• Lykilorð:
  • Frelsissvipting
  • Hegningarauki
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Sönnun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. ágúst 2018 í máli nr. S-201/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X og

(Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

Magnúsi Norðquist Þóroddssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

(Sveinn Andri Sveinsson lögmaður,

réttargæslumaður brotaþola)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 26. júní sl., var höfðað með þremur ákærum á hendur X og Magnúsi Norðquist Þóroddssyni, kt. [...], Akureyri.

 

Fyrsta ákæran er gefin út af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra 16. október 2017, á hendur ákærða X,

„fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, með því að hafa, sunnudaginn 30. júlí 2017, verið með í vörslum sínum 57,38 grömm af amfetamíni, en efnin fundust á ákærða þegar verið var að færa hann í fangaklefa á lögreglustöðinni við Þórunnarstræti á Akureyri.

 

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá 35.653, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Önnur ákæran er gefin út af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra 30. nóvember 2017 á hendur ákærða X,

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, laugardaginn 7. október 2017, verið með í vörslum sínum 0,84 grömm af amfetamíni, en efni þessi fundust á ákærða, þar sem lögreglan hafði afskipti af honum á leikvelli við verslunarmiðstöðina Sunnuhlíð á Akureyri.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá 36.228, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Þriðja ákæran er gefin út af héraðssaksóknara þann 27. desember 2017, á hendur ákærðu báðum

„fyrir neðangreind hegningarlagabrot framin að morgni laugardagsins 23. apríl 2016 á Akureyri sem hér greinir:

1.     Gegn ákærða Magnús Norðquist fyrir líkamsárás, með því að hafa veist að [A] með ofbeldi í bakgarði við [...], meðal annars með því að draga [A] upp úr heitum potti en við það brotnaði glas og glerbrot dreifðust um sólpallinn, snúa [A] niður og lá hann þá á glerbrotunum á sólpallinum og slá [A] ítrekað þar á meðal hnefahöggi í andlitið. Við þetta hlaut [A] m.a. djúpan bogadreginn skurð á framanverðan hægri fótlegg sem var u.þ.b. 1 cm á dýpt og uppglenntur sem nam um 5 mm, djúpan skurð á hægri lófa og tvo stóra og dökka marbletti á upphandlegg og framhandlegg vinstri handar.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2.     Gegn ákærðu báðum fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu, með því að hafa um klukkan 7:30, í félagi við þriðja mann, svipt [A] frelsi sínu, með því að setja hann rænulausan upp á pallbifreið sem staðsett var í [...] og ekið honum að Fálkafelli.  Þar beittu ákærðu [A] ofbeldi, ákærði Magnús meðal annars með því að sparka í eða trampa á höfði hans, og skildu hann eftir meðvitundarlausan og mikið slasaðan þar til vegfarandi gekk fram á hann klukkan rúmlega 11.  [A] hlaut meðal annars áverka vinstra megin á enni, en þar var sjáanlegt skófar, auk roða og yfirborðssárs, bólgu hægra megin á andliti, sár í hársverði vinstra megin, roða og yfirborðssár á búki, bólgu neðan við vinstra herðablað, brotinn úlnlið, fjölda marbletta og yfirborðssára á öllum útlimum.

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu [A], er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum in solidum kr. 2.000.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. apríl 2016, til þess dags er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var kynnt ákærðu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað kr. 700.000, auk virðisaukaskatts kr. 168.000, vegna lögmannskostnaðar við að hafa bótakröfuna uppi.“

 

I.

Fyrsta ákæra

Samkvæmt lögregluskýrslu var ákærði X handtekinn vegna annarlegs ástands á almannafæri. Hann var færður á lögreglustöð og við leit fannst á honum krukka með hvítu efni sem sent var til greiningar og reyndist vera 57,38 grömm af amfetamíni. Ekki var unnt að taka skýrslu af ákærða vegna ástands hans og gisti hann í fangaklefa. Næsta dag var ákærði yfirheyrður um málið en vildi ekki tjá sig. Vitnið B lögreglumaður skýrði frá því fyrir dómi að hann hafi leitað á X á lögreglustöð umrætt sinn, ásamt öðrum lögreglumanni. Þá hafi krukkan fundist á honum.

Fyrir dómi kvaðst ákærði ekkert vita um málið. Með vísan til gagna málsins og framburðar vitnisins B þykir komin fram sönnun þess að ákærði hafi haft greind fíkniefni í vörslum sínum umrætt sinn og varðar það við þau ákvæði sem greinir í ákæru.

 

II.

Önnur ákæra

Samkvæmt lögregluskýrslu hafði lögregla afskipti af ákærða og öðrum manni þann 7. október 2017 þar sem þeir voru í annarlegu ástandi innan um börn hjá leikvelli, að tína sveppi. Við leit á ákærða fannst m.a. ein tafla, þrír litlir pokar af hvítu efni, nál í pakkningu og sveppir. Efnin voru send til greiningar og reyndust hvítu pokarnir hafa innihaldið alls 0,84 grömm af amfetamíni. Skýrsla var tekin af ákærða sem kaus að tjá sig ekki. Vitnið C lögreglumaður staðfesti fyrir dómi að atvik hefðu verið með þeim hætti sem segir í skýrslu.

Ákærði bar fyrir dómi að hann vissi ekkert um málið. Með vísan til gagna málsins og framburðar vitnisins C þykir komin fram sönnun þess að ákærði hafi haft greind fíkniefni í vörslum sínum umrætt sinn og varðar það við þau ákvæði sem greinir í ákæru.

 

III.

Þriðja ákæra

Laugardaginn 23. apríl 2017 fannst brotaþoli liggjandi við veginn að Fálkafelli, rænulítill og blóðugur með áverka víða um líkama. Brotaþoli mundi lítið eftir atvikum. Hann kvaðst hafa, eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins, farið í heitan pott hjá stúlku að nafni D. Þar hafi ákærði Magnús hringt í hann en hann hafi skuldað ákærða lítilræði vegna fíkniefnaviðskipta. Ákærði Magnús hafi svo birst á pallinum við pottinn og hafi lamið hann í andlitið með hafnaboltakylfu. Hann hafi þá staðið upp en ákærði lamið hann niður. Þá hafi hann einnig stungið brotaþola í hönd og fót. Brotaþoli kveðst muna að hann hafi þá klætt sig og farið af stað heim á leið. Næst muni hann eftir sér upp við Fálkafell þar sem lögreglan stumraði yfir honum. Við rannsókn málsins vaknaði grunur um að ákærðu Magnús og X hafi við þriðja mann, E sem nú er látinn, ekið með brotaþola áleiðis að Fálkafelli, gengið þar í skrokk á honum og skilið hann eftir meðvitundarlausan.

 

Ákærðu neita báðir sök. Ákærði X bar hjá lögreglu að hann hafi ekki verið með meðákærða Magnúsi umræddan dag og að hann þekkti hvorki E né brotaþola. Hann tjáði sig ekki að öðru leyti um það sem honum er gefið að sök, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi.

Ákærði Magnús bar fyrir dómi að aðfaranótt laugardagsins 23. apríl 2016, hafi hann verið að selja og kaupa eiturlyf. Hann hafi verið einn alla nóttina. Hann kvaðst hafa hitt meðákærða X um klukkan 10 um morguninn en ekki hitt E. Hann hafi verið á bláum BMW skutbíl. Aðspurður kvaðst hann hvorki hafa hitt D, F né brotaþola þessa nótt eða morgun. Hann kvaðst hafa þekkt brotaþola lítillega í gegnum vinkonu sína sem var í sambandi við brotaþola. Brotaþoli hafi kennt ákærða um sambandsslit þeirra og verið honum mjög reiður, hringt stöðugt í hann, skrifað til hans á facebook og reynt að komast inn á heimili hans. Hann hafi nokkrum sinnum óskað aðstoðar lögreglu vegna þess. Aðspurður kvaðst ákærði hvorki hafa selt brotaþola eiturlyf né keypt af honum. Aðspurður um skýringar þess að sími hans kom inn á sendi við Fálkafell kvaðst ákærði oft hafa keyrt þar nærri á heimleið, þ.e. veg við mjólkursamlagið.

Fyrir dómi lýsti brotaþoli því að hann hafi aðfaranótt 23. apríl 2016 verið í samskiptum við stelpu í netspjalli. Hún hafi boðið honum í heitapottspartí sem hann hafi þegið. Þegar hann hafi verið búinn að vera þar í um 10-15 mínútur hafi ákærði Magnús komið og slegið hann í höfuð og líkama með stálröri. Hann hafi klöngrast upp úr heita pottinum en ákærði Magnús hafi slegið hann mörgum sinnum eftir það, víða um líkamann og hann telji að hann hafi úlnliðsbrotnað þarna á pallinum. Hann kvaðst halda að bareflið hafi verið stálrör með krók á endanum, líklega hafi þetta verið rör til að húkka fiska. Hann kvaðst ekki muna eftir glerbrotum en telur skurði á fæti og í lófa vera eftir hníf. Hann muni að einhver stúlka hafi reynt að binda um sár á honum. Næst kvaðst hann muna eftir lögreglunni stumra yfir sér, hann hafi aftur dottið út en muni svo eftir sér á sjúkrahúsinu. Brotaþoli kvaðst ekki hafa verið lengi að ná sér líkamlega, en vera hræddur eftir þetta. Hann kvaðst hvorki muna eftir að hafa séð E né ákærða X umrætt sinn.

Vitnið F bar fyrir dómi að hún myndi ekki eftir atvikum. Hún muni að hún hafi verið að drekka með vinkonu sinni, hún hafi drukkið of mikið og muni lítið. Vitnið kveðst hvorki muna að hafa séð brotaþola né ákærða Magnús á staðnum. Aðspurt kveðst vitnið telja líklegt að hún hafi skýrt lögreglu rétt frá atvikum, en skýrsla var tekin af henni sama dag og atvik urðu og aftur 27. apríl. Þar lýsti hún því að brotaþoli hafi komið í ... til hennar og D vinkonu hennar, og þau, auk vinar þeirra, G, farið saman í pottinn. G og D hafi farið upp úr en hún og brotaþoli orðið eftir. Hún muni eftir að hafa séð ákærða Magnús með eitthvað í höndunum. Hann hafi gengið að brotaþola og hún þá flýtt sér upp úr og inn á baðherbergi að þurrka sér og klæða. Þegar hún hafi komið aftur út hafi brotaþoli staðið inni með sár á fæti, og líklega mar á hendi. Þau hafi fundið það sem ákærði hafði haldið á, það hafi verið eitthvert langt mjótt svart plast, „eins og rúðuþurrka“. Vitnið bar að hún og D hafi reynt að binda pappír um sárið en brotaþoli viljað „drífa sig af stað og drepa Magga“. Hún kannaðist við að ákærði Magnús hafi komið aftur en hún hafi lítið talað við hann. Þá hafi E einnig komið eftir að brotaþoli var farinn.

Vitnið H býr í næsta húsi við ... . Fyrir dómi lýsti hann því að þau kona hans hafi vaknað seinni part nætur eða snemma morguns umræddan dag, við læti frá því húsi. Þar hafi verið læti, bæði inni og á sólpalli við húsið. Hann kvaðst muna eftir þremur mönnum þarna, þeir hafi komið aftur á pall­bifreið. Einhver hafi áður skjögrað frá húsinu inn í enda götunnar og legið þar. Þessir þrír menn hafi tekið þann mann og hent honum upp á pallinn. Sá reyni að standa upp, en detti fljótt aftur. Vitnið hafi farið út og reynt að vekja athygli þeirra á því, þar sem honum hafi fundist þetta harkalegt en þeir keyrt á brott. Hann kvaðst geta þekkt bílinn og minnir að hann hafi tekið niður númerið. Aðspurt um hvaða læti hafi verið frá húsinu kvaðst vitnið ekki hafa séð inn á pallinn en hafi heyrt mikil læti, einkum í D. Vitnið kvað ökumann pallbifreiðarinnar hafa verið kraftalega vaxinn. Í samtali hans síðar við ömmu D hafi komið fram að sá maður hafi átt að hafa eftirlit með henni. Vitnið vísar til þess að hann hafi munað atvik betur þegar hann gaf lögreglu skýrslu nokkrum klukkustundum eftir þessi atvik. Þá skýrði hann frá því að fyrst hafi komið maður á svartri skutbifreið. Hann heyri að það komi til átaka inni á sólpallinum en maðurinn fari aftur. Í framhaldinu hafi svo komið maður á svörtum pallbíl og sá tali nokkuð hastarlega við D. Sá sem hafði lent í átökunum hafi þá komið aftur við annan mann, lágvaxinn. Þeir hafi svo þrír saman gengið í enda götunnar og í sameiningu tekið þann sem þar lá upp á pallinn og ekið á brott.

Vitnið I bjó að ... . Hún skýrði frá því fyrir dómi að hún hafi verið sofandi í herbergi sínu en vaknað snemma um morguninn við mikil læti og farið á fætur. Tveir menn hafi slegist á sólpallinum, þar hafi verið mikið blóð og glerbrot en hún muni ekki neitt nákvæmt um átökin. Þeir hafi eiginlega legið á pallinum. Annar hafi hlaupið í burtu en hinn staðið eftir mjög blóðugur. Hún hafi viljað hringja á sjúkrabíl en hann harðneitað því, heldur klætt sig og labbað út. Vitnið kvað E hafa komið síðar um morguninn, þegar aðrir voru farnir. Vitnið kvaðst hvorki þekkja brotaþola né ákærðu. Nafngreining þeirra við skýrslugjöf til lögreglu hafi byggst á upplýsingum frá vitnunum D og F.

Vitnið J læknir kvað fjölmarga áverka hafa verið á brotaþola, en enga sem hafi í raun verið hættulegir eða getað dregið brotaþola til dauða. Aðspurt kvað vitnið brot á hendi brotaþola vera af því tagi að það gæti hlotist af við fall, ef menn setja hönd fyrir sig.

Vitnið K bar fyrir dómi að E hafi hringt í hana og rætt þetta mál eitthvað við hana. Hún kvaðst muna lítið eftir símtalinu, hún muni ekki að hann hafi sagst hafa átt hlut að máli eða nefnt hverjir aðrir hafi verið að verki. Fyrir liggur að vitnið  kom á lögreglustöð 27. apríl 2016 og sagði frá því að E hafi hringt í hana daginn áður og spurt hvort hún hafi frétt af þessu með Fálka­fell. Hann hafi viljað skýra frá því hvað hefði gerst til að einhver myndi vita það. Hann hafi tjáð vitninu að brotaþoli hafi gefið vitnunum D og F eiturlyf. Þess vegna hafi hann, með öðrum manni, lamið brotaþola og skilið hann eftir við Fálkafell. Vitnið las í dóminum endursögn samtals hennar við lögreglu og kvaðst telja rétt eftir henni haft.

Vitnið D bar að hún hafi verið heima með vinum sínum F og G. Brotaþoli hafi komið í heimsókn og þau farið fjögur saman í pottinn. Minni hennar sé gloppótt en hún muni næst að hafa verið inni í bílskúr að tala í síma, og heyrt læti af pallinum. Þangað hafi hún farið og séð ákærða Magnús og brotaþola, sem hafi verið mjög blóðugur. Ákærði hafi farið fljótt eftir það og brotaþoli einnig. Vitnið kvaðst minna að ákærði Magnús hafi komið aftur stutta stund og þau rætt lítillega saman. Hún kvað E einnig hafa komið skömmu eftir að brotaþoli fór. Hún man eftir að hafa séð ákærða X á staðnum en kvaðst ekki vita hvort hann kom þangað með E eða ákærða Magnúsi.

Hjá lögreglu bar vitnið að hún hafi séð ákærða Magnús ofan á brotaþola en ekki séð hann lemja hann. Hann ekið burt í svörtum bíl. Brotaþoli hafi verið mjög blóðugur og talað sérstaklega um að hann væri aumur í hendinni.

E gaf lögreglu stuttlega upplýsingar í síma en lést áður en til skýrslutöku kom. Í símtalinu kvaðst hann hafa farið í ..., til D, á bifreið sinni. Hann hafi ekkert gert brotaþola en ekið með hann þangað sem hann fannst.

 

Niðurstaða um fyrri lið ákæru

Ákærði Magnús neitar að hafa komið að ... umrædda nótt, og að hafa nokkuð hitt brotaþola eða vitnin F og D. Hann kvaðst hafa keyrt um bæinn að selja og kaupa fíkniefni. Hjá lögreglu kvaðst hann hafa verið heima sofandi alla nóttina og ekki farið á stjá fyrr en kl. 10 um morguninn.

Brotaþoli og vitnin D og F hafa öll borið að ákærði Magnús hafi komið þangað og veist að brotaþola. Brotaþoli hafi verið mjög blóðugur eftir. Ekkert vitnanna getur lýst atlögunni nákvæmlega en með framburði greindra vitna og með hliðsjón af framlögðu áverkavottorði þykir þó sannað að ákærði hafi ráðist að brotaþola með barsmíðum og valdið þeim áverkum sem lýst er í fyrri hluta ákærunnar. Ákærði er því sakfelldur fyrir það brot sem þar er lýst og réttilega heimfært til refsiákvæða.

 

Niðurstaða um síðari lið ákæru

Eins og áður greinir hafði ákærði Magnús sagt lögreglu að hann hafi verið heima sofandi þessa nótt og morgun. Fyrir dómi bar hann að hann hafi verið á ferð alla nóttina að kaupa og selja fíkniefni. Hann neitaði því að hafa hitt brotaþola eða vitnin D og F. Í ljósi þess að þeim ber saman um að ákærði Magnús hafi í tvígang komið að ..., og þess að vitnið H staðsetti bifreið hans aftur þar fyrir utan, verður að telja framburð ákærða um atvik ótrúverðugan.

Vitnið H gaf skýran framburð um það að hann hafi séð þrjá menn í sameiningu taka mann, þar sem hann lá í enda götunnar, henda honum upp á pallbifreið og aka á brott. Hann þekkti ekki mennina en skrifaði niður númer bifreiðanna sem þeir óku. Önnur var bifreið ákærða Magnúsar en hin pallbifreið í eigu E. Vitnin D og F mundu óljóst eftir því að ákærði Magnús hafi komið aftur að ... eftir að brotaþoli var farinn. Vitnið H bar að hann hafi séð þann sem ók bifreið ákærða Magnúsar taka þátt í því að setja brotaþola upp á pallbifreiðina og hafa ekið á brott með þeim. Vitnið K skýrði frá framburði E um að hann hafi ásamt öðrum manni lamið brotaþola og skilið hann eftir við Fálkafell. Í málinu liggja einnig fyrir símagögn sem sýna að ákærðu áttu í töluverðum símasamskiptum frá því um kl. 6:30 umræddan morgun. Einnig að ákærði Magnús hafi rætt við vitnið F í síma í tvö skipti, sem og E. Gögn um staðsetningar símtækja ákærðu, E og brotaþola styðja einnig að ákærði Magnús hafi komið að ... um kl. 6:40 og farið fljótt aftur. Hann hafi rætt við bæði E og meðákærða X. E hafi svo komið að ... um kl. 7:30 og ákærðu báðir um kl. 6:40. Frá 7:48 til 7:57 ferðast símar þeirra saman leið sem passar við ökuleiðina úr ...hverfi að dæluskúr við Súluveg þar sem brotaþoli fannst síðar þann morgun.

Með vísan til alls framangreinds þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði Magnús Norðquist hafi átt þátt í að svipta brotaþola frelsi sínu og skilja hann eftir rænulausan við Fálkafell. Varðandi ofbeldi sem ákærðu er gefið að sök að hafa beitt brotaþola þar eru atvik mjög óljós. Brotaþoli man ekkert eftir þeim og ákærðu neita sök. Miðað við framburð brotaþola og vitnisins D hjá lögreglu um að hann hafi þegar eftir fyrri atlöguna kvartað sérstaklega undan verk í hendi, og þess framburðar vitnisins J læknis, að brot ákærða getið stafað af því að maður beri hendi fyrir sig við fall, verður ekki talið sannað að úlnliður hafi brotnað við þau atvik sem lýst er í síðari lið ákærunnar. Þykir þó fært að sakfella ákærða fyrir að hafa í félagi við annan mann beitt hann ofbeldi sem olli öðrum þeim áverkum sem lýst er í þessum lið ákæru.

Brot ákærða er réttilega heimfært til 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða er gefið að sök að hafa sparkað eða trampað á höfði brotaþola og sást skófar á höfði hans. Ekki verður talið sannað að um spark hafi verið að ræða, og gæti munstrið allt eins stafað af því að fæti hafi verið þrýst á höfuð hans. Ljóst er að um var að ræða mjúkan strigaskó. Vitnið J læknir kvað enga áverka brotaþolans hafa verið hættulega. Í ljósi framangreinds verður líkamsárásin heimfærð til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Símagögn og framburður tveggja vitna um að lágvaxinn maður hafi verið með ákærða Magnúsi styðja vissulega grun um að ákærði X hafi verið í för með honum þegar þau atvik sem lýst er í síðari ákærulið áttu sér stað. Hins vegar hefur ekkert vitni í málinu getað staðfest að um hann hafi verið að ræða og hafði vitnið E meðal annars eftir E að þeir hefðu verið tveir að verki. Gegn eindreginni neitun hans verður því að telja sök ákærða X ósannaða.

 

IV.

Þann 14. nóvember 2016 var ákærði Magnús dæmdur til að sæta fangelsi í 3 mánuði fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, tollalögum og umferðarlögum. Refsingin var bundin skilorði til tveggja ára. Þá gerði hann sátt við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um sektargreiðslu fyrir umferðarlagabrot þann 6. maí 2017. Brot þau sem ákærði er nú sakfelldur fyrir voru framin áður en framangreindur dómur var kveðinn upp og sáttin gerð. Ber því nú að dæma ákærða hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Skilorðshluti dómsins frá 14. nóvember 2016 verður tekinn upp og honum gerð refsing fyrir þau brot í einu lagi, sbr. 60. gr. sömu laga. Litið verður til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldis­brot. Hins vegar verður einnig litið til þess að um er að ræða gróf brot og framkvæmdin ber vott um skýran ásetning. Þá verður litið til þess að brotaþola var hætta búin þar sem hann var skilinn eftir rænulaus og illa leikinn, úr alfaraleið, sbr. 3. töl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna. Með vísan til þessa er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

 

Þann 11. júlí 2016 var ákærði X dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir umferðarlagabrot og vörslur fíkniefna. Hinn 22. desember sama ár var hann dæmdur fyrir hótanir, vopnalagabrot og vörslur fíkniefna. Skilorðsdómurinn frá 11. júlí 2016 var þá tekinn upp og hann dæmdur til að sæta fangelsi í 90 daga, en refsingunni var frestað skilorðsbundið í 2 ár. Þann 7. september 2017 var ákærði dæmdur í 4 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, sviptur ökurétti og fyrir vörslur fíkniefna. Brot það sem hann er sakfelldur fyrir í fyrstu ákæru, framdi hann áður en dómur var kveðinn upp 7. september. Ber að ákveða honum hegningarauka vegna þessa, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing hans verður ákveðin fangelsi í einn mánuð.

 

Brotaþoli gerir kröfu um 2.000.000 krónur í bætur, auk vaxta. Ákærði ber bótaábyrgð á afleiðingum brotanna á brotaþola, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Vitnið J læknir kvað líklega taka um 3-6 vikur að ná sér af áverkum sem þessum þannig að vinnufærni yrði náð. Brotaþoli kvaðst hafa orðið „paranoid“ í kjölfar árásarinnar en lýsti ekki öðrum andlegum afleiðingum. Þá liggja engin gögn fyrir um þær. Miskabætur til brotaþola þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafa fyrr en við þingfestingu málsins. Dæmdar bætur skulu því bera vexti samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. apríl 2016 til þingfestingardags, 8. febrúar 2018, en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Skipaður réttargæslumaður fær dæmda þóknun fyrir starfann samkvæmt 3. mgr. 48. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 233. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Eru því ekki skilyrði til að dæma einnig málskostnað eftir lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Samkvæmt úrslitum málsins og 1. mgr. 235. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er ákærða Magnúsi gert að greiða ¾ sakarkostnaðar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns og ferðakostnað þeirra, eins og greinir í dómsorði. Kostnaður á rannsóknarstigi nam 293.499 krónum.

Vinna tilnefnds verjanda ákærða X á rannsóknarstigi, Arnars Sigfússonar lögmanns, og skipaðs verjanda hans fyrir dómi, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, laut fyrst og fremst að því máli sem ákærði var sýknaður af. Málsvarnarlaun þeirra og ferðakostnaður greiðist því úr ríkissjóði.

Málsvarnarlaun og þóknanir eru í dómsorði tilgreind að virðisaukaskatti meðtöldum.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Magnús Norðquist Þóroddsson sæti fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald ákærða samkvæmt úrskurðum upp kveðnum 24. og 29. apríl 2016.

Ákærði X sæti fangelsi í einn mánuð. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald ákærða samkvæmt úrskurði upp kveðnum 29. apríl 2016.

Ákærði Magnús greiði brotaþola, A, 1.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt  8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. apríl 2016 til 8. febrúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði Magnús greiði 2.084.458 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. ¾ hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, sem ákveðast í heild 2.000.000 krónur, ¾ hluta ferðakostnaðar hans, sem í heild er 142.753 krónur, ¾ hluta þóknunar skipaðs réttargæslumanns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, sem í heild er ákveðin 316.200 krónur og ¾ hluta ferðakostnaðar hans, sem í heild er 26.825 krónur.

Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun Arnars Sigfússonar lögmanns, tilnefnds verjanda ákærða X á rannsóknarstigi, sem ákveðst 88.040 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, sem ákveðst 1.264.800 krónur, og ferðakostnaður hans, 161.640 krónur.