• Lykilorð:
  • Eignarréttur
  • Þjóðlenda

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 16. september 2009

nr. E-138/2008:

 

Stefán Eggertsson

Gunnar Þóroddsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Íslenska ríkinu

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson  hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 28. ágúst sl., eftir endurtekinn málflutning, hafa eigendur jarðarinnar Laxárdals í Svalbarðshreppi, Þistilfirði, þeir Stefán Eggertsson, kt. 000000-0000, Laxárdal 2, 681 Þórshöfn, og Gunnar Þóroddsson, kt. 000000-0000, Holti, 681 Þórshöfn, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu, birtri 17. janúar 2008.

Dómkröfur stefnenda eru: 

Aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í málinu nr. 4/2005, Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur og Skeggjastaðahreppur, þess efnis að stór hluti jarðarinnar Laxárdals sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.  Línan fylgir Grasamannalæk úr Bræðravötnum og í Hölkná en þá er Hölkná fylgt til suðurs að Fremri-Skarðslæk sem ræður til upptaka sinna sem eru norðan undir Lambafjallgarði.  Þá ræður Lambafjallgarðsbrún til foss í Hölkná en eftir það ræður áin suður á móts við vesturhorn á Heljardalsfjöllum.  Þá ráða Heljardalsfjöllin að þeim stað þar sem tekin verður úr þeim bein stefna milli Bræðravatna í Skessuhamar.  Þeirri línu er síðan fylgt þar til komið er á milli Bræðravatna en þá er farið til vesturs í upphafspunkt lýsingar þessarar.  Sama landsvæði er í afréttareign Laxárdals, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Þá er af hálfu stefnenda gerð krafa um að viðurkennt verði með dómi að þeir eigi í óskiptri sameign fullkominn og beinan eignarrétt að landi Laxárdals eins og því er lýst hér að neðan:

Að vestan ræður Hölkná frá sjó, að fremri Skarðslæk, svo ræður lækurinn til upptaka sinna, sem eru norðan undir Lambafjallgarði, þá ræður Lambafjallgarðsbrún til foss í Hölkná, eftir það ræður nefnd á suður á móts við vesturhorn á Heljardalsfjöllum; að sunnan ræður bein stefna úr Hölkná austur í norðvesturhorn Heljardalsfjalla; þá ráða Heljardalsfjöll þar til tekin verður úr þeim bein stefna milli Bræðravatna í Skessuhamar.  Að austan ræður nefnd stefna úr Heljardalsfjöllum í Skessuhamar, þá ræður bein stefna úr Skessuhamri í upptök Laxár, síðan ræður Laxá allt til vörðu austan megin skammt fyrir ofan ós og þaðan bein lína eftir vörðum í Klöpp í flæðarmáli, hvar Laxá rann áður í sjó.

Varakrafa stefnenda er að viðurkennt verði að þeir eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var afréttareign eigenda Laxárdals, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, þótt landið teljist þjóðlenda.

Stefnendur krefjast málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 13. ágúst 2008.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda, en til vara að því er varðar málskostnað krefst hann þess að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

 

Árið 1913 var nýbýlið Holt byggt úr nágrannajörð Laxárdals, Gunnarsstöðum, og fékk nýbýlið 1/3 hlut úr Laxárdal.  Er umrætt þrætuland í óskiptri sameign nefndra jarða.

 

                                                         I.

 

1.       Tildrög máls þessa eru þau, að með bréfi, dagsettu 1. mars 2004, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði, sem tekur yfir sveitarfélög í Múlasýslum auk hluta Norður-Þingeyjarsýslu, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Afmarkaðist svæðið nánar, að vestanverðu, af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum, allt frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að aðalupptökum árinnar í Dyngjufjöllum.  Að norðan afmarkaðist landsvæðið af hafi, en eigi er í máli þessu þörf á að rekja afmörkun svæðisins frekar.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði bárust 11. nóvember 2004.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum stefnda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. desember 2004, en einnig í dagblöðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Í tilkynningunni var m.a. skorað á eigendur jarða í Svalbarðshreppi, Þórshafnarhreppi og Skeggjastaðahreppi, nú Langanesbyggð, þ.m.t. stefnendur, að lýsa kröfum sínum til landsins fyrir nefndinni, auk þess að gera grein fyrir landamerkjum, í síðasta lagi 31. mars 2005.  Þann dag lögðu stefnendur fram sameiginlega kröfulýsingu sína til óbyggðanefndar, en sökum framlengingar á fresti bárust síðustu kröfulýsingar annarra landeigenda í maí 2005.

Í júlí 2005 tilkynnti óbyggðanefnd aðilum þá ákvörðun sína að skipta þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins í fimm mál, þ. á m. mál nr. 4/2005, er varðaði fyrrnefnd sveitarfélög.  Var það mál fyrst tekið fyrir á fundi óbyggðanefndar og forsvarsmanna málsaðila þann 17. ágúst 2005.  Við fyrirtökur 20. desember 2005 og 9. mars 2006 voru lagðar fram greinargerðir og sýnileg gögn.  Málið var tekið til úrskurðar fyrir óbyggðanefnd 7. júlí 2006 að lokinni vettvangsferð, skýrslutökum og munnlegum flutningi.  Málsmeðferðin var endurupptekin 17. ágúst sama ár og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu aftur tekið til úrskurðar.  Hinn 29. maí 2007 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, þ.e. syðsti hluti jarðarinnar Laxárdals í Svalbarðshreppi í Þistilfirði, nánar tiltekið í Dalsheiði, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en að landsvæðið væri afréttareign hennar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

 

Útdráttur úr nefndum úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu 18. júlí 2007 svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58, 1998.

Stefnendur undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar, og leitast þeir við með málsókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefjast ógildingar úrskurðarins að því er hið umþrætta landsvæði varðar.  Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. fyrrnefndra laga til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna. 

Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 24. september 2008.

 

2.       Í úrskurði óbyggðanefndar er eins og áður er lýst kveðið á um eignarréttarlega stöðu heiðarlanda í Svalbarðshreppi í Þistilfirði, þar á meðal þeirra er austast liggja, í Dalsheiði og Hvammsheiði. 

         Stefnendur gera í máli þessu, eins og hér að framan var lýst, kröfu um að þeir eigi beinan eignarrétt að öllu því landsvæði sem er innan merkja jarðarinnar Laxárdals samkvæmt landamerkjabréfi frá árinu 1886.  Stefndi, íslenska ríkið, gerir aftur á móti kröfu um að miðað verði við þjóðlendulínu óbyggðanefndar, þ.e. landsvæði sunnan línu, sem dregin er frá punkti í Hvammsheiði þar sem Hávarðsdalsá rennur í Hafralónsá og þaðan í punkt þar sem Grasmannalækur í Dalsheiði rennur úr Bræðravötnum, en þaðan er læknum fylgt að Hölkná.  Krefst stefndi að umrætt land sé þjóðlenda, en afréttareign Laxárdals. 

         Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum úrskurðar óbyggðanefndar auk annarra gagna sem málsaðilar hafa lagt fram og vísað til eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.  Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 204 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi, sveitarmörkum, afnotum og sögu einstakra jarða, þ. á m. býlisins Laxárdals, en auk þess er í sérstökum kafla, 6.1.1-2, fjallað um gildi landamerkjabréfa.  Gerð er grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir og svæði, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem greint er frá almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004.  Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi landakort með árituðum merkja- og kröfulínum.

 

3.       Í úrskurði óbyggðanefndar er frá því greint að elstu ritheimildir um landnám og landnámsmörk í Þistilfirði og á Langanesströnd sé að finna í Landnámu, í Hauksbók, Þórðarbók og Sturlubók.  Í þeirri síðastnefndu segir m.a.:  „Ketill þistill nam Þistilfjörð milli Hundsness(Rakkaness) og Sauðaness.  Hans son var Sigmundr, faðir Laugarbrekku-Einars.  Um landnám á Langanesströnd eru Landnámugerðir samhljóða, en þar segir:  „Finni hét maðr, er nam Finnafjörð ok Miðfjörð.  Hans son var Þórarinn, faðir Sigurðar, föður Glýru-Halla. 

        

4     Svalbarðshreppur er hreppur á austanverðri Melrakkasléttu og upp af Þistilfirði.  Hreppurinn er nefndur eftir kirkjustaðnum Svalbarði.  Í jarðamati frá 1889 segir um mörk Svalbarðshrepps:  „Svalbarðshreppur byrjar að vestanverðu við svokallaða Ormars- eða Ormarslónsá og liggur fram með Þistilfjarðarflóa að vestan allt fram til heiða, en að austan aðskilur svonefnd Hafralónsá sveitina frá Sauðaneshreppi.  Afréttarlands nýtur sveitin nægilegs fyrir sjálfa sig, en einskis skóglendis.  Um nánari mörk hreppsins er í úrskurði óbyggðanefndar m.a. vísað til ritgerðar Eiríks Þormóðssonar, Þróun byggðar í Svalbarðshreppi í Þistilfirði, frá árinu 1970, en þar segir:  „Að vestanverðu ræður Ormarsá merkjum frá sjó og þar til henni sleppir nokkru fyrir sunnan eyðibýlið Múla syðst á Seljaheiði, … en merkin milli Presthóla og Axarfjarðarhrepps liggja að merkjum Svalbarðshrepps.  Þá liggja mörkin um svonefnt Botnagil, Einbúa, sem er fremur lágt fjall nyrst á Laufskálafjallgarði, og síðan áfram suður eftir endilöngum Laufskálafjallgarð í gegnum Gagndagahnjúk, sem er allhár hnjúkur sunnarlega í fjallgarðinum og suður í Reiðgil, en þar liggja merki Axarfjarðar- og Fjallahrepps að merkjum Svalbarðshrepps.  Síðan liggja merkin til norðausturs með Fossá, þar til hún rennur í Sandá, eina af stærri ám, sem falla gegnum Þistilfjörð.  Þá ræður Sandá merkjum til suðurs að svokölluðu Þorsteinsnefi, sem er nokkurn veginn í austur frá Hvannstöðum, eyðibýli í Fjallahreppi.  Síðan eru merkin í suðaustur gegnum Heljardalsfjöll, sem eru allhá og víðáttumikil fjallbunga, og áfram í Einbúa, en þangað nær land Þistilfirðinga lengst til suðurs, og þar liggja saman merki Fjallahrepps, Vopnfirðinga, Sauðaneshrepps og Svalbarðshrepps.  Loks liggja merkin til norðurs gegnum Stakfell í Heljardalsá, sem ræður merkjum þar til hún fellur í Hafralónsá, en hún ræður merkjum Svalbarðshrepps að austan út í sjó.

                                                                                                                               5.    Lögbýlið Laxárdalur er í litlu dalverpi, samnefndu.  Segir í framlögðum gögnum að víðáttumikið land fylgi jörðinni, þ.e. tungan milli Hölknár og Laxár og öll Dalsheiði.  Í Lýsingu Þingeyjarsýslu frá árinu 1959 segir m.a. um jörðina:  „Auk þess fylgir Laxárdal spilda af Álandstungu innan til, austurhlíð Lambafjallgarðs, gegnt Dalsheiðarkofa“.  Í nefndri heimild, en einnig í skýrslu fyrrum oddvita fyrir óbyggðanefnd, er vikið að því að Jón Björnsson, stórbóndi í Dal, en svo var jörðin oft nefnd áður, hefði á 19. öldinni keypt ásamt bróður sínum nefnda spildu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að býli yrðu reist á landsvæðinu, þar sem slíkt hefði getað valdið kvikfénaði hans óþarfa ónæði austan árinnar.

Laxárdals er fyrst getið í norðurrekaskrá Hólastaðar frá því laust fyrir 1300.  Jörðin mun hafa komist í eigu Möðruvallaklausturs árið 1378, en í testamentisbréfi frá 1520 ánafnar biskup Hólastól jörðina á nýjan leik vegna brota á kirkjulögum, en hún var þá talin 10 hundruð að dýrleika.  Jarðarinnar er eftir þetta getið í fjölmörgum heimildum, ekki síst í jarðabókum frá 16., 17. og 18. öld.  Er þannig í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 helstu kostir og ókostir jarðarinnar tíundaðir.  Segir m.a. að útigangur sé svipull fyrir fannalögum og þurfi ábúandinn af þeim sökum að þiggja beit frá nágrannabýlinu Gunnarsstöðum fyrir ákveðinn toll.  Er frásögn þessi í samræmi við í manntalsskrá frá árinu 1703.  Í Jarðabók Árna og Páls segir ennfremur um Laxárdal að grasa- og hvannatekjur séu af jörðinni og að engjar séu þar dreifðar hér og þar í heiðinni, sitt ár í hverjum stað.  Er í þessu viðfangi til þess að líta að í jarðarmati frá 1804 segir að hver ábúandi í Svalbarðshreppi megi tína fjallagrös frítt í almenningi hreppsins.  Almenningslandið er ekki afmarkað frekar í þessari heimild, en í sóknarlýsingu frá 1875, sem síðar verður vikið að, segir að engar jarðir séu til almennings þarfa í Svalbarðshreppi.  Af gögnum verður ráðið að Laxárdalsjörðin hafi á stundum verið í eyði fyrir og eftir aldamótin 1800.  Mun jörðin hafa verið seld undan Hólastól árið 1804 eða 1805 og eru heimildir um að hún hafi verið í samfelldri byggð a.m.k. frá árinu 1809.  Er jarðarinnar t.d. getið í lögfestu frá 1811, þó ekki sé vitað um efni hennar.  Í jarðarmati frá 1849 segir að virði jarðarinnar sé 12 hundruð, og að landrými og landkostir séu þar í betra lagi eftir því sem gerist í sveitinni.  Í fyrrnefndri sýslu- og sóknarlýsingu Þingeyjarsýslu, sem talin er rituð árið 1875 af Valdimar Ásmundssyni, fæddum árið 1852, síðar ritstjóra, er Laxárdals getið í umfjöllun um Svalbarðssókn.  Segir um hana m.a.:  „Jörðin er bóndaeign, 25,5 hundruð að dýrleika.  Henni fylgir mikið land til heiðar, engi allmikið.  Útigangur er þar nokkur.  Þar er trjáreki.  Mjög hefur beitilandið þar af sér gengið.“  Í sömu heimild er vikið að sellöndum og afréttum jarða í hreppnum.  Segir að selstöður hafi lagst af í hreppnum í móðuharðindum í lok 18. aldar, en áður hafi Krubbnasel frá Laxárdal verið langt frammi á Dalstungu.  Um afrétti sveitarinnar segir nánar í lýsingunni:

Afréttarlöndin í Dals- og Hvammsheiðum eru almenningar framan við landamerki Dals (um Grasmannalæk, sem rennur úr Bræðravötnum vestur í Hólkná) og Gunnarsstaða (um Hávarðsdalsá).  Sama er að segja um afréttina fram af Álandstungu, en þó á Vatnsendi (eyðijörð) þar nokkurt land ...“.

Í fyrrnefndu riti, Lýsingu Þingeyjarsýslu, er heyskap í Dalsheiði að nokkru lýst.  Er þar m.a. skráð eftir Þórarni Kristjánssyni í Holti, að áður en túnrækt hófst að marki hafi oft verið heyjað í heiðinni, sett saman og ekið heim að vetrinum.  Nefnir hann að í heiðinni hafi helstu blettir og engjastykki verið þessi: í Einarsdal, við Hestalæk, við Víðinesá suður af Lambhól og Bessalæk.  Þá er Laufness getið og enn sunnar Krubbnasel, er hafi verið besta engjastykkið í heiðinni.  Þá hafi verið heyjað við Ytrihæðarlæk, í blettunum sunnan við Fremrihæðir, við Álftatjörn vestur af Krubbnaseli og inn við Aragunnulæk, en þangað hafi verið um 15 km frá Laxárdal.  Í nefndu riti er heiðarsvæðum í Svalbarðshreppi lýst nokkru nánar, og segir um það svæði sem hér er til umfjöllunar, milli Álandstungu og Hvammsheiðar eftirfarandi:  „Næsta afréttarland austan Álandstungu er Dalsheiði, sem liggur til suðurs frá bænum Laxárdal milli Hólknár í vestri og Hvammsheiðar í austri.  Austurmörk heiðarinnar, sem skilja hana frá Hvammsheiði, liggja eftir miðjum hálendishrygg austan megin í heiðinni en láglendara er lengi vel suður með Hölkná.  Í suðri rísa Heljardalsfjöll mun hærri en önnur fjöll í heiðinni.  Syðsti hluti hennar er heldur góðurlítill, víða sléttar urðir, en grastorfur þó hér og þar. ... Ekki er vitað til, að nein byggð hafi verið í Dalsheiði“.  Í sóknarlýsingu Valdimars frá 1875 er Hvamms- og Dalsheiðum lýst þannig: „Heiðargeim þann mikla, sem liggur út frá Heljardalsfjöllum milli Hafralónsár og Hólknár til byggða nefna menn Hvammsheiði og Dalsheiði.  Fremst í heiðageim þessum, næst Heljardalsfjöllum að norðan, er nefnt Hvítahraun. ... Í vesturhlut heiðarinnar (Dalsheiði) eru tvö fjöll framarlega utan við Hvítahraun.  Þvertungufjall er í tungu þeirri, sem Hólkná og Þverá mynda sín á milli; það er ekki hátt, og að mestu leyti er það grasi vaxið.  Austur af því er Hávarðstungufjall; það er alllíkt hinu.  Milli þessara fjalla rennur Þverá.  Norðan við fjöll þau, er nú var getið, er heiðin mjög óslétt með móum og mýrlendi, hvergi grýtt nema á hæstu hæðum.  Skessuhamar heitir ofurlítið fell utar í heiðinni, eigi allhátt með klettum ... Laxá hefur upptök sín í flóa einum austan undir Skessuhamri ... Milli Laxár að austan og Hólknar að vestan er nefnd Dalstunga.  Liggja miklar hæðir eftir henni miðri, sem halda að Laxárdal að vestan.  Meðfram Hólkná eru mýrar.  Utan við ásana og dalina eru flatir lyngmóar.“

Í nefndum heimildum segir að frá strönd og suður að Heljardalsfjöllum séu um 40 km.

Í úrskurði óbyggðanefndar er sögu afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar Laxárdalsbýlisins lýst með líkum hætti og hér að framan hefur verið rakið.  Segir þar m.a. að heimildir bendi til þess að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða, og er áréttað að hennar hafi fyrst verið getið í lok 13. aldar.  Segir að landsvæði jarðarinnar sé aflangt og hafi leguna norður-suður og liggi í 200 til rúmlega 600 m hæð yfir sjávarmáli.  Um staðhætti segir nánar að Hölknardalur liggi um mitt svæðið norðan til og renni Hölkná um hann til norðurs, en að þar sé einnig nokkuð um önnur vatnsföll.  Austan dalsins liggi Nautatungufjall (584 m), en vestan hans Lambafjallgarður (483 m).  Þá segir að norðan til sé landið gróið og votlent, en er sunnar dragi minnki gróðurinn, en auk þess sé land þar hálent og fjalllent.  Um gróðurfar er nánar vísað til fylgirita, m.a. greinargerðar náttúrufræðings frá árinu 2006, en á það er bent að við landnám hafi land almennt verið betur gróið og náð lengra inn á heiðar en nú er.  Í úrskurðinum segir að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til fjalla landnám hafi náð á þessu svæði og af þeim sökum verði ekki fullyrt um hvort að í öndverðu hafi verið stofnað þar til beins eignarréttar með námi. 

Landamerkjabréf Laxárdals var útbúið hinn 15. ágúst 1886 og var því þinglýst 18. maí 1887.  Merkjum er lýst í stefnu hér að framan.  Undir landamerkjabréfið ritar þáverandi eigandi jarðarinnar og ábúandi á árunum 1847 til 1893, Jón Bjarnason, en sem samþykkjendur rita þeir séra Guttormur Vigfússon, fulltrúi umboðsmanns Munkaþverárklausturs (vegna Gunnarsstaða), og Sigfús Jónsson, eigandi Hvamms.

Auk nefnds landamerkjabréfs liggur fyrir í málinu óársett og óundirritað landamerkjabréf fyrir Laxárdal.  Er merkjum jarðarinnar lýst í þessu bréfi með nær sama hætti og í hinu þinglýsta bréfi, en niðurlagsorð þess eru þó svofelld:  „Að austan ræður nefnd stefna úr Heljardalsfjöll í Skjessuhamar svo ræður lík stefna í upptök Laxár þá ræður Laxá að reiðmelum, eptir það ræður forni farvegur Laxáar að hennar forna ósi.  Allan Hvalreka og trjáviðarreka á Laxárdalur fyrir landi sínu frá Hólknárósi að forna Laxárósi.

Samkvæmt gögnum bar þáverandi ábúandi Gunnarsstaða, Árni Árnason, fram kvörtun við amtmann í október 1886 vegna gerðar landamerkjabréfs Laxárdals.  Virðist tilefni kvörtunarinnar hafa verið að ekki hefði verið farið að tillögum bréfritarans varðandi landamerki lands er tilheyrði hjáleigunni Hávarðsstöðum gagnvart Laxárdal og Hvammi og fór hann vegna þessa fram á ógildingu merkjanna.  Samkvæmt landamerkjabréfi Hvamms, sem skráð var 16. ágúst 1886, átti hjáleigan land í Hvammsheiði, austan við Bræðravötn og Bræðravatnshrygg, við mörk Dalsheiðar, en syðst náði land hennar að Grímólfsá og Hvappslæk, en síðan austur að Hafralónsá.  Verður ráðið af gögnum að lyktir kvörtunarmálsins hafi orðið þær, að farið hafi verið að tilmælum umboðsmanns Munkaþverárklausturs, Stefáns Stefánssonar, um að Gunnarsstaðir gæfu eftir nokkurn hlut af landi hjáleigunnar, með þeim rökum að hún væri um 1½ dagleið frá höfuðbýlinu og „því hefði orðið dýrt að fara í mál út af landskika í afréttarlandi þar sem engin skortur væri á landrými.“

Í fasteignamati N-Þingeyjarsýslu 1916-1918 er merkjum Laxárdals lýst með sama hætti og í landamerkjabréfinu frá 1886.  Þess er þar getið að jörðin eigi mikið heiðarland og góða sumarhaga.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er því lýst að að Laxárdal til vesturs liggi jarðeignir í svonefndri Álandstungu, þ.e. Vatnsendi, Hvappur, Hafursstaðir og Áland, en til austurs jarðirnar Hvammur og Gunnarsstaðir, að norðanverðu sé hafið og til suðurs sé landsvæði sem Svalbarðshreppur hafi gert tilkall til.  Er í framhaldi af því ítarlega fjallað um landamerkin og þau borin saman við merkjalýsingar nágrannajarðanna. 

Áréttað er að merkjum Laxárdals hafi fyrst verið lýst heildstætt í landamerkjabréfinu frá 1886, en á það bent að merkjum jarðarinnar til suðurs hefði áður verið lýst í fyrrnefndri sýslu- og sóknarlýsingu Valdimars Ásmundssonar árið 1875.  Til þess er vísað að samkvæmt nefndu landamerkjabréfi séu suðurmerki jarðarinnar, þ.e. frá Hölkná í stefnu austur um Heljardalsfjöll, í samræmi við kröfur hreppsfélagsins fyrir óbyggðanefnd, en engar heimildir finnist þó um merki þessara aðliggjandi svæða.  Merki jarðarinnar samkvæmt hinni eldri heimild nái samkvæmt þessu mun skemur til suðurs en lýst sé í landamerkjabréfinu. 

Um vesturmerki jarðarinnar segir í úrskurðinum að þau liggi að Vatnsenda, Hvappi, Hafursstöðum og Álandi.  Landamerkjabréf Laxárdals sé ekki áritað um samþykki vegna þessara landa, en hins vegar sé landamerkjabréf Vatnsendajarðarinnar frá árinu 1889 m.a. áritað af þáverandi eiganda Laxárdals, Jóni Bjarnasyni.  Er staðhæft að ekki sé uppi ágreiningur um að merkjum sé rétt lýst gagnvart Vatnsenda og Hvappi.  Og þar sem að merki Laxárdals gagnvart Hafursstöðum og Syðra- og Ytra-Álandi séu utan þjóðlendukröfusvæðis komi þau ekki frekar til skoðunar. 

Um austurmerki Laxárdals gagnvart Hvammi segir í úrskurðinum að þau séu ágreiningslaus, en fyrir liggi gagnkvæmar áritanir landeigenda, en að auki séu fyrir hendi eldri heimildir um landamerkin.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að landamerkjabréf Laxárdalsjarðarinnar hafi verið útbúið í kjölfar setningar landamerkjalaganna nr. 5, 1882.  Er áréttað að merkjum í bréfinu sé lýst mun lengra til suðurs en í áðurrakinni merkjalýsingu Valdimars Ásmundssonar frá 1875, en lýsing þessi sé hluti af sýslu- og sóknarlýsingum Þingeyjarsýslu.  Þá er bent á að landamerkjabréfið hafi ekki verið áritað vegna aðliggjandi landsvæðis til suðurs, þ.e. gagnvart Heljardalsfjöllum og ekki heldur gagnvart Vatnsenda og Hvappi.  Um þetta álitaefni segir nánar í úrskurðinum:

Lýsing hinnar eldri heimildar er mjög skýr og svo mikið ber á milli að telja verður að hún mæli í mót landamerkjabréfinu að þessu leyti.  Óbyggðanefnd telur því að ekki sé í ljós leitt að land sunnan Grasmannalækjar hafi verið innan landamerkja Laxárdals fyrir gerð landamerkjabréfsins árið 1886.  Fyrirliggjandi gögn benda hins vegar ekki til annars en að landamerkjum Laxárdals til annarra átta sé þar rétt lýst.  Bréfið er þinglesið, fært í landamerkjabók og er ekki að sjá að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna.  Þá séu landamerkjabréf aðliggjandi jarða þinglesin og að hluta til árituð vegna Laxárdals.“

Að ofangreindu sögðu er í úrskurði óbyggðanefndar tekið til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan lýstra merkja Laxárdals samkvæmt landamerkjabréfinu frá 1886.  Segir um það eftirfarandi: 

Að því er tekur til þess landsvæðis sem afmarkað er í framangreindu landamerkjabréfi er til þess að líta að eldri heimild mælir gegn því að merki jarðarinnar nái svo langt suður sem þeim er lýst í bréfinu.  Önnur gögn um merki Laxárdals liggja ekki fyrir.  Þá er ljóst að með því að gera landamerkjabréf hafa menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt, … Umrædd sóknarlýsing, sem rituð er árið 1875, eða um áratug áður en landamerkjabréfið er gert er venju fremur glögg og afdráttarlaus um mörk jarðar gagnvart afrétti/almenningi.  Ekkert annað hefur komið fram en að hér sé um að ræða hlutlausa samtímalýsingu sem ætla verður að hafi byggst á fullnægjandi heimildum.  Er jafnframt til þess að líta að sóknarlýsingin í heild sinni ber þess öll merki að vandað hafi verið til verksins eftir því sem frekast var kostur.  Að þessu virtu, með hliðsjón af staðháttum á heiðarlandi þessu, og að gættum þeim sönnunarkröfum sem gera verður í ljósi dóma Hæstaréttar í þjóðlendumálum, verður að telja svo verulegan vafa leika á því að innan Grasmannalækjar hafi við gerð landamerkjabréfsins verið eignarland að á slíku verði ekki byggt.  Ekki hefur verið sýnt fram á að not á landi þessu síðar hafi verið með þeim hætti að stofnast hafi getað til beins eignarréttar á grundvelli hefðar, sbr. hefðarlög nr. 46/1905.

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að umrætt landsvæði sunnan kröfulínu ríkisins sem miðar við Grasmannalæk úr Bræðravötnum að Hölkná sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að á umræddu landsvæði sé þjóðlenda.  Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að umrætt land, sem nýtt hefur verið til beitar, sé í afréttareign Laxárdals en aðrir hafi ekki haft uppi slíkt tilkall til svæðisins. 

Samkvæmt framansögðu var það niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði, eins og það er afmarkað hér að neðan, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998, en jafnframt að sama landsvæði sé afréttareign jarðarinnar Laxárdals, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, þ.e:

Línan fylgir Grasamannalæk úr Bræðravötnum og í Hölkná en þá er Hölkná fylgt til suðurs að Fremri-Skarðslæk sem ræður til upptaka sinna sem eru norðan undir Lambafjallgarði.  Þá ræður Lambafjallgarðsbrún til foss í Hölkná en eftir það ræður áin suður á móts við vesturhorn á Heljardalsfjöllum.  Þá ráða Heljardalsfjöllin að þeim stað þar sem tekin verður úr þeim bein stefna milli Bræðravatna í Skessuhamar.  Þeirri línu er síðan fylgt þar til komið er á milli Bræðravatna en þá er farið til vesturs í upphafspunkt lýsingar þessarar.

 

                                                          II.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Aðalkröfu sína byggja stefnendur á því að landsvæði jarðarinnar Laxárdals, svo sem það er afmarkað í úrskurði óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, sé háð eignarrétti/eða sé eign þeirra, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62, 1994.

Aðalkröfu sína styðja stefnendur neðangreindum rökum:

Í fyrsta lagi byggja stefnendur á því að það landsvæði sem afmarkað er í aðalkröfu þeirra hafi frá öndverðu verið numið og hafi sá eignarréttur ekki fallið niður síðan og því sé hið umdeilda land háð eignarrétti þeirra.  Þessu til stuðnings vísa stefnendur til Landnámu, áðurnefndra Sturlubókar, Hauksbókar og Þórðarbókar, er lýsi m.a. landnámi Ketils þistils í Þistilfirði.  Benda stefnendur á að oft hafi Landnáma verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands.

Í öðru lagi byggja stefnendur á því að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og sá er haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.  Benda stefnendur á að hér sé um meginreglu íslensks eignarréttar að ræða og árétta að umrætt landsvæði hafi allt frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti, enda fari landnámsheimildir í Þistilfirði ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar.  Þá sé til þess að líta að við landnám hafi landið verið betur gróið og náð lengra inn á heiðar en nú sé.

Stefnendur vísar til þess að landamerkjabréfi Laxárdals frá árinu 1886, hafi verið þinglýst 18. maí 1887 og fært í landamerkjabók án athugasemda og hafi það ráðið merkjum síðan.  Benda stefnendur á að við setningu landamerkjalaganna nr. 5, 1882 og síðan laga nr. 41, 1919 hafi verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og að leyst yrði úr ágreiningi um merki ef um slíkt væri að ræða.  Stefnendur benda og á að landamerkjabréfið fyrir Laxárdal byggi á eldri heimildum, en þar um vísa þeir til þess sem rakið var úr úrskurði óbyggðanefndar hér að framan, m.a. um jarðamöt o.fl., og staðhæfða að þær heimildir fari eigi gegn landamerkjum jarðarinnar.  Í því viðfangi bendi þeir ennfremur á þau sjónarmið er fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004, en þar hafi verið talið skipta máli hvort land teldist innan upphaflegra landnáma og hvort að með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum.

Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að þeir hafi farið með ráðstöfun á öllum þeim heimildum/réttindum sem fylgja þeirri eign sem varðar umrætt landsvæði, en þar á meðal sé beitarréttur og önnur þau afréttarnot sem getið er um í úrskurði óbyggðanefndar.  Þá hafi skattar og önnur lögboðin gjöld verið greidd af öllu landinu.

Stefnendur segja að eignarréttur þeirra hafi verið virtur af öllum frá ómunatíð, þar á meðal af stefnda, sem m.a. hafi lýst sér í því að stefnendur hafi getað bannað öðrum not eignarinnar.  Eignarréttur stefnenda hafi og verið virtur í viðskiptum, en af þeim sökum sé eignarhald þeirra einnig byggt á viðskiptavenju.

Í fjórða lagi byggja stefnendur á því að venjuréttur og hefðarreglur  leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt landsvæði sé undirorpið eignarrétti í skilningi fyrrnefndrar 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, en fullur hefðartími sé liðinn frá því þeir tóku að nytja landið.  Árétta stefnendur að öll afnot og nytjar landsins séu háðar leyfi þeirra sem landeigenda, enda hafi enginn notað það með nokkrum hætti nema þeir.  Sjónarmiði óbyggðanefndar þess efnis að flokka hefð með lögum sem frumstofn eignarréttar, hafi ekki verið breytt af Hæstarétti.  Um þetta vísa stefnendur nánar til dóma Hæstaréttar, m.a. frá árinu 1997, bls. 2792, og frá árinu 1999, bls. 28, þar sem eignarhefð hafi verið viðurkennd.  Ennfremur vísa stefnendur til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) frá 9. desember 1994, series A 301 - A, og skrifa fræðimanna um venjurétt.

Í fimmta lagi vísa stefnendur til þess að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign/eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstól Evrópu.  Benda þeir á að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmálann hafi verið túlkað af dómstólum á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu.  Með sjálfstæðri merkingu sé átt við að til komi mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar nefndrar 1. gr. og þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis sem í hlut eigi.  Skortur á slíkri vernd í landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum um hvort um eign sé að ræða í skilningi nefndrar 1. gr.  Benda stefnendur á að um eign í skilningi ákvæðisins geti verið að ræða þótt dómstólar aðildarríkis hafi ekki talið svo vera samkvæmt innanlandsrétti.  Mannréttindadómstóllinn hafi þannig lagt mat á atvik máls í hverju tilviki fyrir sig og lagt áherslu á að úrslitum réði tiltekið heildarmat.  Þannig hafi dómstóllinn bæði litið til staðreynda og lagalegra atriða, en við matið hafi í ákveðnum tilvikum það t.d. einnig ráðið úrslitum hvernig farið hafi verið með umrædda eign í framkvæmd, sérstaklega í lögskiptum og hvaða traust menn báru til þeirrar framkvæmdar.  Þá hafi framkoma handhafa ríkisvaldsins í garð eigenda einnig skipt máli.  Og í þeim málum þar sem komið hafi verið fram við einstaklinga eða lögaðila sem réttmæta eigendur ákveðinna eigna hafi slík framkoma verið talin vekja ákveðnar væntingar hjá þeim aðilum um löglegt eignarhald sitt á þeim eignum.  Segja stefnendur að af þessu megi ráða að afskipti og afskiptaleysi ríkisvaldsins skipti máli við sönnunarmatið.  Benda stefnendur einnig á, að þegar tekið sé mið af dómum Hæstaréttar Íslands, en þó sérstaklega Mannréttindadómstóls Evrópu, hafi ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti viðurkennt eignarrétt landeigenda að jörðum, t.d. með því að þinglýsa eignaryfirfærsluskjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, gera um þær samninga og skattleggja þær, og séu réttmætar og lögmætar væntingar landeigenda verndaðar af þessum ákvæðum, sérstaklega nefndri 1. gr., ef þær eru byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi, sem tengdur er við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll.  Máli sínu til stuðnings vísa stefnendur m.a. til dóma Mannréttindadómstólsins (MDE) í máli Papamichaloppulos gegn Grikklandi frá árinu 1993, dóms yfirdeildar MDE í máli fyrrum Grikklandskonungs og fleiri gegn Grikklandi frá árinu 2000, dóms yfirdeildar MDE í máli Beyeler gegn Ítalíu frá árinu 2000, dóms MDE í máli Stretch gegn Bretlandi frá árinu 2003 og dóms yfirdeildar MDE í máli Kopecký gegn Slóvakíu frá árinu 2004.

Stefnendur byggja á því, verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem þeir hafi teflt fram í málinu séu fullnægjandi, að verið sé að mismuna eigendum jarða með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi.  Nægi ekki að áliti stefnenda að vísa til dóma Hæstaréttar Íslands í fyrstu málum um þjóðlendukröfur, og þar á meðal þess, að þinglýstir eigendur jarða þurfi að styðja eignarheimildir sínar við enn eldri heimildir.  Slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar að áliti stefnenda.  Þá segja þeir að sönnunarkröfur óbyggðanefndar og þar með stefnda séu óljósar, ógagnsæjar, ófyrirsjáanlegar og tilviljunarkenndar.  Benda þeir á að við slíkri mismunun sé lagt bann í 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og halda þeir því fram að með því sé einnig brotið gegn 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við sáttmálann en að auki sé um brot að ræða gegn 6. gr. vegna ófullnægjandi rökstuðnings.

Með vísan til alls þessa telja stefnendur að óbyggðanefnd hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og ekki beitt lögum um réttarágreining með réttum hætti.  Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.

Stefnendur byggja á því að þeir hafi sannað með málatilbúnaði sínum beinan eignarrétt sinn að umræddu landi, en íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að það hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrána eignast landið.  Þvert á móti styðji öll gögn málsins eignartilkall þeirra.  Úrskurður óbyggðanefndar sé því rangur og brjóti hann í bága við fyrrgreint eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Stefnendur gera í málarekstri sínum og málflutningi ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar.  Falla þær í meginatriðum saman við áðurraktar málsástæður og lagarök þeirra.  Þeir segja m.a. og árétta að það sé almenn lagaregla á Íslandi, að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar og að frá þeirri reglu verði ekki vikið nema að sá sem véfengir réttmæti eignarheimildarinnar sýni fram á betri rétt sinn eða annarra eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um eignarréttinn.  Telja stefnendur að sú ríka sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á þá með því að krefjast sannana um framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar né heldur Mannréttindasáttmála Evrópu, en að auki sé málatilbúnaður stefnda í andstöðu við tilgang löggjafans, sbr. að því leyti 1. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Stefnendur segja að framlögð heimildargögn í málinu styðji málatilbúnað þeirra, enda sé umrætt landsvæði innan þinglýstra landamerkja og það því háð einkanýtingarrétti þeirra.  Beri af þeim sökum að leggja sönnunarbyrðina á stefnda um tilvist þjóðlendu innan landamerkja landsvæðisins. 

Af hálfu stefnenda er áðurrakinni sýslu- og sóknarlýsingu frá 1875 andmælt og þar með þeim forsendum sem óbyggðanefnd og stefndi reisi mál sitt á.  Andmæla stefnendur þeirri staðhæfingu að lýsingin sé „venju fremur glögg og afdráttarlaus“.  Segja þeir að landamerkjabréf Laxárdals sé gert í fullu samræmi við þágildandi landamerkjalög og hafi handhafi opinbers valds komið þar að málum.  Ávallt hafi verið byggt á bréfinu og hafi það ekki verið véfengt og því hafi þeir haft lögmætar væntingar til þess að það væri rétt.  Benda stefnendur í því sambandi á það sem áður var rakið varðandi dóma Mannréttindadómstóls Evrópu um túlkun eignarhugtaksins í 1. gr. samningsviðauka nr. 1 MSE um lögmætar væntingar.

Að því er varðar eignarréttarlegt inntak hugtaksins almenningar benda stefnendur m.a. á að það hugtak hafi ekki mikið sjálfstætt gildi við mat á grunneignarrétti á landi og geti hugtakið haft margræða merkinu í löggjöf, þar á meðal vísað til ítaksréttar.  Halda stefnendur því fram að ekki verði byggt á tilvísun sóknarlýsingarinnar frá 1875 til almenninga, en að auki eru að þeirra áliti engin gögn færð fram um hvernig sóknarlýsingin gangi framar hinu þinglýsta landamerkjabréfi.

Stefnendur reisa kröfur sínar að lokum á því að í úrskurði óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning og fari hann því gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58, 1998.

Stefnendur byggja varakröfu í stefnu á sömu sjónarmiðum og rökum og aðalkröfuna.

Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr., til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefð, réttarvenju og tómlæti.  Að auki vísa þeir til þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis borgaranna.  Þá vísa þeir til Mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans og til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, m.a. að því er varðar varnarþing og málskostnað.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er á því byggt að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.

Af hálfu stefnda er um röksemdir vísað til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar. Úrskurðurinn sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni.  Hafi óbyggðanefnd talið að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hefði landsvæði það sem um sé deilt í málinu talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.  Kveðst stefndi gera niðurstöður nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfunni.

Stefndi byggir á því að með gerð landamerkjabréfs Laxárdals árið 1886 hafi merkjum jarðarinnar fyrst verið lýst með heildstæðum hætti.  Áður hafi á hinn bóginn verið búið að lýsa suðurmörkum jarðarinnar í sýslu- og sóknarlýsingum Þingeyjarsýslu.  Ekki sé fullt samræmi milli þessara heimilda, líkt og rakið hafi verið í úrskurði óbyggðanefndar, en mörkum jarðarinnar sé lýst mun skemur til suðurs í merkjalýsingu Valdimars Ásmundssonar frá 1875 en í nefndu landamerkjabréfi.

Stefndi byggir á því að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir umrætt landsvæði beri við mat slíkra bréfa að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Vísar stefndi til þess að með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 (Úthlíð).  Þá verði til þess að líta að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja sé óskorað eignarland.  Og þrátt fyrir að slíkum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á.  Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað.  Þá sé til þess að líta að sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar.  Bendir stefndi og á að við mat á gildi landamerkjabréfsins fyrir Laxárdal beri m.a. að líta til þess að það hafi ekki verið áritað vegna aðliggjandi landsvæðis til suðvesturs og suðurs, þ.e. gagnvart Vatnsenda, Hvappi og Heljardalsfjöllum. 

Að ofangreindu virtu telur stefndi að hafna beri kröfugerð stefnenda byggðri á lýsingu landamerkjabréfs jarðarinnar Laxárdals.  Segir stefndi að fyrirliggjandi heimildir bendi ekki til annars en að landamerkjum sé rétt lýst í merkjalýsingunni frá 1875.  Lýsing þessarar eldri heimildar sé mjög skýr og afdráttarlaus um mörk jarðar gagnvart almenningi/afrétti og telur stefndi að svo mikið beri á milli, að telja verði að hún mæli mót lýsingu landamerkjabréfsins að þessu leyti.  Þá hafi ekki annað komið fram en að um sé að ræða hlutlausa samtímalýsingu sem ætla verði að hafi byggst á fullnægjandi heimildum, en í því efni sé til þess að líta, að sóknarlýsingin í heild sinni beri þess öll merki að vandað hafi verið til verksins eftir því sem frekast var kostur.  Telur stefndi og að engar heimildir renni stoðum undir lýsingu landamerkjabréfsins að því marki að hún gangi lengra til suðurs en umrædd lýsing merkjalýsingarinnar frá 1875.  Á hinn bóginn hafi ekkert komið fram sem mæli gegn lýsingu á öðrum merkjum jarðarinnar í hinni eldri heimild, nefndri sóknarlýsingu.

Stefndi byggir á, að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði.  Verði að teljast ólíklegt að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægð frá byggð eða teljist lúta beinum eignarrétti.  Bendir stefndi á að samkvæmt dómafordæmum teljist heimildarskortur hvað þetta varðar leiða til þess að álitið sé ósannað að heiðarlönd og öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu.  Sé það í samræmi við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið sé ósannað að heiðarlönd hafi verið numin, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefndan dóm nr. 48/2004 (Úthlíð).

Stefndi segir að ekki verði annað séð, en að réttur stefnenda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

Verði á hinn bóginn talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, byggir stefndi á því að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota svo sem afréttarnota.  Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Um þetta atriði bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Stefndi bendir á að það styðji ofannefnd sjónarmið, að til beins eignarréttar hafi ekki stofnast á svæðinu, að fjallskil hafi verið á hendi viðkomandi sveitarfélags, að landsvæðið sé ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum jörðum án hindrana. 

Stefndi byggir á því að þegar öll framangreind atriði eru vegin og metin verði að fallast á með óbyggðanefnd, að rök standi til þess að á svæðinu, þ.e. sunnan Grasmannalækjar í Dalsheiði, sé afréttur, en það landsvæði kunni þó að vera í afréttareign Laxárdals.  Er um þetta nánar vísað til niðurstöðukafla úrskurðar nefndarinnar.

Stefndi byggir á því til vara, að verði talið að greint landsvæði kunni að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti að hluta eða öllu leyti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið var tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hefði stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um vísar hann m.a. til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda.  Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefnds dóms nr. 48/2004.

Stefndi andmælir einnig þeim málatilbúnaði stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði.  Segir hann að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

Stefndi andmælir varakröfu stefnenda með sömu rökum og að framan greinir og krefst sýknu.  Hann mótmælir því sérstaklega að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignarréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvort heldur að hluta til eða að öllu leyti.  Vísar hann í því sambandi m.a. til gildandi laga nr. 57, 1998 um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu, og segir að ákvæði 3. gr. laganna gildi um nefnt landsvæði, enda um þjóðlendu að ræða, en ekki eignarland, samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar.  Segir stefndi að ákvæðið feli í sér að í þjóðlendum séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.  Að áliti stefnda hafi stefnendum ekki tekist að sanna eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti.  Stefndi bendir sérstaklega á það, sem rakið hefur verið hér að framan, að nýting svæðisins hafi verið takmörkuð, enda bendi heimildir til þess að svæðið hafi eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði.  Slík takmörkuð not geti hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu.

Með vísan til ofangreindra atriða, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, sé röng.  Stefndi bendir á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld.  Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „... landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“.  Stefndi segir að engin gögn liggi fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að umrætt landsvæði svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, og krefst þess að hann verði staðfestur.  Verði því miðað við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem í úrskurðinum sé lýst.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944 og byggir jafnframt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not.  Hann byggir á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar.  Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905 og vísar einnig til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil.  Þá vísar hann til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr.

 

                                                    III.

Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“ 

Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur. 

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til umræddra laga, sem nefnd hafa verið þjóðlendulög, segir að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.  Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar.  Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum.  Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum. 

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda.  Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

Eins og áður var rakið tilkynnti óbyggðanefnd með bréfi dagsettu 1. mars 2004 þá ákvörðun sína að í samræmi við III. kafla laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta ætlaði hún að taka til umfjöllunar landsvæði á Norðaustur- og Austurlandi, þ. á m. það svæði sem hér um ræðir, í Svalbarðshreppi í Þistilfirði.  Að lokinni málsmeðferð samkvæmt nefndum kafla laganna kvað óbyggðanefnd upp úrskurð hinn 29. maí 2007, sbr. mál nefndarinnar nr. 4/2005.  Varð það m.a. niðurstaðan að umrætt landsvæði innan merkja Laxárdals samkvæmt landamerkjabréfi frá 1886 væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., en að það sama svæði væri afréttareign jarðarinnar, sbr. ákvæði 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58, 1998.

Það er álit dómsins að lýst málsmeðferð óbyggðanefndar, sbr. kafli I, liður 1-5 hér að framan, hafi verið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur.  Verður ekki fallist á með stefnendum að form- eða efnisgallar séu á úrskurðinum, þar á meðal að því er varðar meðalhófs- og jafnræðisreglur stjórnsýslulaga, þannig að varði ógildi hans.  Þykir að þessu leyti mega vísa til hæstaréttarmálsins nr. 48/2004, en þar er það m.a. rökstutt að málsmeðferðin sé eigi andstæð 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994.  Í þessu viðfangi þykir og fært að líta til ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06: Örn Bergsson o.fl. gegn Íslandi, en málið varðaði dóm Hæstaréttar í máli nr. 496/2005 um landsvæðin Fjall og Breiðamörk í Öræfum.

Ágreiningsatriði máls þessa varðar samkvæmt framansögðu eignarréttarlega stöðu landsvæðis innan þinglýstra landamerkja jarðarinnar Laxárdals í Svalbarðshreppi samkvæmt landamerkjabréfi frá 15. ágúst 1886, og þá niðurstöðu óbyggðanefndar að sunnan Grasmannalækjar í Dalsheiði sé þjóðlenda.  Stefnendur andmæla þessu og krefjast viðurkenningar á beinum eignarrétti landsins.  Verði ekki á það fallist krefjast þeir viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti til hvers kyns gagna og gæða líkt og lýst er í aðal- og varakröfu í stefnu.  Af hálfu stefnda er krafist sýknu, og er um rökstuðning m.a. vísað til lýstrar niðurstöðu í úrskurði óbyggðanefndar.  

Um mörk hins umdeilda landsvæðis er ekki ágreiningur, en dómari fór á vettvang, ásamt lögmönnum aðila, undir rekstri málsins.

Bærinn Laxárdalur stendur í samnefndum grunnum dal, um 4 km frá sjó.            Í úrskurði óbyggðanefndar og þeim gögnum sem aðilar hafa lagt fram og vísað hefur verið til að nokkru hér að framan er rakin saga jarðarinnar allt frá 13 öld.                   Er jarðarinnar einkum getið í kirkjubókum og jarðamötum og verður ráðið að hún hafi á fyrstu byggingarárum verið í bændaeign, en fallið undir Hóladómstól í byrjun 16. aldar.  Verður ráðið að um og eftir móðuharðindin í lok 18. aldar hafi jörðin verið í eyði í fáein ár, en orðið bændaeign á ný árið 1805 og eftir það verið í samfelldri byggð.  Í nefndum gögnum er jarðnæði jarðarinnar að nokkru lýst, helstu kostum og ókostum og eru um það heimildir að erfiðleikar hafi verið með útigang búfjár á vetrum vegna fannalaga.  Segir m.a. frá því að af þessum sökum, en einnig vegna nálægðar við Gunnarsstaðalandið, hafi það land verið beitt af Laxárdalsbændum fyrir ákveðið gjald.

Í sóknarlýsingu Svalbarðssóknar frá 1875 er frá því greint að Laxárdalsjörðinni fylgi engi allmikið og mikið land í Dalsheiði.  Segir frá því að selstöður frá jörðinni hafi verið langt frammi á Dalstungu, við Krubbnasel, en þess getið að þær hafi almennt lagst af í Svalbarðshreppi í móðuharðindunum.  Í Lýsingu Þingeyjarsýslu segir að ekki sé kunnugt um að byggð hafi verið í Dalsheiðinni, en að þar hafi verið stundaður heyskapur á blettum allt að 15 km frá Laxárdal, m.a. við Aragunnulæk, en hann er norðan Grasmannalækjar. 

Í fjallskilareglugerðum fyrir Norður-Þingeyjarsýslu hefur allt frá árinu 1894 landi verið skipt í heimalönd og afrétti.  Samkvæmt skýrslum aðila fyrir óbyggðanefnd hefur löngum verið litið á Hvamms- og Dalsheiði sem eitt smalasvæði, þ.e. milli Hölknár og Hafralónsár, en ekkert hindrar samgang fjár þar í millum.  Mun samsmölun hin síðari ár hafa hafist við Heiðarmót í Heljardalsfjöllum og endað við afréttargirðingu, sem reist var í heiðarlandinu um 1970.  Samkvæmt gögnum liggur nefnd girðing þvert yfir heiðarnar frá Hölkná um Skarðhæðir og suðaustur um Dráttarhrygg, Laxárkrók og Kollhól, norðan Ytri Kálfafjalla, og í Hafralónsá við Hvammsgljúfur.

Í nefndum gögnum er staðháttum og gróðurfari í Dalsheiði lýst.  Segir frá því að heiðin sé lík öðrum afréttarlöndum Langnesinga og Þistilfirðinga, en yfirleitt sé um að ræða langar og mjóar ræmur, um 4-6 km breiðar, inn af heimalöndum sem markist af helstu ám og/eða fjöllum og ásum sem fylgja landmótunarstefnu svæðisins norður/suður, en um 40 km séu frá sjó og inn í Heljardalsfjöll.  Er þessu skilmerkilega lýst í sóknarlýsingunni frá 1875, en einnig í ritsmíð Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings frá árinu 2006.  Um mörk Dalsheiðar segir í síðarnefndu heimildinni: „Mörk hennar að austan liggja að Hvammsheiði en að vestan ræður Hölkná inn á móts við Þvergil norðvestan í Heljardalsfjöllum.  Heiðin er gróin að mestu neðan við 200 m hæð og var þar oft heyjað fyrrum.  Um og innan við Skessuhamar hækkar land verulega og eru úr því gróðurlitlir melar og urðir nema í árdögum”.

Eigi er um það deilt að gróður hafi náð lengra inn til fjalla á landnámsöld en nú er.  Segir í ritsmíð nefnds náttúrufræðings um ástand gróðurs, að útnesjasvipur einkenni hann, sem komi m.a. fram í því að tegundir sem nær einvörðungu vaxi til fjalla sunnar á landinu, m.a. í snjódældum, sé þarna að finna niðri á láglendi (rjúpnastör, fjallasmári).  Fléttugróður sé og víða mikill í mólendi, m.a. fjallagrös, sem sunnar vaxi aðallega til heiða.  Þá segir að athygli veki hversu lágt yfir sjó mörkin liggi fyrir samfelldan gróður, þ.e. ekki minna en 200-250 m neðar en miðsvæðis á Austurlandi, en þegar náð sé um 400 m hæð yfir sjó sé land víða orðið melar og berar urðir.  Þessu valdi vafalaust, segir í ritsmíðinni, lágur meðalhiti.  Undantekning frá þessu sé Heljardalur og grennd (við Hafralón og sunnan Eyjavatns) þar sem séu falleg gróðurlendi í um og yfir 500 m hæð.

Stefnendur byggja á því eins og áður er rakið að umþrætt landsvæði í Dalsheiði hafi verið numið í öndverðu. 

Samkvæmt Landnámu námu þrír nafngreindir menn Langanes og Þistilfjörð.  Þeir Ketill þistill og Gunnólfur kroppa námu Langanesið, og sá síðarnefndi land utan Helkunduheiðar.  Þá nam Kolli land þar vestan við, í Kolluvík og Sveinungsvík.  Dómurinn fellst á röksemdir stefnda um að frásögn Landnámu sé ekki fyllilega ljós um landnámið og mörk þess.  Verður meðal annars ekki ráðið hversu langt inn til landsins landnámið hafi náð.  Að áliti dómsins verða ekki dregnar með vissu ályktanir um eignarréttarlega stöðu heiðarlanda Þistilfirðinga út frá landnámi.  Er málsástæðum stefnenda varðandi landsvæðið í Dalsheiði að þessu leyti því hafnað.

Landamerkjabréf fyrir Laxárdal var gert árið 1886 í kjölfar setningar landamerkjalaga nr. 5/1882.  Hér að framan var merkjum samkvæmt bréfinu lýst og einnig áritunum þar á.  Liggur fyrir að bréfið var ekki undirritað og samþykkt vegna vestur- og suðurmerkja.  Bréfinu var hins vegar þinglýst án athugasemda 18. maí 1887.  Byggja stefnendur kröfu sína um beinan eignarrétt að umræddu landsvæði í Dalsheiði ekki síst á þessu landamerkjabréfi. 

Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Segir í dómsniðurstöðunni að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Ennfremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það.  Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.  Rétturinn hefur í síðari dómum áréttað þessa afstöðu, t.d. í fyrrnefndum dómi í máli nr. 496/2005.

Ber við niðurstöðu máls þessa að hafa allt framangreint í huga.

Nefnd sóknarlýsing Svalbarðssóknar er að áliti dómsins skilmerkileg, m.a. um landslag, staðhætti og gróðurfar.  Hún er talin rituð árið 1875 eða rúmum tíu árum áður en landamerkjabréfið fyrir jörðina Laxárdal var útbúið.  Í lýsingunni er staðhæft að afréttarmörk í Dalsheiði séu við Grasmannalæk.  Að áliti dómsins styðja önnur framlögð gögn þessa afmörkun.  Þar á meðal eru gögn sem vísa til nýtingar landsins, m.a. heyöflun við Aragunnulæk, en einnig önnur atriði eins og lega landsins, fjarlægð frá byggð auk þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndu hæstaréttarmáli, sbr. og það sem segir í rökstuddum úrskurði óbyggðanefndar.  Þau heimildarskjöl sem stefnendur tefla fram til styrktar röksemdum um beinan eignarrétt að lýstu landsvæði í Dalsheiði hnekkja þessu ekki, en munnmæli nægja þar ekki.  Hafa stefnendur að áliti dómsins því ekki sýnt fram á að landsvæðið sunnan Grasmannalækjar sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.

Líkt og fyrr var rakið eru engar heimildir fyrir um not greinds landsvæðis til annars en sumarbeitar.  Hafa stefnendur ekki fært fram sönnun þess að skilyrði eignarhefðar á landinu hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu og lögbundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því, ásamt fleiri bændum, sem land eiga að heiðarlandinu.  Hafa stefnendur heldur ekki rökstutt frekar þau réttindi, sem varakrafa þeirra tekur til, eða þeir að öðru leyti fært fram heimildir fyrir slíku.

Að þessu virtu, andmælum og röksemdum stefnda, en einnig með hliðsjón af áðurnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki séð að stefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.  Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að umkrafið landsvæði í Dalsheiði sunnan Grasmannalækjar, en innan merkja Laxárdals samkvæmt landamerkjabréfi frá 1886, sé þjóðlenda í afréttarnotum því staðfest.  Verður stefndi samkvæmt þessari niðurstöðu sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns.  Með hliðsjón af því að fleiri hliðstæð mál í Þistilfirði eru og hafa verið til meðferðar hjá dómstólnum og eru jafnframt á könnu lögmannsins, en einnig að virtum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 136/2009, er nefnd þóknun ákveðin 864.528 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 864.528 krónur.

                                                         Ólafur Ólafsson.