• Lykilorð:
  • Börn
  • Líkamsárás
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 12. apríl 2018,  í máli

nr. S-40/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið í dag, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi þann 14. mars sl., með ákæru á hendur X, kt. 000000-0000, …, …;

„fyrir endurtekin ofbeldisbrot í nánu sambandi og brot á barnaverndarlögum, en til vara fyrir líkamsárásir og stórfelldrar ærumeiðingar, framin á sameiginlegu heimili ákærða og brotaþola að … á …, mánudaginn 1. janúar 2018.

I.

Að hafa flengt 8 ára dóttur sína Y, kt. 000000-0000, með belti á rassinn, með þeim afleiðingum að barnið hlaut marblett ca. 4 cm. í þvermál á vinstri rasskinn, en í miðju marblettsins var grunnt sár.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 1940 og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, með síðari breytingum, en til vara 1. mgr. 217. gr. sömu laga, með síðari breytingum.

II.

Með því að hafa skömmu síðar þennan sama dag slegið sambýliskonu sína Z, kt. 000000-0000 í andlitið/nefið með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði, þetta gerði ákærði fyrir framan eða að viðstöddu barni þeirra Y.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 1940 og 1. mgr. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, með síðari breytingum, en til vara 1. mgr. 218. gr. og 233. gr. b. sömu laga, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði hefur komið fyrir dóm og játað sök. Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst. Brot hans þykja varða við þau refsiákvæði sem tilgreind eru í varakröfum ákæruvaldsins. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu en þegar hefur farið fram, með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008.

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á refsingu hans fyrir framangreind brot.

Ákærði kveður sig og konu sína hafa leitað hjónabandsráðgjafar. Hann kveðst iðrast háttsemi sinnar. Litið verður til þessa, en einnig 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. sömu greinar, sbr. 1. gr. laga nr. 27/2006.

Refsing ákærða ákveðst fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði.

Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, sem samkvæmt yfirliti nemur 9.000 krónum.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðn­um breytingum.

Ákærði greiði sakarkostnað, 9.000 krónur.