- Þjóðlenda
- Eignarréttarmál
D Ó M U R
Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 10. desember 2008 í máli nr. E-349/2007:
Stefán Halldórsson og
Sigvarður Halldórsson
(Friðbjörn Garðarsson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hdl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 16. október 2008, var höfðað 17. desember 2007.
Stefnendur eru Stefán Halldórsson, Brú II, Fljótsdalshéraði og Sigvarður Halldórsson, Brú I, Fljótsdalshéraði.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli, Reykjavík.
Málið er höfðað til ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar og viðurkenningar á eignarréttarlegri stöðu lands jarðarinnar Brúar á Jökuldal.
Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 2/2005: Jökuldalur norðan og vestan Jökulsár á Jökuldal ásamt Jökulsárhlíð, frá 29. maí 2007, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði, sem nefnt hefur verið Brúaröræfi, innan neðangreindra marka:
Frá tindi Álftadalsdyngju í 802 m hæð yfir sjávarmáli er dregin lína til norðvesturs í annan tind (840 m) og þaðan yfir þriðja tindinn (700 m) og beina línu í Kreppu. Ræður síðan Kreppa þar til Kverká fellur í hana, og Kverká að upptökum við Vatnajökul. Þaðan er jökuljaðrinum,eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, fylgt að upptökum Jökulsár á Jökuldal. Þeirri á er síðan fylgt að suðurmerkjum Laugarvalla, en þau liggja þaðan sem Sauðá fellur í Jökulsá. Þaðan er Sauðá fylgt þangað sem Stórilækur fellur í hana. Þaðan er dregin lína vestan megin Hvannstóðsfjalla í fjallgarðinn norðan við Vesturdal, inn undir Hvannstóðsfjöllum. Þar sem þessi merkjalína Laugarvalla sker línu sem dregin er frá tindi í Þríhyrningsfjallgarði (777 m) og til suðausturs í stefnu á gilendann í Vesturárdal er hornmark. Fráhornmarkinu er framangreindri línu fylgt á í áðurnefndan tind í Þríhyrningsfjallgarði (777 m), þaðan er dregin lína í tinda í Álftadalsfjalli, þann fyrri í 828 m hæð yfir sjávarmáli og þann síðari í 904 m hæð yfir sjávarmáli. Loks er dregin lína í tind í Álftadalsdyngju í 785 m hæð yfir sjávarmáli og í þann tind á fjallinu er hér að framan var fyrst nefndur og er í 802 m hæð yfir sjávarmáli.
Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að á Brúaröræfum innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.
Til vara krefjast stefnendur þess að framangreindur úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan neðangreindra marka:
Frá upptökum Jökulsár á Jökuldal í Vatnajökli þar til Sauðá fellur í hana. Þaðan með Sauðá til upptaka í Vatnajökli. Á milli upptaka Jökulsár á Jökuldal og Sauðár ræður jaðar Vatnajökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998.
Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.
Í báðum tilvikum krefjast stefnendur þess að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns stefnenda eða samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar en til vara að hver aðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu.
Farið var á vettvang 14. september 2008.
I.
Í stefnu kemur fram að stefnendur séu eigendur óskipts lands jarðarinnar Brúar á Jökuldal, sbr. skiptagerð frá árinu 2000, en með skiptagerðinni hafi jörðinni verið skipt í Brú I, í eigu stefnanda Sigvarðar og Brú II í eigu stefnandans Stefáns, en hvorri jarðanna fylgi helmingshlutur í óskipti landi Brúar.
Bújörðin Brú á Jökuldal hafi ávallt verið talin sú önnur stærsta á Íslandi á eftir nágrannajörðinni Reykjahlíð í Mývatnssveit. Land Brúar afmarkist að norðan af landamerkjum jarðanna Möðrudals, Heiðarsels og Eiríksstaða, að austan af Jökulsá á Dal, að sunnan af Vatnajökli og að vestan af Jökulsá á Fjöllum. Land jarðarinnar sé allt samfellt og afmarkað afar glöggum merkjum frá náttúrunnar hendi.
Samkvæmt texta Landnámu hafi Hákon Hákonarson numið „...Jökulsdal allan fyrir vestan Jökulsá ok fyrir ofan Teigará ok [hafi búið] á Hákonarstöðum.“ Af tilvitnuðum texta Landnámu sé ljóst að ritari hennar hafi talið landnám Hákonar afmarkast af Jökulsá á Dal fyrir ofan (sunnan) Teigará og allt til upptaka hennar.
Brúar sé ekki getið í heimildum fyrr en á 15. öld og fáar skriflegar heimildir um jörðina hafi varðveist frá miðöldum. Jörðin Brú virðist frá upphafi hafa verið í bændaeign og kunni það að skýra fyrrgreinda heimildafátækt, en þó verði að geta þess að fjöldi íslenskra skjala hafi glatast í tímans rás, eins og alkunna sé. Elsta beina heimildin um heildarlandamerki jarðarinnar sé landamerkjabréf hennar frá árinu 1890, en þó hafi varðveist fáeinar heimildir sem ljósi geti varpað á landamerki Brúar, þó með óbeinum hætti sé.
II.
Í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, tók óbyggðanefnd til meðferðar nánar tilgreint landsvæði á Norðausturlandi, sem nefndin kallaði svæði nr. 5. Hófst málsmeðferðin á árinu 2004 og lauk með uppkvaðningu úrskurða 29. maí 2007 í málum sem fengu númerin 1 til 5/2005. Var útdráttur úrskurðanna birtur í Lögbirtingablaðinu 18. júlí 2007, lögum samkvæmt, en mál þetta var höfðað 17. desember sama ár og því innan þess sex mánaða málshöfðunarfrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Ágreiningsefni í máli þessu varðar þann hluta úrskurðar óbyggðanefndar í máli nr. 2/2005 sem lýtur að eignarréttarlegri stöðu lands jarðarinnar Brúar á Jökuldal, en jörðin er í eigu stefnenda. Til norðurs á jörðin Brú land að jörðunum Eiríksstöðum, Heiðarseli og Möðrudal og liggja landamerki jarðarinnar að merkjum nefndra jarða frá Jökulsá á Dal allt yfir til Jökulsár á Fjöllum. Fyrir óbyggðanefnd kröfðust stefnendur þess að allt land milli nefndra jökulsáa frá framangreindri línu til suðurs allt til upptaka ánna í Vatnajökli yrði talið undirorpið beinum eignarrétti þeirra, að frátöldu landi jarðarinnar Laugarvalla sem liggur meðfram Jökulsá á Dal nokkru fyrir sunnan landamerki Brúar gagnvart Eiríksstöðum. Íslenska ríkið gerði kröfu til þess að land sunnan línu sem dregin væri milli jökulsánna frá þeim stað sem Kreppa rennur í Jökulsá á Fjöllum, í toppinn á Bíldufelli og beina línu í Jökulsá á Dal, teldist þjóðlenda. Undir meðferð málsins hjá óbyggðanefnd var umfjöllun um svonefnda Krepputungu klofin frá og var síðan um það landsvæði fjallað þegar tekið var fyrir svæði nr. 6 hjá nefndinni. Krepputunga afmarkast af Jökulsá á Fjöllum frá upptökum í Vatnajökli og að þeim stað sem Kreppa fellur í hana, síðan er Kreppu fylgt þar til Kverká fellur í hana og þeirri á síðan fylgt að upptökum í Vatnajökli. Í úrskurði óbyggðanefndar var ekki fallist á kröfulínu íslenska ríkisins og talið að Arnardalur teldist af nánar tilgreindum ástæðum undirorpinn beinum eignarrétti stefnenda. Var dregin lína frá Kreppu eftir nánar tilgreindum fjórum tindum Álftadalsdyngju yfir tvo tinda í Álftadalsfjalli og þaðan nánast beint í landamerki Laugarvalla um nánar tiltekinn tind í Þríhyrningsfjallgarði. Var þannig viðurkenndur beinn eignarréttur eigenda Brúar að öllu landi norðan umræddrar línu, milli nefndra vatnsfalla, en land sunnan línunnar allt að upptökum ánna í Vatnajökli var talin þjóðlenda í afréttareign Brúar. Stefndi í máli þessu unir þessari niðurstöðu óbyggðanefndar og stendur ágreiningur máls þessa því um hvort innan greindra merkja, sem nánar er lýst í aðalkröfu stefnenda, sé þjóðlenda í afréttareign stefnenda eða hvort landið er háð beinum eignarrétti þeirra.
III
Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nefndarinnar nr. 2/2005 var kveðið á um eignarréttarlega stöðu Jökuldals norðan og vestan Jökulsár ásamt Jökulsárhlíð og Hróarstungum. Varðar úrskurðurinn því mun víðlendara landssvæði en deilt er um í dómsmáli þessu. Verður hér gerð grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar, eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins. Í nefndum úrskurði er lýst með nákvæmum hætti í sérstökum undirkafla (5.19) þeim rituðu heimildum sem lágu fyrir óbyggðanefnd varðandi jörðina Brú á Jökuldal. Þá er þar sérstakur kafli (5.23) um afréttarnot á svæðinu og er þar meðal annars fjallað um Brú á Jökuldal. Niðurstöðukafli úrskurðarins hefst á inngangi þar sem fjallað er um almenn atriði og dómafordæmi í þjóðlendumálum og þá er í sérstökum undirköflum fjallað almennt um gildi landamerkjabréfa jarða og heiðarbýli á Norðausturlandi. Loks er almennur kafli um landnám svæðisins, en á eftir honum er raðað í staðfræðilega röð niðurstöðu um einstaka jarðir og landsvæði, m.a. Brú á Jökuldal.
Þó líta verði til úrskurðar óbyggðanefndar í heild við endurskoðun hans fyrir dómi þykir ekki ástæða til að rekja hér hina almennu umfjöllun í úrskurðinum en látið við það sitja að setja fram niðurstöðu nefndarinnar að því er varðar Brú á Jökuldal sérstaklega.
Í niðurstöðu óbyggðanefndar um Brú á Jökuldal kemur fram að jarðarinnar sé fyrst getið í heimildum frá 15. öld og af þeim verði ráðið að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða.
Þá kveður nefndin að fyrst komi til skoðunar hvað ráðið verði af heimildum um merki Brúar. Elsta eiginlega merkjalýsing jarðarinnar sé í landamerkjabréfi sem dagsett sé 4. júlí 1890 og hafi verið þinglesið 6. júní 1894. Síðar hafi verið gert annað landamerkjabréf fyrir Brú dagsett 14. október 1921, sem þinglesið hafi verið 27. júlí 1922. Einnig verði litið til annarra heimilda sem vísbendingar geti gefið um sama efni, enda þótt þar séu ekki eiginlegar merkjalýsingar. Jafnframt verði hugað að afmörkun aðliggjandi landsvæða. Athugun þessi taki fyrst og fremst til suðurmerkja, inn til landsins og á kröfusvæði íslenska ríkisins. Að fenginni niðurstöðu um landamerki Brúar verði fjallað um eignarréttarlega stöðu þess landsvæðis sem sé til umfjöllunar.
Verði þá fyrst litið til norðurmerkja Brúar. Í því sambandi skuli þess getið að mörk annars vegar Brúar og hins vegar Eiríksstaða og Möðrudals, liggi utan við kröfusvæði íslenska ríkisins og þarfnist því ekki sérstakrar athugunar. Af hálfu íslenska ríkisins sé hins vegar gerð krafa um að heiðarbýlin Heiðarsel og Grunnavatn séu þjóðlenda. Krefjendur beins eignarréttar haldi því hins vegar fram að þau séu byggð í eignarlandi Brúar. Í máli þessu sé ekki ágreiningur um mörk Brúar að þessu leyti en um Heiðarsel og Grunnavatn sé fjallað annarsstaðar í úrskurðinum.
Samkvæmt eldra landamerkjabréfi Brúar, frá 1890, séu mörk gagnvart Eiríksstöðum, Hákonarstöðum og Möðrudal, miðuð við garð „...er liggur úr Jökulsá utan við svokallaða Orustustaði, sjónhending í fremstu Hnefilöxl; þaðan í svokallaðan Stóralæk, er fellur í Þverárvatn, og allt land vestan vatna, út í sel sem stendur í svo kölluðum Skalladal; þaðan beina leið í Rúnastein á Urðarhlíð, sjónhending í hestleið á Þríhyrningsfjallgarði.“ Landamerkjabréfið sé áritað vegna Eiríksstaða, Möðrudals og að öllum líkindum vegna Hákonarstaða. Með yngra landamerkjabréfi Brúar, frá 1921, hafi norðurmörk færst sunnar. Samkvæmt því séu mörk gagnvart Eiríksstöðum, Heiðarseli og Möðrudal miðuð við „...grafning ... er fellur í Jökulsá utan við Orustustaði, sjónhending í fremstu Hnefilsöxl, þaðan í Merkilæk, sem fellur í mitt Þverárvatn sunnanvert, alt land vestan vatns út í Svínabúðalæk, sem ræður þaðan neðan frá Kílum upp á ölduna neðan við Gyltuteig, þaðan í lágan mel utan við Fiskidalshálsinn, þaðan beina línu í ysta þríhyrninginn. Þaðan beina línu í Arnardalsós við Jökulsá á Fjöllum ...“ Bréfið sé áritað af fyrirsvarsmönnum Heiðarsels, Eiríksstaða og Möðrudals.
Austurmerki Brúar liggi í Jökulsá á Jökuldal. Austan árinnar séu jarðirnar Vaðbrekka og Aðalból nyrst, en ágreiningssvæði í máli nr. 1/2005 hjá óbyggðanefnd þegar sunnar dragi og nær jökli. Nánar tiltekið sé þar um að ræða þann hluta „Valþjófsstaðakirkjulands“ sem nefndur sé Vesturöræfi. Vesturmerki Brúar miðist við Jökulsá á Fjöllum, en vestan hennar sé ágreiningssvæði í máli nr. 1/2007 hjá óbyggðanefnd, nánar tiltekið sá hluti þjóðlendukröfusvæðis íslenska ríkisins sem eigendur Reykjahlíðar geri eignarlandskröfu til. Þessi merki verði ekki talin þarfnast nánari umfjöllunar hér en þess skuli þó getið að í landamerkjabréfum Vaðbrekku og Aðalbóls, sem dagsett séu 13. desember 1921 og þinglesin 27. júlí 1922, komi fram að mörk Vaðbrekku og Aðalbóls séu „rétt á móti Nónhnúk í Brúarlandi“ en jökulsá ráði merkjum jarðanna að vestan.
Sá ágreiningur sem hér sé til úrlausnar varði suðurmerki Brúar, inn til landsins og í átt að jökli. Í hinu eldra landamerkjabréfi segi svo um þetta atriði, eftir að norðurmerkjum hafi verð lýst: „Allan Arnardal átölulaust, allt land Jökulsár á milli.“ Í yngra landamerkjabréfi Brúar sé norðurmerkjum lýst vestur í Arnardalsós við Jökulsá á Fjöllum og síðan segi „alt land Jökulsáa á milli.“
Samkvæmt framangreindu sé suðurmerkjum Brúar hvergi lýst sérstaklega í heimildum. Þá sé sá munur á eldra og yngra landamerkjabréfi jarðarinnar að í hinu eldra virðist einungis vísað frá Arnardal austur til Jökulsár á Jökuldal en í hinu yngra séu jökulsárnar tvær, í vestri og austri. Þess sé ekki getið í yngra landamerkjabréfi Brúar að á því svæði, sem krefjendur beins eignarréttar í máli þessu miði við að sé innan merkjalýsingar, sé að finna allstórt landssvæði sem tilheyri Laugarvöllum. Hafi þó bréf Laugarvalla verið gert samdægurs yngra bréfi Brúar og áritað af hálfu eigenda þeirrar jarðar.
Komi þá til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands sunnan kröfulínu íslenska ríkisins. Svo sem komi fram fyrr sé því ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verði þó að telja fremur ólíklegt að land á þessu svæði hafi verið numið að Vatnajökli. Óvissa um aðferðir við landnám sé þó of mikil til þess að hægt sé að fullyrða um stærð landnáma á þeim grundvelli, eins og fjallað sé nánar um í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar.
Á 18. öld hafi fyrirsvarsmenn Möðrudals og Brúar deilt um rétt jarðanna til Arnardals og yngri heimildir greini frá því að þar hafi verið hestaganga á vetrum. Sá ágreiningur virðist hafa verið útkljáður við gerð landamerkjabréfs Brúar 1890, sbr. orðalagið „Allan Arnardal átölulaust, ...“ Arnardalur liggi vestan Þríhyrningsfjalla en norðan Álftadalsdyngju, austur af ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum. Laugarvallasvæðið hafi einnig nokkra sérstöðu í heimildum um landnýtingu á þessu svæði, en um það vísist til umfjöllunar um Laugarvelli í úrskurðinum.
Að því er varði heimildir um fyrri tíðar nýtingu á öðrum hlutum þessa landsvæðis beri fyrst að geta skoðunargerðar Páls Melsted sýslumanns frá árinu 1824. Þar segi að af afréttum þeim „er Brú tilheyra, og Brúardalir nefnast, [sé] aftekin fullur þridiúngur, vegna þess að Vatnsfall nokkurt, ad nafni Saudá, [sé], vegna Jökulhlaupa, aldeilis ófært ordid bæde Mönnum og Sképnum, og öll Öræfe þau, sem þar [séu] fyrir framan, [séu] því Jördunni töpud og ad eingu Gagni.“ Sóknarlýsing Sigfúsar Finnssonar prests í Hofteigi frá árinu 1840 sé í samræmi við skoðunargjörðina en þar segi að afréttir í sókninni séu „öngvir, þar fjallöndin (sem sagt) [séu] fallin í sand og aura, nema Skjöldólfsstaða- og Hákonarstaðaheiðar og einstöku torfuskikar á Brúardölum, ...“ Þá komi fram í sömu sóknarlýsingu að almenninga sé ekki að finna í sveitinni. Í jarðamati 1849 segi um Brú að afrétt eigi jörðin „fyrir sjálfa sig, og má ljá hann öðrum 2ur eda 3ur mönnum.“ Þá segir að útheyjarskapur sé talsverður en langsóttur.
Í sóknarlýsingu Þorvalds Ásgeirssonar prests í Hofteigi frá 1874 segi um Brú að jörðin sé „einhver hin erfiðasta allra stórjarða í sveitinni því að heyskapur sé svo að segja enginn í heimalandi heldur langsóttur mjög, bæði á Laugarvalladal og norður undir fjallgarða.“ Nefndir fjallgarðar séu utan kröfusvæðis íslenska ríkisins en Laugarvalladalur innan ágreiningssvæðis í máli þessu. Þá segi um hinn svonefnda Brúarskóg, sem liggi „fyrir innan bæinn með fram Jökulsánni að norðan, að þar [sé] ekki nokkur kvisttanni, en beit [sé] þar oft góð, haust og vor, fyrir sauði.“ Brúarskógur nái upp að Hafrahvammagljúfri og sé þannig bæði innan kröfusvæðis Brúar og Laugarvalla. Loks sé fjallað almennt um afrétti innan sóknarinnar en þeir helstu séu „...Fljótsdals- og Jökuldalsheiðin, þ.e. hver jörð hefur afrétt í þeirri heiði, sem henni tilheyrir. Auk þess [séu]: Vesturöræfaafrétt, fram af Hrafnkelsdal, og Brúardalir, fram af Jökuldal, og [séu] þessar afréttir aðeins notaðar af fremstu bæjum.“ Í bókinni Lýsing Íslands frá árinu 1881 segi að upp af Múlasýslum séu afar víðáttumikil beitarlönd og afréttir. Þar séu sauðsnöp víða og sumstaðar stórir hagablettir. Upp af Brúaröræfum við Brúarjökul séu hagasvæði á Þorláksmýrum og í Maríutungum. Þá segi að bændur frá Efri-Jökuldal hafi upprekstur fyrir lömb sín á Kringilsárrana og séu þau flutt á kláfdrætti yfir Kringilsá. Í fasteignamati 1916-1918 segi að jörðinni Brú fylgi víðlent afréttarland og silungsveiði í heiðarvötnum.
Eins og nánar sé fjallað um fyrr í úrskurðinum hafi það verið niðurstaða Hæstaréttar að landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða en hins vegar verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landssvæði, sem hafi verið beinum eignarrétti háð, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landssvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hver eðlis sem þau hafi verið. Beri um þetta efni sérstaklega að vísa til dóms Hæstaréttar 5. október 2006 í máli nr. 67/2006.
Svo sem að framan hafi verið rakið séu landamerki Brúar óljós um merki til suðurs. Þá fái það ekki stoð í eldri heimildum að eignarland Brúar hafi náð allt suður að Vatnajökli. Arnardalur hafi nokkra sérstöðu í heimildum og að teknu tilliti til þess virðist eðlilegt að skýra eldra landamerkjabréf Brúar þannig að merki jarðarinnar nái til þess svæðis í heild sinni og þaðan austur að Jökulsá á Jökuldal. Þegar þeirra landssvæða sem sunnar liggi sé getið í skriflegum heimildum sé það að jafnaði tengt upprekstri og afréttarnotum. Engin gögn liggi fyrir um að þau hafi allt fram á síðustu ár verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota. Staðhættir og fjarlægð frá byggð styðji þá niðurstöðu en landsvæðið sé nær allt í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið sé ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum jörðum án hindrana. Framangreint bendi til þess að á svæðinu sunnan Arnardals og Laugarvalla sé afréttur í þeim skilningi að jörðin Brú eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.
Óbyggðanefnd telji að af svari hreppstjóra Jökuldalshrepps vegna fyrirspurnar Stjórnarráðs Íslands um afrétti og almenninga í Norður-Múlasýslu, dags. 3. júní 1920, verði ekki dregin sú ályktun að allt land innan sveitarfélaganna sé háð beinum eignarrétti. Að því er varði greiðslu felligjalda hreindýra til eigenda Brúar telji óbyggðanefnd að slíkar greiðslur séu í samræmi við þann rétt sem afréttareign fylgi.
Ekki liggi fyrir hvernig eigendur Brúar séu komnir að rétti sínum til umrædds landssvæðis. Í málinu sé ekki sýnt fram á annað en að réttur til þess hafi orðið til á þann veg að landssvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.
Eftir sé þá að leysa úr því hver séu mörk eignarlands Brúar til suðurs. Samkvæmt því sem áður hefi verið greint um skýringu á eldra landamerkjabréfi Brúar, sbr. einnig heimildir um Arnardal, telji óbyggðanefnd rétt að miða hér við að Arnardalssvæðið sé innan merkja eignarlands Brúar, og afmarkist af tindum Álftadalsdyngju sunnan þess. Með vísan til aðildar eigenda Brúar að landamerkjabréfi Laugarvalla og staðhátta á svæðinu telji óbyggðanefnd rétt að miða við að eignarland Brúar afmarkist til suðurs af tindum Álftadalsfjalls og Þríhyrningsfjalla og þaðan að merkjum Laugarvalla.
Ekki sé í ljós leitt að nýting eigenda Brúar á landsvæðinu sunnan þessarar afmörkunar fái grundvallað eignarrétt byggðan á hefð eða öðrum þeim stofnunarháttum eignarréttinda sem grein hafi verið gerð fyrir í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Rannsókn óbyggðanefndar leiði einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Heimildir bendi hins vegar til þess að það sé í afréttareign Brúar. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Land það sem hér sé til umfjöllunar verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði [...] sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.
Óbyggðanefnd telji ljóst að ákvarða þurfi mörk þess svæðis, sem samkvæmt framangreindu sé í afréttareign eigenda Brúar, að því leyti sem það liggi að jökli, til frambúðar, sbr. b. lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Með hliðsjón af því að hér sé um einhliða ákvörðun afréttarmarka að ræða en ekki mörk tveggja afrétta eða afréttar og eignarlands telji óbyggðanefnd þó fullnægjandi að miða einfaldlega og án nánari afmörkunar við jaðar jökulsins eins og hann hafi verið við gildistöku laga nr. 58/1998, sbr. 3.mgr. 1. gr. laganna. Ekki verði séð að frekari rannsókn á þessu atriði hafi hagnýta þýðingu í þessu sambandi enda sé eingöngu um beitarréttindi að ræða sem ráðist af gróðurfari og hafi ekki þýðingu í öðru sambandi.
Það sé því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það, þ.e. Brúaröræfi, svo sem það sé nánar afmarkað í úrskurðinum teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a. lið 7. gr. laga nr. 58/1998, og sé þannig fallist á kröfu íslenska ríkisins að hluta. Sama landsvæði sé í afréttareign eigenda Brúar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c. lið 7. gr. sömu laga. Hluti þess svæðis sem hér hafi verið lýst þjóðlenda og í afréttareign Brúar sé háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, sbr. náttúruminjaskrá og auglýsingu nr. 181/2003.
Merkjalýsing úrskurðarins er orðrétt tekin upp í aðalkröfu stefnanda og því ekki ástæða til að rekja hana að nýju hér.
IV
Stefnendur byggja á því að land þeirra, sem kallað er Brúaröræfi, sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem eignarland sé skilgreint þannig að það sé landsvæði þar sem eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Það hafi því verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja fyrrgreint landsvæði til þjóðlendu.
Stefnendur telji að Brúaröræfi hafi verið hluti landnáms Hákonar Hákonarsonar en það hafi náð milli Jökulsár á Dal og Jökulsár á Fjöllum allt til Vatnajökuls. Eignarréttur hafi þannig stofnast við landnám og fullljóst að um fullkominn eignarrétt hafi verið að ræða þar sem engar heimildir bendi til þess að landnámsmenn hafi numið land til annars en fullrar eignar. Engin rök séu fyrir því að ætla að hluti lands, sem hafi verið á einni hendi um aldir, hafi verið skilinn frá og talinn einungis undirorpinn afnotarétti. Slíkt væri hugsanlegt ef um almenning eða samnotaafrétt margra jarða eða heillar sveitar væri að ræða, sem sé ekki í þessu tilviki.
Stefnendur telji að þinglýstar heimildir beri með sér að Brúaröræfi hafi verið hluti Brúarlands skv. þinglýstum landamerkjabréfum og óbyggðanefnd hafi ranglega túlkað hið eldra landamerkjabréf jarðarinnar, en túlkun nefndarinnar á texta bréfsins sé helsta röksemdin í þeirri niðurstöðu nefndarinnar að hin svonefndu Brúaröræfi skuli vera þjóðlenda.
Hið eldra landamerkjabréf jarðarinnar sé dagsett 4. júlí árið 1890 og hljóði svo:
Landamerki milli Brúar og Eiríksstaða, Hákonarstaða og Möðrudals:
Eptir garði þeim er liggur úr Jökulsá utan við svokallaða ,,Orustustaði” sjónhending í fremstu Hnefilöxl, þaðan í svokallaðan Stóralæk er fellur í Þverárvatn og allt land vestan vatna út í sel sem stendur í svokölluðum Skolladal, þaðan beina leið í Rúnastein á Urðarhlíð, sjónhending í hestleið á Þríhyrningsfjallgarði. Allan Arnardal átölulaust, allt land jökulsár á milli.
Landamerkjalýsingunni hafi verið þinglýst 6. júní 1894 á Skjöldólfsstaðamanntalsþingi og færð í landamerkjabók N-Múlasýslu. Undir hana riti Eiríkur Guðmundsson bóndi á Brú, Einar Eiríksson bóndi á Eiríksstöðum, S[ölvi] Magnússon, Eiríkur Einarsson og St[efán] Einarsson bóndi á Möðrudal.
Nýtt landamerkjabréf hafi verið undirritað, þann 14. október árið 1921 í samræmi við landamerkjalög frá árinu 1919 og hljóði svo:
Eftir grafning þeim er fellur í Jökulsá utan við Orustustaði, sjónhending í fremstu Hnefilsöxl, þaðan í Merkilæk, sem fellur í mitt Þverárvatn sunnanvert, allt land vestan vatna út í Svínabúðarlæk, sem ræður þaðan neðan frá Kílnum upp á ölduna neðan við Gyltuteig, þaðan í lágan mel utan við Fiskidalshálsinn, þaðan beina línu í Ysta-Þríhyrninginn. Þaðan beina línu í Arnardalsárós við Jökulsá á Fjöllum, og allt land Jökulsáa á milli.
Landamerkjabréfinu hafi verið þinglýst 27. júlí árið 1922 á Skjöldólfsstaðamanntalsþingi og undir það riti Eyjólfur Marteinsson bóndi á Brú, Einar Eiríksson bóndi Eiríksstöðum, Guðjón Gíslason bóndi Heiðarseli og Jón A. Stefánsson bóndi Möðrudal.
Að auki riti Björn Þorkelsson hreppstjóri Jökuldalshrepps undir svofellda yfirlýsingu á landamerkjabréfinu, sem dagsett sé 15. desember 1921: Allir aðiljar hafa undirskrifað landamerkin ágreiningslaus.
Stefnendur telji sönnunargildi hins yngra landamerkjabréfs vera miklum mun meira en hins eldra vegna þess að í ljósi slæmrar reynslu af hinum eldri landamerkjalögum hafi verið sett ný lög um landamerki árið 1919, lög nr. 41/1919, þar sem hvort tveggja hafi verið skerpt á efnis- og formsatriðum til þess að tryggja betri framkvæmd. Nýja löggjöfin hafi verið vandlega undirbúin og hafi ríkisstjórnin fengið lagadeild Háskóla Íslands til þess að semja frumvarp til nýrra landamerkjalaga. Lagadeildin hafi falið Einari prófessor Arnórssyni að semja frumvarpið.
Í greinargerð Einars Arnórssonar sem fylgt hafi fumvarpinu segi:
Landamerkjaskrár hafa eigi verið gerðar fyrir allar jarðir á landinu að því er ætla má. En þó þær hafi sjálfsagt verið gerðar að nafni til , þá munu margar þeirra eigi hafa hlotið samþykki allra aðilja ... Og er eigi heldur trygging fyrir því að merki hafi verið rétt samkvæmt því. (Alþingistíðindi 1919, A. Þingskjöl, þskj. Nr. 7, bls 172.)
Til þess að bæta úr þessum ágöllum hafi því ákvæði verið bætt í landamerkjalög nr. 41/1919 að landamerkjaskrár skyldi afhenda hreppstjóra, er rannsaka skyldi hvort allir aðilar hafi samþykkt hana og afhenda hana að því búnu sýslumanni til þinglýsingar. Þetta hafi verið ein mikilvægasta breytingin sem gerð hafi verið með lögum nr. 41/1919, en lögin skyldi bæði hreppstjóra og sýslumenn til að gæta þess sérstaklega eftirleiðis að lögunum verði fylgt. Þannig sé ábyrgð hins opinbera á réttri framkvæmd laganna ákveðin miklu skýrar en áður og þar með sönnunargildi landamerkjaskráa um eignarrétt aukið.
Á bls. 174 í úrskurði óbyggðanefndar í máli 2/2005 komi fram túlkun nefndarinnar á landamerkjabréfum Brúarjarðarinnar, en þar segi:
...í hinu eldra [landamerkjabréfi] virðist einungis vísað frá Arnardal austur til Jökulsár á Jökuldal en í hinu yngra [landamerkjabréfi] eru jökulárnar tvær, í vestri og austri.
Stefnendur geri alvarlegar athugasemdir við fyrrgreinda túlkun óbyggðanefndar. Engu sé líkara en að nefndin geri ráð fyrir því að landamerkjalýsing hins eldra landamerkjabréfs stöðvist í föstum punkti ...í hestleið á Þríhyrningsfjallgarði. Síðan telji nefndin, að því er virðist, að Arnardalur sé afmarkaður sérstaklega, án þess þó að merkja sé getið, og vísað þaðan austur í Jökulsá á Jökuldal. Þetta sé alröng túlkun. Hestleiðin á Þríhyrningsfjallgarði hafi auðvitað legið yfir Jökulsá á Fjöllum og áfram til Norðurlands eða suður Sprengisand. Hestleiðirnar vestur frá Brú hafi raunar verið þrjár og kunni óvissa um legu þeirra að hafa leitt til hinna langvinnu deilna milli Brúarmanna og Möðrudælinga um Arnardal, því ein hestleiðin hafi skilið að land jarðanna. Þarfnist því hestleiðir þessar sérstakrar athugunar við.
Margt bendi til þess að brú hafi verið yfir Jökulsá á Jökuldal við bæinn Brú og af henni dragi bærinn nafn sitt. Vísbendingar um þetta sé meðal annars að finna í Hrafnkels sögu Freysgoða, sem rituð hafi verið á seinni helmingi 13. aldar, en þar segi í 8. kafla sögunnar, þar sem greint sé frá þingreið Sáms úr Hrafnkelsdal:
Hann fer norður til brúa og svo yfir brú og þaðan yfir Möðrudalsheiði, og voru í Möðrudal um nótt. Þaðan riðu þeir til Herðibreiðstungu og svo fyrir ofan Bláfjöll og þaðan í Króksdal og svo suður á Sand og komu ofan í Sandafell og þaðan á Þingvöll.
Athygli veki orðalagið norður til brúa og sumir telji að átt sé við brú yfir Jöklu hjá Fossvöllum, sem vissulega séu fyrir norðan Hrafnkelsdal. Slíkt sé þó ómögulegt enda sé leiðin þá 1-2 dagleiðum lengri. Það sé því nánast fullvíst að átt sé við brú við bæinn Brú á Jökuldal, sem einnig sé fyrir norðan Hrafnkelsdal, og samræmist sá skilningur vel orðalagi 2. kafla sögunnar þegar lýst er landaleit Hrafnkels.
Þá var Jökulsdalur albyggður upp að brúm.
Þrennt gæti úrskýrt þetta orðalag: Hið fyrsta sé að brýrnar hafi verið tvær, annað er að Brúarbæirnir hafi verið tveir og hinn þriðji og líklegasti sé sá skýringarkostur að notuð hafi verið fleirtala orðsins brú yfir hvort tveggja bæinn og brúna.
Einnig séu vísbendingar í fyrrgreinda átt að finna í Droplaugarsonasögu, n.t.t. í 13. kafla, en þar segi:
Nú leituðu þeir sér ráðs er eftir voru, tóku það ráð að halda vörð á vöðum öllum og sitja við brúar á Jökulsá. …
Hestleiðirnar hafi verið þrjár eins og áður sagði og það sé sú nyrsta sem átt sé við í hinu eldra landamerkjabréfi Brúar. Hestleiðarklettur sé þekkt örnefni vestur af Rúnasteini, en í hinu eldra landamerkjabréfi segi … þaðan beina leið í Rúnastein á Urðarhlíð, sjónhending í hestleið á Þríhyrningsfjallgarði. Allan Arnardal átölulaust, allt land jökulsár á milli.
Einungis sé vafi um hvar hestleiðin hafi legið yfir Jökulsá á Fjöllum. Virðist nærtækt að álykta að farið hafi verið yfir ána við Ferjufjall, sem sé rétt norðan við Arnardalsárós sem sé nyrsta og vestasta hornmark Brúar samkvæmt hinu yngra landamerkjabréfi.
Örnefnið Miðgötumúli sé einnig þekkt í Brúarlandi sunnan Þríhyrningsvatns og þar hafi miðleiðin legið um og yfir Jökulsá á Fjöllum á vaði við Kreppuós eða Upptyppinga. Um syðstu leiðina ríki meiri óvissa, en nærtækt sé að álykta að hún hafi legið fast við Jökulröndina og þaðan suður á land um Sprengisand. Hafi syðsta hestleiðin líklega verið hin sama og Sveinn Pálsson lýsi í riti sínu frá 1794, bls. 391.
Vegna breyttrar þjóðfélagsskipunar, veðurfars og náttúruhamfara hafi leiðir á milli Norður- og Suðurlands lagst af um Sprengisand og óhætt sé að fullyrða að leiðin hafi afar sjaldan verið farin en þegar á 16. öld og á 18. öld sé leiðin orðin týnd og flestum gleymd. Stjórnvöld hafi þó gert reka að því upp úr 1770 að finna leiðina og leita leiða til þess að opna hana að nýju.
Telja megi sennilegt að þegar ferðir hafi lagst af um Sprengisand hafi fennt yfir vitneskju manna um hinar fornu hestleiðir, en þó sé í hinni elstu varðveittu landamerkjalýsingu Möðrudals á Fjöllum getið um að hestleið skilji lönd jarðanna Möðrudals og Brúar. Landamerkjalýsing þessi sé frá 1532 og hljóði svo:
...landeign Maudrudals stadar ad þeim læk sem fellur undan Sulundum ofan i Haulknä. sem rided er ofan i Vopnafiaurd. ok svo langt austur í heidina under þrivardna häls a Skioldolfstada veg. ok halft Seningarvatn. ok oll griotgardzvotn. ok fram a þrivardna fiallgard er stendur a hestleid. Bruarveg ok halfan Arnardal ad ollum giædum...
Hér sé notuð nákvæmlega sama aðferð og í hinu eldra landamerkjabréfi Brúar, þ.e. vísað beint í hestleiðina, en að vísu verði að telja að sá sem gefi vitnisburðinn um landamerkin, Jón Guðmundsson, vísi í hestleiðina í miðjunni en telja megi að hún skeri Arnardal nær til helminga þó svo óvissa sé um nákvæm ummerki dalsins. Ef efsta eða nyrsta hestleiðin sé notuð þá lendi Arnardalur allur Brúarmegin. Hér sé því um elstu varðveittu heimild að ræða fyrir því að Möðrudælingar telji hálfan Arnardal innan sinnar landareignar.
Enginn efist þó um að landareign Möðrudals nái að Jökulsá á Fjöllum jafnvel þó hin forna lýsing noti þá aðferð að lýsa í hestleiðina og tiltaki svo Arnardal sérstaklega nákvæmlega eins og gert sé í hinu eldra landamerkjabréfi Brúar.
Möðrudalsprestur og Brúarmenn hafi deilt um Arnardal á 18. öld í biskupstíð Finns Jónssonar og hafi biskup leitað sátta með mönnum. Ekki hafi varðveist skrifleg gögn sem lögð hafi verið fram í deilunni, en ljóst sé að biskupi tókst ekki að koma á sáttum.
Í lögfestu Möðrudals, sem þinglýst hafi verð 11. maí 1844, segi svo um austur- og suðurmerki jarðarinnar:
Þadan siónhending á Eikarnípu úr Læk þeim sem fellur í Hólkná, svo í Hofsá, svo beint vestr á Þrívördr á Þrívardnahálsi og svo hálft Sænautavatn og þadan beina stefnu á Brúar Landamerki, ...
Suðurmerkjum jarðarinnar sé lýst beint í Brúarlandamerki og merki Möðrudals liggi í Jökulsá á Fjöllum, um það efist enginn síst af öllu stefndi í þessu máli. Ef landamerki Möðrudals liggi í Jökulsá á Fjöllum þá liggi landamerki Brúar þangað einnig. Ekki sé minnst á Arnardal í lögfestunni en þess hafi ekki verið langt að bíða að deilur um Arnardal skytu upp kollinum að nýju.
Í vitnisburði sem Pétur Jökull Pétursson á Hákonarstöðum hafi gefið Sigurði Jónssyni bónda og eiganda Möðrudals, þann 22. apríl 1873, segi:
Eg undirskrifaður gef Sigurði bónda Jónssyni á Möðrudal vitnisburð, að hafa séð Möðrudals máldaga á kálfskinni, ritaðan á 14. öldinni, en þá var eg ekki nema 16 ára gamall þegar eg sá máldagann, svo óglöggt man eg öll landamerki sem tiltekin voru í honum, en það sem ég man upp á víst stóð svona: Möðrudalsstaður á land allt frá læk þeim, sem fellur undan Súlendum í Hólkná, þaðan sjónhending í Eyktarnýpu, og svo beint inn Þrívarðnaháls og svo inn með hálft Sænautavatn og þaðan í Miðgötumúla, hálfan Arnardal og beint í Jökulsá. ....
Hér sé notast við örnefnið Miðgötumúla, en ljóst að vitnið telji að miðgatan skipti Arnardal til helminga.
Þann 1. júní 1878 hafi Stefán nokkur Einarsson frá Brú á Jökuldal keypt hálfa jörðina Möðrudal og nokkru síðar hafi hann eignast hana alla. Stefán hafi gert landamerkjabréf fyrir jörð sína, þann 20. mars 1884, en skrifi raunar einn undir það. Í bréfinu segi um suður- og vesturmerki jarðarinnar Möðrudals:
Að sunnan ræður bein stefna úr Þrívörðum í ytra „Arnardalsfjall“, þaðan beint í „Þorlákslindir“ ytri. Að vestan ræður „Jökulsá“ þangað sem „Skarðsá“ fellur í hana.
Hér hafi verið um algerlega ný suðurmerki að ræða, en þau hafi reyndar líkt og hin fyrri verið því marki brennd að innan þeirra félli stór hluti Arnardals.
Það hafi síðan ekki verið fyrr en með hinu eldra landamerkjabréfi Brúar frá 1890 að deilurnar um Arnardal hafi endanlega verið settar niður og undir það landamerkjabréf skrifi Stefán Einarsson í Möðrudal, enda fæddur og uppalinn á Brú og hafi sennilega ekki kært sig um að eiga í deilum við frændur og vini.
Hið eldra landamerkjabréf Brúar verði því að skoða í ljósi framangreindrar sögu. Ljóst sé að hestleið hafi skilið landareignir þessara tveggja jarða og ekki sé hægt að túlka lýsingar á landamerkjum jarðanna öðru vísi en að þau hafi legið saman alveg út í Jökulsá á Fjöllum. Óbyggðanefnd láti undir höfuð leggjast að túlka hið eldra landamerkjabréf Brúar í samhengi við hina miklu sögu deilna um Arnardal og gæði hans. Slík vanræksla á lögbundinni rannsóknarskyldu nefndarinnar, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, ætti að mati stefnenda að leiða til ógildingar úrskurðar óbyggðanefndar.
Stefnendur telji sannað, að norðurmerki jarðarinnar liggi og hafi alltaf legið frá Jökulsá á Jökuldal í austri til Jökulsár á Fjöllum í vestri.
Þessi niðurstaða hafi raunar legið fyrir undir rekstri málsins fyrir óbyggðanefnd, enda hafi stefndi skilið hið eldra landamerkjabréf Brúar á nákvæmlega sama hátt og stefnendur hvað varðaði norðurmerki jarðarinnar, en óbyggðanefnd byggi á því í úrskurði sínum að í hinu eldra landamerkjabréfi sé einungis vísað í aðra Jökulsána, þ.e. Jökulsá á Jökuldal en ekki Jökulsá á Fjöllum. Niðurstöðu sína byggii óbyggðanefnd á niðurlagi hins eldra landamerkjabréfs, en þar segi:
Allan Arnardal átölulaust, allt land jökulsár á milli.
Þannig sé niðurstaða nefndarinnar um að eignarland jarðarinnar nái frá botni Arnardals í vestri eftir tilbúinni línu austur í Jökulsá á Jökuldal. Ekki geti óbyggðanefnd hvaðan upplýsingar um botn Arnardals eða landfræðileg mörk hans séu fengnar og þaðan að síður upplýsingar um suðurmerki jarðarinnar við þjóðlendu. Þær upplýsingar sé hvergi að finna í gögnum málsins og verði því að teljast tilbúningur óbyggðanefndar sjálfrar án þess að nokkur gögn hafi legið slíkri niðurstöðu til grundvallar.
Eins og áður sé getið hafi stefndi, íslenska ríkið, undir rekstri málsins fyrir óbyggða-nefnd, aldrei haldið fram þeirri málsástæðu að land Brúar næði ekki á milli Jökulsár á Jökuldal og Jökulsár á Fjöllum, heldur hafi kröfugerð ríkisins verið miðuð við það að svo væri, þó þannig að suðurmörk jarðarinnar væru frá þeim punkti þar sem Kreppa renni í Jökulsá á Fjöllum, þaðan í Bíldufell og þaðan í Jökulsá á Jökuldal, norðurmerkin væru aðliggjandi jarðir en austur og vesturmörk títtnefndar Jökulsár. Málsástæða stefnda fyrir óbyggðanefnd hafi verið sú að landamerki gætu ekki farið yfir ófær vatnsföll og að mati stefnda sé Kreppa slíkt vatnsfall. Við þessa málsástæðu hafi vörn stefnenda miðast og verði að telja, þegar af þeirri ástæðu að stefnendum gafst ekki kostur á að andmæla túlkun óbyggðanefndar við meðferð málsins sjálfs, að ógilda beri úrskurð nefndarinnar, en hægur vandi hefði verið að endurupptaka málið og gefa stefnendum kost á því að hreyfa andmælum. Vanræksla á því hafi verið skýrt brot á andmælareglu stjórnsýsluréttarins, sem lögfest sé í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og beri að mati stefnenda að leiða til ógildingar úrskurðar óbyggðanefndar.
Túlkun óbyggðanefndar á orðalagi hins eldra landamerkjabréfs Brúar sé aukinheldur ekki studd gögnum af neinu tagi heldur virðist almennur textaskilningur nefndarinnar, sem sé þveröfugur miðað við skilning stefnda, ráða för. Hvorki hafi verið ráðist í textafræðilega könnun né samanburðarrannsóknir eða matsgerðar aflað.
Einföld könnun í fornum textum leiði í ljós algerlega sambærilegt orðalag þegar fjallað sé um landsvæði milli tveggja áa sem heiti sama nafni, en séu aðgreindar með því að skeyta við orði, eins og í tilfelli Jökulsár á Jökuldal og Jökulsár á Fjöllum.
Fyrra dæmi sem stefnendur kveðast nefna varði Litlu-Laxá og Stóru-Laxá í Árnessýslu, en Landnáma greini frá landnámi Þorbjörns jarlakappa á svofelldan hátt:
... allt fyrir neðan Selslæk á milli Laxár ok bjó at Hólum.
Land Þorbjarnar sé í tungunni á milli Litlu- og Stóru-Laxár og þar hafi staðið bær sá er hann er talinn hafa byggt, Hólar, er síðar hafi nefnst Hrepphólar.
Síðara dæmið sé einnig úr Landnámu, þar sem greint sé frá landnámi Önundar víss sem hér segi:
... ok helgaði sér svá landit fyrir vestan ok bjó milli á.
Einföld leit stefnenda í fornum textum hafi leitt í ljós tvö dæmi um sambærilegt orðalag og notað hafi verið í hinu eldra landamerkjabréfi Brúar. Vitað sé að þegar landamerkja-lýsingar hafi verið ritaðar seint á 19. öldinni hafi oft verið hafðar til hliðjónar eða fyrirmyndar fornir textar, lögfestur, máldagar eða vitnisburðarbréf. Því miður hafi engir slíkir textar varðveist um landamerki Brúar, en þó sé vitað að á 18. öld hafi Brúarmenn stutt mál sitt gögnum í deilum sínum við Möðrudælinga um Arnardal. Engan veginn sé hægt að útiloka að slíkt skjal hafi verið í vörslum Brúarmanna þegar hið eldra landamerkjabréf hafi verið ritað og þess vegna fornlegt orðalag notað til þess að lýsa landamerkjum. Komi það og vel heim og saman við það, að notað sé orðalagið í hestleið eins og í hinum forna vitnisburði frá 1532.
Síðan sé auðvitað ekki hægt að útiloka að sýsluskrifari eða hver sá sem hafi skrifað landamerkjabréfið upp hafi gert mistök og skrifað –ár í stað –áa eða jafnvel að lítið blek hafi verið í penna hans og þess vegna líkist stafurinn –a stafnum –r, en ótrúlega lítill munur sé á þessum tveimur stöfum af hendi skrifarans. Frumrit bréfsins sé glatað þannig að aldrei munu fást skýr svör við þessum vangaveltum, en ef minnsti vafi sé talinn vera fyrir hendi beri að skýra hann stefnendum í hag.
Stefnendur haldi því fram að óbyggðanefnd hafi þannig ekki sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni, skv. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.
Hið yngra landamerkjabréf Brúar hafi verið gert 14. október 1921, en þinglýst 27. júlí árið eftir. Þar hafi orðalag verið fært til nútímahorfs, öllum vafa eytt og þar standi skýrri hendi ritað ... allt land Jökulsáa á milli.
Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2005 á bls. 174, sé því slegið föstu að hvergi í heimildum sé suðurmerkjum jarðarinnar lýst. Stefnendur mótmæli því harðlega að svo sé. Land Brúarjarðarinnar sé ákaflega vel afmarkað frá náttúrunnar hendi, Vatnajökull í suðri, Jökulsá á Jökuldal í austri, Jökulsá á Fjöllum í vestri og aðliggjandi jarðir í norðri. Þegar gengið sé upp á bæjarhólinn á Brú í góðu skyggni sjáist alveg fram í Vatnajökul, sem dragi reyndar nafn sitt af bænum á þessu svæði og nefnist Brúarjökull, sem sé fornt örnefni og notað í Jöklariti Sveins Pálssonar frá 1794. Bæði landamerkjabréf jarðarinnar greini frá merkjum í Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal og lýsi leiðinni þeirra á milli og segi síðan að jörðinni tilheyri allt land á milli Jökulsánna þar fyrir sunnan. Hvenær sé land á milli jökulsánna? Svarið sé augljóst: Þangað til komið sé að upptökum ánna og jökullinn taki við. Því séu ítrekuð mótmæli við þeim skilningi óbyggðanefndar að heimildir greini ekki frá suðurmerkjum jarðarinnar.
Óbyggðanefnd rökstyðji niðurstöðu sína um þjóðlendu einnig með skírskotun í það, að í hinu yngra landamerkjabréfi Brúar, frá 14. október 1921, taki lýsingin á ummerkjum jarðarinnar yfir land afbýlisjarðarinnar Laugarvalla, en þann sama dag hafi einnig verið gert landamerkjabréf fyrir Laugarvelli. Daginn áður, þann 13. október 1921, hafi verið gert landamerkjabréf fyrir afbýlisjörð Brúar, Heiðarsel og fyrir afbýlisjörðina Grunnavatn, þann 24. október 1921, og taki lýsing á ummerkjum Brúar í hinu yngra landamerkjabréfi ekki yfir land þeirra jarða heldur miði við að þeim hafi verið skipt út úr landinu.
Stefnendur telji að eðlilegar skýringar séu á því að þannig hátti til að hin yngri landamerkjalýsing Brúar taki einnig yfir land Laugarvalla en ekki land Heiðarsels og Grunnavatns, sem standi ekki í neinu samhengi við inntak eignarréttar á landi eins og skilningur óbyggðanefndar virðist vera.
Samkvæmt síðu Brúar úr fasteignabók sýslumannsembættisins á Seyðisfirði, hafi Eiríkur Guðmundsson eignast alla jörðina Brú í tveimur áföngum. Fyrst hafi hann keypt hluta, þann 20. júní 1893, en afganginn, þann 12. júní árið 1897. Samkvæmt síðu Brúar í fasteignabók hafi jörðin verið metin á 20 hundruð forn en 21,4 ný hundruð.
Eiríkur Guðmundsson hafi síðan selt og afsalað eignarjörð sinni Heiðarseli til Sigfúss Einarssonar, þann 3. júní 1907, og sé tekið fram að hin selda jörð sé 5 hundruð að dýrleika. Heiðarsel hefði verið byggð sem hjáleiga eða afbýli Brúar allt frá árinu 1859.
Þann 5. júlí 1909 hafi Eiríkur Guðmundsson síðan afsalað 8 hundruðum jarðarinnar Brúar til Eyjólfs Marteinssonar.
Þann 13. júlí 1921 hafi afbýlisjörð Brúar, Grunnavatni, verið afsalað til Björgvins Guðnasonar, en Grunnavatn hefði verið byggt frá árinu 1853 og talið í hreppsbókum vera 5 hundruð að dýrleika.
Þannig megi vera ljóst að eftir 13. júlí 1921 hafi heildarlandareign jarðarinnar Brúar verið í óskiptri sameign fjögurra aðila innan landamerkja þeirra sem lýst sé í hinu eldra landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1890.
Þetta séu: Sigfús Einarsson í Heiðarseli sem eigi 5 hundruð.
Björgvin Guðnason á Grunnavatni sem eigi 5 hundruð
Eyjólfur Marteinsson á Brú sem eigi 8 hundruð
Eiríkur Guðmundsson á Laugarvöllum 3,4 hundruð
Samtals 21,4 ný hundruð.
Þegar landamerkjabréfin hafi verið gerð í október 1921 hafi verið búið að skipta Heiðarseli og Grunnavatni út úr jörðinni sem sjálfstæðum jörðum, en Brú og Laugarvellir hafi enn verið í óskiptri sameign. Þess vegna sé eðlilegt að enn hafi verið til heildarlandamerkjabréf fyrir móðurjörðinni en afbýlinu afmarkað sérstakt land til nýtingar. Laugarvöllum hafi þá ekki verið endanlega skipt út úr heildarlandareigninni og þannig ennþá hluti þess, heildarlandareignin hafi því enn verið í óskiptri sameign tveggja aðila.
Líta verði til þess að þegar Laugarvöllum hafi endanlega verið skipt út úr Brúarjörðinni hafi ekki verið gert nýtt landamerkjabréf fyrir Brú og sé bréfið frá 14. október 1921 gildandi landamerkjabréf jarðarinnar, enn í dag.
Rök óbyggðanefndar fyrir því að landsvæðið sunnan Arnardals og Laugarvalla, sem nefndin kalli Brúaröræfi og hafi úrskurðað þjóðlendu, sé afréttur í þeim skilningi að jörðin Brú eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt eru að mati stefnenda afar ósannfærandi, en þau séu þessi helst:
Í fyrsta lagi vísi nefndin til skoðunargjörðar Páls Melsteds sýslumanns frá árinu 1824, en þar segi að af afréttum þeim „...er Brú tilheyra, og Brúardalir nefnast [sé] aftekin fullur þridiúngur, vegna þess að Vatnsfall nokkurt, ad nafni Saudá, er, vegna Jökulhlaupa, aldeilis ófært ordid bæde Mönnum og Sképnum, og öll Öræfe þau, sem þar eru fyrir framan, eru því jörðinni töpuð og ad engu gagni.“
Síðan segi:
„Skodunarmönnunum, af hvörium flestir hafa til Jardarinnar þekkt hérum í 20 Ár, vyrdtist því Jördin, í téd Tímabil, hafa af sér geingid næstum til Helmínga, ad Slæum og Beitarlandi ...“
Í úrskurði sínum láist nefndinni alveg að geta þess, að vegna fyrrgreindra búsifja hafi jörðin Brú að mati sýslumanns verið metin niður um heil 8 hundruð af 20, þ.e. niður í 12 hundruð. Ef landið sunnan Sauðár hafi verið metið til hundraða og þannig grundvöllur afgjalds og tíundar geti það varla verið annað en innan landamerkja og undirorpið beinum eignarrétti. Þess utan segi í skoðunargjörðinni að afrétturinn tilheyri Brú og að jörðin hafi af sér gengið næstum til helminga af slægjum og beitarlandi. Bendi það ekki til þess að aðrir en Brúarmenn hafi átt þar rétttindi af nokkru tagi og enn fremur bendir það til þess að beitilandið hafi verið talið innan jarðarinnar sjálfrar.
Í öðru lagi vísi óbyggðanefnd til sóknarlýsingar Sigfúsar prests Finnssonar í Hofteigi frá árinu 1840, nánar tiltekið til þeirra orða að afréttir í sókninni séu öngvir, þar sem fjalllöndin (sem sagt) eru fallin í sand og aura, nema Skjöldólfsstaða- og Hákonarstaðaheiðar og einstöku torfuskikar á Brúardölum. Prestur geti þess einnig að enga almenninga sé að finna í sókninni.
Hér virðist óbyggðanefnd byggja niðurstöðu sína eingöngu á orðinu afrétt, þess beri þó að geta að hvorki Skjöldólfsstaðaheiði né Hákonarstaðaheiði séu þjóðlendur samkvæmt úrskurði nefndarinnar. Ekkert bendi til þess að um samnotaafrétti sé að ræða og virðist prestur raunar útiloka það með þeim orðum að engir almenningar séu í sókninni. Telja verði brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sem lögfest sé í 11. gr. laga nr. 37/1993, ef eitt eigi að gilda um Brúarland en annað um land Skjöldólfsstaða og Hákonarstaða. Enn fremur komi fram í sóknarlýsingu:
Jörðin [Brú] er einhver hin erfiðasta allra stórjarða í sveitinni því að heyskapur er svo að segja enginn í heimalandi heldur langsóttur mjög, bæði á Laugarvalladal og norður undir fjallgarða.
Samkvæmt fyrrgreindri lýsingu hafi Brúarmenn slegið á Laugarvalladal og bendi það ekki til þess að um afrétt hafi verið að ræða því samkvæmt ákvæðum Jónsbókar hafi verið óheimilt að slá í afrétti.
Í þriðja lagi vísi óbyggðanefnd til jarðamats Brúar frá árinu 1849, en þar segi að jörðin eigi afrétt fyrir sjálfa sig, og má ljá hann öðrum 2ur eda 3ur mönnum
Hér sem fyrr virðist nefndin hnjóta um orðið afrétt, en líti fram hjá því sem hljóti að blasa við, þ.e. að Brúarmenn, skv. mati jarðarmatsmanna, geti með einkaréttarlegum gjörningi leyft öðrum nýtingu á afrétti sínum. Það bendi ekki til annars en fullkominnar eignar.
Í fjórða lagi vísi óbyggðanefnd til sóknarlýsingar Þorvalds prests Ásgeirssonar í Hofteigi frá árinu 1874, en þar segi m.a. um afrétti innan sóknarinnar: „...Fljótsdals- og Jökuldalsheiðin, þ.e. hver jörð hefur afrétt í þeirri heiði sem henni tilheyrir. Auk þess eru: Vesturöræfaafrétt, fram af Hrafnkelsdal, og Brúardalir, fram af Jökuldal, og eru þessir afréttir aðeins notaðir af fremstu bæum.“
Hér láti óbyggðanefnd í veðri vaka að Brúardalir séu samnotaafréttur notaður af fremstu bæjum á Jökuldal. Svo hafi þó alls ekki verið og mótmæli stefnendur þeim skilningi nefndarinnar harðlega. Fyrir utan að vera í algeru ósamræmi við eldri heimildir um nýtingu Brúardala þá sé prestur að ræða um tvö landsvæði, þ.e. Vesturöræfi og Brúardali og segi um þessi landsvæði sameiginlega að þau séu aðeins notuð af fremstu bæjum, þ.e. Brú á Jökuldal og Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Þessi skilningur sé hafinn yfir allan vafa vegna þess að þegar séra Þorvaldur riti fyrrgreinda lýsingu sína sé bóndinn á Aðalbóli með byggingarbréf frá Valþjófsstaðapresti fyrir öllum Vesturöræfaafrétt, og hafi haft þar einkanýtingarrétt. Vesturöræfi séu þess vegna ekki tekin með í leitarsvæði þau sem talin séu upp í fjallskilareglugerð Fljótsdalshrepps. Séra Þorvaldur geti þess vegna ekki átt við aðra bæi en Brú og Aðalból.
Í fimmta lagi vísi óbyggðanefnd til bókarinnar Lýsing Íslands frá árinu 1881 þar sem segi m.a. að bændur frá Efri-Jökuldal hafi upprekstur fyrir lömb sín á Kringilsárrana og séu þau flutt á kláfdrætti yfir í Ranann.
Þessi nýting á Kringilsárrana hafi aðeins átt sér stað með leyfi Brúarmanna og sé í algeru samræmi við ályktun jarðamatsnefndarinnar frá 1849, en hægt sé að gera ráð fyrir því að þessi háttur hafi ekki verið hafður á þegar jörðin hafi verið metin það ár heldur hafi komið síðar til. Það skuli þó áréttað að slík nýting hafi einungis átt sér stað með samningi við Brúarmenn.
Í sjötta lagi sé vísað til fasteignamats 1916-18, en þar segi að jörðinni Brú fylgi víðlent afréttarland og silungsveiði í vötnum.
Hér sem fyrr hnjóti óbyggðanefnd um orðið afrétt, án þess að stöðu landsins sé gefinn gaumur að öðru leyti.
Í sjöunda lagi vísi óbyggðanefnd, niðurstöðu sinni til stuðnings, til þess að til land-svæðisins sé einungis vísað í skriflegum heimildum í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Engin gögn liggi fyrir um að landið hafi fyrr en á allra síðustu árum verið nýtt til annars en til sumarbeitar fyrir búpening og annarra takmarkaðra nota.
Landið hafi auðvitað verið nýtt eftir búskaparháttum og tækni hvers tíma, en óbyggðanefnd sjáist þó yfir það mikilvægasta sem ráða megi af heimildum, þ.e. að um einkanýtingu Brúarmanna hafi verið að ræða. Engar heimildir greini frá því að aðrir nýti landið utan ein heimild, Lýsing Íslands, og þar sé einungis greint frá mjög takmörkuðum notum annarra en Brúarmanna, sem vafalaust hafi farið fram með samningi milli aðila. Stefnendum sé ómögulegt að átta sig á því hvaða önnur not en beitarnot hefði mátt hafa af landinu fyrr á tíð. Það sé raunar ekki rétt að landið hafi einungis verið notað til sumarbeitar fyrir búpening því jarða- og fasteignamöt auk annarra heimilda greini frá því að vetrarbeit hafi talsvert verið stunduð og hafa það talist mikil búdrýgindi. Enn fremur sé hluti þessa umdeilda lands, þ.e. það land sem sé fyrir sunnan Sauðá metinn til verðs í heimild frá 1824, og verði ekki dregin önnur ályktun af því en sú að um eignarland hafi verið að ræða.
Í áttunda lagi vísi óbyggðanefnd til þess að staðhættir og fjarlægð frá byggð styðji niðurstöðu nefndarinnar, en landið sé nær allt í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Þá sé landið ógirt og búfénaður hafi leitað óhindrað yfir í Brúarland frá öðrum jörðum.
Á það skuli minnt að staðhættir og gróðurfar séu nú með allt öðrum hætti en fyrr á tíð og samkvæmt greinargerð Hjörleifs Guttormssonar hafi allt Brúarland verið meira og minna þakið gróðri áður fyrr. Fjarlægð frá byggð sé ekki meiri en í landi Möðrudals á Fjöllum, sem þó teljist allt eignarland, og verði Brúarland að teljast töluvert grónara á heildina litið. Möðrudalsland og Brúarland séu í svipaðri hæð yfir sjó og þess megi geta að bæjarhúsin á Brú séu í tæplega 380 metra hæð yfir sjávarmáli en í um 450 metra hæð á Möðrudal. Varla teljist sú jörð mjög hálend sem hækki einungis um rúma 200 metra inn til landsins. Varðandi það að jörðin sé ógirt þá megi segja að það sama gildi um allar jarðir á Jökuldal, þ.e. ræktað land sé girt en annað ekki.
Í níunda lagi slái óbyggðanefnd því föstu að fjallskil í Brúarlandi hafi verið á hendi sveitarfélagsins eins og svo hafi verið alla tíð.
Það sé þó alrangt og hið rétta sé að Brúarland hafi verið tekið undir fjallskilaframkvæmd sveitarfélags um tæpra 60 ára skeið, frá því 1898 og þangað til 1955. Fram að 1898 og eftir 1955 hafi Brúarmenn hreinsað land sitt sjálfir. Stefnendur bendi á að þegar Sveinn Pálsson komi að Brú, þann 9. ágúst árið 1794, séu Brúarmenn nýbúnir að smala land sitt vegna þess að þeir ætli að reka það norður á Vopnafjörð til þess að selja í haustskipið. Ekki bendi tilgreind heimild til þess að um afréttarsmölun sé að ræða heldur þvert á móti.
Stefnendur hafi og lagt fram við meðferð málsins fyrir óbyggðanefnd ljósrit úr bréfabók Jökuldalshrepps þar sem finna megi ástæðu þess að Brúarland hafi verið tekið undir fjallskilaframkvæmd sveitarfélagsins. Um sé að ræða erindi Eiríks bónda á Brú til hreppsyfirvalda og sem afgreitt hafi verið á fundi hreppsnefndar 15. september 1897:
Oddviti lagði fram bréf frá Eiríki á Brú hvarí hann tjáir ómögulegleika sinn að hreinsa Brúardali. Nefndin tók það mál til rækilegrar yfirvegunar og virtist henni liggja beinast við að uppdælingar hlutuðust til um göngu á dölunum, með sérstöku tilliti til þess að þeir hefðu léttar göngur (Hrafnkelsdælir) og væru lausir við þá kvöð að senda í aðrar sveitir eftir fé. Var þessu þannig jafnað á bæina að í 1. göngu skildi leggja menn frá þessum bæjum 1 frá hverjum Hákonarstöðum, Grund og Grunnavatni, og í 2. göngu 1 mann frá Víðirhólum og 1 frá Eiríksstöðum. Í þriðju göngu 1 frá Eiríksstöðum og 1 frá Aðalbóli og Vaðbrekku (í samlögum)
Af þessari afgreiðslu hreppsnefndar megi ráða að Brúarmenn hafi fram að henni einir séð um að hreinsa Brúardali, en sem alkunna sé virði sauðfé engin landamerki og hafi því þótt rétt að skikka nágranna Brúar til þess að leggja til menn í göngur með Brúarmönnum þar sem þeirra fé hafi gengið með fé heimamanna. Gera megi ráð fyrir að sauðfé uppdælinga hafi leitað á Brúardali eftir öskufallið mikla 1875, sem eytt hafi mjög beit á Jökuldal.
Um fyrrgreint skjal sem sönnunargagns í málinu nr. 2/2005 geti óbyggðanefnd í engu í úrskurði sínum heldur slái þess í stað föstu að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, en horfi alveg framhjá því að aðkoma sveitarfélagsins að fjallskilum á Brúarlandi hafi hafist árið 1898 fyrir beiðni Brúarmanna.
Þó ætti það engu máli að skipta þó svo að land Brúar hefði verið tekið undir fjallskila-framkvæmd, enda bendi aðrar heimildir og sterkari til þess að um eignarland sé að ræða. Sé það og í samræmi við almennar niðurstöður óbyggðanefndar í málum 1-7/2000 og 1-5/2001 en þar komi fram á bls. 29, að innan merkja jarða kunni að vera svæði sem nefnd séu afréttir. Í því þurfi þó ekki að felast mismunandi eignarréttarleg staða lands innan jarðarinnar. Hugsanlegt sé, að verið sé að vísa til gamalgróinnar notkunar á viðkomandi jarðarhluta sem beitarlandi. Og jafnvel þó slíkur jarðarhluti sé alfarið tekinn undir fjallskilaframkvæmd gefi slík tilhögun ein og sér enga vísbendingu um eðli eignarhalds á slíkum jarðarhluta, sbr. bls. 30 í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Þessar niðurstöður nefndarinnar hafi og verið staðfestar af dómstólum.
Í tíunda og síðasta lagi telji óbyggðanefnd ekki mikið mark takandi á svari hreppstjóra Jökuldalshrepps vegna fyrirspurnar Stjórnarráðs Íslands um afrétti og almenninga, en svar hreppstjóra hafi verið á þá leið að engir afréttir væru til staðar sem ekki væru innan eignarlanda jarða og að engir almenningar væru til staðar. Samræmist svar hreppstjóra þó vel eldri heimildum um sama efni og algerlega sé óljóst með hvaða rökum óbyggðanefnd hafni svari hreppstjóra, sem þó hafi haft í krafti embættis síns yfirumsjón með afréttarmálefnum og fjallskilum í hreppnum.
Síðast en ekki síst nefni óbyggðanefnd í engu í úrskurði sínum að elsta varðveitta heimild um afrétti í Norður-Múlasýslu segi berum orðum að norðan (vestan) Jökulsár á Jökuldal séu engar afréttir. Heimild þessi sé frá árinu 1745, en á fimmta áratug 18. aldar hafi sýslumönnum á Íslandi verið boðið að semja lýsingar á sýslum sínum. Lýsing Þorsteins Sigurðssonar á Norður-Múlasýslu, sem sé einhver sú nákvæmasta, sé dagsett á Víðivöllum 5. júní 1745. Þar segi m.a. að afréttir þekkist aðeins sunnan (austan) Jökulsár á Jökuldal:
Ingen Stutterie er her, ... men der imod har vi paa fiældene og udi de ubebygte Dale vores Kvæg om Sommertiden neml. Heste, Studer, Lambe og Gieldfaar og kalder vi desse Stæder Afrett; hvor om meldes i vores islandske Lov udi Landsleyebalken. Saadan Afretter er synden for Jökulsaae og Jökulsaaedal i de ubebygte Dale som der ligge neml. Eivinderdal, Holknardal og Hrafnkielsdal samt paa der i kring grænsende Fiælde, hvilke dog egentlig höre til Fliotsdal udi Middeelen af Sysselet, skiönt de ligge paa Nordersiden af Fieldet Fliotsdalsheide som deeler sysselet. Dend forommeldte Afrett har til forne aarlig voren brugt, men nu siden Kvæget formedelst ydelige haarde Aaringer er formindsket er dend snart ganske kommen af Brug. Ingen anden lovlig Afrett er her i Sysselets Norderdeel, men Böndene lade deres Kvæg gaae i de Daler og Marker som ligger i kring Gaardene.
Samkvæmt framangreindu öllu telji stefnendur vera alvarlega annmarka á úrskurði óbyggðanefndar. Í senn hafi nefndin með úrskurði sínum farið á svig við eða brotið grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins, þ.á.m. meðalhófsreglu, andmælareglu, rannsóknarreglu og jafnræðisreglu, sem lögfestar séu í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 2/2005.
Stefnendur bendi á að í dómsmálum vegna þjóðlendna hafi verið á það litið við úrlausn málanna að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greinir, nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp sem orðið hafi að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um þetta efni.
Það sé og skoðun stefnenda að lög nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að landeigendur þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hafi verið gert, að umrætt landssvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.
Ekki ráði úrslitum í máli þessu þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004, en þar segir:
Að undanteknu landinu næst þessum hreppamörkum er svæðið norðan kröfulínu aðaláfrýjanda, þegar litið er til þess í heild, ekki svo hálent eða gróðursnautt að það geti talist hafa sett landnámi einhver augljós mörk. Í ljósi þessa verður ekki lagt á stefndu að sýna frekar fram á það en gert hefur verið að land norðan við kröfulínur aðaláfrýjanda hafi almennt verið numið þannig að það hafi verið nýtt með öðrum hætti en til takmarkaðra afnota yfir sumarmánuðina eins og aðaláfrýjandi heldur fram að hafi verið. Geta úrslit málsins ekki ráðist af skorti á sönnun um þetta atriði.
Stefnendur vísi til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar og sömuleiðis þinglesnar landamerkjaskrár en það hafi hann á engan hátt gert. Þá þurfi stefndi að sýna fram á að afrétturinn sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að segja við ákvörðun um inntak eignarréttarins sbr. fyrrgreindan Hæstaréttardóm í máli nr. 48/2004.
Stefnendur byggi á því að verði eignarréttur þeirra ekki viðurkenndur á grundvelli þinglýstra eignarheimilda, hafi þeir öðlast eignarrétt að Brúaröræfum fyrir hefð og vísi þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi og stefnendur og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í árhundraðaraðir. Fullnægt sé öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu og samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðina, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varði umrætt landssvæði. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.
Stefnendur vísi um lagarök til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Einnig sé vísað til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998, að því er varði skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919 sbr. eldri lög um sama efni. Þá sé vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905 enda hafi stefnendur haft umráð landsins fullan hefðartíma fasteigna margfalt og meinað öðrum afnot þess. Einnig vísi stefnendur til venju, þ.e. að það land sem að fornu hafi verið notað eingöngu af landeigendum sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna. Þá vísi stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma sbr. og núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnendur byggi málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísi til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis.
V
Af hálfu stefnda er á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varði sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telji stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignaréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.
Óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998, hefði landsvæði það sem um sé deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.
Stefndi geri niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu.
Til séu tvö landamerkjabréf fyrir jörðina Brú. Annars vegar sé um að ræða landamerkjabréf frá 4. júlí 1890, en hins vegar bréf dags. 14. október 1921. Landamerkjabréfum beri hins vegar ekki að öllu leyti saman um merki, auk þess sem hið yngra bréf sé að hluta til í mótsögn við merkjalýsingar jarðarinnar Laugarvalla, sem hafi þó verið gert samdægurs yngra bréfi Brúar og áritað af hálfu Brúar.
Hvorki í hinu eldra né hinu yngra bréfi, sé merkjum jarðarinnar lýst sérstaklega til suðurs. Í hinu eldra landamerkjabréfi jarðarinnar segi svo, eftir að norðurmörkum jarðarinnar hefur verið lýst: „Allan Arnardal átölulaust, allt land Jökulsár á milli“. Í hinu yngra bréfi Brúar sé norðurmörkum lýst vestur í Arnardalsárós við Jökulsá á Fjöllum og síðan segi: „... alt land Jökulsáa á milli“.
Stefndi sé sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar, að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004 (Úthlíð).
Þá verði og við mat á gildi landamerkjalýsinga jarðarinnar að horfa til þess, að enginn hafi ritað samþykki sitt vegna marka jarðarinnar til suðurs.
Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því, að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.
Af hálfu stefnda sé á því byggt, að kröfur stefnenda til suðurs, allt að Vatnajökli, eigi sér ekki nokkra stoð í eldri heimildum.
Bent sé á, að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Ólíklegt verði að teljast, að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum.
Í samræmi við dómafordæmi telijst heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði), 171/1998 (Jökuldalsheiði) og 48/2004 (Úthlíð). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignaréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.
Ekki verði annað séð, en að réttur stefnenda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar.
Verði talið, að svæðið hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn helgað sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Um þetta sé m.a. vísað til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).
Verði hins vegar talið, að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarétti, byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því, að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota, sbr. eftirfarandi umfjöllun í greinargerð. Þó að talið yrði að til beins eignaréttar hefði stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.
Stefndi sé sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar, að suðurmörk eignarlands stefnenda afmarkist af tindum Álfadalsfjalls og Þríhyrningsfjalla og þaðan að merkjum Laugarvalla, með vísan til staðhátta á svæðinu. Vísist um það m.a. til lýsingar í hinu eldra landamerkjabréfi jarðarinnar frá árinu 1890, sbr. orðalagið „Allan Arnardal átölulaust, ...“ Arnardalur liggi vestan Þríhyrningsfjalla en norðan Álftadalsdyngju (802 m), austur af ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum.
Að því er varði heimildir um fyrri tíðar nýtingu svæðisins, skuli fyrst geta skoðunargjarðar Páls Melsteðs sýslumanns frá árinu 1824. Þar segi, að af afréttum þeim „...er Brú tilheyr[i], og Brúardalir nefn[i]st, [sé] aftekin fullur þridiúngur, vegna þess, að Vatnsfall nokkurt, ad nafni Saudá, [sé], vegna Jökulhlaupa, aldeilis ófært ordid bæde Mönnum og Sképnum, og öll Öræfe þau, sem þar [séu] fyrir framan, [séu] því Jördunni töpud og ad eingu Gagni.“
Sóknarlýsing Sigfúsar Finssonar prests í Hofteigi frá árinu 1840 sé í samræmi við skoðunargjörðina en þar segi að afréttir í sókninni séu „öngvir, þar fjalllöndin (sem sagt) [séu] fallin í sand og aura, nema Skjöldólfstaða- og Hákonarstaðaheiðar og einstöku torfuskikar á Brúardölum, ...“ Í lýsingunni komi einnig fram, að almenninga sé ekki að finna í sveitinni.
Í jarðamati 1849 segi um Brú, að afrétt eigi jörðin „fyrir sjálfa sig, og [megi] ljá hann öðrum 2ur eda 3ur mönnum.“ Þá segi að útheyjarskapur sé talsverður en langsóttur.
Í sóknarlýsingum Þorvalds Ásgeirssonar prests í Hofteigi frá 1874 segi um Brú að jörðin sé „einhver hin erfiðasta allra stórjarða í sveitinni því að heyskapur [sé] svo að segja enginn í heimalandi heldur langsóttur mjög, bæði á Laugarvalladal og norður undir fjallgarða.“ Nefndir fjallgarðar séu utan kröfusvæðis íslenska ríkisins en Laugarvalladalur innan ágreiningssvæðis í máli þessu. Þá segi um hinn svonefnda Brúarskóg sem liggi „fyrir innan bæinn með fram Jökulsánni að norðan, [að þar sé] ekki nokkur kvisttanni, en beit [sé] þar oft góð, haust og vor, fyrir sauði.“ Brúarskógur nái upp að Hafrahvammagljúfri og sé þannig bæði innan kröfusvæðis Brúar og Laugarvalla. Loks sé fjallað almennt um afrétti innan sóknarinnar en þeir helstu séu „... Fljótsdals- og Jökuldalsheiðin, þ.e. hver jörð [hafi] afrétt í þeirri heiði, sem henni [tilheyri]. Auk þess [séu]: Vesturöræfaafrétt, fram af Hrafnkelsdal, og Brúardalir, fram af Jökuldal, og [séu] þessar afréttir aðeins notaðar af fremstu bæjum.“
Í bókinni Lýsing Íslands frá árinu 1881 segi að upp af Múlasýslum séu afar víðáttumikil beitarlönd og afréttir. Þar séu sauðsnöp víða og sumstaðar stórir hagablettir. Upp af Brúaröræfum við Brúarjökul séu hagasvæði á Þorláksmýrum og í Maríutungum. Þá segi að bændur frá Efri-Jökuldal hafi upprekstur fyrir lömb sín á Kringilsárrana og séu þau flutt á kláfdrætti yfir Kringilsá.
Í fasteignamati 1916-1918 segi að jörðinni Brú fylgi víðlent afréttarland og silungsveiði í heiðarvötnum.
Þess beri að geta, að í svari Einars Eiríkssonar hreppstjóra Jökuldalshrepps dags. 3. júní 1920, vegna fyrirspurnar Stjórnarráðs Íslands um afrétti og almenninga í sýslunni, komi fram að hann viti ekki til þess að í hreppnum sé nokkur slíkur almenningur eða afréttarlönd. Stefndi lýsi sig sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar, að ekki verði af svarbréfi þessu dregin sú ályktun að allt land innan sveitarfélaganna sé háð beinum eignarétti.
Eins og getið sé um í stefnu, hafi jörðin verið tekin út af Páli Melsteð sýslumanni árið 1824 að beiðni eiganda hennar, Guðmundar Einarssonar, til þess að framkvæma skoðunar- og virðingargerð í þeim tilgangi að lækka jarðardýrleikann vegna mikils skaða sem jörðin hefði beðið af sandfoki og öðrum áföllum. Skoðunarmenn sem þekkt hafi til jarðarinnar í um 20 ár hafi talið að jörðin hafi gengið af sér á þeim tíma næstum til helminga að slægjum og beitarlandi og að engin von væri um að það breyttist til batnaðar því líklegra væri að ástandið héldi áfram. Þeir hafi því ákveðið að færa dýrleika jarðarinnar úr 20 hundruðum og niður í 12 hundruð. Af hálfu stefnda sé hafnað þeirri ályktun stefnenda, að svæðið hafi verið talið innan jarðarinnar sjálfrar og því háð beinum eignarétti. Bent sé á í þessu sambandi, að dæmi hafi verið um það, að beitiland jarða hafi verið metið sérstaklega til tíundar og að afréttur einstakra jarða hafi í sumum tilvikum, verið reiknaður með í jarðamati, einkum ef þær hafi haft tekjur af upprekstrartollum.
Eins og óbyggðanefnd hafi lagt til grundvallar, renni ofangreindar heimildir ekki stoðum undir það, að eignarland Brúar hafi náð allt suður til Vatnajökuls.
Þegar landsvæða innan umþrætts landsvæðis sé getið í skriflegum heimildum, sé það jafnan tengt upprekstri og afréttarnotum. Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.
Þyki það einnig styðja þau sjónarmið, að til beins eignaréttar hafi ekki stofnast á svæðinu, að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum jörðum án hindrana. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.
Sé því fallist á með óbyggðanefnd, að þetta þyki benda til þess að á svæðinu, þ.e. sunnan Arnardals og Laugarvalla, sé afréttur. Þó svo að það kunni að vera í afréttareign stefnenda, landeiganda Brúar.
Þá sé á því byggt af hálfu stefnda, að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarétti.
Umþrætt landsvæði liggi í um 500-800 m hæð yfir sjávarmáli. Þríhyrningsfjallgarður, sem sé tæplega 40 km langur og liggi norður-suður, skipti landsvæðinu í annars vegar Brúardali og hins vegar Brúaröræfi. Austan fjallgarðsins séu Brúardalir, sem séu blásin öræfi þó með grónum daldrögum inn á milli. Vestan fjallgarðsins séu Brúaröræfi og nái suður að Vatnajökli. Brúaröræfin séu að mestu lítt grónar auðnir og fjöll. Svæði þetta sé að mestu fremur flatt, en þó öldótt á köflum og þar séu nokkur fell, svo sem Grágæsahnjúkur (820 m), Fagradalsfjall (1022 m), Sauðafell (760 m og 800 m), Lambafell (768 m) og Álftadalsfjall (910 m).
Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.
Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.
Stefndi hafni því, að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignaréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar í skilningi laga, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Stefndi taki sérstaklega fram, að í ákvæði 25. og 33. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, feli ekki í sér annað og meira en svonefndan jákvæðan áreiðanleika þinglýsingarbóka, sem byggist að einhverju leyti á traustfangssjónarmiðum. Reglan feli hins vegar ekki í sér frávik frá þeirri meginreglu eignaréttarins, að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi hafi átt.
Þeim málatilbúnaði stefnenda sé jafnframt hafnað, er lúti að því að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Með lögunum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar, heldur skera úr um eignaréttindi.
Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telji stefndi að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eignarétt á hinu umþrætta landsvæði. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ...sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé...“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignaréttarlega stöðu. Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnenda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Að öðru leyti mótmæli stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim sé lýst í stefnu, en byggi um leið á þeim röksemdum sem lagðar hafi verið til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 2/2005, auk þess sem byggt sé á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar hafi verið fram af hálfu stefnda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í kröfulýsingu hans fyrir nefndinni, dags. 14. október 2004, sbr. greinargerð hans dags. 10. desember 2005, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í fyrrgreindu máli nr. 2/2005, verði staðfestur, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með þeim hætti sem þar sé gert.
Auk framangreindra lagatilvísana, vísi stefndi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Byggt sé á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Vísað sé til hefðarlaga, nr. 46/1905 og til laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil. Þá sé vísað til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.
Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra laga.
VI
Eins og nánar er lýst hér að framan stendur deila málsaðila um eignarréttarlega stöðu landsvæðis innan merkja sem nánar er lýst í aðalkröfu stefnenda og ekki þykir ástæða til að endurtaka hér. Fjallaði óbyggðanefnd um málið á grundvelli fyrirmæla laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og kvað upp úrskurð 29. maí 2007 og hafði málið númerið 2/2005. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að innan greindra merkja væri þjóðlenda í afréttareign stefnenda. Með þeirri niðurstöðu sinni féllst nefndin að hluta á kröfu stefnenda, með því að mæla fyrir um að mörk þess lands jarðarinnar Brúar sem háð væri beinum eignarrétti stefnenda yrðu dregin sunnar en krafa stefnda fyrir nefndinni gerði ráð fyrir og eins með því að fallast á að allt landsvæðið teldist í afréttareign stefnenda. Stefnendur una ekki þessari niðurstöðu og krefjast ógildingar úrskurðarins og viðurkenningar á því að innan nefndra marka sé engin þjóðlenda. Til vara gera stefnendur sambærilegar kröfur varðandi landsvæði sem markast af þeim stað þar sem Sauðá fellur í Jökulsá á Dal til upptaka Sauðár í Vatnajökli, þaðan með jökulröndinni til austurs að upptökum Jökulsár á Dal og með þeirri á allt að þeim stað sem fyrst var nefndur. Stefndi unir á hinn bóginn úrskurði óbyggðanefndar og krefst því sýknu. Þá hefur því verið lýst hér að framan að það landsvæði sem nefnt hefur verið Krepputunga var skilið frá umfjöllun óbyggðanefndar um það svæði sem hér er til skoðunar, enda skaraðist þar eignarréttarkrafa stefnenda og eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Mývatnssveit. Stefndi krafðist þess að nefnt svæði allt yrði lýst þjóðlenda. Var fallist á kröfur stefnda um Krepputungu í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2007 sem kveðinn var upp 6. júní 2008 og framangreindir gagnaðilar stefnda ekki taldir eiga þar óbein eignarréttindi.
Stefnendur byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að umrætt landsvæði sé innan landnáms Hákonar Hákonarsonar, en það hafi náð milli Jökulsár á Dal og Jökulsár á Fjöllum allt til Vatnajökuls.
Landnámabók greinir frá landnámi Hákonar Hákonarsonar með þeim hætti að hann hafi numið Jökuldal allan fyrir vestan jökulsá og fyrir ofan Teigará. Ekki verður að mati dómsins talið að framangreind lýsing sé nægilega skýr til að geta ein og sér leitt til þeirrar ályktunar sem stefnendur byggja á, þannig að allt land vestan Jökulsár á Dal allt að upptökum árinnar í Vatnajökli og vestur að Jökulsá á Fjöllum allt til upptaka þeirrar ár í Vatnajökli geti á grundvelli framangreindrar lýsingar talist hafa verið numið í öndverðu. Á hinn bóginn útilokar nefnd landnámslýsing heldur ekki að svo kunni að hafa verið.
Stefnendur telja að þinglýstar heimildir beri með sér að Brúaröræfi hafi verið hluti Brúarlands, skv. þinglýstum landamerkjabréfum, en í málinu liggja fyrir tvö landamerkjabréf jarðarinnar, hið fyrr frá árinu 1890 og hið síðara frá árinu 1921. Telja þeir að óbyggðanefnd hafi ranglega túlkað hið eldra landamerkjabréf. Þá telja þeir að umrædd rangtúlkun nefndarinnar á texta bréfsins sé helsta röksemdin í þeirri niðurstöðu nefndarinnar að hin svonefndu Brúaröræfi skuli vera þjóðlenda. Á síðastnefndri forsendu telur dómurinn að stefnendur byggi í raun þá ályktun að niðurstaða um eignarréttarlega stöðu þess landssvæðis sem deilt er um í málinu (Brúaröræfa) ráðist af niðurstöðu um túlkun landamerkjabréfa jarðarinnar varðandi lýsingu merkja hennar frá „hestleið á Þríhyrningsfjallgarði“ að Jökulsá á Fjöllum. Er í stefnu málsins færður fram ítarlegur rökstuðningur fyrir því að merkjalýsing beggja landamerkjabréfanna lýsi í raun norðurmerkjum jarðarinnar milli jökulsánna tveggja með sama hætti, að gættri útskiptingu lands jarðanna Heiðarsels og Grunnavatns samkvæmt síðara landamerkjabréfinu, og sé að réttum skilningi samhljóða um að „allt land jökulsáa á milli“ sé í eigu Brúar og að í því felist að í landamerkjabréfunum sé lýst merkjum sem fylgi nefndum jökulsám allt að upptökum þeirra í Vatnajökli. Stefndi á hinn bóginn telur merkjalýsingu til suðurs (í átt að jöklinum) óljósa og því hafi óbyggðanefnd réttilega kveðið á um mörk þess lands sem háð væri beinum eignarrétti stefnenda að teknu tilliti til þeirra heimilda sem fyrir liggja um landnýtingu á svæðinu.
Að mati dómsins er ekki unnt að fallast á með stefnendum að meginforsendur óbyggðanefndar fyrir niðurstöðu um þetta atriði séu þær sem þeir samkvæmt framansögðu leggja til grundvallar og gagnrýna. Verður ekki séð að það varði nokkru um niðurstöðu málsins hvar sú hestleið kann að hafa legið sem getið er um í landamerkjabréfi og talin er hafa ráðið norðurmerkjum Brúar, enda ekki hlutverk óbyggðanefndar að kveða upp úr um landamerki Brúar og Möðrudals þar sem þau landamerki eru utan upphaflegrar kröfulínu stefnda. Er þess einnig að geta að fram kemur í upphafi niðurstöðukafla nefndarinnar að athugun hennar taki fyrst og fremst til suðurmerkja jarðarinnar, inn til landsins og á kröfusvæði íslenska ríkisins. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur skýrt fram sú afstaða nefndarinnar að í umræddum landamerkjabréfum væri merkjum ekki lýst með skýrum hætti til suðurs og taldi nefndin að það fengi ekki stoð í eldri heimildum að eignarland Brúar hafi náð allt suður að Vatnajökli. Þetta verður að telja grunnforsendur úrskurðarins og byggist öll röksemdafærsla nefndarinnar sem á eftir kemur á þeim, sem og mat á sönnunargildi landamerkjabréfa jarðarinnar. Verður ekki annað séð en að óbyggðanefnd hafi í niðurstöðu sinni byggt á að margnefnd landamerkjabréf hefðu fullt sönnunargildi að því marki sem merkja væri þar skýrlega getið. Verður á grundvelli þess sem að framan greinir að telja að röksemdir stefnenda um ætlaða rangtúlkun óbyggðanefndar á hinu eldra landamerkjabréfi Brúar og þá sérstaklega túlkun nefndarinnar á orðasambandinu „allt land jökulsár á milli“, geti ekki, þó á þær yrði fallist, leitt til þeirrar niðurstöðu sem stefnendur telja. Verður því að hafna þeim sem þýðingarlausum fyrir úrlausn málsins. Þá er það mat dómsins að eins og landfræðilegum aðstæðum er hér háttað, eins og nánar er lýst í úrskurði óbyggðanefndar og rakið er hér að framan, sem og lýsingu landamerkjabréfa, séu ekki efni til að hnekkja því mati óbyggðanefndar að landamerkjum Brúar sé ekki skýrlega lýst til suðurs í nefndum landamerkjabréfum. Verður ekki talið að orðasambandið „allt land jökulsáa á milli“ geti án nánari tilgreiningar talist ótvíræð lýsing landamerkja allt að upptökum ánna í Vatnajökli eins og stefndi heldur fram. Er því hafnað þeim málsástæðum stefnenda sem lúta að því að þinglýst landamerkjabréf leiði líkum að beinum eignarrétti þeirra að öllu landi milli jökulsánna tveggja að upptökum þeirra í Vatnajökli.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir áfram að Arnardalur hafi nokkra sérstöðu í heimildum og að teknu tilliti til þess virðist nefndinni eðlilegt að skýra eldra landamerkjabréf Brúar þannig að merki jarðarinnar nái til þess lands í heild sinni og þaðan austur að Jökulsá á Jökuldal. Með þessum orðum telur dómurinn einsýnt að óbyggðanefnd sé að vísa til þeirra heimilda sem stefnendur reki í málatilbúnaði sínum og telji að nefndin hafi ekki tekið tillit til varðandi sögu deilna um eignarrétt yfir Arnardal milli eigenda Brúar og eigenda Möðrudals, sem og annarra heimilda sem raktar eru í úrskurði óbyggðanefndar og varða landnýtingu í dalnum. Verður rökstuðningur nefndarinnar þegar litið er til hans í heild ekki skilinn öðruvísi en að hér sé nefndin einkum að vísa til þeirra orða í eldra landamerkjabréfinu þar sem segi „allan Arnardal átölulaust“. Telur nefndin að þetta styðji að Arnardalur verði að teljast undirorpinn beinum eignarrétti stefnenda. Er þess síðar getið í úrskurðinum að nefndin telji rétt að draga mörk eignarlands stefnenda gagnvart þjóðlendu miðað við að allur Arnardalur falli innan eignarlands jarðarinnar og frá honum sé dregin lína til austurs allt að landi Laugarvalla, sem að mati nefndarinnar hafi einnig sérstöðu samkvæmt rituðum heimildum um landnýtingu á svæðinu. Með þessu féllst óbyggðanefnd á röksemdir stefnenda að hluta, gegn kröfum stefnda, en samkvæmt kröfugerð þess síðarnefnda hefðu þjóðlendumörk legið um Arnardal. Ekki er unnt að fallast á að með þessari niðurstöðu hafi óbyggðanefnd farið út fyrir kröfugerð eða röksemdir aðila þannig að ógilda beri úrskurð hennar þess vegna. Með niðurstöðunni var fallist á eignarréttartilkall stefnenda að hluta gegn kröfu stefnda á grundvelli röksemda um eignarhald á Arnardal sem stefnendur höfðu uppi fyrir nefndinni. Í niðurstöðu óbyggðanefndar var lína dregin eftir efstu fjallstoppum sunnan dalsins og þvert yfir að landamerkjum Laugarvalla og vísað þessu til stuðnings til þess að Laugarvallardalur hafi einnig nokkra sérstöðu varðandi heimildir um nýtingu. Með því að draga mörk þjóðlendu með þessum hætti er það mat dómsins að óbyggðanefnd hafi gætti meðalhófs gagnvart stefnendum og hafi línan verið dregin með þeim hætti að tryggt væri og óyggjandi að allur Arnardalur kæmi í hlut stefnanda. Stefndi unir úrskurðinum og er það mat dómsins að stefnendur geti ekki með réttu byggt á að óbyggðanefnd hafi hallað á þá með niðurstöðunni.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir svo að þegar þeirra landsvæða sem sunnar liggi sé getið í skriflegum heimildum sé það að jafnaði tengt upprekstri og afréttarnotum en engin gögn liggi fyrir um að þau hafi allt fram á síðustu ár verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota. Staðhættir og fjarlægð frá byggð styðji þá niðurstöðu en landið sé allt í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið sé ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum jörðum án hindrana. Framangreint telur óbyggðanefnd benda til þess að á svæðinu sunnan Arnardals og Laugarvalla sé afréttur í þeim skilningi að jörðin Brú eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Hins vegar taldi óbyggðanefnd eins og áður er ítarlega lýst að sérstök tilgreining Arnardals í hinu eldra landamerkjabréfi Brúar styddi eignarréttartilkall stefnenda að því er dalinn varðaði. Til stuðnings þeirri niðurstöðu vísaði nefndin einnig til þess að Arnardalur, sem og Laugarvallardalur hefðu nokkra sérstöðu hvað varðaði landnýtingu sem kæmi fram í þeim rituðu heimildum sem fyrir nefndinni hafi legið. Laugarvallardalur er í landi Laugarvalla, en það er jörð er á land meðfram Jökulsá á Dal, sem áður var hluti Brúarlands, en var skilinn frá og var um eignarréttarlega stöðu lands þeirrar jarðar fjallað á öðrum stað í sama úrskurði óbyggðanefndar.
Í málatilbúnaði stefnenda er víða haldið fram röksemdum er lúta að því að ekki sé sýnt að umrætt land hafi verið til nota fyrir aðra en eigendur Brúar á hverjum tíma og það talið leiða líkur að því að stefnendur teljist eiga umrætt landsvæði beinum eignarrétti. Vísa þeir til þess að þegar talað sé um afrétt í rituðum heimildum sé átt við afrétt Brúarmanna einna, sem aðrir hafi ekki getað notað án þeirra samþykkis og að þau afréttarnot annarra sem heimildir geti um hafi átt sér stað með einkaréttarlegum samningum við Brúarmenn. Í niðurstöðu óbyggðanefndar er mælt fyrir um afréttareign stefnenda einna að umþrættu landsvæði. Felur niðurstaðan því í sér að óbyggðanefnd fellst á að umrædd afréttareign sé eign stefnenda en ekki annarra og því ekki um samnotaafrétt að ræða. Hafa stefnendur að mati dómsins ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir því, sem telja verður forsendu fyrir gildi umræddra röksemda þeirra, að eitt af skilyrðum þess að um afréttareign geti verið að ræða sé að hún sé í sameign margra. Verður öllum málsástæðum stefnenda sem á þessari forsendu byggja því hafnað.
Þær rituðu heimildir sem til eru um umrætt landsvæði eru að meira eða minna leyti raktar orðrétt hér að framan í lýsingu málsástæðna málsaðila að því marki sem þeir telja þær skipta máli og þykir ekki nauðsynlegt að endurtaka þær hér. Við lestur þeirra kemur í ljós að rétt er hjá óbyggðanefnd sú staðhæfing að þegar landssvæðis þess sem um er deilt í máli þessu er getið í rituðum heimildum er hvergi vísað til annarra nota en þeirra sem gefa til kynna afréttarnot í skilningi þjóðlendulaga.
Þá er að geta virðingargerðar Páls Melsted sýslumanns frá 1824 en þar var dýrleiki jarðarinnar Brúar færður niður úr 20 í 12 hundruð. Kemur þar meðal annars fram að af afréttum Brúar sé aftekin fullur þriðjungur þar sem land sunnan Sauðár, sé jörðinni tapað, þar sem áin sé orðin ófær mönnum og skepnum. Umrætt landsvæði nær meðal annars yfir Kringilsárrana, en hans er einnig getið í annarri heimild í tengslum við upprekstrarrétt. Í varakröfu stefnenda er merkjum umrædds lands lýst, en það liggur vestan Jökulsár á Dal og austan Sauðár að upptökum ánna í Vatnajökli. Í virðingargerð Páls sýslumanns er því lýst með ítarlegum hætti hvernig jörðin Brú hafi misst slægju- og beitiland og ber sú lýsing ekki með sér að þar sé verið að lýsa þeim hluta Brúarlands sem hér er deilt um. Í síðari hluta lýsingarinnar kemur fram sá kafli hennar sem fjallar um afrétt jarðarinnar og málsaðilar hafa báðir vísað til í málatilbúnaði sínum. Þessi virðingargerð Páls Melsted er tekin upp orðrétt í undirkafla 5.19 í úrskurði óbyggðanefndar en kaflinn rekur ritaðar heimildir um jörðina Brú. Í sama kafla úrksurðarins kemur einnig fram að í jarðarmati 1804 hafi jörðin m.a. átt afrétt sem metinn hafi verið til 88 álna. Ekki verður séð af virðingargerð Páls sýslumanns hversu mikið hlutfall af metnum búsifjum jarðarinnar rekja megi til missis afréttarlandsins handan Sauðár. Stefnendur byggja á því að þar sem umrætt land hafi verið metið til verðmætis sem grundvöllur skattlagningar jarðarinnar verði að telja að það hafi verið háð beinum eignarrétti. Á þetta er ekki unnt að fallast. Hafa stefnendur ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir því að afnotaréttindi, eins og beitaréttar og ef til vill annar afnotaréttur, hafi ekki getað verið grundvöllur afgjalds. Má til dæmis sjá í fyrrnefndu jarðamati 1804 að jörðinni er metinn afréttur til verðs. Verður málsástæðum þeirra er að þessu lúta því hafnað. Leiðir þetta og til þess að varakröfum stefnenda verður hafnað enda byggja þær einkum á sjónarmiðum er varða framangreindar málsástæður og þýðingu umræddrar virðingargerðar.
Rétt er að víkja að þeim röksemdum stefnenda í einu lagi sem byggja á að óbyggðanefnd hafi um of í úrskurði sínum litið til þess að umrætt landsvæði sé nefnt afréttur í rituðum heimildum. Telja stefnendur að almennar niðurstöður óbyggðanefndar, sem og niðurstöður Hæstaréttar, gefi til kynna að innan jarða kunni að vera svæði sem nefnd séu afréttir en í því þurfi þó ekki að felast mismunandi eignarréttarleg staða lands umræddrar jarðar. Á það verður fallist með stefnendum að síðastnefnd staða kann að vera uppi í einstökum tilvikum. Verður þó að telja að þetta geti einkum átt við um svæði innan merkja jarða. Að framan hefur því hins vegar verið hafnað að fyrir hendi séu skýrar merkjalýsingar til suðurs og því ekki vafalaust að verið sé að vísa til lands sem getur talist innan jarðarinnar. Það liggur hins vegar fyrir í máli þessu að heimildir eru í innbyrðis samræmi bæði að því er varðar tilgreiningu umrædds lands sem afréttar og einnig að því er varðar þær takmörkuðu upplýsingar sem fyrir liggja um not landsins. Þó liggja fyrir annars vegar bréf hreppstjóra Jökuldalshrepps frá 3. júní 1920 og lýsing Þorsteins Sigurðssonar sýslumanns í Norður-Múlasýslu dags. 5. júní 1745, sem nánar er lýst hér að framan þegar rakinn var málatilbúnaður stefnenda. Er í lýsingu Þorsteins sýslumanns sagt með almennum hætti frá því að afréttir finnist sunnan Jökulsár og Jökuldals en engir afréttir í norðurhluta sýslunnar og láti bændur búpening sinn ganga á því landi sem í kring um bæina sé. Bréf hreppsstjóra Jökuldalshrepps var svar við fyrirspurn stjórnarráðsins sem beint var til sýslumanna þar sem þeir voru beðnir að afla upplýsinga um það hvort í þeirra umdæmi væri að finna svæði sem teldust vera almenningar eða afréttarlönd sem ekki sannanlega tilheyri nokkru lögbýli. Svar hreppstjórans var að hann vissi ekki til að slík svæði væri að finna í hreppnum. Báðar umræddar heimildir lýsa með almennum hætti aðstæðum annars vegar í heilli sýslu og hins vegar tilteknum hreppi, en víkja ekki sérstaklega að því landsvæði sem hér eru um deilt. Verður að fallast á með óbyggðanefnd að ekki verði af svari hreppstjórans dregin sú ályktun að allt land innan hreppsins sé háð beinum eignarrétti. Þá verður að telja að lýsing Þorsteins sýslumanns sé of almenn til að af henni verði dregnar óyggjandi ályktanir um eignarréttarlega stöðu landsvæðis þess sem deilt er um, einkum í ljósi annarra þeirra ritiðu heimilda sem fyrir liggja. Þá er rétt að geta þess að hin síðarnefnda heimild er rakin í úrskurði óbyggðanefndar í sérstökum kafla um afréttarnot og er því ekki rétt sem fram kemur í stefnu að heimildarinnar sé ekki getið í úrskurði nefndarinnar. Framangreindum röksemdum stefnenda er því hafnað.
Fallast má á með stefnendum að í úrskurði óbyggðanefndar sé ofmælt að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags og þannig gefið í skyn að svo hafi verið alla tíð. Lögðu stefnendur gögn fyrir óbyggaðnefnd sem leiddu líkum að því að landið hafi verið smalað af Brúarbændum sjálfum, allt til 1897 er eigandi Brúar hafi óskað eftir aðstoð sveitarfélagsins til að smala landið og hafi það verið samþykkt af hreppsefnd. Að sögn stefnenda hafi þetta staðið til miðrar síðustu aldar en frá þeim tíma hafi Brúarbændur smalað land sitt sjálfir. Þetta eitt dugar þó ekki til að hnekkja úrskurði óbyggðanefndar, enda niðurstaða fengin með heildstæðu mati þeirra heimilda sem fyrir liggja. Er það niðurstaða dómsins að stefnendum hafi ekki tekist að hnekkja því mati.
Ekki er unnt að fallast á með stefnendum að þeir hafi öðlast ríkari rétt yfir umræddu landi en mælt er fyrir um í úrskurði óbyggðanefndar á grundvelli réttarreglna um hefð, enda byggir framangreind niðurstaða um eignarréttarlega stöðu þess lands sem um ræðir á því sem upplýst er um notkun landsins.
Af öllu framansögðu verður ekki talið að stefnendum hafi tekist að hnekkja þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar sem um er deilt í máli þessu, með vísan til þeirra rituðu heimilda sem fyrir liggja um notkun umrædds landsvæðis frá öndverðu og að gættum þeim sönnunarreglum sem mótast hafa á undanförnum árum í niðurstöðum Hæstaréttar í sambærilegum málum, einkum að því er varðar sönnunargildi landamerkjabréfa.
Þá hefur stefnendum ekki tekist að sýna fram á að óbyggðanefnd hafi ekki gætt rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga við úrlausn sína, en allra þeirra rituðu heimilda sem stefnendur vísa til er getið í úrskurði nefndarinnar, þó ekki sé vísað til þeirra allra í niðurstöðukafla hans. Þá verður ekki séð að meðalhófs hafi ekki verið gætt og ekki verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því að við úrlausn sína hafi óbyggðanefnd farið á svig við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.
Er það því niðurstaða dómsins að engir form- eða efniságallar séu í nefndum úrskurði þannig að nægi til ógildingar hans. Verður stefndi því sýknaður bæði af aðal- og varakröfum stefnenda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði að meðtalinni málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp dóminn, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af kröfum stefnenda, Stefáns Halldórssonar og Sigvarðar Halldórssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarakostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 1.494.000 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.
Halldór Björnsson