• Lykilorð:
  • Fjárdráttur
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skaðabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. febrúar 2019 í máli nr. S-216/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Elísabetu Ósk Vigfúsdóttur

(Hallgrímur Jónsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. janúar sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 17. desember 2018, á hendur Elísabetu Ósk Vigfúsdóttur, […],

 

„fyrir fjárdrátt með því að hafa á tímabilinu frá 26. júní 2017 til 10. júlí 2017, dregið sér 30.000 krónur í peningum og 1.655 evrur, þegar hún starfaði í afgreiðslu […] en þessa fjárhæð tók hún úr afgreiðslukassa hótelsins.

Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

A gerir bótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 236.176, með vöxtum sam­kvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 71.920 frá 20. ágúst 2017 til 20. september s.á, en af kr. 236.176 frá þeim degi til 28. desember 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærða hefur komið fyrir dóm og játað sök samkvæmt ákæru. Með játningu hennar sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm er nægilega sannað að hún hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar við þar tilgreind refsiákvæði.

 

Ákærða hefur hreinan sakaferil. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærða játaði sök sína strax skýlaust, skilaði þeim fjármunum sem um ræðir og samþykkti bótakröfu vegna kostnaðar sem brotaþoli hafði af vinnu lögmanns við málið. Á hinn bóginn verður einnig til þess að ákærða framdi brot sitt á tveggja vikna tímabili sem bendir til nokkuð eindregins brotavilja. Refsing ákærðu er ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið, eins og nánar greinir í dómsorði.

Eins og að framan greinir samþykkti ákærða framkomna bótakröfu og er hún tekin til greina að fullu.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til dómsniðurstöðu verður ákærða dæmd til greiðslu sakarkostnaðar sem er þóknun skipaðs verjanda hennar, Hallgríms Jónssonar lögmanns. Þóknun hans er í dómsorði tilgreind að virðisaukaskatti meðtöldum.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Elísabet Ósk Vigfúsdóttir, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða greiði A 236.176 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, af 71.920 krónum frá 20. ágúst 2017 til 20. september sama ár, en af 236.176 krónum frá þeim degi til 28. desember 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærða greiði sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hennar, Hallgríms Jónssonar lögmanns, 105.400 krónur.