- Eignarréttur
D Ó M U R
Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 14. október 2013 í máli
nr. E-75/2010:
Hörgárbyggð
(Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)
gegn
Íslenska ríkinu
(Edda Björk Andradóttir hdl.)
og
gagnsök
Mál þetta, sem dómtekið var 21. ágúst sl. hefur sveitarfélagið Hörgársveit, kt. 000000-0000, Þelamerkurskóla, höfðað með stefnu birtri 21. janúar 2010, á hendur íslenska ríkinu, sem þingfest var 11. febrúar 2010. Þá var mál höfðað af íslenska ríkinu á hendur aðalstefnanda með gagnstefnu, þingfestri 11. febrúar 2010.
Dómkröfur aðalstefnanda eru:
Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 í máli nr. 3/2008, þess efnis að Almenningur sé þjóðlenda, sbr. eftirtalin úrskurðarorð:
„Það [er] því niðurstaða óbyggðanefndar að Almenningur, svo sem hann er afmarkaður hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:
Upphafspunktur að vestan er þar sem Seldalsá sker línu sem dregin er beina stefnu frá 800 metra hæðarpunkti í Rauðuskriðukinnum (punkti nr. 37 á þjóðlendukröfulínu íslenska ríkisins, skv. kröfulýsingu, dags. 14. mars 2008) í 800 metra hæðarpunkt norðan til í Kaldbaksdal (punkt nr. 38 á þjóðlendukröfulínu íslenska ríkisins, skv. kröfulýsingu, dags. 14. mars 2008). Þaðan er Seldalsá og síðan Vestari kvísl Seldalsár fylgt allt til dalbotnsins og þaðan upp að sveitarfélagamörkum Hörgárbyggðar og Eyjafjarðarsveitar. Upphafspunktur að austan er í skurðpunkti línu sem dregin er frá Rauðuskriðuá (punktur nr. 1 á kröfulínu vegna Vaskárdals) í Rauðuskriðufjall (punktur nr. 5 á kröfulínu vegna Vaskárdals) og línu sem dregin er beina stefnu frá Rauðuskriðukinnum í 800 m hæð (punktur nr. 37 á þjóðlendukröfulínu íslenska ríkisins, skv. kröfulýsingu, dags. 14. mars 2008) í punkt norðan til í Kaldbakshnjúk í 800 m hæð (punktur nr. 38 á þjóðlendukröfulínu íslenska ríkisins, skv. kröfulýsingu, dags. 14. mars 2008). Frá nefndum skurðpunkti er línan dregin um Rauðuskriðufjall eftir fjallsrananum að sveitarfélagamörkum Hörgárbyggðar og Eyjafjarðarsveitar. Að sunnan ráða sveitarfélagamörkin milli þeirra punkta á sveitarfélagamörkum sem nefndir voru. Að norðan ræður bein lína milli upphafspunkts að vestan og upphafspunkts að austan.“
Af hálfu aðalstefnanda er gerð krafa um að viðurkennt verði með dómi að enga þjóðlendu sé að finna innan ofangreindrar landamerkjalýsingar, og þar með að allt landsvæðið sé viðurkennt eignarland í samræmi við eignarheimildir.
Varakrafa. Verði ekki fallist á aðalkröfu aðalstefnanda er þess krafist að viðurkennt verði að hann eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var afréttareign eiganda Almennings, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, þótt landið teljist þjóðlenda.
Aðalstefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 15. mars 2010.
Dómkröfur gagnstefnanda, íslenska ríkisins, eru:
Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 3/2008, Hörgárbyggð austan Öxnadalsár, að því leyti er varðar Almenning, og að viðurkennt verði, að landsvæði sem afmarkast af eftirfarandi línu sé þjóðlenda:
„Upphafspunktur er þar sem Vaská fellur í Öxnadalsá. Þaðan er Vaská fylgt að þeim stað þar sem Rauðuskriðuá fellur í hana. Þaðan er Rauðuskriðuá fylgt þar til komið er að skurðpunkt við línu sem dregin er beina stefnu frá Rauðuskriðukinnum í 800 m hæð í punkt norðan til í Kaldbakshnjúk í 800 m hæð. Frá nefndum skurðpunkti er lína dregin um Rauðuskriðufjall eftir fjallsrananum að sveitarfélagsmörkum Hörgárbyggðar og Eyjafjarðarsveitar. Þaðan er sveitarfélags-mörkunum fylgt til suðurs og vesturs þar til komið er á móts við botn Seldals. Þaðan er lína dregin um dalbotninn í Seldalsá. Þaðan er Seldalsá og síðan Öxnadalsá fylgt að upphafspunkti.“
Aðalstefnandi krefst sýknu í gagnsök, en einnig málskostnaðar líkt og í aðalsök.
Gagnstefnandi krefst sýknu í aðalsök af öllum kröfum aðalstefnanda, auk málskostnaðar, en til vara að hver aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Sveitarfélagið Hörgársveit hefur tekið við aðild að málinu. Gerðist það í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna Hörgárbyggðar og Arnarnesshrepps í byrjun árs 2010.
I.
1. Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls. Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd. Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri hlutann. Var það svæði nefnt „vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A)“. Svæðið var afmarkað þannig: Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar sem hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa. Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar að austan. Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungskvísl. Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd. Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.
Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd gagnstefnanda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði, þ.e. á sunnanverðu Mið-Norðurlandi, svæði 7A, bárust óbyggðanefnd 14. mars 2008. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum gagnstefnanda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. mars 2008, en einnig 30. júní 2008, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Í apríl 2008 barst óbyggðanefnd leiðrétting fjármálaráðherra á þeirri afmörkun umfjöllunarsvæðis sem fram kom í kröfulýsingunni 14. mars, en þjóðlendukröfusvæðið stóð óbreytt. Tilkynning um hina leiðréttu afmörkun var birt í Lögbirtingablaðinu 30. apríl 2008 og var þá skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 30. júní 2008. Kom jafnframt fram að yfirlýsingu um kröfugerð og málsmeðferð yrði þinglýst á þær fasteignir á svæðinu sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Samkvæmt gögnum voru kröfur fjármálaráðherra gerðar aðgengilegar almenningi á skrifstofum sýslumanna Norðanlands, auk sveitarfélaga á kröfusvæðum og á heimasíðu óbyggðanefndar. Jafnframt var málið kynnt í fjölmiðlum.
Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt. Lögboðin kynning fór fram með því að yfirlit og uppdrátturinn lágu frammi á skrifstofum fyrrnefndra sýslumanna frá 18. júlí til og með 18. ágúst 2008, sbr. 12. gr. laga nr. 58, 1998, og var athugasemdafrestur veittur til 25. ágúst s.á. Engar athugasemdir bárust fyrir lok athugasemdafrests.
Fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins lagði fram kröfulýsingar um þjóðlendur á svæðinu í tveimur hlutum og þrjár kröfulýsingar vegna jarðeigna ríkisins. Á móti bárust 107 kröfulýsingar ýmissa aðila.
Lýstu þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins var skipt í fimm mál, þ.e. 1-5/2008.
Mál nr. 3/2008 er takmarkað við Hörgárbyggð, nú Hörgársveit, austan Öxnadalsár. Var það mál fyrst tekið fyrir af óbyggðanefnd, sem skipuð var Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Benedikt Bogasyni, þáverandi héraðsdómara, og Huldu Árnadóttur héraðsdómslögmanni, og forsvarsmönnum aðila 25. ágúst 2008. Voru þá gögn lögð fram og línur lagðar um málsmeðferð. Við aðra fyrirtekt málsins 31. ágúst sama ár var vettvangur í Öxnadal skoðaður, en jafnframt lögð fram ný gögn af hálfu óbyggðanefndar. Að auki var þá af hálfu gagnstefnanda, íslenska ríkisins, lögð fram greinargerð, dagsett 27. ágúst, þar sem meðal annars var lýst breyttum þjóðlendukröfum í málinu. Fólu breytingarnar í sér aukningu á þjóðlendukröfum innan kröfusvæða Vaskárdals, Almennings og Bakkasels. Málið var enn tekið fyrir 16. september, 13. október og 10. nóvember sama ár, en svokölluð aðalmeðferð hjá óbyggðanefnd fór fram 2. desember 2008 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi og það tekið til úrskurðar. Málsmeðferðin var endurupptekin 5. júní 2009 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju. Hinn 19. júní 2009 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Almenningur, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að svæðið væri í afréttareign aðalstefnanda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og hér að framan var lýst. Í úrskurðinum var miðað við það landsvæði sem vísað var til í kröfugerð gagnstefnanda, íslenska ríkisins, frá 14. mars 2008, en hafnað kröfu hans sem tók til þess hluta landsins sem fyrst var lýst í greinargerð 27. ágúst sama ár og var það niðurstaða nefndarinnar að það teldist ekki þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.
Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu 21. júlí 2009.
Málsaðilar undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefjast ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu og gagnstefnu.
Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir gagnstefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna.
Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 15. október 2010.
2. Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 3/2008, er samkvæmt framansögðu m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu Almennings í Fram-Öxnadal.
Almenningur tilheyrði áður Öxnadalshreppi. Hreppurinn sameinaðist um síðustu aldamót Glæsibæjarhreppi og Skriðuhreppi og nefndist hið sameinaða sveitarfélag Sveitarfélagið Hörgárbyggð. Hörgárbyggð sameinaðist á árinu 2010 Arnarnesshreppi og tilheyrir Almenningur nú hinu nýja sveitarfélagi, Hörgársveit, aðalstefnanda máls þessa.
3. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum í úrskurði óbyggðanefndar. Einnig verður vikið að öðrum gögnum sem aðilar lögðu fram eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.
Úrskurður óbyggðanefndar skiptist í sjö kafla og er 66 blaðsíður. Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun svo og þeim sjónarmiðum sem aðilar byggja á. Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi og afmörkun, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins. Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir, en að lokum eru úrskurðarorð. Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004. Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum.
4. Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum gögnum segir að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Sturlubók Landnámu, en þar segir m.a. frá því að Helgi hinn magri hafi numið allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness (Gjögurtá). Reisti hann bú sitt í Kristnesi.
Samkvæmt Landnámu námu tveir menn Öxnadal. Hét annar Þórir þursasprengir. Nam hann Öxnadal allan og bjó á Vatnsá, en samkvæmt munnmælum er um að ræða býlið Hraun, en það nafn kemur fyrst fyrir á 14. öld. Hinn landneminn hét Auðólfur og eignaði hann sér dalinn niður frá Þverá til Bægisár. Hann átti Þórhildi, dóttur Helga magra.
5. Það landsvæði sem hér er til umfjöllunar ber heitið Almenningur. Í heimildum er Almenningur ýmist talinn einn af afdölum í austurhluta Öxnadals eða hann ásamt Seldal talinn fremsti hluti dalsins. Í dalsbotni og þar ofan eru upptök Öxnadalsár, en áin ber í sér söfn margra fallvatna, allt frá lækjum og uppsprettulindum að fossbrotnum gljúfurám. Áin nefnist á þessum slóðum Seldalsá og skiptir hún afréttarmörkum. Vestan ár er Seldalur, en austan ár er nefndur Almenningur og eru þeir kenndir við samnefnd fjöll. Aðrir afdalir í austurhluta Öxnadals eru Þverárdalur/Hóladalur og Bægisárdalur og tengjast þeir samnefndum býlum. Þá er skammt norðan Almennings í austurhluta Öxnadals þverdalur, sem skiptist í þrjá fjalladali eða dalskorur, en innstur þeirra er Vaskárdalur. Milli nefnds þverdals og Almennings er Almenningsfjall, en nyrsti hluti þess nefnist Sveigur, sem er hátt klettafjall ógengt og bungar fram.
Um Almenning segir í úrskurði óbyggðanefndar:
„Landsvæði það sem hér um ræðir hefur leguna norður – suður og liggur í yfir 400 m hæð. Rennur Seldalsá að austanverðu og hallar landi skarpt upp til vesturs í yfir 1000 m hæð. Að vestanverðu er Kaldbaksdalur og hallar landi skarpt upp til austurs. Nyrst á fjallinu milli Seldals og Kaldbaksdals liggur Kaldbakshnjúkur 1071 m. Inn af Seldal liggja Þorbjarnartungur. Upp af dalnum er land hallalítið með fönnum á stöku stað.“
Í sýslu- og sóknalýsingu Eyjafjarðarsýslu frá 1839, um Bakkasókn, sem talin er rituð af Kristjáni Þorsteinssyni, presti á Bægisá, segir um landsvæðið fremst í Öxnadal, austan ár:
„Almenningur, liggur fram af sjálfri sveitinni Öxnadalnum, en mjög svo í sveig næstum til hásuðurs og liggur lítið hærra en sveitin. Að austanverðu við hann er Almenningsfjallið og að vestanverðu Seldalsfjallið, enda er dalur þessi þeim megin oftast Seldalur nefndur. – Þessi dalur er býsna langur, svo drag hans er nálægt dragi Hvassafellsdals, sem gengur til suðvesturs úr Eyjafirði.“
Fremsta hluta Öxnadals er einnig lýst í bréfi sýslumannsins í Eyjafirði, þann 1. apríl 1979. Tilefnið var fyrirspurn um afrétti í Öxnadal, og þar á meðal um mörk afréttarsvæða við áðurnefndan þverdal, sem Vaská rennur um, og Almennings. Í bréfinu segir m.a.:
„Hér er enginn vafi á afréttarmörkum. Rauðskriðuáin í austri, Vaská að norðan, Öxnadalsá að vestan frá ármótum Vasksár að Nautá, skiptir þar um nafn og heitir síðan Seldalsá. Hún skiptir afréttarmörkum Seldals og Almenning allt til dalbotnsins. Þess ber að géta, stutt neðan við dalbotninn skiptist Seldalsáin í tvær kvíslar. Vestari kvíslin liggur til suðurs, en hin til suðausturs. Landið milli kvíslanna heitir Þorbjarnartungur og tilheira Almenningi. Austurmörk framar Rauðskriðudals, takmarkast af Almenningsfjalli. Hér er besta og landstærsta afréttarlandið í Öxnadal. Ítala 600 fullornar kindur og 15 hross. Rauðskriðudalur ílla gróinn að vestanverðu og lélegasta beitilandið. Landið frá Almenningsöxl að Rauðskriðuá heitir Rauðskriðukinnar, þær eru sundurskornar af giljum. Sæmilega vel grónar en mikið ber á lyngi. Annað af landinu einkennist af þurrum skriðuhriggjum og valllendisgrundum. Ákjósanlegur sauðgróður. Allt er landið þurt, utan smá flói á móti Bakkaseli.“
6. Í gögnum, ekki síst þeim er stafa frá Þjóðskjalasafni Íslands, en til þeirra er m.a. vísað í úrskurði óbyggðanefndar, eru að nokkru raktar heimildir um Almenning. Aðilar vísa í málatilbúnaði sínum ítrekað til þessara gagna og verður þeirra getið hér á eftir.
Í gögnum Þjóðskjalasafns er greint frá bréfi frá 1375 þar sem vikið er að Vaská, en einnig eftir atvikum Vaskárdal og Almenningi. Í bréfi þessu er því lýst að munkar í Munkaþverárklaustri í Eyjafirði hafi samþykkt:
„… vegna þröngvandi nauðsynjar sölu Árna ábóta, á þeim hluta Skriðulands í Öxnadal sem Gróa Oddssdóttir hafði gefið með sér í próventu, til Guðmundar Sigurðssonar. Salan á hálfu Skriðulandi fór svo fram 19. maí 1375 en jörðinni fylgdi:
[...] lambarekstr ok gielldfiaar framm j almenningh ifer vaskaa.“
Þá er í gögnum Þjóðskjalasafns getið um kaupbréf frá árinu 1568, gerðu á kirkjujörðinni Bakka, vestan Öxnadalsár, sem varðar jörðina Þverbrekku, en þar segir að jörðin eigi m.a.: „fiordung j almenninge“.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 segir að nær allar jarðir í Öxnadal nýti Almenning til uppreksturs og eru í því sambandi nefnd býlin Neðstaland, Efstalandskot, Miðland, Steinsstaðir, Þverá, Fagranes, Hólar, Engimýri, Geirhildargarðar, Gloppa, Skriða (Neðri-Lönguhlíð), og Syðri-Bægisá. Segir þar nánar:
„Upprekstur, sem nefndur er frá sjerhverjum bæ í öllum Yxnadal (að frátekinni Þverbrekku, sem sjálf þar ítak á), á Almenníng fyrir lömb, hann liggur framm af bygðinni fyrir austan Yxnadalsá, hvörs pláss drög liggja til Eyjafjarðar.
Grasatekja er á fyrnefndum Almenníngi, fáeinum bæjum tilnægilegra þarfinda, kannski iv-um eða v. Ómögulegt væri hjer bygð að setja, þótt engin fólksfæða væri, án sveitarinnar skaða og landsins sjálfs ófrjóðsemi.“
Í nefndum gögnum er greint frá því að þann 13. júní 1794 hafi Jón Jakobsson sýslumaður sett manntalsþing að Skriðu í Hörgárdal. Kom þar eftirfarandi fram um notkun afrétta í Skriðuhreppi hinum forna, en Öxnadalur tilheyrði þá hreppnum:
„Vidara kom til Trakteringar, hvorjar afretter framveiges brúkast skulu, i þessum Hrepp, og verdur þad eftir Sidveniu Öxnadalsheide, almenningr og Þverárdalur med Vaskárdal, fyrer Öxndælinga. Enn úr Hörgardal, Hörgárdalur, Flögudalur og Mirkardalur. Þá og so Sveigurinn og Barkárdalur hafa vered her gamlar afretter.“
Í áðurnefndri sóknalýsingu Eyjafjarðarsýslu um Bakkasókn frá 1839 segir um landsvæðin fremst í Öxnadal, austan ár:
„Fram frá Gloppu liggur fjallið enn nú, allt fram að svokölluðum Gloppukinnum, sem liggja til suðausturs allt fram að svokölluðum Melrakkadal, sem er lítill afdalur og liggur rétt í austur. Þessar straxnefndu Gloppukinnar brúkast fyrir afréttarland og grasatekju. Þar sem þessar Kinnar taka enda, tekur Vaskárdalur við, sem liggur í landsuður. Þá tekur við svokallaður Almenningur að austanverðu við Yxnadalsá, en að vestanverðu Seldalur. Allt eru þetta afréttarlönd, almennt brúkuð bæði úr sjálfum Öxnadal, Þelamörk, og innan úr Kráklingahlíð, [Kræklinga-].“
Í gögnum frá miðri 18. öldinni, þ. á m. lögfestum frá 1841 og jarðamati 1849, en einnig í heimild um árlegt manntalsþing Skriðuhrepps frá árinu 1808, er vikið að upprekstri jarða vestan Öxnadalsár, þ. á m. býlanna Varmavatnshóla, Bessahlaða, Háls, Hrauns, Auðna, Hraunshöfða og Skjaldarstaða, svo og kirkjujörðinni Bakka. Í jarðamötum frá 1849 og 1916 er áréttað að býlið Þverbrekka eigi 1/6 part úr afréttinum Almenningi fyrir austan Öxnadalsá.
Í þessu vottorði sem oddviti Skriðuhrepps, Júlíusar Hallgrímssonar, ritaði 16. maí 1883 er vakin athygli á því að partur á Öxnadalsheiði austan Grjótár sé einnig kallaður Almenningur, líkt og Almenningur við Öxnadalsá/Seldalsá fremst í Öxnadal. Staðhæfir oddvitinn að jarðir austan Öxnadalsár eigi frían upprekstur í hinum síðarnefnda Almenningi, en þar um vísar hann til landamerkjabréfa, sem gerð voru á árunum 1883 til 1891, en einnig nefnir hann í því sambandi Jarðabókina frá 1712. Nefnir hann í þessu viðfangi jarðirnar Syðri-Bægisá, Neðstaland, Miðland, Efstaland, Efstalandskot, Steinsstaði, Hóla, Geirhildargarða, Varmavatnshóla, Bessahlaðir og Þverbrekku. Fyrir liggur að þrjár síðastnefndu jarðirnar eiga land vestan Öxnadalsár. Þá áréttar oddvitinn að Þverbrekka eigi samkvæmt heimildum ítök að hluta í þessum Almenningi, en auk þess eigi býlið Skriða í Hörgárdal þar frían upprekstur.
Stjórnarráð Íslands sendi öllum sýslumönnum landsins bréf, dagsett 29. desember 1919, en þar var þeim tilkynnt að vegna þingsályktunar um rétt ríkisins til vatnsorku í „almenningum“, frá 27. september s.á., bæri þeim að skila skýrslu við fyrsta tækifæri um svæði í sýslum þeirra, sem teldust vera „almenningar“ og um „afréttarlönd“ sem ekki sannanlega hefðu tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli. Í svarbréfi Júlíusar Havsteen, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, dagsettu 27. september 1920, segir m.a. að hann hafi aflað umsagna hreppstjóra og borið svör þeirra saman við landamerkjabók. Verður ráðið að til grundvallar svarbréfi sýslumanns hafi m.a. verið bréf Stefáns Bergssonar, hreppstjóra í Öxnadalshreppi, sem dagsett er 25. febrúar 1920, en þar segir m.a.:
„Hér í hreppi er einn afréttur sem nefnist almenningur, þar sem ýmsir jarðar umráðendur telja jörðunum fríann uppregstur, en sem sveitarstjórnin hefir nú undir umsjón. Afréttur þessi liggur fram af byggðinni í Öxnadal, eru því upptök Öxnadalsár í almenningsbotni. Áin er vatnslítil í afréttinni og engir teljandi fossar þar. ... Til ath. Hygg að allar afréttir fram af Öxnad. hafi áður fyrr verið almenningar, samanber máldaga fyrir Bægisárkyrkju.“
Í úrskurði óbyggðanefndar segir að nú sé Almenningur austan Seldals og Öxnadalsár nýttur sem upprekstrarland fyrir búfé af jörðum í sveitarfélagi aðalstefnanda.
7. Í úrskurði óbyggðanefndar, í niðurstöðukafla, er vísað til framangreindra heimilda að því er varðar sögu, afmörkun, ráðstöfun á eignarrétti og nýtingu á hinu umþrætta landsvæði, Almenningi í Öxnadal. Er m.a. sagt að ekki liggi fyrir heimildir um byggð í Almenningi og staðhæft að svæðið hafi haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands, sem almennt hafi verið miðað við fram að gildistöku þjóðlendulaga, en hvort að í því hafi falist bein eða óbein eignarréttindi til landsvæðisins, þ.e. hvort þar sé eignarland eða þjóðlenda samkvæmt skilgreiningu 1. gr. þjóðlendulaga, sé hins vegar atriði sem þurfi skoðunar við.
Í niðurstöðukaflanum tekur óbyggðanefnd fyrst til skoðunar hvort kröfur fjármálaráðherra, fyrir hönd gagnstefnanda, íslenska ríkisins, séu tækar til efnislegrar úrlausnar fyrir óbyggðanefnd, að því leyti sem þær breyttust frá því þær voru upphaflega gerðar. Er á það bent að kröfulýsingar íslenska ríkisins um þjóðlendur á vestanverðu Norðurlandi, syðri hluta, hafi borist óbyggðanefnd þann 14. mars 2008, og að þær hafi í framhaldi af því fengið lögboðna kynningu, en þar hafi þjóðlendukröfulínu verið lýst svo:
,,Í Rauðuskriðukinnar í 800 metra hæð. Þaðan er fylgt beinni stefnu í punkt norðantil í Kaldbakshnjúk....“.
Vísað er til þess að íslenska ríkið hafi haft uppi eftirfarandi fyrirvara við greinda lýsingu:
„Sérstakur fyrirvari er gerður vegna einstakra landamerkjalýsinga sem talið er af hálfu íslenska ríkisins að séu í samræmi við þjóðlendukröfulínu, ef í ljós kemur að svo reynist ekki vera.“
Í úrskurðinum er á það bent að í greinargerð fjármálaráðherra, sem hafi borist óbyggðanefnd 27. ágúst 2008, hafi kröfulínu íslenska ríkisins verið breytt og lýst svo:
„Upphafspunktur er á hreppamörkum við merki Gloppu (lokapunktur í máli 2/2008) (1). Þaðan er suðurmerkjum Gloppu fylgt til vesturs að Vaská (2). Þaðan er Vaská fylgt til norðurs að Öxnadalsá (3), sem síðan er fylgt að sýslumörkum.“
Til þess er vísað í úrskurðinum að gagnaðilar íslenska ríkisins á nefndu landsvæði, þ. á m. aðalstefnandi, hafi mótmælt lýstri breytingu á kröfugerðinni og talið hana óheimila þar sem ekki hafi verið hnikað til kröfulínu heldur hafi verið um að ræða stórfellda tilfærslu.
Í úrskurðinum segir óbyggðanefnd um þetta álitaefni:
„Í hinni upphaflegu kröfugerð ríkisins var fylgt beinni línu frá 800 m hæðarpunkti í Rauðuskriðukinnum í 800 m hæðarpunkt norðan til í Kaldbakshnjúk. Í kröfugerðinni eins og hún liggur nú fyrir er Vaská fylgt til norðurs að Öxnadalsá sem síðan er fylgt að sýslumörkum Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðarsýslu. Kröfulínan færist því norðar með þeim afleiðingum að nyrsti og láglendasti hluti kröfusvæðis Almennings fellur nú innan þjóðlendukröfusvæðis en féll utan þess áður, bæði samkvæmt texta kröfugerðar og framlögðu kröfulínukorti. Sú kröfulýsing sem first birtist í greinargerð íslenska ríkisins 27. ágúst 2008 verður því ekki talin rúmast innan texta hinnar upphaflegu kröfulýsingar þar sem línan er dregin beina stefnu milli 800 m hæðarpunkta í Rauðuskriðukinnum og Kaldbakshnjúki.“
„Almennur fyrirvari íslenska ríkisins „vegna einstakra landamerkjalýsinga sem talið er […] að séu í samræmi við þjóðlendukröfulínu, ef í ljós kemur að svo reynist ekki vera“ nægir hér engan veginn til að fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, geti komið að auknum og breyttum þjóðlendukröfum innan kröfusvæðis Vaskárdals.
Samkvæmt framangreindu hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir þeim málatilbúnaði íslenska ríkisins að umrædd breyting rúmist innan upphaflegrar kröfugerðar, enda þótt tekið sé tillit til fyrirvara við hana. Ljóst er einnig að afmörkun gagnaðila ríkisins á Almenningi í heild sinni, innan og utan upphaflegs þjóðlendukröfusvæðis, kom m.a. fram við opinbera kynningu á heildarkröfum á svæði 7 suður, sbr. 12. gr. laga nr. 58/1998,..... Af hálfu íslenska ríkisins var þó ekki látið reyna á ákvæði lokamálsliðar 12. gr. af því tilefni, að gættum þeim skilyrðum sem þar koma fram.
Sú málsmeðferð sem lög nr. 58/1998 mæla fyrir um hefði ekki tilætlaða þýðingu ef íslenska ríkið gæti aukið við kröfur sínar og sett þær fram á allt öðrum grundvelli, eftir að lokið er lögboðinni kynningu ásamt athugasemdafresti og gegn mótmælum gagnaðila. Jafnframt liggur fyrir sú skýra afstaða dómstóla að óbyggðanefnd sé bundin af kröfugerð aðila, hvort heldur er íslenska ríkisins eða annarra, og verði að leysa úr máli á þeim grundvelli, sbr. kafla 8.1.1 í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Afstaða óbyggðanefndar til eignarréttarlegrar stöðu landsvæða sem falla utan við lögformlega kröfugerð fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, kemur því ekki til álita.
Niðurstaðan er því sú að í máli þessu koma ekki til úrlausnar þjóðlendukröfur umfram þá kröfugerð sem barst 14. mars 2008, þ.e. norðan línu sem dregin er í Rauðuskriðukinnar í 800 m hæð og þaðan beina stefnu í 800 m hæðarpunkt norðan til í Kaldbakshnjúk.“
Það var niðurstaða óbyggðanefndar að hið sama gilti um landsvæðið norðan Almennings. Var þar því einnig miðað við hina fyrri kröfugerð gagnstefnanda og þá þannig að miðað skyldi við línu í 800 m hæð úr botni Gloppugils suður í botn Vaskárdals og þaðan í nefndar Rauðuskriðukinnar í 800 m hæð og loks í beina stefnu í fyrrnefndan punkt norðan til í Kaldbakshnjúk.
Að ofangreindri niðurstöðu fenginni er í niðurstöðukafla úrskurðarins fjallað um hvað ráðið verði af heimildum um afmörkun Almennings til vesturs, austurs og suðurs, að því leyti sem þau svæði snerta ágreiningssvæði málsins. Er þar um litið til gagna um merki aðliggjandi landsvæða, og sagt að ekki hafi fundist landamerkjabréf eða aðrar sjálfstæðar merkjalýsingar fyrir Almenning. Þá er á það bent að í raun sé ekki ágreiningur með aðilum um afmörkun landsvæðisins. Í úrskurðinum segir að með hliðsjón af landamerkjabréfi Bakkasels frá 18. mars 1889, þar sem mörk selsins eru sögð ná austur að Öxnadalsá og þar sem það nafn sé gjarnan notað um Seldalsá, renni það stoðum undir að áin renni á vesturmörkum Almennings. Bent er á að ekki liggi fyrir landamerki fyrir Vaskárdal, en að í afsali fyrir dalinn frá 1980 sé mörkum hans lýst þannig að Melrakkaá og Rauðuskriðuá ráði að vestan og Rauðuskriðufjall að sunnan. Sé þetta í samræmi við afmörkun aðalstefnanda á Almenningi til austurs. Þá segir að mörk Almennings til suðurs nái allt að sveitarfélagamörkum milli Hörgársveitar og Eyjafjarðarsveitar og að það sæki stoð í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, sbr.: „… hann liggur framm af byggðinni fyrir austan Yxnadalsá, hvörs pláss drög liggja til Eyjafjarðar“. Að virtum nefndum gögnum er það niðurstaða óbyggðanefndar að mörkum Almennings sé rétt lýst af aðilum.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu víkur óbyggðanefnd í úrskurði sínum m.a. að landnámi í Hörgárdal og Öxnadal, en í framhaldi af því fjallar hún um eignarréttarlega stöðu Almennings með svofelldum orðum:
„Af frásögnum Landnámu verður ekki ráðið hversu langt upp til fjalla og inn til landsins landnám á þessu svæði náði, ... Verða því engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að nyrðri hluti þessa landsvæðis hafi verið numinn en vafi um þetta atriði hlýtur að vaxa eftir því sem sunnar dregur og land hækkar. Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Þannig kann beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfarið tekið til takmarkaðra nota annarra. Þess skal einnig getið að á þeim landsvæðum sem nærri Almenningi liggja eru bæði eignarlönd og þjóðlendur, sé litið heildstætt á niðurstöður í máli nr. 2 3/2008 og afmörkun þjóðlendukrafna íslenska ríkisins á svæði 7 hjá óbyggðanefnd.“
Í úrskurðinum segir í framhaldi af þessu að í heimildum um Almenning sé hans getið í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Er að því leyti vísað til þess sem áður sagði í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 um að býli í Öxnadal eigi upprekstur fyrir lömb á Almenningi, en í því samhengi er vísað til áðurrakinna orða um svæðið: „Ómögulegt væri hjer bygð að setja, þótt engin fólksfæða væri, án sveitarinnar skaða og landsins sjálfs ófrjóðsemi.“ Í úrskurðinum er bent á að samkvæmt áðurröktum heimildum eigi jarðirnar Skriða í Hörgárdal og Bægisá í Glæsibæjarhreppi einnig upprekstrarrétt á Almenningi, en að jörðin Þverbrekka eigi þar aftur á móti ítak. Loks er á það bent að árið 1910 hafi hinum forna Skriðuhreppi verið skipt upp í samnefndan hrepp og Öxnadalshrepp. Þá segir í úrskurðinum:
„Af framangreindu verður ráðið að búfjáreigendur í Öxnadal og víðar á því svæði sem nú tilheyrir Hörgárbyggð hafi haft af landsvæðinu hefðbundin afréttarnot, undir umsjón hreppsins, á sama hátt og gildir um samnotaafrétti almennt. Ekki verður annað séð en að fyrirkomulag leita hafi verið ágreinings- og athugasemdalaust. Óbyggðanefnd telur framangreint benda til þess að Almenningur hafi verið afréttur í þeim skilningi að þar hafi menn átt óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.
Í máli þessu er þannig ekki sýnt fram á annað en að réttur til umrædds svæðis hafi orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.
Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að Almenningur sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að landsvæðið hafi verið afréttur jarða sem nú tilheyra Hörgárbyggð.
Hörgárbyggð hefur í máli þessu gert þá varakröfu að viðurkenndur verði fullkominn afnotaréttur í þjóðlendu, að öllum venjubundnum afnotum, að fornu og nýju, teljist einhver hluti landsins þjóðlenda. Eins og venja er í þessum málum verður kröfugerðin skilin þannig að þessi krafa sé höfð uppi vegna jarða í sveitarfélaginu. Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hefur verið fjallað um eru misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taka þó breytingum auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld. Land það sem hér er til umfjöllunar verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði [...] sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggja fyrir um að landsvæði þetta hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu.
Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að það landsvæði sem nefnt er Almenningur ... teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.“
II.
Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsök.
Aðalkröfu sína byggir aðalstefnandi, Hörgársveit, á því að umrætt landsvæði, Almenningur, eins og því er lýst hér að framan, sé háð eignarrétti eða sé eign þeirra, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62, 1994.
Aðalkröfu sína styður aðalstefnandi jafnframt neðangreindum rökum:
Í fyrsta lagi byggir aðalstefnandi á því að það landsvæði sem afmarkað er í aðalkröfu hafi frá öndverðu verið numið og hafi sá eignarréttur ekki fallið niður síðan og því sé hið umdeilda land háð eignarrétti þeirra. Þessu til stuðnings vísar hann til Landnámu er lýsi landnámi Þóris þursasprengis og Auðólfs í Öxnadal og bendir á að oft hafi Landnáma verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands, en sömu niðurstöðu sé að finna í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar í fyrri úrskurðum. Byggir aðalstefnandi og á því að allt land Almennings hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti, enda fari landnámsheimildir ekki í bága við landamerkjalýsingu svæðisins.
Í öðru lagi byggir aðalstefnandi á því að Almenningur hafi stöðu jarðar og þrátt fyrir að hann geti ekki stutt kröfu sína með landamerkjabréfi þá styðjist krafa hans við landamerkjabréf aðliggjandi jarða. Þá fari eldri heimildir ekki gegn kröfu hans en þar um vísar hann máli sínu til stuðnings til dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004 þar sem talið hafi verið að það skipti máli hvort land teldist innan upphaflegra landnáma og hvort farið hefði verið með landið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum.
Í þriðja lagi byggir aðalstefnandi á því að hann hafi farið með ráðstöfun á öllum þeim heimildum/réttindum sem fylgja þeirri eign sem umrætt landsvæði er, en þar á meðal sé beitarréttur nokkurra jarða í Öxnadal, sem hafi haft til þess rétt, líkt og fjallað hafi verið um í úrskurði óbyggðanefndar. Þá hafi skattar og önnur lögboðin gjöld verið greidd af öllu landinu.
Aðalstefnandi vísa til þess að eignarréttur hans hafi verið virtur af öllum frá ómunatíð, þar á meðal af gagnstefnanda, íslenska ríkinu, sem m.a. hafi lýst sér í því að hann hafi getað bannað öðrum not eignarinnar. Eignarréttur hans hafi og verið virtur í öllum viðskiptum, en af þeim sökum sé eignarhald hans einnig byggt á viðskiptavenju.
Í fjórða lagi byggir aðalstefnandi á því að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt landsvæði sé undirorpið eignarrétti í skilningi fyrrnefndrar 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, en fullur hefðartími sé liðinn frá því hann tók að nytja landið. Áréttar aðalstefnandi að öll afnot og nytjar landsins séu háðar leyfi landeigenda, enda hafi enginn notað landið með nokkrum hætti nema eigendurnir. Sjónarmiði óbyggðanefndar þess efnis að flokka hefð með lögum sem frumstofn eignarréttar hafi ekki verið breytt af Hæstarétti. Um þetta vísar aðalstefnandi nánar til dóma Hæstaréttar, m.a. frá árinu 1997, bls. 2792, og frá árinu 1999, bls. 28, þar sem eignarhefð hafi verið viðurkennd. Enn fremur vísar hann til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) frá 9. desember 1994, series A 301 – A, og skrifa fræðimanna um eignarhefð og venjurétt.
Í fimmta lagi vísar aðalstefnandi til þess að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign/eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstóli Evrópu. Bendir hann á að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmálann hafi verið túlkað af dómstólum á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu. Með sjálfstæðri merkingu sé átt við mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar áðurnefndrar 1. gr. og þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis sem í hlut eigi. Skortur á slíkri vernd í landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum um hvort um eign sé að ræða í skilningi nefndrar 1. gr. Bendir aðalstefnandi á að um eign í skilningi ákvæðisins geti verið að ræða þótt dómstólar aðildarríkis hafi ekki talið svo vera samkvæmt innanlandsrétti. Þá byggir hann einnig á þeim sjónarmiðum sem Mannréttindadómstóllinn hafi lagt til grundvallar um lögmætar væntingar einstaklinga eða lögaðila til að njóta eigna sinna, sbr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu, en þau séu byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi, sem sé tengdur við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll.
Aðalstefnandi bendir á að verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem hann hafi teflt fram í málinu séu fullnægjandi, sé verið að mismuna eigendum jarða með því að gera aðrar kröfur til hans um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi. Slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar að áliti aðalstefnanda.
Með vísan til alls þessa telur aðalstefnandi að óbyggðanefnd hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og ekki beitt lögum um réttarágreining með réttum hætti. Með úrskurði sínum hafi nefndin auk þess brotið verndaðan rétt hans samkvæmt 1. gr. samningsviðauka nr. 1, sbr. 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Beri því að ógilda úrskurðinn.
Aðalstefnandi byggir á því að hann hafi sannað með málatilbúnaði sínum beinan eignarrétt sinn að umræddu landi, en íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að það hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrána eignast landið. Þvert á móti styðji öll gögn málsins eignartilkall hans.
Aðalstefnandi gerir í málarekstri sínum og málflutningi auk ofangreindra málsástæðna ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar og þar með röksemdir gagnstefnanda. Falla þær í meginatriðum saman við áðurraktar málsástæður og lagarök hans. Telur aðalstefnandi m.a. að sú ríka sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á hann með því að krefjast sannana um framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar né heldur Mannréttindasáttmála Evrópu, en að auki sé málatilbúnaður gagnstefnanda í andstöðu við tilgang löggjafans, sbr. að því leyti 1. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.
Aðalstefnandi áréttar að umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu og að það sé því gagnstefnanda að sýna fram á að beinn eignarréttur hafi fallið niður á síðari tímum. Hann áréttar að landsvæðið sé háð einkanýtingarrétti hans og því hafi óbyggðanefnd átt að taka til úrlausnar þýðingu hefðar.
Aðalstefnandi byggir varakröfu sína á sömu sjónarmiðum og fram koma í aðalkröfu hans.
Um lagarök vísar aðalstefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr., til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefðar, réttarvenju og tómlætis, en að auki til þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis borgaranna. Þá vísar hann til Mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans og til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, að því er varðar varnarþing og málskostnað.
Málsástæður og lagarök gagnstefnanda, íslenska ríkisins, í gagnsök og aðalsök.
Af hálfu gagnstefnanda er á því byggt að umþrætt landsvæði, Almenningur í Öxnadal, sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 58, 1998. Byggir hann á að fullljóst sé af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Að mati gagnstefnanda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á aðalstefnanda, að sýna fram á tilvist eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.
Gagnstefnandi byggir á því að engar heimildir liggi fyrir sem styðji að Almenningur hafi nokkru sinni haft stöðu jarðar að lögum. Hann byggir og á því að umþrætt landsvæði, Almenningur, sé utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.
Gagnstefnandi bendir á að óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn í málinu á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Þá sé niðurstaða nefndarinnar byggð á kerfisbundinni rannsókn á fjölda gagna, sem fram hafi komið við gagnaöflun nefndarinnar eða verið lögð fram af málsaðilum. Að auki hafi nefndin byggt á skýrslum, sem gefnar hafi verið við meðferð málsins. Hafi það verið ótvíræð niðurstaða óbyggðanefndar, að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hefði landsvæði það sem um er deilt í málinu talist til afréttar, sbr. þá eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma. Gagnstefnandi gerir niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu í aðalsök, auk þeirra málsástæðna sem hér á eftir verða raktar. Gagnstefnandi bendir aftur á móti á að óbyggðanefnd hafi úrskurðað að hluti Almennings sé eignarland og sé deilt um þann hluta svæðisins í gagnsök.
Gagnstefnandi vísar til áðurrakinna heimilda og byggir á því að þær bendi eindregið til þess að Almenningur sé afréttarland og hafi aldrei haft stöðu jarðar að lögum. Af þessum sökum sé um að ræða landsvæði sem sé þjóðlenda samkvæmt 1. mgr. laga nr. 58, 1988.
Gagnstefnandi vísar til þess að í úrskurði sínum hafi óbyggðanefnd hafnað því að taka hluta af þjóðlendukröfum hans til efnislegrar meðferðar þar sem kröfur hans hafi komið of seint fram. Gagnstefnandi bendir á að hann hafi upphaflega lýst þjóðlendukröfum á svæðinu með bréfi til óbyggðanefndar, dagsettu 14. mars 2008, en þar hafi kröfum, að því er varðar ágreiningssvæði máls þessa, verið lýst svo: „Í Rauðuskriðukinnar í 800 metra hæð. Þaðan er fylgt beinni stefnu í punkt norðan til í Kaldbakshnjúk (800 metra hæðarpunkt)“. Um rök fyrir nefndri kröfulínu vísar gagnstefnandi til þess að hann hafi upphaflega lýst þjóðlendukröfum sínum á umræddu svæði í máli nr. 3/2008, Hörgárbyggð austan Öxnadals, til óbyggðanefndar, þann 14. mars 2008, en þá jafnframt sagt að hún væri í samræmi við merkjalýsingu Gloppu í Öxnadal. Gagnstefnandi bendir á að hann hafi gert eftirfarandi fyrirvara við kröfugerðina: „Sérstakur fyrirvari er gerður vegna einstakra landamerkjalýsinga sem talið er af hálfu íslenska ríkisins að séu í samræmi við þjóðlendukröfulínu, ef í ljós kemur að svo reynist ekki vera.“
Gagnstefnandi bendir á að hann hafi breytt kröfugerð sinni í greinargerð til óbyggðanefndar, þann 27. ágúst 2008, líkt og lýst sé í úrskurði nefndarinnar, en að nefndin hafi hafnað henni sem of seint fram kominni.
Gagnstefnandi bendir á að hin endanlega kröfulína hans, sbr. dómkröfur hans í máli þessu, um viðurkenningu á þjóðlendumörkum að því er varðar Almenning, sé í samræmi við þá kröfu sem hann hefði gert hjá óbyggðanefnd með nefndri greinargerð frá 27. ágúst 2008. Óbyggðanefnd hafi hafnað því að taka kröfu hans til efnislegrar meðferðar að því leyti sem hún hafi aukist frá þeirri kröfu sem hann hafði áður lýst þann 14. mars 2008. Hafi niðurstaða nefndarinnar því í reynd verið sú að hafna kröfunni.
Gagnstefnandi byggir á því að óbyggðanefnd hafi borið að taka ofangreinda kröfu hans til efnislegrar meðferðar og fallast á hana. Í öllu falli sé dómkrafa hans tæk til meðferðar og dómsálagningar fyrir dómi. Byggir gagnstefnandi á því að í samræmi við fyrrgreindan fyrirvara hafi honum verið heimilt að koma að umræddri leiðréttingu á kröfulínu með greinargerðinni frá 27. ágúst 2008. Í því sambandi áréttar hann að strax og kröfugerðin þann 14. mars 2008 kom fram, hafi verið tiltekið að kröfulínunni hafi verið ætlað að fylgja merkjum Gloppu. Hafi landamerkjabréf Gloppu þá legið fyrir á meðal málsgagna hjá óbyggðanefnd. Sú breyting sem gerð hafi verið síðar á kröfunni og lýst var í greinargerðinni frá 27. ágúst 2008 hafi miðað við að færa línuna til samræmis við merki Gloppu. Bendir gagnstefnandi á að þegar hinar auknu kröfur hafi komið fram hafi málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd verið fremur skammt á veg komin. Þá hafi aðalstefnandi verið sá eini, sem gert hafi kröfur á hendur íslenska ríkinu fyrir óbyggðanefnd vegna Almennings, en það hafi hann gert áður en hinum auknu þjóðlendukröfum var lýst, en þær hafi einungis náð til svæðis, sem aðalstefnandi hafði þegar lýst kröfum til. Og eftir að greinargerð íslenska ríkisins með hinum auknu kröfum lá fyrir, þ.e. við aðra fyrirtöku málsins fyrir óbyggðanefnd þann 31. ágúst og 1. september 2008, hafi verið gengið á vettvang. Við fjórðu fyrirtöku málsins hjá óbyggðanefnd, þann 13. október s.á., hafi verið lögð fram greinargerð af hálfu aðalstefnanda. Aðalmeðferð með munnlegum málflutningi og skýrslutökum hafi síðan farið fram þann 2. desember 2008. Gagnstefnandi byggir á því að þegar horft sé til þess að hinar auknu kröfur komu fram á undan vettvangsferð og aðalmeðferð og áður en aðalstefnandi skilaði greinargerð sinni fyrir óbyggðanefnd, verði með engu móti séð að það hafi valdið honum réttarspjöllum að kröfunni hafi ekki verið lýst fyrr. Hafi möguleikar aðalstefnanda á að hafa uppi varnir eða koma að andsvörum eða sjónarmiðum vegna fyrrgreindra leiðréttinga því með engu móti verið skertir. Þessu til viðbótar byggir gagnstefnandi á að horfa verði til þess að samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998 beri óbyggðanefnd, þegar kröfulýsing íslenska ríkisins liggi fyrir, að gefa út tilkynningu og láta birta í Lögbirtingablaði, þar sem skorað sé á þá, sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á því svæði sem ríkið gerir kröfu til, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd. Hljóti tilgangurinn með ákvæðinu að vera fyrst og fremst sá, að tryggja að þeim sem kunna að telja til eignarréttinda á umræddu svæði sé gefið færi á að lýsa kröfum til svæðisins. Gagnstefndi áréttar að í máli þessu liggi fyrir að aðalstefnandi sé hinn eini sem kalli til eignarréttinda á áðurgreindu svæði, Almenningi, og því sé ljóst að með hinni breyttu kröfugerð sé ekki gengið á fyrrgreindan rétt hans til að telja til eignarréttinda á svæðinu, þ.e. til að koma að sjónarmiðum sínum. Hafi margnefnd leiðrétting því ekki verið í andstöðu við markmið nefndrar lagagreinar hvað það varðar.
Í ljósi ofangreindra atriða byggir gagnstefnandi á því að óbyggðanefnd hafi borið að taka hina breyttu kröfugerð hans til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu og kveða upp úrskurð á grundvelli og með hliðsjón af henni.
Gagnstefnandi vísar til þess að óbyggðanefnd sé stjórnsýslunefnd og að um málsmeðferð fyrir henni gildi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, þ. á m. rannsóknarreglan sem lögfest sé í 10. gr. laganna. Forræði málsaðila á sakarefninu sé því takmörkunum háð. Hann bendir á að tilgangur þjóðlendulaga nr. 58, 1998 sé að koma eigendalausum svæðum undir eignarráð ríkisins. Sú málsmeðferð sem lögin kveða á um miði að því að efnislega rétt niðurstaða fáist. Hann bendir jafnframt á að algengt sé að kröfulínur taki breytingum undir rekstri máls fyrir óbyggðanefnd eftir því sem gagnaöflun vindur fram og í kjölfar vettvangsferða og skýrslutakna af aðilum og vitnum. Þannig kunni málsmeðferðin að leiða í ljós að staðsetning kennileita sé önnur en upphaflega hafi verið talið. Því sé brýnt að málsaðilum sé játað nokkurt svigrúm til breytinga á kröfulínum meðan á málsmeðferð stendur. Eigi það ekki síst við þar sem óbyggðanefnd sé bundin af kröfugerðum málsaðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 571/2006, og máli nr. 367/2005. Þá sé til þess að líta að tilgangurinn með setningu þjóðlendulaga og þeirri málsmeðferð sem þar sé kveðið á um sé fyrst og fremst að skera úr um eignarrétt að landsvæði, þ.e. hvort landsvæði sé innan eða utan eignarlanda, sbr. 1., sbr. 7., gr. laganna. Eðli málsins samkvæmt og í samræmi við fyrrgreind markmið laganna hafi óbyggðanefnd borið að taka efnislega afstöðu til hinnar breyttu kröfugerðar, sbr. dómkröfur gagnstefnanda í máli þessu.
Gagnstefnandi gerir niðurstöður óbyggðanefndar að sínum til stuðnings sýknukröfu í aðalsök. Hann áréttar áðurrakin rök um að hið umdeilda svæði, þ.e. Almenningur, sé svæði utan eignarlanda og vísar þar um til áðurrakinna heimilda um Almenning og staðhæfir að ekkert liggi fyrir sem styðji að það svæði hafi nokkru sinni haft stöðu jarðar að lögum. Nefndar heimildir bendi þvert á móti eindregið til þess að Almenningur sé afréttarland.
Til frekari rökstuðnings byggir gagnstefnandi á að umrætt landsvæði, Almenningur, hafi ekki verið numið í öndverðu. Hvorki Landnáma né aðrar heimildir sýni fram á slíkt nám, en í því sambandi verði að horfa til staðhátta og gróðurfars, en þau atriði styðji ekki að landið hafi verið numið. Bendi gagnstefnandi á að þetta sé til samræmis við þá reglu, sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað, að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. m.a. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 66/1996 (Auðkúluheiði) og nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi henni fram. Byggir gagnstefnandi á að réttur aðalstefnanda til hins umdeilda landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.
Verði á hinn bóginn talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, byggir gagnstefnandi á að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Vísar hann til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru. Um þetta atriði bendir gagnstefnandi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).
Gagnstefnandi byggir á því til vara að verði talið að greint landsvæði kunni að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti að hluta eða öllu leyti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið var tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hefði stofnast í öndverðu yfir landinu þá er á því byggt að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.
Gagnstefnandi staðhæfir að fyrirliggjandi heimildir, eldri sem yngri, sýni ekki fram á frekari nýtingu landsins en til upprekstrar og afréttarnota. Að auki sýni gögn málsins fram á, að fjallskil hafi verið gerð sameiginlega á svæðinu.
Gagnstefnandi andmælir þeim röksemdum aðalstefnanda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði. Segir hann að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu aðalstefnanda. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Gagnstefnandi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um vísar hann m.a. til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda. Áréttar hann að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.
Með vísan til framangreindra atriða þá telur gagnstefnandi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í máli þessu, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, sé röng. Þá bendir hann á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“. Hann segir að engin gögn liggi fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir á því að landsvæðið, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð aðalstefnanda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.
Að öðru leyti mótmælir gagnstefnandi öllum sjónarmiðum og málsástæðum aðalstefnanda, svo sem þeim er lýst í stefnu og greinargerð, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008, auk þess sem byggt er á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar voru fram af hálfu gagnstefnanda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í fyrrnefndum kröfulýsingum hans fyrir nefndinni þann 14. mars og 27. ágúst 2008, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 í fyrrgreindu máli verði staðfestur, að því leyti sem hann varðar ágreiningssvæði þessa máls.
Um lagarök er af hálfu gagnstefnanda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998. Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944. Hann byggir á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905, en vísar einnig til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil. Þá vísar hann til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr.
Málsástæður aðalstefnanda í gagnsök.
Aðalstefnandi hafnar öllum kröfum og röksemdum gagnstefnanda í gagnsök og þá ekki síst þeim er lúta sérstaklega að því að hnekkja beri niðurstöðu óbyggðanefndar, þ. e. að úrskurða ekki allt landsvæði Almennings sem þjóðlendu í samræmi við síðar tilkomna kröfu íslenska ríkisins undir rekstri málsins fyrir óbyggðanefnd.
Aðalstefnandi áréttar að samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins njóti eignarréttur hans á umræddu svæði verndar, sbr. að því leyti áðurgreind ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu og túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á hugtakinu eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1. Einnig vísar hann til áðurrakinna sjónarmiða um lögmætar væntingar.
Þá byggir aðalstefnandi á því að þær landamerkjalýsingar sem fram komi í landamerkjabréfum jarða í Hörgársveit byggist á eldri heimildum, svo sem lögfestum máldögum og eldri landamerkjabréfum. Bendir hann á að með setningu landamerkjalaganna nr. 5, 1882 og síðan 41, 1919 hafi það verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjabréfum jarða og þau skráð og að leyst yrði úr ágreiningi ef hann væri fyrir hendi, sbr. 6. gr.
Aðalstefnandi byggir á því og áréttar að venjuréttur og hefðarsjónarmið eigi í máli þessu að leiða til þess að allt land innan landamerkja jarða teljist til eignarlanda. Bendir hann á að aðliggjandi land, Bakkasel, sem sé sambærilegt að landgæðum og Almenningur, hafi íslenska ríkið selt sem eignarland. Þá byggir hann á því að hefð, venjuréttur og réttmætar væntingar styrki þann rétt sem tiltekinn sé í hinum þinglýstum heimildum enn frekar.
Aðalstefnandi byggir á að í ljósi ofangreindra heimilda hvíli sönnunarbyrðin á gagnstefnanda í máli þessu. Hann andmælir og þeim meginrökum gagnstefnanda að aðeins þau landsvæði sem liggi nærri sjó geti hafa verið numin í öndverðu, en ekki inn til landsins og af þeim sökum séu landamerki jarða í Hörgársveit ólögmæt.
Þá vísar aðalstefnandi máli sínu til stuðnings til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrárinnar um að sambærileg mál hljóti sömu niðurstöðu og að jafnræði ríki milli borgaranna, en í því sambandi bendir hann á að fjallið Kerling í Eyjafirði hafi verið viðurkennt sem eignarland af óbyggðanefnd.
Aðalstefnandi byggir á því að með málsmeðferð sinni og kröfugerð hafi gagnstefnandi, íslenska ríkið, líkt og eignarheimildum sé háttað í máli þessu, farið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, 12. gr., en einnig tilgangi þjóðlendulaganna.
Aðalstefnandi andmælir alfarið röksemdum gagnstefnanda um að óbyggðanefnd hafi borið að taka breyttar kröfur íslenska ríkisins til efnislegrar meðferðar. Hann bendir á að óbyggðanefnd sé bundin af lögum í umfjöllun sinni og þar sem lögum nr. 58, 1998 um þjóðlendur og fleira sleppi taki við lög nr. 91, 1991 um meðferð einkamála varðandi málsmeðferð, m.a. að því er varði kröfugerð og málsforræði. Bendir hann á að Hæstiréttur hafi fjallað um samkynja tilvik í fyrri dómum, sbr. mál nr. 571/2006 og nr. 367/2005. Hann gerir að öðru leyti röksemdir óbyggðanefndar að sínum og þar á meðal að hin síðari kröfugerð gagnstefnanda geti ekki rúmast innan upphaflegrar kröfugerðar hans fyrir óbyggðanefnd og nægi að því leyti ekki hinn almenni fyrirvari sem áður er lýst. Í því samhengi bendir hann á að afmörkun á Almenningi í heild sinni hafi komið fram við opinbera kynningu á heildarkröfum á svæði 7, suður, sbr. 12. gr. laga nr. 58, 1998, en að gagnstefnandi, íslenska ríkið, hafi þó ekki látið reyna á ákvæði lokamálsliðar lagagreinarinnar, að gættum þeim skilyrðum sem þar komi fram.
III.
1. Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.
Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“ Þá er afréttur í lagagreininni skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“
Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar, sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.
Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga, sem kölluð hafa verið þjóðlendulög, segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar. Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum. Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.
Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda. Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.
Eins og hér að framan hefur verið rakið hafa málsaðilar, aðalstefnandi og gagnstefnandi, krafist þess að úrskurðarorð óbyggðanefndar að því er varðar Almenning verði fellt úr gildi.
Gagnstefnandi krefst þess að miðað verði við kröfulínu sem hann kynnti í greinargerð 27. ágúst 2008 fyrir óbyggðanefnd, líkt og nánar segir í kröfugerð hans hér fyrir dómi. Af hálfu aðalstefnanda er þessari breytingu á kröfulínu gagnstefnanda andmælt, en jafnframt krefst hann þess, gegn andmælum gagnstefnanda, að viðurkennt verði að allt landsvæði Almennings sé eignarland hans.
Mál nr. 3/2008 er takmarkað við Hörgárbyggð, nú Hörgársveit, austan Öxnadalsár. Eins og áður hefur verið rakið var málið fyrst tekið fyrir hjá óbyggðanefnd að viðstöddum lögmönnum og forsvarsmönnum aðila þann 25. ágúst 2008. Voru þá gögn lögð fram og línur lagðar um málsmeðferð. Til grundvallar lágu tilkynningar óbyggðanefndar í Lögbirtingablaðinu 28. mars og 30. júní 2008 um meðferð á svæðinu svo og útdráttur úr kröfum gagnstefnanda, íslenska ríkisins, sem borist höfðu nefndinni þann 14. mars sama ár, ásamt uppdrætti, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Í framhaldi af því voru birtar tilkynningar þar sem skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda eða annarra réttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis íslenska ríkisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 30. júní 2008. Kom jafnframt fram að yfirlýsingum um kröfugerð yrði þinglýst á þær fasteignir á svæðinu sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði, sbr. ákvæði þjóðlendulaga nr. 58, 1998, 10. og 12. gr.
Liggur fyrir að samhliða greindum ráðstöfunum voru kröfur gagnstefnanda, íslenska ríkisins, gerðar aðgengilegar almenningi á skrifstofum sýslumanna Norðanlands, auk sveitarfélaga á kröfusvæðum og á heimasíðu óbyggðanefndar. Að auki var málið kynnt í fjölmiðlum. Ágreiningslaust er að ekki var óskað eftir fresti af hálfu málsaðila eða annarra, sbr. heimildarákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.
Við aðra fyrirtekt málsins hjá óbyggðanefnd þann 31. ágúst 2008 var m.a. vettvangur í Öxnadal skoðaður, en jafnframt lagði gagnstefnandi fram greinargerð, dagsetta 27. sama mánaðar, þar sem hann lýsti breyttum kröfum, sem fólu í sér aukningu á þjóðlendukröfum hans. Þýddi það m.a. að Almenningur var allur innan þjóðlendusvæðis, eins og lýst er í dómkröfum gagnstefnanda. Var þessum málatilbúnaði gagnstefnanda andmælt af hálfu aðalstefnanda. Eins og fyrr sagði var málið tekið fyrir eftir þetta hjá óbyggðanefnd 16. september, 13. október og 10. nóvember 2008, en að lokinni aðalmeðferð, 2. desember 2008 og 5. júní 2009, kvað nefndin upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að miða skyldi við það landsvæði sem vísað var til í kröfugerð gagnstefnanda, íslenska ríkisins, þann 14. mars 2008, og hafnaði nefndin því kröfu hans sem tók til þess hluta landsins sem fyrst var lýst í greinargerðinni 27. ágúst sama ár. Óbyggðanefnd rökstuddi niðurstöðu sína með því að hún væri bundin af kröfugerð aðila, hvort heldur væri íslenska ríkisins eða annarra, og bæri því að leysa málið á grundvelli kröfugerðar gagnstefnanda frá 14. mars 2008. Um sambærilegt ágreiningsefni hafði nefndin áður vísað til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 367/2005 og 571/2006, sbr. og til hliðsjónar mál nr. 517/2009. Það var því niðurstaða nefndarinnar að nyrsti hluti Almennings teldist ekki þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., þjóðlendulaga.
Af hálfu gagnstefnanda er framangreindri niðurstöðu og rökstuðningi óbyggðanefndar, sbr. og kröfur aðalstefnanda í máli þessu, um greint álitaefni andmælt, eins og hér að framan hefur verið lýst.
Með breytingarlögum nr. 65, 2000, 5. gr., á þjóðlendulögum nr. 58, 1998, 12. gr. var fyrra verklagi breytt á þann veg að óbyggðanefnd ber nú að beina því fyrst til ríkisins að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á tilteknu svæði, ef einhverjar eru, og er veittur þriggja til sex mánaða frestur til verksins. Jafnframt er kveðið á um að yfirlýsingu þessa efnis eigi að þinglýsa á eignir á þeim svæðum sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Og þegar kröfugerð ríkisins liggur fyrir skal óbyggðanefnd birta tilkynningu í Lögbirtingablaði. Samkvæmt þessu er landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum á því svæði sem ríkið gerir kröfu til veittur lögbundinn þriggja til sex mánaða frestur til að lýsa kröfum sínum. Með þessu móti var til þess ætlast af hálfu löggjafans að landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum væri ljóst frá upphafi hverjar kröfur ríkisins væru og gætu þá hagað málatilbúnaði sínum í samræmi við það. Með þessu móti var við það miðað að almennt gæfust sex til tólf mánuðir til skjalarannsókna og annars undirbúnings í stað þriggja áður, þ.e. frá því að málatilbúnaðurinn hefst með ákvörðun óbyggðanefndar um tiltekið svæði og þar til kröfulýsingarfresti landeigenda og annarra mögulegra rétthafa er lokið. Sem fyrr er kveðið á um það í lögunum, að þegar kröfulýsingar landeigenda og annarra mögulegra rétthafa á því svæði, sem er til meðferðar, liggja fyrir er óbyggðanefnd skylt að birta yfirlit yfir framkomnar kröfur og uppdrátt af þeim. Skal kynning á þessum gögnum vara í einn mánuð, en frestur til athugasemda er síðan vika þar á eftir.
Það er álit dómsins að gagnstefnandi, íslenska ríkið, hafi með fyrrgreindri kröfugerð hinn 27. ágúst 2008 ekki hagað málum í samræmi við fyrrgreind ákvæði laga nr. 56/1998, einkum 12. gr. Fór þannig ekki fram sú opinbera kynning á hinni breyttu kröfugerð gagnstefnanda sem kveðið er á um í 12. gr. og nægði að því leyti ekki sá fyrirvari sem gagnstefnandi viðhafði í upphaflegri kröfugerð sinni. Að því sögðu og með vísan til röksemda óbyggðanefndar og andmæla aðalstefnanda er það niðurstaða dómsins að hafna beri lýstri kröfu gagnstefnanda og verður aðalstefnandi því sýknaður af gagnsakarkröfu hans.
2. Það var m.a. niðurstaða óbyggðanefndar, að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, og eftir stendur, þ.e. Almenningur, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að svæðið sé í afréttareign aðalstefnanda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og hér að framan var lýst.
Af hálfu aðalstefnanda er á því byggt að umþrætt landsvæði, Almenningur í Fram Öxnadal, sé allt háð eignarrétti hans.
Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum og staðkunnugum aðilum. Er ekki ágreiningur um að Almenningur sé rétt afmarkaður með fyrrgreindum gögnum og lýsingum. Í úrskurði óbyggðanefndar er Almenningi í Öxnadal lýst þannig:
„Landsvæði það sem hér um ræðir hefur leguna norður – suður og liggur í yfir 400 m hæð. Rennur Seldalsá að austanverðu og hallar landi skarpt upp til vesturs í yfir 1000 m hæð. Að vestanverðu er Kaldbaksdalur og hallar landi skarpt upp til austurs. Nyrst á fjallinu milli Seldals og Kaldbaksdals liggur Kaldbakshnjúkur 1071 m. Inn af Seldal liggja Þorbjarnartungur. Upp af dalnum er land hallalítið með fönnum á stöku stað.“
Í úrskurðinum er um staðhætti og afmörkun auk þess m.a. vísað til Jarðabókarinnar, sóknarlýsingar frá 1839, jarðarmats frá árinu 1849, svo og áðurrakins bréfs hreppstjóra í Öxnadalshreppi frá 1920.
Í heimildum, m.a. í Lýsingu Eyjafjarðar I, sem Steindór Steindórsson náttúrufræðingur gaf út 1949, Byggðum Eyjafjarðar og sóknarlýsingu Bakkasóknar frá 1839, er Öxnadal nánar lýst og þar á meðal hinu umþrætta landsvæði, Almenningi. Einnig er í þessum heimildum vikið að nálægum svæðum. Segir þar m.a.:
„Öxnadalurinn er langur og þröngur, og eru há fjöll og brött á báðar hliðar. Dalurinn er í vestanverðum Eyjafirði, inn af Hörgárdal. Eru um 35 kílómetrar fram í botn frá Bægisá, nyrsta býlinu í Öxnadal að austan. Undirlendi í dalnum er alls staðar sáralítið. Víðast eru þar aðeins hallandi skriðugrundir. Þó eru nokkrir bakkar hjá Steinsstöðum og síðan í framdalnum. Fremsti hluti dalsins er nú allur í eyði, en innstu bæir í byggð eru Engimýri og Háls. Fremsti bærinn var Bakkasel, sem fór í eyði 1960, og var einn af þeim síðustu í innri hlutanum í byggð.“
Um Öxnadal fellur Öxnadalsá, bergvatnsá, sem á upptök sín í fjöllunum inn af dalnum.
Stefna Öxnadals er fyrst suðlæg, en nokkru sunnan við þverdalinn Vaskárdal er Öxnadalsheiðin, sem einnig ber nafnið Heiðardalur og er um 2-300 metrum hærra en aðaldalurinn.
Býlið Bakkasel, við rætur Öxnadalsheiðar en vestan ár, var um einnar aldar skeið fremsti bær í Öxnadal, en þar var áður fyrr haft í seli frá Bakka, kirkjujörð dalsins. En sumarið 1850 var selið leigt til ábúðar og byggt þar bæjarhreysi. Þar um túnið rennur Nautá, sem er tíðum vatnslítil, en áin er ein af þverám Öxnadalsár. Fram að byggingu Bakkasels, um 3 km norðar, var Gil fremsta býlið í dalnum vestan ár, en þar var baslað við búskap um aldir.
Við nefnda heiði sveigir Öxnadalurinn til suðausturs og nefnist hann þá Seldalur að vestan, en Almenningur að austan, og eru fjöllin kennd við örnefnin. Fjalladalur þessi er býsna langur, svo drag hans er nálægt dragi Hvassafellsdals, sem gengur suðvestur úr Eyjafirði. Er dalur þessi frá mynni að nefndum drögum um 8,5 km, en Öxnadalsá á eins og fyrr sagði upptök sín inn af dalnum.
Jörðin Ytri-Bægisá á Þelamörk, í fyrrum Glæsibæjarhreppi, er gegnt nyrsta býlinu í Öxnadal, Syðri-Bægisá, en er norðan árinnar. Býlin Bakki í neðanverðum Öxnadal og Syðri-Bægisá eru fornir kirkjustaðir, en Bakka- og Bægisársóknir voru forðum lagðar til Möðruvalla í Hörgárdal. Til Bakkasóknar heyrðu áður fremstu jarðir í Öxnadal, þ. á m. Miðland, Steinsstaðir, Þverá, Hólar og þau býli sem nú eru komin í eyði framan Engimýrar, þ.e. Geirhildargarðar, Fagranes, Gloppa, Bakkasel, Gil, Varmavatnshólar, Bessahlaðir og Þverbrekka.
Staðháttum í Öxnadal er nánar lýst í fyrrnefndum heimildum, þ. á m. í sýslu- og sóknarlýsingu Eyjafjarðar og í Lýsingu Eyjafjarðar. Segir þar m.a. frá því að afdalir til austurs séu m.a. Þverárdalur er gengur til suðausturs og síðan til suðurs. Að sunnanverðu heitir dalurinn Hóladalur. Dalurinn er um 5-600 metrar yfir sjó. Gegnt Hóladal og undir Drangafjalli, sem tilheyrir vesturhluta Öxnadals, gengur hólahrúgald mikið þvert yfir dalinn. Þar fyrir utan breytir Öxnadalurinn allmjög um svip. Er neðri hluti dalsins allþröngur, en fyrir framan hólana þrengist hann enn meir. Eru hlíðar snarbrattar og mjög skriðurunnar og gróðurlitlar. Næst fyrir sunnan Hóladal heitir Hólafjall, en síðan er fjallið venjulega nefnt einu nafni Fagranesfjall allt fram að Gloppugili. Þar er snarbratt mjög og giljum grafið og skriðurunnið. Er þar harla torfært víða, einkum er frjósa tekur á haustin. Mjög er hlíðin sú öll gróðursnauð. Hólahrúgald allmikið gengur fram úr fjallinu hjá eyðibýlinu Geirhildargörðum, sem er um 2 km sunnan býlisins Engimýrar. Víða er þar snjóflóða- og skriðuhætt, og er svo einnig að vestanverðu í dalnum. Fyrrnefnd fjöll eru um 1.200 - 1.300 metra há. Við enda Fagranesfjalls er hamragil mikið og djúpt, fyrrnefnt Gloppugil. Fellur árspræna úr því og hefur hún skapað miklar malarskriður. Upp úr gilinu er Gloppuskarð, breitt en ekki ýkja djúpt. Liggur drag þess í botninn á dalverpi, er Melrakkadalur heitir. Gloppufjall heitir síðan fjallið austan Öxnadals að Vaská, er kemur úr þverdal úr austri, en sunnan hans er Almenningsfjall. Nefndur þverdalur sem Vaská rennur um er í sumum heimildum allur nefndur Vaskárdalur, en dalurinn er klofinn í þrennt, því að grunnir afdalir eða dalverpi liggja bæði til norðurs og suðurs.
Eins og áður er fram komið var Öxnadalurinn fyrrum hluti Skriðuhrepps, en árið 1910 var hann gerður að sérstöku sveitarfélagi. Náði hreppurinn yfir Öxnadal allan, allt út að Bægisá að austan. Með sameiningum hreppsfélaga tilheyrir dalurinn nú Hörgársveit.
Eins og fyrr var rakið námu samkvæmt Landnámu tveir menn Öxnadal. Hét annar Þórir þursasprengir og er af fræðimönnum talið að hann hafi reist bú sitt að Hrauni í vestanverðum dalnum. Er í Landnámu sagt að hann hafi numið allan Öxnadal. Hinn landneminn hét Auðólfur og eignaði hann sér dalinn niður frá Þverá til Bægisár og reisti hann bú sitt á landnámsmörkum, að Syðri-Bægisá, en þar við tók landnám Eysteins, en hann var „son Rauðólfs Oxna-Þórissonar“. Samkvæmt Landnámu nam land vestan Hörgár og að mörkum samnefnds dals og Öxnadals Geirleifur, en hann bjó að Fornhaga.
Samkvæmt ofangreindu virðist ofmælt að Þórir landnámsmaður hafi numið allan Öxnadalinn, enda er talið að Auðólfur hafi numið dalinn báðum megin ár frá Þverá.
Í Jarðabókinni frá 1712 er þess getið að jörðin Gloppa, sem löngum hefur verið talið fremsta býlið í austanverðum Öxnadal, hafi til forna verið reiknuð sem heimaland Auðbrekku í Hörgárdal, en tekið er fram að býlið hafi ekki verið í byggð á greindu ári. Í Jarðabókinni segir nánar um Gloppu að hún eigi upprekstur á Almenning. Í jarðamati frá 1849 segir að Gloppu fylgi dálítið afréttarland, sem kallist „Gloppukinnar“. Landamerki Gloppu var þinglesið 1883 og m.a. lesið á manntalsþingi Skriðuhrepps 1884. Samkvæmt ritinu Byggðir Eyjafjarðar eru óljósar sagnir um Vaskárkot í landi Gloppu. Er álitið að kotið hafi verið nærri Vaskárgili/gljúfri og Vaskárdalshólum, þar sem síðast voru beitarhús Gloppu. Nærri nefndum hólum eru Vaskárkinnar austan Vaskár, en Rauðuskriðukinnar eru vestan árinnar.
Frá Vaskárdalshólum neðan samnefnds gils og að syðstu mörkum landnáms Auðólfs, neðar í Öxnadal og austan ár, við Þverá, eru um 14 km. Þá eru um 24 km frá hólunum að landnámsjörðinni Syðri-Bægisá. Loks eru um 22 km frá hólunum og að landnámsjörðinni Hrauni, vestan Öxnadalsár. Frá Vaská að mynni Almennings/Seldals eru um 2 km. Á Vaskáreyrum, undir Vaskárhólum, var á 19. öldinni skilarétt Öxndælinga, en þá voru lögréttir tvær í dalnum, Þverárrétt og Vakárrétt. Segir í heimildum að í Vaskárrétt hafi verið rekið það safn sem af afdölunum kom og af Öxnadalsheiðinni, en þar gat verið skagfirskt fé og því hafi það verið til stórra þæginda að hafa skilarétt svo innarlega í Öxnadalnum.
Engar heimildir eru um byggð í Almenningi og á Seldal, fremur en í öðrum afdölum Öxnadals. Samkvæmt skýrslu Fornleifastofnunar Íslands um menningarminjar á miðhálendinu eru heldur ekki örnefni í Almenningi sem vísa til búskaparnytja.
Að virtum staðháttum og gróðurfari og þeim gögnum og skýrslum sem hér að framan hafa verið rakin, auk vettvangsgöngu, verður ráðið að búfénaður sem rekinn var á afréttarsvæðin fremst í Öxnadal hafi í venjulegu árferði gengið á milli svæða, m.a. í Almenning, á Seldal, Vaskárdal og þær dalskorur sem þar eru, og farið yfir ár og læki án teljandi vandkvæða. Liggur fyrir að ekki tíðkaðist að reisa afréttargarða eða girðingar á þessu landsvæði.
Af hálfu aðalstefnanda er m.a. á því byggt að hið umþrætta landsvæði, Almenningur, hafi verið numið í öndverðu, en því til stuðnings vísar hann aðallega til landnámslýsinga.
Þegar áðurgreind atriði eru virt í heild, m.a. frásögn Landnámu um landnám í Öxnadal, er að áliti dómsins líklegt að meginhluti aðaldalsins hafi verið numinn við upphaf Íslandsbyggðar, en að vafi þar um vaxi eftir því sem sunnar dregur og land hækkar.
Aðalstefnandi byggir kröfu sína um beinan eignarrétt á Almenningi ekki síst á áðurröktum eldri heimildum, en einnig á þinglýstum eignarheimildum er varða nálægar jarðir og þeirri afmörkun landsvæðisins sem þar er lýst. Merkjum Almennings er ekki lýst skýrlega í heimildum, en helst þó norðurmörkunum. Er Almenningur talinn ná frá Vaská austan Öxnadalsár og fram dalinn til vesturs, um skriðurunnar hlíðar Sveigs, sem er nyrsti hluti Almenningsfjalls, og á móts við Nautá og Bakkaselsland við rætur Öxnadalsheiðar, en fari síðan fram afdalinn til suðurs, en austan Seldalsár og allt að Þorbjarnartungum. Er vegalengdin rúmir 10 km. Þessi afmörkun Almennings er eins og áður er rakið ágreiningslaus með aðilum, en hún ræðst m.a. af landfræðilegum mörkum.
Í dómum sínum hefur Hæstiréttur Íslands í sambærilegum málum margoft vikið að gildi landamerkjabréfa og annarra álíka gagna, sbr. m.a. mál nr. 48/2004. Er það niðurstaða réttarins að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæði, beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því, að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli teljast óskorað eignarland.
Fyrir liggur að landamerkjabréf var aldrei gert fyrir Almenning í Fram Öxnadal.
Að ofangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að þrátt fyrir tilvist landamerkjabréfa er varða býli í næsta nágrenni við Almenning og annarra sambærilegra eldri gerninga, þá takmarkist gildi þeirra af því, að almennt er ekki unnt að eigna sér meiri rétt en viðsemjandinn átti fyrir, enda geta menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt.
Eins og áður er rakið varða elstu heimildir er greina frá Almenningi og næsta nágrenni hans afréttarmálefni. Er það í samræmi við áðurrakið bréf Stefáns Bergssonar, bónda og hreppstjóra á Þverá í Öxnadal, sem hann ritaði sýslumanni í tilefni af fyrirspurn Stjórnarráðs Íslands í lok árs 1919 um almenninga og afréttarlönd í Öxnadal.
Fyrir liggur að landsvæðið Almenningur hefur verið aðskilið um aldir frá áðurnefndum landnámsjörðum, Hrauni og Syðri-Bægisá, en þar í milli eru nokkrar bújarðir í Öxnadal, en einnig drjúg vegalengd, sem var í fyrri tíð harla harðsótt.
Almenningur ásamt Seldal er að áliti dómsins afdalur Öxnadals og er hann á hálendu landsvæði. Er í raun um fjalladal að ræða, en við mörk þjóðlendulínu óbyggðanefndar, skammt sunnan við mynnið, er landið í um 400 m hæð yfir sjávarmáli, en fer síðan hækkandi að dalsbotni. Verður eins og áður er rakið ekki ályktað hversu langt landnám hafi náð í öndverðu, en engar heimildir eru um byggð eða mannvirki á Almenningi og þá ekki vegna búskaparnytja.
Að áliti dómsins benda heimildir ekki til annars en að Almenningur, svo sem hann er afmarkaður af aðilum hafi einvörðungu verið notaður til beitar fyrir búfénað og hafi verið samnotaafréttur fyrir býli og kot í Öxnadal, en einnig í Hörgárdal, og þar á meðal í Glæsibæjarhreppi, en eins og áður er nefnt tilheyrðu býli á þessum svæðum ekki til hins sama landnáms. Er það niðurstaða dómsins að líkur standi til að marglýst orðalag í heimildum um Almenning varði óbein eignarréttindi. Er í því viðfangi til þess að líta að samkvæmt 52. kafla búnaðarbálks Jónbókar skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið bæði hið efra og hið ytra.
Að þessu sögðu og þegar litið er til legu hins umþrætta afréttarsvæðis og annarra þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndu Hæstaréttarmáli nr. 48/2004, en einnig með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands., m. a. í málum nr. 67/2006, 25/2007, 517/2009 og 749/2009, er það niðurstaða dómsins að aðalstefnandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að hann eigi beinan eignarrétt að Almenningi í Fram-Öxnadal.
Að öllu þessu virtu og þar sem kröfur og heimildir aðalstefnanda styðjast ekki við önnur gögn en þegar hefur verið greint frá verður fallist á með gagnstefnanda að ekki hafi verið sýnt fram á að umþrætt landsvæði sé eignarland, hvorki fyrir löggerninga né með öðrum hætti.
Aðalstefnandi hefur að áliti dómsins ekki fært fram sönnur um að skilyrðum eignarhefðar á greindu landi hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem hann hefur haft af því, ásamt þeim bændum sem hann leiðir rétt sinn frá, en fyrir liggur að landsvæðið hefur aðallega verið nýtt til sumarbeitar búfénaðar og annarra takmarkaðra nota, svo sem grasatekju og fuglaveiða.
Að þessu virtu, og andmælum gagnstefnanda, en einnig með hliðsjón af ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki séð að aðalstefnandi hafi mátt vænta þess að hann ætti nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.
Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að umrætt landsvæði, Almenningur, eins og það er afmarkað í úrskurði nefndarinnar, sé þjóðlenda því staðfest.
Aðalstefnandi hefur ekki rökstutt frekar þau réttindi, sem varakrafa hans tekur til, en krafan þykir heldur ekki hafa viðhlítandi stoð í lögum, og er henni hafnað.
Í ljósi kröfugerðar aðila fyrir dómi verður fallist á að Almenningur sé afréttareign aðalstefnanda, en aðrir aðilar hafa ekki lýst kröfum til landsins.
Verður gagnstefnandi, samkvæmt öllu því sem að framan er rakið, sýknaður af kröfum aðalstefnanda í aðalsök, en aðalstefnandi er eins og fyrr er rakið sýknaður af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.
Allur gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Torfa Ragnars Sigurðssonar hæstaréttar-lögmanns.
Með hliðsjón af umfangi málsins og hagsmunum sem í húfi voru, en einnig með hliðsjón af vinnuframlagi, þar á meðal vegna vettvangsferðar og endurflutnings málsins, og loks vegna þess að fleiri hliðstæð mál á þessu landsvæði hafa verið á könnu lögmanns stefnanda, er nefnd þóknun ákveðin 753.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar þeirra í dómi.
Fyrir uppsögu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Aðalstefnandi, Hörgársveit, er sýkn af kröfum gagnstefnanda, íslenska ríkisins, í gagnsök.
Gagnstefnandi er sýkn af kröfum aðalstefnanda í aðalsök.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Torfa Ragnars Sigurðssonar hæstaréttar-lögmanns, 753.000 krónur.
Ólafur Ólafsson.