• Lykilorð:
  • Skilorð
  • Skilorðsrof
  • Þjófnaður

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 20. nóvember 2018 í máli nr. S-36/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 Gauti Inga Ingimarssyni

 (Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

 og

 Ingva Ólafi Ingvasyni

 (Sjálfur)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 30. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 26. september sl., á hendur Gauti Inga Ingimarssyni, kennitala […], […], […], og Ingva Ólafi Ingvasyni, kennitala […], […], […];

            „fyrir hegningarlagabrot sem framin voru í félagi, í sumarbústaðabyggð að […] á […], dagana 20. til 22. júní 2018.

 

I.

            Fyrir þjófnað, með því að hafa þann 20. júní, í heimildarleysi, brotist inn í sumarbústaðinn „[…]“, ([…] nr. […]), með því að brjóta upp læst lyklabox sem fest var á vegg hússins og nota svo lykil sem var í lyklaboxinu til að opna útidyr hússins og stolið þaðan 50“ LCD sjónvarpstæki, 40“ LCD sjónvarpstæki, geislaspilara, hljómflutningstækjum, ýmsum búnaði tengdum sjónvarpstækjum, kaffivél, hraðsuðukatli, hárþurrku, blandara, handþeytara og samlokujárni.

 

II.

            Fyrir þjófnað, með því að hafa þann 22. júní, í heimildarleysi, brotist inn í sumarbústað nr. […], ([…] nr. […]), með því að klifra upp í opinn glugga á annari hæð hússins og fara þar inn og einnig inn í læstan skúr á lóð hússins og stolið þaðan miklu magni af ýmisskonar trésmíðaverkfærum, samtals að áætluðu verðmæti kr. 600.000.

 

III.

            Fyrir þjófnað, með því að hafa þann 22. júní, í heimildarleysi, brotist inn í sumarbústaðinn „[…]“, ([…] nr. […]), með því að brjóta upp læst lyklabox sem fest var á vegg hússins og nota svo lykil sem var í lyklaboxinu til að opna útidyr hússins og stolið þaðan 40“ LED sjónvarpstæki og router (beinir).

            Samtals andvirði þýfis skv. ákærulið I og III er áætlað kr. 300.000.

 

            Telst þetta varða  við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Ákærði Ingvi Ólafur krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

            Skipaður verjandi ákærða Gauts Inga krefst vægustu refsingar honum til handa. Þá krefst verjandinn hæfilegrar málflutningsþóknunar og útlagðs kostnaðar.

 

A.

            Fyrir dómi hafa ákærðu skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og þeim er lýst í ákæru, I., II. og III. kafla.

            Játningar ákærðu eru í samræmi við rannsóknarskýrslur lögreglu, þ. á m. ljósmyndir og munaskýrslur svo og framburðarskýrslur ákærðu, sem teknar voru með hljóði og mynd. Að auki liggur fyrir að lögreglan lagði hald á þýfið og kom því til skila til eigenda eftir að þeir höfðu borið kennsl á einstaka muni.

            Með játningu ákærðu og með vísan til ofangreinds er eigi ástæða til að efa að játningar ákærðu séu sannleikanum samkvæmar. Er því nægjanlega sannað að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem í ákæru er lýst. Brot ákærðu eru réttilega heimfærð til laga í ákæruskjali.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

            Að ofangreindu virtu verða ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæruskjali.

 

B.

            Ákærði Gautur Ingi, sem er 33 ára, hefur samkvæmt sakavottorði sakaskrár ríkisins ekki áður hlotið refsingar sem áhrif hafa í máli þessu.

            Í máli þessu hefur ákærði Gautur Ingi gerst sekur um þau þjófnaðarbrot, sem lýst er í ákæru, en brotin framdi hann í félagi við meðákærða. Ber að ákvarða refsingu hans með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaganna. Til refsimildunar þykir mega líta til þess að hann játaði skýlaust sakargiftir fyrir dómi og lýsti yfir iðran, sbr. til hliðsjónar 5. tl. 1. mgr. 70. gr. nefndra laga.

            Að öllu ofangreindu virtu þykir refsing ákærða Gauts Inga hæfilega ákvörðuð fimm mánaða fangelsi, en eftir atvikum þykir fært að frest fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að tveimur árum liðnum frá dómsuppsögu, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

C.

            Ákærði Ingvi Ólafur, sem er 25 ára, hefur samkvæmt sakavottorði áður verið dæmdur til refsinga. Hann var þann 5. mars 2013 dæmdur í 45 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir þjófnað, eignspjöll, nytjastuld og umferðarlagabrot. Þann 30. september 2013 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir eignaspjöll, nytjastuld og umferðarlagabrot, en þau brot voru talin vera hegningarauki við fyrrnefndan dóm. Þá var hann dæmdur þann 17. janúar 2014 til greiðslu sektar og sviptur ökurétti vegna umferðarlagabrota, þ. á m. vegna ölvunaraksturs. Hann var þann 27. mars 2014 dæmdur til greiðslu sektar vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og þann 6. maí 2015 var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár vegna brota gegn 231. gr. almennra hegningarlaga og lögum um ávana- og fíkniefni. Var ákærði með þessum síðastgreindu brotum talinn hafa rofið skilorð fyrrnefndra dóma frá 30. september og 5. mars 2013. Þann 26. febrúar 2016 var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi, sem var skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, nánar tiltekið fyrir vörslur, framleiðslu og sölu í hagnaðarskyni á fíkniefnum, en fyrrnefndur dómur frá 6. maí 2015 var þá tekinn upp og dæmdur með, sbr. ákvæði 78. gr. og 60. gr. hegningarlaganna. Loks var hann þann 28. maí sl. dæmdur til að greiða sekt til ríkissjóðs fyrir minni háttar eignaspjöll.

            Í máli þessu hefur ákærði Ingvi Ólafur gerst sekur um þau þjófnaðarbrot, sem lýst er í ákæru. Brotin framdi hann í félagi við meðákærða og ber því að ákvarða refsing hans m.a. með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá ber með vísan til 60. gr. hegningarlaganna, þar sem um skilorðsrof er að ræða, að taka fyrrnefndan dóm frá 26. febrúar 2016 upp og dæma refsingu í einu lagi fyrir öll brotin eftir reglum 77. gr. sömu laga. Til refsimildunar þykir mega líta til þess að ákærði Ingvi Ólafur játaði skýlaust sakargiftir fyrir dómi og lýsti yfir iðran, sbr. til hliðsjónar 5. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna.

            Að öllu ofangreindu virtu þykir refsing ákærða Ingva Ólafs hæfilega ákvörðuð tíu mánaða fangelsi, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða Gaut Inga til að greiða málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns, hjá lögreglu og fyrir dómi, svo og ferðakostnað, eins og segir í dómsorði. Annar sakarkostnaður féll ekki til við málarekstur þennan samkvæmt yfirlýsingu sækjanda.

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

            Ákærði Ingvi Ólafur Ingvason sæti fangelsi í tíu mánuði.

            Ákærði Gautur Ingi Ingimarsson sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá dómsuppsögu að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði Gautur Ingi greiði skipuðum verjanda sínum, Gísla M. Auðbergssyni lögmanni, málflutningsþóknun, 316.200 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig ferðakostnað að fjárhæð 16.830 krónur.