Stefnandi krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu vegna tjóns sem hann taldi hafa leitt af vinnustöðvunum flugumferðarstjóra dagana 12., 14. og 18. desember 2023. Byggði hann á að vinnustöðvarnirnar hefðu tekið mið af samkomulagi stefnda I ohf. og Félags íslenskra flugumferðarstjóra þar sem síðarnefnda félagið skuldbatt sig til að grípa ekki til vinnustöðvana sem gætu raskað þjónustu vegna flugleiðsögu á Norður-Atlantshafi fyrir flug sem ekki hefði viðkomu á Íslandi. Byggði stefnandi á því að stefndu hefðu með háttsemi sinni stuðlað að því að vinnustöðvanir bitnuðu nær einungis á íslenskum flugfélögum sem hefðu viðkomu á Íslandi, þ. á m., stefnanda, og valdið stefnanda tjóni vegna aflýsinga, seinkana og missis tekna vegna þess að farþegar bókuðu hjá samkeppnisaðilum stefnanda. Í úrskurði héraðsdóms var til þess vísað að stefnandi hefði ekki gert grein fyrir því að hann hefði orðið fyrir tjóni af völdum umrædds samkomulags og hver tengsl tjónsins væru við atvik málsins þannig að hann teldist hafa lögvarða hagsmuni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá taldist stefnandi ekki hafa rökstutt með nægilegum hætti hvert orsakasamhengi milli hinnar meintu háttsemi og ætlaðs tjóns var og var því ekki fullnægt skilyrðum e. liðar 80. gr. sömu laga. Var málinu því vísað frá dómi.