• Lykilorð:
  • Börn

Ú R S K U R Ð U R

 Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 12. mars 2019 í máli nr. U-1/2019:

 A

 (Eva Dóra Kolbrúnardóttir lögmaður)

 gegn

 Barnaverndarnefnd B

 (Eva Dís Pálmadóttir lögmaður)

 

Mál þetta barst dóminum 4. febrúar sl. og var þingfest 8. sama mánaðar, en tekið til úrskurðar eftir gagnaöflun og munnlegan málflutning þann 5. mars sl.

Sóknaraðili er A, […].

Varnaraðili er barnaverndarnefnd B.

Sóknaraðili krefst þess í endanlegri kröfugerði sinni, að ógiltur verði úrskurður varnaraðila, sem kveðinn var upp 14. janúar 2019, um að sonur hennar, C, kt. […], skuli vistaður utan heimils og á heimili á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, með skírskotun til 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Við flutning málsins krafðist sóknaraðili þess jafnframt að kröfu varnaraðila í greinargerð um að drengurinn yrði vistaður á heimili á vegum varnaraðila í tólf mánuði allt frá 14. janúar 2019 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, yrði hrundið.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti, eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.

Varnaraðili krefst þess í endanlegri kröfugerð sinni að staðfestur verði úrskurður hans frá 14. janúar 2019 og jafnframt, og þá samkvæmt kröfum í greinargerð hans, að nefndur drengur, sem lýtur forsjá sóknaraðila, verði vistaður utan heimilis og á heimili á vegum varnaraðila í allt að tólf mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins.

Varnaraðili krefst þess að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Sóknaraðili og sonur hennar, […], […] ára, eiga ættir sínar að rekja til […].

Samkvæmt gögnum og því sem fram hefur komið í máli þessu, m.a. við flutning, er sóknaraðili fædd í […], en fluttist til […]. Samkvæmt málatilbúnaði flutti sóknaraðili son sinn til […] við tveggja ára aldurinn, þar sem hann hafði aðsetur hjá ættmennum hennar næstu árin, en hún hélt áfram búsetu sinni […]. Samkvæmt gögnum sætti drengurinn harðræði á þessum fyrstu árum sínum í […] og bjó þar jafnframt við mikla vanrækslu.

Sóknaraðili eignaðist yngri drenginn sinn, D , á árinu […], en ráðið verður af gögnum að hún hafi tekið drenginn til sín til […] og hefur hann frá þeim tíma verið í umsjá hennar.

 

Samkvæmt gögnum hefur sóknaraðili takmarkaða skólagöngu að baki, en hefur að auki ekki unnið launaða vinnu um árabil, en hún hefur glímt við líkamleg veikindi.

Sóknaraðili kom til […] með syni sína, D og C, […].

Fyrir liggur að sóknaraðili fluttist ásamt sonum sínum tveimur til […] og hefur fjölskyldan hin síðustu misserin haft aðsetur í íbúð […]. […].

 

Af gögnum verður helst ráðið að hin síðust misserin hafi sóknaraðili verið í nánu sambandi við […], sem nú mun vera búsettur […]. Hefur hann dvalið tímabundið á heimili sóknaraðila á […], en þá helst í fríum, um hátíðisdaga.

 

Samkvæmt gögnum hófust þau afskipti barnaverndarnefndar varnaraðila af sóknaraðila og sonum hennar, fjölskyldu sem mál þetta varðar, í marsmánuði 2018, og liggur fyrir að þau leiddu að lokum til þess að varnaraðili kvað upp fyrrnefndan úrskurð um málefni drengsins C, þann 14. janúar sl., og þá um vistun hans utan heimilis. Til grundvallar þessum aðgerðum lágu m.a. greinargerðir starfsmanna barnaverndarnefndar og fjölmörg önnur gögn, sem öll lýsa aðgerðum og afskiptum barnaverndarnefndar, lögreglu, skólayfirvalda o.fl.

 

Í nefndum úrskurði varnaraðila greinir frá því að fyrsta tilkynningin um greint málfefni hafi borist barnaverndarnefnd B í marsmánuði 2018 og þá frá […] vegna nefnds drengs, C, sem þá var […] ára. Í þessari tilkynningu er lýst yfir áhyggjum um líðan drengsins og þá þannig að hann hafi verið tilfinningalega vanræktur á heimili sínu, en jafnframt að sóknaraðili gerði of miklar kröfur til hans og þá þannig að hann bæri m.a. ábyrgð á því að koma yngri bróður sínum, D , til og frá skóla. Þessu til frekari skýringar hafi komið fram að þegar C hafi verið veikur heima hefði hann haft miklar áhyggjur af skólasókn yngri bróður síns og þá um að hann gæti þá ekki fylgt honum. Þá er greint frá því í tilkynningunni að aðstaðan væri í raun þannig að yngri drengurinn hefði alls ekki sótt skólastarfið þá daga sem eldri bróðir hans, C, hefði verið veikur heima.

Í nefndri skólatilkynningu er það jafnframt tiltekið að drengurinn C hafi ekki fengið að taka þátt í tómstundastarfi, en sem dæmi er nefnt að hann hafi ekki fengið leyfi sóknaraðila til þess að fara í félagsmiðstöð eða taka þátt í viðburðum á vegum skólans.

Í nefndum úrskurði varnaraðila segir frá því að nokkrum dögum eftir þessa fyrstu tilkynningu frá grunnskólanum hafi barnaverndarnefnd borist frekari upplýsingar frá skóla sem vörðuðu hagi drengsins C og bróður hans, og þá um að sóknaraðili vaknaði ekki með þeim á morgnana, að þeir borðuðu ekki morgunmat og kæmu ekki með nesti með sér í skólann. Einnig segir frá því að C hafi haft innsýn í fjármál fjölskyldunnar og hefði m.a. haft orð á því að sóknaraðili hefði ekki efni á því að kaupa nesti handa sér og yngri bróður sínum.

Í úrskurðinum segir frá því að vegna ofangreindrar atburðarásar hafi starfsmaður barnaverndar rætt við drenginn C, sem staðfest hefði efnisatriði skólatilkynninganna, en jafnframt er haft eftir honum að sóknaraðili öskraði mikið og væri alltaf í símanum og þá í þeim tilgangi að leita að húsnæði annars staðar […]. Fram kemur að drengurinn hefði jafnframt greint frá því að sóknaraðili hefði stundum lamið hann með plaststykki úr bílabraut, þ.e. þegar hann var yngri og hefði verið óþægur.

Í úrskurðinum segir frá því að starfsmaður barnaverndar hefði rætt við sóknaraðila um efni ofangreindra tilkynninga og orð sonar hennar, C. Er staðhæft að hún hafi að nokkru staðfest efnisatriði þeirra og þar á meðal að hún hefði lamið drenginn með plaststykki þegar hann hefði ekki hlýtt henni. Af þessu tilefni er haft eftir sóknaraðila að henni hafi reynst erfitt að ala nefnda drengi upp þrátt fyrir að hún hefði reynt sitt besta. Greint er frá því að starfsmaður varnaraðila hefði við greint tækifæri og tilefni kynnti sóknaraðila hlutverk barnaverndar, barnaverndarlög og alvarleika þess að beita börn ofbeldi, en að auki um þá ábyrgð sem drengurinn bæri. Af þessu tilefni hefði sóknaraðila verið boðin aðstoð inn á heimilið, en staðhæft er að hún hafi í raun gefið lítið út á það.

Í úrskurðinum er greint frá því að barnaverndarnefnd varnaraðila hafi í […] 2018 borist tilkynning frá […] þess efnis að sóknaraðili hefði komið í […] að morgni dags með syni sína tvo. Hafi starfsmenn […] illa skilið sóknaraðila að öðru leyti en því að hún hefði verið með orð um að hún þyrfti að fara til læknis, en í framhaldi af því hefði hún skilið drengina eftir í umsjón starfsmanna í […]. Vísað er til þess að í nefndri tilkynningu hafi m.a. verið tiltekið að drengurinn C hefði haft orð á því við starfsmenn […], að hann væri hræddur við sóknaraðila og enn fremur að hún hefði ekki í nein hús að venda […], að hann hefði miklar áhyggjur af henni og óttaðist að hún myndi deyja. Fram kemur í úrskurðinum og framlögðum gögnum, að þegar sóknaraðili hafi komið að sækja drengina í […] eftir um 8 klukkustunda fjarveru hefði hún verið í miklu ójafnvægi og af þeim sökum hefðu starfsmenn athvarfsins ekki treyst henni til að fara með drengina. Vegna þessa hefðu starfsmenn barnaverndar verið kallaðir til, fyrst í […], en síðar starfsmenn varnaraðila.

Í úrskurði varnaraðila og framlögðum gögnum er greint nánar frá síðastgreindum atburði. Er tekið fram að málið hefði að lokum leyst farsællega og þá með þeim hætti að sóknaraðili hefði skipulagt stutta dvöl drengjanna […], þar sem þeir hefðu þekkt til aðstæðna vegna hinnar fyrri dvalar þar í bæ, en þar um segir nánar: Var það mat starfsmanns barnaverndar að úr því sem komið var væru drengirnir öruggir. Starfsmaður barnaverndar lagði ríka áherslu á góð samskipti við sóknaraðila á meðan fjölskyldan dveldi […] sem gekk eftir. Sóknaraðili lét vita þegar fjölskyldan kom heim aftur og hitti starfsmaður barnaverndar hana í viðtali og hefur frá því hitt sóknaraðila með reglubundnum hætti.

 

Í úrskurði varnaraðila segir frá því að í […]mánuði 2018 hefði lögreglan verið kölluð að heimili sóknaraðila vegna öskurláta og hávaða, og þá vegna grunsemda að um ofbeldi gegn barni væri að ræða. Fram kemur að þegar lögreglumenn komu á vetttvang hafi C og yngri bróðir hans verið í góðu jafnvægi og sóknaraðili róleg. Hafi sóknaraðli verið með þær útskýringar að henni lægi hátt rómur, en hefði ekki verið að beita ofbeldi. Greint er frá því að lögreglumennirnir hefðu leitað frekari skýringar hjá nágrönnunum, sem hefðu áréttað að mikil læti hefðu borist frá íbúð sóknaraðila og hefði bæði verið um öskur og grát barna að ræða.

Í úrskurði varnaraðila segir frá því að í sama mánuði, […] 2018, hefði borist tilkynning frá [...] þess efnis að áhyggjur væru af aðstæðum sona sóknaraðila vegna þeirra uppeldisaðferða sem hún virtist viðhafa. Er staðhæft að sóknaraðili hefði beitt C líkamlegu ofbeldi og hann hræddist hana af þeim sökum. Þá er greint frá því í tilkynningunni að sóknaraðili bannaði drengjunum að sækja tómstundir utan skólans og enn fremur er sagt að hún hafi meinað þeim að sækja danstíma á skólatíma þrátt fyrir að þeir hefðu báðir lýst yfir vilja til þess að taka þátt í slíkri kennslu.

 

Í úrskurðinum segir frá því að þann […] 2018, um kvöldmatarleytið, hefði [...] greint starfsmanni barnaverndar frá því að drengurinn C hefði komið á heimili hans og neitað að fara heim til sín sökum þess að sóknaraðili hefði hótað að lemja hann. Um greint atvik og þær ráðstafanir sem gripið var til af hálfu barnaverndarnefndar af þessu tilefni segir nánar í úrskurðinum: „Starfsmenn barnaverndar fóru á heimili […] og hittu þar og ræddu við drenginn. Fram kom að hann hefði ekki mátt hafa símann sinn og orðið reiður við sóknaraðila og yngri drenginn sem hann sagði að hefði hlegið að sér. Hefði hann misst stjórn á sér og eyðilagt leikföng. Sóknaraðili hafi þá hótað að ná í spýtu og slá hann með henni. Í kjölfarið hafi drengurinn hlaupið út, leitað að […]. Sagði drengurinn í samtali við starfsmann að hann væri hræddur við sóknaraðila og vildi ekki fara heim. Jafnframt sagði hann að þó að starfsmaður barnaverndar færi með honum inn á heimilið myndi sóknaraðili lemja hann um leið og starfsmaðurinn færi. Starfsmenn barnaverndar fóru í fylgd lögreglu inn á heimili sóknaraðila. Heimilislífið var með rólegra móti, yngri drengurinn lék sér í síma og sóknaraðili var róleg. Annar starfsmanna barnaverndar ræddi við yngri drenginn á meðan hinn starfsmaðurinn ræddi við sóknaraðila. Hún vildi ekki viðurkenna ofbeldi og sagði drenginn vera óhlýðinn. Hann væri latur við heimilisstörf og hann ætti að aðstoða eins og önnur börn. Sagðist sóknaraðili ráða illa við drenginn sem væri skapstór. Þá sagðist sóknaraðili biðja til Guðs um að drengurinn myndi hlýða sér en hann héldi áfram að brjóta reglur sem hún setti.

Að mati starfsmanna barnaverndar var öryggi drengsins ekki tryggt á heimili hans og því tekin ákvörðun um að vista hann utan heimilis. Sóknaraðili var samþykk því að drengurinn yrði vistaður utan heimilis um tíma.

Drengurinn var fyrst neyðarvistaður á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þann […] 2018, að höfðu samráði við formann varnaraðila. Starfsmenn barnaverndar ræddu við sóknaraðila á heimili hennar degi síðar. Sóknaraðili var samþykk vistun utan heimilis en vildi ekki skrifa undir eyðublað þess efnis, en samþykkti síðan vistun utan heimilis á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga þann […]. Starfsmenn barnaverndar ræddu við sóknaraðila um að mikilvægt væri að finna leið til þess að drengurinn gæti snúið aftur inn á heimilið og ljóst væri að bæði sóknaraðili og drengurinn þyrftu umtalsverðan stuðning og leiðsögn.

Drengurinn var vistaður utan heimilis í fimm vikur. Á þeim tíma heimsótti hann sóknaraðila á heimili hennar reglulega, fyrst um sinn undir eftirliti starfsmanns barnaverndar og síðar einn síns liðs.

 

Í úrskurði varnaraðila greinir frá því að fjölskylduráðgjafar á vegum barnaverndar hafi hitt sóknaraðila á heimili hennar þann 17. september 2018 og er tekið fram að annar þeirra hafi verið sálfræðingur […]. Greint er frá því að sóknaraðili hafi skýrt frá því að sonur hennar, C, hefði mátt þola verulegt harðræði á þeim árum sem hann hafðist við á yngri árum sínum í […], þ.e. þegar þau voru aðskilin. Vísað er til þess að þessi frásögn sóknaraðila hefði að þessu leyti verið í samræmi við orðræðu drengsins við starfsmann barnaverndar, og segir um þetta nánar í úrskurðinum: Fjölskylduráðgjafar töldu líklegt að tengslarof hafi orðið milli drengsins og sóknaraðila. Vísuðu þeir til þess að að sögn sóknaraðila bæri drengurinn ekki virðingu fyrir henni og þyrfti að læra að hlýða. Tók sóknaraðili leiðsögn fjölskylduráðgjafa ekki illa og sagðist gjarnan vilja hitta þá aftur. Sóknaraðila var einnig útvegaður lögmaður á meðan á vistun drengsins utan heimilis stóð.

 

Í úrskurði varnaraðila er greint frá þeim ráðstöfunum, sem gripið var til í kjölfar ofangreindra atburða, en um það segir m.a.:

Starfsmenn barnaverndar hafa síðan drengurinn snéri aftur á heimili sitt sinnt stífu eftirliti með fjölskyldunni. Auk þess hefur starfsmaður barnaverndar hitt drenginn reglulega í skóla. Þá hefur fjölskyldan verið í fjölskylduráðgjöf til þess að bæta tengsl sín á milli og efla foreldrahæfni sóknaraðila. Þá hafa verið gerðar áætlanir í málinu samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga. Jafnframt var drengnum skipaður talsmaður samkvæmt 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga. Starfsmaður barnaverndar reyndi að útvega drengnum stuðningsfjölskyldu og tilsjón inn á heimili en það gekk ekki sem skyldi. Sóknaraðili var í fyrstu samþykk því að drengurinn fengi stuðningsfjölskyldu en dró það samþykki svo til baka. […] var þó tilbúin til að taka hann hvern föstudag í desember í stuðning og gekk það vel þangað til að sóknaraðili samþykkti ekki þá tilhögun.

Þrátt fyrir framangreint hafa starfsmenn barnaverndar ítrekað farið í útköll á heimili fjölskyldunnar eftir að drengurinn kom úr vistun, þá vegna hávaða eða vegna þess að drengurinn hafi hlaupið út til fyrrum vistforeldra og upplýst um að sóknaraðili hafi hótað að beita hann ofbeldi. Ennfremur hafa starfsmenn barnaverndar haft afskipti af heimilinu þegar drengurinn hefur ekki farið eftir þeim reglum sem sóknaraðili hefur sett.

Samkvæmt gögnum var drengnum C skipaður talsmaður, sbr. ákvæði 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, og liggja fyrir í málinu skýrslur talsmannsins um aðstæður og vilja drengsins.

Í úrskurði varnaraðila er greint frá því að starfsmenn barnaverndar hafi farið í útkall á heimili sóknaraðila þann […]. desember 2018, en einnig þremur dögum síðar. Tekið er fram að tilefni þess hafi verið tilkynningar frá fyrrverandi vistforeldri drengsins C um að hann hefði hlaupist að heiman og þá m.a. sökum þess að sambýlismaður sóknaraðila hefði slegið hann. Greint er frá því að starfsmaður barnaverndar hefði af þessu tilefni rætt bæði við drenginn og sóknaraðila og er þeim samskiptum þannig lýst:

Þar kom að mati starfsmannsins skýrt fram að drengurinn vildi ekki búa á heimili fjölskyldunnar en sagði ennfremur að sóknaraðili hefði sagt að ef hann færi aftur af heimilinu þá myndi hann ekki koma aftur. Starfsmaður barnaverndar fór svo í annað útkall […]. desember kl. 17:30 en þá varð drengurinn ósáttur við sóknaraðila og hljóp út af heimilinu. Starfsmaður barnaverndar fór á staðinn og var þar í klukkustund, eða þar til ró komst á mannskapinn.

 

Fram kemur í úrskurði varnaraðila að á meðferðarfundi starfsmanna barnaverndarteymis varnaraðila, þann 3. janúar 2019, hafi verið staðfest sú ákvörðun að óska eftir forsjárhæfnismati á sóknaraðila, en því til viðbótar hafi verið ritað undir áætlun um meðferð máls.

Greint er frá því í úrskurðinum að nefndan dag, þann 3. janúar sl., hafi lögreglan kallað til starfsmenn barnaverndar á heimili sóknaraðila og þá sökum þess að drengurinn C hefði enn hlaupist á brott og þá farið til fyrrverandi vistforeldra sinna. Segir nánar um tilefni þessa, að drengurinn hefði læst eigin herbergishurð og ekki sinnt óskum sóknaraðila um að opna, en að sambýlismaður sóknaraðila hefði þá gripið það til bragðs að losa um læsinguna með hnífi. Um nánari viðbrögð vegna þessa atburðar segir í úrskurðinum: Í kjölfar framangreinds sóttu starfsmenn barnaverndar drenginn og upplýstu hann um að hann myndi dvelja á öðru heimili í einhverja daga. Hann var að mati starfsmanna hræddur við viðbrögð sóknaraðila en létt að heyra að hann færi á annað heimili. Aðspurður um hvað hefði gerst á heimilinu sagði drengurinn að hann og yngri drengurinn hefðu rifist. Sóknaraðili hefði tekið upp hanskann fyrir yngri drenginn og drengnum fundist það ósanngjarnt. Hann hefði því viljað fá frið. Hann hefði beðið sóknaraðila um að láta sig í friði en hún haldið áfram að öskra. Hann hefði því læst sig inni í herbergi. Sambýlismaður sóknaraðila hafi því næst reynt að komast inn í herbergið og brotið læsinguna á hurðinni. Hann hafi svo notað hníf til að skera læsinguna úr. Drengurinn sagðist hafa orðið hræddur, hlaupið út úr húsinu og hringt í 112.

 

Samkvæmt gögnum var drengurinn C neyðarvistaður utan heimilis sóknaraðila strax í kjölfar ofangreinds atburðar og þá á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga.

 

Samkvæmt gögnum var þann 14. janúar sl. haldinn fundur hjá barnaverndarnefnd varnaraðila um málefni drengsins C. Fyrir fundinum lá greinargerð barnaverndarstarfsmanna um atvik máls og aðstæður drengsins, en einnig fjöldi annarra gagna. Fram kemur að tilefni fundarins hafi nánar verið að taka ákvörðun um áframhaldandi vistun drengsins og þá í kjölfar ofangreinds atburðar. Á fundi þessum var af hálfu sóknaraðila lögð fram greinargerð lögmanns hennar þar sem hinum fyrirhuguðu ráðstöfunum var andmælt.

Í lokaorðum fyrrnefndrar skýrslu starfsmanna barnaverndar varnaraðila, sem dagsett er 11. janúar sl., segir m.a:

Að mati starfsmanna barnaverndar þykir ljóst að drengurinn býr við bágar heimilisaðstæður þar sem ekki er hlúð fyllilega að grunnþörfum hans né félags- og tilfinningaþroska. Mikil vinna hefur átt sér stað með fjölskyldunni sem hefur að mati stm.bvn ekki skilað tilætluðum árangri. Þá er ljóst að drengurinn upplifir mikla vanlíðan á heimilinu og hefur hann ítrekað tjáð stm.bvn að hann vilji ekki búa á heimili móður. Eftir umtalsverða veru á heimili fjölskyldunnar er það upplifun stm.bvn að lítil tengsl eru á milli móður og drengsins og hefur upplifun drengsins verið oft að móður þyki ekki vænt um hann. Stm.bvn hafa haft ítrekuð afskipti af fjölskyldunni vegna slæmra samskipta móður og drengsins, ennfremur er það upplifun stm.bvn að móðir hafi ekki færni í að leiðbeina drengnum og setja honum mörk. Þá hefur móðir oft gert lítið úr tilfinningum drengsins, hans upplifunum og hótað því að skilja hann eftir á […] fari hann útaf heimilinu. Móðir hefur ekki tekið afskiptum barnaverndar illa en upplifun stm.bvn er sú að móðir hafi ekki forsendur til að fylgja eftir þeim áætlunum sem hafa verið gerðar í samvinnu við hana. Þrátt fyrir umtalsverða íhlutun barnaverndar hefur ástandið á heimilinu verið óbreytt og versnað eftir því sem liðið hefur á. Með ofangreint í huga er það mat stm.bvn að drengurinn getur ekki búið á heimilinu á meðan aðstæður eru óbreyttar. Ennfremur þarf móðir að gangast undir forsjárhæfnimat sem stm.bvn telja nauðsynlegt í ljósi þess að upplifun þeirra er að móðir hafi ekki færni til að sinna forsjárskyldum sínum. Stm.bvn leggja til að drengurinn verði vistaður utan heimilis í allt að tvo mánuði skv. 27. gr. barnaverndarlaga nr 80/2002.

 

Í úrskurði barnaverndarnefndar varnaraðila, B, sem hér að framan hefur að nokkru verið rakinn, eru atvik máls nánar rakin. Úrskurðurinn er ítarlegur, en í lokaorðum segir þar að það hafi verið niðurstaða nefndarinnar, að uppfyllt væru skilyrði b-liðar 27. gr. barnaverndarlaganna um að brýnir hagsmunir drengsins C stæðu til þess að hann yrði vistaður utan hemilis sóknaraðila í tvo mánuði.

Fyrir liggur að sóknaraðili gekkst nýverið og að fyrirlagi varnaraðila undir forsjárhæfnismat. Matið annaðist E sálfræðingur. Vann sálfræðingurinn m.a. starf sitt á heimili sóknaraðila þann 17. janúar sl., en skýrsla hans er dagsett 1. febrúar sl. Fram kemur að það hafi verið ákvörðun sóknaraðila að taka til varna og var það gert með málskoti, sem barst héraðsdómi 4. febrúar sl.

Samkvæmt gögnum kynntu starfsmenn varnaraðila sóknaraðila fyrrnefnt forsjárhæfnimat á fundi þann 11. febrúar sl., sem haldinn var á heimili hennar, en viðstaddur var lögmaður hennar.

Af gögnum verður ráðið að varnaraðili hafi brugðist frekar við og þá eftir að forsjármatið lá fyrir og þá með því að krefjast vistunar drengsins utan heimilis í allt að 12 mánuði, sbr. heimildarákvæði 28. gr. barnaverndarlaga.

Samkvæmt gögnum fór starfsmaður barnaverndar þann 14. febrúar sl. á heimili sóknaraðila með drenginn C í áður skipulagða umgengni. Sóknaraðili var ekki á heimili sínu og var upplýst að hún hefði kvöldið áður farið til […] með yngri drenginn. Við meðferð málsins fyrir dómi var upplýst að sóknaraðili hefði farið af landi brott þann […] febrúar sl.

 

II.

Sóknaraðili andmælir málavaxtalýsingu í úrskurði varnaraðila hér að framan að nokkru leyti. Hún vísar m.a. til þess, að þrátt fyrir að hún hafi ekki alltaf haft skilning á afskiptum barnaverndarnefndar varnaraðila hafi hún samþykkt að sonur hennar, C, yrði vistaður utan heimilis í fimm vikur síðastliðið haust. Hún hafi hins vegar talið að sú ráðstöfun hafi ekki verið nauðsynleg. Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að hún hafi í raun samþykkt alla þá aðstoð sem henni og drengnum hafi boðist og þá m.a. frá starfsmönnum varnaraðila, en að auki hafi hún lagt sig alla fram um að sýna samvinnu og breyta háttsemi sinni til samræmis við þær kröfur sem beint hafi verið að henni. Sóknaraðili getur þess að í stað nefndra vistunaraðgerða hefði vilji hennar fremur staðið til þess að þiggja enn frekari stuðning og þá t.d. með því að fá tilsjónarkonu inn á heimili sitt og þá til þess að aðstoða hana við uppeldið, og þá í því skyni að bæta hag drengsins C og auka vellíðan hans.

Sóknaraðili bendir á að hún hafi orðið þreytt á tíðum afskiptum barnaverndaryfirvalda. Vísar hún til þess að hún hafi litið svo á að nefnd afskipti hafi ekki ætíð verið á rökum reist. Þar um segir sóknaraðili að starfsmenn varnaraðila hafi á stundum hlustað um of á sjónarmið drengsins C, en hundsað sjónarmið hennar, þ. á m. varðandi símanotkun hans. Hafi það einmitt verið tilfellið þegar áðurgreind atvik gerðust í byrjun janúar sl., en þá hefði drengurinn ekki farið að tilmælum hennar, en í þess stað læst að sér. Þá hefði drengurinn heldur ekki farið að tilmælum um að opna lásinn, en af þeim sökum hefði sambýlismaður sóknaraðila notað hníf til þess að snúa upp á hurðarlásinn. Hafi hnífurinn þannig eingöngu verið notaður til þess að opna hurðarlásinn og því hafi drengnum aldrei verið ógnað eða hótað með honum, og þá ekki þannig að hann yrði beittur öðru ofbeldi.

 

III.

Eins og áður er komið fram óskaði Fjölskyldusvið varnaraðila eftir sálfræðilegu mati á forsjárhæfni sóknaraðila. Nánar tiltekið var það gert þann 28. desember 2018. Var D, sérfræðingi í kínískri sálfræði og réttarsálfræði, falið verkið. Matsskýrsla sálfræðingsins er dagsett 1. febrúar sl., en þar er í rökstuddri niðurstöðu m.a. lagt mat á atriði, sem varða sóknaraðila og son hennar C, þ.e.: Forsjárhæfni og skilningur á þörfum og hagsmunum barns, vilji sóknaraðila til þess að annast uppeldishlutverk sitt, tengsl milli hennar og drengsins m.t.t. aldurs og þroska, en einnig tengsl annarra sem standa að drengnum. Þá er í skýrslunni vikið að því atriði hverjir séu helstu styrkleikar og veikleikar sóknaraðila í uppeldislegu tilliti og enn fremur að því hvort að hún búi yfir nauðsynlegri og nægilegri hæfni til að veita drengnum fullnægjandi uppeldi. Í skýrslunni er einnig lagt mat á þroska, líðan og námslega og félagslega stöðu drengsins í skóla og utan hans. Þá er tekið til skoðunar hvort velferð eða þroska drengsins sé ógnað í einhverju tilliti og þá með því að alast upp í umsjá sóknaraðila. Einnig er í skýrslunni lagt mat á persónulega eiginleika og félagslegar aðstæður sóknaraðila, en einnig á andlegt ástand hennar og möguleg geðræn einkenni. Loks er lagt mat á þörfina fyrir meðferð og/eða stuðningsúrræði fyrir sóknaraðila og á hæfni hennar til þess að nýta sér meðferð og/eða stuðningsmeðferð. Loks er vikið að öðrum mikilvægum atriðum sem matsmaðurinn telur að skipti máli og þá í þeim tilgangi að varpa frekara ljósi á stöðu sóknaraðila og sonar hennar, C.

Í aðfaraorðum matsskýrslunnar er gerð grein fyrir þeim gögnum sem matsmaðurinn hafði undir höndum við gerð hennar. Þá segir frá því í skýrslunni að matsmaðurinn hafi farið á heimili sóknaraðila og að hann hafi átt þar viðtal við hana, en einnig lagt fyrir hana sálfræðileg próf, en þá fengið aðstoð sambýlismanns hennar, enda hafi hann þá verið staddur á heimilinu. Í matsskýrslunni er gerð grein fyrir því að nefndur sálfræðingur hafi við gerð skýrslunnar átt samræður við drenginn C, en einnig við vistforeldra hans, stuðningsaðila og […] grunnskólans [...].

Í aðfaraorðum ofannefndrar sálfræðiskýrslu er m.a. fjallað um bakgrunn sóknaraðila svo og um atvik máls eftir að hún fluttist ásamt sonum sínum tveimur til [...]. Þá er fjallað um samskipti og síðar afskipti félags- og barnaverndaryfirvalda, en einnig er lýst aðstæðum á heimili sóknaraðila og gerð grein fyrir fyrrnefndum viðtölum, en einnig félagslegum aðstæðum, heilsufari og veittum stuðningi. Loks er gerð grein fyrir niðurstöðum sálfræðiprófa og vikið að upplýsingum frá skóla.

Í samantektar- og niðurstöðukafla umræddrar matsskýrslu er gerð grein fyrir öllum áðurgreindum álitaefnum. Segir m.a. um forsjárhæfni sóknaraðila, þar sem einkum er fjallað um drenginn C, eftirfarandi:

Þegar farið er yfir þau gögn sem liggja fyrir, viðtöl við móður og drenginn, skoðun á samskiptum, sálfræðileg próf og upplýsingum frá aðilum sem hafa tengst fjölskyldunni, má sjá að þetta mál er alvarlegt og lýsir lengri tíma vanda.

Vanræksla móður á drengjunum tekur til flestra þátta í þeirra daglegu lífi. Hún hefur ekki styrkt drengina félagslega, hefur ekki sinnt þeirra skólanámi og hefur einangrað þá markvisst á heimilinu. Mikill stuðningur hefur verið reyndur til að laga stöðu fjölskyldunnar og bæta hæfni móður til að sinna nauðsynlegum þáttum í þeirra uppeldi en það hefur ekki gengið eftir. Þeir sem komið hafa að málinu eru sammála að um óverulegar breytingar séu á hæfni móður með stuðningi, ef þá einhverjar. Móðir […] og […] varðandi uppeldi barna. Hins vegar er þetta mál alvarlegra en svo að hægt sé að skýra allt út frá […]. Matsmaður lagði fyrir móður […]. Matsmaður hefur því áhyggjur af hennar […] almennt og skilningi hennar í þarfir drengjanna og getu til að taka við leiðbeiningum og læra nýjar aðferðir við uppeldi þeirra. Auk þess er ekki vitað nákvæmlega hvort móðir hafi lent í áföllum en tengslaleysi hennar almennt er mjög alvarlegt. Slíkt getur komið vegna vanrækslu í æsku eða áföllum en hún vildi ekki ræða slíkt við matsmann. Á geðgreiningarviðtali komu ekki fram alvarleg geðræn einkenni og hún neitaði slíkum einkennum í sögu fyrir utan tvö depurðartímabil og að hún hafi áhyggjur af máli B. Í gögnum og í viðtölum við aðila komu ekki fram vísbendingar um alvarleg geðræn veikindi en klár merki persónuleikaröskunar en það var ekki hægt að meta það sérstaklega nú með sálfræðiprófum. Móðir virðist hafa afar takmarkað innsæi í þarfir drengjanna eða eigin getu og takmarkanir. Útskýringar á málinu eru mjög einfaldar, hún virðist gagnrýnislaus og með fastmótaðar hugmyndir um hvernig hlutirnir eigi að vera sem gerir það að verkum að hún fer ekki eftir ráðum annarra. Hún virðist ekki hafa nein ráð til að takast á við hegðunar- og tilfinningavanda C og hennar skýringar eru óljósar og einfaldar. Ekki er því talið að móðir hafi nauðsynlega eða nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barna sinna og vill matsmaður sérstaklega taka fram að hennar vanræksla er alvarleg og hennar vanskilningur á þörfum þeirra alvarlegur.

Í matsskýrslunni segir m.a. um sóknaraðila að hún hafi vilja til þess að annast uppeldi drengsins C, en þá þannig að hann komi á ný á heimili hennar. Um þetta segir og að sóknaraðili […]

Í skýrslunni er staðhæft að sóknaraðili hafi greinilegan og alvarlegan tengslavanda, en um þetta atriði segir nánar: Við skoðun og í upplýsingum frá aðilum er áberandi tengslaleysi og ástleysi móður í þeirra garð. C hefur lýst þessu sjálfur í viðtali við matsmann, talsmann og í raun við alla sem komið hafa að málinu.

Í skýrslunni segir að yngri bróðirinn virðist vera afskiptur á heimili sóknaraðila, og er ályktað að hann fái hvorki hlýju, athygli eða tengsl frá sóknaraðila.

 

Um styrkleika sóknaraðila segir í skýrslunni að hún sé reglusöm og með húsnæði og virðist sinna daglegum hlutum á heimilinu og eldi mat fyrir drengina. Að auki hafi hún að hluta til verið til samvinnu og sýnt greinilega vilja til að halda drengjunum á heimilinu og óski þess að fjölskyldulífið gangi vel fyrir sig og að fjölskyldan sé sameinuð og í friði.

Um veikleika sóknaraðila segir að hún sé haldin almennu innsæisleysi og skilningsleysi í þarfir drengjanna, en þar við bætist skert tengslahæfni, vangeta til að styrkja drengina félagslega og námslega svo og vangeta til þess að nýta sér ráðgjöf og stuðning. Er það niðurstaðan að þessu sögðu að sóknaraðili hafi ekki hæfni til að sinna foreldrahlutverkinu með nægjanlegum hætti og að hún geti því ekki veitt sonum sínum fullnægjandi uppeldisskilyrði til framtíðar.

 

Að því er varðar þroska, líðan og námslega og félagslega stöðu sona sóknaraðila segir almennt í skýrslunni:

[…]

Í skýrslunni segir nánar um persónulega eiginleika, andlegt atgervi og félagslegar aðstæður svo og ástand sóknaraðila og um möguleg geðræn einkenni hennar og þörf fyrir stuðningsúrræði og hæfni til þess að nýta sér slíka aðstoð:

[…]

 

Lokaorðin í skýrslu matsmannsins eru svohljóðandi:

Ljóst er að ofan að matsmaður telur móður ekki vera með næga hæfni til að sinna drengjunum. Hennar veikleikar sem uppalandi eru alvarlegir og talið er að stuðningur til að bæta hennar forsjárhæfni sé full reyndur. Áhyggjur barnaverndar hafa mikið snúist um eldri drenginn enda hefur hann tjáð sig í orðum og hegðun. Hann hefur mikla áfallasögu og þarf nauðsynlega að komast í langtíma fóstur þar sem hann fær ást og umhyggju og stuðning til að þroskast. Tilfinningavandi drengsins orsakast af hans áfallasögu og tengslarofi og kemur fram í hegðunarvanda og kvíðaeinkennum/áfallaeinkennum. Í viðtali við matsmann virðist móðir gera lítið úr áföllum drengsins og sagði að hann hafi ekki verið sendur í skóla en minnist ekkert á það ofbeldi sem hann varð fyrir. Sjálfur hefur hann marg lýst því að hann vilji ekki búa á heimili móður. Yngri drengurinn á ekkert tungumál að því er virðist og hefur lítið tjáð sig. Hann er yngri og hefur ekki farið að sýna hegðunarvandamál sem þó er hætta á þegar hann verður eldri og vill fá meira sjálfræði. Matsmaður vill því sérstaklega nefna áhyggjur sínar af stöðu drengsins á heimilinu.

 

IV.

Sóknaraðili byggir á því að skilyrði vistunar sonar hennar, C, utan heimilis séu ekki uppfyllt samkvæmt ákvæði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaganna og þá til þess að tryggja öryggi hans eða veita honum nauðsynlega meðferð og aðhlynningu, sbr. ákvæði 26. gr., sbr. 24. gr. og 25. gr., sömu laga. Vísar hún til þess að ekki sé í raun útséð með að þau úrræði sem þegar hafi verið gripið til hafi ekki skilað árangri, en að auki megi grípa til frekari úrræða og koma þannig til móts við þarfir sonar hennar, C.

Sóknaraðili bendir á að á meðal gagna máls þessa séu tilkynningar og bakvaktarskýrslur starfsmanna barnaverndarnefndar, auk þess sem gerðar hafa verið áætlanir um meðferð máls samkvæmt 24. gr., sbr. 23. gr., barnaverndarlaga og þá í samvinnu við hana. Sóknaraðili byggir á því að stuðningur við hana og soninn C á heimili hennar hafi í raun ekki verið fullreyndur. Af þeim sökum hafi ekki verið réttlætanlegt að beita svo íþyngjandi úrræði að vista drenginn utan heimilis hennar í tólf mánuði, sbr. fyrrnefnda kröfu í greinargerð varnaraðila. Sóknaraðili byggir á því að hagsmunum drengsins sé best borgið á heimili fjölskyldunnar og þá með enn frekari stuðningi frá barnaverndarnefnd, enda þjóni það ekki hagsmunum drengsins best að vera fjarri fjölskyldu sinni.

Sóknaraðili byggir á því og áréttar að stuðningsaðgerðir hafi ekki verið fullreyndar. Því hafi barnaverndaryfirvöldum verið skylt að beita vægari úrræðum áður en sonur hennar verði vistaður utan heimilis í svo langan tíma sem krafist er, enda beri barnaverndarnefnd varnaraðila að vinna að því sem sé best sé fyrir drenginn og hagsmuni hans. Sóknaraðili byggir á því að eðli málsins samkvæmt sé svo löng vistun utan heimilis sem varnaraðili krefjist bæði íþyngjandi fyrir drenginn og valdi óþarfa róti í lífi hans.

Sóknaraðili áréttar að hún hafi allt fram til þessa verið samvinnufús við barnavernd og jafnan gert sitt besta til að fylgja ráðleggingum og samningum sem gerðir hafi verið við hana, líkt og rakið hafi verið í lýsingu málavaxta hér að framan. Hún byggir á því að drengnum C hafi á hinn bóginn ekki verið gert nægjanlega ljóst af hálfu varnaraðila hvaða ráðstafanir og samningar hafi verið gerðir. Af þessu sökum hafi drengurinn ekki verið upplýstur um að honum bæri að hlýða henni sem móður. Þá hafi drengnum heldur ekki verið kynnt ákvæði þar sem áhersla hafi verið lögð á að takmarka símanotkun hans og þá við tímabilið frá kl. 16:00 til 22:00 á kvöldin, en að þá hafi hann átt að hætta í símanum og taka á sig náðir. Sóknaraðili staðhæfir að vegna þessa hafi drengurinn brugðist illa orðræðu hennar um nefndan tímaramma og hafi það leitt til þess að komið hafi upp deilur á milli þeirra mæðgina. Sóknaraðili segir að það sé og álit hennar að lýstar aðstæður hafi mögulega haft áhrif á drenginn og þá þannig að hann hafi frekar viljað vera annars staðar en á heimili þeirra, enda hafi hann þá getað verið miklu meira með símann heldur en á heimili hennar. Sóknaraðili vísar enn fremur til þess að hún hafi haft vilja til að hafa tilteknar húsreglur, þ. á m. varðandi frágang og uppvask á leirtaui og að drengurinn hlýddi að því leyti. Enn fremur hafi sóknaraðili haft af því áhyggjur að yrði farið að ráðstöfunum og úrskurði varnaraðila leiddi það til þess að drengurinn missti af reglulegum biblíutímum á internetinu, þ.e. á föstudögum og mánudögum. Vísar sóknaraðili til þess að það sé henni mikilvægt að kenna drengnum kristileg gildi, enda sé hún mjög trúuð kona. Aukinheldur byggir sóknaraðili á því að það sé ekki drengnum C fyrir bestu, og þá ekki yngri bróður hans, að hann sé vistaður utan heimilis og gangi þar af leiðandi í annan skóla fjarri heimili fjölskyldunnar.

Sóknaraðili byggir á því og áréttar, að gögn málsins sýni í raun að stuðningsúrræði hafi ekki verið reynd til hlítar. Þannig hafi hana fyrst og fremst skort stuðning til þess að skapa syni sínum viðunandi uppeldisskilyrði og hafi varnaraðili átt að reyna slíkt til hlítar áður en gripið var til svo viðurhlutamikils úrræðis að vista drenginn utan heimilis hennar. Hún byggi og á því að það séu hagsmunir drengsins, sbr. fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaganna, að hann þurfi ekki að upplifa óþarfa röskun í lífi sínu. Þá sé hagsmunum hans best borgið með því að dvelja hjá henni og yngri bróður sínum, og á heimili þeirra. Sóknaraðili mótmælir því að ráðstafanir varnaraðila samkvæmt nefndum úrskurði hafi verið nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi C, enda sé hann öruggur heima hjá sér.

Sóknaraðili byggir á því að allt framangreint sýni að ógilda beri úrskurð barnaverndar [...] um vistun drengsins C utan heimilis samkvæmt ákvæði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili sé bundinn af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 38. gr. barnaverndarlaga. Hún byggir á því að í því felist að barnaverndarnefnd beri aðeins að taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Hún byggir á því að brot á meðalhófsreglu við töku ákvarðana leiði og til þess að þær séu ógildanlegar.

Sóknaraðili krefst þess í málatilbúnaði sínum og þá aðallega að úrskurður barnaverndar varnaraaðila um vistun sonar hennar, C, utan heimilis verði ógiltur, en til vara að hann vari skemur en þar er kveðið á um, þ.e. upphaflega í tvo mánuði, en samkvæmt greinargerð varnaraðila í allt að tólf mánuði. Sóknaraðili byggir á því að svo löng vistun valdi syni hennar röskun og að þannig sé hagsmunum hans ekki best borgið og valdi honum þvert á móti óþarfa raski. Hún bendir á að úrskurður varnaraðila hafi þegar leitt til þess að sonur hennar hafi verið látinn skipta um skóla og því búi hann nú fjarri vinum sínum og heimili ásamt því að þurfa að aðlagast nýjum skóla. Byggir sóknaraðili á því að með þessum ráðstöfunum hafi varnaraðili ekki gætt meðalhófs, þ.e. við töku ákvörðunar um vistun drengsins á fósturheimili á vegum barnaverndarnefndar.

Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaganna eigi hagsmunir barna ávallt að vera í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda og að enn fremur beri að gæta þess eftir föngum að hin almennu úrræði og þau vægustu séu reynd til stuðnings barni og fjölskyldum áður en gripið sé til annarra úrræða. Hún bendir á að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, eigi það sem sé barni fyrir bestu ávallt að hafa forgang, m.a. þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varða börn, sbr. að því leyti fyrrgreint ákvæði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaganna. Vegna þessa alls áréttar sóknaraðili að aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Sóknaraðili byggir á því að í þessum grundvallarreglum felist m.a. að stjórnvaldi beri að velja það úrræði sem vægast geti talist standi fleiri en eitt úrræði til boða, þjóni það því markmiði sem að sé stefnt.

Að öllu framangreindu virtu byggir sóknaraðili á því að lagaskilyrði hafi ekki verið fyrir hendi þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp.

Að því er lagarök varðar byggir sóknaraðili aðal- og varakröfur sínar á barnaverndarlögum nr. 80/2002, aðallega 24.-28. gr., 38. gr. og 41. gr., á stjórnsýslulögum nr. 37/1993, aðallega 11. og 12. gr. Hún vísar einnig til 71. gr. stjórnarskrárinnar, laga um um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013, laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa sóknaraðila um málskostnað styðst aðallega við 60. og 61. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

V.

Varnaraðili hafnar staðhæfingum sóknaraðila um að úrskurður hans standist ekki að formi til, og að hann stríði gegn reglum um rannsóknarskyldu stjórnvalds, hlutlægnisskyldu og meðalhóf. Varnaraðili byggir enn fremur á því að mál drengsins C hafi verið nægjanlega upplýst áður en úrskurðurinn var kveðinn upp.

Varnaraðili vísar til málavaxtalýsingar hér að framan, sbr. I. kafla, og byggir á því að uppfyllt séu skilyrði 27. gr., sbr. 26. gr., barnaverndarlaga um að brýnir hagsmunir mæli með því að fallist verði á kröfu hans um töku drengsins af heimili sóknaraðila og vistun utan þess. Varnaraðili byggir á því að eins og málum var komið hafi honum verið skylt að beita ráðstöfunum sem í raun var gripið til, enda hafi mátt ætla að þær hafi verið drengnum C fyrir bestu, en með því móti hafi hagsmunir hans verið hafðir í fyrirrúmi sbr. ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaganna. Önnur og vægari úrræði hafi verið ófullnægjandi. Varnaraðili byggir á því að málið hafi verið kannað vel og teljist hafa verið nægjanlega upplýst, sbr. 1. mgr. 41. gr. nefndra barnaverndarlaga, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Varnaraðili kveðst í máli þessu og þá í ljósi alls ofangreinds, sbr. áðurnefnd ákvæði barnaverndarlaganna, en einkum 1. mgr. 1. gr., 2. gr. og 1. mgr. 4. gr., svo og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, krefjast þess að dómurinn úrskurði að drengurinn C skuli vistaður utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar hans, þann 14. janúar sl., sbr. ákvæði 28. gr. barnaverndarlaganna.

Varnaraðili vísar til þess og áréttar að starfsmenn barnaverndar hafi sinnt miklu eftirliti með sóknaraðila og drengjum hennar, en þá sérstaklega frá því að eldri drengurinn, C, snéri aftur á heimili fjölskyldunnar á [...] haustið 2018, eftir hinar fyrstu aðgerðir barnaverndarnefndar. Hafi starfsmaður barnaverndar þannig hitt drenginn reglulega í skóla, en að auki hafi öll fjölskylda hans verið í fjölskylduráðgjöf og þá í þeim tilgangi að bæta tengsl þeirra innbyrðis og þá einnig til þess að efla foreldrahæfni sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til gagna málsins ofangreindu til staðfestu og þá ekki síst til þeirra áætlana sem gerðar hafi verið um málefni C samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaganna. Hann bendir á að auk þessa hafi drengnum verið skipaður sérstakur talsmaður.   

Varnaraðili bendir á og áréttar að drengurinn C hafi áður verið færður af heimili sóknaraðila, líkt og rakið hafi verið í I. kafla hér að framan, en það hafi í fyrstu verið gert með neyðarvistun, en síðan samkvæmt samþykki sóknaraðila. Þá hafi starfsmaður barnaverndar reynt að útvega drengnum stuðningsfjölskyldu og tilsjón inn á heimili hans, en það hafi ekki gengið sem skyldi.

Varnaraðili bendir á að auk lýstra aðgerða hafi starfsmenn barnaverndar ítrekað farið í útköll á heimili fjölskyldu sóknaraðila, en það hafi verið mat þeirra að hún gerði sér illa grein fyrir þeirri íhlutun. Að auki hafi starfsmennirnir mikið verið inni á heimili fjölskyldunnar og sinnt þar bæði boðuðu og óboðuðu eftirliti. Varnaraðili vísar til þess að heimsóknir þessar hafi varpað ljósi á þær aðstæður sem synir sóknaraðila hafi búið við, en í því sambandi bendir hann á að oftar en einu sinni hafi það komið fyrir, og þá um hádegisbilið, að öll fjölskyldan hafi verið sofandi. Vísar varnaraðili til þess að drengurinn C hafi gefið þær skýringar að hann og yngri bróðirinn færu seint að sofa og þá eftir miðnættið. Auk þess hafi starfsmaður barnaverndar orðið vitni að því að drengirnir fengju ekki fullnægjandi fæði. Loks hafi komið í ljós að áhorf sóknaraðila á messur á samskiptamiðlum hafi verið mikið, en í samtölum við starfsmenn barnaverndar hafi það og komið skýrt fram að hún beiti trúnni af mikilli sannfæringu og þá oft þannig að hún taki ekki tali. Í þessu viðfangi staðhæfir varnaraðili að starfsmenn barnaverndar telji sig hafa sýnt sóknaraðila mikinn skilning og þá vegna menningar hennar, en einnig fortíð og uppruna.

Varnaraðili byggir á því að þrátt fyrir að sóknaraðili hafi fengið umtalsverða uppeldisráðgjöf, bæði í gegnum félagsþjónustu og barnavernd, hafi hún skilað litlum sem engum árangri. Vegna þess hafi verið dregið í efa að sóknaraðili hefði færni til þess að tileinka sér það sem er lagt upp með og þá til þess að efla foreldrahæfni hennar. Af þeim sökum hafi verið óskað eftir fyrrnefndu og áðurröktu forsjárhæfnismati sálfræðings.

Varnaraðili vísar til og byggir á niðurstöðum áðurrakins forsjárhæfnismats sóknaraðila. Hann áréttar m.a. efnisatriði matsins, þar á meðal að drengurinn C hafi sýnt hegðunar- og tilfinningavanda í skóla og heima fyrir, að hann hafi kunngjört um andlegt og líkamlegt ofbeldi sem hann hafi sætt af hálfu sóknaraðila, sem og um vanrækslu á ýmsum þáttum í eigin uppeldi. Varnaraðili bendir á að í matinu komi það m.a. fram að málið sé alvarlegt og lýsi lengri tíma vanda og að vanræksla sóknaraðila á drengjunum taki til flestra þátta í daglegu lífi þeirra. Jafnframt vísaði varnaraðili til áðurrakinnar greinargerðar varnaraðila og þá um hagi drengsins B.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki styrkt drengina, ekki sinnt skólanámi þeirra, en einnig einangrað þá markvisst. Þá hafi sóknaraðili notið mikils stuðnings með það að markmiði að bæta hæfni hennar, en án þess að það hafi gengið eftir. Óverulegar breytingar hafi orðið, ef einhverjar, og því sé málið alvarlegra en að hægt sé að skýra það allt út frá menningarmun. Varnaraðili vísar að öðru leyti á einstök atriði í áðurröktu forsjárhæfnismati sálfræðings um sóknaraðila og þá einnig um áhrif þeirra á líf drengsins C, en einnig á líf yngri bróður hans og gerir hann niðurstöður matsins að sínum. Við flutning vísaði varnaraðili enn fremur á að matsmaðurinn hefði ekki lagt til að beitt yrði frekari stuðningsúrræðum þar sem það þjónaði ekki hagsmunum drengsins C að vera lengur á heimili sóknaraðila. Í því viðfangi vísaði hann jafnframt til þess að drengurinn hefði lýst því yfir að vilji hans stæði ekki til þess að búa áfram hjá sóknaraðila. Í því samhengi benti varnaraðili á að drengurinn eigi mikla áfallasögu að baki og þurfi nauðsynlega að komast í langtímafóstur þar sem hann fái ást og umhyggju og stuðning til að þroskast.

Varnaraðili byggir enn fremur á því að nefnd gögn sýni að sóknaraðili hafi ekki verið til fullrar samvinnu og með mati matsmanns sé sýnt að hún vilji ekki aðstoð, utan þess að koma drengjunum í skóla.

Varnaraðili byggir loks á því að þau úrræði og stuðningsaðgerðir sem hann hafi gripið til hafi ekki skilað tilætluðum árangri og að ekki hafi annað verið tækt, miðað við aðstæður, en að grípa til þeirra aðgerða sem raunin varð á, en ekki til að mynda vægari úrræða. Varnaraðili staðhæfir að í raun bendi fyrrgreint forsjárhæfnismat frekar til þess að forsendur séu til þess að krefjast forsjársviptingar drengsins C, en einnig gagnvart yngri bróður hans, og þar með að beita enn frekari íþyngjandi aðferðum en vistun drengjanna utan heimilis. Varnaraðili vísar til þess að á nefndum tímapunkti og með meðalhóf að leiðarljósi hafi hann þó afráðið að ganga ekki svo langt, enda hafi verið talið að ekki væri fullreynt hvort einhverjar breytingar verði á stöðu og högum sóknaraðila meðan á tímabundinni vistun drengsins C og eftir atvikum yngri bróður hans standa yfir. Varnaraðili byggir á því að þannig megi ljóst vera að hann hafi síst gengið of langt í kröfugerð sinni í máli þessu. Það sé og mat hans að engin rök standi til þess að marka vistun C skemmri tíma en tólf mánuði, líkt og hann hafi farið fram á í greinargerð.

 

Um lagarök vísar varnaraðili til XI. kafla barnaverndarlaganna nr. 80/2002, að því er varðar meðferð máls, sbr. einkum 61. gr., en að því er varðar varnarþing vísar hann til V. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 32. gr., og um aðild vísar hann til 2. mgr. 62. gr. barnaverndarlaga.

Að því er varðar kröfuna um vistun drengsins C utan heimilis sóknaraðila vísar varnaraðili til 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, sbr. 26. og 27. grein sömu laga, en einnig vísar hann til 1. mgr. og 2. mgr. 1. gr. og 2. gr. og 1. mgr. 4. gr. laganna svo og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og loks til 1. mgr. 3. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. 2. gr. laga nr. 19/2013.

 

VI.

Með heimild í 2. mgr. 63. gr. a í lögum nr. 80/2002 um barnavernd ákvað dómari að gefa syni sóknaraðila, C, kost á því að tjá sig um ákvörðun varnaraðila um nefnda vistunarráðstöfun. Viðtalið fór fram 22. febrúar sl. en 27. sama mánaðar greindi dómari á dómþingi frá því helsta sem fram hafði komið hjá drengnum og þá m.a. um það að vilji hans stæði ekki til þess að dvelja hjá móður sinni, sóknaraðila máls þessa.

 

VII.

Fyrir flutning málsins staðfesti E sálfræðingur fyrir dómi áðurrakta matsskýrslu.

Líkt og hér að framan hefur verið rakið varðar mál þetta gildi úrskurðar varnaraðila um hvort vista eigi son sóknaraðila, C, sem nú er á […] ári, utan heimilis hennar í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, og samkvæmt hinni endanlegu kröfu í greinargerð varnaraðila hvort fallast beri á kröfu varnaraðila um að drengurinn verði vistaður utan heimilisins í samtals 12 mánuði frá 14. janúar 2019 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga.

 

Samkvæmt framansögðu hafa málefni drengsins C verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd varnaraðila í fáein misseri, en helst virðist mega rekja upphafið til þess er tilkynning barst um aðbúnað drengsins og vansæld, en einnig yngri bróður hans, þann 6. mars 2018. Liggur fyrir að nokkru áður, eða […], hafði málefni sóknaraðila og nefndra sona hennar komið til meðferðar hjá félagsþjónustu varnaraðila vegna flutnings þeirra í sveitarfélagið og þá frá […].

Ráðið verður af gögnum að fljótlega eftir að nefnd tilkynning barst barnaverndarnefndinni hafi áhyggjur starfsmanna hennar farið að snúast um almennan aðbúnað drengjanna og þá m.a. varðandi mætingar í grunnskólum sveitarfélagsins. Á hinn bóginn liggur fyrir að næstu misserin virðist nær allt […] hafa komið að málefnum sóknaraðila og þá þannig að henni og sonum hennar var veittur margvíslegur stuðningur, og hafi þá ekki síst verið um að ræða úrræði sem beindust að því að styrkja sóknaraðila í foreldrahlutverkinu.

Fyrir liggur að sérfróðir starfsmenn varnaraðila mæltust til þess haustið 2018, með rökstuddri tillögugerð, að drengurinn C færi tímabundið í bráðbirgðavistun á fósturheimili og þá vegna óviðunandi aðbúnaðar hans hjá sóknaraðila. Liggur fyrir að þetta gekk eftir og að nokkru leyti í samvinnu við sóknaraðila. Óumdeilt er að þegar vistun drengsins lauk var af hálfu starfsmanna varnaraðila ráðist í frekari stuðningsaðgerðir gagnvart sóknaraðila og vegna hagsmuna nefnds drengs, C, en einnig vegna yngri sonar sóknaraðila, og þá m.a. í samræmi við ítrekaðar og undirritaðar áætlanir samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Af þessu tilefni var einnig, í lok árs 2018, lagt fyrir sóknaraðila að gangast undir forsjárhæfnismat, og gekk það eftir.

Það var niðurstaða sérfróðs matsmanns samkvæmt staðfestri skýrslu, dagsettri 1. febrúar 2019, að sóknaraðili sé ekki hæf til þess að axla ábyrgð sem forsjáraðili drengsins C, og að utanaðkomandi og fekari stuðningsaðgerðir nægi ekki til að breyta því.

Eins og fyrr sagði var úrskurður varnaraðila um fósturráðstöfun drengsins C kveðinn upp 14. janúar sl. Til grundvallar úrskurðinum voru allviðamikil gögn um drenginn, en einnig um yngri bróður hans og um aðstæður þeirra og aðbúnað á heimili sóknaraðila. Að auki lágu þar til grundvallar nýlegt mat og gögn sérfróðra starfsmanna skólastofnunar drengsins, greinargerðir sérfróðra starfsmanna varnaraðila, sem m.a. hafa haft samstarf við aðra sérfræðinga, sem fjallað höfðu um málefni fjölskyldu hans.

Við meðferð málsins hjá varnaraðila var sóknaraðila m.a. veittur andmælaréttur, sem hún nýtti með aðstoð lögmanns síns.

Það er niðurstaða dómsins að ofangreindu virtu að við undirbúning ákvörðunar og síðar úrskurðar varnaraðila, þann 14. janúar sl., hafi verið farið að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er málsástæðum sóknaraðila þar um hafnað.

 

Fram er komið að eftir flutning sóknaraðila til [...]. Hélt hún þar heimili ásamt sonum sínum tveimur, og þar á meðal drengnum B. Eins og hér að framan var rakið benda gögn málsins, eðli málsins samkvæmt, til að sóknaraðili hafi strax frá upphafi búsetu sinnar í nefndu sveitarfélagi fengið víðtækan stuðning hjá félagsmálayfirvöldum. Einnig verður af framlögðum gögnum ráðið að á vegum skólayfirvalda hafi sérstaklega verið hugað að komu nefnds drengs í grunnskóla […]. […].

 

Fyrir liggur að barnaverndarnefnd varnaraðila greip til ráðstafana vegna aðstæðna drengsins C haustið 2018. Var þar um að ræða neyðarvistun utan heimilis sóknaraðila í fimm vikur á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, nánar tiltekið þann 13. september 2018. Til grundvallar þessari ráðstöfun lágu m.a. tilkynningar frá grunnskóla drengsins, en einnig skýrslur og dagálar starfsmanna varnaraðila.

Samkvæmt gögnum liggur fyrir að eftir að nefndri neyðarvist lauk var mjög aukið við eftirlit með heimili og aðstæðum drengsins C á vegum varnaraðila. Liggja þannig fyrir í málinu fjöldi dagaála, en einnig greinargerðir fjölskylduráðgjafa og félagsráðgjafa auk greinargerða starfsmanna varnaraðila, og áætlana, sbr. ákvæði 23. gr. barnaverndarlaga.

Það var niðurstaða nefnds sálfræðings, sem gerði ítarlegt forsjárhæfnismat á sóknaraðila, að ofangreindar stuðningsaðgerðir, sem m.a. var beint að henni, en einnig sonum hennar, að þær hafi ekki dugað. Hafi þar helst komið til vangeta sóknaraðila, ásamt úthalds- og úrræðaleysi hennar. Af þessum sökum hafi árangur verið óviðunandi. Það er líka niðurstaða sálfræðingsins, sem staðfest var fyrir dómi, að vegna nefndrar vangetu sóknaraðila hafi skólastarf drengsins C ekki gengið sem skyldi, en að auki hafi hann orðið félagslega einangraður og vansæll.

 

Af gögnum verður ráðið að C sé í mjög viðkvæmri stöðu og þá m.a. vegna aðstæðna sem hann hefur að líkindum búið við á yngri árum. Þá er til þess að líta að tengsl hans við sóknaraðila virðast alls ekki vera sem skyldi. Áðurlýstur vilji drengsins, m.a. í viðtali hans hjá dómara, um að fá að dvelja utan heimilis sóknaraðila ræður ekki úrslitum eins og hér stendur á, en þó ber ekki með öllu í ljósi aldurs hans að horfa fram hjá viðhorfum hans og þá m.a. um búsetu.

Að öllu framangreindu virtu, og þegar litið er til þeirra ríku hagsmuna sem í húfi eru og hvað ætla megi að drengnum C sé fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, eru að áliti dómsins skilyrði til, samkvæmt b-lið 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr., sömu laga, að fallast á kröfu varnaraðila um að vista hann utan heimilis sóknaraðila. Þá er fallist á það mat varnaraðila að vistunin standi í tólf mánuði, frá 14. janúar 2019 að telja, og þá þannig að tími vinnist til að veita sóknaraðila nægilegan og viðunandi stuðning þannig að aðstæður verði fullnægjandi fyrir drenginn.

Samkvæmt ofansögðu, en að öðru leyti með hliðsjón af röksemdum varnaraðila, er hafnað kröfu sóknaraðila um að felldur verði úr gildi hinn kærði úrskurður frá 14. janúar sl.

Sóknaraðili fékk gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmálaráðherra, dagsettu 18. febrúar sl.

 

Rétt þykir eftir atvikum að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og í úrskurðarorði greinir, en ekki er þar tekið tillit til virðisaukaskatts.

Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar B, frá 14. janúar 2019, verði felldur úr gildi.

Fallist er á kröfu varnaraðila um að drengurinn C verði vistaður utan heimilis sóknaraðila í samtals tólf mánuði frá 14. janúar 2019 að telja.

Gjafsóknarkostnaður A, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Evu Dóru Kolbrúnardóttur, 939.114 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

--------------------------------

[Úrskurður Landsréttar í máli nr. 235/2019]