• Lykilorð:
  • Gagnsök
  • Landamerki
  • Landamerkjamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 25. október 2017 í máli nr. E-66/2016:

Fjóla Gunnarsdóttir

(Stefán Þórarinn Ólafsson hrl.)

gegn

Sigurði Baldurssyni

(Jón Jónsson hrl.)

                                         og gagnsök

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 30. ágúst 2017, höfðaði Fjóla Gunnarsdóttir, Lækjarhvammi 20, Hafnarfirði, hinn 29. ágúst 2016, gegn Sigurði Baldurssyni, Sléttu, Fjarðabyggð. Málið var þingfest 6. september 2016. Stefndi (hér eftir nefndur gagnstefnandi) höfðaði gagnsök á hendur aðalstefnanda 3. október s.á.

            Í aðalsök krefst aðalstefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðarinnar Stuðla, landnr. 158209, og jarðarinnar Sléttu, landnr. 158204, verði sem hér segir: Frá vatnaskilum milli jarðanna Stuðla og Sléttu í punkt nr. 6, Skessugjá með hnit 722336,60m og 509433,58m, þaðan í punkt nr. 5, Skollaflöt með hnit 722133,08m og 509893,32m, þaðan í punkt nr. 4, Ystaforsgil með hnit 721841,96m og 510218,59m, þaðan í punkt nr. 3, vörðu með hnit 721798,96m og 510357,64m, þaðan í keldu í svokölluðum Bláarbakka með hnit 722060,69m og 510994,52m og þaðan í áframhaldandi beinni stefnu að landamerkjum gagnvart jörðinni Seljateig.

            Til vara gerir aðalstefnandi eftirfarandi dómkröfur varðandi merki milli jarðanna: Frá vatnaskilum milli jarðanna Stuðla og Sléttu í punkt nr. 6, Skessugjá með hnit 722336,60m og 509433,58m, þaðan í punkt nr. 5, Skollaflöt með hnit 722133,08m og 509893,32m, þaðan í punkt nr. 4, Ystaforsgil með hnit 721841,96m og 510218,59m, þaðan í punkt nr. 3, vörðu með hnit 721798,96m og 510357,64m, þaðan í punkt B samkvæmt samkomulagstillögu með hnit 721814,65m og 510587,42m, þaðan í punkt A með hnit 721980,06m og 511022,04m og  þaðan áfram beina stefnu að landamerkjum gagnvart jörðinni Seljateig.

            Gagnstefnandi krefst sýknu af dómkröfum í aðalsök.

            Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Sléttu, landnr. 158-204,  og Stuðla, landnr. 158-209, liggi frá vatnaskilum við Fáskrúðsfjörð um línu um hnitið LM7, 722191,0 – 508712,0 í Skessugjá, í hnit LM6, 721768,3 - 510459,1 í landamerkjavörðu neðan Ystafossgils og þaðan um línu sem liggur um hnit LM8, 721982,195 – 511020,1912, við skurðenda á Bláarbakka, og áfram í sömu stefnu að landamerkjum gagnvart Seljateigi.

            Til vara krefst gagnstefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Sléttu, landnr. 158-204, og Stuðla, landnr. 158-209, liggi frá vatnaskilum við Fáskrúðsfjörð um línu um hnit LM7, 722191,0 – 508712,0, í Skessugjá, í hnit Y3, 721892,46 - 509566,34, í gili í Skollaflöt, þaðan í hnit Y2, 721967,65 - 509929,04, efst í Ystafossgili, þaðan í hnit Y1, 721723,35 - 510230,01, neðst í Ystafossgili, þaðan í hnit LM6, 721768,3 - 510459,1, í landamerkjavörðu neðan Ystafossgils og þaðan um línu sem liggur um hnit LM8, 721982,195 – 511020,1912, við skurðenda á Bláarbakka, og áfram í sömu stefnu að landamerkjum gagnvart Seljateigi.

            Aðalstefnandi krefst sýknu af öllum dómkröfum í gagnsök.

            Báðir aðilar krefjast málskostnaðar úr hendi gagnaðila, bæði í aðalsök og gagnsök.

            Við aðalmeðferð málsins gengu dómari og lögmenn aðila á vettvang, ásamt gagnstefnanda, Sigurði Baldurssyni, Pétri Valdimarssyni, eiginmanni aðalstefnanda og Valdimari Péturssyni, syni aðalstefnanda. Að frumkvæði aðalstefnanda gekk einnig með á vettvang Páll Pálsson frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal.

 

I

Málsatvik

            Í máli þessu er deilt um landamerki milli jarðanna Sléttu og Stuðla sem liggja í sunnanverðum botni Reyðarfjarðar. Ágreiningslaust er að aðilar séu einu eigendur jarðanna, aðalstefnandi að Stuðlum, en gagnstefnandi að Sléttu, þótt vottorð úr þinglýsingabókum liggi ekki fyrir.

            Ágreiningur um landamerki milli jarðanna hefur áður verið til umfjöllunar fyrir dómstólum. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 13. september 2007 í máli nr. 611/2006 var staðfestur dómur Héraðsdóms Austurlands frá 10. júlí 2006 þar sem landamerki Stuðla gagnvart fleiri jörðum í botni Reyðarfjarðar, þar á meðal Sléttu, voru til umfjöllunar. Með dóminum fengust efnislegar lyktir um merki Stuðla gagnvart jörðunum Áreyjum og Grænafelli. Ekki fengust efnislegar lyktir um merki Stuðla gagnvart Sléttu annars vegar og gagnvart Seljateigi og Seljateigshjáleigu hins vegar, enda fór svo að sýknað var af kröfum eiganda Stuðla gagnvart eigendum þessara jarða, en gagnkröfum eigenda Sléttu og Seljateigshjáleigu var aftur á móti vísað frá dómi vegna réttarfarsannmarka.

            Eftir að dómur gekk í Hæstarétti munu sættir um merkin milli Sléttu og Stuðla hafa verið reyndar, án árangurs.

            Í málinu liggja fyrir landamerkjabréf fyrir Sléttu og Stuðla. Hið fyrrnefnda ber með sér að hafa verið undirritað að Sléttu 9. apríl 1884, en hið síðarnefnda að Stuðlum röskum mánuði síðar eða þann 10. maí 1884. Báðum bréfum var þinglýst á Eskifjarðarmanntalsþingi 18. maí 1885. Er óumdeilt að bréf Stuðla sé undirritað af þáverandi eiganda Stuðla og að það beri með sér að hafa verið samþykkt af þáverandi eigendum Sléttu. Að sama skapi er óumdeilt að bréf Sléttu hafi verið undirritað af þáverandi eigendum Sléttu og samþykkt af þáverandi eiganda Stuðla.

            Í bréfi Stuðla er þeim hluta merkja jarðarinnar sem um er deilt í þessu máli lýst svo: „Landamerki jarðarinnar Stuðla innan Hólmasóknar í Suður-Múlasýslu byrja milli Sléttu og Stuðla við Fagradalsá er nú rennur til suðurs um svonefnda Illueyri hér um bil á hinum fornu landamærum. Frá ánni liggja landamærin í keldu, sem er í svokölluðum Bláarbakka, úr keldunni í landamerkjaræsi, þaðan beina leið í vörðu sem hlaðin er í urð þeirri, er liggur niður úr næstu gjótu, öðru nafni Ystaforsgil. Úr vörðunni liggja þau þvert upp gjótuna og í gilið í Skollaflöt og í Skessugjá og þaðan á fjall upp unz vötnum hallar til Fáskrúðsfjarðar, [...]“.

            Í bréfi Sléttu er merkjum á móti Stuðlum lýst svo: „Á milli Stuðla og Sléttu úr Skessugjá í Skollaflöt úr Skollaflöt í Ystafossgil, þaðan í vörðu þá er hlaðin er niður úr þessu gili, úr vörðu þessari beina leið í landamerkjaræsi, er liggur í keldu, en þessi kelda er í svokölluðum Bláarbakka.“

            Ágreiningur aðila lýtur einkum að staðsetningu kennileita samkvæmt landamerkjabréfunum. Nánar tiltekið er deilt um staðsetningu kennileitanna Skessugjár, Skollaflatar (og gils í Skollaflöt) og Ystaforsgils (Ystafossgils). Einnig er deilt um staðsetningu vörðu sem getið er í báðum landamerkjabréfum, en stefnandi dregur í efa að sú varða sem gagnstefnandi bendir á sé rétta varðan og telur að hafi varða á annað borð verið reist þá sé hún nú horfin. Þá er deilt um staðsetningu kennileitisins keldu í Bláarbakka. Gagnstefnandi byggir á því að keldan sem vísað er til í báðum landamerkjabréfunum sé horfin og að Bláarbakkinn hafi færst verulega til suðurs vegna ágangs Sléttuár (einnig nefnd Fagradalsá). Á árinu 1884 hafi áin runnið mun norðar eða nálægt því svæði þar sem þjóðvegur 92 um Fagradal liggi nú.

            Hvorugur aðila byggir kröfur sínar á kennileitinu „landamerkjaræsi“ sem kemur fyrir í báðum landamerkjabréfunum. Þess skal getið að í héraðsdómi sem staðfestur var með nefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 611/2006 er þessu kennileiti lýst með orðinu „landamerkjaós“.

            Í stefnu í aðalsök er bent á að samkvæmt aðalkröfu aðalstefnanda skerist vestasti hluti af túnum sem nýtt hafi verið af eiganda Sléttu. Ástæða þess að tún gagnstefnanda séu að hluta til á landi aðalstefnanda sé sú að faðir gagnstefnanda, Baldur Einarsson, og móðir aðalstefnanda, Margrét S. Friðriksdóttir, hafi gert með sér munnlegan samning um það að eigandi Sléttu mætti nýta tún og land austast á Stuðlum gegn því að sjá alfarið um fjallskil fyrir Stuðla. Samningur þessi hafi verið gerður upp úr 1960 og um 1978 hafi eigandi Sléttu fengið leyfi til þess að grafa skurð til að þurrka upp land sem hafi verið of blautt fyrir tún. Eigandi Sléttu hafi virt samninginn fram til þessa og séð um fjallskil fyrir jörðina Stuðla. Þannig sé til staðar samningur sem aðilar hafi virt allt til þessa og því útilokað fyrir stefnda að vinna hefð á landi vegna nýtingar þess skv. samningnum. Í greinargerð gagnstefnanda í aðalsök er þessari lýsingu málsatvika mótmælt, eins og nánar verður vikið að í kafla um málsástæður hans.

            Við aðalmeðferð málsins gaf gagnstefnandi aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni Pétur Valdimarsson, eiginmaður aðalstefnanda, Sigurjón Kristinn Baldursson, bróðir gagnstefnanda, Sigurgeir Skúlason landfræðingur, Páll Pálsson frá Aðalbóli, Björn Grétar Eiríksson, Gunnar Hjaltason, Þórir G. Björnsson, Þóroddur Helgason og Sigurbjörn Marinósson. Verður vikið að framburði vitna eftir því sem þurfa þykir í niðurstöðukafla dómsins.

             

II

Málsástæður aðalstefnanda (eiganda Stuðla).

            Í aðalsök kveðst aðalstefnandi byggja kröfur sínar á óumdeildum þinglýstum landamerkjabréfum báðum megin frá og að kennileitin sem talin séu í landamerkjabréfunum séu á þeim stöðum sem krafa þeirra nái til. Tekur aðalstefnandi fram í málavaxtalýsingu sinni að uppdráttur hnitsettrar kröfulínu hans á loftmynd, sem unnin hafi verið af Sigurgeiri Skúlasyni landfræðingi á árinu 2016, samræmist lýsingu landamerkjabréfanna. Þá kveðst aðalstefnandi byggja varakröfu sína á tillögu sem hafi verið undirrituð árið 2000 til að forðast málaferli vegna merkjanna. Í málavaxtalýsingu er þar vísað til loftmyndar á dskj. nr. 22 þar sem dregnar eru merkjalínur á láglendi, en loftmyndin er árituð um samþykki eigenda Sléttu og Stuðla.

            Aðalstefnandi kveðst byggja á því að venja sé til að við setningu og gerð landamerkja skuli miða við beinar línur milli tveggja punkta nema annars sé getið. Þá styðji örnefnaskrár dómkröfur aðalstefnanda og auk þess séu vatnaskil í beinu og eðlilegu framhaldi af þeim.

            Í greinargerð aðalstefnanda í gagnsök kemur fram að byggt sé á þinglýstum landamerkjabréfum fyrir Sléttu og Stuðla og að þessi bréf lýsi landamerkjum jarðanna. Hið yngra landamerkjabréf Stuðla, frá 10. maí 1884, gangi framar eldra bréfi Sléttu, frá 9. apríl 1884, sé um ósamræmi að ræða.

            Aðalstefnandi byggi á því að kort á dómskjali nr. 7 lýsi réttum merkjum jarðanna. Ekki sé tekin afstaða til þess hvar þær kröfulínur liggi í aðliggjandi jarðir.  Byggt sé á því að Skessugjá sé gjá við afar áberandi klettadrang og að gjá sú sem gagnstefnandi byggi á hafi aldrei verið kölluð Skessugjá. Við framkvæmdir í þeirri gjá sem gagnstefnandi byggi á að sé hin rétta hafi eingöngu verið haft samband og samráð við eigendur Stuðla og hafi eigandi Sléttu engar athugasemdir gert við það á sínum tíma, líklega vegna þess að litið hafi verið svo á að það landsvæði væri hluti af Stuðlalandi. Í landamerkjabréfi Stuðla sé gilið í Skollaflöt næsti punktur við Skessugjá. Þetta gil sé mjög greinilegt þegar komið sé upp á fjallsbrún fyrir ofan Ystaforsgil sem sé hið ysta eða austasta og þar með næst sjó af fjórum giljum sem þarna nái upp á brún fjallsins. Gilið í Skollaflöt sé með stefnu á Skessuna sem einnig sé mjög greinileg ofar í fjallinu. Austan gilsins sé Nónmýri sem sé í Sléttulandi. Gilið í Skollaflöt sé mjög greinilegt á loftmynd á dómskjali nr. 6. Ystaforsgili sé lýst inn og upp af Hamarsenda og passi það vel við það gil sem gagnstefndi vilji miða við. Varðandi markalínu neðan Ystaforsgils og í keldu í Bláarbakka er ítrekað að samkomulag hafi verið gert um skurðinn sem hafi verið nokkuð vestan raunverulegra landamerkja jarðanna Stuðla og Sléttu.

 

III

Málsástæður gagnstefnanda (eiganda Sléttu).

            Hér verða málsástæðum gagnstefnanda lýst eins og þær eru raktar í gagnstefnu, en sú lýsing er nánast samhljóða lýsingu málsástæðna í greinargerð hans í aðalsök.

            Gagnstefnandi kveðst byggja á því að landamerkjabréf fyrir Sléttu og Stuðla frá 1884 lýsi merkjum jarðanna með réttum hætti. Um gildi landamerkjabréfanna sé vísað til landamerkjalaga nr. 41/1919, einkum 1. og 2. gr. laganna, auk eldri landamerkjalöggjafar.

            Gagnstefnandi byggi á því að landamerkjabréfin lýsi sömu merkjum, þótt orðalag og átt rakningar landamerkjalínu sé mismunandi. Gagnstefnandi telji eina álitamál um skýringu landamerkjabréfanna varða það hvort landamerkjalína skuli brotin um kennileitin Ystafossgil, Skollaflöt og Gilið, eða fara eftir beinni línu sem liggi um kennileitin. Aðalkrafa gagnstefnanda hvíli á því að landamerki skuli ráðast af sem lengstum óbrotnum línum. Hvíli sá skilningur sérstaklega á orðalagi landamerkjabréfs Stuðla.

            Dómkrafa gagnstefnanda í gagnsök hvíli á því að merkjalínu milli lands Stuðla og Sléttu sé lýst, en ekki sé tekin afstaða til þess hvar hún liggi í aðliggjandi jarðir. Á korti á dskj. 24 sé gerð grein fyrir legu landamerkjalínunnar í stefnu að vatnaskilum við Fáskrúðsfjörð og stefnu yfir Sléttuá og í átt að landi Seljateigs.

            Ágreiningur málsins varði staðsetningu kennileita. Kennileiti sem landamerkjabréf vísi til séu Skessugjá, Skollaflöt, Gilið í Skollaflöt, Ystafossgil, landamerkjavarða í urð neðan Ystafossgils og kelda við Bláarbakka.

            Gagnstefnandi byggi á því að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 611/2016 felist rökstuðningur þar sem sjónarmiðum aðalstefnanda um legu kennileitanna Skessugjár, Skollaflatar, Ystafossgils og Bláarbakka hafi verið hafnað. Samanburð á staðsetningu dómkrafna þess máls og máls þessa megi sjá með samanburði á dskj. 15 og dskj. 24. Byggt sé á því að þótt staðsetningu hnita hafi verið lítillega breytt af aðalstefnanda, liggi fyrir niðurstaða Hæstaréttar um að sjónarmið aðalstefnanda um landamerki standist ekki. Héraðsdómur sé bundinn af niðurstöðu Hæstaréttar.

            Landamerki frá fjalli niður að landamerkjavörðu í urð neðan Ystafossgils.

            Gagnstefnandi byggi á því að landamerkin liggi um línu frá vatnaskilum um Skessugjá, sbr. hnit LM7, 722191,0 – 508712,0, miðað við efsta hluta Skessugjár, og í landamerkjavörðu í hnit LM6, 721768,3 - 510459,1. Þessi lína liggi um kennileitið Skollaflöt og þvert yfir Ystafossgil.

            Skessugjá sé stór gjá sem liggi í fjallið Skessu ofan Reyðarfjarðar. Mynd af gjánni komi fram á ljósmynd á dskj. 19. Í ágripi af landlýsingu Stuðla, frá árinu 1975, unninni af Hjalta Gunnarssyni, sé fjallað um landamerki Stuðla. Þar vísi frumrit til Stórugjár, sem virðist annað heiti gjárinnar og lýsi gjánni vel. Ekki sé um aðrar áberandi gjár í Skessunni að ræða sem nothæfar séu sem kennileiti fyrir landamerki. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 611/2006 komi fram að ekki þyki vera um að ræða gjá eða skarð í Skessunni við hnitið K, sbr. dskj. 15 í máli þessu. Hins vegar komi fram að glöggt megi greina gjá eða skarð á þeim stað sem gagnstefnandi hafi þá vísað til og geri enn í máli þessu.

            Kennileitið Skollaflöt liggi neðan Skessugjár og sé flatur bali. Þar nærri séu greni, sem Skollaflatar-nafnið vísi til. Um Skollaflötina liggi gilið, þ.e. grafningur, þar sem hnitið Y3 (721892,46 - 509566,34) í varakröfu sé sett niður. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 611/2006 hafi verið tekið fram að um væri að ræða slétta flöt eða bala neðan skarðsins sem gagnstefnandi hafi þá bent á og geri enn í máli þessu. Slíka flöt sé ekki hægt að greina nærri þeim stað sem aðalstefnandi hafi vísað á í málinu.

            Ystafossgil sé hið ysta þriggja glöggra gilja sem nái upp í fjallsbrúnina neðan Skollaflatar. Smærri gilskorningar séu neðar í fjallinu, en þrjú gilin séu mest áberandi og nái greinilega upp á fjallsbrúnina. Gilinu sé lýst inn og upp af Hamarsenda í dómi Hæstaréttar í máli nr. 611/2006, þar sem í niðurstöðukafla héraðsdóms sé vísað til vitnisins Þóris Gíslasonar. Jafnframt að gilið væri upp af skurði sem þarna væri grafinn, en þó aðeins vestan við hann.

            Staðsetning Ystafossgils verði einnig greind af því að landamerkjabréf vísi til þess að varða sé hlaðin í urð neðan gilsins. Á loftmynd sjáist glögglega hvernig framburður úr gilinu myndi keilulaga urð.

            Gagnstefnandi byggi á því að varða, eða vörðubrot við hnit LM6 (721768,3 - 510459,1) sé varða sem landamerkjabréf Stuðla og Sléttu vísi til. Varðan sé staðsett í urð neðan Ystafossgils. Varðan sé í beinni stefnu við skurð sem grafinn hafi verið á landamerkjum um árið 1970. Í dómi Hæstaréttar, sbr. staðfestan héraðsdóm, komi fram að við skoðun á vettvangi hafi mátt sjá hlaðna vörðu á þeim stað sem merktur hefur verið L5 á dskj. 31, sbr. nú dskj. 21. Það sé sama hnit og krafa gagnstefnanda byggist á.

            Landamerki frá landamerkjavörðu og yfir Sléttuá.

            Gagnstefnandi byggi á því að frá landamerkjavörðu liggi merkin í beinni línu í sömu stefnu og skurður sem grafinn sé niður að Sléttuá. Hnit LM8 samkvæmt dómkröfu (721982,195 – 511020,1912) miði við skurðenda við árbakkann. Sléttuá hafi í landamerkjabréfi 1884 verið nefndur Bláarbakki og vísað til keldu við bakkann. Vegna ágangs Sléttuár séu ummerki um keldu horfin og bakkinn hafi færst.

            Landamerkjaskurðurinn hafi verið gerður um 1970. Gagnstefnandi byggi á því að stefna skurðarins hafi miðað við stefnu í keldu við Bláarbakkann og verið bein lína í átt til Illueyrar, sem liggi við landamerki við Seljateig. Dómkrafan feli ekki í sér að afstaða sé tekin til þess hvar landamerki við Seljateig liggi. Á það sé hins vegar bent að í dómi héraðsdóms í Hæstaréttarmáli nr. 611/2006 komi fram að eigendur Seljateigs og Sléttu hafi verið sammála um hnitið L4, sem kom fram á dskj. 31, sbr. nú dskj. 21. Svokallað Péturstún sem liggi innan Sléttu sé samkvæmt því innan merkja Sléttu en liggi ekki í landi Stuðla.

            Málsástæður að baki kröfulínu þessari hvíli jafnframt á 1. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl., þar sem lögð sé skylda á landeigendur að setja glögg merki. Varða hafi verið hlaðin til að merkin væru greinileg og síðar grafinn landamerkjaskurður í landamerkjastefnuna.

            Þá sé byggt á því að lega landamerkjanna hafi lengi verið óumdeild, og sé vísað til loftmyndar með innfærð landmerki sem undirrituð hafi verið um árið 2000. Stefnandi hafi skrifað undir skjalið sem þáverandi eigandi Stuðla.

            Þá sé byggt á reglum um hefð, en eigendur Sléttu hafi ræktað og notað tún fyrir utan kröfulínu Sléttu, m.a. utan við skurðinn í Sléttublá og svokallað Péturstún, í fullan hefðartíma, sbr. ákvæði hefðarlaga nr. 46/1905, einkum 1.-3. gr. og 6. gr. laganna.

            Varakrafa gagnstefnanda hvíli á því að rétt geti verið að skýra landamerkjabréfin, sbr. einkum landamerkjabréf Sléttu, þannig að Skollaflöt, neðan Skessugjár, nánar tiltekið „gilið í Skollaflöt“ teljist sérstakur landamerkjapunktur, með hnitið Y3 (721892,46 - 509566,34). Jafnframt að Ystafossgilið teljist landamerkjalína, þar sem kennileitið sé greinilegt, milli hnita Y2 (721967,65 - 509929,04) efst í gilinu og hnitsins Y1 (721723,35 - 510230,01) neðst í gilinu. Frá þeim stað liggi merkin í landamerkjavörðu og áfram, eins og lýst sé í aðalkröfu.Um staðsetningu þessara kennileita sé vísað til umfjöllunar um aðalkröfu.

            Í greinargerð gagnstefnanda í aðalsök er tekið fram að gagnstefnandi kannist við að samkomulag hafi verið um tíma um að eigendur Sléttu nýttu tún í landi Stuðla, sem þá þegar hafi verið til staðar, gegn því að eigendur Sléttu önnuðust fjallskil í landi Stuðla. Því sé hins vegar mótmælt að nokkur samningur hafi verið gerður um að skurður milli jarðanna lægi á öðrum stað en um rétt landamerki.

 

IV

Niðurstaða

1.

            Gagnstefnandi byggir á því að héraðsdómur sé bundinn af niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 611/2006, þar sem eigendur Sléttu voru sýknaðir af dómkröfum eiganda Stuðla. Með þeim dómi hafi sjónarmiðum stefnanda um staðsetningu kennileitanna Skessugjár, Skollaflatar, Ystafossgils og Bláarbakka verið hafnað og engu breyti þótt staðsetningu hnita hafi verið lítillega breytt í þessu máli. Gagnstefnandi hefur þó ekki krafist frávísunar af þessum sökum og var málið ekki reifað m.t.t. þess hvort um væri að ræða annmarka á dómkröfum í aðalsök sem varðað gæti frávísun án kröfu. Er það mat dómara að ekki sé tilefni til frávísunar dómkrafna í aðalsök án kröfu, þótt þær kröfur og staðsetning kennileita sem þær miðast við nálgist vissulega þær kröfur og þann málatilbúnað sem dæmt var um í Hæstaréttarmálinu nr. 611/2006. 

            Upphaf dómkrafna í aðalsök, bæði aðal- og varakröfu, er svo orðað: „Frá vatnaskilum milli jarðanna Stuðla og Sléttu (leturbr. dómara) í punkt nr. 6, Skessugjá [...]“. Dómkröfur aðalstefnanda miðast þannig ekki við vatnaskil milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, líkt og dómkröfur gagnstefnanda, heldur við vatnaskil á milli jarðanna og byggir aðalstefnandi á því að vatnaskil jarðanna liggi um punkta nr. 7-14 á kröfulínukorti hans, nokkurn veginn þvert á vatnaskil milli fjarðanna. Þeir punktar eru þó ekki hluti af kröfugerð hans í málinu og kom skýrt fram við málflutning aðalstefnanda að ekki sé krafist dóms um legu marka milli jarðanna á því svæði. Að virtri þeirri málflutningsyfirlýsingu verður að skilja dómkröfur aðalstefnanda svo að þær taki ekki til marka milli jarðanna í heild, því ella væri kröfugerðin of óljós til að unnt væri að leggja á hana dóm.

            Eins og rakið er í málavaxtalýsingu í kafla I hér að framan greinir aðila á um staðsetningu allra þeirra kennileita samkvæmt landamerkjabréfum sem þeir reisa kröfur sínar á. Eins og ágreiningnum er háttað verður að leggja heildstætt mat á sönnunargögn, enda getur sönnun eða líkindi fyrir einu kennileiti hangið saman við sönnun eða líkindi fyrir næstu kennileitum. Verður hér á eftir fjallað í einu lagi um dómkröfur í aðalsök og gagnsök og verður byrjað á því að fjalla um ágreining aðila um mörk jarðanna á láglendi.

            Í upphafi skal tekið fram að lagt verður til grundvallar að landamerkjabréf jarðanna, sem undirrituð voru með liðlega mánaðarmillibili, séu samþýðanleg, enda rekja þau merkin eftir sömu kennileitum, þótt það sé ekki gert eftir sömu stefnu. Stuðlabréfið er yngra og ívið ítarlegra. Verður lýsing þess bréfs lögð til grundvallar þar sem Sléttubréfið er þögult eða ónákvæmara, en ekki þykir vera um beinan árekstur milli bréfanna að ræða.

 

 

 

2.

            Mörk á láglendi - „kelda“ í Bláarbakka og varða

            Samkvæmt Stuðlabréfi liggja mörk jarðanna á láglendi frá Fagradalsá (Sléttuá) eða fornum farvegi hennar „í keldu, sem er í svokölluðum Bláarbakka, úr keldunni í landamerkjaræsi, þaðan beina leið í vörðu sem hlaðin er í urð þeirri, er liggur niður úr næstu gjótu, öðru nafni Ystaforsgil“.           Á þessu svæði liggja kröfulínur aðila skv. aðalkröfum þeirra að mestu leyti samsíða með ekki ýkja löngu millibili.

            Handan núverandi farvegs Sléttuár snertir kröfulína gagnstefnanda vestasta odda túns sem ýmist virðist nefnt Péturstún eða Illueyrartún í gögnum málins, en kröfulína í aðalsök sker oddann frá túninu. Við vitnaleiðslur var af hálfu aðalstefnanda nokkuð spurt út í svokallað „Lárutún“, sem mun hafa verið nytjað frá Stuðlum, en ekki upplýstist nægjanlega hvar það tún gæti hafa legið. Verður það sem fram er komið í málinu um legu línunnar á þessu svæði hvorki talið styðja aðra línuna fremur en hina.

            Kröfulína gagnstefnanda sunnan árinnar liggur eftir skurði sem mun hafa verið grafinn með vélum í kringum 1970, meðfram túnum sem óumdeilt er að eigendur Sléttu á hverjum tíma hafa einir ræktað og nýtt. Aðalkröfulína aðalstefnanda liggur aftur á móti austar og þvert yfir túnin. Að virtum gögnum málsins og framburði vitna verður aðalstefnandi, sem heldur þeirri staðhæfingu fram gegn eindregnum mótmælum gagnstefnanda, að bera hallann af því að ósannað er að samkomulag hafi verið gert milli eigenda Sléttu og Stuðla einhvern tímann milli 1950 og 1960, um að tún Sléttu yrðu lengd inn í land Stuðla á þessu svæði, gegn framlagi Sléttu við fjallskil fyrir Stuðla. Verður, líkt og fram kemur í forsendum héraðsdóms í máli Hæstaréttar nr. 611/2006, að leggja til grundvallar að skurðurinn, og þar áður girðing á sama stað, hafi verið talinn marka landamerki á milli jarðanna. Í þessa átt hníga einnig ágrip af landlýsingu Stuðla frá 1975 eftir Hjalta Gunnarsson þar sem mörkum milli jarðanna er lýst svo að þau liggi um línu eftir þverskurði suðvestan Stuðlaár, og örnefnalýsing Björns G. Eiríkssonar, þar sem segir að landamerki jarðanna liggi eftir vélgröfnum skurði milli Sléttubláar og Stuðlabláar.

            Þá er til þess að líta að aðalstefnandi áritaði loftmynd, líklega á árinu 2000, sbr. dskj. nr. 22, um samþykki sitt sem eiganda Stuðla við því að mörk jarðanna væru dregin eins og þar sést, en þar er línan dregin meðfram túnum gagnstefnanda, þar sem nú er vélgrafinn skurður, líkt og gert er í gagnsök og varakröfu í aðalsök. Þótt þessu samkomulagi hafi ekki verið þinglýst rennir þetta fremur stoðum undir það en hitt að merkin hafi verið talin réttilega dregin þar sem hinn vélgrafni skurður liggur meðfram túnum Sléttu.

            Gegn framangreindu byggir aðalstefnandi á því að línuna beri að draga austar, í gegnum kennileitið „keldu“ í Bláarbakka sem sé að finna við punkt hans nr. 2, nyrst í túnrækt gagnstefnenda, við árbakkann. Við vettvangsgöngu sáust þar ummerki sem gætu svarað til afrennslis vatns úr túnunum, þótt ekki væri þar mikla bleytu að finna við vettvangsgönguna. Þessi „kelda“ var einnig greinanleg úr fjarlægð þegar gengið var upp hlíðina, á milli þeirra gilja sem aðilar byggja á að séu Ystaforsgil.  Það virðast einnig sjáanleg merki um afrennsli á svipuðum stað á loftmynd á dskj. nr. 31.

            Nærtækt er að telja, með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, að aðalstefnandi sé bundinn af fyrri málatilbúnaði sínum í Hæstaréttarmálinu nr. 611/2006, þar sem gengið var út frá því að þetta kennileiti væri horfið, enda liggur kröfulína aðalstefnanda nú á mjög svipuðum stað yfir Sléttuá og í tún gagnstefnanda og hún gerði í hinu fyrra máli. Allt að einu, þá hefur aðalstefnandi ekki leitast við að hnekkja staðhæfingum gagnstefnanda um að keldan sé horfin og Bláarbakkinn hafi færst til sökum ágangs Sléttuár. Í landamerkjabréfum beggja jarðanna er næsta kennileiti á milli „vörðu“ og „keldu“ talið „landamerkjaræsi“, en hvorugur aðila byggir á því kennileiti og virðast þeir sammála um að það sé horfið. Veikir það staðhæfingu aðalstefnanda um staðsetningu kennileitisins „keldu“. Engin gögn eða framburður vitna renna stoðum undir það að hér sé um hina réttu „keldu í Bláarbakka“ að ræða sem um ræðir í landamerkjabréfum jarðanna.

            Vörðu er að finna við punkt gagnstefnanda nr. LM6, en það er jafnframt sama varða og getið er í dómi Hæstaréttar í máli nr. 611/2006 (sömu hnitsetningar). Varðan er staðsett í urð neðan gilja, sem síðar verður vikið að, þar sem landi er farið að halla. Er ekkert fram komið sem varpað getur vafa á þá staðhæfingu gagnstefnanda að hér sé um að ræða þá réttu vörðu sem merki milli jarðanna miðast við samkvæmt báðum landamerkjabréfum. Hefur aðalstefnandi ekki bent á aðra vörðu en byggir þess í stað á ímyndaðri staðsetningu vörðunnar við punkt sinn nr. 3. Ljóst er hins vegar að staðsetning vörðunnar við punkt LM6 er í beinni stefnu við legu vélgrafna skurðarins sem gagnstefnandi byggir á að marki landamerki jarðanna.

            Þegar allt framangreint er virt þykir það fremur til þess fallið að styðja það að á láglendi verði mörkin milli jarðanna Stuðla og Sléttu réttilega dregin eins og gagnstefnandi krefst, þ.e. sem bein lína eftir hinum vélgrafna skurði milli vörðu við hnit gagnstefnanda nr. LM6 og í hnit LM8 við skurðarenda og þaðan í sömu stefnu að landamerkjum gagnvart Seljateigi.

            Ystaforsgil (Ystafossgil)

            Úr vörðunni (LM6) munu mörkin, samkvæmt landamerkjabréfi Stuðla, liggja „þvert upp gjótuna“, öðru nafni Ystaforsgil (Ystafossgil). Aðila greinir á um það hvort af tveimur samliggjandi giljum eða gilskorningum sé rétta kennileitið.

            Ekki nýtur við gagna um nákvæma staðsetningu Ystaforsgils. Að sama skapi nýtur, að áliti dómsins, ekki heldur við áreiðanlegs framburðar óvilhallra vitna um það atriði. Af þeim vitnum sem leidd voru fyrir dóminn var það Þórir G. Björnsson einn sem taldi sig þekkja til staðsetningar þess kennileitis, en lýsing hans var hvorki nægilega glögg, né heldur var fullt samræmi á milli framburðar hans fyrir dómi nú og framburðar sem hann gaf 2. júní 2006 við aðalmeðferð í héraði í Hæstaréttarmálinu nr. 611/2006, þar sem hann lýsti Ystaforsgili sem hinu ysta af þremur glöggum giljum upp af og aðeins vestan við skurðinn en fyrir dómi nú ræddi hann um fimm gil. Þá varð af framburði hans ráðinn að hann væri hliðhollur aðalstefnanda. Varðandi framburð vitnisins Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings, og stutta samantekt hans sem liggur fyrir í málinu, ber að líta til þess að hann var fenginn einhliða til þess af aðalstefnanda að ganga á merkin og setja niður kennileiti með hnitum, án þess að gagnstefnanda væri veitt aðkoma að þeirri vettvangsgöngu. Virðist hann einkum hafa reitt sig á upplýsingar aðalstefnanda varðandi staðsetningu kennileita og virtist til að mynda ekki hafa verið kunnugt um vörðuna við punkt LM6.

            Varðan við punkt LM6 er hlaðin á stað sem er neðan beggja þeirra gilja sem aðilar byggja á að séu hið rétta Ystaforsgil, þó heldur nær neðsta hluta þess gils sem aðalstefnandi heldur fram að sé rétta gilið (austara gilið). Ekki þykir verða greint af loftmyndum með afdráttarlausum hætti hvort keilan liggi frekar í urð sem runnið hefur neðan úr gili gagnstefnanda eða úr gili aðalstefnanda, en hún virðist a.m.k. á mörkum aurkeilna sem runnið hafa úr báðum giljum.

            Stuðlabréfið gefur til kynna að um stefnubreytingu sé að ræða á landamerkjum eftir að þau liggja í vörðuna, enda segir þar að „úr vörðunni [liggi] þau þvert upp gjótuna“. Kröfulínur aðila á þessu svæði taka allar stefnubreytingu við þetta kennileiti, ýmist við hina ímynduðu vörðu eða vörðu við hnit LM6, mismikilli breytingu þó. Skv. aðalkröfu dregur gagnstefnandi línu úr vörðunni, skáhallt upp brattann og yfir það gil sem hann byggir á að sé Ystaforsgil. Þykir sú stefna síst samræmast framangreindri lýsingu landamerkjabréfs Stuðla „þvert upp gjótuna“. Varakröfulína gagnstefnanda og lína aðalstefnanda liggja hins vegar upp með sitthvoru gilinu, hvor um sig með einni stefnubreytingu á leiðinni (punktar Y1 og 4).

            Ívið meiri nálægð mynnis austara gilsins við vörðuna, sem og útlit gilsins sem opnast með áberandi hætti að neðanverðu frá vörðunni séð, kann að veita meiri líkindi fyrir því að þar sé um rétta gilið að ræða. Aftur á móti verður ekki á það fallist að notkun orðsins „gjóta“ í landamerkjabréfi Stuðla styðji annað gilið fremur en hitt. Orðið er þar notað sem samheiti orðsins gil, enda ræðir þar um „næstu gjótu, öðru nafni Ystaforsgil“.

            Á hinn bóginn er vestara gilið, sem gagnstefnandi miðar við, talsvert dýpra og meira áberandi í landslaginu, allt upp í brúnir, eins og sést á loftmyndum. Við vettvangsgöngu sást í það gil frá vörðunni. Í hvorugu gilinu mun renna vatn að ráði nema í leysingum.

             Að öllu framanrituðu virtu er örðugt að slá nokkru föstu um það hvort austara eða vestara gilið sé líklegra sem hið rétta Ystaforsgil, en þessi gil liggja eins og áður sagði samhliða og ekki ýkja langt á milli þeirra.

            Skollflöt og Skessugjá

            Þegar upp á svokallaðar brúnir, ofan giljanna, er komið tekur við allmikið og fremur flatlent svæði, allt að rótum fjallsins Skessunnar, sem er óumdeilt örnefni. Ofan við austara gilið er á þessari flatneskju að finna allnokkurn slakka, sem teygir sig áleiðis í átt að Skessunni. Sést þessi slakki greinilega á loftmyndum og var hann augljós við vettvangsgöngu, þótt honum þyki vart verða réttilega lýst með orðinu gili, líkt og Sigurgeir Skúlason landfræðingur gerði fyrir dómi, en gil merkir samkvæmt orðabók Menningarsjóðs „djúpur lækjar- eða árfarvegur, klettagil, gljúfur“. Þegar komið er nær Skessunni og upp úr slakkanum tekur við svolítil grasflöt. Grasflöt þessi er ekki greinanleg á loftmyndum en sést á ljósmyndum á dskj. nr. 28 og 29, sem teknar eru ofan af fjallinu Skessunni.

            Þegar gengið var nær stórskornum hamraveggjum Skessunnar sást fyrst sá klettadrangi sem aðalstefnandi telur að fjallið Skessan kunni að draga heiti sitt af, en við þennan drang byggir hann á að hin rétta Skessugjá liggi. Eins og áður sagði er klettabeltið stórskorið og var örðugt að sjá á vettvangi hvort um eina samhangandi gjá væri að ræða sem lægi alveg upp í brún þar fyrir ofan. Það sést heldur ekki á ljósmynd sem er að finna á dskj. nr. 11, sem aðalstefnandi kveður sýna Skessugjá.

            Gagnstefnandi bendir aftur á móti á að örnefnið Skollaflöt sé stundum nefnt Skollaflatir (í fleirtölu) í örnefnalýsingum og bendir hann á nokkrar samhangandi grasflatir sem teygja sig yfir umtalsvert stærra svæði en grasflöt aðalstefnanda, talsvert vestar á flatneskjunni. Þessar grasflatir eru skornar af nokkuð djúpum lækjarfarvegi sem sést greinilega á loftmyndum og er sérlega áberandi við punkt nr. Y3 í varakröfu gagnstefnanda.

             Þar ofan við er áberandi djúpa gjá að finna, sem gagnstefnandi byggir á að sé hin eina rétta Skessugjá. Gjáin sést greinilega á loftmyndum í málinu og segir svo um hana í dómi héraðsdóms í Hæstaréttarmálinu nr. 611/2006 að þar megi glöggt greina gjá eða skarð í fjallinu. Þá segir í dóminum að greina megi „slétta flöt eða bala fyrir neðan skarðið“ á loftmyndum, en að slíka flöt sé hins vegar „ekki unnt að greina við stað merktan J á dskj. nr. 3“. Punktur J virðist afar nálægt punkti nr. 5 á kröfulínu aðalstefnanda sem hann kennir við Skollaflöt og er í áðurnefndum slakka sem aðalstefnandi byggir á að sé „gil“ í Skollaflöt.

            Aðilar eru sammála um að Skollaflöt (eða flatir) dragi nafn sitt af grenjum þar í grennd. Á loftmyndum sést, og sást það jafnframt við vettvangsgöngu, að rétt vestan við þær flatir sem gagnstefnandi byggir á að kennileitið eigi við er að finna allmikið grýtt svæði, þar sem ætla má að sé kjörið grenjasvæði, þótt ekki hafi tekist að benda með vissu á neitt greni við vettvangsgönguna.

            Það svæði sem gagnstefnandi bendir á sem Skollaflöt eða Skollaflatir samsvarar einnig vel lýsingu vitnisins Sigurbjörns Marinóssonar, eins af eigendum Seljateigshjáleigu, sem kvaðst þekkja vel til svæðisins sem grenjaskytta og virtist óvilhallt vitni. Hann lýsti Skessugjánni sem „afgerandi gjá“, raunar einu greinilegu gjánni í Skessunni, og tengdi staðsetningu Skollaflatar við bæði gjána og stórt greni (stóra Stuðla-grenið) sem hann kvað vera nánast undir Skessugjánni. Þá tengdi hann staðsetningu gjárinnar við rafmagnslínu og staurastæðu sem enn sést í grennd við þann stað sem gagnstefnandi byggir á að sé Skollaflöt.

            Að áliti dómsins vegur það þungt við mat á sönnun í máli þessu að sú gjá sem gagnstefnandi byggir á að sé Skessugjá er áberandi djúp og afgerandi að sjá í samanburði við aðra gilskorninga sem er að finna í hamraveggjum Skessunnar, þar á meðal í samanburði við þann stað sem aðalstefnandi byggir á. Þessi mikla gjá sést vel á loftmyndum og jafnframt mjög vel neðan frá láglendinu í Reyðarfirði, en hið sama verður ekki sagt um þann stað sem aðalstefnandi bendir á sem Skessugjá. Þá er ekkert fram komið sem styður þá kenningu aðalstefnanda að klettadrangur sem hann bendir á beri sérstakt heiti eða að fjallið dragi heiti sitt af honum, fremur en öðrum dröngum og bergmyndunum í fjallinu, þótt drangurinn sé vissulega bæði greinilegur og nokkuð tignarlegur þegar mjög nálægt honum er komið. Þá þykir það almennt ólíklegt að sú áberandi djúpa gjá sem gagnstefnandi byggir á að sé rétta gjáin beri ekkert þekkt heiti, en að fjallið dragi heiti sitt af klettadrang og gjá sem aðalstefnandi bendir á, sem skera sig ekki frá stórskornum hamraveggnum nema úr lítilli fjarlægð.

            Enn fremur þykir það sem fram er komið í málinu fremur styðja staðhæfingar gagnstefnanda um staðsetningu kennileitisins Skollaflatar og þar er greinilegur lækjarfarvegur sem gæti svarað til gils, andstætt því sem segja má um slakka þann sem aðalstefnandi byggir á að sé hið rétta gil, en þar er a.m.k. enga áberandi lækjarfarvegi að finna.  

            Að framanrituðu virtu þykja dómkröfur gagnstefnanda á þessu svæði, milli Ystaforsgils og Skessugjár, eiga sér ríkari stoð í gögnum málsins en dómkröfur aðalstefnanda.

            Mörk ofan Skessugjár

            Eins og fyrr sagði verður að skýra dómkröfu aðalstefnanda svo að hún taki ekki til merkja milli jarðanna í heild, þ.e. ekki til merkja ofan Skessugjár eftir að línan hefur verið dregin „á fjall upp“ í grennd við punkt nr. 7, sem þó er ekki hluti kröfugerðar hans. Styður aðalstefnandi kröfu sína um legu línunnar „frá vatnaskilum milli jarðanna“ og „í punkt nr. 6, Skessugjá“ við orð Stuðlabréfsins um að línan liggi í Skessugjá „og þaðan á fjall upp unz vötnum hallar til Fáskrúðsfjarðar“. Byggir aðalstefnandi á því að vatnaskil milli jarðanna liggi í eðlilegu framhaldi af legu línunnar um þá gjá sem hann byggir á að sé hin rétta Skessugjá.

            Línur gagnstefnanda í bæði aðal- og varakröfu eru hins vegar dregnar í áframhaldandi beinni stefnu allt upp í vatnaskil við Fáskrúðsfjörð í gegnum punkt nr. LM7 efst í þeirri afgerandi gjá sem hér að framan hefur verið rökstutt að líkur standi til að sé hin rétta Skessugjá,

            Aðalstefnandi bendir á að fráleitt sé að mörk milli jarðanna verði dregin þvert á hlíð, en landsvæðinu sem línur gagnstefnanda séu dregnar um halli öllu til vesturs. Gegn mótmælum gagnstefnanda verður ekki á það fallist að slík lega landamerkja sé ólíkleg, enda má telja það algenga tilhögun landamerkja á Austfjörðum að merki á hálendi séu dregin skemmstu leið upp í vatnaskil á milli fjarða og skiptir þá ekki máli hvernig fjallshlíðar halla.

            Sú skýring sem aðalstefnandi virðist benda á, að með orðunum „á fjall upp“ sé átt við vatnaskil milli jarðanna, þykir hæpin og mun eðlilegra að skýra þessi orð í því samhengi sem þau eru sett fram þannig að átt sé við fjallseggjar á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.

            Samkvæmt framangreindu þykja gögn málsins renna stoðum undir dómkröfur gagnstefnanda, fremur en aðalstefnanda, á svæðinu ofar Skessugjár.

 

3.

            Að öllu framanrituðu heildstætt virtu er það mat dómsins að það sem fram er komið í málinu styðji eindregið það að mörk milli jarðanna verði réttilega dregin eftir þeirri staðsetningu kennileita sem gagnstefnandi byggir á, fremur en eftir þeim staðsetningum kennileita sem aðalstefnandi heldur fram. Ber því að sýkna gagnstefnanda af dómkröfum í aðalsök.

            Kemur þá að því að meta hvort fallast eigi á aðal- eða varakröfu gagnstefnanda um legu línunnar. Þótt aðalkröfulína hans sé einfaldari að gerð, enda er hún dregin sem bein lína allt frá vörðu og í vatnaskil, þá þykir varakröfulína hans samræmast betur lýsingum landamerkjabréfanna, einkum þeirri lýsingu Stuðlabréfsins að landamerkin liggi úr vörðunni „þvert upp gjótuna“ (Ystaforsgil) og „í gilið í Skollaflöt“. Verður því fallist á varakröfu gagnstefnanda og viðurkennt að landamerki milli jarðanna Stuðla og Sléttu í Reyðarfirði liggi eins og þar er krafist.

            Eftir atvikum, og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Voru lögmenn aðila og dómari sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu fram yfir lögbundinn frest, sem helgaðist af embættisönnum dómarans.

 

Dómsorð:

            Viðurkennt er að landamerki milli Sléttu, landnr. 158-204, og Stuðla, landnr. 158-209, liggi frá vatnaskilum við Fáskrúðsfjörð um línu um hnit LM7, 722191,0 – 508712,0, í Skessugjá, í hnit Y3, 721892,46 - 509566,34, í gili í Skollaflöt, þaðan í hnit Y2, 721967,65 - 509929,04, efst í Ystafossgili, þaðan í hnit Y1, 721723,35 - 510230,01, neðst í Ystafossgili, þaðan í hnit LM6, 721768,3 - 510459,1, í landamerkjavörðu neðan Ystafossgils og þaðan um línu sem liggur um hnit LM8, 721982,195 – 511020,1912, við skurðenda á Bláarbakka, og áfram í sömu stefnu að landamerkjum gagnvart Seljateigi.

            Málskostnaður milli aðila, Fjólu Gunnarsdóttur og Sigurðar Baldurssonar, fellur niður.

 

                                                                 Hildur Briem