E og Ó höfðuðu mál gegn Í og kröfðust viðurkenningar á því að skilmáli í skuldabréfi aðila væri ógildur og að Í hefði verið óheimilt að hækka vaxtafót skuldar stefnenda samkvæmt skuldabréfinu. Kröfur sínar reistu E og Ó á því að hinn umþrætti skilmáli bryti gegn 34. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eins og skýra yrði ákvæði þeirra laga með hliðsjón af viðeigandi tilskipunum EES-réttar og ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sem aflað var undir rekstri málsins. Samkvæmt skilmálunum hefði Í enda verið heimilt að breyta vöxtum skuldabréfsins einhliða á grundvelli almennra og óljósra þátta sem væru ógagnsæir og ófyrirsjáanlegir fyrir E og Ó. Í dómi héraðsdóms var til þess vísað að 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 væri ólíkt tilskipun 2014/17/ESB um lánssamninga um sambærilegt efni að því leyti að í íslenska ákvæðinu væri heimilt að byggja ákvarðanir um vaxtabreytingar á óljósum atriðum á borð við þau sem gat að líta í skuldabréfi aðilanna. Orðum íslensku laganna, sem skýrlega heimiluðu slík ákvæði, yrði, hvað sem liði skýringu á grundvelli EES-réttar, ekki gefin önnur merking en leiddi af ákvæðum laganna sjálfra. Var því hafnað að skuldabréf aðilanna færi í bága við ákvæði laga nr. 116/2018. Hvað varðaði ákvæði laga nr. 7/1936 var það mat réttarins að E og Ó hefði ekki tekist að sýna fram á að hallað hefði á þau með slíkum hætti við samningagerðina, eða slíkt ójafnvægi skapast, að ógilda bæri samninginn með hliðsjón af 36. gr. laganna, sbr. 36. gr. a.-c. Þau hefðu enda fengið fullnægjandi upplýsingar um eðli lánsins, valið úr ólíkum lánsformum og gengið til samninga meðvituð um áhættuna sem í samningnum fólst. Var Í því sýknaður af kröfum E og Ó.