• Lykilorð:
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. desember 2018 í máli nr. S-185/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Nataliu Weroniku Zabinska

(Jón Stefán Hjaltalín Einarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 18. desember sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 29. október 2018, á hendur

 

Nataliu Weroniku Zabinska, [...] Akureyri,

 

„fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi, og umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 24. september 2018, ekið bifreiðinni [...], suður Hörgárbraut á Akureyri of hratt og án nægilegrar varúðar að merktri gangbraut sem liggur yfir Hörgárbrautina skammt frá Glerá þar sem hún ekur á drenginn [A], sem var á leið yfir gangbrautina.  Við þetta hlaut drengurinn opið lærleggsbrot á vinstra fæti og brákaðist á mjaðmagrind, auk þess sem hann hlaut skrámur á höfði og útlimum.

Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr. 4. gr., 6. mgr. 26. gr. og 1. mgr. og d lið 2. mgr. 36. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. nefndra umferðarlaga, með síðari breytingum.

 

Ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að sviptingu ökuréttinda verði markaður svo skammur tími sem lög leyfa. Þá er gerð krafa um þóknun til handa skipuðum verjanda.

 

Ákærða hefur skýlaust játað sakargiftir fyrir lögreglu og hér fyrir dómi. Með játningu ákærðu, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm og gögnum málsins, er nægilega sannað að hún hafi gerst sek um þá háttsemi sem í ákæru er lýst. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

Brot ákærðu er í ákæru meðal annars heimfært til 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákvæði þetta er svo almennt orðað að það getur ekki talist viðhlítandi refsiheimild, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 33/2012. Ákærðu verður því ekki refsað fyrir brot á því. Að öðru leyti er fallist á heimfærslu brotsins til refsiákvæða í ákæru og varðar það því við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 6. mgr. 26. gr. og 1. mgr. og d-lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Ákærða hefur hreinan sakaferil. Refsing hennar nú er ákveðin fangelsi í 60 daga. Með vísan til hreins sakaferils hennar þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og að hún falli niður, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í 2 ár.

Ákærðu er ekki gefið að sök að hafa ekið yfir löglegum hámarkshraða en að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður. Verður að telja að ákærða hafi sýnt vítavert aðgæsluleysi við gangbrautina en sérstakar skyldur hvíla á ökumönnum að gæta aðgæslu þar, sbr. d-lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga. Því verður fallist á kröfu ákæruvalds um sviptingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 101. gr. umferðarlaganna. Verður ákærða svipt ökurétti í 3 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til dómsniðurstöðu verður ákærða dæmd til greiðslu sakarkostnaðar sem er ekki annar en þóknun skipaðs verjanda hennar, Jóns Stefáns Hjaltalín lögmanns. Þóknun hans er í dómsorði tilgreind að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Natalia Weronika Zabinska, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða er svipt ökurétti í þrjá mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærða greiði sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda hennar, Jóns Stefáns Hjaltalín lögmanns, 63.240 krónur.