Stefnandi krafðist þess gagnvart stefnda að viðurkennt yrði að réttur hans til afmarkaðrar lóðar við Strandgötu, Akureyri, hafi verið ótímabundinn og óuppsegjanlegur og einnig að viðurkennt yrði að byggingarleyfi hans frá árinu 1955 fyrir afgreiðsluhúsi á lóðinni, hafi verið án takmarkana, óuppsegjanlegt og ótímabundið. Málinu var vísað frá dómi í heild. Þótti 2. gr. stjórnarskrárinnar lög nr. 33/1944 standa því í vegi að unnt sé að óbreyttu að fella efnisdóm um kröfur stefnanda um ætluð lóðarréttindi hans við Strandgötu. Þessu til frekari stuðnings var vísað til 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómurinn taldi að efnisúrlausn um kröfu stefnanda um framangreint byggingarleyfi hafi ekki haft raunhæft gildi fyrir réttarstöðu málsaðila og yrði ekki til þess fallin að leiða ágreining þeirra til lykta. Var því fallist á að þessi málatilbúnaður stefnanda hafi ekki fullnægt áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, að því er lýtur að ákveðinni og ljósri kröfugerð.