• Lykilorð:
  • Galli
  • Verksamningur

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2018 í máli nr. E-396/2015:

Spennt ehf.

(Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður)

gegn

Mosfellsbæ

(Sigurður S. Júlíusson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var höfðað 13. apríl 2015, var dómtekið 27. febrúar 2018. Stefnandi er Spennt ehf., Gvendargeisla 96, Reykjavík. Stefndi er Mosfellsbær, Þverholti 2, Mosfellsbæ.

            Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 81.151.841 kr., með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 9.195.000 kr. frá 1. júlí 2013 til 1. ágúst 2013, en af 17.345.000 kr. frá þeim degi til 1. október 2013, en af 27.341.500 kr. frá þeim degi til 1. nóvember 2013, en af 32.259.000 kr. frá þeim degi til 1. desember 2013, en af 38.226.900 kr. frá þeim degi til 27. janúar 2014, en af 45.634.900 kr. frá þeim degi til 5. febrúar 2014, en af 61.627.576 kr. frá þeim degi til 26. febrúar 2014, en af 63.367.576 kr. frá þeim degi til 7. apríl 2014, en af 67.716.841 kr. frá þeim degi til 11. apríl 2014, og af 81.151.841 kr. frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni gagnkröfu stefnda að fjárhæð 3.452.000 kr. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað.

            Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað.

I.

            Málsatvik eru þau að í júní 2012 stóð stefndi fyrir alútboði vegna byggingar íþróttahúss að Varmá, sal 4, í Mosfellsbæ, þar sem verktaki átti að leggja til hönnun verks sem og framkvæmd. Fyrir lágu útboðsgögn þar sem kom fram að um væri að ræða nýbyggingu íþróttahúss að Varmá sem væri 1.218 m² að grunnfleti með 400 m² milligólfi, áætlað rúmmál húss væri 11.000 m². Húsið væri með (steyptum) gryfjum en að öðru leyti væru engar innréttingar hluti af þessu verki. Verktaki skyldi skila húsinu með ísteyptu gólfhitakerfi. Utanmál húss ætti að vera 29x42 m. Íþróttahúsið ætti að reisa upp við núverandi mannvirki og væri gert ráð fyrir því að húsin tengdust með tengigangi eins og sýnt væri á tillöguteikningum sem væru hluti útboðsgagna. Verktaki skyldi hanna og reisa íþróttahús og tengigang með áþekkum hætti og væri sýnt á teikningum. Að öðru leyti skyldi vinna verkið í samræmi við útboðsgögnin og gildandi byggingarreglugerð. Þá sagði í formi verksamnings sem fylgdi útboðsgögnum að verktaki ætti að skila húsinu fokheldu með gólfhitakerfi.

Átta tilboð bárust stefnda, þ. á m. frá stefnanda að fjárhæð 148.031.500 kr., en öllum tilboðum var hafnað þar sem þau voru yfir kostnaðarviðmiði stefnda.

Í kjölfarið ákvað stefndi að bjóða bjóðendum í útboðinu til samningskaupa, sbr. 32. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, þótt útboðið hafi ekki fallið undir lögin þar sem áætluð verkfjárhæð var langt undir viðmiðunarmörkum fyrir útboðsskyldu. Í útboðinu var stuðst við útboðsgögn í fyrra útboðsferli, þó þannig að tæknikerfum, þ.e. lögnum, loftræsingu og rafkerfum, hafði verið bætt við.

Tilboð bárust frá þremur aðilum, þ. á m. stefnanda, og var ákveðið að taka tilboði stefnanda, sem var að fjárhæð 159.900.000 kr.

Hinn 17. febrúar 2012 sendi Jóhanna Björg Hansen, framkvæmdastjóri umhverfissviðs stefnda, fyrirsvarsmanni stefnanda tölvupóst þar sem stefnanda var tilkynnt að verksamningurinn væri tilbúinn til undirritunar. Í tölvupóstinum sagði: „Sælir ! Verksamningurinn um íþróttasalinn eins og hann var boðinn út, er tilbúinn til undirritunar og hefðum við viljað skrifa undir hann nú í vikunni ... .“

Stefnandi og stefndi skrifuðu svo undir verksamning, dags. 20. febrúar 2013. Samningsfjárhæðin var 159.900.000 kr. og voru verklok áætluð 6. nóvember 2013. Í samningnum var verkinu lýst á sama hátt og í útboðsgögnum alútboðsins að því undanskildu að í samningnum sagði að verktaki ætti að skila húsinu „fullbúnu“ en ekki „fokheldu“ eins og í útboðsgögnum alútboðsins. Stefnandi kveður að stefndi hafi breytt þessari lýsingu verksins einhliða og án þess að upplýsa stefnanda um þá breytingu áður en til undirritunar kom.

Verksamningnum sem aðilar undirrituðu fylgdi jafnframt verk- og skilalýsing stefnanda, á fylgiskjali E, þar sem sagði: „Mannvirkinu verður skilað á byggingarstigi 4. skv. skilgreiningu byggingarreglugerðar að stofni til, auk loftupphitunarkerfis og lýsingar í sal. Byggingin verður hönnuð m.v. byggingar­reglugerð 441/1998. Íþróttahúsið er stálgrindarhús á steyptum sökklum, klætt með viðurkenndum samlokueiningum.“ Í fylgiskjalinu var byggingarstigi nánar lýst, m.a. þakvirki og brunavörnum og fram kom að gluggar og hurðir yrðu af viðurkenndri gerð og gert væri ráð fyrir koksgráum lit. 

Ágreiningur er um málsatvik eftir að aðilar undirrituðu verksamninginn. Stefnandi segir að skömmu eftir að verksamningur var undirritaður hafi komið í ljós verulegir annmarkar á upphaflegri hönnun íþróttahússins, sem hafi verið byggð á útboðsgögnum stefnda, og íþróttahúsið ekki uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar. Byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar hafi því ekki gefið út byggingarleyfi vegna verksins fyrr en 8. október 2013. Fram að því hafi byggingarfulltrúinn einungis gefið út takmarkað byggingarleyfi, en það hafi verið gert 3. apríl 2013. Vegna þessara annmarka hafi stefnandi hafist handa við að breyta hönnun byggingarinnar í samstarfi við hönnuð hússins og stefnda, í því skyni að hún uppfyllti ákvæði laga og reglugerða, og einnig til að tryggja að byggingin uppfyllti óskir og kæmi til móts við athugasemdir þeirra sem myndu helst nýta íþróttahúsið, s.s. íþróttafélaga í sveitarfélaginu.

Stefnandi kveður að mál hafi þróast með þeim hætti að hönnuður stefnanda hafi fyrst og fremst verið í samstarfi við stefnda í tengslum við þær breytingar.  Hönnuðurinn hafi í raun starfað fyrir stefnda og stefndi greitt honum sérstaklega fyrir vinnu við þær breytingar. Ákvörðunarvald um viðbætur við hið upphaflega verk og breytingar á því hafi fyrst og fremst verið á hendi stefnda, m.a. um hönnun og byggingu millibyggingar milli þess íþróttahúss sem stefnandi tók upphaflega að sér að byggja og eldra íþróttahúss sem fyrir var. Sú vinna hafi leitt í ljós nauðsyn þess að gera þyrfti verulegar og kostnaðarsamar breytingar frá upphaflegri hönnun íþróttahússins og ráðast í umfangsmikil auka- og viðbótarverk við samningsverkið.

Í kjölfarið hafi stefnandi gert stefnda tilboð í viðbótarbyggingarmagn, að fjárhæð 55.732.800 kr. Stefnandi hafi svo gert stefnda nýtt og endurbætt tilboð að fjárhæð 89.827.033 kr., sem stefnandi hafi sent framkvæmdastjóra umhverfissviðs stefnda með tölvupósti 21. júní 2013, þar sem komið hafi í ljós að í fyrra tilboði vantaði kostnaðarliði, m.a. vegna raf- og vatnslagna. Tilboðið hafi jafnframt verið sent Þorsteini Sigvaldasyni, forstöðumanni þjónustustöðvar stefnda, með tölvupósti 29. ágúst 2013. Hvorugt þeirra hafi hreyft athugasemdum við tilboðinu, hvorki varðandi einstaka liði né fjárhæðir. Stefnandi kveðst hafa litið svo á að tilboðinu hefði verið tekið af hálfu stefnda þótt ekki hafi verið gerður skriflegur verksamningur um umrædd auka- og viðbótarverk. Stefnandi hafi því hafist handa við framkvæmd þeirra. 

Stefndi mótmælir því að verulegir annmarkar hafi verið á upphaflegri hönnun íþróttahússins og að af þeim ástæðum hafi byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar ekki gefið út byggingarleyfi vegna verksins fyrr en 8. október 2013, eftir að hafa gefið út takmarkað byggingarleyfi 3. apríl 2013. Stefndi lýsir atvikum þannig að eftir að verkframkvæmdir hófust hafi stefndi talið rétt að loka gangi sem myndaðist milli íþróttahússins og eldri íþróttamannvirkja. Nánar tiltekið hafi íþróttahúsið sem stefnandi tók að sér að reisa átt að standa við hlið íþróttamannvirkja sem þegar stóðu við Varmá í Mosfellsbæ. Gert hafi verið ráð fyrir að húsið tengdist eldri íþrótta­mannvirkjum með tengigangi en að öðru leyti skyldi húsið vera um 7 metra frá þeim íþróttamannvirkjum sem þegar voru til staðar. Við það hafi myndast gangur eða sund á milli hins nýja húss og þeirra íþróttamannvirkja sem voru fyrir. Þar hafi verið gert ráð fyrir að síðar væri hægt að tengja húsin saman með gerð millibyggingar og koma þar fyrir skiptiklefum og annarri aðstöðu fyrir notendur hins nýja íþróttahúss. Stefnda hafi þótt rétt að loka þeim gangi sem myndi myndast á milli húsanna þar sem veggir og sökklar myndu umlykja bilið á þrjá vegu.

Stefndi kveðst hafa óskað eftir því að arkitekt íþróttahússins ynni teikningu að mögulegu fyrirkomulagi á umræddu bili. Stefndi hafi sjálfur greitt fyrir þá vinnu enda hafi hún ekki komið samningsverki aðila við. Í kjölfarið hafi stefndi óskað eftir því að stefnandi gerði tilboð í vinnu við steypu á sökkli og gólfplötu, lagnir og þak þannig að mögulegt væri að loka ganginum. Í þessu hafi ekki falist að stefndi hefði samþykkt að byggja millibyggingu í heilu lagi og hafi verið ítrekað við stefnanda að ganga þyrfti frá samningi um verk þetta, sbr. bókanir á verkfundum 3. og 10. júní 2013.   

Stefndi kveðst hafa hafnað tilboði stefnanda í framkvæmd millibyggingar og fleiri verkliði, að fjárhæð 49.232.800 kr. Stefndi hafi svo fengið VSÓ ráðgjöf til að yfirfara tilboð stefnanda sem barst stefnda 21. júní 2013, að fjárhæð 89.827.033 kr., og niðurstaðan hafi verið sú að tilboðsfjárhæðin væri allt of há. Tilboðinu hafi því verið hafnað á fundi aðila 15. ágúst 2013. Þeirri afstöðu hafi jafnframt verið lýst á verkfundum, sbr. verkfundargerðir frá 3. og 10. júní 2013 og 7. janúar 2014. Þar komi m.a. fram að ekki lægi fyrir samkomulag um byggingu millibyggingar og verktaki skyldi því ekki framkvæma neina þá vinnu er varðaði byggingu þessa og væri utan samningsverks aðila.

Stefndi segir jafnframt að á þessum tíma hafi einnig verið ljóst að óásættanlegur gangur væri í samningsverkinu af hálfu stefnanda, en vinna af hálfu stefnanda við framkvæmdina hafi nánast legið niðri frá því í júní og fram í ágúst. Strax í maí og júní 2013 hafi stefndi gert athugasemdir við að ekki væri mikill gangur í verkinu og að verktaki þyrfti að halda sér að verki til að fyrirhuguð verkskil stæðust. Þá hafi stefndi gert athugasemdir við þessa framvindu á fundi aðila 15. ágúst 2013 og með tölvupósti 28. nóvember 2013. Þá hafi jafnframt verið ítrekað að enn hefði ekki náðst samkomulag um framkvæmd við millibyggingu.

Þrátt fyrir þessar athugasemdir hafi framkvæmdir stefnanda við verkið aftur legið niðri frá lokum októbermánaðar til desember 2013. Sjónarmið stefnda um tafir á verkinu hafi því verið ítrekuð í bréfi stefnda 2. desember 2013. Með bréfi 30. desember 2013 hafi stefndi svo tilkynnt að hann áskildi sér fullan rétt til að beita tafabótum frá 7. janúar 2014, en stefndi hafi þá verið búinn að taka tillit til atriða sem réttlættu hliðrun á upphaflegum verkskilatíma, þ.e. tafir á samþykkt byggingarnefndar á teikningum. Þessi afstaða stefnda hafi verið ítrekuð á verkfundi 7. janúar 2014 og á verkfundum eftir það. Með bréfi stefnda 10. janúar 2014 hafi svo verið fallist á að framlengja verktíma til 27. janúar 2014, þar sem tafir hefðu orðið á því að tengja rafmagnskapal inn á verkstað í desember 2013 og vegna veðuraðstæðna um haustið, en stefndi lýsti því yfir að tafabætur yrðu lagðar á frá og með 28. janúar 2018.

Stefndi segir að stefnandi hafi aftur hafist handa við byggingu hússins eftir áramótin 2013/2014 en stefnandi hafi þó aldrei skilað verkinu fullkláruðu. Þegar stefndi hafi loks komist inn í húsið í lok apríl/byrjun maí 2014 hafi vantað töluvert upp á að húsið væri í því ástandi sem samið hafði verið um. Meðal annars hafi vantað í húsið allar hurðir og glugga, hluta lýsingar og brunaviðvörunarkerfis auk þess sem leki hafi verið í húsinu á nokkrum stöðum. Þetta hafi orðið til þess að stefndi hafi neyðst til að ráðast í kostnaðarsamar lagfæringar til að hægt væri að taka húsið í notkun og til að forða húsinu frá tjóni vegna leka.

Fyrir liggur að stefnandi gaf út ýmsa reikninga við framvindu samnings­verksins en einnig vegna viðbótarverka og greiddi stefndi suma þeirra. Stefnandi mótmælti kröfu stefnda um tafabætur. Sáttaumleitanir aðila hafa ekki borið árangur og hefur stefnandi því höfðað mál þetta.

            Í þinghaldi 25. nóvember 2015 var að beiðni stefnda dómkvaddur matsmaður, Björn Gústafsson byggingarverkfræðingur, og var matsgerð hans, dags. 29. apríl 2016, lögð fram í þinghaldi 27. maí 2016. Málinu var eftir það frestað til sáttaumleitana aðila en sættir tókust ekki. Í þinghaldi 9. desember 2016 voru að beiðni stefnanda dómkvaddir sem yfirmatsmenn Ragnar Ómarsson byggingarfræðingur og Hjalti Sigmundsson, húsasmíðameistari og byggingartæknifræðingur. Yfirmatsgerð, dags.  22. ágúst 2017, var lögð fram fyrir dómi 3. október 2017. Gagnaöflun var lýst lokið í þinghaldi 13. desember 2017. Verður vísað síðar til framangreinda matsgerða eftir því sem ástæða er til.

            Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Haukur Óskarsson, fyrirsvarsmaður stefnanda. Þá gáfu skýrslu fyrir dómi Jóhanna Björg Hansen, framkvæmdastjóri umhverfissviðs stefnda, Þorsteinn Sigvaldason, fyrrverandi forstöðumaður þjónustu­stöðvar stefnda, nú deildarstjóri eigna og veitna, Björn Gústafsson matsmaður, Hjalti Sigmundsson yfirmatsmaður, Ragnar Magnússon, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Stefán Pálsson, verksmiðjustjóri Esju-Eininga ehf., sem er í eigu stefnanda, Ólafur V. Maack, sem fór með eftirlit með verkinu fyrir stefnda, og Kristján Ásgeirsson arkitekt.

II.

            Stefnandi reisir dómkröfur sínar í stefnu málsins á 16 gjaldföllnum reikningum sem stefnandi gaf út vegna byggingar íþróttahúss að Varmá í Mosfellsbæ. Stefnandi kveðst hafa unnið verkið annars vegar á grundvelli verksamnings aðila, sem hafi byggst á forsendum alútboðs stefnda, en hins vegar á grundvelli tilboðs stefnanda í viðbótarverk sem stefndi hafi samþykkt, dags. 8. febrúar 2013.

Stefnandi telur að stefndi hafi vanefnt með verulegum hætti samningsbundnar skyldur sínar gagnvart stefnanda. Vanefndir stefnda felist einkum í því að greiða ekki reikninga sem stefnandi gaf út vegna samningsverksins og umsamdra auka- og viðbótarverka. Þau verk hafi stefnandi sannanlega unnið í þágu stefnda og stefndi njóti nú góðs af þeim.

            Stefnandi byggir á því að túlka beri ákvæði 1. gr. verksamnings aðila, þar sem verkinu er lýst, í samræmi við þær forsendur og upplýsingar sem komu fram í útboðsgögnum alútboðs stefnda frá því í júní 2012, enda skyldi verksamningur aðila, að viðhöfðum samningskaupum, byggjast á forsendum og skilmálum alútboðsins, að því einu undanskildu að tæknikerfum hafi verið bætt við hið upphaflega verk, þ.e. lögnum, loftræstingu og rafkerfum.

Því skuli ákvæði verksamningsins túlkuð á þann veg að íþróttahúsinu skyldi skilað fokheldu, líkt og fyrirliggjandi útboðsgögn hafi borið með sér, en ekki fullbúnu. Stefnandi byggir á því að sú túlkun sé í samræmi við þau útboðsgögn sem tilboð stefnanda í samningskaupum stefnda byggðist á. Hún sé jafnframt í samræmi við þá byggingarlýsingu sem fram komi í fylgiskjali E með verksamningnum, þ.e. byggingarlýsingu vegna samningskaupaferlis, frá 15. janúar 2015, sem teljist hluti af verksamningi aðila, sbr. 2. gr. hans. Þar segi m.a.:  „Mannvirkinu verður skilað á byggingastigi 4“. Það þýði, með vísan til skilgreininga Staðlaráðs Íslands á byggingarstigi húsa og ákvæða ÍST 51:2001, sbr. grein 4.4, að því skyldi skilað fokheldu, en ekki fullbúnu.

Túlkun stefnanda sé jafnframt í samræmi við 32. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að viðhafa samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu, enda sé upphaflegum skilmálum útboðsins ekki breytt í verulegum atriðum. Beri því að túlka skuldbindingar samkvæmt verksamningi aðila í samræmi við skilmála alútboðs stefnda.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi einhliða og í veigamiklum atriðum breytt þeirri lýsingu verksins sem skilmálar alútboðs mæltu fyrir um, án þess að upplýsa stefnanda um þá breytingu áður en til undirritunar kom. Byggir stefnandi á því að sú breyting hafi verið ólögmæt, með vísan til ákvæða 32. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007. Þá blasi við að fyrir undirritun verksamningsins hafi framkvæmda­­stjóri umhverfissviðs stefnda beinlínis, og af því er virðist með vísvitandi hætti, villt um fyrir stefnanda með því að tilkynna honum með tölvupósti, hinn 17. febrúar 2012, að „verksamningurinn um íþróttasalinn eins og hann var boðinn út“ væri „tilbúinn til undirritunar“. Þann verksamning hafi stefnandi undirritað í góðri trú um að efni hans væri í samræmi við skilmála alútboðsins, að því undanskildu að við verkið hefðu bæst tæknikerfi, og að verkinu skyldi skilað fokheldu, en ekki fullbúnu. Lítils háttar breyting hafi orðið á fjárhæð tilboðs stefnanda til hækkunar frá alútboði til samningskaupa, sem hafi einungis helgast af því að við útboðið verk hafi bæst tæknikerfi.

Stefnandi segir að við blasi að hefði stefndi upplýst stefnanda um að verklýsingu í 1. gr. yrði breytt í svo veigamiklum atriðum, frá alútboði og til samningskaupa, þá hefði sú grundvallarbreyting leitt til þess að tilboð stefnanda við samningskaupin hefði orðið mun hærra en raun varð á, enda ljóst að byggingar­kostnaður íþróttahúss sem skuli skilað fullbúnu sé miklu hærri en íþróttahúss sem skilað skuli fokheldu. Byggir stefnandi á því að um þetta hafi stefnda mátt vera kunnugt.

Stefnandi telur að stefndi geti ekki byggt á breyttri verklýsingu verksamnings aðila frá 20. febrúar 2013. Slík túlkun á samningsskuldbindingum aðila brjóti í bága við meginreglu 32. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007. Að auki væri hún bersýnilega ósanngjörn gagnvart stefnanda í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá byggir stefnandi á því að 30. gr. laganna eigi við um þá veigamiklu breytingu sem stefndi hafi gert einhliða á verksamningnum án þess að upplýsa stefnanda um þá breytingu fyrir eða við undirritun samningsins.

Öll skjala- og samningagerð vegna byggingar íþróttahússins hafi verið á hendi stefnda, sem sé opinber aðili. Byggir stefnandi á því að til slíkra aðila verði að gera ríkar kröfur um að rétt sé staðið að samningagerð sem þessari, ekki síst í ljósi þess að stefndi hafi notið sérfræðiráðgjafar VSÓ Ráðgjafar við samningsgerðina. Að auki verði að gera ríkari kröfur til þess að samningar opinberra aðila eins og stefnda uppfylli ýtrustu formkröfur og að ótvírætt sé hvað í þeim felst. Hallann af vanrækslu við samningagerð verði stefndi að bera. 

Að öllu þessu virtu byggir stefnandi á því að túlka eigi ákvæði 1. gr. verksamnings aðila, þar sem verkinu er lýst, í samræmi við skilmála alútboðs stefnda frá því í júní 2012 og þær forsendur sem fram komi í útboðslýsingu verksins. Skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningi aðila hafi takmarkast við þá verklýsingu. Hafi honum því borið að skila húsinu fokheldu, en ekki fullbúnu, og að umsamin samningsfjárhæð hafi miðast við þá forsendu.

Af því leiði að þau verk sem stefnandi vann fyrir stefnda umfram það teljist aukaverk eða viðbótarverk samkvæmt meginreglum verktakaréttar. Fyrir þau verk beri stefnda að greiða samkvæmt þeim reikningum sem stefnandi gaf út. Stefnda beri að greiða stefnanda fyrir samningsverkið að fullu en það hafi stefndi ekki gert. Einhliða breytingar stefnda á verksamningi aðila, sem gerðar hafi verið án vitundar stefnanda, breyti engu þar um.

Stefnandi telur að stofnast hafi skuldbindandi samningur milli stefnanda og stefnda um þau verk sem stefnandi hafi sannanlega unnið í þágu stefnda, umfram þau verk sem hafi verið innifalin í verksamningi aðila, sem ýmist teljist aukaverk eða viðbótarverk í skilningi verktakaréttar. Stefnandi vísar í því sambandi einkum til verka vegna millibyggingar. Þau verk hafi stefnandi unnið og sé þeim lokið. Með því hafi stefnandi að fullu efnt skuldbindingar sínar gagnvart stefnda. Stefndi hafi á hinn bóginn vanefnt skuldbindingar sínar með því að greiða ekki útgefna reikninga vegna verkanna, jafnvel þá reikninga sem ekki sé ágreiningur um.

Stefnandi byggir nánar tiltekið á því að með tilboði hans til stefnda, dags. 8 febrúar 2013, í viðbótarbyggingarmagn vegna íþróttahússins, hafi stofnast skuldbindandi samningur milli aðila málsins um þau verk sem ekki voru innifalin í verksamningi aðila samkvæmt þeirri túlkun sem að framan greinir.

Í tilboðinu hafi einstakir viðbótarverkliðir verið sundurliðaðir, ásamt því sem tilgreindur hafi verið einingafjöldi hvers viðbótarverkliðar og magn, einingarverð auk fjárhæðar hvers verkliðar. Sú kostnaðaráætlun hafi verið í samræmi við ákvæði ÍST 30:2012, greinar 3.6.6 og 5.1.15. Stefnandi byggir á því að það tilboð hafi stefndi samþykkt og skuldbindandi samningur milli aðila stofnast um þau verk sem þar séu tilgreind. Stefnandi hafi lokið þeim og gefið út reikninga vegna þeirra.

Framangreindu til stuðnings byggir stefnandi á því að hvorki framkvæmdastjóri umhverfissviðs né framkvæmdastjóri tæknideildar stefnda hafi hreyft mótmælum við tilboðinu eða fjárhæðum sem þar komu fram.

Þá vísar stefnandi til þess að á grundvelli samningsins hafi stefnandi hafist handa við framkvæmd viðbótarverkanna, undir eftirliti eftirlitsmanns sem tilnefndur hafi verið af stefnda, Þorsteini Sigvaldasyni. Þau verk hafi stefnandi unnið í góðri trú um að í gildi væri samningur um þau milli aðila málsins. Viðbótarverkin hafi verið unnin í þágu stefnda og á grundvelli breytinga á hönnun verksins sem stefndi hafi sjálfur staðið að og sjálfur tekið ákvörðun um, eins og honum hafi verið heimilt með vísan til ákvæða ÍST 30:2012, gr. 3.6.1, einkum í samstarfi við hönnuð sem stefndi hafi haft náið samstarf við og greitt sérstaklega þóknun vegna þeirra breytinga.

Þar við bætist að stefndi hafi greitt hluta þeirra reikninga sem stefnandi gaf út vegna hinna umsömdu viðbótarverka. Byggir stefnandi á því að það feli í sér viðurkenningu stefnda á því að hann hafi samþykkt tilboð stefnanda og þar af leiðandi greiðsluskyldu sína. Að öðrum kosti hefðu þeir reikningar vart verið greiddir. Þá reikninga hafi stefndi greitt án fyrirvara. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki sjálfdæmi um það fyrir hvaða auka- og viðbótarverk hann greiði og hver ekki.

Þá hafi stefndi viðurkennt greiðsluskyldu sína með afdráttarlausum hætti með tölvupósti til stefnanda 30. júní 2014, þótt framboðin greiðsla hafi verið nokkru lægri en stefnufjárhæð máls þessa eða 67.936.949 kr.

Stefnandi byggir á því að þó svo að ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um þau viðbótarverk sem einkum er deilt um í máli þessu, svo sem áskilið er samkvæmt ákvæðum ÍST 30:2012, einkum greinum 3.6.4, þá breyti það eitt og sér engu um að stofnast hafi gildur samningur sem sé skuldbindandi fyrir aðila hans samkvæmt meginreglum samningaréttarins.

Hallann af því að ekki var gerður skriflegur samningur um viðbótarverkin sérstaklega verði stefndi að bera, enda hafi öll skjala- og samningagerð verið á hendi stefnda. Tilboð sem stefnandi gerði stefnda hafi verið skriflegt, skýrt og greinargott. Efni þess hefði ekki átt að valda misskilningi. 

Stefnda hafi verið fullkunnugt um að gera þyrfti breytingar og viðbætur á hinu upphaflega verki, enda hafi hann sjálfur staðið að þeim. Í auka- og viðbótarverkin hafi því verið ráðist í fullu samráði og með samþykki stefnda, og í raun að hans frumkvæði.

Stefndi hafi ekki mótmælt því fyrr en 28. nóvember 2013 að í gildi væri skuldbindandi samningur milli aðila um þau viðbótarverk sem um er deilt í máli þessu. Þá hafi vinna við þau verið löngu hafin og sumum þeirra raunar lokið. Síðar hafi stefndi borið því við að verkin hefðu verið hluti af upphaflegu samningsverki.

Stefnandi telur þannig að stefndi hafi sýnt af sér tómlæti. Mótmæli eða mótbárur hans geti ekki losað hann undan samningsskuldbindingum sínum gagnvart stefnda enda hafi þau ekki komið fram fyrr en löngu eftir að stefnandi hófst handa við að framkvæma verkin eða hafði lokið þeim a.m.k. að stórum hluta.

Að öllu þessu virtu telur stefnandi ótvírætt að stofnast hafi samningur milli aðila málsins um þau auka- og viðbótarverk sem stefnandi hafi framkvæmt og gerð sé krafa um í máli þessu að stefndi greiði fyrir.

Stefnandi byggir dómkröfu sína á útgefnum reikningum og beri að leggja til grundvallar það verð sem stefnandi hafi reiknað sér fyrir þau auka- og viðbótarverk sem um ræðir, enda hafi stefndi ekki fært rök fyrir því að það verð sé bersýnilega ósanngjarnt.  Því til stuðnings vísar stefnandi til meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, og grunnreglna verktakaréttar um ákvörðun endurgjalds.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir því að ekki hafi stofnast skuldbindandi samningur milli aðila máls um þau verk sem deilt er um í máli þessu og lýst er hér að framan. Byggir stefnandi á því að sönnunarstaðan í málinu ráðist m.a. af því að þeim verkum sem krafist sé greiðslu á sé lokið. Stefndi hafi tekið íþróttahúsið sem stefnandi tók að sér að byggja í notkun og njóti hann nú góðs af þeim verkum sem um er deilt. Þau verk hafi verið unnin í þágu stefnda, með hans samþykki og raunar samkvæmt tillögum hans, auk þess sem framkvæmd þeirra hafi farið fram undir eftirliti stefnda.

Stefnandi telur að þó svo að ekki yrði á það fallist að stofnast hefði skuldbindandi samningur milli aðila um framangreind viðbótar- og aukaverk sé greiðsluskylda stefnda engu að síður ótvíræð. Fráleitt sé að ætla að stefnandi hafi ráðist í þau verk sem deilt er um í máli þessu að eigin frumkvæði og á eigin kostnað, en án samþykkis stefnda, þótt verkin væru unnin í þágu stefnda og undir eftirliti hans.

Þá bendir stefnandi á að hann hafi skilað virðisaukaskatti af útgefnum en ógreiddum reikningum, samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Af samanlagðri fjárhæð þeirra megi sjá að virðisaukaskattur vegna þeirra verka sem stefndi hafi ekki greitt fyrir nemi umtalsverðum fjárhæðum. Að sama skapi hafi stefnandi greitt laun og launatengd gjöld vegna þeirra verka sem dómkrafan byggist á.

Að framangreindu virtu telur stefnandi að hann eigi rétt til greiðslna úr hendi stefnda vegna þeirra verka sem hann hafi unnið, annars vegar samkvæmt útgefnum reikningum vegna hins umsamda verks og hins vegar samkvæmt þeim reikningum sem stefnandi gaf út vegna auka- og viðbótarverka. Þá kröfu byggir stefnandi á meginreglum samninga- og kröfuréttar og verktakaréttar um skuldbindingagildi samninga og efndir fjárskuldbindinga, en vísar jafnframt til ákvæða ÍST 30:2012, einkum gr. 3.6.2. Þá vísar stefnandi til skilmála útboðsgagna stefnda frá júní 2012, ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki, og ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Í stefnu málsins segir að um sé að ræða eftirfarandi reikninga:

 

Reikningsnr.:             Útgáfudagur:             Gjalddagi:                  Fjárhæð:

Nr. 17.                         1.7.2013                      1.7.2013                      Kr.      8.300.000.-.

Nr. 19.                         1.8.2013                      1.8.2013                      Kr.      8.150.000.-.

Nr. 24.                         1.10.2013                    1.10.2013                    Kr.      9.996.500.-.

Nr. 27.                         1.11.2013                    1.11.2013                    Kr.      9.864.800.-.

Nr. 29.                         1.12.2013                    1.12.2013                    kr.      6.799.525.-.

Nr. 35.                         27.1.2014                    27.1.2014                    kr.      8.696.200.-.

Nr. 36.                         5.2.2014                      5.2.2014                      kr.    12.792.000.-.

Nr. 37.                         5.2.2014                      5.2.2014                      kr.      7.186.152.-.

Nr. 38.                         5.2.2014                      5.2.2014                      kr.          357.424.-.

Nr. 39.                         5.2.2014                      5.2.2014                      kr.          291.325.-.

Nr. 40.                         5.2.2014                      5.2.2014                      kr.       2.456.377.-.

Nr. 41.                         5.2.2014                      5.2.2014                      kr.       2.687.550.-.

Nr. 43.                         26.2.2014                    26.2.2014                    kr.      1.740.000.-.

Nr. 47.                         7.4.2014                      7.4.2014                      kr.      4.349.265.-.

Nr. 48.                         11.4.2014                    11.4.2014                    kr.    13.300.000.-.

Nr. 49.                         11.4.2014                    11.4.2014                    kr.      1.080.450.-.

Samtals                        Kr. 98.047.568.-.

 

Stefnandi kveðst hafa gefið alla reikninga út vegna þeirra verka sem stefnandi hafi unnið í þágu stefnda vegna hins umsamda verks og auka- og viðbótarverka sem stefnandi hafi unnið. Á hreyfingalista úr bókhaldi stefnanda komi fram upplýsingar um greidda og ógreidda reikninga sem stefnandi hafi gefið út vegna verksins.

Þá krefst stefnandi þess að umkrafin fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist sé dráttarvaxta frá gjalddaga hvers reiknings, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. 

Við upphaf aðalmeðferðar málsins lækkaði stefnandi dómkröfur sínar í 81.151.841 kr., með tilteknum dráttarvöxtum, allt að frádreginni gagnkröfu stefnda að fjárhæð 3.452.000 kr.

III.

            Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að hann sé skuldlaus við stefnanda þar sem kröfur stefnanda eiga ekki við nein rök að styðjast, eða séu umfram það sem eðlilegt og rétt sé að krefjast, auk þess sem stefndi eigi gagnkröfur til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda. 

            Stefndi kveðst ekki gera athugasemdir við reikning stefnanda, dags. 11. apríl 2014, að fjárhæð 13.300.000 kr. vegna vinnu við rafkerfi, loftræsingu, lagnir og frágang utanhúss, að öðru leyti en því að reikningur þessi hafi þegar verið greiddur vegna gagnkrafna sem stefndi eigi á hendur stefnanda, en stefndi hafi áskilið sér rétt til að draga gagnkröfur sínar frá kröfum stefnanda um greiðslu reikninga með bréfi 10. janúar 2014. Því sé engin greiðsluskylda fyrir hendi vegna reiknings þessa og sýkna beri stefnda af kröfu um greiðslu hans. 

            Í greinargerð stefnda er hafnað kröfu stefnanda um greiðslu 15 reikninga, samtals að fjárhæð 84.747.568 kr., vegna auka- og viðbótarverka. Stefndi mótmælir því að stefnanda hafi borið að skila íþróttahúsinu fokheldu og að stefndi hafi einhliða breytt þeirri lýsingu verksins sem skilmálar upphaflega útboðsins hafi mælt fyrir um án þess að upplýsa stefnanda um þá breytingu.

Stefndi telur að stefnanda hafi borið að skila húsinu í samræmi við þá lýsingu á verkinu sem kom fram í verksamningi aðila, ákvæði útboðsskilmála og meðfylgjandi teikningum, og í samræmi við verklýsingu og byggingarlýsingu sem stefnandi hafi sjálfur unnið, sbr. fylgiskjal E með verksamningi aðila. Orðalag 1. gr. verksamnings aðila um að stefnanda bæri að skila húsinu „fullbúnu“ vísi ekki til annars en að verkinu skyldi skilað fullbúnu í samræmi við þessi gögn, en ekki að húsinu skyldi skilað „fullgerðu“ í skilningi ÍST 51, eins og stefnandi virðist ganga út frá.

            Stefndi kveður að ekki hafi falist annað í orðum starfsmanns stefnda í tölvuskeyti 17. febrúar 212 en það að samningurinn, eins og hann var boðinn út með þeim breytingum sem leiddu af samningskaupaferlinu, þ. á m. byggingarlýsingu stefnanda sjálfs, væri tilbúinn til undirritunar. Í orðum hans hafi ekki falist að samningurinn, eins og hann var boðinn upphaflega út, væri tilbúinn til undirritunar. Það væri enda órökrétt af hálfu stefnanda að gera ráð fyrir að skrifa undir alveg óbreytt samningsform frá upphaflegu útboði þegar ljóst hafi verið að verkið hefði tekið breytingum í samningskaupaferlinu sem á eftir fylgdi. Stefndi mótmælir sérstaklega að hann hafi reynt að villa um fyrir stefnanda að þessu leyti, enda hafi stefnandi vitað vel að verkið hefði tekið breytingum í samningskaupaferlinu auk þess sem stefnandi sjálfur hljóti að bera ábyrgð á því sem hann skrifar undir.

Þá byggir stefndi á því að samkvæmt byggingarlýsingu stefnanda í verksamningi aðila hafi verið gert ráð fyrir að húsinu væri skilað með gluggum og hurðum, loftræsingu, lögnum og brunakerfi sem sé langt umfram það sem þurfi til að skila húsi fokheldu, sbr. gr. 4.4.5 – 4.4.7 í ÍST 51.

Jafnframt verði ekki séð að kröfur stefnanda í máli þessu taki nokkurt mið af því að hann hafi þurft að skila verkinu umfram fokheldisástand. Í það minnsta sé enga greiningu að finna á því hvaða verk eigi rætur að rekja til þess að nauðsynlegt hafi verið að skila húsinu með öðrum hætti en fokheldu og á verktímanum hafi stefnandi aldrei gert áskilnað um að fá sérstaklega greitt fyrir öll verk sem unnin hefðu verið umfram það að koma húsinu í fokhelt ástand.

Það sé því ekki rétt hjá stefnanda að honum hafi aðeins borið að skila fokheldu húsi, og að öll vinna umfram það teljist til auka- eða viðbótarverka. Þá hafi stefndi aldrei gert kröfu um að stefnandi skilaði húsinu fullgerðu í skilningi ÍST 51, heldur einungis í samræmi við ákvæði verksamnings, þ. á m. skilmála útboðsgagna, meðfylgjandi teikningar og byggingarlýsingar stefnanda sjálfs.      

Stefndi mótmælir því að náðst hafi samkomulag á milli aðila um þau auka- og viðbótarverk sem hafi verið unnin umfram þau verk sem fólust í samningi aðila. Tilboð stefnanda, dags. 8. febrúar 2013, sem hafi verið sent stefnda 21. júní 2013, hafi ekki verið samþykkt af hálfu stefnda, en tilboðið geymi bæði tilboð í verkþætti vegna byggingar svokallaðrar millibyggingar og aðra verkþætti. Ekki hafi verið gerður skriflegur verksamningur milli aðila á grundvelli tilboðsins.

Stefndi bendir á að bæði grein 0.5.3 í útboðsgögnum og sambærileg ákvæði í greinum 3.6.5 og 3.6.6 í ÍST 30 geri ráð fyrir að engin auka- eða viðbótarverk megi vinna nema samkvæmt skýlausum fyrirmælum verkkaupa og þá skuli allar yfirlýsingar um breytingar vera skriflegar, svo og kröfugerð og samningar. Ljóst sé því að stefnandi hafi ekki getað gengið út frá því eða búist við að tilboð hans, dags. 8. febrúar 2013, hefði verið samþykkt af hálfu stefnda án skýrra skriflegra fyrirmæla frá stefnda. Samkvæmt almennum reglum beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að samkomulag hafi tekist með aðilum og hafi hann ekki bent á nein slík skýlaus fyrirmæli af hálfu stefnda hvað varðar tilboð hans.

Stefndi byggir í þessu sambandi í fyrsta lagi á því að það sé ekki nægjanlegt samkvæmt almennum reglum samningaréttar að tilboð sé gert til þess að samningur teljist kominn á. Samningur teljist einungis kominn á ef tilboð sé samþykkt. Stefnandi hafi ekki getað litið svo á að vöntun á svari, þegar eða skömmu eftir að stefndi móttók tilboðið, hafi leitt til þess að tilboð hans teldist samþykkt. Þvert á móti hafi stefnandi mátt gera ráð fyrir að í vöntun á svari við tilboði hans fælist höfnun á tilboðinu. Þeirri afstöðu að tilboðinu væri hafnað hafi auk þess verið skýrlega komið á framfæri við stefnanda, m.a. á fundi aðila 15. ágúst 2013, auk þess sem afstaða stefnda hafi ítrekað verið bókuð í verkfundargerðum og bréfum stefnda. 

Í öðru lagi stoði það ekki fyrir stefnanda að bera fyrir sig að stefndi hafi ekki mótmælt framangreindri bókun á verkfundi 11. apríl 2013. Hafa verði í huga að þessi bókun varði hluta tiltekins afmarkaðs verkþáttar. Með engu móti geti skortur á mótmælum að þessu leyti verið túlkaður á þá leið að stefndi hafi samþykkt byggingu heillar millibyggingar, hvað þá öll önnur viðbótarverk sem komu millibyggingunni ekkert við sem voru hluti af tilboði stefnanda. Þá hafi þessi bókun verið gerð löngu áður en tilboðið var sent stefnda hinn 21. júní 2013 og því vandséð hvernig skortur á mótmælum að þessu leyti geti talist samþykki á öllu tilboði stefnanda.

Í þriðja lagi þá sé ekki hægt að líta á greiðslu á einstökum reikningum stefnanda sem samþykki á öllu tilboði hans. Hafa verði í huga að tilteknir reikningar hafi aðeins verið greiddir eftir að stefndi hafi komið á framfæri mótmælum við því að samkomulag um viðbótarverk væru í gildi á grundvelli tilboðs stefnanda og í þeim tilgangi að reyna að halda stefnanda að verki þar sem verkið hefði tafist mikið. Í því hafi ekki falist samþykki á öllu tilboði stefnanda.

Í fjórða lagi sé rangt að halda því fram að í yfirlýsingu í tölvuskeyti 30. júní 2014, þar sem fram komi tillaga stefnda að uppgjöri vegna ágreinings milli aðila, sem hafi verið sett fram í því skyni að reyna sætta deiluefni aðila, felist viðurkenning á greiðsluskyldu. Þá verði að hafa í huga að þegar tillaga þessi var sett fram hafi verið uppi allt önnur staða í málinu og síðan þá hafi stefndi innt af hendi frekari framvindugreiðslur, auk þess sem ýmsar kröfur stefnda á hendur stefnanda hafi komið í ljós. 

Í fimmta lagi megi nefna að í tilboði stefnanda séu ýmsir liðir sem hann hafi ekki gert kröfu um að fá greidda, sbr. rafkerfi, milligólf, pípulögn, innigluggar, auk þess sem gerð sé krafa um liði sem ekki sé að finna í tilboði stefnanda, sbr. byggingarstjórn. Stefnandi sjálfur virðist því ekki byggja kröfur sínar á tilboði því sem hann sendi stefnda, eða aðeins að hluta til. Hér megi einnig geta þess að stefnandi virðist tvisvar áður hafa gert stefnda tilboð, annað að fjárhæð 55.732.800 kr., sem stefndi kannast ekki við að hafa móttekið, og að fjárhæð 49.232.800 kr., en öll þessi tilboð séu dagsett sama dag, 8. febrúar 2013. Óskýrt sé hvers vegna stefnandi telji að tilboði hans frá 21. júní 2013 hafi verið tekið frekar en þeim tveimur fyrri. 

f öllu framangreindu leiði að ekkert samkomulag hafi stofnast á milli aðila á grundvelli þess tilboðs sem fyrir liggur, dags. 8. febrúar 2013, að fjárhæð 89.827.033 kr.

Stefndi tekur þó fram að stefndi hafi fallist á að greiða fyrir tiltekin viðbótarverk sem stefnandi hafi innt af hendi, en ágreiningur sé á milli aðila um þau verk sem stefnandi geri kröfu um í þessu máli. Stefndi hafni greiðsluskyldu umkrafinna reikninga að meginstefnu til á eftirfarandi grundvelli: (i) Stefndi hafi ekki óskað eftir framkvæmd tiltekinna verka, (ii) ýmis þau verk sem stefnandi geri kröfu um greiðslu fyrir séu innifalin í samningsverki aðila, (iii) ýmis verk hafi stefnandi hreinlega ekki framkvæmt og geti því ekki átt tilkall til greiðslu vegna þeirra, auk þess sem (iv) ágreiningur sé um fjárhæð vegna nokkurra verka.

Hvað varðar kröfu stefnanda vegna tæknirýmis á 3. hæð, að fjárhæð 4.196.400 kr., skv. reikningi útgefnum 1. desember 2013, segir stefndi að þar sem um alverk hafi verið að ræða skyldi verktaki hanna verkið þannig að hann gæti leyst þá verkþætti sem samið var um. Í verksamningi aðila hafi verið samið um að stefnandi skyldi reisa húsið með tæknikerfum, þ.e. lögnum, loftræsingu og rafkerfum. Stefnandi hafi hannað þessi kerfi og því borið að gera ráð fyrir rýmum fyrir kerfi þessi. Kostnaður vegna tæknirýma hafi því verið hluti af samningsverkinu en ekki auka- eða viðbótarverk sem stefnandi geti krafið stefnda um. Stefndi hafi a.m.k. aldrei óskað eftir að komið yrði fyrir tæknirýmum umfram það sem hafi verið gert ráð fyrir í samningi aðila.  

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda fyrir „sögun á hurðargati milli húsa jarðhæð, sögun á hurðargati frá stigahúsi inná 2. hæð og sögun á hurðargati frá stigahúsi inná  2. hæð (milliloft)“, að fjárhæð 1.305.000 kr., skv. reikningi 26. febrúar 2014. Í greinum 0.1.4 og 1.1 í útboðsgögnum og verklýsingu komi eftirfarandi fram: „Íþróttahúsið verður reist upp við núverandi mannvirki og er gert ráð fyrir því að húsin muni tengjast með tengigangi eins og sýnt er á tillöguteikningum sem eru hluti útboðsgagna. Verktaki skal hanna og reisa íþróttahús og tengigang með áþekkum hætti og sýnt er á teikningum.“ Þá segi: „Verktaki skal fullhanna íþróttahús sem kemur að núverandi íþróttamannvirkjum að Varmá í Mosfellsbæ. Fullnaðarhönnun felst í því að hanna húsið m.v. þá forskrift sem gefin er í útboðsgögnum þessum og tengja við núverandi hús.“ Það sé því ljóst að samningur aðila hafi gert ráð fyrir tengingu við stigahúsið milli fimleikahússins og eldri bygginga. Þessari tengingu sé ekki unnt að ná nema með því að gera op í stigahúsveggi og í veggi eldri byggingar. Fyrirliggjandi teikningar sem lágu fyrir útboðsferli hafi gert ráð fyrir þessum aðkomuleiðum. Ljóst sé því að umræddir verkliðir hafi verið innifaldir í samningi aðila.

Stefndi mótmælir einnig kröfu stefnanda vegna stækkunar á húsi úr 29x42 í 29,55x42,3, að fjárhæð 2.988.800 kr., sbr. reikninga 1. nóvember 2013 og 27. janúar 2014. Stefndi telur óljóst hvers vegna stefnandi geri kröfu um þennan lið. Stefndi hafi hvorki komið með kröfu né óskir um stækkun hússins og stefnandi aldrei gert viðvart um að stækkun hússins væri nauðsynleg vegna óska verkkaupa. Hafi stækkun þessi verið nauðsynleg vegna krafna í reglugerðum og kröfum opinberra yfirvalda hafi borið að taka tillit til þess í hönnun og beri stefnandi ábyrgð á henni. Kostnaður vegna þessa hafi því verið innifalinn í samningi aðila.

Hvað varðar kröfu stefnanda vegna jarðvinnu, þ.e. fyllingu í og að sökklum, að fjárhæð 4.127.500 kr., skv. reikningum útgefnum 1. október, 1. nóvember og 1. desember 2013 og 27. janúar 2014, bendir stefndi á að í grein 1.2.2 í verklýsingu, sem hafi verið hluti útboðsgagna, hafi verið fjallað um jarðvinnu og lóð. Þar komi fram að verktaki skyldi taka 1 metra af leirlagi undan húsinu þannig að verktaki fengi púðann afhentan 1 metra frá endanlegum gólfkóta í húsi og gryfjum. Skyldi hann miða sína hönnun við það. Ef hönnun verktaka fæli í sér breytingu á púðanum skyldi verktaki gera það á sinn kostnað. Jafnframt hafi eftirfarandi komið fram: „Innifalið í þessum lið er að fylla inní sökkla og að þeim, möl skal vera burðarþolin frostfrí fylling sem verkkaupi samþykktir. Verktaki skal fylla að húsi og grófjafna þannig að fylling sé c.a. 10 sm undir endanlegri jarðvegshæð.“ Ljóst sé af framangreindu að sú jarðvinna sem stefnandi geri kröfu um greiðslu á hafi verið innifalin í verksamningi aðila og því engin greiðsluskylda fyrir hendi. 

Um kröfu stefnanda um „fyllingu í lóð, böggli úr bolöldu“, 291.325 kr. skv. reikningi útgefnum 5. febrúar 2014, segir stefndi að skv. grein 1.2.2 í verklýsingu hafi verktaka borið að fylla inn í sökkla og að þeim. Þessi verkliður hafi því verið innifalinn í samningi aðila. 

Stefndi kveðst ekki átta sig á kröfulið stefnanda um hækkun á sökklum, að fjárhæð 2.456.377 kr., skv. reikningi útgefnum 5. febrúar 2014. Í öllu falli hafi stefndi ekki óskað eftir þessum verklið. Samkvæmt grein 1.2.2 í verklýsingu hafi verktaki átt að fylla 1 m af jarðvegi undir húsið. Hönnun þess hafi auk þess verið á ábyrgð stefnanda. Hann hefði því hæglega getað breytt hönnun svo að sökklar myndu lækka. Kostnaður vegna þessa hafi því verið innifalinn í samningi aðila.

Stefndi kveðst heldur ekki átta sig á verkliðnum „jarðvegspúði“, samtals 2.687.550 kr., skv. reikningi útgefnum 5. febrúar 2014. Samkvæmt grein 1.2.2 í verklýsingu hafi verktaki átt að fylla 1 m af jarðvegi undir húsið. Verk þetta hafi því verið innifalið í verksamningi aðila. Þá sé ósannað að stefnandi hafi lagt til efni umfram það sem var innifalið í samningi aðila. Stefndi hafi auk þess aldrei óskað eftir því að þessi verkliður yrði unninn. 

Um kröfu stefnanda fyrir vegg milli salar og millilofts, 1.595.000 kr., skv. reikningum útgefnum 27. janúar og 26. febrúar 2014, segir stefndi að umræddur veggur sé hluti af burðarvirki íþróttahússins og sé því innifalinn í samningi aðila, sbr. eigin byggingarlýsingu stefnanda og grein 1.2.3 í verklýsingu. Stefnandi hafi reist þennan vegg, með þeim hætti og í því formi sem hann gerði (T-einingu), án samráðs við stefnda og byggingarfulltrúa og í ósamræmi við hans eigin teikningar. Á því beri stefndi ekki ábyrgð og engin greiðsluskylda hafi því stofnast vegna þessa verkliðar.

Stefndi mótmælir einnig kröfu stefnanda fyrir vinnu við girðingu og verkstjórn, að fjárhæð 357.424 kr., sbr. reikning útgefinn 5. febrúar 2014. Samkvæmt samningi aðila hafi aðstöðusköpun og rekstur vinnusvæðis verið innifalin í verksamningi aðila, sbr. einkum ákvæði greinar 0.7 í útboðsskilmálum.

Krafa stefnanda að fjárhæð 4.349.265 kr. vegna reikningsvinnu fyrir menn og tæki, einkum við steypuvinnu við stigahús, skv. reikningi útgefnum 7. apríl 2014, sé vegna vinnu við tengingu á milli nýbyggingar og eldri bygginga, og því hluti af verksamningi aðila skv. áðurnefndum greinum 0.1.4 og 1.1.

            Stefndi mótmælir einnig kröfu stefnanda vegna byggingarstjórnar samningsverks, að fjárhæð 12.792.000 kr., sbr. reikning útgefinn 5. febrúar 2014. Um alverk hafi verið að ræða, en í slíku verki felist að sjálfsögðu byggingarstjórn. Verkliður þessi hafi því verið innifalinn í samningsverkinu. Þá sé sú fjárhæð sem krafist er allt of há og í engu samræmi við hlutverk byggingarstjóra. Þá hafi stefnandi ekki sinnt þeirri skyldu sem hvíli á byggingarstjóra þar sem hann hafi ekki mætt við úttektir (stöðuúttekt), skilað ýmist ekki eða seint uppdráttum og með því að framkvæma ekki verkið í samræmi við þá uppdrætti sem fyrir lágu og voru samþykktir af byggingaryfirvöldum.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda vegna „loftræstingar milligólf“ að fjárhæð 826.200 kr. skv. reikningi útgefnum 27. janúar 2014. Þessi verkliður hafi ekki verið framkvæmdur og því geti greiðsluskylda ekki verið fyrir hendi. Auk þess hefði umræddur verkliður verið innifalinn í samningi aðila samkvæmt eigin byggingarlýsingu stefnanda þar sem fram komi að lofthitakerfi/loftræsting séu hluti af verkinu.

Stefndi hafnar því greiðsluskyldu á samtals 37.972.841 kr. vegna framangreindra verkliða.

Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið stefnda, hvað varðar verkliðina hér að framan, þá byggir stefndi á því að hann hafi aldrei óskað eftir framkvæmd þessara verka enda liggi engin staðfest fyrirmæli fyrir frá honum um framkvæmd þeirra. Í öllu falli telur stefndi að endurgjald það sem stefnandi rukkar stefnda um sé langt umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist.

Stefndi fellst á að stefnandi hafi innt af hendi tvo verkliði til viðbótar við samningsverkið, en fellst þó ekki á þá fjárhæð sem stefnandi gerir kröfu um. Hér sé um að ræða eftirfarandi verkliði:

Í fyrsta lagi stækkun á millilofti. Stefnandi krefji stefnda um 3.389.400 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningi útgefnum 27. janúar 2014. Stefndi byggir á því að það endurgjald sem stefnandi rukki stefnda fyrir sé langt umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist. Stefndi telur að sanngjarnt og eðlilegt endurgjald nemi 2.579.000 kr. og að verð stefnanda sé því a.m.k. 31% umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt geti talist.

Í öðru lagi hækkun á stigahúsi. Stefnandi krefji stefnda um 1.350.000 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningum útgefnum 1. desember 2013 og 27. janúar 2014. Stefndi byggir á því að það endurgjald sem stefnandi rukki stefnda fyrir sé langt umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist. Stefndi telur að sanngjarnt og eðlilegt endurgjald nemi 820.000 kr. og að verð stefnanda séu því a.m.k. 64% umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist.

Stefndi telur þó að hafa beri í huga að þessir tveir verkliðir hafi þegar verið greiddir vegna gagnkrafna sem stefndi eigi á hendur stefnanda, en stefndi hafi áskilið sér rétt til að draga gagnkröfur sínar frá kröfum stefnanda um greiðslu reikninga með bréfi 10. janúar 2014. Því sé engin greiðsluskylda fyrir hendi vegna þessara verkliða og sýkna beri stefnda af kröfu um greiðslu þeirra. 

Stefndi hafnar því greiðslu reikninga vegna auka- eða viðbótarverka við samningsverkið samtals að fjárhæð 42.712.241 kr. (37.972.841 + 3.389.400 + 1.350.000), en telur að kröfur að fjárhæð 3.399.000 (2.579.000 + 820.000) séu réttmætar vegna tveggja verkliða sem hér að framan eru greindir, þó að ekki komi til greiðslu vegna þeirra vegna gagnkrafna stefnda.

Hvað varðar kröfur stefnanda vegna millibyggingar, sem stefnandi telji vera auka- eða viðbótarverk, sem reist var að hluta við hlið íþróttahússins, sé um að ræða eftirfarandi verkliði:

(i)                  Arkitektahönnun. Stefnandi krefji stefnda um samtals 450.000 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningum útgefnum 1. júlí og 1. ágúst 2013. Stefndi hafi áður innt af hendi greiðslu að fjárhæð 800.000 kr. vegna þessa verkliðar.

(ii)                Rif á þakkanti eldri íþróttasalar. Stefnandi krefji stefnda um 650.000 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningum útgefnum 1. október og 1. desember 2013.

(iii)              Rif á þaki stigahúss. Stefnandi krefji stefnda um samtals 650.000 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningi útgefnum 1. desember 2013.

(iv)              Millibygging fokheld. Stefnandi krefji stefnda um samtals 26.744.800 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningum útgefnum 1. júlí, 1. ágúst, 1. október og 1. nóvember 2013. Stefndi hafi áður innt af hendi greiðslu að fjárhæð 8.000.000 kr. vegna þessa verkliðar.

(v)                Lyftustokkur. Stefnandi krefji stefnda um samtals 2.016.000 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningum útgefnum 1. október og 1. nóvember 2013. Stefndi hafi áður innt af hendi greiðslu að fjárhæð 960.000 kr. vegna þessa verkliðar.

(vi)              Gólfhitakerfi millibyggingar (lagnir). Stefnandi krefji stefnda um samtals 1.732.500 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningum útgefnum 1. október og 1. nóvember 2013. 

(vii)            Byggingarstjórn vegna millibyggingar. Stefnandi krefji stefnda um samtals 7.186.152 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningi útgefnum 5. febrúar 2014.

(viii)          Rafkerfi millibyggingar. Stefnandi krefur stefnda um samtals 635.625 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningum útgefnum 1. desember 2013. 

(ix)              Pípulögn millibyggingar. Stefnandi krefji stefnda um samtals 889.800 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningi útgefnum 27. janúar 2014.

(x)                Loftræsing millibyggingar. Stefnandi krefji stefnda um samtals 1.080.450 kr. vegna þessa verkliðar skv. reikningi útgefnum 11. apríl 2014. 

Samtals nemi kröfur stefnanda samkvæmt framangreindu 42.035.327 kr., sem komi til viðbótar við þær 9.760.000 kr. sem stefndi hafi þegar innt af hendi vegna framangreindra verkliða.

Stefndi hafnar alfarið greiðslu verkliða (viii) Rafkerfi millibyggingar, (ix) Pípulögn millibyggingar og (x) Lofræsting millibyggingar, þar sem stefnandi hafi ekki framkvæmt þessa verkliði. Að öðru leyti hafi stefndi, umfram skyldu, fallist á að inna af hendi greiðslur fyrir framangreind verk. Stefndi telur hins vegar að þær fjárhæðir sem stefnandi krefst séu verulega umfram það sem sanngjarnt og eðlilegt getur talist og hafnar því að honum beri að inna af hendi greiðslur á umkröfðum fjárhæðum. Stefndi telur nær lagi að sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir framangreinda verkliði sé um 25.000.000 kr. Við mat á því hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt endurgjald hafi stefndi horft til byggingarlykils Hannarrs sem og reynslutalna úr nýlegum útboðum. Í greinargerð stefnda áskilur hann sér hins vegar rétt til að láta dómkveðja matsmann til að staðreyna kröfur sínar.

Stefndi telur því kröfur stefnanda að fjárhæð 13.300.000 kr. vegna samningsverksins, 3.399.000 kr. vegna viðbótarverka við samningsverkið, 25.000.000 milljónir króna vegna millibyggingar réttmætar, eða samtals kröfur að fjárhæð 41.699.000 kr. Hins vegar telur stefndi að engin greiðsluskylda sé fyrir hendi þar sem hann eigi gagnkröfur til skuldajafnaðar við framangreindar kröfur stefnanda.

Nánar tiltekið byggir stefndi á því að hann eigi gagnkröfur á stefnanda til skuldajafnaðar vegna þess að stefnandi hafi ekki lokið verki í samræmi við samning aðila og ýmsir gallar hafi verið á verkinu auk þess sem stefndi eigi rétt á tafabótum úr hendi stefnanda. 

Eftir að stefnandi hafi hætt vinnu við íþróttahúsið í byrjun maí 2014 hafi komið í ljós að stefnandi hafi ekki klárað ýmsa verkliði sem þó hafi verið hluti af samningi aðila auk þess sem ýmsir aðrir gallar hafi komið í ljós. Stefndi hafi einnig séð sig tilneyddan til þess að láta klára umrædda verkliði og í sumum tilfellum bæta úr öðrum göllum á eigin kostnað. Að öðrum kosti hefði ekki verið hægt að taka húsið í notkun á fyrirhuguðum tíma auk þess sem nauðsynlegt hafi verið að ráðast í tilteknar lagfæringar til að forðast frekara tjón. Þá eigi eftir að bæta úr og lagfæra nokkra galla. Stefndi gerir kröfu um að stefnandi endurgreiði og/eða greiði honum skaðabætur eða veiti afslátt vegna þess kostnaðar sem stefndi hafi þegar orðið fyrir og þess kostnaðar sem hann eigi fyrirsjáanlega eftir að verða fyrir vegna galla á verkinu. Um sé að ræða eftirfarandi liði:

            Gluggar og hurðir: Þegar stefndi tók við húsinu hafi engir gluggar eða hurðir verið í því. Í byggingarlýsingu stefnanda, sem hafi verið hluti af verksamningi aðila, hafi sagt m.a. eftirfarandi: „Gluggar og hurðir. Gluggar og hurðir verða af viðurkenndri gerð og er gert ráð fyrir koksgráum lit.“ Af greinum 1.2.1 og 1.2.6 verði einnig ráðið að gert hafi verið ráð fyrir að húsinu yrði skilað með hurðum og gluggum. Ljóst sé því að stefnandi hafi tekið að sér í verksamningi að skila húsinu með gluggum og hurðum. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Stefndi hafi því óskað eftir því að Idex ehf. útvegaði hurðir og glugga í húsið og síðan samið við Sakka Byggingarfélag um uppsetningu þeirra. Kostnaður stefnda vegna kaupa á hurðum og gluggum hafi numið 6.684.139 kr. og kostnaður vegna ísetningar numið 2.650.000 kr., en samtals nemi kostnaður vegna þessa 9.334.139 kr. 

            Brunaviðvörunarkerfi: Í byggingarlýsingu stefnanda og grein 1.2.6 í verklýsingu með útboðsgögnum komi fram að húsinu skyldi skilað með fullnægjandi brunavörnum. Á bls. 5 í verklýsingu komi fram m.a. eftirfarandi fram: „Öryggisbúnaður vegna brunavarna. Í byggingunni verður sjálfvirkt brunaviðvörunar­kerfi tengt vaktstöð [...] Tvö slöngukefli 30 m skv. ÍST EN671-1[3] skal staðsetja nálægt útgögnum úr íþróttasal þannig að þau nái til alls salarins.“ Stefnandi hafi hins vegar hvorki sett upp sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi tengt vaktstöð né tvö 30 m löng slöngukefli. Stefndi hafi þurft að standa straum af kostnaði við að bæta úr þessu, bæði vegna vinnu við uppsetningu og efniskaup. Kostnaður vegna þessa hafi numið samtals 4.241.546 kr. Það athugist að hluti þess kostnaðar sem hafi fallið til og stefndi greitt hafi verið vegna vinnu við að leggja stofnlögn í eldra húsi að hinu nýja. Sá hluti verksins eigi að vera á kostnað verkkaupa. Stefndi meti þennan kostnað á 1.500.000 kr. sem dragist frá heildarkostnaði. Samtals geri stefndi því kröfu um greiðslu á 2.741.546 kr. vegna þessa liðar. Hluti af brunaviðvörunarkerfi hússins sé reykloka sem staðsett sé í útvegg í sal. Stefnandi hafi komið reykloku þessari fyrir en ekki tengt hana við rafmagn. Stefndi hafi þurft að standa straum af kostnaði við að bæta úr þessu, samtals 515.897 kr.

Raflýsing/neyðarlýsing: Í byggingarlýsingu stefnanda komi eftirfarandi fram: „Almennt. Mannvirkinu verður skilað á byggingarstigi 4 skv. skilgreiningu byggingarreglugerðar að stofni til, auk lofupphitunarkerfis og lýsingar í sal.“ Þá segi í á bls. 6 í verklýsingu: „Öryggisbúnaður vegna brunavarna [...]. Neyðarlýsing verður samkvæmt ÍST EN 1838[5] og ÍST EN 50172[6]...“. Verksamningur aðila hafi því gert ráð fyrir að stefnandi skilaði íþróttahúsinu með lýsingu og neyðarlýsingu. Stefnandi hafi hins vegar ekki skilað af sér lýsingu á millilofti í sal og heldur ekki neyðarlýsingu á millilofti og undir millilofti í sal. Stefndi hafi þurft að standa straum af kostnaði við að bæta úr þessu, samtals 3.305.311 kr.

Ýmsar breytingar á teikningum: Stefnandi hafi byggt íþróttahúsið með öðrum hætti en gildandi aðaluppdrættir gerðu ráð fyrir, t.d. hafi hann fært til tæknirými, brunalúgur í þaki og fleira. Þetta hafi orðið til þess að nauðsynlegt hafi verið að fá arkitekt til að gera breytingar á teikningum til að mögulegt væri að fá lokaúttekt á húsinu. Stefndi hafi fengið arkitekt til að vinna þessa vinnu og hafi kostnaður vegna þess numið 412.482 kr. sem stefndi krefji stefnanda um.

Málun gólfs í fimleikasal: Stefnandi hafi gert stefnda tilboð í málningu á sal, gryfjum, gólfi og veggjum og gólfi millilofts í íþróttahúsinu og fleiri verkliði. Stefndi hafi tekið tilboði í málningu upp á 9.334.000 kr. Síðar hafi komið í ljós að óþarfi væri að fullmála gryfjur, en annað skyldi fullmála, sbr. tölvupóstsamskipti 4. og 5. maí 2014. Stefnandi hafi einungis málað eina umferð á gólf, en fengið greitt fyrir verkið að fullu. Stefndi hafi því fengið annan aðila til að fullmála gólf. Kostnaður vegna þess hafi numið 458.113 kr., sem stefndi krefji stefnanda um.

Leki í gegnum útvegg á 2. hæð stighúss: Stefnandi hafi steypt ofan á eldri útveggi í stigahúsi til að hækka upp stigahúsið. Í steypuskilum hafi lekið inn í húsið verulega á a.m.k. þremur stöðum. Stefndi meti kostnað við viðgerðir 500.000 kr.

Leki í þakgluggum/brunalúgum: Upp hafi komið leki í þakgluggum/bruna­lúgum. Ljóst sé að leki þessi sé tilkominn vegna þess að frágangi við þakglugga sé verulega ábótavant, en m.a. sé ekki kíttað polycarbonate-plasti, ekki notaðar ryðfríar skrúfur, krossviður óvarinn og fl. Telur stefndi að kostnaður við úrbætur á þessu nemi að lágmarki 600.000 kr.

Reyklúga í stigahúsi: Aðaluppdrættir geri ráð fyrir því að reyklúga í stigahúsi skuli vera rafdrifin en stefnandi hafi komið fyrir gegnumbrennanlegri polycarbonate-lúgu sem sé óopnanleg. Þarna þurfi að skipta út glugganum fyrir opnanlega lúgu tengda brunaviðvörunarkerfi og telur stefndi að kostnaður við úrbætur nemi að lágmarki 1.500.000 kr.

Leki við lágbyggingu á vesturgafli: Leki hafi komið upp við lágbyggingu á vesturgafli íþróttahússins. Við byggingu hússins hafi þakkantur lágbyggingar verið rofinn til að koma fyrir steyptum einingum. Ekki hafi verið gengið frá þaki við lágbyggingu og hafi borið á miklum leka inn í lágbyggingu með tilheyrandi tjóni. Stefndi hafi ráðist í lágmarkslagfæringar til þess að koma í veg fyrir tjón á húsinu og hafi kostnaður vegna þeirra numið 298.906 kr. Telur stefndi að kostnaður við fullar úrbætur nemi að lágmarki 2.000.000 kr., en heildarkostnaður sem þannig sé gerð krafa um nemi 2.298.906 kr.

Sprunga í útvegg við hurð á norðvesturhorni: Komið hafi í ljós sprunga í útvegg við hurð H1, NV-horni byggingar. Vatn komist í einangrun og borið hafi á leka inn í hús. Telur stefnandi að kostnaður við úrbætur nemi að lágmarki 100.000 kr.

Þakkantur og klæðning veggja: Verktaki hafi ekki lokið við að klæða þakkanta og veggi með litaðri klæðningu í samræmi við fyrirliggjandi aðaluppdrætti, sjá grein 1.2.1 þar sem segi að verktaki komi með sína útfærslu á ytra byrði húss og skilalýsingu verktaka. Telur stefndi að kostnaður við úrbætur nemi að lágmarki 9.930.000 kr.

Samanteknar kröfur stefnda vegna framangreinds séu því eftirfarandi:

 

Liður

Fjárhæð kr.

Gluggar og hurðir

9.334.139

Brunaviðvörunarkerfi

2.741.546

Reykloka í brunaviðvörunarkerfi

515.897

Raflýsing/neyðarlýsing

3.305.311

Ýmsar breytingar á teikningum

412.482

Málun gólfs

458.113

Leki í gegnum útvegg á 2. hæð stighúss

500.000

Leki í þakgluggum/brunalúgum

600.000

Reyklúga í stigahúsi

1.500.000

Leki við lágbyggingu á vesturgafli

2.298.906

Sprunga í útvegg við hurð á norðvesturhorni

100.000

Þakkantur og klæðning veggja

9.930.000

Samtals:

31.696.394

 

Í greinargerð stefnda áskilur hann sér rétt til að láta dómkveðja matsmann til að staðreyna kröfur sínar samkvæmt framangreindu. 

Til viðbótar við framangreint telur stefndi að hann eigi rétt á tafabótum úr hendi stefnanda vegna þeirra tafa sem urðu á verkskilum.

Í 4. gr. verksamnings aðila komi fram að verkinu skyldi vera að fullu lokið eigi síðar en 6. nóvember 2013 í samræmi við verkáætlun stefnanda frá 3. janúar 2013, sem hafi verið fylgiskjal D með samningi aðila. Í útboðsgögnum hafi síðan verið samið um tafabætur kæmi til þess að verkinu yrði ekki skilað á réttum tíma. Þannig segi í grein 0.5.4: „Verktaki skal ljúka öllu verki sínu á tilskildum tíma samkvæmt grein „0.1.7 Framkvæmdatími“. Dragist verklok fram yfir umsaminn skiladag skal verktaki greiða verkkaupa ákveðna fjárhæð í tafabætur fyrir hvern almanaksdag sem það dregst að verkinu sé að fullu lokið og lokaúttekt geti farið fram. Fjárhæð tafabóta kemur fram í kafla „0.1.2 Útboðsform – Útboðsyfirlit“. Telji verktaki sig eiga rétt á framlengingu skilafrests þá skal hann strax skýra frá því og um leið leggja fram nauðsynleg gögn er sanni réttmæti framlengingarinnar, sbr. grein 5.2 í ÍST 30.“ Í grein 0.1.7 segi síðan að verkinu teldist ekki lokið af hálfu verktaka „fyrr en hann hefði staðið að fullu við skuldbindingar sínar samkvæmt útboðsgögnum.“ Í grein 0.1.2 komi fram að tafabætur skyldu nema 0,2% af samningsfjárhæð, sem hafi verið 159.900.000 kr. Umsamdar tafabætur hafi því numið 319.800 kr. fyrir hvern almanaksdag sem það hafi dregist að ljúka verkinu.

Í grein 0.1.6 í útboðsgögnum hafi einnig sagt: „Verktaki skal jafnan gera sitt ýtrasta til þess að fylgja verkáætluninni og tilkynna jafnóðum ef út af bregður og af hvaða orsökum. Gangi verkið ekki nógu vel fram, miðað við samþykkta verkáætlun, er verktaka skylt að fjölga starfsmönnum og tækjum eða grípa til annarra nauðsynlegra ráðstafana, svo að áfangar verði tilbúnir á fyrirfram ákveðnum tíma.“ Einnig segi: „Seinkun á framkvæmd einstakra verkþátta vegna aukaverka, viðbótarverka, mangaukninga eða afhendingar verkkaupa á efni eða þjónustu getur því aðeins leitt til framlengingar á skilatíma verks samkvæmt verkáætlun að viðkomandi verkþáttur sé á bundinni leið (Critical Path) verksins.“

Snemma í verkinu hafi orðið ljóst að stefnandi myndi ekki standa við umsaminn afhendingardag, þrátt fyrir eftirrekstur stefnda. Í fundargerð 6. verkfundar 10. júní 2013 hafi verið bókað að verklok væru áætluð 1. nóvember 2013, en ljóst væri að verktaki yrði að halda sér að verki til þess að það tækist. Þá hafi aðilar átt fund hinn 15. ágúst 2013 þar sem stefndi hafi komið að athugasemdum vegna seinagangs við framkvæmdir. Þá hafi stefndi gert athugasemdir með tölvupósti 28. nóvember 2013, og aftur með bréfi 2. desember 2013. Í því bréfi hafi verið upplýst að stefndi myndi taka tillit til þess að tveggja mánaða töf hefði orðið á samþykkt byggingarnefndarteikninga við kröfum um skil og því hafi verið gert ráð fyrir verklokum 6. janúar 2014. Þrátt fyrir þetta hafi framkvæmdir stefnanda við húsið að mestu leyti legið niðri frá júní til ágúst og síðan aftur frá október og fram yfir áramót 2013/2014.

Þrátt fyrir tafir á verkinu hafi stefnandi ekki brugðist við með því að gera sitt ýtrasta til þess að fylgja samþykktri verkáætlun, t.d. með því að fjölga starfsmönnum og tækjum á verkstað nægjanlega til að halda verkáætlun eða grípa til annarra nauðsynlegra ráðstafana eins og kveðið hafi verið á um í grein 0.1.6 í útboðsskilmálum. Þá hafi stefndi aldrei móttekið rökstudda tilkynningu eða gögn frá stefnanda þess efnis að sá síðarnefndi hefði orðið fyrir töfum sem réttlætt gætu tafir á verkinu og framlengingu á verkinu, sbr. grein 0.5.4 í útboðsgögnum og 5.2.3 í ÍST 30. Stefnandi hafi einungis einu sinni bókað í verkfundargerð að hann áskildi sér rétt til aukins verktíma, annars vegar vegna „aukins byggingarmagns“ og hins vegar vegna „vinnu aðalhönnuðar í þarfagreiningu hússins“, sbr. verkfundargerð 7. janúar 2014. Ekki hafi komið fram frekari rök fyrir þessum beiðnum eða upplýsingar um hversu langan tíma stefnandi teldi sig eiga rétt á framlengingu. Þrátt fyrir það hafi stefndi tekið tillit til seinkunar sem hlaust af vinnu aðalhönnuðar í þarfagreiningu hússins, sem hafi haft í för með sér seinkun á samþykki byggingarnefndarteikninga. Hins vegar telur stefndi ekki að stefnandi eigi rétt á framlengingu verktíma vegna aukins byggingarmagns, enda hafi ekkert af þeim viðbótarverkliðum sem stefnandi tók að sér verið á bundinni leið verksins (critical path), eins og skilyrði sé samkvæmt grein 0.1.6 í útboðsgögnum. 

Þetta aðgerðarleysi af hálfu stefnanda hafi orðið til þess að stefndi hafi áskilið sér rétt til tafabóta úr hendi stefnanda frá og með 7. janúar 2014, sbr. bréf stefnda 30. desember 2013. Kröfur stefnda um tafabætur hafi verið ítrekaðar með bréfi 10. janúar 2014. Þar komi fram að tafabætur yrðu ekki reiknaðar fyrr en frá 28. janúar 2014, en þá hefði verið tekið tillit til tveggja vikna tafa sem urðu á að tengja rafmagnskapal inn á verkstað í desember 2013 auk fjögurra daga tafa vegna veðurs, til viðbótar þeim tveimur mánuðum sem áður hafi verið tekið tillit til vegna tafa á samþykkt byggingarnefndarteikninga. Stefndi hafi einnig ítrekað gert athugasemdir við gang mála í verkfundargerðum og áskilið sér rétt til tafabóta í samræmi við samning aðila, sbr. verkfundargerð 7. janúar 2014, og allar verkfundargerðir sem síðan hafi verið gerðar.

Ljóst sé af framangreindu að stefnanda hafi borið að ljúka verkinu í samræmi við verksamning aðila ekki síðar en 27. janúar 2014. Þá hafi stefndi, umfram skyldu og án kröfu stefnanda, í því skyni að gæta fyllstu sanngirni, tekið tillit til þeirra tafa sem hann telur að stefnandi hefði getað borið fyrir sig. Eins og áður segir sé hér um að ræða tveggja mánaða töf sem hafi orðið á því að byggingarnefndarteikningar hlutu samþykki, tveggja vikna töf vegna þess að það hafi dregist að tengja rafmagnskapal inn á verkstað í desember 2013 og fjögurra daga töf vegna óhagstæðs veðurfars. Þó að stefnandi hafi raunar ekki skilað húsinu í umsömdu ástandi hafi stefndi getað tekið húsið í takmarkaða notkun um mánaðamótin apríl/maí 2014. Hafi stefndi miðað við að hann eigi rétt á tafabótum til 26. apríl 2014, eða í 89 daga frá samþykktum verkskilum 28. janúar 2014. Stefnanda beri því að greiða tafabætur, 319.380 kr. á dag, í þá 89 almanaksdaga sem það hafi dregist að ljúka verkinu. Stefndi geri því kröfu um tafabætur að fjárhæð 28.462.200 kr. úr hendi stefnanda.

Samtals nemi gagnkröfur stefnda því 60.158.594 kr. (31.696.394 + 28.462.200).

Að öllu framangreindu leiði að kröfur stefnanda, sem stefndi telur í greinargerð sinni að kunni að vera réttmætar, séu eftirfarandi:


 

Liður:

Fjárhæð:

Framvinda samningsverks:

13.300.000

Viðbótarkröfur vegna samningsverks

3.399.000

Viðbótarverk vegna millibyggingar

25.000.000

Samtals:

41.699.000

 

Gagnkröfur stefnda, sem þegar hafi komið til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda, séu hins vegar eftirfarandi:

 

Liður

Fjárhæð

Ófullgert verk – gallar

31.696.394

Tafabætur

28.462.200

Samtals:

60.158.594

 

Mismunur stefnda í hag nemi 18.459.594 kr., með virðisaukaskatti. Það beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, eða í öllu falli lækka kröfur stefnanda verulega.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt, einkum af þeim reikningum sem ágreiningur sé um. Stefndi telur að stefnanda sé ekki stætt á því að reikna dráttarvexti frá gjalddaga reikninga sem ekki séu með samþykktum og réttum fjárhæðum.

IV.

            Eins og rakið hefur verið stóð stefndi fyrir alútboði vegna byggingar íþróttahúss að Varmá, sal 4, í Mosfellsbæ, þar sem verktaki átti að leggja til hönnun verks sem og framkvæmd. Tilboð bárust frá átta aðilum og var stefnandi einn af þeim en öllum tilboðum var hafnað. Í kjölfarið fóru fram samningskaup þar sem verksamningur var gerður við stefnanda, dags. 20. febrúar 2013. Ágreiningur er um það í hvaða ástandi stefnandi átti að skila íþróttahúsinu og kröfu hans um ýmis auka- eða viðbótarverk við samningsverkið. Einnig er ágreiningur um kröfu stefnanda vegna millibyggingar, sem upphaflega var ekki gert ráð fyrir. Þá er deilt um það hvort stefndi eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar þar sem verkið hafi verið ófullgert og haldið göllum og stefndi eigi kröfu um tafabætur.

            Samkvæmt 2. gr. verksamnings aðila átti að vinna verkið í samræmi við verksamninginn, fylgiskjöl með honum og útboðsgögnin með alútboðinu. Með byggingarlýsingu stefnanda sjálfs á fylgiskjali E, sem var hluti samningsins, skuldbatt stefnandi sig til að skila íþróttahúsinu á byggingarstigi 4 „að stofni til“ auk loftupphitunarkerfis og lýsingar í sal. Þá kom fram í byggingarlýsingu stefnanda að húsinu yrði skilað með gluggum og hurðum og var nánar lýst milligólfi, þakvirki, lofthitakerfi/loftræstingu, lögnum, hljóðvist og brunavörnum. Þeirri málsástæðu stefnanda er því hafnað að hann hafi aðeins átt að skila verkinu fokheldu, heldur bar honum að skila verkinu umfram fokheldi, í samræmi við byggingarlýsingu hans sjálfs og útboðsgögnin, eins og rakið verður hér á eftir varðandi einstaka kröfuliði aðila.  

            Við upphaf aðalmeðferðar málsins lögðu aðilar fram sameiginlega heildaryfirlit krafna þar sem endanlegar kröfur þeirra í málinu eru sundurliðaðar.

Stefnandi krefst greiðslu á „framvindureikningi“ að fjárhæð 13.300.000 kr. og er hann óumdeildur. Er því fallist á þennan kröfulið stefnanda.

Þá gerir stefnandi eftirfarandi kröfur vegna auka- og viðbótarverka við samningsverkið. 

Stefnandi gerir kröfu um 4.196.400 kr. fyrir tæknirými á 3. hæð. Tæknirýmið er hluti af loftræsikerfi sem átti að afhendast fullbúið. Stefnandi sá um hönnun og valdi að setja tæknirýmið inn í millibygginguna, sem fallist er á hér á eftir að stefnda beri að greiða stefnanda fyrir. Er þessum kröfulið því hér hafnað. 

Stefnandi krefst 1.305.000 kr. fyrir sögun á hurðargötum milli húsa á jarðhæð, frá stigahúsi upp á 2. hæð og frá stigahúsi inn á 2. hæð (milliloft). Samkvæmt útboðsgögnum og teikningum sem lágu fyrir við útboðið var gert ráð fyrir tengigangi á milli íþróttahússins og eldri mannvirkja. Ekki er unnt að tengja byggingarnar nema gera ráð fyrir þessari opnun. Stefnandi getur því ekki gert sérstaklega kröfu um kostnað við sögun á hurðargötum. Þessum kröfulið stefnanda er því hafnað.

            Þá krefst stefnandi kostnaðar við stækkun á íþróttahúsinu, úr 29x42 í 29,55x42,3, að fjárhæð 2.988.800 kr. Stefndi kveðst ekki hafa óskað eftir stækkun hússins. Stækkun þessi á húsinu varð til við vinnu Kristjáns Ásgeirssonar arkitekts sem stefndi hafði óskað eftir vegna tiltekinna breytinga sem stefndi vildi gera, eftir að verkframkvæmdir hófust. Stefnda ber því að greiða þennan kostnaðarlið.

            Stefnandi gerir kröfu um kostnað vegna jarðvinnu (fyllingu í og að sökklum), 4.127.500 kr. Einnig krefst hann 291.325 kr. vegna fyllingar í lóð, 2.456.377 kr. vegna hækkunar á sökklum, og 2.687.550 kr. vegna jarðvegspúða. Við aðalmeðferð málsins kom fram að stefnandi telur að stefndi hafi ekki afhent púðann undir húsið eins og hann hafi átt að gera samkvæmt verklýsingu sem fylgdi útboðsgögnum alútboðsins og því hafi verið um að ræða aukaverk við jarðvinnu og fyllingu að sökklum. Í téðri verklýsingu kemur fram að verktaki fengi púðann afhentan 1 metra frá endanlegum gólfkóta í húsi og gryfjum. Einnig kemur þar fram að verktaka bar að fylla inn í sökkla og að þeim og fylla að húsi og grófjafna þannig að fylling væri ca 10 cm undir endanlegri jarðvegshæð. Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að púðinn hafi ekki verið afhentur í réttu ástandi og að fylla hafi þurft meira að sökklum og húsinu en stefnandi mátti gera ráð fyrir. Ekkert í gögnum málsins styður fullyrðingar stefnanda um þetta og virðist hann ekki hafa gert athugasemdir við stefnda. Með vísan til alls framangreinds er þessum kröfuliðum stefnanda hafnað.

            Þá gerir stefnandi kröfu um kostnað við vegg milli salar og millilofts, 1.595.000 kr. Í fundargerð verkfundar 10. október 2013 kemur fram að Kristján Ásgeirsson arkitekt hafi klárað byggingarnefndarteikningar og hönnun á húsinu í heild fyrir stefnda og stefnandi hafi gefið upp verð fyrir þá liði sem upp á vantaði til að fullgera verkið að beiðni stefnda. Við þetta hafi bæst liðir eins og millibygging, stærri samstæða til að fullnægja öllu húsinu og „brunaveggur milli salar og millilofts“. Þá segir í fundargerðinni að VSÓ hafi átt að gera greiningu á því hvað hafi verið innifalið í upphaflegu tilboði stefnanda og hvað væri utan samnings. Ekki verður séð af gögnum málsins að það hafi verið gert og þegar vitnið Ólafur V. Maack var innt eftir því fyrir dómi hvort þetta hefði verið gert kannaðist vitnið ekki við það. Stefnda ber því að greiða fyrir vegginn milli salar og millilofts, þ.e. umræddan brunavegg.  

            Stefnandi krefst 357.424 kr. fyrir vinnu við girðingu og verkstjórn. Í fundargerð verkfundar 16. maí 2013 og aftur 3. júní 2013 kemur fram að stefndi bað stefnanda að girða svæðið sérstaklega af og að stefnandi taldi það vera viðbótarverk. Þetta sætti ekki athugasemdum af hálfu stefnda og ber stefnda því að greiða stefnanda þennan kröfulið.

            Stefnandi gerir kröfu um kostnað vegna reikningsvinnu, menn og tæki, að fjárhæð 4.349.265 kr., vegna vinnu við tengingu á milli nýbyggingar og eldri bygginga. Þessi verkþáttur er hluti af alverkinu og millibyggingunni og er honum því hér hafnað.

            Stefnandi gerir kröfu um kostnað fyrir byggingarstjórn samningsverksins, 12.792.000 kr. Í útboðslýsingu stefnda kemur fram að Framkvæmdasýsla ríkisins fari með hlutverk byggingarstjóra, eins og því sé lýst í byggingarreglugerð. Óumdeilt er að þetta er villa í útboðslýsingu og verður stefndi, sem sá um útboðsgögnin og skjalagerð í málinu, að bera hallann af því. Er því fallist á að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda vegna byggingarstjórnar og verður í því sambandi lögð til grundvallar niðurstaða yfirmatsmanna, um að eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir byggingarstjórn stefnanda vegna samningsverksins nemi 6.528.000 kr. Stefnandi á því kröfu á hendur stefnda að þeirri fjárhæð.   

            Stefnandi krefst 826.200 kr. vegna loftræsingar á milligólfi. Í byggingarlýsingu stefnanda á fylgiskjali E með verksamningnum segir að húsinu verði skilað með loftupphitunarkerfi og lýsingu í sal. Loftræsing á milligólfi var því ekki innifalin í samningi aðila. Stefnda ber því að greiða þennan kröfulið. 

            Stefnandi krefst einnig kostnaðar vegna stækkunar á milligólfi, 3.389.400 kr. og 1.350.000 kr. vegna hækkunar á stigahúsi. Stefndi fellst á þessa kröfuliði en mótmælir framangreindum fjárhæðum. Verður hér lagt til grundvallar mat dómkvadds matsmanns, Björns Gústafssonar, um að eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir stækkun millilofts nemi 2.798.000 kr. og vegna hækkunar á stigahúsi 977.000 kr. Samkvæmt þessu á stefnandi samtals kröfu á hendur stefnda að fjárhæð 3.775.000 kr.

            Fyrir liggur að eftir að verkframkvæmdir hófust óskaði stefndi eftir tilteknum breytingum á verkinu og er óumdeilt að stefndi fékk Kristján Ásgeirsson, arkitekt íþróttahússins, til að vinna að þeim breytingum og greiddi honum beint fyrir þá vinnu. Um er að ræða breytingu á tengibyggingu í svokallaða millibyggingu. Stefnda ber því að greiða fyrir þær breytingar en ágreiningur er um hvaða fjárhæð stefnda beri að borga. Stefnandi setti fram tilboð vegna millibyggingarinnar en samningar tókust ekki um þau verð sem þar komu fram. Í yfirlitinu yfir kröfur aðila sem lagt var fram við aðalmeðferð málsins kemur fram að upphaflega var krafa stefnanda vegna millibyggingarinnar samkvæmt stefnu málsins að fjárhæð 42.035.327 krónur, þ. á m. var krafa um byggingarstjórn vegna millibyggingar að fjárhæð 7.186.152 kr. Samkvæmt greinargerð stefnda var hæfilegur kostnaður hins vegar talinn vera 25.000.000 kr. Dómkvaddur matsmaður, Björn Gústafsson, telur hæfilegt endurgjald fyrir millibygginguna vera samtals 29.207.000 kr. Þar af eru 511.000 kr. vegna byggingarstjórnar. Yfirmatsmenn komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að hæfilegt endurgjald fyrir byggingarstjórn væri 3.672.000 kr. Samkvæmt framansögðu er sanngjarnt endurgjald fyrir millibygginguna 32.368.000 kr. Þá kemur fram á yfirlitinu að stefnandi hafði áður greitt samtals 9.760.000 kr. vegna millibyggingarinnar og því ber stefnda að greiða stefnanda vegna millibyggingarinnar 22.608.000 kr. 

            Stefndi hefur uppi gagnkröfu á hendur stefnanda fyrir glugga og hurðir, að fjárhæð 9.334.139 kr., þar sem stefnandi hafi ekki skilað húsinu með gluggum og hurðum. Samkvæmt byggingarlýsingu stefnanda bar honum að skila húsinu með hurðum og gluggum en það gerði hann ekki. Verður því fallist á þennan kröfulið stefnanda. 

            Fallist er á gagnkröfu stefnda vegna kostnaðar við reykloku sem stefnandi átti að útvega og koma fyrir en tengdi ekki við rafmagn, 515.897 kr., en hún er hluti af brunavörnun hússins, sbr. brunahönnun í byggingarlýsingu á aðaluppdrætti. 

Stefndi krefst 3.305.311 kr. vegna raflýsingar/neyðarlýsingar á millilofti. Eins og áður segir átti samkvæmt byggingarlýsingu stefnanda á fylgiskjali E með verksamningnum að skila húsinu með lýsingu í salnum. Lýsing á milligólfi var því ekki innifalin í samningi aðila. Þessum kröfulið er því hafnað.  

Stefndi gerir einnig kröfu um kostnað vegna ýmissa teikninga, 412.482 kr. Hér er um að ræða kostnað við reyndarteikningar sem voru á ábyrgð stefnanda. Er því fallist á þessa kröfu stefnda.

Þá gerir stefndi kröfu að fjárhæð 458.113 kr. vegna málunar gólfs í fimleikasal þar sem stefnandi hafi aðeins málað eina umferð á gólf og stefndi hafi því fengið annan aðila til að fullmála það. Ekki verður séð að stefnanda hafi verið gefinn kostur á úrbótum og greiddi stefndi stefnanda fyrir málun án þess að gera athugasemdir við að verkinu væri ekki lokið. Þessum kröfulið stefnda er því hafnað.  

 Stefnanda ber að greiða kröfu stefnda vegna þakkants og klæðningar veggja, sem hefur verið lækkuð úr 9.930.000 kr. í  8.505.000 kr., í samræmi við niðurstöðu dómkvadds matsmanns, Björns Gústafssonar, enda átti stefnandi samkvæmt aðaluppdrætti og byggingarlýsingu hans sjálfs að skila húsinu með þakkanti og klæðningu.

            Stefnandi hefur með breyttri kröfugerð, sem lögð var fram við upphaf aðalmeðferðar, fallist á eftirfarandi gagnkröfur stefnda, miðað við þær fjárhæðir sem koma fram í matsgerð Björns Gústafssonar: 722.000 kr. vegna brunaviðvörunarkerfis, 280.000 kr. vegna leka í gegnum útvegg á 2. hæð stigahúss, 437.000 kr. vegna leka í þakgluggum/brunalúgum, 1.032.000 kr. vegna reyklúgu í stigahúsi, 895.000 kr. vegna  leka við lágbyggingu á vesturgafli, og 86.000 kr. vegna sprungu í útvegg við hurð á norðvesturhorni, samtals 3.452.000 kr.  

            Þá gerir stefndi kröfu um tafabætur að fjárhæð 28.462.200 kr. Samkvæmt 4. gr. verksamnings aðila átti verkinu að vera að fullu lokið eigi síðar en 6. nóvember 2013, í samræmi við verkáætlun stefnanda frá 3. janúar 2013, sbr. fylgiskjal D með verksamningnum. Þá sagði í grein 0.5.4 í útboðsgögnum, um fresti – tafabætur: „Dragist verklok fram yfir umsaminn skiladag skal verktaki greiða verkkaupa ákveðna fjárhæð í tafabætur fyrir hvern almanaksdag sem það dregst að verkinu sé að fullu lokið og lokaúttekt geti farið fram. Fjárhæð tafabóta kemur fram í kafla „0.1.2. Útboðsform – Útboðsyfirlit“. Telji verktaki sig eiga rétt á framlengingu skilafrests þá skal hann strax skýra frá því og um leið leggja fram nauðsynleg gögn er sanni réttmæti framlengingarinnar, sbr. grein 5.2. í ÍST 30.“ Tafabætur námu nánar tiltekið 0,2% af samningsfjárhæð, eða 319.800 kr. fyrir hvern almanaksdag sem dróst að ljúka verkinu. Í grein 0.1.6 í útboðsgögnum var jafnframt kveðið á um að verktaki ætti jafnan að gera sitt ýtrasta til að fylgja verkáætluninni og tilkynna jafnóðum ef út af brygði og af hvaða orsökum. Gengi verkið ekki nógu vel fram miðað við verkáætlun væri verktaka skylt að fjölga starfsmönnum og tækjum eða grípa til annarra nauðsynlegra ráðstafana, svo að áfangar yrðu tilbúnir á fyrirfram ákveðnum tíma. Seinkun á framkvæmd einstakra verkþátta vegna aukaverka, viðbótarverka, magnaukninga eða afhendingar verkkaupa á efni eða þjónustu gæti því aðeins leitt til framlengingar á skilatíma verks samkvæmt verkáætlun að viðkomandi verkþáttur væri á bundinni leið (critical path) verksins.

            Fyrir liggur í verkfundargerðum að verkinu miðaði hægt hjá stefnanda og að stefndi gerði ítrekað athugasemdir við það, bæði á verkfundum og með tölvuskeyti 28. nóvember 2013 og bréfi 2. desember 2013. Í téðu bréfi var stefnanda veittur frekari frestur til að skila verkinu til 7. janúar 2014 þar sem tveggja mánaða töf varð á samþykkt byggingarnefndar á teikningum. Fresturinn var síðar með bréfi stefnda 10. janúar 2017 framlengdur til og með 27. janúar 2014, vegna tafa á því að tengja rafmangskapal inn á verkstað í desember 2013. Jafnframt var tekið tillit til þess að fjóra daga var óvinnufært á verkstað vegna veðurs. Í bréfi stefnda var sérstaklega tekið fram að kröfu stefnanda um framlengingu verktíma vegna viðbótarverka væri hafnað. Að mati dómsins verður að taka tillit til aukins umfangs verksins vegna þeirra viðbótarverka sem stefndi óskaði eftir vegna millibyggingar. Ætla má að verkið hafi tafist í um sex vikur vegna þess. Einnig þarf að horfa til þess að stefnandi lauk ekki umsömdu verki. Að öllu þessu gættu ber stefnanda að greiða tafabætur frá 15. mars 2014 og þar til 26. apríl 2014, eða í 41 dag, samtals 13.111.800 kr.

            Samkvæmt öllu framansögðu á stefnandi samtals kröfur á hendur stefnda að fjárhæð   51.978.424 kr. Stefndi á hins vegar gagnkröfur til skuldajafnaðar á hendur stefnda að fjárhæð   31.879.318 kr. Stefnda ber því að greiða stefnanda 20.099.106 kr., en rétt er að miða dráttarvexti við dómsuppsögu.   

Stefnandi gerir kröfu um málskostnað og liggur fyrir vinnuskýrsla lögmanns um tæplega 184 vinnustundir við dómsmál þetta, samtals 5.247.680 kr. Stefnandi hefur unnið málið að nokkru og tapað því að nokkru. Þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 2.500.000 kr.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum             Ásmundi Ingvarssyni byggingarverkfræðingi og Jóni Ágústi Péturssyni, byggingartæknifræðingi og húsasmíðameistara.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Mosfellsbær, greiði stefnanda, Spennt ehf., 20.099.106 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 2.500.000 krónur í málskostnað.

 

Sandra Baldvinsdóttir

Ásmundur Ingvarsson

Jón Ágúst Pétursson