- Þjóðlenda
D Ó M U R
8. október 2015.
Mál nr. E-73/2010:
Stefnendur: Jón H. Eiríksson
Dalanaut ehf. og
Leyningsbúið ehf.
(Ólafur Björnsson hrl.)
Stefndi: Íslenska ríkið
(Indriði Þorkelsson hrl.)
Dómari: Ólafur Ólafsson héraðsdómari
D Ó M U R
Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 8. október 2015 í máli
nr. E-73/2010:
Jón H. Eiríksson,
Dalanaut ehf. og
Leyningsbúið ehf.
(Ólafur Björnsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Indriði Þorkelsson hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 25. september sl., eftir endurflutning og aðilaskipti, hafa Jón H. Eiríksson, kt. 000000-0000, Borgarsíðu 3, 603 Akureyri, Dalanaut ehf., kt. 000000-0000 Grænuhlíð, Eyjafjarðarsveit og Leyningsbúið ehf., kt. 000000-0000, sem eru eigendur Arnarstaðatungna í Eyjafjarðarsveit, höfðað með stefnu birtri 21. janúar 2010, á hendur íslenska ríkinu, kt. 000000-0000, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda eru:
„Aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 í málinu nr. 2/2008, Eyjafjarðarsveit vestan Eyjafjarðarár, þess efnis að eignarland Arnarstaðatungna sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:
„Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem kallað hefur verið Arnarstaðatungur, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljast til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:
Trippagarði þeim sem stendur vestan Eyjafjarðarár, á móti Klaufá, er fylgt svo langt sem hann nær og síðan dregin lína yfir Stangalækjafjall og Kerlingarhnjúk, að mörkum Akrahrepps og Eyjafjarðarsveitar í suðurenda Urðarvatns nyrðra. Þá er haldið norðaustur yfir vatnið og í upptök Hafrár, sem síðan ræður merkjum þar til hún rennur í Eyjafjarðará. Loks er Eyjafjarðará fylgt þar til komið er á móts við fyrstnefndan trippagarð á móti Klaufá.“
Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan landamerkja Arnarstaðatungna, sbr. ofangreinda lýsingu, sbr. framlagðan uppdrátt, og þar með þess, að allt landsvæðið sé eignarland.“
Stefnendur krefjast til vara þess að þeir eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var afréttareign eigenda Arnarstaðatungna, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, þótt landið teljist þjóðlenda.
Stefnendur krefjast þess að stefndi greiði þeim málskostnað að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, bæði í aðal- og varakröfu, en þeir vísa m.a. til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 15. mars 2010.
Stefndi, íslenska ríkið, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að honum verði dæmdur hæfilegur málskostnaður. Til vara krefst stefndi þess að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
I.
1. Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls. Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd. Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri hlutann. Var það svæði nefnt „vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A)“. Svæðið var nánar afmarkað þannig: Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar sem hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa. Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagsmörk Eyjafjarðarsveitar að austan. Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungskvísl. Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd. Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.
Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði, þ.e. á sunnanverðu Mið-Norðurlandi, svæði 7A, bárust óbyggðanefnd 14. mars 2008. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum stefnda ásamt uppdrætti m.a. í Lögbirtingablaðinu 28. mars 2008, en einnig 30. júní sama ár, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Þá afréð óbyggðanefnd að skipta lýstu kröfusvæði íslenska ríkisins í fimm mál, þ.e. 1-5/2008. Mál nr. 1/2008 varðaði í fyrstu vestanverðan Bleiksmýrardal ásamt Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðarár, en á síðari stigum var fremsti hluti Eyjafjarðardals vestan ár tekinn með. Með þeirri ráðstöfun var allur svonefndur Hólaafréttur tekinn með. Að öðru leyti var fjallað um landsvæði í Eyjafjarðarsveit vestan Eyjafjarðarár í máli nr. 2/2008.
Mál nr. 2/2008 var fyrst tekið fyrir hjá óbyggðanefnd þann 25. ágúst 2008. Óbyggðanefnd, sem skipuð var Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Allan V. Magnússyni héraðsdómara og Sif Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra og varamanni hjá óbyggðanefnd, tók málið fyrir að nýju 31. ágúst og loks 1. september 2008, og var þá vettvangur m.a. skoðaður, en jafnframt var þá m.a. lögð fram greinargerð og fleiri gögn af hálfu íslenska ríkisins. Málið var enn tekið fyrir hjá nefndinni 16. september, 13. október og 10. nóvember sama ár, en aðalmeðferð fór fram 25. nóvember 2008 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi. Málið var endurupptekið 5. júní 2009 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju. Hinn 19. júní 2009 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Arnarstaðatungur í Eyjafjarðardal, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að það væri í afréttareign eigenda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og hér að framan var lýst.
Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu.
Stefnendur undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt. Krefjast þeir ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu.
Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna.
Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 7. september 2010.
2. Í úrskurði óbyggðanefndar, máli nr. 2/2008, er samkvæmt framansögðu m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem nefnt er afréttur lögbýlisins Arnarstaða, en einnig Arnarfells, sem er nýbýli úr því fyrrnefnda, reist árið 1939. Jarðir þessar eru austan Eyjafjarðarár í fyrrum Saurbæjarhreppi, nú Eyjafjarðarsveit, en með afsalsgjörningi frá 2008 varð Arnarfell eign Leyningsbúsins ehf.
Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.
Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 115 blaðsíður. Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggjast á. Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi og sveitarmörkum, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins. Gerð er grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir og svæði, en að lokum eru úrskurðarorð. Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004, en einnig í nokkrum síðari dómum réttarins. Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum.
3. Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum gögnum, sem aðilar vísa til, segir frá því að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Sturlubók og Hauksbók Landnámu. Í Sturlubók segir þannig um landnám Helga magra:
„Um várit gekk Helgi upp á Sólarfjöll; (Hámundarstaðafjall) þá sá hann, at svartara var miklu at sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eptir þat bar Helgi á skip sitt allt þat, er hann átti, en Hámundr bjó eptir. Helgi lendir þá við Galtarhamar; (Festarklettur í Kaupangssveit) þar skaut hann á land svínum tveimr, ok hét gölturinn Sölvi. Þau fundusk þremr vetrum síðar í Sölvadal; váru þá saman sjau tigir svína. Helgi kannaði um sumarit herað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness (Gjögurtá) ok gerði eld mikinn við hvern vatsós ok helgaði sér svá allt herað. Hann sat þann vetr at Bíldsá, en um várit færði Helgi bú sitt í Kristsnes.“
Lýsing Hauksbókar um landnámið í Eyjafirði hljóðar svo:
„Þann vetr bjó Helgi at Bíldsá, en um sumarit kannaði hann herað allt ok nam Eyjafjörð allan millim Sigluness ok Reynisness ok gerði eld mikinn við hvern vatsós við sjó ok helgaði sér svá allan fjörðinn nesa millim. Einum vetri síðar (færði Helgi bú sitt) í Kristnes.“
Í úrskurðinum er vísað til þess að Helgi magri hafi gefið ættingjum sínum af landnámi sínu í Eyjafirði og er í framhaldi af því vikið að búsetu vestan Eyjafjarðarár eftir landnám. Vísað er til nefndrar Hauksbókar þar sem segir að Helgi hafi gefið mági sínum Hámundi lönd vestan Eyjafjarðarár milli Merkigils og Skjóldalsár, en hann mun hafa búið ásamt afkomendum á Espihóli, en einnig á höfuðbýlunum Grund og Möðrufelli. Þá gaf Helgi Þóru dóttur sinni og eiginmanni hennar, Gunnari Úlfljótssyni, frá Bæ í Lóni, lönd upp frá Skjóldalsá og suður til Háls, en þau bjuggu í Djúpadal/Stóradal. Enn fremur gaf Helgi dóttur sinni Helgu og eiginmanni hennar, Auðuni rotin, land upp frá Hálsi og til Villingadals. Þau bjuggu í Saurbæ, skammt vestan Eyjafjarðarár, en handan árinnar var um aldir höfuðbýlið í byggðinni, Möðruvellir, en einnig landnámsjörðin Gnúpufell, þar sem Hrólfur, sonur Helga magra, reisti bú sitt. Nokkru norðan Gnúpufells og norðan Núpár, sem kemur úr Sölvadal, hafði Helgi gefið syni sínum Ingjaldi land upp frá Þverá hinni ytri fyrir austan Eyjafjarðará og allt til Arnarhvols. Ingjaldur bjó að Þverá hinni efri, sem síðar var nefnd Munkaþverá.
4. Það landsvæði sem hér er til umfjöllunar, Arnarstaðatungur, er í vestanverðum Eyjafjarðardal. Í úrskurði óbyggðanefndar segir um hið umþrætta landsvæði: „... að því megi í megindráttum skipta í tvennt. Annars vegar er undirlendi, vestan Eyjafjarðarár, í u.þ.b. 300 m hæð yfir sjávarmáli og með leguna norður-suður. Hins vegar er fjalllendi sem rís skarpt upp af undirlendinu og teygir sig vestur inn á hásléttu milli Eyjafjarðardals að austan og Austari-Jökulsár í Skagafirði að vestan. Þar er Tungnafjall (843 m) nyrst, suðvestan þess varðan Sankti Pétur (955 m). Vestan Kerlingarhnjúks, í um 880 m, liggja Urðarvötn og teygja sig norður undir áðurnefndan Sankti Pétur.“
Um vestur- og suðurmörk Eyjafjarðarsýslu, en einnig um fjallskil á svæðinu á næstliðnum öldum, er í úrskurðinum vísað til fræðiritsins Lýsing Eyjafjarðar I eftir Steindór Steindórsson náttúrufræðing, sem gefin var út árið 1949, en þar segir m.a.:
„Suður frá Öxnadalsheiði liggja mörkin eftir háfjallinu milli Austurdals og Nýjabæjarafréttar í Skagafirði og Eyjafjarðardals. Kann ég þar ekki að rekja örnefni, sem þau séu við tengd, enda mun fátt um þau, ef nokkur eru. Liggja sýsluskilin hlykkjótt þar, engu að síður en norðar í fjallgarðinum. Þegar dregur inn fyrir byggðir, eru engar ákveðnar merkjalínur til, og mun gamalt sölubréf Nýjabæjar í Austurdal frá 1464 vera hin eina heimild þar um, en þar segir svo: að Nýibær eigi land „að Tinná og svo langt á fjöll sem vötn draga“ Verður það varla skilið öðruvísi en svo, að vatnaskil ráði merkjum allt inn til jökla. Þó munu Urðarvötn ætíð vera talin til Eyjafjarðar, en samt segja kunnugir, að afrennsli þeirra sé til vesturs. Svo mun almennt talið nú, að öræfasvæðið inn af Eyjafirði sé almenningur frá Geldingsá, er fellur í Jökulsá austari og inn að Hofsjökli og suður á Sprengisand og austur undir drög Fnjóskár. En síðan tekið var að smala land þetta, sem ekki mun hafa verið fyrr en seint á síðastliðinni öld, hefir smalamennska einkum fallið í skaut Eyfirðinga, allt suður undir Fjórðungskvísl, þar sem mörk eru talin milli Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungs. Eftir þessu verður því ekki hægt að ákveða sýsluskil að sunnanverðu, en eftir því sem annars staðar hagar til, ættu þau að liggja á vatnaskilum þar sem vötn byrja að falla til Eyjafjarðar.“
Í úrskurði óbyggðanefndar er um staðhætti nánar vísað til ritsins Byggðir Eyjafjarðar II frá 1990, en þar segir: „Fjöllin umhverfis Saurbæjarhrepp eru 1000-1200 metra há, klettótt og skriðurunnin. Gróðurlendi er talsvert neðan til í hlíðum en lítið þegar ofar dregur. Að ofan eru fjöllin víðast flöt og nær algjörlega gróðurlaus. Afréttir eru því eingöngu í dölum framan byggðar og göngur stuttar.“
Fremsta hluta Eyjafjarðardals er lýst í ritinu Sýslu- og sóknarlýsingar Mikla- og Hólaprestakalls, sem ritað var af J. Kröyer aðstoðarpresti árið 1840. Segir þar að dalurinn sé mjög langur, en síðan segir: „... að austanverðu nefnist hann Tjarnadalur að ... Klifsá. Frá Klifsá til Svínár er ... Svínárheiði ... grösugt afréttarland. Fyrir framan Svíná og fram í gegn kallast Runa beggja vegna, allt til Sandár að vestan, þá Lambatorfur, og enn nær byggð Arnarstaðatungur, heimast Úlfárheiði.“ Landsvæðinu í og við Arnarstaðatungur er síðan nánar lýst þannig: „Vestanvert við Eyjafjarðardal er fjall, sem kallast Tungnafjall og plássið undir Lambatorfur, en norðar er Hjallahnjúkur. Vestanundir téðum hnjúk liggur Vatnahjalli, yfir hvern Eyfirðingavegur er suður. Lengra til norðurs er Hafrárdalsöxl, er dregur nafn af Hafrárdal, sem er lítið dalsdrag til suðsuðvesturs upp í hvern Vatnahjallavegurinn liggur úr byggð suður. Norðar að vestanverðu er Torfufellsfjall og Úlfárheiði. Þetta fjall er hæst móti norðri og eru þaðan öræfi til vestur allt að Stórahvammi á Austurdalsafrétt, fram úr Skagafirði ...“.
5. Í úrskurði óbyggðanefndar er að nokkru vikið að heimildum um fremstu jarðir vestan Eyjafjarðarár, þ. á m. jarðirnar Úlfá, Hólsgerði, Torfufell og Leyning. Í úrskurði nefndarinnar nr. 1/2008 er hins vegar fjallað um jarðir austan Eyjafjarðarár, þ. á m. Tjarnir, Halldórsstaði, Jökul, Vatnsenda, Hóla, Arnarstaði og Æsustaðagerði.
Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 2/2008 er greint frá heimildum um jarðirnar Arnarstaði, Arnarfell og afréttarlandið Arnarstaðatungur. Segir frá því að heimildir greini frá því að Gunnar Pétursson hafi selt Jóni Ólafssyni jörðina Hóla í Eyjafirði með bréfi gerðu 14. mars 1375 í Auðbrekku og að þar komi fram ítök jarðarinnar, sbr.:
„... med þeim gögnum oc gædum sem hann vard eigandi at. ut aa midian markgard. þar med eyiafiardardal fram fra klifsaa jardareign. eiga jardir lambarekstr utan fra gerdi oc upp til tiarna. oc eigi verit at talit þo at farit hafi eldri saudir. torfskurd i arnarstadi sem landinu þarfnaz. selför j tiarna land. svo morgu fe sem heima at holum fædiz þremr kuum og hrossi. skogar part j leynings jord ...“
Þá segir í úrskurðinum frá því að lögmaðurinn Þorvarður Einarsson (svo) og Grímur Pálsson hafi átt með sér jarðaskipti um jarðir, þ. á m. Arnarstaði, sem metin hafi verið á 50 hundruð að dýrleika. Liggur fyrir að þessi gjörningur var gerður á höfuðbýlinu Möðruvöllum í Eyjafirði 18. september 1501. Þá liggur fyrir, sbr. dskj. nr. 56, að Þorleifur, sonur Gríms, gaf dóttur sinni Þuríði jörðina Arnarstaði árið 1531, en sá gjörningur var skráður á nágranna- og landnámsjörðinni Gnúpufelli.
Í úrskurðinum er um búskaparhætti og landgæði Arnarstaða vísað til Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1712. Í Jarðabókinni segir frá því að ábúandi Arnarstaða hafi leigt beit af nágrannajörðinni Hólum. Í nefndri heimild er tekið fram að Arnarstaðir eigi selför í Arnarstaðatungum, nánar tiltekið í vestanverðum Eyjafjarðardal á milli Hafrár og Strangalækjar. Um þetta segir nánar í Jarðabókinni:
„Útigángur ljettur og graslítill, og þiggja ábúendur beit á báður hendur af nágrönnum fyrir xxx álna toll til Hóla og báðar hendur af nágrönnum fyrir xxx álna toll til Hóla og óákveðinn góðvilja á hina síðuna [...].
Selför með tilliggjandi landi á jörðin fram á Eyjafjarðardal vestan framm, sem er allar Arnarstaðatúngur á milli Hafraár og Strángalækjar, hefur áður brúkast, en nú ekki í margt ár, því landið er mjög haglítið fyrir stórgripi. [...]
Enginu spilla og skriður úr fjallinu skaðlega, og so Eyjafjarðará með sandsáburði. Úthagarnir eru mjög uppblásnir, og því fá ábúendur beit af Hólum vetur og sumar fyrir xxx álna toll ut supra.“
Í úrskurðinum segir frá því að árið 1791 hafi á manntalsþingi, að Saurbæ í Eyjafirði, verið lesin upp lögfesta fyrir jörðina Arnarstaði, en að inntaks hennar hafi ekki verið getið. Hins vegar hafi á manntalsþinginu ári síðar, þann 4. júní, komið fram aðvörun frá sýslumanni um að bændur skyldu ekki reka hross á svokallaðar Arnarstaðatungur. Fram kemur að sýslumaður hafi látið þess getið að það varðaði sektum að brúka heimildarlaust annarra manna land.
Í úrskurðinum segir frá því að upplesin hafi verið lögfesta fyrir nágrannajarðir Arnarstaða, þ.e. Hólatorfu og þeirra afrétt í Eyjafjarðardal þann 5. júní árið 1822, en í því viðfangi hafi verið vikið að merkjum lands Arnarstaða í dalnum:
„Eg, Proprietarius Hoola Torfu, Liggande innann Ejafiardar Syslu og Saurbæar Hrepps, Lögfeste hermed, under Nefnda Torfu allann Ejafiardar Dahl, til Jtstu Takmarka sem adrir Menn í móte eíga, og her med á nafn nefne.
Vestann Ejafiardar ár adskilia So Kalladur Straungu lækur Hoola og Arnarstada Land, hvarum Næstumm samann falla i Ejtt ad Nedann, enn kliúfast umm graslausa meela ofann fialls, þó skal sú kvyslinn hvert þad er sú fremri eda nordari, sem stærri og rettari er, landamerkjum ráda, og þaðann frá allt Land, hveriu nafne sem hejtir framm í dragsbotn.“
Greint er frá því að lögfestunni hafi ekki verið mótmælt af hálfu Arnarstaða.
Í úrskurðinum segir frá því að þann 18. maí 1825 hafi á manntals- og kóngsbréfaupplestursþingi að Saurbæ í Eyjafirði komið fram makaskiptabréf fyrir jörðinni Arnarstöðum með Arnarstaðatungum á móti jörðinni Draflastöðum. Samkvæmt dóma- og þingbók Eyjafjarðarsýslu hljóðar bréfið svo:
„Eptirskrifud fasteigna afsalsbref. a. Makaskiptabref Prests Sr Sigurdar adur her í Saurbæ og Bónda Sigurdar Sveinssonar ádur á Drablastödum af Dato 27da Júlii 1822 hvarmed fyrrnefndur burtmakaskiptir og afsalar til sídarnefnds Jördina Arnarstadi med Arnarstada Túngum móti Jördinni Drablastödum samt Jördinni Itsta Vatni í Skagafyrdi og 100 Speciu milligiöf frá Prestinum hvöriar fyrnefndar Jardir eru her í hrepp ½ pro Cto afgiftinn af milligiöfenni lagdist í Rettin med 1rS.“
Greint er frá því að í viðauka við mat Arnarstaða í Jarðatali Johnsens komi það fram að árið 1802 hafi þar verið með talin afrétt fyrir lömb frá tveimur jörðum. Hið sama kemur fram í mati jarðarinnar frá árinu 1804, en þar segir að afréttur liggi í landi Arnarstaða, sem tekin séu í lömb frá tveimur jörðum. Þá er vísað til þess að í jarðamati árið 1849 segir að jörðin eigi afrétt í Arnarstaðatungum í Eyjafjarðardal vestanverðum til eigin þarfa og að hann sé góður og grösugur. Aftur á móti er í úrskurði óbyggðanefndar vísað til Sýslu- og sóknarlýsingar frá 1840, þar sem segir almennt um afrétti Hólasóknar: „Í Hólasókn tíðkast ekki selferðir, því bæir ná hér flestir til fjalla eður afréttardala.“
Landamerkjabréf fyrir jörðina Arnarstaði var útbúið og þinglesið þann 20. maí 1890. Í bréfinu er lýst merkjum heimalands, en um merki afréttarlands jarðarinnar fremst í Eyjafjarðardal og um fyrri deilumál um afmörkun þess segir:
„...Sömuleiðis eiga Arnarstaðir afrjettarland í Arnarstaðatungum frá Hafrá að norðan fram að trippagarði þeim, sem stendur vestan Eyjafjarðarár.
Þess skal getið að Strangalækjarfjall í Arnarstaðatungum hefur verið þrætuland milli Hóla og Arnarstaða, en nú hafa jarðareigendurnir komið sjer saman um, að láta merkin vera um tryppagarðinn á móti Klaufá og eiga Arnarstaðamenn að hafa frían upprekstur fyrir 2 trippi í Hólaafrjett með því að viðhalda trippagarðinum vestan Eyjafjarðarár.“
Eigendur Arnarstaða, Randver Bjarnason og Helga Jóhannesdóttir, skrifuðu undir landamerkjabréfið. Það var samþykkt af Páli Pálssyni, eiganda Æsustaðagerðis, en einnig af Jóni Ólafssyni fyrir hönd Hólatorfueigenda.
Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að sýslufundargerð frá árinu 1894 um skrá yfir afrétti og fjárréttir „fram- Eyjafjarðar“, en þar er m.a. getið um afrétt í svonefndum Tjarnardal frá Glerá og í Hóladal og enn fremur að Hafráin greini Arnarstaðatungur frá Úlfárlandi, en að þar norðan við sé m.a. afréttur Torfufellsdals og Leyningsdals.
Í mati um Arnarstaði, í fasteignamatinu 1916-1918, segir að jörðinni fylgi afrétturinn Arnarstaðatungur sem sé aðeins notaður fyrir búfé jarðarinnar.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að Stjórnarráð Íslands hafi sent öllum sýslumönnum landsins bréf þann 29. desember 1919, þar sem lagt hafi verið fyrir þá, vegna þingsályktunar um rétt ríkisins til vatnsorku í „almenningum“ frá 27. september s.á., að skila skýrslu við fyrsta tækifæri um svæði í sýslum þeirra sem teldust vera „almenningar“ og um „afréttarlönd“ sem ekki sannanlega hefðu tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli. Í svarbréfi Júlíusar Havsteen, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, sem dagsett er 27. september 1920, segir m.a. að hann hafi aflað umsagna hreppstjóra og borið svör þeirra saman við landamerkjabók sýslunnar. Verður ráðið að til grundvallar svarbréfi sýslumanns hafi m.a. verið bréf Benedikts Einarssonar, bónda á Hálsi og hreppstjóra Saurbæjarhrepps, sem dagsett er 8. mars 1920, en þar segir m.a.: „[...] allir afrjettir hjer í hreppi eru einstakra manna eign, en almenningar eru hjer engir.“ Þá er þar vikið að fjallskilum á umræddu landsvæði, sem m.a. hafa verið nefnd Fjöll/Laugafellsleitir.
Í sveitarlýsingu Saurbæjarhrepps í ritinu „Byggðir Eyjafjarðar“ frá 1973 er vikið að afréttarsvæðum hreppsins. Er í því viðfangi greint frá fyrrnefndu hæstaréttamáli nr. 128/1967, en tekið er fram að deiluaðilum hafi hvorugum verið dæmdur eignarrétturinn að hálendissvæðinu suður af Eyjafjarðardölum. Af þessu er dregin eftirfarandi ályktun:
„Afréttir Saurbæjarhrepps eru því aðeins í óbyggðum dölum, hvergi um langleiðir að ræða, og víðast er réttað samdægurs. Bestu afréttirnir eru þar sem jarðir hafa farið í eyði við afréttarmörkin, svo sem í Sölvadal og Djúpadal.“
Í bréfi sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, dagsettu 1. ágúst 1979, sem ritað var vegna fyrirspurnar um afrétti í sýslunni, segir um afréttarlönd Saurbæjarhrepps á Eyjafjarðardal:
„1. Glerárdalur að sunnan og Tjarnardalur fram að Trippagarði í Klífsheiði. Heyrir undir Tjarnir og Halldórsstaði.
2. Klifsheiði frá trippagarði, Svínheiði og Botn að austan og vestan að Sandá. Heyrir undir Hóla.
3.Torfur frá Sandá að Trippagarði í Lækjarfjalli. Heyrir undir Jórunnarstaði.
4. Arnarstaðatungur frá Trippagarði í Lækjarfjalli að Hafrá. Heyrir undir Arnarstaði og Arnarfell og
5 Úlfárheiði, frá Hafrá að Úlfá. Heyrir undir Hólsgerði.“
Vegna fyrirspurnar félagsmálaráðuneytisins frá 20. febrúar 1989 til sveitarstjórna, um fjallskil, afrétti og eignarrétt jarða, liggur fyrir bréf hreppsnefndar Saurbæjarhrepps, sem dagsett er 8. janúar 1990, en þar segir m.a.: „[...] Hér eru engin afréttarlönd önnur en fjallshlíðarnar ofan við girt heimalönd og dalskorur sem ganga inn í hálendið út frá byggðum dölum. Öll þessi afréttarlönd eru í einkaeigu og er annað ekki til. [...]“
6. Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, er vísað til framangreindra heimilda, að því er varðar sögu, afmörkun, ráðstöfun að eignarrétti og nýtingu Arnarstaðajarðarinnar, en einnig um hið umþrætta afréttarsvæði hennar í Eyjafjarðardal. Bent er á að af þessum heimildum, sem nái allt aftur til 14. aldar, verði ráðið að Arnarstaðir hafi verið sjálfstæð jörð. Þá er bent á að fyrst hafi verið getið um Arnarstaðatungur í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1712.
Í úrskurðinum segir að Arnarstaðir, ásamt nýbýlisjörðinni Arnarfelli, liggi utan við ágreiningssvæðið Arnarstaðatungur. Jörðin sé þannig aðskilin frá afréttarlandinu af öðrum jörðum, en í ódagsettu landamerkjabréfi, þinglýstu 20. maí 1890, sé annars vegar lýst merkjum jarðarinnar, en hins vegar „afréttarland(i) í Arnarstaðatungum“. Staðhæft er að af heimildum megi ráða að við gildistöku þjóðlendulaga hafi Arnarstaðatungur haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram að gildistöku þjóðlendulaga. Að þessu sögðu fjallar óbyggðanefnd um það álitaefni hvort í því hafa falist bein eða óbein eignarréttindi til landsvæðisins, þ.e. hvort þar sé eignarland eða þjóðlenda samkvæmt skilgreiningum í 1. gr. þjóðlendulaga.
Til grundvallar að úrlausn álitaefnisins fjallar óbyggðanefnd um hvernig merkjum „afrjettarlands í Arnarstaðatungum“ sé lýst í fyrrgreindum heimildum. Þar um er sérstaklega vísað til fyrrnefnds landamerkjabréfs Arnarstaða og Jarðabókarinnar frá 1712, en einnig áðurrakins bréfs sýslumanns Eyjafjarðarsýslu frá 1. ágúst 1979. Þá er í úrskurðinum einnig fjallað um heimildir sem greina frá merkjum aðliggjandi landsvæða. Til vesturs er þannig litið til landsvæða jarðanna Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár, en til norðurs er sagt að sé óumdeilt eignarland nefndra jarða. Þá er bent á að til austurs, handan Eyjafjarðarár, sé óumdeilt eignarland Tjarna. Til suðurs er sagt að sé ágreiningssvæðið Hólaafréttur, sbr. mál nefndarinnar nr. 1/2008.
Í úrskurðinum er vísað til þess að samkvæmt landamerkjabréfi Arnarstaða afmarkist „afrjettarland í Arnarstaðatungum“ frá Hafrá að norðan fram að trippagarði þeim, sem stendur vestan Eyjafjarðarár.“ Þá er vísað til svofelldra orða í bréfinu: „Strangalækjarfjall í Arnarstaðatungum hefur verið þrætuland milli Hóla og Arnarstaða, en nú hafa jarðeigendurnir komið sjer saman um, að láta merkin vera um tryppagarð einn á móti Klaufá“. Vísað er til þess að bréfið hafi verið áritað vegna Hóla til suðurs, en ekki til annarra átta. Bent er á að í Jarðabókinni frá 1712 segir að Arnarstaðatungur séu „á milli Hafraár og Strángalækjar“. Í lýsingu á Arnarstaðatungum í bréfi sýslumanns Eyjafjarðarsýslu frá 1. ágúst 1979 sé merkjum lýst í samræmi við þetta.
Í úrskurðinum segir að heimildir um merki Arnarstaðatungna kveði ekki sérstaklega á um merki til austurs, en áréttað er að þar á móti liggi óumdeilt eignarland Tjarna samkvæmt landamerkjabréfi þeirrar jarðar, frá 15. júní 1923, þinglýstu 19. júní sama ár. Vísað er til þess að því miðist vesturmerki Tjarna við Eyjafjarðará, en bréfið hafi verið áritað vegna Arnarstaða. Bent er á að austurmerkjum Arnarstaðatungna sé ekki sérstaklega lýst í heimildum, en engu að síður verði að telja þau skýr og vafalaus við Eyjafjarðará, sbr. það sem áður var rakið, þ.e. frá Hafrá og suður í Strangalækjarfjall.
Að því er varðar merki Arnarstaðatungna til vesturs er áréttað í úrskurðinum að vestan afréttarlandsins sé ágreiningssvæði íslenska ríkisins og eigenda jarðanna Úlfár, Hólsgerðis og Torfufells, sameiginlega, en ágreiningslaust eignarland sömu jarða sé þegar norðar dregur. Vísað er til þess að landamerkjabréf jarðarinnar Úlfár, sem liggi syðst framangreindra þriggja jarða, lýsi merkjum til suðurs og suðausturs þannig að tekin sé „bein stefna frá Eyjafjarðará í Hafrárgljúfur, [og] þaðan ræður Hafrá til fjallsbrúnar.“ Bent er á að bréfið sé áritað vegna Arnarstaða. Beri heimildum saman um að merkin á milli Arnarstaðatungna og Úlfár miðist við Hafrá, en í bréfi Úlfár segi að auki „til fjallsbrúnar“. Nánar segir í úrskurðinum um vestur- og suðvesturmerki Arnarstaðatungna:
„Suðvestan Arnarstaðatungna, sunnan kröfusvæðis eigenda Torfufells, Hólsgerðis og Úlfár, er landsvæði sem deilt er um í máli nr. 4/2008 hjá óbyggðanefnd, þar sem m.a. er fjallað um Nýjabæjarafrétt. Fram kemur að ekkert landamerkjabréf er til fyrir svæðið og heimildir um afmörkun þess gagnvart landsvæðum í Eyjafirði óljósar. Niðurstaða óbyggðanefndar er þó sú að merki afréttarins nái að kröfusvæðum gagnaðila ríkisins í máli nr. 2/2008.“
Að því er varðar landsvæðið sunnan Arnarstaðatungna er í úrskurðinum áréttað að þar sé afréttarland Hóla, en þar um er m.a. vísað til landamerkjabréfa þeirrar jarðar frá 23. maí 1889 og þinglýstu 24. maí sama ár og yngra landamerkjabréfs Hólajarðarinnar frá 15. júní 1923 og þinglýstu 19. júní 1923. Þar sé miðað við að norðurmerki nái vestur að sýslumörkum. Þá segir í úrskurðinum: „Hið eldra landamerkjabréf greinir jafnframt frá eftirfarandi: „Þess skal getið að garðurinn að vestanverðu við Eyjafjarðará stendur framar en í miðju Strangalækjarfjalli, en Strangalækjarfjall hefur verið þrætuland milli Háls og Arnarstaða, nú hafa hlutaðeigendur komið sjer saman um að láta merkin vera um trippagarðinn í móti Klaufá“.“
Að öllu þessu sögðu segir í úrskurði óbyggðanefndar:
„Samkvæmt framangreindu ber landamerkjabréfum Arnarstaða og Hóla saman um merki á milli Arnarstaðatungna og Hólaafréttar en í bréfum Hóla segir að auki „til sýslumóta“ um vesturmerkin. Bréf Hóla og Arnarstaða bera gagnkvæmar áritanir. Í eldri heimild um merki Hólatorfu, lögfestu frá árinu 1822, er einnig að finna lýsingu á merkjum Hólaafréttar gagnvart Arnarstaðatungum. Þar segir svo: „Vestann Ejafiardar ár adskilia So Kalladur Straungu lækur Hoola og Arnarstada Land, hvarum Næstumm samann falla i Ejtt ad Nedann, enn kliúfast umm graslausa meela ofann fialls, þó skal sú kvyslinn hvert þad er sú fremri eda nordari, sem stærri og rettari er, landamerkjum ráda, og þaðann frá allt Land, hveriu nafne sem hejtir framm í dragsbotn.“ Í lögfestunni er vestanverðum norðurmerkjum Hólaafréttar, gagnvart Arnarstaðatungum, þannig lýst „framm í dragsbotn“.“
Í úrskurðinum er vísað til þess að stefnendur miði vesturmerki Arnarstaðatungna við línu sem dregin er frá framangreindum trippagarði gegnt Klaufá suðvestur í Kerlingarhnjúk og að vatnaskilum og sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps við suðurenda Urðarvatns nyrðri og þaðan norðaustur yfir vötnin og loks í upptök Hafrár. Um þetta segir nánar í úrskurðinum: „Hér ber þess að geta að Urðarvötn (880 m) mynda glögg landfræðileg skil suðvestur og vestur af Sankti Pétri (955 m), Strangalækjafjalli og Kerlingarhnjúk (1057 m), sbr. þá staðhætti sem áður var lýst. Norðurmerki Arnarstaðatungna miðast við Hafrá, sem á upptök sín norðan og norðvestan Sankti Péturs og ljóst er að Strangalækjafjall hefur verið talið til Arnarstaðatungna og Hóla, sbr. einnig vísan til „sýslumóta“ að þessu leyti í landamerkjabréfi Hóla frá 1889. Með vísan til þessara atriða telur óbyggðanefnd að sú afmörkun gagnaðila íslenska ríkisins á landi Arnarstaðatungna sem að framan var lýst fái staðist samkvæmt heimildum og styðjist við staðhætti á svæðinu.“
Í úrskurði sínum gerir óbyggðanefnd grein fyrir forsendum að niðurstöðu sinni um eignarhald á hinu umþrætta landsvæði, Arnarstaðatungum, eins og það er hér að ofan afmarkað. Í því viðfangi er m.a. fjallað um dóm Hæstaréttar Íslands frá 29. apríl 1969, í máli nr. 128/1967 (Nýjabæjarafréttur). Segir í úrskurðinum þar um:
„Aðilar málsins voru Upprekstarfélag Saurbæjarhrepps, Eyjafjarðarsýslu, og sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu til réttargæslu gegn eigendum Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli, Akrahreppi, Skagafjarðarsýslu og sýslunefnd Skagafjarðarsýslu til réttargæslu. Áfrýjendur, þ.e. Upprekstarfélag Saurbæjarhrepps, höfðuðu málið fyrir landamerkjadómi Eyjafjarðarsýslu. Hér skal þess getið að jarðirnar Arnarstaðir og Arnarfell eru í Saurbæjarhreppi, sem nú er hluti Eyjafjarðarsveitar, og aðilar að Upprekstrarfélaginu.
Í forsendum dómsins er tekið fram að málsaðilar deili um eignarrétt að landsvæði því sem um sé að tefla en ekki upprekstrarrétt. Jafnframt segir þar að Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps reisi kröfur sínar á því að hafa tekið heimildir á landsvæði þessu frá fyrri eigendum jarðanna Möðruvalla og Hóla í Saurbæjarhreppi, sem frá fornu fari hafi talist taka yfir landsvæðið. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að hvorki Upprekstrarfélagið né gagnaðilar þess í málinu hefðu fært fram gögn fyrir fullkominni eignartöku að fornu eða nýju á umræddu landsvæði og kröfur hvorugs teknar til greina.
Hluti þess svæðis sem ágreiningur þessi stóð um liggur innan afmörkunar á kröfusvæðum eigenda Arnarstaða og Arnarfells á Arnarstaðatungum í máli þessu. Þar er nánar tiltekið um að ræða þann hluta sem liggur austan Urðarvatna en vestan vatnaskila. Skal í þessu sambandi vísað til afmörkunar á ágreiningssvæði aðila dómsmálsins, svo sem hún kemur fram í málsskjölum, og legu vatnaskila á uppdrætti sem óbyggðanefnd hefur aflað frá vatnamælingum Veðurstofu Íslands. Í kröfugerð Upprekstrarfélagsins er þess þannig krafist að landamerki fyrir umráðasvæði félagsins að vestan, að því leyti sem hér getur skipt máli, verði viðurkennd og ákveðin þannig að „Nyrzt ráði merkjum Fossá frá upptökum nyrðri kvíslar til ármóta hennar og Jökulsár eystri“.
Enda þótt kröfur málsaðila í umræddu dómsmáli hafi ekki lotið að viðurkenningu beins eignarréttar telur óbyggðanefnd ljóst að rétturinn hafi hafnað því að málsaðilar hefðu sýnt fram á beinan eignarrétt sinn til umrædds landsvæðis, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu. Í því sambandi er vísað til orða dómsins þar sem segir: „Í máli þessu er deilt um eignarrétt að landsvæði því, sem um er að tefla, en eigi upprekstarrétt“ og „hvorki áfrýjandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því sem um er að tefla í máli þessu.“ Óbyggðanefnd hefur ekki heimild til að hnekkja eða breyta niðurstöðum dóma, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Til skoðunar þarf þó að taka heimildir um Arnarstaði, Arnarfell og Arnarstaðatungur, þar sem af hálfu Upprekstrarfélagsins var ekki byggt á þeim og þær ekki til umfjöllunar í dómnum. Einnig ber að líta til þess að dómurinn felur ekki í sér úrlausn um eignarréttarlega stöðu umrædds lands samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, með síðari breytingum. Ljóst er þó að af hálfu Upprekstrarfélags Saurbæjarhrepps var ekki litið svo á að það landsvæði austan Urðarvatna en vestan vatnaskila (sem) að framan var lýst lægi innan merkja Arnarstaðatungna.“
Að ofangreindu sögðu fjallar óbyggðanefnd um þýðingu landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi og vísar þar um til fyrirliggjandi umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar um það efni, sem m.a. voru birtar í viðauka með úrskurðinum í kafla sem nefndur er Almennar niðurstöður óbyggðanefndar, en segir síðan:
„Þannig liggur fyrir sú niðurstaða Hæstaréttar að við mat á gildi landamerkjabréfa og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem þar er lýst, skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig t.d. afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt. Þá hafi menn ekki eingöngu markað sér landsvæði háð beinum eignarrétti, heldur einnig mörk ítaka, afrétta og allra annarra réttinda í lönd sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.
Landamerkjabréf fyrir Arnarstaði var gert í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882, þinglesið og fært í landamerkjabók. Svo sem áður var rakið benda fyrirliggjandi gögn til þess að merkjum „afrjettarlands í Arnarstaðatungum“ sé þar rétt lýst, svo langt sem sú lýsing nær.
Arnarstaðatungur eru landfræðilega aðskildar frá Arnarstöðum og heimildir greina frá því að þar hafi verið selstaða og afréttur Arnarstaða. Þannig segir í elstu heimild um Arnarstaðatungur, þ.e. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, að Arnarstaðir eigi „Selför með tilliggjandi landi [...] fram á Eyjafjarðardal vestan framm, sem er allar Arnarstaðatúngur á milli Hafraá og Strángalækjar“. Jafnframt segir í áðurnefndu landamerkjabréfi Arnarstaða að jörðin eigi „afrjettarland í Arnarstaðatungum“. Á manntalsþingi 1792 kom fram aðvörun af hendi sýslumanns um að ekki skyldu bændur reka hross á „sokalladar Arnarstada Tungur“ Arnarstaðatungur eru sagðar afréttur Arnarstaða í jarðamatinu 1849 og fasteignamatinu 1916-1918. Landsvæði þetta hefur fyrst og fremst verið nýtt til sumarbeitar og e.t.v. annarra takmarkaðra nota. Það er að mestum hluta hálent og inn á það hefur búfénaður leitað án hindrana.“
Í lokaorðum rökstyður óbyggðanefnd í úrskurði niðurstöður sínar og þá í ljósi áðurrakinna gagna:
„Óbyggðanefnd telur framangreint benda til þess að Arnarstaðatungur hafi verið afréttur eigenda Arnarstaða, og síðar Arnarfells að auki, í þeim skilningi að þeir hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.
Svo sem rakið er ... er því ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til fjalla landnám á þessu svæði náði, en sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar sé a.m.k. að hluta innan þess. Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Þannig kann beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfarið tekið til takmarkaðra nota annarra. Í því sambandi ber að líta til þess sönnunarmats sem lagt hefur verið til grundvallar um afrétti einstakra jarða og/eða stofnana og styðst við fjölda dóma í sambærilegum málum, .... Þess skal einnig getið að á þeim landsvæðum sem nærri Arnarstaðatungum liggja eru bæði eignarlönd og þjóðlendur, sé litið heildstætt á niðurstöður í málum nr. 1, 2 og 4/2008 hjá óbyggðanefnd.
Í máli þessu er þannig ekki sýnt fram á annað en að réttur til Arnarstaðatungna hafi orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.
Að öllu framangreindu virtu hefur, af hálfu eiganda Arnarstaða og Arnarfells, ekki verið sýnt fram á að „afrjettarland í Arnarstaðatungum“ sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda og er fallist á kröfu íslenska ríkisins þess efnis. Af fyrirliggjandi gögnum verður jafnframt ráðið að umrætt landsvæði sé í afréttareign eigenda Arnarstaða og Arnarfells.
Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hefur verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign eru misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taka þó breytingum, auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld. Land það sem hér er til umfjöllunar verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði [...] sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.
Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem kallað hefur verið Arnarstaðatungur, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Trippagarði þeim, sem stendur vestan Eyjafjarðarár, á móti Klaufá, er fylgt svo langt sem hann nær og síðan dregin lína yfir Strangalækjafjall og Kerlingarhnjúk, að mörkum Akrahrepps og Eyjafjarðarsveitar í suðurenda Urðarvatns nyrðra. Þá er haldið norðaustur yfir vatnið og í upptök Hafrár, sem síðan ræður merkjum þar til hún rennur í Eyja-fjarðará. Loks er Eyjafjarðará fylgt þar til komið er á móts við fyrstnefndan trippagarð á móti Klaufá.
Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Arnarstaða, Arnarfells og Arnarfells lands, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“
II.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Aðalkröfu sína byggja stefnendur á því að umrætt landsvæði, Arnarstaðatungur, eins og því er lýst hér að framan, sé háð eignarrétti/eða sé eign þeirra, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62, 1994. Stefnendur styðja aðalkröfu sína enn fremur þeim rökum sem hér á eftir verða tíunduð.
Stefnendur byggja á því að það landsvæði sem afmarkað er í aðalkröfu þeirra hafi frá öndverðu verið numið og hafi sá eignarréttur ekki fallið niður síðan og því sé hið umdeilda land háð eignarrétti þeirra. Þessu til stuðnings vísa stefnendur til Landnámu, er lýsi m.a. landnámi Helga magra í Eyjafirði og að í kjölfarið hafi sonur hans, Ingjaldur í Gnúpufelli, fengið land austan Eyjafjarðarár upp frá Þverá hinni ytri til Arnarhváls. Er á því byggt að af þessu megi ráða að allt landsvæðið, og þar með Arnarstaðatungur, hafi verið numið í öndverðu. Benda stefnendur á að oft hafi Landnáma verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands, í máli frá 1960, bls. 726, og í máli frá 1994, bls. 2228. Þessu til stuðnings vísa stefnendur einnig til umfjöllunar óbyggðanefndar í Almennum niðurstöðum í fyrri úrskurðum hennar.
Stefnendur byggja á þeirri meginreglu íslensks eignarréttar að landsvæði með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og að sá er haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því. Halda stefnendur því fram og árétta að landsvæðið Arnarstaðatungur hafi allt frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti, enda fari landnámsheimildir í Eyjafirði ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar Arnarstaða. Stefnendur benda einnig á að við landnám hafi landið verið betur gróið og náð lengra inn á heiðar en nú sé.
Stefnendur vísa til þess að ódagsett landamerkjabréf fyrir jörðina Arnarstaði, þinglýst 20. maí 1890, hafi verið fært í landamerkjabók án athugasemda og hafi það ráðið merkjum síðan. Stefnendur byggja á því að þetta styðji eignatilkall þeirra og því sé úrskurður óbyggðanefndar rangur, sbr. fyrrnefnd eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
Stefnendur benda á að við setningu landamerkjalaganna nr. 5, 1882 og síðan laga nr. 41, 1919 hafi það verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna og þau skráð og að leyst yrði úr ágreiningi um merki ef slíkt væri fyrir hendi. Stefnendur vísa til þessa tilgangs landamerkjalaganna og að það styrki það að umrætt landsvæði, Arnarstaðatungur, sé háð beinum eignarrétti.
Stefnendur byggja á því að landamerkjabréf Arnarstaða hafi stoð í eldri heimildum, en um það vísa þeir til þess sem rakið var hér að framan úr úrskurði óbyggðanefndar. Vísa stefnendur til efnis landamerkjabréfsins og að það hafi verið áritað og samþykkt af hlutaðeigandi aðilum, en benda einnig á landamerkjabréf aðliggjandi jarða, jarðamöt, fasteignamöt og fleiri gögn. Þá vísa stefnendur sérstaklega á áðurrakið jarðamat frá 1849-50, en einnig á bann sýslumanns árið 1791 og einnig til umfjöllunar um Arnarstaði í Jarðabókinni árið 1712. Þeir byggja á því að þessar heimildir fari ekki gegn landamerkjabréfinu og bendi því eindregið til þess að Arnarstaðatungur hafi haft stöðu eignarlands. Stefnendur vísa og til þeirra sjónarmiða sem fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004. Þar hafi það verið talið skipta máli hvort land teldist innan upphaflegs landnáms og hvort að með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum.
Stefnendur byggja á því að þeir hafi nýtt umrædda eign til beitar, og til annarra mögulegra einkanota, en enn fremur hafi enginn átt þar sjálfstæðan upprekstrarrétt eða afnotarétt nema þeir, en um þetta er vísað til áðurrakinnar umfjöllunar í úrskurði óbyggðanefndar. Þá hafi landeigendur greitt skatta og önnur lögboðin gjöld af öllu landi jarðarinnar. Stefnendur benda á að eignarréttur þeirra á landsvæðinu hafi verið virtur af öllum frá ómunatíð, þar á meðal af stefnda, sem m.a. hafi lýst sér í því að þeir hafi getað bannað öðrum not eignarinnar. Eignarréttur stefnenda hafi auk þess verið virtur í öllum viðskiptum, en af þeim sökum sé eignarhald þeirra einnig byggt á viðskiptavenju.
Stefnendur byggja á því að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt landsvæði sé undirorpið eignarrétti í skilningi fyrrnefndrar 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, en fullur hefðartími sé liðinn frá því að þeir tóku að nytja landið. Árétta stefnendur að öll afnot og nytjar landsins séu háðar leyfi þeirra sem landeigenda, enda hafi enginn notað landið með nokkrum hætti nema eigendur þess.
Stefnendur benda á að sjónarmið óbyggðanefndar þess efnis að flokka beri hefð með lögum sem frumstofn eignarréttar hafi ekki verið hnekkt af Hæstarétti. Þannig hafi verið viðurkennt að hefðarlög heimili eignarhefð lands, sem sé í opinberri eigu, og þeim mun fremur hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki sé eignarrétti háð. Um þetta vísa stefnendur til rita fræðimanna svo og dóma Hæstaréttar, m.a. frá árinu 1997, bls. 2792, og frá árinu 1999, bls. 28, en þar hafi eignarhefð verið viðurkennd. Enn fremur vísa stefnendur til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) frá 9. desember 1994, series A 301 – A, og loks til rita fræðimanna um venjurétt. Árétta stefnendur að þeir og fyrri eigendur Arnarstaða hafi nýtt öll réttindi hins umþrætta landsvæðis öldum saman.
Stefnendur benda á að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign/eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstóli Evrópu. Vísa þeir til þess að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmálann hafi verið túlkað af dómstólum á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu.
Stefnendur byggja á lögmætum væntingum, en þar um vísa þeir til þeirra sjónarmiða sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafi lagt til grundvallar í sambærilegum málum. Benda þeir á að dómstóllinn hafi þannig lagt til grundvallar að væntingar einstaklinga eða lögaðila til að njóta eigna sinna séu verndaðar af 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við MSE ef þær séu byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi (legal act), sem tengdur sé við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll.
Stefnendur benda á að verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem þeir hafi teflt fram í málinu séu fullnægjandi, sé verið að mismuna eigendum jarða með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi. Slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar að áliti stefnenda.
Í ljósi alls framangreinds byggja stefnendur á því að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum ranglega metið sönnunargögn málsins og ekki beitt lögum um réttarágreining með réttum hætti.
Stefnendur byggja á því að þeir hafi sannað beinan eignarrétt sinn að umræddu landi, en íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að það hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrá eignast landið. Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.
Stefnendur gera í málarekstri sínum, og þ. á m. í málflutningi, ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar og þar með röksemdir stefnda. Falla þær í meginatriðum saman við áðurraktar málsástæður og lagarök þeirra. Stefnendur árétta m.a. að það sé almenn lagaregla á Íslandi, að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar og að frá þeirri reglu verði ekki vikið nema að sá sem véfengir réttmæti slíkra heimilda sýni fram á betri rétt sinn eða annarra eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um eignarréttinn.
Þessu til viðbótar telja stefnendur að málatilbúnaður stefnda sé í andstöðu við tilgang löggjafans við setningu umræddra laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sbr. að því leyti ákvæði 1. gr. laganna. Þeir árétta að umrætt landsvæði, Arnarstaðatungur, séu innan þinglýstra landamerkja landareigna og því sé ekki um eigendalaust land að ræða, en landeigendur hverju sinni hafi farið þar einir með öll venjuleg eignarráð, bæði raunveruleg og réttarleg yfirráð.
Stefnendur benda á og árétta að í áðurnefndum almennum niðurstöðum í úrskurði óbyggðanefndar sé umfjöllun um hefð og þýðingu hennar við úrlausn þjóðlendumála. Sé þar að því vikið að hefð sé eitt dæmi um frumstofnun eignarréttar, en við mat á því álitaefni sé m.a. horft til þess hvort land sé innan eða utan landamerkja jarðar og að gildistaka hefðarlaga 1905 skipti máli og hljóti að styrkja eignartilkall í slíkum tilvikum. Af hálfu stefnenda er tekið undir þessi sjónarmið og byggja þeir á að ekki verði séð hvers vegna þau eigi ekki við um þrætulandið þar sem það sé innan þinglýstra landamerkja og háð einkanýtingarrétti þeirra sem landeigenda.
Stefnendur vísa til þess að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum fyrst og fremst byggt á því að Arnarstaðatungur sé afréttarland, sem sé landfræðilega aðskilið frá Arnarstöðum. Þeir benda á að í úrskurðinum sé litið fram hjá því að slíkt hafi tíðkast nokkuð í Eyjafjarðardal þar sem landflæmi sé af skornum skammti, sbr. t.d. í Núpufellsdal sem tilheyri Gnúpufelli. Þeir benda á að þó svo að landsvæðin séu aðskilin frá jörðum og séu nefnd afréttarlönd sé ekki þar með sagt að öllum hafi verið frjáls not af slíku landi. Staðhæfa stefnendur að heimildir um Arnarstaðatungur bendi til þess að því svæði hafi verið haldið aðskildu frá afréttarsvæðinu innar í dalnum og að öðrum en eigendum hafi verið meinað að nytja landið. Því sé ljóst að Arnarstaðatungur teljist frekar til heimalands eigenda heldur en til afréttar. Stefnendur benda enn fremur á að þó svo að landsvæði Arnarstaðatungna sé hálent sé það gróskumikið og hafi verið nýtt til beitar bæði fyrir fé og stórgripi, og árétta að öðrum hafi verið bönnuð nýting þess. Þá hafi landeigendur lagt vegi um svæðið án athugasemda annarra.
Telja stefnendur að sú ríka sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á þá fái ekki staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og því beri að ógilda úrskurð hennar. Þeir benda á að Hæstiréttur Íslands hafi í öðru samhengi orðað þá reglu, að mannréttindi sem verndar njóta verði ekki skert nema fyrir því sé skýr regla í settum lögum og að slíkt samræmist ákvæðum stjórnarskrár. Slíkt ákvæði sé ekki að finna í þjóðlendulögum, enda komi ekkert fram við meðferð frumvarps til þjóðlendulaga á Alþingi, sem bendi til að stefnt hafi verið að því að svipta landeigendur eignarrétti sínum.
Byggja stefnendur á því að úrskurður óbyggðanefndar í máli þessu sé brot á vernduðum rétti þeirra samkvæmt 1. gr. samningsviðauka nr. 1, sbr. 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefnendur byggja varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og fram koma í aðalkröfu þeirra.
Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr., meginreglna stjórnsýsluréttar um málsmeðferð, laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58, 1998, laga um hefð nr. 46, 1905, laga um afréttarmál og fjallskil nr. 6, 1986, laga um Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62, 1994, sáttmálann sjálfan og viðauka og sérstaklega til 1. gr. samningsviðauka nr. 1. Enn fremur vísa stefnendur til stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, en einnig til laga nr. 57, 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörð. Stefnendur vísa einnig til meginreglna eignarréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar, reglna um ítaksrétt og stofnun ítaks svo og almennra reglna um venjurétt og meginreglna um traustfang, traustnám og tómlæti og loks til þinglýsingalaga. Um varnarþing og málskostnað vísa þeir til 3. mgr. 42. gr. og IV. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er einkum á því byggt að Arnarstaðatungur séu svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998. Telur stefndi fullljóst af heimildum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.
Stefndi bendir á að úrskurður óbyggðanefndar sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni. Gerir stefndi niðurstöðu nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfunni, þ.e. að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hafi landsvæðið talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma. Af hálfu stefnda er um röksemdir að þessu leyti einnig vísað til úrskurðarins, þ. á m. um fjallskil, og á því byggt að umþrætt svæði sé land utan eignarlanda.
Af hálfu stefnda er til þess vísað að af heimildum megi ráða að hið umdeilda svæði, þ.e. Arnarstaðatungur, hafi eftir atvikum tilheyrt jörðunum Arnarstöðum og Arnarfelli, en á því byggt að í þeirri tilheyrslu hafi ekki falist meira en óbeinn eignarréttur, þ.e. upprekstrarréttur.
Stefndi bendir á að í landamerkjabréfi Arnarstaða frá 20. maí 1890 sé lýst tvískiptingu lands. Annars vegar sé lýst merkjum jarðarinnar og hins vegar merkjum á sérstöku afréttarlandi í Arnarstaðatungum sem jörðin er sögð eiga. Stefndi byggir á því að þessi aðgreining landsins bendi ótvírætt til þess að hið umþrætta landsvæði hafi verið afréttarsvæði, utan eignarlanda.
Stefndi bendir á að jarðirnar Arnarstaðir og Arnarfell séu landfræðilega aðskildar frá umræddu afréttarsvæði og liggi fjölmargar jarðir á milli. Bendir stefndi á að almennt hafi verið litið svo á af hálfu dómstóla, að þegar svo hátti til þá bendi það ótvírætt til þess, að um sé að ræða svæði utan eignarlanda.
Á því er byggt af hálfu stefnda að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir landsvæði beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Vísar stefndi til þess að þrátt fyrir að landamerkjabréfi sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi og með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 (Úthlíð).
Stefndi bendir á að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi, eða annað landsvæði. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig önnur svæði, svo sem afréttarsvæði, sem ekki tengjast sérstaklega tiltekinni jörð. Bendir stefndi á að almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, en þó með hliðsjón af eldri heimildum, enda verði við slíkt mat að meta gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega. Í þessu sambandi bendir stefndi á að í tilfelli landamerkjabréfs Arnarfells hafi afmörkun Arnarfellstungna ekki verið samþykkt af umráðamönnum allra aðliggjandi svæða. Þá bendi heimildir ekki til þess að á hinu umþrætta landsvæði hafi nokkru sinni verið búið, þótt þar hafi e.t.v. stundum verið haft í seli.
Byggir stefndi á því að framangreind atriði bendi ótvírætt til þess, að hið umþrætta landsvæði hafi eingöngu verið nýtt til sumarbeitar fyrir búfé og teljist því landsvæði utan eignarlanda jarða.
Stefndi bendir á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til lands landnám á þessu svæði náði. Er á því byggt að það verði að teljast ólíklegt að land á þessu landsvæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið sé hálent, en um sé að ræða öræfalandsvæði, langt frá byggðum bólum.
Bendir stefndi á að samkvæmt dómafordæmum teljist heimildarskortur hvað ofangreind atriði varða leiða til þess að álitið sé ósannað að heiðarlönd og öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé það í samræmi við þá reglu, sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið sé ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefndan dóm nr. 48/2004 (Úthlíð). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem heldur slíku fram.
Stefndi segir að af heimildum verði ekki annað ráðið en að Arnarstaðatungur hafi eingöngu verið nýttar með afar takmörkuðum hætti, en þar um er vísað til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar. Byggir stefndi á því að ekki verði annað séð, en að rétturinn til svæðisins hafi upphaflega orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarra takmarkaðra nota.
Stefndi byggir á því að verði talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu hafi það ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Um þetta atriði bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).
Stefndi byggir á því, að verði talið að landsvæðið kunni að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti að hluta eða öllu leyti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið var tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hefði stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar. Vísar stefndi til þess að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landsvæðið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti.
Stefndi bendir á að hinu umþrætta svæði megi að meginstefnu til skipta í tvennt. Annars vegar sé um að ræða undirlendi, vestan Eyjafjarðarár í u.þ.b. 300 m hæð yfir sjávarmáli með leguna norður-suður. Hins vegar sé um að ræða fjalllendi, sem rísi skarpt upp af undirlendinu og teygi sig vestur inn á hásléttuna milli Eyjafjarðardals að austan og Austari-Jökulsár í Skagafirði að vestan, en um nánari staðhætti vísar stefndi til þess sem fram kom í úrskurði óbyggðanefndar, þ. á m. um örnefnin Tungnafjall, vörðuna Sankti Pétur (955 m), Vatnahjallaleið, Lækjafjall (Strangalækjarfjall), Kerlingarhnjúk (1057 m) og Urðarvötn.
Af hálfu stefnda er áréttað að engin gögn liggi fyrir um að landsvæðið hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, og er á því byggt að fjallskil geti ekki haft þýðingu við mat á eignarréttarlegri stöðu svæðisins sé horft til annarra heimilda.
Að öllu framangreindu virtu er á því byggt af hálfu stefnda að þrátt fyrir að hið umþrætta landsvæði kunni eftir atvikum að hafa talist tilheyra jörðinni Arnarstöðum hafi í þeirri tilheyrslu ekki falist annað og meira en tilheyrsla á afnotaréttindum, eftir atvikum fullkominni afréttareign, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58,1998. Beri til þess að horfa að landsvæðið sé ekki girt og að þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum án hindrana. Þá vísar stefndi til þess að samkvæmt framanröktu bendi eldri heimildir til þess að jörðin Arnarstaðir hafi átt afrétt á hinu umdeilda svæði en ekki beinan eignarrétt. Um þetta vísar stefndi til orðalags áðurrakinna heimilda, þ.e. landamerkjabréfs Arnarstaða frá 1890 og Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, en einnig til jarðamata jarðarinnar frá 1804 og 1849, svo og viðaukans frá 1802 við jarðatal Johnsens. Telur stefndi að þessar heimildir auk annarra þeirra heimilda sem vísað sé til í úrskurði óbyggðanefndar bendi ótvírætt til þess að umrætt svæði sé ekki háð beinum eignarrétti heldur sé þar um að ræða þjóðlendu, sbr. 1. gr. laga nr. 58, 1998, sem að hluta til sé háð takmörkuðum eignarrétti (upprekstrarrétti) stefnenda, sbr. c-lið 7. gr. sömu laga.
Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, og vísar til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda. Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 103/1953 (Landmannaafréttur), nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm réttarins nr. 48/2004.
Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli þeirra á umræddu landsvæði. Bendir stefndi á að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Áréttar stefndi að ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Loks bendir stefndi á og áréttar að þinglýsing heimildarskjals fyrir svæði feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins, að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.
Stefndi andmælir varakröfu stefnenda með sömu rökum og hér að framan hefur verið lýst. Þá andmælir stefndi því sérstaklega að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignarréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvorki að hluta til né að öllu leyti. Vísar stefndi í því sambandi m.a. til gildandi laga nr. 57, 1998 um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu. Gilda að hans mati ákvæði 3. gr. laganna um landsvæðið, enda um þjóðlendu að ræða en ekki eignarland, samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Bendir stefndi á að ákvæðið feli í sér að í þjóðlendum séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Stefnendur hafi ekki sannað slíkan eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti. Stefndi bendir sérstaklega á að nýting svæðisins hafi verið takmörkuð en það hafi nær eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði. Slík takmörkuð not geti hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu.
Með vísan til framangreindra röksemda telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í máli þessu, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, sé röng og hafi því stefnendum ekki tekist að sýna fram á eignarrétt sinn á hinu umdeilda landi. Bendir stefndi á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „... landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“. Engin gögn liggi hins vegar fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að landsvæðið, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.
Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar og krefst þess að hann verði staðfestur. Verði þannig miðað við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem í úrskurðinum er lýst og hér að framan var rakið.
Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998. Þá vísar stefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944. Stefndi byggir einnig á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar, svo og á hefðarlögum nr. 14, 1905. Þá vísar stefndi til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil og til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæði 129. og 130. gr.
III.
1. Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.
Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“ Þá er afréttur í lagagreininni skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“
Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar, sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.
Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga, sem kölluð hafa verið þjóðlendulög, segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar. Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum. Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.
Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda. Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.
2. Samkvæmt framansögðu er upphaf þessa máls það að óbyggðanefnd ákvað í mars 2007 að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998. Við meðferð málsins var svæðið nánar afmarkað og skipt upp í fimm aðskilin mál. Var eitt þeirra það mál sem hér er til umfjöllunar, nr. 2/2008, er varðar m.a. landsvæði fremst í Eyjafirði og þar með talið svæði sem nefnt er Arnarstaðatungur, en einnig til hálendisins þar fyrir vestan, nánar tiltekið að Urðarvatni ytra. Mál nefndarinnar nr. 1/2008 varðaði m.a. landsvæðið fyrir framan Arnarstaðatungur, í svonefndum Hólaafrétti, sbr. mál Héraðsdóms Norðurlands eystra nr. 33/2010, en þar með var hálendið fyrir sunnan, austan og vestan Eyjafjarðardal. Eftir atvikum taka nefnd svæði að nokkru til landsvæða sem nefnd hafa verið Laugafellsöræfi/Fjöllin og Nýjabæjarafréttur og þá með kröfusvæðum fremstu jarða í Eyjafirði, m.a. Hóla, Torfufells og Möðruvalla, sbr. að því leyti dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 656/2012.
Í máli þessu krefjast stefnendur þess að úrskurður óbyggðanefndar að því er varðar Arnarstaðatungur verði felldur úr gildi með áðurröktum rökum. Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er tekið undir niðurstöðu óbyggðanefndar og krefst hann sýknu.
Arnarstaðatungur draga nafn sitt af jörðinni Arnarstöðum, sem er austan Eyjafjarðarár. Jörðin var fyrrum í Hólasókn og í Saurbæjarhreppi, en hann er víðlendastur af hreppum í Eyjafirði og var áður einnig fjölmennastur. Þessi fremsta byggð í Eyjafirði er stundum nefnd Eyjafjarðardalur, en byggðin tilheyrir nú Eyjafjarðarsveit.
Eyjafjarðará rennur eftir Eyjafjarðardal og endilöngu héraðinu. Upptök hennar eru í botni dalsins.
Arnarstaðatungur eru á landsvæði sem er framarlega í Eyjafjarðardal og eru vesturmörk þeirra á hálendinu við sýslumót Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu. Til austurs eru mörkin í botninum vestan Eyjafjarðarár, en austan árinnar er land Tjarna. Syðsti hlutinn er við svonefndan Trippagarð, nærri Strangalæk í Lækjarfjalli, móti Klaufá, en nyrðri mörkin eru við Hafrá gegnt landi eyðijarðarinnar Úlfár.
Um 13 km eru frá greindum nyrstu mörkum Arnarstaðatungna að syðstu landamerkjum heimalands Arnarstaða- og Arnarfellsjarðanna, við mörk Hólajarðarinnar austan Eyjafjarðarár, en þar í milli eru eignarlönd jarðanna Tjarna, Halldórsstaða, Jökuls og Vatnsenda, Hóla og Nýjabæjar. Vestan ár eru í milli eyðijörðin Úlfá og býlin Hólsgerði og Torfufell.
Í úrskurði óbyggðanefndar er ítarlega fjallað um afmörkun Arnarstaðatungna, en einnig staðhætti, annars vegar á undirlendinu við Eyjafjarðará og hins vegar á hálendinu þar fyrir vestan, þ.e. í Tungnafjalli og allt að Ytra-Urðarvatni, og um suðurmerkin við hinn forna trippagarð og loks um norðurmörkin við Hafrá, Hafrárgljúfur og drög hennar. Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum og staðkunnugum aðila. Er ekki ágreiningur með aðilum um mörk Arnarstaðatungna eins og þeim er lýst í úrskurði óbyggðanefndar, sbr. að því leyti umfjöllun nefndarinnar um dóm Hæstaréttar í máli nr. 128/1967 og kröfugerð stefnenda hér fyrir dómi.
Í úrskurði óbyggðanefndar er m.a. vikið að sögu og nýtingu Arnarstaðatungna, en í þeim gögnum sem aðilar lögðu fram við meðferð málsins fyrir dómi er enn frekar fjallað um þessi atriði, en einnig um staðhætti, m.a. í vesturhluta Eyjafjarðardals.
Byggðin í Eyjafjarðardal nær langt fram, en eftir það skerst dalurinn langt inn í óbyggðir. Heitir nú Tjarnir fremsti bærinn austan Eyjafjarðarár, en Hólsgerði vestan ár, eftir að jörðin Úlfá fór í eyði. Sunnar í dalnum og í dalbotninum eru afréttarlönd, þ.m.t. Arnarstaðartungur, en þar fyrir framan er Hólaafréttur með Jórunnarstaðatungum. Nyrstu jarðirnar í hinni fornu Hólasókn á austurkjálka, undir Hólafjalli, eru Æsustaðir og Arnarstaðir, en þar fyrir utan, í Möðruvallasókn, er landnámsbýlið Gnúpufell, en norðan Núpár er hið forna höfuðbýli Möðruvellir.
Vestan Eyjafjarðarár syðst í dalnum, í svonefndum Hólaafrétti, er Botn og nær hann frá upptökum árinnar norður að Sandá og nefnist svæðið Runa, líkt og austan ár. Sandáröxl liggur sunnan Sandárgils. Milli Sandár og Fremri-Strangalækjar heita Torfur. Eftir það tekur við Brattahlíð, en vestur af hlíðinni á fjall upp heitir Torfnahnjúkur. Rennur Eyjafjarðará þarna í gljúfri sem nefnist Torfnaklif, en eftir það rennur hún þar á eyrum og eru í henni grónir hólmar. Heitir þar Brúsahvammur. Svæðið vestan ár frá Fremri-Strangalæk og norður að Heimari-Strangalæk heitir Strangalækjarfjall, giljum skorin hlíð, en gróður er þar nokkuð upp á fjallið. Milli lækjanna, miðja vegu, er hlaðinn garður, svonefndur trippagarður, sem verja átti hrossastóði að fara norður dalinn. Fyrrgreindur Fremri-Strangalækur kemur úr samnefndu gili, en drag lækjarins nær vestur undir Urðarvötn, en þar skammt frá er Kerlingarhnjúkur í Tungnafjalli. Vestur undir hnjúknum er Vatnahjalli en um hann liggur Eyfirðingavegur. Norðan Fremri-Strangalækjar og að Hafrá er hið umþrætta landsvæði Arnarstaðatungur, en þar eru gamlar seltóftir, Arnarstaðasel. Hafráin fer um Hafrárgil, sem er djúpt klettagil, vel gróið, sem gengur þvert upp Tungnafjallið. Þar er Hafrárdalur og ofar Tungnahnjúkur. Ná drög Hafrár langleiðina að Ytra-Urðarvatni, en áhöld eru um hvort afrennsli nefndra vatna renni til austurs eða vesturs til Skagafjarðar, sbr. fyrrnefnt fræðirit Steindórs Steindórssonar náttúrufræðings. Frá Hafrárgili að merkjum býlisins Úlfár, sem fór í eyði 1925, kallast Úlfheiði og er þar nokkurt undirlendi, en þar norðan við er syðsta býlið vestan Eyjafjarðarár, Hólsgerði. Er fjöldi örnefna á þessu svæði, m.a. Hafrárhólmar, Beitarhúsagrundir og Úlfárhólmar. Fjallahringurinn, sem umlykur Eyjafjarðardal, er hálendur, um 900-1200 m.
Dalbotn Eyjafjarðardals þrengist verulega þegar kemur fram fyrir Saurbæ, en samt er þar allbreitt undirlendi. Samkvæmt heimildum er allskriðuhætt beggja vegna Eyjafjarðarár. Rúmlega 10 km fyrir framan Saurbæ og Möðruvelli gengur hólagirðing mikil yfir þveran dalinn, en þar norðan við eru bæjarhús jarðarinnar Hóla. Nokkru sunnar eru Hólahólar, sem er annað hólahrúgald í vestanverðum dalnum. Er það fyrir mynni Villingadals, svonefndir Leyningshólar, en þar er samnefnd jörð. Fyrir innan Hóla er dalurinn strjálbýlli en fyrr, en þar eru nú fjögur býli að austan, en þrjú að vestan. Undirlendi er þarna lítið og skriðuhætt. Fyrir utan fremstu jarðirnar Hólsgerði og Tjarnir gengur jökulalda yfir þveran dalinn. Þá er enn hólagarður inni í afrétt og loks er fjórða jökulaldan inn hjá Sandá. Í fremsta hluta Eyjafjarðarár, framan byggðar, er stórgrýti og fellur áin þar þröngt og er í raun ekkert undirlendi þar í dalnum. Eftir að áin kemur niður í byggð, hjá Tjörnum, er hún lengst af fremur lygn.
Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til Landnámu um landnám Helga magra og það sagt að hann hafi skipt landi milli ættingja sinna, en hann reisti bú sitt í Kristnesi, nærri miðju héraði. Í úrskurðinum segir frá búsetu barna Helga austan og vestan Eyjafjarðarár, og þar á meðal að Ingjaldur hafi reist bú að Þverá hinni efri, sem nú heitir Munkaþverá, að Hrólfur hafi reist bú að Gnúpufelli og ættmenni hans síðar á nágrannajörðinni Möðruvöllum, en það býli varð fljótlega eitt mesta höfðingjasetur Íslands. Loks er sagt að Auðun rotinn og Helga Helgadóttir hafi reist bú sitt syðst í landnáminu, í Saurbæ, vestan Eyjafjarðarár.
Því er við að bæta að samkvæmt Landnámu reisti Hrólfur Helgason hof í Gnúpufelli, en landnám hans virðist hafa verið stórt. Tók sonur hans Ingjaldur við landnámsbýlinu, en aðrir synir hans bjuggu í næsta nágrenni, m.a. á Möðruvöllum, en einnig í Sölvadal og í Þingeyjarsýslum. Þá er talið að einn af sonum Hrólfs, Grani, hafi búið að Granastöðum á Gleráreyrum, framarlega í Eyjafjarðardal. Samkvæmt heimildum fór þetta fornaldarbýli snemma í eyði, en þar hafa farið fram alþekktar fornleifarannsóknir undir handleiðslu Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og síðar dr. Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings.
Þegar framangreind atriði um landnám eru virt í heild, en einnig aðrar heimildir Íslendingasagna og þar á meðal um fornbýlið Granastaði, er að áliti dómsins líklegt að það landsvæði sem nefnt er Arnarstaðatungur hafi verið numið við upphaf Íslandsbyggðar.
Alþekkt er að eftir landnám gengu jarðir til arfs, en einnig eru margar heimildir um að jarðir hafi gengið kaupum og sölum. Eftir landnámsöldina urðu eignaskipti á jörðum við kaup enn fremur tíðari og þar á meðal í jarðaskiptum.
Af gögnum verður ekki annað ráðið en að auk landnámsjarðanna Gnúpufells og Möðruvalla hafi jarðir í fremsta hluta Eyjafjarðardals, vestan og austan ár, verið sjálfseignarjarðir. Þannig munu m.a. Tjarnir hafa byggst þegar á landnámsöld, en einnig Arnarstaðir, sem getið er um í Ljósvetningasögu. Þá er Vatnsendajarðarinnar sérstaklega getið í jarðasölubréfi frá 1375. Enn fremur verður jörðin Jórunnarstaðir, vestan ár, talin til landnámsjarða, en þar bjó um tíma Eyjólfur Valgerðarson, afkomandi Auðunar rotins, en hann og afkomendur hans reistu síðar stórbú að Möðruvöllum handan Eyjafjarðarár. Af heimildum verður ráðið að Hólajörðin hafi ætíð verið sjálfseignarjörð og í bændaeign. Margar þessara jarða komust um síðir í eigu Möðruvellinga, en gengu síðan kaupum og sölum, líkt og Arnarstaðir.
Í úrskurði óbyggðanefndar er m.a. vikið að eldri heimildum um Arnarstaði og er þar um m.a. vísað til nágrannajarðarinnar og kirkjustaðarins Hóla, sbr. kafli I.5 hér að framan. Hólajörðin var ein stærsta jörð í hinum forna Saurbæjarhreppi og var þar oft margbýlt, en jörðinni fylgdu hjáleigur. Jarðarinnar er getið í ýmsum Íslendingasögum, þ. á m. í Víga-Glúms sögu. Bjó þar á 10. öld Þorsteinn, elsti sonur Ingjalds á Þverá syðri (Munkaþverá), en hann hafði verið leystur frá arfi. Hólajörðin kemur einnig við sögu vegna jarðaskipta Þórðar Hallssonar riddara, en hann bjó á Möðruvöllum í byrjun 14. aldar. Samkvæmt heimildum voru mikil tengsl millum höfðingja- og landnámsjarðarinnar Möðruvalla og nágrannajarðanna, þ. á m. Hóla og Arnarstaða. Er Arnarstaða getið í heimildum frá söguöld, m.a. í Ljósvetningasögu, en þá bjó á jörðinni einn af fylgdarmönnum höfðingjanna á Möðruvöllum.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir að heimildir greini einnig frá því að Gunnar Pétursson hafi selt Jóni illa Ólafssyni jörðina Hóla, en einnig Vatnsendajörðina í Eyjafirði með fyrrnefndu kaupbréfi, árituðu 14. mars 1375, og fengið Auðbrekku í Hörgárdal fyrir, en bréfið er áritað þar. Gunnar var bróðir Ólafs, hirðstjóra í Gnúpufelli, en afkomandi þess fyrrnefnda kom síðar verulega við sögu í svokölluðum Möðruvallamálum. Í nefndu kaupbréfi er elsta heimildin um afrétt Hóla, en einnig er þar vikið að Arnarstöðum. Segir í bréfinu að Hólajörðin hafi verið seld með tilteknum hlunnindum, þ.e.:„... med þeim gögnum oc gædum sem hann vard eigandi at. ut aa midian markgard. þar med eyiafiardardal fram fra klifsaa jardareign. eiga jardir lambarekstr utan fra gerdi oc upp til tiarna. oc eigi verit at talit þo at farit hafi eldri saudir. torfskurd i arnarstadi sem landinu þarfnaz. selför j tiarna land. svo morgu fe sem heima at holum fædiz þremr kuum og hrossi. skogar part j leynings jord ...“
Af þessari heimild verður að mati dómsins ekki annað ráðið en að umræddur torfskurður landeiganda Hóla hafi varðað heimland Arnarstaða en eigi afréttarlandið Arnarstaðatungur.
Að líkindum seldu afkomendur Jóns Ólafssonar Hólajörðina Þorvarði Loftssyni á Möðruvöllum, en samkvæmt heimildum var jörðin á meðal eigna hans þegar erfðaskipti urðu við dauða hans árið 1446. Eftir þetta virðast Hólar og Arnarstaðir, en einnig fleiri jarðir í nágrenninu hafa verið í eigu Möðruvellinga a.m.k. fram á 17. öldina. Urðu síðar harðvítugar og langvinnar erfðadeilur um Möðruvallaauðinn, sem lauk ekki fyrr en á 17. öldinni.
Í gögnum málsins eru engar heimildir um að búseta hafi verið í fremsta hluta Eyjafjarðardals sunnan Klaufár og þar í mót, í Strangalækjarfjalli. Er til þess að líta að á þessum slóðum, en einnig þar fyrir norðan, er skriðuhætt, en snjófljóð og skriður eyddu byggð á býlunum Úlfá og Jökli. Heimildir eru um að fyrir framan þessi býli hafi á söguöld verið byggð sem hafi farið í eyði. Þannig voru Granastaðir við dalverpið Glerárdal, en óljósar heimildir eru einnig um að býlið Másstaðir hafi verið þar skammt fyrir framan. Þar fyrir framan, í landi Tjarna, við Selgrund var forðum sel frá Hólajörðinni, en að auki eru tóftarbrot rétt sunnan við Klaufá. Þá var sel frá Arnarstöðum vestan Eyjafjarðarár, í margnefndum Arnarstaðatungum. Eru bæjarhús Arnarstaða, eins og fyrr sagði, um 13 km frá nefndum afréttarmörkum við Hafrá, en þar í milli eru áðurnefnd sjálfseignarbýli.
Elsta heimildin sem tekur til þessa landsvæðis er fyrrnefnt kaupbréf um jarðirnar Hóla og Vatnsenda frá 1375, en þar er sagt að Hólar eigi Eyjafjarðardal fram frá Klifsá, en í því samhengi er í bréfinu einnig vikið að upprekstrarrétti annarra jarða á austurkjálka allt frá Æsustaðagerði til Tjarna. Ekkert liggur fyrir í málinu hvernig þessi réttindi komu í hlut Hóla eða hver kunni áður að hafa haft þau á hendi, en nefnd afréttarmörk eru um 26 km frá landnámsjörðinni Gnúpufelli.
Elsta heimildin um réttindi Arnarstaða í fremsta hluta Eyjafjarðardals er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, en þar er sagt að jörðin hafi í Arnarstaðatungum selför og afrétt. Þá er vikið að þessum afrétti jarðarinnar í fyrrnefndu forboðsbréfi sýslumanns frá árinu 1792, en einnig jarðamötum og jarðatali frá árunum 1802, 1849 og 1916-1918 og loks í landamerkjabréfi Arnarstaða frá 1890. Vísa allar þessar heimildir að mati dómsins til nýtingar landsvæðisins og þá þannig að um hafi verið að ræða afréttar- og beitarland.
Í dómum sínum hefur Hæstiréttur Íslands í sambærilegum málum margoft vikið að gildi landamerkjabréfa og annarra álíka gagna, m.a. í máli nr. 48/2004. Er það niðurstaða réttarins að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæði, beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því, að þau fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli teljast óskorað eignarland. Þá segir í nefndum dómi að við mat á gildi landamerkjabréfa skuli m.a. líta til þess hvort eldri heimildir styðji efni þess. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig t.d. afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt. Þá hafi menn ekki eingöngu markað sér landsvæði háð beinum eignarrétti, heldur einnig mörk ítaka, afrétta og allra annarra réttinda í lönd sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.
Auk ofannefndra atriða ber að áliti dómsins að líta til þess að landamerkjabréf er í eðli sínu samningur, ef það er samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða um þau atriði sem þeir hafa forræði á að ráðstafa með löggerningi.
Arnarstaðatungur eru fremur hálent landsvæði með mjög takmörkuðu undirlendi nærri dalbotni í fremsta hluta Eyjafjarðardals. Fer landið mjög hækkandi til vesturs, en þar er m.a. hálent fjalllendi Tungnafjalls.
Eins og áður er rakið var í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 128/1967: Mál Upprekstarfélags Saurbæjarhrepps gegn eigendum Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli í Skagafirði, sem kveðinn var upp 29. apríl 1969, m.a. fjallað um hálendissvæðið ofan Sölvadals og Eyjafjarðardals, á svonefndum Nýjabæjarafréttum, á Fjöllum/Laugafellsöræfum, og allt að Hofsjökli. Það var niðurstaða Hæstaréttar að málið varðaði eignarrétt á hinum umþrættu landsvæðum, en ekki um upprekstrarrétt. Í úrskurði óbyggðanefndar er sérstaklega fjallað um niðurstöðu þessa dóms. Í úrskurðinum rökstyður óbyggðanefnd, eftir að hafa fjallað um aðild og gagnaöflun, þá niðurstöðu að dómur Hæstaréttar í nefndu dómsmáli sé bindandi um úrslit sakarefnisins fyrir aðila málsins og þá sem koma í þeirra stað.
Í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 656/2012 í máli íslenska ríkisins gegn eiganda Möðruvalla í Eyjafirði vegna Möðruvallaafréttar er vikið að nefndum dómi réttarins í umræddu máli nr. 128/1967 og segir þar m.a.: „Af dóminum (mál nr. 128/1967) má meðal annars draga þá ályktun að ekki hafi verið talið sannað, að sá málsaðili sem leiddi rétt sinn frá eiganda Möðruvalla, hefði „fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því, sem um er að tefla í máli þessu.““ Í þessum dómi vísar rétturinn sérstaklega til þeirra orða í hinum eldri dómi um að yfirlýsingar í afsölum fyrr og síðar, sem eigi hafi stuðst við önnur gögn, hafi ekki nægt til að dæma öðrum hvorum aðila eignarétt „til öræfalandsvæðis þessa“.
Það er álit dómsins að með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 128/1967 hafi verið leyst úr ágreiningi um eignarréttindi á öræfunum millum Skjálfandafljóts að austan og Jökulsár eystri í Skagafirði að vestan og þar með um eignarrétt á hluta þess landsvæðis sem til umfjöllunar var fyrir óbyggðanefnd í því máli sem hér er til meðferðar, þ.e. á hálendissvæðinu austan Urðarvatna. Að því leyti er dómurinn ásamt dómi réttarins nr. 656/2012 skýrt fordæmi um eignaréttarlega stöðu þessa hálendissvæðis. Er því tekið undir málsástæður stefnda að þessu leyti, en röksemdum stefnenda hafnað.
Að virtum staðháttum, vegalengdum, örnefnum, gróðurfari og því sem hér að framan var rakið, varðandi nýtingu, og þá einnig því að landsvæði Arnarstaðatungna er aðskilið frá öðru landi Arnarstaða, líkt og glöggt kemur m.a. fram í áðurröktum eldri heimildum, er það niðurstaða dómsins að gegn andmælum stefnda og að virtum röksemdum hans hafi stefnendur ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að þeir eigi beinan eignarrétt á hinu umþrætta svæði, eins og það var afmarkað hér að framan.
Að þessu virtu, en einnig með hliðsjón af ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki fallist á að stefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.
Að þessu virtu og þar sem kröfur og heimildir stefnenda styðjast ekki við önnur gögn en þegar hefur verið greint frá, en einnig í ljósi þeirra röksemda sem ítrekað hafa komið í dómum Hæstaréttar, þ. á m. í fyrrnefndum dómi réttarins um land Möðruvalla í Sölvadal nr. 656/2012, verður fallist á með stefnda að allt deilusvæðið sé þjóðlenda með þeirri afmörkun sem greinir í úrskurði óbyggðanefndar. Eru Arnarstaðatungur, með nefndum mörkum, því þjóðlenda en í afréttareign stefnenda, enda hafa þeir ekki sýnt fram á að landsvæðið sé eignarland þeirra, hvorki fyrir löggerninga né með öðrum hætti.
Stefnendur hafa að áliti dómsins ekki fært fram sönnur um að skilyrðum eignarhefðar á hinu umþrætta landsvæði hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því. Liggur einnig fyrir að Arnarstaðatungur hafa um aldir aðallega verið nýttur til sumarbeitar búfénaðar jarðeigenda Arnarstaða. Samhliða því virðast nokkrir aðrir jarðeigendur og ábúendur í Eyjafjarðardal haft þar upprekstrarrétt fyrir búfénað sinn, sbr. áðurrakið forboðsbréf sýslumanns frá 1792, en landsvæðið er ógirt.
Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að Arnarstaðatungur, eins og þær eru nánar afmarkaður í úrskurði hennar, sé þjóðlenda því staðfest, en jafnframt og eins og áður sagði, að hann sé í afréttareign stefnenda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. nr. 58, 1998.
Að áliti dómsins hafa stefnendur ekki rökstutt með neinum hætti frekar þau réttindi, sem varakrafa þeirra tekur til, eða þeir að öðru leyti fært fram gögn fyrir slíkum réttindum. Ber af þeirri ástæðu að hafna þeirri kröfu stefnenda.
Verður stefndi samkvæmt öllu því sem að framan er rakið sýknaður af aðal- og varakröfum stefnenda.
Eftir atvikum þykir rétt að málsaðilar beri sinn kostnað af málarekstrinum.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns.
Með hliðsjón af hagsmunum og umfangi málsins, en einnig vinnuframlagi, m.a. vegna vettvangsferðar og endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin 1.270.380 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar þeirra í dómi.
Í máli þessu hefur málsmeðferð dregist mun lengur en dómari ætlaði og er það miður. Koma þar helst til annir við önnur dómsmál, nokkur fjöldi annarra þjóðlendumála, en einnig aðrar aðstæður.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 1.270.380 krónur.