Hafnað var kröfu stefnanda um að ógilda ákvörðun stefnda um að synja honum um að taka sæti í stjórn einkahlutafélags, sem sætir þvingunaraðgerðum á grundvelli laga nr. 68/2023, um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna. Einkahlutafélagið hafði fengið undanþágu frá þvingunaraðgerðum með tilteknum skilyrðum sem höfðu m.a. það markmið að tryggja að félag, sem er skráð á alþjóðlegan þvingunarlista, gæti ekki haft áhrif á ákvarðanir einkahlutafélagsins. Fallist var á það með stefnda að stefnandi hefði ekki sýnt fram á að seta hans í stjórn einkahlutafélagsins samræmdist þessu markmiði. Var í því efni vísað til þess að stefnandi hefði ekki sýnt fram á að raunveruleg eigna- og stjórnunartengsl þess félags sem er á þvingunarlistanum og aðila sem tengjast því, hefðu verið rofin með kaupum hans á hlut í einkahlutafélaginu.