• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Hegningarauki
  • Fangelsi
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 5. febrúar 2019 í máli

nr. S-53/2018:

 

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

                                                         Marcis Horns

                                                         (Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 10. september 2018, höfðaði héraðssaksóknari hér fyrir dómi hinn 22. mars sl. gegn Marcis Horns, […];

„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laugardaginn 26. ágúst 2017, utandyra við […] á Akureyri, er verið var að handtaka ákærða, hótað lögreglumanninum […], sem var við skyldustörf, lífláti með orðunum „Shut up bitch, I will kill you“.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði hefur komið fyrir dóm og játað sök samkvæmt ákæru.  Með játningu hans sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm er nægilega sannað að hann hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar við þar tilgreint refsiákvæði.

 

Af sakaferli ákærða skiptir það hér máli að þann 21. desember 2010 var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár. Þann 7. nóvember 2012 var ákærði aftur dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og akstur undir áhrifum áfengis. Skilorðsdómurinn frá 21. desember 2010 var tekinn upp og ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði. Hann fékk reynslulausn í eitt ár af 90 daga eftirstöðvum refsingarinnar 18. febrúar 2018. Þann 25. janúar 2018 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, barnaverndarlögum og fyrir að aka sviptur ökurétti, í fjögurra mánaða fangelsi. Af því voru tveir mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár. Hann lauk afplánun óskilorðsbundins hluta dómsins 19. apríl 2018.

Það brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir framdi hann áður en síðastgreindur dómur var kveðinn upp og því er ekki um skilorðsrof að ræða. Ber nú að ákveða honum hegningarauka sem samsvari þeirri þynging hegningarinnar, sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ber að taka upp skilorðshluta dómsins frá 25. janúar 2018 og eftirstöðvar refsingar samkvæmt dóminum frá 7. nóvember 2012 og dæma með nú, sbr. 60. gr. sömu laga og 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í sex mánuði sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 84.320 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Marcis Horns, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 84.320 krónur.