Deilt var um þrjár ákvarðanir stofnana stefnda, íslenska ríkisins, sem tengdust áformum stefnda Landsvirkjunar um að reisa raforkuverið Hvammsvirkjun sem nýta muni vatnsafl í neðri hluta Þjórsár, þeim hluta árinnar sem hefur verið skilgreindur sem vatnshlotið Þjórsá 1 í Vatnaáætlun Íslands 2022–2027. Þetta voru leyfi Fiskistofu sem veitt var 14. júlí 2022 á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, heimild Umhverfisstofnunar til breytingar á vatnshlotinu Þjórsá 1 sem veitt var 9. apríl 2024 samkvæmt 18. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og virkjunarleyfi sem Orkustofnun veitti stefnda Landsvirkjun 12. september 2024. Kröfum stefnenda um ógildingu leyfis Fiskistofu var hafnað þar sem ekki var talið að stefnendur hefðu sýnt fram á að ákvörðun um það hefði verið háð annmörkum sem ættu að leiða til ógildingar þess. Aftur á móti var fallist á kröfur stefnenda um að ógilda heimildina til breytingar á vatnshlotinu Þjórsá 1 og virkjunarleyfið. Niðurstaðan um að ógilda heimildina til breytingar á vatnshlotinu byggðist á því að ákvörðun um að heimila slíka breytingu vegna framkvæmda á borð við vatnsaflsvirkjun rúmaðist ekki innan a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um stjórn vatnamála, sem er sú lagaheimild sem Umhverfisstofnun byggði ákvörðun sína á. Ályktun þar að lútandi var dregin af nefndaráliti og breytingartillögu meiri hluta umhverfisnefndar sem Alþingi samþykkti við meðferð frumvarps til laganna, sem bentu að mati dómsins skýrlega til þess að tilgangur breytingarinnar hefði verið sá að fyrirbyggja að ákvæðið tæki til slíkra framkvæmda. Aftur á móti lá fyrir að tilsvarandi ákvæði í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma bandalagsins um stefnu í vatnamálum (vatnatilskipuninni), sem lög um stjórn vatnamála voru sett til innleiðingar á, hafði að Evrópurétti verið túlkað með þeim hætti að slíkar framkvæmdir féllu þar undir. Dómurinn taldi að það sjónarmið að skýra bæri ákvæðið til samræmis við það markmið löggjafans sem birtist í nefndarálitinu og breytingartillögunni skyldi vega þyngra en sú regla 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Í því sambandi var m.a. litið til þess að almennt hefði ekki verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd að umrætt lagaákvæði fæli í sér almenna forgangsreglu í samræmi við bókun 35 við EES-samninginn. Þar sem ákvörðun Orkustofnunar um virkjunarleyfið var byggð á þeirri forsendu að heimild Umhverfisstofnunar samkvæmt 18. gr. laga nr. 36/2011 til breytingar á vatnshlotinu lægi fyrir leiddi þetta einnig til ógildingar á virkjunarleyfinu.