Stefnandi lenti í umferðarslysi og varð fyrir varanlegu líkamstjóni. Bótaábyrgð stefnda var óumdeild en ekki var fallist á með stefnanda að meta bæri árslaun hans sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem honum auðnaðist ekki sönnun þess að ætla mætti að annar mælikvarði væri réttari um líklegar framtíðartekjur hans en samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins.
Stefnandi krafðist ógildingar ákvarðana stefnda um stöðvun byggingarframkvæmda annars vegar og niðurfellingu byggingarleyfis hins vegar. Þá krafðist hann ógildingar tveggja úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem fyrrgreindar ákvarðanir voru staðfestar. Loka krafðist hann þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda stefnda vegna fyrrgreindra ákvarðana auk þess sem hann krafðist miskabóta úr hendi stefnda vegna meðferðar máls hans hjá stefnda. Í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að byggingarfulltrúa stefnda hefði verið heimilt að stöðva framkvæmdir og fella byggingarleyfi stefnanda úr gildi þar sem viðkomandi mannvirki fór yfir hámarkshæð samkvæmt deiliskipulagi og lóðarblaði fyrir svæðið. Þá var talið að dráttur á meðferð máls stefnanda hefði átt sér eðlilegar skýringar og m.a. helgast af því að stefnandi sjálfur leitaði til fyrrgreindar úrskurðarnefndar, umboðsmanns Alþingis o.fl. Þar sem stefndi var ekki talin hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kröfum um viðurkenningu á skaðabótaskyldu sömuleiðis hafnað svo og kröfu um miskabætur.
Ákærði var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot, skjalafals og fíkniefnilagabrot. Var honum gert að sæta fangelsi í 60 daga, skilorðsbundið til tveggja ára. Einnig var honum gert að greiða fésekt og sviptingu ökuréttinda í 18 mánuði.
Ákærði var fundinn sekur um líkamsárásir og umferðarlagabrot og honum gert að sæta fangelsi í átta mánuði. Þá var ákærða gert að greiða brotaþola skaðabætur.
Ákærði var fundinn sekur um ítrekaðan akstur undir áhrifum fíkniefna sem og akstur sviptur ökurétti og honum gert að sæta fangelsi. Með brotum sínum rauf ákærði skilorð eldri dóms og var refsingin dæmd upp. Þá var ítrekuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða.nbsp;
Riftun stefnda á ráðningarsamningum stefnenda var talin ólögmæt og var því fallist á kröfur stefnenda um greiðslu launa í uppsagnarfresti ásamt dráttarvöxtum. Ennfremur var fallist á að annar stefnenda ætti rétt á greiðslu mismunar á fullum launum og greiðslum í fæðingarorlofi. Kröfu stefnenda um miskabætur var hins vegar hafnað.
Ákærði var fundinn sekur um ítrekaðan akstur undir áhrifum fíkniefna sem og akstur sviptur ökurétti. Var honum gert að sæta fangelsi í fimm mánuði og áréttuð ævilöng svipting ökuréttar hans.
X og Y sakfelldir fyrir samtals þrjár líkamsárásir á þorrablóti þar sem X var gestkomandi og Y gegndi hlutverki dyravarðar. Líkamsárásir X beindust annars vegar að öðrum gesti en hins vegar að Y í kjölfar þess að X var vísað á dyr. Var Y sakfelldur fyrir að fara á eftir X, tækla hann í jörðina og halda höndum hans með þeim afleiðingum að liðhlaup varð í öxl X. Voru allar líkamsárásirnar taldar falla undir 217. gr. almennra hegningarlaga og ekki fallist á að um neyðarvörn væri að ræða í neinu tilviki. Var refsing X ákveðin 90 daga skilorðsbundið fangelsi en Y 60 daga skilorðsbundið fangelsi. X var gert að greiða brotaþola miskabætur og málskostnað og Y gert að greiða X miskabætur, útlagðan sjúkrakostnað og málskostnað. Þá var báðum ákærðu gert að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna.
Fasteignasali og fasteignasala hans dæmd skaðabótaskyld vegna ráðstöfunar greiðslna af fjárvörslureikningi inn á reikning annars lögaðila en seljanda án þess að gera kaupendum grein fyrir að seljandi gæti ekki tekið við greiðslum inn á sinn eigin reikning, en fjármunirnir töpuðust allir.
Ákærði, sem játaði sök, sakfelldur fyrir þjófnaði, líkamsárásir og tilraun til þjófnaðar og dæmdur til þess að sæta fangelsi í þrjá mánuði og til að greiða brotaþola miskabætur, bætur vegna fjártjóns og málskostnað.
Ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 199. gr. a í almennum hegningarlögum en sýknaður af broti gegn 209. gr. og 233. gr. b í sömu lögum. Var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta.
Maður sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við konu án hennar samþykkis og notfært sér það ástand hennar að hún gæti ekki spornað við verknaði hans sökum ölvunar og svefndrunga. Ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði og til að greiða brotaþola 2.000.000 króna í miskabætur auk vaxta og sakarkostnaðar.