• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands föstudaginn 5. mars 2010 í máli nr. E-345/2007:

Rannveig Guðmundsdóttir

Guðrún Guðmundsdóttir

Emil Björnsson

Helgi Þórhallsson

Grímur Björnsson

Halldór Gunnarsson

Ólafur Guðmundsson

Gunnar Örn Gunnarsson

Sigurjón Gunnarsson

Árni Gunnarsson

Rannveig Gunnarsdóttir

Borghildur Guðmundsdóttir

Björn Guðmundsson

Heiðdís B. Valdimarsdóttir

Íris Björnsdóttir

Þórarinn Gunnarsson og

Kristján A. Flygenring

(Friðbjörn Eiríkur Garðarsson hdl.)

gegn

Íslenska ríkinu

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hdl.)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. janúar 2010, var höfðað 17. desember 2007.

            Stefnendur eru Rannveig Guðmundsdóttir, Hálsaseli 50, Reykjavík, Guðrún Guðmundsdóttir, Flókagötu 60, Reykjavík, Emil Björnsson, Ásbúðartröð 13, Hafnarfirði, Helgi Þórhallsson, Stafnaseli 5, Reykjavík, Grímur Björnsson, Skjólbraut 22, Kópavogi, Halldór Gunnarsson, Svíþjóð, Ólafur Guðmundsson, Grenimel 49, Reykjavík, Gunnar Örn Gunnarsson, Lindarbraut 18, Seltjarnarnesi, Sigurjón Gunnarsson, Digranesvegi 22, Kópavogi, Árni Gunnarsson, Háaleitisbraut 35, Reykjavík, Rannveig Gunnarsdóttir, Kjartansgötu 8, Reykjavík, Borghildur Guðmundsdóttir, Bretlandi, Björn Guðmundsson, Teigagerði 2, Reykjavík, Heiðdís B. Valdimarsdóttir, Bandaríkjunum, Íris Björnsdóttir, Lómasölum 10, Kópavogi, Þórarinn Gunnarsson, Háleitisbraut 32, Reykjavík og  Kristján A. Flygenring, Reykjavíkurvegi 39, Hafnarfirði.

            Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli, Reykjavík.

            Dómkröfur stefnenda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005: Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur og Skeggjastaðahreppur, frá 29. maí 2007, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan neðangreindra marka:

Frá þeim punkti í Litlu-Kverká þar sem 15 km eru frá nyrsta odda Kverkártungu, sbr. punkt 6 í kröfugerð íslenska ríkisins, er dregin lína suðaustur yfir Kverkártungu og í Miðfjarðará, nánar tiltekið þangað sem 15 km eru norður til endimarka Kverkártungu, sbr. punkt 5 í kröfugerð íslenska ríkisins. Síðan er farið með Miðfjarðará inn að Kistufellslæk er í hana rennur hinum megin og þaðan beint í Heiðarvatn við Heiðarhól. Þaðan er farið í Litlu-Kverkárdrög og eftir það afmarkar Litla-Kverká landið þar til komið er að punkti þeim í Litlu-Kverká sem fyrstur var nefndur í lýsingu þessari.

            Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.

            Þá krefjast stefnendur málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

            Stefndi krefst sýknu. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar en til vara að hver aðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

            Farið var á vettvang 15. september sl.

            Landsvæði það sem deilt er um í máli þessu, er að hálfu í fyrrum Skeggjastaðahreppi en að hálfu í fyrrum Þórshafnarhreppi en báðir hrepparnir tilheyra nú Langanesbyggð en síðastnefnt sveitarfélag fellur nú allt undir umdæmi Héraðsdóms Norðurlands-eystra, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 473/2009, sem sett er með heimild í 42. gr. dómstólalaga nr. 15/1998 og öðlaðist gildi við birtingu 25. maí 2009. Mál þetta var höfðað áður en framangreint reglugerðarákvæði tók gildi og áður en framangreind sameining sveitarfélaga var ráðin, en telja verður að það landsvæði sem áður var Skeggjastaðahreppur hafi  fallið innan umdæmis Héraðsdóms Austurlands fram að þeim tíma að fyrrgreind reglugerð tók gildi. Var málinu því réttilega stefnt fyrir þann dómstól og verður réttilega lokið þar, þrátt fyrir framangreinda breytingu á umdæmismörkum.

 

I

            Í stefnu kemur fram að jörðin Kverkártunga hafi verið stofnuð sem nýbýli árið 1850 á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar frá 15. apríl 1776. Búið hafi verið á jörðinni til ársins 1937 en hún hafi verið í eyði síðan.

            Samkvæmt þinglýsingarvottorði sem fyrir liggur í málinu eiga stefnendur jörðina í óskiptri sameign í þar nánar tilgreindum eignarhlutföllum.

 

II

            Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta með áorðnum breytingum skal óbyggðanefnd kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi  innan þjóðlendna. Nefndin ákvað 1. mars 2004 að taka til meðferðar landsvæði á norðausturlandi, sem var nánar lýst svo að það afmarkaðist að vestanverðu af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum allt frá ósi hennar í Öxarfirði að aðalupptökum í Dyngjujökli. Þaðan væri fylgt jaðri jökulsins að Kverkfjöllum í Hveradal og þaðan dregin lína áfram til suðurs inn á Vatnajökul, en við afmörkun svæðisins þar væri fylgt markalínum, sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hafi notað við vinnu sína. Framangreindum vesturmörkum breytti nefndin síðar að því leyti að svokölluð Krepputunga austan Jökulsár á Fjöllum og vestan Kreppu var skilin undan svæðinu, en þessi ákvörðun tók jafnframt til alls lands milli Kreppu og Kverkár. Austurmörk svæðisins fylgdu farvegi Lagarfljóts frá ósum á Héraðssandi þangað sem Gilsá fellur í það, en þeirri á síðan fylgt og austurmörkum Fljótsdalshrepps við Austur-Hérað (Fljótsdalshérað eftir 1. nóvember 2004), Djúpavogshrepp og Sveitarfélagið Hornafjörð. Afmörkun til austurs endaði í Geldingafelli þaðan sem lína var dregin til suðvesturs inn á Vatnajökul. Að norðan afmarkaðist svæðið af hafi. Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 11. nóvember 2004, sem vörðuðu allt svæðið. Nefndin birti kröfugerð stefnda 28. desember 2004, 7. janúar 2005 og 9. sama mánaðar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og skoraði á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem féll innan kröfusvæðis stefnda, að lýsa kröfum sínum fyrir 31. mars 2005. Sá frestur var framlengdur til maí sama ár. Fjölmargar kröfur og athugasemdir bárust nefndinni. Í júlí 2005 kynnti óbyggðanefnd þá ákvörðun sína að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Var eitt þeirra nr. 4/2005 um þjóðlendur í Svalbarðshreppi, Þórshafnarhreppi og Skeggjastaðahreppi. Tók málið meðal annars til landsvæðis sem stefnendur, eigendur jarðarinnar Kverkártungu í fyrrum Skeggjastaðahreppi, telja til eignarlands síns.          Óbyggðanefnd kvað upp úrskurð í málinu 29. maí 2007 og varð niðurstaða nefndarinnar að fallist var á kröfur stefnda að hluta. Að því er varðar land í fyrrum Skeggjastaðahreppi varð niðurstaða nefndarinnar sú að þjóðlenda væri á fjórum nánar tilteknum landsvæðum, sem eigendur jarða í hreppnum hefðu gert tilkall til beins eignarréttar yfir. Eru lönd þessara jarða að meginstefnu aflöng og hafa stefnuna norður/suður og eru þær taldar frá vestri til austurs: Kverkártunga, Miðfjörður, Gunnarsstaðir og Þorvaldsstaðir. Norðurmörk jarðanna eru við sjó, utan Kverkártungu, en norðurmörk þeirrar jarðar eru þar sem Litla-Kverká rennur í Miðfjarðará.

            Í tilvikum framangreindra jarða tók óbyggðanefnd kröfur stefnda til greina að hluta með því að draga mörk þjóðlendu og eignarlanda nokkru sunnar en stefndi hafði krafist, utan að þjóðlendumörk í Kverkártungu voru dregin í samræmi við kröfu stefnda. Með þessu var hafnað kröfum landeigenda að hluta og land, sem þeir höfðu gert kröfu um beinan eignarrétt yfir, talið þjóðlenda. Í öllum tilvikum var landið þó talið í afréttareign viðkomandi jarðar.

            Í máli þessu er til meðferðar ágreiningur eigenda Kverkártungu við íslenska ríkið um gildi framangreinds úrskurðar að því er eignarréttartilkall þeirra varðar, en einnig eru samhliða til meðferðar sambærileg mál hér fyrir dómi er varða jarðirnar Miðfjörð og Þorvaldsstaði. Þá liggur fyrir dómur Hæstaréttar 19. nóvember 2009 í máli nr. 69/2009 um samskonar ágreining eigenda Gunnarsstaða og stefnda. Einnig er rétt að geta þess að suðaustur hornmark þess svæðis sem hér er deilt um er sameiginlegt með ágreiningssvæði sem til umfjöllunar var í máli óbyggðanefndar nr. 3/2005 og varðar deilu stefnda og eigenda jarðarinnar Þorvaldsstaða í Vopnafirði um eignarréttarlega stöðu lands og dæmt var um í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2009 í máli nr. E-1172/2008.

 

III

            Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar um jörðina Kverkártungu er fjallað um þann hluta þjóðlendukröfusvæðis stefnda sem einnig hafi verið gerð krafa til sem eignarlands þeirrar jarðar, sbr. landamerkjabréf frá 8. maí 1884 sem þinglýst hafi verið 16. júlí 1885.

            Greinir þar að íslenska ríkið hafi dregið kröfulínu sína frá Miðfjarðará þar sem Litlilækur renni í ána við Kverkártungu (punktur 4). Frá þessum punkti sé haldið upp Miðfjarðará þar til komið sé 15 kílómetra frá nyrsta odda Kverkártungu og verði það punktur 5. Frá þessum punkti sé haldið vestur yfir Kverkártungu og á þann stað í Kverká (punktur 6), þar sem 15 kílómetrar séu norður til endimarka Kverkártungunnar. Frá þessum punkti sé haldið niður eftir Litlu-Kverká og allt þar til sveitarfélagamörk komi að ánni (punktur 7). Á móti hafi gagnaðilar, þinglýstir eigendur Kverkártungu, lýst kröfu um beinan eignarrétt að þeim hluta þess landsvæðis sem þeir telja að liggi innan merkja jarðarinnar samkvæmt landamerkjabréfi hennar.

            Að Kverkártungu liggi til vesturs Hallgilsstaðir og Miðfjörður til austurs. Til suðurs sé landsvæði sem Þórshafnarhreppur hafi gert tilkall til. Landsvæðið sem um ræði sé háslétta í 400 – 500  metra hæð yfir sjávarmáli og hafi leguna norður – suður. Svæðið sé lítt gróið þar sem það liggi hæst en grónara þegar neðar dragi.

            Þess skuli getið að talið sé að við landnám hafi land verið betur gróið og gróður náð lengra inn á heiðar en nú sé, eins og fram komi í greinargerð náttúrufræðings sem liggi fyrir í málinu.

            Af hálfu íslenska ríkisins sé á því byggt að grundvöllurinn að beinum eignarrétti að landi hérlendis hafi verið lagður á landnámsöld við nám. Eftir það hafi lönd undirorpin beinum eignarrétti aldrei getað aukist heldur hafi eigendalaus svæði orðið fleiri með tímanum. Kverkártungu sé ekki getið í jarðabókum 1762 eða 1804 en komi fram í neðanmálsgrein í jarðabók 1847 sem nýbýli. Þótt ekki liggi fyrir byggingabréf virðist hafa verið gengið út frá því af yfirvöldum að formlegt nýbýli hafi verið stofnað og af því sé ljóst að útmælt land býlisins milli Miðfjarðarár og Kverkár sé ekki þjóðlenda heldur eignarland. Ekki eigi að vera óvissa um hversu langt til heiðar þessi beini eignarréttur nái því útmælt land hafi ekki náð lengra til heiða en grös grói og heimildir greini frá því að það sé í 15 kílómetra fjarlægð frá tunguoddinum.

            Af hálfu gagnaðila sé byggt á því að land jarðarinnar eins og því sé lýst í landamerkjabréfum hafi verið innan landnáms Finna sem numið hafi Finnafjörð og Miðfjörð. Þá sé því mótmælt að óljósar lýsingar Landnámu verði til þess að frumstofnun eignarréttar yfir landi innan landamerkja jarðarinnar verði dregin í efa. Elsta skjallega heimildin um landamerki Kverkártungu sé útmælingargerð frá árinu 1850 en þar segi að hið útmælda land sé allt land milli Miðfjarðarár og Kverkár. Enn fremur segi í útmælingargerðinni að milli áðurgreindra ummerkja verði að útleggja land allt svo ekkert verði afgangs. Vísað sé til þess að frá öndverðu hafi lög kveðið á um merkjagerð. Það hafi fyrst verið við setningu landamerkjalaga árið 1882 og síðar árið 1919 að stjórnvöld hafi haft frumkvæði að því að gengið væri frá landamerkjum, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau ef hann hafi verið uppi. Þegar haft sé í huga að samkvæmt landamerkjalögum sé opinberum aðilum falið að ganga úr skugga um að lýsingar landamerkjabréfa séu réttar samkvæmt formi sínu og efni styðji það meginreglu íslensks réttar að athugasemdalausri landamerkjalýsingu jarðar verði ekki hnekkt nema óyggjandi sönnunargögn liggi því til grundvallar. Sönnunarbyrðin um inntak eignarréttar á landi jarðarinnar hvíli þannig á stefnda. Þá telji stefnendur að í kröfum stefnda felist ásælni til beinna eignarréttinda þeirra án þess að skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar séu uppfyllt  og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu stefnda. Stefnendur hafi í gegn um tíðina haft réttmætar ástæður til að ætla að land innan landamerkja sé undirorpið fullkomnum eignarrétti þeirra enda hafi handhafar ríkisvaldsins margsinnis, bæði beint og óbeint, viðurkennt fullkominn eignarrétt þeirra innan lýstra merkja. Þá sé vísað til hefðar.

            Í niðurstöðukafla óbyggðanefndar kemur fram að Kverkártunga sé eitt hinna svokölluðu heiðarbýla  og hafi fyrst verið byggt upp einhvern tíma á árunum 1817 – 1835, þ.e. á þeim tíma sem Páll Melsteð hafi verið sýslumaður í N-Múlasýslu. Útvísunargerð á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar frá 1776 hafi farið fram 17. júní 1850, í almenningi, eins og það sé beinlínis orðað í útvísunargerðinni. Í málinu liggi ekki fyrir byggingabréf útgefið af amtmanni fyrir nýbýlinu Kverkártungu. Þá verði ekki ráðið af öðrum gögnum málsins að slíkt bréf hafi verið gefið út. Í þeim efnum sé ekki við annað að styðjast en bréf sýslumanns til amtmanns frá 7. janúar 1851 þess efnis að sýslumaður sendi amtmanni afrit af útvísunargjörð nýbýlisins svo amtmaður geti gefið hlutaðeigandi ábúanda byggingarbréf fyrir nýbýlinu. Þá er þess getið að ekki sé lýst í Landnámabók hversu langt inn til fjalla landnám á þessu svæði hafi náð. Af því verði engar afdráttarlausar ályktanir dregnar um hvort í öndverðu hafi verið stofnað til beins eignarréttar á þessu svæði með námi.

            Byggð sú sem tekist hafi í Kverkártungu á grundvelli útvísunarinnar muni hafa verið með einhverjum hléum en þó samfellt frá árinu 1911 til ársins 1937 þegar Kverkártunga hafi farið í eyði. Í afsals- og veðmálabókum komi fram að á tímabilinu 1950 – 1994 hafi Kverkártunga nokkrum sinnum gengið kaupum og sölum eða komið til skipta í dánarbúum.

            Þjóðlendukrafa stefnda geri ráð fyrir að hið útmælda land Kverkártungu sé eignarland en sunnan þess þjóðlenda. Komi því ekki til skoðunar hjá óbyggðanefnd hvort stofnast hafi til eignarréttar að því landi á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar eða fyrir hefð, sbr. dóma Hæstaréttar frá 6. september 2005 í máli nr. 367/2005 og 16. maí 2007 í máli nr. 571/2006. Til athugunar sé því einungis til hvaða landsvæðis útmælingin taki, hvort fyrirliggjandi landamerkjabréf jarðarinnar taki til stærra svæðis og hver sé eignarréttarleg staða þess svæðis, sem þar kunni að muna.

            Komi þá til skoðunar hvernig merkjum Kverkártungu sé lýst í útmælingu frá 1850, landamerkjabréfi frá 8. maí 1884 og í öðru landamerkjabréfi sem útbúið hafi verið 20. desember 1921. Einnig verði kannað hvað ráðið verði af öðrum heimildum um það efni en þar njóti við áðurnefndrar útmælingar frá 17. júní 1850 vegna stofnunar nýbýlis og lýsingar á merkjum í landamerkjabréfum aðliggjandi landsvæða. Athugun þessi taki suðurmerkja landsvæðisins og sunnanverðra vestur- og austurmerkja að því leyti sem þau liggi innan kröfusvæðis íslenska ríkisins.

            Í útmælingu frá 17. júní 1850 vegna stofnunar nýbýlis sé fyrirhuguðu nýbýli útlagt allt land milli Miðfjarðarár og Kverkár en í útmælingunni segi að landið sé „... á ad giska rúmar 2 Mílur á lengd úr tunguspordinum fram á fremstu grös og ½ til ²/3 Míla á breidd þar sem þad er breidast...“ Í málinu liggi fyrir að hér sé um að ræða danska mílu en lengd hennar muni vera um það bil 7,5 kílómetrar. Punktar þeir sem stefndi byggi kröfulínu sína á liggi í um það bil 15 kílómetra fjarlægð frá tungubroddinum og fái því vel samræmst þeirri lýsingu sem fram komi í útmælingunni. Sé þá komið í um og yfir 400 metra hæð.

            Landamerkjabréf fyrir Kverkártungu hafi verði útbúið 8. maí 1884 og þinglýst 16. júlí 1885. Undir bréfið skrifi Árni Þorkelsson eigandi hálfrar Kverkártungu og Gísli Þorsteinsson eigandi hálflendu Hallgilsstaða. Hinn 20. desember 1921 hafi verið útbúið annað landamerkjabréf fyrir Kverkártungu. Það hafi verið þinglesið 31. júlí 1922 og undirritað af Jónasi Pálssyni, eiganda Kverkártungu og samþykkt af Þórarni Árnasyni, eiganda Miðfjarðarnessels.

            Í landamerkjabréfunum sé mörkum að austan, gagnvart Miðfirði, og suðaustan, gagnavart því landsvæði sem Þórshafnarhreppur hafi gert tilkall til, lýst frá ármótum Miðfjarðarár og Litlu – Kverkár „... þann veg inn með Miðfjarðará að vestan inn að svonefndum Kistufellslæk, er í  hana rennur hinum megin, og þaðan beint norður í Heiðarvatn...“ Bréfin séu ekki árituð vegna Miðfjarðar. Samkvæmt landamerkjabréfi Miðfjarðar, frá 1. apríl 1884, sem þinglýst hafi verið 26. júní 1884, séu vesturmerkin, gagnvart Kverkártungu, miðuð við Þverfellslæk og ráði lækurinn landamerkjum í Miðfjarðará sem ráði svo merkjum til sjávar. Bréfið sé áritað vegna Kverkártungu. Yngra bréf fyrir Miðfjörð frá 20. desember 1921 lýsi merkjum til vesturs um Miðfjarðará að Kistufellslækjarósi og síðan Kistufellslækur að vörðu sem standi á hól við lækinn. Bréfið sé ekki áritað vegna Kverkártungu. Merki Miðfjarðar og Kverkártungu geti vel samrýmst en þó lýsi eldra bréf Miðfjarðar mörkum jarðarinnar mun skemur inn til landsins en gert sé í yngra bréfinu. Engar heimildir finnist um  merki aðliggjandi landsvæðis til suðurs en kröfur Þórshafnarhrepps séu í samræmi við suðurmerki Kverkártungu eins og þeim sé lýst hér að framan.

            Samkvæmt landamerkjabréfum Kverkártungu séu merki til vesturs, gagnvart Hallgilsstöðum, frá Heiðarvatni og beint þaðan í Litlu – Kverkárdrög en eftir það afmarki Kverká landið. Bréfið sé áritað vegna hálfra Hallgilsstaða. Ekkert landamerkjabréf sé til fyrir Hallgilsstaði en lýsingu á merkjum landsvæðisins sé að finna í fasteignamati fyrir N – Þingeyjarsýslu frá 1916 – 1918. Þar séu merki til austurs miðuð við Kverkárdrag frá Heiðarvatni út að krók þeim sem dragið myndi stutt utan við Þverurð en þaðan beina stefnu norðaustur í Litlu – Kverká. Þessar lýsingar séu í samræmi.

            Ljóst sé þannig að í landamerkjabréfum Kverkártungu sé merkjum lýst nokkru sunnar en fram komi í útmælingunni frá 1850. Að öðru leyti séu útmælingin og önnur gögn í samræmi við lýsingar landamerkjabréfanna.

            Að fenginni þessari niðurstöðu um merki Kverkártungu þurfi að leysa úr eignarréttarlegri stöðu þess landsvæðis sem liggi sunnan og utan útmælingarinnar en innan landamerkjabréfanna og ágreiningur aðila í málinu standi um. Þá er vísað til almennra niðurstaðna óbyggðanefndar um sönnunargildi landamerkjabréfa um eignarrétt yfir landi og jafnfram tekið fram að menn hafi ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt með því að gera landamerkjabréf. Þegar virt sé sönnunargildi landamerkjabréfs verði að líta til þess hvort önnur gögn geti fallið að bréfinu eða mæli því í gegn. Ekkert hafi komið fram sem renni stoðum undir að á svæðinu utan útmælingarinnar hafi verið stofnað til beinst eignarréttar á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar. Þá hafi heldur ekki verið leidd í ljós nein þau not af þessu fjalllendi sem stofnað hafi til beins eignarréttar á grundvelli hefðar, sbr. lög nr. 46/1905.

            Að öllu framangreindu virtu hafi ekki verið sýnt fram á að umrætt landsvæði sunnan kröfulínu stefnda sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Þá leiði rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að á umræddu landsvæði sé þjóðlenda. Af fyrirliggjandi gögnum verði hins vegar ráðið að umrætt land, sem nýtt hafi verið til beitar á meðan byggð hafi staðið yfir í Kverkártungu, sé í afréttareign Kverkártungu, en aðrir hafi ekki haft uppi slíkt tilkall til svæðisins.

            Að öllu ofangreindu virtu sé það niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði, svo sem það sé nánar afmarkað teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, en sama landsvæði sé í afréttareign Kverkártungu, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

            Merkjalýsing úrskurðarins fellur orðrétt saman við merkjalýsingu í kröfugerð stefnenda og þykir óþarfi að endurtaka hana hér.

 

IV

            Stefnendur kveðast í stefnu halda því fram að land Kverkártungu innan þinglýstra merkja sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem eignarland sé skilgreint þannig að það sé landsvæði þar sem eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Það hafi því verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja hið umdeilda landsvæði til þjóðlendu.

            Í úrskurði sínum hafi óbyggðanefnd talið sannað að til beins eignarréttar á landinu hefði verið stofnað samhliða og samtímis stofnun nýbýlis árið 1850. Túlkun nefndarinnar á texta útvísunargerðar nýbýlisins ráði niðurstöðu nefndarinnar um þjóðlendu og hafi nefndin talið útvísunargerðina lýsa landinu skemmra til suðurs en landamerkjabréf jarðarinnar Stefnendur mótmæli fyrrgreindri túlkun óbyggðanefndar og telji að merkjalýsing útvísunargerðarinnar og landamerkjabréfanna taki til sama landsvæðis.

            Útvísunargerðin sé frá 17. júní 1850 og hljóði svo:

„Almenningur þessi eda Kverkártúnga sem svo er köllud er afmörkud af 2r ekki alllitlum Vatnsföllum nl. ad Nordan af Kverká og ad austan af Midfjardará sem bádar koma sunnan ur Strandaheidi; og hafa upptök sín skammt hver frá annari, fellur Midfjardará mikid til beint til siáar frá upptökum sínum, en Kverká bugar skammt frá upptökum vestur á vid þannig ad hún um stund fellur til útnordurs, en þegar leingra dregur úteptir begist hún austur á vid uns hún fellur í Midfjardará og mindr adr nefnda túngu sem þannig verdr langbreidust um midbikid. Land þetta er á ad giska rúmar 2 Mílur á lengd úr túnguspordinum fram á fremstu grös og ½ til ¾ Míla á breidd þar sem þad er breidast en miog svo er þad hróstrugt og blásid þá eru töluverd flóasund her og þar einkum austanmegin og líka medfram Kverká, svo þar má hafa nokkurn heyskap. Bædi eigandi Midfjardar og Midfjardarnessels Þorsteinn Þorsteinsson, sem og ábúendur jardanna Midfjardarness og Saurbæar gefa til kynna ad þeir hvorki giori eda geti gjört nokkurt tilkall til lands þess sem liggur milli Kverkár og Midfjardarár. Allan þenna Almenning álíta skodunarmennirnir ekki stærri né betri enn svo ad samsvari medallags godri 4 hndr. jörd her austanlands og þegar land skal útleggja til jardar sem byggileg sé er eingin efi á því ad allan Almenning milli ádrgreindra ummerkia verdr ad útleggia svo ekkert verdr afgángs. Nybylinu Kverkártungu var því næst útlagt allt land milli Midfjardarár og Kverkár og svolangt fram til heidar sem grös gróa. Á landi þessu sem nú var útlagt álíta skodunarmennirnir ad framfleita megi til jafnadar í öllum árum 40 ám, 20 saudum, 20 lömbum og 3 hestum en kú eingri þared þeim virdist lítt mögulegt ad rækta þar upp tún svo nokkru nemi Og möttu þeir land þetta 4 hndr. skrifa fiögur hundrad ad dyrleika og giördi sialfseignarbondi Þ. Bjarnason sig anægdan med þetta mat vegna Vidtakanda. Þegar búid var ad lesa upp þad sem bóka dhafdi verid var útvísunargiördinni lokid.“

             Eins og fram hafi komið sé ekki ágreiningur um að það land sem mælt hafi verð út til nýbýlisins sé nú undirorpið beinum eignarrétti. Ágreiningurinn snúist um hversu mikið land hafi verið mælt út. Í greinargerð stefnda til óbyggðanefndar hafi verið á því byggt að hið útmælda land hafi náð tvær danskar mílur (15 kílómetra) frá tungusporðinum (ármótum Kverkár og Miðfjarðarár) og kröfulínan því miðuð við þá fjarlægð. Á þessa málsástæðu fallist óbyggðanefnd og því mótmæli stefnendur harðlega. Skýrt komi fram í útvísunargerðinni að landið sé á að giska rúmar 2 mílur á lengd úr tungusporðinum fram á fremstu grös.... Hvort tveggja sé að hér sé um ágiskun að ræða og að um rúmar tvær mílur sé að ræða. Land jarðarinnar samkvæmt landamerkjabréfum hennar nái um það bil 7 kílómetrum sunnar en niðurstaða óbyggðanefndar segi til um. Óumdeilt sé að Kverkártunga afmarkist af Kverká og Miðfjarðará og fram komi í útmælingargerðinni að allan Almenning milli áðurgreindra ummerkja verðr að útleggja svo ekkert verðr afgangs. Hugsunin sé því augljóslega sú að útleggja til eignar allt það land sem þá hafi talist almenningur og því jafn augljóst að enginn almenningur geti verið á þessu svæði nú og þar af leiðandi engin þjóðlenda.

            Stefnendur telji að þinglýstar heimildir séu í fullkomnu samræmi við útvísunargerð nýbýlisins.

            Landamerkjabréf fyrir Kverkártungu hafi verið gert 8. maí 1884, þinglýst 16. júlí 1885 og hljóði svo:

            „Jörðin Kverkártunga liggjandi í Skeggjastaðakyrkjusókn á Langanesströndum innan Norður-Múlasýslu á land frá ármótunum, Miðfjarðarár og Litlu-Kverkár þann veg inn með Miðfjarðará að vestan inn að svo nefndum Kistufellslæk, er í hana rennur hinum megin, og þaðan beint norður í Heiðarvatn, svo aftur beint þaðan og í Litlu-Kverkárdrög, sem mun vera hér um bil í óttu stað; eftir það afmarkar Kverká landið út að áður nefndum ármótum.“

            Hinn 20. desember 1921 hafi verið gert nýtt landamerkjabréf fyrir jörðina Kverkártungu og þinglesið 31. júlí 1922. Bréfið hljóði svo:

            „Miðfjarðará þar frá er Kverká rennur í hana til vörðu innan við Kistufellslækjarós. Þaðan úr vörðu beint í Heiðarvatn við Heiðarhól. Síðan ræður Kverká alla leið unz hún fellur í Miðfjarðará.“

            Svarbréf sýslumanns Norður-Múlasýslu við bréfi Stjórnarráðsins sé í fullu samræmi við kröfur stefnenda en þar segi:

„... Eiga því allar stærri jarðir hreppsins óslitið land úr heimahögum inn í afréttir, alveg inn að afréttarlöndum Vopnfirðinga að sunnan ...“

            Samkvæmt framangreindu öllu telji stefnendur vera alvarlega annmarka á úrskurði óbyggðanefndar. Í senn hafi nefndin með úrskurði sínum farið á svig við, eða brotið, grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins, þ.á.m. meðalhófsreglu, rannsóknarreglu og jafnræðisreglu. Beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í málinu.           

            Stefnendur bendi á að í dómsmálum vegna þjóðlendna hafi verið á það litið við úrlausn málanna að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greini, nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp sem orðið hafi að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallan af vafa um þetta efni.

            Það sé og skoðun stefnenda að lög nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að landeigendur þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.

            Ekki ráði úrslitum í þessu máli þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

            Stefnendur vísi til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar, en það hafi hann á engan hátt gert. Þá þurfi stefndi að sýna fram á að afrétturinn sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að segja  við ákvörðun um inntak eignarréttarins, sbr. fyrrgreindan Hæstaréttardóm.

            Stefnendur byggi á því að verði eignarréttur ekki viðurkenndur hafi núverandi eigendur öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð og vísi þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi og stefnendur og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í árhundraðaraðir. Fullnægt sé öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu og samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðina, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varði umrætt landsvæði. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.

            Stefnendur vísi um lagarök til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Einnig sé vísað til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998, að því er varði skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. eldri lög um sama efni. Þá sé vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905, enda hafi stefnendur haft umráð landsins fullan hefðartíma fasteigna margfalt og meinað öðrum afnot þess. Einnig vísi stefnendur til venju, þ.e. að land sem að fornu hafi verð notað eingöngu af landeigendum sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna. Þá vísi stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma, sbr. og núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísi stefnendur til kröfulýsingar og greinargerðar sem þeir hafi lagt fram undir rekstri óbyggðanefndar á málinu og allra þeirra gagna sem þeim hafi fylgt.

            Stefnendur byggi málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísi til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

 

V

            Í greinargerð stefnda kemur fram að af hans hálfu sé á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varði sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telji stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignaréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.

            Óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998, hefði landsvæði það sem um sé deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.

            Stefndi geri niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu.

            Stefndi taki undir með óbyggðanefnd, að fyrirliggjandi heimildir er varði eignarréttarlega stöðu landsvæðisins bendi til þess að um sé að ræða afréttarsvæði sem ekki sé undirorpið beinum eignarrétti.

            Kverkártunga muni fyrst hafa verið í byggð um skammt árabil fyrri hluta 19. aldar, eða frá 1817 – 1835, en síðar mun hafa verið þar samfelld byggð á árabilinu  1911 til ársins 1937, þegar jörðin hafi farið í eyði.

            Útvísunargerð á grundvelli nýbýlatiskipunarinnar frá 1776 hafi farið fram 17. júní 1850, í almenningi, eins og það sé beinlínis orðað í útvísunargerðinni. Hvorki liggi fyrir byggingarbréf útgefið af amtmanni fyrir nýbýlinu Kverkártungu, né verður ráðið af öðrum gögnum að slíkt bréf hafi verið gefið út. Í þeim efnum sé ekki við annað að styðjast en bréf sýslumanns til amtmanns frá 7. janúar 1851, þess efnis að sýslumaður sendi amtmanni afrit af útvísunargjörð nýbýlis svo amtmaður geti gefið hlutaðeigandi ábúanda byggingarbréf fyrir nýbýlinu.

            Af hálfu stefnda sé fallist á að hið útmælda landsvæði Kverkártungu, skv. framansögðu, sé eignarland, en sunnan hins útmælda svæðis sé þjóðlenda, þ.e. hið umþrætta svæði í máli þessu.

            Tvö landamerkjabréf hafi verið útbúin fyrir Kverkártungu, annars vegar bréf 8. maí 1884 en hins vegar 20. desember 1921.

             Í landamerkjabréfunum sé mörkum að austan, gagnvart Miðfirði, og suðaustan, gagnvart því landsvæði sem Þórshafnarhreppur hafi gert tilkall til, lýst frá ármótum Miðfjarðarár og Litlu-Kverkár „...þann veg inn með Miðfjarðará að vestan inn að svonefndum Kistufellslæk, er í hana rennur hinum megin, og þaðan beint norður í Heiðarvatn...“

            Í fyrrgreindri útmælingu svæðisins frá 17. júní 1850, sé útlagt allt land milli Miðfjarðarár og Kverkár, en í útmælingunni segi að landið sé „...á ad giska rúmar 2 Mílur á lengd úr tunguspordinum fram á fremstu grös og ½ til ¾ Míla á breidd þar sem þad er breidast...“ Í útmælingunni sé miðað við danska mílu, en lengd hennar muni vera u.þ.b. 7,5 kílómetrar. Hin úrskurðaða þjóðlendulína liggi í um 15 kílómetra fjarlægð frá tungubroddinum, sem sé í góðu samræmi við þá lýsingu sem fram komi í útmælingunni.

            Samkvæmt þessu sé ljóst að merkjum Kverkártungu sé lýst nokkru sunnar en fram komi í útmælingunni frá árinu 1850. Að öðru leyti sé útmælingin og önnur gögn í samræmi við lýsingar landamerkjabréfanna.  

            Stefndi sé sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m. a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004 (Úthlíð).

            Þá verði við mat á gildi landamerkjabréfa Kverkártungu að horfa til þess að ekki verði séð að bréfin hafi verið samþykkt af eigendum allra aðliggjandi jarða, einkum til suðurs og austurs, þ.e. gagnvart því landsvæði sem Þórshafnarhreppur hafi gert tilkall til og Miðfirði.

            Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

            Af hálfu stefnda sé hafnað kröfugerð stefnenda sem byggð sé á lýsingu landamerkja samkvæmt landamerkjabréfum Kverkártungu.

            Bent sé á, að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Ólíklegt verði að teljast, að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum. 

            Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48/2004 (Úthlíð). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignaréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.

            Ekki verði annað séð en að réttur stefnenda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

            Verði talið, að svæðið hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn helgað sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Um þetta sé m.a. vísað til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).

            Verði hins vegar talið, að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarétti, byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því, að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Þó að talið yrði að til beins eignaréttar hefði stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

            Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.

            Þyki það einnig styðja þau sjónarmið, að til beins eignarréttar hafi ekki stofnast á svæðinu, að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum án hindrana. Um afréttarmálefni og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verði falið að annast framkvæmd á.

            Þá sé á því byggt af hálfu stefnda, að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarétti.

            Umþrætt landsvæði sé háslétta í um 400 – 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Svæðið sé lítt gróið þar sem það liggi hæst en grónara þegar norðar dragi.

            Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.

            Stefndi hafni því einnig, að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignaréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar í skilningi laga, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

            Þeim málatilbúnaði stefnenda sé jafnframt hafnað, er lúti að því að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Með lögunum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar, heldur skera úr um eignaréttindi.

            Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telji stefndi að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005, hvað varði hið umþrætta landsvæði, hafi verið röng. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ...sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé...“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignaréttarlega stöðu. Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnenda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

            Að öðru leyti mótmæli stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim sé lýst í stefnu, en byggi um leið á þeim röksemdum sem lagðar hafi verið til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005, auk þess sem byggt sé á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar hafi verið fram af hálfu stefnda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í kröfulýsingu hans fyrir nefndinni, dags. 14. október 2004, sbr. greinargerð hans dags. 10. desember 2005, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í fyrrgreindu máli nr. 4/2005, verði staðfestur, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með þeim hætti sem þar sé gert.

            Auk framangreindra lagatilvísana, vísi stefndi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Byggt sé á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Vísað sé til hefðarlaga, nr. 46/1905 og til laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil. Þá sé vísað til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.

            Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra laga.

 

VI

            Eins og nánar er lýst hér að framan stendur deila málsaðila um eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem ítarlega er lýst m.a. í kröfugerð stefnenda og þykir ekki ástæða til að endurtaka það. Byggir málsókn stefnenda, eigenda jarðarinnar Kverkártungu, á því að þeir telja sig eiga umrætt svæði beinum eignarrétti, en eigi það ekki aðeins í afréttareign eins og óbyggðanefnd taldi í úrskurði sínum. Krefjast stefnendur annars vegar ógildingar úrskurðarins, en hins vegar viðurkenningar á því að innan nefndra merkja sé engin þjóðlenda. Stefndi unir hins vegar niðurstöðu óbyggðanefndar.

            Ekki er ágreiningur um að hið umdeilda landsvæði er innan merkja samkvæmt þinglýstum landamerkjabréfum jarðarinnar, en óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að merkjum væri þar lýst lengra inn til landsins en fram kæmi í útmælingargerð frá árinu 1850. Taldi nefndin að stefnendur hefðu ekki sýnt fram á hvernig þeir væru komnir að beinum eignarrétti að því landi sem þar bar á milli og mælti fyrir um að þar væri þjóðlenda, en í afréttareign stefnenda.

            Óumdeilt er í málinu að beinn eignarréttur stefnenda á Kverkártungu á rætur að rekja til útmælingar árið 1850 sem gerð var á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar frá árinu 1776. Ber stefndi ekki brigður á að þá hafi stofnast til beinna eignarréttinda yfir jörðinni þó ekki liggi fyrir byggingabréf hennar. Verður því að leggja til grundvallar í málinu að Kverkártunga sé nýbýli sem stofnað hafi verið á framangreindum tíma en áður hafi landið verið almenningur, eins og fram kemur í útmælingargerð jarðarinnar. Eiga því ekki við í málinu röksemdir og tilvísanir aðila til landnáms, eða þýðingar landnámslýsinga varðandi úrlausn þess álitaefnis sem hér liggur fyrir dómi.

            Samkvæmt sönnunarreglum sem staðfestar hafa verið ítrekað í fordæmum Hæstaréttar í þjóðlendumálum bera þeir sem kalla til beins eignarréttar á landi sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum þar um, en takist slík sönnun ekki verður landsvæðið talið þjóðlenda í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998, enda rúmist slík niðurstaða innan kröfugerðar íslenska ríkisins þar um. Stefnendur bera því ótvírætt sönnunarbyrði fyrir því að þau eigi þann rétt sem þau krefjast.

            Þá sönnunarbyrði, sem samkvæmt framansögðu hefur verið lögð á landeigendur, verður þó að virða með hliðsjón af því að óbyggðanefnd hefur sjálfstæða rannsóknarskyldu samkvæmt lögum nr. 58/1998. Ber nefndinni að hafa frumkvæði að gagnaöflun, þó það aflétti ekki skyldu málsaðila til að afla þeirra gagna sem þeir telja þörf á til sönnunar kröfum sínum.

            Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Þar var sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði og einnig að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þó var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs  væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 hafi engum verið til að dreifa, sem hafi getað sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands, sem nú kallist þjóðlenda. Jafnframt hafi verið sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hefði. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir, sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Framangreindar forsendur hafa margítrekað verið lagðar til grundvallar dómum Hæstaréttar í sambærilegum málum síðan.

            Sú útmælingargerð sem áður er getið og er grundvöllur eignarréttartilkalls stefnenda er löng og ítarleg og hafa stefnendur vísað til ýmissa ummæla í henni til að rökstyðja fullyrðingar sínar um að þar sé lýst sömu ummerkjum og í landamerkjabréfum jarðarinnar. Að mati dómsins verður þó að telja að kjarni efnis útmælingargerðarinnar komi fram í eftirfarandi lýsingum. Í fyrsta lagi: „Land þetta er á ad giska rúmar 2 mílur á lengd úr túnguspordinum fram á fremstu grös og ½ til ¾ Míla á breidd þar sem þad er breidast...“. Í öðru lagi: „Nybylinu Kverkártungu var því næst útlagt allt land milli Midfjardarár og Kverkár og svolangt fram til heidar sem grös gróa.“

            Að mati dómsins verður ekki litið fram hjá því að framantilvitnuð ummæli benda til að framangreind fjarlægðarmörk hafi verið lögð til grundvallar. Þó í útmælingunni sé að finna almenna lýsingu á því landsvæði sem um ræðir og jafnvel sagt að allt landið verði að útmæla svo ekkert verði afgangs, verði að mati dómsins ekki lagður sá skilningur í það sem stefnendur byggi á. Hafa þurfi í huga að verið var að útmæla bújörð og því vart tilefni til að láta útmælingu ná til gróðurlausra svæða. Kemur fram að aðeins hafi verið útlagt land fram til heiðar svo langt sem grös grói og fyrr í útmælingargerðinni kemur fram að þetta séu á að giska rúmar tvær mílur. Um er að ræða danska mílu sem er 7,5 kílómetrar og er þetta því í samræmi við þá niðurstöðu óbyggðanefndar að miða við 15 kílómetra frá tungusporði. Einföld mæling á korti sýnir að óbyggðanefnd miðar hér við loftlínu. Þá verður ekki fram hjá því horft að í úrskurði óbyggðanefndar er þess einnig getið að þegar komið er að þeim punktum sem eru 15  kílómetra frá tungusporði og óbyggðanefnd miðar þjóðlendumörk við sé land komið í 400 metra hæð yfir sjó. Þess er getið í greinargerð náttúrufræðings sem fyrir liggur í málinu að gróðurmörk á svæðinu liggi í um 400 metra hæð, en það sé ekki minna en 200 til 250 metrum neðar en miðsvæðis á Austurlandi. Hafa verður og í huga í þessu sambandi að um er að ræða gróðurfar á svæðinu árið 1850, en ekki við landnám. Verður ekki talið sjálfgefið að gróðurmörk hafi færst neðar frá þeim tíma. Að mati dómsins styðja framangreind sjónarmið það að lína sú sem óbyggðanefnd miðar við sé ekki norðar en útmælingagerðin mæli fyrir um, þrátt fyrir að orðalag hennar bendi til að ekki hafi verði um nákvæma mælingu að ræða. Er að mati dómsins ekki unnt að fallast á að línuna beri að draga svo sunnarlega sem stefnendur byggja á og hafa þeir ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir fullyrðingu sinni þar að lútandi. Þá hafa stefnendur á engan hátt gert tilraun til að færa fram sönnun um hvernig umrædd lína verði þá með réttu dregin, verði talið að henni skeiki að einhverju marki.

            Eru ekki efni til annars en að fallast á með stefnda að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum komist að réttri niðurstöðu með að land innan lýstra merkja landamerkjabréfa Kverkártungu hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu og að merki þjóðlendu og eignarlands skuli draga með þeim hætti sem í úrskurðinum greini. Hafa stefnendur engin gögn fært fram eða komið með haldbærar röksemdir fyrir því hvernig þeir hafi öðlast ríkari eignarrétt yfir hinu umdeilda landi en þeim var játaður í úrskurði óbyggðanefndar. Verður ekki séð að neitt liggi fyrir í málinu um að stefnendur hafi öðlast meiri rétt til umrædds landsvæðis á grundvelli reglna laga nr. 46/1905 um hefð eða sjónarmiða um réttmætar væntingar, enda gátu þeir ekki með gerð landamerkjabréfs öðlast ríkari eignarrétt en þeim var játaður með útmælingargerð þeirri sem fyrir er rakin.

            Ekki verður talið sýnt að á úrskurði óbyggðanefndar séu neinir þeir ágallar er varði ógildi hans.

            Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda í máli þessu.

            Sú niðurstaða óbyggðanefndar að stefnendur eigi umrætt landsvæði í afréttareign hefur ekki verið borin undir dómstóla og sætir ekki endurskoðun hér.

            Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

            Mál þetta hefur verið rekið samhliða tveimur málum sem varða lönd í fyrrum Skeggjastaðahreppi og einu sem varðar land á Þverfellsdal í Vopnafirði. Var meðal annars farin sameiginleg vettvangsganga þar sem dómari og lögmenn freistuðu þess að fara um þetta landsvæði sem víðast. Er seinfarið um landið og aðstæður erfiðar þannig að af vettvangsgöngu hlaust meiri kostnaður en venjulegt er í málum af þessu tagi. Þykir rétt að deila hinum útlagða kostnaði á málin og fella einn fjórða hans á þetta mál eins og nánar greinir hér á eftir.

            Gjafsóknarkostnaður stefnenda 979.789 krónur greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, 878.500 krónur.

            Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp dóminn að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en dómsuppsaga hefur dregist nokkuð vegna embættisanna dómara.

 

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af kröfum stefnenda, Rannveigar Guðmundsdóttur, Guðrúnar Guðmundsdóttur, Emils Björnssonar, Helga Þórhallssonar, Gríms Björnssonar, Halldórs Gunnarssonar, Ólafs Guðmundssonar, Gunnars Arnar Gunnarssonar, Sigurjóns Gunnarssonar, Árna Gunnarssonar, Rannveigar Gunnarsdóttur, Borghildar Guðmundsdóttur, Björns Guðmundssonar, Heiðdísar B. Valdimarsdóttur, Írisar Björnsdóttur, Þórarins Gunnarssonar, og  Kristjáns A. Flygenring, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður stefnenda 979.789 krónur greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, 878.500 krónur.

 

Halldór Björnsson