• Lykilorð:
  • Laun
  • Uppsagnarfrestur
  • Uppsögn
  • Vinnulaunamál

Ár 2018, miðvikudaginn 31. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-276/2018:

 

 

Þorbjörn Ólafsson

(Guðmundur B. Ólafsson lögmaður)

gegn

Umbúðum & Ráðgjöf ehf.

(Guðmundur Óli Björgvinsson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 28. mars sl. og dómtekið 22. október sl., var höfðað með stefnu, birtri 23. mars 2018.

            Stefnandi er  Þorbjörn Ólafsson, kt. 000000-0000, Fannafold 92, Reykjavík. Stefndi er Umbúðir & Ráðgjöf ehf., kt. 000000-0000, Bæjarhrauni 12, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda laun og orlof að fjárhæð 2.117.236 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. september 2017 af kr. 672.690.- til 1. október 2017 og frá þeim degi af kr. 1.345.380,- til 1. nóvember 2017 og frá þeim degi af kr. 2.117.236,- til greiðsludags. 

Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. september 2018 en síðan árlega þann dag.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til hans kemur. Krafist er vaxta af málskostnaði skv. 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar.

Málsatvik.

Stefndi er þjónustufyrirtæki sem selur aðallega umbúðir til fyrirtækja sem tengjast  matvælaiðnaði. Kjarnastarfsemi fyrirtækisins er því sölustarfsemi en stefndi flytur inn umbúðir frá birgjum erlendis og selur hér á landi.

Stefnandi starfaði sem sölumaður hjá stefnda frá ársbyrjun 2014 þar til hann lét af störfum 17. ágúst 2017. Starfaði hann sem sölumaður í 100% starfi og var hans hlutverk að afla viðskipta og viðskiptavina. Hins vegar var öll tilboðsgerð og samþykki þeirra á hendi fyrirsvarsmanns stefnanda. Samkvæmt aðilum málsins fóru flest samskipti sölumanna og viðskiptamanna fram með tölvupóstsamskiptum auk þess sem sölumenn voru í beinum samskiptum við viðskiptamenn á starfsstöð svo og í gegnum síma. Var vinnuferlið þannig að ef viðskiptamaður óskaði eftir tilboði í vöru hjá stefnanda þá sendi stefnandi viðkomandi tölvupóst og beiðni til fyrirsvarsmanns stefnda sem í framhaldi gerði tilboð í ljósi væntanlegra viðskipta, sendi það tilboð til stefnanda sem svo aftur sendi það áfram til viðkomandi viðskiptavinar.

Í gögnum málsins er uppkast að ráðningarsamningi sem stefndi sendi stefnanda með tölvupósti þann 19. janúar 2014. Kemur þar m.a. fram í samningnum, sem er óundirritaður, að viðvera á skrifstofu skyldi vera minnst einn morgunn í hverri viku til að fara yfir verkefni og stöðu mála ásamt því að sækja upplýsingar. Ábyrgð stefnanda sé að pantanir séu réttar. Kemur þar m.a. fram að föst laun voru 450.000 krónur á mánuði. Bensín og símakostnaður var 50.000 krónur. Sölubónus var 3% af sölu stefnanda án virðisaukaskatts sem byrjaði að reiknast fyrst eftir þrjá mánuði. UBR léti stefnanda í té bifreið til notkunar sem átti að vera  staðsett á skrifstofu stefnda. Þá skuldbatt stefnandi sig til að halda trúnað um allt sem hann yrði áskynja í starfi og um starfsemi fyrirtækisins jafnt í starfi svo og eftir vinnu og eftir að starfi lyki hjá fyrirtækinu. Stefnanda var ekki heimilt að hefja starf hjá samkeppnisaðila fyrirtækisins í sex mánuði eftir að hann lyki störfum hjá stefnda. Þá segir að uppgjör bónuss til stefnanda fari fram eftir að vara hafi verið greidd af kaupanda. Áður en þóknun sé reiknuð út skuli virðisaukaskattur reiknaður af. Samningurinn var gerður til þriggja mánaða sem reynslusamningur og átti að endurnýjast ef honum yrði ekki sagt upp að þeim tíma liðnum og gilti eftir það venjulegur uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi.

            Samkvæmt launaseðlum var stefnandi með í föst mánaðarlaun frá 1. apríl 2017 515.387 krónur. Þá var honum greiddur bónus fyrir tímabilið janúar til júlí 2017, samtals 1.177.941 króna.

            Þann 31. júlí 2017 sagði stefnandi upp starfi sínu hjá stefnda með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þann 18. ágúst s.á. sagði stefndi stefnanda upp störfum fyrirvaralaust og var stefnanda gert að yfirgefa vinnustaðinn þá þegar. Stefndi sakaði stefnanda um að hafa eytt trúnaðargögnum fyrirtækisins með því að eyða tölvupóstsamskiptum á vinnunetfangi stefnanda.

Var þá lokað fyrir allan aðgang stefnanda að tölvu og tölvugögnum fyrirtækisins

Þann 21. ágúst 2017 sendi VR stefnda bréf og mótmælti ásökunum stefnda. Lögmaður stefnda svaraði bréfi VR þann 31. ágúst 2017 og taldi stefnda heimilt að rifta ráðningarsamningi aðila vegna vanefnda stefnanda á samningi þeirra.

            Með tölvupósti frá stefnanda til stefnda þann 21. ágúst 2017 kvaðst stefnandi hafa eytt tölvupósti frá 2016 en þær upplýsingar væru jafnframt að finna í forritinu „One Note“ sem vistað væri í vinnutölvu stefnanda. 

            Þann 16. október 2017 sendi VR stefnda bréf og krafði stefnda um vangreidd laun fyrir hönd stefnanda í uppsagnarfresti. Þann 15. nóvember s.á. var sú krafa ítrekuð.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt á launum í uppsagnarfresti sem séu þrír mánuðir frá uppsögn hans eða frá 1. ágúst 2017. Mótmælir stefnandi því að hafa eytt trúnaðargögnum fyrirtækisins með því að eyða tölvupósti úr netfangi sínu. Ásökunum þessum hafi verið mótmælt í bréfi frá VR til stefnda þann 21. ágúst 2017. Þar komi fram að engum trúnaðargögnum hafi verið eytt þar sem öll samskipti væru enn til staðar í áframhaldandi samskiptum við viðskiptavini á árinu 2017. Lögmaður stefnda hafi svarað bréfinu þann 31. ágúst 2017 þar sem fram komi að staðið verði við uppsögnina vegna verulegrar vanefndar á ráðningarsambandi sem heimili riftun og fyrirvaralausa uppsögn vegna ábyrgðar- og trúnaðarskyldu. Í bréfinu komi fram nánari útlistun á meintum trúnaðarbrotum stefnanda, m.a. að hann hafi eytt tölvupósti úr tölvupósthólfi, lagt hald á tölvupóst sem innihélt trúnaðarupplýsingar, svo sem samninga við viðskiptamenn, verðtilboð og aðrar upplýsingar. Þá kom fram í bréfinu að stefnandi átti að hafa sent upplýsingar úr tölvupósthólfi sínu á persónulegt netfang sitt.

Þessum ásökunum í bréfi stefnda sé alfarið hafnað. Stefnandi hafi átt það til að senda sjálfum sér gögn vegna þeirra verkefna sem hann hafi verið að vinna að á hverjum tíma svo að hann gæti unnið það heiman frá sér. Það hafði hann gert allt frá því að hann hóf störf með fullri vitneskju forsvarsmanna stefnda. Stefnandi hafi ekki farið í samkeppni við stefnda eftir starfslok og hafi því enga persónulega hagsmuni af því að senda sér gögn nema í þeim tilgangi að geta klárað vinnu vel. Engum trúnaðargögnum hafi verið eytt er stefnandi tók til í póstfangi sínu eins og hann hafði gert reglulega frá því að hann hóf störf og almennt sé gert á öllum vinnustöðum. Öll viðskiptagögn hafi verið vistuð að frumkvæði stefnanda í hugbúnaði sem ber heitið One Note. Engum gögnum hafi því verið eytt, auk þess sem forsvarsmaður stefnda hafi haft upplýsingar um alla viðskiptasamninga enda hafi hann tekið allar slíkar ákvarðanir sjálfur. Auk þess hafi stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir neinu tjóni eða hvaða gögn hann telji að eytt hafi verið. Stefnda hafi því verið óheimilt að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust.

Jafnframt beri að árétta að samkvæmt meginreglum vinnuréttar þá beri að gefa starfsmann áminningu áður en komi til fyrirvaralausrar uppsagnar. Það hafi ekki verið gert og því sé uppsögn ólögmæt. Stefnandi eigi því rétt til launa og bónusa út uppsagnarfrestinn ásamt hlutfalli í orlofs- og desemberuppbótum.

Stefnandi eigi rétt á launum að fjárhæð 515.387 krónur fyrir hvern mánuð út uppsagnarfrestinn fyrir ágúst, september og október, alls 1.546.161 krónu, og sé gerð krafa um það. Þá eigi stefnandi rétt á og gerð sé krafa um bónus á laun í uppsagnarfresti en þar sem vinnuframlagi hafi verið hafnað sé gerð krafa um meðaltalsbónusa sem stefnandi ávann sér síðustu 12 mánuði í starfi að fjárhæð 157.303 krónur fyrir hvern mánuð vegna ágúst, september og október, alls 471.909 krónur. Einnig eigi stefnandi rétt til hlutdeildar í orlofs- og desemberuppbót og sé gerð krafa um það.

Samkvæmt kjarasamningi VR og SA sé desemberuppbót fyrir árið 2017 89.000 krónur og miðast við 45 vikur. Stefnandi hafi áunnið sér rétt til hlutdeildar í desemberuppbót, alls 37,23 vikur að fjárhæð kr. 71.166,- ((86.000/45) x 37,23).

Samkvæmt kjarasamningi VR og SA sé orlofsuppbót fyrir árið 2018  48.000 krónur og miðast við 45 vikur. Stefnandi hafði áunnið sér rétt til hlutdeildar í desemberuppbót, alls 26,25 vikur að fjárhæð 28.000 krónur ((28.000/45) x 26,25).

 

Krafan sundurliðast sem hér segir:

 

Laun í uppsagnarfresti v/ágúst

515.387,-

Bónus á laun í ágúst

157.303,-

Laun í uppsagnarfresti v/september

515.387,-

Bónus á laun í september

157.303,-

Laun í uppsagnarfresti v/október

515.387,-

Bónus á laun í október

157.303,-

Desemberuppbót 2017

28.000,-

Orlofsuppbót 2018

71.166,-

Höfuðstóll

2.117.236,-

Samtals

2.117.236,-

 

Skv. gr. 1.9 í kjarasamningi VR og SA sem gildi frá 1. maí 2015 eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun séu greidd fyrir. Að auki skuli vinnuveitandi greiða áunnið orlof til launþega við lok ráðningarsambands skv. 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Þar sem innheimtutilraunir, samanber bréf frá VR dags. 16.10.2017 og  ítrekunarbréf frá Guðmundi B. Ólafssyni hrl. dagsett 15.11.2017, hafi reynst árangurslausar sé málshöfðun nauðsynleg. Sé hér farið fram á ýtrustu kröfur samkvæmt lögum og kjarasamningum.

Kröfur sínar styður stefnandi við lög nr. 7/1936 um samningsbrot o.fl., meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

            Stefndi byggir kröfur sínar aðallega á því að stefnandi hafi vanefnt ráðningarsamning aðila verulega. Stefndi byggir á því að vanefndin sé þess eðlis að stefnda hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust og því sé stefnda óskylt að greiða honum laun í uppsagnarfresti. Bendir stefndi á að eðli rekstrar stefnda sé slíkt að mjög mikilvægt sé að samskipta­saga við viðskiptavini sé óslitin. Ljóst sé af ráðningarsamningi aðila að gert var ráð fyrir því frá upphafi að vinna stefnanda færi fram í gegnum tölvupóst hans á netfangi sem stefndi útvegaði honum.

Stefndi byggir á því að hann sé, sem atvinnurekandi, eigandi tölvupóstfangsins og þeirrar vinnu sem felist í samskiptum stefnanda við viðskiptavini stefnda. Innan tveggja vikna frá starfslokum hefði stefndi veitt stefnanda kost á að eyða eða taka afrit af þeim tölvupósti sem ekki tengdist starfsemi stefnda, en stefnandi hefði unnið upp úr hinum gögnunum mikilvægar viðskiptaupplýsingar og svo eytt tölvupóstinum í samræmi við persónuverndarlög og reglur nr. 475/2011 um rafræna vöktun. Eyðing tölvu­póstsins án samráðs sé alvarlegt trúnaðarbrot sem réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Stefnandi bendir á að óumdeilt sé að stefnandi eyddi tölvupósti ársins 2016 og byggir á því að leggja verði til grundvallar að stefnandi hefði jafnframt eytt tölvupósti ársins 2017 ef aðgangi hans hefði ekki verið lokað nema að annað sannist.

Þá telur stefndi einnig óumdeilt að stefnandi hafi sent sjálfum sér á persónulegt netfang trúnaðar­gögn í eigu stefnda. Viðskiptakjör BYKO séu meðal þeirra upplýsinga sem teljist vera mikilvægustu trúnaðargögn stefnda. Engin þörf hafi verið á því fyrir stefnanda að senda þessi gögn á persónulegt netfang sitt. Því sé mótmælt að stefnandi hafi gert það með samþykki stefnda hvort sem er í þetta skipti eða áður. Stefnandi bendir á að stefndi hafi haft fartölvu til umráða og getað unnið heiman frá sér á því netfangi sem hann hafði til umráða samkvæmt ráðningarsamningi og gerði það í raun. Stefnandi byggir á því að sending á trúnaðarskjali á persónulegt netfang sé jafnframt alvarlegt trúnaðarbrot á ráðningarsamningi aðila og grundvöllur fyrirvaralausrar uppsagnar.

Málsástæðum í málgrein 20-21 til stuðnings bendir stefndi á að rétti til launa í upp­sagnarfresti fylgi skylda til að láta í té vinnuframlag ef óskað sé eftir því. Ljóst sé að vegna trúnaðarbrots stefnanda hafi ekki lengur verið grundvöllur fyrir störfum hans í þágu stefnda á meðan uppsagnarfrestur leið. Stefnandi byggir á því að þetta styðji þá niðurstöðu að stefnda sé óskylt að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti.

Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi hafi brotið samkeppnisákvæði ráðningarsamnings komi í ljós að stefnandi hafi ráðið sig til Icepack innan sex mánaða frá starfslokum hjá stefnda. Stefndi byggir jafnframt á því að ráðning stefnanda til samkeppnisaðila geri framsendingu hans á trúnaðargögnum enn alvarlegri. Stefndi byggir á því að þetta brot á trúnaðarskyldum í samningnum styðji kröfu stefnda um sýknu af kröfu stefnanda.

Fari svo að dómari komist að þeirri niðurstöðu að brot stefnanda á ráðningarsamningi sé ekki nægjanlega alvarlegt til að gefa tilefni til fyrirvaralausrar uppsagnar byggir stefndi á því til vara að hann eigi skaðabótakröfu til skuldajafnaðar vegna brotanna er nemi allt að hálfum launum í uppsagnarfresti.

Kröfu um lækkun á stefnukröfu byggir stefndi að öðru leyti á því að ljóst er samkvæmt dskj. nr. 14 að stefnandi hafi verið búinn að taka út orlof fyrirfram umfram það sem hann hafði áunnið sér og að draga eigi það orlof frá stefnukröfunni. Þá sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt á meðaltali bónusgreiðslna eins og haldið sé fram í stefnu.

Í fyrsta lagi sé byggt á því að ekki sé hægt að greiða bónus nema að starfsmaður hafi selt vörur í samræmi við samning aðila. Svokallaðar bónusgreiðslur miði að því að skipta hagnaði á milli launþega og atvinnurekanda. Ekki sé hægt að greiða slíkar árangurstengdar greiðslur án þess að eitthvað sé til skiptanna. Stefndi byggir á því að þetta gildi almennt en jafnframt sérstaklega í þessu tilfelli, samanber sjónarmið sem gerð sé grein fyrir í greinargerð.

Í öðru lagi sé byggt á því að ósannað sé að salan hefði náð meðal­talstölunni og því beri að hafna greiðslu á svokölluðum bónus. Loks sé, hvað varðar lækkun stefnukröfu, byggt á því að leggja verði til grundvallar að stefnandi hafi fengið laun annars staðar frá á meðan á uppsagnarfresti stóð nema að hann sanni annað með framlagningu upplýsinga úr staðgreiðsluskrá.

Samkvæmt ofangreindu beri að taka kröfur stefnda til greina og hafna öllum kröfum stefnanda eða eftir atvikum lækka kröfu hans verulega og dæma hann til að greiða stefnda málskostnað.

Stefnandi vísar til meginreglna vinnu- og kröfuréttar auk ákvæða samningalaga nr. 7/1936. Um málskostnað sé vísað til ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um orlof sé vísað til laga um orlof nr. 30/1987. Um fjárhæð skaðabótakröfu til skuldajafnaðar sé vísað til meginreglu 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928.

Skýrslur fyrir dómi.

Stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda, Ottó Þormar, ásamt vitnunum Elíasi Bjarnasyni og Aroni Frank Leópoldssyni, gáfu skýrslu fyrir dóminum. Verður vitnað til þeirra eftir því sem þörf þykir.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningslaust er að stefnandi starfaði hjá stefnda í rúm þrjú og hálft ár. Sagði stefnandi starfi sínu lausu með bréfi dagsettu 31. júlí 2017. Kvaðst stefnandi hafa ætlað að vinna uppsagnarfrest sinn, þrjá mánuði, en þann 18. ágúst 2017, er hann kom í vinnu, hafi verið búið að loka fyrir aðgang hans á vinnutölvunni svo að hann komst ekki inn í vinnuskjöl né tölvupóst. Fyrir dóminum kvaðst stefnandi hafa eytt tölvupósti sem ekki skipti máli vegna ársins 2016 og jafnframt einhverjum tölvupósti frá árinu 2017. Kvað hann allar upplýsingar sem skiptu máli varðandi viðskiptavini stefnda hafa verið sendar í tölvupósti milli stefnanda og forsvarsmanns stefnda en stefandi hafi ekki getað tekið ákvarðanir um tilboð né samþykki þeirra. Það hafi stefndi gert sjálfur. Því sé stefndi með allar upplýsingar um samninga og viðskiptavini í sínum tölvupósti.

Stefnandi kvað rétt að hann hafi sent sjálfum sér skjal á excel-formi varðandi tilboð til BYKO á persónulegt netfang sitt þann 16. ágúst en það hafi hann gert til þess að ljúka þeirri vinnu sem eftir var því að það hafi skipt hann verulega miklu máli að ljúka þeim samningi þar sem hluti launa hans voru árangurstengd. Þá kvað hann stefnda hafa vitað að hann vann við verkefni heima hjá sér og á sinni tölvu og hafi m.a. sent stefnda tölvupóst úr sínu einkanetfangi. Því neitaði stefndi undir rekstri málsins. Í gögnum málsins liggur frammi einn tölvupóstur frá 16. maí 2017 þar sem stefnandi sendi stefnda tölvupóst úr sínu persónulega netfangi. Styður það frásögn stefnanda um að hann hafi við viss skilyrði sent sér gögn heim til að vinna við eftir vinnutíma. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að þau gögn sem hann telur vera trúnaðargögn, sem stefnandi sendi á sitt netfang, hafi að geyma trúnaðarupplýsingar en stefnandi kvað það skjal hafa verið unnið af sér og því hafi ekki verið um neinar trúnaðarupplýsingar að ræða. Því var ekki mótmælt af hálfu stefnda. Gegn neitun stefnanda telur dómurinn stefnda ekki hafa sannað að stefnandi hafi með þessum hætti verið að senda sjálfum sér trúnaðarupplýsingar sem hann hafi annars ekki haft aðgang að við vinnu sína. Þá kom fram, bæði hjá stefnanda og fyrirsvarsmanni stefnda, að stefnandi hafi ekki haft neinar upplýsingar um innkaupsverð þeirrar vöru sem stefndi seldi svo áfram og vissi því ekki hver álagning stefnda var. Stefnandi hafði því ekki aðgang að þeim forsendum sem stefndi byggði á við gerð tilboða. Að því virtu telur dómurinn ljóst að tilboð til BYKO hafi ekki borið með sér aðrar upplýsingar en þær sem stefnanda voru aðgengilegar þá þegar eins og hann heldur fram.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefndi hafi eytt tölvupósti á netfangi stefnda vegna ársins 2016 og eitthvað vegna ársins 2017 og hafi með því eytt viðskiptasögu margra viðskiptavina sem hafi valdið stefnda tjóni. Þessu neitar stefnandi og kvaðst hafa verið að taka til í pósthólfinu og eytt tölvupósti sem ekki hafi skipt máli. Allar viðskiptaupplýsingar hafi verið til í tölvupósti sem stefnandi hafi sent stefnda og þar fyrir utan hafi upplýsingar verið vistaðar í forritinu One Note í vinnutölvu stefnanda. Hafi stefndi því haft allan aðgang að viðskiptasögu viðskiptavina stefnda.

Í gögnum málsins liggur fyrir yfirlýsing Arons Franks Leópoldssonar sem sá um tölvumál fyrir stefnda. Kom hann fyrir dóminn og kvaðst hafa aðgang að tölvukerfum stefnda þar sem hann sinnti þeim í verktakavinnu. Kvaðst hann fyrir dóminum hafa séð í tölvu stefnanda að 1.809 tölvubréfum hafi verið eytt úr pósthólfi stefnanda. Hann hafi náð að endurheimta allan tölvupóst en ekki skoðað hann neitt frekar. Fyrir dóminum kvaðst fyrirsvarsmaður stefnda ekki hafa farið í tölvupóstinn og kannað hvers konar tölvupósti hafi verið eytt né hvort sú eyðing hafi snert viðkvæmar viðskiptaupplýsingar eða samskiptasögu viðskiptavina stefnda. Engin gögn hafa verið lögð fram um innihald eða eðli þess tölvupósts sem stefnandi eyddi úr vinnutölvu sinni um það leyti sem hann sagði upp störfum en áður en stefndi gerði stefnanda að hætta fyrirvaralaust.

Gegn mótmælum stefnanda hefur stefndi ekki sýnt fram á að umræddur tölvupóstur hafi haft það efnislega innihald að hann hafi skipt máli fyrir stefnda á síðari stigum eða viðskiptasögu viðskiptavina stefnda. Stendur það stefnda nær að færa sönnur á þá staðhæfingu sína að með því að eyða umþrættum tölvupósti hafi það valdið stefnda tjóni. Stefndi upplýsti fyrir dóminum að náðst hafi að endurheimta allan umræddan tölvupóst en hann hefur engin gögn lagt fram um það hvort þessi eyðing tölvupóstsins hafi valdið honum fjárhagstjóni. Telur dómurinn að stefnda hafi ekki tekist sönnun á því að eyðing tölvupóstsins hafi valdið honum slíku tjóni eða að þessi háttsemi stefnanda hafi verið þannig að það réttlætti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að stefnandi hafi brotið ráðningarsamning sinn með því að hefja störf hjá samkeppnisaðila en í ráðningarsamningnum hafi verið ákvæði þess efnis að stefnanda væri það óheimilt í sex mánuði frá starfslokum. Engin gögn hafa verið lögð fram því til staðfestu. Stefnandi kvað fyrir dóminum að hann hafi í fyrstu verið atvinnulaus eftir að hann hætti störfum hjá stefnda, síðan hafi hann farið í barneignarfrí og í framhaldi af því unnið við rafvirkjun. Hann hafi ekki hafið störf hjá Icepack fyrr en sjö til átta mánuðum eftir að hann hætti störfum hjá stefnda. Fyrir dóminum kvaðst forsvarsmaður stefnda aðspurður ákvæði í samningnum um samkeppni ekki hafa verið skilyrði fyrir ráðningarsamningi stefnanda og stefndi hefði útbúið nýjan ráðningarsamning hafi hann vitað um þá afstöðu stefnanda að vilja ekki gangast undir slíkt ákvæði. Hefur stefnda ekki tekist að sýna fram á að stefnandi hafi brotið samkeppnisákvæði samningsins.   

Að öllu framasögðu virtu telur dómurinn að stefndi hafi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi brotið svo gegn starfsskyldum sínum eða ráðningarsamningi að réttlætt gæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi.

Í varakröfu stefnda gerir hann kröfu um að stefnukröfur stefnanda verði lækkaðar. Stefnandi hafi verið búinn að taka út orlof fyrirfram umfram það sem hann hafi áunnið sér og draga eigi það orlof frá kröfunni. Því er mótmælt af hálfu stefnanda. Stefnandi gerir enga kröfu um greiðslu orlofs en hann hafi átt inni fullt orlof fyrir orlofsárið 2016-2017 auk þess að eiga inni tólf daga í orlof frá 1. maí 2017 til starfsloka. Engin krafa er hins vegar gerð um greiðslu fyrir áunnið orlof og stefndi hefur ekki sýnt fram á að stefnandi hafi tekið út meira orlof á árinu 2017 en hann hafi áunnið sér á undangengnu orlofsári. Verður þeirri kröfu stefnda því hafnað.

Stefndi krefst einnig lækkunar á dómkröfum stefnanda þar sem stefnandi hafi ekki áunnið sér rétt til bónusgreiðslna eftir að hann hætti störfum. Um tekjutengdar bónusgreiðslur hafi verið samið í ráðningarsamningi aðila. Stefnandi hafi hins vegar ekki sýnt fram á að bónusgreiðslur hafi náð meðalbónusgreiðslum mánuðina á undan uppsögn og beri því að hafna þessari kröfu stefnanda. Þessu mótmælir stefnandi og kveðst ekki eiga að þola það að samningsbundnar launagreiðslur lækki vegna ólögmætrar uppsagnar. Þetta hafi verið hluti af launakjörum stefnanda.

Eins og rakið er að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki brotið svo gegn starfsskyldum sínum að það réttlæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi. Stefnandi hafði föst mánaðarlaun auk þess sem hann fékk greiddan árangurstengdan bónus reglulega. Um það var samið við ráðningu stefnanda og óumdeilt að stefnandi hafi fengið slíkar greiðslur. Stefnandi gerir nú kröfu um að fá slíkar greiðslur á uppsagnartímanum. Uppsögn, hvort sem það er af hálfu starfsmanns eða vinnuveitanda, breytir ekki ein og sér efni ráðningarsamnings. Verður þessi hluti samningsbundinna launa stefnanda ekki af honum tekinn með því einu að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi. Stefnandi hefur stillt kröfu sinni í hóf eins og kemur fram í dómskjali nr. 6 og launaseðlum og krefst hann þess að fá bónus að meðaltali fyrir mánuðina frá nóvember 2016 til júlí 2017 greiddan eða 157.303 krónur á mánuði. Stefndi mótmælir þessari kröfu og kveður stefnanda ekki eiga rétt á bónusgreiðslum því að ekkert hafi verið til skiptanna, stefnandi hafi ekki gert neina sölusamninga eftir að hann yfirgaf vinnustaðinn. Stefndi hefur hins vegar ekki sýnt fram á að umkrafin fjárhæð sé of há miðað við forsendur stefnanda. Telur dómurinn að stefnandi eigi ekki að vera verr settur eftir ólögmæta uppsögn í starfi en hann hefði verið hefði hann fengið að vinna uppsagnarfrestinn. Verður þessari málsástæðu stefnda því hafnað. Telur dómurinn að stefnandi stilli dómkröfum sínum í hóf hvað þetta varðar. Ekki er ágreiningur í málinu um kröfu stefnanda um persónuuppbót.

Að öllu framansögðu virtu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og segir í dómsorði. Að þessum niðurstöðum fengnum og með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 750.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ekki eru efni til að dæma að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, eins og krafist er í stefnu, með vísan til 12. gr. laga nr. 38/2001.

Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

 

Dómsorð.

Stefndi, Umbúðir og Ráðgjöf ehf., skal greiða stefnanda, Þorbirni Ólafssyni, 2.117.236 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. september 2017 af 672.690 krónum til 1. október 2017 og frá þeim degi af 1.345.380 krónum til 1. nóvember 2017 og frá þeim degi af 2.117.236 krónum til greiðsludags. 

            Stefndi greiði stefnanda í málsvarnarlaun 750.000 krónur.

 

                        Ástríður Grímsdóttir.