingar menn hafi mátt hafa um eignarhald þegar litið sé til athafna eða athafnaleysis ríkisvalds gagnvart réttindum.

Af hálfu stefnda er mótmælt þeim skilningi stefnanda að landnám hafi hvorki náð til heiða Mjóadals, enda sé sá skilningur ekki reistur á neinum hlutlægum sönnunargögnum.

Þá bendir stefndi á að í stað þess að leitast við að rekja eignarheimildir frá landnámi til vorra daga sé réttara að rekja heimildirnar frá skýrum upplýsingum nútímans til þoku fortíðarinnar.  Ekki sé hægt að byggja á Landnámu sem réttarheimild og fráleitt að líta fram hjá hefð og venjurétti.  Af hálfu stefnda er á því byggt að fjallskilavenjur geti ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð.

Af hálfu stefnda er vísað til ákvæða Grágásar og Jónsbókar, til eignarréttarákvæðis mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. viðaukalaga nr. 62, 1994, eignarréttarákvæðis og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ákvæðis stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Að öðru leyti vísar stefndi til niðurstöðu óbyggðanefndar í lýstum úrskurði.

 

Málsástæður vegna Sörlastaða og Timburvalladals.

Af hálfu stefndu, þinglýstra eigenda Sörlastaða, er byggt á þinglýstu landamerkjabréfi frá 9. apríl 1884 og öðrum skráðum eignarheimildum, en einnig á þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða.  Benda stefndu á að fullur hefðartími sé liðinn frá því að greindum heimildarskjölum var þinglýst.  Jafnframt vísa stefndu til þess að öll afnot og nytjar landsins hafi verið háðar leyfi landeigenda, enda hafi enginn notað landið með nokkrum hætti nema með samþykki eigenda þess.

Stefndu byggja á því að eignarheimildir hafi frá upphafi verið taldar gildar í viðskiptum manna og benda á að grundvallarreglan um réttaröryggi í skiptum manna geri kröfu um traust og festu í lögskiptum.  Stefndu segja að það samrýmist ekki þessari grundvallarreglu réttarríkisins að haft sé að engu réttmætt traust manna í lagalegri þýðingu gagna af því tagi sem hér um ræðir.  Þá er á því byggt að ríkisvaldið hafi margsinnis í aldanna rás viðurkennt að umrætt landsvæði sé undirorpið eignarrétti og hafi aldrei öðru verið haldið fram.  Hafi ríkisvaldið getað haft uppi vefengingarkröfu á hendur stefndu, þá sé hún niður fallin vegna fyrningar og tómlætis.  Stefndu byggja á því að í ljósi þeirra gjörninga sem fyrir liggi um ráðstöfun jarðarinnar séu og nægar heimildir færðar fram fyrir eignartilkalli þeirra sem þinglýstra eigenda.  Þar um vísa þeir til almennra niðurstaðna óbyggðanefndar þar sem segi að hafi landsvæði sem talið sé að hafi verið jörð samkvæmt elstu heimildum og landamerkjalýsingum og fari þær ekki í bága við eldri heimildir, þá sé það land beinum eignarrétti háð.  Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.  Er á því byggt af hálfu stefndu að stefnandi hafi ekki sýnt fram á með neinum haldbærum gögnum að land innan þinglýstra landamerkjabréfa sé ekki beinum eignarrétti háð.

Auk ofangreindra málsástæðna byggja stefndu á réttmætum væntingum, jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga og hefðarreglum.

Þá byggja stefndu á því að röksemdir stefnanda um að landnám hafi ekki náð til heiða og fjalla séu algjörlega ósannaðar, enda séu þær ekki reistar á neinum hlutlægum sönnunargögnum.

Loks byggja stefndu á þeim rökum sem fram komu í niðurstöðu óbyggðanefndar í framangreindum úrskurði.

 

Málsástæður vegna Hjaltadals og Kambfellskjálka.

Af hálfu stefnda, Þingeyjarsveitar, er byggt á landamerkjabréfi jarðarinnar Hjaltadals frá 16. janúar 1883, þinglýstu 18. júní 1884, en jafnframt vísa þeir til yfirlýsingar um skiptingu jarðarinnar frá 27. ágúst 1950.  Að auki vísar stefndi til annarra skráðra eignarheimilda og þinglýstra landamerkjabréfa aðliggjandi jarða og staðhæfir hann að hinar eldri heimildir mæli þeim almennt ekki í mót.

Stefndi vísar til þess að samkvæmt landamerkjalögum nr. 5, 1882 og 41, 1919 hafi opinberum aðilum verið falið að hafa frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarða, að þau væru skráð og að leyst yrði úr ágreiningi væri hann fyrir hendi.  Landamerkjalýsingar þær sem gerðar hafi verið í kjölfarið á lögunum frá 1882 hafi víða verið byggðar á eldri heimildum, svo sem lögfestum, máldögum og eldri landamerkjabréfum, en það eigi við um það svæði sem hér sé til umfjöllunar.  Þessum lýsingum hafi svo verið gefið aukið vægi með þinglýsingu og eftirlitsskyldu valdsmanna.  Bendir þetta til þess að þarna hafi orðið til fullkomnar heimildir um landamerki og eignarrétt þinglýstra eigenda.

Stefndi byggir á því að í samræmi við fyrri niðurstöður óbyggðanefndar hvíli sönnunarbyrðin um inntak eignarréttar á landsvæðinu á ríkisvaldinu.  Þá sé fullur hefðartími liðinn frá því að landamerkjabréfi jarðarinnar var þinglýst.  Jarðeigendur hafi farið með öll hefðbundin eignarréttindi, sem m.a. hafi lýst sér í því að þeir hafi bannað öðrum not landsins og enn fremur hafi öll nýting verið háð leyfi frá þeim.  Stefndi bendir og á að eignarheimildir þeirra hafi frá upphafi verið taldar gildar í viðskiptum manna og því byggi eignarhaldið á viðskiptavenju.  Stefndi telur að það samrýmist ekki grundvallarreglu réttarríkisins um réttaröryggi, að haft sé að engu réttmætt traust manna á lagalegri þýðingu gagna af því tagi sem hér um ræðir.  Á því er og byggt að ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að umrætt land sé undirorpið beinum eignarrétti.  Hafi ríkisvaldið nokkru sinni getað haft uppi vefengingarkröfu á hendur aðilum sé ljóst að hún sé niður fallin vegna fyrningar og tómlætis.  Af hálfu stefnda er vísað til almennrar niðurstöðu óbyggðanefndar og dóms Hæstaréttar frá 21. október 2004, í máli nr. 48/2004, um að sönnunarbyrðin hvíli á þeim er vefengi landamerkjalýsingar og elstu heimildir um eignarhald á landsvæði.  Stefnandi, íslenska ríkið, hafi ekki sýnt fram á með neinum haldbærum gögnum að land innan þinglýstra landamerkja Hjaltadals hafi ekki verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Notkun lands geti gefið vísbendingar um það hvort land sé eignarland eða ekki en þó megi ekki alhæfa út frá því.  Bendir stefndi á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi sérstaklega litið til þess í úrlausnum sínum um eignarrétt hvaða væntingar menn hafi mátt hafa um eignarhald þegar litið sé til athafna og athafnaleysis ríkisvalds gagnvart réttindum.

Af hálfu stefnda er mótmælt þeim skilningi stefnanda, íslenska ríkisins, að landnám hafi hvorki náð til heiða né fjalla Hjaltadals, enda sé sá skilningur ekki reistur á neinum hlutlægum sönnunargögnum.  Þá telur stefndi að í stað þess að leitast við að rekja eignarheimildir frá landnámi til vorra daga sé réttara að rekja heimildirnar frá skýrum upplýsingum nútímans til þoku fortíðarinnar, enda sé ekki hægt að taka mark á Landnámu sem réttarheimild og enn fremur sé fráleitt sé að líta fram hjá hefð og venjurétti.  Að þessu leyti vísar stefndi til ákvæða Grágásar og Jónsbókar.

Af hálfu stefnda er á því byggt að fjallskilavenjur geti ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin Hjaltadalur sé öll beinum eignarrétti háð.

Loks er af hálfu stefnda vísað til niðurstöðu óbyggðanefndar í framangreindum úrskurði, en um lagrök er bent á eignarréttarákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. viðaukalaga nr. 62, 1994, eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.

 

Málsástæður varðandi Bleiksmýrardal austan Fnjóskár.

Af hálfu stefnda, Þingeyjarsveitar, er byggt á dómi landsyfirréttar Íslands frá 11. júní 1885 auk afsals, dagsetts 22. október 1919.  Jafnframt byggir stefnandi á þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða og öðrum skráðum eignarheimildum.  Stefnandi byggir á því að kröfugerð stefnanda fái ekki samræmst því að með fyrrgreindum dómi hafi verið fallist á fullkominn eignarrétt, en þar um er vísað til dóms Hæstaréttar frá 21. október 2004, í máli nr. 48, 2004.

Af hálfu stefnda er bent á að málsástæður hans séu að öðru leyti sambærilegar og lýst var hér að framan varðandi Hjaltadal og Kambfellskjálka.  Að öðru leyti vísar hann til áðurrakins niðurstöðukafla í úrskurði óbyggðanefndar.

 

Auk þeirra málsástæðna stefndu sem hér að framan hafa verið raktar þá árétta þeir andmæli sín við sjónarmið og röksemdir stefnanda í stefnu, en leggja að öðru leyti  áherslu á neðangreind atriði.

Stefndu byggja á því að kröfugerð stefnanda sé ekki í samræmi við þann skilning sem Alþingi og margir úr röðum ráðamanna og stjórnvalda hafi lagt í þjóðlendulögin við setningu þeirra.  Halda stefndu því fram að kröfulína stefnanda í máli þessu sé dregin af handahófi og að rökstuðningur fyrir henni sé ekki annar en sá að landið hafi einkum verið nýtt sem beitiland.  Þessum málatilbúnaði stefnanda er andmælt, en jafnframt því að einhver tilviljunarkennd skráning á því hvar sauðfé hafi gengið óáreitt um miðja síðustu öld og að samhjálp og smölun geti skipt einhverju máli um eignarrétt manna á jörðum sínum.  Byggja stefndu á því að stefnandi beri að öllu leyti sönnunarbyrðina fyrir því að um einhvers konar samnotaafrétt hafi verið að ræða og að landið hafi verið ónumið, en nefna að auki heimildir um afréttartolla.  Af hálfu stefndu er og mótmælt þeim fullyrðingum stefnanda að öfug sönnunarbyrði eigi að gilda í málinu og jafnframt þeim allt of ríku kröfum sem stefnandi telji að gera eigi til landamerkjabréfa stefndu.  Árétta stefndu að tilgangurinn með lögunum um þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landsvæða sem enginn hefði skjöl fyrir að hann ætti, en svo hátti til um hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands.  Eigi óbyggðanefnd því að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu.  Benda stefndu á að það komi fram í 1. gr. þjóðlendulaganna að þjóðlendur séu utan eignarlanda, en eignarland sé skilgreint sem „landsvæði sem háð er eignarrétti þannig að eigandinn fer með öll venjuleg eignarráð þess“.  Stefndu byggja á því að svo sé með allt land sem þeir hafi þinglýstar eignarheimildir fyrir og hafi óbyggðanefnd með úrskurði sínum 6. júní 2008 fallist á rökstuðning þeirra og talið landið undirorpið fullkomnum eignarrétti þeirra.

 

IV.

Ágreiningsatriði máls þessa varða eignarréttarlega stöðu landsvæða inn af Bárðardal vestan Skjálfandafljóts og landsvæða á Fram-Fnjóskadal sunnan Ljósavatnsskarðs en austan Fnjóskár, sem áður tilheyrðu hinum fornu Ljósavatns-, Bárðardals- og Hálshreppum.  Landsvæðin eru nánar afmörkuð í úrskurði óbyggðanefndar, en einnig í stefnu og greinargerð aðila.  Verður hér á eftir vikið að einstökum svæðum með hliðsjón af kröfugerð málsaðila.

 

A. Um Mjóadal.

Málsaðila greinir m.a. á um hvort Mjóidalur hafi stöðu jarðar að lögum.

Stefnandi byggir m.a. á því að eldri heimildir og gögn styðji ekki við málstað stefnda og krefst að ályktunarorð í úrskurði óbyggðanefndar um að land innan merkja sé eignarland verði felld úr gildi.

Stefndi, Þingeyjarsveit, byggir kröfu sína um beinan eignarrétt landsvæðisins m.a. á landamerkjabréfi Mjóadals.  Bréfið var útbúið 8. maí 1897 og þinglýst 29. júní sama ár, en það hefst þannig:  „Að austan skilur Mjóadalsá lönd Mjóadals og Íshóls. Að sunnan skilur Tungufellsá, svo Þvergil og síðast bein stefna úr því vestur á hágrjót, Mjóadalsland og almenning. Þaðan liggja svo merkin norður háfjallið, eptir því sem vatnsföll deila sveita milli, norður gegnt upptökum Syðri-Bótarár, sem að norðan skilur lönd Mjóadals og Mýrar.“  Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og er um rökstuðning m.a. vísað til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar.

 

Um gildi landamerkjabréfa, og það hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Segir í dómsniðurstöðunni m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Enn fremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það.  Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.  Rétturinn hefur í síðari dómum áréttað þessa afstöðu, t.d. í fyrrnefndum dómi í máli nr. 496/2005.

Ber við niðurstöðu máls þessa m.a. að hafa framangreint í huga.

Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar eru takmarkaðar heimildir um landsvæðin sunnan Bárðardals.  Var það ekki fyrr en í byrjun 18. aldar sem nokkuð fór að rofa til varðandi ritaðar heimildir um nýtingu landsvæðanna og ætlað eignarhald, en einnig um heiti og einstök örnefni.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 er getið um rústir fornbýla á afréttinum vestan Skjálfandafljóts, þ. á m. Helgastaða.  Þá er í Jarðabókinni sagt frá landsréttindum Ljósavatns á svæðinu, en einnig um upprekstur Mývetninga og fjallskil þeirra með Bárðdælingum við býlið Mýri í Bárðardal.  Austan Skjálfandafljóts er í Jarðabókinni m.a. getið um rústir fornbýlis í Hafursstaðahlíð, en almennt eru heimildir um eignarhald austan fljóts fjölbreyttari en vestan þess.

Að mati dómsins sýna heimildir, sem m.a. er vísað til í Jarðabókinni, að jarðeigendur stórjarða hafi a.m.k. nýtt afréttarlöndin sunnan Bárðardals til upprekstrar á sumrin, en einnig eru heimildir um að Bárðdælingar hafi haft þar á almenningi hrossagöngu á vetrum.  Einnig eru heimildir um jarðeigendur, þar á meðal kirkjuyfirvöld, sem lýstu ítrekað réttindum sínum á landsvæðunum sunnan Bárðardals, m.a. í máldögum, sóknarlýsingum, jarðamötum og afréttarskrám.  Var þessum réttindum ýmist lýst sem ítaksréttindum, eignarlandi eða sem upprekstrarrétti í almenningi.

Í kjölfar setningar landamerkjalaga í lok 19. aldarinnar voru gerð landamerkjabréf fyrir afréttarsvæðin austan Skjálfandafljóts, á árunum 1890 og 1891.  Eru svæðin m.a. kennd við býlin Einarsstaði í Reykjadal og Skútustaði og Reykjahlíð við Mývatn og var þeim þinglýst.  Um landsvæðið vestan Skjálfandafljóts var á manntalsþingi 1904, að tilstuðlan hreppsnefndar Ljósavatnshrepps, samþykkt af landeigendum Ljósavatns, Ljósavatnskirkju og jarðeigendum Litlu-Tungu og Mýrar Skrá um afréttarlönd suður af Bárðardal.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að landsvæði Mjóadals, sem hér er til umfjöllunar, liggi í yfir 400 m hæð upp af vestanverðum Mjóadal, en nánar tiltekið hefst dalurinn við túnfótinn að Mýri, fremsta lögbýlinu í Bárðardal.  Í gögnum um Mjóadalslandið segir að það gangi um 15 km í suðvestur, að það sé vel gróið og að samnefnd á renni um dalinn.  Til vesturs er landið fjalllent og skorið giljum og falla þar m.a. Ytri- og Syðri-Bótará.  Upptök Syðri-Bótarár eru við suðurhlíðar Pílagrímsfells, en þar nokkru vestar eru drög Timburvalladalsár.  Syðri-Bótará er merkjaá milli Mjóadals og lögbýlisins Mýrar, en sunnan árinnar falla Grjótá, Ytri-Lambá og Syðri-Lambá, og enn sunnar er Þvergil og Tungufellsá.  Allar þessar ár sameinast Mjóadalsá, en ósar hennar eru í Skjálfandafljóti við suðausturmörk Mýrar.  Samkvæmt gögnum var landamerkjabréf fyrir Mýri útbúið 1885.  Það var samþykkt af þáverandi eigendum Sörlastaða og Mjóadals.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að eldri heimildum um Mjóadal, en einnig er þar allítarlega lýst landsvæðum í næsta nágrenni og gerð grein fyrir landamerkjabréfum og öðrum gögnum sem varða afmörkun Mjóadals.  Er þannig fjallað um kröfusvæði Sörlastaða við norðvesturmörk Mjóadals og um kröfusvæði Hjaltadals og Kambfellskjálka við vesturmörkin.  Þá er fjallað um landsvæðið við suðurmörk Mjóadals, sem nefnt er almenningur samkvæmt áðurrakinni Skrá um afréttarlönd suður af Bárðardal frá 1904.  Að auki er í úrskurðinum sérstök umfjöllun um kröfusvæði jarðarinnar Íshóls, en vesturmerki hennar eru austan Mjóadalsár í Mjóadal.  Loks er í úrskurðinum sagt frá landsvæðinu við norðurmörk Mjóadals, sem tilheyrir lögbýlinu Mýri, en þar til austurs, en norðan Íshóls og næst Skjálfandafljóti, er landsvæði eyðibýlisins Litlu-Tungu.  Þar sunnan við og næst Skjálfandafljóti eru Hrafnabjargarhlíð, Lækjardalir, Melar og Galthóll.

Íshólsdalur, sem til forna var nefndur Rangárdalur, er, ásamt samnefndu vatni, austan við Mjóadal.  Hefur Íshólsdalur mörk til norðurs við Hádegisfjall (504 m), til austurs við Hrafnabjargarfjöll (448 m) og Lækjardali, við Skjálfandafljót.  Millum Íshólsdals og Mjóadals er lágur háls.  Norðan hans rennur Fiská úr Íshólsvatni, við rætur Hádegisfjalls, en sunnan hálsins er skarð milli dalanna sem nefnist Íshólsskarð.  Land Íshólsdals hækkar til suðurs. Samkvæmt gögnum eru elstu heimildir um Íshólsjörðina frá 1597 og er hún þá sögð í eigu Laufáskirkju.  Jörðin fór í eyði 1897 og segir í áðurnefndum gögnum Fornleifastofnunar að þar hafi mestu valdið um uppblástur og sandfok.  Rústir bæjarhúsanna eru sunnan við Íshólsvatn.  Jörðin var seld Ljósavatnshreppi 4. júní 1897, en varð síðar eign Bárðardalshrepps við skiptingu hreppanna og enn síðar Þingeyjarsveitar.  Ekki var gert landamerkjabréf fyrir Íshól, en mörkum jarðarinnar er lýst í afréttarskránni frá 1904.  Segir um suðurmerkin að þau liggi við Rangá og miðist við línu frá Galthól við Skjálfandafljót og vestur að Sjónarhól á Mjóadal, en vesturmerkin fylgi Mjóadalsá.  Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar er jörðin Íshóll eignarland vestan Rangár með greindum mörkum, en þar um er sérstaklega vísað til afréttarskrárinnar frá 1904.  Hefur ekki verið leitað endurskoðunar á þessum eignarrétti stefnda, Þingeyjarsveitar, af hálfu stefnanda, íslenska ríkisins.

Syðsti hluti Mjóadalsár nefnist Mosakvísl, sem á upptök sín við Nýjadrag, í um 800 m hæð yfir sjávarmáli, skammt norðan Kiðagilsdraga, en drögin eru um 35 km sunnan við ósa Þvergils og Tungufellsár í Mjóadal.  Sunnan Nýjadrags eru vatnaskil og falla þar vötn til suðurs til Þjórsár ellegar til norðurs til Kiðagils og Kiðagilsár, sem fellur í Skjálfandafljót skammt sunnan við svonefndan Króksdal.  Er Króksdalur ýmist talinn byrja nálægt mótum Krossdals, austan Fljóts, og Galthóls, vestan Fljóts, eða á móts við Hrafnabjörg austan Íshólsvatns og gegnt Suðurárhrauni.

Afréttarsvæðið inn af Bárðardal hefur vestan Skjálfandafljóts verið nefnt Vesturafréttur Bárðdæla.  Er afréttarins m.a. getið í áðurröktum heimildum, þ. á m. í sóknarlýsingu Eyjardals- og Lundarbrekkusóknar frá 1840 og í Skrá um afréttarlönd suður af Bárðardal vestan Skjálfandafljóts frá 1904.  Afréttarsvæðin inn af Bárðardal austan Skjálfandafljóts hafa verið nefnd Suðurárhraun, Grafarlönd og Framdalir og það síðarnefnda einnig Framdalaafréttur, Framfjöll, Króksdalsafréttur og Hraunárdalsalmenningur.  Við norðurmörk Suðurárhrauns austan Skjálfandafljóts er eignarjörðin Svartárkot, sem áður tilheyrði jörðinni Stórutungu, en landamerkjabréf hennar var útbúið 1884.

Í úrskurði óbyggðanefndar og þeim gögnum sem aðilar hafa lagt fram er staðháttum og gróðurfari afréttarsvæðanna sunnan Bárðardals að nokkru lýst.  Segir m.a. að vestan Skjálfandafljóts í Króksdal séu Smiðjuskógar og örnefnið Helgastaðir, sem talið er býli Helga króks, sem dalurinn er kenndur við, því næst Kvíahraun, Fossgil, Dældir og Kiðagil.  Austan Fljótsins eru í dalnum m.a. Jónsbörð, Ytri- og Syðri-Lambár, en þar sunnan við er brött brekka fram að fljótinu, sem nefnd er Bálabrekka og nær hún suður að mynni Öxnadals.  Ofarlega í Öxnadal eru gangnamannakofar.  Þar sunnan við er Hraunárdalur, sem liggur í suðaustur, en eftir honum rennur Hrauná, sem er stærsta þveráin sem fellur í Fljótið að austan.  Eftir það rennur Fljótið um Fljótsdal og Syðri-Fljótsgil, en við Stóruflæðuhnúk (723 m) er Stóraflæða og er þar gróðurlendi, en eftir það taka við sandar suður með Fljóti, þar til kemur að Marteinsflæðu, og eru þar mosateygingar og hestahagar. Marteinsflæða var lengstum fremsta leitarsvæði gangnamanna austan Fljóts, en eins og áður var rakið nær fremsta leitarsvæði Bárðdælinga vestan Fljótsins enn sunnar eða allt til Tómasarhaga vestan Tungnafellsjökuls, sem er um 60 km sunnan Tungufellsár í Mjóadal.

 

Eins og fyrr hefur verið rakið byggir stefndi, Þingeyjarsveit, kröfu sína m.a. á því að landsvæði Mjóadals, en einnig afréttarsvæðin sunnan Bárðardals og þar með Vesturafréttur Bárðdæla, hafi verið numin í öndverðu.

Í úrskurði óbyggðanefndar er lagt til grundvallar að við landnám hafi Ísland verið betur gróið og gróður náð lengra inn á heiðar en nú er.

Dómurinn fellst á þær röksemdir málsaðila að frásögn Landnámu sé ekki fyllilega ljós um landnám á nefndu landsvæði, vestan og austan Skjálfandafljóts.  Verður meðal annars ekki ráðið umfram það sem áður sagði hversu langt inn til landsins landnámið hafi náð sunnan Bárðardals, en einnig á landsvæðum þar vestan og austan við, framan við afdali Fnjóskadals og suður af Mývatni.  Í úrskurði óbyggðanefndar er sagt að þrátt fyrir þetta sé ekki hægt að útiloka að umrætt landsvæði sé að einhverju leyti innan upphaflegs landnáms eða hafi á annan hátt verið undirorpið beinum eignarrétti.

Að áliti dómsins renna nýlegar fornleifarannsóknir stoðum undir það að landsvæðið við Skjálfandafljót, þ. á m. á Vesturafrétti Bárðdæla og á Framdalaafrétti, og þar á meðal á Króksdal, hafi verið numið og að þar hafi verið byggð á 10. og 11. öld.  Rannsóknir þessar, sem stjórnað hefur verið af dr. Orra Vésteinssyni fornleifafræðingi og sagnfræðingi, sbr. rit Fornleifastofnunar Íslands frá 2004 og 2005, hafa stuðning eldri fornleifarannsókna og athugana á afréttarsvæðunum sunnan Bárðardals, m.a. fræðimannanna Daníels Bruun og Þorvaldar Thoroddsen á 20. öldinni og síðar þeirra Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og fræðimannanna Steindórs Steindórssonar, Sigurðar Þórarinssonar og Kristjáns Eldjárns.  Fræðimennirnir hafa m.a. athugað þær fornminjar sem fundist hafa austan og vestan Skjálfandafljóts, bæði einstaka muni, svo sem sverð og öxi víkingagerðar, en einnig einstaka nytja- og skrautmuni.  Þá hafa við rannsóknir þessar fundist rústir fornbýla á afréttarsvæðunum, m.a. við Svartárkot, í Hrauntungu í Svartárbotnum austan fljóts og í tungunni milli Fiskár og Mjóadalsár vestan Skjálfandafljóts.  Þekktasti fornleifastaðurinn er undir Sandmúla, austan Fljóts, sem er skammt fyrir norðan Framdalaafrétt við mót Króksdals.  Hafa þær rústir blásið upp frá því um 1880, og er nú allur jarðvegur þar blásinn upp í ísaldarmel.  Í rústum þessum hafa fundist dýrabein og nytjamunir, en einnig fannst þar silfursjóður árið 1909.  Hafa rannsóknir leitt í ljós að fornbýlið, sem er nafnlaust, var ekkert örreytiskot og er ótvírætt að þar hefur verið búið árið um kring.  Við fornleifarannsóknir á Króksdal vestan Skjálfandafljóts hafa fundist mannvistarleifar á Helgastöðum.  Hefur verið staðreynt með rannsóknum á gjóskulögum að þar hafi verið býli frá því um 940, en búsetan verið skammvinn, e.t.v. í eina eða tvær kynslóðir, og á enda runnin fyrir árið 1104.  Ekki hefur verið unnt að fullyrða hvort að umræddar rústir séu eftir bæ eða sel.  Greinileg merki eru í rústunum um rauðablástur, þ.e. járnvinnslu, en einnig á fleiri stöðum í grenndinni, m.a. við örnefnið Smiðjuskóg.  Fram kemur í gögnum að einu mannvistarleifarnar austan Skjálfandafljóts á Framdalaafrétti í Króksdal séu um 5 km sunnan Sandmúla, en skammt norðan Öxnadals og gegnt fyrrnefndum Helgastöðum.  Hafa þar fundist uppblásnar allmiklar bæjarrústir, nafnlausar, undir fyrrnefndri Bálabrekku, en af beinaleifum þykir sýnt að þar hafi verið búið við nautgripi, sauðfé, geitur og hross.  Þar hafi líka verið stundaður rauðablástur.  Eru rústir þessar í um 420 m hæð yfir sjávarmáli og um 100 km frá sjó.  Benda síðustu rannsóknir til þess að býlin á Króksdal séu frá svipuðum tíma og því nokkuð yngri en fornbýlin norðar í landinu, m.a. við Mývatn.  Óumdeilt er að um þetta landsvæði lá m.a. hluti hinnar fornu þjóðleiðar millum Norður- og Suðurlands, um Sprengisand.

Að ofangreindu virtu verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að land sunnan Bárðardals, þar á meðal á Króksdal, austan og vestan Skjálfandafljóts, hafi verið numið og að þar hafi verið byggð á 10. og 11. öld.  Leiða nefndar fornleifarannsóknir að áliti dómsins sterkar líkur að því að þessi byggð hafi verið komin í eyði á 13. öld þegar sögur fara fyrst af dalnum, sbr. m.a. Ljósvetningasaga.  Engar aðrar heimildir liggja fyrir um byggð á fremstu afréttarsvæðum sem bregða ljósi á mannlíf eða búskaparhætti þar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og þá ekki um tildrög þess að byggðin fór í eyði.  Eru tilgátur um að búseta á jaðar- og hálendisbyggðum til heiða hafi lagst af á 11., 12. og 13 öld, m.a. vegna ítrekaðs öskufalls frá eldfjöllum, snjóþyngsla, gífurlegrar einangrunar og þess að svæði þessi voru með viðkvæmt vistkerfi og því viðkvæm fyrir jarðvegseyðingu.

Á Mjóadal hafa fræðimenn nefnt þrjú hugsanleg bæjarstæði fyrir utan Hólkot og Mjóadalskot, þar sem fornbýlið Mjóidalur stóð áður, milli Syðri- og Ytri-Lambár.  Benda rannsóknir þannig til þess að býli hafi staðið sunnarlega í dalnum austanmegin, en þar sér móta fyrir görðum, tóftum og götum sem liggja til suðausturs í átt að Helgastöðum, að annað býli hafi verið utarlega í dalnum og hið þriðja vestan ár, við svonefndan Sveig.  Að auki hafa fræðimenn staðhæft að skýrar vísbendingar séu um víkingaaldarbyggð við Fiská og að Horngörðum sunnan Íshólsvatns.

Samkvæmt framansögðu eru líkur til þess að byggð hafi verið sunnan Bárðardals til forna, m.a. vestan Skjálfandafljóts, í Mjóadal, líkt og á þeim svæðum sem nú eru nefnd Vesturafréttur Bárðdæla og Framdalaafréttur.

Í nýrri heimildum er getið um fyrrnefnd eyðibýli, Mjóadalskot og Hólkot, en í Jarðabókinni frá 1712 segir m.a. um þau:  „Ekki má þessi eyðiból aftur byggja fyrir heyskaparleysi og svo fjarska við byggðina“.  Um nágrannabýlið Íshól segir aftur á móti í sömu heimild að skógur til kolagjörðar sé þar að mestu eyddur, en til eldiviðar bjarglegur og enn fremur sé víðirif notað til heystyrks.  Þrátt fyrir þetta þótti enn byggilegt í Mjóadal að liðnum 100 árum, en árið 1812 var þar byggt upp að nýju, á rústum Mjóadalskots, og nefndist býlið þá Mjóidalur. Er útlit fyrir að þá hafi land ekki verið farið að blása um láglendi dalsins, líkt og síðar mun hafa orðið.  Segir um uppbygginguna í samtímaheimild að um hafi verið að ræða hjáleigu frá Mýri og að ruddur hafi verið vegur milli býlanna, sá eini í sveitinni.  Í manntali árið 1816 segir að í Mjóadal hafi verið skráðir til heimilis átta einstaklingar, en fram kemur í gögnum að þar hafi á 19. öldinni á köflum vel verið búið.  Um 1870 hafi þannig bústofninn verið um 200 fjár, 4 kýr og 8 hross.  Um landkosti Mjóadals segir frá því í heimildum frá þessum tíma að þar sé landgott og víðslægt, en fremur vetrarhart og að mjög sé hætt við spjöllum af sandfoki þegar vindar ganga.  Samkvæmt gögnum var síðast búið í Mjóadal árið 1894.  Verður ráðið að miklar líkur séu fyrir því að uppblástur og sandfok hafi mestu valdið um að byggðin lagðist niður, líkt og á nágrannajörðinni Íshóli.  Hafi þannig að lokum eins farið með þessa heiðarbyggð og áður hafði farið með hina fornu byggð á Króksdal, austan og vestan Skjálfandafljóts.

Samkvæmt heimildum var skömmu áður en Mjóadalsbýlið fór í eyði í lok 19. aldar hafin umræða í hreppsnefnd Ljósavatnshrepps hins forna um kosti á nýtilegum afréttarlöndum.  Segir í fundargerðarbók hreppsnefndar hinn 16. júní 1892 að umfjöllun hafi verið um tilboð frá eigendum Mjóadals og Íshóls; „að þeir væru fáanlegir til að selja jarðir þessar.  Álitu menn jarðir þessar vel fallnar til þess að þær væru lagðar í eyði og svo notaðar til upprekstrar“.  Umræðum um málefnið var frestað í tvígang á fundum hreppsnefndarinnar á árunum 1892 og 1893, en lyktir urðu að lokum þær að hreppurinn keypti báðar jarðirnar þann 4. júní 1897.  Í hreppsreikningum Ljósavatnshrepps og síðar Bárðdælahrepps eru eftir þetta tíundaðar á meðal eigna hreppanna jarðirnar Mjóidalur og Íshóll.  Einnig liggur fyrir að hreppurinn hafði eftir kaupin, m.a. í upphafi 20. aldar, nokkrar leigutekjur af eign sinni á Mjóadal vegna slægna og búfjárbeitar utansveitarmanna.

Áðurrakið landamerkjabréf fyrir Mjóadal var útbúið nokkru eftir setningu landamerkjalaga árið 1882, en rétt fyrir fyrrgreinda sölu býlisins til hreppsins vorið 1897.  Bréfinu var þinglýst það sama árið, en það var samþykkt af eigendum nágrannajarðanna Mýrar og Íshóls.  Um efni þess og nánari afmörkun landsins var áður fjallað í kafla I., 3-4 hér að framan.  Liggur fyrir að merkin eru í samræmi við áðurrakta þinglýsta Skrá yfir afréttarlönd suður af Bárðardal vestan Skjálfandafljóts, sem þinglesin var á manntalsþingi á Ljósavatni 31. maí 1904, sem oddviti Ljósavatnshrepps hafði gert í umboði hreppsnefndarinnar 23. mars sama ár og hafði áður verið samþykkt af eiganda og ábúanda Ljósavatns vegna Ljósavatnskirkju og eigendum Litlutungu og Mýrar.  Í afréttarskránni er sérstaklega getið um Almenning í eigu Ljósavatnshrepps.  Segir um mörk hans m.a. að hann taki við sunnan merkja jarðarinnar Mjóadals, þ.e. sunnan við Tungufellsá, og Þvergils vestan Mjóadalsár, en taki síðan yfir allt land austan ár sunnan við Sjónarhól, við merkjapunkt Íshóls.

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið benda að áliti dómsins eldri og yngri fornleifarannsóknir ótvírætt til þess að forn byggð hafi verið á Mjóadal nokkru framan við efstu byggðina í vestanverðum Bárðardal, líkt og var með nágrannabyggðina í Íshólsdal.  Er til þess að líta að ekki er ágreiningur um niðurstöðu óbyggðanefndar að jörðin Íshóll sé undirorpin beinum eignarrétti með þeim mörkum sem lýst er í afréttarskránni frá 1904 og þar á meðal að suðurmerkin miðist við línu frá Galthól við Skjálfandafljót til vesturs að Sjónarhól í Mjóadal, en að þar sunnan við sé fyrrnefndur almenningur sveitarinnar vestan og austan Mjóadalsár.

Til þess ber að líta að hafi beinn eignarréttur stofnast í öndverðu með námi verður samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. málum nr. 685/2008 og 198/2009, ekki krafist að sýnt sé fram á hvernig sá réttur hafi haldist við, heldur aðeins að hann hafi gert það í raun.  Að mati dómsins er lega þess landsvæðis sem stefnandi miðar við í kröfugerð sinni um jarðeign á hluta Mjóadals, en einnig staðhættir og gróðurfar í meginatriðum sambærileg við nágrannajörðina Íshól.  Að því leyti er ekki rökræn ástæða til að álykta að landnám á nálægu og nær einsleitu svæði þar sem engir náttúrlegir farartálmar eru fyrir hendi hafi verið ólíkt.  Bendir þetta að áliti dómsins til þess ásamt áðurröktum heimildum og þá ekki síst nefndum fornleifarannsóknum ekki til annars en að Mjóidalur vestan Mjóadalsár, eins og jarðnæðinu hefur verið lýst, hafi verið numið, en síðan byggt og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma allt frá því að til hennar var stofnað.  Bendir heldur ekkert til að ágreiningur hafi verið um merki jarðarinnar á síðari tímum.

Af framangreindum gögnum verður að áliti dómsins ekki annað ráðið en að hreppsnefndarmenn í hinum fornu Ljósavatns- og Bárðdælahreppum hafi í lok 19. aldar gengið út frá því að Mjóidalur væri sjálfstæð jörð með áður tilgreindum merkjum.  Í skýrslu Tryggva Höskuldssonar, bónda á Mýri í Bárðardal, hjá óbyggðanefnd kom m.a. fram að í samræmi við upphaflega tilgang hreppsnefndarmannanna með kaupunum á Mjóadal hafi land jarðarinnar um langt skeð verið notað til upprekstrar, en það hafi verið smalað ásamt með öðru afréttar- og almenningslandi sveitarinnar allt suður að Tungnafellsjökli.  Tryggvi lýsti merkjum Mjóadalsjarðarinnar í samræmi við það sem hér að framan hefur verið rakið og bar að vesturmerkin miðuðust við vatnaskil á svonefndu „hágrjóti“.  Var lýsing hans í samræmi við rannsókn óbyggðanefndar á vatnaskilum, þ.e. vestan við drög Syðri-Bótarár, Ytri- og Syðri-Lambár, Þvergils og Tungufellsár.

Fyrir liggur að ágreiningur hefur ekki komið fram um landamerki Mjóadals og þ. á m. ekki um norðvesturmerkin gagnvart Sörlastöðum vegna Timburvalladals við Pílagrímsfell.  Er það niðurstaða dómsins að líklegast sé að merkin liggi saman á þessum slóðum.

Að öllu ofangreindu virtu ásamt röksemdum stefnda er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki hrakið eða leitt nægjanlegar líkur fyrir því að meginforsendur í úrskurði óbyggðanefndar um Mjóadal séu rangar.  Verður málsástæðum stefnanda því hafnað, en fallist á röksemdir stefnda, Þingeyjarsveitar, að Mjóidalur hafi stöðu jarðar að lögum og að byggja beri á landamerkjabréfi hennar.  Að þessu sögðu og þar sem málatilbúnaður stefnanda styðst ekki við önnur gögn eru ekki efni til annars en að verða við dómkröfum stefndu á þann hátt sem í dómsorði greinir.

 

B. Um landsvæðin á Fram-Fnjóskadal; austan Fnjóskár, á Timburvalladal og Hjaltadal ásamt Kambfellskjálka og á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár.

Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar eru landsvæði á Fram-Fnjóskadal og sunnan hans með áðurlýstum mörkum ekki þjóðlendur í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58,1998, heldur eign þinglýstra eigenda Sörlastaða, Hjaltadals og Bleiksmýrardals austan Fnjóskár.  Á hinn bóginn er landsvæðið þar sunnan við, þ.e. afréttarland í Þingeyjarsveit, þjóðlenda, en jafnframt afréttur jarða í fyrrum Bárðdæla- og Ljósavatnshreppum.

Stefnandi, íslenska ríkið, krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi og fer fram á að mörk þjóðlendu og eignarlands verði dregin með nánar tilteknum hætti; úr vestri frá upptökum Syðri-Bótarár við suðurjaðar Pílagrímsfells til suðvesturs að upptökum Timburvalladalsár en þaðan til norðvesturs í austasta draga Austurkróksár og síðan með Austurkróksá til norðurs í Hjaltadalsá.  Frá þeim punkti til norðvesturs að Hamarslækjargili á Bleiksmýrardal, en þaðan til vesturs með suðurmerkjum jarðarinnar Tungu í Fnjóská.

Fyrir dómi eru kröfur stefndu í samræmi við niðurstöður óbyggðanefndar og krefjast þeir sýknu af kröfum stefnanda.

 

Fram-Fnjóskadalur skiptist í þrjá dali við býlið Reyki og eyðibýlið Bakkasel.  Eins og áður er rakið er Bleiksmýrardalur vestast, og kemur Fnjóská úr honum, þá er Hjaltadalur, en austast er Timburvalladalur.  Samnefndar ár falla um síðastnefndu dalina, en þær sameinast nokkru áður en þær falla í Fnjóská og kallast þá Bakkaá.  Háir fjallkambar eru milli dalanna og heitir sá vestari Tungufjall (850-1000 m) en hinn eystri Kambfell (900 m).  Fjöll þau sem skilja að Timburvalladal og Bárðardal eru Vallafjall (780 m), en þar sunnan við er Litluvallafjall (740 m), en einnig Heimari-Stakkahæðir og Fremri-Stakkahæðir (800 m).  Landsvæði þessu er að nokkru lýst í úrskurði óbyggðanefndar, sbr. það sem rakið var hér að framan, í kafla I.3, og I.6.b.

Framan Timburvalladals er Pílagrímsfell (816 m), en við rætur þess, að suðvestan, eru upptök Timburvalladalsár, en eins eru þar austurmerki Sörlastaða á dalnum.  Austan og sunnan fellsins eru upptök Ytri- og Syðri-Bótaráa, en báðar falla þær til Mjóadals.

Samkvæmt gögnum, þ. á m. uppdráttum og landakortum, eru um 20 km frá mynni Timburvalladals að dalbotni (í um 450 m hæð yfir sjó), en þaðan eru um 3 km að rótum Pílagrímsfells.  Frá mynni Hjaltadals að dalbotni Austurkróks eru um 20 km.  Um 25 km eru frá mynni dalsins að dalbotninum við Hrauntungur (um 550 m), en þaðan eru um 5 km suður að fyrrnefndu Austur-Króksfjalli.

Tæpir 40 km eru frá Hamarslæk á Bleiksmýrardal að svonefndri Einstökutorfu, en hún mun vera í um 720 m hæð yfir sjávarmáli.

Hjaltadalsáin skiptist við Hrauntungu og nefnist eystri hluti hennar Austurkróksá og eru upptök hennar rétt norðan Austur-Króksfjalls (939 m), en allnokkru vestan við upptök Timburvalladalsár.  Upptök vestari hluta Hjaltadalsár eru að hluta til austan við Austur-Króksfjall, en ein kvísl hennar á upptök á landsvæðinu þar suðvestan við.

Upptök Fnjóskár eru um 15 km sunnan Einstökutorfu, nokkru fyrir norðan Bergvatnskvísl, efstu dragár Þjórsár.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir m.a. um landsvæðin framan og sunnan Timburvalladals og Hjaltadals að þar séu ekki skörp skil af náttúrunnar hendi milli gróðurlendis og ógróins fjalllendis og séu staðhættir nokkuð einsleitir á stóru svæði.  Sunnar sé fjalllendi víðast hvar gróðurlaust en hallalítið og liggi í 800-1000 m hæð.

Við meðferð málsins fór dómari tvívegis í vettvangsferðir.

 

Samkvæmt Landnámabók nam Þórir Ketilsson Fnjóskadal og bjó eins og áður er fram komið að Lundi.  Af frásögn Landnámu verður ekki ráðið hversu langt inn til landsins landnámið náði.  Í ljósi aðstæðna, þ. á m. legu landsins og staðsetningar landnámsjarðar, er að áliti dómsins líklegt að landsvæðið á Fram-Fnjóskadal, og þar með jarðirnar Sörlastaðir ásamt Timburvalladal og Hjaltadal, séu innan upphaflegs landnáms eða hafi á annan hátt verið undirorpið beinum eignarrétti, a.m.k. að hluta til.  Ágreiningslaust er að býlin hafa um aldir haft stöðu jarða.

Elstu heimildir um Fram-Fnjóskadal eru frá byrjun 14. aldar, og varða þær m.a. nefndar jarðir, Hjaltadal og Sörlastaði.  Heimildum um búsetu á landsvæðinu fer fjölgandi eftir því sem aldirnar líða, en þær er helst að finna í máldögum, lögfestum, vísitasíubókum, manntölum, jarðamötum og Jarðabókinni frá 1712.  Bregða þær m.a. ljósi á búskaparhætti á svæðinu, sem einkum var þar sauðfjárbúskapur, en einnig annar búrekstur, m.a geitabúskapur landeiganda Munkaþverárklausturs.

Fremstu býlin á Fram-Fnjóskadal vestan Fnjóskár eru Illugastaðir, fornt höfuðból og kirkjustaður, og Reykir.  Austan ár er ysta býlið Vaglir, en þar sunnan við er Lundur, landnámsjörð Þórðar snepils, og því næst og síðasta jörðin sem er í byggð er Þórðarstaðir.  Allar þessar jarðir eru skógivaxnar.  Framar í dalnum eru eyðijarðirnar Belgsá, við samnefndan dal, og Bakkasel, sem er gegnt Reykjum, við ármót Bakkaár og Fnjóskár.  Eyðijarðirnar voru fyrrum allar í eigu Munkaþverárklausturs í Eyjafirði.  Við Bakkaá á Fram-Fnjóskadal eru nú tvö eyðibýli, í u.þ.b. 240 metra hæð yfir sjó.  Snæbjarnarstaðir eru vestan árinnar, en býlið tilheyrði jafnan klausturjörðinni Hjaltadal, líkt og allur vesturhluti Timburvalladals, svonefndur Kambfellskjálki.  Gegnt Snæbjarnarstöðum, handan Bakkaár, eru Sörlastaðir, sem einnig var eign Munkaþverárklausturs.  Tilheyrði jörðinni austurhluti Timburvalladals, en einnig á köflum vesturhlutinn.  Samkvæmt manntali sem tekið var á Íslandi 1816 voru átta manns heimilisskráðir á Hjaltadalsjörðinni, fimm á Kambfelli og sautján á Sörlastöðum.

Heimildir eru um, m.a. í fornleifaskrá, að föst búseta hafi á fyrri öldum verið á Timburvalladal og hafa þar varðveist nöfn á nokkrum afbýlum.  Hið fremsta hét Hvítárkot, „langt inni í dalnum hjá ársprænu, er Hvítá heitir og hefur nafn af fossafalli. Þar er nú alt undir skriðu“. Mun kotið hafa verið um 13 km sunnan Sörlastaða, í um 350 m hæð yfir sjó.  Heimildir eru um nytjar á Timburvalladal, m.a. heyskapur og grasatekja, en samkvæmt skýrslu Hermanns Róberts Herbertssonar fyrir óbyggðanefnd var fram undir 1920 viðhafður sláttur fremst á dalnum, í svonefndum Slakka.  Einnig eru frásagnir um fornbýli á Timburvalladal.  Óljóst er um aldur fornbýlanna, en takmarkaðar fornleifarannsóknir hafa farið fram á dalnum, ólíkt því sem verið hefur á landsvæðinu þar austan og sunnan við, á Mjóadal, Íshólsdal og í Króksdal.

Timburvalladalur er vel gróinn, en nafngiftin bendir til að þar hafi verið gott skóglendi, og að timbur hafi fengist á völlunum til húsagerðar.  Dalurinn er, líkt og Hjaltadalur, tiltölulega þröngur en hlíðar eru skógi og kjarri vaxnar.  Dalbotninn er í um 300 m hæð yfir sjó, en hækkar eftir því sem framar dregur, í um 500 m.

Hjaltadalur er vel gróinn og grösugur.  Við mynni dalsins, sunnan Kirkjuhóls, austan og vestan ár, eru eyðibýlin Kambsfell og á Hjaltadal.  Samkvæmt fornleifaskrá eru heimildir og sagnir um sel og kvíatóftir innar á dalnum, þ. á m. Bjarnasel, Smáhólasel og Sífluhólasel.  Þá eru heimildir um bæjarstæði inn af miðjum Hjaltadal að vestanverðu, um 11 km sunnan Hjaltadalsbýlisins.  Eru sagnir  um að bærinn Hjaltadalur hafi verið þar til forna, en rústir sáust þar fram á 19. öldina.

Eins og fram kemur í umfjöllun óbyggðanefndar er í heimildum margoft lýst landgæðum jarðanna Sörlastaða og Hjaltadals, en einnig ókostum og þá einkum vegna skriðufalla.  Um miðbik 19. aldarinnar er báðum jörðunum m.a. lýst sem víðáttumiklum kostajörðum með miklu afréttarlandi.  Sagt er að Hálshreppur sé vegna þessa sjálfbær með afréttarland.  Einnig segir frá því ítrekað í heimildum að á meðal hlunninda Sörlastaða og Hjaltadals sé gjaldtaka vegna upprekstrar- og afréttarlands.  Virðist afréttarlandið hafa tilheyrt jörðunum með sama hætti og annað land þeirra, en byggð á Timburvalladal virðist hafa verið meiri en í Hjaltadal.  Þá virðist það fyrst hafa komið til eftir að Hjaltadalsjörðin lagðist í eyði og komst í eigu Hálshrepps á 20. öldinni að nýting alls lands hennar fór að einskorðast við afréttarnot.

Þegar ofangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að land innan Hjaltadals hafi að einhverju leyti haft stöðu afréttar að lögum, en engar framlagðar heimildir vísa til slíks.  Verður því lagt til grundvallar að áðurraktar heimildir endurspegli fremur beitarnot á hálendari hlutum jarðarinnar.

Landamerkjabréf fyrir Sörlastaði og Hjaltadal voru gerð í kjölfar setningar landamerkjalaganna nr. 5, 1882, en nokkru síðar var það gert fyrir Mjóadal, framan Bárðardals.

Segir í þinglýstu bréfi Sörlastaða frá 19. apríl 1884 um austur-, suður-, og vesturmerkin:  „Til austurs á Vallnafjall eiga Sörlastaðir land að Bæjargilstjörn, að Grettistaki, að Fremraskarðsdragi, að Hvítárdragi, að Pílagrímsmosum og að Pílagrímsfjalli.  Að sunnan liggja eiðigrjót og sandar.  Að vestan skiftir Sörlastaðaland frá Hjaltastaðlandi og Snæbjarnarstaðalandi Timburvalladalsá og Bakkaá“.  Bréfið var undirritað af eigendum og umboðsmönnum nágrannajarðanna, þ. á m. Bakka, Hjaltadals og Snæbjarnarstaða, en einnig af jarðeigendum í Bárðardal, þ.e. á Stóruvöllum, Sandhaugum og Mýri, en hins vegar ekki af eiganda Mjóadals.

Í bréfi Hjaltadals frá 16. janúar 1883 segir um austur-, suður og vesturmerkin: „Að austan ræður Timburvallaá.  Að sunnan eru öræfi... Að vestan ræður Fjallið.“  Bréfið var undirritað af umboðsmanni jarðeiganda, en einnig af ábúendum Hjaltadals, Snæbjarnarstaða og Sörlastaða.  Bréfinu var þinglýst 18. júní 1884.

Í þinglýstu landamerkjabréfi Mjóadals frá 1897 segir um suður- og vesturmerki:

Að sunnan skilur Tungufellsá, svo Þvergil og síðast bein stefna úr því vestur á hágrjót, Mjóadalsland og almenning. Þaðan liggja svo merkin norður háfjallið, eptir því sem vatnsföll deila sveita milli, norður gegnt upptökum Syðri-Bótarár, sem að norðan skilur lönd Mjóadals og Mýrar.  Bréfið var áritað af landeiganda Mjóadals, en aðeins samþykkt af eigendum nágrannajarðanna Mýrar og Íshóls.

Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli, auk annarra atriða, hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.

Nefndum landamerkjabréfum var öllum þinglýst án athugasemda, þau færð í landamerkjabók og á þeim byggt síðan um merki jarðanna án merkjanlegs ágreinings.  Þau hafa því sem slík sönnunargildi um merki eignarlands jarðanna. Byggja stefndu kröfur sínar um beinan eignarrétt að umræddum landsvæðum ekki síst á þessum heimildarskjölum sínum.

Í úrskurði óbyggðanefndar er ítarlega fjallað um landamerki greindra jarða og þau borin saman.  Er það niðurstaða óbyggðanefndar að af merkjalýsingum sé ekki ljóst hversu langt til suðurs og suðausturs land Sörlastaða og Hjaltadals nái, en þó er sagt að þær mæli a.m.k. ekki í mót lýsingu landamerkjabréfa annarra jarða, þ. á m. Mjóadalsjarðarinnar.

Fallist er á með stefnanda að merki jarðanna Sörlastaða og Hjaltadals til suðurs séu harla óljós, sbr. orðnotkunin: „eyðigrjót og sanda og Að sunnan eru öræfi“.  Þá ber til þess að líta að ekki var gert landamerkjabréf fyrir Bleiksmýrardal austan Fnjóskár.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að ekki hafi fundist eldri heimildir um landamerkin, en staðhæft að þau séu í samræmi við ákvæði áðurrakinnar afréttarskrár um afréttarlönd sunnan Bárðardals frá 1904, þar sem m.a. sé tiltekið að merki Mjóadals til vesturs séu á hágrjóti og á vatnaskilum vestan við öll drög er liggi m.a. að Grjótá og Lambám og norður gegnt upptökum Syðri-Bótarár.

Það er niðurstaða óbyggðanefndar að land Sörlastaða sé innan upphaflegs landnáms og jafnframt að land jarðarinnar nái að merkjum nágrannajarðanna, þ. á m. til austurs á háfjallshryggnum gagnvart jörðum í Bárðardal, handan Vallnafjalls og Litluvallafjalls, en einnig til suðurs að Pílagrímsfelli á móti Mjóadalslandi, og til vesturs gagnvart Hjaltadal.

Fyrir liggur að með kaupsamningi útgefnum 27. nóvember 1955 seldi Ólafur Pálsson, bóndi á Sörlastöðum, sem þá var einn eigenda jarðarinnar, sinn hlut til Hálshrepps.  Í þessum kaupgerningi er landamerkjum til norðurs og vesturs lýst með sama hætti og gert er í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1884, en um merkin til austurs og suðurs segir að þar ráði: „vatnaskil á fjöllum“.  Kaupsamningur var undirritaður af oddvita hreppsins og þinglýst í desember sama ár.  Það er niðurstaða dómsins að þessi síðastgreinda lýsing sé í samræmi við það sem fram er komið, að land jarðarinnar hafi náð lengst til suðausturs að merkjum Mjóadals við Pílagrímsfell, en til suðvesturs að drögum Timburvalladalsár, en að þar fyrir sunnan og austan mæti jörðin landi Hjaltadals.

Að því er varðar jörðina Hjaltadal er fallist á það með óbyggðanefnd að með hliðsjón af lýstum landamerkjum sé land jarðarinnar innan landnáms og jafnframt að það nái að merkjum nágrannajarðanna, m.a. til austurs og suðurs gagnvart Sörlastöðum vestan Timburvalladalsár, til suðausturs gagnvart Mjóadal, frá hágrjóti og háfjöllum eftir því sem vatnsfjöll deila og til vesturs gagnvart Bleiksmýrardal um Tungufjall og síðan þaðan til suðvesturs að vatnaskilum vatnasviða Hjaltadalsár og Fnjóskár. Er að þessu leyti til þess að líta að í afsalsbréfi fyrir vesturhluta jarðarinnar Hjaltadals frá árinu 1955 segir um suðurmerkin að þau séu að austan og sunnan á „háfjöllum“.

Að ofangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að samræmi sé í merkjalýsingum nefndra jarða gagnvart öðrum jörðum og svæðum að því leyti að þau eru m.a. sögð ná til hálendis sunnan Fram-Fnjóskadals og nefndra fjalladala.  Verður að ætla að sauðfjárbúskapur og aðrar nytjar ábúenda á Sörlastöðum og Hjaltadal og á afbýlum þeirra hafi löngum verið háðar því að halda mætti búfénaði til beitar suður til heiða og nýta þar land til annarra þarfa eins og aðstæður leyfðu.  Samkvæmt því hafi eigendur jarðanna og umráðamenn þeirra gert ráðstafanir með löggerningum á sama hátt og gildir um eignarland almennt og farið með umráð og hagnýtingu þeirra að eigin vild.  Hafi jarðirnar verið byggðar og nýttar eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma, en þ. á m. hafa eigendur innheimt afréttartolla af þeim sem rekið hafi á afréttinn.

Verður fallist á með óbyggðanefnd að ekki séu fyrir hendi heimildir um sjálfstæða afmörkun á afrétti innan merkjalýsinga Sörlastaða á Timburvalladal og Hjaltadal, en slíka afmörkun leiðir eins og áður er rakið heldur ekki af staðháttum.  Þá eru ekki heimildir um að eignarréttarleg staða þess hluta jarðanna sem nýttur var sem afréttur hafi verið önnur en annarra hluta þeirra.  Afréttarlandið virðist því hafa tilheyrt jörðunum með sama hætti og annað land þeirra.  Hefur stefnandi að áliti dómsins því ekki leitt líkur að því að land jarðanna hafi að einhverju leyti haft stöðu afréttar að lögum.  Þá endurspegla áðurgreindar heimildir um afréttartolla, m.a. á Hjaltadal, fremur beitarnot á hálendari hlutum jarðanna.  Loks er til þess að líta að á þessu svæði eru ekki skörp skil af náttúrunnar hendi milli gróðurlendis og ógróins fjalllendis, eins og fyrr var rakið.

Að framangreindu virtu, en einnig í ljósi þess að vafalaust er að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á þessu landsvæði, svo sem á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er, mæla að áliti dómsins staðhættir ekki gegn því að hálendari hlutar jarðanna hafi verið hluti þeirra allt frá öndverðu.

Að því er varðar Bleiksmýrardal austan Fnjóskár er það niðurstaða óbyggðanefndar að dómur Landsyfirréttar í máli nr. 1/1855 sé bindandi um úrslit sakarefnis að því er varðaði fornan ágreining um það landsvæði, en eins og áður er rakið er dómsorðið svofellt: „Afrjettarlandið Bleiksmýrardalur allur fyrir austan Fnjóská frá Hamarslæk og sudur á öræfi, á ad tilheyra Múnkaþverár klaustri, sem fullkomin og átölulaus eign, og eigindómur þess.“  Og um afnotarétt nágrannajarðarinnar Illugastaða er sagt í nefndum dómi: „Illugastaða menn eiga upprekstur á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár fyrir geldfénað sinn á sumrum ókeypis.“

Samkvæmt gögnum seldi Stjórnarráðið Hálshreppi, forvera stefnda Þingeyjarsveit, „afréttarlandið“ Austur-Bleiksmýrardal þann 29. september 1919.

Á það verður fallist með óbyggðanefnd og stefnda, að niðurstaða Landsyfirréttar í nefndu dómsmáli, ásamt síðastnefndum afsalsgerningi, hafi vakið réttmætar væntingar dómhafa um að beinn eignarréttur væri fyrir hendi og nyti viðurkenningar og verndar opinbers valds.  Verður að þessu virtu, en einnig með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. í málum nr. 48/2004 og 448/2006, það lagt til grundvallar að Bleiksmýrardalur austan Fnjóskár sé eign stefnda, Þingeyjarsveitar.  Verðu því ekki fallist á með stefnanda að með greindum Landsyfirréttardómi hafi ekki verið skorið efnislega úr um eignarrétt.

Eigi er ágreiningur um að norðurmörk eignarlandsins á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár séu við Hamarslæk og að þau nái þaðan til suðurs, um svonefndan Miðpart og Austursanda dalsins.  Um endimörkin til suður verður lagt til grundvallar, sbr. áðurraktar röksemdir óbyggðanefndar, að þau séu við fyrrnefnda Einstökutorfu.

 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins, að virtum röksemdum stefndu, að fyrrnefnt landsvæði á Mjóadal, framan Bárðardals, en vestan Skjálfandafljóts, hafi verið numið og að þar sé jörð að lögum, líkt og er með jarðirnar á Fram-Fnjóskadal, Sörlastaði og Hjaltadal.  Það er og niðurstaða dómsins að kveðið hafi verið á um eignarrétt á hluta Bleiksmýrardals með áðurnefndum dómi Landsyfirréttar.

Þegar framangreind gögn eru virt í heild, ekki síst þegar litið er til legu þrætulandsins, fjarlægðar frá byggð, staðhátta, náttúrufars og þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndum hæstaréttarmálum, er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki hrakið eða leitt nægjanlegar líkur fyrir því að áðurraktar forsendur í úrskurði óbyggðanefndar séu rangar.  Að þessu sögðu og þar sem málatilbúnaður stefnanda styðst ekki við önnur gögn verður ekki fallist á að hann hafi sýnt fram á að umrædd landsvæði norðan framangreindrar línu, eins hún er dregin í úrskurði óbyggðanefndar, sé þjóðlenda.

Samkvæmt þessu telur dómurinn að lýst land Mjóadals, Sörlastaða, Hjaltadals og á Bleiksmýrardal austan Fnjóskár, líkt og segir í úrskurði óbyggðanefndar, sé eignarlenda en ekki þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a lið 7. gr., laga nr. 58,1998.  Þá verður fallist á það með óbyggðanefnd að í ljósi framlagðra gagna, m.a. frá Vatnamælingum Orkustofnunar frá 28. janúar 2008, að afmörkun eignarlandsins á landsvæðinu gagnvart afrétti taki mið af því svo sem vötnum hallar.  Verður að því leyti ekki síst, en einnig með hliðsjón af öðrum gögnum, tekið mið af landamerkjalýsingu Mjóadals varðandi vatnaskil á „hágrjóti“ í um 1000 m hæð og þaðan til suðvesturs eftir gróðursnauðu fjalllendi að lækjargili sunnan Einstökutorfu á austanverðum Bleiksmýrardal við Fnjóská.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið er hafnað kröfum stefnanda, íslenska ríkisins, um að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í máli þessu og skal hann standa óraskaður.  Verða stefndu samkvæmt öllu þessu sýknaðir af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutnings-þóknun lögmanns þeirra, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns.  Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, og loks því að mál þetta var endurflutt, er nefnd þóknun ákveðin 991.450 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991 fyrir uppsögu dómsins.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Þingeyjarsveit, Eiríkur Þóroddsson, Þórarinn Baldvinsson, Gylfi Friðriksson og Ólöf Eiríksdóttir, eru sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 991.450. krónur.

                                                                  Ólafur Ólafsson.