• Lykilorð:
  • Ölvunarakstur

 D Ó M U R:

 

Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 23. apríl 2018 í máli

nr. S-42/2017:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

gegn

Þórði Pétri Péturssyni

(Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 13. mars sl., er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Austurlandi á hendur Þórði Pétri Péturssyni, kennitala […], óstaðsettum í hús á […], með dvalarstað að […].

            Ákæra, útgefin 7. nóvember 2017.  Mál nr. S-42/2017.

            Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða:

„fyrir umferðarlagabrot í Sveitarfélaginu X, með því að hafa mánudaginn 24. júlí 2017, ekið bifhjólinu A, undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti ævilangt, vestur þjóðveg nr. 1 nokkru vestan við bæinn C, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn. Amfetamín í blóði kærða mældist 185 ng/ml.

            Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr.  umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“

 

            Ákæra, útgefin 24. janúar 2018. Mál nr. S-7/2018.

Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða:

„fyrir eftirtalin umferðarlagabrot í Sveitarfélaginu Hornafirði:

I.

            Með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 12. nóvember 2017, ekið bifhjólinu VY717, undir áhrifum fíkniefna, sviptur ökurétti og án þess að hafa sinnt þeirri skyldu sinni, sem skráður eigandi bifhjólsins, að vátryggja það, norður …., vestur Hringveg og síðan eftir heimreið að bænum […], þar sem hann stöðvaði aksturinn. Amfetamín í blóði mældist 235 ng/ml. (318-2017-12651) 

II.

            Með því að hafa að kvöldi til þriðjudaginn 12. desember 2017, ekið bifhjólinu B, sem var óskráð og án skráningarmerkja, undir áhrifum áfengis, sviptur ökurétti og án þess að hafa sinnt þeirri skyldu sinni, sem umráðamaður bifhjólsins, að vátryggja það og án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu sem gefin voru með hljóð- og ljósmerkjum, um götur á …, m.a. um xbraut, xveg og xleiru, og þar yfir á vinnusvæði norðan við xleiru 14, þar sem hann festi bifhjólið í malarhaug. Vínandamagn í blóði kærða mældist 1,88 ‰. (318-2017-13692)

            Telst ákæruliður I varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 93. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Telst ákæruliður II varða við 3. mgr. 5. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 93. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þá er þess krafist, með vísan til 1. mgr. 107. gr. a, umferðarlaga nr. 50/1987, að bifhjólin A og B, verði gerð upptæk til ríkissjóðs.“

 

            Við þingfestingu máls þessa þann 19. desember sl. upplýsti skipaður verjandi, Gísli M. Auðbergsson lögmaður, að von væri á fleiri ákærum á hendur ákærða. Gekk það eftir, en í þinghaldi þann 6. febrúar sl. var þingfest hin seinni ákæra lögreglustjóra, sbr. mál nr. 7/2018. Málin voru sameinuð, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

            Við aðalmeðferð málsins krafðist verjandinn sýknu af því sakaratriði að ákærði hefði brotið gegn ákvæði 1. mgr. 93. gr. umferðarlaganna í tengslum við sakarefni II. kafla ákæru útgefinnar 24. janúar 2018. Að öðru leyti krafðist verjandinn vægustu refsingar til handa ákærða sem lög leyfa. Þá krafðist verjandinn þess, í samræmi við afstöðu ákærða á dómþingi 6. febrúar sl., að kröfum ákæruvalds um upptöku á bifhjólunum A og B yrði hafnað. Loks krafðist verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa, auk ferðakostnaðar.

 

A.

            1. Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað sakargiftir samkvæmt ákæru, sem gefin var út 7. nóvember 2017. Ákærði hefur jafnframt skýlaust játað sakargiftir samkvæmt I. kafla ákæru, sem gefin var út 24. janúar 2018.

            Játningar ákærða eru í samræmi við rannsóknargögn lögreglu, þ. á m. framburðarskýrslur og matsgerðir Rannsóknastofu í lyfja og eiturefnafræði.

            Að ofangreindu virtu er að áliti dómsins nægjanlega sannað að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í nefndri ákæru, en einnig samkvæmt nefndum ákærukafla, en brot hans eru þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

            2. Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað sakarefni II. kafla ákæru, sem gefin var út 24. janúar 2018, að því frátöldu, að hann krefst sýknu af því sakaratriði að hafa brotið gegn ákvæði 1. mgr. 93. gr. umferðarlaganna. Og eins og hér að framan var rakið krefst ákærði þess að upptökukröfu ákæruvalds samkvæmt nefndri ákæru verði alfarið hafnað.

 

            3. Ökutækið A, sem er þungt bifhjól af gerðinni …, er árgerð 1997.  Samkvæmt ferilsskrá ökutækisins og rannsóknargögnum lögreglu var ákærði ekki skráður eigandi bifhjólsins er atvik máls gerðust þann 24. júlí 2017, sbr. sakarefni ákæru, sem gefin var út 7. nóvember það ár. Ákærði var á hinn bóginn skráður kaupandi bifhjólsins þann 19. október sl., og var hann því eigandi þess þegar atvik máls gerðust þann 12. nóvember sl., sbr. sakarefni ákærunnar frá 24. janúar sl.

 

            Ökutækið B, sem er þungt bifhjól af gerðinni …-torfæruhjól, er árgerð 1986. Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu var bifhjólið óskráð og án skráningarmerkja er lögregla hafði afskipti af ölvunarakstri ákærða að kveldi 12. desember sl., en hann var í kjölfarið handtekinn og vistaður í fangageymslu. Ákærði var yfirheyrður um kæruefnið daginn eftir, kl. 13:27-13:57, en eftir það látinn laus úr haldi lögreglu. Nefnd yfirheyrsla var tekin upp í hljóði og mynd og eru gögn þar um á meðal málsskjala ákæruvalds. Við lögregluyfirheyrsluna staðhæfði ákærði m.a. að hann hefði verið eigandi bifhjólsins B í u.þ.b. fjögur ár, en þó án þess að nafns hans væri getið í ferilskrá hjólsins. Aðspurður treysti ákærði sér ekki til að segja til um hver hefði verið hinn skráði eigandi hjólsins, en hafði á orði að fyrri eigendur hefðu látið fyrirfarast að skrá raunverulegt eignarhald þess. Nánar aðspurður staðhæfði ákærði að hann hefði keypt bifhjólið af vitninu V. Af þessu tilefni var ákærða kynnt að skráður eigandi hjólsins frá árinu 2010 samkvæmt ferilsskrá þess væri einstaklingur að nafni Y, en hann kvaðst ekki þekkja til hans.

            Samkvæmt gögnum var ákærða við lok nefndrar lögregluyfirheyrslu kynnt að lögreglan hefði afráðið að haldleggja bifhjólið B, en einnig bifhjólið A, á grundvelli 107. gr. a í umferðarlögum. Ákærði andmælti haldlagningunni.

            Samkvæmt upplýsingaskýrslu var við lögreglurannsókn málsins haft símasamband við áðurnefndan B, skráðan eiganda bifhjólsins B, þann 2. janúar sl. Er haft eftir B í skýrslunni, að hann hafi átt bifhjólið um tíma, en selt það fjórum til sex árum fyrr og þá til einstaklings að nafni C. Samkvæmt skýrslunni beindi B þeim tilmælum til lögreglu, og þá með vísan til þess að eigendaskiptaskráning bifhjólsins hefði greinilega misfarist, að skráning þess yrði leiðrétt áður en það yrði afhent réttmætum eiganda þess.

            Af hálfu ákæruvalds var við meðferð málsins fyrir dómi lagður fram tölvupóstur lögreglunnar á Suðurlandi, dags. 16. febrúar sl. Í pósti þessum kemur fram að lögregla hafi grennslast nánar fyrir um fyrri vörslur og ætlaða eigendur bifhjólsins B, þ. á m. hjá áðurnefndum C. Greint er frá því að nefndur aðili hafi upplýst lögreglu um að hann hefði keypt hjólið af fyrrnefndum B, en þar sem hjólið hefði verið í lakara ástandi en hann hafði gert ráð fyrir hefði hann selt það fáeinum vikum síðar til vitnisins A.

 

            Fyrir dómi leiðrétti ákærði frásögn sína hjá lögreglu um að hann væri eigandi bifhjólsins B og staðhæfði hann að réttmætur eigandi þess væri áðurnefndur aðili, B. Gaf ákærði þá einu skýringu á hinum breytta framburði sínum, að hann hefði einfaldlega farið rangt með við lögregluyfirheyrsluna þar sem hann hefði viljað losna úr haldi lögreglu. Ákærði staðhæfði jafnframt fyrir dómi að hann hefði haft leyfi eiganda bifhjólsins til þess að aka því þann 12. desember 2017. 

            Vitnið A, fæddur 1994, bóndi að […], staðfesti að nokkru það sem hér að framan var rakið. Vitnið kvaðst þannig hafa keypt bifhjólið B af áðurnefndum C fáeinum árum fyrr. Þá bar vitnið að fyrirfarist hefði að skrá eigendaskiptin og bar að þar um hefði helst ráðið að hjólið hefði ekki verið í fullkomnu lagi við kaupin. Vitnið greindi jafnframt frá því að ákærði hefði verið vinnumaður á býli þess í u.þ.b. eitt ár, auk þess sem tiltekin tengsl væru með þeim. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa falið ákærða að gera við bifhjólið. Vitnið kvaðst aldrei hafa selt ákærða hjólið og vísaði m.a. til þess að engin greiðsla hefði farið þeirra í millum af þeim sökum.

            Að ofangreindu virtu ásamt skýlausri játningu ákærða er sannað að hann hafi þann 12. desember 2017 ekið bifhjólinu B undir áhrifum áfengis, sviptur ökurétti og án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu sem gefin voru með hljóð- og ljósmerkjum, eins og nánar er lýst í II. kafla ákærunnar frá 24. janúar 2018. Jafnframt er sannað að hjólið hafi er atvik gerðust verið óskráð og án skráningarmerkja. Á hinn bóginn þykir ákæruvaldið ekki, gegn andmælum ákærða fyrir dómi, en einnig frásögn vitnisins A, hafa sýnt fram á, að ákærði hafi verið eigandi bifhjólsins B, líkt og byggt var á við flutning málsins. Að áliti dómsins hefur ákæruvaldið heldur ekki nægjanlega sannað að ákærði hafi er atvik gerðust haft slík umráð bifhjólsins, líkt og segir í verknaðarlýsingu II. kafla ákærunnar frá 24. janúar 2018, sbr. að því leyti einnig framburð vitnisins A fyrir dómi, að þau teljist hafa verið varanleg. Verður ákærði því sýknaður af broti gegn ákvæði 1. mgr. 93. gr. umferðarlaganna. 

 

B.

            Ákærði, sem er 46 ára, á samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins að baki allnokkurn sakaferil allt frá árinu 1990. Ákærði var þannig sviptur ökurétti ævilangt af sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu þann 14. maí 1992, en hann hefur samkvæmt gögnum aldrei haft réttindi til að aka þungum bifhjólum. Samkvæmt vottorðinu var brotaferill ákærða nær samfelldur á árunum 1994 til 2005, en þá aðllega vegna þjófnaðarbrota og ávana- og fíkniefnabrota, en einnig vegna ítrekaðra umferðarlagabrota, þ.e. fyrir að aka ökutækjum sviptur ökuréttindum. Þessi ferill ákærða hefur ekki áhrif á refsingu ákærða í þessu máli, en það hefur hins vegar sakaferill hans hin síðustu árin.

            Ákærði var samkvæmt nefndu sakavottorði í tvígang, þann 14. maí 2013 og 26. júní 2014, dæmdur til að greiða sektir til ríkissjóðs vegna ölvunar- og sviptingaraksturs, en þá var jafnframt hin ævilanga ökuréttarsvipting hans áréttuð. Ákærða var að auki þann 17. september 2014, af sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu, gert að greiða sekt til ríkissjóðs fyrir ávana- og fíkniefnalagabrot. Þá var ákærði þann 13. apríl 2016 dæmdur fyrir ítrekuð hegningarlagabrot, þ. á m. fyrir þjófnað, en einnig vegna ölvunar- og sviptingarakstursbrota, en síðastgreindu brotin framdi hann 21. apríl 2014, til fjögurra mánaða fangelsisrefsingar, en að auki var hin ævilanga ökuréttarsvipting áréttuð. Refsing þessi var staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands þann 11. apríl 2017, en skömmu áður, þann 9. janúar 2017, hafði ákærði verið sakfelldur fyrir ávana- og fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot, þ. á m. fyrir fíkniefna- og ölvunarakstur, en einnig sviptingarakstur, en brotin hafði hann framið haustið 2015. Var ákærða ekki gerð refsing fyrir þessa síðast greindu háttsemi vegna hegningaraukaáhrifa, sbr. ákvæði 78. gr. hegningarlaganna. Síðast var ákærði dæmdur þann 30. desember sl., vegna þjófnaðarbrots, og þá til tveggja mánaða fangelsisrefsingar

            Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur ákærði verið sakfelldur fyrir endurtekin umferðarlagabrot, þ. á m. fyrir fíkniefnaakstur, ölvunarakstur og sviptingarakstur og fyrir að sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Brot ákærða eru að mati dómsins öll alvarleg. Ber að ákvarða refsingu ákærða m.a. með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga auk ofangreinds sakaferils hans, sem hefur ítrekunaráhrif í máli þessu. Þykir refsing ákærða að þessu virtu eftir atvikum hæfilega ákveðin átta mánaða fangelsi.

 

            Ákæruvaldið hefur, með vísan til sakaferils ákærða, krafist þess, og þá með vísan til 1. mgr. 107. gr. a í umferðarlögum nr. 50/1987, að bifhjólin A og B verði gerð upptæk til ríkissjóðs. Ákvæðið er svofellt: Þegar um stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur er að ræða, sem ekki fellur undir 2. mgr. þessarar greinar, stórfelldan eða ítrekaðan akstur manns sem sviptur hefur verið ökurétti eða manns sem ekki hefur öðlast ökuréttindi, stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og notað er við brotið nema það sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn. Við sömu aðstæður og með sömu skilyrðum má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og er eign þess sem hefur framið brotið, enda þótt ökutækið hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.

            Ákæruvaldið byggir á því að öll skilyrði ákvæðisins eigi við, enda séu brot ákærða annars vegar stórfelld í ljósi ölvunar- og fíkniefnaakstur hans og hins vegar hafi hann ítrekað gerst sekur um aka ökutækjum sviptur ökuréttindum á liðnum árum. Þá er eins og áður er rakið á því byggt af hálfu ákæruvalds, að ákærði sé í raun eigandi beggja bifhjólanna. Af hálfu ákærða er öllum þessum röksemdum ákæruvalds andmælt.

            Samkvæmt greindu lagaákvæði er heimilt að gera upptækt vélknúið ökutæki, sem ökuskírteini þarf til að stjórna og notað er við brot þegar um er að ræða stórfelldan og ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti.

            Í ljósi áður rakins sakaferils ákærða og alvarleika þeirra brota sem ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir og lýsts eignarhalds verður fallist á kröfu ákæruvaldsins um upptöku á bifhjóli ákærða, A. Í ljósi eignarhalds á bifhjólinu B, sbr. það sem hér að framan var rakið, eru að áliti dómsins ekki lagaskilyrði fyrir kröfu ákæruvalds um að gera það upptækt til ríkissjóðs og er því kröfunni hafnað.

            Ævilöng ökuréttarsvipting ákærða, sbr. ákvæði 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, er áréttuð.

C.

            Með vísan til málsúrslita og ákvæða 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða útlagaðan sakarkostnað ákæruvalds að fjárhæð 382.366 krónur. Er um að ræða kostnað vegan alkóhól- og fíkniefnarannsókna, sem til féll vegna áður rakinna ölvunar- og fíkniefnaakstursbrota ákærða. Að auki skal ákærði greiða helming málflutningsþóknunar skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, sem er ákveðin eins og í dómsorði greinir að meðtöldum virðisaukaskatti, en helmingurinn skal falla á ríkissjóð. Hið sama gildir um ferðakostnað verjandans.

            Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 fyrir uppkvaðningu dómsins.

            Helgi Jensson fulltrúi flutti málið af hálfu lögreglustjórans á Austurlandi.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

            Ákærði, Þórður Pétur Pétursson, sæti fangelsi í átta mánuði.

            Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

            Upptækt er gert til ríkissjóðs bifhjólið A.

            Kröfu um upptöku á bifhjólinu B til ríkissjóðs er hafnað.

            Ákærði greiði 583.754 krónur í sakarkostnað. Er þar innifalin helmingsþóknun skipaðs verjanda hans, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, sem í heild er ákveðin 306.000 krónur, en einnig helmingur ferðakostnaðar verjandans, 23.337 krónur.  Helmingur þóknunarinnar og ferðakostnaðarins, samtals 201.389 krónur, greiðist úr ríkissjóði.