• Lykilorð:
  • Sveitarfélög
  • Viðurkenningardómur
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 3. apríl 2018 í máli

nr. E-123/2016:

Jóhanna Guðbjörg Einarsdóttir

(Gísli Guðni Hall lögmaður)

gegn

Akureyrarbæ

(Árni Pálsson lögmaður)

Mál þetta, sem var dómtekið þriðjudaginn 6. febrúar sl. er höfðað 7. júní 2016. Stefnandi er Jóhanna Guðbjörg Einarsdóttir, Bjarkarlundi 3, Akureyri, en stefndi er Akureyrarbær, Geislagötu 9, Akureyri.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna líkamstjóns, sem stefnandi hlaut 5. október 2011 í starfi sínu sem íþróttakennari við Lundaskóla, er raddbönd hennar sködduðust vegna ófullnægjandi aðbúnaðar við íþróttakennslu í íþróttahúsi KA á Akureyrir á tímabilinu 26. september 2011 til 5. október sama ár.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 161.093 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 26.718 krónum frá 2. janúar 2015, af 48.983 krónum frá 1. júlí 2015, af 17.812 krónum frá 24. nóvember 2015 og af 67.800 krónum frá 8. janúar 2016, í hverju tilviki til þingfestingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda en sýknu að svo stöddum af skaðabótakröfu. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

 

I

Stefnandi er íþróttakennari. Haustið 2011 var hún við störf sem íþróttakennari við Lundaskóla á Akureyri og hafði þá starfað við íþróttakennslu við skólann í um 20 ár, en skólinn er rekinn af hinu stefnda sveitarfélagi. Íþróttakennsla í Lundaskóla fer fram í Íþróttahúsi KA. Húsið er í eigu stefnda en rekið af íþróttafélaginu KA og stefndi hefur afnot af húsinu til íþróttakennslu.

Sumarið 2011 var ráðist í framkvæmdir í umræddu íþróttahúsi þannig að gamalt gólf var rifið upp og nýtt lagt. Einnig voru settir áhorfendabekkir beggja vegna salarins. Salurinn mun vera þannig útbúinn að hægt var að skipta honum í þrennt með tjöldum. Hljóðkerfi mun hafa verið til staðar til að nota við kennsluna en íþróttakennarar töldu það lélegt og gagnast illa.

Íþróttakennsla mun hafa hafist í húsinu 26. september haustið 2011. Kom fram í skýrslu stefnanda fyrir dómi að í húsinu hafi verið megn lyktarmengun fyrst eftir að húsið var tekið í notkun og þar hafi einnig verið mikið ryk og hávaði. Þetta hafi gert íþróttakennurum erfitt fyrir að halda uppi eðlilegri kennslu. Íþróttakennararnir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Birgitta Guðjónsdóttir, Alda Bjarnadóttir og Jóhannes Bjarnason, sem öll voru við kennslu á sama tíma haustið 2011 komu fyrir dóm og lýstu aðstæðum í íþróttahúsinu þetta haust mjög með sama hætti og stefnandi.

Stefnandi byggir á að 5. október 2011 hafi rödd hennar brostið. Kveður hún þetta hafa gerst er hún var að útskýra leik fyrir nemendum sínum og hafi annar kennari þurft að aðstoða hana með því að ljúka útskýringunni. Hún hafi síðan reynt að hlífa röddinni og harka af sér en hafi loks leitað læknis 10. nóvember 2011. Hún var síðan í veikindaleyfi út skólaárið 2011/2012. Kveður stefnandi að hún hafi ekki snúið aftur til íþróttakennslu en hafi sinnt ýmsum öðrum störfum innan skólans eftir þetta.

Af gögnum málsins má sjá að stefnandi hefur verið í raddmeðferð síðan, sem ekki hefur skilað fullnægjandi árangri. Er rödd hennar þróttlítil og hefur ekki náð fullnægjandi styrk til að hún geti hafið kennslu að nýju.

Í málinu telst óumdeilt að íþróttakennarastarf reynir mjög á rödd kennara.

Undir rekstri málsins voru að kröfu stefnanda dómkvaddir tveir læknar til að meta hvort orsakatengsl væru milli líkamstjóns hennar og þeirra aðstæðna á vinnustað sem hún lýsti og einnig áttu matsmennirnir að meta stöðugleikapunkt, veikindatíma, varanlegan miska og örorku.

Matsmenn gerðu læknisskoðun á stefnanda 7. febrúar 2017. Kemur fram í matsgerð að við þá læknisskoðun sé ekki að sjá neinar sýnilegar breytingar á raddböndum en hins vegar virðist stefnandi hafa gríðarlega spennu í vöðvum á hálsi framanverðum í kring um barkakýli og séu yfirgnæfandi líkur á því að þetta stafi af spennuástandi sem myndast hafi í kjölfar raddleysis. Vel sé þekkt að ryk og sterk efni í innöndunarlofti geti valdið raddbreytingum og þó að þær breytingar gangi yfirleitt til baka geti sjúklingar lent í krónískri raddþreytu sem afleiðingum af fyrrgreindri vöðvaspennu. Það verði því að telja mun meiri líkur en minni á að raddvandamál stefnanda stafi af óviðunandi ástandi í kennslurými íþróttahúss.

Í matsgerð kemur og fram að matsmenn telji ekki unnt með óyggjandi hætti að staðhæfa að orsakasamhengi liggi milli núverandi einkenna stefnanda og aðbúnaðar á vinnustað. Á hinn bóginn verði að líta til þess að mjög góð samtímaskráning á einkennum stefnanda liggi fyrir og sé skýr og engum öðrum orsakavöldum til að dreifa. Verði því að álykta að slíkt orsakasamband sé fyrir hendi. Mun meiri líkur séu til þess en minni.

Í matsgerð kemur og fram að stöðugleikapunktur sé 1. júní 2012, veikindatímabil, án rúmlegu sé frá 10. nóvember 2011 til 1. júní 2012, varanlegur miski er talinn 5 stig og varanleg örorka 5%.

Við aðalmeðferð málsins gáfu einnig skýrslu þáverandi umsjónarmaður íþróttahússins og þrír aðrir menn sem unnu við framkvæmdirnar. Töldu þeir að umræddar framkvæmdir hefðu ekki falið í sér það mikla, ryk-, lyktar- og hávaðamengun að teljandi gæti talist. Lyktin sem verið hefði af gólfinu fyrst eftir að það hefði verið lagt hefði horfið fljótt. Þá kom fram að loftræstikerfi hússins gengi allan sólarhringinn og gólfið væri þvegið með þar til gerðum vélum á  hverjum degi.

  

II

Stefnandi kveður viðurkenningarkröfu sína byggja á sakarreglu skaðabótaréttarins. Kveður hún að aðbúnaður, sem hún, ásamt samkennurum sínum, hafi verið látin vinna við í íþróttahúsi KA haustið 2011, hafi verið ófullnægjandi. Stefnandi hafi verið útsett fyrir hvers kyns heilsutjóni, sem stafað gæti af mikilli lyktar-, ryks og hávaðamengun. Í þessu tilviki hafi verið sérstök hætta á tjóni á raddfærum, en það reyni sérstaklega mikið á þau við íþróttakennslu. Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og að heilsutjón stefnanda verði rakið til þess.

Í lögum nr. 46/1980 séu margvísleg ákvæði sem ætlað sé að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Í 1. gr. laganna sé þessum tilgangi þeirra lýst. Í 13. gr. sé skyldum atvinnurekenda lýst með almennum hætti. Segi að atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í 42. gr., sem sé í IV. kafla laganna sem fjalli um vinnustaði, segi að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í ákvæðinu felist m.a. að atvinnurekanda beri rík skylda til að sjá til þess að vinnustaður sé án heilsuspillandi mengunar, en ellegar beri að grípa til sérstakra varúðarráðstafana til að fyrirbyggja heilsutjón vegna mengunar.

Um hávaða gildi reglugerð nr. 921/2006 um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum. Samkvæmt 1. gr. hennar gildi hún um hvers konar starfsemi þar sem starfsmenn eigi á hættu eða kunni að eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna hávaða við störf sín. Í reglugerðinni sé mælt fyrir um viðmiðunarmörk og viðbragðsmörk fyrir álag vegna hávaða. Í 6. gr. sé mælt fyrir um að þegar líkur séu á að starfsemi hafi í för með sér áhættu vegna hávaða skuli atvinnurekandi meta, og mæla ef þörf krefur, hve miklu álagi vegna hávaða starfsmenn verði fyrir, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980.

Í þessu tilviki hafi stefnandi og aðrir íþróttakennarar verið látnir vinna við alls óboðlegar aðstæður, þar sem saman hafi farið mikilla hávaði, lykt og rykmengun vegna framkvæmda í húsinu innanhúss, án þess að nokkuð hafi verið að gert til að vernda heilsu þeirra og það þrátt fyrir að ítrekað hafi verið kvartað yfir vinnuaðstöðunni. Kvartanirnar hafi ekki leitt til neins konar viðbragða,  hvorki mælinga né nokkurra varúðarráðstafana, þó svo að kvörtunartilefnið hafi í sjálfu sér ekki verið dregið í efa. Því hafi farið sem fór. Stefnandi byggi á að stefnda hafi borið, einkum og sér í lagi eftir að kennararnir hafi vakið athygli á óboðlegri vinnuaðstöðu, að grípa til viðeigandi ráðstafana til að bæta úr, hvort sem það hefði verið gert með niðurfellingu kennslu tímabundið eða öðrum raunhæfum úrræðum.

Stefnandi hafi misst rödd sína og geti vart talað öðruvísi en þá mjög lágt og takmarkað í einu. Raddböndin og önnur talfæri hafi orðið fyrir varanlegu tjóni, sem myndast hafi við þær aðstæður sem að framan sé lýst og séu varanlegar. Mikil og tímafrek raddþjálfun hafi takmarkaðan árangur borið. Röddin sé verkfæri íþróttakennara og forsenda fyrir því að þeir geti starfað sem slíkir. Þannig hafi starfsorka stefnanda og tekjuöflunarhæfi verið skert, jafnframt því  sem raddleysi feli í sér skerðingu á almennum lífsgæðum. Stefnandi byggi á að hún hafi orðið fyrir varanlegri örorku og varanlegum miska eins og hugtökin séu skilgreind í skaðabótalögum nr. 50/1993. Mat á þessum afleiðingum hafi ekki enn farið fram og sé því krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Haldi stefndi fram vörnum á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki orðið fyrir heilsutjóni áskilji stefnandi sér rétt til að bregðast við því með frekari gagnaöflun og framlagningu.

Stefnandi gangi út frá að ekki verði deilt um orsakatengsl milli tjóns hennar og aðbúnaðarins sem lýst sé hér að framan. Lækni og raddbandasérfræðingi beri saman um að orsakatengsl hafi verið fyrir hendi og engin önnur skýring sé sennileg, en vottorð þessara aðila séu meðal gagna sem stefnandi leggi fram. Þá vísaði stefnandi við munnlegan málflutning til matsgerðar dómkvaddra matsmanna sem ekki hafi verið hnekkt, þar sem slíku orsakasambandi sé slegið föstu.

Stefnandi kveður fjárkröfu sína vera 161.093 krónur og vera vegna fjögurra reikninga. Þrír reikningar séu frá Valdísi I. Jónsdóttur, Talmeinastofunni, vegna raddmeðferðar, með eindaga 2. janúar 2015 að fjárhæð 26.718 krónur, með eindaga 1. júlí 2015 að fjárhæð 48.983 krónur og með eindaga 24. nóvember 2015 að fjárhæð 17.812 krónur. Hver reikningur sé vegna fjölda skipta eins og þar sé nánar greint. Þá er reikningur frá Sólveigu I. Skúladóttur, löggiltum sjúkranuddara, vegna sjúkranudds.

Framangreindir reikningar eigi það sammerkt að vera vegna meðferðar í þeim tilgangi að þjálfa og bæta rödd stefnanda. Um sé að ræða kostnað, sem stefnandi eigi rétt á að fá bættan úr hendi  stefnda samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um bótagrundvöll sé vísað til málsástæðna til stuðnings viðurkenningarkröfu hér að framan.

Stefnandi gerir áskilnað um að krefjast síðar greiðslu vegna alls annars fjártjóns síns en þess sem felist í framangreindum reikningum.

Vaxtakröfu kveður stefnandi byggða á ákvæðum III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en málskostnaðarkrafa sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá krefst stefnandi þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Sé þetta skaðleysiskrafa þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og eignist því ekki frádráttarrétt við greiðslu skattsins.

 

III

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að hann beri ekki að lögum skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.

Sé í fyrsta lagi ósannað að stefndi eigi sök á tjóninu. Viðurkenningarkrafa stefnanda byggi á sakarreglunni og til þess að bótaskylda geti verið til staðar þurfi stefnandi að sanna saknæma háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða þeirra sem séu á hans vegum. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á gáleysi stefnda hvað viðkomi aðbúnaði eða ástandi íþróttasalarins, né saknæma háttsemi af hálfu starfsmanna stefnda.

Í öðru lagi sé ósannað að orsakatengsl séu á milli vinnuaðstæðna, þá átta daga sem hafi liðið frá því að stefnandi hafi hafið störf og þar til hún hafi misst röddina, eða þar til hún hafi orðið óvinnufær 11. nóvember 2011. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að vinnuaðstæður hafi orsakað tjónið.

Í þriðja lagi skorti á að stefnandi geti sýnt fram á að tjón hans sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda.

Af framangreindum ástæðum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu.

Stefndi kveðst benda á að þegar stefnandi hafi misst röddina hafi hún verið við íþróttakennslu í 20 ár. Raddleysi sé algengur fylgifiskur kennslu, sérstaklega íþróttakennslu. Ýmsir innri þættir geti valdið raddleysi og því sé mikilvægt að beita röddinni rétt og nota hljóðkerfi þegar það sé til staðar, sérstaklega þegar unnið sé í hávaða. Þá hafi íþróttakennarar val um að fara með íþróttakennslu annað, t.d. út undir bert loft, eða fella kennslu niður. Stefndi bendi á að íþróttasalurinn hafi verið í mikilli notkun á þessum tíma og enginn annar hafi sýnt fram á að hafa orðið fyrir tjóni. Stefndi geti því ekki borið skaðabótaábyrgð á því að stefnandi hafi misst röddina skyndilega 5. október 2011 og kveðst benda á að stefnandi hafi ekki tilkynnt óvinnufærni vegna raddleysis fyrr en 11. nóvember 2011.

Stefndi kveðst mótmæla því að á honum hafi hvílt skylda til að kalla til lögreglu eða Vinnueftirlit, þegar stefnandi hafi kvartað undan hávaða eða þegar stefnandi hafi misst röddina 5. október 2011. Í gögnum málsins sé ekki að finna formlega skriflega kvörtun frá stefnanda til stefnda, en stefnandi mun hins vegar hafa kvartað munnlega við skólastjóra Lundaskóla og við forstöðumann íþróttahússins. Ljóst sé því að þar sem stefnandi hafi ekki tilkynnt vinnuslys til skólastjórnenda, hafi engin skylda hvílt á stefnda að tilkynna atvik, hvorki til lögreglu né Vinnueftirlits.

Stefndi bendi á að stefnandi hafi ekki orðið fyrir vinnuslysi í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, þar sem segi að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.

Ekki liggi fyrir hvort kvörtun stefnanda hafi komið fram fyrir 5. október 2011, eða eftir að stefnandi missti röddina. Stefndi hafi hins vegar sent tilkynningu til Vinnueftirlits 16. nóvember 2011 þegar læknisvottorð hafi komið frá lækni stefnanda, en þá hafi framkvæmdum verið lokið.

Þá hafi kvörtun stefnanda ekki verið með þeim hætti að ástæða þætti til að grípa til aðgerða með vísan til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þannig hafi ekki skapast þær aðstæður sem 86. gr. laganna kveði á um en þar segi að ef ljóst sé að skyndilega hafi komið upp bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsmanna á vinnustað, svo sem vegna loftmengunar, eitraðra, eldfimra eða hættulegra efna, hættu á hruni jarðvegs, vörustæðu eða burðarvirkis, fallhættu, sprengihættu eða annarrar alvarlegrar hættu, sé vinnuveitanda skylt að hlutast til um að starfsemin verði stöðvuð strax og/eða að starfsfólk hverfi frá þeim stað þar sem hættuástand ríki.

Stefnandi vísi til 42. gr. laga nr. 46/1980 þar sem segi að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður, að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í stefnu segir að í ákvæðinu felist m.a. að atvinnurekanda beri rík skylda til að sjá til þess að vinnustaður sé án heilsuspillandi mengunar. Þá vísi stefnandi til reglugerðar nr. 921/2006 um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum. Kveður stefndi að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að aðstæður hafi verið með þeim hætti að það hafi leitt af sér heilsutjón hennar. Ítrekað sé að engin skaðleg efni hafi verið notuð við uppsetningu áhorfendabekkja og að hljóðkerfi hafi verið í íþróttasalnum. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á að orsök þess að hún missti röddina megi rekja til vanrækslu eða annarrar saknæmrar háttsemi stefnda.

Engin sönnun liggi fyrir um að ætlað tjón stefnanda sé að rekja til skaðabótaskyldrar háttsemi starfsmanna stefnda eða að orsakasamband sé á milli tjónsins eða að tjón sé sennileg afleiðing þeirrar háttsemi. Til að knýja fram dóm um viðurkenningu á bótaskyldu þurfi stefnandi, auk þess að færa fram sönnur um saknæmi og ólögmæti, að leiða í ljós að um orsakasamband sé að ræða, tjónið sé sennileg afleiðing af hinni ólögmætu athöfn og að raskað hafi verið hagsmunum sem verndaðir séu með skaðabótareglum. Engin slík sönnun liggi fyrir og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Við munnlegan málflutning var fallið frá kröfu um sýknu af fjárkröfu stefnanda. Var vísað til samkomulags aðila, um að stefndi greiddi sjúkrakostnað stefnanda, án þess að viðurkenna bótaskyldu. Yrðu slíkir reikningar því greiddir er þeir hefðu verið lagðir fram. Krafðist stefndi því sýknu að svo stöddu af umræddri fjárkröfu.

Um lagarök kveðst stefndi vísa til sakarreglunnar og meginreglna um sönnun, orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Þá kveðst stefndi vísa til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 86. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Um málskostnaðarkröfu sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr., 130. gr. og a-liðar 1. mgr. 131. gr. laganna.

 

IV

Samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ber vinnuveitandi ábyrgð á því gagnvart starfsmönnum sínum að vinnustaður uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíkra staða, en kröfur þessar bera að sjálfsögðu keim af því um hvaða starfsemi er að ræða. Er ekki vafi á að stefndi bar í þessum skilningi ábyrgð á, gagnvart stefnanda, að aðstæður til íþróttakennslu í umræddu íþróttahúsi væru viðunandi í skilningi laganna. Ekki er um það deilt að er stefnandi hóf íþróttakennslu í húsinu 26. september 2011 hafði nýlega verið lagt nýtt gólf, með þeim hætti að límdur var niður dúkur og á hann málaðar merkingar. Þá er ekki um það deilt að uppsetningu áhorfendapalla var ekki lokið er kennsla hófst. Fyrir dóminn komu fjórir samkennarar stefnanda og lýstu allir með sama hætti að þessum framkvæmdum hafi fylgt ryk, megn lyktarmengun og hávaði sem gert hafi þeim erfitt fyrir við kennsluna. Aðrir sem báru vitni um aðstæður í íþróttahúsinu voru ekki þar að störfum sem íþróttakennarar og hefur vitnisburður þeirra um aðstæður því minna vægi.

Þá er ekki unnt að horfa fram hjá því að í málinu liggur fyrir matsgerð sem styður það að þær aðstæður sem lýst er hafi valdið því líkamstjóni sem stefnandi varð fyrir. Þessari matsgerð hefur ekki verið hnekkt og ber að leggja hana til grundvallar við úrlausn málsins. Felur matsgerðin í sér sönnun þess annars vegar að orsakatengsl séu á milli tjóns stefnanda og aðbúnaðar í íþróttahúsinu en einnig sönnun þess að tjón stefnanda sé sennileg afleiðingu þeirra aðstæðna sem stefnandi starfaði við á umræddum tíma. Stefndi hefur mótmælt sönnunargildi matsgerðarinnar og vísar einkum til þess að matsmenn hafi ekki sannreynt aðstæður í íþróttahúsinu, en vísi einungis til þess sem þeir kalli samtímaheimildir. Kveður stefndi að þar sem um sé að ræða læknisskoðun sem fór ekki fram fyrr en 10. nóvember 2011 geti það vart talist samtímaheimild. Þá telur stefndi að ekki sé í matsgerðinni nægilega tekið tillit til þess að stefnandi hafði verið íþróttakennari lengi og vitað sé að álag á raddir íþróttakennara sé mikið, en hvergi sé vikið að þessum áhættuþætti í matsgerðinni.

Það er mat dómsins að framangreindar athugsemdir stefnda haggi ekki sönnunargildi mats hinna dómkvöddu matsmanna, sem telja verður byggt á sérfræðilegum röksemdum sem ekki hefur verið hnekkt með yfirmati.

Þá verður og að hafa í huga í þessu sambandi að stefndi bar ábyrgð á því að vinnuaðstaða íþróttakennara væri lögum samkvæmt. Er stefnandi hefur leitt fjögur vitni fyrir dóminn, sem unnu sama verk á sama tíma og stað fyrir stefnda og hefur að auki kostað til mats dómkvaddra matsmanna sem telja að aðstæður sem þessi vitni lýsa hafi valdið því líkamstjóni sem stefnandi hefur átt við að stríða, verður að telja að þá sé svo komið að stefndi beri hallan af skorti á sönnun um hverjar aðstæðurnar nákvæmlega voru. Hefur stefndi ekki teflt fram haldbærum sönnunargögnum sem sýna að aðstæður til kennslu í umræddu íþróttahúsi hafi verið, að gættri framangreindri sönnunarfærslu stefnanda, í samræmi við lágmarkskröfur laga nr. 46/1980. Felur slíkt frávík í sér saknæma og ólögmæta háttsemi af hálfu stefnda og telst sannað að af þeirri háttsemi hlaust tjón stefnanda.

Eins og hér stendur á þykir ekki skipta máli hvernig kvörtunum stefnanda og samstarfsmanna hennar var hagað í umrætt skipti eða hvort atvikið telst slys sem borið hafi að tilkynna til Vinnueftirlitsins.

Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar verður viðurkenningarkrafa stefnanda tekin til greina, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Á grundvelli sömu raka er fjárkrafa stefnanda tekin til greina. Reikningar sem stefnandi krefur um greiðslu á liggja fyrir í málinu og ber stefnda að greiða þá með vísan til 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ekki eru forsendur til að taka til greina kröfu stefnda um sýknu að svo stöddu. Vaxtakrafa stefnanda er í samræmi við lög og gögn málsins og verður einnig tekin til greina.

Stefnda verður gert að greiða stefnanda málskostnað. Samkvæmt  málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnanda nemur útlagður kostnaður hennar 855.000 krónum og verður hann tekinn til greina að fullu. Vegna þóknunar lögmanns verður stefnda gert að greiða 1.240.000 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð. Samtals verður stefnda því gert að greiða stefnanda 2.095.000 krónur í málskostnað.

 

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að stefndi, Akureyrarbær, ber skaðabótaábyrgð, vegna líkamstjóns, sem stefnandi, Jóhanna Guðbjörg Einarsdóttir, hlaut 5. október 2011 í starfi sínu sem íþróttakennari við Lundaskóla, er raddbönd hennar sködduðust vegna ófullnægjandi aðbúnaðar við íþróttakennslu í íþróttahúsi KA á Akureyri á tímabilinu 26. september 2011 til 5. október sama ár.

Stefndi greiði stefnanda 161.093 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 26.718 krónum frá 2. janúar 2015, af 48.983 krónum frá 1. júlí 2015, af 17.812 krónum frá 24. nóvember 2015 og af 67.800 krónum frá 8. janúar 2016, í hverju tilviki til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 2.095.000 krónur í málskostnað.

 

                                                              Halldór Björnsson