• Lykilorð:
  • Skaðabætur
  • Höfundarréttarmál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 26. janúar 2012 í máli

nr. E-2691/2011:

Ólafur Einarsson

Björg Marteinsdóttir

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, hrl.)

gegn

DV ehf.

(Ólafur Örn Svansson, hrl.)

og

Jóhannesi Kristjáni Kristjánssyni, til vara.

 

Mál þetta, sem dómtekið var 1. desember sl., er höfðað 23. júní 2011 af Ólafi Einarssyni, Sævangi 37, Hafnarfirði, og Björgu Marteinsdóttur, sama stað, á hendur DV ehf., Tryggvagötu 11, Reykjavík, en til vara á hendur Jóhannesi Kristjáni Kristjánssyni, Trönuhjalla 1, Kópavogi.

Undir rekstri málsins var fallið frá kröfum á hendur varastefnda.

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær, að stefnda verði dæmt til þess að greiða hvoru stefnenda um sig skaðabætur að fjárhæð 171.324 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júlí 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun til hvors stefnenda um sig 22. júní 2011 að fjárhæð 16.324 krónur. Til vara er þess krafist, að stefnda verði dæmt til þess að greiða hvoru stefnenda um sig skaðabætur að álitum með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu greinir. Þá er gerð sú krafa, að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði DV eftir að dómur gengur í málinu. Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda, en til vara, að kröfur þeirra verði lækkaðar verulega. Þá er krafist málskostnaðar.

 

I

Helstu málsatvik eru þau, að í helgarblaði útgáfublaðsins DV, 16.-18. júlí 2010, var opnuumfjöllun um stefnendur undir fyrirsögninni: „Selja lækningu við MND og krabbameini.“ Var umfjöllunin skreytt tveimur ljósmyndum af stefnendum. Annars vegar var þar ljósmynd af stefnandanum Ólafi, sem stefnandinn Björg tók, og var birt tvívegis í blaðinu, á blaðsíðu 18 og í smærri mynd á blaðsíðu 19. Hins vegar var þar ljósmynd af stefnandanum Björgu, sem stefnandinn Ólafur tók, og var hún birt tvívegis í blaðinu á blaðsíðu 19, önnur í smækkaðri mynd. 

Stefnendur kærðu starfsmenn stefnda til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands 15. september 2010 og var kæruefnið tvíþætt. Annars vegar laut kæran að umfjöllun blaðsins um stefnendur og hins vegar að því, að starfsmenn stefnda hefðu tekið tvær ljósmyndir ófrjálsri hendi af vefsvæði félags í eigu stefnenda og birt þær í DV. Með úrskurði 9. nóvember 2010, í máli nr. 2/2010-2011, komst siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að umfjöllun starfsmanna stefnda um stefnendur hafi brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands og að brotið væri ámælisvert. Síðara kæruatriðið var talið falla utan úrskurðarsviðs nefndarinnar og var því vísað frá, en gefið í skyn, að málið væri fremur „lögreglurannsóknar- og/eða innheimtumál.“

Stefnendur kröfðust þess með bréfi frá 11. apríl 2011, að stefnda viðurkenndi bótaskyldu í málinu og greiddi þeim skaðabætur auk lögmannskostnaðar, auk þess að birta afsökunarbeiðni í DV. Með bréfi frá 18. apríl 2011 bauð stefnda fram greiðslu upp á 8.676 krónur til hvors stefnenda um sig og bauðst til þess að birta afsökunarbeiðni vegna myndbirtinganna. Með tölvuskeyti til stefnda 1. júní 2011 voru kröfur stefnenda útlistaðar nánar þannig, að bætur fyrir fjártjón og miska til hvors stefnenda næmu 100.000 krónum og lögmannsþóknun, að viðbættum virðisaukaskatti, næmi 125.500 krónum, samtals nam krafan því 325.500 krónum. Hinn 7. júní 2011 barst lögmanni stefnenda tölvuskeyti frá starfsmanni stefnda, þar sem upplýst var, að stefnda hefði lagt inn á reikning lögmannsstofunnar þá fjárhæð, sem áður hefði verið rædd, til lúkningar á málinu, 8.676 krónur til handa hvoru þeirra. Jafnframt var tilkynnt, að afsökunarbeiðni yrði birt í DV daginn eftir fyrir að hafa ekki aflað leyfis til notkunar á myndunum. Var tekið fram, að þetta væri gert án viðurkenningar á frekari bótaskyldu í málinu, sem af hálfu stefnda var talið lokið með þessu. Lögmaður stefnenda svaraði bréfinu með tölvuskeyti tveimur dögum síðar, þar sem upplýst var, að litið yrði á greiðsluna sem innborgun á kröfu stefnenda og tekið fram, að málinu yrði fram haldið. Þá voru forsvarsmenn stefnda hvattir til að kynna sér dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum, sem vörðuðu myndbirtingar, og þeim boðið að ljúka málinu utan réttar. Hinn 22. júní 2011, degi áður en málið var þingfest, barst lögmanni stefnenda tölvuskeyti frá lögmanni stefnda, þar sem upplýst var, að greiddar hefðu verið 32.648 krónur inn á reikning lögmannsstofunnar til lúkningar málinu, auk 23.848 krónur í lögmannskostnað.

 

II

Stefnendur halda því fram, að umræddar ljósmyndir, sem um ræðir í málinu, séu höfundarverk sín og njóti verndar höfundalaga nr. 73/1972, en starfsmenn stefnda hafi tekið þær ófrjálsri hendi af vefsvæðinu www.sjonarholl.is. Svo virðist sem starfsmenn stefnda hafi farið inn á vefsvæðið og búið til eintök af myndunum, sem þeir hafi svo birt í DV án leyfis stefnenda og án þess, að þeir væru nafngreindir sem höfundar.

Stefnendur vísa til þess, að í 1. mgr. 1. gr. höfundalaga sé kveðið á um, að höfundar eigi eignarrétt að bókmennta- eða listaverki með þeim takmörkunum, sem greini í II. kafla laganna. Í 2. mgr. 1. gr. segi síðan, að ljósmyndalist falli undir ákvæði 1. mgr. 1. gr. laganna. Það liggi fyrir, að ekki séu gerðar strangar kröfur til listfengi og frumleika til þess, að ljósmynd teljist til höfundarverks í skilningi höfundaréttar. Þá sé ljóst, að þær takmarkanir, sem kveðið sé á um í II. kafla höfundalaga, taki ekki til þess tilviks, sem hér um ræðir. Það liggi fyrir í málinu, að hvort stefnenda hafi tekið sína ljósmyndina af hinu, sem birtar hafi verið á tveimur stöðum í DV, og séu því höfundar ljósmyndanna og eigi þar af leiðandi eignarrétt að þeim, sbr. 1. mgr. 1. gr. höfundalaga. Það, að stefnda hafi án leyfis stefnenda búið til eintök af ljósmyndunum og birt þær í DV, feli í sér brot á eignarrétti stefnenda, sem verndaður sé af 1. mgr. 1. gr. höfundalaga og 72. gr. stjórnarskrár.

Í 2., sbr. 3. gr. höfundalaga sé kveðið á um, að höfundur hafi einkarétt til að gera eintök af verki sínu og það sé eintakagerð, þegar hugverk sé tengt hlutum. Síðan segi m.a. í 2. mgr. 2. gr. laganna, að verk teljist gefið út, þegar eintök af því séu með réttri heimild og í álitsverðum fjölda boðin opinberlega til sölu. Það sé ljóst, að stefnda hafi brotið gegn einkarétti stefnenda til eintakagerðar og útgáfurétti með því að búa til eintök af verkum þeirra og birta greindar ljósmyndir á tveimur stöðum í DV í leyfisleysi og þannig gefið út og tengt hugverk stefnenda tilteknum hlut án þess að hafa til þess heimild.

Í 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. höfundalaga sé kveðið á um einkarétt höfundar til að birta verk sín í upphaflegri mynd eða breyttri og að verk teljist birt, þegar það sé með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega eða eintök af því gefin út. Hér sé um grundvallarréttindi höfundar að ræða, en réttur höfundar til að ráða því sjálfur, hvar, hvernig og hvenær hann birtir verk sín og í hvaða samhengi sé höfundum dýrmætur. Það liggi fyrir, að stefnda hafi með birtingu ljósmynda stefnenda í DV brotið gegn þessum grundvallarrétti stefnenda og þannig brotið gegn þeim mikilvægu réttindum þeirra, að fá að ráða því sjálf, hvar, hvernig, hvenær og í hvaða samhengi verk þeirra séu birt.

Í 1. mgr. 4. gr. höfundalaga segi, að skylt sé, eftir því, sem við geti átt, að geta nafns höfundar, þegar verk sé birt. Með því að geta ekki stefnenda sem höfunda, þegar myndir þeirra voru birtar í DV, hafi stefnda brotið gegn nafngreiningarrétti stefnenda. Í 2. mgr. 4. gr. laganna segi síðan, að óheimilt sé að birta verk höfundar með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundaheiður hans. Stefnendur telja stefnda hafa hér enn á ný brotið gegn rétti þeirra með því að birta myndirnar með ærumeiðandi og ósannri umfjöllun um þau. Í 3. mgr. 4. gr. höfundalaga komi síðan fram, að afsal höfundar á réttinum samkvæmt 4. gr. laganna sé ógilt, nema um einstök tilvik sé að ræða, sem séu skýrt afmörkuð um tegund og efni. Það sé því ljóst, að á stefnda hafi hvílt ótvíræð lagaskylda að geta nafns stefnenda við birtingu myndanna.

Í 1. mgr. 49. gr. höfundalaga sé sérregla um ljósmyndir, sem teljist ekki uppfylla skilyrði 2. mgr. 1. gr. laganna um listfengi og frumleika til þess að geta talist höfundarverk í skilningi höfundaréttar. Þar segi, að eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóti verndar 2. mgr. 1. gr. laganna, sé allt að einu óheimil án samþykkis ljósmyndara og jafnframt sé óheimilt að birta slíkar myndir án samþykkis höfundar. Síðan segi, að ef slík mynd er birt opinberlega í atvinnuskyni eða ávinnings, þá eigi ljósmyndari kröfu til þóknunar. Þá verði að telja, að ákvæði 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna gildi um ljósmyndir, sem njóti verndar 1. mgr. 49. gr. laganna, eða eftir atvikum megi beita ákvæðinu með lögjöfnun um höfunda slíkra mynda.

Stefnendur byggja á því, að ef ekki verður fallist á, að ljósmyndir þeirra teljist verk í skilningi 2. mgr. 1. gr. höfundalaga, þá njóti ljósmyndir þeirra fullrar verndar á grundvelli 1. mgr. 49. gr. höfundalaga, og á þeim grundvelli hafi stefnda brotið gegn skýrum og ótvíræðum rétti stefnenda, m.a. sæmdarrétti, rétti til eftirgerðar og birtingar ljósmyndanna, og því beri stefnda skaðabótaábyrgð á fjárhagslegu og ófjárhagslegu tjóni stefnenda vegna þessara réttarbrota. Gilda sömu rök að baki þeirri málsástæðu og getið er hér að ofan, hvað verk í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna varðar.

Stefnendur telja það liggja fyrir hendi, að stefnda hafi með saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn skýrum og ótvíræðum rétti þeirra, sem verndaður sé af ákvæðum höfundalaga og 72. gr. stjórnarskrár. Með þeirri háttsemi sinni hafi stefnda bakað sér refsi- og skaðabótaábyrgð, sbr. 54. og 56. gr. höfundalaga. Þá liggi fyrir, að brot stefnda á höfundarétti stefnenda séu stórfelld. Við mat á hæfilegum skaðabótum beri að horfa til þess, að DV sé gefið út í hagnaðarskyni og í stóru upplagi, en telja verði, að helgarblað sé prentað í 10.-20.000 eintökum, og því sé útbreiðsla þess mikil. Þá beri að líta til þess, að ljósmyndir stefnenda hafi birst á tveimur stöðum í blaðinu og verið notaðar til að myndskreyta eina aðalfrétt blaðsins. Það verði því að telja, að stefnda hafi hagnýtt sér verk stefnenda í ágóðaskyni og að saknæm og ólögmæt notkun stefnda á ljósmyndum stefnenda hafi orðið til þess að auka sölu áðurgreinds helgarblaðs DV. Með innborgunargreiðslu inn á kröfu stefnenda 7. júní sl., verði að telja, að stefnda hafi viðurkennt brot sitt og greiðsluskyldu gagnvart stefnendum.

Hvað skaðabætur vegna fjártjóns varðar, byggja stefnendur á 56. gr. og eftir atvikum 49. gr. höfundalaga, en við ákvörðun skaðabóta megi hafa gjaldskrá Myndstefs til hliðsjónar, en þar segi, að taxti fyrir mynd í prentmiðli, þar sem upplag sé meira en 10.000 eintök og minna en 50.000 eintök og stærð myndar upp að 1/8 úr síðu sé 10.845 krónur. Eðli málsins samkvæmt sé ekki fjallað um greiðslur fyrir ljósmyndir, sem birtar séu í óleyfi höfundar í gjaldskránni og feli í sér brot á höfundalögum. Það verði því að telja, að stefnendur eigi rétt á greiðslu, sem nemi margfaldri þeirri fjárhæð, sem kveðið sé á um í gjaldskrá Myndstefs.

Stefnendur halda því fram, að ef ljósmyndir þeirra hefðu verið birtar í DV með leyfi þeirra og gjaldskrá Myndstefs hefði verið lögð til grundvallar, þá hefði hvort stefnenda um sig átt rétt til greiðslu á 21.696 krónum að því gefnu, að helgarblað sé gefið út í meira en 10.000 eintökum. Með hliðsjón af atvikum málsins og þá helst, að myndirnar hafi verið birtar í ágóðaskyni og án leyfis stefnenda, og verið notaðar til þess að myndskreyta upplogna og ærumeiðandi frétt um stefnendur, verði að telja, að hæfileg greiðsla til stefnenda vegna hinnar saknæmu og ólögmætu birtingar sé þreföld sú fjárhæð, sem hvort stefnenda hefði fengið greidda, ef löglega hefði verið staðið að birtingu myndanna eða 65.088 krónur. Hinn 7. júní sl. hafi stefnda greitt hvoru stefnenda 8.676 krónur inn á kröfuna. Endanleg krafa hvors stefnenda um sig vegna fjártjóns sé því 65.088, að frádreginni innborgun stefnda 7. júní sl. að fjárhæð 8.676 krónur, eða alls 56.412 krónur.

Kröfu sína um miskabætur byggja stefnendur á 56. gr. höfundalaga. Við mat á miskabótum beri að horfa til þess, að stefnendur hafi verið sviptir rétti, sem verndaður sé af 72. gr. stjórnarskrár og ákvæðum höfundalaga, en annars vegar sé um að ræða rétt stefnenda til að ráða því, hvort, hvenær og hvar ljósmyndaverk þeirra birtist og í hvaða samhengi. Stefnendur byggja á því, að stefnda hafi notað myndirnar í ágóðaskyni og notað myndverk stefnenda til þess að myndskreyta upplogna og ærumeiðandi frétt um stefnendur. Þá beri einnig að horfa til þess, að nafngreiningarréttur stefnenda hafi verið brotinn. Hér komi líka til skoðunar, að brot stefnda á réttindum stefnenda hafi verið stórfelld og falið í sér brot á flestum grundvallarréttindum, sem njóti verndar höfundaréttarlaga.

Hvað fjárhæð miskabóta varði, beri að horfa til þess, að stefnda hafi tekið höfundarverk stefnenda ófrjálsri hendi og birt þau, hvort um sig, á tveimur stöðum í helgarblaði DV. Það verði að telja, að sanngjarnar miskabætur fyrir ólögmæta og saknæma birtingu á ljósmyndaverki stefnenda á tveimur stöðum í helgarblaði DV nemi 114.912 krónum til handa hvoru stefnenda um sig. Hér beri að líta til þess, að almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna mæli með því, að stefnendum verði dæmdar umtalsverðar miskabætur, enda sé ljóst, að stefnda hafi jafnframt framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnendum, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Endanleg aðalkrafa hvors stefnenda um sig sundurliðist því svo: Skaðabætur vegna fjártjóns að fjárhæð 65.099 krónur, að viðbættum miskabótum að fjárhæð 114.912 krónur, sem geri samtals 180.000 krónur, að frádreginni innborgun stefnda að fjárhæð 8.676 krónur, eða alls 171.324 krónur.

Verði komist að þeirri niðurstöðu, að stefnendur hafi af einhverjum ástæðum ekki fært fullnægjandi sönnur á fjárhæð tjóns síns, gera stefnendur til vara þá kröfu, að hvoru stefnenda verði dæmdar skaðabætur að álitum, sbr. 2. mgr. 56. gr. höfundalaga. Um rökstuðning fyrir þeirri kröfu vísa stefnendur að breyttu breytanda til sömu sjónarmiða og rakin eru til stuðnings aðalkröfu þeirra.

Stefnendur beina kröfum sínum að stefnda á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, en þeir telja, að ákvörðun um myndbirtingar og framsetningu myndefnis falli undir ritstjórnarefni, sem ritstjóri eða útgefandi beri ábyrgð á samkvæmt nefndri lagagrein.

Ásamt því að byggja kröfur sínar um skaðabótaábyrgð stefnda á greindri hlutlægri ábyrgðarreglu, byggja stefnendur málatilbúnað sinn á því, að ótilgreindir starfsmenn stefnda hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi brotið gegn hagsmunum stefnenda, sem séu verndaðir af ákvæðum höfundalaga nr. 72/1973 og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hér sé einkum um að ræða brot gegn 1. 2. 3. og 4. gr. höfl., eða eftir atvikum 1. mgr. 49. gr. höfl., sem stefnda beri refsi- og fébótaábyrgð á sbr. 54. og 56. gr. sömu laga, og meginreglu skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanna þeirra.

Þá vísa stefnendur til fyrirliggjandi dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum E-2042/2008 frá 27. nóvember 2008 og E-6726/2008 frá 13. mars 2009 kröfum sínum til stuðnings.

Samlagsaðild stefnenda byggja þau á réttarfarshagræði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál, þar sem fleiri en einum sé heimilað að höfða mál í sameiningu á hendur sama gagnaðila og einnig að kröfu verði beint að tveimur eða fleiri í einu máli, ef báðar eða allar kröfurnar í málinu eiga sameiginlegan uppruna. Þeim skilyrðum ákvæðisins, að dómkröfur aðila eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, telja stefnendur vera fullnægt, þar sem tjón þeirra megi rekja til sama atviksins, hinnar ólögmætu sjálftöku stefnda. Þá séu stefnendur jafnframt í sömu aðstöðu gagnvart stefnda og uppfylli því skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála til að höfða mál sitt í sameiningu.

Stefnendur gera þá kröfu, að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði DV eftir að dómur gengur í málinu, sbr. 1. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt og 59. gr. c. höfundalaga. Stefnendur hafa ekki uppi fjárkröfu á hendur stefnda vegna birtingarkostnaðar, heldur einungis þá kröfu, að dómur í málinu verði birtur í DV, en réttarbrot stefnda í garð stefnenda hafi farið fram á síðum þess blaðs.

Krafist er dráttarvaxta frá 23. júlí 2011, þegar liðinn var mánuður frá þingfestingu málsins, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2011, en um vaxtafót er vísað til 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Þá er þess krafist, að stefnda greiði stefnendum, hvoru um sig, málskostnað. Er krafan reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er þess krafist, að dæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.

 

III

Stefnda mótmælir framsetningu stefnenda á málinu í stefnu. Þar sé lýst, hvernig stefnda hafi notað myndir stefnda í heimildarleysi og að þar hafi verið um alvarlegan glæp eða brot gagnvart stefnendum að ræða. Þessari nálgun stefnenda sé hafnað. Stefnda hafnar því, að gerst sekt um nokkurs konar ærumeiðingar í garð stefnenda, hvorki með þeirri umfjöllun, sem fram komi í þeirri grein, sem myndirnar fylgdu, né með birtingu myndanna sjálfra. Hvað umfjöllunina varði, hafi stefnendur ekki byggt á því, að nokkurs konar ærumeiðing hafi falist í henni, a.m.k. sé því ekki lýst í stefnu, hvorki með vísan til einstakra ummæla, né með vísan til tiltekinna ákvæða hegningarlaga um ærumeiðingar. Verði því að líta svo á, að engar ærumeiðingar hafi falist í umfjölluninni. Hvað birtingu myndanna varði, þá sé ljóst, að engin ærumeiðing geti talist fólgin í því að birta andlitsmyndir af stefnendum, sem þeir hafi sjálfir valið til birtingar á netinu til að kynna sig.

Stefnda telur, hafi það brotið gegn stefnendum með einhverjum hætti, að slíkt brot felist eingöngu í því að hafa ekki greitt venjubundna þóknun til þeirra, sem eigenda ljósmyndanna, fyrir fram. Sé hér því eingöngu um að ræða tiltekið gjald, sem ekki hafi verið greitt og sé eðlilegt að bæta slíkt brot með greiðslu gjaldsins eftir á, annað hvort með vöxtum eða álagi, eins og venjan sé á þessu sviði. Tjón stefnenda geti ekki verið fólgið í neinu öðru en því að hafa ekki fengið greitt það gjald, sem þeim kunni að hafa staðið réttur til að fá greitt.

Stefnda kveður venjuna vera þá í fjölmiðlabransanum, að venjulegar einfaldar ljósmyndir, eins og þær, sem hér séu til umfjöllunar, séu notaðar af fjölmiðlamönnum með fréttum og svo sé greitt fyrir eftir á. Þetta sé venja, sem helgist m.a. af því, að vinnuhraði skipti miklu máli, þegar komi að birtingu frétta og mundi það hafa í för með sér mikið óhagræði fyrir fjömiðla, ef í hvert skipti, sem nota ætti einfalda ljósmynd með frétt, þyrfti að hafa fyrir fram samband við ljósmyndarann og greiða honum þóknun. Í mörgum tilvikum sé það gert, en oft sé aðstaðan sú, að nauðsynlegt sé að gera þetta eftir á og verði ekki séð, að í því geti falist mikið tjón fyrir viðkomandi ljósmyndara eða alvarlegt brot gegn æru hans eða persónu.

Stefnda byggir á því, að hinar umstefndu ljósmyndir teljist ekki til listaverka í skilningi 1. og 2. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Til þess þykji þær skorta bæði listræna sköpun og frumleika og falli þær þar af leiðandi ekki undir höfundaréttarvernd höfundalaganna, sbr. 2.-4. gr. þeirra laga. Vísar stefnda í þessu sambandi til fyrirliggjandi dómaframkvæmdar, þar sem ekki hafi verið fallist á, að ljósmyndir af fólki hefði neina sérstaka listræna þýðingu, en stefnda telur, að líta megi til þeirrar dómaframkvæmdar í máli þessu, þegar metið er, hvort nefndar ljósmyndir teljist listaverk eða ekki. Telur stefnda ákvæði 2.-4. gr. höfundalaga ekki eiga við um slíkar ljósmyndir, sem um ræðir í málinu, og séu vísanir stefnda til þessara lagaákvæða því þýðingarlausar.

Stefnendur byggi á því, að beita megi 4. gr. höfundalaga með lögjöfnun, en um það segi í stefnu: „Þá verður að telja að ákvæði 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr. höfl., gildi um ljósmyndir sem njóta verndar 1. mgr. 49. gr. höfl., eða eftir atvikum megi beita ákvæðinu með lögjöfnun um höfunda slíkra mynda.“

Stefnda telur ofangreinda staðhæfingu augljóslega ekki eiga við rök að styðjast, enda sé 1. mgr. 49. gr. nokkurs konar sérákvæði í höfundalögum og sé ákvæðum laganna, sem gilda um listaverk, einmitt ekki ætlað að gilda um þær ljósmyndir, sem njóti verndar 1. mgr. 49. gr. Ákvæði 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga séu þar engar undantekningar. Hvað möguleika til lögjöfnunar teljur stefnda þann möguleika fullkomlega ótækan, enda sé tilvikið ekki ólögákveðið, sem sé eitt frumskilyrða lögjöfnunar, heldur sé þvert á móti sérstaklega tekið fram, að ljósmyndir, sem uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 1. gr. sem listaverk, njóti ekki verndar sem slíkt.

Stefnendur byggja kröfur sínar til vara á því, að myndirnar njóti verndar á grundvelli 1. mgr. 49. gr. höfundalaga. Samkvæmt ákvæðinu sé eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóti verndar sem listaverk, óheimil án samþykkis ljósmyndara eða þess aðila, sem rétt hans hafi hlotið. Enn fremur segi þar, að óheimilt sé að birta slíkar ljósmyndir án samþykkis rétthafa. Jafnframt segi í ákvæðinu, að sé slík mynd birt opinberlega í atvinnuskyni eða ávinnings, þá eigi ljómyndari eða síðari rétthafi kröfu til þóknunar.

Við ákvörðun skaðabóta miði stefnandi við gjaldskrá Myndstefs, félags íslenskra myndhöfunda. Þar segi, að taxti fyrir mynd í prentmiðli, þar sem upplag sé meira en 10.000 eintök og minna en 50.000 eintök, og stærð myndar upp að 1/8 úr síðu sé 10.845 krónur. Segi í stefnu, að eðli málsins samkvæmt sé ekki fjallað um greiðslur fyrir ljósmyndir, sem birtar séu í óleyfi höfundar í gjaldskránni og feli í sér brot á höfundalögum. Sé því haldið fram, að svo verði að telja, að stefnendur eigi rétt á greiðslu, er nemi margfaldri þeirri fjárhæð, sem kveðið sé á um í gjaldskrá Myndstefs. Stefnda mótmælir þessu sem röngu.

Í gjaldskrá Myndstefs segi undir fyrirsögninni „Óheimil notkun á myndverkum:“ „Þegar skilmálar samkvæmt gjaldskrá þessari eru ekki virtir getur Myndstef fyrir hönd viðkomandi krafist bóta í formi hækkunar á gjaldskrá allt að 100%.“ Það sé því ljóst, að gjaldskrá Myndstefs taki einmitt á því, þegar myndverk séu birt án heimildar. Reglan sé þá sú að krefjast tvöfaldrar upphæðar þess gjalds, sem greitt hefði verið, ef heimild hefði verið fengin til myndbirtingar. Sé regla þessi venjuhelguð í starfsháttum fjölmiðla. Stefnda hafi greitt stefnendum án viðurkenningar á bótaskyldu samtals 50.000 krónur fyrir báðar myndirnar auk lögmannskostnaðar. Stefnendur telji, að með þeirri greiðslu hafi stefnda viðurkennt ætlað brot sitt og greiðsluskyldu gagnvart stefnendum.

Í tölvupósti Stefáns Torfa Sigurðssonar til lögmanns stefnenda 7. júní 2011 segi í niðurlagi: „Þetta er gert án viðurkenningar á frekari bótaskyldu í málinu og teljum við því hér með lokið.“ Í tölvupósti lögmanns stefnda 22. júní 2011 segi þar að auki: „Sem þrautalendingu hefur blaðið ákveðið, einnig án viðurkenningar á skyldu til greiðslu á meintu fjártjóni og/eða miska, að greiða samtals kr. 50.000 fyrir báðar myndirnar auk þóknunar skv. 5. gr. gjaldskrá Lögfræðistofu Reykjavíkur.“ Það liggi því fyrir, að stefnda hafi frá upphafi hafnað frekari bótaskyldu í málinu.

Samkvæmt gjaldskrá Myndstefs hafi stefnendur átt rétt á 8.676 krónum hvort. Miðist sú upphæð við rétt upplag blaðsins, sem sé undir 10.000, en ekki yfir 10.000 líkt og stefnendur áætli. Hvor um sig nemi því réttmæt krafa þeirra 17.534 krónum. Það geri samtals 35.068 krónur. Stefnda hafi greitt stefnendum 50.000 krónur fyrir myndnotkunina og sé sú upphæð hærri en réttmætar kröfur þeirra til samans hafi numið. Jafnvel þótt miðað yrði við fjárhæð, sem stefnendur sjálfir tiltaki, þ.e. 10.845 krónur, ef upplag er yfir 10.000 eintökum, þá yrði heildarkrafa stefnenda aðeins 43.380 krónur, sem sé einnig undir þegar greiddri fjárhæð. Telur stefnda því, að stefnendum hafi þegar verið greidd sú upphæð, sem þau hafi átt rétt á, þ.e. „hækkun á gjaldskrá allt að 100%,“ og því hafi greiðsluskylda stefnda verið uppfyllt. Beri því ekki að greiða þeim frekari bætur, hvorki á grundvelli 56. gr. höfundalaga eða á öðrum grundvelli.

Stefnda kveður þá, sem aðild eigi að Myndstefi, séu þeir, sem séu félagsmenn ákveðinna listamannafélaga, auk einstaklinga eða stofnana, sem njóti höfundaréttar og sæki sérstaklega um aðild. Þeir, sem njóti höfundaréttar eigi því möguleika á aðild. Einstaklingsaðild sé hægt að sækja um og verði umsóknin tekin fyrir á stjórnarfundum Myndstefs til samþykktar eða synjunar. Stefnendur í málinu séu ekki félagsmenn. Skilmálar gjaldskrár Myndstefs gildi um þá, sem aðild eigi að samtökunum og sé ætlað að vernda hagsmuni þeirra. Meiri hluti þeirra séu listamenn. Þeir aðilar, sem ekki eigi aðild að samtökunum, búi ekki yfir þeirri þekkingu og menntun, sem félagsmenn Myndstefs búi yfir, og því væri afar órökrétt, að félagsmenn Myndstefs nytu lakari réttarverndar en þeir, sem ekki uppfylli skilyrði 2. mgr. 1. gr. höfundalaga og standi utan við félagið, líkt og hér eigi við. Auk þessa hafi stefnendur sjálfir byggt á því í stefnu, að miða skuli við gjaldskrá Myndstefs og byggir stefnda á því, að þar sé um bindandi málflutningsyfirlýsingu af hálfu stefnenda að ræða. Leiði hún til þess, að miða verði við gjaldskrána í máli þessu og þær reglur, sem hún mæli fyrir um, þ.á.m. um þóknun, sem greiða skuli þegar mynd sé notuð í leyfisleysi, sbr. 1. mgr. 49. gr. höfundalaga. Hafnar stefnda því alfarið kröfu stefnenda.

Telji stefnendur að miða verði við gjaldskrá Myndstefs, geti þeir ekki valið og hafnað þeim ákvæðum, sem henti málstað þeirra. Þá beri að miða við reglur gjaldskrárinnar í heild sinni. Samkvæmt því hafi réttmæt krafa þeirra því numið samtals 35.068 krónum og hafi stefnda því uppfyllt greiðsluskyldu sína og vel það.

Verði hins vegar talið, að stefnendur eigi rétt á bótum umfram framangreint, þar sem stefnda hafi brotið gegn 1. mgr. 49. gr. höfundalaga eða á öðrum grundvelli, telur stefnda ljóst, að bætur geti aldrei orðið þær, sem stefnendur krefjist. Eins og áður segi, fjalli málið um notkun á myndum, sem þegar hafi verið að finna á internetinu, á opnu vefsvæði stefnenda, www.sjonarholl.is. Þá hafi það sérstaklega verið tilgreint undir myndunum, hvaðan þær hafi verið teknar, þ.e. af umræddu vefsvæði.

Hvort stefnenda krefjist í málinu bóta að heildarfjárhæð 180.000 krónur. Til frádráttar komi þá a.m.k. 25.000 krónur, sem stefnda hafi í hvoru tilviki þegar greitt inn á höfuðstól bóta. Við mat á fjárhæð bóta beri að hafa hliðsjón af dómaframkvæmd og fordæmum. Í sambærilegum málum hafi bætur verið ákvarðaðar 180.000 krónur og svo virðist sem stefnendur hafi ákveðið fjárhæð bótakröfu út frá því. Í þeim málum, sem vísað sé til, hafi verið um að ræða persónulegar myndir viðkomandi aðila úr einkasafni, sem geymdar hafi verið inni á læstum vefsvæðum á netinu. Hafi verið talið sannað, að blaðamaður hafi tekið myndirnar ófrjálsri hendi af umræddum vefsvæðum og birt þær opinberlega og tilgreint ranglega, að þær væru „úr safni.“

Í máli því, sem hér sé til úrlausnar, hafi engin slík saknæm háttsemi verið til staðar. Hér hafi einfaldlega verið um að ræða einfaldar andlitsmyndir af stefnendum, sem hafi verið aðgengilegar á opnu vefsvæði, www.sjonarholl.is, auk þess sem blaðamaður hafi sérstaklega tekið fram undir myndunum, að þær væru fengnar þaðan. Verði því ekki séð, að stefnendur hafi orðið fyrir neinu tjóni við þá háttsemi. Þegar mat á fjártjóni fari fram, hljóti að skipta höfuðmáli, að stefnendur hefðu þegar birt myndirnar sjálfviljug á netinu, auk þess sem um einfaldar andlitsmyndir sé að ræða, en ekki t.d. myndir af fólki á skemmtistað eða „viðkvæmar“ einkamyndir, sem aðilar geymdu vistað á læstu vefsvæði í þeim tilgangi, að þær yrðu ekki birtar almenningi. Þær myndir, sem birtar hafi verið af stefnendum, sé að finna á opinni heimasíðu undir valmöguleikanum „um okkur.“ Eðli myndanna sé allt annað en í fyrirliggjandi dómaframkvæmd, þar sem þær séu settar á netið í þeim tilgangi að kynna, hverjir stefnendur séu. Séu þær því langt frá því að innihalda persónulegt eða viðkvæmt efni. Beri það með sér, að varla geti verið um mikið tjón að ræða.

Ljóst sé, að myndirnar hafi átt fullt erindi til almennings og hafi verið eðlilegt, að þær fylgdu þeirri umfjöllun, sem um hafi verið að ræða og varðaði vefsíðu og starfsemi stefnenda. Eins og áður segi, hafi ekki verið sýnt fram á, að umfjöllunin sem slík hafi verið ærumeiðandi og komi sú spurning ekki til álita í málinu, enda hafi enginn rökstuðningur fyrir slíkum staðhæfingum komið fram í stefnu. Beri því að leggja til grundvallar, að efni greinarinnar hafi ekki verið ærumeiðandi á neinn hátt og að eðlilegt hafi verið að birta myndir af þeim, sem fjallað hafi verið um. Það sé gríðarlega mikilvægt að skilja hér á milli málsatvika í máli þessu annars vegar og fyrirliggjandi dómaframkvæmd hins vegar, þar sem bætur hafi að minnsta kosti að hluta til verið ákvarðaðar á grundvelli þess, að í birtingu myndanna hafi falist ákveðin ærumeiðing í sjálfu sér. Þannig hafi annars vegar verið dæmd þóknun á grundvelli 1. mgr. 49. gr. höfundalaga, en að framan sé rakið, hver slík þóknun skyldi vera í málinu, og hins vegar skaðabætur vegna þeirrar saknæmu og ólögmætu háttsemi blaðamannsins að fara inn á læst vefsvæði tiltekins einstaklings og taka þaðan og velja tilteknar viðkvæmar einkamyndir og birta opinberlega. Þar sem þetta eigi ekki við í þessu máli, beri að hafna því, að stefnendur eigi rétt á skaðabótum á grundvelli 56. gr. höfundalaga eða nokkurs konar bótum umfram þá þóknun, sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. 49. gr. höfundalaga og gjaldskrá Myndstefs.

Þá mótmælir stefnda dráttarvaxtakröfu stefnenda sem og upphafstíma dráttarvaxta.

Um lagarök vísar stefnda til 2.-4. gr., 1. mgr. 49. gr. og 56. gr. höfundalaga nr. 72/1973 til stuðnings sýknukröfu sinni. Kröfu um málskostnað styður stefnda við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þau fordæmi, sem stefnda vísar til, eru dómar Héraðsdóms Reykjavíkur í málum E-2042/2008 frá 27. nóvember 2008 og E-6726/2008 frá 13. mars 2009. 

 

IV

Stefnendur höfða mál þetta til heimtu skaðabóta vegna ólöglegar myndbirtingar í helgarblaði DV 16.-18. júlí 2010, en þeir eru höfundar að myndunum. Stefnda telur sig þegar hafa greitt fyrir notkun myndanna að fullu.

Myndirnar, sem um ræðir eru andlitsmyndir af hvoru stefnenda, sem hitt tók, og voru birtar í tengslum við umfjöllun stefnda um vefsíðu á vegum stefnenda, þar sem kynnt eru ýmis meðferðarúrræði í Mexíkó, sem virðast hafa komið sjúklingum með fjölbreytta sjúkdóma að gagni. Í umfjöllun stefnda, sem myndirnar voru birtar við, er gefið í skyn með fyrirsögn greinarinnar, að þar sé fjallað um fólk, sem sé að selja lækningu við MND og krabbameini, án þess að finna megi slíkri umfjöllun stað í greininni. Var umfjöllun stefnda kærð til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands, sem komst að því í úrskurði sínum 2/2010-2011 frá 9. nóvember 2010 að fyrirsagnir stefnda ættu sér ekki stoð í umfjölluninni sjálfri, hvað MND-sjúkdóminn varðaði, en einungis sá þáttur var kærður, og því hefði stefnda brotið gegn siðareglum Blaðamannafélagsins. Þá taldi siðanefndin brotið ámælisvert.

Af hálfu stefnenda er því haldið fram, að um sé að ræða höfundarverk stefnenda, sem falli undir 2. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 sem ljósmyndalist og njóti því verndar samkvæmt I. kafla höfundalaga nr. 73/1972. Er því mótmælt af hálfu stefnda.

Myndirnar eru, eins og áður greinir, einfaldar andlitsmyndir, sem nýttar eru á vefsvæðinu www.sjonarholl.is til að kynna þá, sem standa að Gleraugnaversluninni Sjónarhóli ehf. Getur dómurinn ekki fallist á, að umræddar ljósmyndir teljist listaverk í skilningi 2. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972, enda þótt fallist sé á, að stefnendur séu höfundar verkanna. Til þess þykja þær skorta bæði listræna sköpun og frumleika. Njóta þær því ekki verndar samkvæmt 2.-4. gr. laganna. Í 1. mgr. 49. gr. laganna er hins vegar að finna ákvæði, sem veitir ljósmyndum, sem ekki njóta verndar laganna sem listaverk samkvæmt 2. mgr. 1. gr., en þar segir, að eftirgerð slíkra ljósmynda sé óheimil án samþykkis ljósmyndara eða þess aðila, sem rétt hans hefur hlotið. Þá segir, að enn fremur sé óheimilt að birta slíka mynd án samþykkis rétthafa. Sé slík mynd birt opinberlega í atvinnuskyni eða ávinnings, eigi ljósmyndarinn eða síðari rétthafi kröfu til þóknunar. Eiga ákvæði 1. mgr. 49. gr. laganna við um þær ljósmyndir, sem um ræðir í málinu, og njóta stefnendur málsins réttarverndar samkvæmt því. Kemur lögjöfnun frá ákvæðum 4. gr. laganna um verkin ekki til álita hér.

Í málinu er ekki deilt um birtingu myndanna eða það, að stefnda hafi ekki fengið samþykki stefnenda fyrir birtingu þeirra, heldur um fjárhæð og hvernig ákvarða skuli þá þóknun, sem greiða skuli stefnendum fyrir myndbirtinguna, fyrir hversu margar birtingar myndanna skuli greiða og hvort stefnendur eigi rétt á miskabótum úr hendi stefnda vegna birtingar myndanna. Stefnda telur sig þegar hafa greitt hæfilega þóknun fyrir notkun myndanna og hafnar kröfu stefnenda um bætur fyrir miska og telur lagaskilyrði fyrir slíkri kröfu ekki uppfyllt.

Í 1. mgr. 49. gr. höfundalaga er getið réttar ljósmyndara eða þess aðila, sem rétt hans hefur hlotið, til þóknunar vegna eftirgerðar ljósmyndar, sem uppfyllir ekki skilyrði listaverks samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna, en í lögunum er ekki að finna upplýsingar um það, hvernig sú þóknun skuli fundin út. Í málinu hefur verið lögð fram gjaldskrá Myndstefs, samtaka höfundaréttarhafa, sem hefur þann tilgang að fara með höfundarétt félagsmanna vegna opinberra birtinga og sýninga á verkum þeirra og stuðla að almennri höfundaréttargæslu á því sviði, s.s. með innheimtu þóknunar fyrir notkun á höfundarétti félagsmanna og koma þeim til skila til þeirra. Í framlagðri gjaldskrá segir í almennum skilmálum, að til þess að fá notkunarleyfi á vernduðum myndverkum þurfi að senda samtökunum beiðni þar um ásamt nánar tilgreindum upplýsingum, s.s. um tilgang birtingarinnar og upplagsstærð útgáfu. Þá segir, að þóknun samkvæmt gjaldskránni tryggi rétt til að nota umsamið myndverk í samræmi við skilmála. Enn fremur er þar tekið fram, að gjaldskráin sé viðmiðunargjaldskrá, sem heimilt sé að víkja frá til hækkunar eða lækkunar. Um óheimila notkun á vernduðum myndverkum segir, að þegar skilmálar gjaldskrárinnar séu ekki virtir, geti Myndstef fyrir hönd viðkomandi höfundar krafist bóta í formi hækkunar á gjaldskrá allt að 100% og um endurtekin not af sama myndverki segir: „Ekki skal borga aukalega fyrir not af einni smámynd (thumbnail) sem vísar til stærra afrits í sömu útgáfu.“ Í gjaldskránni kemur fram, að þóknun fyrir birtingu myndar, sem nemur allt að 1/8 úr síðu í dagblaði, vikublaði, tímariti eða fagblaði, sem hefur minna upplag en 10.000 en eintök nemur 8.676 krónur, en sambærileg þóknun fyrir birtingu í stærra upplagi, allt að 50.000 eintökum nemur 10.845 krónur.

Stefnda greiddi hvoru stefnenda um sig 8.676 krónur í byrjun júní til lúkningar málinu í samræmi við gjaldskrá Myndstefs, og 16.324 krónur 22. júní 2011 eða degi áður en mál þetta var höfðað og þingfest. Telur stefnda sig þegar hafa greitt umfram skyldu. Þá bendir stefnda á, að gjaldskrá Myndstefs eigi við um þá, sem hafi atvinnu af því að taka ljósmyndir og eigi því rétt á hærri bótum af óheimilli notkun, en þeir, sem ekki hafi af því atvinnu.

Gjaldskrá Myndstefs verður ekki lögð til grundvallar í máli þessu. Stefnendur eru ekki aðilar að samtökunum og gera heldur ekki kröfu á grundvelli gjaldskrárinnar, enda þótt þeir hafi hana til hliðsjónar við kröfugerð sína. Þá verður ekki fallist á, að gjaldskrá Myndstefs kveði á um hærri bætur en stefnendur eigi rétt á, þar sem hún taki til atvinnuljósmyndara. Í gjaldskránni kemur fram, að þar sé um viðmiðunargjaldskrá, sem heimilt sé að víkja frá bæði til hækkunar eða lækkunar. Verður því ekkert ráðið um hámarks- eða lágmarksfjárhæð þóknunar eða nokkurn samanburð í þeim efnum. Má auk þess gera ráð fyrir því, að verk atvinnuljósmyndara geti fallið undir 2. mgr. 1. gr. höfundalaga og þar með notið ríkrar réttarverndar, en þegar hefur verið lagt til grundvallar, að verk stefnenda njóti réttarverndar samkvæmt 1. mgr. 49. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Ákvæði gjaldskrárinnar, sem kæmu þar að auki til álita í málinu, eiga aðeins við, þegar um aðildarfélaga Myndstefs væri að ræða, sem gætu þar með gert ráð fyrir, að til slíkra aðstæðna gæti komið, að myndir þeirra yrðu birtar í heimildarleysi, eins og skilmálar gjaldskrárinnar gera ráð fyrir. Á það ekki við í fyrirliggjandi máli. Á hinn bóginn verður gjaldskráin og almennir skilmálar hennar hafðir til hliðsjónar við ákvörðun þóknunar, enda getur þar verið að finna vísbendingar um það, hvernig þessum málum er almennt háttað.

Bótakrafa stefnenda er vegna fjártjóns og miska og byggist á 56. gr. höfundaga og 49. gr. eftir atvikum. Í málatilbúnaði stefnenda er lagt til grundvallar, að þeir eigi rétt á bótum vegna óheimillar myndbirtingar, sem nemur þrefaldri grunnfjárhæð gjaldskrárinnar, 10.845 krónur, sem miða við upplag útgáfu, sem er 10.000 eintök eða fleiri, en í málinu er upplýst, að upplag útgáfu helgarblaðs DV 16.-18. júlí 2010 var 10.000 eintök. Þannig nemi krafan 32.535 krónum fyrir hverja mynd, en stefnendur halda því fram, að hvor mynd hafi birst tvisvar í blaðinu. Er því mótmælt af hálfu stefnda.

Í almennum skilmálum gjaldskrárinnar segir, þegar um endurtekin not af sama myndverki sé að ræða, að þá skuli ekki borga aukalega fyrir not af einni smámynd, sem vísi til stærra afrits í sömu útgáfu. Með hliðsjón af því verður fallist á það með stefnda, að ekki sé um endurtekin not að ræða, sem greiða beri þóknun fyrir, heldur sé um að ræða smámyndir, sem vísi beint til þeirra stærri, sem birtar eru á sömu opnu.

Í 1. mgr. 56. gr. höfundalaganna segir, að sá, sem brotið hafi gegn lögunum af ásetningi eða gáleysi, skuli greiða bætur vegna brotsins. Þótt brotið sé framið í góðri trú, sé heimilt að ákveða þeim, sem orðið hafi fyrir tjóni bætur úr hendi hins brotlega. Í 2. mgr. sömu greinar segir, að við ákvörðun bóta samkvæmt 1. mgr. skuli ekki eingöngu miða við það beina fjártjón, sem höfundur eða annar rétthafi hafi orðið fyrir, heldur beri auk þess að líta til þess fjárhagslega hagnaðar, sem hinn brotlegi hafi haft af brotinu. Verði ekki færðar sönnur á tjón brotaþola eða hagnað hins brotlega, skuli ákveða bætur að álitum hverju sinni.

Við ákvörðun þóknunar samkvæmt 1. mgr. 49. gr. höfundalaga, sem teljast vera skaðabætur stefnenda vegna fjártjóns, verður ekki litið hjá því, að myndirnar voru teknar af vefsvæði stefnenda, www.sjonarholl.is, og birtar í DV án heimildar og án nokkurs samhengis við það efni, sem finna má á því vefsvæði. Hefur ekki verið sýnt fram í málinu að með nokkru móti hafi verið reynt að leita samþykkis stefnenda fyrir myndbirtingunni. Þá liggur fyrir, að myndir stefnenda voru birtar í atvinnu- og ávinningsskyni, en ekkert liggur fyrir um hagnað stefnda vegna birtingarinnar. Verða bæturnar því metnar að álitum að teknu tilliti til þeirra fjárhæða, sem stefnda hefur þegar greitt stefnendum.

Stefnendur gera enn fremur kröfu um miskabætur úr hendi stefnda. Er því hafnað af hálfu stefnda, að stefnendur geti haldið uppi slíkri kröfu, þar sem áskilnaði laga sé ekki fullnægt, svo verða megi við kröfunni, enda séu þeim tryggðar fullar bætur með þóknun. Þá eigi ákvæði höfundalaga um miskabætur ekki við um slík verk og um ræði í máli þessu.

Í 2. mgr. 56. gr. segir, að dæma megi höfundi eða öðrum rétthafa bætur fyrir miska vegna brots á lögunum. Er ákvæðið ekki bundið við höfunda verka, sem njóta verndar samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna, en þegar liggur fyrir brot stefnda gegn ákvæðum 49. gr. laganna.

Líta verður til þess, að stefnda sótti, eins og áður greinir, myndirnar á vefsvæðið www.sjonarholl.is, og birti án heimildar í DV í atvinnu- og ávinningsskyni. Var framsetning myndanna ekki í nokkru samhengi við umfjöllun á því vefsvæði, enda þótt þess hafi verið getið, að myndirnar hafi verið sóttar þangað. Þá voru fyrirsagnir blaðsins misvísandi um innihald efnisumfjöllunarinnar, sem myndirnar voru settar í samhengi við og umfjöllunin öll stefnendum ekki þóknanleg. Var framsetning fyrirsagnanna jafnframt staðfest sem brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands og talið ámælisvert. Verður þetta ekki sundur slitið. Þykja stefnendur því eiga rétt á bótum fyrir miska vegna brota stefnda á lögunum og lögvörðum réttindum þeirra, og verða þær einnig metnar að álitum.

Þykir sýnt, að stefnda hafi brotið gegn hagsmunum stefnenda með þeim myndbirtingum, sem áður greinir. Verða bætur til handa stefnenda vegna fjártjóns og miska metnar einu lagi og að álitum. Verður því ekki greint milli fjárhæðar bóta vegna fjártjóns, þóknunar, sem stefnda kveðst þegar hafa greitt að fullu, og bóta fyrir miska. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 150.000 krónur til handa hvoru þeirra. Skulu þær bera dráttarvexti eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði, en frá þeim skal draga innborgun í samræmi við endanlegar dómkröfur stefnenda. Við ákvörðun bóta er höfð hliðsjón af innborgun stefnda fyrir málshöfðun.

Stefnendur gera þá kröfu, að forsendur og niðurstaða dómsins verði birtar í næsta tölublaði DV eftir að dómur gengur í málinu í samræmi við 1. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt og 59. gr. c. höfundalaga. Af hálfu stefnda er því mótmælt.

Ákvæði 22. gr. laga nr. 57/1956 voru felld úr gildi með 65. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem tóku gildi 21. apríl 2011. Koma þau ákvæði því ekki til álita í málinu. Í 1. mgr. 59. gr. c. höfundalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 93/2010, segir, að í dómi, þar sem kveðið sé á um brot á lögunum eða ráðstafanir samkvæmt 55. gr. laganna, megi að beiðni brotaþola mæla fyrir um birtingu dómsins að hluta eða í heild. Skuli birtingin fara fram með þeim hætti og í þeim mæli, sem sanngjarnt megi teljast. Í 2. mgr. segir svo, að hinn brotlegi skuli annast og kosta birtinguna.

Í athugasemdum við 13. gr. laga nr. 93/2010, sem festi í lög umrætt ákvæði, segir, að ákvæði 1. mgr. taki mið af 15. gr. tilskipunar Evrópuþingsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB, þar sem sé að finna heimild til að mæla fyrir um birtingu ákvarðana á því réttarsviði. Birting ákvarðana sé talin hafa forvarnargildi gagnvart öðrum hugsanlegum brotamönnum og gegni hlutverki í vitundarvakningu almennings um virðingu fyrir hugverkaréttindum. Lagt sé til, að ákvæðið nái jafnt til áfellisdóma í einkamálum sem sakamálum, svo og til dóma þar, sem kveðið sé á um ráðstafanir samkvæmt 55. gr. höfundalaga. Ekki sé lagt til, að ákvæðið nái til úrlausna sýslumanns, t.d. um lögbann, eða til annarra úrlausna dómara en eiginlegra dóma.

Enda þótt tekið verði undir þau sjónarmið stefnda, að engin sérstök ástæða sé fyrir birtingu dómsins, þá verður að telja það mikilvægt hlutverk fjölmiðla að upplýsa almenning um dóma og réttarstöðu þeirra almennt, ekki síst þegar fjölmiðlar misstíga sig og brjóta gegn réttindum borgaranna. Þá er fallist á, að birting forsendna og niðurstöðu dómsins sé í samræmi við tilgang ákvæðis 59. gr. c. höfundalaga, enda getur birtingin haft nokkuð forvarnargildi gagnvart öðrum hugsanlegum brotamönnum og getur gegnt hlutverki í vitundarvakningu almennings um virðingu fyrir hugverkaréttindum almennt, enda þótt í þessu máli sé aðeins um að ræða óheimila notkun ljósmynda, sem njóta verndar 1. mgr. 49. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Verður því fallist á, að stefnda verði gert að birta forsendur og niðurstöður dóms þessa í DV, en ekki þykir ástæða til að veita stefnda skemmri frest til þess en einn mánuð frá uppkvaðningu dómsins.

 Í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda dæmt til að greiða stefnendum málskostnað, sem þykir hæfilega ákvarðaður 160.000 krónur til handa hvoru stefnenda, og hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnenda til þess að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun og áður greindrar innborgunar á þóknun lögmanns stefnenda.

Andmæli stefnda við dráttarvaxtakröfu og upphafsdegi dráttarvaxta eru órökstudd.

Við uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnenda flutti málið Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, hrl., en af hálfu stefnda flutti máli Ólafur Örn Svansson, hrl.

Dóm þennan kveður upp Hrannar Már S. Hafberg, settur héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, DV ehf., greiði stefnendum, Ólafi Einarssyni og Björgu Marteinsdóttur, 150.000 krónur hvoru um sig, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júlí 2011 til greiðsludags, allt að frádregnum 16.324 krónum, sem greiddar voru hvoru þeirra 22. júní 2011.

Stefnda, DV ehf., birti forsendur og niðurstöðu dóms þessa í dagblaðinu DV innan mánuðar frá uppkvaðningu dómsins.

Stefnda greiði hvoru stefnenda 160.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Hrannar Már S. Hafberg