• Lykilorð:
  • Ákæra
  • Líkamsárás
  • Sönnunarbyrði

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 9. maí 2019 í máli nr. S-8/2019:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

Mál þetta, sem dómtekið var 15. apríl 2019, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 7. janúar 2018 á hendur ákærða, X, kt. 000000-0000, [...], „fyrir eftirgreind hegningarlagabrot gagnvart sambýliskonu sinni, A, kt. 000000-0000, framin á árinu 2018, sem hér greinir:

1.      Fyrir líkamsárás, gagnvart A með því að hafa, þann 7. mars 2018, á þáverandi heimili þeirra [...], tekið í hægri hendi hennar og snúið uppá hana með þeim afleiðingum að A hlaut mörg sár á hægri framhandlegg.

Telst þetta varða við 217. gr.almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2.      Fyrir líkamsárás gagnvart A með því að hafa, í byrjun júní 2018 á þáverandi heimili þeirra að [...], tekið í vinstri hendi hana (sic) harkalega og hrint henni harkalega í gólfið aleiðingarnar (sic) urðu þær að A hlaut brot á vinstri olboga (sic).

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b.almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3.      Fyrir líkamsárás gagnvart A með því að hafa, 27. júní  2018 á þáverandi heimili þeirra að [...], tekið í hendi hennar og tuskað hana til, afleiðingarnar urðu þær að A hlaut  bólgur á augnbrúnir (sic) og mar í andlit.

Telst þetta varða við 217. gr.almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

4.      Fyrir stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1-3, ítrekað móðgað og smánað A.

Telst þetta varða við 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr 19/1940.

                                                                       

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu A, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 1.000.000 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júni 2018 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður gerir hann auk þess kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar brotaþola að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitar sök og krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Málsatvik

Helstu atvik eru þau að 7. mars 2018 óskaði A, brotaþoli í máli þessu, aðstoðar lögreglu við að koma óboðnum gesti af heimili hennar að [...]. Í ljós kom að hinn óboðni gestur var fyrrverandi sambýlismaður A, X, ákærði í máli þessu. Sagði A að ákærði hefði sýnt af sér ógnandi hegðun og væri hún hrædd við hann. Virtist lögreglumönnum hún skelkuð og sáu þeir marbletti og sár á hægri hendi hennar. Ákærði hafði hins vegar yfirgefið heimilið og fannst ekki.

A greindi lögreglumönnum frá því að hún og ákærði væru fyrrverandi hjón, en hefðu nú búið saman í um fjóra mánuði. Hefðu þau rifist lítillega fyrr um daginn og ákærði ekki komið heim með henni. Um kvöldið hefði hann komið í íbúðina og heimtað af henni kveikjara, en hún hafi ekki viljað láta hann fá hann. Ákærði hafi þá snúið upp á hönd hennar, tekið kveikjarann og farið. Hafi hann verið ölvaður og sagðist hún óttast hann í því ástandi. Hún kvaðst aum í hendinni og vildi kæra X, en afþakkaði aðstoð læknis.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 28. júní 2018 og sagðist þá ekkert kannast við lýsingar brotaþola á ofangreindu atviki. Í fyrstu neitaði hann því að hafa verið á heimili brotaþola umrætt sinn, en sagðist síðar muna eftir því að hafa tekið kveikjara af brotaþola, en neitaði því alfarið að hafa snúið upp á hönd hennar. Spurður um þá áverka sem lögreglan sá á brotaþola sagði hann að þeir hefðu komið þegar hún datt á skáp 18. maí 2018.

Í sömu yfirheyrslu var ákærði spurður um atvik á heimili brotaþola að kvöldi 27. júní 2018, en þá hafði lögreglu borist tilkynning um mögulegt heimilisofbeldi. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar af því atviki töldu sjúkraflutningamenn sem komnir voru á staðinn að brotaþoli væri handleggsbrotin. Hafi hún verið í miklu uppnámi, grátið og sagt að hún skildi ekki af hverju ákærði væri alltaf að koma heim til hennar, en ákærði hafi þá setið í sófa og virst rólegur. Tekið er fram í skýrslunni að sést hafi marblettir og sár á vinstri kinn brotaþola, auk þess sem hún var marin undir vinstri auga og vinstri hendi aflöguð. Var hún flutt til skoðunar á [...] og kom þar í ljós að hún var illa brotin á vinstri olnboga. Ákærði var hins vegar handtekinn og vistaður í fangaklefa. Neitaði hann því að hann og brotaþoli hefðu átt í einhverjum erjum, en sagði þau hafa verið að neyta áfengis. Brotaþoli hefði dottið á rassinn og hefði hann hjálpað henni að setjast upp. Við það hefði brotaþoli óvart ýtt á öryggishnapp sem hún bæri á handleggnum og því hefðu sjúkraflutningamenn og lögreglan komið á staðinn. Sagðist ákærði ekki hafa séð neina áverka á brotaþola eftir fall hennar.

 Brotaþoli var yfirheyrð af lögreglu 27. og 28. júní 2018. Í síðari yfirheyrslunni sagði hún að handleggsbrotið hefði ekki átt sér stað kvöldið áður, heldur væri það eldra brot, sem líklega hefði gerst fyrir einni til tveimur vikum. Hefði hún þá dottið á gólfið og hélt hún að ákærði hefði ýtt sér.

Samkvæmt læknabréfi læknis sem skoðaði brotaþola að kvöldi 27. júní 2018 kemur fram að brotaþoli hafi sagt að hún hafi fallið á vinstri handlegg fyrir tveimur vikum, en að ákærði hafi togað kröftuglega í handlegginn og hrint henni fyrr um kvöldið 27. júní 2018. Í læknabréfinu segir einnig að bæklunarskurðlæknir, sem framkvæmdi aðgerð á olnboga brotaþola 29. júní, telji að áverkinn sé sirka þriggja vikna gamall.

Framburður fyrir dómi

Fyrir dómi sagðist ákærði aldrei hafa lagt hendur á brotaþola og kannaðist ekki við neitt þeirra tilvika sem lýst er í ákæru. Sagði hann að þau brotaþoli hafi verið í sambandi á þeim tíma sem hér um ræðir og hafi þau nú flutt saman á ný. Sagðist hann aðstoða brotaþola við heimilishaldið og ýmsar daglegar athafnir, svo sem að klæða hana og baða, en brotaþoli sé með gigt og notist við göngugrind til að komast á milli staða. Í staðinn fái hann að gista á heimili hennar.

Spurður um atvik samkvæmt ákæru sagðist ákærði ekki muna eftir að hafa verið á heimili brotaþola 7. mars 2018. Hafi hann verið á veitingastaðnum [...] og þar spilað í spilakössum. Að því er varðar meint atvik í byrjun júní 2018 sagðist ákærði hafa vitað að brotaþoli væri með mar og sár á handleggnum, en taldi líklegt að hún hefði fengið þá áverka er hún datt í svefnherberginu. Hins vegar neitaði hann því að hafa tekið harkalega í vinstri hönd brotaþola eða hrint henni þannig að hún hafi hlotið brot á olnboga. Spurður um atvik 27. júní sagðist ákærði í umrætt sinn hafa verið að horfa sjónvarp á heimili brotaþola og hafi hann verið búinn að drekka þrjá bjóra. Brotaþoli hafi ætlað út á svalir, en dottið um svalaþrepið. Hann hafi aðstoðað hana á fætur, sett hana í stól og haldið áfram að horfa á sjónvarpið. Líklega hafa brotaþoli þá rekið sig í öryggishnapp sem hún beri og taldi það ástæðu þess að lögreglan og sjúkraflutningamenn komu á staðinn.

Ákærði sagðist ekki vita af hverju brotaþoli væri að bera á hann þær sakir sem í ákæru greinir, en allar væru þær uppspuni. Þá sagði hann að brotaþoli væri mjög oft undir áhrifum áfengis og tæki einnig mikið af sterkum lyfjum sem gætu valdið því að hún væri völt á fótum.

Brotaþoli kvaðst í fyrstu vilja skorast undan því að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008, en skipti um skoðun þegar ákærði hafði sjálfviljugur fallist á að víkja úr dómsal á meðan. Í fyrstu var hún spurð um samband hennar og ákærða og sagði hún að þau hefðu á sínum tíma verið hjón, en væru nú í sambúð. Hafi hún séð aumur á honum þegar hún vissi að hann var húsnæðislaus og leyfi honum því að búa hjá sér. Sagðist hún eiga erfitt með að muna einstök atvik eða greina þau í sundur, en tók fram að í öll skiptin hafi komið til átaka milli þeirra og hafi það oftast gerst við drykkju og eftir rifrildi þeirra. Hafi hún oft þurft að kalla á lögregluna þegar ákærði hafi ekki sjálfviljugur viljað fara út af heimilinu. Kannaðist hún við að hafa kallað á lögregluna 7. mars 2018 og sagði að þá hefði ákærði tekið í höndina á henni og snúið upp á hana. Ekki mundi hún tilefni rifrildis þeirra í það skiptið.

Þessu næst var brotaþoli spurð út í atvik samkvæmt 2. ákærulið. Sagði hún að ákærði hefði þá komið aftan að sér og hrint henni þannig að hún féll á sófaborð og brotnaði á olnboga. Vinur ákærða hefði þá einnig verið í íbúðinni og séð atvikið. Sérstaklega aðspurð kvaðst brotaþoli þess fullviss að ákærði hefði ýtt henni í umrætt sinn. Við það hefði hún dottið um göngugrindina og síðan fallið á sófaborðið. Ekki kvaðst hún vita hvort það hafi verið ætlun ákærða að slasa hana. Þegar brotaþola var bent á að hún hefði ekki hringt á lögreglu í það sinn, sagðist hún hafa gert það og hefði sjúkrabíll þá einnig komið á staðinn. Við skoðun hafi komið í ljós að hún var illa brotin og hafi þurft að gangast undir aðgerð.

Fram kom einnig í máli brotaþola að ákærði hefði ítrekað beitt hana ofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu, og sagðist hún oft óttast um líf sitt, sérstaklega þegar þau sætu að drykkju. Hefði hún þá oft hlotið ýmsa áverka, sem hún taldi af hans völdum.

Vitnið B, vinur ákærða, sagðist ekki hafa orðið vitni að átökum milli ákærða og brotaþola og kvaðst ekki kannast við nein átök þeirra í milli í byrjun júní 2018. Vitnið sagðist bæði þekkja ákærða og brotaþola og færu þau stundum saman á veitingastaðinn [...]. Sérstaklega spurður hvort þeir ákærði væru drykkjufélagar sagði vitnið að hann fengi stundum bjór hjá ákærða á heimili brotaþola.

Fyrir dómi gáfu einnig skýrslu lögreglumennirnir C, D og E, og staðfestu þau skýrslur sínar sem ritaðar voru í kjölfar þeirra atvika sem lýst er í ákæru. Enn fremur komu fyrir dóminn til skýrslugjafar félagsráðgjafarnir F og G. Loks gaf skýrslu í gegnum síma vitnið H læknir, og staðfesti hann vottorð sem liggur fyrir í málinu.

Niðurstaða

Fram er komið að ákærði neitar sök samkvæmt öllum ákæruliðum og kvaðst fyrir dómi ekki kannast við neitt þeirra atvika sem þar greinir.

Samkvæmt 1. tölulið ákærunnar  er ákærði sakaður um líkamsárás gegn brotaþola 7. mars 2018 með því að hafa tekið í hönd hennar og snúið upp á hana með þeim afleiðingum að hún hlaut mörg sár á hægri handlegg.

Fyrir dómi sagðist brotaþoli muna eftir þessu atviki, þótt hún myndi ekki tilefnið, og bætti því við að hún ætti erfitt með að muna einstök atvik eða greina á milli þeirra. Í lögregluskýrslu er hins vegar haft eftir henni að tilefnið hafi verið að ákærði hafi heimtað af henni kveikjara, en þegar hún vildi ekki láta hann af hendi hafi hann snúið upp á hönd hennar. Ákærði hafði yfirgefið íbúðina þegar lögreglan kom og tók brotaþoli fram að hann hafi verið mjög ölvaður. Sagðist hún finna mjög til í hendinni, en kvaðst ekki vilja leita læknis. Fram kemur í lögregluskýrslunni að sjá hafi mátt marbletti og sár á hægri hendi brotaþola og ljósmyndaði lögreglan áverkana. Af ljósmyndunum að dæma virðast áverkar þessir hins vegar ekki vera ferskir, að undanskildu minniháttar sári ofan við miðjan framhandlegg. Þar sem brotaþoli leitaði ekki læknis í kjölfar þessa atviks, og ákærði var ekki yfirheyrður vegna þess fyrr en 28. júní 2018, þykir slíkur vafi leika á um sekt ákærða samkvæmt þessum ákærulið að óhjákvæmilegt er að sýkna hann af þeirri háttsemi sem hann er þar sakaður um.

Samkvæmt 2. og 3. tölulið ákærunnar er ákærði einnig sakaður um líkamsárás gagnvart brotaþola, annars vegar með því að hafa í byrjun júní 2018 tekið í vinstri hönd hennar og hrint henni harkalega á gólfið með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á vinstri olnboga, en hins vegar með því að hafa 27. júní sama ár tekið í hönd hennar og tuskað hana til með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgur á augabrúnum og mar í andliti.

Í frumskýrslu lögreglu vegna þess atviks sem lýst er í 3. ákærulið kemur fram að lögreglunni hafi verið tilkynnt um mögulegt heimilisofbeldi að kvöldi 27. júní 2018 á heimili brotaþola að [...]. Þegar þangað kom sat brotaþoli á gólfinu og voru sjúkraflutningamenn að hlúa að henni. Töldu þeir hana handleggsbrotna, auk þess sem sjá mátti marbletti og sár á vinstri kinn og mar undir vinstra auga. Ákærði sat í sófa og virtist rólegur, en var handtekinn og færður í fangageymslu. Brotaþoli var hins vegar flutt með sjúkraflutningabifreið á Heilbrigðisstofnun [...] til aðhlynningar. Kom þar í ljós að hún var illa brotin á vinstri olnboga.

Við komu á sjúkrahúsið tók lögreglan skýrslu af brotaþola. Sagði hún að þau ákærði hefðu setið saman í sófa og verið að horfa á sjónvarpið þegar ákærði hefði snögglega reiðst og tekið í höndina á henni og tuskað hana til. Sagðist hún halda að í þessum átökum hafi hún endað í gólfinu, en sennilega hefði ákærði hent henni í gólfið, þótt hún gerði sér ekki alveg grein fyrir atburðarásinni. Tekið er fram í skýrslunni að greina hafi mátt áfengisþef af brotaþola, en þó hafi hún ekki verið áberandi ölvuð og vel viðræðuhæf. Sagðist hún hafa verið að drekka um daginn og kvöldið. Þá segir þar einnig að brotaþoli hafi tjáð lögreglunni að hún væri hrædd við ákærða og að hann drykki mikið, hann væri í raun alltaf drukkinn. Kvaðst hún ítrekað hafa reynt að losna við hann úr íbúðinni, en tæki þó alltaf við honum aftur, án þess geta útskýrt hvers vegna.

Daginn eftir, 28. júní 2018, var aftur tekin skýrsla af brotaþola. Tók hún þá strax fram að olnbogabrotið hefði ekki átt sér stað kvöldið áður, heldur væri lengra síðan. Í fyrstu taldi hún að það væri örugglega vika síðan hún brotnaði, en þá hefði hún verið ein heima og verið að koma inn af svölunum og hrasað um svalaþröskuldinn með þeim afleiðingum að hún datt á sófaborð. Síðar í yfirheyrslunni sagði hún aftur að lengra væri um liðið frá því að hún brotnaði, og ræddi þá um þrjú brot sem hún gæti ekki greint í sundur, þetta væri allt svo ruglingslegt í minni hennar. Hélt hún að olnbogabrotið hefði komið þegar hún var heima sér, ásamt ákærða og vini hans, og hafi þau verið að drekka. Allt í einu hefði hún henst til á gólfið og á eitthvað þannig að hún brotnaði og fékk bólgur á augabrúnina og mar í andlitið. Hefði höndin þá orðið kúpt og svört, en bólgan hjaðnað smám saman. Kvaðst hún halda að ákærði hafi ýtt sér, en bæði hann og vinur hans hafi verið orðnir mjög drukknir. Sagðist hún ekki hafa getað notað handlegginn eftir þetta atvik. Sérstaklega spurð um atvik kvöldið áður sagði brotaþoli að ákærði hefði þá snúið upp á vinstri handlegg sinn. Þau hafi eitthvað verið að þrasa og þjarka, hann væri alltaf svo illur við hana og ætti það til að slá í hana og slá hana niður. Ekki sagðist hún þó minnast þess að slíkt hefði gerst í gær. Hins vegar sagðist hún þá óvart hafa ýtt á öryggishnappinn og hafi þeir hjá Securitas haft samband við hana og spurt hvort allt væri í lagi hjá henni. Hafi hún sagt að hún fyndi til í hendinni og því hafi sjúkrabifreið verið send að heimili hennar.

Eins og áður er rakið sagði brotaþoli fyrir dómi, þegar hún var spurð út í atvik að baki 2. ákærulið, að ákærði hefði þá komið aftan að henni og hrint eða ýtt henni þannig að hún datt um göngugrindina og féll á sófaborð og brotnaði á olnboganum. Þegar henni var bent á að hún hefði ekki hringt í lögreglu í það sinn, sagðist hún hafa gert það og hefði sjúkrabíll einnig komið á staðinn og flutt hana á sjúkrahús. Frásögn hennar samrýmist þó ekki gögnum málsins, en eins og fram er komið komu sjúkraflutningamenn og lögregla á staðinn 27. júní 2018, og kom þá fyrst í ljós að brotaþoli var illa brotin á olnboga.

Í læknabréfi H læknis, en hann skoðaði brotaþola við komu á Heilbrigðisstofnun [...] 27. júní 2018, segir m.a. eftirfarandi: „A var við heimili sitt 27.06.18 og segir að sambýlismaður sinn hafi gengið í skrokk á sér. Hún virðist sjálf undir áhrifum og erfitt er að fá skýra sögu af atburðum. Hún segist fyrst hafa fallið á vinstri handlegg 2 vikum fyrir komu á bráðamóttöku en aðspurð hvort eitthvað hafi skeð það kvöld játar hún að sambýlismaður hafi togað kröftuglega í vinstri handlegginn á sér og hrynnt (sic) henni svo í gólfið. Við skoðun getur hún ekki rétt úr handlegg meira en sirka 120 gráður. Það er þreyfanleg (sic) aflögun við olecranon process (olnboga) og sterkur grunur um brot. Röntgen sýnir illa tilfært brot á olecranon process (olnboga) og annað skábrot meira distalt (framar) á ulnu (framhandleggsbeini).“ Fram kemur einnig í læknabréfinu að bæklunarlæknir sem framkvæmdi aðgerð á brotaþola hafi talið áverkann sirka þriggja vikna gamlan.

Af framburði brotaþola og gögnum málsins þykir ljóst að brotaþoli hefur um langt skeið búið við mikið ofbeldi af hálfu ákærða. Þá bera gögn málsins með sér að bæði eru þau dagdrykkjufólk og hefur brotaþoli ítrekað kallað til lögreglu til að fjarlægja ákærða af heimili hennar, en kveðst þó ætíð taka við honum aftur, án þess að geta útskýrt ástæðu þess. Þrátt fyrir þetta og um margt ótrúverðugar skýringar ákærða á áverkum brotaþola er ekki unnt að líta fram hjá því að atvik að baki þeirri háttsemi sem ákærði er sakaður um samkvæmt 2. og 3. lið ákærunnar eru mjög óljós, auk þess sem verknaðarlýsingin samrýmist hvorki að öllu leyti framburði brotaþola né gögnum málsins. Þannig hefur frásögn brotaþola af áverkum hennar og hvenær hún hlaut þá ekki verið á einn veg, en í fyrstu kvaðst hún hafa dottið um svalaþröskuldinn og á sófaborð, en síðan sagðist hún halda að ákærði hefði ýtt sér og hún henst í gólfið og á eitthvað sem hefði valdið því að hún brotnaði. Fyrir dómi kvaðst hún hins vegar þess fullviss að ákærði hefði hrint eða ýtt henni þannig að hún féll á sófaborðið. Vitnið B, vinur ákærða, kvaðst á hinn bóginn ekkert kannast við þetta atvik, en brotaþoli bar að hann hefði verið viðstaddur er ákærði hrinti henni. Þá samrýmist verknaðarlýsing 2. ákæruliðar ekki frásögn brotaþola af atvikum, en þar er ákærði sakaður um að hafa „tekið í vinstri hendi“ brotaþola og hrint henni harkalega í gólfið í byrjun júní 2018, með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á vinstri olnboga. Ekki verður heldur séð að verknaðarlýsing samkvæmt 3. ákærulið eigi við rök að styðjast, en eins og fram er komið sagði brotaþoli hjá lögreglu að hún hefði ekki hlotið bólgur á augabrún og mar í andliti 27. júní 2018, heldur hefði það gerst þegar hún hentist í gólfið og á sófaborðið í byrjun þess mánaðar. 

Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála má hvorki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Í 108. gr. sömu laga segir jafnframt að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja megi honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu. Í ljósi alls ofanritaðs og með hliðsjón af 109. gr. áðurnefndra laga er það mat dómsins að ákæruvaldið hafi ekki axlað sönnunarbyrði um sekt ákærða samkvæmt 2. og 3. ákærulið. Fyrir vikið verður ákærði sýknaður af öllum sakargiftum í máli þessu og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Í samræmi við úrslit málsins og með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 greiðist allur sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 337.280 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Úlfars Guðmundssonar lögmanns, 421.600 krónur. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 337.280 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Úlfars Guðmundssonar lögmanns, 421.600 krónur.

 

                                                                Ingimundur Einarsson