• Lykilorð:
  • Ítrekun
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. desember 2017 í máli nr. S-102/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Þórði Pétri Péturssyni

(Gísli M. Auðbergsson hrl.)

 

Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, útgefinni 11. maí 2017, á hendur Þórði Pétri Péturssyni, .....,

 „fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 28. mars 2017, brotist inn í verslun Hjálpræðishersins, [....] og stolið þaðan „velferðarsjóði“ trúarsamtakanna og „kaffisjóðnum“, en áætlað þýfi hans úr þessu innbroti var um 6.000- krónur.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði kom fyrir dóm og neitaði sök. Var þá ákveðin aðalmeðferð í málinu. Í því þinghaldi er hún var fyrirhuguð óskaði ákærði eftir að breyta afstöðu sinni til ákæruefnsins. Játaði ákærði skýlaust sök í framhaldi af því.

Með játningu sinni, sem fær næga stoð í gögnum málsins og ekki þykir vera ástæða til að draga í efa, telst ákærði sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimildar í ákæra.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var honum gerð sektarrefsing fyrir umferðarlagabrot með dómum 14. maí 2013 og 26. júní 2014. Þá gekkst hann undir sektargreiðslu hjá lögreglustjóra 17. september 2014 fyrir fíkniefnalagabrot. Fram að þessu hafði ákærða síðast verið gerð refsing með dómi 25. nóvember 2005, en sakaferill hans hafði þá verið nær óslitinn allt frá árinu 1990. Hinn 9. janúar 2017 var ákærði sakfelldur fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot en var ekki gerð refsing. Með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 11. apríl 2017 var hann svo sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, tilraun til þjófnaðar, tilraun til fjársvika, nytjastuld, ólögmæta meðferð á fundnu fé og akstur bifreiðar sviptur ökurétti. Var hann dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar. Endurskoðaði Hæstiréttur þar héraðsdóm sem kveðinn hafði verið upp 13. apríl 2016 og en ákærði var þá sakfelldur fyrir öll þau atriði sem Hæstiréttur sakfelldi hann fyrir 11. apríl 2017. Með broti sínu nú hefur ákærði ítrekað auðgunarbrot en brot hans beindist á hinn bóginn ekki að verulegum fjármunum. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í tvo mánuði sem ekki er unnt að binda skilorði. Ákærði verður dæmdur til greiðslu málsvarnarþóknunar skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hrl. 358.360 króna með virðisaukaskatti og 139.000 króna ferðakostnaðar hans og 21.368 króna útlagðs kostnað hans.

Af hálfu ákæruvaldsins fór Eyþór Þorbergsson ftr. með málið.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Þórður Pétur Pétursson, sæti fangelsi í tvo mánuði.

Ákærði greiði 358.360 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hrl., 139.000 króna ferðakostnað og 21.368 króna útlagðan kostnað hans.