• Lykilorð:
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttarmál

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 16. maí 2011 í máli

nr. E-69/2009:

 

Olga Marta Einarsdóttir,

Einir Viðar Björnsson,

Guðfinna Sverrisdóttir,

Guðrún Jóna Svavarsdóttir og

Sigurður Örn Haraldsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 22. mars sl., hafa eigendur lögbýlisins Einarsstaða í Þingeyjarsveit, þau Olga Marta Einarsdóttir, kt. 000000-0000, Einarsstöðum I, Einir Viðar Björnsson, kt. 000000-0000, og Guðfinna Sverrisdóttir, kt. 000000-0000, Einarsstöðum II, Guðrún Jóna Svavarsdóttir, kt. 000000-0000, og Sigurður Örn Haraldsson, kt. 000000-0000, Jaðri, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli í Reykjavík, með stefnu birtri 15. desember 2008, til ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2007.

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru:

Aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 6. júní 2008 í málinu nr. 1/2007, þess efnis að hluti ofangreindrar jarðar, Einarsstaða, sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð: „Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði, svo sem það er afmarkað hér á eftir sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:  Frá upptökum Skjálfandafljóts í Rjúpnabrekkujökli (S) ræður fljótið þar til Krossá fellur í það (R).  Ræður svo Krossá að upptökum sínum (A-).  Þaðan er farið í suður að jaðri Dyngjujökuls undir Gæsahnjúki (L).  Loks er jaðri jökulsins fylgt þar til kemur að fyrstnefndum upptökum Skjálfandafljóts í Rjúpnabrekkujökli (S).  Er þá miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðlendulaga.  Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Einarsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan framangreindra merkja Einarsstaða.

Varakrafa stefnenda er að nefndur úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi að því er varðar land Einarsstaða á Króksdal, sem afmarkast gagnvart þjóðlendu að sunnan af línu sem dregin er beint frá upptökum Krossár, (p. A hnit 577004/509333) í sunnanverðan Fljótshnjúk, (p. A1 hnit 559469/501347), að austan Krossá, en að norðan og vestan Skjálfandafljót, sbr. meðfylgjandi uppdrátt, og þess í stað viðurkenndur beinn eignaréttur stefnanda að þessu svæði.  Innan þessa svæðis sé hin forna byggð á Króksdal.

Þrautavarakrafa stefnenda er að viðurkennt verði að þeir eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og annarrar nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var þjóðlenda innan landamerkja Einarsstaða, þ.e. innan sömu merkja og í aðalkröfu stefnanda greinir, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, þótt landið teljist þjóðlenda sunnan úrskurðarlínu óbyggðanefndar.

Stefnendur krefjast þess einnig að málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar gagnvart stefnendum vegna lögmannsþjónustu, sem þeir hafi þegið við meðferð málsins fyrir nefndinni, að fjárhæð 500.000 krónur, verði felld úr gildi og þess í stað dæmt að stefnda beri að greiða stefnendum 607.200 krónur auk virðisaukaskatts 148.764 krónur eða samtals 755.964 krónur í málskostnað.

Stefnendur krefjast að lokum málskostnaðar úr hendi stefnda líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, en með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 9. febrúar 2009, var þeim veitt gjafsókn.

 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu, en til vara að aðilar beri sinn kostnað af málinu.

 

Stefnendur eru þinglýstir eigendur Einarsstaða I og Einarsstaða II og nýbýlisins Jaðars í Þingeyjarsveit.

 

I.

1.       Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 15. júní 2006, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi, sbr. 8. gr., 11. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.  Afmarkaðist svæðið nánar, að austan af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum, frá Jökulsárósi í Öxarfirði og að ármótum við Kreppu.  Þaðan er Kreppu fylgt þar til komið er að ármótum við Kverká og hinni síðarnefndu fylgt að upptökum í Brúarjökli.  Þaðan er dregin lína til suðvesturs, til skurðar við línu þá í Vatnajökli sem afmarkar svæðið til suðurs, þar er hornmark.  Framangreind afmörkun til vesturs endar í Fjórðungskvísl.  Að sunnan fylgja mörkin miðjum farvegi Fjórðungskvíslar til austurs í punkt við Nýjadal/Jökuldal.  Þaðan eftir dalnum, beina línu milli fimm punkta sem staðsettir eru í miðjum farvegi Fjórðungskvíslar.  Þaðan úr austasta punkti í hæðarpunkt 1115 m.  Þaðan í Deili, hæð 1125 m, og áfram, inn á Vatnajökul, í Bárðarbungu, hæð 2009 m, þaðan í Svínahnjúk eystri og loks í stefnu á miðja Breiðubungu, þar til kemur að hornmarki við austurmörk.  Að norðan afmarkast svæðið af hafi.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði bárust 1. nóvember 2006.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu og útdrátt úr kröfu stefnda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 11. nóvember 2006, en einnig í dagblöðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Í tilkynningunni var m.a. skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðisins, þ.m.t. stefnendur, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 12. febrúar 2007.  Var sá frestur framlengdur og bárust síðustu kröfulýsingar í júlí það ár.  Þjóðlendukröfusvæði stefnda var skipt niður í fimm mál, þ. á m. mál nr. 1/2007 Mývatnsöræfi og Ódáðahraun.  Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt.  Þá fór fram lögboðin kynning og var frestur til athugasemda veittur til 26. júlí 2007.  Engar athugasemdir bárust og þá ekki við fyrirtökur málsins þann 26. apríl, 11. júní, 9. ágúst og 29. ágúst 2007.  Að lokinni aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd 5. september 2007, þar sem m.a. var farið í vettvangsferð, var málið tekið til úrskurðar, en ekki var ágreiningur með aðilum um merki á hinu umþrætta landsvæði.  Málsmeðferðin var endurupptekin 29. maí 2008, en þá voru lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar á ný.

Hinn 6. júní 2008 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar, að það landsvæði, sem lýst er í aðalkröfu í stefnu, inn af austanverðum Bárðardal, svonefndur Framdalaafréttur, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 58, 1998, en að það væri afréttareign þinglýstra eigenda Einarsstaða og Jaðars í Reykjadal, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.  Á sama hátt var það niðurstaða nefndarinnar að landsvæði norðan og austan þessa svæðis, sem nefnt er Selland og afréttarland Skútustaða í Skútustaðahreppi, væri þjóðlenda og afréttur.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58, 1998.

Stefnendur undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málsókn sinni hér að fá henni hnekkt og krefjast því ógildingar úrskurðarins að því er hið umþrætta landsvæði varðar.

Málið er höfðað innan þess frests, sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurðinn undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, skv. 11. gr. laganna.

Við meðferð málsins fyrir dómi var tvívegis farið á vettvang, 28. ágúst 2009 og 24. ágúst 2010.

 

2.       Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 1/2007, er samkvæmt framangreindu, m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu afréttarsvæða inn af austanverðum Bárðardal.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 196 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggja á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi, sveitarmörkum, afnotum og sögu einstakra jarða.  Þá er gerð  grein fyrir niðurstöðum, en að lokum eru úrskurðarorð.  Að auki fylgir með úrskurðinum sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004, en einnig í síðari dómum réttarins á þessu réttarsviði. 

 

3.       Í úrskurði óbyggðanefndar, Landnámabók og öðrum framlögðum skjölum, ekki síst þeim sem Þjóðskjalasafn tók saman um hið umþrætta landsvæði, er greint frá elstu ritheimildum um landnám í Bárðardal, Reykjadal og við Mývatn í Suður-Þingeyjarsýslu.  Segir í þessum heimildum m.a. frá því að Einarsstaðir í Reykjadal hafi verið landnámsjörð Ketils Hörska Þorsteinssonar, bróður Eyvindar, sem nam Reykjadal upp frá Vestmannsvatni, en jafnframt að býlið sé kennt við Einar, sonarson Ketils.  Um Bárðardal segir að hann sé samkvæmt Landnámabók kenndur við landnámsmanninn Bárð Heyangurs-Bjarnason, sem síðar var nefndur Gnúpa-Bárður, en hann mun fyrst hafa sett niður bú sitt að Lundarbrekku.  Þorsteinn sonarsonur Bárðar er sagður hafa búið norðan Mývatns, en um landnám sunnan vatns segir í Landnámu að Þorkell hafi fyrst búið að Grænavatni og að maður að nafni Geiri hafi reist þar bú við vatnið á samnefndu býli.

Bárðardalur er einn lengsti byggði dalur á Íslandi, en hann teygir sig um 45 km til suðurs inn að mörkum Sprengisands og Ódáðahrauns.  Um Bárðardal fellur Skjálfandafljót, og er það eitt af lengstu fljótum landsins.  Eru um 150 km frá upptökum þess við Vatnajökul norðvestanverðan að ósum fljótsins við Skjálfanda.  Segir um staðhætti í Bárðardal að hann sé fremur mjór, en að vestan fljóts séu fjöll, yfirleitt 600-700 metra há, en austan hans séu víðlendar og vel grónar heiðar, Fljótsheiði og Mývatnsheiði.  Var þar talsverð byggð á 19. öld og fram á þá 20.  Um heiðarnar liggja nú mörk Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.  Á seinni öldum hefur efsta byggð í dalnum meðfram Skjálfandafljóti verið í um 70 km frá ósum þess.  Innst í dalnum austan Skjálfandafljóts er bærinn Stóra-Tunga, á tungu á milli arma Suðurárhrauns.  Þaðan liggur vegur upp á heiðina norðaustur í heiðarbýlið Víðiker.  Um 10 km sunnar eru efstu býlin meðfram þverám fljótsins, Mjóidalur og Íshóll að vestan, en Svartárkot að austan við suðvestanvert Svartárvatn.  Þar byggðist fyrst upp um árið 1665 og var þá hjáleiga frá Stóru-Tungu.  Er býlið syðst býla við Skjálfandafljót og þverár þess, um 80 km frá ósum og liggur hæst yfir sjó (rösklega 400 metrar) í Suður- Þingeyjarsýslu.  Austan við Svartárvatn er gróðurspildan Miklimór sem nær austur að Kráká en hún kemur upp í miklum lindum undan Útbruna sem heita Lækir og fá ábót undan Miklamó.  Á móts við efstu býlin hefur Suðurárhraun runnið niður í fljótsdalinn úr austri og þrengt undirlendi hans mjög, við Hrafnabjörg.  Á þeim slóðum hækkar dalbotninn um meira en 100 m á innan við 5 km bili.  Á næstu 20 km sunnan við Suðurárhraun hækkar dalbotninn hins vegar aðeins um 50 m og er dalbotninn þar bæði tiltölulega breiður og sléttur. 

Afréttarsvæðin inn af austanverðum Bárðardal og suður af Mývatni hafa lengst af tilheyrt Skútustaðahreppi og Bárðdælahreppi, en fyrir árið 1907 heyrði sá síðarnefndi til Ljósavatnshrepps.  Lögbýlið Einarsstaðir tilheyrði fyrr á öldum Helgastaðahreppi, en frá árinu 1892 Reykdælahreppi.  Árið 2002 sameinuðust Bárðdæla- og Reykdælahreppur í eitt sveitarfélag, Þingeyjarsveit. 

Afréttarsvæðunum suður af Bárðardal, austan fljóts, hefur af staðkunnugum oft verið skipt í þrennt.  Nyrsti afrétturinn, sem nefndur hefur verið Suðurárhraun, nær yfir landsvæðið á milli Suðurár og Sandár og allt austur að svonefndum Bræðrum.  Þar sunnan við eru afréttarsvæði sem nefnd hafa verið Grafarlönd (vestari), en þau ná frá Sandá og suður að Krossá, með Sandmúladal, Hafurstaðaeyri, Hafurstaðahlíð og Hafursstaðaheiði (608 m), Álftatjarnarflæðu og Langadal til austurs.  Loks er afréttarsvæði sem af staðkunnugum hefur verið nefnt Framdalir, en það er landsvæði sunnan Krossár, Krossárgils og Sandmúla, en þar tekur við dalur við Skjálfandafljót, sem nefndur er Krók(s)dalur

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um hið umþrætta landsvæði á Framdalaafrétti, að það sé mjög víðfeðmt og liggi í yfir 400 m hæð.  Landið sé hæst þar sem það mætir jökli í suðri í 1300 til 1400 m hæð, við Rjúpnabrekku.  Sunnan til sé landið hallalítið apalhraun en norðan til sé það hallameira og fjalllent.  Þá segir í úrskurðinum að á tungunni nyrst á svæðinu liggi Lambamosar og renni Skjálfandafljót þar vestan við og Krossá að austan.  Ofan af tungunni falli niður úr suðaustri tvær Lambár að kjafti Öxnadals, sem sé allvel gróinn og um 12 km langur.  Eftir dalnum renni Öxnadalsá suðvestan úr Surtluflæðu.  Sunnan Öxnadals taki við Ytri- og Syðri-Múli sem nái 650-700 m hæð, og skilji þá að Illagil.  Litlu sunnar taki við Hraunárdalur og renni Hrauná um hann.  Sunnan dalsins liggi Fljótshnjúkur (814 m) og sé hann hæstur fjalla við vestanvert Ódáðahraun.  Suður af Fljótshnjúki sé Langadrag og austar Hitulagadrag með gróðurteygingum, sem og í Stóruflæðu inn af Stóruflæðahnjúk (733 m) við Skjálfandafljót.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að fornri byggð á afréttarsvæðunum inn af Bárðardal.  Þar um er helst vísað til skráningar Fornleifastofnunar Íslands frá 1996 um menningarminjar á miðhálendi Íslands og Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712.  Á meðal þeirra gagna, sem lögð voru fyrir óbyggðanefnd er rit Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings frá árinu 2007 um náttúrufar á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni, en þar er einnig vikið að fornri byggð.  Segir í riti náttúrufræðingsins m.a.:  „Svartá kemur úr Svartárvatni rétt við bæ í Svartárkoti og heldur nafni niður í Bárðardal, en henni bætist mun meira vatn úr Suðurá sem á upptök í Suðurárbotnum röska 10 km suðaustur af Svartárkoti.  Aðrennslissvæði hennar er víðlent, nær í Dyngjuföll og austur í Herðubreiðarfjöll og er hún vatnsmest lindáa í Ódáðahrauni.  Aðalupptakakvíslar hennar eru þrjár og tungur á milli, sumpart allvel grónar en uppblástur hefur þó leikið jarðveg þarna grátt á síðustu öld.  Þar eru í Hrauntungu rústir af fornu býli sem líklega var byggt upp á 10. öld, í seinni tíð kallað Hrauntangi.  Forn almannavegur (nýlega nefndur Biskupaleið) lá frá Sprengisandi, niður með Skjálfandafljóti og austur yfir það á Krókdal og þaðan yfir Breiðdal og Suðurárhraun í Suðurárbotna“.  „Sunnan Suðurár er Suðurárhraun sem telst hluti Frambruna, úfið og yngra en hraunin norðan árinnar.  Megin hluti Frambruna er talinn koma frá Trölladyngju.  Suðurárhraun hefur klofnað um Meðalbungu og heita Skafar eða Skafhólar (478 metrar).  Norðan undir þeim er valllendisfit nefnd Skafamýri, vaxin sandtöðu, en svo nefna Bárðdælingar græður með sauðvingli, bjúgstör og fleiri þurrlendisjurtum.  Víðiflesjur nefna þeir hins vegar lauf.“  Í lýsingu Hjörleifs segir að í „Bárðdælaafrétti“ sé víðiheiði mjög útbreidd og verði hún að mestu einráð í heiðagróðrinum þegar kemur inn fyrir byggð, en síðan segir:  „Fram með innanverðum jaðri Suðurárhrauns fellur Sandá úr suðaustri með upptökum í Kolmúludal við jaðar Frambruna og var þar leitarmannakofi en er lögnu fallinn.  Sandá safnar til sín þremur ám sem falla til norðurs um Hillidali, Breiðdal og Langadal sem eru grunn dalverpi og drög sem ganga suður í Hafursstaðaheiði og til saman kallaðir Austurdalir.  Austur af Kolmúladal heitir Kolmúladalsalda og austur af henni er meginálma Frambruna 6-7 km á breidd.  Vestan við Langadalsdrag er dálítil lægð með tjarnarpollum og gróðurlendi nefnd Álftatjarnarflæða.  Þetta er fyrsta flæðan af allmörgum slíkum á innanverðum austurafrétti Bárðdælinga.  Norðvestast á þessu svæði eru Grafarlönd vestri, hálfdeigjumýrar með graslendi í um 450 metra hæð.  Þar fundust 1942 rústir, hleðslur og viðarkolsleifar.  Litlu innar fram með Skjálfandafljóti er Hafursstaðahlíð og Hafursstaðaeyrar nefndar eftir fornbýlinu Hafursstöðum, sem ekki hefur tekist að staðsetja með vissu.  Hafursstaðahlíð er örfoka nema nokkrar þykkar jarðvegstorfur, sem vitna um jarðveg og grósku sem einu sinni var.  Í riti nátturúfræðingsins segir að nokkru sunnar, undir Sandmúla innan við Sandmúlaá, hafi fundist merkir fornmunir, en þar sunnan við taki við svokallaðir Framdalir, hið umþrætta landsvæði í þessu máli.  Um norðurmörk þess svæðis segir:  Sandmúli (um 700 m) er milli Sandmúladals og Krossárgils, en innan við Krossá byrjar Króksdalur upp með Skjálfandafljóti að Öxnadal, um 12 km langur og allvel gróinn.  Falla þar niður úr suðaustri tvær Lambár, og heita þarna Þrengsli og Bálabrekka, innan við þá Syðri-Lambá að kjafti Öxnadals.  Mikið er þarna um heiðagæs eins og víða fram með Skjálfandafljóti.  Þarna austan Fljóts hafa fundist mannvistarleifar á tveimur stöðum.  Neðst á Króksdal eru háar uppblásturstorfur og heita Jónsbörð og inn af þeim Þrengsli fram með Fljóti.

Á Öxnadal eru hlíðar vel grónar, einkum að austanverðu og þar er sæluhús við Stapaá.  Drög Öxnadalsár eru nær 20 km til suðausturs og við þau er Surtluflæða.  Sunnan við Öxnadal taka við Ytri- og Syðri-Múli sem ná 650-700 m hæð, brattir Fljótsmegin og skilur þá að Illagil.  Litlu sunnar tekur við Hraunárdalur en Kiðagil er á móti vestan ár.  Hrauná er allvatnsmikil enda liggja drög hennar víða í hraunum suðaustur af (Efri-Botnar, Jökuldæladrag, Laufrönd, Hitulaugardrag og Langadrag). Við Hitulaug ytri (Laufrandarlaug) eru volgrur 30-50° heitar.  Hraunelfur hefur runnið niður eftir Hraunárdal og heitir Kvíahraun þar í dal Fljótsins.  Sunnan við dalinn taka við Ytra- og alllöngu innar Syðra-Fljótsgil fram með Fljótshnjúki (814 m) austan ár og er hann hæstur fjalla við vestanvert Ódáðahraun.  Ytra gilið er 80-100 m djúpt með blágrýtisstöllum og ótal berggöngum og lindir steypast niður bergveggina.  Er gil þetta gróðursælt, jafnvel sést þar vottur af birkikjarri og heiðagæsavarp er þar á hamrasyllum upp af Fljóti.  Suður af Fljótshnjúki eru Langadrag og austar Hitulaugardrag með gróðurteygingum, sem og í Stóruflæðu (680 m) inn af Stóruflæðuhnjúk (733 m) við Skjálfandafljót“.  „Skjálfandafljót rennur hér í krókum og sveigir um leið til suðausturs framhjá Steinfelli (818 m), ílangri og allhárri öldu með jökulruðningi og grettistökum og suðaustan við það er Jökuldælaflæða (Jökuldælingadrag) í skjóli hraunjaðars.  Við Marteinsflæðu (730 m) suðvestur af Steinfelli eru eyrar fram með Fljóti og á þeim mosateygingar og fjallaplöntur, m.a. gullbrá og tröllastakkur.  Í Marteinsflæðulaug (Hitalaug syðri) kemur upp 30-40° C heitt vatn á 20 m bili á sprungu í NA-SV stefnu.  Er talsverður gróður tengdur jarðhitanum en fátæklegri á Marteinsflæðu sjálfri á eyrum sunnan undir hrauntanga við Fljótið.  Um 5 km ofan við Marteinsflæðu er komið að fossinum Gjallanda í Skjálfandafljóti.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um gróðurfar að talið sé að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á afréttum suður af Bárðardal og Mývatni, svo sem á Íslandi í heild, verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er.

 

4.  Um sögu einstakra jarða og afréttarsvæða sunnan Bárðardals og Mývatns vísa aðilar í málatilbúnaði sínum helst til samantektarkafla í úrskurði óbyggðanefndar, en einnig til þeirra fjölmörgu gagna og heimilda sem lögð voru fram við meðferð málsins hjá nefndinni og síðar fyrir dómi  Eru þar á meðal jarðarmöt, lögfestur, máldagar, vísitasíubækur biskupa og skjalasöfn prófasta, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, afréttarskrá fyrir Skútustaðahrepp frá 1878, landamerkjabréf fyrir Framdali frá 1890, fjallskilareglugerðir, Örnefnaskrá fyrir austurafrétt Bárðdæla, byggðasagan Byggðir og bú Suður-Þingeyinga frá 1985, Göngur og réttir eftir Braga Sigurjónsson og bókaflokkurinn Ódáðahraun eftir Ólaf Jónsson.  Fyrir dómi, m.a. við endurupptöku þann 22. mars sl., lögðu aðilar fram enn frekari gögn um landsvæðið, þ. á m. frá Þjóðskjalasafni Íslands, en einnig tvö fræðirit Fornleifastofnunar, um fornleifaskráningu í Krókdal, sem gefin voru út á árunum 2004 og 2005 og eru eftir Orra Vésteinsson prófessor. 

Samkvæmt ritum Fornleifastofnunar er elsta heimild um Krókdal að finna í Ljósvetningasögu, en hún er talin rituð á 13. öld.  Í sögunni er m.a. frásögn af reið vígamanna Vöðu-Brands um óbyggðir: „ofan Mývatns til Krókdals og Bleikmýrardals ok svo fyrir neðan heiði“.  Af þessari frásögn er ályktað að höfundur hafi gert ráð fyrir að nefndir dalir hafi verið í eyði þegar sagan var rituð.  Í nefndum fræðiritum segir einnig frá því að Krókdals, vestan fljóts, sé getið í máldaga Ljósavatnskirkju frá árinu 1380 og í kaupgerningi frá árinu 1431, þar sem segi að með heimalandi býlisins fylgi „Króksdalur frá Galtargróf (Galthól) fram að Kiðagili“.  Þá segir að landsréttinda Ljósavatns á Krókdal, í svonefndum Smiðjuskóg, sé getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, en einnig í landamerkjalýsingu Ljósavatnskirkju frá árinu 1904, en þá sem ítaks.  Af þessum heimildum er ályktað að býlið Ljósavatn hafi átt hluta Krókdals framan við Galthól og að ábúendur jarðarinnar hafi eftir atvikum nýtt það land sem afrétt, enda hafi ekki verið búið á Helgastöðum, sem sé innan nefndra marka, og hafi svo verið um aldir. 

Í Jarðabók Árna og Páls frá 1712 segir um fyrrnefnt eyðibýli Helgastaði: „Helgastaðir kallast örnefni framm með Skjálfandafljóti lángt fram frá bygð, og eru munnmæli að þar hafi bygð verið og kirkjustaður, en engi sjást þess nú merki, og atla sumir að fljótið hafi tekið þessa jörð með landbroti, so sem líklegt sýnist, hafi hún nokkurn tíman verið“.  Í öðrum gögnum, m.a. í riti Ólafs Jónssonar um Ódáðahraun, er vikið að eyðibýlum sunnan Bárðardals og munnmælum þeim tengdum og þar um m.a. vísað til Íslendingasögunnar um Hrana hring, en hún er talin rituð í byrjun 19. aldar.  Er í sögunni greint frá landnámsmanninum Helga krók, sem nefnt býli á Króksdal, vestan fljóts er sagt vera kennt við, en þar austan fljóts er örnefnið Bálabrekka.  Í riti Ólafs er það tiltekið að samkvæmt nefndri fornsögu hafi Helgi krókur átt allt land milli Mjóadals og Skjálfandafljóts fram til sanda, en að auki hafi hann átt ítök og selstöðu austan fljóts á Öxnadal, en þar austan fljótsins hafi hann og átt fjárleitir ásamt Mývetningum.  Í riti Ólafs segir að samkvæmt eldri heimildum hafi Bárðdælingar átt hrossagöngu á vetrum á þessum slóðum.

Í fyrrnefndum heimildargögnum segir m.a. frá því að í kaupgerningi frá árinu 1477 komi það fram að jörðin Þverá í Laxárdal eigi „geldfénaðarrekstur til afréttar á Króksdal árlega.“  Segir í fræðiritum Fornleifastofnunar að ætla megi af almennum líkum að þessi upprekstur Laxárdalsmanna hafi verið á austurhluta Krókdals, þ.e. gegnt ítaki Ljósavatns og hugsanlega framan við það svæði sem Skútustaðir hafi átt samkvæmt mun yngri heimildum.  Í Jarðabók Árna og Páls segir að Krókdalur vestan Skjálfandafljóts sé hluti af almenningi þeim sem Bárðdælingar nýti sem afrétt.

Jarðanna Einarsstaða í Reykjadal og Skútustaða við Mývatn er getið í máldögum Auðunar rauða frá 1318.  Eigi er þar minnst á afrétt jarðanna og er hið sama í máldögum Péturs Nikulássonar frá 1394.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um jörðina Skútustaði við Mývatn að hún hafi verið seld Hólabiskupi og Hóladómkirkju árið 1493: „með öllum þeim hlunnindum sem þeirre jordu fylger og eigi er ádr með laugum fra komit“.  Fram kemur í gögnum að biskup hafi selt jörðina árið 1504 með makaskiptasamningi.  Um Skútustaðajörðina segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 að hún eigi afréttarland „sem Framdalir heita og Suðurárhraun, sá afréttur liggur hálfa þíngmannaleið framm frá Mývatni, og er mestallur kominn í holt og sanda, hefur þángað því ei brúkast upprekstur í margt ár, en áður var þángað rekið lömb og gjeldfé úr þessari sveit fyrir afréttartoll.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um Einarsstaði í Reykjadal að jörðin hafi verið seld árið 1472 fyrir 100 hundruð, að í kaupmála frá árinu 1523 hafi verðgildi hennar verið tiltekið 10 tuga hundraða og loks að hún hafi í jarðakaupum árið 1536 verið talin virði 90 hundraða.  Í framlögðum gögnum kemur fram að Gísli Þorláksson Hólabiskup hafi vísiterað Einarsstaði árið 1672.  Eigi gat biskup um afrétt jarðarinnar og var það sama upp á teningnum er aðrir Hólabiskupar vísiteruðu hana á árunum 1687, 1694, 1702, 1715, 1748, 1768 og 1828.  Hin sama þögn var við prófastsvísitasíur á árunum 1751 og 1777, en í þeirri síðari var hins vegar tekið fram að jörðin Víðiker í Bárðardal væri afbýli Einarsstaða, en að tíundin félli til prestsins í Bárðardal, en „ej hingað i ReikjadalFram kemur í Jarðarbók Árna og Páls frá 1712 að Bjarni Pétursson, sýslumaður að Skarði á Skarðsströnd, sé eigandi beggja jarðanna, Einarsstaða og Víðikers. 

Í Jarðabók Árna og Páls er það rakið að sunnan fremstu býlanna í Bárðardal, Stórutungu og Svartárkots, en það síðarnefnda mun hafa byggst upp um 1662, hafi til forna verið eyðiból og kirkjugarðsleifar Skútustaða, í svonefndri Mikley í Skútustaðaafrétti, en um það jarðnæði segir nánar:  „Ekki má hjer aftur byggjast því túnstæðið er komið í blauta mýri, en úthey engin“. Í Jarðabókinni segir einnig:  Yxnad(al)lur, Króksdalur, Hafurstaðahlíð og Sandárnes heita örnefni fyrir austan Skjálfandafljót fram frá byggðinni, það eru almenníngar til upprekstur(s), fyrir afrjettarfje úr Bárðardal austan framm, og so hafa Reykdælíngar stundum brúkað upprekstur í þennan almenníng.

Í Jarðabókinni segir um Einarsstaði í Reykjadal, að jörðin eigi víða ítök, þar á meðal í Þingey og á Mývatnsöræfum í Reykjahlíðarlandi, en einnig í afréttinum sunnan Bárðardals.  Um það síðastnefnda segir: „Staðurinn á og hálfa Hafurstaðahlíð móts við Arnvetnínga og Öxnadal allan, afrjett allan fyrir ofan Krossá og Sandmúla allan og Hátún.  Þessi ítök liggja framm af Fljótsheiði fyrir austan Skjálfandafljót.   Síðastnefnd réttindi Einarsstaða eru í samræmi við lögfestu Péturs Pálssonar, eiganda jarðarinnar, frá árinu 1712, en í henni er m.a. lagt bann við því að aðrir nýti landsréttindi hennar.  Þá segir í landamerkjalýsingu, sem Marchus Jonsson og Jón Jónsson eru sagðir hafa afritað í Möðruvallaklaustri 21. maí 1715, af „kalfsskinnbrefum“, að í Einarsstaðalandi eigi engir menn ítölu og um ítök jarðarinnar segir enn fremur: „Atta hrossa gaungu á Borgarmel og aller melar adrer jafnheimel e..... Eiga Einarsstaðir halfa Hafurstadahlyd i mots vid Arnvetninga og Jaxnadal allann.  Afritt alla firer ofann Krossá og Sauðmula allann.  Vydekier og Hatun á Einarstadakyrkia“.

Í bók Benedikts Þorsteinssonar, sýslumanns í Þingeyjarsýslu og síðar lögmanns, sem um skeið átti Einarsstaði, segir frá því að á manntalsþingi að Haganesi við Mývatn, 16. júní 1719, hafi eftirfarandi verið skráð: „... tilbaud vicelögmadurenn þessa Hrepps innbuendumm Einarsstada kyrkiu land a Kroksdal, Yxnadal og Hafursstada hlijd fyrer sinn afrjettar pening imóte billegre forlijkan annars fyrerbijdur hann alla oleifelega brukun þar a og leggur vid sekter.“  Á manntalsþingi að Helgastöðum 16. júní 1721 voru upplesnar og uppáskrifaðar lögfestur fyrir Einarsstaði.  Inntaks þeirra er ekki getið, en eftirfarandi var hins vegar fært til bókar: „... til sagði Vicelögmaðurinn Einarstaða og Helgastaða kyrkiusóknar mönnum ad rietta sig efter Einarstada kyrkiu máldaga og gömlum fyrrverandi yfirvallda her i sysslu domum og skickunum, sem á lögumgrundvalladar Vmm [Vmm, ógreinilegt] gielldfiár rekstur I Eynarstadakyrkiu afriett kroksdal yxnadal etc. Hveria afriett Vicelögmadurinn tilseigir bændum þessarar sveitar ad rækia eftir lögum og skilldum.“  Á manntalsþingi að Haganesi 18. júní 1721 var og eftirfarandi skráð:  „Framkoma alvarlet prótest búenda í Reikiadal á móti gieldfiár Rekstre búenda i þessum Repp I Eynarsstada kyrkiuland, Króksdal, yxnadal og Hraunárdal sem er Almenningur þeirrar og er MyVatnsbuendum tilsagt sig Her eptir ad Retta og ecki moti lögum sitt fe i adurnefndt land Reka“.  Á manntalsþingum árin 1723, 1760, 1773 og 1805 var efni eldri lögfestna um síðastnefnd réttindi Einarsstaða áréttað.  Þá liggur fyrir að samkvæmt byggingabréfi, sem ritað var í árslok 1806, bauð þáverandi ábúandi á Einarsstöðum bændum í Mývatnssveit að reka lömb sín í afrétt Einarsstaðakirkjulands framan Hafursstaðahlíðar og á Krókdalsafrétt gegn lambagjaldi og tíðkanlegum fjallskilum.  Þá kemur fram í gögnum að á manntalsþingi á Skútustöðum 4. júní 1811 hafi verið lesið upp bréf eiganda Einarsstaða þar sem vísað var til eldri máldaga og lögfestna um ítök Einarsstaða, m.a. í Hafursstaðahlíð og í Krókdal austan Skjálfandafljóts, en að þá hafi jafnframt verið áréttað bann eigandans við nýtingu annarra aðila á afréttinum nema gegn leigugjaldi.  Að auki segir frá því að á nefndu manntalsþingi hafi eigandi Einarsstaða andmælt því að Hraunárdalur væri almenningur Mývetninga og er haft eftir honum að þrátt fyrir að þeir hefðu „máskie“ rekið þangað fé sitt í óleyfi frá árinu 1783 hefðu þeir engar skjallegar heimildir lagt fram til stuðnings réttindum sínum.  Á manntalsþingum á  árunum 1827, 1840 og 1868 voru lýst réttindi Einarsstaða áréttuð, en einnig liggur fyrir að með ítrekuðum samningsgerðum leigðu landeigendur Einarsstaða þáverandi hreppstjórum Mývetninga afréttarsvæðin á Framdölum fyrir árlegt fjárgjald.  Réttindin voru þó ekki ágreiningslaus svo sem síðar verður vikið að. 

Á manntalsþingi að Ljósavatni árið 1849 var lesið upp bann landeiganda Einarsstaða gegn því að bændur í Bárðardal nýttu land fram á fjöllum austan Skjálfandafljóts.

Í óársettri sóknar- og sýslulýsingu Skútustaðaþinga, sem talin er frá 1840, segir:  „Afrétt frá Mývatni er siðvanalega á þeim svokölluðu Framfjöllum, fram af Mývatnssveit tvær dagleiðir.  Munu þau mestpart vera almennings, nema Einarsstaðakirkja á þar ítak í Krókdal.“ 

Eins og fyrr var rakið segir í framlögðum heimildum frá sögðum réttindum annarra býla á afréttarsvæðum ofan Bárðardals og Mývatns, m.a. Ljósavatns og Þverár í Laxárdal, en að auki er vikið að réttindum býlanna Reykjahlíðar og Skútustaða við Mývatn.  Í svonefndri Skinnastaðaskrá er þannig getið um máldaga Reykjahlíðarkirkju frá 1573, þar sem segir að kirkjan eigi ítak í Einarsstaðakirkjuítaki: „framm á fioll, geldfjár og lambarekstur.“  Hið sama kemur fram í prófastvísitasíu Reykjahlíðarkirkju frá árinu 1735, í lögfestu Einars Jónssonar fyrir Reykjahlíð frá árinu 1758 og biskupsvísitasíu frá árinu 1825.  Þessi réttindi Reykjahlíðarkirkju virðast ekki hafa verið ágreiningslaus, en heimildir eru um að á manntalsþingi árið 1745 hafi Ólafur Þorláksson á Skútustöðum andmælt fyrrnefndri lögfestu Einars Jónssonar um að Reykjahlíð ætti réttindi til Framfjalla, sem Ólafur „sagði vera sína fullkomnu eign.“ 

Samkvæmt útskrift „Suðurþingeyjar sýslu justitisprotacol“ frá 15. júní 1849 var haldinn héraðsréttur að Skútustöðum af S. Schulsen sýslumanni.  Var tilefnið það að þáverandi hreppstjóri í Mývatnshreppi og nokkrir bændur þar í sveit höfðu farið þess á leit að nokkrir karlmenn, á aldrinum 68 til 78 ára, yrðu tilkvaddir fyrir aldurs sakir til að gefa skýrslur um það landsvæði sem eigandi Einarsstaðakirkju hafði ítrekað gert kröfu til, þ.e. „Hraunárdalsafrétt“.  Til nánari skýringa var það sagt að ótti væri um að vitnin yrðu önduð þegar umrætt ágreiningsmál yrði tekið til „reglulegs rjettargangs“.  Í vitnaleiðslunum kom það m.a. fram að nefndur afréttur lægi fyrir framan Öxnadal, að hann hefði verið notaður af Mývetningum sem sveitaralmenningur um áratugaskeið, að Bárðdælingar hefðu notað afréttinn til hrossagöngu á vetrardag, að Einarsstaðakirkja hefði með lögfestum eignað sér afréttinn, en að aldrei hefði verið fallist á að henni yrði greitt fyrir allan afréttinn fyrir ofan Krossá, aðeins Krókdal, svonefndur Krókdalstollur.  Á dómþinginu véfengdi fulltrúi Einarsstaða vitnisburðina.

Í jarðamati 1849-1850 segir m.a. um Helgastaðahrepp: „Afrjettarland má telja nokkurð, er ýmsum jörðum í sveitinni tilheyrir, þó ei sje henni einhlýtt með öllu...“  Í matinu segir að Einarsstaðir eigi „Afréttarland töluverðt fyrir austan fljot á framfjöllum...“, en jafnframt að eigendur Skútustaða við Mývatn vilji eigna sér nokkurn hluta afréttarlandsins, á svokölluðum Framfjöllum, nálægt byggð í Bárðardal, sunnan Svartárkots, m.a. allt Suðurárhraun og austur að Grænavatnslandi.

Í afréttarskrá Skútustaðahrepps frá 1878 segir að Austurdalir og Grafarlönd séu afréttarlönd í eigu Skútustaðakirkju, en það landsvæði er nánar afmarkað þannig: „Hafurstaðahlíð að Sandmúlaá, allt suðurárhraun að Suðurá og Stórutungulandi, allur Dyngjuframbruni hin fremmri ...“  Um afréttarsvæðin segir nánar í skránni: „Framdalir, og heita þeir Sandmúladalur að Sandmúladalsá yzt, þá Króksdalur, Yxnadalur og Hraunárdalur syðst.  Allir þessir dalir með drögum þeim og teygjum, sem að þeim liggja.  Syðsti hluti þess afrjettar, nefnilega Haunárdalur með drögum þeim sem að honum liggja, er talinn almenningur, en hinn hluti hans er Einarsstaðakirkjueign.“

Þann 3. júní 1890 var útbúið landamerkjabréf Einarsstaða fyrir Framdalaafrétt.  Bréfinu var þinglýst 26. júní 1897, en það er svohljóðandi:  „Landmerkjaskrá fyrir afrétt þann sem kallaður er „Framdalir“ og liggur suður af Bárðardal að austan en tilheyrir Einarsstöðum í Reykjadal. Að norðan ræður Krossárgil frá upptökum til Skjálfandafljóts, að austan og sunnan ráða grjót og sandar sem umkringja þetta land á þá 2 vegu, að vestan ræður Skjálfandafljót. Hagar og beitilönd innan þessara takmarka eru þessi. Krossártorfa sunnan Krossár, Krókdalur, Bálabrekka, Yxna dalur, Stapamosar, Íllagil og Íllagilsmosar, Hraunárdalur, Flæður, Drög og Teigjur.  Fyrir norðan Krossá eru þessi ítök í Skútustaðalandi hálf Hafursstaðahlíð, allur Sandmúli.

Þáverandi eigandi Einarsstaða, Haraldur Sigurjónsson, ritaði undir bréfið, en það var einnig áritað um samþykki af hálfu umboðsmanns Skútustaðakirkju og eiganda Skútustaðajarðarinnar að ¼ hluta.  Á spássíu bréfsins er einnig áritun um að ítökum hafi verið lýst, og er hún dagsett 28. desember 1953.

Þann 13. apríl 1891 var útbúið landamerkjabréf fyrir „selland og afréttarland Skútustaða við Mývatn.  Bréfinu var þinglýst 26. maí 1898.  Vesturmörkum jarðarinnar er lýst þannig: „... sömu stefnu suður í Sandá og ræður síðan Sandá merkjum allt þar til hún fellur í Skjalfandafljot, ræður síðan „Fljótið“ allt fram að því, að Krossá fellur í það.  Eiga Skútustaðir allt land austan Skjálfanda fljóts milli Sandár og Krossár svo langt sem gras grær í óbyggð upp.  Liggja þar til Austurdalir allir svo sem Kolmúla dalur, Hyllu dalir, Breiðdalur, Langidalur, Grafarlönd, Hafursstaðahlíð og allar flæður og eyrar með „Fljóti“ fram, Sandmúla dalur og allt fram í Krossárgil að Krossá.  Einnig eiga Skútustaðir allt Suðurárhraun fyrir sunnan Suðurá upp að Botna vatni og ofan að áðurnefndri merkjalínu. Að sunnan, suðaustan og austan takmarkast land þetta af óbyggðum í Ódáðahrauni og Dyngjufjöllum ... ... Innan þessara um merkja telst Einarsstaðakirkja eiga halfa Hafurstaða hlíð og Sandmúla.“

Eigandi Skútustaða að ¼ hluta og umboðsmaður Skútustaðakirkju rituðu undir bréfið.  Það var einnig áritað um samþykki af hálfu eigenda nágrannajarða, en einnig af umboðsmanni Einarsstaða í Reykjadal.

Þann 8. apríl 1891 var útbúið landamerkjabréf fyrir Reykjahlíð og var því þinglýst í maí það ár.  Segir í bréfinu að jörðin eigi tiltekin ítök, þ. á m.: „geldfjár og lambarekstur í Einarsstaðakirkjulandi á framfjöllum.“  Eigendur og umboðsmenn nágrannajarða rita undir bréfið, en ekki eigendur Einarsstaða í Reykjadal.  Á spássíu bréfsins er hinn skáletraði texti yfirstrikaður, og er þar ritað að ítakinu hafi ekki verið lýst samkvæmt áskorun frá 20. maí 1953 og sé því niðurfallið, en þar undir ritar J. Skaptason (sýslumaður).

Á manntalsþingi Reykdæla, sem haldið var á Breiðumýri árið 1905, var í samræmi við Stjórnarráðsbréf spurst fyrir um gömul heimildarskjöl fyrir fasteignum.  Þingmenn upplýstu við það tækifæri að fátt væri að finna í hreppnum af slíkum skjölum nema helst fyrir Einarsstaðeigninni

Í fasteignamati 1916-1918 segir að jörðin Einarsstaðir eigi rétt til upprekstrar í afrétt sveitarinnar.  Þá segir í matinu um jörðina: „... ennfremur á jörðin sérstaka afrétt á Framdölum austan Skjálfandafljóts...“.  Í svarbréfi Steingríms Jónssonar, sýslumanns Þingeyjarsýslu, sem ritað var 6. apríl 1920 vegna fyrirspurnar Stjórnarráðs Íslands um almenninga og afrétti í sýslunni, sem sannanlega tilheyrðu ekki lögbýlum, segir að „almenninga“ á öræfum sé m.a. að finna: Austanmegin fljótsins (Skjálfandafljóts) og Framdalir allir fyrir sunnan Hrauná.

Í framlögðum gögnum, þ. á m. í úrskurði óbyggðanefndar, kemur fram að söfnuði Einarsstaðakirkju hafi á árinu 1941 verið afhent kirkjan.  Í úrskurðinum segir að ekkert frekar komi fram í skjölum um þessa ráðstöfun, en sagt að ætla megi að þar um hafi gilt sömu reglur og um aðrar sóknarkirkjur, að engar fasteignir og ítök hafi verið afhent, heldur aðeins kirkjan sjálf og gripir og sjóður. 

Með afsalsbréfi 27. maí 1942 seldi landbúnaðarráðherra f.h. Jarðakaupasjóðs ríkisins Jóni Haraldssyni Einarsstaðajörðina í Reykdælahreppi í S-Þingeyjarsýslu, ásamt nýbýlinu Jaðri, Glaumbæjarseli og ¼ hluta Þingeyjar, með húsum og mannvirkjum og öllum gögnum, gæðum og ítökum til fullrar eignar og umráða, að frátaldri Einarsstaðakirkju.

 

5.  Samkvæmt elstu fjallskilareglugerð fyrir Þingeyjarsýslur, frá árinu 1893, var öllu landi sýslunnar skipt í þrjú fjallskilafélög.  Þar á meðal var svæðið á milli Jökulsár og Skjálfandafljóts.  Í reglugerðinni er kveðið á um að fjallskilafélögum megi skipta í deildir eftir því sem hagar, fjöll og vatnsföll deila.  Í reglugerðinni segir að land skiptist í afréttir og heimalönd og að það sé hreppsnefnda að ákveða takmörk þar á milli.  Ný fjallskilareglugerð var sett árið 1904, en þar var m.a. kveðið á um að „allt land skiptist í öræfi, afrjett og heimalönd.  Það skulu vera afrjettir, sem að fornu hafa verið.“  Núgildandi fjallskilareglugerð er frá árinu 1996.

       Í ritinu Göngum og réttum eftir Braga Sigurjónsson og í bókaflokknum Ódáðahraun eftir Ólaf Jónsson er m.a. fjallað um fjallskil á afréttunum sunnan Bárðardals og Mývatns.  Segir í nefndum heimildum m.a. frá samþykkt sem fulltrúar hreppsnefnda Helgastaða-, Ljósavatns- og Skútustaðahrepps gerðu með sér vorið 1880 þar sem kveðið var á um að menn í Mývatnssveit, sem ættu að gera fjallskil á Austurfjöllum, skyldu leggja styrk til fjallskila á framafrétt, móts við styrk frá Helgastaðahreppi til fjallskila á austurafrétt.  Segir frá því að tilefni þessarar samþykktar hefðu verið þau vandkvæði sem upp hefðu komið við að hreinsa framafrétt austan Skjálfandafljóts sökum þess hve fáir notuðu hana, enda hafi svo verið komið málum að Bárðdælum einum hafi að heita mátti verið gert að gera fjallskil austan Skjálfandafljóts, á Framfjöllum.  Í þessu viðfangi er til þess að líta að í fjallskilaskrá Skútustaðahrepps frá 1884 er eftirfarandi ákvæði: „Framdalaleit, eftir samkomulagi við Bárðdælinga taka þeir að sér að hreinsa framdali forsvaranlega, og jafna þeir göngunum sjálfir á sig, en eru að öðru leyti gangnafríir í framafrétt.“.  Eftir þetta er framdalaleit ekki nefnd í fjallskilaskrám Skútustaðahrepps.  Segir í heimildum að upp frá þessu hafi verið farið að tala um Austurafrétt Bárðdæla, og göngurnar kallaðar framdalagöngur, þótt mun víðar hafi verið gengið en í framdali eina þar sem leitarsvæðið hafi náð frá heimalöndum í Bárðardal og suður á Vonarskarð.

Í samantektarriti Jóhanns Skaptasonar sýslumanns frá árinu 1959 um afrétti og fjallskil er m.a. haft eftir oddvita Bárðdælinga um eignarhald, að Stóratunga eigi allt hraunið suður að Sandá, að svæðið frá Sandá og suður að Krossá sé talið eign Skútustaða (eða Skútustaðakirkju), en svæðið frá Krossá og suður að Öræfum sé talið eign Einarsstaða í Reykjadal.  Í riti sýslumanns segir að notkun afréttarins byggist á venju og hefð, en að Bárðdælingar hafi nær eingöngu notað Austurafrétt frá 1850.  Þá segir í ritinu að samkvæmt upplýsingum oddvita Reykdælahrepps eigi Einarsstaðabændur afrétt á Framdölum, fram af Bárðardal og austan Skjálfandafljóts, en að afrétturinn hafi ekki verið í umsjá sveitarstjórnar í Reykdælahreppi og ekki notaður af bændum þar nema með leyfi Einarsstaðabænda.

Samkvæmt gögnum gerðu eigendur Einarsstaða í Reykjadal og hreppsnefnd Bárðdælahrepps árið 1972 með sér samning til fimm ára, að hreppurinn tæki land Einarsstaða á Framdölum á leigu til upprekstrar, en Einarsstaðabændur áskildu sér upprekstrarrétt fyrir 120 kindur á afréttinum.  Kveðið var á um það í samningnum að Bárðdælir sæju um smölun á landinu og væri smölunarkostnaður það fé sem Einarsstaðabændur rækju leigugjaldið sem Bárðdælingar greiddu og væri samningnum ekki sagt upp, framlengdist hann af sjálfu sér til eins árs í senn.  Þá liggur fyrir að árið 2007 sömdu eigendur Einarsstaða og Fjallskilafélag Austur Bárðdæla um lóð undir gangnamannakofa í Hraunárdal.  Samningnum var þinglýst, en hann er til 50 ára.  Loks liggur fyrir að árið 2008 var gerður samningur millum eiganda Einarsstaða og umhverfisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um friðlýsingu landsvæðis vegna stofnunar Vatnajökulsþjóðgarða.  Fram kemur að nefnd friðlýsing taki til landsvæðis sem tilheyrir Einarsstaðajörðinni milli Skjálfandafljóts og Ódáðahrauns.

 

6    Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, er að nokkru vísað til framangreindra gagna, að því er varðar sögu, afmörkun, ráðstöfun að eignarrétti og nýtingu á hinu umþrætta afréttarsvæði sunnan Bárðardals, en í úrskurðinum er lagt til grundvallar að Einarsstaðir hafi um aldir verið sjálfstæð jörð.  Um nefndan afrétt jarðarinnar segir nánar í úrskurðinum:  „Afréttar í Framdölum er fyrst sérstaklega getið í heimildum frá byrjun 18. aldar og hann þá talinn tilheyra Skútustöðum.  Síðar telja Einarsstaðir þar til réttinda, sbr. landamerkjabréf fyrir „Framdalaafrétt“, frá 3. júní 1890. Af heimildum má ráða að landsvæði þetta hafi haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram að gildistöku þjóðlendulaga.  Hvort í því hafa falist bein eða óbein eignarréttindi til landsvæðisins, þ.e. hvort þar er eignarland eða þjóðlenda samkvæmt skilgreiningum í 1. gr. þjóðlendulaga, er hins vegar atriði sem þarfnast nánari athugunar.  Einarsstaðir liggja utan við ágreiningssvæði í máli þessu, aðskildir frá Framdalaafrétti af öðrum jörðum.  Frá bæjarstæði Einarsstaða að mótum Krossár og Skjálfandafljóts eru um 61 km, mælt í beinni loftlínu.

Kemur þá til skoðunar hvernig merkjum „Framdalaafréttar“ er lýst í framangreindu landamerkjabréfi.  Jafnframt er að finna merkjalýsingar í „afréttaskrá Skútustaðahrepps“ frá 1878.  Þá verður litið til gagna um merki þeirra landsvæða sem liggja að „Framdalaafrétt.“  Þar liggur til norðurs og austurs kröfusvæði Skútustaða, til suðurs er Vatnajökull og til vesturs liggja kröfusvæði Bárðardals og Íshóls en um þá er fjallað um í máli nr. 3/2007.

Verður þá fyrst litið til norður- og norðausturmerkja Framdalaafréttar, sem liggja gagnvart afréttarlandi og sellandi Skútustaða.  Samkvæmt landamerkjabréfi Framdalaafréttar“ er merkjum lýst svo:  „Að norðan ræður Krossárgil frá upptökum til Skjálfandafljóts.“  Bréfið er áritað vegna Skútustaða og Skútustaðakirkju.  Í landamerkjabréfi „sellands og afrettarlands“  Skútustaða, dags. 13. apríl 1891 og þingl. 26. maí 1898, segir að Skútustaðir eigi „allt land austan Skjálfandafljóts milli Sandár og Krossár svo langt sem gras grær í óbyggðir upp.“  Merki þessi geta samrýmst.

Samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Framdalaafrétt segir um austur og suðurmörk, gagnvart kröfusvæði Skútustaðhrepps vegna „eignarafréttar“: „að austan og sunnan ráða grjót og sandar sem umkringja þetta land á þá 2 vegu ...“  Síðan segir um vesturmörkin: „... að vestan ræður Skjálfandafljót.“  Samkvæmt þessum lýsingum er mörkum ekki lýst nákvæmlega til austurs og suðurs.  Í kröfu gagnaðila ríkisins er landsvæðið afmarkað að sunnan af jaðri jökulsins frá upptökum Skjálfandafljóts þar til kemur að Gæsahnjúk en þaðan er farið beint í norður í upptök Krossár og með henni í Skjálfandafljót og eru það austurtakmörk landsvæðisins.  Landsvæðið er afmarkað til vesturs af Skjálfandafljóti, frá upptökum og þar til Krossá fellur í það.  Engar lýsingar hafa fundist á aðliggjandi landsvæði til austurs. Um aðliggjandi landsvæði til vesturs er fjallað í máli nr. 3/2007 hjá óbyggðanefnd en þar kemur fram að engar lýsingar hafi fundist á þeim merkjum.

Í „afréttaskrá Skútustaðahrepps“ frá 1878 er hluta þess svæðis sem rúmast innan lýsingar landamerkjabréfs Framdalaafréttar lýst.  Um Framdali segir: „... og heita þeir Sandmúladalur að Sandmúladalsá yzt, þá Króksdalur, þá Yxnadalur og Hraunárdalur syðst.“

Kemur þá til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan framangreindra merkja.  Um þýðingu landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi vísast til fyrirliggjandi umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar um það efni....  Þannig liggur fyrir sú niðurstaða Hæstaréttar að við mat á gildi landamerkjabréfa og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem þar er lýst, skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig t.d. afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt.  Þá hafi menn ekki eingöngu markað sér landsvæði háð beinum eignarrétti, heldur einnig mörk ítaka, afrétta og allra annarra réttinda í lönd sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.

Í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882 var gert landamerkjabréf þar sem lýst er sérstaklega „afrétti þeim sem kallaður er Framdalir [...] en tilheyrir Einarsstöðum.“ Svo sem áður var rakið benda fyrirliggjandi gögn til þess að landamerkjum landsvæðisins sé þar rétt lýst, svo langt sem sú lýsing nær en mörk landsvæðisins til suðurs og austurs eru ekki nákvæmlega tilgreind.  Umrætt landamerkjabréf var þinglesið og fært í landamerkjabók sýslumanns.

Í úrskurði óbyggðanefndar er umfjöllun um landanám á umræddum afréttarsvæðum og segir um það: „... er því ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði.  Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja ólíklegt að land á þessu svæði hafi verið numið að Vatnajökli.  Óvissa um aðferðir við landnám er þó of mikil til þess að hægt sé að fullyrða um stærð landnáma á þeim grundvelli, sbr. umfjöllun um landnám í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar.  Ber þess að geta að engar skriflegar heimildir styðja það að nokkurn tíma hafi verið búið heilsársbúsetu á umræddu kröfusvæði.

Um Skútustaði í Mývatnssveit segir í Jarðabók Árna og Páls:  Afrjettarland á staðurinn, sem Framdalir heita og Suðurárhraun ... “ Í jarðamatinu 1849-1850 segir svo um Einarsstaði: „... Afrjettarland töluverðt fyrir austan fljót á framfjöllum ...“ Í afréttaskrá Skútustaðahrepps“ frá árinu 1878 er afréttarsvæðinu Framdalir lýst þannig að það takmarkist af Sandmúladal að Sandmúladalsá yst, þá Króksdal, þá Yxnadal og Hraunárdal syðst.  Svo segir að Hraunárdalur „með drögum þeim er að honum liggja er talinn Almenningur, en hinn hluti hans er Einarsstaðakirkjueign.“  Í framangreindu landamerkjabréfi fyrir „Framdalaafrétt“ eru talin upp beitilönd innan þeirra takmarka sem þar greinir. Er þar nefnd: „Krossártorfa sunnan Krossár, Krókdalur, Bálabrekka, Yxtna dalur, Stapamosar, Íllagil og Íllagilsmosar, Hraunárdalur, Flæður, Drög og Teigjur.“  Þá segir svo í „upplýsingum um afrjettir og fjallskil í Þingeyjarsýslu árið 1959“:  „Svæðið frá Krossá og suður að öræfum er talið eign Einarsstaða í Reykjadal.“  Þar segir einnig: „Einarsstaðabændur eiga Framdalaafrétt, og aðrir hreppsbúar en þeir hafa ekki rjett til að reka fje á Framdali, nema með þeirra leyfi hverju sinni.“ Fyrir þetta svæði var gert sérstakt landamerkjabréf árið 1890 með yfirskriftinni: „Landamerkjaskrá fyrir afrétt þann sem kallaður er „Framdalir“ og liggur suður af Bárðardal ...“

Engin gögn liggja fyrir um að landsvæði þetta hafi nokkurn tíma verið byggt eða nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðrar nota.  Sama verður einnig ráðið af staðháttum og gróðurfari en land þetta er að mestum hluta auðnir og hraun, hálent og fjarri byggð. Inn á það hefur búfénaður leitað frá öðrum jörðum án hindrana.

Óbyggðanefnd telur að þær heimildir sem hér hafa verið raktar bendi til þess að um sé að ræða land í afréttareign fremur en beinum eignarrétti undirorpið.  Í því sambandi ber að líta til þess sönnunarmats sem lagt hefur verið til grundvallar um afrétti einstakra jarða og/eða stofnana og styðst við fjölda dóma í sambærilegum málum.  Þess skal einnig getið að á þeim landsvæðum sem að Framdalaafrétti liggja eru þjóðlendur, sé litið heildstætt á niðurstöður í málum nr. 1 og 3/2007 á svæði 6 hjá óbyggðanefnd.

Ekki liggur fyrir hvernig eigendur Einarsstaða eru komnir að rétti sínum til þessa landsvæðis.  Í máli þessu er þannig ekki sýnt fram á annað en að réttur til landsvæðis þessa hafi orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, e.t.v., annarrar takmarkaðrar notkunar.  Um afréttarnot og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.

        Að öllu framgreindu virtu hefur, af hálfu eigenda Einarsstaða, ekki verið sýnt fram á að „Framdalaafréttur“ sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.  Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að landsvæðið sé í afréttareign Einarsstaða.

Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hefur verið fjallað um eru misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taka þó breytingum auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld.  Land það sem hér er til umfjöllunar verður því talið falla undir skilgreininguna ,,landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.  Engin gögn liggja fyrir um að landsvæði þetta hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu.

Óbyggðanefnd telur ljóst að ákvarða þurfi mörk þess svæðis, sem samkvæmt framangreindu er í afréttareign eigenda Einarsstaða, að því leyti sem það liggur að jökli, til frambúðar, sbr. b-lið 7. gr. l. nr. 58/1998.  Með hliðsjón af því að hér er um einhliða ákvörðun afréttarmarka að ræða en ekki mörk tveggja afrétta eða afréttar og eignarlands telur óbyggðanefnd þó fullnægjandi að miða einfaldlega og án nánari afmörkunar við jaðar jökulsins eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna.  Ekki verður séð að frekari rannsókn á þessu atriði hafi hagnýta þýðingu í þessu sambandi enda er eingöngu um beitarréttindi að ræða sem ráðast af gróðurfari og hefur ekki þýðingu í öðru sambandi.

         Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði, svo sem það er afmarkað hér á eftir, sé þjóðlenda skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Frá upptökum Skjálfandafljóts í Rjúpnabrekkujökli (S) ræður fljótið þar til Krossá fellur í það (R).  Ræður svo Krossá að upptökum sínum (A). Þaðan er farið í suður að jaðri Dyngjujökuls undir Gæsahnjúki (L).  Loks er jaðri jökulsins fylgt þar til kemur að fyrstnefndum upptökum Skjálfandafljóts í Rjúpnabrekkujökli (S).  Er þá miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.

Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Einarsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c lið 7. gr. sömu laga. 

Hluti þess svæðis sem hér hefur verið lýst þjóðlenda í afréttareign er háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sbr. náttúruminjaskrá.

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur byggja dómkröfur sínar um eignarrétt á tilgreindu landsvæði inn af Bárðardal á hinu þinglýsta landamerkjabréfi fyrir Framdalaafrétti frá 3. júní 1890, en einnig á öðrum heimildum, þ. á m. afsölum, fasteignamötum og þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða.  Af hálfu stefnenda er að þessu leyti sérstaklega vísað til þeirra skjala sem lögð voru fram hjá óbyggðanefnd, þ. á m. jarðamöt frá árunum 1804, 1849 og 1916-1918, vísitasíubóka biskupa og prófasta, máldaga og kröfulýsinga auk hliðsjónar efnis.  Við flutning var af hálfu stefnenda einnig vísað til fræðirita Fornleifastofnunar um Krókdal frá árunum 2004 og 2005.

Stefnendur byggja aðalkröfu sína, en einnig vara- og þrautavarakröfur, um að umrætt landsvæði sé háð eignarrétti eða sé eign þeirra, sem njóti friðhelgi, á 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 62, 1994.

Stefnendur byggja einnig á því að fullur hefðartími sé liðinn frá því að lýstum landamerkjagjörðum var þinglýst.  Stefnendur hafi þannig haft óskoraðan eignarrétt fyrir þessu eignarlandi sínu með öllum gögnum og gæðum, m.a. á grundvelli hefðar.  Eigendur hafi farið með öll hefðbundin eignarréttindi Einarsstaða I og II og Jaðars, sem hafi lýst sér í því að þeir hafi getað bannað öðrum not eignarinnar og hafi öll nýting verið háð leyfi þeirra.  Stefnendur vísa til þess að landnámsheimildir á svæðinu fari ekki í bága við landamerki jarðarinnar Einarsstaða, en ljóst sé að við landnám hafi landið verið gróið til jökla.

Stefnendur benda á að fyrst hefðarlög heimila eignarhefð lands, sem sé í opinberri eigu, þeim mun fremur hljóti að vera unnt að hefða land, sem ekki sé eignarrétti háð.  Sjónarmið um hefð séu því til staðfestingar náminu, og festi í sessi eignarrétt stefnenda.  Vísa stefnendur um þetta til dóms Hæstaréttar frá árinu 1997, bls. 2792, en þar hafi eignarhefð verið viðurkennd enda þótt not hefðanda, sem jafnframt studdi rétt sinn við kaupsamning, hefðu verið sambærileg afréttarnotum, þ.e. beit og eftir atvikum önnur þrengri nýting.  Jafnframt vísa stefnendur til dóms Hæstaréttar frá árinu 1939, bls. 28, en þar hafi eignarhefð verið talin fullnuð, enda þótt eignarheimild væri sögð glötuð og ekki annar grundvöllur fyrir hendi en takmörkuð not.

Máli sínu til stuðnings vísa stefnendur til þess að við setningu landamerkjalaga nr. 5, 1882 og síðan laga nr. 41, 1919 hafi það verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau, ef hann væri fyrir hendi.  Með vísan til landamerkjalaganna og tilgangs þeirra er á því byggt af hálfu stefnenda að landamerki Einarsstaða fyrir Framdalaafrétt bendi til þess að um sé að ræða landsvæði, sem sé háð beinum eignarrétti.  Landamerkjabréfið sé byggt á margvíslegum eldri heimildum, svo sem fyrrnefndum máldögum, vísitasíum og fasteignamötum, eins og rakið hafi verið í úrskurði óbyggðanefndar.  Eldri heimildir fari því ekki gegn landamerkjabréfi jarðarinnar þegar eldri lýsingar séu skoðaðar, en um þetta vísa stefnendur einnig til sjónarmiða sem fram komi m.a. í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004, dómi Hæstaréttar í máli nr. 47/2007, sbr. og í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 4/2005.

Stefnendur byggja á því að ekkert komi fram í gögnum sem bendi til annars en að allt land innan landamerkja Einarsstaða hafi verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Verði og að telja að það hafi mikla þýðingu að eigendur hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum sé rétt lýst og eigendur grannjarða virt og viðurkennt merkin.  Byggja stefnendur á því að öll landgæði hafi verið nýtt af eigendum Einarsstaða og samþykki þeirra hafi þurft við nýtingu annarra aðila.  Þessu til stuðnings árétta stefnendur og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og að hann veiti eignarréttindum sjálfstæða vernd samhliða stjórnarskránni, þar sem dómar Evrópudómstólsins bendi til þess að réttmætar væntingar aðila til eignarréttar, sem byggist m.a. á því að ríkisvaldið hafi með athafna- eða athafnaleysi viðurkennt eignarréttinn, t.d. með dómum, í samningum og með því að þinglýsa eignarskjölum athugasemdalaust, séu varðar af mannréttindarákvæðum.  Þá benda stefnendur ái að hafa beri í huga að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1. við mannréttindasáttmála Evrópu hafi af Mannréttindadómstólnum verið túlkað á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu. 

Stefnendur byggja á því að samkvæmt gögnum, sem lögð hafi verið fyrir óbyggðanefnd, sé ljóst að umrætt landsvæði hafi verið mun grónara við landnám, en talið hafi verið að landið hafi verið vel gróið upp í 6-700 metra hæð.  Atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ráði því ekki úrslitum þegar eignarréttur á landi sé metinn á þessu svæði, en um þetta atriði vísa stefnendur einnig til niðurstöðu óbyggðanefndar í sambærilegum málum.

Stefnendur benda á að notkun lands geti gefið vísbendingar um hvort land sé eignarland eða ekki, en þó megi ekki alhæfa út frá því.  Megi sem dæmi nefna að mjög stór hluti lands á láglendi sé ekki í heilsársnotkun af skiljanlegum ástæðum.  Venjur varðandi fjallskil geti heldur ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð, sbr. að því leyti úrskurð óbyggðanefndar um landsvæði í uppsveitum Árnessýslu þann 21. mars 2002.

Stefnendur benda á að athugasemdir við það frumvarp sem varð að lögum nr. 58, 1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlan löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum, sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa þar um.  Verði lög nr. 58, 1998 því ekki skýrð á þá leið að stefnendur, sem þinglýstir eigendur Einarsstaða og Jaðars, þurfi að sýna frekar fram á, en þeir hafi gert með framlagningu áðurgreindra eignarheimilda, að umrætt landsvæði sé eignarland og þar með utan þjóðlendu.

Stefnendur vísa til þess að fasteignamöt Einarsstaðajarðarinnar frá 1849-1850 og 1916-1918 styðji við kröfur þeirra, en úrskurður óbyggðanefndar sé í mótsögn við mötin.  Benda stefnendur á að í nefndum mötum sé landið metið til fasteignamats hjá Einarsstöðum sem eignarland.  Allar skráðar byggingar og framkvæmdir á svæðinu hafi og verið gerðar með samþykki eigenda, sem ekki fáist staðist nema vegna þess að umrætt landsvæði sé innan landamerkja jarðarinnar. 

Stefnendur benda á og árétta að eigendur Einarsstaða hafi í ljósi eignarheimilda sinna, og viðurkenningar ríkisvaldsins á þeim í reynd, lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að land þeirra samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi sé beinum eignarrétti háð.  Þessi eignarréttur verði ekki af þeim tekinn bótalaust.

Að öllu ofangreindu virtu byggja stefnendur á því að óhjákvæmilegt sé að fella úrskurð óbyggðanefndar úr gildi að því er varðar ofangreint landsvæði.

Stefnendur vísa til þess að ekki sé ágreiningur við stefnda um merki jarðarinnar að öðru leyti en að ofan er rakið og vísa þeir til úrskurðar óbyggðanefndar um röksemdir fyrir þeim og til framlagðra landamerkjabréfa.

Stefnendur gera í málarekstri sínum ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar.  Falla þær í meginatriðum saman við framangreindar málsástæður og lagarök þeirra.  Stefnendur árétta að tilgangurinn með lögum um þjóðlendur hafi fyrst og fremst verið sá að gera ríkið þinglýstan eiganda þeirra landsvæða sem enginn hafi skjöl fyrir, en svo hátti til um hluta afréttar og jökla á miðhálendi Íslands.  Óbyggðanefnd eigi þannig að finna út hver þessi eigendalausu svæði séu.  Land Einarsstaða sé hins vegar ekki eigandalaust líkt og áðurgreind heimildarskjöl bera með sér.  Stefnendur árétta að þeir hafi þinglýst landamerkjabréf, en skv. 1. gr. þjóðlendulaganna nr. 58, 1998 fer eigandinn með öll venjuleg eignarráð á eignarlandi.  Innan þinglýstra landamerkja landeigna fari landeigendur einir með öll venjuleg eignarráð, bæði raunveruleg og réttarleg yfirráð.  Stefnendur telja því að leggja verði sönnunarbyrði á stefnda um tilvist þjóðlendu innan landamerkja þrætusvæðisins.  Þvert á nefndar réttarreglur hafi óbyggðanefnd talið að stefnendum væri skylt að sýna fram á frekari eignarheimildir til stuðnings sinni túlkun á landamerkjabréfum, en með þeim hætti sé verið að krefjast enn eldri og frekari sönnunargagna en lög hafi gert ráð fyrir á þeim tíma sem fyrrnefnt landamerkjabréf var gert.  Telja stefnendur að með þessum hætti sé verið að leggja slíka sönnunarbyrði á stefnendur að undir henni verði ekki risið.  Slíkar kröfur séu andstæðar ákvörðunum 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, enda til þess eins fallnar að svipta stefnendur eignarrétti bótalaust.  Með beitingu slíkra formreglna um sönnun séu dómstólar í raun að endurskoða efnisreglur laga um eignarrétt á fasteignum í því skyni að komast að niðurstöðu, sem samræmist ekki gildandi efnisrétti.

Stefnendur byggja á því og árétta að þeir hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf fyrir landinu, sem sé í fullu samræmi við lýsingar í eldri gögnum.  Fjölmargar heimildir sýni að innan þessara merkja hafi eignarréttur stefnenda verið virtur af öllum aðilum.  Óbyggðanefnd hafi því metið ranglega sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á stefnendur, sem ekki fáist staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Þessu til viðbótar vísa stefnendur til þess að gagnaöflun óbyggðanefndar hafi ekki verið fullkomin, en fyrir liggi að á Árnasafni séu þúsundir skjala, sem ekki hafi verið rannsökuð.  Allan vafa í málinu verði því að meta stefnendum í vil.  Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.

Stefnendur vísa um afmörkun varakröfu sinnar m.a. til rannsókna Fornleifastofnunar á árunum 2004 og 2005 á Framdölum.  Byggja stefnendur á því að norðan þeirrar línu sem vísað sé til í kröfunni hafi hin forna byggð á Króksdal verið og sé því eignarland þeirra, þ.e. norðan Hraunár í Hraunárdal.  Stefnendur byggja varakröfu sína að öðru leyti á sömu sjónarmiðum, málsástæðum og lagarökum og lýst er í aðalkröfu, en vísa sérstaklega til efnisákvæða í landamerkjabréfi fyrir Framdali frá 1890, fjallskilareglugerðar frá árinu 1959 og áður rakins svarbréfs Steingríms Jónssonar sýslumanns frá árinu 1910 við erindi Stjórnarráðs Íslands um almenninga í S-Þingeyjarsýslu. 

Stefnendur byggja þrautavarakröfu sína á sömu sjónarmiðum og í aðal- og varakröfu.  Benda þeir á að í lögum nr. 58, 1998 um þjóðlendur sé beinlínis gert ráð fyrir því að þeir sem nýtt hafi land innan þjóðlendu skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði 5. gr.  Enn fremur benda stefnendur á reglur um stofnun ítaka þar sem m.a. sé rætt um að háttsemi aðila eða þegjandi samþykki geti orðið til þess að ítaksréttur stofnist.  Stefnendur hafi um áratugaskeið notið auðlinda á áðurgreindu landsvæði, þ. á m. námuréttinda, og leigt land undir bú í fullan hefðartíma.  Með auðlindum í þessu efni sé átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku, sem vinna megi úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs, sem þau kunna að finnast við.  Enn fremur benda stefnendur á að í lögum nr. 57, 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé gert ráð fyrir því í 3. gr. að þjóðlendur séu eign íslenska ríkisins nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.  Telja stefnendur sig hafa sannað rétt sinn til allrar nýtingar á hinu umþrætta landi.

Að því er málskostnað varðar krefjast stefnendur að ákvörðun óbyggðanefndar verði felld úr gildi og hún í þess stað dæmd í samræmi við stefnukröfu þeirra.  Byggja stefnendur að því leyti á málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnenda frá 10. janúar 2008, framlögðu 14. janúar 2008, hjá óbyggðanefnd.  Alls hafi verið um að ræða 44 vinnustundir á tímabilinu frá 15. febrúar 2007 er vinna lögmannsins hófst við málið.  Málsmeðferðin hafi staðið yfir fyrir óbyggðanefnd með hléum allt til uppkvaðningar úrskurðarins, þann 6. júní 2008.  Verð á hverja vinnustund hafi verið 13.800 krónur í samræmi við gjaldskrá og hafi því samtals málskostnaður lögmannsins verið 607.200 krónur, auk virðisaukaskatts.  Að þessu leyti andmæla stefnendur úrskurðarorðum óbyggðanefndar og forsendum, en vísa m.a. til álits umboðsmanns Alþingis frá 13. nóvember 2007 í máli nr. 5073/2007.  Stefnendur byggja á því að ekki sé hægt að fallast á afgreiðslu óbyggðanefndar í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru í þessu máli, flókinna lögfræðilegra álitaefna og þess gríðarlega skjalamagns málsins, sem lögmaður þeirra hafi þurft að afla sér og kynna sér.  Tímaskýrsla lögmannsins standi og óhögguð, en hún sé ekki efnislega gagnrýnd af óbyggðanefnd og henni hafi ekki verið mótmælt af hálfu stefnda.  Tímagjaldið sé sanngjarnt, enda hafi því ekki verið andmælt.  Ákvörðun óbyggðanefndar sé því órökstudd og ómálefnaleg og því beri að fella hana úr gildi og þess í stað að úrskurða málskostnað til stefnenda að skaðlausu í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 58, 1998, sbr. 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr., til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefðar, réttarvenju og tómlæti, en að auki vísa þeir til þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis borgaranna.  Loks vísa stefnendur til mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans og til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, m.a. að því er varðar varnarþing og málskostnað.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er aðallega á því byggt að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnanda, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.

Stefndi vísar til þess að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum byggt á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum.  Þannig sé niðurstaða óbyggðanefndar byggð á kerfisbundinni leit að gögnum, en einnig á gögnum og skýrslum frá málsaðilum.  Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hefði landsvæði það sem um er deilt í máli þessu talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands, sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.  Kveðst stefndi gera niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu, auk þeirra málsástæðna, sem hér á eftir verða raktar.

Af hálfu stefnda er á því byggt að hið umdeilda svæði, hinn svonefndi Framdalaafréttur, sé svæði utan eignarlanda.  Stefndi vísar til þess að af heimildum megi ráða, að jarðarinnar Einarsstaða sé fyrst getið í heimildum frá 14. öld, en ekki sé ágreiningur um eignarréttarlega stöðu jarðarinnar sem slíkrar.  Ágreiningur málsins lúti að sérstöku svæði, nefndum Framdalaafrétti, þ.e. afréttarsvæði austan Skjálfandafljóts og sunnan Bárðardals.  Þess svæðis sé fyrst getið í heimildum frá byrjun 18. aldar og sé það þá talið tilheyra Skútustöðum.  Hinn 3. júní 1890 hafi verið gert sérstakt landamerkjabréf fyrir svæðið.  

Á því er byggt af hálfu stefnda, að þótt landamerkjabréf (landamerkjaskrá) hafi verið gert fyrir svæðið, beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því að landamerkjabréf bera fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland.  Þrátt fyrir að þessum bréfum hafi verið þinglýst þá takmarkast gildi þinglýsingar af því, að ekki er unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 (Úthlíð).  Þá bendir stefndi á að það skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi eða annað landsvæði.  Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir heldur einnig önnur svæði svo sem afréttarsvæði, sem ekki tengjast sérstaklega tiltekinni jörð.  Almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þó með hliðsjón af eldri heimildum, enda verði við slíkt mat að meta gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega.  Þá verði við mat á gildi landamerkjalýsingar svæðisins að horfa til þess að ekki verði séð að landamerkjaskrá hafi verið samþykkt af umráðamönnum aðliggjandi landsvæða, enda umlukið afréttarsvæðum utan eignarlanda til vesturs, norðurs og austurs, en að sunnan af jökli.

Stefndi bendir á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til lands landnám á þessu svæði náði.  Ólíklegt verði að teljast að land á umdeildu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið er hálent, en um er að ræða öræfalandsvæði langt frá byggðum bólum. 

Stefndi byggir á því að teljist heimildarskortur hvað ofanrakin atriði varðar vera fyrir hendi, leiði það til þess að ósannað sé að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu.  Sé þetta í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands, t.d. í máli nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefnt mál nr. 48/2004.  Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem heldur slíku fram.

Stefndi heldur því fram að ekki verði annað af heimildum ráðið en að umrætt svæði hafi eingöngu verið nýtt með takmörkuðum hætti eins og fram komi í úrskurði óbyggðanefndar, en bent er á að svæðið sé umlukið eigendalausum svæðum á allar hliðar.  Þá verði ekki annað séð, en að réttur til hins umdeilda svæðis hafi upphaflega orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

Verði á hinn bóginn talið að nefnt landsvæði hafi verið numið í öndverðu, byggir stefndi á því að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota svo sem afréttarnota.  Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Um síðastnefnda atriðið bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Verði hins vegar talið að landsvæðið kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefndi á því til vara að allar líkur séu á að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu yfir landinu byggir stefndi á að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

Stefndi byggir á því, að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess, að landsvæðið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti.   Stefndi bendir á máli sínu til stuðnings að horfa verði til þess að umrætt landsvæði sé ekki í nokkrum landfræðilegum tengslum við jörðina Einarsstaði, sem þó telji til eignarréttinda yfir svæðinu, auk þeirrar staðreyndar, að svæðisins sé ekki getið í landamerkjabréfi Einarsstaða, heldur í sérstöku bréfi „fyrir afrétt“.  Telur stefndi að þetta bendi ótvírætt til þess, að svæðið hafi verið afréttarsvæði, utan eignarlanda.  Þá verði ekki séð að á svæðinu hafi nokkru sinni verið búið.  Einnig  bendir stefndi á að engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, en um sé að ræða hálent og gróðursnautt öræfasvæði sem liggi fjarri byggð.  Þá hafi fjallskil verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið sé ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum svæðum án hindrana.  Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á. 

Stefndi vísar til þess að eldri heimildir bendi til þess að jörðin Einarsstaðir hafi átt afrétt á hinu umdeilda svæði, en ekki beinan eignarrétt.  Vísar stefndi um þetta atriði einkum til áðurrakinnar landamerkjaskrár frá 1890 fyrir svæðið, en þar sé þess sérstaklega getið að um sé að ræða skrá „fyrir afrétt“ þann sem kallaður er „Framdalur“ og liggi suður af Bárðardal að austan.  Þá sé þess jafnframt getið í skránni, að umrætt svæði sé talið tilheyra jörðinni Einarsstöðum.  Er það álit stefnda að í umræddri tilheyrslu hafi ekki falist annað en tilheyrsla á afnotaréttindum, eftir atvikum fullkominni afréttareign.

Til áréttingar framangreindu vísar stefndi til afréttarskrár Skútustaðahrepps frá 1878, þar sem hluta þess svæðis sem rúmist innan lýsingar fyrrnefnds landamerkjabréfs, Framdalaafréttar, sé einnig lýst, en þar segi um Framdali:  „... og heita þeir Sandmúladalur að Sandmúlaá yzt, þá Króksdalur, þá Yxnadalur og Hraunárdalur syðst.“  Þá segi einnig í nefndri skrá að Hraunárdalur „með drögum þeim er að honum liggja er talinn almenningur, en hinn hluti hans er Einarsstaðakirkjueign.“  Að þessu leyti vísar stefndi einnig til þess sem áður var rakið úr eldri heimildum, þ. á m. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, jarðamati frá 1849-1850 um Einarsstaði, fasteignamati 1916-1918, en einnig um skráð réttindi Reykjahlíðar á Framdölum.  Þá vísar stefndi til umfjöllunar um Framdalaafrétt í úrskurði óbyggðanefndar, þar sem m.a. sé vísað til manntalsþinga við Mývatn í júní 1719 og 1721, en þar sé fjallað um afréttarsvæði kirkjunnar á Einarsstöðum, þ.e. á Króksdal og Öxnadal.  Loks bendir stefndi á að í yngri heimildum um svæðið sé einkum lýst upprekstri og afréttarnotum, sbr. rit Ólafs Jónssonar, Ódáðahraun, og rit Braga Sigurjónssonar, Göngur og réttir.  Þá er af þeirra hálfu bent á áðurrakta samantekt Jóhanns Skaptasonar sýslumanns frá árinu 1959, um afrétti og almenninga í Suður Þingeyjarsýslu.

Stefndi andmælir í málatilbúnaði sínum því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi.  Vísar stefndi m.a. þar um til áðurrakinna sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda.  Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot eða önnur takmörkuð nýting geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.  Þá hafnar stefndi þeim málatilbúnaði stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði.  Bendir stefndi á að sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn einn sé bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Stefndi byggir á því að ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar heldur ekki stofnað til slíkra réttinda.  Byggir stefndi á því að þegar ofangreint sé virt geti með sölu landbúnaðarráðherra á jörðinni Einarsstöðum vorið 1942 ekki hafa falist annað og meira en ráðstöfun á því landi sem raunverulega var undirorpið beinum eignarrétti ásamt tilheyrandi réttindum, eftir atvikum afréttareign á umræddu landsvæði.  Á það er bent af hálfu stefnda, að þinglýsing landamerkjaskrár eða heimildarskjals fyrir svæðið feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins, að menn geta ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.

Í málatilbúnaði sínum hafnar stefndi þeirri kröfu stefnenda að endurskoða eigi málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar.  Bendir stefndi á að samkvæmt 17. gr. laga nr. 58, 1998 skuli greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað vegna gæslu hagsmuna málsaðila fyrir óbyggðanefnd.  Þá sé samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins óbyggðanefnd falið að úrskurða um málskostnaðarkröfur aðila fyrir nefndinni.  Meðal þess sem nefndinni ber að líta til við ákvörðun á nauðsynlegum kostnaði aðila, sé hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli.  Þá sé óbyggðanefnd samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins heimilt að gera málsaðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti sjálfur ef hún telur málatilbúnað hans gefa tilefni til þess.  Telur stefndi að ekki verði annað séð en við mat á þóknun lögmanns stefnenda fyrir óbyggðanefnd hafi nefndin gætt fyrrgreindra sjónarmiða og verið í fullu samræmi við ákvæði 17. gr. laganna.  Af hálfu stefnenda hafi heldur ekki verið færð nein rök fyrir þeirri fullyrðingu, að málskostnaðarákvörðun nefndarinnar hafi verið ósanngjörn eða óeðlilega lág.  Hljóti sönnunarbyrðin um slíkt að hvíla alfarið á herðum stefnanda.

Að því er varðar varakröfu stefnenda þá andmælir stefndi henni með sömu rökum og hér að framan var rakið og krefst hann sýknu. 

Stefndi andmælir og þrautavarakröfu stefnenda.  Hann mótmælir því sérstaklega að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignarréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvort heldur að hluta til eða að öllu leyti.  Vísar stefndi m.a. til þess að um auðlindir í jörðu gildi lög nr. 57, 1998 um rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu.  Að mati stefnda gildir ákvæði 3. gr. laganna um nefnt landsvæði, enda um þjóðlendu að ræða, en ekki eignarland, samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar og að mati stefnda.  Bendir stefndi á að ákvæðið feli í sér að í þjóðlendum séu auðlindir í eigu íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.  Að áliti stefnda hafi stefnendum ekki tekist að sanna slíkan eignarrétt sinn að auðlindum á svæðinu, hvorki fyrir hefð né með öðrum hætti.  Stefndi bendir á það, sem rakið hefur verið hér að framan, að nýting svæðisins hafi verið takmörkuð, enda bendi heimildir til þess að svæðið hafi eingöngu verið nýtt sem afréttarsvæði.  Slík takmörkuð not geti að áliti stefnda hvorki talist grundvöllur fullra né takmarkaðra eignarráða á svæðinu.

Með vísan til þess sem hér að framan var rakið, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, hafi verið röng.  Bendir stefndi á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld.  Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „… landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“.  Engin gögn liggi hins vegar fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998. 

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, og krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2007 frá 6. júní 2008, með þeim röksemdum sem þar komi fram, verði staðfestur og þá þannig að miðað verði við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem þar er rakið.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar stefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Stefndi byggir jafnframt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not.  Hann byggir á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar.  Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905 og vísar til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil.  Þá vísar hann til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæðis 129. og 130. gr.

 

IV.

Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi gaf aðilaskýrslu Sigurður Haraldsson, en vitnaskýrslur gáfu Jón Haraldsson frá Jaðri og Orri Vésteinsson prófessor.

 

Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint þannig:  „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er í lagagreininni afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“

Fram að gildistöku þjóðlendulaga nr. 58, 1998 voru landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til þjóðlendulaga segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. 

Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum.  Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda.  Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

Eins og áður var rakið tilkynnti óbyggðanefnd með bréfi, dagsettu 15. júní 2006, þá ákvörðun sína að í samræmi við III. kafla þjóðlendulaga ætlaði hún að taka til umfjöllunar landsvæði á austanverðu Norðurlandi, þ. á m. það svæði sem hér um ræðir, þ.e. í Skútustaðahreppi sunnan Mývatns og í Þingeyjarsveit sunnan Bárðardals.  Að lokinni kröfugerð, gagnaöflun og málsmeðferð samkvæmt nefndum kafla laganna kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn, hinn 6. júní 2008, sbr. mál nefndarinnar nr. 1/2007.  Varð það m.a. niðurstaðan að það landsvæði sem er sunnan Bárðardals, svonefndur Framdalaafréttur, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., en að það landsvæði væri aftur á móti afréttareign lögbýlisins Einarsstaða í Reykjadal.  Það var jafnframt niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði þar austan við og að hluta norðan við, þ.e. „selland og afréttarland“ Skútustaða við Mývatn, væri afréttareign Skútustaðajarðarinnar.

Það er álit dómsins að lýst málsmeðferð óbyggðanefndar, sbr. það sem segir í kafla I hér að framan, hafi verið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og verður ekki fallist á með stefnendum að form- eða efnisgallar séu á úrskurðinum, þar á meðal að því er varðar meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, að varði ógildi hans.  Þykir að þessu leyti mega vísa til hæstaréttarmálsins nr. 48/2004, en þar er það m.a. rökstutt að málsmeðferðin sé eigi andstæð 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994.  Í þessu viðfangi þykir og fært að líta til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06: Örn Bergsson o.fl. gegn Íslandi.

 

Afréttarsvæðin inn af Bárðardal í Þingeyjarsveit og suður af Mývatni í Skútustaðahreppi hafa eins og áður er rakið verið nefnd afréttarland og Selland Skútustaða, en þar vestan við og inn af austanverðum Bárðardal hafa þau verið nefnd Suðurárhraun, Grafarlönd og Framdalir og það síðarnefnda einnig Framdalaafréttur, Framfjöll, Krókdalsafréttur og Hraunárdalsalmenningur.

Ágreiningsatriði máls þessa varðar eignarréttarlega stöðu landsvæðis inn af Bárðardal, á nefndum Framdalaafrétti.  Landsvæðið er m.a. afmarkað í úrskurði óbyggðanefndar og stefnu og er ekki ágreiningur þar um, en dómari fór á vettvang í tvígang, ásamt aðilum og lögmönnum þeirra, undir rekstri málsins.

Stefnendur byggja kröfur sínar um beinan eignarrétt landsvæðisins m.a. á áðurröktu landamerkjabréfi, sem útbúið var 3. júní 1890, en þinglýst sjö árum síðar.  Bréfið hefst þannig:  „Landamerkjaskrá fyrir afrétt þann sem kallaður er „Framdalir“ og liggja suður af Bárðardal að austan en tilheyrir Einarstöðum í Reykjadal.“  Í bréfinu er svæðið nánar afmarkað: „ norðan ræður Krossárgil frá upptökum til Skjálfandafljóts, að austan og sunnan ráða grjót og sandar sem umkringja þetta land á þá 2 vegu, að vestan ræður Skjálfandafljót. Hagar og beitilönd innan þessara takmarka eru þessi: Krossártorfa sunnan Krossár, Krókdalur, Bálabrekka, Yxna dalur, Stapamosar, Íllagil og Íllagilsmosar, Hraunárdalur, Flæður, Drög og Teigjur.  Í varakröfu sinni marka stefnendur landsvæðið að austan við upptök Krossár og þaðan í beinni línu til suðvesturs í Fljótshnjúk, sem er við Fljótsdal, en vestan Hraunárdals.  Stefnendur byggja m.a. á því að eldri heimildir og gögn styðji við málstað þeirra og krefjast þess að ályktunarorð úrskurðar óbyggðanefndar um að land innan lýstra merkja samkvæmt aðal- og varakröfum sé þjóðlenda verði felld úr gildi.  Af hálfu stefnda er krafist sýknu og er um rökstuðning m.a. vísað til úrskurðarins.

Um gildi landamerkjabréfa, og það hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Segir í dómsniðurstöðunni m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Enn fremur er í þessum dómi sagt að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Er sagt að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það.  Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.  Rétturinn hefur í síðari dómum áréttað þessa afstöðu, t.d. í fyrrnefndum dómi í máli nr. 496/2005.

Ber við niðurstöðu máls þessa að hafa allt framangreint í huga.

 

Eins og áður er fram komið liggja norðurmörk Framdalaafréttar að afréttarsvæði Skútustaða við Skjálfandafljót og Sandmúla samkvæmt landamerkjabréfi jarðarinnar frá árinu 1891.  Fylgja merkin síðan Krossá frá upptökum um Krossárgil.  Eftir það ráða merkin að austan, gagnvart Skútustaðahreppi, grjót og sandar, en að sunnan er það afmarkað af jaðri Vatnajökuls.  Landsvæðið til vesturs er afmarkað af Skjálfandafljóti, frá upptökum í Vatnajökli og þar til Krossá fellur í fljótið. 

Í úrskurði óbyggðanefndar segir m.a. að landsvæði Framdalaafréttar sé mjög víðfeðmt og liggi í yfir 400 m hæð.  Landið sé hæst þar sem það mætir jökli í suðri í 1300 til 1400 m hæð, við Rjúpnabrekku.  Sunnan til sé landið hallalítið apalhraun en norðan til sé það hallameira og fjalllent.

Í úrskurðinum og þeim gögnum sem aðilar hafa lagt fram og rakin hafa verið hér að framan er lýst staðháttum og gróðurfari svæðisins.  Er um landsvæðið nánar það að segja, að sunnan Krossár, Krossárgils og Sandmúla tekur við dalur við Skjálfandafljót, sem nefndur er Krók(s)dalur.  Vestan fljótsins í Króksdal eru Smiðjuskógar, örnefnið Helgastaðir, sem talið er býli Helga Króks, sem dalurinn er kenndur við, því næst Kvíahraun, Fossgil, Dældir og Kiðagil.  Austan fljótsins eru í dalnum m.a. Jónsbörð, Ytri- og Syðri-Lambár, en þar sunnan við er brött brekka fram að fljótinu, sem nefnd er Bálabrekka og nær hún suður að mynni Öxnadals.  Eftir Öxnadal, sem er mestur af þverdölunum og liggur í suðaustur frá fljótinu, rennur samnefnd á.  Ofarlega í Öxnadal eru gangnamannakofar, en þar sunnan við fellur Stapá í dalinn.  Alllangt í suðaustur er Þríhyrningur (1040 m) og í suður er Hattalda (749 m), en eftir það taka við Öxnadalsdrög og Surtluflæða, sem er vestur af Trölladyngju.  Suðvestan við mynni Öxnadals er Ytrimúli (646 m), sem er hátt klettabelti, en þar sunnan við er Illagil og rennur samnefnd á þar úr svonefndum Illagilsmosum, sem eru norður af Krókasteikarmosum, en þeir eru allvíðlend mosaflæða á grjótunum milli Öxnadals og Hraunárdals.  Sunnan við Illagil er með fljótinu Syðrimúli, sem er svipaður hinum að allri gerð.  Þar sunnan við er Hraunárdalur, sem liggur í suðaustur, en eftir honum rennur Hrauná, sem er stærsta þveráin sem fellur í fljótið.  Þar við er Hraunárdalsslakki, gróinn nokkuð, en alllangt þar til suðurs er Einstakatorfa og Grasatorfa.  Þar sem Hrauná rennur í fljótið er kallað Hraunárós, en þar sunnan við er Ytra-Fljótsgil.  Þar upp af er Fljótshnjúkur (814 m), en austur af honum fellur Langadrag í Hrauná.  Sunnar og austar er Ytri-Hitulaug og Hitulaugardrag, en þar vestan við fellur Skjálfandafljótið um Fljótsdal og Syðri-Fljótsgil.  Sunnan við Stóruflæðuhnúk (723 m) er Stóraflæða og er þar gróðurlendi, en eftir það taka við sandar suður með fljóti, þar til kemur að Marteinsflæðu, og eru þar mosateygjur og hestahagar. Marteinsflæða var lengstum fremsta leitarsvæði gangnamanna, en þar sunnar og austar eru Fossagljúfur og síðan Rjúpnabrekkukvísl, en hún kemur undan skriðjökli sem heitir Rjúpnabrekkujökull.  Austan Rjúpnabrekku er bergvatnskvísl sem nefnd er Hraunkvísl, en þar austan við eru tvær tjarnir sem heita Gæsavötn, en einnig er þar Gæsahnjúkur (1097 m).

Í úrskurði óbyggðanefndar er lagt til grundvallar að við landnám hafi Ísland verið betur gróið og gróður náð lengra inn á heiðar en nú er.

Stefnendur byggja á því að afréttarsvæðin sunnan Bárðardals og þar með hinn umþrætti Framdalaafréttur á Króksdal hafi verið numin í öndverðu.

 

Dómurinn fellst á þær röksemdir aðila að frásögn Landnámu sé ekki fyllilega ljós um landnám á nefndu landsvæði.  Verður meðal annars ekki ráðið umfram það sem áður sagði hversu langt inn til landsins landnámið hafi náð sunnan Bárðardals og Mývatns.  Í úrskurði óbyggðanefndar er sagt að þrátt fyrir þetta sé ekki hægt að útiloka að landsvæðið sé að einhverju leyti innan upphaflegs landnáms eða hafi á annan hátt verið undirorpið beinum eignarrétti. 

Að áliti dómsins renna nýlegar fornleifarannsóknir, sbr. rit Fornleifastofnunar Íslands frá 2004 og 2005, stoðum undir það að svæðið á Framdalaafrétti, og þar á meðal á Króksdal, hafi verið numið og að þar hafi verið byggð á 10. og 11. öld.  Rannsóknir þessar hafa stuðning frá eldri fornleifarannsóknum og athugunum á afréttarsvæðunum sunnan Bárðardals og Mývatns, m.a. fræðimannanna Daníels Bruun og Þorvaldar Thoroddsen á 20. öldinni og síðar þeirra Steindórs Steindórssonar, Sigurðar Þórarinssonar og Kristjáns Eldjárns. Hafa þessir fræðimenn m.a. athugað þær fornminjar sem fundist hafa austan og vestan Skjálfandafljóts, bæði einstaka muni, svo sem sverð og öxi víkingagerðar, en einnig einstaka nytja- og skrautmuni.  Einnig hafa fundist rústir fornbýla á afréttarsvæðunum, m.a. við Svartárkot, í Hrauntungu í Svartárbotnum austan fljóts og í tungunni milli Fiskár og Mjóadalsár vestan fljóts.  Þekktasti fornleifastaðurinn er undir Sandmúla, sem er skammt fyrir norðan Framdalaafrétt við mót Króksdals.  Hafa þær rústir blásið upp frá því um 1880, og er nú allur jarðvegur þar blásinn upp í ísaldarmel.  Í rústum þessum hafa fundist dýrabein og nytjamunir, en einnig fannst þar silfursjóður árið 1909.  Hafa rannsóknir leitt í ljós að fornbýlið, sem er nafnlaust, var ekkert örreytiskot, en samkvæmt vætti Orra Vésteinssonar, fornleifa- og sagnfræðings, er ótvírætt að þar hefur verið búið árið um kring.  Við fornleifarannsóknir á Króksdal vestan Skjálfandafljóts hafa fundist mannvistarleifar á Helgastöðum.  Hefur verið staðreynt með rannsóknum á gjóskulögum að þar hafi verið býli frá því um 940, en búsetan verið skammvinn, e.t.v. í eina eða tvær kynslóðir, og á enda runnin fyrir árið 1104.  Ekki hefur verið unnt að fullyrða hvort að umræddar rústir séu eftir bæ eða sel.  Greinileg merki eru í rústunum um rauðablástur, þ.e. járnvinnslu, en einnig á fleiri stöðum í grenndinni, m.a. við örnefnið Smiðjuskóg.  Fram kemur í gögnum að einu mannvistarleifarnar austan Skjálfandafljóts á Framdalaafrétti í Króksdal séu um 5 km sunnan Sandmúla, en skammt norðan Öxnadals og gegnt Helgastöðum.  Hafa þar fundist uppblásnar bæjarrústir, nafnlausar, undir fyrrnefndri Bálabrekku.  Samkvæmt vætti Orra Vésteinssonar hefur verið þarna allmikill húsakostur og megi ráða af beinaleifum að þar hafi verið búið við nautgripi, sauðfé, geitur og hross.  Þar hafi líka verið stundaður rauðablástur.  Eru rústir þessar í um 420 m hæð yfir sjávarmáli og um 100 km frá sjó. 

Samkvæmt vitnisburði Orra Vésteinssonar benda nefndar rannsóknir til þess að býlin á Króksdal séu frá svipuðum tíma og því nokkuð yngri en fornbýlin norðar í landinu, m.a við Mývatn. 

Að ofangreindu virtu verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að land sunnan Bárðardals, þar á meðal á Króksdal, hafi verið numið og að þar hafi verið byggð á 10. og 11. öld.

Nefndar fornleifarannsóknir leiða að áliti dómsins sterkar líkur að því að byggðin á Króksdal hafi löngu verið komin í eyði á 13. öld þegar sögur fari fyrst af dalnum.  Samkvæmt vætti nefnds Orra Vésteinssonar er ekki útilokað að eftir að byggðin lagðist af hafi rauðablástur verið stundaður þar í afréttinum fram eftir öldum, en enn fremur vitni gripir frá seinni öldum um umferð um dalinn.  Engar aðrar heimildir liggja fyrir um byggð á þessum afréttarsvæðum sem bregða ljósi á mannlíf eða búskaparhætti þar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og þá ekki um tildrög þess að byggðin fór í eyði.  Eru tilgátur um að búseta á jaðar- og hálendisbyggðum til heiða hafi lagst af á 11., 12. og 13 öld, m.a. vegna ítrekaðs öskufalls frá eldfjöllum, snjóþyngsla, gífurlegrar einangrunar og þess að svæði þessi voru með viðkvæmt vistkerfi og því viðkvæm fyrir jarðvegseyðingu. 

Eins og hér að framan var rakið, í kafla I. 4, eru mjög takmarkaðar heimildir frá miðöldum um afréttarsvæðin sunnan Bárðardals.  Er það ekki fyrr en í byrjun 18. aldar sem heimildir er að hafa um eignarhald á afréttarsvæðunum, örnefni og nýtingu þeirra.  Í Jarðabók Árna og Páls, sem kemur út árið 1712, er getið um rústir fyrrnefndra fornbýla á afréttinum vestan Skjálfandafljóts, þ. á m. Helgastaða, og landsréttinda Ljósavatns þar á svæðinu, en einnig um upprekstur Mývetninga og fjallskil þeirra með Bárðdælingum við býlið Mýri í Bárðardal.  Austan Skjálfandafljóts er í Jarðabókinni getið um rústir fornbýlis í Hafursstaðahlíð, en almennt eru heimildir um eignarhald austan fljóts fjölbreyttari en vestan þess.  Þannig eignuðu Einarsstaðir í Reykjadal, Skútustaðir, Reykjahlíð og Arnarvatn í Mývatnssveit sér lönd, ítök og upprekstrarréttindi þar á afréttarsvæðum, en ekkert er getið um rétt Þverár í Laxárdal svo sem áður hafði verið samkvæmt kaupbréfi frá 15. öld.  Að mati dómsins sýna nefndar heimildir að jarðir þessar hafi nýtt nefnd afréttarlönd til upprekstrar á sumrin, en auk þess eru heimildir um að Bárðdælingar hafi haft þar á almenningi hrossagöngu á vetrum.  Jarðaeigendur nefndra býla, þar á meðal kirkjuyfirvöld, lýstu réttindum sínum á svæðinu ítrekað, m.a. í máldögum, sóknarlýsingum, jarðamötum, afréttarskrám, en einnig í vitnisburðum fyrir dómi.  Lýstu aðilar þessum réttindum ýmist sem ítaksréttindum, eignarlandi eða sem upprekstrarrétti í almenningi, þ. á m. á Hraunárdal.  Af gögnum verður ráðið að tilkall aðila til afréttarsvæðanna sunnan Bárðardals, þ. á. m. á Framdalaafrétti, hafi stangast á að nokkru.  Má í því viðfangi m.a. nefna afréttarskrá Skútustaðahrepps frá 1878 og máldaga og leigugerninga Einarsstaða í Reykjadal frá 18. og 19. öld. 

Fyrir liggur að í kjölfar setningar landamerkjalaga í lok 19. aldar voru gerð landamerkjabréf fyrir afréttarsvæðin, sbr. áðurrakið bréf Einarsstaða fyrir Framdalaafrétt frá 1890 og bréf Skútustaða um afrétt og selland frá 1891, en báðum var þeim lögformlega þinglýst.  Er til þess að líta að nefnt afréttarlandsvæði Einarsstaða er í um 60 km fjarlægð frá Einarsstaðajörðinni í Reykjadal í beinni loftlínu og eru þar á milli afréttarsvæði annarra býla og fjölmargar jarðir.

Að áliti dómsins ber að fallast á með stefnda að engar haldbærar heimildir séu til um byggð á Framdalaafrétti umfram það sem hér að framan hefur verið lýst.  Þá liggur heldur ekki fyrir að land þar hafi verið til annarra nota en sumarbeitar fyrir búfénað og takmarkaðrar hrossagöngu á vetrum, eftir að byggðin lagðist af í lok ll. eða byrjun 12. aldar. Í þessu samhengi ber til þess að líta að hafi beinn eignarréttur stofnast í öndverðu með námi verður samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. málum nr. 685/2008 og 198/2009, ekki krafist að sýnt sé fram á hvernig sá réttur hafi haldist við, heldur aðeins að hann hafi gert það í raun.  Í málinu liggur ekkert fyrir um hvernig eigendur Einarsstaða geti verið að landi Framdalaafréttar komnir eða hvenær það kunni að hafa gerst og þá ekki með svokölluðum próventugerningum.  Verður ráðið að fyrst hafi verið getið um réttindi þeirra sem afréttarítaks á Króksdal, fyrir ofan Krossá og í Öxnadal, í Jarðabók Árna og Páls árið 1712, í máldaga jarðeiganda frá sama ári og í uppskrift á landamerkjalýsingu sem gerð var fyrir Einarsstaðakirkju árið 1715.

Verður að ofangreindu virtu fallist á með stefnda að stefnendur hafi ekki sýnt fram á afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem kunni að hafa verið stofnað til í öndverðu á umþrættu landi á Króksdal.  Að þessu virtu og þeirra atriða sem vísað er til í hæstaréttarmálum nr. 48/2004 og 496/2005, er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki leitt sönnur að því að þeir eigi beinan eignarrétt að nefndu landsvæði eins og kröfur þeirra samkvæmt aðal- og varakröfu vísa til.  Því til styrktar er til þess að líta að nefnt landsvæði hefur nær eingöngu verið nýtt til beitar og er ógirt.  Benda gögn heldur ekki til annars en að landsvæðið hafi verið hluti afréttar um aldir.  Verður að þessu sögðu fallist á röksemdir stefnda um að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að Framdalaafréttur sé eignarland þeirra.

Stefnendur hafa að áliti dómsins ekki fært fram sönnun þess að skilyrðum eignarhefðar á hinu umþrætta landi hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því, ásamt fleiri bændum, sem nýtt hafa það til beitar, eftir því sem aðstæður hafa leyft.  Það er álit dómsins að stefnendur hafi heldur ekki með öðrum ráðstöfunum á landsvæðinu þeim tengdum unnið slíkan rétt, m.a. með leyfisveitingum fyrir byggingum kofa ellegar með sérstökum samningi við íslenska ríkið um friðlýsingu landsvæðis vegna stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt lögum nr. 60, 2007, sbr. reglugerð nr. 608, 2008, sbr. að því leyti ákvæði 5. gr. samningsins.

Að þessu virtu ásamt andmælum og röksemdum stefnda, en einnig með hliðsjón af áðurnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki fallist á að stefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.

Þegar framangreind gögn eru virt í heild, ekki síst þegar litið er til legu þrætulandsins, fjarlægðar frá byggð, staðhátta, náttúrufars og þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndum hæstaréttarmálum, er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki hrakið eða leitt nægjanlegar líkur fyrir því að áðurraktar forsendur í úrskurði óbyggðanefndar séu rangar.  Að þessu sögðu og þar sem málatilbúnaður stefnenda styðst ekki við önnur gögn verður ekki fallist á að þeir hafi sýnt fram á að umrætt landsvæði á Framdalaafrétti, eins það er afmarkað í úrskurði óbyggðanefndar, sé eignarland.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að hafna verði kröfum stefnenda, samkvæmt aðal- og varakröfum í endanlegri kröfugerð, um að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í máli þessu og skal hann standa óraskaður.  Þá hafa stefnendur að áliti dómsins heldur ekki rökstutt með neinum hætti frekar þau réttindi, sem þrautavarakrafa þeirra tekur til, eða þeir að öðru leyti fært fram gögn fyrir slíkum réttindum.  Ber af þeirri ástæðu að hafna þrautavarakröfu stefnenda.

Samkvæmt framansögðu er fallist á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að umþrætt landsvæði, Framdalaafréttur, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en jafnframt að það sé afréttareign jarðarinnar Einarsstaða í Reykjadal, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið sömu laga.

Verður stefndi samkvæmt öllu þessu sýknaður af kröfum stefnenda í málinu. 

 

Stefnendur krefjast þess að málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar gagnvart þeim vegna lögmannsþjónustu, sem þeir hafi þegið við meðferð málsins fyrir nefndinni að fjárhæð 500.000 krónur, verði felld úr gildi og þess í stað dæmt að stefnda beri að greiða stefnendum 607.200 krónur auk virðisaukaskatts, 148.764 krónur, eða samtals 755.964 krónur í málskostnað.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 58, 1998, eins og þeim var breytt með 7. gr. laga nr. 65, 2000, skal greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað vegna gæslu hagsmuna málsaðila fyrir óbyggðanefnd.  Með 2. mgr. fyrrnefnds lagaákvæðis er lagt í hendur nefndarinnar að úrskurða um kröfur aðila um þann kostnað.  Meðal þess, sem nefndin á að líta til við ákvörðun á nauðsynlegum kostnaði aðila, er hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli og hvort aðilar, sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta, hafi sameinast um aðstoð lögmanns.

Óbyggðanefnd hefur sjálfstæðri rannsóknarskyldu að gegna í málum sem þessum og hefur að mati dómsins sinnt þeirri skyldu sinni.  Segir í úrskurði nefndarinnar að í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis frá 13. nóvember 2007 í máli nr. 5073/2007 hafi nefndin fyrir uppkvaðningu úrskurðarins gefið lögmönnum aðila kost á að leggja fram sundurliðaða málskostnaðarreikninga þannig að unnt væri að ákvarða málskostnað til einstakra málsaðila fremur en sameiginlega.  Liggur fyrir að slík sundurliðun lá fyrir í tilviki stefnenda. 

Fallast má á með stefnendum að rökstuðningur óbyggðanefndar fyrir ákvörðun málskostnaðar hefði mátt vera öllu ítarlegri, en það breytir ekki mati dómsins á því að ekkert sé fram komið sem styðji þá fullyrðingu að ákvörðun hennar hafi verið órökstudd og ómálefnaleg eða í andstöðu við 17. gr. þjóðlendulaga í ljósi aðstæðna.  Að þessu gættu eru ekki efni til að hnekkja ákvörðun óbyggðanefndar um þóknun handa lögmanninum.

 

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns.  Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, þar á meðal vegna vettvangsferða, er nefnd þóknun ákveðin 1.255.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar, hæstaréttarlögmanns, 1.255.000 krónur.

                                                              Ólafur Ólafsson.