• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. júlí 2018 í máli nr. S-58/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður)

(Inga Lillý Brynjólfsdóttir lögmaður, réttargæslumaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 22. júní sl., var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 26. apríl 2018, á hendur X,

 

„fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni, [A], frá því að hún var um eins árs þar til hún var fjögurra ára, eða á tímabilinu 2010-2014, á þáverandi heimili hans að [...], sem hér greinir:

 

1.     Með því að hafa ítrekað haft önnur kynferðismök en samræði við barnið með því að beita ólögmætri nauðung vegna yfirburðastöðu sinnar gagnvart barninu, en ákærði þuklaði og strauk kynfæri [...], sleikti kynfæri hennar, fróaði sjálfum sér á meðan uns hann hafði sáðlát, lét hana í eitt til tvö skipti strjúka getnaðarlim hans og snerta með munninum.

2.     Með því að hafa í eitt framangreinda skipta tekið myndir af athæfi sínu á myndavél sem sýndu barnið á kynferðislegan hátt og haft þær í vörslu sinni í nokkurn tíma uns hann eyddi þeim.

3.     Með því að hafa í eitt skipti, 1. janúar 2014, áreitt [A] kynferðislega með því að kyssa hana tungukossi.“

 

Af hálfu ákæruvalds er byggt á að brot ákærða samkvæmt 1. lið varði við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr., brot samkvæmt 2. lið við 1. mgr. 210. gr. a sömu laga, sbr. áður 4. mgr. 210. gr., og brot samkvæmt 3. lið við 2. mgr. 202 gr. sömu laga, sbr. áður 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. laganna. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Af hálfu B er gerð sú krafa, fyrir hönd ólögráða dóttur hennar, brotaþola í máli þessu, að ákærða verði gert að greiða henni 4.000.000 krónur í miskabætur, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. janúar 2014, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.000.000 krónum frá þeim degi er bótakrafa, dags. 31. janúar 2014 var birt ákærða og af 4.000.000 krónum frá því að viðauki skaðabótakröfu, dags. 28. febrúar 2018, var birtur, til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutnings­þóknun.

 

Í upphafi árs 2014 vaknaði grunur um að ákærði hafi framið kynferðisbrot gegn brotaþola í máli þessu. Málið var rannsakað og fellt niður að rannsókn lokinni þar sem sakargögn þóttu ekki nægileg til ákæru. Hinn 24. maí 2017 leitaði ákærði til lögreglu að eigin frumkvæði og vildi skýra frá brotum sínum. Er atvikalýsing í ákæru byggð á þeim upplýsingum sem hann veitti lögreglu af sjálfsdáðum. Ákærði kom fyrir dóminn, ásamt skipuðum verjanda, og játaði skýlaust sakargiftir, með þeirri breytingu þó að atvik í 1. og 2. tölulið hafi gerst á árunum 2010-2013. Sækjandi féllst á að við það yrði miðað. Játning ákærða fær nokkra stoð í þeim gögnum sem aflað var við rannsókn málsins árið 2014. Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sann­leikanum samkvæm, sem og gögnum málsins, telur dómurinn nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst, en þó þannig að atvik í 1. og 2. tölulið hafi orðið 2010-2013. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.  Að þessu virtu er ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða af hálfu ákæruvalds.  

 

Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að um er að ræða mjög alvarleg brot gegn ungu barni sem ákærða var trúað fyrir og hafði fjölskyldutengsl við. Á hinn bóginn verður einnig litið til þess að ákærði hefur hreinan sakarferil og þess að hann iðrast mjög verknaðarins. Hann fór af sjálfsdáðum til lögreglu og skýrði hreinskilnis­lega frá brotum sínum, m.a. í því skyni að tryggt yrði að barnið fengi þá aðstoð sem það þyrfti á að halda til að takast á við afleiðingar brotanna. Er framburður hans ástæða þess að upplýst varð um málið og ákæra gefin út. Horfir það til mildunar refsingar ákærða, sbr. 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Með vísan til þeirrar miklu sérstöðu málsins að málið upplýsist og sé dæmt vegna þess frumkvæðis ákærða að segja frá brotum sínum, sem sýnir svo ekki verður um villst iðrun ákærða og skýran vilja hans til að bæta fyrir brot sín, þykir fært að skilorðsbinda hluta refsingarinnar, svo sem greinir í dómsorði. Vegna alvarleika brotanna verður skilorðstíminn þó svo langur sem lög leyfa.

 

Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærði greiði 4.000.000 krónur í miskabætur. Ákærði hefur fallist á bótaskyldu en krefst þess að bætur verði dæmdar lægri en krafist er. Engin gögn liggja fyrir um afleiðingar brotanna á brotaþola en litið verður til þess að brotin eru alvarleg og til þess fallin að valda miska. Þykja bætur hæfilega ákveðnar 2.000.000 krónur.

Ekki verður sé að ákærða hafi verið birt bótakrafa eða viðauki við hana fyrr en við þingfestingu málsins. Dæmdar bætur skulu því bera vexti samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. janúar 2014 til þingfestingardags, 22. júní 2018, en dráttar­vexti skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Skipaður réttargæslumaður fær dæmda þóknun fyrir starfann samkvæmt 3. mgr. 48. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 233. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Eru því ekki skilyrði til að dæma einnig málskostnað eftir lögum um einkamál nr. 91/1991.

Samkvæmt úrslitum málsins og 1. mgr. 235. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er ákærða gert að greiða sakarkostnað, alls 579.154 krónur, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns og skipaðs réttargæslumanns Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns. Skipaður verjandi Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður tók við málinu eftir útgáfu ákæru og verður þóknun hennar  132.680 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og þóknun skipaðs réttargæslumanns 246.636 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan ferðakostnað hennar, 33.550 krónur.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár en fresta skal fullnustu 21 mánaðar þar af og sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum fimm árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði brotaþola, A, 2.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt  8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. janúar 2014 til 22. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

Ákærði greiði 579.154 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda hans, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, 132.680 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 246.636 krónur og útlagðan ferðakostnað hennar, 33.550 krónur.