Kaupendur einbýlishúss höfðuðu skaðabótamál á hendur seljendum hússins og löggiltum fasteignasala sem hafði milligöngu um kaupin. Seljendur höfðuðu á móti mál á hendur kaupendum og kröfðust 5.000.000 króna lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi gegn útgáfu afsals. Málin voru sameinuð og dæmd í einu lagi. For svo að kaupendur voru sýknaðir að svo stöddu af kröfum seljenda þar sem ekki var búið að efna þann hluta kaupsamnings er laut að viðgerðum á steinvegg á lóðarmörkum við nágrannahús. Seljendur voru talin bera hlutlæga ábyrgð gagnvart kaupendum vegna gáleysis fasteignasalans við upplýsingagjöf um fasteignina, en ekki stofnaðist þó til skaðabótaskyldu seljenda þar sem fasteignasalinn hafði lögboðna starfsábyrgðartryggingu fasteignasala. Var hann því einn dæmdur til að greiða kaupendum tæpar 9.000.000 króna í skaðabætur og 2.500.000 krónur í málskostnað. Dómkrafa kaupenda var sú að þeim yrði bætt ríflega 15.000.000 króna fjártjón.