Stefnandi krafðist bóta úr hendi stefnda vegna sölu hins síðarnefnda á málverki í eigu stefnanda sem selt var fyrir milligöngu manns sem hafði verkið í vörslum sínum. Byggði stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda á því að vörslumaður verksins hefði ekki haft heimild til þess að selja verkið og að stefni hefði, sem uppboðshaldari, vanrækt að afla heimildar eiganda verksins til sölunnar. Í dómi héraðsdóms var ekki talið sannað að stefnda hefði mátt vera ljóst að vörslumaður verksins hefði ekki verið eigandi þess eða skort heimild til sölunnar. Með vísan til þess og meginreglunnar um að vörslur lausafjármuna veittu líkindi fyrir því að viðkomandi ætti eignarrétt að hlutnum var talið að stefndi hefði með réttu mátt líta svo á að vörslumaðurinn væri eigandi verksins. Var kröfum stefnanda að því er varðaði hina meintu ólögmætu sölu stefnda á verkinu því hafnað. Á hinn bóginn var fallist á að stefnandi ætti rétt til bóta úr hendi stefnda vegna vanrækslu hins síðarnefnda á að upplýsa stefnanda um kaupanda verksins eftir að stefndi varð þess áskynja að verkið hafði verið selt í heimildarleysi. Var stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda bætur af þeim sökum sem nam hluta þess kostnaðar sem stefnandi hafði haft af því að afla upplýsinga um kaupanda verksins.