• Lykilorð:
  • Fjárslit milli hjóna
  • Opinber skipti
  • Hjón - Annað
  • Slit á fjárfélagi hjóna

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 30. júní 2017

I

Mál þetta sem barst dóminum með bréfi skiptastjóra 10. janúar sl. var tekið til úrskurðar 11. maí sl.

Sóknaraðili er K, [...], [...].

Varnaraðili er M, [...], [...].

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess að við skipti til fjárslita á búi aðila komi hrossin A, B, C, D, E, F, G, H, I, J, K, L [...] og folald undan M og A fætt 2015 ekki til skipta. Þá krefst sóknaraðili þess að hafna verði ákvörðun skiptastjóra þess efnis að gjalda þurfi búinu hluta af folatollum vegna stóðhestsins A.

Varnaraðili krefst þess að hrossin A, B, C, D, E, F, G, L [...], H, I, J, K og trippin undan M og A fætt 2015 komi til skipta við fjárslit á búi aðila. Þá krefst varnaraðili þess að ákvörðun skiptastjóra um að gjalda beri búinu folatolla vegna stóðhestsins A verði staðfest. Loks krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

II

Atvik máls

Aðilar máls þessa gengu í hjúskap á árinu 1991 en höfðu tekið upp sambúð nokkrum árum fyrr og tóku þá upp sameiginlegan búskap að [...] í [...].[...] 2014 slitu aðilar samvistum og flutti varnaraðili af heimili þeirra en fram að því höfðu þau hin síðari ár rekið saman [...] að [...] en reksturinn var skráður á kennitölu varnaraðila. Fram kemur í lýsingu sóknaraðila á málavöxtum að hún hafi frá upphafi annast um bókhald búsins og m.a. af þeim sökum séð um útgáfu reikninga.

Á árinu 2013 stofnaði varnaraðili einkahlutafélagið N ehf. og var nokkuð af eignum búsins fluttar inn í það félag en aðilar eru ekki sammála um hvort það var gert með vitund og vilja sóknaraðila. Á árinu 2015 stofnaði sóknaraðili einkahlutafélagið P ehf. og hefur hún undir því nafni rekið [...] að [...]. Um vorið 2015 hófu aðilar samningaumleitanir varðandi skipti á búi þeirra en náðu ekki samkomulagi og fór svo að varnaraðili óskaði eftir opinberum skiptum og var úrskurður þess efnis kveðinn upp [...] 2016 og Einar Sigurjónsson héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri. Aðilar hafa sammælst um að viðmiðunardagur skipta sé 31. desember 2015. Ágreiningur hefur verið milli aðila um skiptingu eigna, einkum hrossastofns þeirra og hafa þau ítrekað reynt að ná samkomulagi með aðstoð lögmanna sinna en án árangurs. Á skiptafundi 22. desember sl. leitaðist skiptastjóri til við að jafna ágreining varðandi skiptingu þeirra hrossa sem tiltekin eru í kröfum aðila og tekjur af stóðhestinum A. Það tókst ekki og var máli þessu þá skotið til dómsins.

Meðal gagna málsins eru reikningar sem bera nafn varnaraðila en númer þeirra er 662 og 663. Samkvæmt efni þeirra eru þeir gefnir út annars vegar 1. maí 2015 og hins vegar í maí 2015 en með þeim kaupir einkahlutafélagið P þau hross sem um er deilt í máli þessu fyrir alls 17.800.000 krónur. Aðila greinir hins vegar á um hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að gefa þessa reikninga út og þá telur varnaraðili reikningana falsaða.

III

Málsástæður og lagarök

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að hross þau sem ágreiningur er um í málinu hafi ekki verið eign búsins á viðmiðunardegi skipta. Hún hafi fært eignarhald hrossanna ásamt ófæddum fyljum af sameiginlegu búi aðila yfir í einkahlutafélag sitt með útgáfu reikninga 1. maí 2015 og þar hafi verðgildi þeirra verið metið á 17.800.000 krónur. Því sé einkahlutafélag hennar réttur eigandi hrossanna. Sóknaraðili telur einsýnt að verðgildi hrossanna komi til skipta sem hjúskapareign hennar og geti varnaraðili krafist þess þó hann formi kröfur sínar með öðrum hætti nú. Þá hafi hún ítrekað áskilið sér rétt til að halda fram endurgjaldskröfu vegna eigna sem varnaraðili flutti í einkahlutafélag sitt úr sameiginlegu búi aðila á árinu 2013 og síðar. Telur sóknaraðili rétta að kröfur þessar mætist við fjárslitin og ákveði þannig þá fjárhæð sem til skipta komi vegna hrossanna auk tækja.

Sóknaraðili reisir kröfur sínar einnig á því að samkomulag hafi verið um það milli aðila að hún gæti stofnað einkahlutafélag til að sjá um hennar hluta búrekstur og varnaraðili hafi skriflega samþykkt það. Vorið 2015 hafi henni verið ómögulegt að stunda áfram [...] nema með því að gera slíkar ráðstafanir enda hafi virðisaukaskattsnúmer varnaraðila verið lokað á þeim tíma. Hún hafi löngu áður ákveðið að stofna einkahlutafélag til að sjá um rekstur sinn og rætt það við og fengið samþykki varnaraðila fyrir því. Lögum samkvæmt verði einkahlutafélag að eiga þær eignir sem rekstrinum er ætlað að halda utan um. [...] sé virðisaukaskattskyld starfsemi og því hafi félagið þurft að eiga hrossin sem helst voru tekjuberandi til að hægt væri að taka gjöldin jafnframt í gegnum félagið og innskatt á móti útskatti þeirra tekna  sem af þeim hrossum komu. Henni hafi því beinlínis verið ómögulegt annað en að flytja þær eignir sem helst gáfu af sér tekjur  fyrir búreksturinn í félagið. Þetta hafi hún gert með útgáfu tveggja reikninga og þar með hafi félagið eignast hrossin. Sóknaraðili vísar til þess að henni hafi verið ókleift að flytja aðrar eignir en hross yfir í einkahlutafélag sitt en varnaraðili hafi allt frá árinu 2013 flutt í sitt einkahlutafélag öll helstu vinnutæki búsins auk þess sem hann hafi líka selt tæki sem tilheyrðu búinu án vitundar eða vilja hennar og að mestu án þess að endurgjald fyrir tækin rynni til búsins. Þá bendir varnaraðili á að þær eignir sem færðar voru yfir á P ehf. hafi einungis verið brot af heildareignum búsins, þ.e. einungis 12 hross auk væntanlegra folalda sem hún hafi metið á 17.800.000 krónur en á þeim tíma hafi búið átt ríflega [...] hross. Með því að flytja hrossin yfir í einkahlutafélagið hafi sóknaraðili ekki ætlað sér að skerða hlut varnaraðila enda ávallt ljóst að hrossin myndu koma til skipta í einhverri mynd, ef ekki in natura á móti öðrum hrossum.

Sóknaraðili heldur því einnig fram að hún hafi haft fullan ráðstöfunarrétt á eigin hjúskapareignum þrátt fyrir samvistarslitin og því verið heimilt að ráðstafa hrossunum í einkahlutafélag sitt. Skipti þá engu hvaða reikningseyðublöð voru notuð. Henni hafi verið skylt að láta verðgildi eigna sinna standa til skipta við fjárslitin en ekki eignirnar sjálfar. Ákvæði hjúskaparlaga eða skiptalaga veiti ekki heimildir til riftunar á gerningum aðila í aðdraganda opinberra skipta meðan eignirnar, verðgildi þeirra og/eða endurgjald vegna þeirra kemur til skipta. Gagnaðili geti þó eftir ákvæðum 2. mgr. 106. gr. skiptalaga, sbr. 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga gert endurgjaldskröfu telji hann að eignir hafi verið teknar með öllu undan skiptum. Sóknaraðili byggir einnig á því að hún hafi haft viðkomandi hross í vörslum sínum, fóðrað, tamið og hugsað násast alfarið um þau frá samvistarslitum þar til þeim var ráðstafað til P ehf. Auk þess hafi hún gert þær ráðstafanir sem til þurfti til að koma fyli í hryssurnar sem síðan köstuðu vorið 2015.

Sóknaraðili heldur því fram að hrossin sem tilgreind eru á umdeildum reikningum og deilt er um í máli þessu hafi verið hjúskapareign hennar. Þau hafi að langstærstum hluta verið skráð hennar eign í „WorldFeng“ sem sé sérstakt skráningarkerfi hrossa hér á landi. Kerfið gefi þó ekki óumdeilda mynd af eignaskráningu hrossa en aðilar hafi deilt um skráningu hrossa í kerfið frá sambúðarslitum og raunar hafi þau bæði fært til eignarhald á hrossum í skráningarkerfið. Haustið [...] hafi varnaraðili breytt þó nokkrum skráningum áður en sambúðarslit urðu en hún hafi síðan breytt ýmsum skráningum til baka. Auk þess hafi skráningu hrossa verið breytt að kröfu skiptastjóra. Hvað sem líði skráningu hrossanna í skráningarkerfið heldur sóknaraðili því fram að þau hafi verið hennar hjúskapareign enda að stærstum hluta komið inn í bú aðila sem eign hennar frá foreldrum hennar eða sem afkomendur hrossa sem henni hafi verið gefin í framhaldi af því að aðilar hófu búskap á jörðinni. Sóknaraðili bendir á að vegna deilna aðila hafi ekki verið unnt að skrá folöld fædd 2015 og breytingar á eignarhaldi hrossa í „WorldFeng“ eftir reglum sem um slíka skráningu gilda og því gefi skráningarkerfið ekki endanlegar eða tæmandi upplýsingar um eignarheimild hrossaeignar aðila á viðmiðunardegi skiptanna.

Þá vísar sóknaraðili til þess að búrekstur aðila hafi verið sameiginlegur og á kennitölu varnaraðila. Hún hafi í langan tíma gefið út reikninga og séð um sameiginleg fjármál aðila og ekki haft ástæðu til að hætta því enda með rekstur búsins á sínum herðum eftir sambúðarslitin. Byggir hún á því að varnaraðili og lögmaður hennar hafi beinlínis falið henni að gefa út reikninga og á sama tíma stoði ekki að bera því við nú að henni hafi verið óheimilt að gefa út reikninga á reikningseyðublöð með nafni varnaraðila. Þá hafi varnaraðili aldrei frá sambúðarslitum bannað henni að gefa út slíka reikninga eða sjá um fjármálin að öðru leyti, þvert á móti hafi ráð verið fyrir því gert að hún sinnti þessu áfram ásamt öðru er viðkom sameiginlegum búrekstri þeirra.

Sóknaraðili vísar til sömu málsástæðna og raka sem að framan er getið varðandi stóðhestinn A en eignarhald hans var fært yfir í einkahlutafélagið P ehf. Ljóst sé að hesturinn tilheyri ekki búinu heldur sé hann eign einkahlutafélagsins og því eigi tekjur af honum ekki að renna til búsins. Að mati sóknaraðila er skiptastjóra óheimilt að endurkrefja einkahlutafélag í eigu annars aðila sem í fjárslitum er um tekjur þess félags, til hagsbóta fyrir báða aðila fjárslitanna. Með þessu væru tekur einkahlutafélags í eigu aðila að skiptast yfir til annars aðila sem ekki er eigandi þess félags og hefur ekkert með það að gera.

Hvað lagarök varðar vísar sóknaraðili fyrst og fremst til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, en einnig til laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1998. Krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila er reist á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Varnaraðili byggir kröfu sína um að nefnd hross skuli koma til skipta in natura á því að þau hafi verið eign búsins á viðmiðunardegi skipta, 31. desember 2015. Sóknaraðili hafi margsinnis viðurkennt að umrædd hross kæmu til skipta á búi þeirra hjóna og vísar hvað það varðar til lista sem sóknaraðili lagði fram á skiptafundum og tillagna að skiptum á þeim.

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðila hafi varið heimilt að gefa út reikninga nr. 662 og 663 í hans nafni og heldur því fram að þeir séu falsaðir og hafi af þeim sökum ekkert gildi. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að eigendaskipti hrossanna hafi ekki verið færð í „WorldFeng“. Byggir varnaraðili á því að réttur eigandi umþrættra hrossa ásamt þeim fyljum sem voru í hryssunum vorið 2015 og öðrum afkomendum þeirra sem síðar eru til komnir séu því aðilar máls þessa að jöfnu enda hafi hrossabústofn þeirra verið sameign þeirra frá upphafi. Varnaraðili vísar til þess að engin verðmæti hafi komið til hans eða búsins vegna hrossanna auk þess sem ráðstöfun þessi hafi verið ólögmæt samkvæmt hjúskaparlögum, einkum IX. kafla laganna.

Varnaraðili andmælir því að samkomulag hafi verið með aðilum þess efnis að sóknaraðili stofnaði félag til þess að sjá um hennar hluta búrekstursins og að hann hafi samþykkt það skriflega. Slík yfirlýsing sé ekki til og ljósrit það sem lagt hafi verið fram í málinu sé falsað og óvottað.

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi haft fullan ráðstöfunarrétt á hjúskapareignum sínum þrátt fyrir samvistarslitin og að henni hafi verið heimilt að ráðstafa hrossum þeim sem um er deilt til einkahlutafélags í hennar eigu. Skipti þá engu hvaða reikningseyðublöð voru notuð við gerninginn. Vísar varnaraðili til 59. gr. hjúskaparlaga máli sínu til stuðnings og 61. og 62. gr. laganna. Með þessum ólögmæta gjörningi hafi sóknaraðili gert tilraun til að leggja sér út verðmætustu kynbótahross búsins. Í raun sé hér um að ræða erfðaefni sem ekki verður metið til fjár, heldur verði líkt og varnaraðili hafi frá upphafi gert kröfu um að skipta hrossunum að jöfnu milli aðila. Það verði gert með því að hvor aðila um sig fái hvort alsystkinið og að afkvæmi undan bestu ræktunarhryssunum skiptist jafnt, t.d. ef til eru fjögur tryppi undan sömu meri fái hvor aðila um sig tvö tryppi.

Af hálfu varnaraðila er fullyrðingum sóknaraðila í þá veru að hún hafi haft umþrætt hross í sinni vörslu mótmælt. Hrossin séu á [...] vegna þess að sóknaraðili hafi neitað að afhenda þau og rétt að líta svo á að þau séu í vörslum búsins. Þá heldur varnaraðili því fram að hann hafi sjálfur ekið með allar hryssur til stóðhesta nema þær sem voru í hólfi hjá hestum á [...]. Þá sé það einnig rangt sem sóknaraðili haldi fram að hún hafi séð um alla vinnu varðandi það að koma fyli í þær hryssur sem voru með fyli og urðu að folöldum fæddum sumarið 2015, annast eftirlit með þeim og hafa umsjón með þeim þegar þær köstuðu. Í þessu sambandi verði að benda á að engir folatollar eru færðir til gjalda í ársreikningi P ehf. fyrir árið 2015.

Hvað kröfu um að ákvörðun skiptastjóra þess efnis að búinu beri  að gjalda folatolla af stóðhestinum A verði staðfest vísar varnaraðili að hluta til til sömu málsástæðna og raktar hafa verið að framan. Auk þess sé ljóst að stóðhesturinn tilheyri búinu m.a. samkvæmt skráningu í „WorldFeng“ en ekki P ehf. enda hafi það félag ekki greitt neitt fyrir hestinn. Þar af leiðandi eigi tekjur af honum að renna til búsins. Varnaraðili vísar til þess að hesturinn sé úr sameiginlegri ræktun aðila og hafi verið grunnskráður á þau bæði. Sóknaraðili hafi á sínum tíma skráð hestinn að hálfu í eigu tveggja dætra þeirra. Þær systur beri hins vegar engan kostnað af hestinum og þá hafi þær ekki lagt neitt til hans og þar af leiðandi eigi þær ekki rétt á að hirða af honum tekjur heldur eigi þær að renna til búsins.

Þrátt fyrir að A sé [...] og hann hafi verið notaður verulega á undanförnum árum líkt og skráning afkvæma hans beri með sér hafi engar tekjur skilað sér til búsins í formi folatolla en sumarið 2016 hafi tollurinn verið verðlagður á 195.000 krónur. Varnaraðili byggir á því að skiptastjóri hafi heimildir til að endurkrefja þann aðila sem hagnýtt hefur sér eignir annars aðila sem í fjárslitum er, um tekjur af eign til hagsbóta fyrir báða aðila fjárslitanna.

Um lagarök vísar varnaraðili fyrst og fremst til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Einnig til laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1998. Þá vísar hann til almennra reglna kröfu- og eignaréttar um að gerða samninga beri að halda. Krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila er reist á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort hrossin sem nafngreind eru í kröfugerðum aðila skuli koma til skipta við fjárslit á búi þeirra. Sóknaraðili krefst þess að hrossunum verði haldið utan við skiptin en andvirði þeirra, eins og það er tilgreint á reikningum sem í málinu liggja, komi til skipta. Varnaraðili krefst þess hins vegar að hrossunum verði skipt in natura. Þá deila aðilar sérstaklega um tekjur sem stóðhestinn A hefur aflað. Sóknaraðili krefst þess að tekjunum verði haldið utan við skiptin en varnaraðili telur þær eiga að renna til búsins.

Undir rekstri málsins féllu aðilar frá ágreiningi varðandi merina D en á skiptafundi 12. maí 2016 skiptu aðilar á milli sín nokkrum hrossum og kom D ásamt fyli þá í hlut sóknaraðila. Þá liggur og fyrir að aðilar eru sammála um að stóðhesturinn A sé að hálfu í eigu tveggja dætra þeirra og snýst ágreiningur þeirra því um það hvort hann tilheyri búi þeirra að hálfu.

Aðilar stunduðu saman hrossarækt í fjölda ára frá því að þau hófu sambúð á árinu [...] allt til þess dags er varnaraðili fór af sameiginlegu heimili þeirra haustið 2014. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að þau hafi að jöfnu komið að ræktun hrossanna og búskapnum almennt. Flest hinna umþrættu hrossa úr ræktun aðila voru í upphafi skráð að jöfnu í eigu þeirra beggja í upprunabók íslenska hestsins „WorldFengur“ sem gefur sterka vísbendingu um að þau hafi litið svo á að þau ættu jafnan hlut í þeim hrossum sem þau ræktuðu. Þá liggur fyrir að aðilar hafa þegar skipt að jöfnu sín á milli allnokkrum hrossum og önnur hafa með samkomulagi verið seld án þess að annar aðila gerði sérstakt tilkall til þeirra. Eru því ekki efni til annars en að líta svo á að aðilar hafi átt þau hross sem hér er um deilt, líkt og önnur, að jöfnu. Ekki skiptir hér máli þó vera kunni að hin umþrættu hross séu afkvæmi hrossa sem voru í eigu ættingja sóknaraðila og hún eignaðist áður en aðilar tóku upp sambúð en ætterni þeirra eitt og sér getur ekki leitt til þess að þau séu frekar hjúskapareign sóknaraðila en varnaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að einkahlutafélagið P ehf. hafi keypt hrossin í maí 2015 og þar með séu þau ekki lengur í eigu búsins og komi því ekki til skipta. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að reikningar þessir séu ólögmætir og dagsettir aftur í tímann. Hér háttar svo til að sum þeirra hrossa sem um er deilt í málinu og fleiri hross voru með reikningi í [...] 2015 seld Q ehf. Ágreiningur kom upp milli aðila vegna þeirrar ráðstöfunar og var máli varðandi ágreininginn skotið til dómsins en sóknaraðili sem jafnframt var til sóknar í því máli felldi það niður. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en langt fram á haustið 2016 hafi ekki annað staðið til en að hin umþrættu hross væru til skipta. Aðilar hafa bæði gert tillögur að skiptingu hrossa og verður ekki framhjá því horft að í tillögum sóknaraðila eru hin umþrættu hross ítrekað nefnd. Ekkert bendir til annars en að reikningar fyrir sölu ágreinings hrossanna hafi fyrst komið fram haustið 2016 en þegar meta átti hross búsins til verðs í nóvember það sl. andmælti sóknaraðili því að ákveðin hross sættu mati. Á skiptafundi 20. desember sl. er reikningunum að því er virðist fyrst framvísað og þeim strax mótmælt af hálfu varnaraðila. Með hliðsjón af þessu ber sóknaraðili sönnunarbyrgði fyrir því að reikningarnir hafi verið gefnir út á þeim tíma sem dagsetning þeirra segir til um og jafnframt að henni hafi á þeim tíma verið þessi ráðstöfun heimil. Slík sönnun hefur ekki tekist. Hér verður einnig að horfa til þess að hrossin voru notuð í sameiginlegan atvinnurekstur aðila en þau ráku áður saman [...] og bar sóknaraðila því eftir ákvæðum 61. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að afla sér skriflegs samþykkis varnaraðila fyrir sölu hrossanna. Hrossin tilheyrðu því sameiginlegu búi aðila og koma til skipta skv. 104. gr. laga nr. 20/1991. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er kröfum sóknaraðila hafnað og fallist á kröfu varnaraðila þess efnis að hross þau sem nánar eru tilgreind í úrskurðarorði skuli koma til skipta.

Áður er þess getið, að aðilar eru sammála um að stóðhesturinn A sé að hálfu í eigu tveggja dætra þeirra og kemur því ekki til álita að allar tekjur af hestinum skuli renna til búsins og þannig koma til skipta. Skiptir hér engu þótt dæturnar hafi ekki staðið undir helmingi þess kostnaðar sem óhjákvæmilega hlýst af rekstri hestsins. Eftir atvikum kann búið að eiga kröfur á þær vegna þessa. Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 kemur m.a. arður af eignum og réttindum til skipta og er því fallist er á niðurstöðu skiptastjóra þannig að tekjur af hestinum tilheyri búinu.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 620.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður en af hálfu varnaraðila Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættum ákvæðum 2. mgr. 131. gr. laga nr.20/1991, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr.91/1991.

Úrskurðarorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skulu hrossin B, C, E, F, G, H, I, J, K, L [...], tryppi undan M og A fætt 2015 og stóðhesturinn A að hálfu, koma til skipta.

Við fjárslitin skal leggja til grundvallar að helmingur folatolla vegna stóðhestsins A komi til skipta.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 620.000 krónur í málskostnað.

 

 

                                                                        Halldór Halldórsson