• Lykilorð:
  • Laun
  • Orlof
  • Uppsagnarfrestur
  • Uppsögn
  • Vinnusamningur
  • Vinnulaunamál

Ár 2018, miðvikudaginn 19. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-577/2018:

 

 

Brynjar Þór Bjarnason

(Guðmundur B. Ólafsson lögmaður)

gegn

Annata ehf.

(Guðrún Bergsteinsdóttir lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 20. júní sl. og dómtekið 5. desember sl., var höfðað með stefnu, birtri 14. júní 2018.

            Stefnandi er  Brynjar Þór Bjarnason, kt. 000000-0000, Þórðarsveig 30, Reykjavík. Stefndi er Annata ehf., kt. 000000-0000, Hagasmára 3, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda laun og orlof að fjárhæð 3.255.400 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 1. desember 2017 til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. desember 2018 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar auk vaxta á málskostnað.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.

            Aðalmeðferð málsins fór fram þann 5. desember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. 

Málavextir.

Stefnandi, sem er menntaður kerfisfræðingur, hóf störf hjá stefnda á árinu 2005 sem forritari og ráðgjafi. Var vinnutími virka daga frá klukkan 9.00 til 17.00. Umsamin laun voru 1.000.000 króna á mánuði. Stefnandi sagði upp störfum hjá stefnda í ágúst 2017 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þann 9. nóvember gerðu aðilar með sér samkomulag um starfslok en í starfslokasamningi aðila kemur fram að stefnandi hætti störfum 9. nóvember 2017 en fái greidd laun til 30. nóvember 2017 án vinnuskyldu. Þá segir í grein 2.2 í samningnum að allt áunnið orlof skuli einnig gera upp auk farsímakostnaðar og kostnaðar vegna aðgangs að nettengingu. Stefnandi kvað að viku síðar hafi vinnutölvan hans verið tekin af honum en stefndi heldur því fram að það hafi verið gert við gerð starfslokasamningsins þann 9. nóvember.

Stefnandi fékk ekki greidd laun í samræmi við samkomulagið þann 30. nóvember 2017. Á launaseðli sem gefinn var út vegna nóvember voru ekki reiknuð nein laun.

            Innheimtbréfum frá VR, dags. 11. desember 2017, og  ítrekunarbréfi frá Guðmundi B. Ólafssyni lögmanni, dags. 20. mars 2017, var svarað með bréfi lögmanns stefnda, Guðrúnar Bergsteinsdóttur lögmanns, undirrituðu af Magnúsi I. Magnússyni  lögmanni þann 9. janúar 2018. Í því bréfi er því haldið fram að stefndi hafi rétt til að halda eftir samningsbundnum launum og orlofi stefnanda vegna bótakröfu sem stefndi telur sig eiga á hendur stefnanda vegna meints trúnaðarbrots stefnanda. Í framhaldi af því lagði stefndi inn lögbannskröfu á hendur stefnanda þar sem gerð var sú krafa að hann mætti ekki starfa hjá nýjum vinnuveitanda. Lögbannskröfunni var hafnað hjá sýslumanni og var sú niðurstaða staðfest í Héraðsdómi Reykjaness í máli K-2/2017 þann 28. mars 2018.  

            Í gögnum málsins liggur fyrir óundirritað bréf sem stefndi lagði fram og ber heitið „Samantekt 30.7.2017“. Kemur fram undir liðunum „Uppsagnir 31.7.17“: Úlfar, Sverrir, Eyjó, Elín, Hákon og Davíð. Undir liðnum „Uppsagnir 30.11.17“ eru Hjörvar og Brynjar tilgreindir. Þá segir: „Hittast 20.08.2017 og hafa workshop, hentar fyrir Hákon, Sverrir, Davíð, Úlfar og Elínu. Athuga með Eyjó, Brynjar og Hjövar“. Skjalið virðist vera uppkast að skipulagi vegna stofnunar fyrirtækis. Er nafn stefnanda ekki nefnt frekar í skjalinu. Þá lagði stefndi fram annað skjal, óundirritað, sem ber heitið: „Fundur 05.10.17“. Er yfirskriftin M7. Undir liðnum „Hvenær eigum við að kynna fyrirtækið að við séum 7“ segir í þriðja lið: „Í lok október tilkynnir Brynjar innkomu sína og Guðni Hjörvar segir upp.“ Að öðru leyti kemur nafn stefnanda ekki fram í skjalinu. Þá lagði stefndi fram skjal sem ber yfirskriftina „M7 ehf. Skipulag M7“. Er skjalið ódagsett og kemur nafn stefnanda ekki fram í því. Annað skjal sem ber yfirskriftina „Útganga frá Annata“ stafar frá stefnda. Segir þar m.a.: „Að segja upp sem ein heild erum við að opinbera leynimakkið.“ Kemur nafn stefnanda ekki fram í því skjali. Að auki lagði stefndi fram skjöl sem bera heitið „M7 Master – Kúnnar (Innihald: Vera komin með 20+ kúnna í lok árs 2018)“. Seinna skjalið telur upp nöfn 37 fyrirtækja og er yfirskriftin: „Vera komin með 20+ kúnna í lok árs 2018“. Þá liggur fyrir skjal þar sem ýmsir liðir eru tilgreindir, laun, rekstrarkostnaður, væntanlegir viðskiptavinir, tekjur o.fl. Kemur hvergi fram í skjalinu fyrir hvern það er unnið eða á hvaða tíma. Þá liggur fyrir skjal þar sem reiknuð er út þróun verkefna hjá nokkrum lykilviðskiptavinum fyrir og eftir brotthvarf starfsmanna og áætlað tekjutap vegna þeirra í 24 mánuði. Er stefnandi nefndur vegna tekna frá Innnesi ehf. og breyting á tekjum þess félags sagðar neikvæðar um 56%. Að auki lagði stefndi fram excel-skjal þar sem meðalvelta viðskiptamanna á árunum 2015-2017 kemur fram.

            Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í málinu K-2/2017, uppkveðinn 28. mars sl., liggur fyrir í málinu. Í því máli hafði stefndi þessa máls krafist lögbanns hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu á því að stefnanda þessa máls væri óheimilt að hafa samband við tilgreinda viðskiptavini stefnda eða starfsmenn þeirra í þeim tilgangi að veita þeim þjónustu á sviði  Microsoft Dynamics, hvort heldur gegn gjaldi eða ekki, sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki í nafni M7 ehf. eða annars félags í tólf mánuði frá starfslokum stefnanda. Var lögbannskröfunni hafnað hjá sýslumanni og staðfesti héraðsdómur þá niðurstöðu í úrskurði sínum.

            Dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-1233/2017, Annata ehf. gegn Brynjari Þór Bjarnasyni, kveðinn upp 5. júlí 2018, liggur fyrir í málinu. Í því máli krafðist Annata ehf. staðfestingar á lögbannsgerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem fram fór þann 24. nóvember 2017 við því að stefnandi þessa máls, fyrir hönd M7 ehf. eða annars félags í tengslum við stefnda, noti gögn og/eða upplýsingar í eigu stefnanda, hvort sem er í rafrænu eða skriflegu formi, án tillits til þess hvort um sé að ræða innanhúsgögn stefnanda eða gögn tengd einstökum viðskiptamönnum stefnanda og að stefnda Brynjari verði gert að greiða Annata ehf. 26.005.423 krónur ásamt tilgreindum dráttarvöxtum. Var stefnandi þessa máls sýknaður af kröfum Annata ehf.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi mótmælir málsástæðu stefnda um að um trúnaðarbrot hafi verið að ræða sem skapað geti stefnanda bótaskyldu. Stefnandi byggir á því að starfslokasamkomulag aðila frá 9. nóvember 2017 sé skýrt og kveði á um að launauppgjör eigi að fara fram þann 30. nóvember 2017. Við það hafi ekki verið staðið. Gerð sé krafa um vangoldin laun vegna nóvember og áunnið orlof.

Stefnandi byggir á gr. 1.9 í kjarasamningi VR og SA sem gildi frá 1. maí 2016 þar sem segir að laun eigi að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun eru greidd fyrir. Vangreidd séu laun fyrir nóvember 2017 að fjárhæð 1.000.000 króna. Að auki skuli vinnuveitandi greiða launþega áunnið orlof við lok ráðningarsambands samkvæmt 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Samkvæmt útgefnum launaseðli fyrir október hafi uppsöfnuð orlofsréttindi verið 340 klukkustundir eða kr. 2.125.000. Tímakaup í orlofi sé reiknað með því að deila 160 í mánaðarlaun sem gera 6.250 krónur á klukkustund. Auk þess sé gerð krafa um 13,04% orlof á útistandandi laun vegna nóvember að fjárhæð 130.400 krónur þar sem stefnandi hafði áunnið sér 30 daga orlofsrétt.

 Krafan sundurliðast sem hér segir:

            Vangoldin laun vegna nóvember 2017                       kr.  1.000.000,-

            Orlof 340 kst. x 6.250 kr.                                           kr.  2.125.000,-

Orlof á útistandandi laun                                            kr.     130.400,-

            Höfuðstóll                                                                   kr.  3.255.400,-

Kröfur sínar styður stefnandi við lög nr. 28/1930 um greiðsu verkkaups, lög nr. 7/1936 um samningsbrot o.fl., meginreglur kröfuréttar, lög nr. 30/1987 um orlof og meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að sýkna beri hann af kröfum stefnanda á grundvelli þess að stefnda hafi verið heimilt að rifta starfslokasamningnum þar sem stefnandi hafi fyrirgert frekari rétti sínum til greiðslna sökum alvarlegra trúnaðarbrota sem séu brot í starfi. Stefnandi hafi gerst brotlegur við ákvæði ráðningar- og starfslokasamningsins sem og almennar meginreglur vinnuréttarins.

Stefnandi hafi borið starfsskyldur gagnvart stefnda út nóvember 2017. Á starfsmönnum á almennum vinnumarkaði hvíla víðtækar trúnaðarskyldur. Trúnaðarskyldur þessar séu almennt óskrifaðar meginreglur sem gildi á vinnumarkaði. Í skyldum þessum felist tvíþætt vernd atvinnurekanda. Annars vegar samkeppnisvernd, þ.e. að starfsmaður skuli virða samkeppnisvernd atvinnurekanda og hagi störfum sínum þannig að ógni ekki samkeppnisstöðu atvinnurekandans. Litið hafi verið svo á að skylda þessi í ráðningarsambandi sé víðtæk og að starfsmanni beri að gæta þess að aðhafast ekkert það sem sé andstætt hagsmunum vinnuveitanda hans. Þannig megi starfsmaður ekki með neinum hætti standa í samkeppnisrekstri við vinnuveitanda sinn, t.d. með því að snúa sér til viðskiptavina vinnuveitanda í þeim tilgangi að undirbúa samkeppni. Hins vegar hvíli á starfsmanni þagnarskylda en í henni felst að starfsmanni ber að gæta þagmælsku um það sem hann verður áskynja í starfi sínu. Þannig verði atvinnurekendur að geta treyst starfsfólki fyrir ýmsum trúnaðarupplýsingum, svo sem um fjárhag fyrirtækisins, núverandi verkefni, verkefni á teikniborðinu, um undirbúning tilboða o.s.frv. Brot starfsmanns á trúnaðarskyldu hafa verið talin geta varðað skaðabótum og riftun á ráðningarsambandi.

Af framangreindu megi ráða að ríkar trúnaðarskyldur hafi hvílt á stefnanda máls þessa við vinnuveitanda sinn, stefnda, frá því í júní 2017 til loka nóvember 2017. Þrátt fyrir þetta virðist stefnandi hafa tekið þátt í undirbúningi að stofnun félagsins M7 ehf. á þessu tímabili, sem stunda átti samkeppnisrekstur við stefnda, en eins og ráða megi af fundargerð undirbúningsfundar félagsins þann 31. júlí 2017, þá hafði stefnandi tilkynnt þessum aðilum um uppsögn sína og hugðist sitja frekari undirbúningsfundi. Þá kemur fram í fundargerð undirbúningsfundar þann 5. október 2017, að stefnandi ætli að tilkynna innkomu sína til félagsins M7 ehf. í október. Þannig átti að kynna stefnanda sem starfsmann félagsins M7 ehf. fyrir viðskiptavinum stefnda á borð við ÍSAM og HS veitur í október. Rétt er að ítreka að á þessu tímabili var stefnandi starfsmaður stefnda og hafði ríkar trúnaðarskyldur við stefnda. Ljóst má vera að stefnanda var ljóst að fyrirhugaður samkeppnisrekstur var einstaklega viðkvæmur gagnvart stefnda, enda vísaði stefnandi ásamt hinum sex til þess að um „leynimakk“ væri að ræða. Með því að haga undirbúningnum þannig að honum var haldið leyndum gagnvart stefnda var stefnanda ekki aðeins fært að þiggja laun á meðan hann vann að því að setja á stofn rekstur sem hefði tekjur frá stofndegi heldur sló hann að auki öll vopn úr höndum stefnda sem gat ekki gripið til hefðbundinna varúðarráðstafana vegna fyrirhugaðrar samkeppni. Varúðarráðstafana sem fela í sér þau úrræði vinnuveitanda að geta takmarkað aðgang starfsmanna í uppsagnarfresti að tilteknum verkefnum og/eða látið þá hætta fyrr vegna áætlana þeirra. Ef leynimakk stendur yfir í marga mánuði þegar starf starfsmanna felst að meginstefnu í samskiptum við viðskiptavin og að vera mikið til að starfa á vinnustað viðskiptavinar, þá er það alvarlegt brot í starfi að upplýsa ekki vinnuveitanda um fyrirhugaða áætlanagerð um að stofna til samkeppnisrekstrar sem í öllum aðalatriðum snýr að því að ná til sín viðskiptavinum stefnda og veita þeim sams konar ráðgjöf. Listi yfir áætlaða viðskiptavini félagsins M7 ehf. sýni þetta en 25 af þeim félögum voru viðskiptavinir stefnda og eru þeir einu viðskiptavinir sem nefndir eru í skjalinu sem tilgreint er að nýja samkeppnisfélagið ætli að hafa tekjur af. Þá virðist ljóst af þeim lista að stefnanda var sérstaklega ætlað að herja á útvalda viðskiptavini; ÍSAM, Húsasmiðjuna og Íslenska gámafélagið auk þess sem Innnes og Hagkaup eru tilgreind í skjalinu. Þá eru áætlaðir útseldir tímar á viðskiptavinina en tímafjöldinn getur ekki verið byggður á öðru en raunverulegum útseldum tímum hjá stefnda til félaganna. Þá má finna hinar ýmsu rekstraráætlanir í dskj. nr. 16 sem eru byggðar upp á tölum frá stefnda og viðskiptavinum stefnda. Af dskj. nr. 18 má svo ráða að stefnandi er í dag stjórnarmaður í félaginu M7 ehf. sem stundar samkeppnisrekstur við stefnda. Auk þessa alls mótmælti stefnandi því aldrei undir rekstri héraðsdómsmálsins nr. E-1233/2017 að undirbúningur að stofnun samkeppnisrekstrarins M7 ehf. hefði verið hafinn á meðan stefnandi var í samningssambandi við stefnda. Dómari málsins féllst á það með stefnda að hin samanteknu ráð þessara sjö aðila án þess að upplýsa stefnda um þau hafi verið óheiðarleg og trúnaðarbrot við stefnda.

Stefnandi leyndi áformum sínum um stofnun félagsins M7 ehf. og aðkomu sinni að undirbúningi samkeppnisrekstrarins. Stefnanda mátti vera fyllilega ljóst að þessi áform gætu verulega skaðað hagsmuni stefnda. Háttsemi stefnanda var með öllu ósamrýmanleg þeim trúnaðarskyldum sem hann bar gagnvart vinnuveitanda sínum, stefnda, sem raktar hafa verið að framan. Stefnda var því heimilt að rifta því samkomulagi sem gert hafði verið við stefnanda þann 1. desember 2017, sjá dskj. nr. 22, og hafna frekari greiðslum til stefnanda á grundvelli samkomulagsins þar sem stefnandi hafði brotið gróflega gegn skýrum ákvæðum starfslokasamningsins. Stefndi krefst því þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.

2. Krafa um sýknu sökum ógildis starfslokasamnings

Stefndi byggir í öðru lagi á því að starfslokasamning þann er gerður var á milli aðila máls þessa beri að ógilda og að samningurinn sé óskuldbindandi fyrir stefnda. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Í 33. gr. samningalaga nr. 7/1936 er að finna reglu sem kveður á um ógildingarheimild á samningi ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar samningurinn var gerður að bera hann fyrir sig og ætla megi að sá sem beri hann fyrir sig hafi haft vitneskju um þessi atvik. Þá er að finna reglu í 36. gr. sömu laga sem kveður á um að víkja megi samningi til hliðar sem yrði talið ósanngjarnt eða gegn góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig. Eins og rakið hefur verið hóf stefnandi undirbúning að samkeppnisrekstri við stefnda í fyrsta lagi þann 30. júlí 2017. En þá kemur nafn stefnanda fyrst fram í undirbúningsgögnum félagsins M7 ehf. Félagið var svo stofnað 3. október 2017. Stefndi byggir því kröfu sína um sýknu á því að fyrir hendi hafi verið atvik sem stefnandi sannanlega hafði vitneskju um sem geri það að verkum að óheiðarlegt sé fyrir stefnanda að bera umræddan starfslokasamning fyrir sig en samningurinn var gerður 9. nóvember 2017, löngu eftir að stefnandi hafði í leyni hafið samkeppnisrekstur við stefnda. Þá byggir stefndi á því að ósanngjarnt sé gagnvart stefnda að bera samninginn fyrir sig. Má því ljóst vera að ógilda beri starfslokasamning þann er gerður var 9. nóvember 2017 á milli aðila málsins og sýkna stefnda af kröfum stefnanda um greiðslu skv. samningnum.

3. Krafa um sýknu á grundvelli gagnkröfu til skuldajafnaðar

Stefndi byggir í þriðja lagi á því að sýkna beri hann af kröfum stefnanda á grundvelli gagnkröfu hans til skuldajafnaðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Sem fyrr segir er það afstaða stefnda að honum hafi verið heimilt að rifta samningi aðila með yfirlýsingu sinni 1. desember 2017 sökum alvarlegra trúnaðarbrota. Trúnaðarbrot þessi hafa þá jafnframt leitt til þess að stefndi hefur orðið fyrir umfangsmiklu tjóni. Af dskj. nr. 19 má ráða að frá því að brot stefnanda og hinna sex fyrrverandi starfsmanna stefnda hófust hefur stefndi orðið af tekjum sem nema að minnsta kosti 404.211.840 krónum en stefnandi og það félag sem stofnað var til á meðan stefnandi var starfsmaður stefnda hafa herjað á viðskiptavini stefnda. Þeim hafi tekist að hafa af stefnda umræddar tekjur þar sem stefnandi og hinir aðilarnir sex eru aðaltengiliðir stefnda við þessa viðskiptavini og búa yfir umfangsmiklum trúnaðarupplýsingum. Trúnaðarupplýsingar um þjónustu til viðskiptavinarins, verkefnin, áætlanagerð, tilboðsgerð, úrvinnsluatriði og önnur viðskiptaleyndarmál, sem aðeins stefnandi sem ráðgjafi er upplýstur um vegna starfs síns í þágu stefnda. Af dskj. nr. 19 má sjá línulegt samspil tekna stefnda við brotthvarf þessara sjö einstaklinga í október/nóvember 2017. Hvernig tekjur stefnda af ákveðnum viðskiptavinum hafa hríðfallið nánast samtímis því að stefnandi og hinir sex einstaklingarnir hættu störfum og settu á stofn nýtt félag nánast sama dag. Tekjumissi þennan má auðvitað rekja beint til þess að stefnandi og hinir sex hófu undirbúning samkeppnisrekstrar á meðan á ráðningarsambandi stefnanda stóð hjá stefnda. Gerðar voru áætlanir um að ná til sín viðskiptavinum stefnda, það planað hvernig best væri að segja upp svo að leynimakkið yrði ekki opinberað og rekstraráætlanir gerðar á grundvelli talna úr kerfum stefnda og trúnaðarupplýsinga um viðskiptavini stefnda svo sem um verkefni, verkefnastöðu og frekari verkefni í bígerð. Stefndi hefur vegna þessarar saknæmu háttsemi stefnanda gert kröfu á hendur stefnanda sem nemur 18.000.000 króna. Ljóst má vera að sú krafa nemur mun hærri fjárhæð en dómkrafa stefnanda og ber því að sýkna stefnda á grundvelli skuldajafnaðar.

Þá telur stefndi að stefnandi hafi brotið svo gróflega gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart stefnda á meðan hann var starfsmaður stefnda að honum hafi verið ómögulegt að gegna áfram starfi sínu fyrir stefnda. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 skal hjú greiða húsbónda bætur, sem svara til helmings áskilins kaups fyrir umsaminn vistartíma, ef það, án þess að sjúkleiki eða önnur lögleg forföll tálmi, eða fyrir hendi séu aðstæður er heimili því að rifta vistráðunum, gengur ólöglega úr vistinni. Reglu þessari hefur verið beitt ítrekað í dómum Hæstaréttar Íslands fyrir lögjöfnun um það tilvik þegar starfsmaður vanefnir starfsskyldur sínar með því að hverfa fyrirvaralaust úr starfi. Lögjöfnun frá umræddu ákvæði á því frekar við þá aðstöðu þegar starfsmaður hefur komið sér, af ásettu ráði, í þá stöðu að geta ekki lengur sinnt starfsskyldum sínum án þess að brjóta gróflega trúnað við vinnuveitanda sinn. Launagreiðslur stefnda til stefnanda á umsömdu tímabili voru að fjárhæð 8.005.423 krónur. Má því ljóst vera að bótakrafa stefnda á hendur stefnanda á grundvelli þessarar reglu er mun hærri en dómkrafa stefnanda. Ber því að sýkna stefnda á grundvelli skuldajafnaðar.

3. Krafa um sýknu að svo stöddu

Komist dómari málsins að þeirri niðurstöðu að gagnkrafa stefnda til skuldajafnaðar sé ekki tæk til skuldajafnaðar ber samt sem áður að sýkna stefnda að svo stöddu. Eins og áður hefur verið rakið var stefnandi máls þessa sýknaður af skaðabótakröfu stefnda með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-1233/2017. Af forsendum dómsins, sem finna má í dskj. nr. 21, má ráða að stefnandi hafi verið sýknaður sökum skorts á sönnun fyrir kröfu stefnda. Stefndi hafi þannig ekki aflað dómkvadds mats um fjárhæð kröfu sinnar. Stefndi hefur hins vegar, eins og fram hefur komið, áfrýjað umræddum dómi meðal annars í því skyni að færa frekari sönnun fyrir kröfu sinni og afla mats dómkvadds matsmanns til að leiða í ljós tjón sitt. Krefst stefndi því þess að hann verði sýknaður að svo stöddu, þar til niðurstaða málsins, sem ber númerið 626/2018, fæst í Landsrétti eða að minnsta kosti þar til niðurstaða matsmanna liggur fyrir, þar sem fjárhæð þeirrar kröfu sem stefndi á sannanlega á hendur stefnanda til skuldajafnaðar liggur ekki endanlega fyrir.

Aðrar málsástæður og lagarök

Stefndi vísar til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, hjúalaga nr. 22/1928, laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 og meginreglna vinnuréttar. Þá vísar stefndi til meginreglna samningaréttar, kröfuréttar og skaðabótaréttar.

Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Skýrslur fyrir dómi.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum og verður vitnað til hennar eftir því sem þörf er á.

Forsendur og niðurstaða.

Stefndi hefur lagt fram nokkur gögn sem óljóst er frá hverjum stafa. Eru það m.a. excel-skjöl og skjöl um hugleiðingar um stofnun fyrirtækis og ætlað er að sé M7 ehf.

Aðspurður um þau skjöl þar sem stefnandi er nefndur kvaðst stefnandi ekki hafa séð þau skjöl áður.

Í ráðningasamningi frá 3. ágúst 2015 milli stefnanda og stefnda er ákvæði sem ber heitið „Trúnaður og þagnarskylda“. Segir í 1. mgr. þar undir að samningur aðila sé trúnaðarmál. Þá er ákvæði þar sem fram kemur að starfsmaður heiti því að gæta trúnaðar og þagnarskyldu gagnvart upplýsingum eða hvers konar aðstæðum sem starfsmaðurinn kann að öðlast vitneskju um í beinum eða óbeinum samskiptum við þriðja aðila, þar með taldir viðskiptavinir, birgjar og aðrir samstarfsaðilar. Trúnaðarskylda gildir þrátt fyrir að samningur þessi falli úr gildi. Þá segir að starfsmaður heiti því að gæta trúnaðar og þagnarskyldu gagnvart upplýsingum um Annata eða hvers konar aðstæðum hjá Annata sem starfsmaður kunni að hafa öðlast vitneskju um í starfi sínu. Trúnaðarskyldan gildi þrátt fyrir að samningurinn sé að öðru leyti fallinn úr gildi. Að öðru leyti er vísað til 27. gr. samkeppnislaga um ákvæði er lúta að trúnaði og þagnarskyldu.

Aðilar undirrituðu starfslokasamning þann 9. nóvember 2017 og hætti stefnandi störfum fyrir stefnda þann sama dag. Í grein 2.4 í samningnum er ákvæði sem segir að starfsmaðurinn skuli ekki gegna launuðu eða ólaunuðu starfi í þágu þriðja aðila á uppsagnarfrestinum. Hann skuli ekki hvetja eða stuðla að því að viðskiptavinir, samstarfsaðilar, starfsmenn eða sjálfstæðir verktakar breyti eða hætti ráðningarsambandinu, samningssambandi eða annars konar viðskiptasambandi við félagið og/eða hefja eða iðka starfsemi sem skaðar samkeppnisstöðu félagsins. Starfsmaðurinn skuldbindi sig sérstaklega til að hafa hvorki munnlegt né skriflegt samband við eftirfarandi viðskiptavini félagsins í uppsagnarfrestinum, nema hann hafi áður fengið til þess skýrt skriflegt samþykki hjá félaginu: Hagkaup, Haga, Innnes, Garra, Allianz, BM Vallá, Aðföng, HS Veitur, Brimborg, Húsasmiðjuna, ÍSAM, Sjóklæðagerðina (66 Norður), Icelandic Water Holdings, Öskju og Parlogis. Brjóti starfsmaður gegn þessu banni skuli hann greiða félaginu til baka greiðslur samkvæmt lið 2.2 sem eru laun, áunnið orlof til og með 30. nóvember 2017, farsímakostnaður vegna símanúmers og kostnaður vegna aðgangs að nettengingu.

Samkvæmt stefnanda hóf hann störf hjá M7 ehf. í desember 2017 auk þess sem hann gerðist hluthafi í félaginu á sama tíma.

Í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-1233/2017 er fallist á þau rök stefnanda í því máli að samantekin ráð nokkurra starfsmanna Annata ehf., um að hafa hafið undirbúning að stofnun samkeppnisreksturs án þess að upplýsa Annata ehf. um þann undirbúning, hafi verið óheiðarleg og séu trúnaðarbrot að því leyti sem þau hafi átt sér stað áður en viðkomandi hafi sagt um starfi sínu hjá Annata ehf.

Óumdeilt er í þessu máli að stefndi hefur haldið eftir launum stefnanda vegna launa í nóvember 2017. Stefndi heldur því fram að hann eigi rétt til þess þar sem stefnandi hafi brotið trúnaðarskyldu sína við stefnda með því að vinna að því að stofna samkeppnisfélag og hefja þar störf að uppsagnarfresti hans loknum. Þessu mótmælir stefnandi og kveðst ekki hafa komið að undirbúningsvinnu þeirri sem stefnandi vísar til með framlögðum skjölum og því að sex starfsmenn hafi sagt upp störfum hjá stefnda á svipuðum tíma og allir þeir séu eigendur að M7 ehf. sem sé í samkeppni við stefnanda. Þá hafi stefnandi tekið með sér trúnaðargögn frá stefnda sem hann nýti sér við rekstur sinn í M7 ehf. Þessu mótmælir stefnandi.

Tekið er undir það með stefnda að þau gögn og þau málsatvik sem stefndi byggir á leiða líkur að því að stefnandi hafi tekið þátt í eða alla vega vitað af því að verið var að undirbúa stofnun fyrirtækis sem yrði í samkeppni við stefnda. Hins vegar ber stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi verið og að stefnandi hafi brotið trúnaðarskyldur sínar við stefnda fyrir uppsögn hans hjá stefnda sem var í ágúst 2017. Óljóst er hvaðan þau gögn sem stefnandi byggir á eru komin eða frá hverjum þau stafa. Gögnin eru óundirrituð og í þeim eingöngu fjallað um stefnanda án þess að þar sé fullyrt að stefnandi hafi þar haft aðkomu að stofnun samkeppnisaðila. Vildi stefndi ekki upplýsa undir rekstri málsins hvaðan þau gögn voru fengin. Var framburður stefnanda, þegar þau skjöl voru borin undir hann og hann inntur eftir því hvort hann hafi séð þau skjöl áður, trúverðugur. Kvaðst stefnandi ekki hafa séð þau gögn áður en þau voru lögð fram í málinu af hálfu stefnda.

Eins og málatilbúnaður stefnda er, hefur hann ekki sýnt fram á, svo óyggjandi sé, að stefnandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni við stefnda á uppsagnartíma hans. Ekki er tölulegur ágreiningur í máli þessu. Verða kröfur stefnanda því teknar til greina eins og segir í dómsorði.

Að þessum málalokum virtum, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og segir í dómsorði.

 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð.

Stefndi, Annata ehf. skal greiða stefnanda, Brynjari Þór Bjarnasyni, 3.255.400 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2017 til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.

 

                        Ástríður Grímsdóttir