• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 3. október 2017 í máli nr. S-21/2017:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

gegn

Róberti Sigurjónssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 3. október 2017, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 3. maí 2017, á hendur Róberti Sigurjónssyni, kt. [...],[...] í [...], „fyrir umferðarlagabrot í Fjarðabyggð með því að hafa, laugardaginn 4. mars  2017, ekið bifreiðinni  NX740, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældust 3,4 ng/ml), vestur Búðaveg á Fáskrúðsfirði á móts við bensínstöð [O]rkunnar og síðan til hægri upp Skólaveg þar sem hann stöðvaði bifreiðina við áhaldahús Fjarðabyggðar.“ 

            Við fyrirtöku málsins 5. september 2017 var mál vegna ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 5. maí 2017 (S-23/2017), sameinað máli þessu. Í þeirri ákæru segir að höfða beri sakamál á hendur Róberti Sigurjónssyni, kt. [...],[...] í [...] fyrir umferðarlagabrot í Fjarðabyggð með því að hafa laugardaginn  14. mars  2017, ekið bifreiðinni  NX740, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældust 2,8 ng/ml), austur Suðurfjarðarveg skammt austan við Gvendarnes, milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar, þar sem hann stöðvaði bifreiðina.“ 

            Í báðum ákæruskjölum er háttsemin talin varða við 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 1., sbr. 4. og 6., mgr. 102. gr.  umferðarlaga.

            Ákærði kom ekki fyrir dóminn er mál vegna ákærunnar sem gefin var út 3. maí 2017 var þingfest og boðaði ekki forföll, þrátt fyrir löglega birt fyrirkall. Enda þótt skilyrði væru þá til að taka málið til dóms sem útivistarmál á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var ákveðið að fresta málinu til 5. september 2017, til sameiningar öðru máli sem þá hafði verið höfðað með ákæru, útgefinni 5. maí 2017. Þann dag voru málin sameinuð undir málsnúmerinu S-21/2017. Ákærði sótti ekki þing, en honum var skipaður verjandi í samræmi við ósk hans sem fram kom á birtu fyrirkalli vegna síðari ákærunnar. Fyrir þinghaldið boðaði verjandinn forföll sín og ákærða og óskaði eftir fresti til að fara yfir málsgögnin með ákærða. Málið var næst tekið fyrir 19. september, en þá sóttu hvorki ákærði né verjandi hans þing og boðuðu ekki forföll. Málinu var eigi að síður frestað á ný til 3. október 2017. Þann dag sóttu hvorki ákærði né verjandi hans þing, en verjandinn hafði með tölvupósti til dómsins 29. september sl. upplýst að ákærði hygðist ekki taka til varna í málinu, en hann óskaði þess að sér yrðu gerð þau vægustu viðurlög er lög leyfðu. Var málið þá þegar tekið til dóms að kröfu ákæruvaldsins, með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008, enda hefur í fyrirköllum sem birt voru fyrir ákærða með lögmætum hætti vegna beggja ákæra verið tekið fram að ákærði mætti búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum.

            Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæruskjala, eins og þau eru rakin hér að framan. Með heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008, og þar sem dómari telur framlögð gögn nægileg, verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í báðum framangreindum ákærum og eru þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

            Ákærði er fæddur árið 1992 og á sér nokkurn sakaferil. Við ákvörðun refsingar hans hafa þýðingu eftirfarandi refsiákvarðanir: Sektargerð 7. júlí 2010 (brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga). Dómur 22. febrúar 2011 (brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga) þar sem refsing ákærða var ákveðin sem hegningarauki við sáttina frá 7. júlí 2010. Sektargerð 2. júní 2014 (brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga). Dómur 23. júní 2015 (brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga). Dómur 2. september 2015 (brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga og 1. mgr. 48. gr. sömu laga (akstur sviptur ökurétti)). Dómur 15. febrúar 2017 (brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga og 1. mgr. 48. gr. sömu laga (akstur sviptur ökurétti)).

            Samkvæmt framanrituðu verður brot ákærða gegn 45. gr. a. virt sem 6. brot hans af því tagi, en brot hans gegn 1. mgr. 48. gr. (akstur sviptur ökurétti) sem þriðja brot. Samkvæmt dómvenju varða brot gegn 45. gr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. (akstur sviptur ökurétti) umferðarlaga óskilorðsbundnu fangelsi við aðra ítrekun. 

            Að virtum brotum ákærða, sakaferli hans og dómvenju, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi.

            Þá ber, með vísan til þeirra ákvæða umferðarlaga sem krafa um ökuréttarsviptingu er studd við í ákæru, að árétta ævilanga ökuréttarsviptingu sem ákærði sætir og síðast var áréttuð með dómi 15. febrúar 2017.

            Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, verður ákærði dæmdur til að greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirlitum ákæruvalds, sem studd eru fullnægjandi gögnum, féll til við rannsókn málsins sakarkostnaður samtals að fjárhæð 218.443 krónur. Þóknun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., þykir hæfilega ákveðin 85.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Róbert Sigurjónsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

            Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

            Ákærði greiði 303.443 krónur í sakarkostnað, og er þar með talin þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 85.000 krónur.

 

                                                                                    Hildur Briem