• Lykilorð:
  • Afréttur
  • Eignarréttur
  • Landamerki
  • Þjóðlenda

         Ár 2009, þriðjudaginn 27. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp dómur  í máli nr. E-15/2007:

                                                                   Orkuveita Reykjavíkur

                                                                  (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

                                                                  gegn

                                                                  íslenska ríkinu

                                                                  (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

                                                                  sveitarfélaginu Ölfusi

                                                                  (Torfi Ragnar Sigurðsson hdl.)

                                                                  Grímsnes- og Grafningshreppi

                                                                  (Óskar Sigurðsson hrl.)

                                                                  og til réttargæslu

                                                                  Guðmundi A. Birgissyni,

                                                                  Aldísi Eyjólfsdóttur,

                                                                  Jónu Guðnýju Eyjólfsdóttur,

                                                                  Jóni Guðmundssyni,

                                                                  Friðriki Kristjánssyni,

                                                                  Gesti Kristjánssyni,

                                                                  Steinunni Tómasdóttur,

                                                                  Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur,

                                                                  Karítas Halldóru Gunnarsdóttur,

                                                                  (Indriði Þorkelsson hdl.)

                                                                  Ara Eggertssyni,

                                                                  Gunnlaugi Jóhannssyni,

                                                                  Vilnýju Reynkvist Bjarnadóttur, f.h.

                                                                  db. Sigurgeirs Jóhannssonar,

                                                                  Birni Kristjánssyni,

                                                                  Loftveigu Kristjánsdóttur,

                                                                  Kristni Jóni Kristjánssyni og

                                                                  Ásgeiri Kristjánssyni

                                                                  (enginn)

                                                                 

         Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember sl., er höfðað með stefnu birtri á tímabilinu frá 21. desember 2006 til 8. janúar 2007.

         Stefnandi er Orkuveita Reykjavíkur, kt. 000000-0000, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.

         Stefndu eru íslenska ríkið, kt. 000000-0000, Arnarhvoli, Reykjavík, sveitarfélagið Ölfus, kt. 000000-0000, Hafnarbergi 1, Þorlákshöfn og Grímsnes- og Grafningshreppur, kt. 000000-0000, Félagsheimilinu Borg.

         Réttargæslustefndu eru Guðmundur A. Birgisson, kt. 000000-0000, Núpum III, Aldís Eyjólfsdóttir, kt. 000000-0000, Vötnum I, Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, kt. 000000-0000, Efstahjalla 15, Kópavogi, Jón Guðmundsson, kt. 000000-0000, Tjaldhólum 15, Selfossi, Friðrik Kristjánsson, kt. 000000-0000, Tjaldhólum 15, Selfossi, Gestur Kristjánsson, kt. 000000-0000, Heiðarhjalla 29, Kópavogi, Steinunn Tómasdóttir, kt. 000000-0000, Flókagötu 59, Reykjavík, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, kt. 000000-0000, Tjarnarbraut 7, Hafnarfirði, Karítas Halldóra Gunnarsdóttir, kt. 000000-0000, Úthlíð 12, Reykjavík, Ari Eggertsson, kt. 000000-0000, Eystri Þurá I, Gunnlaugur Jóhannsson, kt. 000000-0000, Þelamörk 1c, Hveragerði, Vilný Reynkvist Bjarnadóttir, kt. 000000-0000, Sóltúni 5, Selfossi, f.h. dánarbús Sigurgeirs Jóhannssonar, Björn Kristjánsson, kt. 000000-0000, Efstalandi, Loftveig Kristjánsdóttir, kt. 000000-0000, Vesturbergi 127, Reykjavík, Kristinn Jón Kristjánsson, kt. 000000-0000, Hlíðarvegi 25, Kópavogi og Ásgeir Kristjánsson, kt. 000000-0000, Vesturbergi 131, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að felldir verði úr gildi að hluta úrskurðir óbyggðanefndar frá 31. maí 2006 í málunum nr. 6/2004, Ölfus og nr. 5/2004, Grafningur og að viðurkennt verði að norðurmörk jarðanna Ytri-Þurár, Núpa I, II og III, Vatna, Kröggólfsstaða, Þúfu, Litla-Saurbæjar og Stóra- Saurbæjar í sveitarfélaginu Ölfusi verði um línu sem skilur að heimalönd bæja og afrétt og sem dregin er úr eystra horni Reykjafells (punktur 1) í rauðbleikan melhól upp af Kýrgili (punktur 2).  Að viðurkennt verði að mörk Ölfusvatns/Hagavíkur í Grímsnes- og Grafningshreppi verði um línu sem dregin er úr rauðbleika melhólnum upp af Kýrgili (punktur 2) í punkt við Hengilsyllur á mörkum Hagavíkur og Nesjavalla (punktur 3).

         Til vara er þess krafist að að felldir verði úr gildi að hluta úrskurðir óbyggðanefndar frá 31. maí 2006 í málunum nr. 6/2004, Ölfus og nr. 5/2004, Grafningur og að viðurkennt verði að norðurmörk jarðanna Ytri-Þurár, Núpa I, II og III, Vatna, Kröggólfsstaða, Þúfu, Litla-Saurbæjar og Stóra- Saurbæjar í sveitarfélaginu Ölfusi verði um línu sem skilur að heimalönd bæja og afrétt og sem dregin er úr eystra horni Reykjafells (punktur 1) í rauðbleikan melhól (punktur 4).  Að viðurkennt verði að mörk Ölfusvatns/Hagavíkur í Grímsnes- og Grafningshreppi verði um línu sem dregin er úr rauðbleika melhólnum (punktur 4) í punkt við Hengilsyllur á mörkum Hagavíkur og Nesjavalla (punktur 3).

         Framangreindir punktar eru hnitasettir og sýndir á dskj. nr. 3.

         Í aðal- og varakröfu er ennfremur gerð krafa um að viðurkenndur verði fullkominn eignarréttur stefnanda að landsvæðum þeim er hann hefur keypt úr framangreindum jörðum og er þinglýstur eigandi að og liggja að mörkum afréttar Ölfuss í sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

         Í aðal- og varakröfu er þess krafist að stefnda, íslenska ríkinu, verði gert að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

         Stefnandi skorar á réttargæslustefndu að veita sér styrk í málinu og gæta þar annars réttar síns.

         Dómkröfur stefnda íslenska ríkisins eru þær að þessi stefndi verði sýknaður af öllum kröfur stefnanda.  Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu en til vara að hvor aðili um sig beri kostnað af málinu.

         Dómkröfur stefnda sveitarfélagsins Ölfuss eru þær að þessi stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda í aðalsök.  Stefndi tekur hins vegar undir varakröfu stefnanda um að merki milli jarða og afréttar séu um línu sem skilur að heimalönd jarða í Ölfusi og Ölfusafrétt sem dregin er úr hæsta hnúk á Reykjafelli (punktur 1) í rauðbleikan melhól (punktur 4) á framlögðu korti stefnanda sem er í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar um merki milli jarða og afréttar á svæðinu.  Þá tekur þessi stefndi undir sýknukröfu stefnanda á þjóðlendukröfu ríkisins.  Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt reikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en þessi stefndi fékk gjafsókn í málinu með bréfi dómsmálaráðuneytis dagsettu 24. apríl 2007.

         Dómkröfur stefnda Grímsnes- og Grafningshrepps eru þær að þessi stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en þessi stefndi fékk gjafsókn í málinu með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 15. desember sl.

         Réttargæslustefndu gera engar dómkröfur í máli þessu en taka hins vegar undir kröfugerð stefnanda, bæði í aðal- og varakröfu.

 

Málavextir.

 

         Með bréfi dagsettu 27. október 2003 til fjármálaráðherra, tilkynnti óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt lögum nr. 58/1998, sbr. lög nr. 65/2000, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar landsvæði á svæði IV, en það tekur yfir sveitarfélög í Gullbringu- og Kjósarsýslu, auk þess hluta Árnessýslu sem nefndin hefur ekki þegar tekið afstöðu til.  Með tilkynningu í Lögbirtingablaðinu 3. mars 2004 tilkynnti nefndin að tekið hafi verið til meðferðar svæði sem afmarkast svo: „Að norðan af mörkum Kjósahrepps og Hvalfjarðarstrandarhrepps, sem fylgir suðurmörkum jarðarinnar Stóra-Botns í Hvalfjarðarstrandarhreppi, til austurs í Háu-Súlu (sem jafnframt er hornmark Borgarfjarðarsýslu) og síðan að suðurmörkum þeirra jarða í uppsveitum Árnessýslu sem Óbyggðanefnd hefur þegar tekið afstöðu til (svæði 1 hjá Óbyggðanefnd mál 1-7/2000).  Að austan afmarkast svæðið af Þjórsá en að sunnan og vestan af  hafi, allt norður að fyrrgreindum suðurmörkum Stóra-Botns í Hvalfjarðarstrandarhreppi.“

            Þá var þess verið getið að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins hafi lýst kröfum sínum um þjóðlendur og hafi sú kröfulýsing komið landeigendum í Ölfusi í opna skjöldu þar sem svæðið tilheyri ekki hálendi Íslands og ekki vitað til þess að ágreiningur væri um eignarhald á þeim jörðum sem afmarkist við afrétt.  Eigi landeigendur athugasemdalausar þinglýstar eignarheimildir fyrir þeim landsvæðum sem ríkið hafi gert tilkall til.  Stefnandi segist eiga mikilla hagsmuna að gæta á umræddu svæði, en hann hafi keypt hluta jarða til orkunýtingar í Ölfusi í tveimur áföngum á árunum 1999-2001 og hafi framkvæmdir hafist fljótlega eftir kaupin.  Stefnandi segist hafa keypt hluta af þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar á árunum 1999 og 2000, en þá hafi þjóðlendulögin tekið gildi.  Kveður stefnandi að ýtrustu varfærni hafi verið gætt við kaupin og þess hafi verið gætt að umrædd lönd væru eignarlönd en ekki afréttur eða þjóðlenda.  Hafi stefndi íslenska ríkið verið meðeigandi í tveimur þessara jarða, eða með 70.44% hlutdeild í óskiptu landi Kröggólfsstaða og Þúfu.  Hafi þessi stefndi ásamt öðrum landeigendum á svæðinu boðist til að selja hlut sinn og hafi fjármálaráðherra aflað heimildar Alþingis til sölunnar, sbr. 7. gr. fjárlaga ársins 2000.  Þá hafi landbúnaðarráðherra undirritað kaupsamninginn og stefnandi greitt kaupverðið.  Í kaupsamningi komi fram að ágreiningur kunni að rísa um landamerki jarðanna gagnvart afrétti Ölfuss, þ. e. hvort þverlína 1 eða 2 á uppdrætti sem var fylgiskjal kaupsamnings skyldi gilda.  Fyrst eftir að samningur við stefnda íslenska ríkið var í höfn hafi verið gengið til samninga við aðra landeigendur.  Hafi allir þeir samningar verið bornir undir þennan stefnda sem lögum samkvæmt eigi forkaupsrétt.  Hafi stefndi hafnað forkaupsrétti og fjármálaráðuneytið áritað alla kaupsamningana og kaupverð að því búnu greitt.  Hafi þinglýstar landamerkjalýsingar fylgt jörðunum, jafnt þeirri sem stefndi hafi selt sem og öðrum

Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar dagsettum 31. maí 2006 var kröfum stefnda íslenska ríkisins hafnað að því er varðaði þjóðlendur í fyrrum Selvogshreppi og að hluta í fyrrum Ölfushreppi en úrskurðað var að hluti landa sem stefnandi taldi eignarlönd sín milli landa Hjallatorfu (frá eystra horni Reykjafells) að landi Reykjatorfu (rauðbleikur melhóll) væri þjóðlenda samkvæmt 7. gr. þjóðlendulaga.  Hafi hluti þjóðlendusvæðisins verið talinn afréttareign stefnanda og annarra, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. þjóðlendulaga.  Þá hafi nefndin fallist á kröfu stefndu í máli þessu um staðsetningu rauðbleiks melhóls en hann er annars vegar hornpunktur sveitarfélagamarka og hins vegar hornpunktur Litla- og Stóra-Saurbæjar og Reykjatorfu í sveitarfélaginu Ölfusi og Ölfusvatns/Hagavíkur í Grímsnes- og Hagavíkur.  Stefnandi krefst ógildingar á úrskurðum óbyggðanefndar að því er tekur til svæðis frá eystra horni Reykjafells að rauðbleikum melhól.  Staðsetning hans ákvarði sveitarmörk og sé því nauðsynlegt að stefna sveitarfélögunum.  Hóllinn sé einnig hornmark Ölfusvatns/Hagavíkur í Grímsnes- og Grafningshreppi og Saurbæjarlanda og Reykjatorfu í Ölfusi.  Hafi hóllinn því einnig þýðingu fyrir landamerki Ölfusvatns/Hagavíkur.  Standi úrskurðurinn óhaggaður hafi landeigendur selt stefnanda hluta af þjóðlendu íslenska ríkisins og skipti því niðurstaða máls þessa réttargæslustefndu verulegu máli.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

 

         Stefnandi byggir á því að allt land sem hér sé til umfjöllunar hafi Ingólfur Arnarson numið samkvæmt lýsingum í Landnámu og styrki það beinan eignarrétt landeigenda.  Landið hafi verið numið til eignar en ekki til afnota án eignarhalds.  Hafi eignarrétturinn varðveist innan landnáms Ingólfs og séu þar engar þjóðlendur.  Þá séu innan landnámsins fjölmargar jarðir sem byggðar hafi verið frá landnámsöld og hafi þær alla tíð verið háðar beinum eignarrétti og gengið kaupum og sölum um aldaraðir.  Hafi jarðirnar átt sameiginlegan afrétt og sé hann sameign jarðeigenda og takmarkist réttur hvers og eins af réttindum annarra sameigenda.

         Öllum heimildum beri saman um að gróður á Íslandi hafi verið mun umfangsmeiri við landnám er nú og sé talið að gróið land hafi numið um 40.000 km²  Þá hafi hitafar á Íslandi fyrstu aldir Íslandssögunnar verið svipað því sem verið hafði á hlýindaskeiðinu 1920 til 1964 og hafi jöklar verið mun minni er nú sé.  Þá sé talið að skógur hafi numið um helmingi hins gróna lands. Þá bendir stefnandi á að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar sé einungis í 200-400 metra hæð yfir sjávarmáli.

         Stefnandi bendir á fordæmi Hæstaréttar þar sem frásögn Landnámu um upphaflegt nám sé lögð fyrirvaralaust til grundvallar eignarrétti.  Þá bendi frásagnir Landnámu til þess að landnám hafi í einhverjum tilvikum náð lengra inn til landsins en lýst landamerki jarða á síðari tímum.

         Stefnandi vísar til landamerkjalaganna 1882 og 1919 og þess tilgangs þeirra að afmarka einstakar jarðir, lýsa merkjum þeirra sem aðgreina þær annars vegar frá öðrum jörðum og hins vegar frá afrétti og almenningi.  Hafi lögin lagt þær skyldur á landeigendur og sveitarfélög að setja merki milli jarða og afrétta og annarra óbyggðra lenda.  Hafi landamerkjalýsingar sem gerðar hafi verið í kjölfar landamerkjalaganna verið byggðar á eldri heimildum, svo sem lögfestum, máldögum og eldri landamerkjabréfum.  Hafi skriflegum heimildum ekki verið fyrir að fara hafi verið stuðst við ómunahefð.  Hafi landamerkjabréfin verið unnin þannig að jarðeigendur hafi lýst merkjum jarða sinna og eigendur aðliggjandi jarða samþykkt lýsinguna með áritun á bréfið.  Landamerkjabréfunum hafi verið þinglýst og hafi sýslumaður hverrar sýslu haft eftirlitsskyldu um að merkjasetningin færi eðlilega fram og lýsingar gengu ekki gegn hagsmunum annarra jarðeigenda eða almennings.  Stefnandi heldur því fram að alls staðar í sveitarfélaginu Ölfusi sé land innan þinglýstra landamerkja undirorpið beinum eignarrétti. Hafi bréf jarðanna verið samþykkt af eigendum aðliggjandi jarða og þinglýst athugasemdalaust.  Þá hafi bréfin verið staðfest gagnvart afrétti af þáverandi oddvita Ölfushrepps, en afrétturinn hafi verið sameign hreppsbúa.  Hafi sveitarfélagið haft hagsmuni af því að gæta að ekki yrði tekið af því svæði sem nýta átti sem beitarland hreppsins.

         Stefnandi byggir á því að markmið þjóðlendulaganna sé annars vegar að kveða á um og afmarka eignarhald ríkisins á hálendinu og hins vegar að staðfesta að ríkið sé eigandi þess lands sem enginn geti sannað eignarrétt sinn til.  Sú ákvörðun óbyggðanefndar að taka landnám Ingólfs til meðferðar og úrskurðar samræmist ekki skýrum markmiðum þjóðlendulaganna að eignarráð á hálendinu séu skýr.  Umrætt svæði teljist ekki til hálendis Íslands og sé þjóðlendulögunum ekki ætlað að svipta landeigendur eignum sínum.

         Stefnandi byggir á 25. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 þar sem segi að þinglýsta eignarheimild hafi sá er þinglýsingabók nefni eiganda á hverjum tíma.  Þá vísar stefnandi til traustfangssjónarmiða í 33. gr. sömu laga þar sem segi að sá sem hljóti réttindi með samningi við þinglýstan eiganda að eign, þurfi ekki að sæta þeirri mótbáru að heimildarbréf fyrirrennara hans sé ógilt, ef hann er grandlaus um ógildisatvikið, er hann öðlaðist réttindin.  Byggir stefnandi á því að kaupandi tiltekinnar eignar eigi ekki að þurfa að gjalda þess komi síðar í ljós að seljandi hennar hafi ekki haft tilskildar heimildir vegna ógildingarannamarka ef þeir eru ekki verulegir.  Hafi stefndi íslenska ríkið margsinnis getað haft uppi vefengingarkröfu við aðilaskipti en aldrei gert. Byggir stefnandi á því að sá sem hafi í hendi þinglýsta eignarheimild teljist eiga tilsvarandi rétt yfir eigninni þar til annað sannist.  Hafi stefnandi því sönnunarbyrði fyrir því að umrætt land sé þjóðlenda.  Hafi óbyggðanefnd í öðrum málum komist að þeirri niðurstöðu að land sem samkvæmt elstu heimildum sé flokkað sem sjálfstæð jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland.  Sá sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni.  Hafi Hæstiréttur talið landamerkjabréf fyrir jörð fela í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.

         Stefnandi byggir einnig á því að virk yfirráð, tilheyrsla og bein hagnýting umrædds landsvæðis um aldir hafi skapað eignarhald fyrir hefð, en þegar landnámi lauk hafi hefð tekið við sem virk stofnun eignarréttar.  Hafi landið verið nýtt til fulls með þeim hætti sem tíðarandi og tækifæri hafi veitt á hverjum tíma og hafi landeigandi með þeim hætti jafnframt unnið eignarhefð yfir öllu landinu.  Stefnandi nefnir dæmi þess að Hæstiréttur hafi viðurkennt eignarhefð enda þótt not hefðanda, sem jafnframt studdi rétt sinn við kaupsamning, hefðu verið sambærileg afréttarnotum.  Stefnandi segir landeigendur í Ölfusi, sem seldu stefnanda hluta landa sinna á árunum 1999-2001, hafa nýtt landgæði jarða sinna á margvíslegan hátt.  Auk hefðbundinna beitarnota hafi land verið leigt eða því ráðstafð með öðrum hætti.  Stefnandi nefnir í dæmaskyni leigusamning um efnistökurétt í landi Ytri-Þurár, leigu á landi undir skíðaskála á nokkrum stöðum, samning um námaréttindi við landamerki Núpa og Ytri-Þurár.  Þá bendir stefnandi á að árið 1997 hafi eigendum Núpa verið greiddar eignarnámsbætur fyrir staura er lagðir voru í landi Núpa langt fyrir ofan Hellisheiðarveg fyrir Búrfellslínu.  Þá bendir stefnandi á að árið 1973 hafi ríkið, eigandi Þúfu, gengið út frá því að eignarland Þúfu afmarkist af landamerkjabréfi Þúfu eins og það komi fram í landamerkjaskrá Árnessýslu og ekki sé ágreiningur um hvernig eignarland Þúfu afmarkist frá öðrum jörðum.  Þá hafi Landsvirkjun tekið eignarnámi landsvæði úr sameignarlandi ofan fjalls og hafi jarðeiganda Kröggólfsstaða, Vatna og Þúfu verið greiddar eignarnámsbætur þar sem landbútur hafi verið tekinn úr fyrrgreindu svæði undir rafmagnslínustaura.

         Stefnandi bendir á það að í almennum úrskurðum óbyggðanefndar komi fram að ekki verið dregnar víðtækar ályktanir um eignarrétt að landi af upplýsingm um framkvæmd fjallskila að fornu og nýju.  Skipti mestu máli að mati nefndarinnar sú staðreynd að lengst af hafi smölun heimalanda ekki einungis verið háð lögbundnum skyldum og kvöðum um skyldur til smölunar, heldur hafi því jafnframt verið þannig háttað að lönd einstakra jarða hafi verið nýtt með sambærilegum hætti og afréttir og þá fallið undir sameiginleg fjallskil.   Eftir sem áður hafi slík landsvæði ekki verið talin falla í flokk afrétta, þau hafi óumdeilt legið innan landamerkja viðkomandi jarðar og eftir atvikum enginn ágreiningur verið uppi um eignarrétt að þeim.

         Stefnandi byggir á því að með því að afsala eignarlandi Kröggólfsstaða og Þúfu að fenginni heimild Alþingis til stefnanda hafi stefndi íslenska ríkið viðurkennt beinan eignarrétt að umræddu landi.  Hafi skilningur löggjafarvaldsins verið sá sami, annars hefði salan ekki verið heimiluð.  Stefnandi kvaðst hafa verið undir það búinn að þessi stefndi kynni í mesta lagi að gera ágreining fyrir óbyggðanefnd hvort fylgja ætti þverlínu 1 eða 2.  Stefndi hafi hins vegar gert þá kröfu að stór hluti þess lands sem hann seldi stefnanda teldist til þjóðlendu.  Með sama hætti hafi stefndi gert kröfu til þess að töluverður hluti þeirra landa sem keypt hefðu verið af öðrum landeigendum á sama tíma teldust til þjóðlendu.  Stefnandi hafi í umræddum kaupum gætt ítrustu varfærni og ekki gengið frá kaupsamningum fyrr en löggjafinn hafi heimilað að selja stefnanda hluta af umræddum jörðum sem fullkomið eignarland.  Stefndi sé bundinn af þessum samningi og geti ekki haldið því fram nokkrum árum síðar að stór hluti hins selda lands sé þjóðlenda.  Stefndi hafi með sölunni viðurkennt landamerkjabréf jarðanna og því ætti einungis að vera uppi ágreiningur um hvort styðjast skyldi við þverlínu 1 eða 2 varðandi mörk afréttarins.  Þá hafi þessi stefndi viðurkennt landamerkjabréf annarra jarða í þessu máli með því að falla frá forkaupsrétti og árita alla samninga.  Hafi kröfugerð þessa stefnda fyrir óbyggðanefnd verið ósamrýmanleg framangreindum samningum og hafi nefndinni borið að hafna þjóðlendukröfu ríkisins á umræddu svæði.

         Stefnandi byggir á því að eignarrétturinn sé varinn í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins, 1. gr. samningsviðauka nr. 1.  Þegar dæmt sé í þjóðlendumálum beri að líta til þeirra sjónarmiða sem Mannréttindadómstóll Evrópuráðsins hefur lagt til grundvallar við skýringu á ofangreindum samningsviðauka.  Landeigendur í Öfushreppi hafi greitt skatta og skyldur af jörðum sínum eins og þær eru afmarkaðar með þinglýstum landamerkjum.  Hafi eignirnar gengið kaupum og sölum um aldaraðir og hafi ríkið viðurkennt eignarrétt landeigenda með því að samþykkja sölur á svæðinu og fallið frá forkaupsrétti.  Hafi ríkið því skapað réttmætar væntingar landeigenda til landsvæðanna og hafi vefengingarkrafa stefnda verið fyrir hendi sé hún löngu fallin niður fyrir tómlæti og fyrningu.  Stefnandi telur úrskurð nefndarinnar bera með sér að í málinu hafi verið lögð óhófleg sönnunarbyrði á landeigendur og sé það langt gengið að leggja megi að jöfnu við öfuga sönnunarbyrði.   Standist slík málsmeðferð ekki reglur íslensks réttarfars og gangi gegn framangreindum sjónarmiðum.

         Stefnandi byggir einnig á því að kröfugerð stefnda íslenska ríkisins fyrir óbyggðanefnd gangi einnig í berhögg við skýr ákvæði meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með því að setja bæði fram aðalkröfu og varakröfu fyrir nefndinni.  Með því að setja fram varakröfu hafi stefndi lýst því yfir að hann teldi að ná mætti því markmiði að afmarka lönd eignarlanda og þjóðlendna með þeirri lýsingu er þar greindi.  Með vísan til meðalhófsreglunnar hafi óbyggðanefnd borið að vísa aðalkröfunni frá og taka eingöngu til efnismeðferðar varakröfu stefnda.

         Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi brotið jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga með því að gera kröfu til þess að stór hluti landsvæða innan þinglýstra landamerkja teldust til þjóðlendu á sama tíma og stefndi hafi virt að öllu leyti landamerki Reykjatorfunnar, sem er eign stefnda, íslenska ríkisins, en landamerkjabréf torfunnar byggi ekki á neinum eldri lýsingum svo kunnugt sé.

         Stefndi, íslenska ríkið, hafi haldið því fram fyrir nefndinni að landnám Ingólfs hafi borið brag af hertöku eða yfirráðatöku lands frekar en námi.  Hvergi í rituðum heimildum sé að finna stafkrók um að fyrsti landnámsmaðurinn hafi barist fyrir yfirráðum lands síns og rýri slíkur málflutningur grundvöll kröfugerðar ríkisins og grafi undan trúverðugleika þess í málum sem þessum.

         Stefnandi gerir athugasemdir við kröfulínu stefnda íslenska ríkisins fyrir nefndinni og telur hana byggða á lýsingu Ölveshrepps frá 1703 eftir Hálfdán Jónsson, en Raufarbergið sem ríkið byggi á sé annað en það sem minnst sé á í lýsingu Hálfdáns.  Sé staðsetning stefnda á Helluvaði í ósamræmi við allar tiltækar lýsingar og mótmælir stefnandi henni.  Stefnandi er þeirrar skoðunar að Helluvaðið sé í Hengladalsá (Kaldá) við Raufarberg í Kömbum.  Hvorki af lýsingu Hálfdáns né öðrum heimildum verði ráðið að Orrustuhóll hafi verið hornmark og að þar skilji milli eignarlanda og afréttar.  Stefnandi hafnar fullyrðingu stefnda um þýðingu Orrustuhóls og Lambavaðs í málinu og sé lýsing lögfestunnar í ósamræmi við landamerkjabréf Núpa, Kröggólfsstaða, Vatna, Þúfu og Saurbæjar frá 1890.  Sé óútskýrt í úrskurði nefndarinnar hvernig síðastnefndu löndin hafi eignast hluta Núpalands á tímabilinu 1827-1890.  Þá er bent á að öll löndin hafi átt hlutdeild í afrétti samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en jarðamatið sé frá 1702-1712 og því eldra en lögfestan.  Sé lögfesta Núpalands samin einhliða og ekki staðfest af eigendum aðliggjandi jarða eins og landamerkjabréfin.  Að mati stefnanda er rökstuðningur nefndarinnar um gildi lögfestunnar ófullnægjandi og hafi hún takmarkað sönnunargildi í máli þessu.

         Ekki er deilt um að rauðbleikur melhóll sem lýst sé í landamerkjabréfi Reykjatorfunnar frá 1884 sé hornmark Reykjatorfunnar en ágreiningur er um staðsetningu hólsins.  Stefnandi telur að með sama hætti og Reykjatorfan afmarkast gagnvart Ölfusvatni/Hagavík að norðan á þessum stað sé rökrétt að Reykjatorfan afmarkist gagnvart jörðum að sunnan og vestan á sama stað, þ.e. Saurbæ.  Samkvæmt úrskurði nefndarinnar séu landamerki Hjallatorfunnar gagnvart afrétti frá Lambafelli í Reykjafell og mörk Reykjatorfu og Ölfusvatns/Hagavíkur séu við rauðbleikan melhól.  Sé því rökrétt að álykta að aðrar jarðir, þ.e. Ytri-Þurá, Núpar I-III, Vötn, Kröggólfsstaðir og Þúfa, Litli- og Stóri-Saurbær eigi land að línu sem dregin sé milli Reykjafells og rauðbleika melhólsins.  Styðjist þessi niðurstaða við niðurstöður Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

         Stefnandi telur að af landamerkjalýsingu Króks, Ölfusvatns og Hagavíkur frá 15. ágúst 1885 verði ráðið að bleikrauði melurinn taki við af Hengilsyllum eða sé í næsta nágrenni við syllurnar og hins vegar að sá bleikrauði sé ofar í landi en Raufarberg.  Stefnandi vísar til lýsingar Hagavíkur, skráð í nóvember 1983 af Guðmanni Ólafssyni og telur ráðið af henni að bleikrauði melurinn taki við af Hengilsyllum eða sé í næsta nágrenni við þær og hins vegar að Raufarberg sé við Kýrgil. Megi draga þá ályktun að bleikrauði melurinn og Raufarberg séu sitt hvorum megin við Kýrgil og jafnframt að Raufarberg sé alveg við gilið.  Hið sama verði ráðið af lýsingu Ölfusvatns eftir Guðmann frá 1982.

         Stefnandi vísar einnig til korts sem danska herforingjaráðið hafi látið vinna árið 1908 og séu þar mörk milli Grafningshrepps og Ölfushrepps dregin eftir Hengilsyllum í rauðbleika melhólinn, niður Kýrgil í Raufarberg við Kýrgil, allt í samræmi við áðurnefnd landamerkjabréf og lýsingar að mati stefnanda.

         Stefnandi gerir athugasemdir við rauðbleika melinn og Raufarberg sem óbyggðanefnd hafi byggt á og bendir á að samkvæmt þeirri niðurstöðu taki sá rauðbleiki ekki við af Hengilsyllum og sé ekki nærri þeim.  Ekki sjáist frá Hengilsyllum til þessa mels og ekki verði séð að melurinn standi ofar í landi en það Raufarberg sem úrskurðurinn gangi út frá.  Það Raufarberg sé langt frá Kýrgili og frá melnum sjáist aðeins í lítinn hluta Reykjafells en ekki í eystra horn þess, sem er hornmark.

         Stefnandi vísar til dómsáttar sem eigendur Ytri-Þurár og Núpa hafi gert með sér 4. desember 1970 um landamerki jarðanna og hafi þau verið ákveðin samkvæmt uppdráttum Ágústs Guðmundssonar, landmælingamanns, dags. 1. mars sama ár.  Þar sé hornmark Ytri-Þurár sýnt í eystra horni Reykjafells í samræmi við landamerkjalýsingu Þóroddsstaða og Ytri-Þurár frá 28. maí 1889 og dregin óbrotin þverlína í stefnu að rauðbleikum melhól (punkt 4) að landi Núpa.  Sé það land sýnt taka við af þverlínu Ytri-Þurár en með brotinni þverlínu í átt að rauðbleika melhólnum (punktur 4). Sýni dómsáttin, sem þinglýst hafi verið án athugasemda, að ágreiningslaust hafi verið með landeigendum og þinglýsingarstjóra hvar hornpunktur Ytri-Þurár og Núpa var gagnvart afrétti.

         Stefnandi vísar til greinargerðar Gylfa Más Guðbergssonar, prófessors, dags. 26. maí 1988 um landamerki og afréttarmörk í Ölfushreppi og sýslumörk Árnessýslu frá Kóngsfelli að Sýsluhólma.  Í landamerkjabréfum jarða í Ölfusi sé víða talað um stefnu til afréttar eða beina leið inn í þverlínu sem skilji heimalönd og afrétt.  Hvergi sé getið um nein kennileiti milli melhnúksins og Reykjafells.  Hafi Gylfi Már komist að þeirri niðurstöðu að mörk afréttar og heimalanda jarða í Ölfusi séu lína dregin frá Reykjafelli austur í áðurnefndan rauðbleikan melhól (punktur 4).  Eigendur Núpa hafi mótmælt þessari afmörkun Gylfa Más og töldu þeir að verið væri að ganga á land þeirra og réttindi.  Gylfi Már hafi unnið aðra greinargerð árið 1996 um landamerki Reykjatorfu og Ölfusvatnstorfu.  Þar komi fram að prófessorinn telji hornmark Reykjatorfu vera í rauðbleikum melhól og mörk torfunnar og Stóra-Saurbæjarséu úr nyrsta gljúfri árinnar beina stefnu til norðurs í rauðleitan melhnúk fyrir framan svokallaða Kýrgilshnúka.  Sé þessi Melhóll sá sami og óbyggðanefnd miði við í úrskurði sínum (punktur 4).

         Stefnandi gagnrýnir úrskurð óbyggðanefndar í 13 liðum eins og hér greinir:

         Í fyrsta lagi gagnrýnir stefnandi litla umfjöllun nefndarinnar um tvær vettvangsferðir sem farnar hafi verið og þá sé ekkert minnst á þriðju vettvangsferðina sem farin hafi verið til að kanna hugsanlega staðsetningu Lambavaðs og Helluvaðs.

         Í öðru lagi er gagnrýnt að nefndin hafi komist að því með óskiljanlegum hætti að landið kunni að hafa verið numið í öndverðu en hafi breyst í samnotaafrétt.  Engin rök séu færð fyrir því hvernig samnotafréttur hafi orðið til og hvernig eignarhaldið hafi fallið niður og orðið að þjóðlendu.  Sé þessi kafli fullur af getgátum, mótsögnum og afar hæpnum fullyrðingum sem ótækt sé að byggja niðurstöðu á í máli sem lýtur að grundvallarréttindum og vernd þeirra.

         Í þriðja lagi er bent á að allar þær jarðir sem mál þetta snúist um séu nefndar í Jarðabók Árna Magnússonar og PálsVídalíns, en þar segi að afrétt eigi jörðin undir Hengli tollfrí ásamt öðrum Ölvess og Selvogsmönnum.  Sé afrétturinn hér skilgreindur sem eign jarðanna og hugtakið samnotaafréttur með öllu óþekkt í eldri heimildum.

         Í fjórða og fimmta lagi telur stefnandi óskiljanlegt hvernig nefndin meti með misjöfnun hætti samhljóða uppáskrifaðar og þinglýstar landamerkjalýsingar í Ölfusi og telur réttmætar væntingar landeigenda í Selvogi rétthærri en réttmætar væntingar jarðeigenda í Ölfushreppi.

         Í sjötta lagi gagnrýnir stefnandi mismunandi úrlausn nefndarinnar að því er varðar Ölfusafrétt og Selvogsafrétt að því er varðar lýsingu hreppstjóra Ölfushrepps frá 1920 um mörk milli afrétar og eignarlanda.

         Í sjöunda lagi hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að því er Kolviðarhól varðar og athafnasvæði Íþróttafélags Reykjavíkur að um hafi verið að ræða umfangsmikla hagnýtingu á skýrlega afmörkuðu landsvæði.  Hafi því verið talið að eignarhaldið uppfyllti skilyrði eignarhefðar.  Þrátt fyrir framlagningu fjölda leigusamninga um aðstöðu í landi Þurár og Núpa hafi nefndin gert allt aðrar og strangari kröfur og hafnaði eignarhefð.  Hafi jafnræðis landeigenda því hvergi verið gætt.

         Í áttunda lagi bendir stefnandi á að þegar nefndin fjalli um Þóroddsstaði, Þurá, Núpa, Kröggólfsstaði, Þúfu, Vötn, Litla- og stóra Saurbæ segir hún ekki liggja fyrir ótvíræðar heimildir um það hvenær þverlína sé fyrst lögð til grundvallar með þeim hætti sem gert sé af hálfu annarra aðila en stefnda, íslenska ríkisins.  Að mati nefndarinnar komi þetta fyrst fram í réttarsátt frá 1970 en stefnandi bendir á að þverlínunnar sé getið í landamerkjabréfi Núpa frá 1890 og sé bréfið samþykkt vegna Kröggólfsstaða og Vatna og vegna Þurár.

         Í níunda lagi hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að sala stefnda, íslenska ríkisins, á landi til stefnanda og áritun á samninga geti ekki haft aðra þýðingu en að styðja mögulegar og rétmætar væntingar samningsaðila til inntaks þess eignarréttar sem ráðstafað hafi verið.  Þá geti ríkið sem fasteignareigandi ekki afsalað víðtækari eignarréttindum en það hafi sjálft verið sannanlega verið komið að.  Nefndin geti þess ekki í fyrsta lagi að sala á landi stefnda hafi verið samþykkt af Alþingi, í öðru lagi að gefin hafi verið út landskiptagerð sem byggi á landamerkjabréfi jarðarinnar og í þriðja lagi sé niðurstaða nefndarinnar í ósamræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 496/2005.

         Í tíunda lagi meti nefndin stefnanda í óhag að hafa ekki haft uppi alla þá eignarréttarlegu fyrirvara sem þörf hafi verið á við samningsgerðina í ljósi þess réttarástands sem skapað hafi verið við lögfestingu þjóðlendulaga.  Stefnandi segist einmitt vegna þessara laga hafa gætt ítrustu varfærni við samningsgerðina.  Sé fráleitt að ætlast til þess að stefnandi gæti réttinda íslenska ríkisins við slíka samningsgerð.  Það sé fullfært til þess og taki afleiðingum gjörða sinna.  Sé óútskýrt hvers vegna meiri og strangari kröfur hafi verið gerðar til stefnanda en stefnda íslenska ríkisins.

         Í ellefta lagi gagnrýnir stefnandi að nefndin hafi tekið afstöðu til eignarréttardeilu fyrrum landeigenda, stefnanda og þeirra sem hann sækir rétt sinn til varðandi réttindi Litla-Saurbæjar ofan fjalls.  Hafi nefndin ekki leitað eftir sjónarmiðum stefnanda um þær málsástæður sem þar komi fram og heldur ekki þeirra sem seldu stefnanda.  Hafi nefndin því ekki gætt lögmælts andmælaréttar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga og þá sé það ekki hlutverk nefndarinnar að tjá sig um ágreining einkaréttarlegs eðlis.

         Í tólfta lagi telur stefnandi að sjónhending merki í íslensku máli beina línu, línu augans, það sem augað sér.  Frá rauðleita melhnúknum sem nefndin miði við í nefndan hnúk á Reykjafelli sé engin sjónhending og sjáist ekki milli þessara tveggja staða.  Hins vegar sjáist frá rauðleita melhólnum við Kýrgil til eystra horns Reykjafells.

         Í þrettánda lagi sé hvergi í úrskurðum nefndarinnar minnst á lýsingar Guðmanns Ólafssonar af Nesjavöllum, Hagavík og Ölfusvatni, en þessar lýsingar styðji mjög kröfur stefnanda um staðsetningu rauðleita melhólsins og Raufarbergs.

         Stefnandi byggir kröfu um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr. laganna.     

 

Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins.

 

         Þessi stefndi byggir á því að umrætt landsvæði sé utan eignarlanda og því þjóðlenda, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998.  Telur stefndi ljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Hvíli því sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnanda að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landinu.  Af heimildum megi ráða að nýting landsvæðisins hafi ekki verið víðtækari en til sumarbeitar fyrir búfénað og hafi verið gerður greinarmunur á annars vegar umþrættu landsvæði, sem var afréttarland og hins vegar heimalandinu.

         Stefndi byggir á því að hvorki Landnáma né aðrar heimildir sýni fram á að umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu og þá styðji staðhættir ekki að landið hafi verið numið.  Af dómaframkvæmd Hæstaréttar megi ráða að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess að álitið verður ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu.  Hvíli sönnunarbyrðin um annað á þeim sem haldi slíku fram.  Með tilliti til einangrunar svæðisins og fjarlægðar frá byggð verði ekki litið á svæðið sem land undirorpið beinum eignarrétti.  Á svæðinu skiptist á svæði sem ýmist séu örfoka, ógróin eða vaxin heiðargróðri.  Landið liggur í töluverðri hæð, stendur fjarri byggð og fjarri landsvæðum sem hafi verið í landbúnaðarnotum. Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars og hæðar svæðisins yfir sjó virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.

         Stefndi byggir á því að gildi landamerkjalýsinga verði að draga í efa með hliðsjón af því að með einhliða merkjalýsingum sem gerðar hafi verið eftir 1882 hafi menn oftar en ekki verið að eigna sér eigandalaust land.  Landamerkjabréf séu fyrst og fremst sönnun um mörk á milli eigna en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja sé óskorað eignarland.  Þrátt fyrir þinglýsingu bréfanna takmarkist gildi þeirrar athafnar af því að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi.  Slíku eigandalausu landi geti löggjafinn einn ráðstafað.  Við mat á sönnunargildi landamerkjabréfa hafi verið talið miklu skipta hvort þau hafi verið árituð um samþykki aðliggjandi jarða og landsvæða.  Á umræddu landsvæði hafi eingöngu landamerkjabréf Kröggólfsstaða og Vatna verið árituð um samþykki vegna afréttarins.   Ekkert landamerkjabréf á umræddu landsvæði hafi að geyma lýsingu á mörkum  gagnvart afrétti, heldur vísa eingöngu til afréttarins eða þverlínu sem skilji að afrétti og heimalönd án nánari tilgreiningar.  Sé því ekki í þeim að finna neina lýsingu á þverlínunni eða vísað til kennileita á mörkum jarðanna og afréttar.  Þá dragi úr sönnunargildi landamerkjabréfs sæki það ekki stoð í eldri heimildir.  Af eldri heimildum um landamerki jarða á svæðinu sé ekki öðru til að dreifa en tveimur efnislega samhljóða lögfestum fyrir jörðina Núpa frá 1817 og 1827.  Þar sé norðurmörkum jarðarinnar lýst í Fót á Hverahlíð, svo austur fyrir hraunið og í sama árfar allt inn að Lambavaði á Varmá svo eftir henni allt að Helluvaði.  Landamerkjabréf sé frá 1890 og þar sé mörkum ekki lýst til norðurs, heldur eingöngu vísað til þverlínu sem talin sé skilja milli heimalanda og afrétta.  Þverlína sú sem stefnandi miði við eigi sér ekki stoð í gögnum, hvorki landamerkjabréfum né eldri heimildum.

         Stefndi telur skilyrði eignarhefðar ekki fyrir hendi með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, sem og staðhátta og eldri heimilda.  Hafi nýting svæðisins í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað en hefðbundin afréttarafnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi.  Hafi dómstólar alla jafna gert ríkari kröfur til sönnunar eignarhefðar á landi sem liggi utan marka jarða og þá einkum að landi sem legið hafi undir afréttum sem ekki hafi upprunalega verið undirorpnir beinum eignarrétti.

         Stefndi telur að ákvæði 25. og 33. gr. þinglýsingarlaga hafi ekki verið talin fela í sér annað og meira en jákvæðan áreiðanleika þinglýsingabóka, sem byggist að einhverju leyti á traustfangssjónarmiðum.  Reglan feli ekki í sér frávik frá þeirri meginreglu eignarréttarins að menn geti með eignayfirfærslugerningi ekki öðlast betri rétt en seljandi átti.

         Stefndi hafnar þeim skilningi stefnanda að sala á hluta ríkisins í jörðunum Kröggólfsstöðum og Þúfu hafi falið í sér viðurkenningu á beinum eignarrétti að umræddu landi.  Verði að horfa til þess að eigandi fasteignar geti ekki afsalað sér víðtækari eignarréttindum en sannanlega hafi verið á hans hendi.  Hafi hið sama verið talið gilda um ríkið og aðra.

         Stefndi hafnar því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignartilkalli á landinu.  Löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Menn geti ekki vænst þess að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Bendi heimildir, staðhættir og nýting lands ekki til beins eignarréttar geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

         Stefndi mótmælir því að tilgangur með setningu þjóðlendulaganna hafi eingöngu verið sá að kveða á um eignarhald ríkisins á hálendinu, heldur hafi tilgangurinn verið sá að kveða upp úr um eignarrétt að þeim svæðum sem ekki hafi verið undirorpin einkaeignarrétti, svo sem eigi við um almenninga og afrétti, sbr. 1. gr. laganna.

         Stefndi tekur undir þau sjónarmið óbyggðanefndar að það eitt að ríkið hafi uppi aðal- og varakröfu geti ekki talist brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

         Stefndi hafnar sjónarmiðum stefnanda um staðsetningu rauðleits melhóls og tekur undir sjónarmið óbyggðanefndar um staðsetningu hans.

         Stefndi krefst þess að úrskurður nefndarinnar um þjóðlendulínu verði staðfestur og bendir á að línan í Hengladalaána við Orrustuhól byggi á því að samkvæmt eldri heimildum hafi allir Hengladalir verið í afrétti Ölfusinga.  Réttað hafi verið við Orrustuhól af íbúum úr Ölfusi og Mosfellssveit þar til missætti hafi orðið milli þeirra og Ölfusingar fluttu réttirnar austur yfir Hengladalsá.  Stefndi bendir á lýsingu Hálfdanar Jónssonar frá 1703 þar sem hann segi Raufarberg við Hengladalsá á móts við Árstaðafjall greina Reykjaland frá afréttinum.  Sé kröfulínan talsvert innar en þessi lýsing segi.  Þá bendir stefndi á að merkjalýsing Reykjatorfunnar fylgi Hengladalaánni frá Varmá og allt upp að Helluvaði.  Áin renni rétt við veginn yfir Hellisheiðina og engin jörð á láglendinu geti átt land fyrir innan Reykjatorfuland á heiðinni.  Merkjabréf jarðanna milli Hjallatorfu og Þóroddsstaða annars vegar og Reykjatorfu hins vegar lýsi merkjum ýmist til afréttar frá láglendi eða til miðlínu milli heimalanda og afréttar.  Ekkert þeirra lýsi merkjum handan við Reykjatorfulandið.  Þúfa lýsi merkjum í Hengladalalág, en það örnefni sé í Kömbunum og þannig fyrir neðan land Reykja.

         Stefndi vísar til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58/1998.  Þá er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar. Byggt er á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not sem og meginreglna um eignarráð fasteignareigenda, almennra reglna samninga- og kröfuréttar og hefðarlaga nr. 14/1905.  Vísað er til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986.  Þá er vísað til ýmissa eignarréttarreglna í Grágás og Jónsbók.  Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr.

 

Málsástæður og lagarök stefnda sveitarfélagsins Ölfuss.

 

         Þessi stefndi hefur höfðað mál á hendur íslenska ríkinu í því skyni að hnekkja úrskurði óbyggðanefndar um að Ölfusafréttur sé þjóðlenda.  Stefndi telur hins vegar að úrskurður nefndarinnar sé réttur að því er afmörkun afréttarins varðar og fellst á niðurstöðu nefndarinnar um staðsetningu hins rauðbleika melhóls.  Það mál hefur ekki verið sameinað þessu máli en er rekið samhliða fyrir dóminum.

         Stefndi tekur undir sjónarmið stefnanda um að eignarrétturinn sé varinn í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og með 1. gr. samningsviðauka nr. 1 í Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins.  Um sé að ræða mikilvæg grunnréttindi og hvíli rík skylda á  íslenskum dómstólum að líta til þeirra sjónarmiða sem Mannréttindadómstóll Evrópuráðsins hafi lagt til grundvallar við skýringu á 1. gr. samningsviðaukans.

         Stefndi vísar einnig til umfjöllunar stefnanda um dómsátt sem gerð var 4. desember 1970 um landamerki jarðanna Ytri-Þurár og Núpa og þá vísar hann einnig til umfjöllunar stefnanda um greinargerðir Gylfa Más Guðbergssonar frá 1988 um landamerki og afréttarmörk í Ölfushreppi og sýslumörk Árnessýslu frá Kóngsfelli að Sýsluhólma og frá 1996 um landamerki Reykjatorfu og Ölfusvatnstorfu.  Stefndi fellst hins vegar ekki á túlkun stefnanda á orðinu sjónhending og telur að það orð þurfi ekki að þýða að menn sjái milli staða heldur að menn hugsi sér beina línu milli staða sem þeir þekki.  Hins vegar sé það svo að frá rauðleita melhnúknum sem stefndi og óbyggðanefnd miði við sjáist á topp Reykjafells og mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda um annað.  Stefndi telur einnig útilokað miðað við sunnlenska málvenju að kalla melhnúk þann er stefnandi miði við „fyrir framan“ Kýrgilshnúka, því hann sé ofan eða norðan við hnúkana en sá hnúkur sem stefndi vilji miða við og nefndin hafi staðfest sé neðan, sunnan eða framan við Kýrgilshnúka.

         Stefndi byggir kröfu um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr.

 

Málsástæður og lagarök stefnda Grímsnes- og Grafningshrepps.

 

         Þessi stefndi fellst á niðurstöðu óbyggðanefndar um staðsetningu hins rauðbleika melhóls og þar með afmörkun Grafningsafréttar en kröfugerð stefnanda feli hins vegar í sér að afrétturinn afmarkist með öðrum hætti en gengið hafi verið út frá og fyrirliggjandi gögn staðfesti.  Stefndi telur niðurstöðu óbyggðanefndar rétta um mörk jarða og afréttar en engin rök mæli með staðsetningu stefnanda á melnum og geti sú staðsetning aldrei verið merkjapunktur.  Stefndi vísar til greinargerða Gylfa Más Guðbergssonar, prófessors frá 1988 og 1996 og segir melhólinn sem Gylfi nefni þann sama og nefndin hafi miðað við í úrskurði sínum (punktur 4).  Stefndi tekur undir mótmæli meðstefnda að því er varðar túlkun orðsins sjónhending og tekur fram að enginn ágreiningur hafi verið um afmörkun Grafningsafréttar um ómunatíð.  Hafi niðurstaða nefndarinnar verið í samræmi við það.  Þá vísar stefndi til landamerkjalýsingar frá 2. júní 1978, sem rituð hafi verið af Ársæli Hannessyni, þáverandi oddvita, en hún sé í samræmi við skráningu afréttarmarka Ölfus- og Grafningshrepps frá 22. maí 1886 sem og landamerkjabréfa aðliggjandi jarða.

         Stefndi byggir á almennum reglum eignarréttar og vísar til þjóðlendulaga nr. 58/1998 og 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá byggir hann á meginreglum eignarréttar um nám, töku og not sem og hefðarlögum nr. 14/1905.  Hann vísar til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986.  Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök réttargæslustefndu.

 

         Réttargæslustefndu gera engar kröfur í máli þessu en taka hins vegar undir kröfugerð stefnanda, bæði hvað varðar aðalkröfu og varakröfu og taka jafnframt undir sjónarmið, málsástæður og lagarök hans.

         Sá þáttur málsins sem varðar réttargæslustefndu Guðmund A. Birgisson og Steinunni Tómasdóttur mun varða jörðina Litla-Saurbæ og benda þau sérstaklega á að óbyggðanefnd hafi þá skyldu að afla gagna og heimilda um eignar- og afnotaréttindi yfir því landsvæði sem til umfjöllunar er til að tryggja sem best að rétt niðurstaða fáist um einstök álitaefni.  Nefndin hafi hins vegar hvorki leitað eftir afstöðu stefnanda né þessara réttargæslustefndu vegna framkominnar kröfu Sverris og Kristjáns Jónssona, en þeir séu tveir af níu fyrrverandi eigendum Litla-Saurbæjar.  Hafi þeir á umliðnum árum ítrekað en án árangurs reynt að fá ætluð réttindi sín viðurkennd fyrir dómi en kröfum þeirra hafi jafnharðan verið hafnað.  Engar kröfur hafi hins vegar borist frá hinum sjö fyrrverandi jarðareigendum gagnvart þessum réttargæslustefndu og þeim er ekki kunnugt um að þeir hafi haft uppi kröfur gagnvart stefnanda.  Með vísan til þessa telja þessi réttargæslustefndu niðurstöðu nefndarinnar um réttindi Litla-Saurbæjar óskiljanlega, en það sé ekki hlutverk nefndarinnar að tjá sig um einkaréttarlegan ágreining milli þessara réttargæslustefndu annars vegar og Kristjáns og Sverris hins vegar.

         Réttargæslustefndu benda á að landamerkjabréf séu árituð af öllum þeim sem hagsmuni höfðu á þeim tíma, þ.á m. fulltrúa afréttarins, þó hann undirriti ekki öll bréfin, þá liggi fyrir staðfesting á því hvar mörk afréttar og eignarlanda liggja.  Þá hafi allir þeir sem notið hafi einhverra réttinda á því landi sem óbyggðanefnd telji nú til þjóðlendu viðurkennt eignarhald landeigenda á því.  Þar á meðal séu opinberir aðilar sem greitt hafi bætur og þóknun fyrir afnot af landi eða landsnytjum.  Hafi ágreiningsmál um landamörk komið fyrir dómstóla og úr þeim verið leyst á grundvelli eignarréttar á landinu.  Einnig hafi bæði sveitarstjórnir á svæðinu og landbúnaðarráðuneytið látið vinna álitsgerðir um mörk eignarlanda og afréttar þar sem niðurstöður séu í fullkomnu samræmi við varakröfu stefnanda.  Síðast en ekki síst hafi ríkið selt lönd í sinni eigu á þessu svæði sem eignarlönd þó því sú nú haldið fram að um þjóðlendur sé að ræða.  Sé því ljóst að fram að því að óbyggðanefnd hafi tekið til starfa hafi ekki nokkur maður efast um eignarrétt landeigenda að því landi sem um er deilt.

         Réttargæslustefndu benda á að í kaupsamningum og afsölum milli þeirra og stefnanda hafi stefndi sveitarfélagið Ölfus fallið frá forkaupsrétti og enn fremur samþykkt landskiptagerð milli jarðanna Stóra- og Litla-Saurbæjar þann 11. febrúar 1999.  Skjóti því óneitanlega skökku við að aðalkrafa sveitarfélagsins í þessu máli sé að krefjast sýknu af aðalkröfu stefnanda.

 

Niðurstaða.

 

            Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.  Með bréfi dagsettu 27. október 2003 tilkynnti nefndin fjármálaráðherra að tekin yrðu til meðferðar nánar tilgreind landsvæði sem tekur yfir sveitarfélög í Gullbringu- og Kjósarsýslum, auk þess hluta Árnessýslu sem nefndin hefur ekki þegar tekið afstöðu til, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna, en þetta svæði var hið fjórða sem til meðferðar kom hjá nefndinni.  Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum frá 31. maí 2006 að landsvæði það sem hér er til meðferðar væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. 

         Dómarinn fór á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður. 

         Í 1. gr. þjóðlendulaga er eignarland þannig skilgreint að um sé að ræða landsvæði sem háð sé eignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma.  Þá er þjóðlenda þannig skilgreind að um sé að ræða landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Afréttur er skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.  Eins og að framan er rakið skal hlutverk óbyggðanefndar vera m.a. að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur, sbr. b-lið 7. gr. laganna og jafnframt að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. c-lið 7. gr. laganna.

         Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.      

         Í greinargerð með þjóðlendulögunum er að því vikið að með afrétti sé almennt átt við tiltekið, afmarkað landsvæði, en skiptar skoðanir séu um hvort einungis geti verið um beitarrétt eða annan afnotarétt að ræða, þ.e. hvort slíkt landsvæði geti ýmist verið undirorpið beinum eða óbeinum eignarrétti.  Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. laganna er hugtakið afréttur skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé og ráðast mörk afréttar þannig af því landsvæði sem sannanlega hafi verið nýtt til sumarbeitar fyrir búpening.

         Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 58/1998, var tekið fram að ekki verði að lögum settar sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land teljist eignarland í merkingu laganna, heldur ráðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í einstöku tilviki. Gildir sú regla því sem endranær að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa.

         Ágreiningur er með aðilum um staðsetningu rauðleits melhóls en hann er hornmark Reykjatorfu og Ölfusvatns (með Hagavík og Króki) í Grafningshreppi hinum forna.  Stefnandi heldur því fram að hnúkurinn liggi upp af og norðanvert við Kýrgil en af hálfu stefndu í máli þessu er á því byggt að hann liggi fyrir framan Kýrgilið.  Við vettvangsgöngu nefndarinnar með lögmönnum aðila mun Raufarberginu hafa verið fundinn staður og taldi nefndin það kennileiti liggja nær þeim melhól sem stefndu miða við og hafi ekki fundist neitt annað kennileiti nærri þeim stað sem stefnandi miði við.   Taldi nefndin að ráða mætti af landamerkjabréfum Reykjatorfunnar frá 1884 og jarðanna Króks og Ölfusvatns með hjáleigunni Hagavík frá 1885 að melhóllinn liggi í grennd við Raufarberg.  Ekki verður fram hjá því litið að ekki var ágreiningur um staðsetningu hólsins í máli sem sveitarfélagið Ölfus höfðaði gegn íslenska ríkinu.  Verður því ekki talið að stefnanda hafi tekist að hnekkja niðurstöðu óbyggðanefndar um staðsetningu hólsins við vettvangsgöngu dómsins eða með öðrum hætti og verður við það miðað að sá rauðbleiki sé á þeim stað sem miðað var við í úrskurði nefndarinnar.

         Eins og rakið hefur verið hér að framan afsalaði stefndi íslenska ríkið landi Kröggólfsstaða og Þúfu til stefnanda að fenginni heimild Alþingis.   Stefnandi segist hafa í umræddum kaupum gætt ítrustu varfærni og ekki gengið frá kaupsamningum fyrr en löggjafinn hafði heimilað að selja stefnanda hluta af umræddum jörðum sem fullkomið eignarland.  Þá hafi þessi stefndi viðurkennt landamerkjabréf annarra jarða í þessu máli með því að falla frá forkaupsrétti og árita alla samninga.  Taldi stefnandi að einungis gæti risið upp ágreiningur um hvort miða skyldi við þverlínu 1 eða 2 að því er mörk afréttar varðaði.  Þrátt fyrir þessa gerninga gerði stefndi íslenska ríkið hins vegar þá kröfu fyrir óbyggðanefnd að stór hluti þess lands sem hann seldi stefnanda teldist til þjóðlendu.   Telja verður að þessi stefndi hafi lagt til grundvallar í lögskiptum sínum við stefnanda að hann hefði fulla heimild til framangreindra ráðstafana og eins og staðið var að samningsgerð mátti stefnandi vænta þess að þessi stefndi gerði ekki síðar kröfu um það fyrir óbyggðanefnd að hluti hins selda lands teldist til þjóðlendu. Var þessi kröfugerð stefnda því ósamrýmanleg fyrri lögskiptum aðila og verður því þegar af þeirri ástæðu fallist á þá kröfu stefnanda að viðurkenna eignarrétt hans að landsvæðum þeim er hann hefur keypt úr framangreindum jörðum og er þinglýstur eigandi að og liggja að mörkum afréttar Ölfuss í sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi og er þar engin þjóðlenda.      

         Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 2.000.000 krónur í málskostnað.  Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

         Allur gjafsóknarkostnaður stefndu sveitarfélagsins Ölfuss og Grímsnes- og Grafningshrepps greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna þeirra, Torfa Ragnars Sigurðssonar hdl, 600.000 krónur og Óskars Sigurðssonar hrl., 600.000 krónur.

         Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna umfangs málsins og embættisanna en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

 

DÓMSORÐ:

 

         Viðurkenndur er fullkominn eignarréttur stefnanda, Orkuveitu Reykjavíkur, að landsvæðum þeim er hann hefur keypt úr jörðunum Ytri-Þurá, Núpum I, II og III, Vatna, Kröggólfsstaða, Þúfu, Litla-Saurbæjar og Stóra- Saurbæjar í sveitarfélaginu Ölfusi og er þinglýstur eigandi að og liggja að mörkum afréttar Ölfuss í sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi og er þar engin þjóðlenda.

         Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 2.000.000 krónur í málskostnað.  Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

         Allur gjafsóknarkostnaður stefndu sveitarfélagsins Ölfuss og Grímsnes- og Grafningshrepps greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna þeirra, Torfa Ragnars Sigurðssonar hdl, 600.000 krónur og Óskars Sigurðssonar hrl., 600.000 krónur.

                                                                  Hjörtur O. Aðalsteinsson.